30.9.21

Síðasti septemberdagurinn

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Var í bókhaldsvinnu í gær og gekk sú vinna vel en var búin um eitt leytið. Framleiðsla stóð yfir til hálffjögur en þá var líka búið að klára alla endurnýjun. Verið er að taka út vinnustaðinn og fyrirliðinn þurfti nokkrum sinnum að svara hinum ýmsu spurningum um verk og verklag. Eftir vinnu fór ég í Krónunua. Kom við heima um hálffimm og fékk Odd til þess að koma og sækja vörurnar. Ég var með sunddótið með mér í skottinu og fór í Laugardalinn, ekki til þess að synda heldur til þess að kæla mig aðeins niður. Fór tvisvar í kalda, einu sinni í heitasta og endaði í gufunni. Fór líka einu sinni stuttlega í nuddpottinn en þá var ég að elta eina mágkonu mömmu minnar til þess að spjalla aðeins við hana. Davíð Steinn sá um að elda kvöldmatinn og kvöldið hjá mér fór í þáttagláp til klukkan hálftíu. Þá fór ég í háttinn og lauk við að lesa bókina; Sykur eftir Katrínu Júlíusdóttur

29.9.21

Tæp tólfþúsund skref í gær

Sem oftast fyrr var ég vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan átti að hringja, búin að slökkva á henni og komin á fætur. Hafði rúman hálftíma í að vafra um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni til að byrja með en þegar ég ætlaði að fara að hlaða inn fyrstu verkefnum dagsins höfðu þau ekki skilað sér. Á tölvunni sem vinnur úr og sendir verkefnin á framleiðsluvélina voru öll verkefninn í möppu sem þau fara í áður en forrit sem vinnur úr þeim sendir þau eitt af öðru í "út-möppuna". Slökkt var á vinnsluforritnu einhverra hluta vegna og ekki var nóg að endurræsa vélina. Það var því hringt í vin og það eina sem hann gerði þegar hann var aðeins búinn að skoða þetta dæmi var að slökkva og kveika aftur á þessu vinnsluforriti. Þá fór allt af stað en það tók tæpan hálftíma að vinna úr öllum skránum svo klukkan var orðin hálftíu þegar ég gat loksins farið að hlaða inn verkefnunum og byrja að framleiða fyrsta skammt. Framleiddum fyrsta skammtinn á uþb hálftíma og vorum því alveg á tímamörkunum, þ.e. tilbúnar að skila fyrstu tösku um tíu. Hins vegar kom sendillinn of snemma til að byrja með og því fýluferð. En það er ekki okkar mál. Auðvitað er honum afhent taskan ef hún er tilbúin til afgreiðslu en við eigum að  hafa tímann til tíu til að framleiða og jafnvel stemma af og við sáum fram á að ná því og engin ástæða til að tilkynna um neins konar seinkun. Morgunkaffitíminn var tekin óvanalega seint og hádegið líka. En daglegri framleiðslu lauk um eitt. Gátum svo klárað eina endurnýjun og byrjað á annarri. Ég labbaði heim um hálffjögur og það endaði með því að ég fór hvorki í sjó né sund. Var sótt um átta af tvíburahálfsystur minni og við mættum saman í saumaklúbb til Lilju. Þar leið tíminn óhugnanlega hratt. Var skilað aftur heim rétt upp úr klukkan ellefu.

28.9.21

Morgunstund

Ég var vöknuð um sex í gærmorgun og dreif mig fljótlega á fætur. Þannig gat ég gefið mér net-tíma áður en ég labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Í fyrsta skipti í tæpa tvo mánuði vorum við allar fimm mættar til vinnu. Ég var sett á vél, móttökuendann, eftir kaffi og þar sem við vorum þrjár frammi og búið að loka öll óflökkuð kennispjöld inni í bili var ég eiginlega verkefnalaus þar til komið var að því að telja fyrstu framleiðslu. Það var lopapeysu og búlludagur í gær. Við fengum senda borgara úr K2 en ekki fyrr en rúmlega eitt þannig að við sem vorum á vélinni héldum framleiðslu áfram til klukkan að verða eitt. Eftir daglegu verkin snérum við okkur að endurnýjunum. Eftir mat bauðst ég til að fara aftur inn á vél þar sem önnur af þeim sem var fyrst um morguninn var skráð í förgun. Hættum framleiðslu um hálfþrjú og fljótlega eftir það var búið að farga þriggja mánaða skammti af ónýtu plasti. Þá tók við verkefnavinna með yfirmanni okkar. Vinnudegi lauk klukkan fjögur og fékk ég far heim. Fór hvorki í sund né sjóinn og ekkert út aftur. 

27.9.21

Heil vinnuvika framundan

Heyrði stofuklukkuna slá níu högg áður en ég fór á fætur í gærmorgun. Var þó vöknuð aðeins fyrr en var í kúrustuði í amk hálftíma. Pabbi var kominn á fætur og fram í eldhús. Þegar ég var búin að sinna morgunverkunum á baðherberginu settist ég niður við eldhúsborðið og lagði nokkra kapla áður en ég fékk mér eitthvað í svanginn. Um tíu leytið hellti ég upp á kaffi og um hádegisbilið var ég búin að drekka þrjá bolla af kaffi. Prjónaði, las, lagði kapla eða vafraði um á netinu fram að kaffitíma. Fljótlega eftir kaffi kvaddi ég pabba og Bríeti og ég var komin heim á sjötta tímanum. Strákarnir voru báðir heima en ég hitti samt ekkert á þá, þeir héldu til í herbergjunum sínum og ég var ekkert að trufla þá. Sagði sam "hæ" þegar ég kom inn í íbúðina en það er einhvern veginn bara þegar ég er að fara sem ég banka á herbergisdyrnar þeirra, opna og kveð. Banka ekki hjá þeim, opna og heilsa þegar ég kem heim, kalla bara "hæ" inn í íbúðina og fæ oftast "hæ" á móti. 

