31.7.14

Síðasti dagurinn í júlí

Hjólið var aftur notað í ferðir milli heimilis og vinnu í gær.  Fram að hádegi vann ég á framleiðsluvélinni ýmist við móttöku og skoðun korta eða við að "moka í".  Eftir hádegi hjálpaði ég til við að telja alla kassa sem framleitt hafði verið úr og síðan skannaði ég inn nýjar myndir.  Var langt komin með bunkann þegar hringt var úr einu útibúi úti á landi.  Án þess að fara mikið nánar út í það samtal þá var ég beðin um að skanna inn spjald með hraði ef það kæmist í hús fyrir klukkan hálffjögur.  Lauk við fyrirliggjandi bunka upp úr þrjú og þá fórum við allar í kaffipásu.  Kennispjaldið sem minnst var á rétt áðan skilaði sér í hús rétt fyrir hálffjögur svo mynd og undirskrift komust í kerfið.  Yfirmaður minn þurfti að fara aðeins fyrr en rétt áður komu kerfisfræðingur og sérfræðingur frá Borgun til að gera smá test.  Ég dokaði aðeins við, sem var eins gott því þörf var á minni aðstoð við nokkur atriði.  Ég komst þó í burt áður en þeir voru búnir en þá var klukkan alveg að verða fimm.  Fljótlega eftir að ég kom heim aðstoðaði ég Davíð Stein við að útbúa Lasanja í kvöldmatinn og eftir mat fékk ég Odd Smára til að ganga frá.

30.7.14

Blíðviðri

Það tók mig fimmtán mínútur frá því ég lokaði íbúðinni á eftir mér og þar til ég var búin að hengja hjálminn á hjólið og læsa því við hjólagrind í bílastæðakjallara seðlabankans.  Ég leit á klukkuna í gemsanum rétt áður en ég lagði í hann og hún sýndi 7:28.  Þetta var nú heldur snemmt en ég var komin í skó og úlpu og búin að setja á mig hjálminn.  Aflæsti hjólinu og teymdi það út á götu.  Hjólaði svo í átt að miðbænun, Drápuhlíð, Reykjahlíð, Miklabraut, Gamla Hringbraut, Barónstíg, Skálholtsstíg að og eftir Grundarstíg og krossaði svo yfir Spítalastíg yfir á Ingólfsstræti sem ég hjólaði svo endilagt alveg að neðra planinu við seðlabankann.  Í vinnuni sá ég að mestu um bókhaldið fyrri partinn.  Var aðeins í afleysingjum á vél í kringum morgunkaffið og eftir hádegi í kortatalningu ásamt annarri.  Stimplaði mig út rétt fyrir fjögur og hjólaði beint heim.  Um fimm, þegar mesti roðinn var farinn úr kinnum, setti ég mig í samband við systur ASEA-mannsins.  Við mæltum okkur mót í neðra Breiðholti og þangað var ég mætt rétt fyrir hálfsex.  Þegar ég var búin að fá sendinguna í hendurnar hringdi ég í Böddu mína úr því ég var stödd í nágrenninu.  Þessi 92 ára mágkona móðurömmu minnar var heimavið og tók á móti mér og góðu knúsi.. Stoppaði ekki nema uþb klukkustund.  Strákarnir höfðu farið með pabba sínum um fimm svo ég slapp við eldamennsku og fékk mér bara smá snarl er ég kom heim.

29.7.14

Tvíburahálfsysturheimsókn

Slökkti á útvarpsvekjaranum næstum tuttugu mínútum áður en hann átti að hringja.  Dreif mig í sturtu, bar á mig gel er ég hafði þurrkað mig og skreið svo aftur upp í rúm á meðan það þornaði.  Kúrði svo þar til vekjarinn í gemsanum fór í gang um sjö.  Snúsaði einu sinni en dreif mig svo á fætur tíu mínútum síðar og tók rúmfötin af dýnu, sæng og koddum áður en ég bjó um.  Þurfti að sinna nokkrum erindum strax eftir vinnu svo ég fór á lánsbílnum í vinnuna.  Vann á framleiðsluvélinni til hálfþrjú fyrir utan morgunkaffi- og hádegispásu og síðasta klukkutímann skannaði ég inn nýjar myndir.

Strax eftir vinnu fór í Krónuna við Granda til að versla inn fyrir vikuna.  Næst lá leiðin í "Sundfisk" fiskbúðina við Sundlaugarveg þar sem ég keypti bæði ýsu og bleikju og reyndar smávegis fleira.  Asea-maðurinn svaraði ekki gemsanum svo hann er líklega á sjónum svo ég fór heim með vörurnar.  Hitti nýju nágrannana í kjallaranum, eigandann og vin hans sem ætlar að leigja hjá honum.  Þeir eru að mála og gera allt klárt og flytja líklega inn um mánaðamótin.  Bað Odd Smára um að koma út með einn poka því það hafði slitnað haldið af einum Krónupokanum.  Strákurinn sá svo um að ganga frá vörunum eins og vanalega.  Kveikti á tölvunni og athugað hvort ég kæmist í samband við asea-manninn í gegnum FB.  Það gekk upp næstum strax og sendi hann mér nafn og símanúmer hjá systur sinni sem afgreiðir fyrir hann á meðan hann er á sjónum.  Þegar ég náði sambandi við hana sagðist hún aðeins þurfa að athuga málin og myndi svo hringja aftur í mig.  Endirinn verður samt líklega sá að ég hringi aftur í hana eftir vinnu í dag.  Ég veit að frísendingin mín er komin og mánaðarlega sendingin á líka að vera búin að skila sér það sem 24. dagur mánaðarins er liðinn.

Hafði soðna ýsu í matinn.  Strákarnir borðuðu smá af henni en voru eiginlega búnir að ákveða að panta pizzu með tveimur vinum sínum.  Um hálfátta hringdi ég í tvíburahálfsystur mína til að athuga hvort hún væri heima. Svarið var jákvætt svo ég dreif mig í heimsókn og fékk grænt á öll umferðaljós á leiðinni.  Tíminn leið afar hratt var með saumana mína með og sýndi henni einnig tvö saumaverkefni sem mamma hafði keypt á útsölu hjá "Ömmu mús" um daginn og gefið mér.  Klukkan var að slá hálftólf er ég skilaði mér heim aftur.

