28.1.07

Dagur var risinn úr rekkju
rigning úti og grátt.
Veruleikinn varð að tímaskekkju
var ég þó sátt.

Ég dreif mig í leppana lúin
langaði aftur í rúmið.
En skylduverkin ei voru búin
enda langt í kvöldhúmið.

Í spegilinn leit, blikkaði´og brosti
burstaði tennurnar vel.
Samt var ég enn í draumalosti
og nýlega komin frá hel.

Martröðin var enn svo lifandi´ og ljót
langaði henni strax að gleyma.
Það myndi ei duga að hlaupa við fót
því minningin fylgir um alla geima.

27.1.07

- Mi legis esperanto -

Í gær
fóru strákarnir að sjá "Vef Karlottu" í Kringlubíó. Þeir voru með frímiða fyrir tvo en vinurinn sem fór með þeim (einn bekkjarfélagi Davíðs Steins) fékk líka ókeypis inn. Mamma hans skutlaði þeim og náði í þá. Það voru ánægðir bræður sem komu heim um sex.

Ég var mætt hjá norsku esperantovinkonu minni um ellefu í morgun. Þegar ég ætlaði að taka fram bækurnar kom í ljós að ég hafði gripið með mér rangan poka, kórnóturnar mínar. -"Það er eins gott að ég taki ekki esperantobækurnar mínar með mér í messu á morgun" sagði ég hlægjandi við vinkonu mína. Þetta kom ekkert að sök. Hún var með "Jen via mondo" og við lásum tvo kafla í henni og æfðum okkur munnlega á nokkrum æfingum. Við erum búnar að ákveða að skreppa einhvern tímann saman á kaffihús og tala bara saman á esperanto, megum bara panta á þýsku sagði vinkonan í gríni. Um hádegi skruppum við saman í Bónus en svo sótti ég Odda Smára á karateæfingu. Hann hafði labbað sjálfur á æfinguna, eins og hann gerir oftast á virkum dögum.

Davíð var að fara út úr húsi til að vinna. Það er búið að vera törn hjá honum og sér ekki alveg fyrir endann á henni. Hann hætti þó vinnu um hálfsjö í gærkvöldi og við ákváðum að vera grand á því og skruppum á Pizza Hut. Ég borða að vísu ekki svoleiðis en það eru ekki bara pizzur á matseðlinum. Er við komum heim skruppu nafnarnir saman á leiguna. Þeir leigðu "Pirots of the Carabían, the dead mans chest". Þetta var ágætis fjölskyldumynd.

26.1.07

stríðnispúkar
þau haga sér undarlega
orðin
þeysast um víðan völl
vilja ekki láta
ná sér
nokkur orð raða sér
upp og vilja
láta nota sig
skipulega
hvað gerir maður ef maður hefur
meiri þörf fyrir stríðnispúkana?


25.1.07

- KVEF -
Allt í einu er ég komin með stíflað nef og viðkvæman háls. Þetta var ekki beint það sem ég þurfti. Ég skil varla hvernig mér tókst að næla mér í þetta kvef, man ekki til þess að hafa verið með hroll... hmm og þó en það er meira en vika síðan.
"Strákarnir okkar" halda áfram að standa sig vel. Mér leist reyndar ekkert á blikuna þegar þeir voru fimm mörkum undir rétt fyrir fimm í gær og um það bil tuttugu mínútur liðnar af leiknum. Gat ekki hlustað lengur, hvað þá horft því ég var að fara á stjórnarfund. Fundinum lauk um hálfsjö og stuttu síðar voru drengirnir búnir á söngæfingu. Davíð Steinn sagði mér það þá að Íslendingar hefðu unnið 36:30. Ég spurði hann hvernig hann vissi það og þá hafði kórstjórinn fengið SMS með úrslitunum. Nú er bara vona að þeir taki Pólverjana í nefið í kvöld og þá eru þeir búnir að tryggja sig inn í 8 liða úrslitin.
Skutlaði stráknum heim og sótti hinn af karateæfingu. Síðan fór ég beint á kóræfingu. Við æfðum fyrir næstu messu og héldum svo áfram með nýja verkefnið sem við ætlum að syngja með kirkjukór Kópavogs í Kópavogskirkju í apríl. Það gekk bara vel á æfingunni og kvefið mitt virtist ekkert vera neitt fyrir eða há mér mikið.
Áfram Ísland!

