Ég var snemma á fótum í gærmorgun og var bara að sýsla hér heima við fram yfir hádegi. Um eitt leytið rölti ég í Krónuna og kom heim aftur fyrir tvö með tvo poka. Um þrjú leytið var loksins hringt vegna nýja rúmsins, að allt væri komið og ég spurð hvort ég vildi sækja það. Ég sem hélt að ég hefði beðið ákveðið um að það yrði sent með bíl og auka manni í burð. Bað um það og mér var sagt að þeir myndu koma einhvern tímann milli fjögur og sjö. Klukkan var reyndar langt gegnin í átta þegar sendingin kom loksins. Var löngu búin að tæma gestarúmið, brjóta það saman og setja ofan í poka. Svo það var gott pláss fyrir "dótið" í herberginu. Það var hins vegar bæðið orðið rökkvað og tíminn þannig að ég vildi ekki vera með hávaða. Ekki heldur viss um að það væri nóg fyrir mig að verða aðeins ein og með borvél í verkinu. Þannig að um hálftíu leytið bjó ég um mig í svefnsófanum í stofunni. Annars hringdi ég í Ellu vinkonu í gær. Hún var akkúrat með gest en hringdi til baka rétt fyrir þrjú. Við vorum akkúrat í miðju samtali þegar var hringt frá Dorma.
31.10.25
30.10.25
Hvar er nýja rúmið mitt?
Ég lét bílinn alveg vera í gær líkt og í fyrradag. Hefði sennilega samt átt að sópa aðeins af honum og moka snjóinn fyrir aftan bílinn. En í staðinn var ég að duna hér heima við að mestu. Fór þó líka í hálftíma göngutúr um nær umhverfi, hring um Linda-hverfi. Notaði gönguskóna sem Davíð Steinn gaf mér fyrir nokkru. Hann hafði keypt þá á sig en þegar til kom voru þeir of litlir. Eru alveg passlegir á mig og mjög góðir. En þar sem ég var að ganga á þeim í fyrsta skipti ákvað ég að vera ekki að ganga of langt. Var þó eitthvað að spá í að labba yfir í Krónuna en ákvað að það mætti alveg bíða aðeins lengur. Það væri líka skynsamlegt að útbúa lista yfir það helsta sem fer að vanta.
29.10.25
Ekkert á ferðinni í gær
Svaf til klukkan að ganga átta í gærmorgun. Veit þó að ég rumskaði einhvern tímann skömmu eftir miðnætti og það tók smá tíma að sofna aftur. Skrifa það á alls konar spenning. Varð ekki beint andvaka og ég lét það ekki eftir mér að kveikja á símanum, nema til að athuga tímann, eða lampanum til að fara að lesa. Þegar ég kíkti svo út um gluggann eftir að ég fór á fætur varð mér ljóst að ég væri ekkert að fara neitt á bílnum. Hefði getað skroppið í smá göngu og verið aðeins duglegri við að sýsla hérna heima en einhvern veginn leið samt dagurinn og það frekar hratt. Um sex leytið setti ég upp hýðishrísgrjón í einn pott og afhýddi sæta kartöflu og skar niður ásamt einni vænni gulrót í pott og bætti blómkáli saman við. Með þessu borðaði ég smá súrkál. Ágætis kvöldmatur og það er afgangur sem vel er hægt að borða kaldan.
28.10.25
Það snjóar og snjóar
Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun og í Laugardalslaug rúmum klukkutíma síðar. Synti 300m á braut 8. Þegar ég var að slaka á, í sjópottinum, og svara ungri konu um í hvaða sveit ég ólst upp spurði einn eldri maður, fastagestur, hvort afi minn hafi verið Oddur Oddsson frá Heiði. Sagðist hafa þekkt hann af afspurn. Var mætt í osteostrong rétt rúmlega hálfníu. Fór heim og var að sýsla við eitt og annað í rólegheitum fram yfir hádegi. Upp úr hádeginu gerði ég ferð í Ikea, þar fann ég skógrind og einnig betri fætur undir ikea-mubluna í herberginu. Ætlaði að skreppa í fiskbúð Fúsa en þar var lokað vegna vetrarfrís. Skrapp í LÍ í Borgartúni og fékk útprentað skjal og smá leiðbeiningar varðandi gjaldkeraskipti í húsfélagi. Fór síðan heim aftur. Hringdi í pabba og báða syni mína til að spjalla við tvo af þeim en ég fékk Davíð Stein til að kíkja yfir seinni partinn eða á sjötta tímanum og hjálpa mér að skrúfa fæturnar undir og reisa við mubluna í herberginu. Hann hefði helst viljað setja upp ledljósin í eldhúsið og herbergið en bæði fannst mér orðið of skuggsýnt og ég var ekki viss um að eldhústrappan væri nógu há enda bara tvær tröppur.
27.10.25
Mánudagur
Var komin á fætur skömmu fyrir klukkan sjö. Hætti fljótlega við að fara í sund en var í staðinn að dútla við ýmislegt hér heima. Prófaði m.a. eldavélahelluna í fyrsta skipti og bjó mér til hafragraut. Um eitt leytið fór ég með umbúðirnar af stofumublunum í Sorpu. Á eftir mér í röðinni var bekkjarbróðir Davíðs og konan hans og hjálpaði Sæmi mér að tæma pappann úr bílnum alveg óumbeðið. Þau komust hvort sem er ekki í burtu fyrr en ég var búinn. Þetta tók þó alls ekki langa stund. Næst lá leiðin yfir til tvíburahálfsystur minnar. Þær mæðgur sátu að snæðingi í nokkurs konar morgun/hádegisverði og var mér boðið að njóta með þeim. Við vinkonurnar vorum svo á leiðinni í Ikea. Sonja átti sendingu á Korputorgi og við ákváðum að fara fyrst þangað. Áður en við voru komnar alla leið datt okkur í hug að kíkja í Bauhaus fyrst. Þar fundum við ýmislegt sem sett var í kerru og verslað. Það varð því engin ferð í Ikea í þetta skiptið, töldum okkur vera komnar með allt sem þarfnaðist í bili. Sóttum sendinguna hennar og fórum með hana í Ljósakurinn ég dreif mig heim og þangað kom frænka mín og nafna sem hjálpaði til við undirbúninginn undir söluna á Drápuhlíð. Sonja kom skömmu síðar með vörurnar úr Bauhaus, verkfæri, skrúfur og fleira. Fengum okkur te og drukkum það í stofunni. Það fór vel um okkur í sófanum. Þegar frænka mín var farin ætluðum við Sonja að setja fætur undir lausa ikea skápinn í herberginu. Þegar við snérum honum við sáum við að það var gert ráð fyrir fótum með skrúfum í. Ég þarf þá að fara í Ikea eftir allt saman. Sonja gerði tilraunir til að "vekja" handklæða ofninn en það þarf víst að kalla til pípara í það mál. En það var hægt að setja saman skúffueininguna sem tekur við hlutverki grindanna í herbergisskápnum. Klukkan var farin að ganga sjö þegar við kölluðum þetta gott í bili. Sonja kvaddi og ég sýslaði smávegis í viðbót áður en ég "dagaði" uppi í nýja hægindastólnum fyrir framan sjónvarpið.
