30.10.07

- Vetur kemur og vetur fer -

Vetrardekkin eru enn í skottinu. Við hjónin mættum í foreldraviðtöl með strákunum um og upp úr átta í morgun. Davíð var með jarðaberja-rjómatertu með sér sem hann útbjó í gærkvöldi og var hún miklu flottari en tertan sem ég útbjó handa honum sl. sunnudag. Tertan var sett á hlaðborð handa kennurum og starfsfólki Hlíðaskóla. Viðtölin gengu vel fyrir sig og eru umsjónakennarar báðir mjög ánægðir með hvað vel gengur. Strákarnir fóru beint heim eftir viðtalið en ég fór á Fíat og lúsaðist framhjá dekkjaverkstæðinu sem ég fer alltaf á. Biðröðin náði eiginlega hringinn í kringum húsið svo ég ákvað að vera ekkert að fara í röðina. Þegar kom að því að skutla "þríburunum" í frjálsar var komið allt annað veður og fínasta færð. Dreif mig því með kerti og kaffi til vinkonu minnar í Árbæjarhverfinu og hitti á þrjá ættliði heima. Stoppaði í góðan klukkutíma.

29.10.07

- Nokkur atriði -

Hitti esperanto-vinkonu mína á laugardagsmorguninn. Það gekk ágætlega þótt við notuðum eitthvað af tímanum til að spjalla saman á íslensku.
Við mæðgin skruppum í sund eftir hádegi og svo að redda skókössum fyrir verkefnið "Jól í skókassa" og í leiðinni keyptum við afmælisgjöf í þremur pörtum handa Davíð. Strákarnir skruppu svo aðeins út í kertasöluleiðangur í nágrenninu.
Um kvöldið komu tveir æskufélagar Davíðs og hituðu upp fyrir "Fyrsta kossinn". Ég skutlaði þeim í Laugardalshöllina rétt fyrir átta og skrapp smá stund til einnar vinkonu á eftir. áður en tvíburarnir fóru að sofa földum við afmælisgjafirnar og undirbjuggum smá ratleik.
Í gærmorgun þeytti ég rjóma, blandaði jarðaberjum við og setti á milli og ofan á tvo kókosbotna. Oddur Smári tætti niður fyrir innan úr heilhveitibrauði og þótt ég ætti engin egg til að harðsjóða bjó ég til brauðtertuhring. Notaði túnfisk í staðinn fyrir eggin. Um tólf, þegar afmælisbarnið var að rumska dreif ég mig upp í kirkju til að hita upp og æfa fyrir messu. Þrír söngpartar úr messunni voru í röddum og söng ég tenórpartinn með tenórnum. Þetta gekk bara vel fyrir sig og var ég kölluð tenórína eftir messuna.
Er heim kom var Davíð búinn að finna tvær af gjöfunum og ég lét hann fá síðustu vísbendinguna áður en ég bjó til afmæliskaffið og setti terturnar á borð. Ég smakkaði smá á veitingunum bæði til að vera með og athuga hvort "baksturinn" hefði heppnast. Á eftir skruppu tvíburarnir í smá kerta- og kaffisöluleiðangur. Ég fór í göngu með dagblöð og fernur í gáma á meðan, skóf af Fíatinum og setti vetrardekkin í skottið svo það verði hægt að skipta þegar ég kemst að með bílinn.

25.10.07

- Breytt raddsvið -
eða þannig

Á kóræfingu í gærkvöldi voru aðeins mættir einn úr hvorri karlarödd. Kórstjórinn ákvað að prófa hvort ekki væri hægt að fá e-a úr altinum til að styrkja tenórinn. Sú sem er með dimmustu röddina var ekki til í að prófa og þar sem ég syng neðri altinn með henni spurði hann mig. Ég sló til og breyttist hið snarasta í fremur kvenlegan tenór. Þetta gekk alveg þokkalega upp en mér fannst þetta samt frekar skrýtið. Sem betur fer hef ég aðgang að orgeli heima hjá mér þannig að ég get rennt yfir rödduðu lögin og lært tenórinn betur fyrir næstu messu sem er NB nk sunnudag. Hvernig skyldi það nú ganga?

