15.7.25

3/4 úr Viðeyjargenginu í Viðey í gær

Líkt og nokkra undanfarna morgna var ég vöknuð eldsnemma í gærmorgun. Ákvað samt að sleppa því að mæta í sund og var að bræða það með mér hvort ég ætti að labba í og úr osteostrong tíma. Ákvað samt að sleppa því líka, þ.e. er labbinu ekki tímanum. Var mætt tuttugu mínútur yfir átta og komst strax að. Var nálægt mínu besta á þremur tækjum og sló met á einu. Var komin heim aftur um níu. Fljótlega útbjó ég mér hafragraut. Um hálfellefu rölti ég af stað með harðfisk, vatnsflösku, lopapeysu og smávegis fleira í bakpoka. Hafði nægan tíma. Stoppaði aðeins hjá sölubásnum hennar Lilju og síminn skráði þar á mig hálftíma göngu. Rétt fyrir hálftólf var ég svo komin niður á gömlu höfnina og keypti mér ferð út í Viðey. Var á undan Inger og Helgu en báturinn fór heldur ekki fyrr en tíu mínútur fyrir tólf. Við þrjár príluðum upp á stýrishús, settumst þar á bekk sem snéri að stefninu. Báturinn kom við á Skarfabakka og sótti fólk þar og svo vorum við komin út í Viðey tuttugu mínútur yfir tólf. Stöldruðum stuttlega við í Viðeyjarstofu þar sem tvær af okkur nýttu salernisaðstöðuna. Svo löbbuðum við austur eftir eynni, með nokkrum smá stoppum t.d. í og við skólahúsið, og alveg að húsi Viðeyjarfélagsins þar sem við settumst niður á bekk og fengum okkur smá nesti. Þegar við komum til baka í Viðeyjarstofu vorum við ákveðnar að skilja eitthvað eftir okkur í eynni. Hinar tvær fengu sér súkkulaði-kókoskúlu og önnur kaffi með. Ég er enn í pásu frá kaffinu og það breyttist ekkert í gær. Aftur á móti leyfði ég mér eitt hvítvínsglas, en vín hef ég ekki drukkið síðan seinni partinn í maí í fyrra. Kaffi hef ég reyndar ekki drukkið síðan 14. október í hittifyrra. Það snarsveif auðvitað á mig af víninu og ég varð ennþá málglaðari en oftast. Við röltum svo vestur eftir eynni, upp á einn hól, niður aftur og að tveimur af 18 súlum sem eru þar. Ákváðum að í næstu ferð skyldum við byrja á að fara þessa leið og fara allan hringinn og skoða allar súlur. Hér áður fyrr var mikið um kríur á þessu svæði en þær hafa varla sést í eynni sl. ár. Við komum svo í Viðeyjarstofu aftur rétt fyrir fimm, nýttum okkur salernisaðstöðuna og ég keypti mér bláan kristal. Tókum svo næstsíðasta bátinn til baka um hálfsex en það er ein af þremur ferðum yfir daginn sem fer alla leið að gömlu höfninni. Flestu ferðirnar á sumartímanum eru frá Skarfabakka á klukkutíma fresti frá kl. 10:15 og síðasta ferðin úr eynni klukkan hálfsjö. Vorum komnar í land skömmu fyrir klukkan sex og ég labbaði heim líka. Settist í smá stund á bekk á Klambratúninu og þá var ég búin að ganga tæpa 3km á 38mínútum. Heildarskrefafjöldi gærdagsins fór líka yfir tuttuguogtvöþúsund skref. Það skal tekið fram að ég þurfti aldrei á lopapeysunni að halda. Var mestan tíman á stuttermabolnum.

14.7.25

Ný vika

Ég var komin á braut 7 í Laugardalslauginni tuttugu mínútur yfir átta. Synti 600m á tæpum hálftíma. Var komin heim aftur á ellefta tímanum. Dagurinn var semi vel nýttur í alls konar sýsl. Á sjötta tímanum ákvað ég að bjóða strákunum út að borða. Það styttist í afmælið þeirra og það er ekki víst að þeir verði báðir á sama stað um það leyti. Fórum á bílnum hans Davíðs Steins. Vorum ekki alveg búin á ákveða hvert þegar við lögðum af stað en enduðum svo á Saffran í Faxafeni. 

13.7.25

Samverustundir með systurdóttur

Gærdagurinn var byrjaður fyrir klukkan fimm í gærmorgun. Tíminn fram að sundferð var nýttur í alls konar, bæði morgunrútinu og fleira. Var mætt í Laugardalinn um það leyti sem verið var að opna um átta. Fór beint á braut 7 og synti í uþb hálftíma eða 600m. Fór beint úr sundi í esperantohitting og var komin þangað um 10. Ég var svo komin heim aftur um hálftólf. Fljótlega fór ég aftur að sýsla við eitt og annað en þegar ég stóð mig að því að vera að fara úr einu í annað settist ég aðeins niður og hringdi í tvíburahálfsystur mína. Eftir gott spjall í hátt í klukkutíma hélt ég sýslinu áfram. Hulda frænka kom um þrjú leytið. Hún kom í bæinn í fyrradag en heldur til hjá vinkonu. Strákarnir voru að undirbúa sig undir heimsókn í Mosfellsbæinn og kvöddu á fimmta tímanum. Milli fimm og hálfsjö gerðum við frænkur okkur ferðir í Sports Direct og Ali Baba. Á fyrri staðnum keypti ég mér tvo nýja sundboli en frænka mín fjárfesti í skóm. Á seinni staðnum bauð ég frænku minni upp á uppáhalds réttinn hennar en fékk mér sjálf fiskrétt. Eftir að við komum heim aftur sat Hulda í smá stund úti á tröppum að njóta veðurblíðunnar. Vinkona hennar sótti hana stuttu fyrir tíu og þá skreið ég upp í rúm og las í smá stund. Bókin Vatnið brennur kemur á óvart. Var ekki alveg að tengja fyrst þegar ég byrjaði að lesa hana en núna verð ég helst að vita hvernig allt tengist og hvernig þetta endar allt saman. Bókin flakkar um þrjú tímabil, nútímann, 1972 og 6000 f. Kr. Hún er óhugnanleg á köflum en einhvern veginn eru sögurnar búnar að "ná mér".

12.7.25

Helgi

Var komin á stjá fyrir klukkan sex í gærmorgun. Í gær var sjósundsdagur og ég var mætt í Nauthólsvík rétt upp úr klukkan tíu. Sjórinn mældist 13°C, það var að fjara út og ég svamlaði og skokkaði út að kaðli á rúmum tíu mínútum. Ég fór aftur í sjóinn eftir 10 mínútur í gufunni og sat svo smá stund í pottinum áður en ég fór upp úr. Þá var klukkan rétt að verða ellefu. Fór beint heim og ekki aftur út fyrr en um þrjú. En þá skrapp ég út í göngu, réttsælis í kringum Öskjuhlíðina með tveimur stoppum. Eftir seinna stoppið sem var þegar ég settist á bekk í Eskihlíðinni. Þaðan var svo stutt heim að það skráðist ekki nein ganga. En það skráðust niður 2,2km og 3,2km. 

11.7.25

Hittingur

Ég var komin á fætur fyrir klukkan sex í gærmorgun en mætti samt ekki í Laugardalslaug fyrr en upp úr klukkan hálfátta. Synti 700m á braut 7, langflesta á bakinu. Þegar ég syndi á bakinu þýðir það að ég þvæ mér um hárið. Þetta gerist svona ca einu sinni í viku. Úr sundi brunaði ég upp á N1 við Gagnveg. Jafnaði þrýstinginn á dekkjunum og var svo að spjalla við N1 soninn og vinnufélaga hans sem átti 25 ára afmæli í gær. Mér skilst að Davíð Steinn hafi bæði sungið fyrir hann og fært honum afmælisköku. Það teygðist aðeins úr spjallinu og klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar ég kvaddi og hélt heim á leið. Heima var ég að dunda mér við ýmislegt þar til fyrrum samstarfskona hafði samband og bað mig um að bruna til sín í fjögurra konu hitting. Við fjórar vorum þær sem komu að kortagerðarvinnu þar til henni var hætt í desember á sl. ári. Það var virkilega gott og gaman að hittast. Spjallað um alla heima og geyma og tíminn flaug hratt hjá. Þegar ég kom heim aftur hélt ég sýslinu áfram þar til leikurinn Ísland - Noregur 3:4 á EM kvenna hófst. Ég kláraði líka þriðju bókina af fjórum sem ég sótti síðast á safnið. Aðal skúrkurinn náðist ekki en gat komið því þannig fyrir að annar var handtekinn í hans stað. Það hlýtur að þýða að það eru fleiri bækur um þessar sögur persónur. 

10.7.25

Tíundi júlí

Gærmorguninn var einn af þeim dögum sem byrjaði óþægilega snemma en ég virtist alveg vera útsofin áður en klukkan var einu sinni orðin fimm. Þegar ég gafst upp á að reyna að kúra lengur greip ég í bók af náttborðinu og setti lesgleraugu á nefið og las þar til klukkan var að verða sex. Þá fór ég á fætur og sinnti hefðbundinni morgunrútínu. Vafraði helst til lengi í netheimum en ég var þó búin að leggja frá mér fartölvuna um átta. Um níu leytið útbjó ég mér hafragraut og svo var ég mætt á planið við Nauthólsvík rétt fyrir klukkan tíu. Kalda potts vinkona mín var þá þegar mætt. Sjórinn var rúmlega tólf gráður og það var að fjara meir og meir út. Við fórum þrisvar í sjóinn og tvisvar í gufu og klukkan var um hálftólf þegar við fórum upp úr og kvöddumst. Ég kom við í Fisbúð Fúsa áður en ég fór heim. Keypti m.a. ýsu í soðið og fljótlega eftir að ég kom heim skellti ég hluta af henni í pott og hluta í frysti. Afgangurinn af deginum var alls konar. Ýmislegt gert og hugsað, spekúlerað og spáð. M.a. átti ég mjög langt símtal við eina vinkonu mína sem er fasteignasali. Það skal skrifast og viðurkennast að ég er búin að vera að velta því fyrir mér í ákveðinn tíma að gera breytingar. Stöku sinnum í gegnum sl amk fimm ár hef ég verið að velta fyrir mér ýmsum hlutum og oftar en ekki ýtt þeim svo frá mér og ákveðið að sjá til. En það er pottþétt ekki hægt að "sjá til" alveg endalaust og á einhverjum tímapunkti verður maður að taka ákvörðun um að hrökkva eða stökkva. Ég sem er meira en lítið fanaföst en engu að síður með ágæta aðlögunarhæfileika, syndi bæði með og á móti straumnum og er búin að vera í millibils ástandi sl. mánuði þarf að fara að standa enn betur með sjálfri mér og gera enn frekari breytingar. Veit innst inni að þetta verður allt í góðu lagi, hvernig svo sem hlutirnir þróast. 

9.7.25

Sjósundsdagur framundan

Ég vaknaði útsofin um hálfsex í gærmorgun. Var samt ekki mætt í sund fyrr en um hálfátta. Fór beint á braut 7 og synti 700m áður en ég fór fyrstu ferðina í þann kalda. Ferðirnar í hann urðu þó aðeins þrjár talsins, 2 fimm mínútna ferðir og ein svona rúmlega dýfuferð eitthvað á aðra mínútu. Ég fór líka í gufu, nudd- og sjópott og gerði nokkrar æfingar í rimlum. Sundferðin tók alls tæpa tvo tíma með öllu. Þ.e. er frá því ég stilli símann áður en ég fer inn í klefa þar til ég slekk á stillingunni þegar ég kem út úr klefanum aftur. Forritið í Samung health veit ekki betur en ég sé að synda allan þennan tíma en ég skrái niður glósur um helstu hreyfiverkefni tímans þegar ég slekk á forritinu. Annars var gærdagurinn frekar fljótur að líða við alls konar og ekki neitt. Það er eiginlega alveg ljóst að ekkert fær stöðvað þennan tíma og það er bara spurning um hvernig og hversu vel hann er nýttur. Sjálfsagt gæti ég nýtt hann miklu miklu betur en ætla svo sem ekki að hafa áhyggjur af því. Fann bók í fórum mínum sem ekki er búið að taka plastið utan af en ég ætti kannski að gera og lesa; Lifum lífinu hægar eftir Carl Honoré. En annars er ég byrjuð á seinni tveimur bókum sem ég sótti í síðustu ferð á safnið um daginn; Opið hús eftir Sofie Sarenbrant og Vatnið brennur eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Sú fyrrnefnda alveg sérlega spennandi og hin svolítið öðruvísi. Báðar bækurnar í kringum 400 bls. og ég er búin að lesa yfir 60 bls.

8.7.25

Þriðjudagur

Ég var komin í sund um korter fyrir sjö í gærmorgun. Synti í uþb tuttugu mínútur, fór þrisvar sinnum fjórar mínútur í þann kalda, rúmar tíu mínútur í gufu og svipaðan tíma í sjópottinn en þar hitti ég fyrir eina konu sem ég hitti nokkuð oft á árunum 2015-2020 en kemur nú aðeins tvisvar í viku. Alltaf um leið og opnar. Var mætt í osteostrong um hálfníu. Var við mitt besta á flestum tækjunum. Eftir tímann fór ég í Krónuna á Fiskislóð og var komin þangað rétt eftir að opnaði. Var komin heim fyrir tíu. Þar með átti ég að hafa tíma til að gera alls konar og jafnvel koma meiru af "skylduverkunum" í gegn.  Dagurinn leið amk frekar hratt en hversu mikið ég komst yfir að gera skal óskrifað bæði vegna þess að það má ekki skrifa um það og einnig vegna þess að miðað við tímann sem ég hafði fór aðeins brotabrot af honum í þessi verk. Það sat í mér bókin sem ég var síðast að lesa, hámaði í mig á rúmum sólarhring. Þannig að ég var einnig illa sofin. Lagði mig samt ekkert yfir daginn en var komin upp í rúm um níu í gærkvöldi og sennilega sofnuð um hálftíu því ég las bara í smá stund.

7.7.25

Osteostrong

Fannst eins og klukkan væri örugglega að ganga átta þegar ég dreif mig á fætur í gærmorgun. Þá var hún rétt að verða hálfsjö. Pabbi kom fljótlega á fætur líka. Veðrið var mjög gott. Ég fór samt ekki í neinn göngutúr en sat dágóða stund úti á palli eftir hádegið. Pabbi fór út á undan og var aðeins lengur. Ég "flúði" inn þegar mér var orðið alltof heitt. Annars fátt að frétta nema ég las heila bók, sögulega skáldsögu af safninu; Rokið í stofunni eftir Guðrúnu Jónínu Magnúsdóttur. Yfir þrjúhundruð blaðsíður en svo grípandi og átakanleg á köflum, sérstaklega þar sem sagan er byggð á raunverulegum atburðum sem gerðust á stríðsárunum, hvernig brotið var á ungum stúlkum bæði af réttarkerfi og sumu samferðafólki, og fylgir einni persónunni út lífið. Kleppjárnsreykir koma við sögu þegar sögupersónan er á fjórtánda ári. 

