29.5.24

Enn á Egilsstöðum

Staðan í skólanum hjá vinkonu minni í gær var sú að hún gat unnið heima. Engu að síður undirbjó hún sig líkt og aðra vinnudaga; fór snemma á fætur, klæddi sig í vinnufötin og sinnti ýmsum öðrum morgunverkum með góðum hvíldum. Aðalsteinn fór í sína vinnu um átta og fljótlega eftir það stimplaði Ella sig inn í gegnum forrit í símanum og setti upp spelku á vinstri hendina svo sú hendi væri samvinnuþýðari. Ég sjálf tók morguninn rólega en var þó komin fram um sjö. Sótti svo fartölvuna inn um það leyti sem Ella var að byrja að fara yfir pósta og fleira vinnutengt. Hún tók sér "kaffipásu" um hálftíu. Rétt fyrir tíu skrapp ég út í smá labbitúr. Ætlaði út á peysunni en þá var byrjað að dropa og ég er mjög fegin að ég snéri við eftir úlpunni því göngutúrinn varð í heildina rúmur tveir og hálfur kílómetri og það rigndi alla leiðina. Rétt fyrir hálftvö skutlaði ég Ellu í sjúkraþjálfun. Hleypti henni út á merkta stæðinu en lagði svo bílnum skammt frá og ætlaði að nota tækifærið og fara aftur í göngutúr. Auðvitað byrjaði aftur að rigna svo ég entist bara í tæpt korter. Beið svo bara í bílnum þar til Ella var búin í sjúkraþjálfuninni. Restin af deginum fór í spjall, hvíld og þáttaáhorfun. 

28.5.24

Þokuloft en stillt veður

Vinkona mín tekur daginn mjög snemma á vinnudegi. Undirbúningurinn undir daginn tekur drjúga stund og inn í þeirri stund þarf að gera ráð fyrir hvíld/pásum. Þau hjónin voru komin fram fyrir klukkan hálfsjö. Ég kom á fætur stuttu síðar og átti gott spjall næsta klukkutímann eða svo. Þau voru svo bæði farin út úr húsi um átta. Veðrið var yndislegt og ég ákvað fljótlega að rölta í sund. Samkvæmt forritinu í símanum var ég um korter að labba rúman kílómeter svo ég hef farið frekar rólega. Klukkan var sjö mínútur í níu þegar ég byrjaði að synda. Synti í rúmar tuttugu mínútur og flestar ferðir á bakinu. Svo prófaði ég báða köldu pottana, sat dágóða stund í sólbaði en um tíu leytið fór ég upp úr og þvoði mér um hárið í leiðinni. Rölti upp að skóla og sá að rafskútan hennar Ellu var á merkta stæðinu alveg við aðalinnganginn. Ákvað að hinkra eftir henni og athuga hvort ég fengi ekki far fyrir sundtöskuna mína sem var alveg sjálfsagt. Restin af deginum fór í spjall, sólbað, þáttaáhorf og smá bæjarferð. Ella bað mig um að skutla sér í gjafavörubúð til að kaupa tvær útskriftargjafir, aðra handa dóttur sinni og hina handa tengdadóttur sinni. Þessi bæjar ferð gekk mjög vel. Göngugrindin komst vel fyrir við aftursætin og svo gat Ella sest á stól inni í versluninni og fékk mjög góða þjónustu. 

27.5.24

Ekkert ferðaveður - bongóblíða

Var fyrst fram og á fætur í gærmorgun, rétt að verða sjö, en æskuvinkona mín var örugglega vöknuð því hún kom fljótlega fram. Vegna MS þá gengur allt mun hægar og frá því ég kom hingað síðast í ágúst sl. sé ég greinilegan mun á henni. Ég er þakklát fyrir hversu opin hún er með að tala um allt sem þessu fylgir og svarar öllum spurningum greiðlega. Dagurinn var annars tekinn mjög rólega. Aðalsteinn hélt smíðunum áfram ásamt nágranna sínum og eftir hádegi hreinsaði hann beðin og sló lóðina. Einar Bjarni er í vinnulotu og er búinn að vera hér síðast liðna viku. Hann skrapp í útskriftaveislu á Höfn á laugardeginum og kom til baka seint um kvöldið. Hann skrapp út í folf (frisbígólf). Aðalsteini voru færðar nokkrar öskjur af þorskhnökkum af sjómanni sem hann á regluleg viðskipti við og það var ákveðið að fá mig og Einar Bjarna í að matreiða þrjú flök af hnökkum í kvöldmatinn. Samvinnan tókst mjög vel. Vorum búin að borða áður en körfuboltaleikurinn milli Grindavík og Vals byrjaði. Æsispennandi leikur. Ég fylgdist einnig með leik FH og Aftureldingar í úrslitakeppni karla í handbolta á mbl vefnum. Sá leikur var ekki síður spennandi.

Enn hef ég ekki fallið í kaffipásunni en það er rétt að játa það að ég fékk mér hvítvín bæði á föstudags og laugardagskvöld en þá hafði ég ekki drukkið slíkt síðan í september.

26.5.24

Bríet búin að setja upp rauðu húfuna

Þegar ég kom fram um hálfsjö í gærmorgun voru æskuvinkona mín og maðurinn hennar komin á fætur. Um átta leytið bönkuðu nágranninn og smiður uppá því hér fyrir utan er verið að smíða litla geymslu fyrir sexhjól. Aðalsteinn átti hugmyndina og nágranninn greip hana á lofti. Verkið var hafið á föstudaginn og það var haldið áfram í gær. Við Ella tókum því rólega en upp úr klukkan tíu fengum við okkur göngutúr í Nettó, hún á rafskutlunni sinni og ég á mínum tveimur jafnfljótum. Ég stökk inn í búðina rúmu korteri seinna með innkaupalista í sms-i. Svo fórum við aðra leið til baka, hún með vörurnar í grind fyrir aftan sig. Um tvö leytið byrjuðum við að undirbúa mexíkanska kjúklingasúpugerð. Ég beinhreinsaði afgang af kjúkling frá því kvöldið áður en Ella skar niður grænmetið í skál. Um þrjú leytið tók ég að mér að standa yfir pottunum. Það urðu nefnilega til tveir pottar af súpu, annar potturinn var þó minni en hinn. Allt var byrjað að malla um fjögur og fékk að malla á lægsta straum í klukkustund. Þá var settur út í þetta rjómaostur og rjómi, suðan látin koma upp og svo slökkt undir. Horfðum svo á fyrri hálfleikinn í úrslitaeinvígi evrópukeppninnar í handbolta. Valdís dóttir Ellu kom um svipað leyti. Horfði með okkur á leikinn og borðaði svo með okkur þessa dýrindis súpu sem nóg var til af.

Bríet setti upp rauðu húfuna í MK í gær en hún tekur svo verklegt sveinspróf í kjötiðn í fyrstu vikunni í júní. 

25.5.24

Komin í heimsókn til æskuvinkonu

Ég var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun en fór ekkert út í fjárhús. Mágur minn og systir drukku ketókaffið sitt eftir að Helga hafði kíkt í fjárhúsin. Þar var allt rólegt, og það var enn rólegt næst þegar hún kíkti í næstu ferð. Ingvi var eitthvað slappur og lagði sig. Helga fór þriðju ferðina út í hús um níu. Þá greip ég tækifærið til að taka fram fartölvuna, vafra á netinu og setja inn færslu. Það var greinilega eitthvað að gerast úti í húsi því systir mín kom ekki aftur inn. Um tíu leytið kom lögreglubíll með ljósin á upp að húsinu og annar lögregluþjónninn bankaði upp á. Það hafði verið ekið á kind og tvö lömb rétt við afleggjarann og þau voru að athuga hvort kindurnar væru frá Árlandi. Ég veit orðið númerið og það passaði. Hringdi því í systir mína svo hún gæti hringt í Aron sem ekki var kominn á fætur eftir kvöld og næturvaktina. Mágur minn kom fram um svipað leyti. Ungi bóndinn talaði smá við lögregluna en dreif sig svo niður á veg. Annað lambið og rollan voru dauð og hitt lambið svo illa farið að aflífa þurfti það. Hann sótti svo dráttarvél með skóflu og notaði þá tækifærið og fór með þessi hræ og önnur og urðaði á næsta bæ.

Annars var ég byrjuð að pakka og huga að því að halda ferðalaginu áfram en klukkan var að verða hálftvö þegar ég kvaddi loksins. Rúmum tveimur og hálfum tíma síðar var ég komin til Ellu vinkonu. 

24.5.24

Fjör í fjárhúsunum

Svaf til klukkan að verða átta í gærmorgun. Systir mín var í sinni annarri ferð úti í fjárhúsum og ég fór beint til hennar, gleymdi meira að segja að tannbursta mig. Það hafði allt verið rólegt um nóttina og í hennar fyrsta innliti um sex en þegar ég kom voru þrjár byrjaðar og aðrar þrjár mjög líklegar. Það kom lamb hjá einni fljótlega eftir að ég kom og við stúkuðum hana af. Fljótlega kom annað lamb þar og önnur kind var byrjuð að rembast. Færðum þá nýbornu yfir í aðra kró þar sem búið var að stúka af frá öðrum kindum. Skruppum frá í hálftíma. Ég fékk mér að borða og settumst örstutt út í sólina. Það var samt of mikill vindur til að það væri hægt að sitja við. Fórum aftur í fjárhúsin upp úr klukkan níu. Engin ný lömb komin en tvær "að vinna" í þessu. Allt gekk ágætlega með fyrra lambið hjá annarri en svo þurfti Helga að rétta af annan framfótinn á næsta lambi. Það tókst vel og hún leyfði kindinni að rembast og gera sitt þar til hausinn var líka kominn en þá dró hún lambið út og stúkaði svo kind og lömb af. Hjá hinni sem var byrjuð fannst Helgu, við skoðun, að lambið kæmi öfugt að. Hún hringdi því í unga bóndann sem kom fljótlega. Hann náði lambinu út og svo komu tvö önnur. Þegar búið var að stúka þá kind af skrapp hann aftur inn til að útbúa pela en það eru komnir þrír til fjórir heimalingar og svo eru tvö önnur lömb sem þurfa viðbót við það sem þau fá frá mæðrum sínum. Ég gaf þessum þremur-fjórum en fór svo fljótlega inn. Þá voru Helga og Aron farin að gefa á garðana. Eftir hádegið fóru bræðurnir, Aron og Anton, að bera á. Við Helga ætluðum rétt að kíkja á stöðuna í fjárhúsunum en þá var ein kind frá Helgu komin með lamb og það var greinilega annað á leiðinni. Það kom samt ekki og Helga gat ekki hjálpað rollunni því hún var stygg og sterk svo hún hringdi í Aron sem kom fljótlega og bjargaði málunum. Eftir þessa fjárhúsferð fór ég ekki aftur út. Helga setti fjárhúsfötin mín í þvottavélina með fötum frá sér. Hulda sá um að gefa heimalingunum seinni partinn og svo aukagjöf um tíu um kvöldið. Ég eldaði þorsk í kvöldmatinn en var annars bara að lesa, prjóna, vafra um á netinu og taka því rólega. 

23.5.24

Aftur til Akureyrar

Það var rólegt í fjárhúsunum í gærmorgun, amk hvað burð snerti. Var samt á vaktinni með systur minni þar til komið var að því að gefa. Þá fór ég út og hélt Snældu selskap. Skipti um föt upp úr hádeginu og um þrjú leytið lögðum við Hulda frænka af stað til Akureyrar. Hún vildi helst fara þangað þar sem hún átti erindi í eina búð. Byrjuðum á því að skella okkur í sund og smá sólbað í Sundlaug Akureyrar. Eftir klukkutíma þar leiðbeindi hún mér hvert hún þurfti að fara næst. Lét mig leggja við vínbúðina og skottaðist þaðan yfir tvær götur í aðra búð. Ég beið í bílnum á meðan. Næst ákvað ég að gott væri að koma við í AO við Baldursnes. Beygði aðeins of snemma og þar sem Hulda var svöng stoppaði ég við Bónus og beið eftir henni þar. Svo rambaði ég á bensínstöðina og fyllti tankinn. Hulda vildi hvorki skreppa í jólahúsið né fara Grenivíkur leiðina til baka því nú eru komnir heimalingar sem þarf að gefa á nokkrun veginn ákveðnum tímum. Við fórum því sömu leið til baka, um Víkurskarðið, og voru komnar í Árland milli sex og hálfsjö. 

22.5.24

Sól og blíða

Það bar aðeins ein kind í milli sex og hádegis í gærmorgun. Það var kind í eigu Helgu og Huldu dóttur hennar og var hún þrílembd. Ungi bóndinn og Helga fóru svo í fjárhúsin að gefa milli tíu og ellefu í gærmorgun. Ég var úti til að halda Snældu selskap því ef hún er ein úti og Aron í fjárhúsunum sækir hún í að fara þangað inn og er ansi glúrin við að finna leiðir. Hún er fjörug, aktíf og vill alltaf vera að gera eitthvað. Gott ef hún var ekki að reyna að "smala" mér með sér. En ef ég elti hana ekki og labba í aðra átt þá er hún komin á núll einni til að athuga hvert ég er að fara og hvort ég vilji leika. Um miðjan dag í gær skruppum við systur inn á Akureyri. Mágur minn var lasinn heima og það þurfti í búð. "Heimsótti" því loksins Krónuna á Akureyri en þar er systir mín búin að vinna síðan opnaði skömmu fyrir jólin 2022. Eftir verslunarferðina komum við við í Ísbúð þar sem hægt er að fá sykurlausan ís og shake. Ég ákvað að prófa lítinn skammt af sykurlausum expressóís og var Helga spennt að vita hvort þessi smökkun mín myndi magna upp í mér kaffiþörfina. Komum til baka um hálfsex leytið. Hulda undirbjó kvöldmatargerð, lasanja en svo fóru þau Aron út, hún til að gefa þeim lömbum sem ekki fá nóg og hann til að færa aðeins á milli. Rétt fyrir kvöldmat voru fimm kindur byrjaðar að bera, einhverjar einlembdar en ein þrílemd. Systir mín og ungi bóndinn voru þá í fjárhúsunum og komust ekki inn að borða fyrr en um níu leytið. Yngri bróðirinn var farinn af bæ en pabbi þeirra bræðra átti leið hjá og var boðinn í kvöldmat. Kláraði að prjóna lambadulu að ósk systur minnar sem ég byrjaði mjög fljótlega eftir að ég kom í sveit systur minnar. Fór ekki í háttinn fyrr en um ellefu og las þá næstum til miðnættis í þremur ólíkum bókum, tveimur af safninu og einni úr Fossheiðarpokanum. 

