28.2.14

Heiðruð fyrir 35 blóðgjafir

Strákarnir fengu far með mér, á lánsbílnum, í skólann í gærmorgunn eins og er orðið nokkuð venjulegt á fimmtudagsmorgnum á þessu vormisseri.  Vinnudagurinn leið frekar hratt því þessa dagana er nóg að gera allan daginn.  Reyndar fengum við rúmlega klukku stundar pásu upp úr eitt en vorum byrjaðar að framleiða aftur fyrir hálfþrjú og hættum ekki fyrr en stuttu fyrir fjögur.  Fór beint heim að vinnu lokinni.  Lét Odd hafa pening fyrir sex trommutímum, tímanum síðan í síðustu viku, tíma gærdagsins og svo fyrir öllum tímum í mars.  Upp úr hálfsjö setti ég upp kartöflur og skar niður blóðmörskepp með rúsínum (frá SS).  Steikti handa mér og Davíð Steini en þar sem Oddur var farinn á æfingu þurfti hann bara að sjá um að steikja sínn skammt sjálfur.  Rétt fyrir átta var ég mætt í K-byggingu við Landsspítalann við Hringbraut.  Þar fór fram aðalfundur bljóðgjafafélagsins.  Eftir ávarp forstjóra spítalans voru venjuleg aðalfundarstörf afgreidd.  Formaður síðustu tiu ára, Ólafur Helgi Kjartansson og einn annar meðlimur úr stjórninni gáfu ekki kost á sér áfram en það var búið að finna gott fólk í staðinn til að taka við keflinu.  Síðan voru veittar viðurkenningar.  Ég var í hópi hátt í 40 manns sem fengu sína fyrstu viðurkenningu, konur (við vorum 4, allar mættar) fyrir 35 gjafir og menn fyrir 50 gjafir (aðeins hluti af mönnunum mætti).  Ein kona fékk viðurkenningu fyrir 50 gjafir og einn maður er búinn að slá Íslandsmet og fá viðurkenningu frá heilbrigðisráðherra fyrir 175 gjafir.  Eftir viðurkenningaveitingar og myndatöku var boðið upp á smá veitingar,  kaffi, safa, ávexti, skúffuköku og fl.  Kom heim um tíu og tók þessa mynd af mér og skjalinu:

27.2.14

Lítið eftir af viku og mánuði

Oddur Smári var farin í ræktina fyrir sjö eða áður en ég kom aftur fram og Davíð Steinn var ekki kominn fram þegar ég fór út til að ná strætó upp úr hálfátta.  Vinnudagurinn leið hratt og örugglega.  Smá "pása" var á milli eitt og hálfþrjú á meðan verið var að skipta um "haus" við einn litmyndaborðann í vélinni en svo vorum við að alveg til klukkan að verða fjögur.  Eftir vinnu fór ég fyrst heim.  Kveikti á tölvunni til að ná mér í smá upplýsingar en dreif mig svo að ná í þrennar buxur úr viðgerð.  Mætti Davíð Steini á leiðinni út.  Úr Saumnálinni fór ég í hraðbanka bæði til að ná í aur fyrir trommutímum Odds og svo finnst mér gott að eiga eitthvað af seðlum í veskinu.  Þegar ég settist aftur inn í bílinn byrjaði ég á því að hringja í tengilið til að kanna hvort ég gæti sótt sendingu.  Fékk jákvætt svar og fór beint þangað að sækja kassann minn.  Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að huga að mat.  Setti upp bygggrjón, kryddaði þrjár kjúklingabringur með best á kjúklinginn, kveikti á ofninum og setti frosið grænmeti í pott með smá vatni og örlitlu salti.  Allt kláraðist svo nema bygggjónin.  Var mætt á kóræfingu rétt fyrir hálfátta.  Við vorum aðeins ellefu með kórstjóranum og það vantaði einhvern/einhverja í hverja rödd, 2 í sópran, 2 í alt, einn (og hálfan) í tenór og 1 í bassa.  Æfingin gekk samt bara vel og var farið yfir ýmis lög.

26.2.14

Ýmislegt

Notaði almenningssamgöngur milli heimilis og vinnu í gær.  Kom heim upp úr fjögur og hringdi í þá konu sem ég var búin að nefna við að kaupa afmælisgjöf af henni handa einni vinkonu minni.  Mér var sagt að koma og ég dreif mig í smá ferðalag út á Álftanes á lánsbílnum.  Keypti gjafabréf, tvo eins spilastokka og festi tíma handa sjálfri mér.  Áður en ég fór heim aftur kom ég við hjá atlantsolíu við flugvallarveg og dældi á lánsbílinn því það var 12 kr. afsláttur af lítranum.  Bræðurnir ætluðu að sjá um kvöldmatinn fyrir sig sjálfir því ég var á leiðinni út að borða með afmælisbarninu og nokkrum stelpum á öllum aldri (systrum, frænkum og vinkonum). Nokkru áður en tvíbursystir mín renndi við eftir mér hringdi frændi minn, sem ég hitti sl. laugardag, til að segja mér að tengdamóðir hans væri dáin, hafði andast í svefni um morguninn, daginn eftir 87 ára afmælið sitt. Mikið er ég fegin að ég átti kost á því að hitta hana um síðustu helgi.  Ég hugsaði svo sterkt til hennar á mánudaginn, afmælisdaginn, en einhvern veginn varð ekkert úr því að ég hringdi í gömlu konuna.

Lilja varð fimmtug í gær og hafði ákveðið að fara út að borða í tilefni dagsins.  Við vorum nokkrar sem vorum velkomnar að koma og borða með henni á "Restaurant Reykjavík" við Vesturgötu 2.  Sonja sótti mig rétt fyrir sjö.  Hún var búin að búa til afmæliskort og skrifa á það og umslagið var það stórt að óskasteinn og spilastokkur komust fyrir í því en við tvíburahálfsysturnar gáfum Lilju þetta saman auka gjafabréfs á einkatíma til Siggu Kling.  Að auki gaf ég Lilju diskinn sem var tekinn upp í Skálholti sl. vor með Gloríu eftir Verdy og Litlu orgelmessunni eftir Haydn.  Við vorum sjö sem heiðruðum Lilju með nærveru okkar, tvær systur af fimm systkynum hennar, tvær frænkur og við saumaklúbbsvinkonurnar.  Fengum afar góðan mat.  Sumar fóru á hlaðborð, einhverjar pöntuðu fisk dagsins, ein fékk sér bleikju og ég fékk mér lamb.  Allar fórum við svo í eftirréttarhlaðborðið.  Þegar við vorum eiginlega búnar að borða sungum við afmælissönginn og rétt seinna kom þjónn og bauð upp á freyðivín, eitt glas á mann, í tilefni dagsins.  Að auki fékk Lilja eftirréttinn frían í boði hússins.  Þetta var yndisleg kvöldstund með skemmtilegu fólki.  Því miður þurfti svo afmælisbarnið að fara að vinna fyrir miðnætti en undanfarnar vikur hefur hún passað skip á nóttunni (yfirleitt milli átta og átta).

