31.3.14

Liverpool á toppnum

Fór á stjá rétt fyrir níu og fékk að byrja á því að skella mér í sturtu.  Pabbi var búinn að borða morgunmatinn og farinn inn að leggja sig smá aftur þegar ég kom fram í eldhús.  Hann var aftur á móti búinn að kveikja á tölvunni sinni svo ég settist við hana um leið og ég var búin að fá mér eitthvað og kveikja á kaffikönnunni.  Dagurinn leið ógnar-hratt.  Ég greip í sauma og kláraði meðal annars jólakortið sem ég byrjaði á í saumaklúbb um daginn.  Einnig las ég, spjallaði við foreldra mína og vafraði á netinu.  Upp úr hálffimm tók ég mig saman, fékk m.a. 2 berjapoka og nokkur egg með mér, og kvaddi svo.  Gleymdi reyndar einni flösku af asea en ég er nýbúin að ná í sendingu og á þrjár heima svo ég þurfti ekki að snúa við.  Var komin í Fossheiðina á sjötta tímanum, langt á undan "tvíburahálf- og föðursystrum" mínum.  Þær skiluðu sér um hálfsjö.  Fengum þessa dýrindis kjötsúpu í matinn sem var þykk og matarmikil.  Húsmóðirin sagði að þetta væri eiginlega kjötgrautur, súpan var svo þykk.  En góð var hún og eins og venjulega varð maður pakksaddur af trakteringunum.  Við vorum mættar upp í fjölbrautaskóla rétt fyrir átta og þar var þýskukennarinn, Ingi S. mættur og búinn að opna.  Fólk fór að tínast í hús og það sáust nokkur ný andlit. Sungum yfir þessi fjögur lög og eitt til vara og æfðum einnig innkomuna en rétt eins og í gamla daga er stefnan sett á að koma syngjandi inn á "Cum de core". Æfingin stóð yfir í um það bil klukkustund svo ég var komin heim til mín fyrir hálfellefu.  Strákarnir sendu mér sms að þeir yrðu hjá pabba sínum til morguns.  Koma semsagt heim í dag.

30.3.14

Í góðu yfirlæti

Þrátt fyrir að hafa ekki farið að sofa fyrr en eftir klukkan eitt í fyrrinótt var ég komin á stjá um níu í gærmorgun og tókst svona nokkurn veginn að borða morgunmat með föður mínum.  Morguninn fór svo í lestur, tölvuleiki og útsaum.  Greip í "Lost no more" myndina og saumaði smá.  Það lítur út fyrir að ég ætli að vera jafnlengi með þetta litla svæði sem eftir er (trjá lauf) og allt það sem ég er komin með áður.  En ég er alveg róleg.  Verkefnið mun klárast á endanum.  Nokkru eftir hádegi skrapp ég í smá göngutúr sem endaði í Bogatúninu hjá gömlu hjónunum sem einu sinni áttu heima hér við hliðina í Hólavanginum.  Þau eru fædd 1920 og 1927, hún yngri löngu orðin hvíthærð en svo slétt og fín í framan.  Hann verður 94 ára í sumar og er ekkert orðin neitt hvíthærður, hreyfir sig hægt og er með göngugrind síðan hann lærbrotnaði fyrir skömmu en bæði eru mjög viðræðugóð og hjartahlý.  Þáði hjá þeim kaffi og pönnsur og kom svo til baka um það leyti sem pabbi var með kaffitímann hér.  Eftir kvöldmat horfðum við mamma á síðasta hlutann af Ladda-þáttunum.

29.3.14

Á æskuslóðum

Lánsbíllinn var notaður til að komast í og úr vinnu í gær.  Vinnudagurinn leið afar hratt við ýmis verkefni. M.a. kláraði ég endurreisnarverkefnið og hafði þá alls notað rúmlega 40 klst. til að sinna því (Mér skilst að áætlað hafi verið að þetta tæki milli 40 og 60 klst enda var ég stundum allt að tvo tíma með að endurskrá gögn og uppfæra fyrir einn einasta mánuð).  Kom heim upp úr fjögur.  Einn spilafélagi bræðranna var mættur og þeir höfðu allir fengið sér kaffi og klárað uppáhellinguna. Ég vissi að eftir spilakvöldið myndu strákarnir fara til pabba síns svo ég var búin að taka ákvörðun um að skreppa í heimsókn til foreldra minna.  Löngu kominn tími á það.  Hringdi í pabba, tók mig til og kvaddi strákana áður en klukkan var orðin fimm.  Rennifæri var alla leið austur og ég var komin rétt upp úr sex.  Pabbi bauð upp á rúmlega tveggja ára hvítvín eftir mat og skiptum við flöskunni á milli okkar.  Ég horfði með þeim á Útsvarið og sat svo ein að sjónvarpinu næstu tvær myndir.  Þá voru pabbi og mamma farin að sofa en ég slökkti á imbanum og fór "aðeins" að vafra um á netinu, í klukkutíma eða svo áður en ég slökkti líka á tölvunni og las einn kafla áður en ég fór að sofa.

28.3.14

Föstudagur enn á ný

Þriðja morguninn í röð fór ég með strætó í vinnuna.  Mín verk í vinnunni voru bókhaldstengd svo ég gat aðeins unnið í endurreisnarverkefninu líka.  En rétt fyrir fjögur vorum við búnar að taka saman.  Ein var reyndar farin aðeins fyrr en við hinar þrjár urðum samferða í K2 á sviðsfund.  Fundurinn varði í tæpa klukkustund og þá rölti ég heim.  Reyndi að hringja í tvíburana annar svaraði ekki en hinn sagðist vera búin að búa til kaffi handa mér.  Ég fór þó ekki alveg beint heim heldur sótti lánsbílinn og rak nokkur erindi.  Þurfti að skreppa í hraðbanka, ná í smá sendingu og svo nýtti ég mér 12 kr afsláttinn hjá Atlantsolíu og dældi tæpum 12 lítrum á tankinn.  Hef greinilega ekki verið að keyra mikið síðan 17. mars.  Var með lifur í hvítlauks- og hvítlaukskryddaðri edikssósu.  Skrapp svo á Valsvöllinn og sá "mína menn" liggja fyrir Haukum 30:33 í næst síðasta heimaleiknum á tímabilinu.  Það var búið að hella aftur uppá er ég kom heim af leiknum.  :-)