21.5.24

Ronna hennar Huldu/Helgu borin þremur lömbum

Pabbi bræðranna var á vaktinni til klukkan að ganga sjö í gærmorgun. Ungi bóndinn, Aron, hafði því farið að sofa fyrr en undanfarna daga en samt einhvern tímann eftir miðnætti. Systir mín og mágur fengu sér ketókaffi en svo fórum við systur yfir í fjárhúsin. Þar voru tvær sem vitað var að myndu bera á næstu tímum og það bættust tvær aðrar í hópinn. Ein af þessum fjórum bar fljótlega. Um hádegisbilið voru alls fimm bornar. Helga, Aron og pabbi hans sáu um að gefa og vatna og ein sem bar á þeim tímapunkti fékk því betra næði til að athafna sig. Annars fór ég inn fyrir klukkan tólf og ekkert út í fjárhús eftir það. Einhvern tíma dagsins var ég úti að halda Snældu selskap til að passa upp á að hún væri ekki að trufla neitt eða neinn í fjárhúsunum. Hún sækist reyndar eingöngu í að komast þangað þegar Aron er þar. Þeir feðgar, allir þrír, voru að merkja lömb á sama tíma og ég var úti með hvolptíkinni. Steikti fisk í kvöldmatinn, eða við systur hjálpuðumst að við það. 

20.5.24

Allt hvítt á sumarfrísdegi númer fimm í röðinni

Dreif mig á fætur um sex í gærmorgun. Þá voru systir mín og mágur þegar búin að fara aðeins út í fjárhús og "næturverðirnir" farnir að hvíla sig. Þau vissu um eina sem var að byrja burð. Fórum tvær út um sjö leytið. Tvær aðrar voru komnar af stað og sú sem við sáum síðast var fyrst til að bera. Kalla þurfti út unga bóndann um tíu. Þá var önnur hinna búin að bera einu en hitt lambið snéri öfugt og það þurfti að hjálpa til við að ná því út. Sumar rollurnar eru það styggar að það borgar sig að eigandinn sé nálægur. Um þetta leyti var hann líka búinn að hleypa Snældu út og ég tók það að mér að vera útivið svo hún myndi ekki troða sér í fjárhúsin. Upp úr hádeginu fór að snjóa smá og í gærkvöldi var allt orðið hvítt. En það var engin hraðferð á logninu og kunnugir meta þetta svo að snjóinn taki upp í síðasta lagi á morgun.


 

19.5.24

Sama uppskrift

Aftur vaknaði ég um hálfsjö. Systir mín og mágur voru komin á stjá og hún var þegar búin að kíkja út í fjárhús. Þar var ein sem sýndi greinileg merki þess að burður var kominn af stað. Tannburstaði mig og fékk mér vatnsglas en þau hjónin byrja alla morgna á ketókaffi. Þegar við komum út í fjárhús fundum við aðra sem var komin með sóttina. Það gekk samt frekar hægt hjá þessum báðum. Sátum góða stund að fylgjast með og í millitíðinni byrjaði að snjóa aðeins úti. Um miðjan morgun tókum við hálftíma pásu. Ég var svo rétt á undan aftur út. Enn var ekkert að gerast en þriðja kindin var byrjuð að krafsa með framlöppunum. Þegar Helga kom skömmu síðar sáum við að sú sem var síðust af stað af þessum þremur var komin með lamb. Helga stúkaði kind og lamb af og það kom annað lamb stuttu síðar. Ég skrapp inn um hálfellefu en systir mín hringdi í unga bóndann og þegar ég kom aftur út háltíma síðar var hann búinn að toga eitt stórt lamb úr "fyrstu" kindinni og þrjú úr annarri. Fyrsta af þremur kom öfugt út en það var þriðja lambið sem lifði ekki af. Snælda sex mánaða frátík unga bóndans tróð sér inn í fjárhús en hún er enn aðeins of mikill kjáni. Vill alveg smala fénu í hóp en það er mikill leikur og læti í henni. Þegar Aron gafst upp á að hafa hana inni í kringum féð og lömbin og fleygði henni út aftur ákvað ég að ég gerði mest gagn með því að fara út líka og sjá til þess að Snælda hefði um annað að hugsa heldur en að sniglast í kringum húsbónda sinn og atast í kindunum. Það virkaði ágætlega. Var með hana úti í hátt í klukkustund eða þar til mágur minn kom með sína þrjá hunda úr göngu ofan úr fjalli. Þá setti ég hana inn í búrið sitt. Um þrjú leytið skruppum við Hulda í sund til Húsavíkur. Við syntum báðar meira heldur en á föstudaginn og ég fór nokkrar ferðir á bakinu af því ég hafði tekið hársjampóið mitt með í þessa sundferð. Eftir sundið kom ég við í Nettó. Hafði verið beðin um að kippa með mér rjóma og ég nýtti tækifærið og birgði mig sjálfa upp af léttu nasli eins og grískri jógúrt, skyri, gulrótum, eplum og fleiru. Í kvöldmat var lamb og báðir bræðurnir sem og pabbi þeirra voru með. Hulda dró sig fljótlega í hlé eftir matinn og yngri bróðirinn fór að heimsækja kærustuna sem vinnur og býr á öðrum bæ ekkert of langt frá. 

18.5.24

Sauðburður og sund

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Mágur minn var nýbúinn að útbúa morgundrykkinn þeirra hjóna, ketókaffi og systir mín tók við sínum bolla fyrir utan og fór með hann með sér í fjárhúsin. Sagði að það væru tvær að fara að bera bráðum. Ég rétt gaf mér tíma til að hendast í föt, sinna morgunverkunum á baðherberginu og fá mér glas af kókosvatni áður en ég fór á eftir henni út í fjárhús. Gat eitthvað hjálpað til en var eiginlega fyrst og fremst í eftirlits og snattstörfum. Kíkja hvort vatnaði vatn og hvort eitthvað væri að gerast hjá þeim sem voru komnar á stað og einnig athuga hvort fleiri sýndu merki um að vera að byrja. Gátum skroppið inn í hálftíma inn á milli. Systir mín er greinilega komin með mjög mikinn áhuga á svona bústörfum og stendur sig vel á sínum vöktum. Það er nauðsynlegt að ungi bóndinn, Aron, fái að hvíla sig inn á milli. Anton bróðir hans var á næturvakt fyrripart nætur í fyrrinótt en kom svo beint yfir að leysa bróðir sinn af um þrjú leytið. Hann var í fjárhúsunum þegar Helga tók vaktina um sex en var að fá sér smá snarl um það leyti sem ég kom fram og fór svo og lagði sig til hádegis. Um þrjú leytið fórum við Hulda frænka mín saman í sund inn á Laugar. Þar fór ég þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í 40°C pottinn en synti ekki nema 150m. Þetta var samt mjög notalegt og hressandi í senn. Eldaði svo fiskrétt um kvöldið á alveg nýjan hátt. Það gekk svo vel samt að meira að segja bræðurnir voru mjög hrifnir en þeir eru meira fyrir kjöt en fisk.

17.5.24

Í sveitasælunni fyrir norðan

Þrátt fyrir að vera komin á fætur um hálfsjö fór það þannig að ég skrópaði í sund enn einn daginn. Gerði æfingarnar samviskusamlega, vafraði um á netinu, ýtti við N1 syninum svo hann yrði ekki of seinn í vinnuna og um átta leytið fór ég að huga að því að taka mig saman og pakka. Það tók mun lengri tíma en ég hafði gert ráð fyrir. Um hálftíu bankaði ég upp á hjá Oddi og spurði hvort hann væri til í að rífa sig upp fljótlega og hjálpa mér að ferma bílinn. Hann var til í það en klukkan var orðin hálfellefu áður en ég taldi mig tilbúna. Pakkaði auðvitað niður eins og ég yrði mánuð í burtu en þótt ég sé ekki alveg búin að ákveða hversu lengi ég verð,verður það varla alveg svo langur tími. Á leiðinni út úr bænum kom ég við í N1 við Gagnveg og fékk Davíð Stein til að athuga með loftþrýstinginn á dekkjunum. Klukkan var svo um hálftólf þegar ég hélt áfram út úr bænum og norður á bóginn. Keyrði alla leið á Hvammstanga en þar stoppaði ég loksins til að fá mér að borða. Kíkti líka við í ullarsetrinu áður en ég hélt för áfram. Stoppaði næst við AO í Baldursnesi á Akureyri um hálfsex og fyllti á tankinn. Tók örstuttan rúnt um hluta af bænum áður en ég keyrði áfram. Tók lengri leiðina og fór um Víkurskarð í stað þess að fara göngin og var komin til systur minnar um hálfsjöleytið.

16.5.24

Ferðadagur framundan

Vinnudagurinn í gær varð aðeins lengri en ég hafði áætlað en ég skildi þó við tiltölulega hreint borð þegar ég fór úr húsi klukkan að nálgast hálffimm. Það var framleiðsludagur. "Daglegu" skrárnar kláruðust stuttu eftir kaffi og fundarpásu og þá tók við endurnýjun upp á tæplega þrjúþúsund. Sendum ellefu fulla póstkassa upp með lyftu 1 rétt fyrir fjögur og vorum þá búnar með þessa nokkuð stóru endurnýjun. Þá átti ég bara eftir að bóka, útbúa fylgiskjal með póstinum, stimpla mig út og senda vinnuvikuna til samþykktar ásamt því að haka í alla 28 virku frídagana framundan. Fór svo bjartsýn út í þunga umferðina og náði að komast upp í Grafarholt rétt fyrir lokun hjá Margt Smátt. Þangað sem ég sótti bolla með forsetaframbjóðandanum Baldri og maka hans Felix. Gat bara alls ekki skilið Felix eftir úttundan enda sýnist mér hann styðja mjög vel við bakið á Baldri. Ætlunin var svo að skreppa í sund en ég hvarf frá því. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk. Kom heim klukkan langt gengin í sex og klukkan sjö mætti ég á húsfund niður á næstu hæð. Eftir fundinn kom ég við í þvottahúsinu til að sækja þvott en restin af kvöldinu fór í FBI-þáttaáhorf með Oddi. Var komin upp í rúm um tíu leytið.

 er ég alveg óviss hvernig næstu dagar verða. Er að fara að pakka niður fyrir ferðalag norður í land. Verð hjá systir minni í amk viku og þá er mjög líklegt að ég haldi áfram austur á bóginn og stoppi í nokkra daga hjá æskuvinkonu minni. Fartölvan fer með í ferðalagið og ef ég þekki mig rétt reyni ég að punkta niður það helsta reglulega.

15.5.24

Vinningur á HHÍ miðann minn í gær

Í morgunæfingunum skiptist ég nú á að nota 2 x kíló og 2 x 1,5 kíló í hvorri hönd. Í gærmorgun voru það léttari lóðin. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Það var einfaldlega klikkað að gera í vinnunni og ég var ekki búin fyrr en klukkan að verða hálfsex. Eins og ég hefði nú haft gott af því að skella mér beint í sund og kaldan pott þá skrópaði ég og fór beint heim. Hringdi í pabba áður en ég fór inn úr bílnum. Gleymdi að segja honum að yngri dótturdóttir hans er að útskrifast með sveinspróf í kjötiðn aðra helgi. Dugnaðarforkurinn hún Bríet sem verður tvítug í næsta mánuði. 

14.5.24

Blár himinn

Morgunrútínan gekk ágætlega að venju í gærmorgun. Notaði 1,5kg lóðin við æfingarnar og vandaði mig við að gera alls konar. Held að ég hafi "tekið" á því í uþb fimmtán mínútur. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Stimplaði mig inn og byrjaði fljótlega að taka saman tölur og prenta út skjöl vegna korta áður en ég byrjaði í innleggjunum. Fyrirliðinn fór niður að hlaða inn skránum og útbúa skiptiblöð. Tvær sumarstúlkur byrjuðu í gær. Önnur var með okkur í fyrra sumar og kom líka í jóla og páskafríinu. Hin var að koma í fyrsta skipti. Vinnu lauk ekki fyrr en um fjögur. Þá dreif ég mig beint í sund. Synti reyndar ekkert en fór fjórar ferðir í kalda með kalda potts vinkonu minni. Fór upp úr um fimm leytið og ætlaði mér að ná í vörur sem ég var að panta um helgina hjá Margt Smátt. Hélt að það væri opið til klukkan sex en það lokar klukkan fimm svo ég kom að læstum dyrum og verð að gera mér aðra ferð. Kom heim um hálfsjö. 

13.5.24

Þrír vinnudagar í þessari viku

Svaf mun betur í fyrrinótt og vaknaði hress og endurnærð um sjö leytið. Klukkan var samt farin að ganga ellefu áður en ég lagði af stað í sund. Laugardalslaugin var opnuð aftur á laugardaginn. Ég byrjaði á kalda pottinum sem var þó í heitara lagi eða rúmlega 9°C. Synti 400 metra, ca helminginn á bakinu. Aftur í kalda, þá gufu, kalda sturtu, nuddpottinn, sjópottinn og endaði svo á kalda pottinum og smá "sólbaði" áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið. Kom heim upp úr klukkan tólf. N1 sonurinn var á vakt en þegar hinn sonurinn rumskaði fékk ég hann í lið með mér í þau verk sem sjaldnast er skrifað um. Hringdi í Önnu frænku, pabba og Ellu vinkonu. Hún var að fara að horfa á sama leik í enska og við Oddur; Man. Utd - Arsenal sem fór á besta veg fyrir gestaliðið sem á möguleika á að vinna deildina en aðeins ef Man. City tapar stigum í frestuðum leik í vikunni. 

12.5.24

Letidagur í gær

Vaknaði alltof snemma eða svaf of lítið. Held að ég hafi ekki sofnað neitt aftur eftir að ég rumskaði fyrir fimm í gærmorgun. Var komin á fætur um sexleytið. Vafraði um á netinu, gerði æfingar og horfði á þætti. Fór ekkert í sund en skrapp til esperanto vinkonu minnar milli hálfellefu og tólf. Fór ekki í göngutúr en horfði á landsleik, þætti og gerði æfingar. Var komin í rúmið fyrir klukkan hálftíu. Leysti sudoku og las til klukkan tíu. Man ekki hvenær ég sofnaði en svaf amk miklu betur í nótt þrátt fyrir samviskubitið yfir letinni. 

