29.9.07

- STRÁKARNIR HÖFÐU ÞAÐ, OLE! -

JÁ, við fórum á völlinn og nei röddin er samt ekki farin. Við settumst næstum því HK megin og þar með gat ég haldið mig á mottunni, svona nokkurn veginn. En ég var frekar stressuð síðustu mínúturnar, eiginlega allan síðari hálfleikinn.

Annasamri viku er senn að ljúka. Enn eitt árið varð Davíð að taka það að sér að mæta á haustfund í skólanum því fundur 6. árgangsins var settur á sama tíma og síðasti stjórnarfundur foreldrafélags DKR þar sem aðalfundur var undirbúinn. Aðalfundurinn var svo sl. miðvikudag. Þar gaf fráfarandi formaður skýrslu um síðast liðið starfsár, ég gerði grein fyrir ársreikningunum (örlítið stressuð), sagt var frá verkefnum og skyldum foreldra og hinna ýmsu starfsnefnda og svo var kosið í stjórn og nefndir. Rétt fyrir sex komu kórstjóri og undirleikari ásamt drengjunum sem og sr. Birgir. Birgir fékk orðið og færði fráfarandi formanni gjöf frá kirkjunni, ég tók einnig að mér að færa honum (form.) blómvönd og gjöf frá stjórninni, foreldrafélaginu, kórstjóra, undirleikara og strákunum og að lokum sungu strákarnir, þríraddað, lag sem þeir eru að byrja að æfa. Þeir fengu svo smá hressingu áður en þeir fóru aftur inn í æfingasal og fundurinn hélt áfram alveg þar til æfingin hjá strákunum var búin.

Ég fór á kóræfingu á miðvikudagskvöldið. Röddin lét ekki alveg að stjórn en sessunautur minn í altinum kvartaði ekkert svo líklega slapp þetta fyrir horn.

Eftir að hafa skutlað "þríburunum" í frjálsar seinni partinn á fimmtudaginn skrapp ég í heimsókn til vinkonu í Árbæjarhverfinu. Við áttum notalega stund saman í tæpa tvo tíma. Dreif mig heim tímanlega til að kvöldmaturinn yrði ekki alltof seint á ferðinni því um hálfníu um kvöldið var haldinn hjá okkur húsfundur.


25.9.07

- Áfram fljúga dagarnir -

Hálsbólgan er á undanhaldi, það er gott. Kostirnir við að "slaka á" sl. sunnudag og mæta aðeins í messu í Hallgrímskirkju voru nokkrir. Ég komst yfir ýmislegt sem hefði annars setið á hakanum og ég fékk tíma til að sauma út og lesa.

Áður en lengra er haldið ætla ég að minnast aðeins á heimilisplanið, vikuplan sem ég lét loksins verða af því að útbúa en er með það í þróun ennþá. Það er semsagt stundaskrá heimilisins þar sem fram kemur hvað strákarnir eru að borða í skólanum, hvenær þeir eru búnir í skóla, hvert og hvenær þeir og við fara eftir skóla og vinnu (frjálsar, karate, rækt, kóræfingar), hvað er í matinn á kvöldin og ýmislegt fleira. Það er gott að hafa yfirsýn yfir þessa hluti, hjálpar manni að skipuleggja sig betur og veitir ákveðið aðhald. Við erum á þriðju vikunni frá því ég hengdi fyrsta planið upp á ísskáp og þetta gengur alveg ágætlega. Stundum hefur orðið að hliðra til og það er í góðu lagi. Þessi vefur er líka mjög sniðugur ef maður er alveg andlaus í matarmálunum.

Sl. sunnudag ákvað ég að hafa læri í kvöldmatinn. Hafði keypt af nýslátruðu í Nóatúni á heimleið eftir heimsókn til mömmu. Útbjó smá kryddlög sjálf sem ég smurði á læri og einnig skar ég niður þrjú hvítlauksrif og tillti hér og þar í lambalærið. Meðan steikin var að malla í ofninum gat ég hlustað á beina lýsingu frá öllum leikjum í næstsíðustu umferð Landsbankadeild karla. Snilld!

