Vekjarinn vakti mig korter fyrir sjö í morgun. Kúrði aðeins lengur en bara í stutta stund áður en ég greip í bók. Var komin á fætur upp úr klukkan hálfátta og mætt í Osteostrong tíma tíu mínútum yfir átta. Eftir tímann fór ég beint í sund og á braut 7. Synti 500m. Gaf mér mjög góðan tíma í alla aðra sundrútínu. Var ekki komin heim aftur fyrr en um hálfellefu. Las í rúman klukkutíma áður en ég fékk mér eitthvað að borða. Um hálftvö skrapp ég út í göngu, skipti henni í tvennt því ég settist á bekk eftir 21mínútna labb áður en ég hélt áfram. Kom heim korter yfir tvö og hef ekki fari út síðan. Las í dágóða stund en kveikti svo loksins á tölvunni um fjögur leytið og er búin að vera að vafra og leika mér síðan. Mál til komið að slökkva aftur og fara að dunda við eitthvað annað.
31.12.25
30.12.25
"Í djúpu lauginni"
Nei, ég fór ekki í sund í morgun og ekki heldur eftir vinnu þótt ég væri með dótið með mér. Vaknaði frekar snemma og notaði hluta af morgninum í lestur en ég tók líka nokkrar æfingar með tvö 1kg lóð og fékk mér morgunmat og vítamín. Var mætt í Skeifuna um hálfátta. Annar fasti skoðunarmaðurinn var samt mættur á undan mér, ekki alveg orðinn hress en sagðist samt verða að vera til hádegis. Nafna mín var fengin til að leysa af í afgreiðslunni í Klettagörðum og í dag reyndi svolítið á hversu fær ég er orðin að bjarga mér. Ég gerði uppgjörið í gamla kerfinu en einsetti mér svo að nota nýja kerfið sem allra mest. Fyrstu kúnnar komu á slaginu átta, tveir í röð. Það var rólegt í smá tíma eftir að þeir höfðu verið afgreiddir en það komu í heildina rúmlega tíu bílar inn í skoðun til hálftólf. Þá varð aftur rólegt í um klukkustund. Fasti skoðunarmaðurinn þurfti að fara en það kom afleysingaskoðunarmaður inn áður. Gátum lokað og borðað í næði milli tólf og hálfeitt en fljótlega eftir að opnaði aftur byrjaði traffíkin. Nóg var að gera í alls konar málum og þrisvar varð ég að hringja í vin og fá upplýsingar/aðstoð. Á tímabili leit út fyrir að við yrðum að vera fram yfir lokun en þegar til kom voru það einungis tíu mínútu fram yfir. auglýstan opnunartíma. Afleysingjamaðurinn sá um að slökkva á kerfum í salnum en ég, læsti sjóðinn inn í peningaskáp, slökkti ljós, setti kerfið á og læsti á eftir mér. Varð að skilja eftir þrjú útistandandi mál sem vonandi leysast fljótlega á nýja árinu. Ákvað annars að fara bara beinustu leið heim og var komin rétt rúmlega fimm. Í póstkassanum beið jólabréf á dönsku frá Jótlandi. Er líka búin að fá skilaboð frá fyrrum nágranna mínum í risinu að það hefði komið eitt kort þangað. Það var kveðja til pabba í danska jólabréfinu svo ég hringdi í hann og spjallaði við hann í tæpt korter. Hringdi líka í eina fyrrum samstarfskonu mína.
29.12.25
Mánudagur í Skeifunni
28.12.25
Sund og smá útréttingar
Dagurinn hófst heldur snemma en ég skrapp aðeins á pisseríið um hálfsex og fór svo aftur upp í rúm að lesa. Fór á fætur um hálfsjö leytið og útbjó mér hafragraut. Rétt fyrir klukkan átta sá ég skilaboð frá kaldapotts vinkonu minni um hvort ég væri til í að hitta sig í sundi um tíu leytið. Ég var meira en til í það. Vorum mættar á svipuðum tíma og byrjuðum á því að synda. Ég fór á braut 7 og fékk að hafa hana útaf fyrir mig á meðan ég synti baksund og smá skriðsund í um tuttugu mínútur. Síðan var farið í pottaröltið. Eftir tvær ferðir í þann kalda og aðrar í þann heitasta kastaði ég aðeins kveðju á einn frænda minn í sjópottinum. Eftir þriðju kaldapotts ferðina fórum við í gufu og svo aftur í sjópottinn. Þá áttum við eftir að fara tvær ferðir í viðbót í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Næst lá leiðin í Kringluna. Jólagjöfin frá Davíð Steini var keypt í Hagkaup og ég skipti bókinni fyrir aðra bók og fjárfesti einnig í nýjustu vikunni með völvuspánni. Fór með þetta út í bíl og sótti bókasafnspokann. Skilaði öllum þremur bókunum og fékk mér fimm í staðinn. Þar af var ein ný; Grátkonan eftir Camillu Läckberg. Kom svo við í Krónunni í Lindum áður en ég fór heim. Er búin að stússast í ýmsu síðan. M.a. lesa fyrstu 70 bls. í skammtímalánsbókinni sem er yfir 540 bls. Er meira en hálfnuð með jólabókina frá Oddi, sem er líka grípandi. Eins og þetta sé ekki nóg þar sem ég er komin aftur í 100% vinnu því þá fann ég þáttaröð í sjónvarpi símans sem telja líklega í heildina um 40x 45 mínútna þætti sem eru verulega spennandi. Meðan þetta bitnar ekki á svefni og öðrum skyldum ætti þetta að vera í lagi í smá tíma.
27.12.25
Laugardagur
Nóttin varð eitthvað ruglingsleg. Byrjaði að lesa eina jólagjöfina; Alfa eftir Lilju Sigurðardóttur frá Oddi, þegar ég fór upp í rúm um tíu leytið. Las í hátt í rúma hálfa klukkustund og sofnaði fljótlega eftir það. Rumskaði um eitt leytið og hálftíma síðar skrapp ég á pisseríið. Það virtist ekki vera nóg til að ná að sofna alveg aftur. Reyndi samt mitt besta en um þrjú ákvað ég að kveikja ljós og lesa í smá stund. Eftir það sofnaði ég það fast og vel að ég vissi ekki af mér fyrr en um hálftíu. Dagurinn hefur annars farið í kaplalagnir, lestur og smá útsaum. Bríet kíkti um ellefu leytið, beint úr vinnu og stoppaði í um klst, og nafna mín og frænka sem hjálpaði mér að undirbúa Drápuhlíð undir opið hús vegna sölunnar hringdi um hálftvö til að athuga hvort tekið yrði á móti þeim Hirti ef þau legðu veg undir dekk. Áður en þau komu vorum við pabbi búin að fá okkur siginn fisk með kartöflum, rófum og smjöri. Það var kannski eins gott að pabbi bjó til pönnukökustafla í gær. Gestirnir kvöddu um fimm og sjálf er ég að fara að vinna í því að rúlla í bæinn.
