30.8.07

- Vó, það er föstudagur á morgun -

Hvert er tíminn eiginlega að æða? Ég held það séu bara þrír dagar í vikunni; mánudagar, föstudagar og sunnudagar. Það er í nógu að snúast hjá mér þessa dagana og þykir mér alveg nóg um þegar ég hef ekki einn einasta auka tíma til að lesa eða sauma út. Að vísu kemur alltaf smá tími á kvöldin en þrátt fyrir að eyða þeim tíma ekki fyrir framan imbann þá fer hann bara í annað. Undan farnar vikur hefur mér fundist sem ég sé mjög tvístígandi, annars vegar fiskurinn sem berst með straumnum og hins vegar fiskurinn sem syndir á móti. Þetta hefur bæði sína kosti og galla. Þeir sem þekkja mig ágætlega vita að ég á það til að gera of mikið úr hlutunum stundum og veit ég stundum ekki í hvorn fótinn ég á að stíga varðandi ýmislegt (bæði stórt og smátt). Svo komar tímar þar sem ég tek af skarið, ákveð mig varðandi eitthvað og þá verður mér ekki haggað. Sl. sólarhring er ég búin að afreka það að sækja varahluti í Fíatinn, glitauga og felgu sem ég lét setja undir hann í dag. Í leiðinni var gert við aðra felgu og sett ný slanga í dekkið utan um þá felgu. Í heimleiðinni kom ég við í Lágmúlanum og keypti mér eitt stykki nýja þvottavél. Gamla Eumenia Sparmester vélin er búin að skila sínu og vel það en við fengum hana jólin 1991. Þessi sem ég fæ á morgun er 1200 snúninga og tekur helmingi meiri þvott og en er lengur að þvo. Ég get ekki beðið eftir að prófa hana en þvottafjallið sem er búið að safnast upp sl fjóra daga verður líklega ekki lengi að hverfa.

27.8.07

- ...og hún er liðin, helgin... -

Seinni part föstudagsins var fóru þríburarnir, Oddur Smári, Davíð Steinn og Dagur, með langferðabíl merktum Þingvallaleið frá BSÍ til Hellu. Þar tók afinn á móti þeim við Grillskálann og amman beið heima með tilbúinn mat. Strax eftir kvöldmat héldu strákarnir út í garð til að tína sólber fyrir ömmu sína (en þeir þrír voru einmitt lánaðir austur í þessum tilgangi).

Sama kvöld skutlaði Davíð mér vestur í bæ þar sem var smá partí. Gestgjafinn bauð í mat og mættum við fjórar og fengum dýrindis kjúklingasúpu og e-s konar berjatertubombu og kaffi á eftir. Þetta var fínasta boð og ég skemmti mér mjög vel. En ég var samt ekki í stuði til að halda áfram og skreppa á djammið í bænum á eftir.

Á laugardaginn var vígsluhátíð handboltahallarinnar við Hlíðarenda en sú hátíð fór alveg framhjá mér. Ég bara varð að taka ísskápinn í gegn að innan, utan, undir og affrysta frystihólfið og það tók bara svona þrjá tíma eða svo. Eftir þetta verk dreif ég mig á bókasafnið og skilaði af mér ellefu bókum (reyndar var stór hluti af þeim bunka teiknimyndasögur). Þegar ég kom aftur heim safnaði ég saman öllum kvittunum og pósti v/DKR og sorteraði saman inn í þar til gerða möppu. Reyndar var hluti af reikningunum þegar kominn inn en það var ótrúlega drjúgt sem hafði safnast saman í lausu í eða við möppuna. Í þetta verk fóru góðir tveir tímar og var ég frekar ánægð með dagsverkið.

Þríburarnir fengu að sofa út á laugardeginum en héldu svo áfram að tína og tína þar til engin ber voru eftir á runnunum. Þeir áttu því frí í gær og fóru í sund. Þeir áttu svo að fara með rútu frá Hellu í bæinn aftur en hún fór um þrjú leytið á meðan strákarnir voru enn í sundi. Afinn og amma brugðu á það ráð að skutlast með strákana á Selfoss og settu þá upp í rútu þar.