23.1.07

- Óle, óle, óle, óle... -
Leikurinn í gær var bara snilld. Strákarnir okkar komu einbeittir og mjög ákveðnir til leiks og það gat ekkert stöðvað þá. Frakkar áttu hreinlega ekkert svar, þótt að það hafi gengi þokkalega í fyrstu að taka Óla Stefáns úr umferð í byrjun seinni hálfleiks. En íslensku strákarnir fundu fljótlega aðra leið. Ef frá eru taldar upphafsmínútur seinni hálfleiks þá átti liðið alveg magnaðan leik og það er ekki hægt að segja að það hafi komið neinn vondur/slæmur kafli. Og það er skondið að hugsa til þess að ef þeir hefðu unnið leikinn með meira en ellefu marka mun hefðu Frakkar farið heim, en Úkraínumenn komist áfram með okkur og með tvö stig en við án stiga. Skyldu Frakkarnir hafa vanmetið okkur svona? Þeir hefðu mátt búast við því að við myndum amk ekki leika með hangandi hendi og "tapa" með stæl. Alfreð lagði upp með að reyna að vinna með einu eða tveimur mörkum og ég held að enginn hafi átt von á að sigurinn yrði svona stór.
Annars var seinni parturinn í gær nokkuð annasamur. Dreif mig heim um fjögur og sinnti þvottahúsmálum. Davíð Steinn var ekki kominn heim en hann skilaði sér á réttum tíma og var mættur á kóræfingu á slaginu fimm. Ég dreif mig í Bónus og verslaði kex handa drengjunum svo þeir hefðu eitthvað að maula í kórhléinu. Eftir að hafa gengið frá kexinu fór ég á bókasafnið. Ég taldi mig vera að skila öllum bókum nema einni, sem ég er að lesa fyrir strákana en í ljós kom að það er ein önnur heima, ein sem ég er ekki búin að lesa (hvað skyldi ég hafa gert af henni?). Kom út af safninu með fullan poka og annan minni. Sótti söngfuglinn af æfingu, setti bensín á jeppann, skilaði stráknum heim og lagði svo fyrir utan rétt við Þórshamar. Beið úti í bíl og hlustaði á upphaf þessa ótrúlega leiks sem verður lengi í minnum hafður.
Davíð sá um kvöldmatinn og borðuðum við í leikhléinu. Eftir að úrslit voru ljós og leikurinn flautaður af skrapp ég til "tvíburahálfsystur minnar" og byrjaði þar á nýju saumaverkefni. Kvöldið var auðvitað alltof fljótt að líða.

22.1.07

- Mánudagur -
vika er hafin. Helgin var undrafljót að líða. Á föstudaginn skutlaði ég Oddi Smára á aukaæfingu í karate, þar sem sensei Poh Lim var að kenna. Þegar kennarinn mætti á svæðið þekkti hann snáðann og sagði: "I remeber you, the strongest boy in Reykjavík" Strákurinn var ánægður með það. Hann lærði líka nýja æfingu í þessum tíma. Morguninn eftir skruppum við tvö saman í hús í Hafnarfirði þar sem ég fékk eina vinkonu mína til að stytta nýjar buxur á strákinn. Úr Hafnarfirðinum fórum við beint á laugardags-karate-æfingu. Ég beið á staðnum og fylgdist með æfingunni. Þar af leiðandi missti ég af byrjuninni á Liverpool - Chelsea sem fór 2:0 fyrir mína menn. Í gær horfði ég svo á Arsenal - Man. Utd. og hafði gaman af. Flottur leikur!

19.1.07

- Vikan senn á enda -
Dagarnir bruna áfram, hratt og örugglega. Það er búin að vera smá vinnutörn hjá Davíð undanfarna daga. Á miðvikudagsmorguninn kom hann heim klukkan sjö og var þá búinn að vera að heiman í vinnu í næstum sólarhring. Hann lagði sig til hádegis en þurfti þá að skreppa á fund. Hann var kominn heim um fjögur aftur þennan dag og ég notaði tækifærið og skutlaði Davíð Steini á kóræfingu á jeppanum. Oddur Smári labbaði á karateæfingu. Ég skrapp til mömmu og hún fékk leyfi til að koma með mér og hlusta á seinni helming kóræfingarinnar hjá drengjakórnum. Þegar æfingin var búinn skutlaði ég henni til bara og svo þurftum við Davíð Steinn að bíða góða stund eftir að Oddur Smári væri búinn. Ég skutlaði bræðrunum heim og fór svo sjálf beint á kóræfingu.
Á æfingunni fengum við hluta af nýju verkefni í hendurnar sem við ætlum að flytja með kirkjukór Kópavogs í kringum sumardaginn fyrsta. Það verður spennandi.
Í gærkvöld sótti ég vinkonu mína út á flugvöll um tíu. Hún var búin að falast eftir gistingu og var það auðsótt mál. Við áttum notalegar tvær stundir í gærkvöldi. Að vísu flaskaði ég á því að slökkva á imbanum og festumst við að nokkru leyti í fyrrihluta spennandi sakamálaþætti.
Framundan er helgi, heimilisverk, innkaup, fótbolti, handbolti og messa í Hallgrímskirkju sem drengjakórinn syngur við.

16.1.07

- Lasleiki -
Tvíburarnir eru alveg einstaklega hraustir alla jafna. Í gær var kvartaði annar um slæma magaverki. Hann var lystarlaus og það var ekkert vit í að senda hann í skólann ef hann skyldi svo kasta upp þar. Ég var farin að heiman fyrir sex. Davíð hringdi í mig um tíu og sagði mér frá stráknumog að hann væri bara einn heima (í fyrsta skipti einn v/veikinda). Ekki kom til þess að hann kastaði upp og þegar leið á daginn kom matarlystin aftur. Honum fannst ekki verra að mega leika sér í tölvunni eins og hann vildi. Ég kom heim rúmlega tvö. Þá var hinn bróðirinn kominn heim með bekkjarfélaga með sér.
Um fimm skutlaði ég söngfuglinum á æfingu og heimsótti mömmu í leiðinni (hún er á sjúkrahúsi). Vinur bræðranna var kominn til Odds og var hjá honum þar til klukkan var örugglega orðin sjö.
Í nótt var það söngfuglinn sem vaknaði upp og leið eitthvað skringilega í maganum. Það endaði með því að hann kastaði upp (sem betur fer var hann kominn inn á bað og hitti í klósettið). Davíð var að vinna í heimatölvunni og hjálpaði nafna sínum að finna til fötu til að setja við rúmið. Nú er þessi piltur einn heima (í fyrsta sinn v/veikinda) og þar sem að hann er lasinn þá var horft fram hjá því að það væri "tölvulaus dagur" og ef ég þekki minn dreng rétt þá er hann búinn að sitja við tölvuna megnið af deginum. Ég hringdi í hann um hádegi og þá var honum aðeins farið að líða betur.
Nú heyrir maður að flensan sé búin að stinga sér niður. Vonandi fer hún framhjá sem flestum heimilium!!!

15.1.07

- Hvað varð af helginni? -

Davíð skrapp
heim í tvo tíma á föstudagskvöldið en var farinn aftur um níu og kom ekki heim fyrr en sjö tímum seinna. Ég skutlaði honum til vinnu aftur um tíu á laugardagsmorguninn. Rétt fyrir tólf keyrði ég Odd á karateæfingu, beið eftir honum og fylgdist stundum með tímanum á meðan (annars var ég með bók með mér). Fljótlega eftir æfinguna tók ég strákana með mér í verslunarleiðangur og keypti handa þeim m.a. nýjar úlpur og æfingaskó. Davíð kom heim um níu leytið um kvöldið þannig að við áttum eitthvað af kvöldinu saman.

Á sunnudagsmorguninn skutlaði ég manninum aftur til vinnu um ellefu. Skrapp í Kópavoginn að sækja svolítið fyrir mömmu og er ég kom til baka var eiginlega tími kominn til að taka sig til og mæta í upphitun og messuundirbúning. Pétur prestur var í fríi en í staðinn messaði séra Guðný Hallgrímsdóttir og fórst henni það vel úr hendi. Ég drakk einn kaffibolla eftir messu en dreif mig svo heim því von var á heimsókn.

Um hálffjögur kom nafna mín og frænka, hálfdönsk, og áttum við notalegar stundir saman. Spjölluðum um margt og spáðum í að setja fljótlega saman áætlun fyrir sumarið. Þegar Anna var farinn hringdi ég í Davíð. Við mægðin sóttum hann svo um hálfátta og skruppum svo á Pítuna.

12.1.07

vetur
snjórinn sáldrast niður
eins og hveiti
bara kaldari
og blautari

11.1.07

- "Lestur er bestur!" -

Þetta eru einkunnarorð sem standa utan á smá kompu sem ég keypti þegar ég fór á bókasafnið í nóvemberlok. Í bókina skrái ég niður allar bækur sem ég les fyrir sjálfa mig. Ég skráði fystu bókina þann áttunda desember sl. og í dag skráði ég 24. bókina. Ég fékk þrjár bækur í jólagjöf. Reyndar gaf ég sjálfri mér tvær af þeim (he, he). Eina bókina fékk ég frá Tomma, Hugborgu, Tedda og Skottu; Fimm manneskjur sem maður hittir á himnum eftir Mitch Albon. Ég mæli hiklaust með þessari bók, hún er yndisleg! Tvíburarnir fengu líka þrjár bækur hvor og Davíð einnig. Hann fékk bækurnar; Konungsbók eftir Arnald, Gemsar eftir Stephen King og Hringur Tankados eftir Dan Brown. Davíð er búinn að lesa tvær síðast nefndu bækurnar og byrjaður á Konungsbók. Ég er auðvitað harðákveðin í að lesa þessar bækur líka.

Annars er ég komin með smá sauma-fráhvarfs einkenni. Það er orðið svo langt síðan ég greip í nál síðast að ég stend mig að því að hugsa um öll skemmtilegu verkefnin sem á eftir að sauma. Ég held að það líði ekki á löngu áður en ég verð komin á saumakaf (eða verð ég að skrifa komin í ...kaf?)

En nóg að sinni. Ég ætla nú að fara að lesa Bert og bræðurnir fyrir strákana.

9.1.07

- Undarlegt bankamál -
og fleira

Fyrir
nokkru átti ég fund í bankanum mínum þar sem farið var yfir öll mín mál. Eitt af því sem var ákveðið var að nú skyldi ég fara að eyða í sparnað um hver mánaðamót. Skuldfæra skyldi ákveðna upphæð af sérreikningnum mínum og færð yfir í peningabréf. Fyrsta skuldfærsla var í byrjun desember sl. Ég passaði mig á að eiga nægjanlega upphæð á reikningnum. Svo varð ég vör við að það "hvarf" upphæð af kaffi-reikningi Óháða kórsins. Ég var ekki sein á mér að jafna muninn og hafa svo samband við bankann til að biðja um að framvegis yrði skuldfært af réttum reikningin, mínum prívat og persónulega vörðureikningi. Í upphafi nýs árs setti ég mig í samband við þjónustufulltrúa og spurði hvort það væri ekki öruggt að það væri rétt tengt. Jú, það átti að vera. En það hefur ekkert gerst enn, upphæðin sem á að fara í sparnað er enn á sínum stað. Þar sem ég átti erindi í bankann í morgun ákvað ég að láta kanna þetta betur og þá kippa málunum í rétta liðinn. Þetta "vesen" tók ótrúlegan tíma og niðurstaðan var mjög furðuleg: Það hafði allan tímann verið tengt á þann reikning sem ég bað um að skuldfært yrði á í upphafi en einhverra hluta vegna "sýndist" ekki nóg á honum. Nú er það svo að innistæða kórsreikningsins er lægri heldur en spariupphæðin er svo ég er viss um að ef innstæða þess reiknings væri næg, yrði skuldfært á hann aftur. ÉG vona svo sannarlega að þetta verði lagfært sem fyrst!