28.7.14

Ný vinnuvika hafin

Rumskaði fyrst um átta í gærmorgun og bar á mig gel.  Lá á bakinu í rúminu, ekki undir sæng, á meðan ég var að þorna.  Dormaði.  Þegar ég varð vör við að óhætt væri að breiða yfir sig aftur var ég ekki sein á mér að snúa mér á aðra hliðina og sofa áfram.  Komst á fætur um tíu, þá búin að sofa í ca átta tíma.  Dagurinn var annars tekinn afar rólega.  Nennti hvorki að lesa né sauma en settist aðeins út á pall með pabba og vafraði alveg helling um á netinu.  Eftir kvöldmat fylgdist ég með uppfærslum af "íslenska boltanum í beinni" og þá aðallega með leik Keflavíkur og Vals sem endaði 1-2 fyrir Val.  Þegar úrslitin voru ljós kvaddi ég foreldra mína og frænku og dreif mig heim á leið.  Þangað kom ég um hálfellefu.  Aðeins annar tvíburinn var heima en hinn var í bíó með pabba sínum.  Ég spurði þann sem var heima hvers vegna hann væri ekki í bíó líka og þá kom upp úr dúrnum að það var alfarið hans ákvörðun.  Bróðir hans var eitthvað að pirra hann og þá ákvað hann að halda sér frekar til hlés.

27.7.14

Í Foreldrahúsum

Stakk gemsanum í hleðslu rétt fyrir tíu í gærmorgun.  Um það leiti var annað partýljónið að koma á fætur, sá sem kom fyrr heim eða um hálfþrjú.  Hitt partýljónið vaknaði um hálftólf, alltof snemma að eigin sögn, en hann kom ekki heim fyrr en um hálfsex.  Stuttu eftir þetta tók ég mig saman, kvaddi strákana og lagði í hann austur á Hellu.  Ég var komin langleiðina þegar ég uppgötvaði að gemsinn var víst enn í hleðslu og áminningin um að taka með skál, sem ég fékk með heim fulla af kartöflusallati um daginn, var örugglega að "tikka" í gemsanum.  Þannig að það fyrsta sem ég gerði eftir að ég kom í Hólavanginn og var búin að heilsa foreldrum mínum og systurdóttur var að fá að hringja heim og fá annan tvíburann til að taka gemsann úr hleðslu og slökkva á áminningunni.

Ég er annars búin að lesa skammtímalánsbókina, Of mörg orð eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur.  Bókin er byggð á bloggskrifum höfundar á árunum 2003-2008.  Smellin og skemmtileg bók og ég skellti nokkrum sinnum upp úr við lesturinn.

Rétt fyrir fjögur í gær skruppum við pabbi á mömmubíl (lánsbílnum - ég keyrði) út í búð.  Það kom í ljós að ekki var búið að loka vínbúðinni svo við byrjuðum á því að fara þangað inn.  Pabbi keypti sér bjórkippu en ég litla flösku af hvítvíni (eitt og hálft glas eða svo).  Eftir að hafa lokið erindum í búðinni færði ég bílinn að bensínstöðinni þar sem loftið er.  Þar setti pabbi loft í öll bíldekkin og það er víst minnsta málið því það er hægt að stilla það fyrir fram hversu mikill þrýstingur á að vera á dekkjunum.

Eftir kvöldmat í gærkvöldi skruppum við Bríet í smá göngutúr.  Ég á tveimur jafnfljótum og hún á hlaupahjóli. Fékk mér kaffibolla erum við komum heim. En svo opnaði ég hvítvínið mitt, J. P. Chenet.  Sem betur fer var þetta bara lítil flaska því vínið var of sætt fyrir minn smekk.  En ég kláraði úr flöskunni og var svo heppinn að fá að opna flösku frá mömmu af miklu betra hvítvíni hússins síðan 24.04.2013.

26.7.14

Fimm virkum vinnudögum lokið í bili

Það hellirigndi um það leiti sem ég var að leggja af stað til vinnu í gærmorgun.  Hætti snarlega við að fara á hjólinu enda mundi ég eftir því að ég var með nokkra fatapoka, í skottinu á lánsbílnum, sem ég ætlaði að fara með í Rauða Kross gám í Sorpu.  Seinni hlutann af hádegispásunni var ég ein frammi og notaði þá tækifærið til að skoða einkapóstinn.  Þar kom fram að skilafrestur á síðustu tveimur bókasafnsbókunum í fórum mínum var að renna út.  Gat ekki framlengt skilafrestinum þar sem bókasafnskortið var útrunnið.  Vinnudagurinn leið annars afar hratt og ég þurfti aðeins að "bíða" eftir klukkunni síðasta hálftímann því þá var öllum verkefnum lokið.  Strax eftir vinnu fór ég í Sorpu með dótið úr skottinu.  Næst stoppaði ég við hraðbanka til að taka út smá skotsilfur til að eiga í veskinu mínu og svo lá leiðin á Kringlusafnið.  Konan sem afgreiddi mig bauðst til þess að framlengja fyrir mig skilafrestinum ef ég vildi bíða með að endurnýja bókasafnskortið.  Ég þáði framlenginguna en bað líka um endurnýjun og að greiða aukalega fyrir einn stóran bókasafnspoka.  Það fór líka eins og mig grunaði; ég fann sex bækur sem mig langaði til að lesa þegar ég tók "einn hring" um safnið. Ein bókin er með tveggja vikna útlán.  Var með hakk og spakk í kvöldmatinn og svo komu nokkrir vinir til strákanna áður en þeir fóru allir saman í partý.  Ég vafraði um á netinu, horfði á Spy Game á DR1 og byrjaði að lesa bókina með stysta útlánstímann þegar ég skreið svo upp í löngu eftir miðnætti.

25.7.14

Síðasti föstudagurinn í mánuðinum

Vinnudagurinn í gær leið afar hratt.  Allri framleiðslu var lokið um tólf, talningum lauk um tvö og svo fór afgangurinn af tímanum í að skanna inn ný útlit á nokkrum kortategundum.  Strax eftir vinnu skrapp ég í heimsókn á Sólvallagötuna til norsku esperanto vinkonu minnar.  Við vorum þó ekki að glugga neitt í tilbúna tungumálið.  Stoppaði í rúma klukkustund.  Er ég kom heim var mitt fyrsta verk að kveikja á tölvunni. Matarmálin voru frekar einföld því það var til svo mikill afgangur af laxi og soðnum kartöflum að það eina sem ég þurfti að gera var að skipta þessu upp á diska og setja í örbylgjuofn.  En ég bræddi líka smá smjörklípu og setti úr lítilli dós af gulum baunum saman við.  Og svo var meira að segja afgangur til að hafa með mér í vinnuna í dag.