11.5.24

Einn þriðji búinn af maímánuði

Í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma vakti vekjaraklukkan mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Hafði samt góðan tíma fyrir alla morgunrútínu og var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Eftir að hafa stimplað mig inn, fyllt á vatnbrúsann og fengið mér bolla af heitu vatni fór ég niður að hlaða inn nýjum skrám og undirbúa framleiðslu. Daglegri framleiðslu lauk um hálftíu. Endurnýjuðum rúmlega átjánhundruð kort. Gengum frá kortadeildinni rúmlega hálfþrjú. Var komin í Nauthólsvík um hálffjögur og heim klukkutíma síðar. 

10.5.24

Stakur vinnudagur

Var ekkert að drífa mig á fætur í gærmorgun en var þó komin á stjá um átta. Notaði 1,5 kg lóðin í fyrsta skipti í morgunæfingunum. Um hálfellefu dreif ég mig út í göngutúr. Hann var um þrjár lotur og eitthvað á sjötta kílómeter og rúmur klukkutími í heildina. Var samt ekki komin heim aftur fyrr en rúmlega tólf. Um eitt leytið bankaði nágranninn í risinu og spurði hvort hann mætti mála veggina meðfram stiganum upp til hans. Það var sjálfsagt mál. Hann spurði meira að segja um lit. Ég sagði að mín vegna mætti hann alveg ráða því. Hann var reyndar bara með hvítan í huga en seinna um daginn þegar hann var búinn að undirbúa og byrjaður að mála og ég var á leiðinni í þvottahúsið spurði ég í gríni hvort hann hafi ekki verið að hugsa um bleikan. Hann svaraði af bragði "Nei, en kannski næst....". Held samt ekki. 

9.5.24

Hundraðastaogfyrsta færsla ársins

Morgunrútína gærdagsins var svipuð og aðra virka daga. Tók sjósundsdótið með í bílinn. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Í gær var framleiðsludagur. Daglegri framleiðslu lauk um hálftólf. Eftir hádegi endurnýjuðum við tólfhundruð kort. Stimplaði mig út um fjögur. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og ýsu- og bleikjuflök. Sá að það myndi eiginlega ekki gefast tími til að skreppa í Nauthólsvík og fór heim. Bar á skóna mína og slakaði á til klukkan að ganga sex. Þá pússaði ég skóna, klæddi ég mig aðeins upp, fór í kápu og rölti yfir á Finnson í Kringlunni. Þar hitti ég marga af vinnufélögum mínum í Seðlaverinu en samkoman var í tilefni þess að einn vinnufélaginn var að hætta um daginn. Við vorum semsagt að kveðja hann með því að fara með honum út að borða og á eftir fórum við á litla sviðið í Borgarleikhúsinu á sýninguna "Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar". Á Finnson fengum við súpu í forrétt og ég var ein af þremur sem fékk mér þorskhnakka. Það var einnig boðið upp á vín eða gos með matnum og kaffi á eftir en ég sleppti því og var einungis í hversdags hvítvíninu, vatninu. Sýningin var mjög skemmtileg, mikið hlegið. Ég rölti svo heim aftur og var komin heim skömmu fyrir klukkan ellefu.

8.5.24

Laugardalslaug biluð

Ég var byrjuð á morgunæfingunum upp úr klukkan sex í gærmorgun og var í fyrsta skipti með lóð í báðum höndum. Er enn aðeins að vinna með eins kílóa lóðin en það styttist nú í að ég prófi að nota næstu lóð fyrir ofan, 1,5kg. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fór fljótlega niður að hlaða inn nýjustu skrám. Ein mappan var þó galtóm. Tæknimaðurinn þurfti að "handflytja" hana yfir um tíu leytið. Annars var mjög mikið að gera í innleggjunum og ég var að vinna að þeim alveg til klukkan að ganga fjögur. Vinnudeginum mínum lauk klukkan að verða hálffimm. Hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardagslaug. Þegar ég kom svo þangað voru margar tilkynningar um að loka þyrfti fyrir almenning milli áttunda og tíunda maí og að einungis pottar og gufa væru opið þann daginn. Laugin var að tæmast og það þarf að gera við einhvern galla áður en hægt verður að fylla hana á ný og opna fyrir almenning. Ég synti því ekkert í gær en náði þremur ferðum í kalda pottinn með kalda potts vinkonu minni, einni í gufuna og einni í sjópottinn. Kom við á bóka safninu á leiðinni heim. Skilaði öllum sex bókunum. Eina hafði ég ekki náð að klára þótt ég hafi framlengt frestinum sem hefði verið að renna út í dag áttunda. Tók þrjár bækur með mér mér heim og passaði upp á að þær væru ekki skammtímalánsbækur. Ein af þeim er smásögusafn eftir Nesbö. 

7.5.24

Búin að kjósa

Vaknaði rúmum hálftíma áður en klukkan átti að ýta við mér. Eftir morgunverkin á baðherberginu gerði ég fyrstu æfingalotu dagsins áður en ég settist svo í sófann með fartölvuna í fanginu. Mætti í vinnu rúmlega hálfátta. Eftir að hafa stimplað mig inn, fyllt á vatnsbrúsann og fengið mér bolla af heitu vatni fór ég niður í kortadeild til að hlaða inn nýjustu skránum og útbúa skiptiblöð. Var byrjuð að vinna innlegg upp úr klukkan hálfníu. Klukkutíma síðar skrapp ég í smá kaffipásu. Er ekki enn farin að drekka kaffi aftur en það er eitthvað sem segir mér að það breytist kannski fljótlega eftir að ég fer í sumarfrí. Var annars að vinna til klukkan fjögur. Þá skrapp ég yfir í Holtagarða til að kjósa utan kjörfundar í komandi forsetakosningum. Það gekk nokkuð fljótt og vel fyrir sig. Var komin í kalda pottinn um hálffimm. Náði tveimur ferðum með kalda potts vinkonu minni en hún þurfti að fara um fimm. Þá fór ég eina ferð í gufuna og synti svo aðeins 200 metra. Eftir sundið lá leiðin í Skeifuna. Keypti alls 6,5kg af handlóðum í Hreysti, 1x1kg, 1x1,5kg og 2x2kg. Verslaði svo í Krónunni fyrir rúmlega tólfþúsund. Fékk stæði fyrir framan no. 15 í götunni. Þurfti að hafa fyrir því að ná sambandi við Odd en það tókst og hann kom og sótti flesta pinklana. Ég var að spjalla við tvíburahálfsystur mína í rúman hálftíma áður en ég fór inn. Eina sem Oddur tók ekki með inn var pokinn með lóðunum og ég spaugaði við hann um að hann hefði skilið eftir þyngsta pokann fyrir mig. Davíð Steinn var annars lasinn í gær, með leiðinda hálsbólgu. Hann er sennilega ekki að fara til vinnu í dag heldur. 

6.5.24

Fjögurra daga vinnuvika framundan

Sunnudagurinn hófst mun fyrr en áætlað var, eða um fimm leytið. Hugsanlega náði ég aðeins að gleyma mér aftur en ég heyrði amk stofuklukkuna slá á heila og hálfa tímanum. Fór á fætur um hálfátta. Var að vafra um á netinu í einn og hálfan tíma en þá tók ég loksins til við fyrstu æfingalotu dagsins. Prjónaði smá, lagði kapla og var með bók á kantinum. Las samt lítið sem ekki neitt. Pabbi kom klæddur fram á ellefta tímanum. Ég hafði þó heyrt í honum um sexleytið en þá kom hann fram til að taka niður tölur og fá sér ávöxt og harðsoðið egg áður en hann lagði sig aftur. Ég var eitthvað að spá í að skreppa út í göngutúr en það varð ekkert úr því. Kláruðum signa fiskinn í hádeginu, spjölluðum, fórum í smá kaplakeppni og svo horfðum við á fyrri hálfleikinn í leik Liverpool og Tottenham. Ég tók mig saman og kvaddi um hálffimm leytið og var komin heim um sex.

5.5.24

Siginn fiskur

Gærdagurinn byrjaði rétt fyrir sjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu gerði ég æfingar í korter áður en ég settist í sófann með fartölvuna í fanginu. Klukkan langt gengin í níu var ég komin á braut 7 í Laugardalslaug og synti þar 500m á 25 mínútum, ca aðra hverja ferð á bakinu. Fór tvisvar sinnum fimm-sex mínútur í kalda pottinn, 15 mínútur í gufu, 10 mínútur í sjópottinn og smá sólbað. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var komin vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu leytið. Vorum reyndar lítið stemmdar fyrir esperantolestri en fórum þó yfir glósurnar frá því 1. maí. Kom heim um hálfeitt. Klukkutíma síðar brunaði ég af stað austur. Kom við hjá Jónu Mæju og Reyni. Stoppaði þar dágóða stund og var klukkan byrjuð að ganga fimm þegar ég kom á Hellu. Fljótlega eftir að ég kom bauð pabbi mér í bíltúr upp að Heiði. Keyrðum reyndar smá hring og komum niður vestan við á, afleggjarann að Bjargi, Heiðarbrún, Árbakka og fleiri góðum bæjum. Pabbi var svo með siginn fisk í matinn og ég sá um uppvaskið. 

4.5.24

Hætt að rigna í bili

Vaknaði snemma í gærmorgun og var viljandi mætt í vinnuna rétt upp úr klukkan sjö. Þetta var eini kortaframleiðsludagur vikunnar. Vélin var reyndar alls ekki mjög samvinnuþýð fyrsta klukkutímann en þegar hún fór loksins að hlýða náðum við að klára skammtinn sem þurfti að vera tilbúinn síðar um morguninn stuttu fyrir níu. Þá þurfti ég að skreppa frá í tæpan klukkutíma. Átti tíma hjá skurðlækninum sem gerði aðgerðina á hægri úlnliðnum. Var mætt mínútu fyrir settan tíma en þurfti að bíða aðeins. Lækninum leist vel á framfarirnar en hann vill samt fylgja mér eftir. Urðum ásátt um að næsta skoðun verði í endaðan janúar eða byrjun febrúar þegar ár verður liðið frá aðgerð. Var komin aftur í vinnuna tíu mínútum fyrir tíu. Fór í smá kaffipásu og fyllti á vatnsbrúsann. Kláruðum dk daginn á tveimur tímum fórum þá í mat. Daglegri framleiðslu lauk um hálftvö. Svo kláruðum við að endurnýja tæplega sexhundruð kort. Gengum frá kortadeildinni um þrjú en það tók mig rúman hálftíma að ganga frá bókhaldi og póstsendingum þrátt fyrir að hafa verið búin að klára sumt af því í hádeginu. Skrapp beinustu leið í 7,4°C sjóinn eftir vinnu. Fór tvær ferðir ofan í og eftir seinni ferðina fór ég upp úr án þess að fara í sturtu. Rétt skolaði af fótunum og skolaði úr sundbolnum og af strandskónum. 

3.5.24

65 heimsóknir í blóðbankann

Var vöknuð nokkru á undan vekjaraklukkunni eins og oftast áður. Eftir morgunverkin á baðherberginu gerði ég æfingar með og án lóða í rúmar tíu mínútur. Er enn eingöngu að nota eitt eins kílóa lóð. Hugsa að ég fari að huga að því að fjárfesta í öðru eins svo ég geti gert æfingar með lóð í báðum höndum. Var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Stimplaði mig inn, fyllti á vatnsbrúsann og fékk mér bolla af heitu vatni. Fram til hádegis, með smá kaffipásu, var ég svo að vinna að mánaðamótauppgjöri kortadeildar. Eftir hádegi fór ég svo í innlegg og yfirferðir. Stimplaði mig út mínútu áður en átta tímar "duttu" á klukkuna. Hringdi í nöfnu mína og frænku Baldvinsdóttur (pabbi hennar var bróðir móðurömmu minnar) og spjallaði við hana á meðan ég keyrði að blóðbankanum við Snorrabraut. Hún hafði verið í vinnuferð og gist á Stracta hótel við Hellu fyrr í vikunni og notað tækifærið og heimsótt pabba. Ég var annars svo ljómandi heppin að fá stæði við blóðbankann hálftíma áður en ég átti tíma. Það gaf mér tíma til að fá mér eitthvað í svanginn og drekka meira vatn. Sú sem sótti mig á kaffistofuna er frá USA en talar smávegis í íslensku og vill æfa sig í henni. Hún fékk að velja hvorn handlegginn hún vildi stinga í og valdi vinstri.  Hitti í fyrsta og var rennslið gott. Pokinn fylltist á ca sjö mínútum. Fékk glas/box af járntöflum með mér heim af því að ég bað um það. Mun taka smá kúr næstu daga og svo eftir rúma þrjá mánuði til að undirbúa mig undir næstu heimsókn, þ.e. ef ég fæ ekki skilaboð um að hvíla í auka mánuð. Horfði á nokkra NCIS þætti með Oddi en fór snemma í háttinn, eða milli níu og hálftíu. 

2.5.24

Baráttudagur

Ég var komin alltof snemma á stjá miðað við að það var rauður dagur í gær. Gerði æfingarnar mínar,  vafraði um á netinu, prjónaði og horfði á einn þátt. Upp úr klukkan tíu tók ég esperantodótið mitt og skrapp vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Komst heim aftur áður en götulokanir vegna Sniglanna tóku gildi. Um tvö leytið skrapp ég í góðan göngutúr um Öskjuhlíðina og Fossvogskirkjugarð. Í heildina urðu það um 4km. Hitti kött, sá kanínu og faðmaði tré. Kláraði að horfa á þriðju seríuna af Babýlon Berlín. Fór snemma í háttinn en las til klukkan að verða tíu.

1.5.24

Aftur smá yfirvinna

Vaknaði upp úr klukkan sex nokkrum mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Tæpum einum og hálfum tíma síðar var ég mætt í vinnu. Fleiri hendur voru á dekki í gær en í fyrradag sem betur fer því það var nóg að gera. Sá sem er í afgreiðslunni sagðist ekki muna eftir jafn stórum degi í innlögnum og oft hafa þeir verið stórir. Síðasta innleggið var klárað upp úr þrjú. Þá var samt vinnunni alls ekki lokið. Ég snéri mér reyndar að því að undirbúa mánaðamótin fyrir kortadeildina og sinnti þeim málum þar til flest annað var að klárast. Þegar ég stimplaði mig út var ég búin að vera á staðnum í níu tíma. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Spjölluðum aðeins stutta stund því það var gestur hjá honum. Fékk samt að vita að Helga systir hafði líka hringt í hann í gær. Hafði notað tímann þegar hún var á leiðinni heim úr vinnu. Ég synti 400m, fór 2x5 mínútur í kalda pottinn og 15 mínútur í gufuna. Var komin heim um hálfsjö.