Annars er það að frétta að Oddur Smári er að færast upp í unglingaflokk í karate og þar með bætist við ein æfing á viku hjá honum. Tveir tímanna eru á sömu dögum en heldur seinna, kl. 18:10-19:00 í stað 17:20-18:10 og þriðji tíminn er klukkan tólf á laugardögum. Ég veit að hann hefur bara gott af þessu. Hann fékk annars gott hrós á fyrstu æfingu ársins í gær (þá var hann á sínum "gamla" æfingatíma, líklega í síðasta skipti), hann var víst sá eini sem mundi eftir að skipa um stöðu í ákveðinni æfingu. Það er líka verið að fjölga æfingunum í frjálsum en mér sýnist sem þeir bræður verði að sleppa einni æfingu úr á viku.

8.1.07

- Jólin búin í þetta sinn -

Við Davíð hjálpuðumst að við að taka niður jólin í gær. Svo fékk hann strákana til að hjálpa sér við að fara með kassana niður í geymslu. Þetta tók ekki langan tíma. Ég á reyndar eftir að taka jóladúkinn af matborðinu og þvo hann en það verður gert fljótlega.

Feðgarnir skruppu á brennu og flugeldasýningu í Grafarvoginum á þrettándanum. Þeir sá lítið af brennunni en voru ánægðir með flugeldana og sáu þar að auki smá af sýningu úr Grafarholtinu.

Annars var ég frekar róleg í tíðinni um helgina. Norska esperanto vinkona mín bauð mér yfir upp úr hádegi á laugardaginn. Ég fékk mér göngutúr til hennar og stoppaði hjá henni í tvo tíma eða svo. Hún bauð mér einstaklega kraftmikla og góða grænmetis-baunasúpu og nýja gerð af te á eftir. Og svo sýndi hún mér hluta af jólagjöfunum sínum, aðallega bækurnar sem hún fékk. Við ætlum svo að byrja af krafti að rifja upp og læra meira esperanto núna í vikunni.

5.1.07

árið er ungt
nýtt
notum það
skynsamlega
miðlum brosi
og
gæsku

látum ekki
hraðann hafa
áhrif á okkur
allt hefur sinn
tíma
og
takmörk

eyðum tíma
með þeim sem
standa okkur næst
bæði ástvinum
og
vinum

en umfram allt
Farið
vel
með
ykkur

3.1.07

- Gleðilegt ár ! -

Jæja,
núna er árið 2007 gengið í garð og næstum liðnir þrír dagar af því. Tíminn lætur ekki hæða að sér og hleypur æ hraðar. Ég er löngu hætt að reyna að elta hann uppi. Við skruppum austur á nýjársdag. Hulda var hjá afa sínum og ömmu. Helga, Ingvi og Bríet voru tiltölulega nýfarin. Tvíburarnir fengu líka að verða eftir.

Pabbi og mamma komu í bæinn í dag með krakkana og þessa stundina er ég með systurnar í heimsókn. Það er reyndar stutt í að ég skutlist með þær, sæki pabba þeirra í vinnuna og skutli þeim öllum heim. En þangað til ætla ég að njóta samvistanna við frænkur mínar.