26.12.25
Annar jóladagur
Rétt fyrir átta skrapp ég aðeins fram á pisseríið en fór svo beint upp í rúm aftur, ekki til að sofa heldur lesa. Las í um klukkustund og var klukkan því farin að ganga tíu þegar ég fór loksins á fætur. Ekkert löngu síðar heyrði ég að pabbi var kominn fram. Hann var frekar hissa á sjálfum sér, fannst hann hafa sofið yfir sig því hann hafði aldrei þessu vant ekkert rumskað um morguninn og því ekki farið fram að taka niður helstu tölur. Hann var semsagt að vinna í skráningum þarna um hálftíu leytið. Fengum okkur harðsoðið egg og fórum í smá kaplakeppni. Um hádegið bitaði ég niður afganginn af hryggnum frá því á aðfangadagskvöld og kláraði afganginn af rjómapelanum út í sósuna sem ég hitaði upp. Pabbi ákvað svo fljótlega að fara í búðarferð, vantaði allra helst strásykur og svo var eitt og annað sem týndist til. Ég skrapp með honum. Hann gerði sér líka ferð á lottósölustaðinn, lét lesa af miða frá sér sem á var rúmlega 1000 kr. vinningur. Þurfti amk aðeins að bæta við 300 kr til að fjárfesta í tíu röðum með jóker. Fljótlega eftir að við komum úr búðinni ákvað pabbi að fara að búa til pönnukökkur. Hann tók meira að segja amk þrjár frá án þess að strá sykri á þær ef ég vildi frekar þyggja þær þannig. Ég er annars búin með bókina sem ég keypti handa sjálfri mér og byrjaði á rétt fyrir jólin; Rósa og Björk eftir Sätu Rämö.
25.12.25
Jóladagur að kveldi kominn
Veit ekki hvað klukkan var þegar ég rumskaði fyrst í morgun því ég heyrði stofuklukkuna aðeins slá eitt högg svo hún var hálfeitthvað. Sneri mér á hina hliðina og sofnaði aftur. Næst þegar ég rumskaði heyrði ég stofuklukkuna sjö högg og ákvað að það væri alls ekki kominn fótaferðatími. fór ekki á fætur fyrr en klukkan var byrjuð að ganga tíu. Um ellefu leytið ákváðum við pabbi að búa til þykkan rúsínugrjónagraut og hafa í hádeginu með rúgbrauði og flatbrauði. Afgangur varð af grautnum sem var settur í skál og inn í ísskáp. Eftir hádegi tók ég fram bók og fór að lesa aðeins. Um tvö leytið byrjaði myndin "Sound of Music" á DR1. Horfði á hana og skemmti mér vel, var hún ekki búin fyrr en um hálffimm. Helga systir hringdi rétt áður en myndin var búin. Skömmu seinna þeytti ég rjóma og blandaði saman við afganginn af grautnum. Hann var svo notaður í eftirrétt eftir hangiketið og uppstúfinn sem var í kvöldmatinn um sex leytið.
24.12.25
Aðfangadagslvöld
Rumskaði um klukkan hálfsjö í morgun en snéri mér á hina hliðina. Sofnaði svo sem ekki fast aftur en kúrði upp í rúmi til klukkan að verða átta. Var eitthvað að spá í að rölta í sund en gerði þau regin mistök að kveikja á tölvunni og tína mér aðeins í henni. Hélt að það væri opið til tólf eða eitt og labbaði af stað stuttu fyrir ellefu til þess eins að fá göngutúrinn fram og til baka því það lokaði klukkan ellefu og var hætt að hleypa inn korteri fyrir. Ég hefði heldur varla haft tíma til að fara í sturtu hvað þá meira. En það var ágætt að fá þennan stutta göngutúr. Um hálfeitt skar ég niður lauk og setti í eldfast smáfat hjá lambahryggsbút sem pabbi kryddaði í gærkvöldi. Setti álpappírinn aftur á og stakk þessu inn í ofn sem ég stillti á uþb 100°C. Vökvaði þetta öðru hvoru. Um þrjú leytið setti ég upp sundhettuna og fór í sturtu, ætla ekki að þvo mér um hárið fyrr en um næstu helgi. Um fjögur leytið skrældi ég af sætri kartöflu og skar niður ásamt tveimur kartöflum og setti í sigtipott til að gufusjóða. Um hálffimm sigtaði ég soðið af hryggnum í pott og bjó til sósu. Stuttu áður en sósan og kartöflurnar voru tilbúnar hækkaði ég ofnhitann upp í 200°C í tæpar tíu mínútur. Maturinn var tilbúinn upp úr klukkan fimm og við vorum búin að borða og ganga frá fyrir klukkan sex. Skipti ekki yfir í spariföt fyrr en rétt áður en klukkan sló sex. Hlustuðum á útsendinguna úr Dómkirkjunni og fórum ekki að huga að bögglunum fyrr en á áttunda tímanum. Horfðum á myndina ævintýragarðinn og við feðgin erum bara slök.
23.12.25
Þorláksmessa í Hádegismóum
Ég var vöknuð fyrir klukkan hálfsex, næstum klukkutíma áður en ég ætlaði að láta vekjarann ýta við mér. Leyfði klukkunni að verða sex áður en ég fór á fætur og m.a. að huga að því að klára að pakka niður fyrir austurferð. Rétt fyrir hálfátta fór ég klyfjuð út í bíl, komst með allt í einni ferð, og tók vonandi allt það nauðsynlegasta með mér. Var mætt í Hádegismóa tuttugu mínútum fyrir átta, rétt áður en sú sem tók að sér að opna mætti. Það var frekar rólegt í vinnunni í dag en þó eitthvað að gera bæði í afgreiðslu og skoðunum. Síminn var líka að hringja en ég er enn hálffeimin við að svara, mun þó klárlega taka mig á í þeim efnum mjög fljótlega. Um það leyti sem við vorum að loka um hálffimm kom tvíburahálfsystir mín, ekki til að fá skoðun heldur til að hitta örstutt á mig, afhenda mér jólakort og biðja mig fyrir tvö önnur. Ég fór svo beinustu leið austur, ók um Þrengsli, og gerði ágætis stopp í Fossheiðinni hjá tvíburahálfforeldrum mínum. Var komin á Hellu til pabba um sjö.