Kom heim um tíu og horfið á Castle á tímarásinni með Oddi og svo "Hafinn yfir grun" í kjölfarið.

25.2.14

Í kaffipásu

Það er orðinn fastur liður að nota lánsbílinn milli heimilis og vinnu á mánudagsmorgnum og fá þá synirnir að fljóta með að Tækniskólanum.  Vinnudagurinn leið hratt og örugglega við ýmis störf.  Fór beint heim eftir vinnu.  Annar tvíbbinn var nokkuð löngu kominn heim og hafði hann ryksugað yfir eldhúsgólfið og herbergisgólfið sitt.  Ég kveikti á tölvunni og þegar ég opnaði facebook síðuna komst ég að því að eldri systurdóttir mín hafði verið svo óheppin að bíta í köku með hnetum í daginn áður.  Hún hafði verið á e-s konar sýningu sem hármódel í voða flottum kjól.  Held að þetta hafi verið eitthvað tengt fermingargreiðslum. Fara þurfti með Huldu á bráðamóttökuna þar sem henni var gefið eitthvað svo hún færi ekki að kasta upp lifur og lungum í bráðaofnæmiskastinu.  Af bráðamóttökunni var frænka mín send yfir á barnadeildina við Hringbraut þar sem hún varð að vera í amk sjö tíma.  Hafði annars hakk og spakk í matinn og kvöldið fór í netvafr, sjónvarpsgláp og lestur.

24.2.14

Mánudagur

Ég leyfði mér að sofa aðeins lengur fram á morguninn í gær heldur en á laugardaginn.  Var samt vöknuð fyrir tíu.  Morguninn leið fljótt við ýmislegt dúllerí.  Um eitt var ég mætt í upphitun fyrir tónlistarmessu.  Sungum yfir alla messuna undir gítar og hammond-orgelspili en trommarinn hafði forfallast.  Það var bara þokklega mæting í kirkjuna.  Messan gekk vel og sá Kristján Sverrisson hjá kristniboðssambandinu um predikunina.  Hann var með virkilega fína ræðu og þótt hann notaði allar sínar tuttugu mínútur eða svo þá var ég bara öll ein eyru allan tímann.  Eftir messu fékk ég mér smá kaffi með kórfélögunum og einnig var mætt á svæðið fyrrum kórsystir.  En upp úr hálffjögur dreif ég mig í smá verslunarleiðangur áður en ég fór heim.  Heima gekk ég frá vörunum en annars var ég að vafra um á netinu, lesa og horfa á sjónvarpið.  Strákarnir komu heim um og upp úr hálfellefu.

23.2.14

Úr fjórum í tólf

Fór nokkuð snemma á fætur í gærmorgun til þess m.a. að gefa mér tíma til að meðhöndla húðina með kókosolíu.  Rétt fyrir tíu var ég svo mætt til Nonna í Kristu Quest en hann sér um að klippa mig á sex vikna fresti.  Eins og venjulega skildi ég mikið af hárum eftir á stofunni.  Klukkan var hins vegar ekki orðin hálfellefu þegar ég kvaddi svo ég skrapp aðeins heim aftur.

Á slaginu ellefu hringdi ég á bjöllunni hjá norsku esperanto vinkonu minni, Inger.  Við byrjuðum á því að fá okkur graut og tókum svo kaffið með okkur í sófann frammi í gangi.  Fórum yfir það sem við höfum verið að punkta niður síðustu vikur og bættum við nokkrum orðum og þýðingum þeirra.  Maðurinn hennar kom heim með nýbakað vínarbrauð og við enduðum á því að setjast niður með honum og fá okkur nýtt kaffi með bakkelsinu.

Frá Inger lá leið mín á aðalsafnið í Grófinni.  Þrátt fyrir að aðeins væru sex dagar síðan ég var þar síðast á ferð var ég búin að lesa fjórar af þeim fimm bókum sem ég náði mér í þá.  Ein af þeim var svona skammtímalánsbók til tveggja vikna.  Ég skilaði þessum lesnu bókum og á skömmum tíma var ég búin að fylla fang mitt af miklu fleiri bókum.  Alls urðu það 12 og af þeim þrjár að láni til tveggja vikna.

Úr bókasafninu fór ég og sótti Lilju.  Saman fórum við á ljósmyndasýningu útskriftanema úr ljósmyndaskólanum.  Sýningin var í húsi rétt við Nesstofu.  Þar kenndi ýmissa "grasa" og þar hitti ég einn vinnufélaga minn og frænda einnar vinkonu minnar.  Eftir að hafa skoðað sýninguna skilaði ég Lilju heim tíl sín aftur og fór sjálf heim til mín.

Vafraði aðeins um á netinu en stóðst svo ekki mátið að byrja að lesa.  Að sjálfsögðu byrjaði ég á einni af bókunum sem ég þarf að skila innan 14 daga, Svikalogn eftir sænskan höfund, Viveca Sten.  Um hálffimm hringdi gemsinn minn.  Kona eins frænda míns og dóttir einnar gamallar konu sem ég heimsæki stundum var að bjóða mér að hitta þau hjá gömlu konunni en þau voru að gera henni dagamun þar sem hún verður 87 á morgun en þá verða þau ekki í bænum.  Ég sló til.  Fór í spariföt, litaði á mér varirnar og dreif mig yfir.  Einn gestur til var einnig á svæðinu.  Drakk með þeim kaffi og reyndi að passa mig að borða ekki yfir mig af meðlætinu, spjallaði og skemmti mér hið besta.  Kvaddi rétt fyrir sjö.

Var mætt í kirkjuna rétt fyrir sjö en safnaðarstjórnin var búin að bjóða þar til árshátíðar öllum þeim sem starfa í krikjunni.  Fengum mjög góðan mat bæði kalda og heita rétti og með kaffinu á eftir var heit eplaterta með rjóma og skyrterta.  Einn kórfélagi minn var með pistil að venju, sagðist hafa fundið einn lítið notaðan og svo var fjöldasöngur í lokin. Semsagt nóg um að vera hjá mér í gær.

