2.7.25

EM að byrja í dag

Þetta er einn af þeim dögum sem byrja eldsnemma. Það snemma að mér fannst ekki tímabært að fara á fætur og byrjaði því daginn eins og ég endaði gærdaginn. Eftir að hafa skroppið fram á baðherbergi um fimm fór ég aftur upp í rúm og greip í bók. Er búin með tvo þriðju af bókinni; Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og er alveg heilluð. Gærdagurinn byrjaði ekkert svo seint heldur en þó ekki eins snemma, einhvers staðar á milli sex og hálfsjö. Samt var klukkan orðin átta þegar ég var loksins mætt í sundið. Var í heila tvo tíma og synti m.a. 700m. Ég fór líka í göngutúr í gær en bara stuttan, 1,5km á 20 mínútum. Notaði ferðina til að fara með gler og málm í gámana við upphafsenda Eskihlíðar. Annars var nú veðrið í gær upplagt fyrir mikla útiveru en ég var að sýsla við eitt og annað hér heima og gleymdi mér í mis gáfulegum og mis nauðsynlegum verkefnum.

1.7.25

Verkstæðismál

Korter fyrir sjö í gærmorgun var ég komin á braut 7. Synti 700m á rúmum hálftíma. Hafði ágætis tíma til að fara í gufuna, sjópottinn og þrjár ferðir í þann kalda. Gat einnig gefið mér tíma í spjall við konu sem ég er nýfarin að hitta aftur í sundi og kemur nú aðeins tvisvar í viku um leið og opnar. Var mætt í Hátúnið í osteostrong um hálfníu og komst strax að. Bætti mig á einu tæki og var við mitt besta á tveimur öðrum. Kom klukkan að byrja að ganga tíu. Rúmum klukkutíma síðar hringdi ég á N1 verkstæðið við Ægisíðu og spurði hvort þeir gætu athugað bremsurnar og skipt um klossa ef þyrfti. Ég var beðin um að koma með bílinn til þeirra sem allra fyrst og dreif mig strax í það verkefni. Í ljós kom að það þurfti að skipta um diska og klossa að framan. Þeir sögðust geta afgreitt það samdægurs svo ég skildi bílinn eftir, nafn mitt og símanúmer og labbaði heim. Fór ekki alveg beinustu leið en það urðu rúmir 4km á tæpum 55 mínútum. Klukkan hálftvö var hringt í mig frá verkstæðinu til að láta vita að bíllinn væri tilbúinn. Var rúmar 40mínútur að labba 3,55km. Mátti gefa upp kennutölu N1 sonarins og fékk ágætis afslátt út á hana. Borgaði tæp 47þúsund en sú upphæð hefði farið yfir 60þúsund. Var komin heim fyrir klukkan hálfþrjú og lánaði Oddi bílinn til að reka einhver erindi. Skrefafjöldi dagsins var þarna kominn yfir 12þúsund. Kláraði annars að lesa enn eina bókina af safninu.