31.10.06

- Hitt og þetta -

Dagarnir
streyma áfram. Nú eru bara tveir mánuðir eftir af árinu og þeir verða liðnir áður en við vitum af. Á meðan ég fór austur í jarðaför sl. laugardag fóru feðgarnir að hjálpa til við hina árlegu kertapökkun á vegum DKR í Hallgrímskirkju. Ég er semsagt með kerti til sölu líkt og sl. tvö ár og þar að auki er hægt að fá hjá mér tvær tegundir af kaffi frá kaffitári. Endilega hafið samband ef þið hafið áhuga: anna@habil.is

Í síðustu viku tók ég á mig auknar skyldur og lengdist vinnuvikan hjá mér um amk 12 tíma. Samt hafði ég nú tíma til að mæta á kóræfingu, skreppa á bókasafnið og fylgjast með tvíburunum ná sér í tölur í þremur frjálsíþróttagreinum, 60 m, kúluvarpi og langstökki með atrennu. Ég kom með 20 bækur heim af safninu, tvær tengdar esperanto. Heima voru aðrar tvær esperantotengdar bækur og bað ég um að skilafresturinn á þeim yrði framlengdur. Ég var svo að komast að því seinni partinn að það hefði ekki verið gert og nú eru 2x40 skuld á mér við bókasafnið. Ég er ekki viss um að ég vilji borga þetta lítiræði þar sem ég man að ég tók það sérstaklega fram að ég vildi framlengja bókunum sem væru heima. Hélt að þær væru þrjár en ein bókin laumaði sér með bókunum sem ég var að skila. Sú bók kom heim með mér aftur.

Eftir að hafa keyrt strákana á frjálsíþróttaæfingu seinni partinn í dag lá leið mín í Norðurmýrina að hitta norsku esperanto vinkonu mína. Við lásum saman 4 fjóra stutta og létta leskafla sem Þórbergur Þórðarson tók saman fyrir allmörgum árum. Þetta var skemmtilegt. Við ætlum að reyna að hittast tvivar í viku næsta mánuðinn, taka þetta með trukki. Og hver veit nema við skellum okkur fljótlega á esperantofund í félaginu aftur.

29.10.06

- Kveðja -

Á mánudaginn var hringdi æskuvinkona mín í mig og sagði mér að mamma hennar væri dáin. Ég vissi alveg að Sigrún væri búin að vera mikið veik og það væri sennilega ekki langt eftir hjá henni en ég var engan veginn tilbúin að fá þessar fréttir. Mér fannst tíminn stoppa og margar minningar streymdu um huga minn. Einnig fór ég ósjálfrátt að hugsa um marga af þeim sem hafa þegar kvatt þetta líf. Sigrún kenndi mér handavinnu í grunnskóla. Á hverju hausti var hún tilbúin með skyldustykki fyrir hvern árgang, 1-3 stykki, minnir mig. Vettlinga- eða sokkaprjón, unnið úr tágum, leðurvinna, sniðið og saumað á saumavélar og margt, margt fleira. Mér fannst geta allt þessi kona. Hún gat meira að segja sýnt örvhentu nemendunum hvernig þeir gátu best unnið verkin því hún var jafnvíg á báðar hendur. Við dóttir hennar náðum saman í þriðja bekk grunnskólans, þá níu ára, og sátum saman alltaf eftir það. Níu ára gömul var ég flutt með annan fótinn á Hellu. Á tímabili vorum við vinkonurnar mikið saman. Alltaf var mér tekið opnum örmum heima hjá henni, hvort sem ég dvaldi stutt eða yfir nótt. Ég ætlaði nú ekki að vera margorð en tvennt verð ég að minnast á enn. Á fyrstu önninni í fjölbraut fóru kennarar í verkfall í mánuð. Á sama tíma var saumastofan á Hellu að hætta rekstri og var með útsölu í því tilefni. Sigrún tók að sér að skipuleggja það og hjálpuðum við henni, við dóttir hennar. Í laun fengum við að velja okkur eftir sem Sigrún sneið og saumaði tvennar buxur og eitt vesti á okkur og fengum við vinkonurnar alveg eins. Eftir verkfall mættum við eins klæddar í skólann, alveg eins og tvíburar. Hitt er hversu gaman var að hlusta á Sigrúnu þenja nikkuna og í sumum handavinnu tímum greip hún í gítarinn enda kenndi hún tónmennt við grunskólann eftir að hafa náð sér í kennararréttindi. Glaðvær, listræn og dugleg kona er gengin við sem eftir erum minnumst hennar með þakklæti og vonum að nú sé hún laus við allar þrautir.

