28.11.06

- Jólaklukkustrengurinn kominn upp -

Við strákarnir settum upp klukkustrenginn, þar sem þeir telja niður dagana til jóla, upp í gærkvöldi. Það eru tveir hringir við hverja tölu, alls 48 hringir og í hvern hring hengdum við upp "álpappírsfiðrildi" (band bundið um smá álpappír og svo fest í hringinn. Það verður bara gaman að hafa þetta fullt af "fiðrildum" til föstudags. Á fimmtudagskvöldið, eftir að strákarnir eru sofnaðir, mun ég svo taka niður "fiðrildin" úr hringjunum fyrir neðan 1 og setja smá pakka í staðinn. Hefðin hefur verið sú að þeir fái blöðrur í fyrsta pakkanum en ég veit ekki hvort ég bregð út af vananum í þetta sinn.

Ég setti líka upp jólapóstavasann í gærkvöldi. Það er kominn tími til að fara að skrifa á jólakortin í ár. Ég sendi kortin yfirleitt ekki fyrr en eftir 15, nema ég sé að senda þau út, en ég er oft búin að fá einhver jólakort eftir fyrstu vikuna í desember. Jamm, það eru jól handan við hornið.

27.11.06

- Þjóðlagamessa -

Í gær var þjóðlagamessa í Óháðu kirkjunni. Þá er mikið sungið og spilað undir á flygilinn en ekki orgelið. Messan tókst með ágætum en ég hef grun um að afleysingakórstjórinn hafi verið nett stressaður. Hún hafði aldrei spilað undir eða verið við svona messu áður. En hún var búin að æfa sig vel.

Seinni part dagsins skrapp ég til norsku esperanto vinkonu minnar og lásum við yfir þrjár æfingar og vorum ekki nema ca þrjú korter að því. Þetta er smám saman að koma hjá okkur. Sumt hefur festst ágætlega í minninu en það eru líka orð eða orðasambönd sem við erum alltaf að flétta upp. Tíminn er ekki mjög lengi að líða þegar maður er að grúska í þessu máli.

26.11.06

- Ferð á bókasafnið -

Davíð var farinn fyrir hádegi í gær, fyrst í ræktina og svo á skrifstofu Habilis. Þar var hann langt fram á kvöld. Ég leyfði tvíburunum að leika sér í tölvuleikjum næstum fram að hádegi. Þá fengum við okkur eitthvað og svo hjálpuðumst við að skipta um á öllum rúmum. Þeir tóku svo næstum allt dót af gólfinu inni hjá sér.

Um eitt skrapp ég á aðalsafnið með 18 bækur af 20 með mér. Ég var búin að lesa, eða glugga í allar þessar bækur. Eina af þeim, esperanto orðabókina, fékk ég lánaða strax aftur og skilafresturinn á þeim tveim bókum sem voru eftir hér heima var framlengdur um mánuð. Aðeins eina af öllum þessum bókum náði ég ekki takti við og lauk aldrei við að lesa hana; Baróninn eftir Þórarinn Eldjárn. Kannski reyni ég að gera annað áhlaup seinna. Ég kom heim um tvö með 16 bækur fyrir utan orðabókina (svo nú er ég með samtals 19 bækur í láni næsta mánuðinn). Tvær af bókunum eru ætlaðar strákunum; Dagbók Berts og Frank og Jói finna fjársjóð. Ég byrjaði einmitt að lesa þá fyrrnefndu fyrir strákana í gærkvöldi.

Eina bókina, Heljarslóðarhatturinn eftir Richard Brautigan hef ég bara í hálfan mánuð og mér fannst við hæfi að byrja á henni þrátt fyrir að vera að lesa aðra af bókunum sem var hér heima (ég les nú stundum 2-3 bækur í einu). Það var eitthvað við þessa bók sem hélt mér fanginni alveg til enda. Hún er ekki nema 137 bls. og kaflarnir allir stuttir, sumir ekki nema hálf blaðsíða. Í raun voru þetta þrjár sögur í einni, mis fyrirferðamiklar. Gamanrithöfundur með enga kímnigáfu byrjar að skrifa sögu um hatt sem féll ofan af himnum. Hann er ekki ánægður með það sem hann skrifar, rífur blaðsíðuna og hendir henni í ruslið. Þar heldur saga hattsins áfram án vitundar rithöfundarins sem er í ástarsorg og veltir sér upp úr henni. Stöku sinnum víkur sögunni að japönsku konunni, sem bjó með honum í tvö ár, þar sem hún liggur sofandi heima hjá sér og dreymir drauma í takt við malið á kettinum sínum. Ég mæli með þessari bók, hún er fyndin og öðruvísi og hún hélt mér við efnið allan tímann.

