13.12.25

Sundhöllin í morgun

Þegar ég mætti á planið við Laugardalslaug voru grunsamlega fáir á ferli og það leit út fyrir að vera lokað. Sá eina manneskju hálfhlaupa að innganginum en koma svo fljótlega til baka. Ég ákvað því að fara og leggja bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og fara í Sundhöllina. Í afgreiðslunni þar fékk ég að vita að það hefði verið jólagleði hjá starfsfólkinu í Laugardalslaug í gær og allir sem voru á vaktinni þurftu ekki að mæta og opna fyrr en um tíu. Ég synti á braut 3 í innilauginn, 650m, flesta á bakinu, á um hálftíma. Fór nokkrar ferðir í þann kalda og þvoði mér svo um hárið áður en ég fór upp úr og beint í esperanto-hitting. Um hálftólf leytið ætlaði ég renna bílnum í gegnum þvottastöðina Löður við Fiskislóð. Var búin að borga og númer tvö af þeim sem biðu úti. Þá kom starfsmaður og sagði að það væri bilun. Hann tók mynd af bílnúmerinu mínu og sagði að mér yrði hleypt inn næst þegar ég væri á ferðinni. Kom við í Krónunni þarna skammt frá áður en ég fór heim. Þegar ég var búin að ganga frá vörunum ákvað ég að heyra aðeins í tvíburahálfsystur minni. Það sem átti að verða smá spjall og stöðutékkun teygði í yfir klukkustund. Ekkert svo löngu eftir spjallið fór ég niður með dót í hina ýmsu gáma bæði í ruslageymslu hússins og gámana hinum megin við götuna. Notaði tækifærið og fór í það sem kalla má örgöngu þar sem labbaði lítinn rúmlega áttahundruð metra hring á tíu mínútum. 

12.12.25

Árbæjarlaug og infrarauð gufa eftir vinnu

Ég hrökk aðeins upp stuttu fyrir miðnætti og varð að skella mér á klósettið. Maginn var eitthvað að mótmæla einhverju af því sem ég hafði fengið mér af jólahlaðborðinu. Þetta var samt ekki svo slæmt nema að því leyti að ég sofnaði ekki strax aftur. Veit ekki alveg hvað klukkan var þegar ég festi svefn en þá svaf ég alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Gaf mér nokkrar mínútur áður en ég fór á fætur. Það var samt nógur tími til að taka aðeins fram léttustu handlóðin, 1kg og einnig lesa smávegis. Fékk mér eitt harðsoðið egg og burstaði tennur áður en ég fór í vinnuna. Sem fyrr var ég mætt aðeins of snemma, líklega um sjö mínútum á undan þeim sem kom næst og var með lykla. Á föstudögum er lokað klukkan fjögur og þar sem ég var í Hádegismóum og með sunddótið meðferðist úti í bíl ákvað ég að fara beint í Árbæjarlaugina. Synti í uþb tuttugu mínútur, settist í kalda pottinn í rúmar þrjár mínútur og fór svo inn og í sturtu og þurrkaði mér áður en ég fór í infrarauða klefann í korter. Var komin heim um hálfsjö. 

11.12.25

Á leið í jólahlaðborð

Rumskaði tvisvar til að fara á salernið í nótt. Drakk bara einn tebolla í gærkvöldi svo ég reikna með að það hafi aðeins verið að renna af mér smá bjúgur. Var komin á fætur um hálfsjö. Sleppti lóðaæfingum en las í ca korter áður en ég fékk mér eitthvað að borða og burstaði svo tennurnar. Var mætt í Hádegismóa um hálfátta, nokkrum mínútum á undan stöðvarstjóranum. Ég er nokkuð viss um að ef ég hefði lagt fimm mínútum seinna af stað að heiman hefði ég lent í aðeins meiri umferð sem var þó orðin nokkur. Það var líka þónokkur umferð á köflum á leiðinni heim úr vinnu um hálffimm leytið. Fór þó ekki í gegnum Árbæinn eins og í gær. En umferðarþunginn í gær stafaði að hluta til vegna lokunar á brú þar sem of stórt ökutæki ætlaði að fara þá leið stíflaði allt. Annars á ég að mæta í Þarabakkann klukkan sex í jólahlaðborð með vinnunni, amk vinnufélögum af höfuðborgarsvæðinu. 

10.12.25

Osteostrong og sjósund eftir vinnu í dag

Var vöknuð stuttu fyrir klukkan sex. Hafði nægan tíma til að gera nokkrar lóða æfingar, lesa og fá mér morgunmat áður en ég dreif mig í vinnuna. Tók bæði sund- og sjósundsdót með mér út í bíl. Fór aðeins aðra leið en ég gær og varð fljótari fyrir vikið. Var semsagt aftur mætt aðeins á undan stöðvarsjóranum í Hádegismóum. Ætla ekkert að eyða tíma í að skrifa um sjálfan vinnudaginn. Stimplaði mig út rétt fyrir klukkan hálffimm. Átti tíma í osteostrong í Hátúninu klukkan fimm en þar sem ég fór of snemma út af fyrsta hringtorginu lenti ég fljótlega í mikilli umferð. Klukkan var orðin korter yfir fimm þegar ég kom í Hátúnið. Þar er opið til sex á miðvikudögum og allir bara slakir. Ég komst strax að. Bætti mig á tveimur tækjum og var alveg við mitt besta á hinum tveimur tækjunum. Eftir tímann var ég búin að taka ákvörðun um að skella mér í Nauthólsvík. Var komin þangað rétt fyrir sex. Sjórinn 1,6°C og fjara. Ég fór tvisvar sinnum 2-4 mínútur út í, sjö mínútur í gufuna og tæpar tíu mínútur í pottinn eftir seinni ferðina. Var komin heim um sjö. Þá sá ég rafrænan póst frá Landsbankanum um að nýr aðili væri tekinn við gjaldkerastöðunni í húsfélaginu Drápuhlíð 21. Það sannreyndi ég með því að skrá mig í einkabankann í appinu í símanum og sá að ekki er lengur hægt að fletta og skipta um notanda. Þannig að ég er laus undan þessum skyldum.

9.12.25

Hádegismóar og í Árbæjarlaug eftir vinnu

Rumskaði um hálffimm leytið í morgun. Skrapp aðeins fram á pisseríið og kúrði mig svo aftur niður. Sofnaði ekki aftur en kveikti ekki ljós og fór á fætur fyrr en klukkan að verða sex. Notaði næsta klukkutímann til að gera nokkrar lóða-æfingar, lesa og fá mér morgunmat. Fór úr húsi korter yfir sjö og var komin í Hádegismóa um hálfátta, fyrst af öllum. Þremur mínútum á eftir mér mætti stöðvarstjórinn. Ég kynnti mig og varð samferða honum inn. Hann skráði mig inn í tíma-kerfið og sagði svo að mín vinnustöð í afgreiðslunni yrði á tölvunni hans. Það kom í ljós að ég var ekki komin með allan aðgang svo hann skráði sig inn þar til ég var búin að fá kerfisfræðinginn til að "hjálpa" mér inn í flest kerfi á mínum aðgangi seinna um morguninn. Sú sem vinnur í afgreiðslunni býr á Suðurnesjunum en hún var mætt í vinnu nokkru fyrir átta sem og hinir tveir skoðunarmennirnir. Ég lærði heilmikið nýtt en kerfin voru að stríða okkur reglulega og það kemur í ljós á næstu dögum og vikum hversu vel allt síast inn þegar notkunin fer að verða meiri og reglulegri. Klukkan hálfeitt var læst í afgreiðslunni og allir fóru upp á næstu hæð í eldhúskrókinn þar til að fá sér að borða. Opnað var aftur niðri á slaginu klukkan eitt. Stimplaði mig sjálf út um hálffimm. Hringdi í Sillu þegar ég var komin út í bíl. Hún var nýkomin heim úr sinni vinnu, komin í kósý-föt og um það bil að fara að slaka á en mér tókst að plata hana til að hitta mig við Árbæjarlaugina og fara með mér í sund, potta og infrarauða klefann. Alls tók þessi hittingur um klukkukstund og vorum við báðar ánægðar með hann. Höfðum um nóg að spjalla og tíminn leið frekar hratt. Ég kom heim fyrir tæpum hálftíma síðan og næsta mál á dagskrá er að fá sér af afgangnum síðan í gær.

8.12.25

Mánudagskvöld

Ég var vöknuð fyrir klukkan hálfsex en þar sem ég var búin að mæla mér mót við kalda potts vinkonu mína í Laugardalslaug eftir vinnu lét ég loksins verða af því að taka fram handlóðin aftur. Gerði nokkrar æfingar með léttustu lóðunum. Las í smá stund í; Andlit  eftir Bjarna Bjarnason og fékk mér svo morgunmat um sjö. Fljótlega eftir það lagði ég af stað í vinnuna. Fann kortið sem ég var að leita að í gær vinstra meginn við farþegasætið fram í í bílnum. Mér létti heilmikið við þann fund. Mætti í vinnu um hálfátta. Vinnudagurinn var frekar rólegur á minni stöð svo ég fæ að prófa aðra vinnustöð á morgun. Í hádeginu kom póstur frá fasteignasölunni Domus Nova sem innihélt skannað þinglýst skjal. Ég er því orðin þinglýstur eigandi að íbúðinni minni hér í Núpalind 6. Meira um það kannski á morgun. Var mætt í sund korteri fyrir fimm. Synti 300m á braut 7 og var svo búin að fara eina ferð í þann kalda áður en ég hitti kalda potts vinkonu mína. Hún var komin en hafði laumað sér aðeins í gufuna. Við náðum þremur ferðum saman í þann kalda, góðri gufu ferð og amk korteri í sjópottinum. Klukkan var að verða sjö þegar ég kom heim. Setti upp fiskibollur og sætar kartöflur sem ég ætla að fara að borða rétt á eftir. 

7.12.25

Sunnudagskvöld í Kópavogi

Var ekki vissu hversu mörg högg stofuklukkan sló þegar ég rumskaði í morgun. Komst að því klukkustund seinna að það höfðu verið sjö. Ég fór fram rétt rúmlega átta. Pabbi var klæddur og kominn á ról svo ég ákvað að drífa mig líka á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu fékk ég mér eitt harðsoðið egg og lagði fyrsta kapal dagsins. Hann gekk upp. Um níu leytið settist ég aðeins við tölvuna og nokkru síðar hélt ég áfram jólakortaskrifum frá því í gærkvöldi, skrifaði á tíu þá og tíu önnur í morgun en ég bætti nokkrum auka nöfnum á listann bara þetta árið. Um ellefu skrapp ég með tvö af kortunum og afhenti í eigin persónu. Byrjaði á því að fara í Bogatúnið til Vals pabba hennar Ellu. Hann fer norður eftir tæpar tvær vikur og heldur jólin þar. Ég stoppaði ekki nema augnablik, bara til að afhenda kortið og faðma hann. Svo fór ég yfir í Nestún 5, þar fór ég aðeins inn og stoppaði í svo sem eins og hálftíma. Var komin til baka um tólf. Við pabbi borðuðum saltkjöt og sæta kartöflu í hádeginu. Um tvö leytið tók ég mig saman og kvaddi. Kom við í Löngumýrinni og afhenti eitt kort þar. Stoppaði í rúman klukkutíma. Var komin í bæinn um fimm leytið. Setti 10 frímerkt kort í póstkassann við pósthúsið á Dalvegi. Restina af kortunum mun ég koma til skila sjálf smátt og smátt. Eitt furðulegt gerðist, en tvö af ómerktu kortunum voru uppi við og í töskunni með frímerktu kortunum. Passaði upp á að fara aðeins út með frímerktu kortin og þegar ég settist inn í bíl aftur fannst mér ég setja þessi tvö kort aftur í veskið. Þegar ég var búin að leggja bílnum við blokkina í Núpalindinni stuttu síðar fann ég aðeins annað umslagið af tveimur. Það gæti endað með því að ég verði að skrifa það kort aftur því það var sama hversu vel ég leitaði, kortið var ekki í veskinu og ég fann það heldur ekki í bílnum. 

6.12.25

Komin á Hellu

Ég fór í háttinn um tíu í gærkvöldi. Las í ca hálftíma en var örugglega sofnuð nokkru fyrir klukkan ellefu. Rumskaði um sex leytið í morgun. Skrapp aðeins fram á salernið og fékk mér svo sítrónuvatn áður en ég skellti mér aftur undir sæng. Fór á fætur fyrir klukkan hálfátta. Setti niður í tösku og tók einnig til sund-og esperanto dótið. Var komin á braut 2 í Laugardalslauginni um hálfníu. Synti 500m, flesta á bakinu því ég ætla að færa hárþvottadagana aftur á laugardaga. Hitti sjósunds vinkonu mína í sjópottinum. Var komin til esperanto vinkonu minnar rétt upp úr klukkan tíu. Lásum fjórar og hálfa blaðsíðu. Kvaddi um hálftólf leytið. Kom við hjá AO við Öskjuhlíð og fyllti tankinn. Kom einnig við í Heilsuhúsinu í Kringlunni. Skrapp svo heim með esperanto- og sunddótið. Næst lá leiðin upp á Gagnveg þar sem N1 sonurinn var að vinna. Klukkan var orðin eitt þegar ég lagði loks af stað austur. Fór um Þrengslin og gerði gott stopp í Fossheiðinni á Selfossi áður en ég hélt förinni áfram. Var komin til pabba um hálffjögur. 

5.12.25

Morgunsund

Ég var vöknuð um hálfsex í morgun og mætt í Laugardalslaugina um hálfsjö, rétt eftir að opnaði. Fór á braut 8 og synti 400m. Fór 2x3 mínútur í kalda og smá stund í sjópottinn. Mætti svo í vinnu ca tuttugu mínútum fyrir átta. Nafna mín var að byrja að gera upp og ég punktaði ferlið niður hjá mér. Svo fórum við í gegnum þrjú önnur  verkferli sem ég punktaði einnig niður hjá mér. Það var reitingur af mismunandi verkefnum inn á milli. Sumt er ég farin að kunna aðeins á en svo eru líka verkefni sem ég held ég þurfi einhverjar tilraunir til að læra á. Þetta mun samt örugglega lærast á endanum þótt það lærist ekki einn tveir og þrír. Fékk að hætta rétt rúmum hálftíma fyrir lokun og fór með bílinn í smurningu hjá N1 í Fellsmúla. Fékk að nota afslátt N1 sonarins. Var komin heim stuttu fyrir klukkan fimm. 

4.12.25

Aðventutónleikar og fleira

Ég fór aftur út úr húsi rétt rúmum tveimur tímum eftir að ég kom heim í gær. Keyrði inn í Reykjavík, lagði bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og hitti norsku esperanto vinkonu mína fyrir utan Hallgrímskirkju um hálfátta. Það streymdi að fólk. Við fórum inn og tókum frá sæti fyrir dóttur hennar sem kom tíu mínútum áður en magnaðir aðventutónleikar fjögurra stúlkna- og kvennakóra hófust. Næsti tæpi einn og hálfi tími leið hratt en ég naut hverrar mínútu í botn. Var komin heim aftur um tíu. Fór beint í bælið og las í ca hálftíma áður en ég sofnaði.