Ég mætti á fyrstu messuna mína (og missti af Keflavík-Valur 1:3) í gærkvöld sem í reynd var önnur messa haustsins og síðasta messa Öddu kórstjóra. Þetta var mjög skemmtileg messa en ég veit að við í "Óþæga kórnum" eigum eftir að sakna Öddu okkar. En við ætlum að gefa nýja organistanum/kórstjóranum tækifæri til að samlagast okkur. Þannig að það eru bara spennandi tímar framundan en alveg þokkalega nóg að gera!

23.8.07

- Það styttist í næstu helgi -

Á þriðjudagsmorguninn var áttu tvíburarnir pantaðann tíma hjá tannlækninum sínum. Þeir höfðu ekki farið til hans síðan í fyrravor svo það var kominn tími á að líta á tennurnar í þeim. Ég fór með þeim inn til að byrja með en var ekki lengi. Tannlæknirinn gaf mér leyfi til að skreppa frá í smá tíma, svo fremi sem ég væri sest í einn biðstólinn frammi um ellefu. Þetta var nú ekki langur tími til að reka mörg erindi svo ég brá á það ráð að skunda á Hrefnugötuna og reka inn nefið til Gerðu og Rúnars og sníkja hjá þeim einn bolla af kaffi. Ég var komin til baka áður en strákarnir voru búnir en það voru teknar myndir, hreinsaður smá tannsteinn í öðrum og þeir flúorburstaðir. Svo kvaddi tannlæknirinn með þessum orðum: "-Hvað svo sem þú ert að gera þá haltu því áfram. Ég þarf ekki að skoða þá aftur fyrr en eftir rúmt ár!"

Í gær var skólinn settur aftur og nú eru strákarnir komnir í 6. bekk. Ég fékk frí eftir hádegi því árgangur tvíburanna var boðaður klukkan hálftvö. Ég kom inn tíu mínútum áður og fann "þríburana" fyrir framan tölvur, ósköp rólega. "- Þú sagðir að þetta væri ekki fyrr en klukkan tvö". En ég tel mig reyndar hafa sagt að þetta myndi vera frá hálftvö til rúmlega tvö... En annars gekk setningin vel fyrir sig. Þeir eru báðir með alla sömu kennara nema hvað sundkennararnir eru nýjir og nú eru þeir aftur komnir í stofur sem eru á sömu hæð og bara gangur á milli. Vetrarstarfið leggst bara ágætlega í þá svo ég er hæstánægð sjálf.

22.8.07

- Uppgjör síðustu helgar -

Á föstudaginn var skúruðum við okkur út úr bústaðnum um hádegi og fóru í heimsókn til pabba og mömmu. Helluþorp er 80 ára um þessar mundir og það var líka verið að undirbúa hin árlegu töðugjöld. Ég skrapp loksins í heimsókn til Steina föðurbróður en hann er fluttur á elliheimilið fyrir nokkru. Ég heimsótti líka gamla konu sem ég kynntist þegar ég var í sveit í Guttormshaga fyrir margt löngu. Á bakaleiðinni hitti ég eina systur pabba sem einnig er komin á elliheimilið. Hún var að spássera fyrir utan.

Bríet var fyrir austan, hafði komið með afa sínum daginn áður og um hálfsjö kom Hulda með rútunni úr bænum. Krakkarnir léku sér við systur úr næsta húsi og eftir matinn hjálpaði Davíð þeim að fylla á vatnsblöðrur sem þau köstuðu og sprengdu flestar á bílnum okkar. Það var í góðu lagi þar sem hann var mjög rykugur eftir ferðalagið inn að Hlöðufelli. Við vorum mjög róleg í tíðinni en þegar kominn var háttatími hjá systurunum þá kvöddum við. Stoppuðum aðeins við Urriðafoss á heimleiðinni.

Tvíburarnir fóru í sund á laugardaginn og ég notaði daginn til að ganga frá eftir sumarbústaðarvikuna. Milli átta og hálfníu um kvöldið söng Davíð Steinn með sínum kór og Karlakór Reykjavíkur. Við fórum svo niður á Sæbrautina um ellefu og horfðum á flugeldasýninguna. Á sunnudagsmorguninn söng drengjakórinn við hátíðarmessu í Hallgrímskirkju ásamt kirkjukór Akureyrar. Það var mjög hátíðleg stund. Á eftir fórum við í bíltúr sem endaði á Eyrarbakka því við ætluðum að hitta bróðurson Davíðs og færa honum afmælisgjöf. Feðgarnir voru í sundi en við hittum þá samt í smá stund eftir að þeir komu heim og gátum skilað erindinu.