26.9.21

Sunnudagur

Korter yfir átta var ég komin í mína fyrstu ferð af þremur í kalda pottinn í Laugardalslauginni. Fór eina ferð í þann heitasta og eina í sjópottinn áður en ég synti 300 metra á brautum 7 og 8. Synti helminginn á bakinu því ég þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var því alveg sama þótt "læki" meira inn fyrir sundhettuna en gerist þegar ég syndi bara á bringunni eða skriðsund. Rétt fyrir hálftíu lagði ég bílnum fyrir framan heima, tók með mér vegabréfið og geymdi sunddót og annað dót í skottinu á meðan ég rölti á kjörstað og nýtti kosningaréttinn. Það var engin röð svo þessi gjörningur tók enga stund. Lengsta tímann tók sennilega að labba báðar leiðir til og frá Hlíðarskóla en það er samt ekki langur spotti. Setti handklæði í þvottavél og pakkaði niður fyrir skrepp út úr bænum. Davíð Steinn var kominn á fætur áður en ég lagði af stað austur og hann tók að sér að hengja upp úr þvottavélinni. Vakti Odd um tólf til þess að kveðja hann líka og fór svo beinustu leið austur á Hellu. 

25.9.21

Kjördagur

Slökkti á vekjaraklukkunni korteri áður en hún átti að hringja. Fór á fætur og gaf mér tíma í netvafr áður en ég labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á vélinni fram að hádegi, að hlaða inn og troða í fram að kaffi og taka á móti, telja og skoða eftir kaffi. Eftir hádegi leysti ég þá sem var í bókhaldinu af þar til hún kom frá því að fara með mömmu sína í læknisheimsókn. Hættum vinnu um þrjú og þrjár af okkur fjórum fórum yfir í K2 þar sem verið var að kveðja starfsfólk sem hefur hætt sl. tæp tvö ár. Fimm aðilar alls en fjögur af þeim mættu og tóku á móti blómvendi og bókargjöf. Ég fékk svo far alla leiðina heim eftir uþb þriggja kortera stopp í kveðjuveislunni. Ég gat ómögulega ákveðið mig hvort ég ætti að skreppa í sund eða sjóinn. Það hefði reyndar átt að vera sjóferð því ég var búin að ákveða að sjá til þess að það verði opið á föstudögum á veturnar í Nauthólsvík. Til þess að það virki verð ég auðvitað að fara í Nauthólsvík á föstudögum. Nú hef ég hins vegar ekki mætt þangað tvo föstudaga í röð. 

24.9.21

Síðasti föstudagurinn í mánuðinum

Vekjaraklukkan vakti mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Hafði samt tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna þvert yfir Klambratún, Flókagötu, Gunnarsbraut, Snorrabraut, Laugaveg, Hverfisgötu og Ingólfsstræti að Kalkofnsvegi. Var mætt í vinnu rúmlega hálfátta. Tók strax til við að sinna smá bókhaldsstörfum áður en við kveiktum á framleiðsluvélinni og sóttum alla vagna inn á lager. Þá var kominn tími til að fara fram með nestið og vatnsflöskuna. Skipta um bol, fá sér smá kaffi og prjóna til klukkan átta. Vinnudagurinn leið ágætlega hratt. Vorum að til klukkan að verða hálffjögur. Þá labbaði ég heim yfir Skólavörðuholtið og nennti hvorki í sund né sjóinn heldur hélt mig heima það sem eftir lifði dags. 

23.9.21

Fimmtudagur

Það var fríkeypis í strætó í gær og ég nýtt mér það og tók vagninn korter yfir sjö. Var mætt í vinnu eftir sex vikna frí um hálfátta, ekki fyrst á mitt vinnusvæði en númer tvö af fjórum. Ein samstarfskona mín er í fríi þessa vikuna. Mitt hlutverk var að fara á móttökuendann á framleiðsluvélinni en fyrst tók ég til þær tegundir sem átti að framleiða í fyrstu tveimur verkefnunum. Eftir kaffi var ég frammi í pökkun og eftir hádegi var ég á ítroðsluendanum á vélinni og þá vorum við að vinna í endurnýjun, allt daglegt var búið. Hættum vinnu upp úr tvö og ég fékk far heim. Kalda potts vinkona mín var búin að setja sig í samband og spyrja hvort ég kæmi í sund og við hittumst í Laugardalslauginni um fjögur. Syntum ekkert en fórum sex sinnum í kalda og enduðum í gufunni.

22.9.21

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí

Ég var klædd og komin á ról um hálfátta í gærmorgun. Var heimavið mest allan daginn. Lánaði Oddi bílinn um ellefu leytið svo hann kæmist í starfsviðtal. Dagurinn hjá mér notaður í svipaða hluti og marga aðra innidaga. Klukkan átta bankaði ég upp á hjá nágrannanum á neðri hæð og var fyrst til að mæta á boðaðan húsfund. Á fundinn mættu fulltrúar úr sex íbúðum af átta. Eftir rúmlega klukkutíma fund var niðurstaðan sú að bíða með allsherjar framkvæmdir, hafna báðum tilboðunum og fá frekar múrara í að fylla í sprungur þar sem lekur. Ef múrarinn mun segja okkur að betra væri að fara í almennt viðhald munum við hlýða því en fáum líklega ekki eins gott tilboð í verkið og við vorum með. Ef múrarinn gerir hins vegar engar athugasemdir, lokar bara þessum sprungum, þá tökum við stöðuna eftir 3-4 ár. Í millitíðinni myndi ég láta taka gluggana í gegn hjá mér. Ég lét það alveg í ljós að ég hefði helst viljað fara í þessar framkvæmdir og benti á að með því að fresta þeim yrði þetta bara dýrara dæmi fyrir alla. Eins var samþykkt að segja sig úr húseigendafélaginu.

21.9.21

Síðasti "sunnudagurinn" í bili

Ég hrökk upp um eitt leytið í fyrrinótt við umgang, annar sonur minn að hleypa systurdóttur minn og kærasta hennar inn. Ég sneri mér á hina hliðina til að byrja með en kærustuparið lokaði sig af inni í stofu og tala saman á lágu nótunum. Gallinn er hins vegar sá að á nóttunni verður allt hljóðbærara. Hálftíma síðar sendi ég frænku minni sms um að það ætti að sofa á nóttunni. Kærastinn fór fljótlega en sms-svarið frá Bríeti fékk mig til að fara yfir til hennar og athuga hvort allt væri í lagi. Hún hafði sem sagt lent í því að keyrt var aftan á hana á ljósum. Var nýbúin að skila kærastanum heim og ætlaði sér eiginlega að keyra beint austur. Í staðinn gerist þetta. Lögregla og sjúkraflutningafólk kom á staðinn og einnig kærasti hennar. Hún var í 100% rétti en fékk létt áfall og kvíðakast. Hún þurfti ekki að fara á bráðamóttöku, var illt í höfði og í maganum og var sagt að ef hún kastaði upp þá þyrfti hún að fá frekari skoðun. Bíllinn var ökufær og kærastinn lagði honum í nágrenninu og skutlaði svo Bríeti hingað. Bríet fullvissaði mig um að það væri í lagi með sig. Hún hefði átt að mæta í vinnu um ellefu í gær en hringdi sig inn lasna um níu leytið. Hún lét einnig afa sinn vita að hún kæmi ekki austur fyrr en um kvöldið. Kærastinn ætlaði að koma með bílinn hennar eftir skóla. Hún fann fyrir eymslum í hálsi og herðum og tók því rólega fram eftir degi. Lögreglan hafði sagt henni að hafa samband við tryggingafélagið sitt og hún gerði það. Þar fékk hún þau svör að nóg væri að lögreglan skilaði inn skýrslu til þeirra. Mundi kom um fjögur leytið og þau kvöddu. Hún fór þó ekki austur fyrr en í gærkvöldi. Kærastinn er á leiðinni út í mánaða skíðaæfingabúðir og þau vildu nýta tímann eins vel og mögulegt var.

20.9.21

Næst síðasti sumarfrísdagurinn

Skutlaði N1 syninum á vakt um hálftíu og fór svo beint í Laugardalinn í sund. 3x fimm mínútur í kalda, einu sinni í heitasta, 300 metra bringusund, 10 mínútur í sjópottinn, 10 mínútur í gufunni og fimm mínútur í "sólbaði" áður en ég fór upp úr. Kom við í Krónunni við Fiskslóð áður en ég fór heim. Fékk stæði í Blönduhlíð og Oddur Smári var svo almennilegur að koma út, hjálpa mér með vörurnar inn og ganga frá þeim. Horfði á einn og hálfan leik í enska, hellti mér tvisvar upp á kaffi og hafði vefjur með kjúklingafílle, medium salsasósu og niðurskornu grænmeti í kvöldmatinn. Er uþb hálfnuð með HHhH og byrjuð á að lesa nýjustu bók Yrsu Sigurðardóttur; Bráðin.

19.9.21

Sunnudagur

Ég þurfti að ýta við N1 syninum upp úr klukkan sjö í gærmorgun til þess að ég gæti skutlað honum á vinnustað og að hann yrði mættur þar um hálfátta. Eftir skutlið fór ég beint heim aftur. Bríet svaf í stofunni svo ég lagði mig aftur upp í mitt rúm. Var reyndar að lesa hluta af tímanum. En um hálfellefu fékk ég mér eitthvað að borða og var mætt í Nauthólsvíkina um það leyti sem opnaði um ellefu. Hitti þrjár úr sjósundshópnum en ekki þær tvær úr sundi sem höfðu beðið mig um að hitta sig kannski. Busluðum í rétt rúmlega 10 gráðu sjónum í korter. Mér fannst of margt um manninn í bæði gufunni og pottinum svo ég fór beint inn í klefa. Var líka búin að lofa norsku esperanto vinkonu minni að kíka aðeins á hana um tólf, byrja svona aðlögunarhitting eftir langt hlé. Drakk tvo bolla af kaffi hjá Inger og Hinna. Við Inger færðum okkur fljótlega fram í forstofuherbergið. Stoppaði samt ekki nema um þrjú korter í þetta sinn. Heima var það svo, lestur, fótbolti, körfubolti og prjón sem reyndar var rakið upp. 

18.9.21

Laugardagur

Mætti í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta í gærmorgun. Byrjaði á því að skella mér í kalda pottinn í fimm mínútur áður en ég synti í uþb tuttugu mínútur, þar af tvær ferðir á bakinu. Fór aftur í kalda, smá stund í sjópottinn, gufubað, kalda sturtu og tvær mínútur í kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Næst lá leiðin í Kristu Quest við Laugaveg þar sem hárið fór í smá "viðhald". Það tók lengri tíma að þurrka og greiða hárið heldur en að snyrta endana. Pantaði næsta viðhaldstíma í byrjun mars og óskaði klipparanum mínum gleðilegra jóla áður en ég kvaddi og fór heim.