22.12.25
Í Skeifunni í dag. Var vöknuð um fimm. Reyndi að kúra svolítið lengur, sofnaði ekki aftur og fór á fætur rétt fyrir sex. Fékk mér chia-graut í morgunmat. Var mætt í Laugardalslaug um hálfsjö. Kaldi potturinn var lokaður en ég synti aðeins 200m og gaf mér lengri tíma í gufu og sjópott. Var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Nafna mín var mætt og var byrjuð að gera upp. Stuttu fyrir átta mætti til okkar afleysinga-skoðunarmaður þar sem báðir föstu skoðunarmenn stöðvarinnar voru í orlofi. Það var lúmst mikið að gera en verkefnin komu þó í skorpum og af ýmsum toga. Eftir vinnu fór ég í Fiskbúð Fúsa og keypti slatta af harðfiski. Fyllti á tankinn á AO við Sprengisand og var klukkan orðin hálfsex þegar ég kom heim.
21.12.25
Vetrarsólstöður
Eftir sund og hárþvott í gær lá leiðin vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Lásum þó ekki neitt í Kon-Tiki en ég afhenti henni böggul og kort og fékk kort frá henni. Hún bauð upp á graut, te og ósætan eplarétt. Stoppaði í uþb þrjú korter. Síðan fór ég með bílinn á þvottastöðina Löður. Númerið þekktist í kerfinu og hliðið lyftist án þess að ég þyrfti að borga eða kalla á starfsmann. Að þessu loknu fór ég heim, gekk frá sunddótinu og tók mig saman fyrir skrepp yfir nótt. Horfði á einn þátt á meðan ég beið eftir að þvottavélin, sem ég hafði sett af stað fyrr um morguninn væri búin. Um hálftvö var ég tilbúin að leggja af stað. Hringdi í systur mína og sagði henni ákvörðun mína en byrjaði á því að koma við hjá N1 í Grafarvoginum en það var N1 sonur minn að vinna sinn síðasta dag áður en búðin lokaði. Allt var á 50% afslætti. Aðal erindið var þó að afhenda honum gjafirnar til hans og bróður hans og hann lét mig hafa pakka til afa síns, mín og að auki einn nokkuð stóran brúsa af rúðuvökva. Var komin á Hellu fyrir klukkan fjögur. Hjálpaði systir minni, mági og yngri systurdóttur að undirbúa fyrir matarveislu. Jóna og Reynir komu um sjö leytið og alls vorum við átta. Tíminn leið eins og óð fluga. Gestirnir kvöddu um hálfellefu leytið og fljótlega fóru flestir aðrir í ró. Pabbi tók að sér að bíða eftir að uppþvottavélin kláraði. Settist við tölvuna sína á meðan. Hann var svo langfyrstur á fætur í morgun. Tók úr vélinni og setti í hana aftur og af stað. Ég fór á fætur upp úr klukkan sjö. Mágur minn kom fram um níu og systir mín skömmu síðar. Þau fóru fljótlega að undirbúa brottför, ætluðu að koma við í Friðheimum skömmu fyrir hádegi áður en þau brunuðu svo norður, kvöddu um hálfellefu. Bríet og Bjarki kvöddu um tólfleytið og fóru yfir í Landeyjarnar. Ég kvaddi pabba um tvö. Var komin heim um fjögur en ég kom við á Bakkanum svo Oddur gæti komið með gjafirnar handa mér og afa hans frá honum út í bíl. Fékk að sjálfsögðu knús í leiðinni.
20.12.25
Örstuttar morgun-hugleiðingar
Ég fór í háttinn um ellefu í gær. Las í smá stund. Rumskaði um fimm leytið. Skrapp á pisseríið og reyndi svo að kúra mig niður aftur. Um sex kveikti ég ljós og fór að lesa. Fór á fætur klukkutíma síðar. Er á leiðinni í sund fljótlega og smá leiðangra. Þarf svo að taka ákvörðun um það hvort ég skreppi austur um Helgina til að eiga samverustund með pabba og fimm öðrum úr fjölskyldunni. Það togar í mig en það eru líka nokkur smá verkefni hér heima sem ég veit ekki hvort ég get annars græjað fyrir jól og hvort þau megi bíða. Ætti samt að geta látið þetta ganga allt saman upp, sérstaklega ef ég kæmi aftur í bæinn í björtu á morgun. Þetta kemur allt í ljós mjög fljótlega.
19.12.25
Fössari
Það hlýtur að hafa verið eitthvað gott í teinu sem ég drakk stuttu áður en ég fór inn í rúm í gær. Las í smá stund í bók sem heitir Skuld eftir Emil Hjörvar Petersen en var örugglega sofnuð rétt rúmlega tíu og svaf alveg þangað til vekjarinn hnippti í mig stuttu fyrir klukkan hálfsjö í morgun. Eitthvað var mig að dreyma fallegt en því miður man ég samt ekki um hvað. Vinnudagurinn var fjölbreyttur og leið ágætlega hratt. Helga systir hafði samband um eitt leytið og spurði hvenær ég yrði komin heim úr vinnu. Ég taldi að ég yrði komin heim upp úr klukkan hálffimm ef ég sleppti því að fara í sund. Hún sagði að þau hjónin myndu kíkja um fimm. Ég lagði af stað frá Hádegismóum rétt rúmlega fjögur og ég held að það hefði verið alveg sama hvaða leið ég hefði valið að fara ég hefði alltaf verið um þrjú korter á leiðinni. Systir mín og mágur komu á umsömdum tíma. Þau stoppuðu innan við hálftíma enda voru þau á leiðinni í matarboð til mömmu hans áður en þau héldu för áfram alla leið austur á Hellu. En þau hjónin voru mjög hrifin af íbúðinni. Gáfu mér nokkur góð ráð sem ég mun taka til athugunar og kannski fara eftir.