30.4.24

Ekki í sund en góður göngutúr

Færslan um gærdaginn verður líklega frekar stutt. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Það vantaði nokkrar hendur á dekk en það var mikið að gera og ég kunni ekki við að láta mig hverfa eftir átta tímana og skilja hina eftir í súpunni. Klukkan var að nálgast sex þegar ég stimplaði mig út úr vinnu og fór beinustu leið heim. Bræðurnir voru á Bakkanum. Ég fékk mér hressingu, horfði á fréttir og hálfan þátt en um hálfátta leytið skrapp ég út í göngutúr upp á 3,5km. Horfði á heilan þátt eftir að ég kom til baka. Var komin inn í rúm og var rétt að leggja frá mér bókina og fara að sofa þegar bræður komu heim. 

29.4.24

Sund og hárþvottur á sunnudegi

Vaknaði um sjö leytið í gærmorgun. Greip fljótlega aðeins í prjónana mína áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Mætti í Laugardalslaug rétt rúmlega níu. Byrjaði á því að synda 600m á hálftíma, helminginn á bakinu. Kalda potts vinkona mín var þegar búin að fara eina ferð í kalda þegar ég fór í mína fyrstu ferð. Saman fórum við fimm ferðir. Að auki fór ég eina ferð í nuddpottinn og tvær í 42°C pottinn. Vorum 15 mínútur í gufunni, 10 mínútur í sjópottinum og sátum svo góða stund í sólbaði. Ég kvaddi um ellefu en þá var ég búin að vera á svæðinu í um tvo tíma. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var komin heim rétt fyrir tólf. Restin af deginum fór í alls konar rólegheita dundur. Var með steikta bleikju með sætum kartöflum, súrkáli og spínati í kvöldmatinn og bauð Oddi með mér og aldrei þessu vant þáði hann boðið. N1 sonurinn kom heim á níunda tímanum. Hann færði mér tvo bókapakka að gjöf frá einum uppáhalds viðskiptavini hans upp á Gagnvegi.

28.4.24

Sjósund og göngutúr í gær

Var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu prjónaði ég í um fimm mínútur áður en ég tók til við æfingarnar. Upp úr klukkan sjö settist ég niður með fartölvuna í fanginu. Vafraði um á netinu í góða stund en slökkti á tölvunni eftir að ég var búin að setja inn færslu dagsins. Kláraði loksins að lesa  Blóðmána eftir Joe Nesbö. Um tíu setti ég upp hafragraut. Bætti út á hann kanil, bláberjum, krækiberjum, nokkrum rúsínum og ýmsum hnetum og fræjum. Var mætt í Nauthólsvík nokkrum mínútum fyrir opnun klukkan ellefu. Sjórinn var 7,6°C. Setti ekki upp hanska en tolldi samt í sjónum í um fimm mínútur. Fór aðeins í gufuna, kalda sturtu, fimmtán mínútur í heita pottinn og svo 2-3 mínútur aftur í sjóinn áður en ég fór upp úr. Það var margt um manninn enda veðrið mjög gott. Kom heim um tólf. Tveimuroghálfum tímum síðar skrapp ég í hálftíma göngutúr. N1 sonurinn var að vinna en hinn sonurinn vann húsverkin með mér. Svo horfðum við á fótbolta og nokkra þætti. 

27.4.24

Morgunstund

Var komin á stjá um sex leytið í gærmorgun og fljótlega tók ég fyrstu æfinalotu dagsins. Mætti í vinnuna um hálfátta. Stimplaði mig strax inn, fyllti vatnsbrúsann og fór niður í kortadeild. Kveikti á vélinni og hlóð inn nýjustu skránum og undirbjó skiptiblöð og framleiðslu. Fyrirliðinn kom niður þremur korterum seinna með útprentuð framleiðslublöð. Kláruðum allt daglegt fyrir klukkan ellefu og framleiddum fyrstu 300 af 4500stk endurnýjun áður en við fórum upp í mat. Það skal tekið fram að við fórum í kaffipásu upp úr klukkan hálftíu. Vorum komnar niður í deild fyrir klukkan hálftvö eftir hádegi og á tveimur tímum endurnýjuðum við 1200 kort. Hættum og gengum frá um hálfþrjú. Uppi beið smá verkefni sem ég tók þátt í þar til dagvinnuskyldu minni var lokið en hún er aðeins styttri á föstudögum. Var komin í sund fyrir klukkan hálffjögur. Fór fimm sinnum í kalda með vinkonu minni. Synti ekkert og kvaddi um hálffimm því ég þurfti að vera mætt með bílinn í Fellsmúla um fimm. Var komin þangað sjö mínútum fyrr og fékk að skilja bílinn eftir. Kosninga skrifstofa Baldurs var rétt hjá og þangað fór ég með prjónana mína og fékk að bíða þar til ég fékk sms um að bíllinn væri tilbúinn. Ég er semsagt komin á sumardekkin. Í fyrra var sagt að það vantaði bara millimetra upp á að nagladekkin væru orðin of slitin og ólögleg. Þegar ég spurði út í þetta um leið og ég greiddi fyrir þjónustuna fékk ég þau ánægjulegu svör að nagladekkin væru enn í góðu lagi og amk 1,5mm yfir viðmiðum svo mælingin í fyrra var líklega alls ekki rétt. Vetrardekkin verða því á dekkjahótelinu þar til ég þarf að nota þau aftur. Fékk afslátt út á kennitölu N1 sonarins og fyrir þjónustu og hótel greiddi ég rúmlega sautjánþúsund krónur. Var komin heim upp úr klukkan hálfsex. 

26.4.24

Síðasti föstudagurinn í þessum mánuði

Svaf heila níu klukkutíma í fyrrinótt og rúmlega það. Klukkan var að verða átta þegar ég vaknaði í gærmorgun og ég er viss um að ég var sofnuð fyrir klukkan hálfellefu á miðvikudagskvöldið. Kannski sjóferðin hafi haft þessi áhrif, amk var húðin á mér mjög mjúk. Fyrsti hálftíminn, eftir að ég var komin á fætur, fór í smá prjón og fyrstu æfingalotu dagsins. Um hálfellefu var ég komin til esperanto vinkonu minnar. Var hjá henni í tæpan einnoghálfan tíma og amk helminginn af þeim tíma vorum við að lesa esperanto saman. Var komin heim upp úr klukkan tólf. Um hálftvö skrapp ég út í smá göngutúr. Stillti ekki forritið í símanum en þegar ég settist smá stund niður hálftíma síðar hafði ég labbað 2,6km og var stödd hinum megin við Öskjuhlíð. Þegar ég hélt för áfram skömmu síðar ákvað ég að stilla forritið á göngu. 44 mínútum og 3,2km síðar settist ég á bekk í Eskihlíðinni og átti þá aðeins innan við 300m heim. Sat þarna í um tíu mínútur og þetta gerði það að verkum að þegar ég kom heim þurfti ég ekki að draga hægri fótinn upp tröppurnar eins og ég þarf oftast að gera eftir amk tuttugu mínútna göngur.

25.4.24

Aftur í sjóinn

Gleðilegt sumar!

Aftur var ég komin á stjá um hálfsex í gærmorgun og hagaði ég fyrsta eina og hálfa tímanum mjög svipað og á þriðjudagsmorguninn. Var mætt í vinnuna upp úr klukkan hálfátta. Í gær var framleiðsludagur. Framleiddum allt daglegt uppsafnað fyrir hádegi. Tókum kaffitíma og fundarpásu um hálftíu en í gær var einn samstarfsmaður minn að vinna sinn síðasta vinnudag eftir rúmlega 43 ár í fjármálageiranum. Hann byrjaði víst hjá Iðnaðarbankanum þann 22. desember 1980. Í tilefni tímamótanna fékk hann að velja hvað væri haft með kaffinu og hann vildi brauðtertur. Það voru líka marengstertur en þær voru vegna þess að markmiðum marsmánaðar var náð og gott betur en það. Ekki hefur verið tími fyrr í þessum mánuði til að fagna því. Ég freistaðist í smá flís af einni brauðtertunni en sleppti sykurbombunum. Hefði annars mjög líklega endað all snarlega á salernisferð með pípandi...


Eftir hádegi unnum við að endurnýjun til klukkan að verða þrjú. Þá gengum við frá deildinni. Stimplaði mig út tíu mínútum áður en átta tímunum var náð. Ef við náum ekki átta tíma markinu þá eigum við að skrá það sem upp á vantar á kerfi sem kallast bónustímar. Ég skráði semsagt tíu mínútur á það kerfi í gær. Hringdi í pabba á leiðinni heim. Hann var kominn á sinn bíl aftur, hafði sótt hann í bæinn á þriðjudaginn og skilaði þar með lánsbílnum í leiðinni. Ég stoppaði heima í rúma klukkustund og fékk mér smá snarl. Svo lét ég loksins verða af því að skreppa í Nauthólsvík í sjóinn. Hafði ekki farið síðan 5. janúar sl. Sjórinn var 6°C, ég notaði strandskóna og sleppti hönskunum. Það var í lagi fótanna vegna en mér varð smá kalt á fingrunum. Kannski bara ágætt því fyrir vikið var ég ekki of lengi. Fór tvisvar sinnum 2 mínútur með 15 mínútna stoppi í heita pottinum í millitíðinni þar sem ég hitti systur sem voru í sjósundshópnum mínum. Endaði svo á fimm mínútna gufu baði áður en ég fór upp úr og heim. 

24.4.24

Soðin ýsa

Rumskaði um fimm í gærmorgun, alveg í spreng. Fór á salernið og skreið svo aftur upp í rúm. Gat ekki sofnað aftur þannig að ég var komin á stjá um hálfsex. Eftir að hafa fengið mér sítrónuvatn og tannburstað mig settist ég um stund með prjónana til að liðka aðeins upp þá hægri. Eftir tvær umferðir eða um tvöhundruð lykkjur tók ég til við æfingarnar. Notaði léttari lóðið við sumar af þeim og skiptist þá á að halda á þeim, ýmist með vinstri eða hægri. Æfingalotan stóð yfir í tæpt korter. Hugsanlega mun ég kaupa mér annað sett að 1kg og 1,5kg lóðum til að hafa möguleikann á að hafa jafnþungt í báðum höndum. Eftir æfingalotuna setti ég inn færslu dagsins og vafraði aðeins um á netinu þar til kominn var tími til að leggja af stað í vinnuna. Var á vinnustaðnum í akkúrat átta tíma og svo mætt í sundið um fjögur. Þá var kalda potts vinkona mín að fara. Ég synti 400m, fór tvisvar sinnum 4 mínútur í 9°C kalda pottinn, 15, mínútur í gufu, tíu mínútur í sjópottinn og smá "sólbað" í þrjár mínútur. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni. 

23.4.24

Keypti lóð i gær

Var komin á fætur um sex í gærmorgun. Mætti í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Eftir að hafa fyllt á vatnsbrúsann minn og spjallað smástund við nokkra vinnufélaga á kaffistofunni fór ég niður í kortadeild. Fyrirliðinn var komin aðeins á undan rétt til að taka stöðuna á ákveðnum formum og umslögum. Opnaði hvelfinguna með henni. Þegar hún var búin að safna sínum gögnum snéri ég mér að því að hlaða inn nýjustu skránum og útbúa skiptiblöð. Var byrjuð í innleggjunum nokkru fyrir klukkan níu. Gat ekki enn sent tímaskýrslu síðust viku til samþykktar í tempo og sú sem á að samþykkja kom til mín og sagðist ekki finna mig. Sendi aftur póst á mannauð og mannauðsstjóri framsendi á tæknimann. Það var búið að kippa þessu í liðinn fyrir klukkan ellefu. Annars kláruðust mín verkefni stuttu fyrir klukkan þrjú í gær og ég var komin í sund um hálffjögur. Kalda potts vinkona mín var komin á svæðið en hún var engu að síður að fara í sína fyrstu ferð í kalda pottinn um leið og ég. Veðrið var svo gott að það var margt um manninn og ég sleppti algerlega sundinu. Fór fjórar ferðir í þann kalda, eina í gufu, eina í sjópottinn og sat svo góða stund í sólbaði. Var að fara upp úr um hálffimm leytið. Kom við í Hreysti í Skefunni og keypti mér eitt eins kílóa lóð og annað hálfu kílói þyngra. Kostaði aðeins fjórtánhundruð krónur. Svo lá leiðin í Krónuna þar sem ég verslaði inn fyrir fjórtánþúsund krónur. Lagði í Blönduhlíðinni þegar heim var komið og fékk Odd til þess að koma og hjálpa mér inn með vörur og dót. 

22.4.24

Ný vinnuvika

Fór á fætur um hálfníu í gærmorgun. Þrátt fyrir hið fínasta veður fór ég ekki í neina göngu. Vafraði um á netinu, lagði kapla, prjónaði, las og horfði á sjónvarp. Eftir Fullham-Liverpool leikinn tók ég dótið mitt saman, kvaddi pabba og ók í bæinn á bílnum hans. Við vegamótin í Árnessýslu ákvað ég að stoppa aðeins á planinu og sinka símann minn við bílinn. Ég var svo rétt komin í gegnum Selfoss þegar systir mín hringdi í mig. Við töluðum saman alla leið í bæinn, hættum rétt áður en ég kom að Brimborg. Fékk stæði við hliðina á bílnum mínum. Færði dótið mitt yfir í hann. Læsti pabba bíl og setti svo bíllykilinn hans í umslag og lyklabox sem er við aðalinngang fyrirtækisins. Sendi manni frænku minnar sms um staðsetningu bílsins sem er að fara að fá krók á sig í vikunni svo pabbi geti notað kerruna sína. Kom heim rétt fyrir hálfátta. Báðir bræðurnir voru heima. Oddur kom fram skömmu síðar og við horfðum saman á þrjá þætti úr sarpinum. Afhenti bræðrunum veiðikort ársins. Sumargjöf til þeirra að þessu sinni. Sumardagurinn fyrsti er reyndar ekki fyrr en á fimmtudaginn en ég held að það hafi byrjaði í gær. 