Klukkan var næstum hálfsjö þegar ég vaknaði í morgun. Ég fékk mér hreina gríska jógúrt og vítamín í morgunmat og tók svo sjósundsdótið með mér út í bíl uþb korter yfir sjö. Var mætt í vinnu um hálfátta, alls ekki fyrst en heldur ekki síðust. Nefndi það við stöðvastjórann að ég þyrfti að fá að skreppa frá í hádeginu og vissi ekki hversu langt skrepp það yrði, talaði bara um að ég ætlaði ekki að drolla en heldur ekki að flýta mér.

Nafna mín mætti skömmu síðar. Hún þurfti að skreppa frá um tíu leytið en var komin aftur áður en ég þurfti að fara. Ég var komin á Finnson í Kringlunni rétt upp úr klukkan tólf. Þangaði hafði ein af Sigrúnunum úr sundi boðið mér. Hún mætir ekki lengur í Laugardalslaugina á veturna en hún er búin að vera í miklu sambandi við mig undanfarna mánuði og fylgjast með mörgu af því sem hefur verið að gerast. Hún vildi bjóða mér að borða með sér og ég mátti velja af jólamatseðlinu, þrjá rétti ef ég vildi. Ég þáði forrétt og aðalrétt en sleppti eftirréttinum. Spjölluðum um margt og mikið á meðan við gerðum réttunum skil. Nokkru eftir að Sigrún var komin með eftirréttinn sinn afhenti hún mér tvo pakka í gjafapoka og sagði að ég þyrfti ekki að bíða eftir að hún væri búin að klára. Klukkan var að verða hálftvö og ég var búin að vera einn og hálfan tíma í burtu úr vinnunni. Ég þakkaði kærlega fyrir mig og kvaddi hana með kossum á kinnar.

Eftir vinnu athugaði ég fyrst hvort það væri hægt að smyrja bílinn fyrir lokun klukkan fimm á smurstöðinni við Laugaveg 182. Það voru tveir bílar inni og einn að bíða svo það gekk ekki upp. Næst lá leiðin í Nauthólsvík. Það var mjög stutt út í og ég fór tvisvar, einu sinni í gufuna á milli ferða og endaði smá stund í pottinum. Hringdi og spjallaði við pabba á meðan ég var á leiðinni heim.

 það annars í gær að það er búið að halda húsfund við D21. Ungi maðurinn sem keypti af mér er tekinn við sem formaður og konan í kjallaranum ætlar að taka að sér að vera gjaldkeri. Aðgangurinn minn að fyrirtækjabankanum mun því senn detta út og ég þarf ekki lengur að sjá um þessi mál.

3.12.25

Ekkert sjósund í dag

Þar sem ég var sofnuð um tíu í gærkvöldi rumskaði ég heldur snemma í morgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um sex og gaf mér engan tíma til að kveikja á tölvunni. Var komin á planið við Laugardalslaug um það leyti sem verið var að hleypa inn um hálfsjö. Byrjaði á kalda pottinum. Synti 400m á brautum 2 og 3, aðallega á 3. Fór aftur í þann kalda og gaf mér svo smá tíma í gufunni og að lokum sjópottinum áður en ég fór upp úr. Var komin í vinnu korter fyrir átta, síðust af öllum. Á móti mér tóku tveir skoðunarmenn, annar hættir eftir einhverjar vikur hinn er tekinn við sem stöðvarstjóri og svo nafna mín í afgreiðslunni sem er skoðunarmaður að upplagi og fer á Selfoss skömmu eftir áramót í slíka stöðu. Fram að því á hún að setja mig inn í afgreiðslumálin á stöðinni í Skeifunni. Það er ýmislegt sem ég þarf að læra og tileinka mér svo það var sem betur fer frekar rólegt í dag. En það er þó gott að læra sumt með því að gera það frekar en að lesa um það þótt það sér gott að hafa leiðbeiningar til að styðjast við. Var þokkalega dugleg að skrifa niður punkta framan af morgni. Um hálfellefu leitið skruppum við nöfnurnar, stúlkan heitir Anna, yfir í Bónus til að kaupa með "kaffinu" til að borða í hádeginu. Skreppið tók enga stund enda búðin rétt hjá. Fóru ekki strax í mat, létum klukkuna verða tólf enda er stöðin læst á milli tólf og hálfeitt. Eitt af því sem afgreiðslan á að sjá um er að svara símanum ef margir hringja inn. Síminn á stöðinni var þögull og þegar fór að líða á daginn fór okkur að finnast þetta frekar undarlegt. Það kom líka í ljós að síminn var bilaður og var það í allan dag. Fékk að hætta aðeins áður en klukkan varð hálffimm, stöðvarstjórinn tók að sér að vera lengur. Það tók drjúga stund að keyra heim, umferðin þung og mjög mikil. Ég var samt komin heim áður en klukkan varð fimm.

2.12.25

Starfsmaður no 86, það er 68 afturábak

Ekkert varð úr göngutúr í gær en ég kláraði að skrifa bréf og jólakort sem fara út fyrir landsteinana; bréf og kort á ensku til Manchester, bréf og kort á dönsku til Jótlands og jólakort á íslensku til Stavanger. Eldaði mér líkja smávegis af bleikjubitum, sem ég átti og á í frysti, í kvöldmatinn. Í morgun var ég komin í stund á svipuðum tíma og í gærmorgun, var á sömu braut en nú synti ég aðeins 400m, flestar ferðir á bakinu. Þvoði mér um hárið og var mætt í Mjóddina rétt fyrir klukkan níu. Þar tóku nafni og nafna á móti mér. Siggi heilsaði og spjallaði smá en ég fór niður í stóra fundaherbergið með starfsmannastjóranum fyrsta klukkutímann og fyllti út alls konar skjöl varðandi ráðningarmálin. Um tíu færðum við okkur upp í minna herbergi þar sem búið var að bóka hitt herbergið. Þar var mér úthlutaður sér aðgangur og vinnunetfang og kynnt fyrir mig helstu verkfærin sem ég mun þurfa að læra á eða nota. Kann nú ýmislegt fyrir mér í bæði tímon og teams en annað verð ég að gefa mér aðeins betri tíma í að skoða og læra á. Áður en við hættum þessari yfirferð, um hálffjögur leytið, gaf hún mér peysu merkta Frumherja. Kom við í pósthúsinu við Dalveg á leiðinni heim. Morgundagurinn verður pottþétt mun lengri. Ef ég vil fara í sund fyrir vinnu verð ég að vera mætt um hálfsjö. Á að mæta á stöðina í Skeifuna stuttu fyrir átta og þar mun sú sem er að fara að flytja sig úr afgreiðslunni í afgreiðsluna á Selfoss eftir hálfan mánuð, setja mig inn í málin og hjálpa mér af stað. 

1.12.25

Auka færsla og breyttur taktur

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex og mætt á braut 8 tuttugu mínútur yfir sjö. Synti 500m, helminginn skriðsund eins og í gær. Var 5 mínútur í þeim kalda, um tíu mínútur í gufunni og sjópottinum og dýfði mér svo í nokkrar sekúndur í þann kalda áður en ég fór upp úr og í osteostrong. Sló met á þremur tækjum af fjórum og var alveg við mitt besta á fjórða tækinu. Færði líka tímann til klukkan fimm síðdegis á miðvikudögum. Mætti í annað viðtal í Þarabakka 3 kl. hálftíu. Framkvæmdarstjórinn og stöðvarstjórinn í Skeifunni voru með mér á þeim fundi. Fundurinn var ekki langur, ca korter en gekk vel. Framkvæmdastjórinn sagðist myndu hafa samband við mig innan dagsins. Mér skilst að yfir 90 manns hafi sótt um stöðuna. Rétt fyrir klukkan tólf fékk ég sms frá osteostrong um að ég ætti tíma hjá þeim strax á miðvikudaginn kemur. Á eftir að hringja í þá til að fella þann tíma niður, vil ekki byrja á miðvikudags tímunum fyrr en í næstu viku. Upp úr klukkan hálfeitt fékk ég svo rafrænan póst frá "nafna" mínum og frænda, Frumherji vill fá mig í liðið sitt og hann spurði hvort ég gæti mætt í Mjóddina klukkan níu í fyrramálið. Hvort ég get, vííí ég er komin með nýja vinnu. Þess vegna ætla ég að skipta um takt í blogginu og kemur næsta færsla ekki inn fyrr en einhvern tímann eftir að ég kem heim úr vinnu á morgun. 

Ekkert sund í gær

Svaf til klukkan að verða níu í gærmorgun. Oddur virtist sofa ágætlega í stofunni og hann rumskaði ekki fyrr en nokkru eftir að ég kom á fætur. Ég bjó til hafragraut um tíu. Rétt fyrir eitt skutlaði ég Oddi í Mjóddina þar sem hann tók strætó á Selfoss korter yfir heila tímann. Ég skrapp sjálf í Kringluna. Skilaði þremur bókum á safnið og tók tvær í staðinn. Er þá með þrjár af safninu hérna heima. Kíkti á tvo aðra staði í Kringlunni áður en ég fór aftur heim. 

30.11.25

Næturgestur

Var komin á braut átta um hálfníu leytið í gærmorgun. Synti 500m þar af helminginn skriðsund. Rétt rúmlega tíu var ég um það bil að hringja á dyrabjöllunni hjá esperanto vinkonu minni þegar síminn hringdi. Það var Oddur. Nokkrir vinir ætluðu að hittast hjá einum sem býr í akrahverfinu í Garðabæ og halda eins konar þakkargjörðarhátíð. Oddur spurði hvort hann mætti gista hjá mér. Ég sagði strax já en hann yrði að koma fyrst að fá hjá mér húslykla svo ég þyrfti ekki að vaka eftir honum ef gleðskapurinn drægist eitthvað inn í nóttina. Hann sagðist myndu koma um fimm leytið því hittingurinn átti ekki að byrja fyrr en um sjö. Ég var komin heim um tólf. Um hálfþrjú leytið skrapp ég út í rúmlega hálftíma göngu. Þegar ég kom aftur heim byrjaði ég á fyrsta jólabréfinu af þremur. Oddur kom rétt fyrir sex og stoppaði í rúman klukkutíma. Hann rölti svo yfir í KFC við Bæjarlind til að útvega sinn hlut í Pálínuboðið og þangað sótti bróðir hans hann. Ég fór óvenju seint í háttinn þar sem ég festist yfir jólamyndinni á sjónvarpi símans; "The Hollyday". Hef alveg séð þessa mynd oftar en einu sinni áður en það er eitthvað við hana sem heillar. Dró fyrir í stofunni og bjó um soninn áður en ég skreið upp í rúm um ellefu leytið.

29.11.25

Nóvember alveg að klárast

Var komin á fætur upp úr klukkan sex. Ég tók fram sundtöskuna en það endaði með því að ég stakk henni inn í skáp aftur. Átti von á rafrænum pósti vegna viðtalsins sem ég fór í á fimmtudagsmorguninn. Pósturinn kom upp úr klukkan tíu með upplýsingum um launakjör. Framkvæmdastjórinn hafði einnig flett upp í íslendingabók og séð skyldleikann. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um varðandi launamálin og svaraði fljótlega með að ég gæti sætt mig við þessi kjör, sérstaklega ef ég fengi 3-5 virka daga í orlof í maí til að komast aðeins norður í sauðburðinn. Það kom póstur til baka um vilja til að hittast aftur strax eftir helgi með stöðvarstjóra viðkomandi stöðvar og spurt um hvaða tími hentaði mér.  Hittingurinn verður aftur í Mjóddinni um hálftíu á mánudags morguninn. Ég hef þá tíma til að fara í sund og osteostrong áður. Það var svo ekki fyrr en klukkan langt gengin í fjögur að ég skrapp aðeins út í stutta göngu í um tuttugu mínútur.

28.11.25

Aftur kominn föstudagur

Hitti kalda potts vinkonu mína um átta í gærmorgun. Hún fór beint í sjópottinn á meðan ég synti 400m. Fórum alls 4 ferðir í þann kalda. Hitti á yngstu mágkonu mömmu í sjópottinum. Fór upp úr rétt fyrir hálftíu og var komin í viðtal í fundarherbergi Frumherja við Þarabakka 3 á slaginu tíu. Mannauðsstjórinn og miðjunafna mín tók á móti mér og með í viðtalinu var "nafni" okkar og framkvæmda- og tæknistjóri ökutækjasviðs. Mér fannst viðtalið ganga vel, stóð yfir í um þrjú korter og það var rætt um eitt og annað. Ég og framkvæmdastjórinn vorum orðin frekar viss að við værum eitthvað skyld þannig að þegar ég kom heim fór ég beint í íslendingabók og rakti okkur saman. Erum skyld í þriðja og fjórða lið en langamma hans var systir föðurömmu minnar, árinu eldri og ég man ágætlega eftir henni. Ég veit ekki hversu margir sóttu um og heldur ekki hversu margir fengu boð um að mæta í viðtal eftir að hafa verið beðnir um að senda inn svör við sjö spurningum í videoviðtali. En þau töluðum um að sá sem yrði valinn myndi byrja strax. Um er að ræða afgreiðslustarf í Frumherja í Skeifunni. Það er mest að gera í apríl og maí og ég spurði hvort það væri illa séð að fá nokkra daga í frí til að komast aðeins í sauðburðinn til systur minnar. Það var alls ekki tekið illa í þá beiðni. Hvað sem verður var þetta skemmtilegt viðtal. Annars leið dagurinn alveg hrikalega hratt.

27.11.25

Færsla no 4500

Var mjög slök í gærmorgun og fór ekki á fætur fyrr en um sjö leytið. Upp úr klukkan ellefu var ég mætt í Nauthólsvík. Var smá stund að finna stæði en ég var komin fyrri ferðina í 2,9°C sjóinn áður en klukkan varð hálftólf. Það var háflóð og aðstæður mjög góðar. Gerði eins og mörg undanfarin skipti að fara í gufu á milli tveggja ferða í sjóinn. Fyrri ferðin var rúmar sjö mínútur en sú seinni líklega um þrjár. Sat svo í heita pottinum í um tuttugu mínútur áður en ég dreif mig upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa. Næst gerði ég mér ferð í Drápuhlíðina og heimsótti fyrrum nágrannakonu á neðri hæðinni. Maðurinn hennar, sem er formaður húsfélagsins, var nýlega skroppin út. Hún tók á móti plagginu sem þarf að fylla út og skila inn í bankann ásamt fundargerð svo ég geti sagt skilið við gjaldkerastöðuna. Mér skilst að nágrannakonan í kjallaranum ætli að taka við boltanum. Ég var búin að skrifa nafnið mitt og kennitölu á plaggið svo ég þarf ekki að mæta á fundinn, hvenær sem hann verður boðaður. Á meðan ég var í þessari heimsókn fékk ég símtal og boð um að mæta í viðtal vegna atvinnuumsóknar klukkan tíu á eftir. Meira um það kannski á morgun. Var komin heim upp úr klukkan hálftvö. Fór ekkert út aftur. Hafði soðna ýsu í kvöldmatinn ásamt sætri kartöflu, gulrótum, hvítkáli (soðnu) og súrkáli. 