18.12.25
Sjötugasta heimsóknin í besta bankann
Var mætt fyrir utan Hádegismóa tuttuguogfimm mínútum fyrir átta. Stöðvarstrjórinn mætti stuttu síðar og opnaði. Er alveg farin að ná aðeins betri tökum á verkefnunum en sum kerfin eru svolítið að stríða mér ennþá. Vinnudegi lauk um hálffimm. Þá fór ég beinustu leið í Kringluna. Blóðbankinn flutti þangað í september og ég átti bókaðan tíma um hálfsex. Var komin um fimm og fékk mér smá hressingu áður. Gjöfin gekk vel og fékk ég mér aftur smá hressingu eftir gjöfina. Fyllti á tankinn hjá AO við Öskjuhlíð og fór svo með jólakort til móðurbróður míns og fjölskyldu. Tók á móti ómerktum innflutnings/jólapakka í staðinn. Var komin heim um hálfsjö.
17.12.25
Osteostrong og Nauthólsvík
Ég var vöknuð klukkan fimm í morgun. Byrjaði á því að grípa í bók og lesa fyrsta hálftímann áður en ég fór á fætur og bjó um. Gerði æfingar með léttustu lóðunum mínum (2x1kg), fékk mér morgunmat og burstaði tennurnar. Var mætt fyrir utan Hádegismóa á svipuðum tíma og í gærmorgun, ca þremur mínútum á undan stöðvarstjóranum sem opnaði starfsmanna-innganginn. Vinnudagurinn gekk ágætlega, þokkalega rólegt á köflum en ég fékk alveg að æfa mig í ýmsu sem ég þarf að tileinka mér. Tíu mínútum fyrir fimm var ég mætt í Hátún 12 í osteostrong tíma. Bætti mig á einu tæki og var við mitt besta á öðru. Festi svo næsta tíma upp úr klukkan átta á gamlársdagsmorgun. Næst lá leiðin í Nauthólsvík. Flóð, hitastig sjávar 1,9°C og að þessu sinni fór ég aðeins einu sinni út í en þó í fimm mínútur og var með höfuðljós. Sleppti gufunni en sat smá stund í pottinum á eftir. Áður en ég fór heim kom ég við í Drápuhlíðinni til að setja tvö jólakort inn um lúgur. Var búin að stinga inn um lúguna sem tilheyrir m.a. risíbúðinni þegar íbúinn af hæðinni kom labbandi inn innkeyrsluna og upp tröppurnar og spurði hvað ég væri að laumupúkast. Ég gat því afhent honum kortið sem átti að fara inn um lúguna hans.
16.12.25
Þriðjudagur
Í morgun vaknaði ég rétt fyrir klukkan sex, tæpum hálftíma áður en klukkan átti að hnippa í mig, eftir samfelldan sjö og hálfan tíma svefn. Gerði lóðaæfingar, las í smá stund og fékk mér chiagraut með allskonar fræjum og möndlum í morgunmat. Var mætt fyrir utan Hádegismóa tuttugu mínútum fyrir átta. Vinnudagurinn leið þokkalega fljótt. Sum verkefnin farin að æfast. Kerfið er þó stundum enn að stríða mér. Eftir vinnu fór ég beint yfir í Árbæjarlaug. Synti í tuttugu mínútur, fór í kalda pottinn í fjórar mínútur og svo kalda sturtu áður en ég þurrkaði mér og settist á handklæði inn í infrarauða klefann í kvennaklefanum. Sat þar í tuttugu mínútur. Var komin heim um hálfsjö. Annars kannski ágætt að geta þess að í gær greiddi ég niður húsnæðislánið um eina og hálfa millijón. Er þá búin að greiða það sjálf niður um þrjár millijónir því ég greiddi inn á það sömu upphæð þann 15. nóv. sl. Eftirstöðvar eru enn um átta komma sex millijónir en ég reikna með að föstu greiðslurnar fari niður fyrir sextíuþúsund á mánuði. Ætla að leyfa áramótunum og janúar að líða áður en ég ákveð næstu niðurgreiðslu skref.
15.12.25
Á "Stínustöðum"
Rumskaði eitthvað um tvö leytið í nótt. Veit ekki hvenær ég náði að sofna aftur en það var vekjarinn sem ýtti við mér rétt fyrir hálfsjö í morgun. Hafði nægan tíma til að gera nokkrar lóðaæfingar og fá mér afgang af hafragraut í morgunmat. Var nokkrar mínútur að skafa af bílnum en ég var engu að síður mætt fyrst á planið við Hádegismóa rúmum tuttugu mínútum fyrir átta. Stöðvarstjórinn kom nokkrum mínútum síðar. Sú sem er venjulega í afgreiðslunni átti bökunardag í dag og stöðvarstjórinn spurði mig hvort mér væri sama þótt hann skráði sig inn í horntölvuna þar sem hann er vanur að vera. Ég hafði ekkert á móti því. Komst inn að mestu á "Stínustöðum", þurfti smá tæknilega aðstoð vegna tveggja forrita sem ég lærði svo betur á að opna eftir aðstoðina. Við sem vorum í móttökunni hjálpuðumst að og flest gekk alveg þokkalega vel fyrir sig. Rétt fyrir fjögur mætti framkvæmdastjórinn. Hann kom m.a. með bakkelsi mér til heiðurs þar sem ég er nýr starfskraftur og tók mynd af okkur. Ég treysti mér ekki í að smakka þar sem maginn getur verið fljótur að kvarta. Eftir vinnu fór ég í Árbæjarlaug. Synti í korter, fór í þann kalda í 4 mínútur, kalda sturtu á eftir, þurrkaði mér og sat svo korter í infra rauða klefanum. Kom heim rétt rúmlega sex.
