22.7.19

Hugað að fararskjótanum

Fyrsti virki frídagur runninn upp. Nýliðinni helgi eyddi ég allri í bænum. Var mætt í sund á slaginu klukkan átta á laugardagsmorguninn. Einum og hálfum tíma seinna var ég að "detta" inn hjá esperanto vinkonu minni, beint úr sundi. Við lásum hálfa blaðsíðu í Kon-Tiki en við vorum mættar í Nauthólsvík aðeins fyrir klukkan ellefu. Fundum ekki Tai-chi/Qi-gong hópinn þar svo líklega hefur tíminn fallið niður. Við fórum í tæplega hálftíma göngutúr áður en ég skilaði henni heim. Um hálftvö labbaði ég af stað niður í bæ, heiman að frá mér. Hitti aftur esperanto vinkonu mína sem var mætt ásamt annarri í bakgarðinn við Júmfrúna rétt rúmlega tvö. Þær voru búnar að finna 4 stóla en þrátt fyrir að enn væri tæp klukkustund fram að viðburði:20. júlí – