Á skírdagsmorgun var ég að sjálfsögðu mætt í Laugardalinn rétt upp úr klukkan átta. Sinnti rútínunni vandlega og fór svo auka ferð í kalda pottinn. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar ég var búin að blása á mér hárið. Var með esperanto bakpokann í skottinu en ég kom fyrst við hjá Atlantsolíu í Öskjuhlíðinni.
Við Inger kláruðum fimmta kaflann í Kon-Tiki og þóttumst vera afar duglegar. Við munum hins vegar ekki hvenær við byrjuðum að lesa þessa bók en það er amk ár síðan og við erum rúmlega hálfnaðar. Eftir esperanto-hittinginn fór ég heim til að hengja upp sunddótið, setja ofan í tösku og "vekja" tvíburana til þess að kveðja þá. Á austur leiðinni kom ég við í Fossheiðinni.
Hálftíma eftir að ég var kominn á Hellu komu fjórir gestir í heimsókn, 2 af þremur systkynum og makar þeirra. Litla systir þeirra og hennar maki eru í gólfferð á Spáni þessa dagana. Þessi systikyni og mamma eru systkynabörn. Gestirnir höfðu gert boð á undan sér og bannað pabba að hafa fyrir þeim. Hann átti bara að hella upp á þegar þau kæmu. Mamma hafði samt útbúið rækjusallat. Fjórmenningarnir stoppuðu í rúma tvo tíma.
Um kvöldið opnaði ég hvítvínsflöskuna sem Inger og fjölskylda gáfu mér. Mamma þáði aðeins einn sopa en pabbi, sem yfirleitt fær sér frekar rauðvín eða bjór þegar hann fær sér, þáði í glas og þótti þetta gott. Við feðginin kláruðum samt úr flöskunni svo ég tók afganginn með mér í bæinn aftur í gærkvöldi.