14.12.25
Sunnudagur
Mikið varð ég hissa þegar ég sá að klukkan var að verða átta þegar ég vaknaði í morgun. Ég fór reyndar ekki upp í rúm fyrr en um ellefu í gærkvöldi. Horfði á ævintýramyndina á RÚV eftir kappsmál. Las líka í smá stund en ekki lengi og var ég örugglega sofnuð fyrir klukkan hálftólf. Ég fór fljótlega á fætur og m.a. að duna mér við að pakka inn jólagjöfunum. Um hálfníu sendi ég skilaboð á kaldapotts vinkonu mína og spurði hvenær hún ætlaði í sund. Hún svaraði um níu leytið og sagðist ætla að mæta rétt fyrir tíu og synda smávegis. Ég mætti í Laugardalslaugina um svipað leyti og hún og við gátum stillt okkur af. Syntum 300m og fórum nokkrum sinnum í þann kalda. Hún reyndar einni til tveimur ferðum oftar því ég hitti að eins á yngstu mágkonu mömmu og spjallaði um stund við hana. Eftir sundið kom ég við hjá frændfólki í Sæviðarsundi. Pabbi frænda míns og móðuramma mín voru systkyni. Reyndar höfðu hjónin ætlað til Kanaríeyja með afleggjurum og fylgifiskum sínum í tilefni sjötugs afmæli húsfreyjunnar fyrir rúmum mánuði. Hún er því miður að glíma við einhvern heilsubrest sem ekki finnst út hvað er og þau urðu að hætta við. Stoppaði hjá þeim í rúma klukkustund. Var komin heim fyrir tvö og hef ekki farið út síðan en dútlað við ýmislegt, m.a. horft á bráðskemmtilega úrslita leiki á HM kvenna í handbolta þar sem Holland náði þriðja sætinu og Noregur titlinum enn eitt skiptið.
13.12.25
Sundhöllin í morgun
Þegar ég mætti á planið við Laugardalslaug voru grunsamlega fáir á ferli og það leit út fyrir að vera lokað. Sá eina manneskju hálfhlaupa að innganginum en koma svo fljótlega til baka. Ég ákvað því að fara og leggja bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og fara í Sundhöllina. Í afgreiðslunni þar fékk ég að vita að það hefði verið jólagleði hjá starfsfólkinu í Laugardalslaug í gær og allir sem voru á vaktinni þurftu ekki að mæta og opna fyrr en um tíu. Ég synti á braut 3 í innilauginn, 650m, flesta á bakinu, á um hálftíma. Fór nokkrar ferðir í þann kalda og þvoði mér svo um hárið áður en ég fór upp úr og beint í esperanto-hitting. Um hálftólf leytið ætlaði ég renna bílnum í gegnum þvottastöðina Löður við Fiskislóð. Var búin að borga og númer tvö af þeim sem biðu úti. Þá kom starfsmaður og sagði að það væri bilun. Hann tók mynd af bílnúmerinu mínu og sagði að mér yrði hleypt inn næst þegar ég væri á ferðinni. Kom við í Krónunni þarna skammt frá áður en ég fór heim. Þegar ég var búin að ganga frá vörunum ákvað ég að heyra aðeins í tvíburahálfsystur minni. Það sem átti að verða smá spjall og stöðutékkun teygði í yfir klukkustund. Ekkert svo löngu eftir spjallið fór ég niður með dót í hina ýmsu gáma bæði í ruslageymslu hússins og gámana hinum megin við götuna. Notaði tækifærið og fór í það sem kalla má örgöngu þar sem labbaði lítinn rúmlega áttahundruð metra hring á tíu mínútum.
12.12.25
Árbæjarlaug og infrarauð gufa eftir vinnu
Ég hrökk aðeins upp stuttu fyrir miðnætti og varð að skella mér á klósettið. Maginn var eitthvað að mótmæla einhverju af því sem ég hafði fengið mér af jólahlaðborðinu. Þetta var samt ekki svo slæmt nema að því leyti að ég sofnaði ekki strax aftur. Veit ekki alveg hvað klukkan var þegar ég festi svefn en þá svaf ég alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Gaf mér nokkrar mínútur áður en ég fór á fætur. Það var samt nógur tími til að taka aðeins fram léttustu handlóðin, 1kg og einnig lesa smávegis. Fékk mér eitt harðsoðið egg og burstaði tennur áður en ég fór í vinnuna. Sem fyrr var ég mætt aðeins of snemma, líklega um sjö mínútum á undan þeim sem kom næst og var með lykla. Á föstudögum er lokað klukkan fjögur og þar sem ég var í Hádegismóum og með sunddótið meðferðist úti í bíl ákvað ég að fara beint í Árbæjarlaugina. Synti í uþb tuttugu mínútur, settist í kalda pottinn í rúmar þrjár mínútur og fór svo inn og í sturtu og þurrkaði mér áður en ég fór í infrarauða klefann í korter. Var komin heim um hálfsjö.
11.12.25
Á leið í jólahlaðborð
Rumskaði tvisvar til að fara á salernið í nótt. Drakk bara einn tebolla í gærkvöldi svo ég reikna með að það hafi aðeins verið að renna af mér smá bjúgur. Var komin á fætur um hálfsjö. Sleppti lóðaæfingum en las í ca korter áður en ég fékk mér eitthvað að borða og burstaði svo tennurnar. Var mætt í Hádegismóa um hálfátta, nokkrum mínútum á undan stöðvarstjóranum. Ég er nokkuð viss um að ef ég hefði lagt fimm mínútum seinna af stað að heiman hefði ég lent í aðeins meiri umferð sem var þó orðin nokkur. Það var líka þónokkur umferð á köflum á leiðinni heim úr vinnu um hálffimm leytið. Fór þó ekki í gegnum Árbæinn eins og í gær. En umferðarþunginn í gær stafaði að hluta til vegna lokunar á brú þar sem of stórt ökutæki ætlaði að fara þá leið stíflaði allt. Annars á ég að mæta í Þarabakkann klukkan sex í jólahlaðborð með vinnunni, amk vinnufélögum af höfuðborgarsvæðinu.
10.12.25
Osteostrong og sjósund eftir vinnu í dag
Var vöknuð stuttu fyrir klukkan sex. Hafði nægan tíma til að gera nokkrar lóða æfingar, lesa og fá mér morgunmat áður en ég dreif mig í vinnuna. Tók bæði sund- og sjósundsdót með mér út í bíl. Fór aðeins aðra leið en ég gær og varð fljótari fyrir vikið. Var semsagt aftur mætt aðeins á undan stöðvarsjóranum í Hádegismóum. Ætla ekkert að eyða tíma í að skrifa um sjálfan vinnudaginn. Stimplaði mig út rétt fyrir klukkan hálffimm. Átti tíma í osteostrong í Hátúninu klukkan fimm en þar sem ég fór of snemma út af fyrsta hringtorginu lenti ég fljótlega í mikilli umferð. Klukkan var orðin korter yfir fimm þegar ég kom í Hátúnið. Þar er opið til sex á miðvikudögum og allir bara slakir. Ég komst strax að. Bætti mig á tveimur tækjum og var alveg við mitt besta á hinum tveimur tækjunum. Eftir tímann var ég búin að taka ákvörðun um að skella mér í Nauthólsvík. Var komin þangað rétt fyrir sex. Sjórinn 1,6°C og fjara. Ég fór tvisvar sinnum 2-4 mínútur út í, sjö mínútur í gufuna og tæpar tíu mínútur í pottinn eftir seinni ferðina. Var komin heim um sjö. Þá sá ég rafrænan póst frá Landsbankanum um að nýr aðili væri tekinn við gjaldkerastöðunni í húsfélaginu Drápuhlíð 21. Það sannreyndi ég með því að skrá mig í einkabankann í appinu í símanum og sá að ekki er lengur hægt að fletta og skipta um notanda. Þannig að ég er laus undan þessum skyldum.