21.4.24

Ford Kuga

Maður einnar frænku minnar hefur unnið hjá Brimborg til margra ára. Pabbi var að panta krók á bílinn sinn og frænka hringdi í mig í fyrrakvöld þegar hún vissi að ég væri á leiðinni austur um helgina og spurði hvort ég gæti gert manni hennar greiða. Þannig að eftir sundið og esperanto hittinginn í gærmorgun hringdi ég í hann og sagðist vera tilbúin að leggja af stað austur vestan úr bæ. Þau hittu mig bæði fyrir utan hjá Brimborg um hálfeitt. Ég lagði mínum bíl í stæði milli póstsbíls og bílsins sem ég var búin að samþykkja að keyra austur til pabba. Færði dótið mitt á milli og fékk tvöfalt knús og örstutt námskeið á bílinn áður en ég kvaddi og ók varlega af stað. Allt gekk vel nema ég var ekki að finna út úr því hvernig setja átti "krús kontrolið" á. Var komin austur rétt upp úr klukkan tvö.

20.4.24

Á leið í sund

Gærdagurinn byrjaði snemma en þó ekki alltof snemma. Var komin á stjá um klukkan hálfsjö. Rúmum klukkutíma síðar var ég mætt í vinnu. Stimplaði mig inn, fyllti á vatnsbrúsann og fór fljótlega niður í kortadeild. Kveikti á vélinni, hlóð inn nýjustu skránum, skráði niður skiptiblöð og vistaði í fartölvunni og beið svo eftir að fyrirliðinn kæmi niður með öll framleiðslublöðin. Fórum í kaffipásu um hálftíu. Þá áttum við aðeins eftir smávegis af "daglegu" framleiðslunni. Fórum niður aftur um tíu og hálftíma seinna vorum við komnar á fullt í endurnýjun. Hættum ekki fyrr en sá skammtur sem við vorum að vinna í kláraðist og þá var klukkan langt gengin í eitt. Gengum frá deildinni og sendum póstinn upp með lyftunni. Fljótlega eftir mat hjálpaði ég til við að hreinsa gullið. Allt var búið um hálfþrjú en þá lenti ég í smá veseni með tímaskráningarkerfið. Var þó komin í sund um þrjú. Hitti kalda potts vinkonu mína í hennar fjórðu ferð í kalda. Hitti einnig finnska vinkonu mína. Var annars eingöngu í potta ferðum og gufu, sleppti sundinu í gær. Kom heim upp úr klukkan fjögur. 

19.4.24

Útskrifuð úr sjúkraþjálfun

Gærdagurinn byrjaði alltof snemma eða um fimm. Greip í bók og las í rúman hálftíma. Var komin á stjá fyrir klukkan sex. Vafraði um á netinu en um sjö leytið ákvað ég að trekkja hendina betur í gang með því að prjóna. Var mætt í Fossvoginn um átta og fékk að fara beint í bjúgdæluna fyrstu tuttugu mínúturnar. Svo lærði ég nokkrar nýjar æfingar. Sjúkraþjálfarinn sagði í lok tímans að nú væri þetta alfarið í mínum höndum. Úthaldið í vinnunni er farið að aukast. Er búin að ákveða að ég geti amk verið 100% en verð að passa að fara ekki mikið fram yfir það. Var annars mætt í vinnu um níu. Byrjaði á því að fara niður í koradeild að hlaða inn nýjustum skrám. Það tók fartölvuna óratíma að opnast þannig að þegar ég var loksins búin að útbúa og vista skiptiblöðin var komin tími til að skreppa í kaffi. Er þó ekki ennþá farin að drekka kaffi aftur. Fyllti bara á vatnsflöskuna og fékk mér heitt vatn í bolla. Verkefnum dagsins lauk frekar snemma og ég var komin í sund upp úr klukkan hálfþrjú. Synti 500 metra. Var komin heim um fjögur leytið. Byrjaði á því að setja í þvottavél og sækja þvott af snúrunum. Fékk mér svo hressingu og horfði á nokkra gamla og nýja þætti af NCIS og FBI með Oddi. N1 sonurinn kom heim úr vinnu um átta leytið. 

18.4.24

Fart á tímanum

Svaf átta tíma í einum dúr í fyrrinótt. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Fór fljótlega niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skrám. Framleiðsla hófst á níunda tímanum. Um hálftíu fórum við upp í kaffi og á fund sem var næstum klukkutíma langur. Kláruðum alla daglega framleiðslu fyrir klukkan tólf og milli klukkan eitt og þrjú endurnýjuðum við uþb fimmtánhundruð kort. Ég hafði semsagt úthald í fullan vinnudag. Var ekki með sunddótið meðferðis svo ég fór beinustu leið heim eitthvað að spá í að gera mér svo ferði í Nauthólsvík síðar um daginn. Þegar til kom fór ég ekkert út aftur. 

17.4.24

Snjókoma í gærkvöldi

Morguninn byrjaði alltof snemma í gærmorgun, eða um fimm leytið. Var því komin á stjá áður en klukkan varð sex. Vafraði aðeins um á netinu en trekkti svo þá hægri betur í gang með smá prjónaskap. Lagði af stað í vinnuna í fyrra fallinu og byrjaði á því að koma við á AO-stöðinni í Öskjuhlíð og fylla tankinn. Vinnan var svipuð og á mánudaginn og flestum verkefnum lokið um tvö leytið. Þá stakk ég af í sund. Þurfti að byrja á því að endurnýja árskortið en það gekk fljótt og vel fyrir sig. Fæ það svo endurgreitt í gegnum íþróttastyrkinn. Synti 400m og fór svo aðeins eina ferð í kalda pottinn en hún stóð yfir í um sjö mínútur. Var tuttugu mínútur í gufunni á eftir, tók þá kalda sturtu áður en ég skrapp í sjópottinn í um tíu mínútur. Þar hitti ég fyrir einn frænda minn sem vinnur sem einkaþjálfari í Laugum. Spurði hann hvar væri best að kaupa sér handlóð. Hann mælti með Hreysti í Skeifunni. Ætlaði mér að athuga málið á leiðinni heim en umferðin var þung og það varð á endanum léleg afsökun til að bíða aðeins með þessi kaup. 

16.4.24

Fallegt veður

Svaf í heila átta tíma í fyrrinótt. Mætti í vinnu tuttugu mínútm fyrir átta. Fyllti á vatnsbrúsann minn og fór svo niður í kortadeild að hlaða inn tölum. Var byrjuð í innleggjum stuttu fyrir klukkan níu. Hægri höndin var alveg að vinna með mér en ég passaði mig á að sitja ekki of lengi við. Um hálftvö var farið að sjá fyrir endann á verkefnum dagsins. Ég stimplaði mig út tæpum hálftíma síðar og fór beint í sund. Hitti kalda potts vinkonu mína og við fórum saman 4 ferðir í kalda áður en ég fór á brautir 7-8 og synti 300 metra. Kom heim um fjögur. Klukkutíma síðar fór ég aftur út. Ætlaði að skreppa í stuttan göngutúr. Kom heim aftur klukkutíma og 4,5km síðar. 

15.4.24

Ný vinnuvika

Var vöknuð um sjö leytið og komin á stjá fljótlega eftir það. Dreif mig í sund um hálftíu leytið. Synti 500m, þar af sennilega um 200m á bakinu. Hitti sjósunds vinkonu mína þegar ég var að klára mínar ferðir og hún að byrja á sínum ferðum. Kalda potts vinkona mín var líka mætt á svæðið og þegar búin með eina ferð í kalda þegar ég fór í mína fyrstu. Eftir þrjár ferðir í kalda fórum við í gufuna og þaðan í sjópottinn þar sem við hittum eina systur hennar. Skellti mér svo eina stutta ferð í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Restin af deginum fór í rólegheit heima við. Horfði á leiki í enska boltanum, nokkra þætti, prjónaði og las; Blóðmáni eftir Joe Nesbö. Var komin í rúmið um hálftíu og sofnuð upp úr klukkan tíu. 

14.4.24

Brjóstaskimun, árshátíð og fleira

"Hentist" út úr húsi um hálfníu í gærmorgun og var fimmtán mínútur að labba upp á Eiríksgötu 5. Allt gekk hratt og vel fyrir sig og var ég komin út aftur um níu. Ákvað að taka lengri leiðina heim sem urðu tæplega 4km. Var því búin að ganga næstum áttaþúsund skref fyrir klukkan tíu í gærmorgun. Tíminn milli ellefu og fimm fór í alls konar; lestur, gláp, prjón og heimils störf. Um fimm klæddi ég mig í lopapeysu, gallavesti og ennisband og keyrði mig sjálf að Dalvegi 30. Þar voru margir vinnufélagar mínir og makar að safnast saman á þriðju hæð í Öskju. Milli hálfsex og sex fóru þrjár rútur með okkur að félagsheimilinu Dreng í Kjós þar sem kúreka/lopapeysu árshátíð var haldin. Ég skemmti mér mjög vel en passaði mig vel á því hvað ég lét ofan í mig. Trúbardor var á staðnum til klukkan átta. Svo voru heimatilbúin skemmtiatriði og á tíunda tímanum kom Erpur rappari með fleiri með sér. Fyrsta rúta til baka fór um ellefu og ég tók mér far með henni sem og margir aðrir. M.a. einn samstarfmaður minn til margra ára. Sá býr einnig í Hlíðunum og þáði hann far með mér. Ég var komin heim rétt upp úr miðnætti. Fór beint í bælið en las samt í rúman hálftíma áður en ég fór að sofa. 

13.4.24

Laugardagur

Mætti í vinnuna tuttugu mínútum fyrir átta. Byrjaði á því að senda kvittunina fyrir símakaupunum til þeirra sem sjá m.a. um að borga styrkina. (Styrkurinn var greiddur samdægurs) Fyllti svo vatnsflösku áður en ég fór niður að hlaða inn nýjustu skránum. Það var nóg af fyrirliggjandi verkefnum í framleiðslunni en sum þeirra voru að bíða eftir formum og umslögum. Það skilaði sér í hús um hálftíu leytið svo við gátum bæði klárað allt daglegt og aðra af endurnýjunum sem hafa verið í bið í smá tíma. Gengum frá deildinni um hálfeitt og fórum í mat. Föstudagar eru styttri dagar, helst reynt að vera farin úr húsi fyrir klukkan hálffjögur. Ég stimplaði mig út um hálftvö og fór beint í sund. Synti 400m og fór tvisvar sinnum 3,5 mínútur í kalda pottinn. Sat 15 mínútur í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum. Á leiðinni upp úr hitti ég systurnar sem eru með mér í sjósundshóp. Það er reyndar búið að búa til nýja grúppu en þær sögðu báðar að ég væri velkomin í þá grúppu. Kom heim rétt fyrir fjögur. 

12.4.24

Nýr sími

Það var sjúkraþjálfun í gærmorgun og ég var mætt á staðinn nokkrum mínútum áður en tíminn minn byrjaði. En þar sem sjúkraþjálfarinn minn var líka komin á staðinn bauðst mér aftur að byrja strax í bjúgdælunni sem ég þáði. Eftir rúmar tíu mínútur í dælunni kenndi hún mér nokkur ný trix, nuddaði lófann, úlnliðinn og framhandlegginn vel og með því náði hún að breyta nokkrum stöðumælingum til hins betra. Hún sagði þó að ég yrði að vinna ennþá betur í að styrkja vöðvana í framhandleggnum og teygja vel á sinunum í leiðinni. Fékk tíma á sama tíma að viku liðinni og þá ætlar hún að meta hvort hún geti útskrifað mig. Næst lá leið mín í Kópavog til að fá aðeins að tala við trúnaðarlækni RB sem er akkúrat með tíma á fimmtudögum milli níu og ellefu. Ég var fyrst inn. Ætlaði að fá hjá honum opið vottorð en hann má ekki gefa út svoleiðis. Sagði að hann gæti sent póst á yfirmann og/eða mannauð varðandi vinnuskyldu. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan tíu. Byrjaði á því að fylla vatnsbrúsann minn. Skömmu síðar fór ég niður í kortadeild að hlaða niður nýjum tölum dagsins og skipta þeim upp. Gærdagurinn var annars fyrsti "rólegi" dagurinn í langan tíma sem gæti að hluta til verið vegna þess að það vantaði heldur ekki svo marga til vinnu. Ég tók engin innlegg en var í vinnu til klukkan hálftvö. Á leiðinni í sundið hringdi ég í æskuvinkonu mína. Hún sagði mér þær fréttir að hún væri búin að taka þá erfiðu ákvörðun að hætta vinnu í vor og fara á fulla örorku. Sorglegt. Annars hitti ég kalda potts vinkonu mína í búningsklefanum og við náðum 4 ferðum í þann kalda áður en ég fór að synda og hún aftur í sína vinnu. Á leiðinni frá Laugardalnum eftir sund hringdi ég í pabba. Við töluðum dágóða stund og ég ók alla leið að Elko við Granda þar sem ég keypti mér nýjan síma sem ég lét setja upp fyrir mig. Kom heim um fimm leytið.

11.4.24

Fimmtudagur

Mallakúturinn hefur svolítið verið að stríða mér undanfarið. Hugsanlega er líkaminn í smá áfalli og svo blandast inn í þetta eitthvað sem ég borða og fer ekki nógu vel í mig. Hvað það er veit ég ekki en gruna að ég þurfi að passa mig betur á hádegismatnum í vinnunni. Glaðvaknaði alltof snemma í gærmorgun og var komin á fætur um hálfsex. Mætti í vinnuna stuttu fyrir klukkan átta og fór næstum beint niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu verkefnunum og skrá inn og vista skiptiblöðin. Ákvað svo að vera á móttökuendanum í framleiðslunni. Það var í fínu lagi til að byrja með en kannski ekki svo skynsamlegt að vera allan tímann þar eftir að við fórum að framleiða alla leið á form og í umslög þrátt fyrir að taka ágætis kaffipásu (vegna fundar/námskeiðs á tímaskráningakerfi), þriggja kortera matarhlé og klára daglega framleiðslu um tvö. Þá var ég satt að segja alveg búin á því. Ég sleppti þess vegna sundinu og fór beinustu leið heim eftir vinnu og slakaði á þar. Um fimm leytið tók ég hálftíma kríu. Fljótlega eftir það greip ég loksins í prjónana áður en ég gerði daglegar skylduæfingar. Sú hægri var frekar bólgin og styrð en það lagaðist aðeins bæði eftir hvíldina, prjónaskapinn og æfingarnar.