27.3.14

Seint er skrifað

Ég "hoppaði" upp í leið 13 á sama tíma og frá sama stað í gærmorgun og á þriðjudagsmorguninn.  Vorum einum færri í vinnu á deildinni svo við fyrirliðinn tókum þá ákvörðun að geyma endurreisnarverkefnið svo álagið yrði ekki of mikið á þær hinar.  Nóg er að gera og svo kom einnig upp sú staða að önnur okkar fyrirliðans vorum boðaðar með stuttum fyrirvara yfir í K2.  Ég fékk að ráða og ákvað að fyrirliðinn skyldi sjá um "útkallið".  Hún fór því fyrir tíu og var um tvo tíma í burtu en átti von á því að verða kölluð aftur.  Það gerðist þó ekki í gær.  Klukkan þrjú vorum við þrjár eftir en ákváðum stuttu seinna að "pakka saman" og kalla til viðgerðarmann til að skipta um hjól þar sem umslagavélin dregur niður umslögin.  Það er frekar tafsamt og þreytandi að vinna á vélina ef hún hagar sér ekki alveg sem skyldi.  Var örlítið sein fyrir út úr húsi eftir vinnu.  Oftast er 13 hvort sem er ekki alveg á tíma en í gær var vagninn akkúrat á réttum tíma (3 mín yfir heila tímann) og ég var ekki komin út að stoppistöð þótt hún sé örskammt frá vinnunni.  Tók því næsta vagn, ásinn, upp á Hlemm og beið þar eftir næsta 13.  Bræðurnir voru ekki búnir að gera það sem ég hafði beðið þá um hér heima svo ég ákvað að sleppa því að elda.  Reyndar var til nægur afgangur af mat frá því fyrr í vikunni.  Annar bróðirninn dreif verkefnin af og svo björguðu þeir sér sjálfir með afganginn.  Ætlaði varla að nenna á kóræfingu en dreif mig og sé alls ekki eftir því.

26.3.14

Blautur dagur í dag

Ég tók leið 13 upp úr hálfátta við Sunnubúð í gærmorgun.  Framan af vinnudeginum var ég í endurreisnarstarfssemi en ég var líka eitthvað að leysa af í kaffi og hádegi.  Rétt fyrir tvö fórum við allar úr deildinni yfir í K2, turninn við Katrínartún (Höfðatorg) á tveggja tíma vinnufund.  Þaðan labbaði ég svo heim í fínu veðri.  Lánsbíllinn var ekkert hreyfður í gær enda hélt ég mig heimavið seinni partinn og um kvöldið.  Var með steiktan þorsk í matinn og notaði afganginn af búlgunum blönduðum með graskersfræjum og ananas sem ég var með kjúklingaréttinum rétt fyrir helgi.  Í búlgurnar hafði ég einnig hellt soðinu af kjúklingnum.  Annar strákurinn fékk sér tvisvar á diskinn honum fannst þetta svo gott.  Oddur og ég horfðum á Castle en svo fóru bræðurnir í heimsókn til vinar og var ég komin upp í rúm áður en þeir komu aftur.  Er enn ekki byrjuð að lesa í neinni bók af safninu því ég er enn að lesa Grimmd eftir Stefán Mána.  Sú bók er afar grípandi en líkt og með Sandmanninn þá næ ég að lesa bara part og part og slíta mig svo frá efninu á milli.  Kæmist líklega yfir meiri lestur ef ég endurskoðaði tímann sem fer í netvafr og netleiki.  ;-)

25.3.14

Aðeins vika eftir af mars

Ég fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun þar sem ég var alveg ákveðin í að skreppa á sýsluskrifstofuna að sækja skjal úr þinglýsingu.  Ég lét verða af þessari skreppu minni rétt fyrir tvö og var komin til baka uþb tuttugu mínútum síðar.  Annars var vinnudagurinn fljótur að líða.  Ég fór beint heim eftir vinnu og komst þá að því að annar tvíburinn hafði tekið það upp hjá sjálfum sér að sortera og ganga frá ófrágengnum hreinum þvotti.  Mikið sem ég var glöð með drenginn.  Fyrir utan matarstúss og eina kaffiuppáhellingu leið seinni parturinn og kvöldið við netvafr, sjónvarpsgláp og lestur.

24.3.14

Ný vinnuvika

Ég var hás og afar löt þegar ég vaknaði rétt fyrir tólf í gær.  Var lengi að koma mér í gang en ákvað mjög fljótt að taka því bara rólega svo ég sendi kórstjóranum sms um að ég kæmi ekki í messuna.  Oddur Smári fór með mér í Krónuna seinni partinn, gekk frá vörunum er við komum heim aftur og tók svo strætó til pabba síns.  Ég hélt bara áfram að taka því rólega.  Hellti ekki upp á fyrr en eftir kvöldmat.  Las, drakk kaffi, vafraði um á netinu og horfði á sjónvarpið.  Gærdagurinn var sannkallaður notalegur letidagur.

23.3.14

Bláa lónið

Tók því nokkuð rólega til að byrja með í gærmorgun.  Varð vör við tölvustrákinn um átta og fór fram til að athuga hvort hann ætlaði ekki í sturtu.  Eins gott að ég gerði það því drenginn vantaði handklæði og hafði ekki hugsað sér að trufla mig þótt handklæðin væru geymd í skáp í mínu herbergi.  Mikið verður það nú annars frábært þegar búið verður að gera upp baðherbergið og setja m.a. skáp þar inn þar sem hægt verður að geyma handklæði og fleira.  Tölvuneminn úr Tækniskólanum var svo farinn út úr húsi fyrir níu til að mæta í morgunmat í HR áður en keppnin hófst.  Í HR var hann langt fram á dag og hans lið lenti í 8. sæti af 26.