25.11.06

- Kardimommubærinn II -

Við Oddur Smári mættum upp í skóla fyrir hálfsex til að ná borði. Hittum tengdó fyrir utan og þegar við komum inn í sal voru pabbi, mamma og Bríet þegar komin (Hulda var í afmælisboði) og sest við eitt borðið. Við settumst öll hjá þeim. Davíð kom rétt seinna með pizzur á hlaðborðið. Sýningin hófst korter fyrir sex. Davíð Steinn lék Tóbías í turninum og þegar hann söng veðurvísurnar hríslaðist léttur hrollur niður eftir bakinu á mér. Það skilar sér svo sannarlega kórþjálfunin. Annars stóðu krakkarnir sig öll mjög vel og var ég sérlega hrifin af frammistöðu bæjarstjórans í ljósi þess að drengurinn sem lék hann var sárlasinn. Sá sem lék Sörensen rakara söng líka mjög skýrt og fallega. Ósjálfrátt bar maður sýningarnar saman í huganum. Sumt var betra í þessari en sumt var líka betra í sýningu Odds bekkjar. En það er reyndar alveg eðlilegt. Aðalatriðið var að ég skemmti mér vel á þeim báðum og dáðist að hvernig krakkarnir leystu hlutverk sín.

24.11.06

ég sit alveg kyrr
og hugsa eitthvað
skemmtilegt

bleikur himinn yfir mér
svo flottur
en svo annarlegur

um hugann vafra
góðar minningar
og ég brosi út í annað

veröldin er á yfirsnúning
en ég held mig vel
fyrir utan

það er ekki við hæfi
að vera stressaður
á svona bleikum degi

23.11.06

- Kardimommubærinn I -

Ég varð að kíkja á stjórnarfund um leið og ég skutlaði Davíð Steini á kóræfingu. Ég var búin að semja um að fá að vera stutt og tala við eina kórmömmuna um að skutla stráknum heim eftir æfingu. Var komin upp í Hlíðaskóla um hálfsex og stuttu seinna hófst sýningin. Oddur Smári var sögu maður í fyrri hluta og að hluta til í seinni hluta, auk þess sem hann lék hund Tóbíasar í turninum. Hlutverkum sínum skilaði hann með sóma. Mamma eins bekkjarfélaga hans kom sérstaklega að máli við mig á eftir til að tala um hversu skemmtilega drengurinn hefði leiklesið. Tengdó, pabbi, mamma, Hulda og Bríet voru á svæðinu og skemmtu sér mjög vel. Þetta var mjög vel gert hjá krökkunum. Einu sinni ruglaðist ein stúlkan er hún var að byrja að syngja, hún lét það ekki slá sig út af laginu heldur byrjaði bara upp á nýtt. Það verður svo fróðlegt að sjá útgáfu Davíðs Steins bekkjar af þessu verki.

Strax eftir leikritið og smá kaffisopa dreif ég mig á kóræfingu. Við vorum að æfa fyrir þjólagamessuna n.k. sunnudag og aðventukvöldið 3. des. Það gekk alveg ágætlega. Í kaffinu deildi ég nokkrum bröndurum með kórfélögum mínum. M.a. þessum:

Nonni: Við fáum afa og ömmu í kvöldmat.
Siggi: Þið eruð heppin við fáum bara saltfisk.

22.11.06

- Þrjátíu og tveir dagar til jóla -

Það eru bara átta dagar eftir af þessum mánuði. Mér finnst ekkert svo langt síðan árið byrjaði og bráðum verður komið 2007. Í kvöld (seinni partinn 17:30) er ég að fara á bekkjarkvöld með bekknum hans Odds Smára. Krakkarnir ætla að sýna okkur Kardimommubæinn. Oddur Smári er sögumaður og leikur líka hundinn hans Tobíasar í turninum. Ég hlakka til. Bekkurinn hans Davíðs Steins er með sína skemmtun á föstudaginn. Davíð Steinn leikur Tobías í turninum.