21.8.07

- Kominn tími á mig? -


Það er að verða hálfur mánuður frá því ég skrifaði hér inn síðast og það hefur auðvitað runnið mikið vatn til sjávar á þessum dögum. Við vorum búin að koma okkur þægilega fyrir í sumarbústað einn fyrir austan fjall þann 10. áður en dagur var alveg að kveldi kominn. Á laugardeginum fjölgaði í bústaðnum um fimm og hálfan (eða þannig). Systir mín og hennar maður komu með yngri dóttur sína og annar bróðir Davíðs og hans sonur komu einnig. Með þeim í för var týkin Skotta en hún fékk aldrei að koma lengra heldur en á planið við bústaðinn. Það er bæði heitur pottur og buslulaug við bústaðinn. Systurdóttir mín vildi alls ekki fara í barnasundlaugina fyrr en við fórum að kalla hana stóra pottinn en hún skemmti sér vel í "stóra pottinum"!


Krakkarnir voru flest komin í ró um hálftólf og þá settumst við hin niður og spiluðum. Fyrst teiknispilið þar sem við skiptums í tvö lið; annað tveggja manna og hitt þriggja manna. Síðan spiluðum við tíu og enduðum á kana þar sem við skiptumst á að bíða í eina umferð. Klukkan var að verða fjögur þegar við hættum og ég var mikið að spá í hvort það tæki því nokkuð að fara sofa.

Mamma og Hulda frænka bættust í hópinn á sunnudeginum og var sú síðarnefnda fljót að skella sér í sund með hinum krökkunum. Um fimm fórum við öll (á fjórum bílum) í dýragarðinn Slakka.

Restina af bústaðarvikunni vorum við bara ein fjögur saman, slökuðum á í heita pottinum (strákarnir voru líka duglegir í lauginni og gerðust miklir geitungabanar), fórum í gönguferðir og einn daginn keyrðum við að Hlöðufelli, hálfa leið í kringum það og komum svo niður Haukadalinn. Það var stórskemmtileg ferð. Fyrst stoppuðum við við smá stapa þar sem við mæðginin klöngruðumst upp á og tókumst á við "niðurhræðsluna". Davíð kom upp aðeins á eftir okkur og fann bestu leiðina. Hann hjálpaði svo strákunum niður erfiðasta hjallann sem var bara rétt efst. En ég bjargaði mér alveg sjálf þótt ótrúlegt megi virðast. Kannski er hægt að sigrast á þessari vondu "ég er að detta niður" tilfinningu eftir allt saman? (En hægt og rólega þó).

8.8.07

- Klukkleikurinn -

Ég var víst klukkuð af
Ellu vinkonu og á þar af leiðandi að segja átta sanna hluti um sjálfa mig:
  1. Ég er mjög skapstór, en tel mig hafa lært að stjórna því.
  2. Ég er mjög trúuð og fer með bænirnar mínar á hverju kvöldi.
  3. Ég er dæmigerður fiskur, á oft erfitt með að finna beina línu milli tveggja punkta (enda veit ég að það eru margar hliðar á hverju máli).
  4. Ég er hláturmild og afar smitandi.
  5. Ég er þolinmóð.
  6. Ég er trygglynd og góður vinur vina minna (en þoli það illa ef mér finnst ég notuð)
  7. Ég er þrjósk og læt ekki hvern sem er segja mér hvað ég á að gera.
  8. Ég er vonlaus í rökræðum.
Ég ætla að klukka Árný Láru frænku mína.