Um eitt leytið skrapp ég í Kringluna, alveg búin að steingleyma að það var kringlukast.  Leið mín lá í skóverslunina Steinar Waage þar sem ég fann á mig nýja eccoskó sem ég borgaði með jólagjöf vinnunnar, gjafakorti, og á þá líklega um 5000 eftir enn af jólagjöfinni.  Undanfarna daga hef ég verið að lesa bók eftir hjón sem skrifa undir nafninu Lars Kepler, Sandmaðurinn.  Það er merkilegt hvað mér hefur tekist að slíta mig frá þesseri spennandi bók sem þar að auki er skrifuð í stuttum köflum.  En í gær hætti ég ekki lestri fyrr en ég kláraði bókina.  Þá var líka kominn tími til að skvera sig upp og skreppa í fyrir partí fyrir árshátíð.  Þar stoppaði ég í rúma klukkustund eða þar til kominn var tími til að ná rútunni í Mjóddinni.  Geymdi lánsbílinn á Olísstöðinni við Mjódd því ég hafði tekið þá ákvörðun um að drekka ekkert nema vatn og kannski kaffi.  Um sjö var rútan komin að veislusalnum við Bláa lónið.  Held að okkar rúta hafi verið fyrst en það voru einhverjir komnir á einkabílum. Um leið og maður var búinn að taka af sér lenti maður í myndatökuröð áður en haldið var áfram upp stiga þar sem fordrykkurinn var borinn fram.  Sleppti þeim drykk því sá óáfengi var sprite, sem ég drekk ekki, og ég vildi ekki láta hafa fyrir mér og sækja fyrir mig vatn.  Um átta var sest að borðum.  Maturinn og þjónustan var til fyrirmyndar, veislustjórinn (Kári Viðarsson) og skemmtiatriðin stóðu alveg undir væntingum og hljómsveitin Dalton sá svo um að halda upp fjörinu alveg til tvö.  Ég söng og dansaði alveg helling og nýju skórnir reyndust bara afar vel.  Smá tíma tók að smala fólki í rúturnar en við vorum komin aftur í Mjóddina rétt fyrir þrjú.  Skutlaði einni af deildinni minni heim og var komin heim sjálf um hálffjögur.  Þar hitti ég tölvustrákinn að vinna á tölvuna sína í myrkrinu í stofunni.  Ég skreið fljótlega upp í rúm en fór ekki alveg strax að sofa heldur byrjaði að lesa nýja bók sem systir mín lánaði mér um daginn, Grimmd eftir Stefán Mána.

22.3.14

Árshátíðarhelgi

Ég ákvað að fara á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun þar sem ég ætlaði að fá að skreppa og sækja skjal úr þinglýsingu á sýsluskrifstofuna.  Það var hins vegar eignalega enginn tími góður til að skreppa aðeins, m.a. vegna þess að það þurftu fleiri að skreppa út af mikilvægarari málefnum.  Skjalið mitt mátti alveg bíða aðeins.  Ég var nær eingöngu í "endurreisnarstarfinu" fyrir utan smá afleysingu á vélinni.  Eftir vinnu lét ég fyrst þvo lánsbílinn á snertilausu stöðinni við Skúlagötu.  Þegar bíllinn var orðinn hreinn að utan fór á borgarbókasafnið, aðalsafnið, í Grófinni.  Þar skilaði ég inn öllum sjö bókunum og tók mér sex aðrar í staðinn, sumar mun þykkari en ég var að skila en engin á skammtímaláni.  Kom heim um fimm.  Oddur kom ekki löngu síðar úr smá undirbúningi úr HR þar sem fer fram forritunarkeppni í dag.  Hafði matinn einhvern tímann upp úr hálfsjö.  Um átta varð ég vör við að Davíð Steinn var að brasa eitthvað í eldhúsinu.  Í fyrstu hélt ég að hann hefði tekið upp hjá sjálfum sér að vaska upp en hann var þá að hella upp á kaffi sem mér fannst alveg eins gott.  :-)

21.3.14

Föstudagur

Þá er þessi vinnuvika liðin og var fljót að.  Reyndar var ég bara í vinnu í þrjá daga.  Fór með strætó í vinnuna í gær.  Dagurinn leið mjög fljótt enda sökkti ég mér á kaf í endurreisnarverkefnið mest allan tímann.  Hoppaði svo upp í næsta strætó rúmlega fjögur og tók skiptimiða til að stoppa á Hlemmi og kaupa mér fleiri strætómiða.  Kom heim rétt fyrir fimm.  Restin af deginum fór í eitt og annað, m.a. greip ég aðeins í saumana mína, nýjasta jólakortaverkefnið.

20.3.14

Fríið búið í bili

Mér tókst ekki að kúra lengur en til hálfníu í gærmorgun sem var í sjálfu sér bara ágætt.  Notaði morguninn í alls konar hluti en upp úr klukkan eitt rölti ég á sýsluskrifstofuna með umslagið frá íbúðalánasjóði um afléttingu veðs á bílskúrnum.  Fór fyrst upp á þriðju hæðina en var send beint niður á fyrstu hæð.  Þar byrjaði ég á því að fara í almenna afgreiðslu en var sagt að ég ætti að fara innar og taka númer.  Reyndar ákvað sú sem afgreiddi mig í afgreiðslunni að skoða aðeins málin og þá kom nokkuð ófyrirsjáanlegt í ljós.  Ég hafði aldrei lesið yfir gögnin í umslaginu.  Umslagið var greinilega merkt mér en innihaldið var um íbúð í Álftamýrinni.  Ég trítlaði því heim til að sækja bílinn og fór beint niður í Borgartún 21.  Þar skilaði ég inn þessum "röngu" gögnum og fékk mín afgreidd í staðinn.  Síðan brunaði ég upp á sýsluskrifstofu, beint inn á fyrstu hæð og tók númer til að fá afgreiðslu við að leggja inn réttu gögnin til þinglýsingar.  Ég má svo sækja þetta á morgun.

Strákarnir ákváðu að hafa spilakvöld í gær.  Ég var búin að panta mér sérstakan tíma um kvöldið og ætlaði ekki á kóræfingu.  Sérstaki tíminn féll svo reyndar niður en ég var ekki í neinu söngstuði heldur boðaði komu mína til tvíburahálfsystur minnar til að hitta nýjasta fjölskyldumeðliminn, hvolpinn Pöndu, sem hélt bara ekki vatni yfir mér.  Ég var líka með handavinnuna með mér og saumaði í þremur verkefnum, stóru myndinni, grammafónmynd (útlínur) og jólakortið sem ég byrjaði á hjá Lilju sl. fimmtudagskvöld.  Kom heim um ellefu og fór næstum því beint í rúmið með spennandi bók að lesa.