Á mánudaginn fékk Davíð Steinn leyfi frá kóræfingu og mætti í staðinn á frjálsíþróttaæfingu. Ég þurfti samt að mæta í kirkjuna því það var síðasti stjórnarfundur fyrir aðalfund (sem verður n.b. á kóræfingatíma drengjanna á morgun). Mamma "þríburans" sótti strákana og skutlaði Oddi á karateæfingu, langur mánudagur hjá stráksa mínum því hann er í danstíma í síðasta tíma á mánudögum og kemur heim rétt fyrir fjögur. Frálsíþróttaæfingin byrjar klukkan hálffimm og karatetíminn rúmlega sex, svolítið þéttur dagur en hina dagana er hann búinn mun fyrr í skólanum. Langi skóladagurinn hjá Davíð Steini er á miðvikudögum.

22.9.07

- Erfið ákvörðun -

Rétt áðan tók ég þá erfiðu ákvörðun að sleppa við að syngja með í tónlistarmessu í Óháðu kirkjunni á morgun. Undanfarna daga hef ég slegist og barist af krafti við hálsbólgu og kvefpest. Á tímabili var ekki gott að spá um hvor hefði betur, ég eða pestin en hún lagði mig að minnsta kosti ekki í rúmið eins og manninn minn. Ég ætlaði alls ekki að fá þessa pest en líklega er óhætt að segja að þetta hafi farið milliveginn. Ég gat sinnt vinnu, heimili og skutli en hálsinn var það aumur að ég komst ekki á kóræfingu í vikunni og þótt þetta sé allt í rétta átt núna þá verð ég að sætta mig við að geta ekki sungið og heldur ekki farið á Valur - FH á morgun. Læt mér nægja að skreppa í messu í Hallgrímskirkju í fyrramálið og hlusta á strákana í DKR. Kannski er lífið að "kenna/hjálpa" mér að slaka á?

17.9.07

- Sko "mínar" stelpur -

Já, þær lönduðu titlinum með glæsibrag í kvöld, Valsstelpurnar. Verst að geta ekki verið á leiknum og eins og sjá má (fyrst ég er að blogga á þessum tíma) þá er ég ekki heldur á leik Vals og ÍA en það kemur ekki til af góðu. Hálsinn er alveg helaumur og ég er örlítið tuskuleg. Fannst ekkert vit í því að æða á völlinn til þess annað hvort (eða bæði) verða kalt eða missa röddina. Vonandi verður hálsinn orðinn góður á miðvikudagskvöldið því það er tónlistarmessa n.k. sunnudag sem ég vil helst fá að taka þátt í. Og ef ég verð orðin góð og klára messuna af þá get ég farið á FH - Valur og stutt strákana til sigurs.

Sl. föstudag bauð ég "þríburunum" með mér í sund milli hálffimm og sex. Ég synti aðeins 200 metra en flatmagaði svo í pottunum afganginn af tímanum. Svoooo notalegt. Morguninn eftir var ég komin til esperanto vinkonu minnar rétt fyrir ellefu og þrátt fyrir að vera seinar í gang þá komumst við þó í gírinn á endanum. Tíminn fór í að skrifa niður for- og við- -skeyti og þýðingu þeirra. Við náðum ekki að skrifa öll viðskeytin niður en fyrir næsta hitting ætlum við að fara vel yfir þau sem við erum búnar að skrifa niður og finna ný dæmi fyrir hvert og eitt. Spennandi!

Davíð fékk vinnutengt SOS-kall upp úr hádeginu og var farinn á skrifstofuna fyrir tvö. Strákarnir hjálpuðu mér með smá tiltekt en fengu að öðru leyti að leika nokkuð lausum hala í tölvum. Við hjónin vorum boðin í 100 ára afmæli um kvöldið (eða 50/50 -fifty/fyfty) og ég var á nálum um að Davíð kæmi seint. Hann kom reyndar heim um hálfsjö og hélt sig vera búinn að laga vandamálið en annað kom á daginn og endirinn varð sá að hann skutlaði mér í veisluna og fór sjálfur heim að brjóta heilann v/vandamálsins. Ég skemmti mér þó mjög vel í afmælinu, veislustjórinn (fyrrum kórsystir mín) var magnaður, skemmtiatriðin hvert öðru betra og maturinn frábær.

