- Í söngönnum og fleira -
Strákarnir stækkuðu heldur betur í gær. Ég skildi eftir 4000 kr. áður en ég fór í vinnuna. Davíð hringdi í mig um tíu og spurði hvað ég ætlaði mér með þessa peninga. Ég hafði ætlað að hringja í strákana og láta þá vita að þetta væri fyrir klippingu. Um hádegi í gær hjóluðu kapparnir alla leið á Hárhornið við Hlemm til Torfa. Þar var biðin hins vegar svo löng að þeir ákváðu að prófa að spyrja á stofunni sem er á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar. Og viti menn þeir þurftu aðeins að bíða í korter og rétt rúmlega það. Fengu hvorn sinn stólinn og hvorn sinn klipparann. Klippingin kostaði 1600 en annar þeirra fékk 100kr. afslátt, heilan 500 kr til baka (líklega vegna þess að skiptimyntin var á þrotum). Oddur Smári er aftur kominn með skott, búinn að sakna þess alveg síðan hann lét klippa það.
Dagur vinur þeirra var lasinn í gær. Ég skutlaði bræðrunum á frjálsíþróttaæfingu og skrapp svo til norsku esperantovinkonu minnar þar til kominn var tími til að sækja þá. Við mæðginin komum heim um hálfsjö og þá hafði ég tæpan klukkutíma þar til ég þurfti að rjúka að heiman aftur.
Það var lokaæfing í Kópavogskirkju. En þessi æfing gekk hálf brösuglega. Það vantaði marga úr karlaröddunum, sérstaklega í bassann en þeir voru bara tveir, báðir úr Óháða. Eftir tveggjaoghálfstíma æfingu var ákveðið að setja á klukkutíma aukaæfingu í kvöld. Undirleikarinn spilaði á pípuorgelið uppi og við stóðum fyrir framan altarið niðri til að byrja með. Stjórnandinn og undirleikarinn sáu ekki hvort annað svo hún brá á það ráð að fara upp til hans og stjórna okkur þaðan. Það gekk ekki vel og við fengum hálsríg. Þá vorum við beðin um að flykkjast upp og ég komst ekki hjá því að hugsa að sem betur fer væru ekki allir mættir því það fór ekki vel um okkur þarna, hálfklemmd. Enda gekk æfingin illa eins og áður er sagt. Ég get þó ekki annað en dáðst að bössunum tveimur, þeir stóðu sig eins og hetjur þótt það gengi líka illa á köflum hjá þeim eins og okkur hinum. Sungum svo Ave verum Corpus niðri í restina og mér skilst á okkar stjórnanda að við höfum sungið það eins og englar.
Eftir æfinguna var fyrirbænastund því formaður Kópavogskórsins er að berjast við erfið veikindi og var skorin við krabbameini í morgun (eða í dag). Við vorum nokkur úr óháða sem sátum eftir og tókum þátt í athöfninni.