22.2.14

Hulda 14 ára í dag

Oftast er ég komin út á stoppistöð við Sunnubúðina um mínútu áður en áætlun strætó segir til um og þarf að bíða svo kannski í kannski 2-4 mínútur eftir vagninum.  Í gærmorgun bar mig að akkúrat um leið og vagninn renndi að skýlinu.  Vinnudagurinn leið ágætlega hratt.  Um þrjú fékk ég sms-skilaboð frá Lilju vinkonu um að ég væri velkomin í heimsókn á nýja staðinn ef ég vildi og gæti.  Það varð úr að ég dreif mig fyrst heim eftir vinnu til að sækja saumadótið og lánsbílinn.  Það kom í ljós þegar ég kom heim að ekkert yrði af spilakvöldi hjá strákunum en að þeir væru á leiðinni til pabba síns upp úr sjö og myndu borða þar.  Var komin til Lilju um fimm.  Hún bauð upp á kaffi, kex og osta og svo spjölluðum við yfir kaffibollunum og handavinnunni í rúma tvo tíma.  Þá skutlaði ég henni út á Granda þar sem hún vaktar stundum skip yfir nóttina.  Bræðurnir voru rétt ófarnir er ég kom heim.  Ég vafraði aðeins um á netinu eða þar til Barnaby byrjaði á RÚV.

21.2.14

Tap

Fimmtudagar eru lánsbílsdagar milli heimilis og vinnu.  Bauð sonunum far í skólann í gærmorgunn og var mætt í vinnuna stuttu fyrir átta. Verkefni dagsins entust alveg til fjögur og var ég megnið af deginum að vinna á framleiðsluvélinni.  Strax eftir vinnu lét ég snetrilausu þvottastöðina Löður við Skúlagötu skola af lánsbílnum.  Splæsti gullþvottaprógrammi á bílinn sem varð hreinn og fínn að utan.  Þá er bara spurningin hvenær ég læt verða að því að skrúbba hann að innan?

Hafði lifur í hvítlauks- og steinsellukryddaðri edikssósu í matinn sem er alltaf vinsælt á mínum bæ.  Samt var ég svo heppin að það var afgangur til að taka með sér í vinnuna í dag.  Rétt fyrir átta rölti ég út í Valsheimili á heimaleik í Olísdeild karla í handbolta, Valur - FH.  Staðan var 14:13 í hálfleik en tveir leikmenn FH-inga voru atkvæða miklir og illviðráðanlegir, markvörðurinn og leikmaður nr 24 sem skoraði 10 mörk, svo leikurinn endaði með fjögurra marka tapi 24-29.  Fljótlega eftir að ég kom heim horfðum við Oddur Smári saman á "Criminal Minds".

20.2.14

Smá tónleikar í upphafi kóræfingar

Í gær var almenningssamgöngudagur milli heimilis og vinnu.  Ég er eitthvað farin að huga að því að labba kannski heim úr vinnunni en í gær var nokkur hraðferð á logninu og frekar kalt svo ég nýtti mér leið 13 sem stoppar eiginlega á horninu heima.  Strákarnir ætluðu til pabba síns eftir skóla.  Reyndar fór annar pilturinn í ræktina fyrst og ég hitti hann í mýflugumynd þegar hann skilaði af sér ræktardótinu heim.  Ég vafraði um á netinu og fékk mér sjóðandi vatn út á haframjöl með rúsínum, kasewhnetum og kanel í kvöldmatinn.  Horfði á fréttirnar á Stöð 2 og tók svo með mér einnota plastkaffimál á kóræfingu til að spara uppvaskið.  Árni Heiðar var í miklum ham að spila eitthvað þegar við kórfélagarnir vorum að tínast inn á æfingu.  Þegar við vorum öll sest inn var aðeins byrjað að rabba um tilvonandi árshátíð kirkjunnar og spurði kórstjórinn okkur hvort hann mætti spila fyrir okkur verk eftir Frans Lizt sem hann hefur hug á að spila fyrir árshátíðargesti sem og á tónleikum fyrstu helgina í mars.  Æfingin gekk annars vel og eftir kaffipásu renndum við yfir tónlistarmessuformið sem verður n.k. sunnudag.  Árni ætlar að spila á hammondinn og fá með sér tvo á gítar og trommur.  Enginn bassaleikari að þessu sinni.  Þetta verður örugglega gaman.  Klukkan var farin að halla í tíu er ég kom heim.  Bræðurnir komu ekki heim fyrr en um klukkustundu síðar og þá fór annar þeirra eiginlega beint í háttinn.

19.2.14

Heimasigur í gær

Mikið hvað tíminn getur ætt hratt áfram.  Gærdagurinn var hefðbundinn framan af.  Tók strætó í vinnuna um hálfátta og aftur heim upp úr fjögur.  Byrjaði á því að kveikja á tölvunni þegar heim kom áður en ég fór í smá "heimilisvinnu".  Setti upp kartöflur, steikti fisk upp úr eggi og byggjöli og sesamfræjum krydduðu með "best á fiskinn" og bræddi smá smjör og hellti úr hálfdós af gulum baunum út í pottinn.  Klukkan hálfátta var ég mætt á heimaleik í kvennahandboltanum, Valur - Fram.  Heimakonur eltu allan fyrri hálfleikinn en misstu samt frammarana aldrei of langt frá sér.  Einu marki munaði í hálfleik.  Fljótlega í seinni hálfleik kom 5:0 kafli og staðan breyttist úr 12:12 í 17:12.  Leikurinn endaði 25:22.  Labbaði heim glöð í bragði.  Fékk Odd til að poppa og svo horfðum við á Castle á tímarásinni.

18.2.14

Saumaklúbbur

Heilsa þér með virktum mestum
Muntu segja já við "gestum"?
Eitt gjafabréf
og handa mér
svo andann og sálina nestum.

Mánudagar eru lánsbílsdagar og þá fá tvíburnarir líka far í skólann.  Eftir vinnu í gær kom ég aðeins við í Krónunni út á Granda og keypti smá inn.  Ekki samt alveg hefðbundna vikulega körfu því ég átti til ýmislegt þótt annað vantaði.  Strax og ég kom heim setti ég í svo sem eins og eina þvottavél og byrjaði svo að finna til kvöldmat.  Við borðuðum rétt upp úr sex og ég var búin að hengja upp um sjö.  Horfði á fréttir en upp úr hálfátta fór ég að huga að því að taka mig til fyrir saumaklúbb.  Var mætt hjá tvíburahálfsystur minni klukkan átta.  Við vorum aðeins tvær en seinna um kvöldið kíkti æskuvinkona hennar við sem ég þekki úr FSu og kórnum þar.  Mikið var gaman að hitta hana.  Ég saumaði aðeins í "Lost no more" - myndinni og svo eitthvað af útlínum á grammafónsmyndina.  Kvöldið leið hratt og var klukkan farin að ganga tólf er ég kom heim.