Seinni partinn í gær hringdi fyrrum kórsystir mín úr KÓSÍ kórnum. Sú er jafnaldra pabba og býr í þjónustuíbúð við Lindargötu. Það er orðið nokkuð langt síðan ég heimsótti hana síðast en ég hugsa oft til hennar og hringi stöku sinnum. Í gær varð henni hugsað til mín eftir að hafa séð tilsýndar fyrrum samstarfsmann minn í matsalnum að fá sér kaffi með háöldruðum föður sínum sem býr þarna. Vinnufélaginn fyrrveradi er sjálfur rúmlega sextugur og býr í íbúð stutt frá Hlemmi.

Bríet var ekki komin um ellefu í gærkvöldi og hún svaraði ekki símanum (enda var hún í bíó). Sendi henni skilaboð um að hringja í Odd til að opna fyrir henni þegar/ef hún kæmi. Sjálf væri ég á leið í háttinn þar sem ég hefði lofað Davíð Steini að skutla honum í vinnu þar sem hann átti að vera mættur um hálfátta í morgun. 

17.9.21

Föstudagur

Það leit lengi vel út að ég færi ekkert út úr húsi í gær. Var ekkert svo seint á fótum miðað við að vera í sumarfríi en það var eins og ég gæti ekki ákveðið mig hvort ég ætti að skella mér í sund eða sjóinn. Um tvö sá ég að ég hafði fengið tvær fyrirspurnir á facebook-spjallinu. Önnur var frá yngri systurdóttur minni um hvort hún mætti gista hjá mér um helgina og hin frá kalda potts vinkonu minni um hvenær ég væri á leiðinni í sund næst. Svaraði þeim báðum, frænku minni á þá leið að hún væri velkomin og hinni að ég væri ekki viss. Spurði í leiðinni hvenær hún færi í sund. Það varð úr að ég dreif mig í Laugardalinn klukkan að ganga fjögur og var búin að fara einu sinni fimm mínútur í kalda og synda 300 metra þegar vinkona mín mætti á svæðið. Fórum 6x3 mínútur í kalda og enduðum á góðri gufuferð. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn, hafði kjötbollur og var að búa til svoleiðis í annað sinn. Mjög gott hjá honum. 

16.9.21

Ennþá í sumarfríi

Klukkan var rétt að verða sjö þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Dagurinn fór þannig að ég fór ekki út úr húsi fyrr en langt gengin í fimm. Skutlaði þá Davíð Steini í myndatöku í Ármúlanum vegna einhvers hópleiks í netheimum. Ég notaði tækifærið og skrapp á bókasafnið. Skilaði af mér fimm bókum. Hugmyndin var svo sú að taka færri bækur í staðinn en mér rétt tókst að koma í veg fyrir að þær yrðu fleiri. Þannig að jafnmargar bækur fóru með mér heim og ég skilaði á safnið. Í viðbót við þessar fimm er ég með þrjár af safninu og er að lesa tvær af þeim. Söngur Súlu eftir Hrafnhildi Valgarðsdóttur og Hundalíf: ...með Theobald eftir Þráinn Bertelsson. Þriðja bókin er HHhH eftir Laurent Binet. Þessar bækur eru með skilafrest til 10. október með rétt til að framlengja um 30 daga. Hinar bækurnar eru með skilafrest til 15. október og einnig með rétt til að framlengja um þrjátíu daga.

15.9.21

Hugsað í hringi

Ég fór í sund um átta í gærmorgun en var annars heimavið allan daginn að sýsla við ýmislegt misgáfulegt. Sendi póst á þann sem hefur með "kannski tilvonandi framkvæmdir" að gera og lét vita að ég hefði ekki haft umboð til að samþykkja tilboðið. Hann hringdi til baka og kvatti mig til að boða til húsfundar til að kjósa um málið og hafa það skriflegt hvernig sem fer. Seinni partinn bankaði nágranninn niðri upp á til að athuga með mig eftir smá skammarfærslu á sameiginlega svæði beggja húsfélaga frá einum í 19. Nágranni minn sagðist hafa hringt í viðkomandi, hellt sér yfir hann og bent honum á nokkrar staðreyndavillur í skrifunum. Nágranninn niðri sagðist vera tilbúinn að hýsa húsfund hjá sér. Hann sagðist líka alveg vera tilbúinn að fresta framkvæmdum ef gert yrði við leka. Staðan er erfið hvernig sem á málið er litið. Hversu lengi er fólk að safna fyrir svona stórum framkvæmdum? Auðvitað mislengi og fjölskylda með ung börn og gæludýr örugglega lengur. Hefur maður samvisku til að senda svoleiðis fjölskyldu í erfiða stöðu þótt það þýði að greiðsluhlutur manns í verkefninu verði ekki jafn hagstæður þegar og ef farið verður einhvern tímann í þessar aðgerðir?

14.9.21

Mistök

Það varð uppi fótur og fit hjá tveimur af átta íbúðareigendum sameiginlegs húsfélgas þegar ég tilkynnti að búið væri að samþykkja verktilboð. Sem betur fer er ekki búið að skrifa undir neinn verksamning. En annar eigandinn benti á að það þyrfti samþykki á húsfundi og hinn vildi meina að það lægi ekkert á þessu næstu misserin. Ég væri alveg til í að losna undan stjórnarsetu sameiginlegs húsfélags en mundi samt greiða atkvæði mitt með húsinu hvort sem það atkvæði væri í meiri eða minnihluta. Það er kannski kominn tími til að líta í kringum sig eftir öðru húsnæði?

Fór í sjóinn um ellefu í gær. Hann var úfinn, það var flóð og hitastigið tæpar tólf gráður. Hafði það af að synda út að kaðli í gegnum öldurnar en þurfti að passa mig á að opna ekki munninn og anda þegar ég mætti þeim (öldunum). Skrapp í búð á leiðinni heim.