24.7.14

Færsla númer 1701 frá upphafi bloggs

Fór á lánsbílnum i vinnuna í gærmorgun.  Við vorum þrjár mættar fyrsta klukkutímann en nú er sumarsaðstoðarstúlkan komín í sumarfrí.  Ég sá um bókhald og afleysingar á móttöku korta á framleiðsluvélinni.  Upp úr níu mætti aukamaðurinn og hann var með okkur til klukkan að verða tvö. Rétt fyrir hádegi kom hraðsending til okkar, aðeins 1000stk kort, af kortategund sem okkur vantaði til að ljúka endurnýjun.  Það kom maður úr turninum til að aðtoða við opnun sendingarinnar og votta fyrir rétta fjölda.  Meiri hlutinn af plastinu var svo strax notaður til að klára endurnýjun.  Náðum að pakka endurnýjuninni, skanna kennispjöld, telja og ganga frá áður en klukkan varð fjögur.  Fór beint heim eftir vinnu.  Helga systir hringdi í mig rétt áður en ég kom heim, til að óska mér til hamingju með strákana. Þegar hún heyrði af því að við ætluðum að borða á Saffran sagðist hún ætla að athuga hvort þau Ingvi og jafnvel Hulda myndu ekki hitta okkur þar.  Þrír vinir úr árgangi ´96 í Hlíðaskóla voru hjá strákunum og höfðu meira að segja fært þeim afmælisgjöf.  Um sex hittum við mæðginin Helgu og Ingva í Saffran í Glæsibæ.  Hulda var í "vinkonustandi" og Bríet er enn á Hellu.  Þetta var hin skemmtilegasta stund.  Kvöddum þau svo upp úr klukkan sjö því strákarnir áttu von á spilafélögum í "session".  Reyndar mættu bara tveir en annar þeirra færði afmælisbörnunum köku sem strákarnir fjórir skiptu á milli sín.  Ég var komin í háttinn rétt fyrir ellefu og aldrei þess vant leit ég ekki í bók.

23.7.14

Tvíburarnir átján ára í dag

Fór aftur á hjóli í vinnuna í gærmorgun.  Nýji lásinn virkaði og læsti ég hjólið við hjólagrindarstæði niðri í bílastæðahúsi í Seðlabankakjallaranum.  Það var alveg jafnmikið að gera í vinnunni en ég komst þó í morgunkaffi, mat og svo tíu mínútna síðdegiskaffi.  Hjólaði "beint" heim opnaði lásinn sem ég hafði læst utan um stýrið á meðan ég hjólaði á milli en svo gat ég engan veginn læst lásnum aftur.  Nágranninn kom að mér og leit á lásinn en hann gat ekki hjálpað mér, dæmdi hann bara ónýtan.  Í millitíðinni hafði exið komið við til að hitta Davíð Stein að máli.  Hann kastaði á mig kveðju er hann gekk framhjá mér þar sem ég var að bisa við lásinn ég "hæaði" á móti en hann heyrði það víst ekki því hann heilsaði aftur nokkru hærra.  Ég fattaði því miður ekki að spyrja hann hvort hann væri orðinn svo gamall að hann væri að missa heyrn.  En þegar útséð var um að hægt væri að nota nýkeyptan lásinn neitt meira fékk ég Odd Smára til að koma út og vakta hjólið á meðan ég skrapp í GÁP og keypti nýjan lás, svipaðan þeim sem ég var með áður.  Er við mæðginin komum svo inn rétt upp úr fimm bauð Davíð Steinn okkur upp á ananas- banana- og jarðaberjabúst í eplasafa og heitt brauð með barbeque sósu og osti.  Hann fékk svo hjólið lánað upp úr sex til að hitta vini.  Oddur fór eftir kvöldmat, lax í ofni, sem ég var ekki fyrr en upp úr átta.

22.7.14

Smá hjólalásavandræði

Það var alveg kjörið að nota hjólið milli heimilis og vinnu í gær.  Lásinn var svolítið stífur þegar ég opnaði hann upp úr klukkan hálfátta í gærmorgun en ég var samt ekki lengi að bisa við hann.  Verra var það aftur á móti þegar ég ætlaði að opna hann aftur til að læsa hjólið við eitt stæðið í hjólagrind í Seðlabankakjallaranum.  Það vildi ekki betur til en lykill brotnaði.  Líklega var það eins gott að svona fór áður en ég hafði náð að læsa hjólinu.  Ég ákvað að treysta því að hjólið fengi að vera í friði þarna á meðan ég væri í vinnunni.  Vinnudagurinn var annasamur og við vorum ekki búnar fyrr en klukkan var korter yfir fjögur.  Þá hjólaði ég beint upp á Hverfisgötu á stað þar sem hægt er að fá leigð hjól og einnig gert við hjól og spurði hvort hægt væri að klippa lásinn af og hvort þeir væru með hjólalása til sölu.  Það var hægt og borgaði ég 2600 kr. fyrir nýjan frekar stuttan lás og hjálpina við að klippa gamla lásinn af hjólinu.  Áður en ég fékk lásinn smelltan á stýrið og afhenta tvo lykla af honum spreyjaði maðurinn með lásaspreyi í lásinn.  Ég hjólaði Hverfisgötuna, Rauðarárstíginn, Klamratúnið og Lönguhlíðina heim og var svo ekki í neinum vandræðum með að læsa hjólinu við grindverkið þrátt fyrir að lásinn væri miklu styttri en sá sem ég var með áður.

21.7.14

Aftur á völlinn

Það var engin vekjaraklukka í gangi í gærmorgun enda sunnudagsmorgun.  Samt var ég ekki eins löt á fætur og á laugardaginn.  Um hádegisbil hellti ég fyrst á könnuna en þá var ég búin að vera á fótum hátt í þrjár klukkustundir.  Davíð Steinn lauk við fráganginn í eldhúsinu frá því kvöldið áður en svo fóru þeir bræður til pabba síns þar sem þeir voru fram á kvöld.  Ég var svo mætt á Valsvöllinn rétt fyrir fjögur að fylgjast með Valsstelpunum taka á móti Þór/KA í pepsídeild kvenna.  Gestirnir voru meira með boltann.  Í kringum tuttugustu mínútu taldi dómarinn að markvörður Vals hefði handleikið boltann ólöglega og dæmdi aukaspyrnu.  Í aukaspyrnunni hrasar ein norðanstúlkan á aðra markstöngina og dómarinn vildi meina að Valsstúlka hefði farið í hana með olnbogann.  Hann rak þá "brotlegu" útaf og dæmdi vítaspyrnu.  Markmaður Vals varði þessa spyrnu og það fór svo að ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik.  Þrátt fyrir að norðanstelpur væru meira með boltan skorðuðu "mínar stelpur" á undan.  Gestirnir náðu svo jöfnunarmarki áður en uppbótatíminn var liðinn svo leikurinn fór 1-1 og hvort lið fékk eitt stig.