17.2.14

"Dregin á gjörning"

Það hvarflaði sem snöggvast aftur að mér, að vinstra hnéð hefði líklega bara verið í "þynnkukasti" á laugardaginn (eins og ég hélt fram meira í gamni en alvöru í gær), þegar ég steig fram úr rúmi um níu í gærmorgun.  Mér leið svo miklu, miklu betur í hnénu.  Ákvað að smyrja mig með kókosolíu og beið með að þurrka yfir húðina í ca tíu mínútur áður en ég fór svo í sturtu.  Um ellefu var ég mætt til norsku esperanto-vinkonu minnar.  Við fengum okkur graut og tókum svo kaffið með okkur yfir í esperantohornið frammi í holi.  Þar minntist hún á sýningu eða gjörning við mig sem er sýndur á Hverfisgötu í húsi merktu Kling og Bang.  Hún var búin að sjá þessa sýningu amk þrisvar og vildi endilega fara með mér þangað.  Eftir glímu við erfiða krossgátu á esperanto og uppflettingu á nokkrum orðum fengum við okkur ristað brauð.  Síðan lá leiðin í Borgarbókasafnið í Grófinni.  Þar skilaði ég sex bókum og tók mér aðrar fimm í staðinn.  Vorum komnar inn í Kling og Bang um tvö og rétt seinna hófst fyrsta rennslið.  Inni í salnum voru nýskjáir átta inni og einn sem sýndi hús nokkurt e-s staðar út og veröndina fyrir framan.  Hinar myndavélarnar voru hver í sínu herbergi og stofum.  Um var að ræða gjörning sem Ragnar nokkur Kjartanson og nokkrir aðrir framkvæmdu.  Hann var í froðubaði og spilaði á gítar og söng.  Í einu herberginu var kona að spila á harmonikku.  Hún söng líka og skipti svo seinna yfir á gítar.  Í öðru herbergi var dökkur maður sem spilaði á banjó.  Hann söng líka með.  Í einu herbergi sást kona liggja í rúmi og á rúmstokknum sat maður og spilaði á gítar og söng.  Á tveimur stöðum voru menn sem spiluðu á píanó, annar þeirra var líka með munnhörpu og hinn með gítar. Svo var kona að spila á selló og maður á trommur.  Allir sungu með og voru með eyrnatól til að heyra í hvert öðru.  Einnig voru tvö á veröndinni samtengd og annað þeirra var með gítar. Það var mikið um endurtekningu.  Atriðið stóð yfir í klukkutíma, melódían var angurvær og gaman að fylgjast með öllum sjónarhornum.  Í lokin safnaðist fólkið inni við annað píanóið áður en það gekk út, sameinaðist hópnum á veröndinni og gekk syngjandi út á engið í átt til skógar.

16.2.14

Innipúki í gær

Það kom nú ekki til af góðu að ég hélt mig innivið í gær.  Ég er ekki mikið fyrir að kvarta, held ég, svo ég spyr mig bara hvort þynnkan geti sest á einn ákveðinn líkamspart?  Ég var ekki með neina timburmenn en vinstra hnéð lét mig finna vel fyrir sér í hvert skipti sem ég stóð upp og gekk um íbúðina.  Gæti labbið frá Katrínartorgi hafa átt hlut að máli, að þar sem ég var aðeins búin að fá mér í tána, hafi ég ekki gætt nógu vel að mér á göngunni?  Ég minnist þess ekki að hafa verið neitt stíf eða hafa misstigið mig.  Reyndar hef ég aðeins fundið fyrir þessu hné núna nýlega og skýringin er líklega sú að það safnast of mikill bjúgur sem þrýstir á og framkallar þennan sársauka.  Ég ákvað semsagt að taka því afar rólega hér heima í gær og notaði tækifærið og horfði á restina af annarri seríu af Scandal á skjáfrelsi.  Hellti mér upp á kaffi seinni partinn og átti svo afgang af kjúklingapottrétti sem ég gat skipt upp í tvær máltíðir svo ég á eftir annan skammt í kvöld.  Horfði á Barnaby á DR1 og Sherlock Holmes á RÚV um kvöldið.  Þá mundi ég eftir því að ég átti sennilega smá treo uppi í skáp.  Það var akkúrat ein tafla eftir sem ég leysti upp í vatni og skellti í mig áður en ég skreið upp í.

15.2.14

Letilíf um helgina

Fór með leið 13 til vinnu upp úr hálfátta í gærmorgun.  Dagurinn leið einhvern veginn, hvorki of hægt né of hratt.  Vorum þrjár eftir upp úr klukkan tvö og rétt fyrir fjögur fengu tvær af okkur far með þeirri þriðju yfir í Katrínartúnið þar sem við hittum þá fjórðu aftur, ásamt fullt af fleiri vinnufélögum, á 20. hæð.  Þetta var svo "Kick off" dæmi þar sem farið var yfir bæði það sem er búið og vel gert og það sem er framundan.  Boðið var upp á léttar veitingar.  Ég entist bara nokkuð vel í þessu húllum-hæi en þegar átti svo að fara að rölta í bæinn ákvað ég að rölta bara heim.  Hér heima voru strákarnir með spilakvöld.  Ég fór inn í herbergi eftir að hafa kastað kveðju á alla.  Rétt leit í tölvuna en lagðist svo augnablik á rúmið.  Steinsofnaði um stund.  Rumskaði um miðnættið og þá voru allir strákarnir farnir, bræðurnir líka því það er pabbahelgi.  Ég háttaði mig og náði að sofna strax aftur.

14.2.14

Fullt tungl

Bauð bræðrunum far í skólann í gærmorgun, sem þeir þáðu.  Ég vann á vélinni milli átta og rúmlega hálftólf með smá kaffihléi upp úr tíu.  Fórum fimm saman af sex í mat upp í mötuneyti seðlabankans.  Sátum svo allar sex á kaffistofunni frá korter yfir tólf.  Ég tók mér orlof eftir hádegi og stimplaði mig út rétt fyrir eitt.  Skrapp fyrst heim að ná í smá gögn sem ég hafði gleymt að taka með um morguninn.  Fyrst lá leiðin í landsbankann í Borgartúni.  Þar átti ég nokkur erindi.  Byrjaði á því að setja klinkið úr kaffikrukku KÓSÍ-kórsins í myntteljarann.  Í krukkunni voru líka nokkrir seðlar.  Þetta voru rúmlega tólf þúsund krónur sem ég lagði inn á reikning kórsins.  Næst valdi ég mér ákveðinn þjónustufulltrúa.  Var að athuga hvort bankalánið mitt hjá þeim væri líka með veð í bílskúrnum og ef svo væri hvort þeir vildu aflétta því og færa alfarið á íbúðina. Þetta þarfnaðist frekari skoðunnar og kemur í ljós á næstu dögum.  Síðan fór ég upp á næstu hæð og lagði inn skjal um að ég væri að taka að mér gjaldkerastöðuna í húsfélaginu.  Spurði í leiðinni afhverju ég fengi árlega tilkynningu um að ég væri í ábyrgð fyrir foreldrafélag DKR þrátt fyrir að vera hætt sem gjaldkeri þar haustið 2010?  Það átti þá eftir að fella þetta niður.  Mun sleppa við þessa tilkynningu hér eftir.  Úr bankanum lá leiðin í Íbúðalánasjóð sem er við sömu götu.  Þar var ég að biðja um að aflétta veðinu á bílskúrnum.  Fæ líklega jákvæða staðfestingu á því dæmi fljótlega.  Áður en ég fór heim kom ég svo við í Saumnálinni, sem nú er staðsett við Laugaveg 168, með þrennar buxur í viðgerð.  Semsagt ýmis erindi rekin í gær.  Hringdi austur í foreldra mína þegar ég kom heim.  Hellti upp á könnuna og hringdi svo annað símtal á Selfoss.