Sunnudagurinn fór í ýmislegt smá dútl fyrir heimilið, heimsókn til mömmu og svo kom ein frænka mín í heimsókn. Svo rifjaði ég upp hvernig maður blandar í og hnoðar gerlausa pizzubotna. Bjó til sem samsvarar tveimur botnum en skipti þeim svo upp í sex litlar og eina hálfa. Síðan fengu allir fjölskyldumeðlimir að setja á að eigin vali og búa til sínar pizzur. Þetta mæltist mjög vel fyrir og verður örugglega endurtekið seinna, ekki í hverri viku samt.

Seinni partinn í dag var ég í skutlinu. Oddur Smári og "þríburinn" mættu á fyrstu mánudagsæfinguna í frjálsum, Davíð Steinn fór á kóræfingu en samdi þó við kórstjórann um að fá að fara á stöku mánudagsæfingar í frjálsum. Mamma "þríburans" sá um að sækja úr frjálsum og skutla mínum beint á karateæfingu. Ég var mætt í kirkjuna aftur tímanlega til að hlusta á síðustu 15 mín. af æfingunni. Svo skutlaði ég stráksa heim og sótti hinn. Strákarnir áttu afgang af sínum pizzum svo ég slapp alveg við eldamennskuna í kvöld.

13.9.07

- Skyndilega hafði í smá stund aflögu -

Og hvað er betra en að nota hann til að hamra smá stund á lyklaborðið og láta hugann reika. Reyndar verður textinn oft ljóðrænn ef ég haga mér svoleiðis og þar sem ég er ekki inni á "ljóða-blogginu" mínu þá er kannski betra að skrifa um atburði en ekki hugsanir. Undanfarna daga hefur líka verið hálfhættulegt að hugsa og pæla of mikið en það er allt önnur saga sem sjálfsagt verður seint sögð hér. Þótt ég sé opinn og furðulegur persónuleiki þá veit ég oftast mín takmörk.

Strákarnir eru á frjálsíþróttaæfingu og mamma "þríburans" ætlar að sækja þá. Þannig verður þetta næstu skiptin, ég skutlast með strákana og hún sækir þá.

Kóræfingin í gærkvöldi var fín og nú er ég með disk í tölvunni, heyrnartólin á höfðinu og að hlusta á alt-röddina í nokkrum verkum sem flytja á í tónlistamessu þann 23. n.k. Ég ætti eiginlega að vera með nóturnar og textann fyrir framan mig líka til að læra þetta utanað sem fyrst, en ég þarf auðvitað endilega að gera tvo ólíka hluti í einu, amk núna.

KR - Valur stelpurnar eru að byrja að spila núna um fimm. Þetta er leikur sem maður ætti að sjá í beinni og auðvitað ætti ég að vera á vellinum að styðja "mínar stelpur" en ég verð alltaf svo æst í hvatningarópunum að það bitnar á röddinni og henni vil ég halda góðri. Ætli ég verði ekki að velja úr hvaða leiki ég kem til með að fara á í handboltanum í vetur (bæði kvenna og karla). Nú ef leikið er á miðvikudögum þá er málið dautt því ég fórna helst ekki kóræfingu fyrir kappleiki þótt spennandi séu.

Jæja, þetta er orðinn góður vaðall í bili. Bið að lokum alla gesti sem rekast hingað inn á síðuna mína um að fara vel með sig.

12.9.07

- Þetta gengur ekki lengur -

Ég má hreinlega ekkert vera að því að færa hér inn daglega. Það eru reyndar bæði kostir og gallar við það eins og allt annað. En ég er ekki heldur að fá neinn tíma (að ráði) í lestur eða útsaum. En það hljóta að koma tímar og ráð. Það versta við þessar dagagloppur er að það virðast líka myndast gloppur í minninu. Hmm, er ég orðin svona gömul eða er þetta eðlilegt miðað við annríki?