26.11.25

Smáralind

Var komin á braut 8 í Laugardalslauginni í gærmorgun á svipuðum tíma og á mánudagsmorguninn. Synti 700m, flesta á bakinu, og gaf mér extra góðan tíma í alla aðra rútínu. Þvoði mér um hárið og hafði hvorki fyrir því að blása það né greiða. Heildar tíminn í sundi, frá því ég setti skóna á hilluna framan við klefa og þar til ég var komin í þá aftur, voru rétt tæpir tveir tímar. Var komin heim fyrir klukkan tíu. Klukkan var að verða þrjú þegar ég fór út aftur. Labbaði í Smáralind, frekar rólega því ég var um 24 mínútur að fara þessa 2,2km. Eyddi líklega um hálftíma í smá skoðunartúr því klukkan að verða fjögur labbaði ég örlítið styttri leið heim, 2km og fór hraðar yfir því ég var ekki nema 13 mínútur. Fékk annars póst frá skattinum um að ég yrði að sækja aftur um endurgreiðslu á vsk af vinnu og senda kvittun um greiðslu með ef ég vildi fá þessar rúmu þrjátíuþúsund. Eyddi miklum tíma í að reyna að endurgera umsóknina. Í símanum komu alltaf skilaboð um að ég yrði að senda reikninginn líka þótt mér sýndist ég bæði hafa dregið reikning og kvittun yfir á þar til gert svæði. Í fartölvunni fann ég ekki einu sinni viðeigandi svæði til að sækja um. Kannski endar það með því að ég heimsæki skattinn og fæ einhvern þar til að aðstoða mig. En mikið er ég hissa á að hafa ekki fengið skilaboð um að það vantaði kvittunina áður en umsókninni var hafnað.

25.11.25

Afsal

Vaknaði rétt um sex eftir aðeins köflótta nótt. Var mætt á braut 7 rúmlega hálfátta og í osteostrong tíma klukkutíma síðar. Nýr leiðbeinandi tók á móti mér í vikulega tímanum. Ég sló met á tveimur tækjum af fjórum og var við mitt besta á hinum tveimur tækjunum. Var komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Fékk mér hressingu og slakaði á um stund en stuttu fyrir klukkan ellefu reimaði ég á mig gönguskóna labbaði yfir í Hlíðarsmára 4 þar sem fasteignasalan Domusnova er með skrifstofu. Labbaði um Smáratorg og fór ég þessa 2,2km á tæpum hálftíma. Hafði ekki haft samband við umboðsmann dánarbúsins því það var tekið fram í rafrænum pósti frá fasteignasalanum að við þyrftum ekki endilega að vera á sama tíma, hefðum mánudaginn og þriðjudaginn til að koma og skrifa undir á viðeigandi stöðum á viðeigandi skjölum. Ég var frekar spennt að ljúka þessu af, greiddi lokagreiðsluna strax á fimmtudaginn var eftir að hafa farið vel yfir skjöl og útreikninga. Labbaði svo mun beinni leið heim, 2km á 28 mínútum svo skrefafjöldi dagsins fór vel yfir 7 þúsund skref. Fór ekkert út aftur en hringdi bæði í pabba og mág minn og var svo að dútla eitthvað hérna heima við. Fór frekar snemma í háttinn og var líklega sofnuð áður en klukkan varð hálftíu. 

24.11.25

Serían komin á svalirnar

Var komin á fætur um sjö í gærmorgun en ekki í sund fyrr en um hálftíu. Synti 400m þar af 100m skriðsund. Fór þrisvar í þann kalda og eftir góða gufuferð hékk ég svolítið í rimlunum. Var komin heim aftur um hálftólf leytið. Hringdi í pabba og spjallaði smávegis við hann. Upp úr klukkan eitt hringdi ég í tvíburahálfsystur mína. Hún var ekki við símann  þá stundina svo ég hringdi í eina nöfnu mína og frænku. Eftir það, nokkurra mínútna spjall, náði ég í Sonju. Eitt að því sem við ræddum um voru seríumál og hún heyrði á mér að ég væri eitthvað nervus við að takast á við þau mál ein, svona í fyrsta skipti. Úr varð að hún boðaði komu sína seinni partinn. Kom um hálffimm með fullt fangið af innflutningsgjöf til mín og vatt sér svo beinustu leið að vefja seríunni utan um svalahandriðið. Það var reyndar alveg ágætt að vera tvær í þessu en ég gerði þó lítið annað en að fylgjast með og taka öðru hvoru á móti seríunni og færa til lokunargluggana. Þetta tók ekki langan tíma og á eftir fengum við okkur te og smá snarl.

23.11.25

Gærdagurinn var extra góður

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Var komin í sund á níunda tímanum. Hitti yngstu mágkonu mömmu í sjópottinum og við spjölluðum svo mikið að það varð næstum því ekkert af sundi hjá mér. Synti samt 300m áður en ég fór upp úr stuttu fyrir tíu. Hringdi í Odd áður en ég lagði af stað í esperanto og var hann opinn fyrir því að ég kæmi og sækti hann upp úr hádeginu. Við Inger lásum aðeins rúma blaðsíðu í Kon-Tiki því hún átti von að yngsta barnabarninu sínu í pössun um ellefu. Rósey var svolítið feimin við mig en líka pínu stríðin. Ég rifjaði upp nokkur leikskólalög og hafði hún alveg gaman að því þótt hún syngi ekki með. Var komin á Bakkann upp úr klukkan hálfeitt. Ákvað að keyra Suðurstrandaveginn og í gegnum Grindavík í bæinn aftur. Komum aðeins við í Krónunni í Lindum áður en Oddur kom í sína fyrstu heimsókn í Núpalindina. Eftir að hafa fengið að nota salernið og skoðað íbúðina settumst við í sófann inn í stofu og spjölluðum áfram, vorum mikið búin að spjalla á leiðinni að austan. Um fjögur leytið hitaði ég upp kjötsúpu. Spurði Odd hvort hann vildi gera eitthvað ákveðið en hann var ekki með neitt sértakt í huga svo við settumst aftur inn í stofu eftir snæðinginn og spjölluðum áfram á meðan uppþvottavélin vann sitt verk. Um hálfsex leytið sýndi ég Oddi geymsluna niðri á fyrstu hæð áður en við fórum út í bíl. Hann fékk að keyra og var fyrsta stopp AO við Sprengisand/Bústaðaveg. Næst fórum við á N1 við Gagnveg þar sem Davíð Steinn var á vakt og fengum hann til að fylla á rúðupissið. Spjölluðum í smá stund en um það leyti sem við vorum að fara að kveðja komu inn viðskiptavinir, amk tveir menn. Ég var ekkert að spá í þetta fólk, var bara að hugsa um að kveðja og vera ekkert að trufla afgreiðsluna þegar einn maðurinn tók í öxlina á mér og ávarpaði mig með nafninu mínu. Fyrst kom svolítið á mig en svo sá ég að þetta var einn bekkjarbróðir minn úr grunnskóla, Hjalti Gíslason, svo ég gerði það eina rétta í stöðunni; faðmaði hann og þakkaði honum fyrir að kasta á mig kveðju. Oddur keyrði sig alla leið á Bakkann og kvaddi mig með knúsi áður en ég færði mig yfir í bílstjórasætið og keyrði heim. Var komin heim um átta. 

22.11.25

Kjötsúpa

Vaknaði eiginlega á slaginu hálfsex í gærmorgun og var komin á stjá mjög skömmu síðar. Gaf mér góðan tíma í morgunverkin og rútínuna og svo æxluðust hlutirnir þannig að ég var heima við alveg til klukkan að byrja að ganga þrjú. Hafði samt tekið til sundpokann sem lá svo ósnertur á stól við hliðina á skápnum í ganginum. Um tvö leytið skrapp ég út og gerði mér ferð í Elko og Sports Direct. Þegar ég kom til baka aftur tók ég eftir miða frá póstinum sem var stílaður á mig. Það er ekki hægt að koma pósti til skila ef nafnið finnst ekki. Sendi fyrirspurn á eignarekstur og spjallaði líka rafrænt við einhvern hjá póstinum. Skrifaði nafnið mitt á miða og fór niður í anddyri og límdi hann á póstkassann sem tilheyrir íbúðinni minni. Það kom fljótlega svar frá eignarekstri sem hafði formann húsfélagsins með í póstinum. Fyrirspurnin mín varð og verður líklega til þess að íbúalisti blokkarinnar og merkingar verður uppfært. Óvíst þó hversu langan tíma það tekur. Um fimm leytið setti ég upp kjöt, bygggrjón og lauk og skar niður hálfa sæta kartöflu, eina rófu, nokkrar gulrætur og hluta af hvítkálshaus. Kjötsúpan var tilbúin um hálfsjö leytið og var mjög góð og nógur afgangur í nokkrar upphitanir. Aðskildi kjötið og bitaði niður og skipti súpunni annar niður í þrjú ílát. Er enn að ákveða mig hvort ég eigi að frysta amk eitt ílátið en á meðan er þetta allt saman inni í ísskáp. 

21.11.25

Fössari

Vaknaði um hálfsex í gærmorgun. Rúmum tveimur tímum seinna var ég mætt á braut átta í Laugardalslaug. Synti 500m, helminginn skriðsund. Kalda potts vinkona mín var nýmætt og hafði náð að hita sig upp áður en við hittumst í fyrstu ferðinni okkar af 4 í kalda pottinum. Gáfum okkur góðan tíma í allt pottarölt og gufu og var heildartími á sundferðinni tveir tímar og korter. Fór beinustu leið heim eftir sundið. Tók með mér fríblöðin upp og í Kópavogsblaðinu var viðtal við einn frænda minn og smið sem nýlega varð 76 ára og var að hætta vinnu þótt hann ætli ekki að leggja hamarinn alveg á hilluna. Annars fór dagurinn í dútl og dund. Skil samt ekki í mér að vera ekki byrjuð að handfjatla handavinnuna en það hlýtur að koma að því einn daginn. Það kom póstur frá fasteignasalanum í Domusnova. Hún var að senda öll skjöl varðandi afsalið til yfirferðar og tók fram að ef það væru engar athugasemdir þyrfti að greiða loka greiðsluna í síðasta lagi þann 24. nk. Ég sá ekkert athugavert þótt upphæðin væri rúmum hundraðþúsund hærri en á kaupsamningnum og gat ekki beðið eftir að gera upp. Að þessu sinni sendi ég greiðsluna í gegnum LÍ, varð eiginlega að prófa hvort sú leið gengi upp. Smám saman eru samt flest fjármál, greiðslur og innborganir, að færast yfir í Indo. Hef þó hugsað mér að eiga kreditkortið eitthvað áfram en síðustu misseri hef ég sjálf passað að það sé alltaf í plús svo ég sé sjaldan eða aldrei í mínus.

20.11.25

Sjórinn

Var snemma á fótum í gærmorgun og eftir hefðbundna morgunrútínu tók ég því rólega. Settist í hægindastólinn með eina bók og las til klukkan að ganga tíu. Um hálftíu leytið útbjó ég mér hafragraut og tók til vítamínin, daglega skammtinn og fyrir næstu tvo daga. Fékk boð um video-viðtal vegna atvinnuumsóknar og dreif það af. Þurfti að sópa aðeins af bílnum áður en ég fór af stað en var mætt í Nauthólsvík stuttu fyrir ellefu. Engin vandræði að finna stæði. Það var að fjara út, sjórinn rúmar þrjár gráður og að venju fór ég tvisvar út í, fyrst í uþb sjö mínútur og eftir 15 mínútur í gufunni aftur í tæpar fjórar áður en ég settist smá stund í pottinn. Síðan fór ég beint heim aftur. Það fannst asbest í gólfum í íbúðinni og ég samþykkti að taka á mig helminginn af kostnaðinum við að fjarlægja það og farga. Einnig létu ungu hjónin vita að lokagreiðsla og afsal vegna Stigahlíðar yrði gert upp í janúar og báðu um að fresta afsali vegna Drápuhlíðar þar til það uppgjör hefði átt sér stað. Samþykkti það líka. Ætla sam alls ekki að fresta loka uppgjörinu og afsalinu vegna Núpalindar en það verður í næstu viku.

19.11.25

Heimakær

Ég vaknaði um hálfsex í gærmorgun eftir átta tíma samfelldan svefn og ágætis drauma. Sinnti morgunrútínunni en þarf þó að fara að huga að því að taka fram lóðin aftur og bæta þeim við þessa ágætu rútínu. Var mætt á planið við Laugardalslaug korter yfir sjö. Byrjaði að synda á braut 8 en færði mig á braut 7 eftir fyrstu 100 metrana. Synti alls 700m á rétt rúmum hálftíma, flesta á bakinu. Gaf mér svo góða tíma í alla aðra sundrútínu, fór m.a. fjórum sinnum í þann kalda. Þvoði mér um hárið og var komin á Kringlusafnið rétt eftir að opnaði um tíu. Skilaði fjórum bókum af sex. Þær tvær sem voru eftir heima voru það þykkar að ég hafði hugsað mér að sleppa því að taka bækur með mér heim. Það fór þó ekki alveg svo, það komu tvær bækur en urðu næstum því fjórar eða fleiri. Til að sleppa því að taka bækur af safninu þarf ég helst að sleppa því að skoða mig um og fara beint út af safninu eftir skil. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni í Lindum. Lagði svo á efra planinu svo það væri styttra inn með töskur og poka. Tók líka lyftuna upp á fjórðu úr anddyrinu sem er á annarri hæð. Yfirleitt set ég mér það að taka stigana ef ég er ekki með mikið meðferðis. Á mánudaginn var fór ég með smá dót í lyftunni niður á fyrstu hæð og kom því fyrir í geymslunni, labbaði svo aftur upp á fjórðu. Annars stóð til að fara út í göngu í gær en dagurinn þróaðist þannig að stór hluti af honum fór í lestur á annarri bókinn sem varð eftir heima; Miðnæturrósin eftir Lucindu Riley, sama höfund og um systurnar sjö. Er tæplega hálfnuð með bókina en hún er yfir 600 bls.

