21.6.08

- Stiklað á stóru -

Nú ætla ég aðeins að punkta niður það helsta sem hefur gerst sl. rúma viku. Kvöldið eftir að við Oddur Smári komum á Hellu sóttu föðurforeldrar hans hann. Ég varð eftir og kvaddi ekki fyrr en um ellefu á föstudagskvöldið. Á þessum dögum náði ég m.a að skreppa einu sinni í heimsókn til ættingja og fleiri á elliheimilið, setjast stund út í garðhýsi hjá konu sem ég hef þekkt síðan ég var unglingur, kíkja eina góða kvöldstund til mömmu einnar frænku minnar (þar sem fjórir tímar liðu sem fjórar mínútur væru), ganga upp að Helluvaði og hitta eina föðursystur mína, lesa heila bók upphátt fyrir mömmu, sauma helling (langt komin með fermingardrenginn) og fleira og fleira.

Á laugardagsmorguninn var trítlaði ég í Kristu í Kringlunni og fékk hárþvott og eitt stykki "herraklippingu". Hárið á mér er svo stutt að það er styttra heldur en á Davíð. Úr Kringlunni skundaði ég í Norðurmýrina á esperantofund.

Um hálftvö um nóttina var ég komin til Keflavíkur til að sækja söngfuglinn og manninn minn. Vélin lenti um tvö og það tók hópinn smá tíma að koma sér í gegn. Tókum annan söngfugl með okkur í bæinn og skutluðum honum heim. Davíð Steinn var sjóðheitur og við héldum fyrst að þetta væri bara ferðaþreyta. Hann sofnaði upp úr klukkan fjögur en bankaði hjá okkur tveimur tímum seinna og kvartaði undan hausverk. Gaf honum verkjastillandi og þegar hann sofnaði svaf hann langt fram á dag en vaknaði jafn heitur og þegar hann fór að sofa.

Átti líka frí á mánudaginn var og Davíð ákvað að vera heima líka. Hann fór svo seinni partinn þann dag með svila sínum austur á Rangárvelli að undirbúa smávegis fyrir kvöldið í kvöld. Í bakaleiðinni tók sótti hann Odd Smára sem var að koma úr smá útilegu með afa sínum og ömmu.

Fór á smá esperantofund rétt fyrir hádegi þann 17. júní en fljótlega eftir að ég skilaði mér heim fórum við fjögur gangandi niður í miðbæ og vorum þar til klukkan að ganga sex. Fríið okkar var svo búið í bili þ.e.a.s okkar Davíðs strákarnir eru auðvitað komnir í sumarfrí langt fram í ágúst.

Eitt að lokum. Sl. fimmtudagskvöld fórum við hjónin í göngu, nokkurn veginn hringinn í kringum Öskjuhlíðina. Veðrið var yndislegt miklu lygnara heldur en fyrr um daginn þegar ég var að arka úr vinnu (það var líka hvass um morguninn). Það tók okkur klukkutíma að ganga þetta en við vorum hvorki að labba neitt sérstaklega hægt né hratt.

Góða helgi!

11.6.08

- Tolli ekki heima -

Dagarnir, tæpu tveir, hjá Ellu voru ekki lengi að líða. Hún bauð mér afnot af bílnum á meðan hún lauk af síðustu kennaraverkunum fyrir sumarfrí. Reyndar nýtti ég mér ekki boðið. Mánudagsmorguninn var mjög fljótur að líða. Það eina sem ég var að hugsa um að gera var að athuga hvort föðursystir Davíðs væri heima og tæki á móti gestum. En við eftirgrennslan kom í ljós að hún var stödd í Reykjavík, í fyrsta skipti í tvö ár. Þegar kennarafundum var lokið bauð Ella okkur Oddi í bíltúr. Markmiðið var að skoða fugla og sýna okkur hreindýr. Keyrðum meðfram lagarfljótinu, sem breiðir aldeilis vel úr sér þessa dagana og upp hlíðina sem maður fer inn að Kárahnjúkum. Ekki var eitt einasta hreindýr að sjá svo við snérum við og ákváðum að fara hina leiðina til baka á Egilsstaði. Þegar við áttum síst von á sáum við "rollu" tilsýndar á veginum en þegar Ella flautaði og dýrið stökk niður fyrir veg sáum við að um veturgamalt hreindýr var að ræða. Það skokkaði meðfram veginum og stoppaði öðru hvoru. Eftir að við höfðum svo náð góðri mynd af því snéri það við og hljóp til baka. En þetta var ekki það eina sem við sáum á leiðinni. Við sáum álftarstegg reka tvær heiðargæsir burt frá hreiðrinu og smala hóp af kindum í burtu líka. Enginn og ekkert mátti vera nálægt.
Í gærmorgun rúntaði vinkona mín með okkur um Egilsstaði, og sýndi mér uppbygginguna á staðnum. Það eru heilu hverfin risin og fleiri að rísa. Rétt fyrir hálfeitt kvaddi hún okkur svo á flugstöðinni, rétt áður en við stigum upp í flugvélina. Er til Reykjavíkur kom, löbbuðum við mæðgin heim, ég týndi saman meira dót, svo fermdum við bílinn og komum við í banka áður en við brunuðum út úr bænum. Oddur tæmdi baukinn sinn og fékk sér nýjan. Komum við í Fossheiðinni á Selfossi og stoppuðum góða stund þar áður en við héldum áfram austur í Rangárþing.

9.6.08

-Flug og fleira -

Ég var ákveðin í að taka daginn snemma í gær og stillti klukkuna á 07:15. Þegar klukkan svo hringdi slökkti ég á henni og snéri mér á hina hliðina. Vaknaði aftur um hálfníu og var að peppa mig upp í að fara að gera eitthvað þegar Oddur Smári skreið upp í til að kúra. Það varð til þess að ég fór ekki fram úr, heldur greip eina bókina sem ég er að lesa og las til klukkan níu. Um hálfellefu trítlaði ég yfir í Norðurmýrina til esperanto-vinkonu minnar og var ég hjá henni í góðan klukkutíma.
Rétt fyrir klukkan þrjú röltum við Oddur af stað, með bakpoka og léttar töskur, yfir á Reykjavíkurflugvöll þar sem við áttum bókað far til Egilsstaða klukkan fjögur. Langar leiðir mátti heyra í stuðurum úr Valsstúkunni þar sem "mínir menn" voru að keppa við Breiðablik.
En nú er Oddur Smári loksins búinn að fara í sína fyrstu flugferð. Honum var ekki alveg sama á smá kafla af leiðinni þegar vélin lenti í ókyrrð en annars fannst honum þetta bara gaman. Á Egilsstöðum sótti æskuvinkona mín okkur en við fáum að vera hjá henni til morguns. Reyndar var okkur velkomið að vera eins lengi og við vildum en stráksi er búinn að boða komu sína annað seinni partinn á morgun.
lokum vil ég endilega hvetja ykkur, sem rekist hingað inn, til að smella á linkinn á heimasíðu DKR og þar á hnappinn Barcelona, 2008. Ævintýrið er byrjað og gaman að fylgjast með.

7.6.08

- Göngumessa og óvissuferð -

Klukkan var aðeins sex þegar ég rumskaði í morgun. Gat alveg verið róleg til sjö því feðgarnir og nafnarnir voru búnir að pakka flestu niður fyrir Barcelona-ferðalagið og ég þurfti ekki að mæta í upphitun fyrir messuna fyrr en um átta. Davíð fór á fætur um leið og ég og fór strax í að sinna heimasíðu drengjakórsins og undirbúa skrif um ferðalagið og ævintýrin framundan. Ef smellt er á linkinn Heimasíða DKR hér til síðar birtist síðan og efst í valröndinni er kominn nýr hnappur: Barcelona, 2008. Þar verða vonandi daglegir fréttapistlar eða sögur af söngfuglunum úti, jafnvel myndir og það verður hægt að senda þeim skilaboð og kveðjur og spurningar ef vill.

Messan tókst ágætlega. Hún var stutt, hnitmiðuð og góð. Í upphituninni bað séra Pétur okkur að dreifa okkur um kirkjuna þegar kæmi að predikuninni. Tilgangurinn með þessari bón var að hann var að undirbúa ákveðna sögu í predikunni. Það tókst vel hjá honum.

Var komin heim vel fyrir tíu og rétt seinna vöknuðu tvíburarnir eftir ellefu tíma svefn. Bíllinn var fermdur um hálftólf og við fórum öll saman, fyrst í smá leiðangur en við voru mætt upp í kirkju um tólf. Söngfuglar og fararstjórar tíndust á svæðið og rúmlega hálfeitt veifuðum við á eftir rútunni sem var á leið út á Keflavíkurflugvöll með viðkomu á Bessastöðum.