20.7.14

Letihelgi

Ég var alveg ótrúlega lengi að koma mér á fætur í gærmorgun.  Fór reyndar fyrst framúr um hálfátta en skreið upp í aftur innan við korteri seinna.  Þegar gelið var þornað kúrði ég mig undir sæng og var þar næstu klukkutímana.  Komst þó framúr á endanum en ég man ekki hvorum megin við tólf á hádegi það var.  Oddur Smári kom með mér í verslunarleiðangur upp úr tvö.  Er við vorum á leiðinni heim aftur hringdi ég í Davíð Stein og bað hann um að hella upp á kaffi, þannig að fljótlega eftir að ég kom heim úr búðinni fékk ég fyrsta kaffibolla gærdagsins.  Náði að drekka tvo bolla áður en ég trítlaði svo út á Hlíðarenda þar sem ég sá mína menn tapa 1-4 fyrir KR  :-(.  Spilið var alveg ágætt á köflum en það vantaði smá upp á endahnútinn og inn á milli var varnarleikurinn heldur slakur.  Kom heim aftur um sex og hafði steikt slátur og soðnar kartöflur í matinn.

19.7.14

Tvöhundraðasti dagur ársins

Það var fínt að komast í helgarfrí eftir klukkan fjögur í gær.  Ég vann á framleiðsluvélinni megnið af deginum og það gekk alveg þokkalega.  Dagurinn var líka enn fljótari að líða.  Samt var ég farin að bíða eftir klukkunni um hálffjögur.  Annars var dagurinn tíðindalaus.  Ég var með kvöldmatinn aðeins seinna en oft áður, hakk, pasta, gulrætur, sætar kartöflur, kasewhnetur, graskersfræ, afgangur af bygggrjónum frá fimmtudeginum og smá tómatmauk saman við.  Nennti engu en horfði á "Banks" með Oddi um kvöldið og las í bókinni "Bláa minnisbókin" eftir James A levine áður en ég fór að sofa.

18.7.14

Stuttu vinnuvika eftir frí búin

Ég fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun þar sem ég ætlaði að reka smá erindi strax eftir vinnu. Ein er enn í fríi en ég hitti hinar þrjár, sumarstelpuna og ungan mann í hjólastól sem vinnur hjá okkur um fjóra tíma á dag alla vega út næstu viku eða svo.  Mín vann í bókhaldinu og leysti svo af í matar og kaffitímum á skoðunarenda framleiðsluvélarinnar.  Dagurinn var ekkert svo lengi að líða og klukkan varð fjögur áður en ég vissi af.  Dreif mig þá á bókasafnið í Kringlunni og skilaði einum sex bókum. Hitti ekki á neinn í afgreiðslunni til að endurnýja bókasafnsskírteinið og eftir að hafa gengið einn hring en ekki fundið neina bók ákvað ég að fresta endurnýjuninni og fara heim með tóman poka. Er enn með tvær bækur af safninu, á aðra jólagjöfina mína ólesna og ég er nokkuð viss um að það fer að koma bók og krimmaklúbbnum inn um lúguna.  Svo ég er bara vel sett.  Var með matinn upp úr sex því strákarnir voru á leið í fjallgöngu með pabba sínum upp úr hálfsjö eða svo.  Þeir komu ekki heim fyrr en rétt fyrir tíu, næstum búnir á því, eða þannig.

17.7.14

Fimmtudagur

Ég rétt missti af hringingu frá mömmu um níu í gærmorgun.  Hafði verið í sturtu og var þar að auki aðeins seinni á fætur þennan síðasta frídag í bili.  Náði í mömmu í annarri tilraun og þá kom á daginn að það átti að útskrifa hana af bráðadeildinni og hún mátti fara heim.  Hún spurði hvort ég gæti skutlast með sig og það gekk alveg upp.  Var mætt í Fossvoginn um tíu og korteri seinna vorum við á leiðinni á Lyfjaver að m.a. til að leysa út sýklalyf þegar hún bað mig um að koma aðeins við í sjúkrahótelinu til að kveðja.  Í Lyfjaveri þurfti mamma að bíða eftir lyfjunum í næstum tvo tíma.  Ég sat úti í bíl og kláraði bókaklúbbsbókina, "Piparkökuhúsið" og hlustaði á útvarpið.  Við vorum svo komnar langleiðina austur þegar hringt var ú Lyfjaveri því það hafði gleymst að láta mömmu hafa sýklalyfin sem voru henni afar nauðsynleg.  Sem betur fer var hægt að "millifæra" pöntunina og taka þetta út í Lyf og heilsu á Hellu.  Ég stoppaði á Hellu fram yfir kvöldmat og kom svo við í Fossheiðinni á Selfossi á leiðinni í bæinn.  Það var spilakvöld hjá strákunum svo ég var ekkert að flýta mér heim.  Var þó komin í bæinn um tíu og skreið upp í rúm fyrir ellefu.

16.7.14

Síðasti dagurinn í sumarfríi runninn upp

Á morgun mun ég mæta aftur til vinnu eftir fimm vikna sumarfrí, tuttuguogfjóra virka daga.  Þá á ég eftir sjö virka daga þar sem ég náði ekki á klára einn dag síðan í fyrra.  Ég fór á fætur um hálfníu í gærmorgun. Mamma var enn inni á bráðamóttöku og það átti jafnvel að senda hana á Selfoss í dag.  Það varð úr að við pabbi og Bríet lögðum af stað í bæinn um eitt.  Fórum fyrst til mömmu og þar varð sú stutta eftir á meðan við pabbi fórum og hreinsuðum út úr herbergi 312 á sjúkrahótelinu og gerðum upp fyrir mömmu.  Komum aftur upp á bráðamóttöku stuttu fyrir fjögur.  Biðum eftir að Helga kæmi úr vinnu.  Hún mætti með súkkulaðimuffins og hjónabandssælusneið og söng á vörum til handa afmælisbarninu.  Stuttu seinna fór ég á lánsbílnum heim.  Upp úr hálfsex bauð ég strákunum mínum út að borða á Saffran en þangað höfum við ekki farið saman í tvö ár og ég bara tvisvar ein í millitíðinni.  Hafði svo smá stund heima áður en ég trítlaði á Valsvöllinn til þess að verða vitni á því að heimaliðið tapa 1-3 fyrir Selfossstúlkum.  Öll mörk voru skoruð í fyrrihálfleik líkt og í tapleiknum hjá strákunum á móti Breiðabliki kvöldið áður (1-2) en á þann leik komst ég ekki þar sem ég var fyrir austan á leið á kynningartónleika.