26.10.25
Mublur í stofuna
Svaf alveg þokkalega en ekki óslitið fyrstu nóttina í Núpalind. Þurfti að fara á salernið um tvö og fannst svolítið of kalt að fletta af mér sænginni. Ofnarnir voru stilltir á minna en 3 og þrátt fyrir að fagna kuldanum í sjónum og þeim kalda þá fannst mér ekki þægilegt að trítla fram á bað. Samt svo skrítið að ég fann ekki fyrir þessu að deginum til. Fór á fætur um sjö leytið og var klukkan byrjuð að ganga níu þegar ég lagði af stað í Laugardalslaugina. Þar var mjög rólegt, amk í kvennaklefanum. Fór beint á braut 7 og synti 600m. Var komin heim aftur um hálfellefu. Systir mín hringdi í mig um hálfeitt og rétt eftir að við hættum að spjalla var hringt í mig vegna sófans, hægindastólsins og sófaborðsins. Þetta var allt komið inn á stofugólf til mín upp úr klukkan eitt. Stóllinn í einum stórum kassa, sófaborðið í einum kassa og sófinn í þremur "kössum" eða viðamiklum plast og pappaumbúðum. Hringdi strax í tvíburahálfsystur mína og hún kom um tvö leytið með verkfæri með sér. Hún sá eiginlega alfarið um að púsla þessu saman. Ég gekk að mestu frá pappanum og plastinu og var svo að styðja við eða hjálpa til við að lyfta þegar/ef það átti við. Svitinn bogaði af okkur báðum. Ég opnaði út á svalir og varð skömmu síðar að opna rifur á þá hluta sem loka svölunum því það myndaðis móða innan á plexíglerið. Klukkan var farin að ganga sjö þegar mublurnar voru komnar saman og búið að stilla þeim upp. Sonja kvaddi á áttunda tímanum og ég eyddi kvöldinu til klukkan að ganga tíu í rafmagns-hægindastólnum.
25.10.25
Fyrsta nóttin í Núpalind
Ég var komin í Núpalind rétt um tíu í gærmorgun. Hafði allt dótið með mér úr vesturbænum, blómin og töskuna, því ég var að vona að nýja rúmið yrði sent til mín í gær. Var eitthvað að sýsla hér heima aðeins fram yfir hádegi. Um hálftvö fékk ég mér göngutúr á Smáratorg sem er aðeins í uþb 1km fjarlægð. Fór fyrst í Jysk og skoðaði sófann, sem ég sá um daginn, betur og einnig hægindastól. Gaf mér góðan tíma í þetta en ákvað svo að rölta yfir í Dorma og leita frétta af rúminu. Gámarnir komu víst fyrri partinn í vikunni en sá gámur sem helst var beðið eftir var ekki opnaður fyrst svo rúmið er ekki að koma fyrr en eftir helgina. Dorma og Jysk eru auðvitað sitthvort fyrirtækið og ekki hægt að sameina sendingu frá þeim. Prófaði samt að spyrja. Ég fór svo aftur yfir í Jysk og spurði hvenær sófinn, stóllinn og borðið myndu koma ef ég keypti núna. Ég var það ánægð með svarið að ég staðgreiddi hlutina. Þarf svo að borga flutningamönnunum þegar þeir koma með þá upp úr hádegi í dag. Var komin heim aftur stuttu áður en beina útsendingin frá Lækjartorgi/Arnarhól hófst. Tvíburahálfsystir mín hringdi um fjögur og kom upp úr fimm með gesta rúm pakkað í kassa. Hún stakk því í samband inni í herbergi og snéri rofa svo það blés út í ágætis stærð. Hún var líka með lak til að lána mér. Svo settumst við fram í eldhús, fengum okkur te og spjölluðum. Hún aðstoðaði mig líka við að skrá mig hjá vinnumálastofnun. Á áttunda tímanum ákváðum við að fara yfir til hennar og horfa á þáttinn um Vigdísi Finnbogadóttur. Hún fór á undan því ég ákvað að búa alveg um mig og fara yfir á mínum bíl. Var mætt rétt áður en þátturinn hófst og horfði einnig á þáttinn á eftir. Var komin heim á ellefta tímanum.
24.10.25
Afhenti Drápuhlíðina seinni partinn í gær
Vaknaði rétt fyrir sjö í gærmorgun eftir mjög góðan nætursvefn. Fór þó ekki á fætur fyrr en rúmlega átta. Synti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér vatnsglas og tók með mér sunddótið þegar ég fór úr húsi um hálfníu. Var komin í Drápuhlíðina tíu mínútum fyrir níu. Einn frá þrifafélaginu var þegar mættur. Ég hleypti honum inn, sýndi hvað ég vildi láta gera varðandi sameignar-gólfflötinn, afhenti honum húslykla og stakk svo af í sund. Sundrútínan var alveg þveröfug miðað við flesta sunddaga því ég endaði á því að synda. Geri það reyndar stöku sinnum. Eftir tæpa tvo tíma í Laugardalnum fór ég í Krónuna í Lindum áður en ég fór heim á nýja staðinn. Fljótlega eftir að ég kom í Núpalindina hringdi fasteignasalinn í mig og sagði að kaupendurnir af Drápuhlíðinni væru aftur farin að spyrja hvenær þau gætu fengið afhent. Hún ráðlagði mér að hringja í þau og segja þeim stöðuna, að verið væri að þrífa, og spyrja hvenær þau vildu fá afhent. Ég hringdi í unga manninn og hann var meira en til í að fá eignina strax eftir að búið væri að þrífa. Ég hélt að það yrði kannski milli fjögur eða fimm. Klukkan að byrja að ganga sex var ég ekki búin að fá símtal frá þrifafélaginu en ég var mætt í Drápuhlíðina og ákvað að fara inn og athuga málin. Þar var svona ca hálftíma verk eftir. Ég mátti samt alveg hringja í nýja eigendur og stefna þeim á staðinn. Þau komu öll fjölskyldan og bóksaflega mættu þrifafólkinu í innkeyrslunni. Nýju tilvonandi íbúarnir afhentu mér blómvönd í vasa um leið og þau komu inn. Ég sýndi þeim svo alla króka og kima. Þau voru öll frekar spennt og glöð og mér skilst að framkvæmdir byrji strax um helgina en þau þurfa ekki að afhenda eignina sem þau eru að fara úr fyrr en eftir miðjan nóvember. Annars bólar ekkert á nýja rúminu mínu. Eftir afhendinguna fór ég því aftur til norsku esperanto vinkonu minnar.