7.8.07

- Dagsferð um hálendið -

Við "föðursystir" mín og fjölskyldur (þ.e. menn og börn (og bílar)) höfðum mælt okkur mót við Select á Vesturlandsvegi um klukkan níu á laugardagsmorguninn var. Það var pissustopp á Hvolsvelli og áfylling á annan bílinn og ferðalangana í Vík. Við beygðum út af þjóðvegi eitt áður en við komum austur að Klaustri. Næsta stopp var við Hvanngil, örstutt pissustopp og einhver mundaði myndavél. Nestið var borðað við Álftavatn. Vegurinn týndist við Mælifellssand en eftir smá vangaveltur var ákveðið að halda áfram enda kom í ljós að það var stika á stöku stað sem sýndi að við vorum alveg á réttri leið. Heiðarleg tilraun var gerð til að komast alla leið inn að Hrafntinnuskeri en við völdum slóða sem sem endaði við gönguleið inn að svæðinu. Davíð Steinn var orðinn lasinn og veðrið (sem var reyndar ágætt mest alla leiðina) var orðið fremur hráslagalegt þarna á fimmta tímanum. Við komum niður hjá Keldum um sjö og þá hringdi ég í pabba til að athuga hvort þau væru heima og óhætt væri að gera smá innrás. Það var smá pissustopp og kaffistopp en ekki stoppað nema rúman hálftíma eða svo. Þrátt fyrir veikindi annars tvíburans var þessi dagur mjög skemmtilegur og vona ég sá sem mundi eftir myndavélinni muni bjóða í myndasýningu.

3.8.07

- Grillað í Heiðmörkinni -

Mér tókst að nýta gærdaginn nokkuð vel en var svolítið á skjön við veðrið samt. Því sumarveðrið og 18 stiga hitinn fór næstum því alveg framhjá mér. Ég náði þó að nýta smá hluta af sólinni og hitanum og um kvöldið vorum við nokkur búin að ákveða að hittast og grilla saman í Heiðmörkinni á sama stað og við enduðum gæsaveislu fyrir rétt rúmlega fjórum árum.

Vorum flestöll mætt við staðinn upp úr sex. Staðurinn var reyndar upptekinn en í stað þess að bíða ákváðum við að reyna að finna annan stað. Davíð vidi athuga með annan grillstað sem hann vissi um, tók fram úr hinum og hélt að hann yrði eltur. En það fannst staður, á milli þessara tveggja staða, sem passaði okkur mjög vel, e-s konar lundur. Krakkarnir smullu saman í leik og innan skamms var hægt að fá sér að borða. Enginn kom með eins mat mat með sér. Við vorum t.d. með fiska sem strákarnir veiddu í forrétt og lamb í aðalrétt. Tvíburahálfsystir mín var með lax og bauð m.a. upp á kartöflusallat og "föðursystir" mín var með svínakjöt og bauð upp á grillaðar ostapönnsur á undan, grillaðan ananas í eftirrétt og kaffi á eftir. Þarna vorum við í góða þrjá tíma og ákváðum að láta nú ekki líða önnur fjögur ár þar til næst heldur gera þetta að árvissum atburði.

2.8.07

- Hringinn í kringum Heklu -

Upp úr hálftíu, í gærmorgun, var ég búin að skutla Davíð á skrifstofuna og ná í strákana, Dag og eina vinkonu mína. Við áttum heimboð á Hellu. Ég ók Nesjavallaleiðina austur fyrir fjall og við renndum í hlað hjá pabba og mömmu rúmlega ellefu. Við fengum okkur kaffi og tókum til nesti fyrir þrjá. Strákarnir þrír og amman urðu eftir á Hellu.

Pabbi gerðist sérlegur fararstjóri og ekill fyrir okkur Höllu. Áætlað var að ferðalagið myndi taka 4-5 tíma og lögðum við í hann um tólfleytið. Fórum Fjallabak-syðri og völdum svo vinstri slóðann þegar leiðin skiptist fyrst í tvennt. Sá slóði lá alveg upp að nýjasta Hekluhrauninu og ég hef aldrei farið hann áður. Við gerðum örstutt kaffistopp á einum stað alveg við hraunið. Við ákváðum líka að renna við inn í Landmannalaugar þar sem við borðuðum nestið okkar, gengum aðeins inn í Grænagil og ég heilsaði upp á Smára og Nínu. Við fórum framhjá Sigölduvirkjun og niður Landveg til baka og lentum kl. 18:40 að staðartíma, þannig að ferðin tók rúmlega sex tíma en við nutum hverrar mínútu. Það var margt að sjá og við vorum mjög heppin með veður. Eða eins og Davíð segir alltaf: -"Ef það hefði verið betra, hefði það verið verra!".

Mamma tók á móti okkur með grillveislu og nýja útfærslu af sósu sem var síður en svo svo galin. Á eftir var kaffi og eplakaka. Strákarnir voru ekki í vandræðum með að eyða tímanum með vininum, sýna honum eitt og annað og þeir líka skruppu í sund. Ég náði svo að skila af mér ferðafélögunum, sækja Davíð og vera komin heim fyrir miðnætti.