15.7.14

Mamma sjötug í dag

Ég heyrði óljóst í pabba og Bríeti fyrir klukkan sjö í gærmorgun.  Bríet vaknaði og fékk sér eitthvað en þegar til kom nennti hún ekki í sund með afa sínum.  Ég fór á fætur á slaginu níu.  Áður en ég fór að sofa kvöldið áður byrjaði ég á "nýrri" bók úr bókaklúbbnum, Piparkökuhúsið eftir Carin Gerhardsen.  Þessi bók kom fyrir tæpum tveimur mánuðum og á ég von á sendingu aftur fljótlega svo það er best að fara að gera þessari bók skil.  Þetta er höruspennandi krimmi sem fær mann til að hugsa og pæla um orsök og afleiðingu. Mamma hringdi í pabba í hádeginu en þá var búið að kyrrsetja hana á sjúkrahúsinu.  Sýklalyfjagjöf einu sinni á dag vegna heimakomu var víst ekki nóg og átti hún að fá inngjöf þrisvar sinnum næsta sólarhringinn.  Annars leið dagurinn ágætlega hratt.  Úti komu hellidembur en inn á milli sást í sólina.  Pabbi sá um kaffitímann en bað mig svo um að taka til kvöldmatinn.  Vorum með ofnbakaðan lax og með honum hrísgrjón og gular baunir í heitu, bræddu smjöri.  Um hálfníu lánaði pabbi mér jeppann sinn, sem ég hef líklega aldrei tekið í áður, og ég brunaði austur í Hvolsvöll á tónleika í Sögusetrinu.  Dóttir hjónanna, Sigríðar og Friðriks Guðna sem bæði eru dáin, er búin að semja helling af flottum og góðum lögum sem hún stefnir að því að gefa út.  Á tæpri klukkustund fengum við smá nasasjón af músíkinni hennar.  Í flestum lögum söng æskuvinkona hennar bakrödd með henni.  Hún sjálf spilaði í fyrstu undir á flygil og svo fékk hún 16 ára son sinn til að spila undir bæði með henni og svo sér í mörgum af lögunum og í einu laginu spilaði dóttir annarar vinkonu með henni undir á fiðlu.  Þetta voru yndislegir tónleikar og ég var með gæsahúð allan tímann svo ég get eiginlega ekki beðið eftir að diskurinn komi út.

14.7.14

Hundraðogfimmtíu ára í ár

Ég var vöknuð rétt fyrir sjö í gærmorgun og fór fljótlega á stjá, fyrst í sturtu og önnur hefbundin morgunverk svo klukkan var sennilega um átta þegar ég klæddi mig og bjó um. Ekki það að ég sé neitt lengi í sturtu heldur er það gelið sem tekur nokkra stund að þorna. Kveikti á tölvunni, sótti þvott af snúrunum í þvottahúsinu, straujaði spariskyrtur strákanna og tók eitt og annað til í tösku.  Vafraði um á netinu til klukkan að verða hálfttíu en þá slökkti ég aftur á tölvunni.  Settist með "Ómarsbókina" í "nýja" sófann og las þar til mamma hringdi.  Ég var tilbúin fyrir utan þegar hún renndi við upp úr hálfellefu.  Hún keyrði svo að Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg þar sem ég dældi á bílinn og skipti svo um sæti við mömmu.  Við vorum komnar á Hellu um tólf.  Þar hittum við fyrir pabba og systurdætur mínar.  Við fórum fljótlega að undirbúa smá veisluhöld.  Eldri frænka mín sá um að pakka inn smá hlutum sem mamma hafði útvegað og átti að nota í pakkaleik en við pabbi lögðum á tvö borð.  Um hálfþrjú komu systir mín og mágur með tvíburana með sér en þau höfðu komið við á Bakkanum til að sækja þá.  Rétt seinna byrjuðu veislugestir að koma, alls 10 manns, fern hjón og tvær konur af elstu kynslóðinni (fæddar ´22 og ´28).  Helga hafði komið með tilbúið kartöflusallat og kaldar sósur og keypt kjöt á grillið, Ingvi sá um að grilla.  Á eftir var boðið upp á kaffi og hjónabandssælu.  Og til efnið;  mamma verður sjötug á morgun og pabbi áttræður í október, saman verða þau þá 150 ára.  Flestir gestir kvöddu um hálfsex til að vera komnir í bæinn fyrir úrslitaleik hm.  Eftir urðu fjölskyldan ein hjón og svo systir hans pabba sem hann keyrði reyndar fljótlega heim til sín.  Síðustu gestirnir fengu ekki að fara fyrr en að loknum pakkaleik.  Ég var sú eina af viðstöddum sem ekki tók þátt því ég vildi heldur horfa á hm og sjá liðið sem ég hélt með verða heimsmeistara.  Já, ég hélt með Þjóðverjum en líka smá með Messí.  Mágur minn, mamma, Hulda og Davíð Steinn kvöddu eitthvað á níunda tímanum en Helga og Oddur Smári fóru  á mömmu bíl rúmlega tíu eftir að búið var að lesa fyrir Bríeti.  Ég varð eftir en mun skrifa um ástæðuna í næsta pistli.

13.7.14

"Nýr" stofusófi

Um síðustu helgi fengu systir mín og mágur lánaðan jeppann og kerruna hjá pabba.  Í gær kom Ingvi við annan mann nokkru upp úr hádegi og í fyrstu ferðinni komu þeir inn með nokkra púða sem þeir lögðu á rúmið mitt.  Síðan tóku þeir hornsófann í sundur og fóru út með einn part af þremur.  Í næstu ferð komu þeir inn með fleiri púða og sessur.  Þegar hornsófinn var allur komin út í innkeyrslu komu þeir inn með sófa sem Helga og Ingvi eru búin að eiga í einhver ár en ætla ekki að flytja með sér. Mágur minn og aðstoðarmaðurinn settu nýja sófann saman, sem er líka í þremur pörtum en öðru vísi í laginu og nokkru stærri, og kvöddu svo með þeim orðum að best væri að drífa sig með inn á haugana.  Ég varð auðvitað að prófa þennan nýja sófa og horfði á nokkra  "Ray Donovan" þætti af skjá frelsi.  Sófinn virkar vel og ég notaði hann áfram þegar ég horfði á bronsleikinn á hm.  Aftur spáði ég rétt fyrir um hvort liðið næði þriðja sætinu en markatalan var ekki rétt þó.  Þá er bara spennandi að vita hvort ég hafi rétt fyrir mér varðandi úrslitaleikinn en það er samt ekki víst að ég geti horft á hann í beinni.  Meira um það næst.