21.11.06

- Bilerí -

Ég var heppin að sofa ekki yfir mig í morgun. Ég missti gemsann minn fyrir utan Þórshamar í gær og hann fór í nokkra parta. Setti hann snarlega saman og stillti hann upp á nýtt, hélt ég. Áður en ég fór að sofa seint í gærkvöld stillti ég vekjarann á gemsanum á hálfsjö. Næsta sem ég vissi var að gemsinn hans Davíðs hringdi. "Afhverju hringir hans gemsi á undan mínum, hans er oftast stilltur á hálfátta?" hugsaði ég með mér. Þegar ég skoðaði gemsann minn sá ég hvers kyns var, Þar sýndi klukkan 23:53 og þegar ég athugaði dagsetninguna var hún enn á 20. nóvember. Það var eins gott að ég var ekki á sexvakt!

20.11.06

- Tíminn hleypur frá mér -

Á föstudaginn var hitti ég mömmu í Bónus í Holtagörðum rúmlega tvö. Hún var þegar búin að fylla fyrstu körfuna. Stuttu á eftir mér kom hjálparkokkurinn með aðstoðarmann með sér. Saman fylltum við þrjár körfur í viðbót. Ég borgaði svo fyrir vörurnar sem gjaldkeri foreldrafélags drengjakórsins. Á heimleiðinni setti ég nokkur keðjubréf fyrir Odd Smára í póst. Mamma kom til mín og var hjá mér til hálffimm. Ég hjálpaði Davíð Steini að taka sig til fyrir æfingabúðirnar. Við mættum við Hallgrímskirkju korter fyrir fimm. Rútan var komin og þeir sem voru mættir hjálpuðu mömmu að millifæra matvörurnar úr hennar bíl yfir í rútuna.

Á laugardagsmorguninn fórum við Davíð með Oddi Smára í Laugardalshöllina á silfurleika ÍR í frjálsum. Drengurinn tók þátt í langstökki, kúluvarpi og 60 m en sleppti 600 m. Vorum fjóra tíma á staðnum. Skruppum á Pítuna og fengum okkur að borða áður en við fórum heim. Fljótlega eftir að við komum heim fórum við Oddur Smári í kertasöluherferð. Vorum að í tvo tíma og seldum 15 pakka. Það á enn eftir að fara í eina götu, við eigum aðeins um 15 pakka eftir og þá verðum við búin að selja allt í allt hátt í 130 pakka. Ég tel því að drengurinn eigi góða möguleika á að verða einn af 5 söluhæstu drengjunum og fara í enn eina óvissuferðina.

Ég trúði varla mínum eigin augum er ég leit út í gærmorgunn. Þvílíkur snjór. Ég varð að ryðja af jeppanum áður en ég komst af stað í kirkju. Drengjakórinn söng við messu ásamt barna og unglinakór Austubæjarskóla og Hallgrímskirkju. Það var verið að skíra eitt barn, svartan dreng sem fékk nafnið Jonh Junior. Á meðan messan stóð yfir reyndi foreldri eins piltanna að hafa samband við mig. Ég hringdi til baka eftir messuna og var þá beðin að kippa drengnum með þar sem fjölskyldubíllinn var fastur í skafli. Það var ekkert mál.

Seinni part dags skruppum við Davíð að versla inn og ákváðum að hafa læri í matinn um kvöldið. Þegar við komum úr búðinni var strax kominn tími til að undirbúa kvöldmatinn. Það var borðað vel af steikinni.

Snjórinn setti mig svo út af laginu að ég steingleymdi að hafa samband við norsku esperantovinkonu mína.

15.11.06

óljóst efni

óljós hugmynd
að bæra á sér
í kollinum

djúpt í hugsununum
leynist ein
vandlega falin

og ég hugsa
var það eitthvað
sem ég ætlaði
að muna
eða gera?