Næst ætlaði ég að bókasafn að skila sex bókum sem voru komnar á tíma. Kringlusafn var lokað. Ætlaði helst ekki að fara á aðalsafnið þar sem ég hafði grun um að það væri erill niðri í bæ. Þess í stað bauð ég stráknum upp á óvissuferð. Tók hann með mér í heimsókn til eins vinnufélaga sem tók vel á móti okkur. Mesta sportið fyrir strákninn voru hundarnir hennar en hann ætlaði aldrei að geta slitið sig frá þeim. Stoppuðum í næstum tvo tíma. Eftir heimsóknina renndi ég við uppi í Gerðubergi en safnið þar var líka lokað þannig að ég neyddist til að fara á Grófarsafnið. Verið er að uppfæra tölvukerfið þannig að öllum bókum var skilað í pappakassa svo þegar kerfið kemst á aftur á starfsfólkið aldeilis verk fyrir höndum.

Eftir safnferðina skruppum við í Hafnarfjörð og heimsóttum eina vinkonu mína og fyrrum samstarfsstúlku. Þar voru þriggja vikna gamlir kettlingar sem Oddur var mjög ánægður að komast í tæri við. Eftir þessa heimsókn var kominn tími til að drífa sig heim. Náði seinni EM-leiknum næstum því öllum. Skemmtilegur leikur það og fór hann eins og ég spáði fyrir um.

Dagarnir framundan verða viðburðarríkir og spennandi. Meira um það seinna. Góða helgi og farið vel með ykkur!

5.6.08

- Nokkrar línur -

Það mætti halda að ég væri að fara að skrifa bréf, en mér datt bara engin önnur fyrirsögn í hug í þetta sinn. Það voru skólaslit í Hlíðaskóla í dag. Sjöttu bekkirnir mættu klukkan ellefu, fyrst á sal og svo í smá stund inn á stofur með kennurunum sínum. Foreldrar voru velkomnir á slitin en því miður þá komst ég ekki frá. En vitnisburður strákanna er stórglæsilegur eins og þeirra er von og vísa. Ég held ég sé að springa úr monti því ég veit að þeir hafa unnið sjálfir fyrir þessu. Meðaleinkunn Davíð Steins er sú sama og í miðsvetrarprófunum, 8,83. Hann fékk eina einkunn upp á 10 fyrir dans en lægsta einkunnin var ekkert til að skammast sín fyrir, 7,5 (sund og hönnun/smíði). Oddur Smári fékk 10 í fimm fögum (málfræði, bókmenntir/ljóð, samfélagsfræði/Snorra saga, enska og dans). Lægsta einkunnin var 6 (fyrir sundið) og meðaleinkunnin 8,76. Fyrir framkomu, umgengni og skil á heimavinnu fengu báðir bræðurnir umsögnina Mjög gott. Er það nokkuð furða að ég er að springa úr stolti?

Ein góða frétt fékk í morgun; menningarsjóður Landsbankans hefur ákveðið að styrkja ferð Drengjakórs Reykjavíkur til Barcelona um 250.000. Ferðalagið er alveg að bresta á og margir orðnir spenntir.

Ég fór á kóræfingu í gærkvöld. Við vorum að æfa fyrir göngumessuna n.k. laugardagsmorgun. Þetta var nokkuð létt æfing sem var búin um níu.

Finn það að ég kemst alltof sjaldan til þess að skrifa niður það sem er að gerast í kringum mig. Margt af því er svo sem ekkert merkilegt en mér finnst bæði gott og gaman að halda "brallinu" mínu til haga.

2.6.08

- Nýr mánuður -

Síðasta vika var nokkuð annasöm. Ég varð þó að sleppa kóræfingu því á tímabili leit út fyrir að Davíð hafi tekist að smita mig af slæmri kvefpest. Til að sporna gegn þessu gleypti ég í mig 18% sterkt ólífulauf og útbjó sterkan drykk úr engiferrót sem ég skellti sömuleiðis í mig. Herbragðið virðist hafa tekist fullkomlega.

Á morgun er síðasti skóladagur tvíburanna og svo eru skólaslitin á fimmtudag. Söngfuglarnir í DKR fljúga af stað til Barcelona seinni partinn á laugardag. Davíð fer með sem einn af átta hópstjórum sem halda utan um 32 drengi á aldrinum 8-13 ára. Þetta á eftir að verða mikið fjör og mikið gaman. Segi frá því seinna hvað við Oddur ætlum að gera.

En þvílík læti í jörðinni fyrir austan sl. fimmtudag og eftirskjálftarnir orðnir margir síðan þá. Ég fann þann stóra all vel og þegar ég vissi hvar upptökin voru vissi ég alveg hvernig væri umhorfs innanhús hjá flestum sem búa á svæðinu við upptökin. Það eru til myndir af því hvernig var umhorfs hjá pabba og mömmu eftir skjálftann 17. júní 2000.