9.12.25
Hádegismóar og í Árbæjarlaug eftir vinnu
Rumskaði um hálffimm leytið í morgun. Skrapp aðeins fram á pisseríið og kúrði mig svo aftur niður. Sofnaði ekki aftur en kveikti ekki ljós og fór á fætur fyrr en klukkan að verða sex. Notaði næsta klukkutímann til að gera nokkrar lóða-æfingar, lesa og fá mér morgunmat. Fór úr húsi korter yfir sjö og var komin í Hádegismóa um hálfátta, fyrst af öllum. Þremur mínútum á eftir mér mætti stöðvarstjórinn. Ég kynnti mig og varð samferða honum inn. Hann skráði mig inn í tíma-kerfið og sagði svo að mín vinnustöð í afgreiðslunni yrði á tölvunni hans. Það kom í ljós að ég var ekki komin með allan aðgang svo hann skráði sig inn þar til ég var búin að fá kerfisfræðinginn til að "hjálpa" mér inn í flest kerfi á mínum aðgangi seinna um morguninn. Sú sem vinnur í afgreiðslunni býr á Suðurnesjunum en hún var mætt í vinnu nokkru fyrir átta sem og hinir tveir skoðunarmennirnir. Ég lærði heilmikið nýtt en kerfin voru að stríða okkur reglulega og það kemur í ljós á næstu dögum og vikum hversu vel allt síast inn þegar notkunin fer að verða meiri og reglulegri. Klukkan hálfeitt var læst í afgreiðslunni og allir fóru upp á næstu hæð í eldhúskrókinn þar til að fá sér að borða. Opnað var aftur niðri á slaginu klukkan eitt. Stimplaði mig sjálf út um hálffimm. Hringdi í Sillu þegar ég var komin út í bíl. Hún var nýkomin heim úr sinni vinnu, komin í kósý-föt og um það bil að fara að slaka á en mér tókst að plata hana til að hitta mig við Árbæjarlaugina og fara með mér í sund, potta og infrarauða klefann. Alls tók þessi hittingur um klukkukstund og vorum við báðar ánægðar með hann. Höfðum um nóg að spjalla og tíminn leið frekar hratt. Ég kom heim fyrir tæpum hálftíma síðan og næsta mál á dagskrá er að fá sér af afgangnum síðan í gær.
8.12.25
Mánudagskvöld
Ég var vöknuð fyrir klukkan hálfsex en þar sem ég var búin að mæla mér mót við kalda potts vinkonu mína í Laugardalslaug eftir vinnu lét ég loksins verða af því að taka fram handlóðin aftur. Gerði nokkrar æfingar með léttustu lóðunum. Las í smá stund í; Andlit eftir Bjarna Bjarnason og fékk mér svo morgunmat um sjö. Fljótlega eftir það lagði ég af stað í vinnuna. Fann kortið sem ég var að leita að í gær vinstra meginn við farþegasætið fram í í bílnum. Mér létti heilmikið við þann fund. Mætti í vinnu um hálfátta. Vinnudagurinn var frekar rólegur á minni stöð svo ég fæ að prófa aðra vinnustöð á morgun. Í hádeginu kom póstur frá fasteignasölunni Domus Nova sem innihélt skannað þinglýst skjal. Ég er því orðin þinglýstur eigandi að íbúðinni minni hér í Núpalind 6. Meira um það kannski á morgun. Var mætt í sund korteri fyrir fimm. Synti 300m á braut 7 og var svo búin að fara eina ferð í þann kalda áður en ég hitti kalda potts vinkonu mína. Hún var komin en hafði laumað sér aðeins í gufuna. Við náðum þremur ferðum saman í þann kalda, góðri gufu ferð og amk korteri í sjópottinum. Klukkan var að verða sjö þegar ég kom heim. Setti upp fiskibollur og sætar kartöflur sem ég ætla að fara að borða rétt á eftir.
7.12.25
Sunnudagskvöld í Kópavogi
Var ekki vissu hversu mörg högg stofuklukkan sló þegar ég rumskaði í morgun. Komst að því klukkustund seinna að það höfðu verið sjö. Ég fór fram rétt rúmlega átta. Pabbi var klæddur og kominn á ról svo ég ákvað að drífa mig líka á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu fékk ég mér eitt harðsoðið egg og lagði fyrsta kapal dagsins. Hann gekk upp. Um níu leytið settist ég aðeins við tölvuna og nokkru síðar hélt ég áfram jólakortaskrifum frá því í gærkvöldi, skrifaði á tíu þá og tíu önnur í morgun en ég bætti nokkrum auka nöfnum á listann bara þetta árið. Um ellefu skrapp ég með tvö af kortunum og afhenti í eigin persónu. Byrjaði á því að fara í Bogatúnið til Vals pabba hennar Ellu. Hann fer norður eftir tæpar tvær vikur og heldur jólin þar. Ég stoppaði ekki nema augnablik, bara til að afhenda kortið og faðma hann. Svo fór ég yfir í Nestún 5, þar fór ég aðeins inn og stoppaði í svo sem eins og hálftíma. Var komin til baka um tólf. Við pabbi borðuðum saltkjöt og sæta kartöflu í hádeginu. Um tvö leytið tók ég mig saman og kvaddi. Kom við í Löngumýrinni og afhenti eitt kort þar. Stoppaði í rúman klukkutíma. Var komin í bæinn um fimm leytið. Setti 10 frímerkt kort í póstkassann við pósthúsið á Dalvegi. Restina af kortunum mun ég koma til skila sjálf smátt og smátt. Eitt furðulegt gerðist, en tvö af ómerktu kortunum voru uppi við og í töskunni með frímerktu kortunum. Passaði upp á að fara aðeins út með frímerktu kortin og þegar ég settist inn í bíl aftur fannst mér ég setja þessi tvö kort aftur í veskið. Þegar ég var búin að leggja bílnum við blokkina í Núpalindinni stuttu síðar fann ég aðeins annað umslagið af tveimur. Það gæti endað með því að ég verði að skrifa það kort aftur því það var sama hversu vel ég leitaði, kortið var ekki í veskinu og ég fann það heldur ekki í bílnum.