22.10.07

Your Life is 69% Perfect

Your life is pretty darn perfect. You don't have much to complain about.
Of course, your life is occasionally less than perfect. But you're usually too happy to notice.

20.10.07

- Á frænkuvaktinni -
aðeins hálfri þó


Systir mín og mágur eru í "Búddapest" eins og Bríet kemst svo skemmtilega að orði. Hulda er hjá vinkonu og Bríet kom til okkar seinni partinn í gær eftir að hafa verið hjá Lilju og Kollu síðan seinni partinn á fimmtudaginn. Fyrr í vikunni hafði frænka mín dottið það illa á leikskólanum að hún var send með sjúkrabíl á slysó þar sem hún fékk 9 spor í hökuna. Plásturinn og sárið mátti ekki blotna fyrstu dagana þannig að hún hefur ekki farið í leikskólann eftir slysið. Fékk t.d. að vera með Kollu í útkeyrslu í allan gær. Við borðuðum hér í gærkvöldi og fórum svo upp í Grafarvoginn með sængur og svefnpoka, og sú stutta fékk að sofna í mömmurúmi en var færð upp í sitt herbergi síðar um kvöldið.

Bríet var vöknuð fyrir sjö í morgun og var að skoða bækur í stólnum sínum þegar ég kíkti á hana. Hún vildi fá mömmu sína en fékkst til að kúra sig aftur niður í smá stund. Bjó til hafragraut handa henni og feðgunum og svo kom hún með okkur í kertapökkun í kirkjunni. Því næst var Oddi skutlað á karateæfingu. Í millitíðinni fengum við okkur að borða og tókum með handa karatestráknum. Eftir æfinguna hans fóru feðgarnir heim en ég var með það á hreinu að Bríet ætti að mæta í ballettíma kl. 13:40 svo við frænkurnar drifum okkur. Hmmm, tíminn var víst kl. 14:40 en hún fékk að fara með eldri stelpum í tíma kl. tvö í þetta sinn. Kennarinn bauð það að fyrra bragði. Fín redding en ég skil enn ekki hvernig 13:40 tíminn var svona fastur í mér???

Eftir ballettímann hjálpaði skellibjallan okkur hjónum að þrífa alla sameingina, þ.e. við ryksuguðum og skúruðum en hún stóð og skipaði Davíð fyrir. Það er verst að ég man ekki nákvæmlega hvernig hún kjaftaði hann áfram en það var eins og e-r fullorðinn væri að segja henni sjálfri. "Þú mátt ekki tala, bara ég. Þú verður að vanda þig, stelpa..." og fleira í þessum dúr. Ég held að Davíð hafi átt erfitt með að halda andlitinu og hlægja ekki að stelpunni, hún var eitthvað svo fyndin. En ég væri alveg til í að fá hana til að ráðskast svona aftur seinna.