12.7.14

194. færsla ársins

Það er dagur númer 193 á þessu ári þótt færslan sé sú 194.  Þetta veit ég því einn daginn seinni partinn í vetur setti ég bæði inn mynd og texta en hvort í sínu lagi þó.  Ég er nú komin með yfir 10 fleiri færslur en "allt" árið í fyrra.  Reyndar byrjaði ég ekki skrifin þá fyrr en í maí og fyrst í stað aðeins á virkum dögum.  Nú virðist vera sama hvort það er virkur dagur, helgi eða hátíðistdagur alltaf sé ég ástæðu til að skrifa a.m.k. eitthvað smávegis.  Hvort ég hafi svo alltaf eitthvað að segja er allt annað mál en svo sem engin sérstök ástæða til að velta því of mikið fyrir sér.  Það rigndi einhver ósköp í gær og ég fann ekki neina þörf hjá mér fyrir að fara út fyrir dyr.  Var komin á fætur fyrir níu og eyddi deginum í tölvuna, þáttagláp af skjá frelsi og svo smá lestur inn á milli.  Skreið aftur upp í rúm um tvö eftir miðnætti og las aðeins meira.

11.7.14

Rólegheit

Gærdagurinn var heldur styttri í annan endann.  Ég vaknaði að vísu fyrst upp úr átta, hringdi í pabba og Helgu systur og sagði þeim frá biðinni með mömmu og hvað hefði verið gert og ákveðið.  Síðan fór ég í sturtu, smurði á mig gelið og skreið svo aftur upp í.  Þegar ég varð vör við að gelið væri þornað breiddi ég sængina yfir mig, lagðist á magann og svaf til hádegis.  Ætlaði varla að nenna að hafa mig á fætur en það tókst einhvern tímann á milli tólf og eitt.  Restin af deginum fór í þáttagláp og tölvuvafr. Var svo háttuð og skriðin upp í fyrir miðnætti.

10.7.14

Ég spáði réttum liðum áfram

Eftir hádegi í gær skruppum við Ella vinkona yfir á Seyðisfjörð.  Lögðum bílnum á bílastæðinu við Samkaup og fengum okkur svo smá gönguferð um bæinn.  Síðan fórum við á kaffihús og fengum okkur kaffi og skyrtertusneiðar.  Ég splæsti á mig einu hvítvínsglasi og meðan við nutum veitinganna sátum við fyrir utan í bongóblíðu.  Tókum svo annan göngutúr að "bláu kirkjunni" og þar um kring áður en við kvöddum staðinn og fórum aftur yfir á Egilsstaði.  Dagurinn leið afar fljótt.  Ella skrapp á strandblakæfingu seinni partinn og bauð mér svo upp á dýrindis fiskrétt úr kjöt og fiskbúðinni.  Upp úr hálfátta skutlaði hún mér svo á flugvöllinn.  Mamma sótti mig nokkru eftir að ég lenti í Reykjavík.  Ég var búin að ákveða að hún ætti að hafa bílinn sinn á meðan hún væri í bænum svo hún skutlaði mér heim og kvaddi.  Horfði á seinni undanúrslitaleikinn á tímarásinni og hraðspólaði á köflum.  Rétt þegar fyrri hálfleikur framlengingar var að klárast hætti tímarásin að virka en þá setti ég bara á plúsinn og kom inn þar sem seinni hálfleikur framlengingar var um það bil að hefjast. Stuttu áður hafði Helga systir hringt til að segja mér að hún væri að fara með mömmu upp á bráðamóttöku því hún væri komin með heimakomu í báða fætur. Ég náði að klára leikinn á plúsnum, vítakeppnina og allt, áður en Helga sótti mig og keyrði mig að bílnum hennar mömmu rétt við sjúkrahótelið í Ármúlanum.  Ég brunaði svo á bráðamóttökuna þar sem mamma beið enn eftir að röðin kæmi að sér.  Upp úr miðnætti var hún kölluð upp og fór ég með henni inn þar sem metið var hvar hún yrði sett í röðina.  Síðan fórum við aftur fram og biðum í klukkustund.  Þá var hún kölluð inn og látin leggjast á bekk inn í litlu skoðunarherbergi.  Hjúkrunarfræðingurinn reyndi að flýta fyrir og taka blóðprufu en það gekk ekki í fyrstu tilraun.  Svo tók við meiri bið og meiri bið og ég var farin að halda að mamma hefði bara gleymst þarna.  Um hálfþrjú fór eitthvað að gerast því þá kom inn læknakandídat.  Henni tókst reyndar ekki að taka mömmu blóð.  Þegar hjúkrunarfræðingurinn kom svo aftur upp úr þrjú þá loksins hafðist það og hún setti þá inn svona kera eða hvað þetta heitir.  Upp úr hálffjögur fékk mamma sýklalyf í gegnum kerann og áður en hún fór um fjögur fékk hún tíma í dag til að fá annan svoleiðis skammt. Henni var ekki bannað að keyra svo ég keyrði mig heim og hún fór sjálf aftur á sjúkrahótelið.

9.7.14

Rúst

Á meðan vinkona mín skrapp til tannlæknis fékk ég leyfi til að fara í tölvu.  Að sjálfsögðu nota ég tækifærið og set inn nokkrar línur.  Ég var komin á fætur um níu í gærmorgun, nokkru á undan vinkonu minni.  Þegar hún kom fram ekkert svo löngu seinna var ég að setja upp kaffið.  Dagurinn leið hratt við ýmis dundur. Horfðum á einn þátt af Intelligence, spjölluðum og hlóum.  Ella skrapp aðeins um eitt en var ekki lengi í burtu. Þegar hún kom aftur um hálftvö fórum við tvær í göngutúr um næsta nágrenni.  Hún sýndi mér m.a. vinnustaðinn sinn að utan, strandblakvellina og nokkra garða með frábærum listaverkum.  Áður en við komum heim komum við í Nettó og keyptum m.a. "morgunroða" (kaffitegund) og ástarpunga.  Þegar leið á daginn varð ég alltaf spenntari og spennari fyrir fyrri undanúrslitaleiknum, Braselía - Þýskaland.  Klukkan átta hófst sá leikur og fyrir utan fyrstu mínúturnar var þetta eiginlega bara einstefna.  Seinni hálfleikur var aðeins skárri hjá Braselíu en Neuer varði vel í marki Þjóðverja.  Oscar náði þó að setja hann rétt í lokin en það var of lítið og alltof seint því þeir voru búnir að fá á sig 7 mörk.  Ég spáði leiknum 2-0 fyrir Þýskaland svo ég get bara verið þokkalega sátt.