18.11.25

Eitt og annað

Eftir köflótta nótt, sem hluta til fór í lestur, var ég komin á fætur fyrir klukkan sex í gærmorgun. Rétt rúmlega sjö lagði ég af stað í sund. Fór lengri en beinni leiðina. Var komin á braut 8 um hálfátta eftir að hafa byrjað í kalda pottinum. Synti aðeins 300m en helminginn af þeirri vegalengd á skriðsundi. Fór aftur í þann kalda, smá stun í þann heitasta og þriðju ferðina í þann kalda og svo sjópottinn í rúmar tíu mínútur. Var mætt í osteostrong rétt rúmlega hálfníu og komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Fór ekkert út aftur en sýslaði ýmislegt hérna heima við. Um þrjú leytið fékk ég gest, "föðursystur" mína sem ég er búin að þekkja síðan við sungum saman í kór FSu.

17.11.25

Ný vika

Fór á fætur stuttu áður en klukkan sló hálfníu. Pabbi kom á fætur rúmum tveimur tímum síðar. Hafði reyndar eins og alltaf verið búinn að koma fram, fá sér eitthvað og skrá niður helstu tölur. Um hálftólf leytið fengum við okkur skyr og korter yfir tólf ókum við á hans bíl sem leið lá að Keldum. Þar var messa klukkan eitt í tilefni 150 ára afmæli kirkjunnar. Prestur var séra Halldóra Þorvarðardóttir, kór Oddakirkju leiddi söng og organistinn var frændi minn og þremenningur Guðjón Halldór Óskarsson. Kirkjuvörðurinn, Drífa Hjartardóttir leiddi bæði upphafs- og lokabæn en hún sagði einnig frá kirkjunni og sumum munum hennar eftir tvo fyrri ritningalestrana. Kirkjan er ekki stór en hún var þétt setin þótt það hefðu alveg komist fleiri fyrir. Veðrið var í alla staði frábært og þessi stund var og verður eftirminnileg. Eftir messuna kíktum við pabbi aðeins í garðinn áður en við brunuðum í kirkjukaffi í safnaðarheimilið við Dynskála á Hellu. Pabbi hitti m.a. einn leikfélaga sinn úr æsku. Sá er tveimur árum yngri og er sá síðasti sem fæddist á Keldum. Komum úr kaffinu um hálffjögur og fljótlega tók ég mig saman og brunaði heim.

16.11.25

Á Hellu

Var mætt á braut 8 í Laugardalslaug milli klukkan átta og hálfníu. Breytti rútínunni örlítið því eftir 400m, tvær ferðir í þann kalda, gufuferð og korter í sjópottinum fór ég aftur á braut 8 og synti 100m áður en ég fór upp úr. Um tíu leytið var ég mætt vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Við lásum rúmar þrjár blaðsíður í Kon-Tiki. Kom við á AO við Öskjuhlíð áður en ég fór heim með sunddótið. Um eitt leytið lagði ég af stað austur. Leit við í Löngumýrinni á Selfossi. Var komin á Hellu um hálffjögur. Annars held ég að það sé ágætt að minnast á að það fyrsta sem ég gerði áður en ég fór á fætur og í sund var að borga af húsnæðisláninu mínu. Sem reyndar er ekki í frásögu færandi nema vegna þess að þegar ég var búin í sundi þá birtist loksins fyrri seðillinn af tveimur sem ég útbjó samning um vegna niðurgreiðslu á þessu láni. Þennan samning stofnaði ég til á föstudegi fyrir rúmri viku en hann varð ekki sýnilegur fyrr en eftir að ég var búin að borga reglulegu afborgunina af láninu. Líklega verið að passa upp á að maður borgi þetta í réttri röð, fyrst þessa reglulegu og svo það sem maður vill borga inn á aukalega.

15.11.25

Nóvember hálfnaður eftir daginn í dag

Aldrei þessu vant hef ég ekki frá neinu sérstöku að segja varðandi gærdaginn. Nema kannski að það er ótrúlega gott að vera í þessari íbúð og gera alls konar og ekki neitt. Það stóð til að ég færi í sund en ég missti af morgunglugganum og svo leið dagurinn einhvern veginn. Var samt búin að taka til sundtöskuna en hún er þá bara tilbúinn í sundið þegar opnar klukkan átta. 

14.11.25

Færslan með seinni skipunum í dag

Í gærmorgun var ég komin á fætur upp úr klukkan sex. Rúmum tveimur tímum seinna, eða stuttu fyrir klukkan hálfníu, var ég mætt á braut 7 í Laugardalslauginni. Synti 600m þar af helminginn skriðsund. Var búin að fara eina ferð í þann kalda, sitja um korter í sjópottinum og nýkomin í nuddpottinn þar sem ég hitti eina mágkonu hennar mömmu, þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við fjórar ferðir í þann kalda, tvær í heitasta pottinn sem ekki var svo heitur, góða gufu ferð og annað korter í sjópottinn. Klukkan var langt gengin í ellefu þegar ég kom heim. Til stóð að ég gerði eitthvað meira úr deginum en það sem ég dúttlaði hér heima við er ekki í frásögur færandi. Davíð Steinn kom eftir vinnuvakt um átta leytið í gærkvöldi og þáði hjá mér kjötsúpu. Spjallaði alveg helling og stoppaði í góða þrjá tíma. Klukkan var því byrjuð að ganga tólf þegar ég fór upp í rúm. Las að sjálfsögðu í smá stund áður en ég fór að sofa; Perlan eftir Birnu Önnu Björnsdóttur

13.11.25

Dekkjaskipti

Vaknaði einhvern tímann á sjöunda tímanum í gærmorgun. Sýslaði hér heima við fram eftir morgni en stuttu fyrir klukkan ellefu tók ég sjósundsdótið með mér út og brunaði beinustu leið í Nauthólsvík. Aldrei þessu vant var hægt að velja úr stæðum. Var komin út í 2,9°C sjóinn tuttugu mínútum yfir ellefu og að þessu sinni var ég bæði í hönskum og þykkari skóm. Svamlaði um í uþb 7 mínútur í fyrri ferðinni og ca 3 í seinni ferðinn eftir 15 mínútur í gufunni. Ég átti tíma í dekkjaskipti í Fellsmúla um hálftvö. Var komin á svæðið korter fyrir þann tíma. Tíminn var vissulega bókaður á þessum stað en dekkin höfðu verið send á N1 dekkjaverkstæðið við Bíldshöfða í síðustu viku. Það var hringt þangað til að kanna hvort hægt væri að koma mér að. Svarið var jákvætt og ég var mætt þangað rétt rúmlega hálftvö. Þurfti ekki að bíða nema uþb tíu mínútur til að komast að. Tveir skynjarar voru ónýtir og ég samþykkti strax að fá nýja. Heilsársdekkin sem voru undir bílnum voru orðin það slitin að þeim var fleygt svo ekki þarf ég að borga fyrir geymslu á þeim. Fékk að nota kennitölu N1 sonarins eins og alltaf áður og greiddi rúmar tuttuguogeittþúsund krónur fyrir þessa þjónustu. Kom svo aðeins við upp á Gagnvegi þar sem Davíð Steinn var á vakt, í og með til að þakka honum fyrir að fá að nota kennitöluna hans. Var komin heim fyrir klukkan fjögur.

12.11.25

Kjötsúpa

Hvað ég varð hissa að sjá að klukkan var að verða hálfátta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Þetta truflaði svo sem ekki morgunrútínuna en ég snéri annarri rútínu við og ákvað fljótlega að fara ekki í sund fyrr en einhvern tímann eftir hádegi. Um tólf sendi ég fyrirspurn á kalda potts vinkonu mína. Hún sagðist myndu verða í sundi um fjögur. Um hálfþrjú leytið fór ég með bylgjupappír og plast í Sorpu við Dalveg. Kom svo við á einum öðrum stað áður en ég fór í sundið. Var komin á braut 7 um hálffjögur og synti 600m á uþb hálftíma, flestar ferðirnar á bringunni en þó 150m skriðsund. Hrafnhildur var komin og tilbúin í fyrstu ferðina í þann kalda á slaginu fjögur. Gáfum okkur góðan tíma í alla rútínu og var klukkan að byrja að ganga sex þegar ég kvaddi. Umferðin heim um Kringlumýrarbraut var í þyngra lagi en ég var þó komin heim áður en klukkan varð sex. Þá vatt ég mér beint í að búa mér til kjötsúpu. Hafði keypt allt í hana fyrir nokkrum dögum og ég vissi að ég yrði að fara að nota amk hluta af grænmetinu. Súpan var tilbúin um hálfátta, mjög góð. Brytjaði niður afganginn af kjötinu og geymi sér og skipti afgangnum af súpunni í tvennt. Það verða því amk tveir kjötsúpudagar í viðbót á næstunni sem er alveg tilhlökkunarefni.

11.11.25

Seint í háttinn í gær

Ég var komin á stjá einhvern tímann á sjöunda tímanum í gærmorgun. Um átta hringdi ég í osteostrong og þegar var hringt til baka örfáum mínútum síðar bað ég um að fá að færa tíma dagsins til klukkan eitt. Á slaginu hálfníu hringdi rafvirkinn bjöllunni í anddyrinu. Hann kom inn með stiga, fór yfir það sem hann átti að gera og þurfti á þessum einum og hálfa tíma sem hann var að græja og gera að skreppa þrisvar út í bíl að ná í eitthvað. Nú eru komin ledljós í loftið í eldhúsinum og svefnherberginu og tvö ljós á vegginn fyrir aftan sófa og stól í stofunni. Einnig lagaði hann eina innstunguna. Ég bað hann um að skoða hversvegna ekki kviknaði ljós undir innréttingunni yfir vaski og eldavél og það var vegna þess að það er tengt ljósinu í viftunni. Það er hægt að hafa aðeins ljós á viftunni en það verður að kveikja á því ljósi til að hægt sé að kveikja á hinum ljósunum. Rafvirkinn var farinn fyrir ellefu og reikningurinn birtist í einkabankanum seinni partinn með eindaga eftir viku. Það tók ekki svo langan tíma að sópa upp og ganga frá. Var mætt í Hátún 12 rétt fyrir eitt. Þurfti að bíða í smá stund og svo bætti ég mig eða jafnaði mitt besta á öllum tækjum. Korter fyrir tvö var ég komin á braut 8 í Laugardalslauginni. Synti 600m á tæpum hálftíma, flestar ferðir á bakinu en einnig smá skriðsund og kannski 25m bringusund. Á leiðinni heim eftir sundið stoppaði ég aðeins við í Krónunni í Lindum.  Fyrrum samstarfskona mín og jafnaldra, sem býr í Skógarhjallanum í Kópavogi kíkti í heimsókn um átta. Við vorum ekki búnar að hittast síðan einhvern tímann fyrri partinn í sumar en við höfum hringst á nokkrum sinnum. Tveir tímar liðu ótrúlega hratt. Þurftum báðar að spjalla mikið og svo er andinn í þessari íbúð svo umvefjandi og góður að það fer alveg ótrúlega vel um mann. Eftir heimsóknina fór ég fljótlega í háttinn og kláraði að lesa skammtímalánsbókina af Kringlusafninu; Krufning eftir Patriciu Cornwell.

10.11.25

Morgunstund heima

Losaði svefn um hálffjögur leytið. Opnaði ekki augun sem voru límd aftur, hunsaði blöðruna og hélt að það væri nóg til að sofna fljótlega aftur. Heyrði þó stofuklukkuna slá fjögur, hálffimm og fimm en ekkert svo löngu síðar, að mér fannst sló hún níu högg. Ég fór semsagt ekki á fætur fyrr en á tíunda tímanum í gærmorgun. Pabbi kom fljótlega klæddur fram, hafði pottþétt verið búin að koma fram mun fyrr um morguninn til að taka niður helstu tölur og fá sér eitt harðsoðið egg. Hann setti upp saltað kindakjöt um tíu leytið og hægsauð það. Bætti kartöflum og rófum í pottinn tuttugu mínútum áður en máltíðin var tilbúin stuttu fyrir tólf. Það var feðradagurinn í gær en pabbi vildi sjá um þessi verk sjálfur. Ég rétt svo fékk að ganga frá og setja uppþvottavélina af stað á eftir. Rétt fyrir tvö tók ég mig saman og kvaddi pabba. Hringdi í Odd rétt áður en ég lagði í hann og svo aftur þegar ég var komin á Bakkann. Hann kom út og sótti hleðslutækið sitt sem hann hafði gleymt hjá afa sínum þegar þeir bræður heimsóttu hann í vikunni eftir afmælið hans. Þarna var ég að hitta þennan son minn í fyrsta skipti síðan hann flutti austur fyrir akkúrat þremur mánuðum. Hann vildi ekki setjast inn í bíl, var þó alls ekki hræddur um að ég myndi ræna sér, en við spjölluðum saman í nokkrar mínútur. Áður en ég hélt för áfram. 

9.11.25

Jólakortaframleiðsla í gærkvöldi

Man að ég rumskaði um fjögur í fyrrinótt og fannst það heldur snemmt. Sem betur fer sofnaði ég aftur fljótlega og næst vissi ég af mér um átta í gærmorgun. Ákvað strax að sleppa sundferð. Sinnti bara morgunrútínunni og pakkaði niður í tösku. Um tíu var ég mætt til esperanto vinkonu minnar. Við lásum þrjár blaðsíður í Kon Tiki. Kvaddi um hálftólf. Hringdi í pabba og lét hann vita að ég væri á leiðinni austur. Kom fyrst við á Gagnveginum. Það er vaktahelgi N1 sonarins en hann hafði tekið sér frí svo ég hitti ekki á hann. Jafnaði loftþrýstinginn í dekkjunum og gerði næsta stopp í Fossheiðinni eftir að hafa keyrt Þrengslin. Til pabba var ég komin um hálfþrjú en ég gerði stutt stopp í vínbúðinni, heilsaði upp á bekkjarsystur systir minnar og keypti af henni eina litla hvítvínsflösku. Kortagerðadótið var mest allt í herberginu sem ég hef til afnota frá því ég kom austur helgina sem pabbi átti afmæli. Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég tók það fram í eldhús. Fann þrjú ónotuð kort frá því í fyrra og samkvæmt Fb-minningum voru það helmingi færri heldur en þegar ég tók fram dótið í fyrra. Um hálfníu var ég búin að föndra um tuttugu kort. Þá fyrst hellti ég mér í hvítvínsglas. Skipti flöskunni í 2xrúmt hálft glas og dreypti á næsta klukkutímann á meðan ég gerði 7 kort í viðbót. Á þá 30 kort en það eru innan við tuttugu á listanum. Hver veit nema ég sendi fyrrum nágrönnum sem og ungu hjónunum sem keyptu af mér Drápuhlíðina. Það kemur í ljós þegar ég fer í jólakortaskrifgýrinn. Tók saman föndrið um tíu en klukkan var byrjuð að ganga tólf áður en ég fór í háttinn, á undan pabba.