16.10.07

- Alltaf á sprettinum -
ég verð að fara að róa mig aðeins, eða þannig
Ég bauð samstarfsstúlku far eftir vinnu í gær. Hún kom með mér að sækja strákana sem voru að fara í frjálsar. Ég var reyndar svo utan við mig að ég beygði inn einni götu snemma og lagði örstutta stund fyrir framan Mávahlíð 21, áður en ég áttaði mig á því að það myndu engir strákar koma inn í bílinn þarna. Við hlógum mikið að þessu. Eftir að hafa skutlað strákunum og hleypt samstarfsstúlkunni út fór ég í Ís-spor og lét laga merkin (þ.e. nælurnar sem voru bilaðar). Söngfuglinn fór á hjóli á kóræfingu svo ég gat aðeins stoppað heima áður en kominn var tími til að fara á auka-stjórnarfund. Tók silfurmerkin tvö með í leiðinni. Annar silfurhafinn var mættur. Fundurinn hófst um sex og auk stjórnarmeðlima (þ.e. 5 af 6) var cd-nefndin mætt sem og fyrrverandi formaður foreldrafélagsins. Það var nóg að gera því það er alveg að koma að því að senda geisladiskinn út til fjölföldunar. Þegar kóræfingin var búin mættu kórstjóri og undirleikari á svæðið og þá var aðeins farið yfir það sem er framundan, og það er nóg um að vera á næstunni.
Kom heim upp úr hálfátta. Feðgarnir voru að borða afganginn af pizzunum frá því á laugardaginn. Ég fékk afgang af pizzu með rækjum, sveppum og ferskjum án osts, frekar gott!!! Botnarnir voru úr heilhveiti og grófu spelti, lyftidufti frá Sollu, smá hafsalti og sumir hnoðaðir með volgu vatn og aðrir með ab-mjólk.
Svo skellti ég mér til tvíburahálfsystur minnar og byrjaði loksins að föndra jólakortin í ár, þ.e. þau sem ekki eru/verða saumuð og mér tókst að búa til heil sjö stykki, enda fékk ég góða aðstoð frá dóttur hennar. Sú var áhugasöm og á einhvern tímann eftir að verða mjög góð í þessu. Sennilega næ ég að föndra öll kort í tíma þótt ég hafi ekki byrjað á föndrinu seinni partinn í sumar eða í haustbyrjun eins og svo oft áður.

14.10.07

- Margt var í gangi -

Það er óhætt að segja það að helgin hafi verið full af uppákomum. Mér tókst að virkja feðgana með mér í smá helgartiltekt og þrif í gærmorgun. Davíð skutlaði Oddi á karateæfingu rétt fyrir tólf og fór sjálfur í vinnuna. Davíð Steinn kom að versla með mér um sama leyti. Ég náði að fylgjast með síðustu tíu mínútum af æfingu karatestráksins. Hann sleppti sturtunni á eftir en við mæðgin vorum á leið í sund. Fengum okkur smá hressingu í bílnum og vorum komin ofan í laug um hálftvö. Þegar ég var búin með sundsprettinn minn hitti ég strákana við vatnsrennibrautina. Áður en ég náði að segja þeim að ég ætlaði að pottormast fylltist allt af sápu. En einhverjir prakkarar höfðu sett slatta af sápu í rennibrautina. Þetta varð til þess að rennibrautinni var lokað um stund.

Við komum heim um hálffjögur. Fengum okkur að drekka og svo setti ég í fjóra pizzabotna. Þessa botna tókum við með okkur til Helgu systur þar sem þeir voru flattir út, forbakaðir og svo búnar til fjórar girnilega pizzur með mismunandi áleggi. Tvíburarnir, Hulda og Davíð hjálpuðu til við að búa til þessar gómsætu pizzur. Ingvi var á gæsaskytteríi svo hann missti af þessu. Hans beið þó væn pizzusneið er hann skilaði sér heim seinna um kvöldið en við í Drápuhlíðinni fengum annað eins með okkur heim.

Um tíu í morgun mættum við Davíð Steinn upp í Hallgrímskirkju, hann til að æfa og ég til að aðstoða við undirbúning heiðursverðlauna afhendingu og smá veislu eftir messu. Drengjakórinn og 6 drengir úr undirbúningsdeildinni sungu við messuna og fermingabörn tóku einnig virkan þátt í messunni. Þetta var mjög notaleg stund og strax eftir messu söfnuðust aðstandendur drengjanna saman innst í kirkjunni (á bekkina næst altarinu). Fyrst fór fram undirritun samnings milli Karlakórs Reykjavíkur og drengjakórsins um það að þeir eldri ætla að gerast verndarar þeirra yngri, svona nokkurs konar stóri bróðir. Þetta verður stórsnallt fyrirkomulag. Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins var á staðnum og tók myndir í bak og fyrir. Því næst tók nýr formaður foreldrafélags DKR til máls og sagði nokkur orð áður en hún las upp þá 22 drengi sem fengu gull, silfur og brons eftir því hversu lengi þeir hafa verið í kórnum. Þeir komu fram einn og einn og fengu næld í sig viðeigandi merki. Hvorki fleiri né færri en 13 drengir fengu brons en það var aðeins einn gulldrengur í hópnum. Davíð Steinn er að hefja sitt fjórða starfsár með kórnum svo hann var einn af þeim átta sem fengu silfur.