6.12.25
Komin á Hellu
Ég fór í háttinn um tíu í gærkvöldi. Las í ca hálftíma en var örugglega sofnuð nokkru fyrir klukkan ellefu. Rumskaði um sex leytið í morgun. Skrapp aðeins fram á salernið og fékk mér svo sítrónuvatn áður en ég skellti mér aftur undir sæng. Fór á fætur fyrir klukkan hálfátta. Setti niður í tösku og tók einnig til sund-og esperanto dótið. Var komin á braut 2 í Laugardalslauginni um hálfníu. Synti 500m, flesta á bakinu því ég ætla að færa hárþvottadagana aftur á laugardaga. Hitti sjósunds vinkonu mína í sjópottinum. Var komin til esperanto vinkonu minnar rétt upp úr klukkan tíu. Lásum fjórar og hálfa blaðsíðu. Kvaddi um hálftólf leytið. Kom við hjá AO við Öskjuhlíð og fyllti tankinn. Kom einnig við í Heilsuhúsinu í Kringlunni. Skrapp svo heim með esperanto- og sunddótið. Næst lá leiðin upp á Gagnveg þar sem N1 sonurinn var að vinna. Klukkan var orðin eitt þegar ég lagði loks af stað austur. Fór um Þrengslin og gerði gott stopp í Fossheiðinni á Selfossi áður en ég hélt förinni áfram. Var komin til pabba um hálffjögur.
5.12.25
Morgunsund
Ég var vöknuð um hálfsex í morgun og mætt í Laugardalslaugina um hálfsjö, rétt eftir að opnaði. Fór á braut 8 og synti 400m. Fór 2x3 mínútur í kalda og smá stund í sjópottinn. Mætti svo í vinnu ca tuttugu mínútum fyrir átta. Nafna mín var að byrja að gera upp og ég punktaði ferlið niður hjá mér. Svo fórum við í gegnum þrjú önnur verkferli sem ég punktaði einnig niður hjá mér. Það var reitingur af mismunandi verkefnum inn á milli. Sumt er ég farin að kunna aðeins á en svo eru líka verkefni sem ég held ég þurfi einhverjar tilraunir til að læra á. Þetta mun samt örugglega lærast á endanum þótt það lærist ekki einn tveir og þrír. Fékk að hætta rétt rúmum hálftíma fyrir lokun og fór með bílinn í smurningu hjá N1 í Fellsmúla. Fékk að nota afslátt N1 sonarins. Var komin heim stuttu fyrir klukkan fimm.
4.12.25
Aðventutónleikar og fleira
Ég fór aftur út úr húsi rétt rúmum tveimur tímum eftir að ég kom heim í gær. Keyrði inn í Reykjavík, lagði bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og hitti norsku esperanto vinkonu mína fyrir utan Hallgrímskirkju um hálfátta. Það streymdi að fólk. Við fórum inn og tókum frá sæti fyrir dóttur hennar sem kom tíu mínútum áður en magnaðir aðventutónleikar fjögurra stúlkna- og kvennakóra hófust. Næsti tæpi einn og hálfi tími leið hratt en ég naut hverrar mínútu í botn. Var komin heim aftur um tíu. Fór beint í bælið og las í ca hálftíma áður en ég sofnaði.
Klukkan var næstum hálfsjö þegar ég vaknaði í morgun. Ég fékk mér hreina gríska jógúrt og vítamín í morgunmat og tók svo sjósundsdótið með mér út í bíl uþb korter yfir sjö. Var mætt í vinnu um hálfátta, alls ekki fyrst en heldur ekki síðust. Nefndi það við stöðvastjórann að ég þyrfti að fá að skreppa frá í hádeginu og vissi ekki hversu langt skrepp það yrði, talaði bara um að ég ætlaði ekki að drolla en heldur ekki að flýta mér.
Nafna mín mætti skömmu síðar. Hún þurfti að skreppa frá um tíu leytið en var komin aftur áður en ég þurfti að fara. Ég var komin á Finnson í Kringlunni rétt upp úr klukkan tólf. Þangaði hafði ein af Sigrúnunum úr sundi boðið mér. Hún mætir ekki lengur í Laugardalslaugina á veturna en hún er búin að vera í miklu sambandi við mig undanfarna mánuði og fylgjast með mörgu af því sem hefur verið að gerast. Hún vildi bjóða mér að borða með sér og ég mátti velja af jólamatseðlinu, þrjá rétti ef ég vildi. Ég þáði forrétt og aðalrétt en sleppti eftirréttinum. Spjölluðum um margt og mikið á meðan við gerðum réttunum skil. Nokkru eftir að Sigrún var komin með eftirréttinn sinn afhenti hún mér tvo pakka í gjafapoka og sagði að ég þyrfti ekki að bíða eftir að hún væri búin að klára. Klukkan var að verða hálftvö og ég var búin að vera einn og hálfan tíma í burtu úr vinnunni. Ég þakkaði kærlega fyrir mig og kvaddi hana með kossum á kinnar.
Eftir vinnu athugaði ég fyrst hvort það væri hægt að smyrja bílinn fyrir lokun klukkan fimm á smurstöðinni við Laugaveg 182. Það voru tveir bílar inni og einn að bíða svo það gekk ekki upp. Næst lá leiðin í Nauthólsvík. Það var mjög stutt út í og ég fór tvisvar, einu sinni í gufuna á milli ferða og endaði smá stund í pottinum. Hringdi og spjallaði við pabba á meðan ég var á leiðinni heim.
Sá það annars í gær að það er búið að halda húsfund við D21. Ungi maðurinn sem keypti af mér er tekinn við sem formaður og konan í kjallaranum ætlar að taka að sér að vera gjaldkeri. Aðgangurinn minn að fyrirtækjabankanum mun því senn detta út og ég þarf ekki lengur að sjá um þessi mál.