21.10.06

- Fyrsti vetrardagur -

Í dag er systir mín að flytja úr 101 í 112 á kunnuglegar slóðir, í Veghúsin, stutt frá þar sem við Davíð leigðum ´91-´95. Aldrei hefði mér dottið í hug að systir mín ætti eftir að flytja úr 101 og mér finnst allt eins líklegt að þangað eigi hún eftir að snúa aftur einhvern tíman seinna (en hver veit?).

Besti vinur tvíburanna fór heim á áttunda tímanum í gær og gat þess að hann gæti líklega ekki leikið um helgina. Hann hringdi bjöllunni áðan og er kominn. Þeir eru svo góðir saman félagarnir. Ef eitthvað slettist upp á vinskapinn er það yfirleitt á milli bræðranna.

Ég þyrfti að vera dugleg heima hjá mér í dag því morgundagurinn fer líklega mest allur fram í Hallgrímskirkju og Óháðu kirkjunni, amk stór hluti af honum.

20.10.06

- Engar holur -

Ég fór til tannlæknis í mína árlegu skoðun í gær. Hann fann ekkert athugavert. Ég var í mesta lagi í tíu mínútur í stólnum. Og um leið og ég gerði upp heimsóknina bókaði ég tíma að ári.

Svo notaði ég tækifærið og fór með nótur vegna gómanna í tryggingastofnun. Fékk aðeins meira endurgreitt en ég reiknaði með og var ánægð með það.

Við hjónin leigðum okkur mynd í gær og fórum að sofa á sama tíma í fyrsta skipti í tæpa viku. Davíð vildi reyndar meina að hann yrði að trappa sig niður af þessum næturvökum en ég veit ekki betur en hann hafi verið fljótur að sofna og var ekki tilbúinn að fara á fætur um sjö í morgun.

Framundan er mikil messuhelgi.

Farið vel með ykkur!

19.10.06

- Annasamur miðvikudagur -

Gærdagurinn var nokkuð langur en mjög skemmtilegur. Þar sem ég er komin á bíl aftur náði ég að skreppa aðeins heim á milli klukkan fjögur og fimm. Davíð er búinn að vera að vinna mikið undanfarna sólarhringa og sofið 2-5 tíma að meðaltali. Hann er að vinna heima og var nýbúinn að hella upp á þegar ég kom heim í gær. Rétt fyrir fimm fórum við Davíð Steinn upp í Hallgrímskirkju, hann á æfingu og ég á stjórnarfund. Á heimleiðinni kipptum við Oddi Smára með okkur en hann var á karateæfingu. Ég hafði rétt svo tíma til að fá mér eitthvað og bað Davíð um að sjá um að þeir feðgar fengju einhvern kvöldmat. Og svo var ég rokin á kóræfingu. Tíminn leið ótrúlega fljótt, held stundum að klukkan gangi extra hratt þegar það eru kóræfingar. Kom heim rétt upp úr hálftíu og þá vöskuðum við hjónin upp í sameiningu og horfðum svo á uppgjörið í enska boltanum um síðustu helgi með Snorra Má, Willum Þór og Guðmundi.

18.10.06


Þessar eru gerðar fyrir hálfum mánuði, líkt og kortin á myndinni hér að neðan, hluti af 20 kortum sem ég bjó til þá. Í gærkvöldi bættust við 15 kort svo ég er langt komin með framleiðsluna þetta árið.

Pabbi: Til hamingju með daginn!