8.11.25

Aftur komin helgi

Í gærmorgun var ég mætt á planið við Laugardalslaug um átta og var eiginlega stálheppin að fá stæði. Það var að byrja eitthvað mót og því óvanalega margir bílar komnir á planið. Fékk heldur engan hornskáp í klefanum en sætti mig svo sem alveg við miðjuskáp þar sem hann var einn af þeim stærri. Aftur á móti fékk ég braut no 7 nánast útaf fyrir mig eða í amk 4 hringi af sex. Sundferðin og allt sem henni fylgdi tók rétt rúma tvo tíma. Kom svo við í Fisbúð Fúsa. Óbarna ýsan var uppseld en ég keypti ýmislegt annað og þegar ég kom heim setti fiskibollur í pott og hitaði upp. Með þeim hafði ég rósakál og súrkál. Á þriðja tímanum skrapp ég út í göngu og labbaði m.a. upp í krikjugarð, í kringum Lindakirkju, inn í Salahverfið og næstum því að Salalauginni. Forritið skráði sjálfkrafa á mig þrjá göngutúra 1,5-1,8km langa. Var komin heim aftur stuttu fyrir klukkan fimm. 

7.11.25

Píparar

Við kalda potts vinkona mín mæltum okkur mót í Laugardalslaug um hálfníu í gærmorgun. Ég ætlaði að mæta milli átta og hálfníu en þar sem ég fór ekki af stað fyrr en klukkan var orðin átta lenti ég í mikilli umferð og var uþb tuttuguogfimm mínútur á leiðinni. Var að leggja á planinu við laugina um hálfníu. Vissi að við værum að fara í pottarölt, gufu og almenna slökun en tók samt sundgleraugun með mér ef ég skyldi nú stinga mér aðeins til sunds í restina. Það fór þó svo að ég sleppti sundinu í þetta sinnið. Klukkan var farin að ganga ellefu og ég ætlaði að athuga hvort Fúsi væri búinn að opna. Áður en ég kom að afleggjaranum þar sem ég ætlaði að beygja fékk ég símtal. Um var að ræða svar við beiðni sem ég sendi fyrir tæpum tveimur vikum um aðstoð frá pípara. Ég brunaði því beinustu leið heim. Tveir ungir menn, undirverktakar, sátu í hvítum bíl á efra planinu og urðu samferða mér inn. Annar fór að huga að þvottavélinni, tók allt teip af og festi affallsbarkann með hosuklemmu. Hinn sá um handklæða ofninn, losaði um pinnann og varð einnig að breyta skífunni svo hún sýndi rétta stillingu. Þetta tók í heildina varla nema um tíu mínútur og ég var sátt og glöð þegar ég kvaddi ungu mennina. Setti strax í eina þvottavél og þorði ekki annað en að fylgjast aðeins með fyrsta kastið. Um hálfþrjú leytið skrapp ég út. Rölti fyrst yfir í Bæjarlind 6 til að athuga aðeins með dragtir hjá Rítu. Þaðan labbaði ég svo í Smáralindina. Keypti einn neyðarkarl og rölti um. Labbaði svo yfir á Smáratorgið og kom aðeins við í Krónunni. Hitti fyrrum formann óháða safnaðarins en við tvær og einn til erum saman í nefnd yfir Bjargarsjóði sem var stofnaður fyrir margt löngu til heiður ömmu hennar og nöfnu sem var ein af stofnendum safnaðarins á sínum tíma. Klukkan var byrjuð að ganga sex þegar ég kom heim og skrefin komin yfir sjöþúsund.

6.11.25

Prófaði eitt alveg nýtt í gær

Var komin á stjá fyrir klukkan sex í gærmorgun. Stefndi allan tímann á það að mæta í Nauthólsvík upp úr klukkan ellefu. Rétt fyrir átta setti ég handklæði og tuskur í þvottavélina. Allt fór vel fram fyrst í stað en þegar prógrammið var hálfnað hafði affalls-slangan losnað og lá á gólfinu. Náði að festa hana aftur og líma betur með breiðara teipi en það lak samt smávegis í fötuna. Ekki kom mikill pollur á gólfið því ég hafði tekið eftir þessu nógu snemma. Klukkan var annars um hálftólf þegar ég mætti í Nauthólsvík. Rétt á eftir mér inn í klefa kom ein vinkona frænku minnar og frænka tvíburanna. Hún var sein fyrir og voru vinkonur hennar þegar búnar að skella sér í sjóinn og að koma sér fyrir í pottinum þegar við urðum samferða í 4,3°C sjóinn. Þrátt fyrir að hitastigið væri komið undir 6 gráður ákvað ég að prófa að fara í strandskónum og hanskalaus út í. Var alveg með hina skóna og hanska meðferðis en ég var smá forvitin að prófa. Fann að sjálfsögðu vel fyrir kuldanum en tolldi alveg út í í uþb 7 mínútur. Tók nokkur skriðsunds tök og svamlaði aðeins á bakinu. Fór aftur út í í 3 mínútur eftir ca 15 mínútur í gufunni í millitíðinni. Í pottinum á eftir hitti ég eina sem ég kynntist í Landsbankakórnum á sínum tíma. Kom heim um hálftvö. Tveimur tímum seinna sá ég að ég hafði fengið póst vegna atvinnuauglýsingar þar sem mér var tilkynnt að að það yrði sendur á mig linkur þar sem ég svaraði nokkrum spurningum á upptökum, fengi tvær tilraunir og ég hefði til 9. nk að klára og senda inn. Þetta var bæði ógnvekjandi en líka afar spennandi og ég var mjög forvitin um hvort ég gæti klárað þetta af alein og sjálf. Það var boðið upp á aðstoð en ég fiktaði mig áfram og hafði gaman af. Samt var ég frekar stressuð og vafðist stundum tunga um tönn. Það hefði líklega verið best að geyma þetta verkefni amk til morguns, græja þetta í dag semsagt. Kannski var ég of fljótfær og kannski kem ég ekki nógu vel fyrir og fyrir mig orði en ég er klárlega reynslunni ríkari og læri af þessu. 

5.11.25

Mið vika

Fór aðeins fyrr út úr húsi í gærmorgun eða um hálfátta. Umferðin var þegar orðin mikil en ekki alveg eins þung og um átta leytið á mánudagsmorguninn. Var komin á planið við Laugardalslaug rúmum tíu mínútum fyrir átta. Byrjaði á tveimur ferðum í þann kalda, einni í þann heitasta og góða stund í sjópottinum áður en ég fór á braut 8 og synti 500m. Átti eftir að fara tvær ferðir og dýfu í þann kalda, gufuna og aftur í sjópottinn áður en ég fór upp úr stuttu fyrir klukkan tíu. Áður en ég lagði af stað vestur í bæ í esperanto hitting hringdi ég í Odd og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni. Stuttu áður en espó-hittingnum lauk hringdi annar móðurbróðir minn í mig. Hann sagðist skyldu kaupa það sem vantaði til að þétta þvottavéla-affallstenginguna og þau hjónin myndu koma í heimsókn um kvöldið. Eftir hittinginn fór ég með bílinn í Löður við Fiskislóð og keypti mér þvott á hann. Kom heim upp úr klukkan tólf. Sýslaði við eitt og annað, fór m.a. tvær ferðir með dót í geymsluna. Um miðjan dag skrapp ég út með málm í gám og smá göngu í kjölfarið. Fór næstum sama hringinn og ég fór um daginn, stækkaði hann þó aðeins, labbaði 2km á 26 mínútum. Ómar og Sigga komu fljótlega eftir kvöldmat. Í ljós kom að affallstengingin er hönnuð fyrir vask og eiginlega 10mm of þröng, 40mm en ekki 50. Ómar gat ekki notað stykkið sem hann kom með en ég hafði keypt 40mm í Byko í fyrradag svo hann gat mixað þetta en bað mig um að fylgjast með, þegar ég setti þvottavélina af stað í næstu 2-3 skiptin, hvort þetta væri örugglega orðið þétt.

4.11.25

Færsla no 4477

Í gær ákvað ég að fara í osteostrong tíma áður en ég færi í sund. Var komin tímalega af stað því mig grunaði að umferðin úr Kópavoginum yfir í Reykjavík á níunda tímanum væri mikil. Það reyndist vera rétt. Ég mætti í Hátúnið rétt rúmlega hálfníu, rúmum tuttugu mínútum eftir að ég lagði upp frá Núpalind. Komst beint í tíma og stóð mig alveg ágætlega í öllu; upphitnum, tækjum, jafnvægisæfingum og slökun. Var komin á braut 2 í Laugardalslaug um tuttugu mínútum yfir níu. Synti 500m, þar af 150m skriðsund. Sundferðin, frá því ég setti skóna í hilluna framan við klefa og þar til ég var búin að klæða mig í þá aftur eftir alla rútínu, tók rúman einn og hálfan tíma. Kom við í Byko í Kópavogi á leiðinni heim. Keypti eitthvað smotterí en ákvað að það væri betra að ég hefði einhvern vanari með mér í þessum innkaupum. Ætlaði semsagt að kaupa eitthvað til að þétta betur þvottavélatengingarnar vegna vatns í og úr vélinni. Það er ekki sniðugt að kaupa bara eitthvað ef maður er ekki viss og maður er ekki viss ef maður hefur aldrei spáð í þessa hluti. Restin af deginum fór svo þannig séð eiginlega í ekkert sérstakt en samt leið hann frekar hratt. 

3.11.25

Mánudagur

Mætti á braut 7 í Laugardalslaug um hálftíu og synti 500m, flesta á bakinu. Síðustu 50m synti ég reyndar á braut 8. Hitti svo kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum. Eftir þrjár ferðir í hann og góða gufuferð hittum við frænku hennar í sjópottinum og stuttu síðar slóst elsta systir kalda potts vinkonunnar í hópinn. Þvoði mér um hárið og var komin upp úr rúmlega ellefu. Kom aðeins við í Krónunni í Skeifunni og keypti mér m.a. efnivið í kjötsúpu áður en ég fór heim. Seinni partinn skrapp ég til tvíburahálfsystur minnar og skilaði henni gestarúminu og efninu sem hún lánaði mér til að bera á sófaborðið. Annars fátt að frétta, nema dagarnir þjóta áfram sífellt hraðar.

2.11.25

Helga systir á daginn í dag

Það kom í ljós að ég hefði ekkert þurft að vera að hafa áhyggjur af því að hreinsa ekki snjóinn af bílnum áður en frysti í vikunni. Það var aðeins smá slabb við bílinn þegar ég skrapp í Sorpu um miðjan dag í gær. Fór því næst til Reykjavíkur, nánar tiltekið í Kringluna. Lét smíða tvo auka lykla af geymslunni hjá skóaranum og keypti mér frækex í Heilsuhúsinu. Á seinni staðnum hitti ég jafnöldru mína sem ég er búin að þekkja í nokkur ár. Það kom í ljós að ungu hjónin sem voru að kaupa af mér búa í sama stigagangi og hún í Stigahlíðinni. Þau eru að undirbúa flutning og mér skilst að nágrannarnir sem eftir verða sjá mjög á eftir þeim. 

1.11.25

Áttunda nóttinn, sú fyrsta í nýja rúminu

Það er kominn 1. nóvember, sextíuogeinn dagar eftir af árinu ef þessi laugardagur er talinn með og ég nýkomin á fætur eftir að hafa sofið fyrstu nóttina í nýja rúminu á Sealy Portland City heilsudýnu. Í gærmorgun var ég mun fyrr á ferð á fótum og nær þeim tíma sem ég er oftast komin á stjá um og upp úr sex. Prófaði sturtuna í fyrsta skipti. Það var alveg ágætt en mér finnst þó best að þvo mér í sturtunum í sundlaugunum. Morguninn leið frekar hratt við ýmis misgáfuleg "verkefni". Á tólfta tímanum hringdi ég í Davíð Stein og var hann tilbúinn að koma og setja saman nýja rúmið með mér. Hann mætti um eitt og vatt sér beint í verkefnið. Ég var aðeins búin að undirbúa en var svo svona handlangari að mestu. Borvélin mín kom að mjög góðum notum. Klukkan var sennilega um hálfþrjú þegar rúmið var komið upp. Settum lak á en svo lauk ég við að búa um eftir að sonurinn fór um hálffjögur leytið. Sátum fram að því inn í stofu og spjölluðum um eitt og annað. 

31.10.25

Prófaði svefnsófann í nótt

Ég var snemma á fótum í gærmorgun og var bara að sýsla hér heima við fram yfir hádegi. Um eitt leytið rölti ég í Krónuna og kom heim aftur fyrir tvö með tvo poka. Um þrjú leytið var loksins hringt vegna nýja rúmsins, að allt væri komið og ég spurð hvort ég vildi sækja það. Ég sem hélt að ég hefði beðið ákveðið um að það yrði sent með bíl og auka manni í burð. Bað um það og mér var sagt að þeir myndu koma einhvern tímann milli fjögur og sjö. Klukkan var reyndar langt gegnin í átta þegar sendingin kom loksins. Var löngu búin að tæma gestarúmið, brjóta það saman og setja ofan í poka. Svo það var gott pláss fyrir "dótið" í herberginu. Það var hins vegar bæðið orðið rökkvað og tíminn þannig að ég vildi ekki vera með hávaða. Ekki heldur viss um að það væri nóg fyrir mig að verða aðeins ein og með borvél í verkinu. Þannig að um hálftíu leytið bjó ég um mig í svefnsófanum í stofunni. Annars hringdi ég í Ellu vinkonu í gær. Hún var akkúrat með gest en hringdi til baka rétt fyrir þrjú. Við vorum akkúrat í miðju samtali þegar var hringt frá Dorma.

30.10.25

Hvar er nýja rúmið mitt?

Ég lét bílinn alveg vera í gær líkt og í fyrradag. Hefði sennilega samt átt að sópa aðeins af honum og moka snjóinn fyrir aftan bílinn. En í staðinn var ég að duna hér heima við að mestu. Fór þó líka í hálftíma göngutúr um nær umhverfi, hring um Linda-hverfi. Notaði gönguskóna sem Davíð Steinn gaf mér fyrir nokkru. Hann hafði keypt þá á sig en þegar til kom voru þeir of litlir. Eru alveg passlegir á mig og mjög góðir. En þar sem ég var að ganga á þeim í fyrsta skipti ákvað ég að vera ekki að ganga of langt. Var þó eitthvað að spá í að labba yfir í Krónuna en ákvað að það mætti alveg bíða aðeins lengur. Það væri líka skynsamlegt að útbúa lista yfir það helsta sem fer að vanta. 

29.10.25

Ekkert á ferðinni í gær

Svaf til klukkan að ganga átta í gærmorgun. Veit þó að ég rumskaði einhvern tímann skömmu eftir miðnætti og það tók smá tíma að sofna aftur. Skrifa það á alls konar spenning. Varð ekki beint andvaka og ég lét það ekki eftir mér að kveikja á símanum, nema til að athuga tímann, eða lampanum til að fara að lesa. Þegar ég kíkti svo út um gluggann eftir að ég fór á fætur varð mér ljóst að ég væri ekkert að fara neitt á bílnum. Hefði getað skroppið í smá göngu og verið aðeins duglegri við að sýsla hérna heima en einhvern veginn leið samt dagurinn og það frekar hratt. Um sex leytið setti ég upp hýðishrísgrjón í einn pott og afhýddi sæta kartöflu og skar niður ásamt einni vænni gulrót í pott og bætti blómkáli saman við. Með þessu borðaði ég smá súrkál. Ágætis kvöldmatur og það er afgangur sem vel er hægt að borða kaldan. 