13.9.21

Tilboð samþykkt

Í dag rennur út frestur á verktakatilboði í framkvæmdir utanhúss. Sem formaður og vitandi að það er meirihluti í sameiginlegu húsfélagi Drápuhlíð 19-21 þá ákvað ég að samþykkja þetta tilboð án þess að boða til húsfundar. Rökin mín eru þau að Húsfélagið var stofnað í kringum þetta verkefni fyrir nokkrum misserum síðan, búið er að halda tvo aðalfundi og allir eru búnir að sjá þennan frest á sameiginlega svæðinu. Við vorum með tvö tilboð sem munaði rúmlega tíu millijónum á. Lægra tilboðið byggist á tilboði sem var lægst þegar verkið var sett í útboð á sínum tíma, að vísu ekki sami verktaki og þá. Að mínu viti get ég ekki séð að það þurfi að funda enn einu sinni til að taka ákvörðun. Það væri bara til þess að fara enn einn hringinn og jafnvel tapa af þessu tilboði. Er ekki líka kosið í stjórn til að fá þá aðila til að halda utan um þetta verkefni? Meðstjórnendur mínir eru sammála um að taka þessi tilboði og ýta þessu verkefni í gang. Þar að auki veit ég að nágrannar úr amk tveimur af hinum fimm íbúðunum (fyrir utan íbúðir stjórnar) eru samþykkir. Svo ég hef meirihlutann á bak við mig.

Mætti í sund um níu í gærmorgun. Synti aðeins 300 metra en fór nokkrum sinnum í kalda pottin, einu sinni í sjópottinn og endaði í góðu gufubaði. Eftir sundferðina fór ég beint heim aftur og hélt mig þar yfir bókum, prjónum, fartölvu, útsendingum frá íþróttaleikjum og þáttagláp.

12.9.21

Færsla 3000

Það var 19. janúar 2003 sem fyrsta bloggfærslan mín var. Þetta er færsla númer þrjúþúsund. Ekki hefur verið bloggað alla daga en á einhverju tímabilinu setti ég inn tvær færslur á hverjum degi og kallaði aðra þeirra millispil eða eitthvað þess háttar. Ef ég hefði bloggað einu sinni á dag allan tímann væru færslurnar orðnar í kringum sexþúsund.  Sjö af þessum tæpu átján blogg árum voru færslurnar færri en hundrað. Fæstar voru þær 2012 eða 12. Tveimur árum síðar, 2014, voru þær 368. Færsla dagsins er númer 252 og hef ég bloggað alla daga nema þrjá. Ef ég blogga alla þá daga sem eftir eru af þessu ári verður þetta blogg ár í öðru sæti yfir fjölda færslna, þ.e. ef ég sendi aðeins eina færslu á dag sem er líklegast.

Annars var ég vöknuð mjög snemma í gærmorgun og komin á fætur um sex. Sundlaugin opnar klukkan átta um helgar svo að sjálfsögðu notaði ég tímann til að vafra um á netinu. En ég var mætt í Laugardalinn um leið og opnaði. Fór fjórum sinnum í kalda pottinn, synti í tuttugu mínútur, var uþb korter í sjópottinum og tíu mínútur í gufunni. Þvoði svo á mér hárið áður en ég fór heim aftur. Heimadundið var svipað og venjulega, lestur, prjón, þáttaáhorf og eitthvað netvafr.

11.9.21

Vaknað mjög snemma

Á þessum tíma í gærmorgun, þ.e. um sjö, var ég ekki vöknuð. Rumskaði reyndar í fyrrinótt og átti smá erfitt með að sofna aftur en það hafðist á endanum. Klukkan var svo langt gengin í níu þegar ég fór á fætur. Sem fyrr byrjaði ég á því að setjast niður með fartölvuna eftir morgunverkin á baðherberginu. Um tíu fékk ég mér eitthvað að borða og ég var komin í Nauthólsvík um leið og opnaði. Kortið gilti enn en það var síðasti dagurinn af voraðganginum. Synti út að kaðli, kom við í víkinni og gufunni áður en ég skrapp aðeins í heita pottinn. Áður en ég fór af svæðinu keypti ég aðgan fram að áramótum og fékk smá afslátt af haustpassanum, borgaði tæpar sex þúsund í stað rúm sjöþúsund enda byrjaði tímabilið 23. ágúst sl. Áður en ég fór heim aftur kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsuflök og fiskibollur. Bræðurnir skruppu saman í Sorpu-ferð fljótlega eftir að ég kom heim. Annars er frekar lítið að frétta.

10.9.21

Komin heim

Tók því rólega framan af degi í gær. Var tillölulega snemma á fótum. Hellti upp á könnuna um níu. Var að prjóna, lesa, vafra um á netinu og leggja kapla. Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu og samkvæmt venju á fimmtudögum var stórsteik í matinn. Fljótlega eftir að við komum til baka fór pabbi út að slá. Ég fór að huga að því að taka mig saman. Klukkan var samt orðin hálfþrjú þegar ég var búin að ferma bílinn og kvaddi pabba. Þá sat hann út í garðskúr að gera við sláttuvélina en hann hafði slegið í sundur snúruna. Ég sagði honum að ég ætlaði lengri leiðina heim en myndi smessa á hann þegar ég væri komin í bæinn. Já, ég ákvað að keyra Suðurstrandaveginn og kom við hjá vinafólki í Grindavík. Var þar um hálffimm og stoppaði í rúman klukkutíma. Klukkan var að verða sjö þegar ég kom heim. Davíð Steinn var að vinna og ég fékk þá flugu í höfuðið að biðja Odd um að sækja hann eftir vaktina og mæla með því að þeir kæmu við og sæktu fjölskyldupakka af KFC á heimleiðinni. Það féll vél í kramið. Við vorum að borða um hálfníu og þá hefði N1 strákurinn verið rétt ókominn heim ef hann hefði þurft að taka strætó. Þær bræður komu bæði við á KFC og í pósthólfi við Krinluna á leiðinni af Gagnvegi. Vaktin hjá Davíð Steini stendur alltaf til kl.19:30. Ég fylgdist svo aðeins með útsendingu af bikarkeppni handbolta karla, 16 liða úrslitum á RÚV2.