16.10.06

- Helgin komin og farin -

Skyldan var búin snemma á föstudaginn var. Þá lá leiðin í bankann að leggja inn kaffisjóð sem hefur safnast upp á undanförnum kóræfingum. Því næst skrapp ég í Bifreiðaskoðun í Skeifuna til að athuga hvort bíllinn kæmist að í skoðun. Það var einhver bið en ég þurfti hvort sem er að skreppa heim til að nálgast félagsskírteinið í FÍB. Heima beið mín tilkynning frá Margaretha um að vörurnar sem ég pantaði á netinu um daginn væru komnar. Lukkukettir, jólakort, fleiri jólakort, og enn fleiri jólakort, og jólakort. Ég sótti vörurnar á leiðinni í skoðunina. Nóg af útsaum. Ekki fékk Fíatinn fulla skoðun. Bíllinn er nýbúinn að vera á verkstæði en það láðist að biðja um að hann yrði yfirfarinn sérstaklega með tilliti til skoðunar.

Æskuvinkona mín kíkti til mín á föstudagskvöldið og áttum við mjög notalega stund saman. Alltaf svo gott að hittast.

Seinni partinn á laugardaginn skutlaði ég Davíð Steini í Laugarneskirkju þar sem fram fór upptaka á þremur jólalögum. Í millitíðinni skrapp ég á leik í Höllinni, Valur-Stjarnan. Mikill spennuleikur. Svo beið ég eftir stráknum en hann var ekki laus fyrr en hálfátta. Svaka törn.

Í gær skrapp ég í heimsókn til góðrar vinkonu minnar. Hún er bara heima hjá sér um helgar. Ég fékk að nota pappírskerann hjá henni og er búin að skera niður pappír í tilvonandi jólakort fyrir þessi jól og þau næstu. Tveir tímar liðu fljótt.

13.10.06

- Verður laus við góminn á mettíma -

Strákarnir áttu tíma hjá tannfræðingnum í hádeginu. Davíð fór með þá en ég var svo spennt að fá fréttir að ég hringdi strax upp úr hálfeitt til að heyra í feðgunum. Davíð Steinn fékk tíma næst seinni partinn í apríl. Nú erum við hætt að trekkja en hann þarf að vera með góminn næstu sex mánuði. En Oddur Smári var víst að slá met. Nú þarf hann bara að sofa með góminn í tvær vikur og svo er hann alveg laus við hann. Samtals verða það þá uþb fimm vikur en ekki tveir-þrír mánuðir eins og var áætlað.

12.10.06

slökun

í bollanum kaffi
sterkt og gott
við höndina góð bók
ef hugurinn ranglar
eitthvað burt
má alltaf grípa
í sauma
eða dagleg verk

á göngu er gott að slaka á
grufla, pæla, hugsa
eða loka fyrir
orðstöðvarnar
skyldi það annars vera hægt?

í heitu froðubaði
er gott að hvíla sig
láta hugann hverfa
frá daglegu amstri

eina regla er
að flýta sér mjög, mjög hægt

11.10.06

- Ónýtur geymir og sambandsleysi í rafkerfinu -

Fyrir allmörgum vikum síðan (uþb tveimur mánuðum) hætti Fíatinn að vilja fara í gang. Ég bað manninn minn að láta athuga málið. Ekkert gerðist lengi vel. Oft var mikið að gera hjá Davíð en stundum gleymdi hann þessu hreinlega. Upp á síðkastið hef ég verið dugleg að minna hann á. Við vorum að spjalla á MSN-inu aðeins í dag og þar sagði ég meðal annars að það væri gott að geta verið á bíl þó ekki væri nema öðru hvoru. Þegar skyldunni var lokið var ég að bræða það með mér hvort ég ætti að taka strætó heim eða ganga. Ég varð nauðsynlega að koma við í apóteki því hálsinn er eitthvað aumur svo það varð úr að ég fór heim á tveimur jafnfljótum. Reyndar kom ég við á öðrum stað líka, hannyrðaverslun við Laugaveginn og kolféll þar fyrir nokkrum litlum jólamyndum til útsaums, bæði í kort og ramma.

