Ósköp líður tíminn eitthvað hratt. Hef ég kannski skrifað þetta áður? Já, alveg örugglega svo ég svari mér nú sjálf og tíminn líður ekkert hægar við að skrifa um hann. Þessa vikuna er ég á morgunvöktum frá klukkan sex til eitt en í gær skipti ég við aðra seinni parts vaktina þar sem hún hafði hug á því að vera laus eftir hádegi. Vinnutíminn í gær var því frá 12 til sex. Byrjaði á því að skreppa í sund upp úr klukkan hálfsjö, ekki alveg á hurðarhúninum en byrjuð að synda tíu mínútum fyrir. Kaldi potturinn var lokaður og tómur og mér skilst að reglan sé sú að ef frostið er 4 gráður eða meira þá er hann lokaður. Synti í um hálftíma áður en ég fór að pottormast. Var komin heim um hálfníu.
Kúbufarinn átti sína fyrstu vakt í gær eftir ferðalagið svo hann fékk rauða kortið til afnota. Ég skrapp í Sunnubúð um hálfeitt til að skipta einum seðli til að geta greitt nákvæmlega 420 kr. fargjald í strætó. Það vannst nokkuð vel í gær milli tólf og sex með tveimur pásum og svo bauð mótvaktin mín mér far heim sem ég þáði. Slapp létt með kvöldmatinn, hafði hluta af afgangi af kjötsúpu frá því kvöldið áður.
Í síðustu viku fékk ég áminningu frá Kringlusafninu um að skiladagur væri að nálgast á tíu bækur sem ég var með í útláni. Sex af þeim bókum hafði ég þegar framlengt einu sinni og mátti ekki endurnýja aftur. Það kom ekki að sök var búin að lesa allar þessar sex nema eina og þar að auki þessar fjórar sem komu heim með mér úr síðustu bókasafnsferð. Ég var ekkert að bíða fram á síðasta dag með að skila heldur dreif mig á safnið tveim dögum áður en lokadagurinn rann upp eða þann 25. sl.Skilaði öllum 10 bókunum og þrátt fyrir að eiga tvær af jólabókunum eftir ólesnar heima kom ég með fimm með mér, þar af eina sem er ný og aðeins með tveggja vikna skilafrest; Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen. Afar spennandi bók upp á 434 blaðsíður. Þetta er svona fantasía og átti ég ekki í miklum erfiðleikum með að lifa mig inn í atburðarrásina. Bók þessa lauk ég loksins við að lesa í gærkvöldi, hátt í viku frá því hún kom heim með mér.