6.7.25

Sunnudagur

Ég var komin á fætur einhvern tímann á áttunda tímanum í gærmorgun. Pabbi kom fram ekkert svo löngu síðar. Gærdagurinn var annars bara rólegheita dagur. Um tvö leytið skrapp ég aðeins út og labbaði 3,5km hring á þremur korterum. Kláraði að lesa eina af bókunum sem ég sótti á safnið á miðvikudaginn; Sjúk eftir Þóru Sveinsdóttur. Þessi bók kom út í fyrra, fer fram og aftur í tíma og er nokkuð spennandi. Höfðum urriða í matinn um sex leytið og ég skreið upp í rúm um hálfellefu sem er mun seinna en vanalega.

Er enn að ná utan um það að Diogo Jota og bróðir hans André Silva hafi farist í skelfilegu slysi fyrir þremur dögum. Jota var fæddur sama ár og tvíburarnir mínir og var að gera góða hluti innan vallar sem utan, búinn að vera í fimm á hjá Liverpool. Bróðir hann var fjórum árum yngri. Þetta er svo skelfilega sorglegt. Hugur minn og bænir eru hjá fjölskyldum þeirra, ættingjum og vinum.

5.7.25

Fimmti fjórði

Gærmorguninn byrjaði upp úr klukkan fimm. Greip í bók og las þar til klukkan var að verða hálfsjö. Þá fór ég á fætur og náði að hitta aðeins á N1 soninn sem lagði af stað á helgarvinnuvakt áður en klukkan varð sjö. Ég sinnti morgunrútínunni og hélt svo áfram að lesa. Kláraði aðra af þeim bókum sem ég skildi eftir heima þegar ég fór á safnið í vikunni. Á tíunda tímanum fékk ég mér hinn helminginn af hafragrautnum sem ég útbjó á miðvikudagsmorguninn. Var svo mætt í Nauthólsvík rétt rúmlega tíu. Sjórinn 13°C og ég svamlaði út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór út í. Fór upp úr um ellefu leytið og kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Verslaði aðeins harðfisk að þessu sinni. Heima fékk ég mér hádegishressingu og pakkaði niður fyrir helgina. Lagði af stað úr bænum rúmlega tólf. Kom aðeins við á N1 við Gagnveg. Ætlaði að athuga þrýstinginn á dekkjunum en það var yfirgefin tezla og svo stór flutningabíll með gaskútum fyrir svo ég komst ekki að loftinu. Heilsaði aðeins upp á soninn. Keyrði austur um Þrengsli eins og ég geri orðið í langflestum tilvikum. Kom við hjá frændfólki á Selfossi og stoppaði við í tæpa klukkustund. Var komin á Hellu til pabba um þrjú. Afgangurinn af deginum fór í útsaum, kapallagnir og fótbolta- og imbagláp og leið mjög hratt. Líklega hefði verið skynsamlegra að safna aðeins fleiri skrefum en stundum þá er maður ekkert endilega mjög skynsamur. 

4.7.25

Föstudagur

Um þetta leyti í gærmorgun, 7:39, var ég að mæta í Laugardalslaugina. Gærdagurinn hófst samt miklu fyrr en ég byrjaði á því að grípa í bók um fimm leytið. Á laugarsvæðinu byrjaði ég á kalda pottinum áður en ég fór á braut 7. Laugin var í heitara lagi en kannski fann ég minna fyrir því þar sem ég synti flestar ferðirnar á bakinu. Synti 1km á rúmum þremur korterum. Fór tvær aðrar ferðir í þann kalda og gerði nokkrar æfingar í rimlum eftir gufu ferð. Þvoði mér um hárið og var komin heim um hálfellefu. Um hálftvö leytið skrapp ég út í göngutúr upp í Öskjuhlíð. Settist niður eftir hálftíma göngu og hringdi í tvíburahálfsystur mína. Við spjölluðum í þónokkra stund og ákváðum svo að hún myndi kíkja við hjá mér eftir vinnu. Hún var komin um fimm og augnabliki síðar var klukkan allt í einu langt gengin í sjö. Fór óvanalega seint í háttinn þar sem ég vildi horfa á Steinsnar frá þjóðvegi í línulegri dagskrá. Endaði svo daginn eins og ég byrjaði með því að lesa um stund. Fór ekki að sofa fyrr en um hálftólf. Gærdagurinn var semsagt langur í báða enda.

3.7.25

Fyrsti leikur gekk ekki alveg nógu vel

Í gær var sjósundsdagur svo ég fór ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir tíu. Þá var ég búin að vera á fótum í tæpa fjóra tíma og vakandi í rúmlega fimm tíma. Bjó mér til hafragraut upp úr klukkan níu. Hitti kalda potts vinkonu mína á planinu við Nauthólsvík um það leyti sem verið var að opna. Sjórinn var 12,4°C og það var að flæða að. Fórum þrjár ferðir í sjóinn, eina í gufu og tvær í pottinn. Fórum upp úr um hálftólf. Ég kom við í bókasafninu í Kringlunni áður en ég fór heim. Skilaði 7 bókum af 9 og tók fjórar bækur í staðinn, allar með 30 daga skilafresti og frekar þykkar. Í hádeginu sauð ég ýsubita í einum potti og sæta kartöflu, brokkolí og gulrætur í öðrum potti. Fljótlega eftir hádegið skrapp ég út í smá göngu. Forritið í símanum skráði á mig 1,2km á korteri en þótt gangan hafi ekki verið mjög löng var hún í heildina eitthvað lengri því skrefin fóru yfir 4000. Sennilega spilar inn í að það var hringt í mig í miðri göngu og ég stoppaði í smá stund og rölti svo miklu hægar og stoppaði jafnvel öðru hvoru á meðan ég var að tala í símann. Á línunni var ein frænka mín og nafna, fimm árum eldri en ég. Eftir að ég kom heim aftur hringdi ég í pabba. Hann var bara nokkuð hress. Hafði lent í meira brasi með sláttuvélina en náði að gera við hana og klára að slá. Kveikti á sjónvarpinu stuttu fyrir fjögur og fylgdist með fyrsta leiknum á EM kvenna; Ísland - Finnland 0:1. Stelpurnar okkar voru ekki líkar sjálfum sér, amk ekki alveg eins ákveðnar og í æfingaleiknum fyrir nokkrum dögum. Fengu þó sín færi sem þær nýttu ekki. Kannski sló magakveisa fyrirliðans þær eitthvað út af laginu og ég veit að þær ætluðu sér að gera betur. Vonandi nýta þær færin sín betur í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum og ná hagstæðari úrslitum. 

2.7.25

EM að byrja í dag

Þetta er einn af þeim dögum sem byrja eldsnemma. Það snemma að mér fannst ekki tímabært að fara á fætur og byrjaði því daginn eins og ég endaði gærdaginn. Eftir að hafa skroppið fram á baðherbergi um fimm fór ég aftur upp í rúm og greip í bók. Er búin með tvo þriðju af bókinni; Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og er alveg heilluð. Gærdagurinn byrjaði ekkert svo seint heldur en þó ekki eins snemma, einhvers staðar á milli sex og hálfsjö. Samt var klukkan orðin átta þegar ég var loksins mætt í sundið. Var í heila tvo tíma og synti m.a. 700m. Ég fór líka í göngutúr í gær en bara stuttan, 1,5km á 20 mínútum. Notaði ferðina til að fara með gler og málm í gámana við upphafsenda Eskihlíðar. Annars var nú veðrið í gær upplagt fyrir mikla útiveru en ég var að sýsla við eitt og annað hér heima og gleymdi mér í mis gáfulegum og mis nauðsynlegum verkefnum.

1.7.25

Verkstæðismál

Korter fyrir sjö í gærmorgun var ég komin á braut 7. Synti 700m á rúmum hálftíma. Hafði ágætis tíma til að fara í gufuna, sjópottinn og þrjár ferðir í þann kalda. Gat einnig gefið mér tíma í spjall við konu sem ég er nýfarin að hitta aftur í sundi og kemur nú aðeins tvisvar í viku um leið og opnar. Var mætt í Hátúnið í osteostrong um hálfníu og komst strax að. Bætti mig á einu tæki og var við mitt besta á tveimur öðrum. Kom klukkan að byrja að ganga tíu. Rúmum klukkutíma síðar hringdi ég á N1 verkstæðið við Ægisíðu og spurði hvort þeir gætu athugað bremsurnar og skipt um klossa ef þyrfti. Ég var beðin um að koma með bílinn til þeirra sem allra fyrst og dreif mig strax í það verkefni. Í ljós kom að það þurfti að skipta um diska og klossa að framan. Þeir sögðust geta afgreitt það samdægurs svo ég skildi bílinn eftir, nafn mitt og símanúmer og labbaði heim. Fór ekki alveg beinustu leið en það urðu rúmir 4km á tæpum 55 mínútum. Klukkan hálftvö var hringt í mig frá verkstæðinu til að láta vita að bíllinn væri tilbúinn. Var rúmar 40mínútur að labba 3,55km. Mátti gefa upp kennutölu N1 sonarins og fékk ágætis afslátt út á hana. Borgaði tæp 47þúsund en sú upphæð hefði farið yfir 60þúsund. Var komin heim fyrir klukkan hálfþrjú og lánaði Oddi bílinn til að reka einhver erindi. Skrefafjöldi dagsins var þarna kominn yfir 12þúsund. Kláraði annars að lesa enn eina bókina af safninu.

30.6.25

Síðasti júnídagurinn framundan

Þegar maður er sofnaður fyrir klukkan hálfellefu er kannski ekkert svo skrýtið að vera vaknaður fyrir klukkan hálfsex. Ég er klædd og komin á ról og mun gera líkt í sl. mánudag; mæta snemma í sund og fara svo beint í osteostrong tíma um hálfníu. Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt rúmlega átta. Synti 500m á braut átta og fór 3x5 mínútur í þann kalda. Ég var komin heim aftur á ellefta tímanum. Var að sýsla við ýmislegt mis gáfulegt fram eftir degi. Ein nafna mín og frænka hringdi í mig um þrjú og við spjölluðum í hátt í klukkustund. Svo hringdi ég í pabba. Hann var hress en ekki alveg eins hress með sláttuvélina sína. Hún gafst upp áður en hann var búinn að slá. Sennilega vantar nýtt kerti í hana. Rétt rúmlega fjögur lagði ég af stað í göngutúr, nokkuð stóran hring í kringum Öskjuhlíðina. Settist niður í 10 mínútur eftir rúma 4 km og uþb 50 mínútna göngu. Var tæpan hálftíma að labba 2,2 km heim eftir að ég hélt för áfram. Veðrið var dásamlegt, milt og gott og ég var næstum alla gönguna á stuttermabol með peysuna bundna um mittið á mér. 

29.6.25

Sunnudagur

Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Mætti í Laugardalslaugina um átta, rétt eftir að að var opnað. Fór beint á braut 7 og synti 600m. Fór 3 ferðir í þann kalda, eina í gufu, eina í sjópott, eina í heitasta og eina í nuddpottinn. Var svo mætt vestur í bær til norsku esperanto vinkonu minnar rétt rúmlega tíu. Við lásum 2 bls. í Kon-Tiki. Svo var ég komin heim um hálftólf leytið. Var að dútla við ýmislegt, m.a. það sem ekki má skrifa um. Klukkan var því að verða fjögur þegar ég skrapp loksins út í smá göngutúr. Labbaði tæpa 4km á þremur korterum og settist svo aðeins niður á bekk á Klambratúninu. Kom heim um hálfsex leytið. Kvöldið leið hratt. Þriðju vikuna í röð vann ég á áskriftamiðann minn í lottó. Var með 3 rétta. Í síðustu viku var ég með tvo rétta og bónus og vikuna þar á undan 4 rétta. Þegar ég ætlaði að slökkva á sjónvarpinu stuttu fyrir klukkan tíu "festist" ég yfir sannsögulegri mynd sem verið var að sína á RÚV. Fór því óvanalega seint í háttinn í gær. Las samt nokkrar bls. í tveimur af bókasafnsbókunum áður en ég fór að sofa.

28.6.25

Sól

Gærdagurinn var einn af þeim dögum sem byrjaði mjög snemma. Föstudagar eru líka orðnir sjósundsdagar og þar sem ekki opnar í Nauthólsvík fyrr en klukkan tíu var mjög rúmur tími til að gera ýmislegt, bæði sinna hefðbundinni morgunrútínu og fleiru. Um hálftíu fékk ég mér chia-graut sem ég átti tilbúinn í ísskápnum og svo var ég mætt í Nauthólsvík um það bil sem verið var að opna. Sjórinn 12°C og ég synti, eða réttara skrifað svamlaði, út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór í sjóinn. Það tók ekki nema uþb korter. Fór beint í gufu í um tíu mínútur og svo aftur í sjóinn í um tíu mínútur. Endaði svo í pottinum í smá stund áður en ég fór upp úr og heim aftur. Stuttu fyrir tvö skrapp ég aftur út í smá göngu. Rölti upp á "veðurstofuhæð" og settist á bekk í smá stund. Þetta er það stutt frá að síminn skráði þetta ekki sem göngu. Hringdi í pabba og svo Ellu vinkonu. Pabbi var á leiðinni frá Hvolsvelli eftir að hafa skilað inn gögnum og sótt um að endurnýja ökuleyfið sitt. Ella vinkona var í sólbaði og sagði að það væri í fyrsta skipti síðan ég var hjá henni í maí sem það væri sólbaðsveður. Sagði henni frá að ég hefði verið að finna heimatilbúið 37 ára afmæliskort með fallegri kveðju vegna tvítugs afmælis í. Eftir símtölin hélt ég göngunni áfram og labbaði um 2km á uþb 25 mínútum. Afgangurinn af gærdeginum leið frekar hratt við alls konar dútl.

27.6.25

Föstudagur

Ég var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Gerði lóðaæfingar með þyngstu lóðunum og synti einnig hefðbundinni morgunrútínu. Var kannski heldur lengi að vafra í netheimum því klukkan var orðin meira en hálfátta þegar ég mætti í Laugardalslaugina. Þar fór ég beint á braut 6 og synti 700m, flestar ferðir á bakinu. Fór fjórar ferðir í þann kalda og þvoði mér um hárið. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar ég lagði af stað heim. Upp úr klukkan tólf skrapp ég með einn poka af textíl í fatagáminn í Eskihlíð og kláraði lítinn gönguhring í leiðinni á uþb tuttugu mínútum. Mikið meira er svo sem ekki að frétta af gærdeginum sem leið þó ógnar hratt við alls konar dútl. M.a. kláraði ég að lesa bókina Fuglinn í fjörunni.