Strákarnir voru báðir að fara á æfingar (kór og karate) svo ég var ekkert að flýta mér. Klukkan var því farin að ganga sex þegar ég kom heim að innkeyrslu. Og viti menn, fyrir framan hliðið stóð NK 968, Fíatinn. Hann er víst orðinn gangfær aftur og nú á bara eftir að fara með hann í skoðun. Vona samt að ég verði dugleg að ganga inn á milli, nú þegar ég er hætt að finna fyrir stóru tánni, þeirri sem nöglinn er að fara af.

10.10.06

- Í nokkur horn að líta -

Seinni partinn í gær fór ég í BÓNUS að kaupa kex handa strákunum í drengjakór Reykjavíkur. Tölti með tvo fulla poka upp í Hallgrímskirkju og kom þessu fyrir á sínum stað. Sat svo góða stund við borð eitt og tók á móti kórgjöldum. Úr kirkjunni labbaði ég Þórshamarsheimilið til að fylgjast með Oddi Smára á karateæfingu. Það var erlendur kennari, japanskur í útliti með hópinn. Oddur kallar hann sensei og er þessi maður með svarta beltið. Hann er búinn að kenna þeim í nokkur skipti. Ég hafði mjög gaman af að fylgjast með æfingunni. Tíminn leið mjög hratt. Strákurinn minn kom beint fram til mín eftir æfinguna að spjalla við mig. Þá var bankað í glerið. Var það kennarinn. Þegar hann hafði náð athygli minni benti hann á Odd og setti svo þumalinn upp. Oddur sagði mér að kennarinn segði stundum við hann: -"Oddur, the strongest boy in Reykjavík!" Ég var amk mjög stolt af drengnum mínum.

9.10.06

- Notaleg helgi að baki -

Við vorum tilbúin að leggja í hann rúmlega hálfníu á föstudagskvöldið var. Byrjuðum á að fá okkur eitthvað í svanginn, komum við í 10-11 eftir nauðsynjum, tókum bensín og brunuðum svo af stað austur í sumarbústað. Vorum komin í bústað langt gengin í ellefu. Þá uppgötvaðist að við hefðum gleymt að kaupa kaffi. Sem betur fer var til smávegis í bústaðnum. Það er einmitt það eina sem ég passa að skilja eitthvað eftir af, kaffi! Settum utan á sængur og strákarnir fóru fljótlega að sofa. Við Davíð fengum okkur kaffi og spjölluðum saman. Ákváðum að vera ekkert að kveikja á sjónvarpinu og komum okkur snemma í ró, svona miðað við að það var föstudagskvöld.

Um hádegisbil daginn eftir, þegar Davíð var nýkomin úr smá verslunarleiðangri frá Laugavatni, komu foreldrar mínir að sækja lykla af bústað í grenndinni. Þau þáðu kaffi (sem Davíð hafði næstum gleymt að kaupa) áður en þau fóru yfir í sinn bústað. Helga systir og hennar fjölskylda komu til þeirra stuttu seinna og hreiðruðu um sig. Stelpurnar komu og fóru í heita pottinn okkar með tvíburunum.

Helgin var notuð í algert afslappelsi. Mamma og pabbi buðu öllum í mat á laugardagskvöldið. Ég las, saumaði út, fór í pottinn, svaf, sinnti frænkum mínum og strákunum eitthvað smávegis og hafði það í alla staði mjög, mjög gott. Svona ætti maður að gera oftar Þegar strákarnir vissu það á miðvikudagskvöldinu að ég hefði fengið úthlutað í bústað um helgina var það bara eitt stórt JESSS!

Við vorum ekkert að flýta okkur í bæinn í gær. Gengum ekki frá fyrr en milli sex og hálfátta. Það tók töluverðan tíma að láta renna úr heita pottinum og bíða eftir uppþvottavélinni en okkur var alveg sama.

Til að enda góða helgi leigðum við okkur "Lucky number Slevin" er við komum heim í gærkvöldi. Ágætis mynd.

5.10.06

- Þokkalega -

Eiginlega ætlaði ég að vera búin að taka myndir af þeim 20 kortum (í viðbót við þau frá því í síðustu viku) sem ég föndraði sl. þriðjudagskvöld og smella þeim hérna inn. Hvort ég taki yfirleitt myndir af þessum kortum og komi því í verka að setja þær hérna inn verður að koma í ljós.