13.2.14

"Raddtemjari" með kóræfinuna í gær

Nýtti mér almenningssamgöngur, stóra gula bílinni, milli heimilis og vinnu í gær.  Hópstjórinn okkar var í fríi í tilefni dagsins en önnur úr hópnum bannaði okkur hinum að fara neitt fyrr heim þennan daginn.  Við áttum margar einn klukkutíma vegna fundarins milli fjögur og fimm sl. fimmtudag.  Um eitt leytið bannaði hún svo einni að fara fram á salernið.  Sagði að hún yrði að bíða til hálftvö.  Þegar klukkan var búin að slá hálf þá var okkur sagt að fara allar fram í einu.  Þar beið okkar stærðarinnar bleik afmælisterta og afmælisbarnið, hópstýran.  Hún bauð upp á illy-kaffibaunir í kaffivélina með þessu og saman var þetta alveg himneskt.

Strákarnir fóru til pabba síns eftir skóla og rækt í gær svo ég þurfti ekki að hugsa fyrir kvöldmat.  Fékk mér bara sjóðandi vatn út á haframjöl með kasewhnetum, rúsínum og kanil og borðaði þetta þegar hafrarnir voru búnir að drekka í sig vatnið.

Var mætt á kóræfingu klukkan hálfátta.  Að þessu sinni var Guðbjörg Tryggvadóttir, kórstýra sönghópsins Veiranna, með okkur í raddþjálfun.  Þaulæfðum tvö lög, annað sem við höfum sungið oft áður (Sigurhátíð sæl og blíð...) og hitt höfum við rétt kíkt á, reyndar í aðeins annarri útsetningu en hún æfði með okkur.  Tímin leið afar hratt enda mjög gaman og maður fann hvað maður hafði gott af þessari einbeitingu á tækni til að nota söngröddina sem réttast og léttast.

12.2.14

Vikan hálfnuð

Fór með strætó til vinnu í gærmorgun. Þessa dagana er einungis um daglegan rekstur og framleiðslu að ræða. Við eigum ekki von á neinni endurnýjun fyrr en í kringum 22. þ.m.  Framleiðslan er mismikil dag frá degi en samt aldrei svo mikil að við séum að langt fram á daginn.  Nema kannski ef vélin hagar sér illa sem kemur fyrir.  Tók strætó aftur heim upp úr fjögur og var rétt á eftir öðrum tvíburanum inn en fann hinn veikan heima. Kveikti á tölunni og hringdi svo í foreldra mína.  Pabbi svaraði og við spjölluðum í stutta stund.  Stundum tala ég við þau bæði.

Ég er í prufuáskrift af smá vörulínu næstu vikurnar.  Sendingar eiga að koma mánaðarlega en næsta sending kemur ekki fyrr en í þarnæstu viku og ég var búinn með birgðirnar.  Svo ég setti mig í sambandi við birgjann sem bauð mér að kaupa af sér eina aukaeiningu.  Ég ákvað að þyggja það og fór strax og sótti þetta.

Við Oddur Smári horfðum saman á Castle-þátt í gær.  Strákurinn poppaði fyrir þáttinn.  Þegar þættinum lauk horfði ég á einn þátt af Scandal á Skjá-frelsi á meðan ég beið eftir að síðasti Whitecappel-þátturinn ætti að fara í loftið.

11.2.14

Kókosolíumýkt

Strákarnir fengu far með mér í skólann í gærmorgun þar sem ég ákvað að fara á bíl í vinnuna.  Átti hálft í hvoru von á því að þurfa að reka erindi strax eftir vinnu.  Það var nú ekkert úr því, fór bara beint heim. Gærdagurinn leið afar hratt bæði fyrripartur og seinni partur.  Eftir kvöldmat og uppvask skrapp ég í heimsókn til eldri konu, tengdamömmu eins frænda míns.  Hjá henni liðu rúmir tveir tímar sem varla hálfur væri enda orðið alltof langt síðan ég heimsótti hana síðast.  Höfðum um margt að spjalla og svo horfði ég með henni á tíu-fréttir og part af íþróttaþættinum sem var á eftir.

Annars er ég að gera smá tilraun með að hreinsa og mýkja húðina að utan.  Annan til þriðja hvern morgun bursta ég upp húðina og maka svo á mig kókosolíu.  Hluti af olíunni smyrst inn í húðina en ég strýk aftur yfir með þvottastykki áður en ég fer svo í sturtu.  Hvítt þvottastykki verður alveg grátt eftir að hafa strokið olíuna af.  Húðin er silkimjúk á eftir svona meðferð.

10.2.14

Ný vinnuvika

Ég var komin á fætur upp úr níu í gærmorgun.  Morguninn leið afar hratt og klukkan eitt var ég mætt upp í kirkju óháðasafnaðarins.  Við mættum ellefu úr kórnum og renndum í gegnum sálmana og æfðum einn sérstaklega í röddum, sálmur 732 Leið mig Guð.  Messan stóð svo yfir í rúmlega 35 mínútur.  Samt vorum við ekkert að hraða hlutunum en það var ekki altarisganga.  Altarisgöngur eru alltaf fjórða sunnudag í mánuði og svo föstudaginn langa.  Fékk mér smá kaffi og maul eftir messu en fór svo beint heim.  Hringdi í foreldra mína um fimm leytið og spjallaði stuttlega við þau.  Þurfti ekki að hugsa fyrir mat því bræðurnir komu ekki heim fyrr en einhvern tímann eftir kvöldmat.