23.10.25
Gisti í 101 Reykjavík
Ég var komin á fætur um hálfsjö leytið í gærmorgun um tveimur tímum áður en ég átti von á flutningabíl og þremur mönnum. Tólf mínútum fyrir níu var hring og sagt að þeir væru á leiðinni og var klukkan rétt byrjuð að ganga tíu þegar flutningabílnum var bakkað inn innkeyrsluna næstum alla leið að tröppunum. Þeir byrjuðu á að taka þvottavélina áður en þeir fóru að bera út dótið sem ekki átti að fara yfir. Einn flutningamannanna spurði mig hvort hann mætti eiga rúmdýnuna sem var að sjálfsögðu í góðu lagi mín vegna. Hann vildi helst ekki taka "ömmu"-stofuhillu stæðuna fyrr en ég benti honum á að hann þyrfti ekki að henda henni heldur gæti sett hana í nytjagám. Rétt fyrir tíu renndi flutningabíllinn í burtu. Ég fór með slatta af dóti í bílinn minn og var komin með það alla leið inn á nýja lögheimilinu fyrir klukkan ellefu. Ekkert löngu seinna hringdi einn af flutningamönnunum og bað mig um að senda þeim nýja heimilisfangið á sms-i, sem ég og gerði. Engu að síður villtust þeir og fór á Nýbýlaveg 6 fyrst en ekki Núpalind. En þeir voru komnir fyrir tólf og tengdu meira að segja fyrir mig þvottavélina. Fljótlega eftir að þeir voru farnir fór ég aðra ferð eftir dóti í Drápuhlíðina, það var næstsíðasta dótaferðin. Það var eiginlega bara eftir stofuborðið sem ég fékk gefins í sumar. Stuttu fyrir hálftvö var hringt í mig af tæknimanni frá Mílu hann var laus og vildi athuga hvort hann mætti koma strax eða á umsömdum tíma um tvö. Ég var rétt ókomin heim á nýja staðinn og sagðist líklega myndu hitta á hann í anddyrinu. Tæknimaðurinn tafðist vegna umferðaslyss í Ártúnsbrekku svo ég var búin að koma dótinu inn áður en hann kom. Það tók hann eitthvað á annan tíma að tengja en ég var líka komin með net og sjónvarp áður en hann fór. N1 sonurinn kom stuttu eftir að tæknimaðurinn var farinn. Hann skoðaði sig um í íbúinni áður en við fórum saman á mínum bíl í síðustu dótaferðina í Drápuhlíð. Davíð Steinn fékk að skoða galtóma íbúðina áður en hann bar sófaborðið út í bíl. Þegar við komum aftur í Núpalind tengdi hann hátalaraboxið við sjónvarpið og límdi tappa á alla stólana. Þegar til kom vantaði engan tappa undir neina af þessum 24 stólfótum. Við mæðgin kvöddumst fyrir utan nýja staðinn um sex leytið, hann brunaði á núverandi íverustað sinn en ég vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar þar sem ég fékk að gista sl. nótt.
22.10.25
Drápuhlíðin tóm
Í gærmorgun var ég mætt á braut 8 rétt fyrir klukkan hálfátta. Synti 600 metra og gaf mér góðan tíma í alla aðra rútínu. Var komin heim fyrir klukkan hálftíu. Bjó til hafragraut og setti helminginn af honum í skál. Það stóð til að fara eina ferð yfir í Núpalindina en einhvern veginn þróaðist dagurinn þannig að ég var að undirbúa eitt og annað. T.d. að aftengja sjónvarpið og pakka leiðslum og dóti saman. Nágranninn hjálpaði mér að undibúa flutning á þvottavélinni. Tvíburahálfsystir mín mætti stuttu fyrir fimm og við byrjuðum á því að fá okkur te. Vorum svo að byrja að ferma bílana þegar Hulda og Óli kíktu við. Hún var að skila mér húslyklum af Drápuhlíðinni. Ég var að hitta kærastann hennar í fyrsta skipti en mátti alveg knúsa hann og hann tók að sér að flytja sjónvarpið út í bíl. Þau ætla svo að kíka seinna á mig á nýja staðnum. Við Sonja fórum eina ferð með dót í tveimur bílum í Núpalind. Fórum svo heim til hennar, sóttum bókahillu sem hún var að gefa mér og fórum með hana yfir á mínum bíl. Á eftir bauð hún mér heim til sín í kjötsúpu. Ég villtist aðeins á leiðinni, eða gleymdi mér, því ég er ekki vön að keyra úr Núpalind yfir í Ljósakurinn. En ég þurfti samt ekki að keyra langt til að snúa við. Var komin í Drápuhlíð fyrir klukkan níu og gisti allra síðustu nóttina þar. Hvenær ég mun skrá niður atburði dagsins í dag verður að koma í ljós en þar sem ekki er komið rúm í Núpalindina fæ ég að gista hjá norsku vinkonu minni og manninum hennar núna næstu nótt.
21.10.25
Allt á réttri leið
Gærdagurinn hófst eldsnemma. Klukkan var samt farin að ganga átta þegar ég mætti í Laugadalslaugina. Fór á braut 2 og synti 400m. Úr kalda pottinum fór ég bein í sjópottinn. Var mætt í osteostrong um hálfníu. Þar var bara einn starfsmaður, engin mússík og eitt tækið ekki komið í samband. Starfsmaðurinn var þó að sinna einum kúnna og annar sat í sófanum. Ég stimplaði mig inn og settist í sófann og spjallaði við manneskjuna sem þar var fyrir. Sú sagði svo að ég væri á undan í röðinni. Ég var nýbúin að gera æfingar á tækjunum, líka því sem ekki var hægt að fá niðurstöður á, þegar annar starfsmaður mætti í hús og kom málunum í lag. Var komin heim rétt upp úr klukkan níu. Bókaði flutningabíl fyrir dót í sorpu og þvottavélina á miðvikudagsmorguninn og flutningsþrif á fimmtudagsmorguninn. Um hálfellefu kom sms frá málaranum um að hann væri alveg að verða búinn. Bað mig um að kíkja yfir og senda sér skilaboð ef ég sæi eitthvað sem þyrfti að laga. Ég fékk norsku esperanto vinkonu mína með mér í þessa ferð og tók ég að sjálsögðu eitthvað af dóti með yfir. Aðeins átti eftir að setja upp ljós og rofa í þvottaherberginu en það var vegna þess að seinni umferðin hafði verið máluð um morguninn. Íbúðin er alveg stórfín. Við Inger tókum með okkur gardínustöng og einn spegil og sóttum annan sem er búinn að vera inn í herbergisskáp í Drápuhlíðinni og fórum með þetta í nytjagám áður en ég skilaði henni heim. Restin af deginum fór í alls konar sýsl, dútl og undirbúning undir loka flutninga héðan. Á eftir að gista eina nótt en þar sem sjónvarpið og ráterinn verða flutt yfir í Núpalindina seinni partinn í dag eða kvöld er óvíst hvenær ég kemst í netsamband aftur til að setja inn færslur. Það verður því sennilega nokkura daga pása frá blogginu. Það verður þá bara frá meiru að segja þegar næsta færsla verður sett inn.