8.7.14

Í heimsókn hjá æskuvinkonu

Þar sem ég komst aðeins í nettengda tölvu gat ég ekki látið það vera að setja inn smá pistil.  Vaknaði afar spennt um sjö í gærmorgun.  Byrjaði á því að fara í sturtu og þurfti svo að skríða í smá stund upp í rúm á meðan daglega gelið var að þorna.  Las í bókinni hans Ómars um Möngu með svarta vanga á meðan.  Var svo klædd og komin á ról fyrir klukkan átta.  Kveikti á tölvunni og vafraði aðeins um.  Fékk mér eitthvað í svanginn og yfirfór íbúðina aðeins.  Kvöldið áður var ég búin að taka til ýmislegt í tösku.  Upp úr hálftíu skellti ég hurðinni inn í íbúð í lás á eftir mér og skutlaðist á Hótel Íslands.  Mamma svaraði ekki í gemsann svo ég varð að leggja lánsbílnum og sækja hana inn.  Það virtist sem hún hefði alveg gleymt að hún ætlaði að fá bílinn.  En hún var klædd, nýkomin úr morgunmat, og ég þurfti bara að hjálpa henni í peysu og minna hana á herbergislykilinn.  Næst lá leiðin út á Reykjavíkurflugvöll.  Kvaddi mömmu eftir að hafa skrifað niður fyrir hana hvenær ég kæmi til baka.  Farangur minn var svo léttur að ég gat tekið allt sem handfarangur og komst þar með í miklu styttri röð við innbókun í flug til Egilsstaða.  Eftir innritun hitti ég vinkonu systur minnar og fjölskyldu en hjónin voru að senda dætur sínar tvær með sömu vél og ég var á leið í til að hitta afa sinn og ömmu og fara með þeim í sumarbústað.  Ella vinkona tók á móti mér á Egilstöðum rétt rúmlega hálftólf.  Við lögðum leiðina fyrst í Nettó áður en við fórum heim til hennar.  Það rigndi mikið allan daginn svo við héldum okkur inni framan af, drukkum kaffi, spjölluðum og horfðum líka á nokkra þætti af Intelligence.  Um hálfátta skruppum við út í ca. 40 mínútna göngutúr.  Er við komum til baka voru maðurinn hennar og sonur komnir heim úr strandblaki.  Það teygðist úr kvöldinu hjá okkur vinkonunum alveg til klukkan að verða eitt.

7.7.14

"Manga með svarta vanga - sagan öll"

Titillinn í dag segir að sjálfsögðu frá hvaða bók ég er að lesa í augnablikinu, vel skrifuð og skemmtileg aflestrar.  Fær mann líka til að hugsa um pælingar höfundarins um ýmislegt sem fram kemur. Annars var gærdagurinn fínn þótt ég væri ein heima.  Framan af dunaði ég mér ýmist vil lestur, netvafr eða horfði á þætti "inntelligence" sem komnir eru á Skjá frelsi.  Rétt fyrir hálffimm lá svo leiðin niður í bæ. Var heppin að finna bílastæði en fann það svo þar sem ég hafði aldrei lagt áður en var þó ekki langt frá áfangastaðnum.  Á Kaffi París hitti ég jafnöldru mína og tvíburamömmuvinkonu sem er alin upp í Rangárvallarsýslu eins og ég.  Hún var búin að panta sér kaffi og vatnsglas sem henni var fært rétt eftir að ég mætti.  Ég pantaði það sama.  Við tóku frábærir klukkutímar af spjalli, hlátri, galsa og einstakri skemmtun.  Pöntuðum okkur hvor sína tegundina af sallati rétt fyrir sex.  Ég fékk mér Gylfasallat en hún Sesarsallat.  Nokkru eftir að við lukum við að borða það pöntuðum við meira kaffi og bættum við eplakökusneið sem rjóma.  Þarna vorum við í fjóra tíma en um hálfníu röltum við út og aðeins upp Laugaveg.  Klukkan var svo langt gengin í tíu er við kvöddumst báðar jafn ánægðar og endurnærðar eftir gott spall og mikinn hlátur.  Annars vil ég svo geta þess að það er líklegt að nú komi smá skrifpása á þessum vettvangi, kannski einn til þrír dagar, í ég hef þá örugglega frá mörgu að segja næst þegar ég set inn pistil.

6.7.14

Sunnudagur

Mamma hringdi í mig á föstudaginn var og spurði hvort ég gæti skutlast aðeins með hana um eitt daginn eftir (í gær).  Það var alveg sjálfsagt mál.  Tvíburarnir voru að fara til föðurforeldra sinna og það átti að sækja þá um eitt.  Ég kvaddi þá því með knúsi er ég fór út úr húsi um tólf.  Fór beinustu leið með lánsbílinn og "keyrði í gegnum" snertilausu þvottastöðina við Skúlagötu.  Síðan kom ég við í hraðbanka áður en ég lagði til hliðar við Hótel Ísland aðeins í fyrra fallinu.  Hringdi í gemsann hennar mömmu og það var systir mín sem svaraði.  Hún hafði semsagt líka fengið systur mína í sama erindi.  Reyndar voru þær eitthvað búnar að snúast fyrr um morguninn en mamma var alveg búin að gleyma að hún hafði beðið mig um að skutlast með sig þangað sem hún var að fara um eitt.  Þetta gerði nú minnst til því ég tók einfaldlega við af Helgu.  Mamma var að ljúka við að borða og svo sótti hún öll lyfin sín áður en ég skutlaði henni upp á geðdeild.  Mamma hafði verið boðuð þangað daginn áður og svo aftur í gær.  Hún fór í viðtöl og lyfin skoðuð.  Held að það hafi verið að breyta einhverju.  Ég þurfti ekki að bíða eftir mömmu því hún vissi ekki hvað þetta myndi taka langan tíma.  Ég bý lika svo stutt frá.  Fór því beint heim og náði að hitta strákana mína aðeins aftur og knúsa þá betur áður en þeir voru sóttir.  Það kom á daginn að mamma var lungan úr deginum í þessu erindi sínu.  Hún var ekki búinn fyrr en um fjögur og hringdi þá í mig. Rétt áður hafði Helga systir hringt til að leita frétta, sem þá voru engar. Ég slökkti snarlega á sjónvarpinu en næstsíðasti leikurinn í átta liða úrslitum hm var að hefjast, Argentína - Belgía.  Skutlaði mömmu aftur á sjúkrahótelið og á leiðinni þangað hringdi gemsinn minn.  Hélt að það væri systir mín aftur og bað mömmu um að svara en þar sem hún þekkti ekki nafnið sleppti hún því.  Þetta var "tvíburamömmuvinkona mín" og ég hringdi bara aftur í hana eftir að ég kom heim. Skrapp fyrst aðeins í Hagkaup í Skeifunni.  Ég missti af eina marki leiksins í beinni en það var nú sýnt aftur og aftur.  Sá seinni hálfleikinn og svo allan seinni leikinn síðar um kvöldið.