9.9.21

Lífið er gott

Þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér hef ég ekki farið í sund á meðan ég hef verið í heimsókn hjá pabba. Fór á fætur rétt fyrir hálfníu í gærmorgun. Pabbi var komin úr sundi og að klæða sig í skárri leppana því tæpum klukkutíma seinna lagði hann af stað í bæinn. Hann átti eftirlitstíma vegna blöðrumála um ellefu á Landsspítalanum við Hringbraut. Tæpum einum og hálfum tíma eftir að pabbi fór, kvaddi systurdóttir mín mig og lagði af stað í sína vinnu. Hún er að vinna hjá SS á Hvolsvelli og þessa vikuna frá klukkan ellefu til sjö. Ég tók því rólega. Hellti upp á kaffi, las, prjónaði og vafraði aðeins um á netinu. Pabbi kom heim um hálftvö. Stuttu seinna fékk ég mér göngutúr upp á Helluvaði og heimsótti föðursystur mína. Sonur hennar og tengdadóttir sem búa í hinum enda hússins eru í Hveragerði þennan mánuðinn og frá og með næsta mánudegi fær frænka mín hálfs mánaðar hvíldarinnlögn á elliheimilinu Lundi. Hún, 93 ára og átta mánaða finnur fyrir að hún er að þreytast. Hins vegar er hún ekki einu sinni orðin hvíthærð eins og dóttir hennar sem er rúmum þrjátíu árum yngri.

8.9.21

Allt í rétta átt?

Svaf næstum því til klukkan átta. Var þó komin á fætur áður en pabbi kom heim úr sundi. Vafraði aðeins smástund á netinu. Þar sem var komið annað tilboð í framkvæmdir utanhúss sem var amk 10 millijónum dýrara en tilboðið sem við fengum í júli var ég beðin um að athuga hvort fyrra tilboðið stæði óbreytt. Hafði samband við milliliðinn, þann sem mundi skrifa upp á framvindureikninga og taka út verkið. Bað hann um að senda svarið í meili þegar hann væri búinn að tala við verktakann og taka fram hversu stuttan tíma við hefðum til að ákveða okkur. Svarið kom um miðjan dag. Tilboðið stendur til 13. september og framkvæmdir myndu byrja eftir miðjan október. Setti þessa tilkynningu inn á sameiginlega svæðið og bað fólk um að taka afstöðu. Allir eru búnir að sjá þetta en aðeins sá sem var í sambandi við þann sem gerði okkur seinna tilboðið búinn að svara. Hann tók það fram að hann vildi bara fylgja meiri hlutanum. Veit að ég hef formanninn í mínum stigagangi og mjög líklega þá sem eru með mér í stjórninni svo það eru fimm af átta. Spurning hvort stjórnin muni bara ekki taka aftöðu ýta málunum almennilega af stað? Þau sem aðallega hafa verið á "bremsunni" eru líklega í klemmu en þau eru búin að fá rúm þrjú ár og nú þarf að fara að kjósa með húsinu.

Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu og var rukkaður það sama fyrir minn skammt. Ekkert löngu eftir að við komum til baka kom maður einnar frænku minnar í móðurætt í heimsókn. Sá vinnur hjá Brimborg og hjálpar okkur oft við bílamálin. Hann var í veiði í Ytri Rangá, veiðifélagarnir farnir, og ákvað að kíkja aðeins á gamla manninn. Kona þessa manns og ég erum skyldar í annan og þriðja lið. Seinna skrapp pabbi í búðina, hafði gleymt miðanum heima þegar við fórum í hádeginu. Eftir kaffi ákvað ég að safna skrefum. Fæturnir báru mig þó fyrst í hús við Nestúnið og þar stoppaði ég í hátt í klukkustund áður en ég hélt gönguferðinni aðeins áfram. Eftir kvöldfréttir í sjónvarpinu skiptum við yfir á RÚV2 og horfðum á bikar leik í körfbolta karla, Stjarnar-KR þar sem fyrrnefnda liði hafði sigur og fór í átta liða úrslit.

Eldhúshandklæði (eða tuska í stærra lagi) "datt" af prjónunum og ég er langt komin með enn eitt teppaprjónið. Svo er ég byrjuð á skammtímalánsbókinni; Vítisfnykur eftir Mons Kallentoft.