Annars bíð ég spennt eftir næstu helgi en ætla ekki að tjá mig frekar um hana fyrir fram, segi eitthvað frá henni að henni lokinni.

Emma, kisan sem átti heima í risinu kemur alltaf aftur og aftur hingað. Hún er ótrúlega lunkinn við að smeygja sér innfyrir þegar einhver er á ferðinni. Hún virðist þó vita að hún geti ekki "bankað" eða mjálmað fyrir utan dyrnar í risinu en hún er dugleg við að reyna að komast inn til okkar. Hitti Emmu úti áðan og var hún alveg ótrúlega skítug. Spurði hana hvort hún hefði farið í litun því hvítu loppurnar hennar voru næstum svartar. Í hverju lenti kötturinn eiginlega?

Oddur Smári var boðin í afmæli seinni partinn í dag og er boðinn í annað afmæli seinni partinn á morgun.

3.10.06

spuni

stundum horfi ég
upp í skýin
og ímynda mér
að ég liggi þar
líði um í loftinu
með lokuð augun
og láti mig dreyma
þegar ég opna
augun og ætla að
kíkja niður
blasir eitthvað óvænt
við mér

stundum horfi ég
út á sjóinn
og ímynda mér
að ég liggi í
bátkænu
og öldurnar
vagga mér mjúklega
ég hef augun lokuð
og læt mig dreyma
þegar ég opna augun
til að horfa á sjóinn
er allt svo kunnuglegt
í kringum mig

stundum horfi ég
yfir túnið
og ímynda mér
að ég liggi í grasinu
horfi upp í himininn
og búi til sögur úr
skýjunum
lokuð augun opnast
og ég sé að ég er
heima hjá mér
- Svaka törn -

Um ellefu sl. sunnudagsmorgun fór Davíð í vinnu. Hann vann og vann, allan daginn og alla nóttina. Um hálfátta í gærmorgun hringdi hann og sagðist vera á leiðinni að skutla mér í vinnuna (annars er táin öll að koma til). Að skutlinu loknu fór hann beint aftur í vinnuna. Hann hringdi heim langt gengin í átta í gærkvöldi og sagðist vera á leiðinni. Þegar hann kom var það fyrsta sem hann spurði um hvort ég hefði búið til kaffi. Ég hafði reyndar ekki gert það, hélt að maðurinn myndi fara nær strax að sofa. Ég bjó til smá kaffi og maðurinn minn gafst ekki upp fyrir Óla Lokbrá fyrr en um tíu í gærkvöldi. Ég vona bara að vinnutörninni sé lokið í bili!

1.10.06

- Skroppið "heim" í sveitina -

Davíð var að vinna í gær, og er reyndar að vinna í dag líka. Mamma var búin að bjóða okkur austur að kíkja á afrakstur fjölskyldumyndatökunnar um daginn. Helga systir og fjölskylda ætluðu líka að koma austur en hún læstist í bakinu í orðsins fyllstu og komst ekki einu sinni sjálf á salerni, hvað þá austur. Við mæðginin vorum hins vegar komin um tvö leytið. Mamma var með tilbúið á könnunni og ég settist strax með kaffibolla og skoðaði allar myndirnar. Þær eru langflestar mjög góðar. Heppnuðust þvílíkt vel að mamma er í skýjunum. Það voru teknar myndir af stelpunum, krökkunum fjórum, Helgu fjölskyldu, minni fjölskyldu, öllum, fullorðna flólkinu saman og pabba og mömmu. Það gleymdist að taka sér mynd af tvíburunum saman en það gerir ekkert til.

Skrapp með allar myndirnar yfir til Steina föðurbróður og þangað komu, stuttu á eftir mér, sonur hans og tengdadóttir, næstum því beint frá Danmörku. Þau fengu því líka að sjá myndir.

Það er alltaf notalegt að koma austur, geri bara alltof lítið af því. Við mæðgin dvöldum fram eftir kvöldi í góðu yfirlæti. Komum heim aftur rétt upp úr miðnætti með krækiber, svið, slátur (afgangur frá sláturgerðinni í fyrra) og krækiberjasaft í farteskinu.