1.1.26

Glænýtt ár!

Vaknaði stuttu fyrir klukkan hálfsjö í morgun. Kúrði í smá stund lengur áður en ég fór fram á pisseríið. Fékk mér matskeið af lýsi og skreið svo aftur upp í rúm og kláraði að lesa skammtímaláns bókina. Sú rúmlega fimmhundruðogfjörutía blaðsíðna spennandi bók endaði þannig að það hlýtur að koma framhald fljótlega. Klæddi mig og bjó um tíu og útbjó mér hafragraut. Var komin í Nauthólsvík rétt fyrir ellefu stuttu áður en opnaði. Svamlaði í sjónum í tæpt korter áður en ég fór í gufu. Eftir næstum tuttugu mínútur í gufunni skrapp ég aðeins aftur út í sjó. Var búin að klæða mig úr hönskunum svo ég held ég hafi ekki verið lengur en tvær mínútur út í áður en ég fór í pottinn. Fór upp úr um tólf leytið. Kom við í Drápuhlíðinni að sækja jólapóst sem var merktur mér. Það reyndist jólakveðja frá Gallup með skafmiða sem á leyndist 300kr. vinningur. Var komin heim fyrir klukkan eitt. Hringdi í pabba en er svo búin að vera að glápa á einhverja þætti, alltaf á leiðinni að grípa í bók eða gera eitthvað annað. Það stefnir í algeran letidag hjá mér.