20.10.25
Styttist í loka flutninga
Vaknaði upp úr klukkan sjö og var komin á fætur um hálfátta leytið. Eftir morgunverkin á baðherberginu eyddi ég rúmri klukkustund í tölvunni hans pabba. Um níu leytið var ég sest inn í eldhús og lagði nokkra kapla. Einn kapallinn sem gengur frekar sjaldan upp gekk upp í annarri lögn. Morguninn leið annars frekar hratt. Í hádeginu kláraði ég afganginn af saltfisknum frá því kvöldið áður á meðan pabbi fékk sér skyr. Svo tók ég mig saman, kvaddi pabba og var komin í bæinn um hálftvö leytið. Fékk stæði fyrir framan no 15. Ég hafði hugsað mér að fara amk eina ferð með dót yfir í Núpalindina en fannst bíllinn aðeins of langt í burtu. Auðvitað hefði ég getað talað við nágrannann um að fá að leggja í smástund í innkeyrsluna, en ég notaði þetta frekar sem afsökun til að sjá aðeins til. Og viti menn um þremur korterum síðar losnuðu tvö stæði fyrir framan. Fór með létt dót með mér út í bíl og þegar ég var búin að keyra hringinn og var að beygja inn í götuna sá ég að hornstæðið var líka orðið laust og lagði þar. Fór þrjár ferðir inn eftir dóti, m.a. annað náttborðið, einn plastkassi með prjónadótinu í, pappakassi með bókum og einnig tók ég öll lóðin með. Ég byrjaði samt á að fara á Kringlusafnið og skila þremur bókum af fjórum. Tók tvær bækur í staðinn og er önnur þeirra ljóðabók; Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur. Áður en ég hélt för áfram hringdi ég í tvíburahálfsystur mína. Hún var rétt nýkomin í bæinn, búin að setja upp slátur og að bjóða dóttur sinni og pabba hennar í mat en hún var samt til í að koma með mér. Ég byrjaði þó á því að stoppa hjá henni og þyggja hjá henni tesopa svo feðginin voru komin áður en við fórum. Málarinn var greinilega búinn að vera að vinna í íbúðinni og líklega bara eftir að fara seinni umferðir á baðherbergið og þvottaherbergið og klára að setja aftur upp rofa. Tókum eftir því að yfirbyggðu svalirnar voru opnar á einum stað. Fattaði samt ekki að loka honum svo ég hrökk upp eldsnemma í morgun við hugsunina um að hvort það væri örugglega ekki í lagi þótt þetta væri opið. Veit ekki hvort málarinn kemur í dag því hann talaði um að skila af sér um miðjan dag á þriðjudaginn og hann byrjaði vinnunna sl. þriðjudag. Ég ætla amk að skreppa fljótlega eftir sund og osteostron og get tekið stóru ferðatöskuna og ryksuguna með mér í leiðinni.
19.10.25
Sunnudagur
Ég var mætt á braut 8 í Laugardalslauginni tuttugu mínútum yfir átta í gærmorgun. Synti 400 metra þar af 100 metra skriðsund. Þegar ég var að koma úr kalda pottinum, fyrstu ferðinni af þremur, sá ég einn frænda minn sem vinnur í World Class, vera að fara í heitasta pottinn. Ég ákvað að fara að heilsa upp á hann og pottinn og elti hann svo í þann kalda. Með þessu náðum við uþb fimm mínútnar spjalli áður en hann þurfti að fara að stjórna tíma í líkamsræktarstöðinni og ég fór í gufu. Var komin heim upp úr klukkan hálftíu. Hafði verið að spá í að skreppa eina ferð með dót yfir í Núpalindina en ákvað að taka því rólega fram að hádegi. Fékk mér hressingu og pakkaði niður fyrir ferð til pabba. Upp úr klukkan tólf fór ég með mestallt jólakortadótið, handavinnutöskuna og tösku út í bíl. Jólakortadótið var fyrirferðamest en það, ásamt handavinnutöskunni komst þó fyrir í skottinu og ég setti töskuna í aftursætið. Kom við í Fossheiðinni og þáði tesopa. Þar hitti ég einnig fyrir tvíburahálfsystur mína og nágrannakonuna því það var allt á fullu í sláturgerð. Ég var komin til pabba um hálfþrjú leytið. Hann hafði verið sóttur um tíu af tveimur sundfélögum sínum sem fóru með hann í óvissuferð. Hann hélt að hann væri að fara með þá á sömu slóðir og þeir fóru fyrir ári síðan þegar hann var níræður en félagarnir komu honum verulega á óvart. Hann hafði samt alveg jafn gaman af þessu uppátæki þeirra. Pabbi var kominn úr þessari skemmtiferð þegar ég mætti á svæðið. Um hálfsex mættu Jóna Mæja og Reynir á svæðið. Pabbi var þá búinn að hella upp á könnuna og setja upp saltfisk, kartföflur og rófu í einn pott á hægri suðu. Suðan var það hæg að við gátum horft á kvöldfréttir áður en sest var að borðum.
18.10.25
Pabbi 91 árs í dag
Ég var mætt á braut 8 og byrjuð að synda um hálfátta í gærmorgun. Synti 600 metra á uþb 28 mínútum, flestar ferðir á bakinu. Fór tvisvar í þann kalda, fyrir gufuferð og eftir ferð í sjópottinn. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr úr og var komin aftur fyrir klukkan hálftíu. Sýslaði ýmislegt hér í Drápuhlíðinni til klukkan langt gengin í eitt. Þá fór ég með nokkra poka og einn kassa út í bíl. Sótti Inger, norsku esperanto vinkonu mína og við byrjuðum á því að fara með þetta dót í nytjagám, spilliefni og almenna draslið í Sorpu. Síðan fórum við yfir í Drápuhlíðina og fermdum bílinn fyrir eina ferð yfir í Núpalind. Dótið sem við fórum með fór allt í geymsluna á fyrstu hæðinni. Síðan fórum við upp í íbúð og tæmdum úr, ferðatöskunni sem ég fór með yfir í fyrra dag, inn í fataskáp í herberginu. Taskan kom með okkur í bílinn. Skruppum í Sports Direct. Aldrei þessu vant voru ekki til uppáhalds sundbolirnir mínir, amk ekki í minni stærð. Fórum aðeins aftur í Núpalindina til að nota salernið en svo fórum við á Smáratorg og skoðuðum sófa og hægindastóla bæði í Dorma og í Jysk. Klukkan var að ferða fjögur þegar við ákváðum að kalla þetta gott. Ég skutlaði vinkonu minni heim og var sjálf komin heim rétt um hálffimm. Fór með leikfangabrunabílinni, sem er búinn að standa vaktina í glugganum á geymslunni í mörg ár, yfir í no 19 og gaf strákunum þeirra Ebbu og Indriða hann. Gerði svo sem ekki mikið meira í gær nema ég setti rúmföt og prjónaðar tuskur, teppi og sjöl í ferðatöskuna.
17.10.25
Búið að mála loftin
Klukkan var að verða hálfátta þegar ég vaknaði í gærmorgun eftir smá köflótta nótt. Tók því bara rólega framan af morgni. Haft var samband við mig frá símanum varðandi flutning yfir í Núpalindina. Þeir þurfa að koma til að setja upp box fyrir mílu. Ég hafði valið 21. og valdi svo tímann um tvö eftir hádegi. Um ellefu fór ég í Húsgagnahöllina til að athuga hvort þeir vissu eitthvað um eldhússtólana sem eru í Núpalindinni. Ef þeir voru seldir þarna þá eru meira en fimm ár síðan og mér var bent á Byko eða Bauhaus til að athuga hvort ég fengi tappa undir stólfæturnar. Gjóaði aðeins augum á sófa en skrapp svo í vinnuna til N1 sonarins. Ekki er alveg ljóst enn hvenær stöðin við Gagnveg verður lokuð en þegar það gerist færist Davíð Steinn á stöðina í Borgartúni. Jafnaði þrýstinginn á dekkjunum áður en ég fór heim og eldaði mér þorsk, kartöflur og gulrætur í hádeginu. Um það leyti sem ég ætlaði á stúfana aftur, um tvö, hringdi frænka mín og nafna í mig. Sú sem hjálpaði mér að undirbúa opna húsið. Eftir ágætis spjall við hana var ég nýbúin að leggja á þegar málarinn hafði samband. Sagði að búið væri að fara tvær ferðir yfir loftið og óhætt að flytja meira dót yfir, bara setja það sem ekki færi í skápa í miðjuna á gólfunum. Lendingin er svo sú að um miðjan dag á þriðjudaginn kemur verði búið að mála tvær umferðir yfir glugga og veggi og íbúðin aftur tilbúin til afhendingar. Hringdi og spjallaði aðeins við tvíburahálfsystur mína áður en ég fór með slatta af dóti út í bíl. Áður en ég lagði upp í leiðangur sendi ég fyrirspurn á símann um hvort hægt væri að færa bókaða tímann um einn dag. Kom aðeins við í Byko í Kópavogi áður en ég fór með dótið yfir í Núpalind. Sumt fór í skápa en eitthvað á gólfið í svefnherberginu þar sem málarinn er með dót frá sér í stofunni. Tók með mér ljósakrónuna sem var í loftinu í herberginu. Hringdi svo í norsku vinkonu mína og spjallaði við hana á meðan ég var á leiðinni heim. Kom heim stuttu fyrir sex.