14.11.06

- Stórt verkefni framundan hjá DKR -

Eins og kom fram í síðustu færslu varð Drengjakór Reykjavíkur að hætta við að taka þátt í aðventutónleikum með kirkjukór óháða safnaðarins. Þeir urðu reyndar líka að hætta við að halda sína eigin jólatónleika en þetta er vegna þess að þeim bauðst einstakt tækifæri eins og lesa má hér að neðan. Fékk eftirfarandi texta að láni úr bréfi frá formanni foreldrafélagsins:

"Drengjakór Reykjavíkur (DKR) hefur verið boðið að taka þátt í jólatónleikum Frostrósa ásamt evrópskum söngdívum. Haldnir verða þrennir tónleikar dagana 5. og 6. desember í Laugardalshöll og Hallgrímskirkju. Tónleikarnir verða teknir upp fyrir sjónvarp og stefnt er að því að þetta verði ein stærsta sjónvarútsending sem framkvæmd hefur verið hér á landi. Gert er ráð fyrir að sýna tónleikana í tólf löndum í Evrópu um jólin. Þá verða tónleikarnir gefnir út á geisla- og mynddisk fyrir jólin 2007."

Það er annasamur tími framundan. Næstu helgi fer drengjakórinn í æfingabúðir og syngur við messu í Hallgrímskirkju n.k. sunnudag um leið og þeir koma heim úr æfingabúðunum. En það á allt að vera búið í kringum 11. desember og þá fá drengirnir frí til annan dags jóla er þeir syngja við messu klukkan tvö.

13.11.06

- Og þá tók daglegt líf U-beygju -

Kannski varð mér svona mikið um þegar ég frétti á foreldrafundi DKR að drengjakórinn væri hættur við að syngja á aðventukvöldi með okkur í óháða kórnum. En þótt það væri áfall í sjálfu sér þá er líklegra að ég hafi bara smitast af slæmri gubbupest. Aðfaranótt fimmtudagsins var lá ég hríðskjálfandi undir sænginni og botnaði ekkert í því afhverju mér hitnaði ekki. Á fjórða tímanum um nóttina skrapp ég fram á salerni og þá hvolfdist maginn á mér við. Ég sofnaði ekki fyrr en um það leyti sem feðgarnir voru að fara í vinnu og skóla og ég svaf meira og minna allan daginn. Maginn var aumur, tómur en ég gat ekki borðað neitt fyrr en á tíunda tímanum um kvöldið. Þá var verkurinn farinn en ég var enn með hita.

Davíð vann fram eftir næstu nóttu þannig að ég græjaði strákana í skólann á föstudagsmorguninn. Var enn með nokkrar kommur svo ég fór beint upp í rúm aftur og svaf fram að hádegi. Hélt mig í rúminu þann daginn en eftir hádegi las ég Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur spjaldanna á milli. Spennan hélt mér alveg við efnið og var ég nokkuð ánægð með þessa bók.

Ég hélt mér innandyra á laugardeginum en klæddi mig og tók til við að sýsla við þvott og fleira. En ég byrjaði líka að sauma út jólakort. Myndin er af bangsa með jólahúfu sem situr með fullan poka af jólagjöfum. Mjög svo krúttaralegt.

Tvíburarnir byrjuðu að ganga í hús um helgina að selja kaffi og kerti. 6 ára frændi þeirra var með þeim á laugardaginn og gekk salan mjög vel, það seldust alls 20 pakkningar í tveimur götum. Á sunnudeginum var bekkjarbróðir Davíðs Steins með þeim. Þeir fóru í tvær götur og seldu hátt í 10 pakkningar. Enn er nóg eftir af götum og húsum og markmiðið er að selja amk 120 einingar en það er þegar búið að seljast yfir 80.

8.11.06

- Erill -

Skutlaði tvíburunum á frálsíþróttaæfingu seinni partinn í gær. Vini þeirra var boðið í afmæli svo ég sagði þeim að ég myndi sækja þá líka. Fór beint til norsku-Esperanto vinkonu minnar. Hún var reyndar ekki heima akkúrat þá en hringdi í mig nokkru eftir að ég kom heim. Ákvað að drífa mig þótt við hefðum aðeins rúman hálftíma. Lásum saman um föt sem karlmenn klæðast á norðurslóðum. Greinilegt var að það er langt síðan þessi kafli var skrifaður því það var talað um sokkabönd. Bókin er líka skrifuð 1939.