10.4.24

Vikan uþb hálfnuð

Rumskaði um eitt leytið í fyrrinótt alveg í spreng. Skrapp auðvitað á salernið. Steinsofnaði svo strax og ég lagðist upp í rúm aftur. Vissi næst af mér fimm mínútum áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Mætti í vinnuna stuttu fyrir átta. Eftir að hafa fyllt á vatnsbrúsann minn fór ég með fartölvu niður í kortadeild, skráði mig inn á vélina, hlóð niður nýjum verkefnum og útbjó skiptiblöð fyrir framleiðslu á form og í umslög. Þetta tók mig ekkert svo langan tíma. Ég hafði amk dágóðan tíma til að fara í innlegg eftir að ég kom upp aftur. Skrapp í kaffipásu upp úr klukkan hálftíu. Vann til klukkan að verða hálftólf. Stimplaði mig úr vinnu um hálfeitt og fór beint að Laugardalslaug. Hringdi aðeins í pabba áður en ég fór í sundið. Synti 400m og fór fjórum sinnum í kalda pottinn sem var 6°C og mjög góður í gær. Eftir sundið kom ég við í Fiskbúð Fúsa og Krónunni í Skeifunni áður en ég fór heim.

9.4.24

Hálfir vinnudagar

Er að vinna í því að mæta ekki of snemma í vinnuna en vera samt þokkalega á undan aðal umferðarþunganum. Í gærmorgun var ég vöknuð alltof snemma og komin á fætur fyrir klukkan sex. Mætti í vinnuna korter fyrir átta. Fram að kaffi vann ég í innleggjum og gekk það bara vel. Eftir kaffi gerði ég misheppnaðar tilraunir til að komast inn í excelskjöl í fartölvunni sem núna er notuð í kortadeildinni. Stalst líka til að nota smá tíma til að taka saman útskuldað, innkomur og stöðu á hússjóð fyrir D21. Fór í mat um hálftólf. Eftir mat gerði ég loka atlögu að fartölvumálunum með tæknimann á spjallinu og viti menn, það virtist vera nóg að hafa hann á "línunni" því loksins komst ég inn. Fór úr vinnu um hálfeitt og beinustu leið í sund. Synti 400m og var í minni þriðju ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Fór eina auka ferð með henni áður en ég fór upp úr. Kom við í versluninni Útilíf í Kringlunni og keypti mér nýja sundhettu. Var komin heim um þrjú. 

8.4.24

Sjötugasta færsla þessa árs

Svaf næstum því til klukkan að verða sjö í gærmorgun. Var komin í sund um tíu og fór beinustu leið í þann kalda sem var um 7°C. Hitti strax á kaldapotts vinkonu mína og svo var sjósunds vinkona mín á svæðinu. Fór fjórar ferðir í kalda áður en ég, gufu og þrjá potta áður en ég synti 300m. Var komin heim um hálftólf. Fljótlega upp úr hádegi skrapp ég í hálftíma göngutúr. Var komin heim áður en Liverpool leikurinn byrjaði. Strax á eftir þeim leik skipti ég yfir á RÚV og horfði á íslensku stelpurnar tryggja sér sæti á næsta EM í handbolta með því að sigra færeysku stelpurnar.

7.4.24

Færsla no 3901

Aftur var ég vöknuð alltof snemma, núna rétt upp úr klukkan fimm. Var því komin á fætur upp úr klukkan hálfsex. Mætti samt ekki í sundið fyrr en klukkan að verða hálfníu. Kaldi potturinn var tómur og lokaður. Ég synti 400m og fór beint í gufu í uþb 15 mínútur. Þar gerði ég nokkrar æfingar. Fór í kalda sturtu eftir gufuna og svo í sjópotinn í tíu mínútur, nuddpottinn í 5 mínútur og settist svo á stól í 3 mínútur áður en ég fór upp úr og heim. Stoppaði heima í tæpan klukkutíma áður en ég dreif mig vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Þar héldum við áfram að fara yfir ýmis esperantogögn og taka til í þeim. Kláruðum þá yfirferð og það fór slatti í poka til að kíkja á og lesa síðar en eitthvað var þó dæmt til förgunar. Skrapp svo með bílinn á bílaþvottastöð áður en ég fór heim. 

6.4.24

Besta deildin að byrja

Gærdagurinn byrjaði nokkuð snemma eða eitthvað upp úr klukkan hálfsex. Var mætt í vinnuna tveimur tímum síðar og byrjuð að vinna innlegg fyrir klukkan átta. Fann það fljótlega að ég þyrfti aðeins að passa mig. Fór í pásu um hálftíu. Kláraði skammt eitt stuttu eftir pásuna og skammt tvö um ellefu leytið. Fór í mat um hálftólf og var þá búin að ákveða að kalla þetta gott þennan daginn. Stakk af, með samþykki, áður en komið var að eldhúsverkunum. Fór beint í sund. Synti 400m, þar af helminginn á bakinu. Fór þrisvar sinnum þrjár mínútur í kalda sem var kaldari og betri heldur en á miðvikudaginn var. Hitti kalda potts vinkonu mína stuttu áður en ég fór í þriðja og síðasta skiptið þannig að við náðum einni ferð saman. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Var komin heim upp úr klukkan hálfþrjú. Lánaði bræðrunum bílinn svo Oddur gæti skutlast með Davíð Stein að sækja bílinn hans sem átti að fá nýja framrúðu í gær. Ekki var þó skipt um rúðu í gær þar sem ekki var til sú rétta heldur þarf hann að koma aftur með bílinn eftir þrjár vikur. Ég gerði svo lítið annað en að hvíla hægri hendina. Þó greip ég aðeins í prjónana og setti í og hengdi upp úr einni þvottavél. 

5.4.24

Föstudagur

Mætti á 7C í Fossvoginum rétt rúmlega átta. Þrátt fyrir að klukkan væri ekki orðin tíu mínútum yfir bauð Ásta sjúkraþjálfi mér að fara strax í bjúgdæluna sem ég þáði. Á eftir nuddaði hún mig og mældi. Sumar mælingar komu ágætlega út en ég á samt eitthvað í land. Hún setti einhvers konar "plástur" ofan á úlnliðinn og yfir örið sem ég á að hafa í fimm daga. Þessar græjur eiga að losa eða toga í húðlögin. Eftir tímann bókaði hún mig í næsta tíma á sama tíma eftir viku. Fór beinustu leið í vinnuna. Var mætt þangað korter yfir níu. Byrjaði mjög rólega. Fór eiginlega næstum beint í kaffipásu og byrjaði ekki að vinna innlegg fyrr en um tíu. Tók mér extra langan matartíma, næstum þrjú korter, en um hálfeitt tók ég næstu innleggstörn. Sú törn varði í um tvo tíma því ég fékk "kláruveikina" og hugsaði einnig með mér að ég hefði mætt einum og hálfum tíma seinna heldur en dagana á undan. Eftir vinnu fór ég beint heim og var komin þangað um þrjú. Um hálfsjö sótti fyrrum samstarfskona mín mig og saman fórum við upp í Árbæ til fyrrum fyrirliða þar sem við hittum tvær aðrar fyrrum samstarfskonum. Þetta var hópurinn "Fimm dimmalimm". Ekki hafði náðst í Ingu sem var yfir kortadeild í mörg ár en hún er líklega ekki á landinu því hún var búin að gefa það út að hún vildi vera í sambandi við okkur enda mætti hún í hittinginn í fyrra.

4.4.24

Sjúkraþjálfun eftir klukkustund

Vaknaði heldur snemma í gærmorgun. Fór á fætur upp úr klukkan sex og notaði hluta af tímanum hér heima til að "snúa" hægri hendinni í gang. Mætti í vinnu korter fyrir átta og var byrjuð að vinna innlegg áður en klukkan sló átta. Fattaði í miðju kafi að ég væri að flækja málin of mikið. Í sumum pokunum var nokkura daga innlegg en þótt það væri aðgreint á fylgiskjölum voru seðla og klink ekki aðgreint. Þegar innlegg eru ekki aðskilin á að leggja þau saman og vinna út frá heildarsummunni. Fór í pásu stuttu fyrir tíu og svo hádegismat um tólf. Tók saman og hætti vinnu um hálftvö og fór beint í sund. Kaldi potturinn var eiginlega helmingi of heitur eða 12°C. Sat í honum í næstum tíu mínútur áður en ég synti 200m. Þá var kalda potts vinkonan mætt á svæðið. Við náðum þremur ferðum í volga pottinn, einni í gufuna og einni í sjópottinn áður en ég kvaddi. Skrapp í Krónuna í Skeifunni á leiðinni heim. Oddur fékk lánaðan bílinn í sorpuferð og ég skrapp í tuttugu mínútna göngu túr um sex leytið. 

3.4.24

Aftur í vinnu

Var vöknuð um sex í gærmorgun. Einum og hálfum tíma síðar lagði ég af stað í vinnuna í fyrsta skipti í tólf vikur. Þetta var þá fjórði vinnudagurinn á árin. Það tók mig klukkutíma að komast í gang. Aðal málið var að fá aðgang aftur og opna viðkomandi vinnuglugga. Var byrjuð að vinna innlegg um níu. Fór í tuttugu mínútna pásu um tíu, hálftíma mat um hálftólf. Hætti vinnu um hálftvö og fór beint í sund. Synti 200metra. Kaldi potturinn var í heitara lagi, um 11°C en ég fór tvivar sinnum í hann, sat korter í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum áður en ég fór upp úr og heim.

2.4.24

Morgunstund

Ætlaði að sofa þar til stofugestirnir létu á sér kræla í gærmorgun. Það var hins vegar blaðran sem ýtti við mér um sjö svo ég var fyrst á fætur. Fljótlega komu þó mágur minn og ferfætlingarnir fram og hann skrapp með þá út. Ég hellti upp á kaffi, einn bolla af te og sauð hafragraut. Systir mín fékk sér af grautnum og kaffinu. Mágur minn þáði ekkert nema kaffið. Það var til sviðasulta en hann er búinn að borða svo mikið af henni sl ár að hann er kominn með upp í kok í bili amk. Klukkan var farin að ganga níu þegar gestirnir kvöddu og héldu af stað norður. Þau voru rúma tólf tíma á leiðinni heim til sín. Þurftu að fara Tröllaskagann, keyra í gegnum sjö göng og hlaða bílinn amk sjö sinnum. En heim komust þau.

Ég skrapp í sund milli hálftólf og eitt og hitti á kalda potts vinkonu mína. Var því bara að pottormast og gera æfingar í heitum pottum og gufu. Skrópaði í sundinu sjálfu. Seinni part dags skrapp ég svo í rúmlega hálftíma göngutúr.

1.4.24

Komin heim

Fór á fætur um átta í gærmorgun. Settist við tölvuna hans pabba í rúman hálftíma en færði mig svo inn í eldhús til að leggja nokkra kapla og þjálfa flettifærnina. Um tíu leytið færði ég mig svo inn í stofu og prjónaði tvær umferðir eða uþb sexhundruð lykkjur og fylgdist svo með fyrri partinum að "Njálu á hundavaði" með Hundi í óskilum á RÚV. Skipti yfir á Liverpool leikinn um eitt. Eftir leikinn tók ég mig saman og kvaddi pabba. Var komin heim um hálffimm. Systir mín dormaði á bedda í stofunni. Strákarnir voru hjá pabba sínum og fjölskyldu hans. Mágur minn kom fljótlega en hann hafði skroppið með hundana á svæði við Hádegismóa til að hreyfa þá. Helga hjálpaði mér við að skræla og skera niður sæta kartöflu sem ég setti í sigtipott ásamt brokkolí og gufusauð. Útbjó sallat úr spínati, lárperu, granatepli og svörtum steinlausum ólífum. Svo átti ég tvö bleikjuflök sem ég kryddaði með sítrónupipar, best á flest og laukdufti og snöggsteikti á pönnu og lét liggja smá stund í smá rjóma. Þetta var mjög góður matur. Horfðum á RÚV þar til íslenska myndin var búin en ég var farin inn í rúm um hálfellefu. 

31.3.24

Páskadagur

Ég er enn á Hellu. Systir mín, mágur og hundarnir kvöddu um tíu leytið í gærmorgun. Þau ætluðu að gera ferð í Kringluna og svo var hittingur með vinafólki í bænum í gærkvöldi. Ég tók því mjög rólega í gær fyrir utan smá prjónaskap og nokkrar æfingalotur. Lagði kapla nokkrum sinnum yfir daginn, það er ágætis æfing. Eins og með prjónaskapinn er ekki gott að gera of mikið í einu. Pabbi skrapp í búðina eftir rófu og útbjó handa okkur siginn fisk sem við vorum að borða um tvö leytið. Nennti ekki út fyrir dyr svo það var enginn göngutúr í gær og skrefafjöldi gærdagsins náði ekki þúsund.

30.3.24

Matarboð hjá frændfólki

Fór á fætur um hálfátta í gærmorgun. Mágur minn var kominn á fætur og lokaður af í stofunni með hundunum. Seinna um morguninn skrapp hann með þá í heimsókn til frænku sinnar á Stóruvöllum (þau eru bræðrabörn). Helga systir fór ekki með því hún hafði einsett sér að gera herbergi Bríetar fært fyrir ryksugu og skúringar. Ég skrapp í rúmlega hálftíma göngu um hálfellefu. Ingvi kom til baka um hálftvö. Næstum þremur tímum seinna sameinuðumst við öll í bílinn hann pabba sem keyrði okkur í Löngumýrina til Jónu og Reynis. Helga fór strax að aðstoða við matargerðina. Við pabbi settumst í stofusófann og létum fara vel um okkur. Hundarnir voru ekkert sérlega spenntir fyrir þessari heimsókn og var Vargur frekar vælinn. Það var þó góður plús að hægt var að hleypa þeim út á aflokaðan pall inn á milli. Matur var á borð borinn um átta og ég leyfði mér að smakka á lambalærinu og það tvisvar sinnum. Afþakkaði hvítvín og kaffi en smakkaði á girnilegum eftirréttinum þó þannig að ég tæki sem minnst af súkkulaðinu sem var í botninum en vel af þeytta rjómanum, bláberjunum og jarðaberjunum. Kvöddum gestgjafana upp úr klukkan níu og pabbi keyrði okkur til baka. Ég fékk mér tvö hylki af meltingarensímum og slapp alveg við að fá í magann. 