9.2.14

Messa á eftir

Stuttu áður en kominn var tími fyrir mig til að leggja af stað til esperanto vinkonu minnar hringdi systir mín í mig til að segja mér fréttir.  Ég var að vísu ekki beðin fyrir að vera ekki að útvarpa þessum fréttum en ætla samt að bíða með að minnast meira á þetta þar til málin verða mun skýrari.  Ég var svo mætti vestur í bæ um ellefu. Ég var mjög öflug og sagði henni frá hluta af gærdeginum á esperanto. Inger byrjaði á því að bjóða mér dýrindis hafragraut áður en við fórum með kaffið okkar yfir í aðal esperanto hornið.  Leituðum uppi hin og þessi orðin en gleymdum okkur líka í spjalli á mínu móðurmáli um eitt og annað.  Það er bara svo gaman að spjalla við þessa manneskju.  Einhvern tíman mun koma að því að við munum auka notkunina á þessu skemmtilega tilbúna máli.  Ég er alveg viss um það.

Næst lá leiðin í Krónuna vestur á Granda þar sem ég verslaði inn fyrir vikuna.  Náði að halda körfunni í rétt rúmlega 20.000 og er viss um að hafa nóg fram að næsta vikulega leiðangri.  Nú ef ekki, þá er Sunnubúðin rétt hjá og tilvalið að styrkja kaupmanninn á horninu.

Oddur var á leiðinni í sturtu er ég kom heim með þrjá poka.  Föðurforeldrar voru á leiðinni að sækja strákana til að bjóða þeim út að borða og vera hjá sér yfir helgina.  Ég gekk því frá vörunum og ákvað að bruna svo á lánsbílnum á Valsvöllinn, þar sem handboltastelpurnar voru að taka á móti Haukum, því þá væri ég snögg að bregða mér lengra af bæ eftir leikinn.  Því miður töpuðu stelpurnar og ég er hrædd um að Stjarnan hafi deildarbikarinn alveg í hendi sér, þrátt fyrir að hafa gert jafntefli í sínum leik.

leik loknum hringdi ég í mömmu einnar frænku minnar, yndislegrar gamallrar konu á tíræðisaldri til að athuga hvernig ég sækti að.  Ég var auðvitað velkomin og mín beið kaffi og með því er ég mætti ca. korteri seinna.  Spjölluðum yfir kaffibollunum í dágóða stund en svo spurði hún mig hvort hún mætti plata mig til að fara og versla með sér.  Það var alveg auðsótt mál.  Áður en við lögðum í hann taldi hún upp það sem hún ætlaði að kaupa og það var ká í því öllu.  Í búðinni bættist svo við ein dós af laxasallati.

Horfði á Barnaby á DR1 um kvöldið og Sherlock Holmes á tímarásinni.  Vavraði aðeins um á netinu áður en ég skreið upp í rúm þar sem ég las um stund áður en ég slökkti á lampanum, bað bænir mínar og sveif svo inn í draumalandið.

8.2.14

Helgarfrí

Fór með strætó til vinnu í gærmorgun.  Vinnudagurinn var afar fljótur að líða enda vorum við með verkefni alveg til klukkan fjögur.  Fram að kaffi tók ég á móti kortum, skoðaði og safnaði saman á einn stað.  Ef eitthvað var athugavert við kortin fór ég með þau til þeirrar sem var að "troða í" vélina.  Eftir kaffi hjálpaði ég þeirri sem sinnti bókhaldsmálum í gær og taldi allar kortategundir úr vögnunum sem búið var að framleiða úr.  Upp úr tólf, eftir að hafa farið í hádegispásu, fór ég aftur á vélina.  Í þetta sinn til að "troða í".  Lukum framleiðslu upp úr hálfþrjú, skruppum í kaffipásu og notuðum svo síðasta klukkutímann til að pakka framleiddum kortum eftir kúnstarinnar reglum.

Strax eftir vinnu rölti ég af stað áleiðis á Kaffi París.  Ég var rétt rúmlega hálfnuð þegar ég hitti á þá sem hafði mælt sér mót við mig þar, tvíburamömmuna og jafnöldu, Brynju, sem ég djammaði með um síðustu helgi, og við urðum samferða síðasta spölinn.  Við pöntuðum okkur Gylfasallat og ég ákvað að splæsa líka á mig svo sem eins og einu hvítvínsglasi.  Við vorum nýlega byrjaðar að borða þegar sá þriðji boðaði, Ofur Baldur, mætti á svæðið.  Hann var líka einn af þeim sem var á djamminu með okkur um síðustu helgi.  Það var mikið spjallað og hlegið.  Pöntuðum okkur kaffi eftir að hafa borðað.  Ég hafði séð fyrir mér að við myndum sítja og spjalla í tvo til fjóra tíma og var með það á bak við eyrað að skreppa á heimaleik minna manna í handboltanum, fyrsta heimaleikinn á árinu.  Tíminn hins vegar flaug frá okkur, enda var þetta gaman og góður félagsskapur.  Klukkan var orðin hálftíu þegar við loksins kvöddumst.  Vinkona mín bauðst til að skutla mér heim og þáði ég það.

Hér heima voru strákarnir með spilakvöld.  Ég kastaði kveðju á hópinn en fór svo inn í herbergi og kveikti á tölvunni m.a. til að athuga hvernig leikurinn Valur - HK fór,  48-18 fyrir Val.  Ótrúlegar tölur það.

7.2.14

Vinnuvikulok

Gærdagurinn var nokkuð erilsamur.  Vann á framleiðsluvélinni til hádegis, að troða í og hlaða inn skrám fram að kaffi og að taka á móti eftir kaffi.  Rétt fyrir tvö var pantaður leigubíll og fórum við tvær yfir í K2 á skyldunámskeið.  Hittum þá þriðju þar.  Námskeiðið stóð yfir í klukkutíma og þá tókum við leigubíl til baka.  Klukkan fjögur komu nokkuð margir af þjónustusviðinu og settust niður í kaffistofunni.  Framkvæmdastjórinn rabbaði við okkur um ýmislegt sem gengið hefur í gegn og annað sem er framundan.

Strax eftir vinnu fór ég með bílinn og keyrði hann í gegnum snertilausu þvottastöðina við Olís.  (Stoppaði auðvitað inni á meðan sjálfvirku græjurnar unnu sitt verk.  Ég hafði líka fengið sms um 12 kr. aukaafslátt hjá Atlantsolíu svo næst lá leiðin að stöðinni við flugvallarveg þar sem ég fyllti bílinn.
Þegar heim kom fór ég beint í að sinna matarmálum.  Strákarnir skuppu til eins félaga síns milli átta og hálfellefu en ég kom mér fyrir fyrir framan sjónvarpið.  Og viti menn ég tók aðeins upp saumana mína í fyrsta sinn í eina og hálfa viku.

6.2.14

"Út og suður"

Bauð tvíburunum far í skólann í morgun.  Ég hafði lagt bílnum fyrir aftan heilsugæslustöðina þegar ég kom heim af kóræfingu í gærkvöldi og það varð til þess að ég ákvað að fara á bílnum í vinnuna annað skiptið í vikunni.  Aðrar ástæður voru þær að þá gætu báðir strákarnir notið góðs af og svo gæti ég líka svarað "kallinu" strax eftir vinnu ef það kæmi nú sms um aukaafstátt hjá Atlantsolíu.