16.10.25
Fór á húsfund í Núpalindinni
Líklega er heldur snemmt að fara að sofa fyrir klukkan tíu en ég svaf þó samfleytt í heila sjö tíma áður en ég rumskaði. Var komin á fætur fyrir klukkan hálfsex og var að sýsla hér heima við til klukkan langt gengin í ellefu. Þá dreif ég mig í Nauthólsvík. Fékk stæði við einn braggann og var komin út í 8,6°C sjóinn korter yfir ellefu. Synti út að kaðli. Fór beint í gufu og svo smástund aftur út í sjó. Var komin heim aftur um hálfeitt og hélt sýslinu áfram. Um hálfsex lagði ég af stað yfir í Kópavoginn. Umferðin var þung en ég var komin tíu mínútum fyrir sex og á þeim tíu mínútum náði ég að fara tvisvar upp í íbúð og var svo mætt í bílageymsluna á húsfund á slaginu sex. Eignarekstur hafði boðað tilfundarins með góðum fyrirvara og áttu að sjá um hann. Enginn fulltrúi frá þeim mætti hins vegar á svæðið. Ákveðið var þó að halda stuttan fund sem fjallaði um tilboð í viðgerð á þakinu. Innan við hálftíma síðar var ég komin út í bíl. Hringdi í tvíburahálfsystur mína og það varð úr að ég fór beinustu leið til hennar. Hún var að græja kvöldmatinn þegar ég mætti og bauð hún mér að borða með sér. Spjölluðum um eitt og annað. Ég var komin heim um hálfníu orðin smá þreytt eftir langan dag. Fór þó ekki alveg beinustu leið í rúmið, enda heldur snemmt.
15.10.25
Mið vika og október uþb hálfnaður
Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um hálfsex. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan sjö og fór beint á braut 8. Ég var komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Afgangurinn af morgninum fór í róleg heit og smá dútl. Hringdi reyndar í Huldu frænku mína og spjallaði smá stund við hana. Hún og kærasti hennar voru svo að fara norður um hádegisbilið og ætla að vera í nokkra daga. Um hálfeitt leytið kom norska vinkona mín yfir. Við byrjuðum á því að fá okkur te en svo fórum við yfir handklæði og þurrkustykki. Sumu var pakkað niður, eitthvað fór aftur inn í skáp í bili og svo setti ég eina þvottavél. Fórum líka yfir nokkra hluti sem enn voru í búrinu. Málarinn hringdi í mig um tvö leytið, sagði að þeir væru að byrja og fékk það alveg staðfest hjá mér að það mætti taka niður veggljósin í stofunni og ljósakrónuna í svefnherberginu. Inger kvaddi um og upp úr miðjum degi. Ég greip í eina bók af safninu, þá næstsíðustu ólesnu af safninu; Fuglaskoðarinn eftir Stefán Sturlu og kláraði hana. Þá á ég bara eftir að lesa KUL eftir Sunnu Dís Másdóttur.
14.10.25
Fjárfestingar
Aðfaranótt gærdagsins var í smá rugli og hálf köflótt, sennilega vegna spennings. Náði þó loksins að sofna aðeins aftur og vaknaði rétt fyrir hálfátta. Rúmum hálftíma seinna labbaði ég í osteostrong tíma. Var komin heim aftur skömmu fyrir hálftíu. Klukkan að verða tvö lagði ég af stað í smá leiðangur. Byrjaði á því að fara í Byko vestur á Granda. Spurðist fyrir um innstungulokið eða hvað það kallast og var sagt að það fengist í Byko í Kópavogi. Keypti trélím og bakka til að halda hnífapörum aðskildum. Í Kópavogi fann ég þvottagrind áður en ég fann einhvern til að aðstoða mig við að finna varahlutinn sem mig vantar. Næst lá leiðin í Dorma við Smáratorg. Rölti um svæðið þar sem rúmin voru og tók mynd af ákveðnu rúmi. Enginn kom að aðstoða mig fyrr en ég var á leiðinni út eiginlega til að skoða fleiri möguleika í öðrum verslunum. Ákvað að þyggja aðstoðina og sagðist vera að leita að besta rúminu. Og viti menn við fórum beint að rúminu sem ég hafði tekið mynd af. Þá ákvað ég að ég þyrfti ekkert að leita lengur og að ég myndi kaupa meira en rúmið, dýnuna og hlífðarlak, bætti við sæng, kodda og sængurverasetti. Koddinn og rúmdýnan eru ekki að koma fyrr en í næstu viku en ég gat tekið hlífðarlakið, sængina og sængurverasettið með mér. Fyrir þetta greiddi ég um 230þúsund. Fór á einn stað í viðbót áður en ég fór heim. Skildi þetta eftir úti í bíl og var eitthvað að spá í að gera mér ferð í Núpalindina um eða eftir kvöldmat. Ekkert varð þó úr því. Sauð mér fiskibollur, kartöflur og gulrætur í kvöldmatinn og borðaði helminginn af skammtinum.
