11.12.08

- Þrettán dagar til jóla -

Ég var "tekin úr umferð" í seinni partinn í síðustu viku. Kvefið náði slíkum heljartökum á mér að ég svaf í næstum tvo daga. Þótt maður hafi farið á ról upp úr helginni hefur orkan ekki verið nema rétt til að fara í og úr vinnu og sinna hinum allra nauðsynlegustu heimilisstörfum. Ég komst þó á kóræfingu í gærkvöldi og var bara nokkuð sátt við sönghljóðin sem ég gaf frá mér - talröddin er ekki alveg komin ennþá. Ég er semsagt ekki byrjuð að skrifa jólakortin og það endar líklega líka með því að það verði bara skrifað á kort en ekki sendar neinar myndir með að þessu sinni. En það verður þá bara að vera svo. Ég bara nenni ekki að vera að stressa mig of mikið útaf þessu, það er nóg samt.

N.k. sunnudagskvöld verður haldið aðventukvöld í kirkjunni minni. Við fáum kirkjukór Fríkirkjunnar í Reykjavík í heimsókn sem syngur bæði fyrir okkur og með okkur og ræðumaður kvöldsins verður "Siggi Stormur"! Á eftir verður boðið upp á svartbaunaseiði og smákökusmakk skilst mér. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er fríkeypis.

1.12.08

- Það er kominn desember -

Helgin leið með ógnarhraða. Skrapp til esperanto vinkonu minnar um ellefu á laugardagsmorguninn. Frá henni trítlaði ég yfir í Þórshamar og fylgdist með karatestráknum á karateæfingu. Hinn helmingurinn af fjölskyldunni var í kirkjunni, maðurinn að afhenda miða á tónleika og söngfuglinn á lokaæfingunni fyrir tónleikatörnina. Þeir biðu fyrir utan þegar við mæðginin komum út úr karateheimilinu. Söngfuglinn var á leið í bekkjarafmæli eins bekkjarbróður síns. Það byrjaði í fimleikaheimilinu Björk í Hafnarfirði en svo voru afmælisgestir ferjaðir heim til afmælisbarnsins þar sem veislan hélt áfram.

Í gærmorgun dreif ég mig í sunnudagaskólann í Grafarvogskirkju. Hulda frænka og Kristín Una bróðurdóttir mágs míns, sýndu helgileik um fæðingu Jesú og sungu með kórunum sínum. Þetta var svo flott hjá stelpunum að ég táraðist. Kom við í búð á heimleiðinni. Ég ákvað svo að vera heima um kvöldið og reyna að fara vel með mig í von um að ég slyppi að mestu við þessa óþverra hálsbólgu og kvefpest sem er að ganga. Aftur á móti fóru allir feðgarnir á tónleikana, einn til að syngja, annar til að afhenda miða og einn til að hjálpa til við að útbýtta efnisskrám. Kirkjan var næstum full og mér skilst að drengjakórinn hafi staðið sig með sóma, eins og þeirra er von og vísa. Næstu tónleikar eru klukkan átta á miðvikudagskvöldið. Ég kemst ekki heldur þá, því ég verð á kóræfingu að æfa fyrir aðventukvöldið í óháðu kirkjunni. En ég fer pottþétt á síðustu tónleikana, klukkan fimm þann 7. des. n.k.

Klæddi mig últra vel áður en ég arkaði í vinnuna á áttunda tímanum í morgun. Um hádegi skrapp ég í bankann og lagði inn tónleika- og kerta- og diskasölu peninga á reikninga kórsins. Klukkan var að verða fimm þegar ég var laus úr vinnu. Það var ekki eins kalt á göngunni og í morgun. Þegar ég svo skráði göngu dagsins á vef Lífshlaupsins poppaði upp rammi með hamingjuóskum og tilkynningu um að ég væri búin að vinna til gullverðlauna.