19.3.14

Frídagur hinn síðari

Þrátt fyrir frídag úr vinnu var ég komin á fætur um átta og vöknuð löngu fyrr.  Um hálftíu vakti ég Davíð Stein.  Fyrir nokkru fór hann að kvarta yfir að það væri alls ekki sama hvar hann sæti í skólastofum ef hann þyrfti að fylgjast með á töflu eða tjaldi.  Sjálf var ég ekki búin að fara til augnlæknis í þrjú ár.  Ég hafði því hringt i augnlækningadeildina í Hamrahlíðinni, þar sem augnlæknirinn minn er með stofu, fyrri partinn í febrúar.  Og í gær rann upp dagurinn sem við mæðgin áttum tíma,  Við trítluðum af stað um tíu og þurftum að bíða smá stund áður en við komumst að.  Fórum bæði inn í einu og byrjaði Eydís auglæknir á að skoða og mæla mig.  Okkur til mikillar ánægju þá var afar lítil breyting og engin ástæða til að fá sér ný gleraugu, hvað þá tvískipt gleraugu.  Þegar þetta var ljóst skiptum við mæðgin um sæti.  Vel gekk að mæla drenginn og hafði Eydís á orði hvað hann væri með falleg augu.  Það eru samt greinilega byrjun á smá nærsýni.  Engin ástæða samt að gera nokkuð fyrr en í haust.  Hann mældist semsagt -0,25 á öðru og -0.50 á hinu.  Það er ekkert farið að gera fyrr en í  -0,50 en þar sem þetta er ekki farið að há honum alvarlega, stutt fram á vorið og kennarar þar að auki í verkfalli þá ákváðum við að panta tíma aftur í haust og láta mæla hann aftur þá.  Í bakaleiðinni skrapp Davíð Steinn í heimsókn til eins vinar úr árganginum í Hlíðaskóla en þeir félagarnir komu fljótlega hingað yfir.  Restin af deginum hjá mér fór í alls konar dútl og ég tók meira að segja fram handavinnutöskuna mína.  Reyndar opnaði ég hana ekki og saumaði þar af leiðandi ekki spor.

18.3.14

Frídagur hinn fyrri

Við Oddur hlustuðum á útvarpsfréttir klukkan tíu á sunnudagskvöldið var.  Fyrsta fréttinn var um að samningur hafði ekki náðst við framhaldsskólakennara svo það var ljóst að verkfall var hafið.  Ég var því ein um að vakna snemma í gærmorgun.  Fór á bílnum því með í farteskinu voru þrjár afmæliskökur, tvær bakaðar og ein keypt súkkulaðiostakaka.  Ég fékk alfarið að sinna endurreisnar starfsseminni.  Í morgunkaffinu skellti ég annarri heimabökuðu kökunni á borðið því ljóst var að sú sem var að vinna til klukkan tvö þurfti að fara strax klukkan tvö og ég vildi ekki að hún yrði útundan.  Í hádeginu fékk ég dýrindis fiskrétt í mötuneyti Seðlabankans og í seinna kaffinu bauð ég upp á allar sortir.  Uþb helmingurinn var eftir af "morguntertunni".  Klukkan fjögur tók ég alla afganga með mér heim og voru bræðurnir afar glaðir með það og kláruðu heimabökuðu kökurnar strax.  Kom við í Atlantsolíu við Flugvallarveg því það var 15 kr. afmælisafsláttur.  Reyndar komust ekki nema 12 lítrar á tankinn.  Þegar heim kom kveikti ég næstum strax á tölvunni og það var strax ljóst að margir höfðu sent mér kveðju og þær voru enn að streyma inn.  ÉG fékk yfir 270 kveðjur og held að ég hafi náð að svara öllum kveðjunum sem var póstað beint á vegginn hjá mér.  Hafði lambafillet með piparsósu, kartöflubátum, kúlukáli, grænmeti og hrásallati í kvöldmatinn.  Einn vinur strákanna var í heimsókn og þáði boð um að borða með okkur, enda alveg nóg til.  Fljótlega eftir matinn tók Oddur sig til og fór til pabba síns þar sem hann ætlar að vera fram að næstu helgi.  Ég er afar sátt með gærdaginn.  :-)

17.3.14

Afmæli

Við tvíburahálfsystir mín erum 46 ára í dag eða samtals 92, ekki ónýtt það.  Annars ætlaði, eins og vanalega, að skrá aðeins niður það helsta frá gærdeginum.  Ég vaknaði um átta og gat ómögulega kúrt lengur en tæpa klukkustund.  Á ellefta tímanum tók ég til við baksturinn og bakaði tvo botna og eina heilhveiti/haframjöls-sultuköku (hjónabandssælu).  Eftir baksturinn snéri ég mér að framtalsmálunum, skráði niður lánið frá pabba, yfirfór, villuleitaði og skilaði inn.  Gott að vera búin að þessu.

Um tvö kvaddi ég synina og lagði af stað til systur minnar.  Þar lágu tvö verkefni fyrir og svo bættist eitt við.  Byrjaði á því að skrifa utan á umslög til ferminarboðsgesta.  Það tók mig tæpa hálfa klukkustund en Hulda og vinkona hennar skrifuðu  utan á fimm á fimm tímum.  Síðan setti ég mig í endurskoðanda gírinn og fór yfir, bætti inn á og skilaði skattframtali systur minnar og mágs.  Fyrir þessa vinnu var mér boðið í mat, kjötsúpa a la Ingvi.  Eftir mat hjálpaði ég yngri systurdóttur minni að klára heimanámið með því að "finna" fyrir hana 40 orð úr bók sem hún er að lesa.  Hún átti að skrifa niður orðin óséð og laga þau ef hún gerði villur.  Áður en ég fór heim bar mágur minn einn stól sem þau voru að losa sig við, fyrir mig út í bíl.  Oddur Smári sótti stólinn svo fyrir mig út í bíl þegar ég kom heim.

16.3.14

Morgunstundir

Ég var komin á fætur og búin að fara í sturtu og allt nokkru fyrir hálfátta í gærmorgun.  Rétt fyrir átta var ég mætt í skautahöllina í Laugardag þar sem hópurinn hennar Bríetar yngri systurdóttur minnar var að fara að hita upp.  Frænka mín var svo númer fjögur í keppnisröðinni.  Huldu hópur hitaði upp rétt fyrir tíu og hún var fyrst inn á svellið eftir upphitunina.  Hún skorar afar hátt fyrir túlkun en hefur ekki náð sér á strik í tæknihlutanum, kannski vegna fótbrotsins því hún skoraði mun lægra en oft áður þótt hún skori ekki hátt venjulega.  Yfirleitt nær hún meira en 10 en í gær var hún með rúmlega 7 fyrir tækni en með 26 komma eitthvað í heildina.

Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar um ellefu og stoppaði hjá henni í tvo tíma áður en ég kom svo við og verslaði í Krónunni á heimleiðinni.  Oddur var kominn heim svo hann gekk frá vörunum.  Um hálffjögur ákvað ég að hræra í vöfflur og staflinn var tilbúinn um fimm.  Hellti upp á kaffi í leiðinni, alveg fullan brúsa.

15.3.14

Helgi

Mikið er ég fegin að gærdagurinn er liðinn og þessi erfiða vika að verða búin.  Þrátt fyrir að vera bara fjórar á deildinni í gær sá fyrirliðinn til þess að ég væri laus frá hefðbundnum daglegum rekstri til að vinna í að lagafæra ákveðið/in verkfæri sem við þurfum nauðsynlega að hafa í lagi.  Það er nokkuð ljóst að þessi vinna mun taka gífurlegan tíma. Vann við þetta í uþb sex klst. í gær og er samt aðeins búin með 1/9 hlutann af heildardæminu.

Hér var spilakvöld í gær, aðeins í styttri kantinum því um níu bað Davíð Steinn mig um að skutla sér og tveimur öðrum í gleðsskap.  Oddur Smári var skynsamur að mér fannst og sleppti þessu dæmi svo hann væri vel fyrirkallaður á æfingu og undirbúning undir forritunarkeppni sem fram fer í HR n.k. laugardag.  Sjálf fór ég óvanalega snemma í háttinn þrátt fyrir að það væri föstudagskvöld og helgin öll framundan.

14.3.14

Saumaklúbbur á Vatnsstíg

Notaði lánsbílinn í gær og fengu strákarnir því far í skólann.  Vinnudagurinn leið einhvern veginn og seinni partinn fór ég í að skoða ákveðin mál sem þarf að laga nokkra mánuði aftur í tímann. Þegar klukkan sló fjögur vissi ég amk hvernig skárst væri að tækla málin en gerði mér janfframt ljóst að það er gígantísk vinna framundan áður en málin komast í fyrra form.

Hafði kjúkilingabringur í matinn upp úr sex.  Oddur Smári fór á trommuæfingu rétt fyrir sjö og var ekki kominn heim aftur þegar ég tók mig til og lagði af stað í saumaklúbb.  Hef ekkert tekið í nál síðan ég heimsótti vinkonu mína á Vatnsstíg fyrir tveimur eða þremur viku síðan (get flett því upp því ég er viss um að ég bloggaði um þá heimsókn).  Ég saumaði útlínur í myndina af gamaldags grammófóninum og byrjaði einnig á nýju jólakorti.  Það var kátt og glatt á hjalla og tíminn flaug óþarflega hratt frá okkur.  Ákvað næsta klúbb hjá mér rétt fyrir mánaðamót og sendi stelpunum sms um það.  Ætlaði að spauga með að vilja vera með í skilaboðaklúbbnum og sendi mér líka sms, eða það hélt ég.  Þegar síminn minn pípti ekkert skoðaði ég síðasta númer og það var víst allt annað númer en gsm-númerið mitt, mjög líkt númer samt.  Rétt áður en ég fór að sofa fékk ég sms til baka úr því númeri þar sem mér var tjáð að ég hefði óvart sent sms þangað og mér jafnframt óskuð góð helgi.

13.3.14

Þessi fór víst ekki alla leið inn í gær :-/

Það hvarflaði að mér að sleppa því að setja inn pistil í dag.  En þá var hættan orðin sú að ég hefði "misst dampinn" og jafnvel liðið nokkrir dagar áður en ég gæti hugsað mér að skrifa eitthvað.  Mig langar ekkert að segja neitt að ráði frá ákveðnum atburðum gærdagsins, tæpi bara á því helsta.  Tók strætó við Sunnubúðina upp úr hálfátta í gærmorgun.  Morguninn í vinnunni var nokkuð eðlilegur en um hádegið fór allt á hvolf.  Mikið um fundarhöld í turninum við Katrínartún og þegar fundum lauk hafði engin af vinnufélögum mínum á deildinni minnstu löngun til að fara aftur til baka þótt klukkan væri ekki nema rúmlega tvö.  Fimm saman löbbuðu við Laugaveginn og Bankastræti og settumst inn á Kaffi París í hátt í einn og hálfan tíma áður en hver fór til síns heima.  Við vorum slegnar og þungar í spori og á brún og eiginlega öskureiðar líka.

Engin kóræfing í gærkvöldi

Fór með fulla lúku af klinki, (krónur, tíkallar og hundraðkallar), alls 350 kr. sem ég ákvað að losa mig við í strætó á leið í vinnuna í gærmorgun.  Ég er ekki búin með strætómiðana en fannst það ágætt að létta aðeins á klinkbuddunni minni.  Vinnudagurinn gekk nokkuð eðlilega fyrir sig miðað við allt og allt.  Eftir hádegi "heimsóttu" okkur þrír "strákar" af tækninsviðinu að sinna ýmsum verkefnum.  Einn er að byrja að setja annan inn í sitt starf og einn var að athuga hvort hann kæmi upp nokkrum verkfærum sem við þurfum á að halda en hafa ekki verið nothæf í nokkra daga.  Stimplaði mig út á slaginu fjögur og þá á ég að ná á leið 13 innan fimm mínútna.  Vagninn var hins vegar eitthvað seinni og ég hafði það sterklega á tilfinningunni að hann væri það seinn að næsti vagn á eftir væri bara rétt rúmum fimm mínútur þar á eftir.  Beið þó ekki eftir þeim vagni hvorki fyrir utan vinnuna né á Lönguhlíðinni milli Mávahlíðar og Drápuhlíðar til að fá úr þessari tilfinningu skorið.  Steikti rúsínuslátur og lifrarpylsu og hafði í kvöldmatinn ásamt soðnum kartöflum.  Bræðurnir voru á leið í Kringlubíó ásamt einhverjum vinum um átta.  Ég var hins vegar mætt í "fýluferð" út í kirkju um hálfátta ásamt þremur öðrum úr kórnum og ein af þeim var búin að hella upp á.  Við fengum okkur smá kaffi fyrst við vorum komin á annað borð og svo fékk ég diskinn undan annarri kökunni sem ég kom með í kaffimessuna sl. sunnudag.  Kom heim stuttu fyrir átta og þá var annar tvíburinn enn heima.  Ég skutlanði honum út í Kringlu svo hann næði í bíóið. Hann hafði víst þurft að klára eitthvað í tölvuleiknum sem hann var að leika sér í.  Um hálftíu hringdi ég á bjöllunni hjá nágrannanum á neðri hæðinni.  Við skrifuðum undir kaupmála að bílskúrnum mínum sem senn verður hans.  Hann er nú þegar byrjaður að vinna í skúrnum með fullu leyfi mínu en gengið verður frá samningnum á næstu vikum og hann mun borgar mér 2x900þús, annars vegar við eiginlega undirskrift og hins vegar upp úr miðjum ágúst.  Þennan pening ætla ég bæði að nota í nýtt bað og til að borga hraðar niður af Landsbankanláninu sem ég tók í nóvember sl.