26.6.25

Endurnýjað árskort í Nauthólsvík

Í fyrrakvöld var ég sofnuð rétt upp úr klukkan tíu. Rumskaði svo á þriðja tímanum. Skrapp fram á baðherbergi til að tæma blöðruna. Tókst ekki að sofna þegar ég skreið aftur upp í rúm svo ég greip í bókina sem ég er að lesa sem heitir á frummálinu; The Long Call. Þetta er ríflega fjögurhundruð blaðsíðna bók og þegar ég byrjaði á henni fannst mér ég kannast við efnið. Hafði þó ekki lesið hana áður en það er búið að gera þætti um þessa bók sem finna má í sarpinum hjá sjónvarpi símans. Það er samt það langt síðan ég horfði á þá þætti að ég er man ekki hver ódæðismaðurinn er. Ég las líklega í svona hálftíma og sofnaði sem betur fer fljótlega eftir það. Klukkan var að verða hálfátta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Á tíunda tímanum bjó ég mér til hafragraut og svo var ég mætt á planið við Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Kaldapotts vinkona mín var þegar mætt. Ég byrjaði á því að endurnýja árskortið. Það var fjara, sjórinn 11°C og yfir tuttugu bátar á voginum. Við Hrafnhildur fórum þrisvar sinnum í sjóinn og tvisvar í gufuna. Vorum að njóta alveg til klukkan rúmlega hálftólf. Þegar ég kom í bílinn aftur tók ég mynd af kvittuninni fyrir árskortinu og sendi á RB því á eftir að nýta hluta af íþróttastyrknum og hann má nýta á meðan maður er á starflokum hjá fyrirtækinu. Sá líka að ég hafði fengið skilaboð eða réttara sagt fyrirspurn frá formanni starfsmannafélagsins en hún var að spyrja hvernig ég hefði það. Svaraði þeim skilaboðum. Hringdi svo í eina fyrrum samstarfskonu sem líka er á starfslokasamningi og spjallaði við hana á meðan ég keyrði vestur í bæ til að versla í Krónunni við Fiskislóð. Kom heim um eitt leytið. Eftir það fór dagurinn í alls konar dútl. M.a. hringdi ég í pabba minn. Ekkert varð úr því að ég færi neitt út aftur svo skrefafjöldi gærdagsins náði rétt yfir tvöþúsundþrjúhundruðogþrjátíu en þá eru reyndar ótalin þau skref sem ég tók á meðan ég var að vappa um í Nauthólsvík um morguninn, í og úr sjónum, gufunni og pottinum. 

25.6.25

Klukkan alveg að verða átta

Það er rétt rúmur klukkutími síðan ég fór á fætur. Fyrir klukkan sjö og því alls ekki eins snemma og í gærmorgun en þá var klukkan ekki orðin hálfsex þegar ég var klædd, búin að búa um og gera nokkrar lóða æfingar. Ég var komin í Laugardalslaug rétt upp úr klukkan sjö. Hitti konu sem ég var ekki búin að hitta lengi en hitti nokkuð reglulega áður fyrr. Hún var reyndar á leiðinni upp úr en við spjölluðum samt saman í nokkrar mínútur. Þessi kona er föðursystir Hreims í Landi og sonum. Svo fór ég beint á braut 7 og synti í hálftíma, 600m. Fór 3x6mínútur í þann kalda og að sjálfsögðu bæði í sjópott og gufu. Var alveg um tvo tíma í sundi. Kom heim um hálftíu. Um hálftvö lagði ég af stað í göngutúr með hálftóman, gamlan sundpoka á bakinu því markmiðið var að labba m.a. í Fiskbúð Fúsa. Fór ekki alveg stystu leið en var þó aðeins tæpar tuttugu mínútur á leiðinni. Verslaði mér harðfisk, ýsu í soðið, nokkrar fiskibollur, gulrætur, tómata og tvær sítrónum. Labbaði svo aðra leið heim. Stoppaði í smá stund á Klambratúninu þar sem ég hitti unga konu með 4 ára son sinn, Odd. Og það kom í ljós að bróðir konunnar hafði verið í sama árgangi og tvíburarnir mínir í Hlíðaskóla og millinafnið hans er Oddur. Ég kom heim fyrir klukkan þrjú og fór ekki aftur út. Dagurinn leið engu að síður hratt við ýmiskonar dútl. 

24.6.25

Nýr mánuður eftir viku...

...og þessi sem var að byrja? Hvernig í ósköpunum getur tíminn spanað svona hratt áfram? Líklega á maður alls ekki að skilja það, heldur bara njóta hvers dags eins og hann mætir manni. Í gærmorgun var ég mætt í sund upp úr klukkan hálfsjö. Fór beint á braut 7 og synti 500m. Eftir fyrri ferðina í þann kalda fór ég beint í sjópottinn. Þar hitti ég fyrir konu sem heitir Sigrún og er hún númer eitt af amk 5 með þessu nafni sem ég hef kynnst í sundi. Við spjölluðum um ýmislegt í ca korter en þá fór ég seinni ferðina í þann kalda og svo smástund í gufu. Var mætt í osteostrong tíma á slaginu klukkan hálfníu. Einn var á undan mér í röðinni en tíminn sem ég þurfti að bíða var ekki mjög langur. Sló met á tveimur tækjum af fjórum, m.a. á það tæki sem ég sló ekki met á í síðustu viku. Var komin heim korter yfir níu. Lánaði Oddi bílinn stuttu fyrir tíu. Hann hafði verið boðaður í atvinnuviðtal vestur í bæ. Þegar hann kom til baka var hann ekki hress með það viðtal, sagðist aðeins hafa verið spurður einnar spurningar og svo sendur í burtu. Án þess að fara út í þá sálma nánar þá fann ég alveg til með honum en benti honum samt á fleiri sjónarhorn heldur en hans. Honum fannst semsagt viðbrögðin við svari sínu á spurningunni út í hött. Fljótlega eftir hádegið fór ég með gler og málm í gáma sem standa við upphafsenda Eskihlíðar og notaði svo tækifærið og fór í smá göngutúr yfir brúna við Landsspítalann, upp á Barónsstíg, niður Eiríksgötu, undir brúna Snorrabrautsmeginn á gatnamótum og inn á Klambratún. Þar settist ég aðeins niður, reif upp símann og söng afmælissönginn fyrir Bríeti frænku þegar hún svaraði símanum. Síminn skráði á mig tvær lotur af göngu, önnur rúmir 2km hin tæpur 1km. Var komin heim aftur á þriðja tímanum. Restin af deginum fór í alls konar dútl. Var komin í háttinn um hálftíu og kláraði enn eina bókina; Flot. Þetta er fyrsta skáldsaga höfundar og hún er mjög áhugaverð.

23.6.25

Í rauða bítið

Já, ég er komin á fætur og meira að segja búin að gera lóðaæfingar og sinna morgunverkunum á baðherberginu. Klukkan rétt nýlega orðin hálfsex. Ég var ekki alveg svona snemma á fótum í gærmorgun en skrapp þó fram að tæma blöðruna um sex. Fór ekki á fætur fyrr en rúmri klukkustund eftir það. Pabbi var búinn að koma fram til að taka niður helstu tölur og fá sér eitthvað. Hann kom svo aftur fram um níu leytið. Þá var ég búin að vera að vafra á netinu. Skömmu síðar lagði ég fyrsta kapal dagsins og hann gekk upp. Kláraði afganginn af fiskréttinum í hádeginu. Seinni partinn, eða á fimmta tímanum afhýdd ég, skar niður sæta kartöflu og sauð á meðan pabbi grillaði. Kvaddi hann svo um sex leytið og brunaði í bæinn. Var komin heim skömmu áður en N1 sonurinn kom af vinnuvakt.

22.6.25

Hjá pabba

Jæja, nú brá svo við að ég svaf þar til klukkan var langt gengin í sjö í gærmorgun. Stytti morgun rútínuna þannig að ég var örugglega mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um átta. fór beint á braut 7 og synti í hálftíma áður en ég fór fyrri sex mínútna ferðina í þann kalda. Ætlaði reyndar ekki að vera alveg svo lengi í þeim potti en lenti á spjalli og gleymdi tímanum aðeins. Fór að sjálfsögðu í gufu og sjópott líka. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar um tíu. Var með íslensku útgáfuna af Kon Tiki með mér. Lásum meira í þeirri bók en þó eina bls. í esperanto útgáfunni. Kvaddi um ellefu leytið og kom við á AO við Öskjuhlíð til að fylla á tankinn sem reyndar var bara hálfur og hefði alveg dugað í það ferðalag sem ég var á leið í austur yfir fjall (og svo til baka í kvöld). Lagði af stað austur upp úr klukkan tólf og kom við í Fossheiðinni. Þar stoppaði ég í um klukkustund áður en ég hélt för áfram. Þegar ég kom á Hellu til pabba var hann að horfa á þátt í sjónvarpinu um Hákon heitinn Aðalsteinsson. Ég horfði með honum en þegar þátturinn var búinn lagði ég nokkra kapla, vafraði aðeins á netinu og greip líka í saumana mína. Um hálfsex eldaði ég handa okkur fiskrétt. Vorum búin að borða og ganga frá eftir okkur um hálfsjö.

21.6.25

Sumarsólstöður

Mér fannst ég vakna heldur snemma í gærmorgun. Klukkan var varla orðin fimm þegar ég rumskaði. Skrapp aðeins á salernið og reyndi svo að kúra mig niður aftur. Varð fljótlega ljóst að ég væri ekkert að fara að sofna aftur svo ég greip í bók og las þar til klukkan var að verða sex. Þá fór ég á fætur og sinnti rútínunni. Föstudagar eru líka orðnir sjósundsdagar svo ég var ekki að fara út úr húsi fyrr en stuttu fyrir tíu en tíminn fram að því leið mjög hratt. Fékk mér gríska jógúrt með chia fræjum, granatepli, bláberjum og kasew-hnetum og eina sneið af kaldri lifrarpylsu um hálftíu. Var komin út í sjó í Nauthólsvík rétt rúmlega tíu og synti að þessu sinni alveg út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór í sjóinn. Kom heim aftur upp úr klukkan hálftólf. Það stóð alveg til að skreppa aftur út í smá göngu en einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fór ekkert út aftur. Dagurinn leið samt alveg óhugnanlega hratt við alls konar dútl.

20.6.25

Aftur á safnið

Dagarnir byrja yfirleitt snemma hjá mér. Þegar ég glaðvakna áður en klukkan er orðin sex veit ég að það er best að drífa sig á fætur, sinna morgunrútínunni og takast á við daginn. Klukkan var aðeins byrjuð að ganga átta í gærmorgun þegar ég lagði af stað í sundið. Hún var orðin hálfátta þegar ég labbaði úr sturtuaðstöðunni og út á sundlaugarsvæðið. Skannaði yfir brautirnar og sá svo konu sem ég kynntist fljótlega eftir að ég byrjaði að stunda Laugardalslaugina reglulega fyrir meira ein tíu árum síðan. Þessa konu hafði ég ekki hitt síðan Covid byrjaði en ég hringdi reyndar í hana um daginn. Hún var að klára sína sundrútínu en við spjölluðum í smástund áður en hún kvaddi og ég dýfði mér fyrstu ferðina í þann kalda. Korter í átta fór ég á braut 7 og synti í hálftíma, 600m, flestar ferðir á bakinu. Kalda potts vinkona mín var mætt þegar ég var búin að synda og við gáfum okkur góðan tíma í alla potta- og gufu rútínu. Klukkan var orðin tíu þegar ég labbaði út úr klefanum, klædd og með nýþvegið hár. Þá var ég búin að vera amk tvo og hálfan tíma í sundi. Ég var með bókasafnspokann með mér í bílnum og í honum 7 af 9 bókum. Fór beint á Kringlusafnið að skila þessum bókum og ætlaði að fá íslensku útgáfuna af Kon-Tiki aftur að láni. Fann hana á sínum stað og sex aðrar bækur þar af eina sem var með 14 daga skilafresti; Seint og um síðir eftir Klaire Keegan. Hún hefur að geyma þrjár smásögur um samskipti kynjana og kláraði ég að lesa þær allar í gær. Hinar fimm bækurnar eru; Ljósbrot eftir Ingileif Friðriksdóttur, Flot eftir Rebekku Sif Stefánsdóttur, Morðin í Aare eftir Viveca Sten, Í skugga tránna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Kona eftir Annie Ernaux. Sú síðast nefnda er þýdd úr frönsku af Þórhildi Ólafsdóttur. Kom út á frummálinu 1987 en á íslensku 2023. Höfundur er Nóbelsverðlaunaskáld og skrifaði þarna um samskipti sín við móður sína. Ég er líka búin að lesa þessa bók og mæli alveg með henni. Rétt áður en ég kom heim af safninu hringdi ég í pabba. Hann hafði skroppið í bæinn á miðvikudagsmorguninn því hann átti tíma hjá augnlækni. Læknirinn vilda meina að svo virtist sem augun í pabba væru mun yngri en kennitalan hans sagði til um. Pabbi sagði mér líka að það var bakkað á bílinn hans en það sá reyndar minna á hans bíl heldur hinum bílnum. Klukkan var byrjuð að ganga þrjú þegar ég skrapp út í göngutúr. Labbaði tæpa 4km á rúmum þremur korterum.

19.6.25

Útitekin

Dagurinn í gær byrjaði stuttu fyrir klukkan sex. Þegar ég var komin á fætur byrjaði ég á því að gera nokkrar æfingar með léttustu lóðunum. Næst lá leiðin inn í eldhús þar sem ég fékk mér sítrónuvatn. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég, að venju, inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Slökkti svo á henni rúmlega sjö og færði mig yfir í sjónvarpsstólinn, greip í saumana mína og fylgdist með Bítinu á Bylgjunni í beinni á rás 8. Oddur kom fram upp úr klukkan hálfátta og klukkutíma síðar fór hann af stað í strætó til að vera kominn á Grensásveg um níu. Á tíunda tímanum útbjó ég mér hafragraut og svo var ég mætt í Nauthólsvík á slaginu tíu. Sjórinn var rétt rúmlega 12°C. Það var flóð og ég fór tvisvar sinnum tíu mínútur út í. Hélt mig nálægt landi og garðinu því það var mikið um bátaferðir á voginum. Eftir sjósundsferðina kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og ýsu í soðið. Oddur hafði samband skömmu síðar, var búinn á námskeiði dagsins og ég sótti hann. Um leið og við komum heim setti ég upp kartöflur og fiskinn í pott. Bauð Oddi að borða með mér en hann afþakkaði. Um tvö leytið skrapp ég í hálftíma göngutúr, smá hring í hverfinu. Næstsíðasta bókin af safninu, Skuggadrengur, er það spennandi að ég er að nálgast það að verða hálfnuð með hana. Það er frekar erfitt að leggja hana frá mér en ég greip samt oft í saumana mína í gær og dútlaði við ýmislegt annað en lestur. 