Vel var mætt á kóræfingu í gærkvöldi það vantaði aðeins nýju konurnar tvær og svo tenórínuna (sem reyndar getur alveg sungið sópran og allt líka) en hún er í pásu um óákveðinn tíma þar sem hún er yfirleitt upptekin annars staðar þegar það eru messur í óháðu kirkjunni.  Æfingin gekk þokkalega og kvöldið leið alltof hratt.

Tók upp nál, fljótlega eftir að ég kom heim af æfingu, aðeins til að festa eina tölu í frakkann hans Odds.  Meira var ekki saumað og hef ég því ekki snert á saumaverkefnunum það sem af er þessum mánuði.  Hef samt engar áhyggjur af því.  Löngunin er alveg til staðar en það er fínt að taka sér smá pásur öðru hvoru og beina athyglinni eitthvað allt annað um stund.  Helst er ég þó að lesa eða vafra um á netinu í frítíma mínum.

5.2.14

Hreysti

Um daginn fór ég aðeins að skoða tölulegar upplýsingar úr vinnuskýrslum síðustu ára.  Komst þá að því að ég tók síðast veikindadaga í janúar 2012, heila tvo daga.  Skýrslan fyrir 2013 var græn að mestu en gul þau tímabil eða þá daga sem ég var í fríi.  Mér finnst þetta alveg magnað og er ánægð með mig.

Það var blautt og rigningarlegt úti í gærmorgun.  Vakti Davíð Stein um hálfátta og spurði hvort hann vildi fá far í skólann.  Annað hvort hafði hann gleymt að kveikja á vekjaranum eða slökkt alveg í stað þess að snúsa eftir fyrstu hringingu og sofnað aftur.  Strákurinn þáði farið en sagði svo í upphafi ferðar að það væri nú frekar lítil rigning. Það rigndi meira eftir hádegi og það var demba um það leiti sem ég var að hætta vinnu.

Ég veit að ég á nokkra trygga lesendur á pistlunum mínum.  Er búin að blogga með hléum í tíu ár.  Var dugleg fyrstu árin en árið 2012 var rýrasta bloggárið.  Ekki veit ég alveg hvernig stóð á því að ég byrjaði aftur að setja inn nokkuð reglulegar færslur í fyrravor en ég var ekki búin að setja inn marga virka daga þegar ég fékk sms-skilaboð um hversu gott og gaman væri að ég væri byrjuð aftur.  Og nú er ég búin að skrifa pistla daglega síðan um mánaðamótin október-nóvember.  Hversu mikið ég hef að segja í hvert sinn ætla ég ekkert að vera að velta fyrir mér.  Stöku sinnum skoða ég hinar og þessar eldri/gamlar færslur og verð stundum hissa á hversu gaman er að rifja upp og lesa yfir textana.  Eins finnst mér gaman að lesa yfir ljóðin mín en hef hins vegar ekki verið nógu dugleg að færa "nýjustu afrekin" á ljóðasíðuna mína.  Á fyrstu árunum var hægt að setja athugasemdir undir bloggtextana en það var dottið út þegar ég byrjaði aftur í fyrra.  Er ekki svo viss um að ég finni út úr því hvernig hægt sé að koma athugasemdakerfinu upp aftur.

4.2.14

"Verkfall?"

Ja, hérna hér, ég hef ekki snert á nál í heila viku eða síðan það var saumaklúbbur hér hjá mér á mánudagskvöldið í síðustu viku.  Reyndar les ég voða mikið þessa dagana en það er sama þá á alltaf að gefast tími til að telja aðeins út án þess á láta líða of marga daga á milli.  Ég þyrfti að vinna í því að klára stóru myndina sem Sonja gaf mér í afmælisgjöf fyrir tæpum sex árum og ég byrjaði loksins á fyrir rétt rúmu ári.  Þá var ég alveg viss um að verkefnið myndi endast mér í fimm ár eða jafnvel lengur svo ég ætti ekkert að vera að kvarta.  Þegar ég tek mig til þá klára ég hin og þessi verkefnin á mettíma.

Annars er lítið að frétta.  Notaði stóra gula bílinn milli heimilis og vinnu í gær.  Fór að heiman um hálfátta og kom aftur upp úr fjögur.  Eyddi dágóðum tíma í tölvunni.  Þegar leið að kvöldmatartíma setti ég upp kartöflur og steikti bæði lifrarpylsu- og rúsínuslátursneiðar (nýtt frá SS) handa okkur Davíð Steini.  Smakkaðist ágætlega.  Horfði svo á fréttir, Dichte og CSI og las reyndar þarna inn á milli bók af safninu sem ég hef lesið einhvern tímann áður, fyrir löngu, löngu síðan.

3.2.14

Kóræfing fyrir austan fjall

Ég var ekkert að hanga of lengi í rúminu í gærmorgun.  Var svo mætt til norsku esperanto vinkonu minnar rétt um ellefu.  Við byrjuðum á því að borða saman graut og tókum svo kaffi með okkur yfir í annað esperantohornið (við setjumst helst niður í sófa á ganginum en stundum inni í stofu).  Við vorum frekar lengi að koma okkur í gang.  Margt var spjallað en ekki á esperanto þó.  Náðum svo að fletta upp á nokkrum orðum og skrifa niður.

Frá Inger fór ég og verslaði í Krónunni út á Granda.  Oddur Smári gekk frá vörunum en fór hann að huga að því að taka sig til því hann ætlaði til pabba síns.  Ég skrapp og skoðaði útsöluvörur í Hagkaup í Kringlunni.  Fann ekki neitt en keypti mér einar buxur sem ég held að hafi ekki verið á útsölu, kostuðu um 8000kr.

Hringdi til tvíburahálfsystur minnar.  Hún var aðeins upptekin svo ég sagði dóttur hennar að ég myndi bara hringja aðeins seinna.  Sonja var búin að hringja í mig áður en ég hringdi aftur.  Ég hafði bara ætlað að fá að vita hvenær við legðum í hann austur.  Hún sótti mig upp úr hálfsex og við brunuðum beint í Fossheiðina þar sem beið okkar veislumatur a la mamma hennar.  Við mættum pakksaddar á kóræfingu fyrrum kórs FSu félaga í fjölbrautaskólann klukkan átta, mest hræddar um að við gætum ekki sungið fyrir magafylli og myndum bara standa á blístrinu.  Hefðum ekki þurft að hræðast þetta því æfingin gekk vel fyrir sig og við vorum afar dugleg, þessi 19 sem mættum.  Æfðum í rétt tæpa tvo tíma með smá hléi inn á milli.  Jón Ingi var þokkalega ánægður með mætinguna en sagði að við mættum alveg fjölga okkur.  Ég veit annars um þrjá sem ekki komust í gær en ætla að vera með.