7.9.21

Í heimsókn hjá pabba

Fótaferðatíminn í gær var á áttunda tímanum. Tók því rólega til að byrja með og notaði fyrsta klukkutímann í vafr á netinu, blogg og þ.h. Um hálftíu hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér tvær brauðsneiðar með osti með. Pakkaði svo niður að mestu. Var mætt í Nauthólsvík um klukkan ellefu. Hitastig sjávar var 1,3°C lægra en á föstudaginn var eða 11,6°C. Það var fjara, hægt að labba út að kaðli, rigning og nánast engin ferð á logninu. Synti út að kaðli og aðeins lengra og svo alla leið til baka aftur. Var um tuttugu mínútur í sjónum og svo tæpt korter í heita pottinum. Davíð Steinn var vaknaður og búinn að fara í sturtu þegar ég kom heim til að ganga frá sjósundsdótinu og ná í dótið sem ég ætlaði að taka með mér austur. Kvaddi strákana og varð að vekja Odd til að segja bless við hann. Kom við í Fossheiðinni og stoppaði þar í rúma klukkustund. Hafði ekki komið þangað í margar vikur. Frétti m.a. að útskirftarbróðir minn úr FSu hafði komið þar við um morguninn og stoppað mun lengur en ég. En hann, sem býr á Ísafirði, var ekki búinn að koma í heimsókn í uþb sex ár. Var komin á Hellu um hálffjögur. Pabbi var að klára kaffitímann sinn. Hingað hef ég ekki komið síðan um miðjan júli og löngu kominn tími til. Tók upp prjónana mína og eina af þremur bókum sem ég var með með mér af safninu og settist inn í stofu. Yngri systurdóttir mín var að vinna og kom ekki heim fyrr en um átta. Ég var með steikt marineruð laxaflök og gufusoðið blómkál í kvöldmatinn. Pabbi vildi bara fá sér sitt snarl því hann borðar á Kanslaranum öll virk hádegi. Bríet fékk sér aðeins af afgangnum þegar hún kom heim en gat ekki klárað, hvort sem þetta var of mikið, ekki nógu gott eða hún ekki svo svöng. Pabbi átti heila, óopnaða hvítvínsbelju og ég fékk mér í tvö og hálft glas milli átta og tíu. Fór í háttinn um ellefu og las til miðnættis.

6.9.21

Held að það sé mánudagur ;-)

Ég rumskaði alltof snemma í gærmorgun, eiginlega var bara hálfgerð nótt ennþá um fjögur. Upp úr klukkan fimm fór ég fram á baðherbergi og í bakaleiðinni kom ég við í stofunni og kveikti á fartölvunni í uþb hálftíma. Um sex gerði ég aðra tilraun til að leggja mig og það virkaði, svaf til klukkan að ganga níu. Þá fór ég á fætur og var að lesa þar til kominn var tími til að skutla N1-syninum í vinnuna. Fór beinustu leið í sund eftir skutlið og hitti strax á kalda potts vinkonu mína sem hafði verið í sambandi við mig kvöldið áður. Sundferðin fór eiginlega öll í potta ferðir, aðallega í þann kalda og heitasta. Fórum eina ferð í sjópottinn þar sem við hittum systur vinkonu minnar. Ég hitti líka einn frænda minn. Fór í gufu eftir síðustu ferðina í kalda pottinn. Næst lá leiðin í Krónuna. Eftir verslunarferðina fór ég beint á bókasafnið. Skilaði sjö bókum af tíu og tók fimm bækur í staðinn. Ein af þeim er með 14 daga skilafresti. Skilafrestur bókanna þriggja sem voru heima var 9. og 13. september en ég framlengdi þeim um 30 daga þannig að það er aðeins ein bók af átta sem þarf að skila í þessum mánuði, skammtímalánsbókinni á að skila 19. sept. n.k. Komst með allt úr bílnum í einni ferð. Oddur Smári gekk frá vörunum. Rétt fyrir tvö lánaði ég honum bílinn en hann var einn af þeim sem sáu um gæsluna á landsleiknum í gær. Ég fór ekkert út aftur í gær var að lesa, prjóna, horfa á SEAL-þætti og fylgdist einnig með landsleiknum.

5.9.21

Meira skutl

Ég hafði smá tíma til að vafra um á netinu um sjö í gærmorgun áður en ég þurfti að skutlast með N1-soninn á vinnuvakt. Hann þurfti að mæta hálftíma fyrir opnun til að baka og undirbúa. Ég var einmitt að hleypa honum út við N1 á Gagnvegi um hálfátta og hann var svo elskulegur að færa mér kaffibolla út í bíl. Það var hans fyrsta verk á vinnustað meira að segja áður en hann stimplaði sig inn. Ég tók smá rúnt vestur á Granda á meðan ég drakk kaffið en ég var mætt í Laugardalinn strax eftir að opnaði um átta. Byrjaði á kalda pottinum. Eftir aðra ferðina í kalda synti ég í tuttugu mínútur á brautum 6, 7 og 8. Synti nokkrar ferðir á bakinu enda ætlaði ég mér að þvo hárið eftir sundferðina sem ég og gerði. Annars gerðist ekki mikið meira í gær. Komst reyndar að því að ég var búina að lesa bókina Manneskjusaga. Sú bók kom út 2018. Ég kveikti ekki þegar ég las aftan á bókina en um leið og ég byrjaði að lesa mundi ég eftir sögunni og ákvað að lesa hana ekki ekki aftur amk ekki í þetta sinnið. 

4.9.21

Skutl

Var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Dundaði mér við ýmislegt framan af morgni. Um tíu bjó ég mér til hafragraut úr mjöli frá Vallarnesi og hellti upp á kaffi. Var komin í Nauthólsvík rétt rúmlega ellefu. Sjórinn 12,9°C, byrjað að fjara út og ég synti út að kaðli á baki, bringu og skriðsundi. Kom aðeins við í lóninu og var svo rúmar tíu mínútur í heita pottinum áður en ég fór aftur heim. Gærdagurinn var tíðindalítill að öðru leyti. Horfði á nokkra SEAL-þætti, prjónaði og fylgdist með klassíkinni okkar og ólympíukvöldi. Kláraði að lesa  Gæðakonur áður en ég fór að sofa og var klukkan orðin meira en miðnætti að lestri loknum.