5.7.14

Meira um bækur og lestur

Hef lokið við að lesa enn eina bókina, "Þrettánda sagan", og nú eru fjórar bækur komnar ofan í bókasafnspokann.  Ein af þeim bókum, "Bókaþjófurinn" var með skilafrest til 7. júlí en hinum þremur þarf ekki að skila fyrr en 21. júlí.  Ég var ekki svo viss um að ég kæmist á safnið næstu dagana svo framlengdi skilafrestinum á bókaþjófnum.  Þá eru fimm bækur ólesnar af safninu með skilafrest í endaðan mánaðarins.  Ég mun klárlega leggja leið mína á bókasafnið fyrir 21. n.k. og þá skila fleirum en fjórum bókum.  Þá þarf ég líka að endurnýja bókasafnskortið mitt en það rennur út á morgun. Lestur er svo sannarlega bestur.

Oddur Smári var vaknaður og kominn á fætur upp úr sjö í gærmorgun.  Hann fór að sofa aðeins á undan mér en á eftir bróður sínum.  Ég fór fyrst fram úr rétt fyrir átta og svo á fætur áður en klukkan varð níu.  Bókin sem ég lauk við í gær togaði í mig og dagurinn fór í lestur, tölvustúss og hm-gláp.

4.7.14

Badda mín 92 ára í dag

Ég er rúmlega hálfnuð með bókina sem ég sagði aðeins frá í gær, "Þrettánda sagan".  Hún heldur mér alveg við efnið og er spennandi.  Samt las ég lítið um miðbik gærdagsins því ég er viss um að ef ég hefði sökkt mér niður í bókina þá hefði ég lokið við hana í gær.  En ég er svo sem ekki í neinum kapplestri og það er alveg ágætt að leggja bókina til hliðar um stund og hugsa um það sem fram er komið.  Mamma kom annars í bæinn í gær og verður í nokkra daga á sjúkrahótelinu við Ármúla.  Ég hitti hana ekkert en hún hringdi í mig og spurði hvort hún fengi bílinn sinn í einhverja daga, samt ekki strax í gær.  Það var alveg í góðu lagi mín vegna enda á hún bílinn.  Ég er búin að vera með hann í láni í eitt og hálft ár með smá hléi í fyrrasumar.  Asea-maðurinn hringdi líka í mig að fyrra bragði í gærkvöldi.  Sá að ég hafði verið að reyna að ná á hann.  Hann hafði verið á sjónum og þar sem hann er að fara aftur út í dag dreif ég mig til hans eftir kassanum mínum.  Í leiðinni gekk hann frá fríkassanum fyrir mig svo næst fæ ég tvo kassa, átta flöskur.

3.7.14

"Þrettánda sagan"

Já, ég las Flekkuð upp til agna í gær og er að sjálfsögðu byrjuð á nýrri bók sem er yfir 420 blaðsíður og eftir Diane SetterfieldÞrettánda sagan segir frá frægum rithöfundi sem fær lítt þekktan ævisagnaritara til að skrifa ævisögu sína.  Í gegnum árin höfðu margir reynt að fá rithöfundinn til að segja frá ævihlaupi sínu en hún sagði alltaf nýjar og nýjar sögur.  Ég er eiginlega bara rétt að byrja á bókinni en hún lofar góðu.

Mér barst bréf frá sýslumannsembættinu í Reykjavík í gær og nú er lögskilnaðurinn í gegn.  Ég sá því ástæðu til að opna hvítvínsflöskuna með kvöldmatnum í gærkvöldi, ofnbakaðri bleikju með kartöflum og gulum baunum í heitu smjöri.  :-)

2.7.14

Mikið lesið

Ég lauk við Yrsubókina í gær og byrjaði strax á annarri, Flekkuð, eftir höfund sem heitir Cecilia Samartin.  Bókin er um stúlku frá Mexíkó sem fæðist með stærðar valbrá á bakinu.  Þegar mamma hennar deyr laumast hún yfir landamærin og finnur móðursystur sína í Los Angeles.  Hún fær svo vinnu, út á fölsuð skilríki, við að sjá um einn erfiðan sjúkling á geðveikrahæli, sérvitring sem segir henni sögu sína sem hún heillast af.  Bókin er um 340 bls. og er ég nokkurn vegin hálfnuð með hana enda ein af þessum bókum sem togar sterkt í mann að lesa meira og meira til að fylgjast með framgangi mála.

Eftir hádegi skruppum við Davíð Steinn í Veiðibúðina við Síðumúla þar sem ég gaf honum nýtt veiðihjól í afmælisgjöf.  Þeir bræður eru líklega að fara á Bakkann um næstu helgi og taka stangirnar með sér.  Þeir voru búnir að leita nokkrum sinnum í geymslunni og fundu allar græjurnar fyrir utan veiðihjólið hans Davíð Steins.  Ég ákvað því að gefa honum afmælisgjöfina í fyrra lagi svo hann gæti nú notað stöngina.  Ég keyrði hann líka í Vesturröst þar sem hann keypti sér nokkrar 60gr sökkur.

Ég lét ekki síðustu tvo leikina í 16 liða úrslitum á hm í Brasilíu fram hjá mér fara.  Ég spáði rétt fyrir um úrslit leikjana og meira að segja markatalan í seinni leiknum var rétt hjá mér.  Það náðist að hafa spilakvöld hjá strákunum.  Einn spilafélaginn gat þó ekki verið lengi en þeir létu það ekki stoppa sig í þetta sinnið.  Þar með þurfti ég ekkert að hafa fyrir því að hugsa um neinn kvöldmat.

1.7.14

Árið að verða hálfnað

á ég aðeins sex kafla eftir af Yrsu-bókinn enda las ég helling í gær. Bókin er það spennandi að ég er mest hissa á því að vera hreinlega ekki búin að lesa hana upp til agna.  Byrjaði gærmorguninn á því að lesa um stund eftir að ég kom úr sturtu.  Tók einnig nokkrar les-tarnir yfir daginn og endaði daginn á því að lesa nokkra kafla.  Klukkan var líka að nálgast eitt eftir miðnætti er ég ákvað að beita mig hörðu, leggja frá mér bókina, slökkva á lampanum, biðja bænirnar mína og svífa inn í draumalandi.  Eyddi samt deginum í aðeins meira en lestur og tölvumál.  Við Oddur Smári skruppum í Krónuna og örsnöggt í Hagkaup í Skeifunni. Versluðum alls ekki yfir okkur en nú er nóg til fyrir vikuna.  Einnig horfði ég á báða hm-leiki gærdagsins.  Slapp nokkuð létt frá matseldinni, setti upp kartöflur og steikti nokkrar blóðmörs- og lifrarpylsusneiðar.