28.10.25

Það snjóar og snjóar

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun og í Laugardalslaug rúmum klukkutíma síðar. Synti 300m á braut 8. Þegar ég var að slaka á, í sjópottinum, og svara ungri konu um í hvaða sveit ég ólst upp spurði einn eldri maður, fastagestur, hvort afi minn hafi verið Oddur Oddsson frá Heiði. Sagðist hafa þekkt hann af afspurn.  Var mætt í osteostrong rétt rúmlega hálfníu. Fór heim og var að sýsla við eitt og annað í rólegheitum fram yfir hádegi. Upp úr hádeginu gerði ég ferð í Ikea, þar fann ég skógrind og einnig betri fætur undir ikea-mubluna í herberginu. Ætlaði að skreppa í fiskbúð Fúsa en þar var lokað vegna vetrarfrís. Skrapp í LÍ í Borgartúni og fékk útprentað skjal og smá leiðbeiningar varðandi gjaldkeraskipti í húsfélagi. Fór síðan heim aftur. Hringdi í pabba og báða syni mína til að spjalla við tvo af þeim en ég fékk Davíð Stein til að kíkja yfir seinni partinn eða á sjötta tímanum og hjálpa mér að skrúfa fæturnar undir og reisa við mubluna í herberginu. Hann hefði helst viljað setja upp ledljósin í eldhúsið og herbergið en bæði fannst mér orðið of skuggsýnt og ég var ekki viss um að eldhústrappan væri nógu há enda bara tvær tröppur.

27.10.25

Mánudagur

Var komin á fætur skömmu fyrir klukkan sjö. Hætti fljótlega við að fara í sund en var í staðinn að dútla við ýmislegt hér heima. Prófaði m.a. eldavélahelluna í fyrsta skipti og bjó mér til hafragraut. Um eitt leytið fór ég með umbúðirnar af stofumublunum í Sorpu. Á eftir mér í röðinni var bekkjarbróðir Davíðs og konan hans og hjálpaði Sæmi mér að tæma pappann úr bílnum alveg óumbeðið. Þau komust hvort sem er ekki í burtu fyrr en ég var búinn. Þetta tók þó alls ekki langa stund. Næst lá leiðin yfir til tvíburahálfsystur minnar. Þær mæðgur sátu að snæðingi í nokkurs konar morgun/hádegisverði og var mér boðið að njóta með þeim. Við vinkonurnar vorum svo á leiðinni í Ikea. Sonja átti sendingu á Korputorgi og við ákváðum að fara fyrst þangað. Áður en við voru komnar alla leið datt okkur í hug að kíkja í Bauhaus fyrst. Þar fundum við ýmislegt sem sett var í kerru og verslað. Það varð því engin ferð í Ikea í þetta skiptið, töldum okkur vera komnar með allt sem þarfnaðist í bili. Sóttum sendinguna hennar og fórum með hana í Ljósakurinn ég dreif mig heim og þangað kom frænka mín og nafna sem hjálpaði til við undirbúninginn undir söluna á Drápuhlíð. Sonja kom skömmu síðar með vörurnar úr Bauhaus, verkfæri, skrúfur og fleira. Fengum okkur te og drukkum það í stofunni. Það fór vel um okkur í sófanum. Þegar frænka mín var farin ætluðum við Sonja að setja fætur undir lausa ikea skápinn í herberginu. Þegar við snérum honum við sáum við að það var gert ráð fyrir fótum með skrúfum í. Ég þarf þá að fara í Ikea eftir allt saman. Sonja gerði tilraunir til að "vekja" handklæða ofninn en það þarf víst að kalla til pípara í það mál. En það var hægt að setja saman skúffueininguna sem tekur við hlutverki grindanna í herbergisskápnum. Klukkan var farin að ganga sjö þegar við kölluðum þetta gott í bili. Sonja kvaddi og ég sýslaði smávegis í viðbót áður en ég "dagaði" uppi í nýja hægindastólnum fyrir framan sjónvarpið. 

26.10.25

Mublur í stofuna

Svaf alveg þokkalega en ekki óslitið fyrstu nóttina í Núpalind.  Þurfti að fara á salernið um tvö og fannst svolítið of kalt að fletta af mér sænginni. Ofnarnir voru stilltir á minna en 3 og þrátt fyrir að fagna kuldanum í sjónum og þeim kalda þá fannst mér ekki þægilegt að trítla fram á bað. Samt svo skrítið að ég fann ekki fyrir þessu að deginum til. Fór á fætur um sjö leytið og var klukkan byrjuð að ganga níu þegar ég lagði af stað í Laugardalslaugina. Þar var mjög rólegt, amk í kvennaklefanum. Fór beint á braut 7 og synti 600m. Var komin heim aftur um hálfellefu. Systir mín hringdi í mig um hálfeitt og rétt eftir að við hættum að spjalla var hringt í mig vegna sófans, hægindastólsins og sófaborðsins. Þetta var allt komið inn á stofugólf til mín upp úr klukkan eitt. Stóllinn í einum stórum kassa, sófaborðið í einum kassa og sófinn í þremur "kössum" eða viðamiklum plast og pappaumbúðum. Hringdi strax í tvíburahálfsystur mína og hún kom um tvö leytið með verkfæri með sér. Hún sá eiginlega alfarið um að púsla þessu saman. Ég gekk að mestu frá pappanum og plastinu og var svo að styðja við eða hjálpa til við að lyfta þegar/ef það átti við. Svitinn bogaði af okkur báðum. Ég opnaði út á svalir og varð skömmu síðar að opna rifur á þá hluta sem loka svölunum því það myndaðis móða innan á plexíglerið. Klukkan var farin að ganga sjö þegar mublurnar voru komnar saman og búið að stilla þeim upp. Sonja kvaddi á áttunda tímanum og ég eyddi kvöldinu til klukkan að ganga tíu í rafmagns-hægindastólnum.

25.10.25

Fyrsta nóttin í Núpalind

Ég var komin í Núpalind rétt um tíu í gærmorgun. Hafði allt dótið með mér úr vesturbænum, blómin og töskuna, því ég var að vona að nýja rúmið yrði sent til mín í gær. Var eitthvað að sýsla hér heima aðeins fram yfir hádegi. Um hálftvö fékk ég mér göngutúr á Smáratorg sem er aðeins í uþb 1km fjarlægð. Fór fyrst í Jysk og skoðaði sófann, sem ég sá um daginn, betur og einnig hægindastól. Gaf mér góðan tíma í þetta en ákvað svo að rölta yfir í Dorma og leita frétta af rúminu. Gámarnir komu víst fyrri partinn í vikunni en sá gámur sem helst var beðið eftir var ekki opnaður fyrst svo rúmið er ekki að koma fyrr en eftir helgina. Dorma og Jysk eru auðvitað sitthvort fyrirtækið og ekki hægt að sameina sendingu frá þeim. Prófaði samt að spyrja. Ég fór svo aftur yfir í Jysk og spurði hvenær sófinn, stóllinn og borðið myndu koma ef ég keypti núna. Ég var það ánægð með svarið að ég staðgreiddi hlutina. Þarf svo að borga flutningamönnunum þegar þeir koma með þá upp úr hádegi í dag. Var komin heim aftur stuttu áður en beina útsendingin frá Lækjartorgi/Arnarhól hófst. Tvíburahálfsystir mín hringdi um fjögur og kom upp úr fimm með gesta rúm pakkað í kassa. Hún stakk því í samband inni í herbergi og snéri rofa svo það blés út í ágætis stærð. Hún var líka með lak til að lána mér. Svo settumst við fram í eldhús, fengum okkur te og spjölluðum. Hún aðstoðaði mig líka við að skrá mig hjá vinnumálastofnun. Á áttunda tímanum ákváðum við að fara yfir til hennar og horfa á þáttinn um Vigdísi Finnbogadóttur. Hún fór á undan því ég ákvað að búa alveg um mig og fara yfir á mínum bíl. Var mætt rétt áður en þátturinn hófst og horfði einnig á þáttinn á eftir. Var komin heim á ellefta tímanum.

24.10.25

Afhenti Drápuhlíðina seinni partinn í gær

Vaknaði rétt fyrir sjö í gærmorgun eftir mjög góðan nætursvefn. Fór þó ekki á fætur fyrr en rúmlega átta. Synti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér vatnsglas og tók með mér sunddótið þegar ég fór úr húsi um hálfníu. Var komin í Drápuhlíðina tíu mínútum fyrir  níu. Einn frá þrifafélaginu var þegar mættur. Ég hleypti honum inn, sýndi hvað ég vildi láta gera varðandi sameignar-gólfflötinn, afhenti honum húslykla og stakk svo af í sund. Sundrútínan var alveg þveröfug miðað við flesta sunddaga því ég endaði á því að synda. Geri það reyndar stöku sinnum. Eftir tæpa tvo tíma í Laugardalnum fór ég í Krónuna í Lindum áður en ég fór heim á nýja staðinn. Fljótlega eftir að ég kom í Núpalindina hringdi fasteignasalinn í mig og sagði að kaupendurnir af Drápuhlíðinni væru aftur farin að spyrja hvenær þau gætu fengið afhent. Hún ráðlagði mér að hringja í þau og segja þeim stöðuna, að verið væri að þrífa, og spyrja hvenær þau vildu fá afhent. Ég hringdi í unga manninn og hann var meira en til í að fá eignina strax eftir að búið væri að þrífa. Ég hélt að það yrði kannski milli fjögur eða fimm. Klukkan að byrja að ganga sex var ég ekki búin að fá símtal frá þrifafélaginu en ég var mætt í Drápuhlíðina og ákvað að fara inn og athuga málin. Þar var svona ca hálftíma verk eftir. Ég mátti samt alveg hringja í nýja eigendur og stefna þeim á staðinn. Þau komu öll fjölskyldan og bóksaflega mættu þrifafólkinu í innkeyrslunni. Nýju tilvonandi íbúarnir afhentu mér blómvönd í vasa um leið og þau komu inn. Ég sýndi þeim svo alla króka og kima. Þau voru öll frekar spennt og glöð og mér skilst að framkvæmdir byrji strax um helgina en þau þurfa ekki að afhenda eignina sem þau eru að fara úr fyrr en eftir miðjan nóvember. Annars bólar ekkert á nýja rúminu mínu. Eftir afhendinguna fór ég því aftur til norsku esperanto vinkonu minnar.

23.10.25

Gisti í 101 Reykjavík

Ég var komin á fætur um hálfsjö leytið í gærmorgun um tveimur tímum áður en ég átti von á flutningabíl og þremur mönnum. Tólf mínútum fyrir níu var hring og sagt að þeir væru á leiðinni og var klukkan rétt byrjuð að ganga tíu þegar flutningabílnum var bakkað inn innkeyrsluna næstum alla leið að tröppunum. Þeir byrjuðu á að taka þvottavélina áður en þeir fóru að bera út dótið sem ekki átti að fara yfir. Einn flutningamannanna spurði mig hvort hann mætti eiga rúmdýnuna sem var að sjálfsögðu í góðu lagi mín vegna. Hann vildi helst ekki taka "ömmu"-stofuhillu stæðuna fyrr en ég benti honum á að hann þyrfti ekki að henda henni heldur gæti sett hana í nytjagám. Rétt fyrir tíu renndi flutningabíllinn í burtu. Ég fór með slatta af dóti í bílinn minn og var komin með það alla leið inn á nýja lögheimilinu fyrir klukkan ellefu. Ekkert löngu seinna hringdi einn af flutningamönnunum og bað mig um að senda þeim nýja heimilisfangið á sms-i, sem ég og gerði. Engu að síður villtust þeir og fór á Nýbýlaveg 6 fyrst en ekki Núpalind. En þeir voru komnir fyrir tólf og tengdu meira að segja fyrir mig þvottavélina. Fljótlega eftir að þeir voru farnir fór ég aðra ferð eftir dóti í Drápuhlíðina, það var næstsíðasta dótaferðin. Það var eiginlega bara eftir stofuborðið sem ég fékk gefins í sumar. Stuttu fyrir hálftvö var hringt í mig af tæknimanni frá Mílu hann var laus og vildi athuga hvort hann mætti koma strax eða á umsömdum tíma um tvö. Ég var rétt ókomin heim á nýja staðinn og sagðist líklega myndu hitta á hann í anddyrinu. Tæknimaðurinn tafðist vegna umferðaslyss í Ártúnsbrekku svo ég var búin að koma dótinu inn áður en hann kom. Það tók hann eitthvað á annan tíma að tengja en ég var líka komin með net og sjónvarp áður en hann fór. N1 sonurinn kom stuttu eftir að tæknimaðurinn var farinn. Hann skoðaði sig um í íbúinni áður en við fórum saman á mínum bíl í síðustu dótaferðina í Drápuhlíð. Davíð Steinn fékk að skoða galtóma íbúðina áður en hann bar sófaborðið út í bíl. Þegar við komum aftur í Núpalind tengdi hann hátalaraboxið við sjónvarpið og límdi tappa á alla stólana. Þegar til kom vantaði engan tappa undir neina af þessum 24 stólfótum. Við mæðgin kvöddumst fyrir utan nýja staðinn um sex leytið, hann brunaði á núverandi íverustað sinn en ég vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar þar sem ég fékk að gista sl. nótt.

22.10.25

Drápuhlíðin tóm

Í gærmorgun var ég mætt á braut 8 rétt fyrir klukkan hálfátta. Synti 600 metra og gaf mér góðan tíma í alla aðra rútínu. Var komin heim fyrir klukkan hálftíu. Bjó til hafragraut og setti helminginn af honum í skál. Það stóð til að fara eina ferð yfir í Núpalindina en einhvern veginn þróaðist dagurinn þannig að ég var að undirbúa eitt og annað. T.d. að aftengja sjónvarpið og pakka leiðslum og dóti saman. Nágranninn hjálpaði mér að undibúa flutning á þvottavélinni. Tvíburahálfsystir mín mætti stuttu fyrir fimm og við byrjuðum á því að fá okkur te. Vorum svo að byrja að ferma bílana þegar Hulda og Óli kíktu við. Hún var að skila mér húslyklum af Drápuhlíðinni. Ég var að hitta kærastann hennar í fyrsta skipti en mátti alveg knúsa hann og hann tók að sér að flytja sjónvarpið út í bíl. Þau ætla svo að kíka seinna á mig á nýja staðnum. Við Sonja fórum eina ferð með dót í tveimur bílum í Núpalind. Fórum svo heim til hennar, sóttum bókahillu sem hún var að gefa mér og fórum með hana yfir á mínum bíl. Á eftir bauð hún mér heim til sín í kjötsúpu. Ég villtist aðeins á leiðinni, eða gleymdi mér, því ég er ekki vön að keyra úr Núpalind yfir í Ljósakurinn. En ég þurfti samt ekki að keyra langt til að snúa við. Var komin í Drápuhlíð fyrir klukkan níu og gisti allra síðustu nóttina þar. Hvenær ég mun skrá niður atburði dagsins í dag verður að koma í ljós en þar sem ekki er komið rúm í Núpalindina fæ ég að gista hjá norsku vinkonu minni og manninum hennar núna næstu nótt. 

