Glaðvaknaði amk hálftíma áður en vekjarinn í gemsanum átti að fara í gang, rétt um sex í gærmorgun minnir mig.. Ákvað mjög fljótlega að afstilla/slökkva á vekjaranum og fara að sinna morgunverkunum. Þar sem sundferðir liggja niðri þessa vikuna notaði ég nýju græjurnar á baðherberginu sem eru orðnað hálfs árs. Hef verið mun duglegri við að drífa mig í sund heldur en að nota sturtuna heima. Morgunstundin varð drjúg. Ég kveikti á tölvu og setti inn færslu gærdagsins þegar ég var búin að fá mér eitthvað í gogginn og taka mig til fyrir vinnuna. Slökkti aftur á tölvunni eftir að hafa opinberað færsluna og stökk svo af stað í vinnuna, stystu leið, beint yfir Skólavörðuholtið. Þegar ég mætti í vinnuna varð ég að byrja á því að skipta um bol því það ég var rennblaut á bakinu.
Vinnudagurinn leið hratt að venju og teygðist aðeins yfir fjögur hjá mér. Ákvað því að láta það eftir mér að hringja á einkabílstjórann sem kom strax og sótti mig. Heima fór ég fljótlega að undirbúa kvöldmat og sumarsaumaklúbbshitting. Kvöldmaturinn var rabbarbaragrautur að upplagi en ég bætti nokkrum rifsberjum út í pottinn og þótti grauturinn góður.
Það var 100% mæting í saumaklúbbinn og auðvitað leið kvöldið alltof hratt. Tvær af okkur töldum út og ein var með prjónana sína. Að venju var mikið spjallað og hlegið en við ákváðum að láta það ráðast hvenær næsti saumaklúbbshittingur verður.