11.3.14

Leiðindi

Gat ekki hamið mig í að pósta þessum titli á pistil dagsins þótt ég hvorki geti né vilji tjá mig meira um þau mál.  :-(  Strákarnir fengu far með mér í skólann í gærmorgun og vinnudagurinn minn leið hratt eins og venjulega.  Fór svo beint heim og var svo heppin að fá annan strákinn til að sækja þvottinn af snúrunum niðri í þvottahúsi.  Þar sem strákarnir voru með spilakvöld milli fjögur og níu á sunnudaginn og fengu sér pizzu með spilavinunum var ég með sunnudagsmatinn í gær.  Hafði keypt þrjár lærissneiðar sem ég steikti upp úr eggi og byggflögum krydduðum með "Best á lambið".  Með þessu hafði ég kartöflur, grænar baunir, hrásallat og piparsósu.  Þetta mældist mjög vel fyrir enda er svona matur afar sjaldan á borðum.

10.3.14

Galdramessa í gær

Tók því nokkuð rólega í gærmorgun, kúrði aðeins fram á morguninn og eftir að ég var búin að koma mér á fætur leið tíminn til hádegis ægilega hratt eitthvað.  Rétt fyrir eitt tölti ég með tvær kökur, sálmabókina mína og pening fyrir kaffihlaðborðinu eftir messu út í lánsbílinn sem ég hafði lagt fyrir aftan heilsugæsluna er ég kom heim daginn áður.  Fimm sálmar voru "merktir" upp á sálmatöfluna og nafnarnir tveir í bassanum tókust á loft er þeir sáu að m.a. átti að syngja sálm númer 351 "Ég er kristinn".  Sann-Kristinn og Kiddi voru ekkert smá glaðir með þetta sálmaval en við hin gátum ekki setið á okkur að stríða þeim aðeins og segja að þeir ættu eiginlega að syngja sálminn tveir einir og við að humma undir.  Annars gekk messan ágætlega fyrir sig nema presturinn hefur oft verið með tilkomu meiri töfrabrögð heldur en hann var með í gær.  Nokkuð margir voru mættir ein þó ekki það margir að legga þyrfti á borð inni í kirkjunni eins og oft áður.  Ég kom með hluta af annarri kökunni heim aftur strákunum og spilavinum þeirra til mikillar ánægju sem kláruðu kökuna með það sama í mínu boði autvitað.

9.3.14

Vígsluhátíð flygils

Ég var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar á slaginu ellefu í gærmorgun.  Stoppaði hjá henni í tæpa tvo tíma og fór svo beint í Krónuna við Granda að versla inn.  Oddur Smári hafði farið upp í skóla rétt fyrir tíu til að æfa sig fyrir forritunarkeppni.  Hann var ekki kominn heim þegar ég kom úr búðinni og Davíð Steinn var ekki vaknaður svo það dæmdist á mig að ganga frá vörunum.  Tók svo smjörlíkí út úr ísskáp til að mýkja upp við stofuhita fyrir bakstur.

Rétt fyrir fjögur var ég mætt í kirkju óháða safnaðarins þar sem átti að hafa smá tónleika í tilefni nýs Bösendorfer flygli sem nýlega var keyptur til kirkjunnar.  Þetta voru alveg magnaðir tónleikar.  Tríóið hans Árna Heiðars byrjaði á því að spila fjögur lög af báðum útgefnum jazzplötum sínum en eitt lagið var nýtt og ekki komið út á disk enn.  Það fer samt pottþétt á næsta disk sem tríóið gefur út.  Síðan spilaði Árni Heiðar til skiptis undir hjá Huldu Garðarsdóttur og Gissuri Páli Gissurarsyni  sem sungu tvö og tvö x 3 lög þ.e. komu þrisvar sinnum fram hvort um sig.  Að sjálfsögðu var klappað upp og aukalagið sungu þau saman.  Tónleikarnir stóðu í rétt tæpan einn og hálfan tíma sem leið alltof hratt.  Á eftir bauð safnaðarstjórnin upp á snittur gos og vatn í efri safnaðarsalnum.

Klukkan var byrjuð að ganga sjö er ég kom heim.  Strákarnir fengu sér afgang að borða og ég tók mér smá tíma í að koma mér í bakstursstuð.  Bakaði svo tvær kökur upp úr heilhveiti, haframjöli, púðursykri (setti reyndar hvítan sykur í seinni kökuna), smjörlíki, eggi, smá matarsóta og rabbarbarasulut.  Horfði svo á megnið að þættinum um Ladda, alla ævintýramyndina sem var strax á eftir og restina af Barnabymyndinni á DR1.  Hafði séð þá mynd áður en festist yfir endinum engu að síður.  Síðan slökkti ég á sjónvarpinu, fór smá stund í tölvuna og skreið svo í rúmið rétt eftir miðnætti.