18.6.25

Sjósundsdagur framundan

Nú brá svo við að ég svaf svolítið frameftir í gærmorgun miðað við flesta daga. Var þó komin á fætur upp úr klukkan átta. N1 sonurinn kom fram um níu og lagði af stað á vinnuvakt rúmum hálftíma síðar. Ég komst að því að ég þekki ekki tærnar mínar í sundur því það var víst miðju-táin sem var með stóra blöðru. ég stakk á blöðruna, þurrkaði upp það sem vætlaði úr henni og setti plástur á tána. Það hafði annars verið í skoðun hjá Viðeyjargenginu að skreppa út í Viðey á þjóðhátíðardaginn. Sú hugmynd var blásin af þegar í ljós kom að veðrið var ekki hagstætt slíku ævintýri. Það fór því þannig í gær að ég hélt mér heima við, fór ekki einu sinni út í göngu. Dagurinn leið engu að síður frekar hratt við allskonar og samt var ég alls ekki að vafra mikið á netinu, hvorki í símanum né tölvunni. Fylgdist með sjónvarps útsendingu frá Austurvelli milli ellefu og tólf, hlustaði á rás 2, horfði á þætti og greip nokkrum sinnum í saumana mína. Greip líka aðeins í bók en þó ekki af neinni alvöru fyrr en ég fór upp í rúm um hálftíu leytið. Á nú aðeins tvær ólesnar bækur eftir af safninu en þær eru samtals eitthvað á áttundahundrað blaðsíður. Báðar spennubækur.

17.6.25

Hæ hó jibbí jey

Var ekki komin í sund í gærmorgun fyrr en um hálfátta og samt var ég vöknuð um sex. Ég hafði samt nægan tíma til að synda 400m, skella mér í þann kalda í 4 mínútur og flatmaga í sjópottinum í 10 mínútur. Tók svo eina stutta dýfu í þann kalda á leiðinni upp úr og var mætt í osteostrong tíma upp úr klukkan hálfníu. Sló met á tveimur tækjum og var við mitt besta á því þriðja af fjórum og leiðbeinandinn hafði á orði að það hefði bara gert mér mjög gott að "hvíla" í eina viku. Ákváðum svo í sameiningu að flytja fasta tímann yfir á morgnana en fasti tíminn hefur verið á mánudögum kl 16:20 þetta uþb ár sem ég hef stundað osteostrong. Var komin heim á tíunda tímanum. N1 sonurinn var á vinnuvakt á Gagnveginum og Oddur var á námskeiði á vegum vinnumálastofnunar. Sá síðarnefndi hringdi í mig um hálftólf. Þá var ég að útbúa innkaupalista og við ákváðum að hittast í Krónunni í Skeifunni. Hann var búinn að versla sínar vörur þegar ég kom og ég afhenti honum bíllykilinn áður en ég fór inn í búð. Oddur fór með pokann sinn í bílinn og kom svo aftur að aðstoða mig. Verslaði svo sem ekki mikið en þó fyrir rúmlega ellefuþúsund kr. Oddur fékk að keyra og ég bað hann um að koma við í Kringlunni. Hann beið út í bíl á meðan ég skrapp í heilsuhúsið. Var aðallega að leita að kókosvatni sem ég hafði ekki fundið í Krónunni. Komum heim um hálfeitt. Klukkutíma síðar lagði ég af stað í göngutúr sem átti að vera rangsælis í kringum Öskjuhlíðina en hringurinn varð svolítið stærri en það því ég fór yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut og kom svo upp skammt frá "borgarspítalanum" í Fossvogi. Settist tvisvar niður á þessari leið en í seinna skipti var ég það stutt frá heimahögum að það skráðist ekki á mig ganga síðasta spölinn. En heildar skrefafjöldi dagsins fór yfir 14.320 skref og þá eru ótalin skrefin sem ég tók á meðan síminn var í búningsklefanum á meðan ég var í sundi og bílnum á meðan ég var í osteostrong. Þegar ég háttaði mig um hálftíuleytið um kvöldið fann ég blöðru á mjög skrýtnum stað á næstminnstu tánni á hægri fæti. Blaðran nær aðeins upp á nöglina hægra megin. 

16.6.25

Júní hálfnaður og eiginlega rétt rúmlega það

Var vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan sex í gærmorgun. Þegar ég mætti svo á planið við Laugardalslaugina rétt um átta voru ekki margir bílar og í smá stund hélt ég að það væri lokað. Svo var þó ekki en það var verulega rólegt fyrri klukkutímann sem ég var í sundi. Fór beint á braut 7 og synti 600m og 3x6 mínútur í þann kalda. Aðeins 10 mínútur í gufu en tuttugu mínútur í sjópottinum og svo gaf ég mér smá tíma í "sólbað" í restina. Var komin heim aftur um hálfellefu. Rétt fyrir tvö fór ég aftur út og að þessu sinni labbaði ég rangsælis í kringum flugvöllinn. Gerði smá hlé á göngunni eftir 4,3km og rúmar 50 mínútur, þá var ég rúmlega hálfnuð. Kom heim aftur um fjögur og ákvað að matreiða bleikjuflak sem ég hafði átt í frysti og tekið út um morguninn. Bauð Oddi að borða með mér, sem hann þáði þrátt fyrir að ég hafi ákveðið að sjóða bleikjuna frekar en steikja. Hringdi í pabba í gær, aðallega til að athuga hvort netmálin hjá honum væru komin í lag. Þau voru það en ekki heimasíminn.

15.6.25

Heildarfærsla no fjögurþúsundþrjúhundruðþrjátíuogfimm

Vaknaði snemma eins og oftast. Fyrsti klukkutími dagsins fór í hefðbundna morgunrútínu og smá netvafr. Svo færði ég mig aðeins yfir í stofustólinn og kveikti á sjónvarpinu til að hlusta aðeins á tónlist í útvarpinu. Var mætt í Laugardalslaugina rétt eftir að opnaði um átta. Byrjaði á að tékka aðeins á kalda pottinum áður en ég fór á braut 2 og synti í hálftíma, 600m. Fór tvær aðrar ferðir í þann kalda, eina í sjópottinn og góða gufuferð. Um tíu var ég svo mætt til norsku esperanto vinkonu minnar. Ekkert varð úr lestri þar sem hún var frekar tímabundin vegna matarboðshalds en við áttum gott spjall. Stoppaði við í rúman hálftíma. Var komin heim um ellefu. Um tvö leytið fór ég út aftur, spjallaði stuttlega við nágranna minn á neðri hæðinni sem var að sýsla úti við en lagði svo af stað í það sem átti að verða göngutúr í kringum Öskjuhlíðin. Fór upp á Bústaðaveg og gekk austur eftir honum en í stað þess að beygja til hægri við Kringlumýrarbraut ákvað ég að halda aðeins áfram. Beygði svo til vinstri við Efstaleiti, gekk um Hvassaleyti og fór yfir göngubrúna yfir Miklubraut við Safamýri. Þarna var ég búin að ákveða að athuga hvort móðurbróðir minn og fjölskylda væru heimavið en þau búa í Álftamýrinni. Hringdi á bjöllunni hjá þeim um þrjú. Frændi minn og konan hans voru heimavið að bíða eftir að heyra frá manneskju sem ætlaði að leigja af þeim pláss í nokkra daga. Ég stoppaði í hátt í tvo tíma. Allan þann tíma heyrðist ekkert frá manneskjunni en yfirleitt er verið að bóka svona skammtímaleigu um þrjú leytið. Göngutúrinn til frændfólksins tók mig um fjörutíu mínútur en frá þeim var ég svo um tuttugu mínútur að labba heim. 

14.6.25

Veðrið mjög gott

Var komin á fætur stuttu fyrir klukkan sex. Sinnti hefðbundinni morgunrútínu fyrsta klukkutímann en kveikti svo á sjónvarpinu, stillti á Bítið á Bylgjunni og greip í saumana mína. Upp úr klukkan níu bjó ég mér til hafragraut og svo var ég mætt í Nauthólsvík tíu mínútum fyrir opnun en samt á eftir kalda potts vinkonu minni. Sjórinn var 11°C og við fórum þrisvar sinnum út í, tvisvar í pottinn og einu sinni í gufuna. Var komin heim um hádegisbilið. Um hálftvö leytið setti ég nokkra hluti í léttan bakpoka og labbaði af stað í átt að miðbænum. Þegar ég var komin að Hallgrímskirkju ákvað ég að hringja í eina vinkonu sem ég kynntist í gegnum bréfaskriftir þegar við vorum líklega 11-12 ára. Hún er árinu yngri en ég, hafði fundið nafnið í barnablaðinu á sínum tíma þar sem ég óskaði eftir pennavinum. Sumarið sem við vorum 14 og 15 ára vorum við báðar í Kaupmannahöfn og hittumst amk tvisvar sinnum. Ég og systir mín vorum hjá móðursystur okkar inn í borginni en hún hjá frændfólki í einu af úthverfunum. Þessi vinkona mín er m.a. fasteignasali í dag og ég hringdi í hana til að leita ráða hjá henni. Úr varð næstum því klukkutíma samtal bæði um erindið og annað. Á einum tímapunkti hélt á göngunni áfram og þegar við kvöddumst var ég komin niður á Lækjargötu. Stoppaði við hjá vinkonunni sem er með einn sölubás þar skammt frá. Eftir mjög gott stopp hélt ég göngunni áfram og ákvað að ganga framhjá Hörpu og eitthvað meðfram sjónum að Höfða. Þar beygði ég upp og lokaði hringnum um Katrínatún, Nóatún og Lönguhlíð. Kom heim um hálffimm. Síminn skráði á mig þrjár göngulotur, alls tæpa sex kílómetra.  

13.6.25

Föstudagsmorgunn

Þótt ég væri komin á stjá upp úr klukkan sex í gærmorgun var ég ekki mætti í sundið fyrr en stuttu fyrir klukkan átta. Þar byrjaði ég á ferð í kalda pottinn áður en ég fór á braut 7 og synti 700m, flesta á bakinu. Fór tvær aðrar ferðir í þann kalda, var góða stund í gufunni og uþb 10 mínútur í sjópottinum. Settist smá stund á stól áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Kom heim rúmlega tíu. Rétt rúmum klukkutíma síðar skrapp ég út í göngutúr sem ég skipti upp í tvær lotur því ég tók smá pásu þegar ég var uþb hálfnuð. Annars er ósköp fátt að frétta af gærdeginum. Hringdí í pabba. Heimasíminn hans virkar ekki og hefur ekki gert síðan í rafmagnsleysinu sl. þriðjudag. Það er sennilega tæknimál sem einhver í þjónustuveri símans getur lagfært. Pabbi var annars hress og var rétt ófarinn á haugana með garðúrgarginn eftir sláttinn.

12.6.25

Hundraðsextugastiogþriðji dagur ársins

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærorgun. Fyrsta klukkutímann notaði ég í hefðbundna rútínu. Síðan fylgdist ég aðeins með "Bítinu" á Bylgjunni á rás átta á sjónvarpinu og greip í saumana mína í leiðinni. Um níu leytið bjó ég til hafragraut og um tíu var ég mætt í Nauthólsvík. Afar fáir voru mættir svona rétt eftir opnun en ég var þó ekki ein. Fór tvisvar í rúmlega níu gráðu heitan sjóinn, einu sinni í gufu og einu sinni í pottinn. Var komin heim aftur um hálftólf. Fór ekkert út aftur en lánaði Oddi bílinn um miðjan dag. Dagurinn leið frekar hratt. Hringdi stuttlega í æskuvinkonu mín sem ég heimsótti í sl. mánuði, greip af og til í sauma, horfði á þætti, hlustaði á þætti og gerði smávegis af því sem ekki má skrifa um. 

11.6.25

Rafmagnsleysi í rúma þrjá tíma

Rumskaði aðeins um fimm leytið í gærmorgun og aftur um sex. Kúrði aðeins lengur undir sæng en var komin á fætur fyrir klukkan sjö. Þá var pabbi löngu farinn í sitt sund. Hann kom til baka upp úr klukkan átta og setti ryksugu-rúmbuna af stað. Um níu kom stúlkan sem skúrar hjá honum hálfsmánaðarlega. Hress stúlka sem vann vel og var ekki lengi að hlutunum. Pabbi færði til dót og settist svo í ruggustólinn sem hann hafði fært yfir á teppið í stofunni. Ég passaði mig líka að vera ekki fyrir. Þegar stúlkan var að skúra í kringum pabba hafði hún á orði að hann væri bara glaðvakandi. Það var víst oft í vetur sem pabbi sofnaði um leið og hann settist niður. Pabbi svaraði því til að hann væri alveg glaðvakandi og með allra hressasta móti. Stuttu eftir að stúlkan var búin og farin fór rafmagnið. Klukkan var ekki orðin tíu og klukkan var byrjuð að ganga tvö þegar rafmagnið kom loksins á aftur. Þetta var vegna bilunar, slitinnar bugtar, í Hvolsvallarlínu 1. Engin hringtengin var vegna viðhalds og viðgerða í tengivirki við Hellu. Rafmagn fór af á mjög stóru svæði og það var ekki hægt að keyra upp varaafl nema á stöku stað. Pabbi fór því ekkert í Kanslarann í hádeginu í gær. Þegar rafmagnið kom á aftur var þónokkuð vesen að koma nettengingunni á sjónvarpið en það tókst þó á endanum án þess að fá tæknilega aðstoð. Ég pakkaði niður og kvaddi pabba um hálffimm leytið. Ekkert stæði var laust í minni götu svo ég lagði bílnum við Blönduhlíð og fékk Odd til að koma á móti mér og taka stóru töskuna.

10.6.25

Sláttur

Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Gærdagurinn var rólegheita dagur að mestu. Eftir hádegi fékk ég þó að hjálpa pabba við að slá garðblettinn fyrir aftan hús. Áður en hægt var að byrja, þ.e. halda áfram frá því þar sem pabbi hætti í fyrradag, þurfti að hreinsa vélina og hún var frekar lengi að komast í gang. En þegar búið var að hreinsa, bæta á olíu og skipta um kerti gekk allt vel. Tæma þurfti sláttuvélar-grassöfnunarboxið eftir hvern hring og þegar pabbi var búinn að fara tvo hringi fékk ég að prófa. Prófaði alveg þar til búið var að slá blettinn og svæðið undir snúrunum bak við skúr. Pabbi vildi þó fá að hjálpa til við að tæma boxið og setja vélina aftur í gang inn á milli. Vorum búin um þrjú og settumst þá sunnan undir hús þar til ský dró fyrir sólu. Um fimm leytið setti ég upp saltfisk og sauð kartöflur, rófubita og bita af hálfri sætri kartöflu með í sama pottinum. Annars fór dagurinn í að leggja kapla, vafra á netinu, sauma út og lesa. Helga systir hringdi í pabba. Þar gránaði yfir í fyrrinótt. Þau eru annars búin að fjárfesta í dráttarvél.

