Þessa helgina er ég í bænum. Það er aðventukvöld í óháðu kirkjunni í kvöld og ég hafði ætlað mér að mæta á þann viðburð. Nú býðst mér hins vegar að bjóða rúmlega mánaðar gamalli stúlku velkomna í heiminn og óska foreldrum hennar til hamingju í fylgd með móðurömmunni á svipuðum tíma og kirkjustundin hefst.
Það standa yfir framkvæmdir við Laugardalslaug. Lauginni er ekki lokað en það eru tilfæringar daglega svo það liggur við að maður villist á leiðinni út að laug og í pottana. Kaldi potturinn var tæmdur og lokaður á fimmtudaginn var en sá pottur sem hingað til hefur verið 38°C var breytt í þann kalda í staðinn. Byrjað var að dæla köldu vatni inn í hann e-n tímann eftir hádegi og þegar ég var á ferðinni á fimmta tímanum var hann kominn niður í 14°C og fór kólnandi í hverri ferð. Mun betra pláss í þessum potti. Ég fer sjaldan í sund á föstudögum en þegar ég mætti í gærmorgun var kominn lokunarborði á "nýja" kalda pottinn og borðinn var þar enn í morgun. Mánudagar eru sjóbusldagar en það verður fróðlegt að vita hvort sá kaldi verður opinn seinni partinn á þriðjudaginn og hvernig framvinda framkvæmdanna verður orðin.
Sl. sunnudag skrifaði ég fyrsta jólabréfið af þremur og 2 fyrstu jólakortin. Á leiðinni í bæinn kom ég við í Löngumýrinni en Jóna og Reynir verða hjá Gerði og fjölskyldu um jólin og þau ætla að taka jólakveðjurnar með sér út til Danmerkur. Ég hef ekki komist í skrifgírinn síðan um síðustu helgi en gerði heiðarlega tilraun til að byrja á enska jólabréfinu í gær, fékk andann ekki yfir mig því ég festist fyrir framan fótboltarásina frá klukkan þrjú. Og já, ég tók þá ákvörðun að taka heimilispakkann í áskrift til að byrja með þannig að ég verð áfram með aðgang að enska boltanum og sjónvarpi símans premium.
Ég langt komin með að lesa fjórðu bókina af þeim átta sem ég fékk lánaðar af safninu þann 29. nóv. sl. Þrjár bókanna voru eftir sama höfund og ég er nokkuð viss um að ég hef lesið amk tvær af þeim áður. Fjalla allar um sömu persónuna sem í fyrstu bókinni kom til Íslands eftir þriggja ára veru í Danmörku til að leita uppi týnda tvíburahálfsystur sína. Í seinni bókunum tveimur er persónan farin að vinna sem blaðamaður með nef fyrir fréttnæmum atburðum. Bókin sem ég er að lesa núna heitir Týnda systirin eftir B.A.Paris. Eiginlega alltof spennandi. Ég hef þó alveg getað lagt bókina frá mér inn á milli. Á eftir að lesa rúmlega 120 bls. af 308 og fyrst ég gat lagt frá mér bókina til að hella mér upp á kaffi og taka fram tölvuna til að blogga ætti ég að geta beðið með að halda lestri áfram amk þangað til í kvöld.
Á þriðjudagskvöldið var fór ég á dásamlega jólatónleika í Hallgrímskirkju. Fjórir kvennakórar sungu, þar af einn stúlknakór. Dagskráin var metnaðarfull og flott og í upphafi var tekið fram að slökka ætti á öllum símum, bannað að taka myndir og bannað að klappa á milli laga fyrr en dagskráin væri tæmd. Þriðja síðasta lagið var "Nóttin var sú ágæt ein" og þá voru tónleikagestir beðnir um að taka undir sönginn. Þessi einn og hálfi tími var algerlega magnaður.