3.9.21

Viðgerð á framrúðu

Rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun sendi ég póst úr eigin netfangi á eina sem er í innheimtudeildinni og bað hana um að framsenda erindi mitt um ofgreidd gjaldheimtugjöld á viðeigandi aðila. Ég veit að hún varð við beiðni minni því hún hafði netfangið mitt með þegar hún framsendi póstinn. Málið er því komið í farveg en ekkert að frétta af því ennþá. Klukkan tíu lagði ég af stað í sund. Byrjaði á að fara í kalda pottinn í fimm mínútur. Synti næst í tuttugu mínútur á braut sex. Fór aftur í kalda, eina ferð í heitasta pottinn, þriðju ferðina í kalda og endaði í gufubaði og svo kaldri sturtu. Eftir sundið fór ég í Orku við Stórhöfða og bað um að fá skemmdina í framrúðunni skoðaða. Ég var svo heppin að sá sem skoðið sagðist geta gert við skemmdina og væri með tíma strax klukkan eitt. Ég skrapp heim með sunddótið, fékk mér að borða og hlustaði á hádegisfréttir. Var komin aftur upp í Orku rétt fyrir eitt. Afhenti bíllyklana og þurfti svo aðeins að bíða í tuttugu mínútur. Fékk mér kaffi á meðan. Þurfti ekkert að borga fyrir viðgerðina. Skemmdin sést en miklu minna en fyrir viðgerð. Þar sem staðurinn er ekki á rúðunni bílstjóra meginn er líklegt að ekki verði gerð nein athugasemd í næstu skoðun (eftir ár) svo fremi sem ekkert annað gerist í millitíðinni. 

2.9.21

Letidagur

Þrátt fyrir að vera komin á fætur einhvern tímann á áttunda tímanum í gær langaði mig aldrei þessu vant hvorki í sund, sjóinn, né að fara neitt. Maður skildi ætla að þá hefði ég ekkert að segja frá gærdeginum sem fór í smá prjónaskap, smá tölvustúss en að mestu leyti í hámhorf á þætti úr þáttaröðinni seal team sem finna má í sarpi sjónvarps símann. Opnaði ekki bók fyrr en ég fór upp í rúm um ellefu og las þá í tæpa klukkustund. En það var eitt sem ég tók eftir þegar ég skoðaði nýjasta launaseðilinn. Það voru teknar af mér 6.100 kr. í gjaldheimtugjöld til skattsins. Samkvæmt álagningaseðli 2021 átti ég inneign að upphæð 125 kr. eftir skattauppgjör síðasta árs. Í stað þess að endurgreiða nákvæmlega þessa krónuupphæð inn á reikning minn þann 1. júní sl. þá var dæmið sett þannig upp að ég fékk endurgreiddar 12.325 kr. 1. júní en 1. júli og 1. ágúst átti ég að greiða 6.100 kr. eða samtals 12.200. Þetta er tekið af í gegnum launauppgjörið og útnefnist gjaldheimtugjöld. Nú er hins vegar kominn september. Samt var dregið frá 6.100 og heildarfrádráttur í þessum lið orðinn 18.300 kr. Af þessu tilefni sendi ég póst í morgun úr heimanetfangi mínu á eina sem vinnur í innheimtudeildinni og bað hana um að framsenda erindið til viðeigandi aðila ef hún væri ekki að sjá um launamálin. Er ekki búin að athuga hvort ég hafi fengið svar en er að vinna í því að koma mér af stað í sund. 

1.9.21

Vinnufélagi kvaddur

Þrátt fyrir að vera komin á fætur um sjö í gærmorgun var klukkan byrjuð að ganga ellefu áður en ég dreif mig loks úr húsi og í sund. Það fór rúmlega klukkutími í að pottormast, gufast og synda. Sama og engin þrýsingur var á heita vatninu í klefanum en mér fannst ekkert mál að baða mig í kaldri sturtu. Þær sem ég hitti í kalda pottinum kvörtuðu yfir því að hann væri of kaldur. Ég taldi hann vera innan marka, einhvers staðar milli 6 og 8 gráður, og fannst gott að sitja í honum í nokkrar mínútur í einu. Var komin heim aftur stuttu fyrir hádegisfréttir. Hlustaði á þær og prjónaði á meðan. Hellti mér svo upp á kaffi um eitt leytið. Dagurinn leið frekar hratt þrátt fyrir að ég væri ekki að gera neitt sérstakt. Rétt fyrir sex klæddi ég mig í sparileppana og fékk einkabílstjórann til að skutla mér að Barion við Grandagarð. Þar fór fram kveðjuathöfn eins sem varð 67 í júní sl. og er búinn að vinna hjá reiknistofunni síðan 25. febrúar 1980. Í gær var síðasti vinnudagurinn hans. Kveðjuveislan var ekki fjölmenn en við mættum allar úr kortadeildinni og svo voru þarna líklega 10 aðrir, þar á meðal næstráðandi yfirmaður hans. Einn fyrrum starfsfélaga hafði verið boðið en hann kom ekki og hvorki framkvæmdastjórinn yfir sviðinu né forstjóri en ég veit ekki hvort tveimur síðastnefndu var boðið. Boðið var upp á Baríonborgara eða vegan og svo mátti drekka það sem maður vildi. Ég drakk tvö hvítvínsglös. Þar sem við úr kortadeildinni mættum ekki allar á sama tíma fengum við ekki sæti saman. Vorum tvær rétt hjá þeim sem verið var að kveðja en hinar þrjár urðu að setjast á næsta borð. Hefðum reyndar getið setið allar þar en hálftíma áður en við hættum að vera þarna myndaðist pláss hjá okkur tveimur og hinar þrjár komu til okkar. Um hálfníu fékk ég far með einni samstarfskonu minni heim. Áður en við fórum föðmuðum við fráfarandi vinnufélaga, sem ég er búin að vinna með í 21 og hálft ár, og tókum af honum loforð um að heimsækja okkur á vinnustað stöku sinnum. Hann lofaði að koma ef hann fengi stundum vöfflur.