9.6.25

Annar í hvítasunnu

Rumskaði stuttlega þegar ég heyrði stofuklukkuna slá fimm högg í gærmorgun. Ekkert svo löngu síðar, að mér fannst, heyrði ég stofuklukkuna slá sjö högg. Eftir það gat ég ekki sofnað aftur og dreif mig því á fætur. Er með 1,5kg lóðin með mér og gerði æfingar með þeim fyrst áður en ég fór fram, kveikti á tölvunni hans pabba. Meðan tölvan var að ræsa sig sinnti ég hefðbundum morgunverkum. Annars var gærdagurinn í heildina með rólegra móti. Skrapp þó í smá göngutúr meðfram ánni og lítinn hring um hálftvö leytið. Seinni partinn tók pabbi fram grillið og ég skrældi, skar niður og sauð hálfa sæta kartöflu. Vorum búin að borða fyrir klukkan sex. Horfðum bæði á annan þáttinn af "Systraslagur" og "Ferðabók Gísla Einarssonar". Fór óvenju seint í háttinn og klukkan var örugglega búin að slá tólf högg áður en ég sofnaði. 

8.6.25

Iss

Gærdagurinn hófst um sex í gærmorgun. Steingleymdi að gera lóðaæfingar en önnur morgunrútína var hefðbundin. Var mætt í sund rétt eftir opnun og fór beint á braut 8. Skömmu síðar fylltust þrjá brautir, 5-7, af ungu sundfólki sem var mætt á útiæfingu þar sem eitthvað var um að vera í innilauginni. Einn af þeim sem var fyrir á braut 7 þegar æfingin byrjaði var alls ekki ánægður og það kom til orðaskipta milli hans og eins ungs þjálfara. Ég hélt mínu striki ásamt nokkrum öðrum á braut 8. Synti í hálftíma, 600m, og veit ekki hvort þessi sem þurfti að hrökklast af braut 7 kláraði sitt morgunsund á einnhverri annarri braut. Þjálfarinn hafði sagt að þessar brautir væru fráteknar en þá hafði láðst að stilla upp skiltinu sem yfirleitt er notað ef sundæfingar fara fram á einhverjum brautum í útilauginni. Var mætt til nosrku esperanto vinkonu minnar rétt rúmlega tíu. Stoppaði hjá henni í rúmlega klukkustund og við lásum þrjár bls. í Kon-Tiki. Þegar ég kom heim um hálftólf kláraði ég að pakka niður í stærri töskuna. Kvaddi Odd um tólf leytið, fermdi bílinn og kom við hjá N1 syninum við Gagnveg áður en ég brunaði austur. Notaði tækifærið til að athuga með þrýstinginn á dekkjunum. Var komin til pabba um tvö leytið. Hann var ekki inni en þó ekki langt undan. Hann hafði skroppið í Bauhaus í Reykjavík í vikunni og keypt sér nýtt sláttuorf sem hann var að nota í fyrsta skipti. Tók sér nokkrar pásur við verkið en kláraði þó og reif þá fram sláttuvélina. Sláttuvélin gafst hinsvegar upp áður en pabbi náði að klára að slá blettinn á bak við hús. Var með soðin þorsk og sætar kartöflur í kvöldmatinn. 

7.6.25

Nefnilega

Það sem þessi tími þeytist áfram við leiki og störf, aðallega leiki. Næstum því sex vikur síðan mér var sagt upp og mér finnst ég enn vera í fríi og eiga eftir að gera svo margt í því fríi. Flesta daga er ég glaðvöknuð frekar snemma og gærdagurinn var einn af þeim flestu dögum. Morgunrútínan var samt ekki 100% hefðbundin. Sleppti lóðaæfingum viljandi, kallaði það eins konar hvíldardag. Ég fór heldur ekki í sund því við kaldapotts vinkona mín vorum búnar að mæla okkur mót í Nauthólsvík þegar opnaði þar. Á sjósundsdögum þarf ég að passa að vera búin að fá mér að borða áður en ég fer að heiman. Í gær fékk ég mér gríska jógúrt með chia fræum, kasjúhnetum, smá granateplum, bláberjum og fleiru sem mér finnst gott að blanda við og hefur góð áhrif á mallakútinn. Var komin í Nauthólsvík rétt fyrir opnun og þar beið kaldapotts vinkona mín. Það var mun rólegra á svæðinu þótt við værum ekki alveg einar. Sjórinn innan við tíu gráður og við fórum þrisvar sinnum í hann, einu sinni í lónið, tvisvar í gufuna og tvisvar í pottinn. Gáfum okkur extra góðan tíma líkt og á miðvikudaginn í síðustu viku og vorum tæpa tvo tíma. Á heimleiðinni kom ég við á tveimur stöðum. Seinni staðurinn var Fiskbúð Fúsa þar sem ég keypti m.a. harðfisk. Kom heim upp úr klukkan hálfeitt. Fór ekki aftur út fyrr en rétt fyrir fjögur en þá fór ég í göngutúr, stóran hring í kringum Öskjuhlíðina. Þegar ég var rúmlega hálfnuð settist ég smá stund á bekk við HR þannig að símtækið skráði á mig tvo mislanga göngutúra; 3,78km og 1,88km samtals á uþb 5 korterum. Klukkan var næstum því hálfsex þegar ég kom heim aftur. Horfði á vináttulandsleikinn í fótbolta karla við Skota en var líka að lesa. Þegar seinni hálfleikur var nýlega byrjaður hringdi fyrrum samstarfskona og jafnaldra úr kortadeild í mig og við spjölluðum saman í þrjú korter. Það var annars svo merkilegt að mér hafði verið hugsað til hennar tveimur tímum fyrr en endað þá hugsun á að hún myndi örugglega hringja fljótlega í mig.

6.6.25

Nokkrir

Þar sem ég var glaðvöknuð um fimm í gærmorgun en ekki alveg tilbúin að fara á fætur byrjaði ég daginn á því að lesa. Svo sinnti ég hefbundinni morgun rútínu áður en ég fór í sund um hálfátta. Það var búið að setja kaðal á milli brauta 7 og 8 sem er mjög sjaldgæft. Ég synti 300m á braut 8 áður en ég færði mig yfir á braut 7 og synti 400m í viðbót. Fór tvisvar í þann kalda, um 20 mín í gufu og korter í sjópottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var komin heim á ellefta tímanum. N1 sonurinn var í vaktafríi en þegar hann fór á stjá dreif hann sig með bílinn sinn í skoðun og verslaði svo á heimleiðinni. Ég og bróðir hans skruppum á þvottastöðina Löður við Fiskislóð um miðjan dag og svo í Krónuna.

En nú ætla ég að telja upp þá fimm titla af bókasafnsbókunum sem ég er eða á eftir að lesa; Frosin sönnunargögn eftir Ninu von Staffeldt. Kom út fyrst á dönsku 2016 en á íslensku árið 2021. Skuggadrengur eftir Carl-Johan Vallgren,  Fuglinn í fjörunni eftir Ann Cleeves, Miðnæturbókasafnið eftir Matt Haig og Þegar sannleikurinn sefur eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Ég er byrjuð á síðast nefndu bókinni. Búin með tvær smásögur af 7 og alveg með hinar bækurnar af þessum sem ég minntis á í færslu gærdagsins.

5.6.25

Iða ekki í skinninu

Þótt ég hafi lagt mig í klukkutíma um miðjan dag á mánudag og verið sofnuð fyrir klukkan hálfellefu um kvöldið svaf ég alveg til klukkan sjö í gærmorgun. Var frekar hissa þegar ég vaknaði því yfirleitt er ég vöknuð áður en klukkan er orðin sex. Að sjálfsögðu sinnti ég minni hefðbundnu morgunrútínu nema ég fór ekki í sund. Borðaði afgang af hafragraut um hálftíu og var mætt í Nauthólsvík á slaginu tíu. Þar var þá þegar kominn hópur af krökkum á ýmsum aldri og umsjónafólk þeirra. Ég var komin út í sjó tíu mínútum yfir tíu og svamlaði um í rétt rúmlega 9°C sjónum í uþb tíu mínútur. Var hálftíma í gufunni en það var eiginlega eingöngu vegna þess að krakkarnir voru svolítið á rápinu út og inn og ekki alltaf að hugsa um að loka á eftir sér svo það kólnaði í rýminu inn á milli. Fór aftur í sjóinn í 7 mínútur og var svo í tæpan hálftíma í pottinum áður en ég sá að það var lag á að athafna sig í klefanum. Næst lá leiðin á bókasafnið þrátt fyrir að vera ekki búin að lesa síðustu bókina og hafa enn til þess viku. Skilaði 5 bókum af sex og kom með 8 bækur með mér heim. Ein af þeim bókum var reyndar bók með ferskeytlum og örfáum limrum sem ég renndi yfir og kláraði strax í gær. Ég kláraði reyndar líka bókina sem ekki var með skilabókunum. Nú er spennandi að vita hvað ég næ að lesa margar af bókunum á vikunni sem ég hef. Í gærkvöldi byrjaði ég á bók sem heitir; með minnið á heilanum FRÁSAGNIR ÚR FJARLÆGUM BERNSKUHEIMI eftir Þórhildi Ólafsdóttur. Þessi bók er nýkomin út og sú sem hana skrifar og er að skrifa um minningar og minningabrot frá því hún var innan við 10 ára. Áður en ég fór á fætur í morgun byrjaði ég á annarri bók; Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísbet Bragadóttur. Þetta er smásögusafn sem kom út 2020. Báðar þessar bækur eru þannig að ég mun líklega ekki vera lengi að gleypa þær í mig. Annars hitti ég einn fyrrum vinnufélaga minn á bókasafninu en hann er búinn að vinna þar í rúm þrjú ár. Var reyndar á bókabíl fyrsta árið. Kom heim um tólf. Fór aftur út um þrjú í klukkustundar göngutúr um Öskjuhlið sem skiptist í tvennt þar sem ég settist aðeins niður við svæðið þar sem flest trén voru felld í vor. 

4.6.25

Svefninn er skrýtið fyrirbæri

Þrátt fyrir mjög kaflaskiptan og eiginlega of lítinn svefn í fyrrinótt var ég vöknuð um sex í gærmorgun. Hefðbundin morgunrútína gekk vel fyrir sig en ég var mun lengur að koma mér af stað í sundið en oft áður. Var komin örfáum mínútum á undan kalda potts vinkonu minni og fór því beinustu leið í sjópottinn í staðinn fyrir að byrja á að synda. Það er líka í góðu lagi að snúa rútínu og venjum við. Fyrst í stað var ég samt ekkert viss um að ég myndi endilega synda neitt en hélt þeim möguleika opnum með því að vera með sundgleraugun vafin um vinstri úlnliðinn. Fljótlega eftir að vinkonan mætti fórum við fyrstu ferðina í þann kalda. Náðum alls fjórum ferðum, tveimur í þann heitasta og góðri gufuferð áður en hún þurfti að fara. Þá fyrst tók ég ákvörðun um að skella mér smá stund á brautir 7 og 8. Það var frekar hvasst og nokkur öldugangur í lauginni. Synti 400m. Hafði ekki haft sinnu á því að "festa" sundskóna og þeir gerðu tilraun í millitíðinni til að stinga af. Sundlaugavörður bjargaði þeim í fyrra skipti en annar skórinn fauk aftur og þá út í laug. Handsamaði hann og fann hinn fljótlega eftir að ég var búin að synda. Kom heim um hálftíu. Gærdagurinn leið svo við ýmiskonar dútl. Fann smá villu í útsaumsverkefninu og setti það aðeins til hliðar. Var að spá í að láta það vera í nokkra daga. Um tvö fór ég að finna fyrir því að ég hafði ekki sofið vel um nóttina. Lagði mig aðeins í stofusófann og svaf í uþb klukkustund. Var mun sprækari eftir að ég vaknaði aftur. Hringdí í pabba sem var að vinna að verkefni út í skúr og einnig í konu eins frænda míns sem búsett eru á Selfossi. Eftir það var ég alveg til í að laga villuna í saumaverkefninu. Horfði á landsleikinn í knattspyrnu kvenna, Ísland - Noregur 0:2.

3.6.25

Í löngu eða stuttu máli

Var vöknuð, komin á fætur og búin að gera æfingar með 2kg lóðum um sex. Klukkan var samt farin að nálgast hálfátta þegar ég dreif mig loksins af stað í sund. Synti aðeins 400m, fór tvisvar í þann kalda og 10 mínútur í sjópottinn. Í heildina tók þessi sundferð rétt rúma klukkustund og ég var mætt í osteostrong korter fyrir níu. Áður en æfingarnar þar byrjuðu var ég spurð hvort ég vildi færa tímann í næstu viku því það er annar í hvítasunnu nk mánudag og því lokað. Ég ákvað að vera ekkert að finna annan tíma þá vikuna heldur mæta aftur eftir hálfan mánuð. Kom heim um hálftíu. Hringdi fljótlega í þá þriðju sem var sagt upp í seðlaveri RB fyrir rétt rúmum mánuði. Spjölluðum í tæpan hálftíma. Hún er ekki heldur búin að tala við félagið og hefur svipaða upplifun á tímanum og ég, að hann sé að líða alltof hratt þrátt fyrir að vera ekki að vinna. Á tólfta tímanum bjó ég mér til hafragraut og um hálfeitt var ég komin í Nauthólsvík. Sjórinn rétt rúma tólf gráður og ég fór tvisvar sinnum tíu mínútur í hann, tíu mínútur í gufuna á milli ferða og var svo í næstum hálftíma í pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Áður en ég fór úr bílnum og inn gerði ég tilraun til að hringja í tvíburahálfsystur mína. Hún svaraði ekki en ég var rétt komin inn og búin að ganga frá sjósundsdótinu þegar hún hringdi til baka. Við töluðum saman í rúma klukkustund. Einhvern veginn leið svo dagurinn án þess að ég færi út aftur en það hefði auðvitað verið alveg upplagt að skreppa í stuttan göngutúr og safna fleiri skrefum. 