21.10.25

Allt á réttri leið

Gærdagurinn hófst eldsnemma. Klukkan var samt farin að ganga átta þegar ég mætti í Laugadalslaugina. Fór á braut 2 og synti 400m. Úr kalda pottinum fór ég bein í sjópottinn. Var mætt í osteostrong um hálfníu. Þar var bara einn starfsmaður, engin mússík og eitt tækið ekki komið í samband. Starfsmaðurinn var þó að sinna einum kúnna og annar sat í sófanum. Ég stimplaði mig inn og settist í sófann og spjallaði við manneskjuna sem þar var fyrir. Sú sagði svo að ég væri á undan í röðinni. Ég var nýbúin að gera æfingar á tækjunum, líka því sem ekki var hægt að fá niðurstöður á, þegar annar starfsmaður mætti í hús og kom málunum í lag. Var komin heim rétt upp úr klukkan níu. Bókaði flutningabíl fyrir dót í sorpu og þvottavélina á miðvikudagsmorguninn og flutningsþrif á fimmtudagsmorguninn. Um hálfellefu kom sms frá málaranum um að hann væri alveg að verða búinn. Bað mig um að kíkja yfir og senda sér skilaboð ef ég sæi eitthvað sem þyrfti að laga. Ég fékk norsku esperanto vinkonu mína með mér í þessa ferð og tók ég að sjálsögðu eitthvað af dóti með yfir. Aðeins átti eftir að setja upp ljós og rofa í þvottaherberginu en það var vegna þess að seinni umferðin hafði verið máluð um morguninn. Íbúðin er alveg stórfín. Við Inger tókum með okkur gardínustöng og einn spegil og sóttum annan sem er búinn að vera inn í herbergisskáp í Drápuhlíðinni og fórum með þetta í nytjagám áður en ég skilaði henni heim. Restin af deginum fór í alls konar sýsl, dútl og undirbúning undir loka flutninga héðan. Á eftir að gista eina nótt en þar sem sjónvarpið og ráterinn verða flutt yfir í Núpalindina seinni partinn í dag eða kvöld er óvíst hvenær ég kemst í netsamband aftur til að setja inn færslur. Það verður því sennilega nokkura daga pása frá blogginu. Það verður þá bara frá meiru að segja þegar næsta færsla verður sett inn.

20.10.25

Styttist í loka flutninga

Vaknaði upp úr klukkan sjö og var komin á fætur um hálfátta leytið. Eftir morgunverkin á baðherberginu eyddi ég rúmri klukkustund í tölvunni hans pabba. Um níu leytið var ég sest inn í eldhús og lagði nokkra kapla. Einn kapallinn sem gengur frekar sjaldan upp gekk upp í annarri lögn. Morguninn leið annars frekar hratt. Í hádeginu kláraði ég afganginn af saltfisknum frá því kvöldið áður á meðan pabbi fékk sér skyr. Svo tók ég mig saman, kvaddi pabba og var komin í bæinn um hálftvö leytið. Fékk stæði fyrir framan no 15. Ég hafði hugsað mér að fara amk eina ferð með dót yfir í Núpalindina en fannst bíllinn aðeins of langt í burtu. Auðvitað hefði ég getað talað við nágrannann um að fá að leggja í smástund í innkeyrsluna, en ég notaði þetta frekar sem afsökun til að sjá aðeins til. Og viti menn um þremur korterum síðar losnuðu tvö stæði fyrir framan. Fór með létt dót með mér út í bíl og þegar ég var búin að keyra hringinn og var að beygja inn í götuna sá ég að hornstæðið var líka orðið laust og lagði þar. Fór þrjár ferðir inn eftir dóti, m.a. annað náttborðið, einn plastkassi með prjónadótinu í, pappakassi með bókum og einnig tók ég öll lóðin með. Ég byrjaði samt á að fara á Kringlusafnið og skila þremur bókum af fjórum. Tók tvær bækur í staðinn og er önnur þeirra ljóðabók; Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur. Áður en ég hélt för áfram hringdi ég í tvíburahálfsystur mína. Hún var rétt nýkomin í bæinn, búin að setja upp slátur og að bjóða dóttur sinni og pabba hennar í mat en hún var samt til í að koma með mér. Ég byrjaði þó á því að stoppa hjá henni og þyggja hjá henni tesopa svo feðginin voru komin áður en við fórum. Málarinn var greinilega búinn að vera að vinna í íbúðinni og líklega bara eftir að fara seinni umferðir á baðherbergið og þvottaherbergið og klára að setja aftur upp rofa. Tókum eftir því að yfirbyggðu svalirnar voru opnar á einum stað. Fattaði samt ekki að loka honum svo ég hrökk upp eldsnemma í morgun við hugsunina um að hvort það væri örugglega ekki í lagi þótt þetta væri opið. Veit ekki hvort málarinn kemur í dag því hann talaði um að skila af sér um miðjan dag á þriðjudaginn og hann byrjaði vinnunna sl. þriðjudag. Ég ætla amk að skreppa fljótlega eftir sund og osteostron og get tekið stóru ferðatöskuna og ryksuguna með mér í leiðinni. 

19.10.25

Sunnudagur

Ég var mætt á braut 8 í Laugardalslauginni tuttugu mínútum yfir átta í gærmorgun. Synti 400 metra þar af 100 metra skriðsund. Þegar ég var að koma úr kalda pottinum, fyrstu ferðinni af þremur, sá ég einn frænda minn sem vinnur í World Class, vera að fara í heitasta pottinn. Ég ákvað að fara að heilsa upp á hann og pottinn og elti hann svo í þann kalda. Með þessu náðum við uþb fimm mínútnar spjalli áður en hann þurfti að fara að stjórna tíma í líkamsræktarstöðinni og ég fór í gufu. Var komin heim upp úr klukkan hálftíu. Hafði verið að spá í að skreppa eina ferð með dót yfir í Núpalindina en ákvað að taka því rólega fram að hádegi. Fékk mér hressingu og pakkaði niður fyrir ferð til pabba. Upp úr klukkan tólf fór ég með mestallt jólakortadótið, handavinnutöskuna og tösku út í bíl. Jólakortadótið var fyrirferðamest en það, ásamt handavinnutöskunni komst þó fyrir í skottinu og ég setti töskuna í aftursætið. Kom við í Fossheiðinni og þáði tesopa. Þar hitti ég einnig fyrir tvíburahálfsystur mína og nágrannakonuna því það var allt á fullu í sláturgerð. Ég var komin til pabba um hálfþrjú leytið. Hann hafði verið sóttur um tíu af tveimur sundfélögum sínum sem fóru með hann í óvissuferð. Hann hélt að hann væri að fara með þá á sömu slóðir og þeir fóru fyrir ári síðan þegar hann var níræður en félagarnir komu honum verulega á óvart. Hann hafði samt alveg jafn gaman af þessu uppátæki þeirra. Pabbi var kominn úr þessari skemmtiferð þegar ég mætti á svæðið. Um hálfsex mættu Jóna Mæja og Reynir á svæðið. Pabbi var þá búinn að hella upp á könnuna og setja upp saltfisk, kartföflur og rófu í einn pott á hægri suðu. Suðan var það hæg að við gátum horft á kvöldfréttir áður en sest var að borðum.

18.10.25

Pabbi 91 árs í dag

Ég var mætt á braut 8 og byrjuð að synda um hálfátta í gærmorgun. Synti 600 metra á uþb 28 mínútum, flestar ferðir á bakinu. Fór tvisvar í þann kalda, fyrir gufuferð og eftir ferð í sjópottinn. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr úr og var komin aftur fyrir klukkan hálftíu. Sýslaði ýmislegt hér í Drápuhlíðinni til klukkan langt gengin í eitt. Þá fór ég með nokkra poka og einn kassa út í bíl. Sótti Inger, norsku esperanto vinkonu mína og við byrjuðum á því að fara með þetta dót í nytjagám, spilliefni og almenna draslið í Sorpu. Síðan fórum við yfir í Drápuhlíðina og fermdum bílinn fyrir eina ferð yfir í Núpalind. Dótið sem við fórum með fór allt í geymsluna á fyrstu hæðinni. Síðan fórum við upp í íbúð og tæmdum úr, ferðatöskunni sem ég fór með yfir í fyrra dag, inn í fataskáp í herberginu. Taskan kom með okkur í bílinn. Skruppum í Sports Direct. Aldrei þessu vant voru ekki til uppáhalds sundbolirnir mínir, amk ekki í minni stærð. Fórum aðeins aftur í Núpalindina til að nota salernið en svo fórum við á Smáratorg og skoðuðum sófa og hægindastóla bæði í Dorma og í Jysk. Klukkan var að ferða fjögur þegar við ákváðum að kalla þetta gott. Ég skutlaði vinkonu minni heim og var sjálf komin heim rétt um hálffimm. Fór með leikfangabrunabílinni, sem er búinn að standa vaktina í glugganum á geymslunni í mörg ár, yfir í no 19 og gaf strákunum þeirra Ebbu og Indriða hann. Gerði svo sem ekki mikið meira í gær nema ég setti rúmföt og prjónaðar tuskur, teppi og sjöl í ferðatöskuna. 

17.10.25

Búið að mála loftin

Klukkan var að verða hálfátta þegar ég vaknaði í gærmorgun eftir smá köflótta nótt. Tók því bara rólega framan af morgni. Haft var samband við mig frá símanum varðandi flutning yfir í Núpalindina. Þeir þurfa að koma til að setja upp box fyrir mílu. Ég hafði valið 21. og valdi svo tímann um tvö eftir hádegi. Um ellefu fór ég í Húsgagnahöllina til að athuga hvort þeir vissu eitthvað um eldhússtólana sem eru í Núpalindinni. Ef þeir voru seldir þarna þá eru meira en fimm ár síðan og mér var bent á Byko eða Bauhaus til að athuga hvort ég fengi tappa undir stólfæturnar. Gjóaði aðeins augum á sófa en skrapp svo í vinnuna til N1 sonarins. Ekki er alveg ljóst enn hvenær stöðin við Gagnveg verður lokuð en þegar það gerist færist Davíð Steinn á stöðina í Borgartúni. Jafnaði þrýstinginn á dekkjunum áður en ég fór heim og eldaði mér þorsk, kartöflur og gulrætur í hádeginu. Um það leyti sem ég ætlaði á stúfana aftur, um tvö, hringdi frænka mín og nafna í mig. Sú sem hjálpaði mér að undirbúa opna húsið. Eftir ágætis spjall við hana var ég nýbúin að leggja á þegar málarinn hafði samband. Sagði að búið væri að fara tvær ferðir yfir loftið og óhætt að flytja meira dót yfir, bara setja það sem ekki færi í skápa í miðjuna á gólfunum. Lendingin er svo sú að um miðjan dag á þriðjudaginn kemur verði búið að mála tvær umferðir yfir glugga og veggi og íbúðin aftur tilbúin til afhendingar. Hringdi og spjallaði aðeins við tvíburahálfsystur mína áður en ég fór með slatta af dóti út í bíl. Áður en ég lagði upp í leiðangur sendi ég fyrirspurn á símann um hvort hægt væri að færa bókaða tímann um einn dag. Kom aðeins við í Byko í Kópavogi áður en ég fór með dótið yfir í Núpalind. Sumt fór í skápa en eitthvað á gólfið í svefnherberginu þar sem málarinn er með dót frá sér í stofunni. Tók með mér ljósakrónuna sem var í loftinu í herberginu. Hringdi svo í norsku vinkonu mína og spjallaði við hana á meðan ég var á leiðinni heim. Kom heim stuttu fyrir sex.

16.10.25

Fór á húsfund í Núpalindinni

Líklega er heldur snemmt að fara að sofa fyrir klukkan tíu en ég svaf þó samfleytt í heila sjö tíma áður en ég rumskaði. Var komin á fætur fyrir klukkan hálfsex og var að sýsla hér heima við til klukkan langt gengin í ellefu. Þá dreif ég mig í Nauthólsvík. Fékk stæði við einn braggann og var komin út í 8,6°C sjóinn korter yfir ellefu. Synti út að kaðli. Fór beint í gufu og svo smástund aftur út í sjó. Var komin heim aftur um hálfeitt og hélt sýslinu áfram. Um hálfsex lagði ég af stað yfir í Kópavoginn. Umferðin var þung en ég var komin tíu mínútum fyrir sex og á þeim tíu mínútum náði ég að fara tvisvar upp í íbúð og var svo mætt í bílageymsluna á húsfund á slaginu sex. Eignarekstur hafði boðað tilfundarins með góðum fyrirvara og áttu að sjá um hann. Enginn fulltrúi frá þeim mætti hins vegar á svæðið. Ákveðið var þó að halda stuttan fund sem fjallaði um tilboð í viðgerð á þakinu. Innan við hálftíma síðar var ég komin út í bíl. Hringdi í tvíburahálfsystur mína og það varð úr að ég fór beinustu leið til hennar. Hún var að græja kvöldmatinn þegar ég mætti og bauð hún mér að borða með sér. Spjölluðum um eitt og annað. Ég var komin heim um hálfníu orðin smá þreytt eftir langan dag. Fór þó ekki alveg beinustu leið í rúmið, enda heldur snemmt.

15.10.25

Mið vika og október uþb hálfnaður

Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um hálfsex. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan sjö og fór beint á braut 8. Ég var komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Afgangurinn af morgninum fór í róleg heit og smá dútl. Hringdi reyndar í Huldu frænku mína og spjallaði smá stund við hana. Hún og kærasti hennar voru svo að fara norður um hádegisbilið og ætla að vera í nokkra daga. Um hálfeitt leytið kom norska vinkona mín yfir. Við byrjuðum á því að fá okkur te en svo fórum við yfir handklæði og þurrkustykki. Sumu var pakkað niður, eitthvað fór aftur inn í skáp í bili og svo setti ég eina þvottavél. Fórum líka yfir nokkra hluti sem enn voru í búrinu. Málarinn hringdi í mig um tvö leytið, sagði að þeir væru að byrja og fékk það alveg staðfest hjá mér að það mætti taka niður veggljósin í stofunni og ljósakrónuna í svefnherberginu. Inger kvaddi um og upp úr miðjum degi. Ég greip í eina bók af safninu, þá næstsíðustu ólesnu af safninu; Fuglaskoðarinn eftir Stefán Sturlu og kláraði hana. Þá á ég bara eftir að lesa KUL eftir Sunnu Dís Másdóttur.