13.10.25
Anna borð - Birna borðstofuborð
Var komin á fætur upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég mætt á braut 8 í Laugardalslauginni. Synti 500 metra, var 6 mínútur í þeim kalda, uþb korter í gufunni og dagaði svo næstum því uppi í sjópottinum. Þar hitti ég m.a. eina sundvinkonu mína sem bað mig helst um að hætta ekki að mæta í Laugardalslaugina þótt ég væri að flytja í Kópavoginn. Kom heim stuttu fyrir hálfellefu. Sýslaði ýmislegt fram yfir hádegi og hugsaði m.a. næstu skref. Esperanto vinkona mín kom labbandi úr vesturbænum um eitt. Bauð henni upp á te og svo hjálpaði hún mér að fara yfir stóran hluta af því sem eftir var í fataskápnum. Sumt þarf að skola aðeins úr í þvottavél og sumt ákvað ég að myndi fara í fatagám. Settum svo eitthvað meira úr kassa úr eldhúsinu og ég tæmdi að mestu það dót sem var eftir í baðherbergissúffunum. Fljótlega eftir að tvíburahálfsystir mín mætti á svæðið fórum við í að ferma bílana. Nú er nánast búið að tæma geymsluna. Bílarnir fylltust reyndar ekki en við ákváðum engu að síðar að bruna yfir í Kópavoginn. Fengum stæði á planinu framan við innganginn. Sumt af dótinu fór niður í geymslu. En fórum líka með slatta upp í íbúð og gengum frá í skápa og skúffur svo það verði ekki fyrir málaranum. Ég skutlaði Inger heim til hennar. Sonja skrapp aðeins heim til sín að ná í nokkra hluti en hún kom aftur í Drápuhlíðina rétt á eftir mér. Við nánast kláruðum að pakka eldhúsið niður. Það eru flestir skápar tómir, bara eftir í einni hillu í einum skáp. Ég setti líka megnið af sorteruðum fötunum í stóran glæran kassa og einn poka. Ég átti von á konunni sem ákvað að taka borðstofuborðið um sex leytið. Hún og dóttir hennar komu rétt fyrir hálfsjö og þá hittist svo vel á að innkeyrslan var laus. Þær mæðgur voru með einhver verkfæri til að skrúfa boðið í sundur og það vildi svo vel til að Sonja gat lánað þeim skrúfjárn. Allt komst fyrir í bílnum og stólarnir fjórir líka. Eftir að mæðgurnar voru farnar fermdum við bílinn hennar Sonju og fórum eina ferð á einum bíl í Núpalindina. Gengum frá dótinu og komum til baka með balann og kassana. Þá var klukkan langt gengin í átta og við stöllur orðnar sáttar og ánægðar með dagsverkið. Þvílíkur munur að fá svona góða aðstoð, bæði við að pakka, yfirfara hluti og ganga frá þeim á hinum staðnum. En það er líka frekar tómlegt í holinu þar sem borðstofuborðið var undanfarin rúmu 21 ár.
12.10.25
Aðeins byrjuð að færa dót yfir með góðri aðstoð
Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Var mætt í sund um átta rétt eftir að opnaði. Fór beint á braut 7 og synti 500 metra þar af 200 skrið. Hitti eina miðjunafns nöfnu mína í kalda pottinum og sat fyrir vikið í honum á sjöundu mínútu. Hitti hana aftur í gufunni og þá sagði hún mér að hún væri tvíeggja tvíburi. Var mætt á Sólvallagötuna rétt fyrir tíu og komin heim fyrir hálftólf. Tvíburahálfsystir mín sótti mig um eitt og við skruppum í Slippfélagið til að skoða liti. Valdi 1/2 Hör, sem er vinsælasti liturinn í dag, og sendi málaranum sms. Fórum yfir í Drápuhlíðina en Sonja varð reyndar að leggja bílnum á stæði við Blönduhlíð. Það var mikil rigning og við veltum því fyrir okkur hvort við þyrftum að skera niður stóra plastpoka til að vernda kassana. Sonja þvoði upp hnífana og dótið í hnífaskúffunni. Ég tók frá þau eldhúsáhöld sem ég þarf á að halda hérna í Drápuhlíðinni. Pökkuðum slatta af hinu niður og einnig eldhústækjum sem ég vissi að ég gæti sett í skápa í Núpalindinni. Tvíburahálfsystir mín setti borðstofuborðið og stólana á svæði á Facebook þar sem hlutir eru gefins gegn því að verða sóttir. Hún var nýbúin að pósta auglýsingunni þegar ég fékk fyrstu hringinguna. Sá aðili sagðist geta komið um sjö. Ég fékk einnig aðra hringingu og mér skilst að það hafi komið þónokkrar fyrirspurnin undir auglýsingunni. Það var annars hætt að rigna þegar við byrjuðum að ferma bílinn minn. Svo hafði losnað stæði við hliðina á innkeyrslunni svo Sonja sótti bílinn sinn og við settum slatta í hann líka. Mig minnir að við höfum verið komnar í Núpalindina fyrir klukkan þrjú. Byrjaði á því að sýna Sonju íbúðina en svo fórum við niður á fyrstu hæð þar sem geymslan er. Vorum rétt að verða búnar að tæma úr seinni bílnum þegar ég fékk fyrstu heimsóknina. Frænka mín og nafna, sem m.a. hjálpaði mér að undirbúa opna húsið í Drápuhlíð, og maðurinn hennar komu og fengu skoðunarferð um geymsluna fyrst. Hann hjálpaði okkur með dót í lyftuna og inn í íbúð. Hann sá eitt og annað sem þyrfti aðeins að lagfæra, ekkert stórmál en mjög góðar ábendingar. Gestirnir kvöddu á fimmta tímanum þá var Sonja langt komin með að raða dóti í skúffur og skápa í eldhúsinu. Ég hafði fengið sms frá þeim sem ætlaði að taka borðið um að hann yrði að hætta við vegna plássleysis í bíl. Sem betur fer var ein af þeim sem sendu skilaboð undir auglýsinguna á biðlista og ég var í sms sambandi við hana í gærkvöldi. Við tvíburahálfsysturnar ákváðum svo að láta gott heita og kvöddumst um fimm. Ég kom við í Krónunni í Skeifunni á leiðinni heim þótt Krónan í Lindum væri rétt hjá Núpalind. Sú búð er reyndar alveg stórfín.
11.10.25
Búin að flytja lögheimilið
Spenningurinn yfir að vera að fá íbúðina við Núpalind afhenta var það mikill að ég var vöknuð fyrir klukkan fimm í gærmorgun. Fór í sund um sjö leytið og var komin heim aftur rétt rúmlega níu. Rétt fyrir ellefu var ég mætt í Kópavoginn. Rebekka var þegar mætt. Eftir yfirferð yfir íbúðina fékk ég loksins að sjá geymsluna. Það var nýbúið að klára að tæma hana og einn bróðir hennar var akkúrat að taka með sér síðustu kassana. Fékk þrjú sett af lyklum og vitneskju um að fjórða og síðasta settið myndi skila sér í póstkassann um kvöldið. Eftir að Rebekka var farin fór ég aftur upp í íbúð. Tók nokkur snöpp og myndir og ákvað að skilja eitt lyklasettið eftir. Það er annars engin hætta á að ég muni læsa mig úti því það þarf að læsa utanfrá og það er hægt að tvílæsa. Áður en ég fór heim kom ég við í Fiskbúð Fúsa. Keypti harðfisk, kartöflur, bleikjuflak og þorskhnakkaflak. Þorskinn setti ég í frystinn þegar ég kom í Drápuhliðina. Setti upp kartöflur og rétt sauð svo upp á bleikjunni í vatni krydduðu með sítrónupipar, karrý og cayanne. Eftir matinn ákvað ég að fara á ísland.is og skrá nýtt lögheimili. Um hálftvö sendi ég rafrænan póst á málara sem tvíburahálfsystir mín hafði mælt með. Klukkutíma síðar hringdi umræddur málari og við mæltum okkur mót í Núpalindinni um hálffimm. Ég lagði af stað um fjögur vitandi að umferðin er þung á þessum tíma. Var komin ca sjö mínútum fyrr. Rétt rúmlega hálf hringdi málarinn. Þá var hann reyndar rétt ókominn en hafði aðeins tafist í umferðinni. Hann gerði mér tilboð og mælti með lit en hvatti mig til að fá að skoða litinn í Slippfélaginu. Fékk heitið á litnum og tilboðið í sms. Mér leist það vel á tilboðið að ég afhenti málaranum lykla af útihurð og hurðinni inn í íbúð. Hann og aðstoðamaður hans munu mála tvær umferðir yfir loft, veggi og glugga og í bað- og þvottaherbergi nota mygluvörn. Hann áætlaði að verða búinn um 20. okt. Ég get samt verið að flytja skáp úr skáp og úr geymslu í geymslu og tæmt smám saman hjá mér hér í Drápuhlíðinni. Á einhverjum tímapunkti þarf ég svo að kaupa mér nýtt rúm. Það væri best fyrir málarana að ég hinkraði með það á meðan þeir eru að mála. En til að kóróna daginn þá fékk ég sms frá HHÍ um hálfátta í gærkvöldi um 20.000kr vinning og það eru aðeins þrír mánuðir síðan ég fékk vinning upp á sömu upphæð.