2.6.25

Líflegheit

Mér leist ekkert á blikuna þegar ég rumskaði alltof snemma á fimmta tímanum í gærmorgun. Skrapp á salernið og skreið svo aftur upp í rúm. Sem betur fer steinsofnaði ég aftur og vissi næst af mér rétt fyrir klukkan átta. Þá dreif ég mig á fætur. Sá vísbendingar um að pabbi væri búinn að koma fram, fá sér eitthvað og taka niður daglegu tölurnar. Um helgar fer hann svo aftur upp í og það er misjafnt hvenær hann kemur á fætur. Hann er þó oftast ekki steinsofandi heldur er að hlusta á útvarpið, dottar kannski inn á milli. Ég fékk mér sítrónuvatn og kveikti á tölvunni hans pabba. Var svo að vafra um á netinu næsta einn og hálfan tímann. Þá fékk ég mér mandarínu, harðsoðið egg og vatnsglas. Lagði nokkra kapla og fór svo aftur í tölvuna. Pabbi kom fram upp úr klukkan tíu. Eftir það færði ég mig inn í stofu. Gekk frá enda á nýjasta eldhúshandklæðinu og tók svo fram saumana. Við fengum okkur skyr í hádeginu. Um hálftvö skrapp ég út í smá göngutúr, rétt rúmlega 2,5km hring á uþb hálftíma. Ekkert löngu eftir að ég kom til baka kom Bríet frænka í heimsókn en hún og kærastinn hennar eru eiginlega flutt í sveitina hans því þau eru að hjálpa foreldrum hans við búskapinn. Systurdóttir mín var mjög hress og gaf sér góðan tíma í spjall. Lætur hátt rómur og segir svo skemmtilega frá. Hún stoppaði hátt í tvo tíma og tók eitthvað af dóti með sér þegar hún fór. Um fimm leytið setti ég upp kartöflur og steikti keilu sem ég var búin að bita niður upp úr eggi og smá hveiti sem ég var búin að krydda með best á lambið (þótt þetta væri fiskur), svörtum pipar og cayanne. Vorum búin að borða fyrir klukkan sex en ég kvaddi þó ekki fyrr en um hálfátta og var komin heim rétt fyrir níu. 

1.6.25

Óskaplega afslöppuð og vel út sofin

Í gærmorgun var ég komin á fætur og búin að gera lóðaæfingar fyrir klukkan sex. Næstu tæpu tveir tímar liðu frekar hratt. Var komin á bílaplanið við Laugardalslaug um leið og klukkan var að slá átta. Fór beint á braut 8 og synti 700m á 35 mínútum. Hitti "hlaupastrákana" mína í fyrstu ferðinni í kalda og var svo búin að vera nokkrar mínútur í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Við náðum þremur ferðum í þann kalda og góðri gufuferð áður en ég kvaddi og fór í esperanto hitting. Var komin til Inger um tíu. Hún bauð upp á hafragraut áður en við fórum með tebollana yfir í forstofuherbergið og lásum þrjár blaðsíður í Kon-Tiki. Hittingurinn varði aðeins í rúman klukkutíma en við nýttum þann klukkutíma mjög vel. Kom við á AO við Flugvallarveg/Öskjuhlíð og fyllti á tankinn. Gekk frá sund- og esperantodótinu heim, kláraði að pakka og um tólf kvaddi ég þann soninn sem var kominn á fætur og skilaði kveðju til hins. Keyrði austur um Þrengslin. Kom við í Fossheiðinni og stoppaði þar í um klukkustund. Ég var svo komin til pabba upp úr klukkan hálfþrjú. Dagurinn leið mjög hratt og þar sem veðrið var með ágætasta móti ákvað pabbi að grilla á sjötta tímanum. Ég sá um að setja upp kartöflurnar og leggja á borð. Annars fór tíminn í spjall, kaplakeppni og ég greip í prjónana mína. 

31.5.25

Sund og göngutúr í gær

Vaknaði snemma að venju. Gerði æfingar með 2 kg. lóðunum, sinnti morgunverkunum, vafraði aðeins á netinu og setti inn færslu. Var komin í sund um hálfátta. Synti 500m, helminginn á bakinu. Fór 3 sinnum 5 mínútur í þann kalda, korter í sjópottinn, annað eins í gufu og sat svo smá stund á stól og sólaði mig. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Kom heim um hálfellefu. Uþb þremur tímum seinna setti ég bók, sólgleraugu með plús 1,5 styrk og vatnsflösku ofan í gamlan, léttan sundpoka merktan Davíð Steini og labbaði af stað upp í Öskjuhlíð. Eftir hálftíma göngu fann ég mjög góðan stað í skóginum til að setjast aðeins niður, fá mér vatn og lesa í smá stund. Kom heim aftur um hálffimm. Lítið meira að frétta af gærdeginum nema ég horfði á landsleikinn í knattspyrnu kvenna milli Íslands og Noregs sem fram fór í Noregi og ég kláraði loksins að lesa næst síðustu bókina af safninu. Einnig greip ég nokkrum sinnum í saumaverkefnið yfir daginn. 

30.5.25

Rjómablíða

Gærdagurinn varð aðeins öðruvísi en ég ætlaði mér og því frekar fátt að frétta. Vaknaði snemma eins og oftast. Gerði æfingar með 2,5kg lóðum, fékk mér sítrónuvatn, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, vafraði um stund á netinu og kveikti svo á sjónvarpinu fyrir klukkan átta. Um hálftíu fékk ég mér skyr og þar sem starfsmaður í Nauthólsvík hafði sagt mér á miðvikudaginn að það væri opið alla daga frá 10-19 þá dreif ég mig þangað um tíu. Þar var amk ekki búið að opna aðstöðuna þegar ég mætti og ég kannaði það ekkert frekar hvort það væri alveg lokað í gær eða opnaði síðar. Veit að laugardalslaugin átti ekki að opna fyrr en klukkan ellefu. Ég fór því aftur heim með það á bak við eyrað að fara í göngutúr. Ekkert varð af því þó. Facebook hringdi í frænku mína í Noregi og við áttum mjög langt og gott spjall og svo togaði útsaumsverkefnið í mig lungan úr deginum sem leið alveg jafn hratt þótt ég væri ekki að gera mikið. 

29.5.25

Um gærdaginn

Vaknaði snemma eins og oftast og var búin að gera æfingar með lóð áður en klukkan varð sex. Þegar ég var búin að sinna morgunverkunum, vafra svolítið um á netinu og setja inn færslu slökkti ég á fartölvunni færði mig yfir í sjónvarpsstólinn og kveikti á sjónvarpinu. Ég var svo sem ekki bara að glápa því ég stillti sem snöggvast yfir á útvarpsrásina Bylgjuna og hlustaði um stund á morgunþáttinn með Heimi, Lilju og Ómari. Um hálftíu fékk ég mér skyr og var svo komin á planið við Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Þar beið kaldapotts vinkona mín eftir mér. Næstu tæpu tvo tímana fórum við fjórar ferðir í sjóinn (eina af þeim í lónið), tvær ferðir í gufuna og einnig í pottinn inn á milli. Ég kom heim aftur rétt fyrir tólf og borðaði þá afganginn af hafragrautnum frá því í fyrradag, kaldan. Sá svo að ég hafði fengið skilaboð frá esperanto vinkonu minni og misst af símtali frá einni annarri. Var komin yfir til Inger rétt upp úr klukkan eitt. Við fengum okkur, spjölluðum og lásum tvær bls. í Kon-Tiki. Kvaddi stuttu fyrir klukkan þrjú og datt þá í hug að athuga hvort fyrrum samstarfskona mín sem býr skammt frá væri heima. Hringdi á undan mér. Hún var að koma heim úr göngutúr. Ég stoppaði hjá henni næstu tæpu tvo tímana. Við höfðum um margt að spjalla og ég sýndi henni sumar myndirnar sem ég tók á meðan ég var fyrir norðan og austan. Á leiðinni heim um fjögur, í þungri umferð, hringdi ég svo í þá sem hafði hringt í mig á meðan ég var í sjónum. Það kom reyndar í ljós að hún hafði rekið sig í takkann á símanum um morguninn þegar hún var að fara af stað í úti-jóga tíma. Það hefði svo verið alveg upplagt hjá mér að skreppa í stutta göngu eftir að ég kom heim en einhvern veginn fór tíminn í allt annað, m.a. útsaum. 

28.5.25

Miðvikudagur

Stundum skil ég ekkert í hvað ég vakna snemma, sérstaklega ef ég hef ekki verið sofnuð fyrir klukkan hálfellefu kvöldið áður. En þegar ég er glaðvöknuð fyrir klukkan sex eða jafnvel fyrr þá þýðir sjaldan að drolla eitthvað upp í rúmi. Stöku sinnum byrja ég þó þá daginn eins og ég enda flesta daga, með því að grípa aðeins í bók. Og skrifandi um bækur þá er ég byrjuð á næstsíðustu bókinni af safninu; Stúlkurnar á Englandsferjunni eftir Lone Theils. Síðasta bókin er eftir sama höfund, Nornadrengurinn og báðar fjalla þær um blaðakonuna Noru Sand sem kalla má rannsóknarblaðamann. Þar sem ég er búin að framlengja skilafrestinum á þremur bókum af sex sem ég tók í kringum 22. apríl og er búin með eina af þremur sem ég tók 12. maí hef ég nægan tíma til að ljúka lestri áður en skilafrestur rennur út. En annars byrjaði ég gærmorguninn ekki á því að grípa í bók þótt ég væri vöknuð nokkuð snemma. Var búin að klæða mig og gera lóðaæfingar um hálfsex. Tók vissulega bók með mér inn í stofu eftir að ég var búin að fá mér sítrónuvatn og sinna morgunverkunum á baðherberginu. En tímann til sjö notaði ég í netvafr og bloggfærslu. Var komin í sund og á braut átta um tuttugu mínútur yfir sjö. Synti 600m á hálftíma, þar af næstum því 50m skriðsund. Kalda potts vinkona mín var mætt og búin að hita sig upp fyrir fyrstu ferð af fjórum í þann kalda. Fórum þrjár ferðir í þann heitasta, rúmt korter í gufu og rúmar tíu mínútur í sjópottinn. Ég var komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Fékk mér vatnsglas og glápti á einn þátt úr sarpi sjónvarps símans áður en ég fékk mér skyr. Um og upp úr hádeginu samdi ég við N1 soninn, sem var í vaktafríi, um að taka að sér að matreiða fiskrétt. Spurði hinn soninn hvort hann vildi borða með okkur síðar um daginn, sem hann  þáði. Ég skrapp því í stuttan göngu túr í Fiskbúð Fúsa og keypti kíló af þorskhnökkum. Kom við í Krambúðinni (sem áður hét Sunnubúðin) í bakaleiðinni og keypti egg. Var komin heim upp úr klukkan tvö. Einhverra hluta vegna fór ég ekki aftur út í góða veðrið heldur eyddi deginum í útsaum, gláp og smá netvafr. Davíð Steinn hafði matinn um fimm leytið, steiktan fisk með hrísgrjónum. Virkilega gott hjá honum. 

27.5.25

Ekkert að veðrinu

Var vöknuð fyrir allar aldir í gærmorgun. Skrapp á salernið um hálffimm og reyndi svo að kúra aðeins lengur. Sofnaði ekki aftur en fór ekki á fætur fyrr en upp úr klukkan sex. Um hálfátta var ég komin í sund. Hitti aðeins á sjósunds vinkonu mína og manninn hennar. Þau komu á sama tíma en fóru aðeins á undan mér. Ég var samt ekkert svo lengi í sundi. Synti 400m, fór tvisvar í þann kalda og nokkrar mínútur í sjópottinn á milli. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var komin í Hátún 12 í osteóstrong rétt rúmlega hálfníu. Fljótlega eftir að ég kom heim ýtti ég aðeins við N1 syninum, sem var á frívakt, til að athuga hvort hann ætlaði að setja í þvottavél. Svo var ekki og ég nýtti mér það. Um hádegið útbjó ég mér hafragraut. Um hálfþrjú leytið skruppum við Oddur í Krónuna við Fiskislóð. Hann notaði tækifærið og fór með nokkra poka í Sorpu. Annars fór gærdagurinn í lestur, útsaum, prjón og gláp nema ég hringdi nokkur símtöl. M.a. í systur mína sem sagði mér að nú væru aðeins þrjár óbornar kindur eftir og að ef gimbrin sem ég "bjargaði" yrði sett á í haust fengi hún líklega nafnið Sigga þar sem til er kind í hópnum sem heitir Anna. 

26.5.25

Komin heim í bili

Rumskaði um sex í gærmorgun. Heyrði umgang og vissi að systir mín var að skreppa út í fjárhús að fara yfir stöðuna þar. Hef líklega sofnað aftur því ég heyrði hana ekki koma til baka. Mér fannst ekki liðinn langur tími þegar ég dreif mig á fætur en þá var klukkan að verða átta og systir mín löngu komin inn til sín. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að skreppa út í fjárhús heldur sinni net- og bloggvenjunum mínum. Systir mín skrapp aftur út í fjárhús þegar hún kom fram á tíunda tímanum. Seint kvöldið áður og um nóttina höfðu borið 3 kindur þannig að það voru aðeins 3 kindur og einn gemsi óborið. Allt var rólegt en þegar hún skrapp út fyrr um morguninn hafði hún þurft að losa lamb sem var búið að festa sig þannig að það gat ekki losað sig sjálft. Um hálftólf kláraði ég afganginn af plokkfisknum, pakkaði niður dótinu mínu, fermdi bílinn og kvaddi mæðgurnar og mág minn. Ingvi var útivið og ég fékk hann til að athuga með loftþrýstinginn á dekkjunum áður en ég lagði af stað heim. Fór Víkurskarðið og stoppaði aðeins við hjá AO í Baldursnesi á Akureyri til að fylla á tankinn. Tankurinn hefði alveg dugað en mér finnst best að vera með fullan tank þegar ég er í lengri ferðum. Næsta stopp gerði ég ekki fyrr en við Baulu um hálffimm. Þar splæsti ég á mig fiskrétti og fékk fyrir vikið að nota salernisaðstöðuna áður en ég hélt för áfram. Ég gerði svo stopp hjá N1 við Gagnveg en það var eingöngu til að heilsa upp á N1 soninn sem var á vakt. Kom heim á áttunda tímanum og var svo heppin að fá stæði við hliðina á innkeyrslunni þannig að það var ekki langt að bera dótið inn. Þurfti þó að fara tvær ferðir þar sem ég náði ekki í Odd fyrr en ég kom inn úr fyrri ferðinni. En hann sótti ferðatöskuna, sem ég hafði skilið eftir í ganginum við útidyrnar, á meðan ég sótti afganginn af dótinu út í bíl.