3.12.25
Ekkert sjósund í dag
Þar sem ég var sofnuð um tíu í gærkvöldi rumskaði ég heldur snemma í morgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um sex og gaf mér engan tíma til að kveikja á tölvunni. Var komin á planið við Laugardalslaug um það leyti sem verið var að hleypa inn um hálfsjö. Byrjaði á kalda pottinum. Synti 400m á brautum 2 og 3, aðallega á 3. Fór aftur í þann kalda og gaf mér svo smá tíma í gufunni og að lokum sjópottinum áður en ég fór upp úr. Var komin í vinnu korter fyrir átta, síðust af öllum. Á móti mér tóku tveir skoðunarmenn, annar hættir eftir einhverjar vikur hinn er tekinn við sem stöðvarstjóri og svo nafna mín í afgreiðslunni sem er skoðunarmaður að upplagi og fer á Selfoss skömmu eftir áramót í slíka stöðu. Fram að því á hún að setja mig inn í afgreiðslumálin á stöðinni í Skeifunni. Það er ýmislegt sem ég þarf að læra og tileinka mér svo það var sem betur fer frekar rólegt í dag. En það er þó gott að læra sumt með því að gera það frekar en að lesa um það þótt það sér gott að hafa leiðbeiningar til að styðjast við. Var þokkalega dugleg að skrifa niður punkta framan af morgni. Um hálfellefu leitið skruppum við nöfnurnar, stúlkan heitir Anna, yfir í Bónus til að kaupa með "kaffinu" til að borða í hádeginu. Skreppið tók enga stund enda búðin rétt hjá. Fóru ekki strax í mat, létum klukkuna verða tólf enda er stöðin læst á milli tólf og hálfeitt. Eitt af því sem afgreiðslan á að sjá um er að svara símanum ef margir hringja inn. Síminn á stöðinni var þögull og þegar fór að líða á daginn fór okkur að finnast þetta frekar undarlegt. Það kom líka í ljós að síminn var bilaður og var það í allan dag. Fékk að hætta aðeins áður en klukkan varð hálffimm, stöðvarstjórinn tók að sér að vera lengur. Það tók drjúga stund að keyra heim, umferðin þung og mjög mikil. Ég var samt komin heim áður en klukkan varð fimm.
2.12.25
Starfsmaður no 86, það er 68 afturábak
Ekkert varð úr göngutúr í gær en ég kláraði að skrifa bréf og jólakort sem fara út fyrir landsteinana; bréf og kort á ensku til Manchester, bréf og kort á dönsku til Jótlands og jólakort á íslensku til Stavanger. Eldaði mér líkja smávegis af bleikjubitum, sem ég átti og á í frysti, í kvöldmatinn. Í morgun var ég komin í stund á svipuðum tíma og í gærmorgun, var á sömu braut en nú synti ég aðeins 400m, flestar ferðir á bakinu. Þvoði mér um hárið og var mætt í Mjóddina rétt fyrir klukkan níu. Þar tóku nafni og nafna á móti mér. Siggi heilsaði og spjallaði smá en ég fór niður í stóra fundaherbergið með starfsmannastjóranum fyrsta klukkutímann og fyllti út alls konar skjöl varðandi ráðningarmálin. Um tíu færðum við okkur upp í minna herbergi þar sem búið var að bóka hitt herbergið. Þar var mér úthlutaður sér aðgangur og vinnunetfang og kynnt fyrir mig helstu verkfærin sem ég mun þurfa að læra á eða nota. Kann nú ýmislegt fyrir mér í bæði tímon og teams en annað verð ég að gefa mér aðeins betri tíma í að skoða og læra á. Áður en við hættum þessari yfirferð, um hálffjögur leytið, gaf hún mér peysu merkta Frumherja. Kom við í pósthúsinu við Dalveg á leiðinni heim. Morgundagurinn verður pottþétt mun lengri. Ef ég vil fara í sund fyrir vinnu verð ég að vera mætt um hálfsjö. Á að mæta á stöðina í Skeifuna stuttu fyrir átta og þar mun sú sem er að fara að flytja sig úr afgreiðslunni í afgreiðsluna á Selfoss eftir hálfan mánuð, setja mig inn í málin og hjálpa mér af stað.
1.12.25
Auka færsla og breyttur taktur
Ég var vöknuð fyrir klukkan sex og mætt á braut 8 tuttugu mínútur yfir sjö. Synti 500m, helminginn skriðsund eins og í gær. Var 5 mínútur í þeim kalda, um tíu mínútur í gufunni og sjópottinum og dýfði mér svo í nokkrar sekúndur í þann kalda áður en ég fór upp úr og í osteostrong. Sló met á þremur tækjum af fjórum og var alveg við mitt besta á fjórða tækinu. Færði líka tímann til klukkan fimm síðdegis á miðvikudögum. Mætti í annað viðtal í Þarabakka 3 kl. hálftíu. Framkvæmdarstjórinn og stöðvarstjórinn í Skeifunni voru með mér á þeim fundi. Fundurinn var ekki langur, ca korter en gekk vel. Framkvæmdastjórinn sagðist myndu hafa samband við mig innan dagsins. Mér skilst að yfir 90 manns hafi sótt um stöðuna. Rétt fyrir klukkan tólf fékk ég sms frá osteostrong um að ég ætti tíma hjá þeim strax á miðvikudaginn kemur. Á eftir að hringja í þá til að fella þann tíma niður, vil ekki byrja á miðvikudags tímunum fyrr en í næstu viku. Upp úr klukkan hálfeitt fékk ég svo rafrænan póst frá "nafna" mínum og frænda, Frumherji vill fá mig í liðið sitt og hann spurði hvort ég gæti mætt í Mjóddina klukkan níu í fyrramálið. Hvort ég get, vííí ég er komin með nýja vinnu. Þess vegna ætla ég að skipta um takt í blogginu og kemur næsta færsla ekki inn fyrr en einhvern tímann eftir að ég kem heim úr vinnu á morgun.
Ekkert sund í gær
Svaf til klukkan að verða níu í gærmorgun. Oddur virtist sofa ágætlega í stofunni og hann rumskaði ekki fyrr en nokkru eftir að ég kom á fætur. Ég bjó til hafragraut um tíu. Rétt fyrir eitt skutlaði ég Oddi í Mjóddina þar sem hann tók strætó á Selfoss korter yfir heila tímann. Ég skrapp sjálf í Kringluna. Skilaði þremur bókum á safnið og tók tvær í staðinn. Er þá með þrjár af safninu hérna heima. Kíkti á tvo aðra staði í Kringlunni áður en ég fór aftur heim.