Ég hafði sagt vinkonu minni frá því að Oddur og nokkrir vinir hans hefðu gert at í einum félaganum sem skrifar alltaf k í stað h í spurnarorðum.  Þeir tóku sig til og svissuðu þessum sömu stöfum í fullt af orðum og "skæpuðu" svoleiðis sín á milli og helst til félagans.  Útkoman gæti til dæmis verið:  "Það er hross á Kallgrímshirhjuturni"  eða "Það er kross í kestkúsinu".  Við Sonja prófuðum hvernig hin og þessi orðin og setningarnar myndu hljóma, ef við gerðum það sama og strákarnir, á meðan við vorum á leiðinni í bæinn aftur og hreinlega veinuðum úr hlátri.  Það er nú ekki langt á milli Selfoss og Reykjavíkur en ég get svo svarið það að leiðin var óvenju stutt í gærkvöldi.

2.2.14

Aftur á djammið

Þótt ég kæmi heim um tvö í fyrrinótt fór ég alls ekki strax að sofa.  Það var kveikt á tölvunni og ég gleymdi mér aðeins yfir einum leiknum og þegar ég skreið upp í rúm tók ég mér bók í hönd og fór að lesa.  Klukkan var að byrja að ganga fimm þegar ég fór loksins að sofa.  Var samt vöknuð um tiu í gærmorgun.  Sinnti morgunrútínunni og skreið svo aftur upp í rúm og las nokkra kafla áður en ég ákvað að fara á fætur.  Gærdagurinn var óneitanlega styttri í annan endann, þ.e. upphafsendann.  Strákarnir höfðu ekki vaskað upp eftir sig frá kvöldinu áður en ég samdi við Odd um að ef hann tæki að sér að ryksuga yfir gólfin þá skyldi ég ganga frá í eldhúsinu.  Bað hann samt um að setja þá reglu framvegis ef það verður aftur eldað að þeir sem ekki sjái um að elda gangi frá eftir matinn.

Um átta um kvöldið hringdi ég í hina tvíburamömmuna sem einnig var á Kaffi París og Loftinu kvöldinu áður.  Ég sló á þráðinn aðallega til að afsaka það að hafa stungið af án þess að kveðja en líka til að athuga hvort hún væri eitthvað búin að velta kvöldinu fyrir sér.  Við vissum að Þöll átti að syngja nokkur lög í Kringlukránni og okkur langaði báðum til að heyra aftur í henni.  Svo við peppuðum hvor aðra upp og ákváðum að skella okkur saman.  Hún sótti mig upp úr tíu og svo lagði hún bílnum við innganginn á Kringlunni þar sem maður fer m.a. ef maður fer í Kringlubíó.  Þaðan löbbuðum við fyrir hornið og inn á Kringlukránna.  Geir Ólafs, hóf sönginn um hálftólf og söng nokkur lög áður en Þöll tók við og söng tvö lög.  Svo söng Geir aðeins meir þar til hann kynnti Stefán í "Lúdó og Stefán" á svið.  Stefán söng fjögur lög áður en Geir tók aftur við og svo söng Þöll nokkur lög. Þegar Geir lauk sinni dagskrá um eitt kynnti hann Ara Jónsson á svið.  Stuttu eftir það fórum við nokkur saman í Þjóðleikhúskjallarann og dönsuðum og sungum á Stjórnarballi til klukkan þrjú.  Mér var skilað heim að dyrum rétt fyrir hálffjögur og ég las til fjögur áður en ég fór að sofa.  Þetta er semsagt búin að vera hrikalega skemmtilega helgi sem ekki er búin enn.  En meira um það á morgun.

1.2.14

Fyrsti dagurinn í febrúar

Fór með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Um níu fóru þrjár af okkur á námskeið í Katrínartúni.  Ég var ekki ein af þeim heldur stóð vaktina við móttöku og skoðun korta fram að kaffi.  Eftir kaffi sá ég um bókhaldið.  Fór upp í mötuneyti seðlabankans og fékk mér kjötsúpu í hádeginu.  En rétt fyrir tvö fórum við þrjár sem stóðum vaktina um morguninn á námskeið í turninum við Katrínartún.  Klukkan var að verða hálffjögur þegar námskeiðinu lauk og ég fékk leyfi til að trítla bara heim í stað þess að fara með leigubíl til baka og bíða eftir því að klukkan yrði fjögur.  Þar af leiðandi notaði ég bara tvo strætisfarmiða í vikunni, í vinnu á miðvikudag og aftur í vinnu í gær.

Það var spilakvöld hjá strákunum og hluti hópsins tók sig til og eldaði ofan í þá alla.  Ég fékk mér bara smá snarl, horfði á fréttir og fór svo að búa mig út á "djammið".  Stuttu fyrir átta hringdi "föðursystir" vinkona mín í mig og var gott að heyra í henni.  Við töluðum ekki lengi því ég ætlaði mér að vera komin á Café París um átta.  Fór á bílnum og þegar ég kom á kaffihúsið var mér vísað niður.  Þar tóku Þöll og fleiri vel á móti mér.  Um níu söng Þöll fyrir okkur nokkur af frumsömdum lögum sínum.  Það sem þessi stelpa er með flotta rödd og lögin hennar eru mögnuð.  ÉG ætla mér svo sannarlega að kaup diskinn hennar þegar hann kemur út því hún verður hreinlega að safna þessu saman og taka upp til að eiga og deila.  Um það bil 30 manns voru mættir til að hlusta á hana en upp úr ellefu fór að þynnast í hópnum og rétt fyrir eitt vorum við aðeins tiu eftir sem ákváðum að skella okkur aðeins á djammið.  Fyrst var farið með tónlistargræjurnar út í bíl svo ekki þyrfti að fá það geymt.  Næst lá leiðin á "Loftið".  Einn úr hópnum er greinilega með einhver sambönd því okkur var hleypt inn framfyrir þá sem voru í röðinni.  Inni var eiginlega ekki hægt að tala en sumir skelltu sér á dansgólfið.  Þarna vorum við í ca þrjú korter eða svo áður en ákveðið var að kíkja á fleiri staði.  Steinsnar frá er "Austur" og þangað fóru flestir og var einnig hleypt inn framfyrir röðina.  Ég ákvað hins vegar að segja þetta gott og drífa mig heim.  Er aðeins með samviskubit yfir að hafa ekki náð að kveðja nema einn úr hópnum.  En kvöldið var eftirminnilegt og skemmtilegt, mikið hlegið og spaugað í góðum hópi.