Rúmlega eitt var ég mætt í kirkju Óháða safnaðarins til að syngja með kórnum "mínum". Tvennt af því sem sungið var átti að syngja í röddum og í öðru verkinu skiptist alt-röddin upp í tvennt í hluta af sálminum. Sú sem átti að syngja neðri altinn með mér treysti sér ekki til að syngja röddina. Hún var sem betur fer búin að láta mig vita af því fyrirfram svo ég varð bara að sperra eyrun og syngja einsöng innan um allar hinar raddirnar. 1. erindið gekk alveg ágætlega, 2. erindið rétt slapp og sem betur fer hafði kórstjórinn sagt að við ættum að syngja 3. erindið einraddað. Reyndar var ég næstum því byrjuð að radda það en held að enginn hafi tekið eftir því. hjálpuðu til við þetta.

10.10.07

- Dagarnir þjóta -

En það er svo sem alls ekki nýtt. Við fórum þrjú í sund rétt fyrir hádegi á sunnudag, við hjónin og annar tvíburinn, hinn hætti við og skrapp til "þríburans". Eftir baðið fundum við strákinn og skruppum austur á Hellu. Ég var með handavinnuna með mér og við gáfum okkur góðan tíma. Besta lambinu var slátrað í tilefni heimsóknarinnar og pabbi gaf tengdasyninum einn bjór fyrir matinn. Því miður gaf ég mér ekki tíma til að skjótast aðeins á elliheimilið, vona bara að það sé stutt í næstu austurferð.

Á mánudagsmorguninn fór Fíatinn á verkstæði og bað ég um að hann yrði vandlega yfirfarinn svo hann kæmist í gegnum skoðun. Davið skutlaði mér í vinnuna og lofaði að sjá um að koma "þríburunum" í frjálsar. Klukkan hálffjögur var hringt af verkstæðinu og var bíllinn tilbúinn. Enn og aftur kom Davíð til bjargar og það þótt hann yrði að sækja annan tvíbbann einn og sér eftir að hafa skutlaði tveimur og náð í mig. Tvíbbinn var nefnilega ekki kominn heim úr skólanum rétt fyrir fjögur, þ.e. hann fór heim með e-m að læra með honum. Það kom reyndar í ljós að hann hafði farið heim með bekkjarsystur að læra með henni. Miðaði við að vera kominn heim áður en klukkan yrði korter yfir. En þetta tókst allt saman og ég mætti aðeins örfáum mínútum of seint á stjórnarfund eftir þetta brölt.

Um kvöldið skrapp ég á Friendtex-kynninu hjá einni vinkonu minni. Hef ekki misst af kynningu hjá henni í mörg ár og alltaf finn ég eitthvað sem ég ekki stenst. Vil meina að í þetta skipti hafi ég kunnað mér hóf og verslað skynsamlega, en það er bara ég sjálf og enginn annar sem dæmir.

Í gærkvöldi sinntum við hjónin heimasíðumálum fyrir DKR. Ég fór þó snemma að sofa því ég tók sexvakt í morgun. Um tvö var ég laus og kom mörgu í verk. M.a. er Fíat búinn að fá skoðun!

6.10.07

- Andlaus og þó -


Ég var eiginlega á leiðinni í sund með tvíbbunum en annar er e-s staðar úti símalaus svo ég næ ekki í hann. Fer ekki neitt á meðan. Skrapp til esperantovinkonu minnar í morgun. Það var gott að bregða undir sig betri fætinum. Þetta er að vísu ekki langt en ég fékk smá súrefni og örlitla hreyfingu. Og við nýttum tímann nokkuð vel.