25.5.25

Rigning er góð fyrir, gróður, rykbindingu og andrúmsloft

Helga var búin að fara eina ferð í fjárhúsið þegar ég kom fram á áttunda tímanum í gærmorgun. Enn sex kindur og einn gemsi óborið þannig að nóttin hafði einnig verið tíðinda lítil. Skiptumst á að kíkja á klukkutíma fresti. Ég fór þó reyndar aðeins tvær ferðir út og það var ekkert að frétta nema það þurfti að vatna í einstaka kró. Hreinsa sumar fötur og fylla aðeins á vatnsstokkana. Kindurnar héldu auðvitað ég væri komin til að gefa þeim í seinna skiptið sem ég skrapp út en ég læt unga bóndann eða bróður hans alveg um að gera það. Í stað þess að við frænkurnar færum í sund fórum við með foreldrum hennar í bíltúr. Aðal tilgangur bíltúrsins var að kíkja á markað sem er opin um helgar (fös-sun) milli eitt og fimm. Við byrjuðum hins vegar á að fara inn á Akureyri í smá útréttingar og vorum búin að stoppa stuttlega á um fimm stöðum áður en við fórum á markaðinn í Sigluvík. Þar kenndi ýmissa grasa, gaman að skoða og margar freistingar. Ég lét þó vera að fjárfesta í dóti eða bókum því ég þarf endilega að fara að fara í gegnum mitt eigið dót og grisja í því. Þá er ekki gott að bæta einhverju við. Fljótlega eftir að við komum til baka útbjó ég aftur plokkfiskrétt sem sló aftur í gegn.

24.5.25

Aftur komin í Árland

Rumskaði helst til snemma í gærmorgun, klukkan varla orðin fimm. Tókst þó að kúra mig eitthvað niður aftur en ekkert mjög lengi. Var því aftur búin að setja inn færslu áður en ég fór fram stuttu fyrir sjö. Þá var vinkona mín nýkomin fram og maðurinn hennar nýlega kominn úr ræktinni. Morgunstundin hjá okkur Ellu var notaleg og róleg framan af. Eftir að "strákarnir" voru farnir í vinnu hjálpuðumst við að við smá tiltekt. Svo sendi hún skilaboð á vinkonu hinum meginn í götunni sem hafði ekki komið í yfir síðan ég mætti á svæðið. Sú kom yfir um hæl og viðurkenndi að hafa verið feimin við að koma þegar hún sá að einhver var í heimsókn. Hún kvaddi stuttu fyrir ellefu og var þá á leiðinni í sund. Fékk mér hádegis hressingu rétt áður en Aðalsteinn kom heim í mat. Kvaddi hann um hálfeitt og Ellu ekkert svo löngu síðar, fermdi bílinn og lagði af stað til baka. Eftir rúmlega klukkutíma keyrslu stoppaði ég á útsýnis/nestisstað. Þar var rok og rigning svo ég nennti ekki út úr bílnum en hringdi í pabba. Næsta stopp gerði ég við Víti við Kröflu. Var komin í Árland til systur minnar um fimm þá nýbúin að hringja í atvinnulausa soninn. Mæðgurnar voru að búa til pizzur en mágur minn í vinnuferð í bænum en þó á leiðinni heim en það vissum við ekki akkúrat þá. Aðeins 7 kindur eru óbornar. Fór þó ekkert út í fjárhús, fylgdist bara með því fé sem var í túnunum og fellinu. Seinna um kvöldið kom maður með fjórhjól á kerru, fjórhjól sem mágur minn var að fjárfesta í til að nota við grenja-dæmi. Mágur minn kom svo heim um níu leytið með kerru í eftirdragi sem þau voru líka að fjárfesta í.

23.5.25

Góðar gæðastundir

Þegar ég kom fram um sjö í gærmorgun (reyndar búin að setja inn færslu) voru bæði Ella og Aðalsteinn komin á fætur. Hann var meira að segja búinn að fara út í hlaupatúr. Morguninn hjá okkur vinkonum leið hratt. Vorum ekkert að flýta okkur eitt né neitt. Aðalsteinn fór í vinnu um átta og Einar Bjarni klukkutíma síðar. Ella gerði æfingar og um tíu fórum við út í sólbað. Ég entist ekki lengi í sólbaðinu og færði mig fljótlega í skuggann. Fórum aftur inn um ellefu. Aðalsteinn kom heim í mat stuttu fyrir tólf. Hann ætlaði svo að skutla konunni sinni í litun og plokkun um eitt svo ég ákvað að fá mér göngutúr og skreppa í sund í leiðinni. Var kannski rúmar tíu mínútur á leiðinni í sundið. Ákvað að leigja mér handklæði og villtist svo óvart inn í rangan kvennaklefa, fór í númer 2 í stað 3 og var ekkert að kveikja á því að allir skápar í rýminu voru lausir. Það var ekki fyrr en ég var búin að fara í sturtu og komin í sundbolinn og sundhettuna að ég uppgötvaði að dyrnar út á sundsvæðið voru læstar. Sú sem afgreiddi mig í afgreiðslunni var komin í rýmið að þurrka af og rýma og hún sagði að það væri nóg fyrir mig að þurrka fæturnar áður en ég færði allt dót úr skáp 2 í rými 2 í skáp 52 í rými 3. Var byrjuð að synda rúmlega hálfeitt og synti í 25 mínútur. Fór svo nokkrum sinnum í köldu pottana og smá sólbað áður en ég fór upp úr. Var komin til baka um tvö og þá var vinkona mín komin heim. Upp úr klukkan þrjú settumst við í skotið fyrir framan hús, hún með kaffi og ég með te. Sátum þar í dágóða stund en ekki of lengi samt. Þegar Einar Bjarni er á svæðinu er það föst regla að hann sér um eldamennsku á fimmtudögum. Hann kom heim úr vinnu og búð á fimmta tímanum og byrjaði fljótlega að útbúa kjúklingarétt í ofni með sætum kartöflum til hliðar. Aðalsteinn notaði því tækifærið til að klára garðslátt þegar hann kom heim úr vinnu á svipuðum tíma. Eftir kvöldmat og fréttatíma horfðum við á Fram leggja Val í úrslitaleik í handbolta karla. Þetta var þriðji leikur liðanna og Fram vann þá alla. En þetta voru spennandi leikir. 

22.5.25

Egilsstaðir

Systir mín var að koma inn úr fjárhúsunum þegar ég kom fram um hálfsjö í gærmorgun. Ekkert hafði borið um nóttina og það var frekar rólegt í fjárhúsunum enda bara rúmlega tuttugu óbornar. Samt voru einhverjar líklegar. Kíktum samt aftur eftir ca þrjú korter, þá var enn rólegt en um níu leytið voru tvær að byrja. Yngri bróðirinn kom í hús um tíu þá var ein borin og tvær "að vinna í þessu". Hann þurfti þó að aðstoða aðra við fyrra lambið og draga seinni lömbin úr þeim. Annað af þeim lömbum kom öfugt út en var frekar lítið. Það hressist þó furðu fljótt. Ég fór inn um hálftólf, fékk mér hressingu og pakkaði flestu af dótinu mínu niður. Um hálfeitt fermdi ég bílinn, kvaddi í bili og hélt sem leið lá austur á Egilstaði. Stoppaði aðeins á einum útsýnisstað. Þar hringdi ég í pabba, teygði úr mér og tók myndir og snöpp. Var komin til Ellu vinkonu um fjögur. Skömmu síðar rak dóttir hennar inn nefið en hún var að fara að reka smá erindi fyrir mömmu sína. Eldri sonurinn er að vinna þessa dagana í nágrenninu og hann kom "heim" um fimm leytið á svipuðum tíma og Aðalsteinn. Valdís stoppaði aðeins eftir að hún var búin að reka erindið fyrir mömmu sína. Um kvöldið horfðum við á úrslitaleikinn í körfubolta karla sem var afar spennandi. Héldum öll með liðinu sem var yfir í þremur leikhlutum en tapaði með þremur stigum. 

21.5.25

Þoka

Var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Þá var Helga systir þegar búin að fara út í hús og sagði að það væri allt rólegt í bili. Hún bað mig svo um að skjótast út í hús að taka stöðuna milli sjö og hálfátta. Taldi að það ætti að vera alveg allt rólegt. Stuttu síðar sendi ég henni mynd af nýbornu lambi og sagði að það væri önnur kind byrjuð að bera og það sást ekki í fætur en var að koma haus. Ég náði ekki þeirri kind en Helga kom út tímanlega til að ná henni og ná í fætur lambsins þannig að auðveldara væri fyrir kindina að bera. Sú sem átti lambið sem var komið átti tvö önnur og þriðja kindin var komin af stað. Um níu voru komin sjö ný lömb. Veðrið hélt áfram að vera einstaklega gott og við systur gátum setið sunnan undir vegg, lon og don. Ég passaði mig þó að sitja ekki of lengi. Hulda frænka tók að sér að baka súkkulaði-skúffuköku. Seinna um daginn þurftu bræðurnir að fara með eina kind til dýralæknis á Akureyri þar sem þurfti að gera keisaraskurð. Á meðan þeir voru þar bar önnur þrílemba, ein tvílemba og ein einlembd með stórt lamb var komin af stað. 

20.5.25

Gott veður dag eftir dag

Í gærmorgun voru sennilega rúmlega þrjátíu kindur og ca 10 gemsar enn eftir að bera. Meiri hlutinn búinn og þar sem veðrið er svona gott dag eftir dag er búið að hleypa ansi mikið af borna fénu út. Það er líka gaman að sjá kindur og lömb hoppa og skoppa um á túnunum. Þau verða ekki rekin upp í fjall fyrr en í júní og þegar allt er borið. Fór þrjár ferðir með systur minni í fjárhúsin í gærmorgun. Ein tvílemba bar og einn gemsi sýndi merki þess að vera að byrja. Yngri bróðirinn kom út rétt fyrir tíu og þá ákvað ég að ræsa systurdóttur mína og skreppa aftur inn á Húsavík í sund. Vorum komnar þangað á tólfta tímanum og þá var sundleikfimi í fullum gangi. Byrjuðum því á að sóla okkur og ég fór amk fjórar ferðir í köldu tunnuna. Korter fyrir tólf var hægt að synda með lagni, leikfimin búin en eitthvað af fólkinu var að sóla sig í sundlauginni, pottarnir líklega of heitir. Ég synti í tæpt korter. Um svipað leyti og ég hætti komu heilu grunnskólabekkirnir. Krakkarnir voru ekki að koma í sundkennslutíma heldur var boðið upp á froðu rennibraut norðan við sundlaugarsvæðið og svo máttu þau auðvitað fara í rennibrautirnar, pottana og sundlaugina. Eftir rúman einn og hálfan tíma í sundi ákváðum við frænkur að þetta væri gott og drifum okkur upp úr áður en krakkahópurinn kom inn í sturtu. Þvoði mér um hárið og svo komum við við í Nettó áður en við fórum aftur í sveitina. Ég fór ekki aftur í fjárhúsin en um miðjan dag ákvað ég að gera vöfflur og þrefalda uppskriftina. Mágur minn kom heim úr vinnu stuttu áður en staflinn var tilbúinn. Allir komu inn að drekka og þótt ég væri ekki að borða nema minnstu vöffluna kláraðist staflinn. Ég sá svo líka um kvöldmatinn, plokkfisk. Hafði laukinn og kartöflurnar alveg sér og þar sem annar bróðirinn borðar ekki lauk hafði hann á orði að þetta væri besti plokkfiskur sem hann hefði smakkað. Við mágur minn hjálpuðumst að við að ganga frá eftir matinn því systir mín og bræðurnir fóru út í hús þar sem þrír gemlingar voru að bera. Hulda frænka setti fasta fléttu í hárið á mér í gærkvöldi. 

19.5.25

Ofur gott verður

Rumskaði um hálfsex í gærmorgun, sennilega um það leyti sem eldri bróðirinn (ungi bóndinn) kom inn af næturvaktinni. Vissi ekki að hann lét systur mína vita að það væri allt rólegt og ekki þyrfti að fara strax út í hús. Um sex heyrði ég annan umgang en þegar ég kom fram skömmu síðar til að sinna morgunverkunum á baðherberginu var lokað inn í hjónaherbergi og ég vissi að það væri ekki neinn farinn út. Ákvað að hinkra aðeins til að setja inn færslu. Upp úr klukkan hálfsjö var enn engin hreyfing svo mér datt í hug að kíkja út og taka stöðuna í fjárhúsunum. Var komin út korter fyrir og innan við fimm mínútum síðar hringdi ég í systur mína. Það var ein byrjuð, hausinn á lambinu kominn en bara einn framfótur. Mér leyst satt að segja alls ekkert á blikuna en fór niður í króna til að athuga hvort ég gæti gert eitthvað. Það var ekki hægt að troða öllu inn til að ná í hinn fótinn enda reyndi ég það ekki heldur togaði í lambið þegar kindin var að rembast. Togaði ekki fast og passaði að toga niður á við. Í þriðju tilraun og rétt áður en systir mín kom var nokkuð stór en mjög þrekuð gimbur komin og kindin staðin upp og byrjuð að kara það. Það kom í ljós að þetta var kind frá systur minni, Ída, og aðeins með eitt lamb. Það tók lambið þó nokkra stund að jafna sig en sem betur fer braggaðist það. Þarna hefði alveg getað farið illa. Tvær aðrar tvílembdar voru byrjaðar og önnur af þeim aðeins veturgömul þannig að hún var að bera í fyrsta sinn. Við systir mín vorum meira og minna í fjárhúsunum fram til hálftólf en þá komu báðir bræðurnir í hús. Önnur tvílembar var borin og komin í sér kró en það þurfti að hjálpa þeirri veturgömlu aðeins. Hún var reyndar bara með eitt lifandi lamb, hitt hafði aldrei þroskast og náð að verða neitt neitt en það þurfti líka að ná því út. Veðrið heldur annars áfram að vera mjög gott. Um tvö leytið var ég búin að skipta um föt og sat úti að lesa í ca hálftíma áður en ég skrapp inn að kæla mig og fara í buxur, peysu og setja á mig derhúfu. Eftir það sat ég mun lengur úti. Fór inn um hálfsex leytið. Eftir kvöldmat fórum við systur aftur á fjárhúsvaktina því bræðurnir skruppu frá til að hjálpa nágranna. Ein bar á þeirri vakt. Fór ekki í háttinn fyrr en langt gengin í miðnætti eftir mjög gott dagsverk við leik og aðstoðarstörf. 