14.10.25

Fjárfestingar

Aðfaranótt gærdagsins var í smá rugli og hálf köflótt, sennilega vegna spennings. Náði þó loksins að sofna aðeins aftur og vaknaði rétt fyrir hálfátta. Rúmum hálftíma seinna labbaði ég í osteostrong tíma. Var komin heim aftur skömmu fyrir hálftíu. Klukkan að verða tvö lagði ég af stað í smá leiðangur. Byrjaði á því að fara í Byko vestur á Granda. Spurðist fyrir um innstungulokið eða hvað það kallast og var sagt að það fengist í Byko í Kópavogi. Keypti trélím og bakka til að halda hnífapörum aðskildum. Í Kópavogi fann ég þvottagrind áður en ég fann einhvern til að aðstoða mig við að finna varahlutinn sem mig vantar. Næst lá leiðin í Dorma við Smáratorg. Rölti um svæðið þar sem rúmin voru og tók mynd af ákveðnu rúmi. Enginn kom að aðstoða mig fyrr en ég var á leiðinni út eiginlega til að skoða fleiri möguleika í öðrum verslunum. Ákvað að þyggja aðstoðina og sagðist vera að leita að besta rúminu. Og viti menn við fórum beint að rúminu sem ég hafði tekið mynd af. Þá ákvað ég að ég þyrfti ekkert að leita lengur og að ég myndi kaupa meira en rúmið, dýnuna og hlífðarlak, bætti við sæng, kodda og sængurverasetti. Koddinn og rúmdýnan eru ekki að koma fyrr en í næstu viku en ég gat tekið hlífðarlakið, sængina og sængurverasettið með mér. Fyrir þetta greiddi ég um 230þúsund. Fór á einn stað í viðbót áður en ég fór heim. Skildi þetta eftir úti í bíl og var eitthvað að spá í að gera mér ferð í Núpalindina um eða eftir kvöldmat. Ekkert varð þó úr því. Sauð mér fiskibollur, kartöflur og gulrætur í kvöldmatinn og borðaði helminginn af skammtinum.

13.10.25

Anna borð - Birna borðstofuborð

Var komin á fætur upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég mætt á braut 8 í Laugardalslauginni. Synti 500 metra, var 6 mínútur í þeim kalda, uþb korter í gufunni og dagaði svo næstum því uppi í sjópottinum. Þar hitti ég m.a. eina sundvinkonu mína sem bað mig helst um að hætta ekki að mæta í Laugardalslaugina þótt ég væri að flytja í Kópavoginn. Kom heim stuttu fyrir hálfellefu. Sýslaði ýmislegt fram yfir hádegi og hugsaði m.a. næstu skref. Esperanto vinkona mín kom labbandi úr vesturbænum um eitt. Bauð henni upp á te og svo hjálpaði hún mér að fara yfir stóran hluta af því sem eftir var í fataskápnum. Sumt þarf að skola aðeins úr í þvottavél og sumt ákvað ég að myndi fara í fatagám. Settum svo eitthvað meira úr kassa úr eldhúsinu og ég tæmdi að mestu það dót sem var eftir í baðherbergissúffunum. Fljótlega eftir að tvíburahálfsystir mín mætti á svæðið fórum við í að ferma bílana. Nú er nánast búið að tæma geymsluna. Bílarnir fylltust reyndar ekki en við ákváðum engu að síðar að bruna yfir í Kópavoginn. Fengum stæði á planinu framan við innganginn. Sumt af dótinu fór niður í geymslu. En fórum líka með slatta upp í íbúð og gengum frá í skápa og skúffur svo það verði ekki fyrir málaranum. Ég skutlaði Inger heim til hennar. Sonja skrapp aðeins heim til sín að ná í nokkra hluti en hún kom aftur í Drápuhlíðina rétt á eftir mér. Við nánast kláruðum að pakka eldhúsið niður. Það eru flestir skápar tómir, bara eftir í einni hillu í einum skáp. Ég setti líka megnið af sorteruðum fötunum í stóran glæran kassa og einn poka. Ég átti von á konunni sem ákvað að taka borðstofuborðið um sex leytið. Hún og dóttir hennar komu rétt fyrir hálfsjö og þá hittist svo vel á að innkeyrslan var laus. Þær mæðgur voru með einhver verkfæri til að skrúfa boðið í sundur og það vildi svo vel til að Sonja gat lánað þeim skrúfjárn. Allt komst fyrir í bílnum og stólarnir fjórir líka. Eftir að mæðgurnar voru farnar fermdum við bílinn hennar Sonju og fórum eina ferð á einum bíl í Núpalindina. Gengum frá dótinu og komum til baka með balann og kassana. Þá var klukkan langt gengin í átta og við stöllur orðnar sáttar og ánægðar með dagsverkið. Þvílíkur munur að fá svona góða aðstoð, bæði við að pakka, yfirfara hluti og ganga frá þeim á hinum staðnum. En það er líka frekar tómlegt í holinu þar sem borðstofuborðið var undanfarin rúmu 21 ár. 

12.10.25

Aðeins byrjuð að færa dót yfir með góðri aðstoð

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Var mætt í sund um átta rétt eftir að opnaði. Fór beint á braut 7 og synti 500 metra þar af 200 skrið. Hitti eina miðjunafns nöfnu mína í kalda pottinum og sat fyrir vikið í honum á sjöundu mínútu. Hitti hana aftur í gufunni og þá sagði hún mér að hún væri tvíeggja tvíburi. Var mætt á Sólvallagötuna rétt fyrir tíu og komin heim fyrir hálftólf. Tvíburahálfsystir mín sótti mig um eitt og við skruppum í Slippfélagið til að skoða liti. Valdi 1/2 Hör, sem er vinsælasti liturinn í dag, og sendi málaranum sms. Fórum yfir í Drápuhlíðina en Sonja varð reyndar að leggja bílnum á stæði við Blönduhlíð. Það var mikil rigning og við veltum því fyrir okkur hvort við þyrftum að skera niður stóra plastpoka til að vernda kassana. Sonja þvoði upp hnífana og dótið í hnífaskúffunni. Ég tók frá þau eldhúsáhöld sem ég þarf á að halda hérna í Drápuhlíðinni. Pökkuðum slatta af hinu niður og einnig eldhústækjum sem ég vissi að ég gæti sett í skápa í Núpalindinni. Tvíburahálfsystir mín setti borðstofuborðið og stólana á svæði á Facebook þar sem hlutir eru gefins gegn því að verða sóttir. Hún var nýbúin að pósta auglýsingunni þegar ég fékk fyrstu hringinguna. Sá aðili sagðist geta komið um sjö. Ég fékk einnig aðra hringingu og mér skilst að það hafi komið þónokkrar fyrirspurnin undir auglýsingunni. Það var annars hætt að rigna þegar við byrjuðum að ferma bílinn minn. Svo hafði losnað stæði við hliðina á innkeyrslunni svo Sonja sótti bílinn sinn og við settum slatta í hann líka. Mig minnir að við höfum verið komnar í Núpalindina fyrir klukkan þrjú. Byrjaði á því að sýna Sonju íbúðina en svo fórum við niður á fyrstu hæð þar sem geymslan er. Vorum rétt að verða búnar að tæma úr seinni bílnum þegar ég fékk fyrstu heimsóknina. Frænka mín og nafna, sem m.a. hjálpaði mér að undirbúa opna húsið í Drápuhlíð, og maðurinn hennar komu og fengu skoðunarferð um geymsluna fyrst. Hann hjálpaði okkur með dót í lyftuna og inn í íbúð. Hann sá eitt og annað sem þyrfti aðeins að lagfæra, ekkert stórmál en mjög góðar ábendingar. Gestirnir kvöddu á fimmta tímanum þá var Sonja langt komin með að raða dóti í skúffur og skápa í eldhúsinu. Ég hafði fengið sms frá þeim sem ætlaði að taka borðið um að hann yrði að hætta við vegna plássleysis í bíl. Sem betur fer var ein af þeim sem sendu skilaboð undir auglýsinguna á biðlista og ég var í sms sambandi við hana í gærkvöldi. Við tvíburahálfsysturnar ákváðum svo að láta gott heita og kvöddumst um fimm. Ég kom við í Krónunni í Skeifunni á leiðinni heim þótt Krónan í Lindum væri rétt hjá Núpalind. Sú búð er reyndar alveg stórfín.

11.10.25

Búin að flytja lögheimilið

Spenningurinn yfir að vera að fá íbúðina við Núpalind afhenta var það mikill að ég var vöknuð fyrir klukkan fimm í gærmorgun. Fór í sund um sjö leytið og var komin heim aftur rétt rúmlega níu. Rétt fyrir ellefu var ég mætt í Kópavoginn. Rebekka var þegar mætt. Eftir yfirferð yfir íbúðina fékk ég loksins að sjá geymsluna. Það var nýbúið að klára að tæma hana og einn bróðir hennar var akkúrat að taka með sér síðustu kassana. Fékk þrjú sett af lyklum og vitneskju um að fjórða og síðasta settið myndi skila sér í póstkassann um kvöldið. Eftir að Rebekka var farin fór ég aftur upp í íbúð. Tók nokkur snöpp og myndir og ákvað að skilja eitt lyklasettið eftir. Það er annars engin hætta á að ég muni læsa mig úti því það þarf að læsa utanfrá og það er hægt að tvílæsa. Áður en ég fór heim kom ég við í Fiskbúð Fúsa. Keypti harðfisk, kartöflur, bleikjuflak og þorskhnakkaflak. Þorskinn setti ég í frystinn þegar ég kom í Drápuhliðina. Setti upp kartöflur og rétt sauð svo upp á bleikjunni í vatni krydduðu með sítrónupipar, karrý og cayanne. Eftir matinn ákvað ég að fara á ísland.is og skrá nýtt lögheimili. Um hálftvö sendi ég rafrænan póst á málara sem tvíburahálfsystir mín hafði mælt með. Klukkutíma síðar hringdi umræddur málari og við mæltum okkur mót í Núpalindinni um hálffimm. Ég lagði af stað um fjögur vitandi að umferðin er þung á þessum tíma. Var komin ca sjö mínútum fyrr. Rétt rúmlega hálf hringdi málarinn. Þá var hann reyndar rétt ókominn en hafði aðeins tafist í umferðinni. Hann gerði mér tilboð og mælti með lit en hvatti mig til að fá að skoða litinn í Slippfélaginu. Fékk heitið á litnum og tilboðið í sms. Mér leist það vel á tilboðið að ég afhenti málaranum lykla af útihurð og hurðinni inn í íbúð. Hann og aðstoðamaður hans munu mála tvær umferðir yfir loft, veggi og glugga og í bað- og þvottaherbergi nota mygluvörn. Hann áætlaði að verða búinn um 20. okt. Ég get samt verið að flytja skáp úr skáp og úr geymslu í geymslu og tæmt smám saman hjá mér hér í Drápuhlíðinni. Á einhverjum tímapunkti þarf ég svo að kaupa mér nýtt rúm. Það væri best fyrir málarana að ég hinkraði með það á meðan þeir eru að mála. En til að kóróna daginn þá fékk ég sms frá HHÍ um hálfátta í gærkvöldi um 20.000kr vinning og það eru aðeins þrír mánuðir síðan ég fékk vinning upp á sömu upphæð.

10.10.25

Fæ afhent í dag

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Einum og hálfum tíma síðar var ég komin í Laugardalinn. Var rétt á eftir kalda potts vinkonu minni sem var líklega búin að synda um 100m þegar ég kom á braut 7. Synti 500m á uþb 23 mínútum, flestar ferðirnar á bakinu en smá skriðsund með. Á eftir fórum við stöllur fjórar ferðir í þann kalda, eina í þann heitasta, eina í 42°C pottinn, góða ferð í gufuna og sjópottinn. Var komin heim aftur rétt fyrir tíu. Um hálfeitt fékk ég hringingu frá þeirri sem kvittaði upp á sölu á tveggja herbergja íbúðinni á 4. hæð við Núpalind sex og sagðist mundu vilja afhenda mér í dag föstudag. Við komum okkur saman um tíma. Ég varð bæði spennt og slök á sama tíma. Ekkert varð úr neinum göngutúr en ég hef ekkert samviskubit yfir því. Stundum þarf ekki að gera bæði að synda og ganga. Var komin upp í rúm fyrir tíu í gærkvöldi og las í smá stund. Fiðrildin í maganum fara stækkandi, vissan um að allt sé að ganga eftir áætlun og að það fer að sjá fyrir endann á þessum fasteigna viðskiptum og búferla flutningum. Hef uþb þrjár vikur en vonast til að ég verði búin að tæma fyrr, fá þrif og geta afhent Drápuhlíðina einhverjum dögum fyrr en 30. okt nk. Sjáum til og tökum einn dag í einu.

9.10.25

Engin hola

Gærdagurinn byrjaði óþarflega snemma. Tók því frekar rólega framan af. Útbjó mér hafragraut um tíu. Um ellefu var ég komin að Nauthólsvík en þar voru engin stæði á lausu svo ég skrópaði í sjóinn og fór aftur heim. Um hálfþrjú fór ég labbandi, í hressandi roki, upp í Valhöll en þar á þriðju hæð er tannlæknirinn minn. Ég átti árlegan tím um þrjú. Var mætt skömmu áður. Klukkan var að verða hálffjögur þegar ég var kölluð í stólinn. Yfirferðin tók enga stund og allt í besta standi. Þessi heimsókn kostaði rúmar átjánþúsund krónur. Kom við í Álftamýrinni hjá móðurbróður mínum og fjölskyldu og stoppaði við í rúma klukkustund áður en ég labbaði heim. 

8.10.25

Allt rólegt

Vaknaði útsofin rétt um hálfsex í gærmorgun. Var komin í sund á svipuðum tíma og á mánudaginn. Gaf mér heldur lengri tíma í sund, pottarölt og gufu en var þó komin heim aftur rétt fyrir níu. Á tólfta tímanum skrapp ég aftur út í rúmlega klukkutíma göngu. Fór sama hring í kringum Öskjuhlíðina en að þessu sinni kláraði ég hann án þess að stoppa og mældist hann rúmlega 5,5km skv símaforritinu. Annars var ég bara slök í gær. Viðurkenni þó að þegar síminn hringdi stuttu eftir að ég kom heim úr göngunni hélt ég í augnablik að nú væri komið að því að ákveða afhendingu á íbúðinni í Núpalind. En svo reyndist ekki vera og sá ég það strax og ég tók upp símann. Á línunni var frænka mín og nafna, líklega alveg jafn spennt og ég, að spyrja frétta. Mín tilfinning er sú að ég verði búin að fá afhent fyrir næstu helgi en það kemur allt í ljós mjög fljótlega.