8.3.14

KveðjaÉg tók mér frí úr vinnunni í gær til þess að geta kvatt og fylgt henni Hlíbbu minni.  Kistulagningin var klukkan tólf og útförin klukkan eitt.  Ég fór reyndar ekki í garðinn á eftir heldur í safnaðarheimili kirkjunnar í erfidrykkjuna eins og flestir.  Allra nánustu aðstandendur fóru í garðinn og komu svo aftur til baka.  Dóttur-dóttir Hlíbbu, er bæði frænka mín og eiginlega litla systir því hún kom til okkar á Heiði mánaðar gömul sumarið 1976 og var hjá okkur fyrsta árið.  Móðir hennar (dóttir) hafði líka þurft að vera fjarri foreldrum sínum fyrstu mánuðina í sínu lífi til að koma í veg fyrir berklasmit.  Hlíbba mín var alveg einstök kona og það eru dóttir, hennar og dótturdóttir líka.  Hún var svo ljúf og yndisleg.  Alltaf þegar ég kom í heimsókn hafði hún á orði hvað ég væri ræktarsöm og góð að koma til hennar.  Sjálf fékk ég alveg helling út úr því að vera í samvistum við hana.  Við gátum spjallað um svo margt og svo var eitthvað svo gott í kringum þessa konu.   Í gegnum árin hafði hún á orði öðru hvoru að hún kviði því svo að deyja.  Hún hafði meira að segja orð á þessu á laugardeginum tveim dögum fyrir 87 ára afmælið og þremur sólarhringum áður en hún lést.  Hún fékk að fara í svefni og ég er viss um að það er ein besta leiðin til að fá að fara, sofna bara og vakna ekki aftur hérna megin.

Kom heim upp úr hálffjögur eftir að hafa komið við og fyllt lánsbílinn hjá atlantsolíu við Flugvallarveg, 13 kr afsláttur.  Bíllinn var uþb hálfur fyrir en það fóru tuttugu lítrar á hann og safnast þegar saman kemur.  Strákarnir voru boðnir í afmæli um kvöldið svo ég var ekkert að hugsa fyrir mat.  Rétt fyrir átta labbaði ég út í Valsheimili þar sem Valsstelpurnar tóku á móti stelpunum í HK.  Það leit út fyrir rúst því það munaði níu eða tíu mörkum í hálfleik.  "Mínar stelpur" skoruðu svo ekki fyrstu sex mínúturnar í seinni hálfleik á meðan andstæðingarnir minnkuðu muninn jafnt og þétt.  HK-stelpurnar náðu samt ekki að jafna og leikurinn endaði 27-24.

7.3.14

"Frídagur"

Strákarnir fengu far með mér í skólann í gærmorgun.  Ég var mætt í vinnu rétt fyrir átta og fyrsta verkefni dagsins fólst í að taka á móti og skoða kort.  Annars leið dagurinn afar fljótt eins og venjulega.  Kom við í fiskbúðinni við Sundlaugarveg og fékk þar þrjú bleikjuflök, hrogn og ca kíló af ýsu.  Ýsuna setti ég í frysti.  Ég bakaði bleikjuna í ofni og sauð hrognin vafin inn í álpappír.  Annar strákurinn sneyddi alveg hjá hrognunum en hinn hafði orð á því hversu góð þau voru.

Rétt fyrir klukkan átta rölti ég út í Valsheimili þar sem Valsstrákarnir tóku á móti HK.  Leikar enduðu 31-24 en það tók "mína menn" smá tíma að ná tökum á mótherjunum.  Við Oddur horfðum svo á Criminal Minds fljótlega eftir að ég kom heim af leiknum.

6.3.14

Færsla númer 1560 síðan jan. 2003

Mikið var ég fegin að vera ekki að fara á bílnum í vinnuna í gær.  Slapp þá við að sópa og skafa af lánsbílnum í bili.  Ég mætti nógu snemma til vinnu til að byrja frá grunni á vinnustöðinni.  Í gær var það mitt hlutverk að hlaða inn og setja af stað fyrstu framleiðslu dagsins (oftast er hópstjóri deildarinnar mætt nokkuð á undan og byrjuð að hlaða inn skrám og framleiða) sem og að hlaða inn fleiri skrám eftir því sem þær bárust.  Eftir kaffi færði ég mig um set á framleiðsluvélinni og tók á móti og skoðaði.  Vinnudagurinn leið fljótt og eftir hádegi sinnti ég ýmsu sem einungis tengist samantekt eftir mánaðamót.  Kom heim upp úr fjögur.  Strákarnir höfðu látið mig vita að þeir ætluðu til pabba síns eftir skóla svo ég þurfti ekki að elda í gær, fékk mér bara haframjöl í sjóðandi vatni með kasewhnetum, rúsínum og kanil.  Lagði svo af stað á kóræfingu í fyrrafallinu því ég vissi að það færi einhver tími í að verka lánsbílinn.  Var mætt á réttum tíma á æfingu.  Tveir tímar voru fljótir að líða og þá þurfti ég að hafa aðeins meira fyrir því að skafa af lánsbílnum áður en ég keyrði heim.  Horfði á Kiljuna á tímarásinni og gleymdi mér svo illilega í einum netleik á FB.  Strákarnir komu heim hálftólf en þótt klukkan væri orðin meira en miðnætti þegar ég skreið upp í las ég í nokkrar mínútur.

5.3.14

Hvít jörð

Ég fann að það var betra að stíga varlega til jarðar þennan stutta spöl út á stoppistöð í gærmorgunn.  Það var launhált.  Mér skrikaði ekki fótur og komst til vinnu heilu og höldnu.  Vinnudagurinn leið afar hratt og klukkan varð fjögur miklu fyrr en ég reiknaði með, eða þannig.  Tók 13 beint heim strax eftir vinnu.  Heima byrjaði ég á því að kveikja á tölvunni áður en ég trítlaði niður í þvottahús til að setja í eina vél og ná í það sem var á snúrunni.  Setti upp bygggrjón og þegar þau voru um það bil að verða soðin setti ég þau í eldfast fat, bætti við kjúklingabaunum, gulum baunum og kjúklingabitum krydduðum með "Best á kjúklinginn".  Þetta setti ég inn í 150 gráðu heitan ofninn og bakaði í ca fjörutíu mínútur.  Neibb, engin sprengidagssúpa og saltkjöt hjá mér, fékk mér heldur ekki svoleiðis í mötuneytinu í hádeginu.