Fyrsta messa nýs organista/kórstjóra sl. sunnudag gekk bara mjög vel. Svei mér þá ef hann á ekki eftir að standa sig vel í vetur. Eins og þetta lítur út fyrir mér sýnist mér sem Kári muni ná til flestra ef ekki allra kórmeðlima. Æfing tvö er í kvöld og þeir sem vilja og geta mæta þremur korterum fyrr til að fá leiðsögn í tónfræði. Það er vel til fundið.

Annars var ég að koma af stjórnarfundi og fékk óvæntan auka-klukkutíma því stjórnarstörfin gengu fljótt og vel fyrir sig. Því sit ég hér með "Landsleikinn" í eyrunum að pára eitthvað niður. Vil benda á linkinn á heimasíðu DKR sem er hér til hliðar. Þetta er svona aukabúgrein hjá Davíð og er ég að komast inn í það að færa inn fréttir, dagskrá og fleira.

En nú ætla ég að drífa mig í Þórshamar og fylgjast með Oddi sem er á karateæfingu til klukkan sjö.

6.9.07

- Lagt inn -

Ætla mér að nota tækifærið á meðan tvíbbarnir eru úti og færa inn eitthvað af því sem er að gerast í kringum mig. Ég verð samt fyrst að kvarta yfir því hvað tíminn hleypur orðið hratt, held hann hafi aldrei þotið hraðað og nú er ekki eins og ég sé að reyna að elta hann. Veit betur en það. Hugsanlega lagast þetta allt saman þegar allt er fallið í vissar fastar skorður en ég er samt ekkert örugg um það.

Fyrir tæpum mánuði, eða þegar ég var komin í bústaðinn, fékk ég SMS frá bankanum og ég spurð hvort ég gæti lagt þeim lið. O, ó, ég hafði ætlað mér að fara í vikunni á undan og gefa í 18. sinn. Planið var nefnilega að gefa 20. gjöfina þann 17. mars n.k. Það þýðir ekkert að vera að eltast við þá dagsetningu lengur. En í gær fékk ég aftur sms og emil svo ég ákvað að drífa mig seinni partinn í dag þar sem það er opið til sjö á fimmtudögum. Það var smá bið svo ég réðist á rúsínurnar á meðan. Áður en kom að mér hitti ég á sérann minn hann Pétur. N.k. sunnudag er fyrri messan í mánuðinum og fyrsta messa nýs organista. Við vorum einmitt á fyrstu kóræfngu vetrarins í gærkvöldi. Það var næstum full mæting í allar raddir, vantaði eina í sópran og þrjá tenóra. Einn bassinn var samt svo vinsamlegur að færa sig yfir þegar farið var að syngja raddaðar útsetningar. Við sungum m.a. "Milda höndin" og úr Söngvasveig. Mér líst alveg ágætlega á komandi vetur og held að Kári, sá nýji muni alveg pluma sig. En ég veit að ég mun hugsa til Öddu og Péturs með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að vinna með þeim sl. 3 ár.

4.9.07

- Að finna jafnvægið -

Allt í einu virðist eins og það sé enginn tími eftir til að sinna áhugamálunum reglulega. Lítill lestur, enginn saumaskapur og ekki komin af stað í kortagerðinni (nema ég á saumuð kort, örfá). Ég hef reyndar komist þrisvar til esperanto vinkonu minnar og við erum að komast á skrið. Okkur stóð til boða að fara á þing aðra helgina í september, austur í Hala í Suðursveit, en við urðum því miður að gefa það frá okkur. Það er svo mikið að gerast, bara í þessum mánuði, að það er bara ekki á það bætandi. Fyrsta kóræfing DKR var í dag, karateæfingar Odds og mínar kóræfingar byrja n.k. miðvikudag og svo hef ég verið að taka saman ársreikningana og uppgjörið fyrir DKR, með góðri aðstoð Davíðs. Við gáfum okkur samt tíma til að kíkja í Vikina í gærkvöld og sáum ekki eftir því. En semsagt stopul skrif, skrifast á mikið annríki og má ég teljast heppin ef nokkur nennir að kíkja hingað inn lengur.