18.5.25

Tækifæri

Í fyrstu morgunferð út í fjárhús í gærmorgun var allt þokkalega rólegt. Ein forystukind var að byrja. Þar sem allt var eðlilegt stillti Helga systir á hálftíma og við fórum inn að fá okkur eitthvað. Ég tók að mér að fara út á undan þegar tíminn var liðinn og viti menn það voru komin tvö lömb, tvær næstum eins gimbrar sem eru líka með þetta forystugen. Systir mín kom fljótlega út og við færðum kindina og lömbin í einkakró. Kíktum svo yfir óborna hópinn og í þeim voru tvær byrjaðar í innstu krónni og ein til mjög líkleg í annarri kró. Helga vatnaði kindunum og ég fylgdist með einni af þessum þremur. Þegar yngri bróðirinn kom í fjárhúsin fyrir klukkan hálftíu var fyrra lambið komið og það stutt í það seinna að hann náði í það og færði svo hópinn í sér kró áður en hann byrjaði að gefa. Fljótlega eftir þetta fór ég inn og ræsti systurdóttur mína. Við fengum okkur hressingu og lögðum svo af stað í sundlaugaferð til Grenivíkur. Höfðum aldrei prófað þá sundlaug. Staðurinn, bæði þorpið og sundlaugin, eru mjög falleg. Kaldi potturinn nokkuð góður en þó í efri mörkunum, sagður vera milli 4°C-12°C. Meiri parturinn af lauginni er ætlaðu sem leiksvæði en ein braut fyrir "syndara". Við frænkur urðum að biðja unglingsstúlkur að færa sig þegar við fórum í laugina til að synda. Ég synti í svona tæpt korter. Vorum örugglega í tæpan einn og hálfan tíma í sundi og hitinn þarna upp úr hádeginu sýndi 24°C. Þegar við komum upp úr var Hulda búin að fá skilaboð frá mömmu sinni, fyrirspurn um hvort við gætum keypt frostpinna á leiðinni heim. Við skruppum því næst inn á Akureyri. Fyrst stutta skoðunarferð í jólahúsið þó og ég ákvað svo að bæta á tankinn í Baldursnesi áður en við fórum í Krónuna. Klukkan var langt gengin í fjögur þegar við komum til baka. Ég fór ekkert aftur í fjárhúsin en um fimm tók ég að mér að elda kjöt í karrýi (úr lambaskönkum). Hulda smakkaði til karrýsósuna og systir mín brytjaði kjötið af beinunum áður en þetta var borið fram. Helga systir bauð svo upp á nýbakaða hjónabandssælu í eftirrétt. Sælan leit mjög vel út en þar sem ég vissi að hún væri mjög sæt ákvað ég að segja pass. Held mig sem allra mest frá öllu sætu/sykruðu. En þetta er gott fyrir þá sem eru á kindavaktinni næstum allan sólarhringinn.

17.5.25

Geggjað veður, heldur of heitt fyrir mig á tímabili

Þegar ég var búin að blogga í gærmorgun lagði ég af stað út í fjárhús. Mætti systur minni svo ég snéri við með henni og fór ekki aftur út fyrr en klukkustund síðar, rétt fyrir hálfátta. Þá var ein kind komin með eitt lamb af tveimur og önnur að byrja. Helga þurft aðeins að hjálpa þeirri sem var að byrja, þ.e. ná í annan framfót lambsins en eftir það gekk allt vel. Færðum kindurnar frá þeim óbornu þegar lömbin voru komin. Fylltum að vatnsfötur og létum einnig renna í stokkana. Um níu skrapp ég inn og fékk mér hressingu. Var komin út aftur fyrir klukkan hálftíu. Ein kindin var búin að vera með sótt í nokkurn tíma en það var samt ekkert að gerast hjá henni, ungi bóndinn hafði skoðað hana um nóttina og látið vita að það virtist allt vera "lokað", ætlaði að skoða þetta betur þegar hann kæmi aftur út um hádegið. Bróðir hans kom út um tíu og þá var gefið á garðana og vatnað meira. Um hálftólf var mér orðið frekar heitt. Þar sem allt var rólegt í bili varðandi sauðburðinn var í lagi að ég drægi mig í hlé. Verulega var farið að draga af veiku kindinni og svo tók ég eftir að eini haninn í hænsnabúrinu var orðinn mjög framlágur. Kindin og haninn voru bæði dauð stuttu síðar og ekki tókst að bjarga lömbunum. Svolítið sorglegt en svona gerist. Líklega hefði hvort sem er ekki verið hægt að bjarga kindinni. Ég fór ekki aftur út í fjárhús. Skrapp í örstutt "sólbað" sunnan undir húsvegg með systurdóttur minni. Var með bók og sólgleraugu en sat aðeins úti í uþb korter þar sem ég var ekki að bera á mig sólarvörn. Upp úr klukkan þrjú hrærði ég í vöfflur sem voru tilbúnar um fjögur.  Hulda þeytti rjóma. Stuttu eftir drekkutímann fór ég með frænku minni að vaða aðeins í læknum, kæla á okkur tærnar og kálfana. Þetta var líklega um fimm leytið og þegar við komum til baka settist ég aftur sunnan undir vegg. Hringdi í pabba sem hafði einnig setið úti við í bongó á Hellu. Sennilega var einhvers konar bongó um allt land í gær. 

16.5.25

Einstök veðurblíða

Klukkan er nýorðin sex og það virðist allt vera rólegt í augnablikinu. Ætla því að byrja daginn á þvi að skrá gærdaginn aðeins niður. Þá var ég vöknuð um svipað leyti. Hitti á mág minn sem sagði að systir mín væri nýfarin út í fjárhús. Ég synti morgunverkunum á baðherberginu og dreif mig svo beinustu leið út. Þar voru nokkrar sem sýndu merki þess að vera að byrja. Ég tók því að mér að vera áfram úti á meðan systir mín skrapp inn að fá sér morgunkaffið með manninum. Hún var ekkert lengi í burtu. Klukkan var að verða hálfníu þegar ég skrapp aðeins inn. Mátti helst ekki vera að þessu því það var nóg um að vera í fjárhúsinu. Annar bróðirinn kom út rétt fyrir tíu og þótt enn væri nóg um að vera um hálfellefu þá voru þau verkefni í öruggum höndum systur minnar og bróðursins. Ég var búin að lofa systurdóttur minni að skreppa aðeins í sund og þurfti sjálf á því að halda. Skipti um föt, fékk mér chiagraut og svo lögðum við af stað. Vorum komnar á Húsavík klukkan að ganga tólf. Ég synti smávegis, kannski svona í tíu mínútur en þá virtist laugin vera að fyllast enda kom það á daginn að það var að byrja sundleikfimi. Fór þrisvar í köldu tunnuna og við sátum smá stund í og við einn pottinn. Fórum upp úr um hálfeitt og ég þvoði mér um hárið í leiðinni. Komum svo aðeins við í Nettó áður en við fórum til baka. Var svo komin aftur út í fjárhús um hálfþrjú leytið. Það var svo sannarlega í nógu að snúast þar. Um fjögur róaðist allt í bili svo ég dró mig í hlé. Um fimm sá ég að annar bróðirinn var kominn út á rófuakurinn sinn sem hann útbjó og sáði í sjálfur í fyrradag og hinn bróðirinn var að bruna eitthvað í burtu. Ég dreif mig því aftur út í fjárhús. Þar var ein einlemba að bera og systir mín sagði að það væri verið að sækja lamb af öðrum bæ til að venja undir þá kind. Um hálfsjö leytið fór ég inn og setti upp kartöflur. Mágur minn, sem kom heim úr vinnu um fjögur, tók að sér að grilla. Maturinn var hafður um hálfátta en þá loksins var komin enn meiri ró í fjárhúsunum. Samt vísbendingar um að stutt væri í að tvær færu að bera. Ég fór samt ekki aftur út. 

15.5.25

Lítill tími í bloggskrif

Ég hafði rúmt korter til að blogga í gærmorgun því ég dreif mig út í fjárhús með systur minni í hennar annarri ferð á morgunvaktinni stuttu fyrir klukkan hálfátta. Það var reyndar allt með kyrrum kjörum en þó vísbendingar um að ein einlemba væri að fara að byrja. Komum inn fljótlega aftur, Helga stillti tímann á klukkustund og lagði sig. Ég lagðist upp í rúm, slakaði á í stutta stund en þar sem ég var glaðvakandi greip ég í bók á meðan tíminn leið. Í næstu ferð í fjárhúsið var ljóst að einlemban var örugglega komin af stað. Þegar styttist í að lambið kæmi vakti systir mín annan bróðurinn sem kom fljótlega og karaði einn þrílembing sem kom í fyrradag. Einlemban fékk því tvö lömb og samþykkti þau bæði. Ein önnur var að bera um svipað leyti. Hún var með tvö lömb. Þegar það fyrra var komið var byrjað að gefa á garðana og þannig fékk hún ágætis frið, var ekki færð og stúkuð af fyrr en bæði lömbin voru komin. Var semsagt mikið í fjárhúsunum í gær með stöku pásum, sumum lengri því ég var alveg að lesa inn á milli og kláraði eina af bókasafnsbókunum í gær. Hjálpaði einnig til við að græja kvöldmatinn. Systir mín sá reyndar um að búa til kjötfarsið og skera niður kálið en ég setti upp kartöflur og mótaði bollur úr farsinu sem ég setti í pott með sjóðandi vatni.

Í morgun var hins vegar enginn tími til að byrja daginn á að blogga. Vaknaði stuttu fyrir sex og var komin út í fjárhús skömmu síðar. Meira um það vonandi á morgun eða amk yfirlit yfir ævintýri dagsins. 

14.5.25

Lömb og sveitalíf

Kannski var ferðaspenningurinn svo mikill að ég var glaðvöknuð um fimm leytið í gærmorgun. Hafði rúman og góðan tíma fyrir alla morgunrútínu og var samt mætt í sund fyrir klukkan hálfátta. Byrjaði á kalda pottinum áður en ég fór á brautir 7 og 8 og synti 500m. Fór tvær aðrar ferðir í þann kalda, smá stund í gufu og uþb tíu mínútur í sjópottinn. Kom við á AO við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn. Heima fékk ég mér skyr og lifrarpylsu, kláraði að pakka, fermdi bílinn og kvaddi strákana þegar klukkan var byrjuð að ganga ellefu. Svo lagði ég af stað norður. Ég var ekkert dugleg við að stoppa á leiðinni. Keyrði framhjá Staðarskála af því ég var að hlusta á hádegisfréttirnar. Var eitthvað að spá í að koma við á Hvammstanga eins og í fyrra en ákvað að gera það ekki ef ég mætti bíl og þyrfti alveg að stoppa. Og auðvitað mætti ég bíl og brunaði bara áfram. Það var ekki fyrr en ég var að komast í Hörgársveit að ég stoppaði á útsýnisstað, fékk mér harðfiskbita og teygði aðeins úr mér. Það má alveg fylgja sögunni að ég var með vatnsflösku í bílnum sem ég var búin að súpa reglulega á. Stoppaði í Baldursnesi á Akureyri til að fylla á tankinn. Keyrði svo í gegnum bæinn og framhjá göngunum til að fara Víkurskarðið. Næsti bíll á eftir mér fór gönginn og það var mágur minn að fara heim úr vinnu um hálffjögur leytið. Var komin í Árland fyrir klukkan hálffimm eftir um sex tíma ferðalag. Þar var vel tekið á móti mér. Innan við klukkutíma eftir að ég mætti á svæðið kíkti ég aðeins út í fjárhús. Þar var allt með kyrrum kjörum líkt og kindurnar héldu aðeins í sér í þessu blíðviðri.

13.5.25

Að pakka niður fyrir ferðalag

Losaði svefninn alltof snemma í gærmorgun. Tókst að kúra örlítið lengur en klukkan var ekki orðin hálfsex þegar ég var komin á fætur og búin að gera lóðaæfingar. Korter yfir sjö var ég komin í sund. Fór beint á braut 6 og synti 400m, 2x4 mínútur í þann kalda og rúmar tíu mínútur í sjópottinn. Lét það gott heita. Fór beint úr sundi yfir í Hátún 12 í osteostrong tíma. Þá var klukkan rétt rúmlega hálfníu. Komst næstum strax að. Áður en ég kvaddi um níu lét ég vita að ég reiknaði ekki með að vera í bænum n.k. mánudag og myndi sennilega ekki mæta í næsta tíma fyrr en eftir hálfan mánuð. Var komin heim fyrir klukkan hálftíu. Skrapp aftur út um hálftólf, fyrst á bókasafnið að skila þremur af sex bókum og gefa frá mér fjórar kiljur að auki. Tók þrjár bækur og lagði svo leið mína í Fiskbúð Fúsa, aðallega til að kaupa harðfisk; óbarna ýsu og lúðu. En ég keypti líka þorskhnakka, 3 bita eða svo. Báðir bræðurnir voru komnir á stjá þegar ég kom heim aftur. Bauð þeim að borða með mér. Annar þáði boðið en hinn sagðist þurfa að elda sér eitthvað sem hann átti til í ísskápnum og var að komast á tíma. Fiskurinn fékk forgang. Steikti hann upp úr kryddaðri blöndu af tvennskonar fræjum og byggmjöli. Hafði með þessu soðnar kartöflur og súrkál. Að vísu fékk sonurinn sér ekki af súrkálinu. En mér fannst þetta mjög gott og góð blanda. Restin af deginum fór í alls konar. Fór reyndar ekkert út aftur svo skrefafjöldi dagsins komst ekki upp í 4000. Viðmiðið er 5500. En nú ætla ég að skreppa smá stund í sund áður en ég klára að pakka, fermi bílinn og bruna af stað í ferðalagið. 

12.5.25

Ferðalag framundan

Ég var mætt í sund um hálfníu í gærmorgun. Fór beint á brautir 7-8 og synti í hálftíma, 600m, áður en ég fór í kalda pottinn. Eftir fimm mínútur þar fór ég í gufuna svo í kalda sturtu og sjópottinn áður en ég fór seinni ferðina í þann kalda og upp úr og heim. Fram yfir hádegi var ég að dútla við ýmislegt, m.a. útsaum og prjón. Stuttu fyrir hálftvö rölti ég af stað og var áfangastaðurinn kirkja óháða safnaðarins sem er ca km heiman frá mér. Það var allt að fyllast þegar ég mætti og var fólk enn að streyma að. Veit til þess að einhverjir urðu frá að hverfa þar sem þeir treystu sér ekki til að troðast eða standa. Klukkan tvö hófst lífslokamessa sr. Péturs, loka messan hans eftir 30 ára þróunar og þjónustu verkefni fyrir óháða söfnuðinn. Loka talning á fjöldanum sem sótti þessa messu var 417 manns. Semsagt troðfull kirkja. Þetta var eiginlega viðbúið því það var búið að auglýsa þennan viðburð all rækilega. Ég var komin heim aftur um það leyti sem leikur Liverpool og Arsenal hófst en ég svissaði reglulega á milli yfir á handboltalandsleik karla Ísland - Georgía sem hófst hálftíma síðar. Stundum er bara alltof mikið að gerast í einu.