Annars var ég alveg viss um að í dag myndi ég segja frá því að ég hefði gripið í saumana mína í gær.  En það eina sem ég get sagt er að ég hugsaði um að grípa í saumana mína en það varð ekki neitt úr neinu.  Horfði á Castle með Oddi og svo seinna á síðasta þáttinn af breskum sakamálaþætti sem sýndur var eftir tíu fréttir sl. þrjú þriðjudagskvöld.  Kannski gríp ég aðeins í nál í kvöld, hver veit???

4.3.14

Mars að komast á skrið

venju notaði ég lánsbílinn milli heimilis og vinnu í gærmorgunn og bauð ég tvíburunum skutl í skólann í leiðinni.  Vinnudagurinn leið frekar hratt enda nóg að gera svona um mánaðamót.  Ég fékk svo að fara upp úr þrjú því ég átti tíma í K2 í heilsufarsmælingu.  Var mætt aðeins fyrir tímann en komst strax að því sá sem átti að vera í tímanum á undan hafði ekki mætt.  Ætla mér ekkert að fara sérstaklega ofan í þessa ör-heilsumælingu nema ég var ánægð með sumt en síður með annað.  Var komin heim um fjögur og gerði lítið annað en að vafra um á netinu, taka til kvöldmat, ganga frá í eldhúsinu eftir matinn og horfa á fréttir og svo Law and Order þátt frá því á sunnudagskvöldið.  Mér tókst að koma mér í rúmið upp úr ellefu og að hætta að lesa áður en klukkan varð hálftólf.  Held að ég hafi svo verið nokkuð fljót að sofna.

3.3.14

Fyrsta helgi mánaðarins liðin

Undarlegt hvað þessar helgar eru fljótar að líða.  Þær vilja líklega ekki vera eftirbátar virku daganna sem líða yfirleitt frekar hratt líka.  Var heldur fyrr á fótum í gærmorgun miðað við laugardaginn enda byrjaði ég á því að dekra við mig með því að smyrja á mig kókosolíu hátt og lágt áður en ég fór í sturtu.  Upp úr hádeginu ákvað ég að ljúka við að lesa þriðju og síðustu skammtímalánsbókina af safninu.  Mátti alveg hafa þær í viku lengur en ég var líka búin að lesa þrjár aðrar svo ég ákvað að drífa mig með þessar sex og skila á safnið, upp úr tvö.  Og viti menn mér tókst að komast út af safninu án þess að taka nokkra einustu bók með mér.  Það eru enn hjá mér sjö bækur og það að auki ein úr kiljuklúbbnum Hrafninum að ég tali nú ekki um eina af jólabókunum sem ég virðist vera að spara aðeins.  Á leiðinni heim af safninu ákvað ég að koma við í bakaríi og kaupa tilbúnar vatnsdeigsbollur handa strákunum.

Um fimm kvaddi ég strákana og brunaði í Hafnarfjörðinn að sækja tvíburahálfsystur mína.  Hún átti eftir að ganga aðeins frá áður en við gátum haldið ferðinni saman áfram út úr bænum en við vorum komnar í Fossheiðina fyrir hálfsjö.  Föðursystir mín hitti okkur svo þar í kvöldmatarboð hjá foreldrum þeirrar fyrrnefndu.  Dýrindis kjötbollur með alls kyns meðlæti og á eftir fengum við bollur með kaffinu.  Aftur höfðum við tvíburahálfsysturnar áhyggjur að því að við myndum standa á blístri á kóræfingu fyrrum kórfélaga kórs FSu.  En auðvitað voru það alveg óþarfa áhyggjur.  Æfingin gekk afar vel og æfð voru sex lög.  Tveir tímar liðu alltof hratt og klukkan tíu héldum við þrjár saman í bæinn.  Fyrst í Katrínarlind, þaðan í Svöluhraun og svo heim í Drápuhlíðina.  Þangað kom ég svona korter yfir ellefu.

2.3.14

Sunnudagur

Vaknaði fyrst eldsnemma eða um sjö í gærmorgun.  Fór aðeins framúr og sinnti þrennu mikilvægu áður en ég fór aftur upp í rúm.  Svo kúrði mín og drollaði fram eftir morgni eða þar til klukkan var byrjuð að ganga ellefu.  Var mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni um ellefu.  Fengum okkur kaffi, ristað brauð og eina bollu áður en við snérum okkur að tilbúna tungumálinu góða, með meira kaffi með okkur.  Stoppaði í um tvo tíma en fór svo í Krónuna við Granda að versla inn fyrir vikuna.  Þegar heim kom var bikarúrslitaleikur kvenna milli Stjörnunnar og Vals hafinn og að sjálfsögðu fór ég beint í að fylgjast með því Oddur sá um að ganga frá vörunum.  Leikurinn endaði með sigri "minna" stelpna og voru þær að taka bikartitilinn þriðja árið í röð.

Um fimm lagði ég lánsbílnum við Hallgrímskirkju og labbaði þaðan á kaffihúsið Babalú.  Fór beint upp en sá ekki að hin tvíburamamman væri mætt.  Stuttu seinna hringdi gemsinn minn og þá kom í ljós að vinkonan var mætt en hún sat á neðri hæðinni og var að gæða sér á súpu.  Ég dreif mig niður og fékk mér kaffi og spínat-crépes.  Við sátum svo og spjölluðum og hlógum næstu þrjá tímana eða svo og inn á milli spurðum við spilin hennar Siggu Kling og fengum nokkur frábær svör.  Við kvöddumst fyrir utan kaffihúsið upp úr átta með loforði um að hittast fljótlega aftur.

Er heim kom horfði ég á Barnaby á DR1 með Oddi.  Síðan horfði ég á tvo þætti á frelsinu, fór aðeins í tölvuna áður en ég skreið upp í rétt fyrir eitt og las í hálftíma.

1.3.14

Laugardagur

Já, sæll, það er kominn mars.  Tveir mánuðir liðnir af árinu og ég búin að pósta pistlum upp á hvern einasta dag í fjóra mánuði.  Fór annars með leið 13 í vinnuna upp úr hálfátta í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið afar hratt og vorum við með verkefni af ýmsum toga sem entust út allan daginn.  Tók strætó heim strax eftir vinnu og þar sem spilakvöld stóð fyrir dyrum hjá strákunum og fjórum vinum þeirra þurfti ég ekkert að hafa fyrir að hugsa um kvöldmat.  Seinni parturinn og kvöldið fór í tölvuleiki, sjónvarpsgláp og lestur.