10.10.25
Fæ afhent í dag
Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Einum og hálfum tíma síðar var ég komin í Laugardalinn. Var rétt á eftir kalda potts vinkonu minni sem var líklega búin að synda um 100m þegar ég kom á braut 7. Synti 500m á uþb 23 mínútum, flestar ferðirnar á bakinu en smá skriðsund með. Á eftir fórum við stöllur fjórar ferðir í þann kalda, eina í þann heitasta, eina í 42°C pottinn, góða ferð í gufuna og sjópottinn. Var komin heim aftur rétt fyrir tíu. Um hálfeitt fékk ég hringingu frá þeirri sem kvittaði upp á sölu á tveggja herbergja íbúðinni á 4. hæð við Núpalind sex og sagðist mundu vilja afhenda mér í dag föstudag. Við komum okkur saman um tíma. Ég varð bæði spennt og slök á sama tíma. Ekkert varð úr neinum göngutúr en ég hef ekkert samviskubit yfir því. Stundum þarf ekki að gera bæði að synda og ganga. Var komin upp í rúm fyrir tíu í gærkvöldi og las í smá stund. Fiðrildin í maganum fara stækkandi, vissan um að allt sé að ganga eftir áætlun og að það fer að sjá fyrir endann á þessum fasteigna viðskiptum og búferla flutningum. Hef uþb þrjár vikur en vonast til að ég verði búin að tæma fyrr, fá þrif og geta afhent Drápuhlíðina einhverjum dögum fyrr en 30. okt nk. Sjáum til og tökum einn dag í einu.
9.10.25
Engin hola
Gærdagurinn byrjaði óþarflega snemma. Tók því frekar rólega framan af. Útbjó mér hafragraut um tíu. Um ellefu var ég komin að Nauthólsvík en þar voru engin stæði á lausu svo ég skrópaði í sjóinn og fór aftur heim. Um hálfþrjú fór ég labbandi, í hressandi roki, upp í Valhöll en þar á þriðju hæð er tannlæknirinn minn. Ég átti árlegan tím um þrjú. Var mætt skömmu áður. Klukkan var að verða hálffjögur þegar ég var kölluð í stólinn. Yfirferðin tók enga stund og allt í besta standi. Þessi heimsókn kostaði rúmar átjánþúsund krónur. Kom við í Álftamýrinni hjá móðurbróður mínum og fjölskyldu og stoppaði við í rúma klukkustund áður en ég labbaði heim.
8.10.25
Allt rólegt
Vaknaði útsofin rétt um hálfsex í gærmorgun. Var komin í sund á svipuðum tíma og á mánudaginn. Gaf mér heldur lengri tíma í sund, pottarölt og gufu en var þó komin heim aftur rétt fyrir níu. Á tólfta tímanum skrapp ég aftur út í rúmlega klukkutíma göngu. Fór sama hring í kringum Öskjuhlíðina en að þessu sinni kláraði ég hann án þess að stoppa og mældist hann rúmlega 5,5km skv símaforritinu. Annars var ég bara slök í gær. Viðurkenni þó að þegar síminn hringdi stuttu eftir að ég kom heim úr göngunni hélt ég í augnablik að nú væri komið að því að ákveða afhendingu á íbúðinni í Núpalind. En svo reyndist ekki vera og sá ég það strax og ég tók upp símann. Á línunni var frænka mín og nafna, líklega alveg jafn spennt og ég, að spyrja frétta. Mín tilfinning er sú að ég verði búin að fá afhent fyrir næstu helgi en það kemur allt í ljós mjög fljótlega.
7.10.25
Þriðjudagur
Korter yfir sjö í gærmorgun var ég komin á braut 7. Synti 500m og hafði ágætis tíma í potta og gufu rútínu á eftir. Fór þó aðeins tvisvar í þann kalda og seinna skiptið var aðeins smá dýfa. Um hálfníu var ég mætt í Hátún 12 í osteostrong tíma. Það var smá bið í örfáar mínútur en samt var ég búin og komin út í bíl aftur um níu. Heima fékk ég mér hressingu og var svo alveg slök þar til klukkan að verða tvö. Skrapp þá út í göngu hringinn í kringum Öskjuhlíðina sem ég skipti niður í tvær göngulotur. Annars er fátt að frétta í augnablikinu.
6.10.25
Hratt líður stund
Vaknaði á slaginu hálfsjö í gærmorgun. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég mætt á braut átta í Laugardalslauginni. Gaf mér góðan tíma í sund, potta, gufu og spjall og var klukkan orðin hálfellefu þegar ég kom heim aftur. Á tólfta tímanum flysjaði ég sæta kartöflu og skar niður ásamt nokkrum regnbogagulrótum og setti í pott ásamt smá vatni og salti. Tíu mínútum eftir að suðan kom upp sauð ég upp á bleikjuflaki, í vatni sem ég kryddaði með karrý, sítrónupipar og cayanne pipar. Hafði tekið flakið úr frysti áður en ég fór í sundið. Borðaði helminginn af þessu í hádeginu ásamt nokkrum pikkaló tómötum. Dagurinn leið ótrúlega hratt miðað við að ég var ekki að gera neitt sem er í frekari frásögur færandi. Aldrei þessu vant var klukkan svo byrjuð að ganga ellefu áður en ég skreið upp í rúm með bók eftir Katrine Engberg, Krókodíllinn.
5.10.25
Sunnudagur
Mætti í sund rétt rúmlega átta eða rétt eftir opnun í gærmorgun. Fór beint á braut 8 og synti 500m áður en ég fór í þann kalda. Þar ætlaði ég aðeins að vera uþb 4 mínútur. Hitti svo skemmtilegt fólk að ég gleymdi mér aðeins og var í rúmar sex mínútur. Eftir 12 mínútur í gufunni og aðrar 12 í sjópottinum var ég 3 mínútur í kalda áður en ég fór upp úr og heim. Um hádegisbilið var ég mætt til esperanto vinkonu minnar sem bauð upp á smá veislu áður en við lásum nokkrar blaðsíður í Kon Tiki. Stuttu fyrir klukkan tvö fórum við svo saman á "pop up" málverkasýningu í Skútuvogi. Fasteignasalinn, vinkona mín Vilborg, er búin að fá nokkur alþjóðleg verðlaun, viðurkenningar og umfjöllun um málverkin sín. Þetta var mjög kraftmikil sýning og við Inger tókum þrjá hringi um svæðið, hughrifin voru svo mögnuð. Þarna hitti ég svo fyrir eina sem ég kynntist í sundi. Sú er að mestu hætt að stunda Laugardalslaugina, fallinn fyrir Sundhöllinn. Frétti það fyrst þarna að hún og Vilborg eru frænkur. Við Inger stoppuðum í tæpan klukkutíma af tveimur, það var enn að streyma að fólk þegar við kvöddum. Tókum smá rúnt yfir í Kópavog áður en ég skutlaði henni aftur heim.