Fíatinn er að fara á verkstæði í næstu viku. Það þarf að huga að ýmsu og yfirfara bílinn áður en ég fer með hann í skoðun. Veit ekkert hvað þetta tekur langan tíma en á meðan ég verð bíllaus verð ég að biðja Davíð að skutlast með "þríburana" í frjálsar.

Við hjónin skelltum okkur í draugagöngu um miðbæinn í gærkvöldi. Það var svolítið blautt en mér fannst gaman. Það var að vísu ekkert draugalegt við þessa göngu nema það var talað um þá og leiðsögumaðurinn er með próf í sögu og vissi ýmislegt. Á eftir fórum við á Rossopomodoro á eftir þar sem ég fékk gott sallat, Pullastrella! Við komum heim um miðnættið og tóku bræðurnir á móti okkur. Þeir uppástóðu það að þeim hefði verið sagt að þeir mættu vaka þar til við kæmum heim. Eins gott að við vorum ekki seinna á ferðinni, he, he.

4.10.07

- Hljómur eftir lykt eða litum -

Sérstakur raddþjálfi var á kóræfingunni í gærkvöldi og mun hún mæta og temja raddir okkar 1. miðvikudagskvöld í mánuði. Hún tekur eina rödd í einu í 40 mínútur í senn og í gærkvöldi æfðum við mestmegnis að láta ú-o-ú hljóma. Rétt í lokin sungum við "annað" erindi, a-o-a, og svo var "viðlag" ú-o-a-o+ú. En aðallega vorum við að tóna ú-o-ú. Mér varð ekki um sel þegar við áttum að fara að hugsa um og/eða ímynda okkur ákveðnar lyktir s.s. rósailm eða fjósalykt (n.b. úr fjósi á sólskinsdegi þar sem allir gluggar og dyr eru lokaðar). Hmm, og ég sem veit ekki hvað það er að finna lykt. Eftir nokkra "lyktartóna" viðurkenndi ég að ég gæti ekki ímyndað mér hvernig þessi eða hin lyktin væri. Það var í góðu lagi. Raddþjálfinn bað okkur þá um að loka augunum og ímynda okkur liti á meðan við sungum/tónuðum 1. erindi, aftur og aftur. Og viti menn hljómurinn breyttist eftir því hvort maður hugsaði um hvítan, svartan, djúpbláan eða grasgrænan. Hugsanlega gæti ég líka ímyndað mér að ég myndi hljóma mismunandi eftir því hvaða tilfinningar ég hugsaði um. En allt um það þá fannst mér þessi tími frábær. Ég mætti örlítið uppgefin á æfingu eftir að hafa verið eins og jó-jó á milli kirkju, heimilis og karate, en ég kom alveg endurnærð heim eftir kóræfingu, upp úr hálftíu í gærkvöldi.

2.10.07

- Nýr mánuður -

Ég er viss um að þegar ég átta mig á því að það er kominn október þá verðu ekki langt í næsta mánuð. Þeir eru alltaf handan við hornið, mánuðirnir sem framundan eru. Nýliðin helgi var fín í alla staði þótt ýmislegt hefði orðið útundan sem ég hafði stefnt að því að gera. Kannski spennti ég bogann of hátt? En það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Ég komst yfir það sem lá mest á, með góðri aðstoð mannsins míns. Við vorum að vinna í heimasíðu drengjakórsins, að málefnum sem aðeins verða sýnileg meðlimum og foreldrafélaginu, við fórum á leikinn (Valur-HK eins og fram hefur komið áður) og við skruppum á Bakkann seinni partinn á sunnudaginn.

Vikuáætlunin er ekki enn komin upp hjá mér en það strandar á því að matseðill skólans fyrir þennan mánuð er ekki kominn á netið. Ég finn að svona áætlun hefur góð áhrif á vinnuskipulag heimilisins. Strákarnir fara eftir því sem stendur á áætluninni og finnst afar þægilegt að vita það fyrirfram hvað er í matinn. Að vísu skrifa ég einungis fiskur á áætlunina þegar ég ætla að hafa fisk í matinn, sama hvort það er soðin ýsa eða lax í ofni en það þarf líka að vera óvissufaktor í þessu.