Seinni partinn er almennur foreldrafundur í foreldrafélagi DKR og svo er kóræfing í kvöld. Vikan verður búin áður en ég veit af...

6.11.06

- Söluferð fyrir austan -

Davíð fór á pílumót í Keflavík með tveimur vinum og vinnufélögum um hádegisbil á laugardag. Ég sinnti smá heimilisstörfum en tók svo þá ákvörðun, í samráði við tvíburana, að renna austur á Hellu m.a. með það í huga að selja eitthvað af kertum. Klukkan var orðin hálffjögur þegar við komum á áfangastað og þrátt fyrir rigningu vorum við mæðgin byrjuð að ganga á milli húsa í Nestúninu upp úr fjögur. Það seldist ágætlega. Á einum stað vorum við svo drifin inn í kaffi og spjall. Söluherferðin varði samt samtals í svona tvo mjög blauta tíma.

Um kvöldið bauð ég mömmu með í heimsókn til frænda míns og konu hans en þau eru áskrifendur af kertum. Þau keyptu af okkur eina kaffi einingu, sex poka af kertum og sex kerti aukalega á samtals 5000 kr. Ég gat þess að við þyrftum líklega ekki að spyrja þau að ári, en jú, jú það eigum við einmitt að gera.

Á sunnudagsmorguninn skrapp ég yfir til til föðurbróður míns í smá spjall. En um eitt lögðum við mæðginin af stað í aðra söluherferð. Að þessu sinni upp í hæð. Gengum í öll hús í Heiðvanginum og nokkur hús í tveimur öðrum götum. Alls seldum við rúmlega 30 kertapakka þessa helgi. Við eigum svo eftir að ganga í hús okkar megin í Hlíðunum (vestan megin við Lönguhlíð) svo ég taldi vissara að ná mér í fleiri kerti þegar ég skutlaði Davíð Steini á æfingu í dag. Við vorum líka næstum því búin með einn litinn en við erum bara með þrjá liti í ár: rauð, vínrauð og fílabeinshvít.

Annars var ég að koma úr kortagerð núna áðan. Var ekki alveg viss í hvernig stuði ég var þegar ég lagði í hann og tók með mér bæði föndur og útsaum. Þegar til kom föndraði ég 14 kort á tveimur tímum og á nú 69 föndruð kort tilbúin plús eitt saumað og er næstum búin að sauma annað til. Ég held reyndar að það séu bara um 65 á jólakortalistanum okkar Davíðs þannig að ég er eiginlega farin að vinna upp í næsta ár og get nú farið að byrja að skrifa á jólakortin, þegar vel liggur á mér.

Ég er líka búin að lesa nokkrar bækur undanfarna daga. Sú sem ég er að lesa núna er eftir Árna Þórarinsson og heitir Tími nornarinnar. En bókin sem ég lauk við á undan henni heitir Leyndarmál og er eftir Gunnhildi Hrólfsdóttur. Sú bók fjallar um fjölskyldu sem býr í Grjótaþorpinu og það má segja að ekki er alveg allt með felldu í því fjölskyldulífi. Bókin greip mig heljartökum og ég gat varla lagt hana frá mér. Það ætlar reyndar að vera sama sagan með bókina sem ég er að lesa núna. Að lokum langar mig að segja frá einni sannri sögu: Þeir tóku allt - meira að segja nafnið mitt; frá heljarslóð í Tyrklandi til nýrra heimkynna. Ég mæli með þeirri bók en hún er mjög átakanleg á köflum og virkar enn sterkar á mann þar sem hún er sönn.

2.11.06

- Mýrin og kóræfing -

Við Davíð fórum í bíó á þriðjudagskvöldið var og sáum Mýrina. Ég var stórhrifin og mæli eindregið með myndinni. Við fórum um það leyti sem strákarnir voru að fara í ró. Það eina sem fór í taugarnar á mér voru allar auglýsingarnar á undan og í hléinu. Raunar væri mér alveg sama þótt aldrei væri hlé á sýningum.

Á kóræfingu í gærkvöldi vorum við að æfa jólalög fyrir aðventukvöldið sem sett er 3. desember n.k. Drengjakór Reykjavíkur mun einnig koma og syngja bæði einir og með okkur og ég á von á því að kvöldið verði mjög hátíðlegt.