29.3.24

Á Hellu

Var vöknuð stuttu fyrir sjö í gærmorgun og komin á fætur skömmu síðar. Mágur minn skrapp með út með hundana en aðeins annar þeirra pissaði. Um tíu skruppum við í gönguferð og fórum hálfan Öskjuhlíðarhring. Ugla pissaði loksins í þeirri ferð. Vargur pissaði nokkrum sinnum, m.a. yfir pissið hennar Uglu. Hann fór svo í veiðiham þegar hann varð var við kanínur. Eftir göngutúrinn sótti ég esperantodótið og bíllykilinn inn, kvaddi mág minn og hundana og dreif mig vestur í bæ. Stoppaði hjá esperanto vinkonu minni í um tvo tíma. Stoppaði heima í rúman klukkutíma áður en ég lagði af stað austur. Oddur hjálpaði mér að ferma bílinn. Ég var búin að gera boð á undan mér og stoppaði í Fossheiðinni í klukkustund. Gott að hvíla hendina. Þetta var fyrsta heimsóknin þangað á árinu og ég var leyst út með poka af bókum. Þ.e. fékk að velja mér úr kiljusafni sem Ásdís var að láta frá sér. Tók ekki allan bunkan en 16 bækur samt. Var komin á Hellu um fimm. Systir mín, mágur og hundarnir voru í Landeyjunum en komu fljótlega. Þau ætla að gista hér í tvær nætur. Ég verð kannski þrjár eða fjórar. 

28.3.24

Margt í gangi

Varð vör við það þegar mágur minn fór með hundana út að pissa og sækja bílinn úr hleðslu um sex leytið í gærmorgun. Ég fór þó ekki á fætur fyrr en á áttunda tímanum. Mágur minn hafði lagt sig aftur en kom fram þegar hann varð var við umgang. Ég átti keaskyr með kaffi og vanillu handa honum í ísskápnum og svo hellti ég upp á kaffi hér heima í fyrsta sinn í rúma fimm mánuði ef ekki hálft ár. Kaffið var eingöngu ætlað mági mínum. Oddur kom fram upp úr klukkan átta. Fljótlega eftir það kvaddi Ingvi en skyldi ferfætlingana eftir í pössun hjá okkur. Vargur var ekki sáttur við að vera skilinn eftir en róaðist þó eftir ákveðinn tíma. Um níu leytið vöktum við Davíð Stein til að taka við hundapössuninni á meðan Oddur skutlaðist með mig í sjúkraþjálfun. Ég var mætt upp á 7C tíu mínútum fyrir tímann en sjúkraþjálfinn setti með beinustu leið í bjúgdæluna. Var í henni í hátt í tuttugu mínútur og svo tæpar fimm mínútur í öðru tæki áður en ég settist niður með sjúkraþjálfanum. Mælingarnar komu þokkalega vel út. Hún vill samt sjá mig aftur í næstu viku. Kom heim um hálfellefu. Davíð Steinn hafði lagt sig í stofusófanum en dreif sig í sturtu og skrapp svo aðeins með Oddi í pissuferð með hundana. Svo var bíleigandinn rokinn í burtu til að hjálpa frænku sinni með skólaverkefni. Ég skildi Odd eftir einan með hundana um hálfeitt leytið og dreif mig í sund. Synti 400m þar af 200m á bakinu. Hitti á kalda potts vinkonu mína í fyrstu tveimur ferðunum af fjórum en þá var hún búin með sína rútínu. Kom við í Fiskbúð Fúsa eftir sundið. Klukkutíma eftir að ég kom heim aftur ákvað ég að drífa mig í smá göngutúr. Þá var mágur minn akkúrat að koma til baka. Hann ákvað að drífa sig með mér og hreyfa hundana í leiðinni. Göngutúrinn vatt aðeins upp á sig og taldi amk um 5000 skref. Komum til baka rétt fyrir sex og stuttu síðar bauð ég mági mínum upp á soðna ýsu og spínat. 

27.3.24

Eitt og og annað

Var komin á fætur stuttu áður en N1 sonurinn fór af stað í sína vinnu. Um hálftíu var ég komin í Laugardalslaug. Synti 400 metra á tuttugu mínútum. Kalda potts vinkona mín kom rétt áður en ég var búin að synda og við hittumst í kalda pottinum í okkar fyrstu ferð. Alls fórum við fimm sinnum þrjár mínútur í kalda pottinn. Kom heim um tólf leytið. Um hálftvö skrapp ég í 3,5km göngu sem tók mig þrjú korter. Stoppaði heima í um klukkustund eftir gönguna áður en ég skrapp í heimsókn í blokkaríbúð í Eskihlíðinni. Þar býr yngsta mágkona mömmu heitinnar. Þá góðu konu hitti ég reglulega í sundi en þetta var fyrsta heimsóknin til hennar síðan hún flutti í Eskihlíðina stuttu fyrir Covid-tíma. Þegar ég kom heim aftur horfði ég á nokkra þætti og svo landsleikinn. Mágur minn og ferfætlingarnir Vargur og Ugla komu á ellefta tímanum og hreiðruðu um sig í stofunni eftir að Ingvi var búinn að taka dótið inn úr bílnum, fá Odd með sér (og hundunum) til að setja bílinn í hleðslu, labba til baka með hundana og gefa þeim að borða.

26.3.24

Heimsókn í S15

N1 sonurinn var nýlega farinn í vinnuna þegar ég fór á fætur í gærmorgun upp úr klukkan sjö. Um níu leytið tók ég sunddótið með mér út í bíl en leiðin lá fyrst í smá innlit á vinnustaðinn minn. Þar beið mín stærðarinnar páskaegg frá starfsmannafélaginu. Í kaffistofunni var boðið m.a. upp á vínber, osta, ávexti og melónu. Stoppaði aðeins fram yfir kaffitímann og spjallaði við vinnufélagana áður en ég dreif mig yfir í Laugardalslaugina. Þar var ég búin að synda 200m þegar ég hitti einn frænda minn og konu hans. Spjallaði smá stund við þau áður en ég synti 300m í viðbót. Síðustu 50m synti ég skriðsund. Hitti svo kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum, báðar í okkar fyrstu ferð. Fórum fjórar ferðir saman í kalda. Kom heim upp úr klukkan tólf. Tveimur tímum seinna skruppum við Oddur í Krónuna við Fiskislóð. 

25.3.24

Dymbilvika

Fór á fætur um sjö leytið. Upp úr klukkan hálftíu var ég mætt í sundið á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Við fórum fjórum sinnum saman í þann kalda, einu sinni í gufu og einu sinni í sjópottinn þar sem við hittum eina systur hennar og yngstu mágkonu mömmu. Þær ferðir sem vinkonan fór í heitasta pottinn fór ég í nuddpottin og þann næst heitasta. Svo tók ég auka ferð í gufuna. Var komin heim um hálftólf leytið og fór ekkert aftur út. 

24.3.24

Pálmasunnudagur

Vaknaði um hálftvö leytið í fyrrinótt og varð andavaka eitthvað fram eftir nóttu. Veit ekki hvenær ég sofnaði loksins en klukkan var nýorðin átta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Var komin í sund upp úr klukkan hálfníu. Rútínan tók tæpan einn og hálfan tíma. Kom heim um tíu leytið og var svo mætt til esperanto vinkonu minnar um ellefu. Okkar rútína tók líka um einn og hálfan tíma. Um miðjan dag skrapp ég í tæplega 4km göngum um Öskjuhlíð. Bræðurnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom heim úr þeirri 50 mínútna göngu. 

23.3.24

Upptalningar

Ætlaði mér að vera í fyrra fallinu í sundið í gærmorgun en ég var ekki farin af stað um tíu þegar önnur úr kortadeildinni hringdi í mig. Hún var aðallega að láta mig vita að ég ætti páskaegg frá starfmannafélaginu. Spjölluðum í amk korter og svo leið góð stund áður en ég dreif mig loksins af stað í sundið. Tók með mér sjampó og höfuðhandklæði. Synti 500 metra, þar af helminginn á bakinu. Fór 2x3 mínútur í kalda, gerði æfingar í nuddpottinum, gufunni og sjópottinum. Kom heim um hálftvö leytið. Seinni partinn skrapp ég svo í hálftíma göngu.

22.3.24

Föstudagur

Það verður að viðurkennast að ég verð stundum dagavillt þessi misserin. Og þegar ég sá að það var kaffi í boði í afgreiðslurýminu í Laugardalslaug í gærmorgun velti ég því fyrir mér hvort það væri kominn föstudagur. Ég hugsaði líka um hvort ég ætti að falla í freistni því kaffimálin voru svo pen. En ég hvarf þó fljótt frá þeirri hugmynd. Er alls ekki búin að ákveða að ég sé alveg hætt að drekka kaffi (og hvítvín). Ákvörðunin er frekar sú að ég er í pásu og hvenær sú pása verður yfirstaðin hef ég ekki alveg ákveðið. Annars synti ég 500m í gær og gerði æfingar í 42°C pottinum, gufunni og sjópottinum. Var í sundi milli tíu og hálftólf. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni. Um hálftvö skrapp ég í rúmlega 2km göngutúr. Það var hressandi, smá rigning og ekkert svo mikil ferð á logninu.

21.3.24

Sund, bókasafn og göngutúr

Heyrði í N1 syninum fara út úr húsi um sjö. Ég fór á fætur skömmu síðar. Klukkan var farin að ganga ellefu þegar ég dreif mig loksins í sund. Svipuð rútína og daginn áður nema ég byrjaði á að skella mér í kalda og fór ekki á braut fyrr en eftir 2x3mínútur í kalda og nokkrar mínútur í  nuddpottinum. Eftir 500m skellti ég mér þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu í tíu mínútur, kalda sturtu og sjópottinn í aðrar tíu mínútur og tók svo eina dýfu í kalda pottinum áður en ég fór upp úr. Kom við í bókasafninu og skilaði skammtímalánsbókunum. Tók þrjár bækur með mér heim þrátt fyrir að vera með þrjár heima. Ein af þeim sem kom með mér heim var ljóðabók sem fékk nýlega Tómasar Guðmundssonar verðlaunin; Örverpi eftir Birnu Stefánsdóttur. Las hana strax í gær. Um fimm leytið skrapp ég í stuttan göngutúr.

20.3.24

Áfram gakk

Ég var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Tveimur tímum síðar skutlaðist Oddur með mig upp í Fossvog þar sem ég átti þriðja tímann hjá sjúkraþjálfa klukkan hálftíu. Lærði fleiri æfingatrix, mælingar voru betri en í síðustu viku en sjúkraþjálfinn mælti ekki með að ég færi að vinna fyrr en eftir páska. Finn það svo sem alveg sjálf að ég er ekki alveg tilbúinn þótt allt stefni í rétta átt. Fékk nýjan tíma á miðvikudaginn í næstu viku. Á leiðinni heim komum við við í Öskjuhlíðinni til að jafna loftþrýstinginn á dekkjunum. Um hálfeitt leytið dreif ég mig svo í sund. Synti 500m, fór 2x3 mínútur í kalda, eina ferð í nuddpott, gufu og sjópott. Í vatninu og gufunni ganga æfingarnar mun betur, bjúgurinn hverfur og stirðleikinn minnkar. Finn og veit að ég er að styrkjast en þarf enn um sinn að finna þessa línu milli þess að komast að þolmörkum og aðeins lengra en fara ekki yfir strikið. Það verður sjálfsagt svoleiðis næstu vikurnar. Best að halda áfram dag í senn, ekki að hugsa um það sem liðið er og vera bara í núinu.

19.3.24

Snjór

Fór í sund um tíu í gærmorgun. Hitti einn frænda minn og konu hans þegar ég var á leiðinni í kalda pottinn eftir 400m sund. Spjallaði aðeins við þau. Hitti svo frænda minn aftur í sjópottinum þegar ég var búin að fara tvær ferðir í kalda, eina í nudd pottinn og eina í gufuna. Var komin heim um tólf. Einhverra hluta vegna varð svo ekkert af göngutúr í gær en ég prjónaði smávegis. 

18.3.24

Enn lífsmark í nýjasta gosinu

Vaknaði frekar snemma í gærmorgun. Var komin á fætur um hálfátta. Rétt fyrir tíu var ég komin í sund, alveg á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Þegar við vorum í okkar þriðju ferð í kalda mætti ein systir hennar og miðjunafna mín á svæðið. Hittum hana í sjópottinum þegar við vorum búnar að fara í gufu. Þær tvær og ein til sungu afmælissönginn fyrir mig. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fórum við í steina pottinn í smá stund. Svo kvaddi systirin en við Hrafnhildur fórum fimmtu ferðina í þann kalda og aðra ferð í gufuna. Hún kvaddi svo aðeins á undan mér. Ég var komin heim um tólf. Hringdi í pabba um hálftvö. Helga systir hringdi í mig um þrjú leytið og skömmu síðar skrapp ég í smá göngutúr. Um sex leytið eldaði ég mér einfaldan bleikjurétt. Annars vorum við Oddur að horfa á alls konar þætti. Davíð Steinn kom heim úr vinnu rétt fyrir átta. Hann á frívakt í dag og á morgun og næstu helgi.

17.3.24

Afmælisdagurinn sjálfur

Það eru 20.454 dagar síðan ég fæddist eða 56 ár. En aðeins um gærdaginn. Var komin snemma á fætur eða upp úr klukkan sex. Vafraði um á netinu, prjónaði smá og hitti á N1 soninn áður en hann fór í vinnuna. Var mætt í sund um hálfníu leytið. Synti 400m, fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í nuddpottinn, einu sinni í sjópottinn og endaði í gufunni. Var komin heim aftur um tíu. Klukkutíma síðar skrapp ég til esperanto vinkonu minnar. Stoppaði hjá henni til klukkan að verða tvö því fljótlega eftir að við vorum búnar að lesa tilbúna tungumálið kom dóttir hennar í heimsókn með dætur sínar tvær. Ég var að hitta yngri stelpuna í fyrsta sinn. Hún var frekar hissa að sjá mig en ég fékk samt bros áður en ég fór. Hinar þrjár mæðgurnar sungu fyrir mig afmælissönginn degi fyrirfram, sú yngsta af þeim varð 4 ára í endaðan október. Og svo fór að gjósa enn og aftur á Sundhnjúkagýga svæðinu í gærkvöldi. 