4.10.25
Kaupsamningur undirritaður
Gærdagurinn hófst frekar snemma hjá mér í gær. Var komin á fætur einhvern tímann á sjötta tímanum. Leyfði klukkunni þó að verða sjö áður en ég lagði af stað í sund. Fór beint á braut 7 og synti 500m, skriðsund aðra hverja ferð. Eftir kaldan pott og smá gufu settist ég næstum því að í sjópottinum. Ég var nú samt komin heim aftur um níu leitið. Tuttugu mínútum yfir tíu var ég komin á fasteignasöluna Domus Nova með tvö plögg meðferðis. Fasteignasalinn bauð mér kaffi en ég bað um vatn og var nýsest inn í fundarherbergið þegar handhafi seljenda og maðurinn hennar mættu á slaginu hálfellefu. Farið var yfir það helsta og það kom í ljós að ég átti víst að vera með eitt plagg enn með mér. Það kom þó ekki að sök því fasteignasalinn var með það í rafrænum pósti sem hún gat prentað út. Skrifað var undir öll viðeigandi skjöl og ég borgaði fyrstu innborgun á íbúðina og gerði einnig upp umsýslugjald við fasteignasalann. Á kaupsamningum stendur að íbúð eigi að afhendast eigi síðar en 17. okt. n.k. en mér skilst að það eigi bara eftir að fá þrif svo það eru góðar líkur að ég verði búin að fá afhent fyrir næstu helgi. Ég hringdi í Odd um leið og ég kom út í bíl. Hann svaraði ekki en hringdi til baka áður en ég var komin út af planinu svo hann var fyrstu að fá fréttirnar. Ég hringdi svo í fasteignasalann minn þegar ég kom heim. Hringdi reyndar nokkur önnur símtöl í gær en ég fór líka í smá göngu og kom aðeins við á Grettisgötunni hjá Lilju vinkonu, sem var mjög hissa að sjá mig en tók að sjálfsögðu vel á móti mér.
3.10.25
Fössari
Vaknaði frekar snemma í gærmorgun, eða upp úr klukkan fimm. Fór þó ekki á fætur fyrr en um klukkustund síðar og var mætt í sund fyrir klukkan hálfátta. Fór fyrst í þann kalda og svo á braut 2 þar sem ég synti 400m, flesta á bakinu. Eftir tvær ferðir í viðbót í þann kalda, smá gufu og næstum hálftíma í sjópottinum þvoði ég mér um hárið og fór svo beint heim. Fékk mér hressingu en stoppaði ekki lengi heima. Labbaði á heilsugæsluna skömmu fyrir tíu þar sem ég átti pantaðan tíma í leghálsskoðun, sennilega næstsíðasta skiptið. Það er smá skömm að segja frá því að það eru liðin heldur fleiri en fimm ár frá síðustu sýnatöku. En ef allt er eðlilegt á ég víst bara eftir að fara einu sinni enn því þessari skimun er hætt eftir að kona er orðin 64 ára. Ferlið gekk annars hratt og vel og ég var komin heim aftur tíu mínútur yfir tíu. Rétt fyrir hálfþrjú var ég mætt á fasteignasöluna Bæ sem er með skrifstofu í Skútuvogi. Þar hitti ég kaupendurna af Drápuhlíðinni og að þessu sinni voru þau með yngri dóttur sína með sér þar sem það var starfsdagur í leikskólanum. Allt ferlið vegna sölunnar, yfirferð og undirskriftir tók tæpa klukkustund. Mér létti stórlega þegar samningur kvað á um að afhending yrði í síðasta lagi eftir 4 vikur, má vera fyrr en það færi þá eftir því hvenær ég fæ afhent og hversu langan tíma það tekur að tæma, flytja og fá þrif. Kemur allt í ljós á næstu vikum. Ég lagði svo leið mína upp á N1 við Gagnveg til að heilsa aðeins upp á N1 soninn og í bakaleiðinni heimsótti ég fyrrum fyrirliða og samstarfskonu sem einnig er á starfslokasamningi. Stoppaði hjá henni í rúman hálftíma og hitti einnig þrjá káta kettlinga. Kom heim upp úr klukkan fimm.
2.10.25
Málin að þokast áfram
Ég átti tíma hjá augnlækni korter yfir átta í gærmorgun. Þetta var þriðja heimsóknin á árinu til að ganga úr skugga að blettur í hvítunni á öðru auganu væri ekki að breytast. Allt leit eins út og enn er heldur engin ástæða fyrir mig að nota önnur gleraugu en lesgleraugu í styrk plús 1,5. Næsti tími var bókaður eftir rétt rúmt ár. Um tíu leytið útbjó ég mér hafragraut. Mætti í Nauthólsvík um ellefu. Sjórinn var 9,4°C en fyrir fjórum árum var hann 6°C. Synti út að kaðli, gaf mér góðan tíma í gufunni á eftir og skrapp svo aftur út í sjó í uþb 5 mínútur. Þegar ég var á leiðinni í bílinn aftur eftir þessa hressandi stund sá ég að ég hafði misst af símtali við fasteignasalann minn. Hafði víst líka fengið sms sem ég sá ekki fyrr en ég var búin að hringja til baka. Ég er boðuð á fasteignasöluna um hálfþrjú í dag. Eftir að ég var komin heim gerði ég tilraun til að hringja í fasteignasalann sem hefur með Núpalindina að gera. Fékk skilaboð um að hringt yrði til baka. Það símtal kom um fjögur. Reyndar sagði fasteignasalinn að hún hefði verið búin að hringja fyrr en ég varð ekki vör við þá hringingu. Ég fékk líka að vita að ég fengi ekki afhent strax og kaupsamningur er kominn í gang sem ég var mjög hissa en það verður þá bara aðeins flóknara ferlið við flutningana sem eru framundan. Ákvað að drífa mig á bókasafnið um fimm leytið. Skilaði þremur bókum og kom heim með fimm. Ein af þeim er; LÚÐRASVEIT Ellu Stínu. Þessi bók kom út 1996 og er samasafn af örsögum og prósum sem ég er nú þegar búin að lesa einu sinni og finnst ekkert ólíklegt að ég muni lesa bókina aftur áður en ég þarf að skila henni.
1.10.25
Októbermánuður genginn í garð
Var mætt í sund upp úr klukkan sjö. Fór á braut 7 og synti 500 metra, skriðsund aðra hverja ferð. Fór tvær ferðir í þann kalda, tíu mínútur í gufuna en lengst var ég í sjópottinum. Kom heim aftur á tíunda tímanum. Annars er frekar lítið að frétta svo ég verð virkilega undrandi ef ekkert mun heyrast í fasteignasalanum í dag. Ég sýslaði við eitt og annað hér heima en fór ekkert út aftur. Bjó mér til frekar einfalda linsubaunasúpu í gærkvöldi og borðaði einn þriðja af henni.