Áfram halda dagarnir að æða hratt með tímanum. Ég veit svei mér ekki hver er að elta hvern en tel mig þó stundum standa í miðjunni að rembast við að sogast ekki alveg með í hringiðuna. Föstudagurinn var svipaður og flestir aðrir virkir dagar í vikunni. Byrjaði á því að fara í sund um hálfsjö. Tók hefðbundna rútínu og gaf mér svo tíma til að fá mér kaffi sem er alltaf í boði á föstudagsmorgnum. Morguninn leið hratt og ég lagði einnig af stað gangandi í vinnu í fyrra fallinu til að geta lengt leiðina í vinnuna. Vinnudagurinn leið hratt og var nóg að gera. Við sem vorum á seinni parts vaktinni stoppuðum framleiðslun upp úr klukkan sex til að ryksuga vélina eftir vikuna.
Á laugardagsmorguninn var Davíð Steinn ljúka við að hella upp á könnuna þegar ég kom fram upp úr klukkan sjö. Ég settist niður með honum og spjallaði yfir einum kaffibolla eftir að ég hafði fengið mér morgunmat. Þegar ég var að skottast af stað í sundið rétt fyrir átta sagði sonurinn: "Við verðum að gera þetta oftar, mamma!" Ég dagaði næstum því uppi í sjópottinum eftir hálftímasund og þrjár ferðir í kalda pottinn. Var komin heim aftur um tíu, svona rétt til þess að ganga frá sunddótinu og sækja esperantotöskuna mína. Við Inger gerðum reyndar lítið sem ekkert í að æfa okkur í esperanto, heldur lukum við tvær krossgátur og skruppum svo í rúmlega hálftíma göngu. Kom heim aftur um klukkan eitt og tók mig til fyrir austurferð áður en ég labbaði yfir á Valsvöllinn og sá "stelpurnar mínar" vinna FH 1:0. Fór beinustu leið heim eftir leikinn og hjálpaði Oddur mér að "ferma" bílinn. Þeir bræður urðu eftir heima en ég var komin austur um hálfsex.
Í gær skrapp ég aðeins til föðursystur minnar stuttu fyrir hádegi, hnoðaði í kleinur með mömmu upp úr hálftvö og var búin að steikja þær allar eitthvað yfir 150 stk mátulega fyrir kaffi. Eftir kaffi skruppum við mamma á elliheimilið og kíktum að nokkra þar, Mamma hafði folaldakjöt í matinn sem var ekki borðaður fyrr en eftir fréttir og þáttinn um eyðibýli en ég var komin heim um hálfellefu í gærkvöldi.