16.3.24

Afmælishelgi

Var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu og glas af sítrónuvatni settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. N1 sonurinn kom fram um sjö og dreif sig skömmu síðar í vinnuna. Eftir netvafrið og smá blogg slökkti ég á tölvunni og færði mig yfir í stólinn. Tók fram prjónana og prjónaði sennilega í uþb 500 lykkjur. Þá var loksins komið að fyrstu æfingalotu dagsins. Það er reyndar alveg ágætis æfing að prjóna. Klukkan var að verða ellefu þegar ég dreif mig loksins í sund. Synti 500 metra, þar af um 150m á bakinu. Fór aðeins tvisvar í kalda pottinn, tvisvar í sjópottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í 42°C pottinn. Gerði æfingar í gufunni og heitu pottunum. Þvoði mér um hárið eftir sundið og kom svo við með bílinn á smurstöð á leiðinni heim. Hann var síðast smurður í janúarlok í fyrra. Fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim. Var að horfa á alls konar þætti með Oddi en tók fram prjónana öðru hvoru. 

15.3.24

Morgunhæna/fiskur

Rumskaði um fimm leytið í gærmorgun en tókst að sofna aftur eftir að hafa tappað af blöðrunni. Var komin á fætur upp úr klukkan átta. Byrjaði á því að vafra um á netinu. Tók svo fram prjónana í stutta stund áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Um ellefu var ég mætt í sund. Synti 400m fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í nudd pottinn, einu sinni í gufu og endaði í smá stund í sjópottinum. Gerði æfingar bæði í nudd pottinum og í gufunni. Þegar höndin er búin að mýkjast upp get ég komið þumlinum aðeins lengra en að rótum löngutangar svo þetta er allt í rétta átt. Bjúgur og bólgur eru smá vandamál, bæði fyrst á morgnana og eins þegar fer að líða á daginn. Það kemur reyndar alltaf far eftir úlnliðshlífina sem ég nota aðeins þegar ég er á ferðinni utandyra (nema að sjálfsögðu í sundinu). Kom heim um hálfeitt og skömmu síðar kom Oddur fram. Rúmum klukkutíma síðar fórum við mæðgin vestur í bæ, á Fiskislóð. Keyptum þvott á bílinn áður en við fórum í Krónuna að versla. Oddur sá um að setja í pokana og bera þá fyrir mig. Ég gekk svo sjálf frá vörunum þegar heim var komið.

14.3.24

Sund og göngutúr

Í fyrrinótt svaf ég í einum dúr í rúma átta tíma, eiginlega tæpa níu. Var sofnuð fyrir ellefu á þriðjudagskvöldið og vissi næst af mér klukkan hálfátta í gærmorgun. Sú hægri er alltaf stirð og bólgin fyrst á morgnana. Byrjaði á netvafri og tölvustund fyrstu þrjú korterin eftir að ég var komin á fætur. Prjónaði svo tvær umferðir, meira en hundrað lykkjur, áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Var eitthvað að gæla við það að skreppa aðeins í sjóinn og bjó mér því til hafragraut um hálfellefu. Skipti svo um skoðun og var komin í Laugardalinn um eitt. Synti 400m á tuttugu mínútum og var í minni annarri ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti óvænt á svæðið. Saman fórum við þrjár ferðir í kalda, sátum góða stund á stólum og sóluðum okkur og fórum auk þess eina ferð í sjópottinn. Ég fór ekki með henni í heitasta pottinn en fór í staðinn í nuddpottinn, 42°C pottinn og gufuna. Gerði æfingar bæði í heita pottinum og í gufunni. Klukkan var byrjuð að ganga fjögur þegar ég fór upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Heilsuhúsinu í Kringlunni á leiðinni heim. Um sex leytið skrapp ég svo í smá göngutúr og var langt komin með hringinn sem ég fór þegar ég hitti á hjón sem ég þekki skammt frá húsi blindra félagsins. Þau voru að koma af fundi þaðan. Spjölluðum í amk tíu mínútur og sjálfvirka kerfið í símanum tók saman gönguferðina þar en skráði ekki þann stutta spöl sem eftir var heim. En skrefin skráðust engu að síður og þau fóru yfir 5000 eftir gærdaginn. 

13.3.24

Sjúkraþjálfun og sund

Aftur var ég vöknuð einum of snemma og komin á fætur fyrir klukkan hálfsjö. Hitti því aðeins á N1 soninn áður en hann fór í sína vinnu. Oddur kom fram um hálfníu. Hann skutlaði mér upp í Fossvog og fór svo að sinna erindum á meðan ég hitti sjúkraþjálfan um hálftíu. Þurfti ekkert að borga þar sem ég er komin á núllið þennan mánuðinn. Sumar mælingar stóðu í stað og það þótt ég væri búin að vera að gera mínar æfingar í viku. Ég var svolítið bólgin og var sett aftur í bjúgdæluna. Lærði nýjar æfingar, mælingarnar voru betri í lok tímans og ég fékk nýjan tíma í næstu viku. Fór beinustu leið heim eftir tímann og hvíldi mig í hátt í tvo tíma. Um hálftvö leytið lagði ég af stað í sund. Þarf enn að nota vinstri til að setja bílinn í gang. Í sundi synti ég 400m, fór 3x 2-3 mínútur í kalda, 2x í sjópottinn, einu sinni í nuddpottinn og einu sinni í gufuna. Rútínan tók yfir klukkustund og ég var komin heim aftur fyrir klukkan fjögur. Er annars byrjuð að lesa hina skammtímaláns bókina; Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson.

12.3.24

Sundferð og tveir göngutúrar

Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um hálfsjö leytið. Var búin að gera eina umferð af æfingum þegar ég fór í sund á ellefta tímanum. Synti 300m fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í nudd pottinn, einu sinni í sjópottinn og gerði aðra lotu af æfingum í gufunni. Kom heim um tólf. Kláraði bókina sem ég skrifaði um í gær og fór í stutta göngu um hálftvö, rétt um kílómetra. Um fimm leytið fór ég í aðeins lengri göngu sem var þó ekki nema 2,2km.

11.3.24

Prófaði bílinn alein og sjálf

Um eitt leytið á föstudaginn var skrapp ég á bílnum í heimsókn til esperanto vinkonu minnar. Þurfti að nota vinstri til að gangsetja bílinn en að öðru leyti gekk allt vel. Við vinkonurnar fengum okkur te og eftir smá spjall ákváðum við að fara í stuttan göngutúr áður en við kíktum í esperanto bækurnar. Heimsóknin varði því í rúma tvo tíma. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni.

Á laugardaginn hafði ég hugsað mér að skreppa aftur í sund en ekkert varð af því. Í staðinn fór ég í fjörutíu mínútna göngutúr fyrir hádegi en var svo að lesa, horfa á bikarúrslitaleiki og þætti eftir hádegi og fram á kvöld. Í gærmorgun var ég búin að mæla mér mót við kaldapotts vinkonu mína um tíu. Var eitthvað að spá í að mæta aðeins fyrr og synda smá en hvarf svo frá þeirri hugmynd. Aftur þurfti ég að gangsetja bílinn með vinstri. Var mætt í í Laugardalinn rétt fyrir tíu. Hitti sjósunds vinkonu mína í sturtunum á leiðinni út. Hún fór beint að synda en ég í þann kalda. Kalda potts vinkona mín var búin með tvær ferðir. Saman náðum við tveimur ferðum en ég fór ekki með henni í heitasta pottinn. Eftir aðra ferðina mína í kalda pottinn fór ég í sjópottinn þar sem ég hitti yngstu mágkonu mömmu. Synti ekkert í gær en eftir þriðju ferðina í kalda fór ég í gufu áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið.

Tvær af fimm bókum af safninu eru með fjórtán daga skilafresti. Önnur af þeim er Þögli fuglinn eftir Mohlin & Nyström. Nokkuð yfir 500 blaðsíður. Er langt komin með lesturinn á henni enda mjög spennandi og aldrei þessu vant er ég aðeins að lesa eina bók í einu. 

8.3.24

Aftur í sund í gær

Var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Á níunda tímanum var hringt í mig frá 7C og mér tilkynnt að sjúkraþjálfunartíminn félli niður vegna veikinda. Ég er skráð í tíma nk þriðjudag og þá reikna ég með að fara í amk einn tíma í viðbót. Upp úr klukkan hálfníu bankaði ég á herbergisdyrnar hjá Oddi og sagði honum að skutlið á LHS félli niður. Hann kom svo fram upp úr hádeginu. Um hálffjögur leytið skutlaðist hann með mér á bókasafnið. Skilaði öllum sjö bókunum og þurfti svo að endurnýja skírteinið áður en ég tók mér fimm bækur í staðinn. Næst lá leiðin í Laugardalinn þar sem sonurinn skildi mig eftir um hálffimm. Var búin að synda 300m (mjög rólega), fara tvisvar sinnum í kalda, einu sinni í 42°C og var í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Saman náðum við einni ferð í kalda og smá stund í gufunni áður en ég kvaddi. Oddur var kominn aftur að sækja mig þegar ég kom út upp úr klukkan hálfsex. 

6.3.24

Kaldi potturinn í Laugardalslaug heimsóttur í dag

Var vöknuð um fimm leytið í morgun enda var ég sofnuð fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Fór á fætur upp úr klukkan sex. N1 sonurinn fór í vinnu um sjö leytið. Hinn sonurinn kom á fætur um átta og hann skutlaði mér upp á LHS í Fossvogi þar sem ég átti tíma í röntgen á G3 fyrir klukkan níu og viðtalstíma hjá lækni korter yfir níu. Myndirnar komu þokkalega vel út. Fékk samt mánaða framlengingu á veikindavottorði en ég má byrja að vinna innan þess tíma ef ég treysti mér til. Oddur beið í bílnum út á plani þessi þrjú korter sem ég var í fyrrgreindum erindum. Hann skutlaði mér á vinnustaðinn minn og skildi mig eftir þar því ég ætlaði að stoppa eitthvað og var þar að auki með sunddótið meðferðis. Um ellefu leytið labbaði ég yfir í Laugardalslaug. Synti 200 metra bringusund, mjög rólega, fór tvisvar sinnum mínútu í 7°C kalda pottinn, einu sinni nokkrar mínútur í gufuna og nokkrar mínútur í sjópottinn. Var komin upp úr og út úr skiptiklefanum rúmlega tólf. Þá hringdi ég í Odd sem sótti mig skömmu síðar.  

5.3.24

Bjúgsuguvél

Einhvern veginn leið gærdagurinn án þess að ég færi út í labbigöngutúr. Var komin í rúmið um tíu leytið og sofnaði fljótlega. Vaknaði þar af leiðandi alltof snemma en tókst að kúra til klukkan að ganga sjö. Fór í sturtu og var búin að vera á fótum í hátt í tvo tíma þegar Oddur Smári kom fram. Um hálfníu leytið skutlaði hann mér á LHS í Fossvogi þar sem ég fór í minn allra fyrsta sjúkraþjálfunartíma á 7C milli 8:50 og 9:25. M.a. setti ég löskuðu, stirðu og bólgnu hendina í svo kallaða bjúgsuguvél. Sjúkraþjálfarinn bókaði mig svo í tvo tíma í biðbót en eftir þriðja tímann, sem verður í næstu viku, verður metið hvort ég þurfi fleiri tíma. Oddur beið eftir mér í gjaldfrjálsustæði. Skruppum á AO við Sprengisand og í Krónuna í Skeifunni áður en við fórum heim. Fyrirmælin frá sjúkraþjálfaranum voru þau að hvíla hendina í tvo tíma. Bjó mér til hafragraut í hádeginu og skrapp svo í hálftíma göngutúr um tvö leytið. 

4.3.24

Mánudagur

Er alveg hætt að nota spelkuna enda var hún farin að meiða mig. Sef alveg róleg þótt úlnliðurinn sé "nakinn" en ég er alltaf stirð og bólgin þegar ég vakna á morgnana. Það var svo sem líka þegar ég var með spelkuna. Annars tókst mér að fitja upp á það sem kannski verður að sjali og prjóna örfáar umferðir í gær. Fór í góða göngutúra bæði í gær og á laugardaginn. Er meðvitað farin að nota þá hægri mun meira. Get td tannburstað mig með henni en skipti fljótlega yfir í að nota þá vinstri. Þumall á ólaskaðri hendi á að komast að rótum litlafingurs. Ég kemst að rótum löngutangar þeas ef ég er ekki of bólgin og stirð. Það verður fróðlegt að fara í sjúkraþjálfun í fyrramálið og þá er ég einnig spennt að vita hvað kemur út úr röntgenmyndatökunni á miðvikudagsmorguninn.

2.3.24

Klipping

Fór ekki í göngutúr gærdagsins fyrr en um þrjú. Þá kom ég við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni í klippingu hjá Nonna. Í fiskbúðinni keypti ég harðfisk, bæði óbarna ýsu og lúðu og 600gr af ýsuflökum. Var svo komin til Nonna í Quest - Hair, Beer & Whisky Saloon tuttugu mínútum á undan áætlun. Komst að tíu mínútum síðar og bað fyrst um hárþvott. Svo urðum við Nonni sammála um að taka amk 8-10cm af hárinu. Það er samt hægt að taka það upp í snúð. Viðurkenni vel að það var freistandi að láta snoða mig til að létta mér aðeins lífið svona hálf handónýt. En á endanum varð sú hugsun ofan á að það að setja teygju í hárið er ágætis þjálfun. Ég á líka frekar að vera dugleg að nota hendina heldur en að hlífa henni of mikið. Festi næsta klippitíma fyrsta föstudaginn í október og hringdi svo í Odd og bað hann um að sækja mig. 

1.3.24

Nýr mánuður

Í göngutúr gærdagsins kom ég við í apótekinu í Suðurveri og fjárfesti í úlnliðshlíf og kæli/hita geli/sokk. Var með spelkuna á göngunni en tók hana af mér um leið og ég kom heim aftur. Tók tvær æfingalotur fyrir hádegi með rúmlega tveggja tíma millibili. Stuttu fyrir klukkan tvö skutlaði Oddur mér vestur í bæ í minn fyrsta esperantohitting á þessu ári. Lásum tvær og hálfa blaðsíðu, spjölluðum, drukkum te og hún sýndi mér nokkrar myndir af barnabörnunum. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég hringdi aftur í Odd til að sækja mig. Það kom svo í ljós í gærkvöldi að ég er ekki alveg orðin fær um að prjóna strax. Rétt tókst að fitja upp á nokkrum lykkjum en það var enn snúnara að reyna að prjóna. Í staðinn setti ég á mig kælisokkinn utan um úlnliðinn eftir að hafa haft gelpokana í frysti. Og svo var ég dugleg að nudda örið inn á milli.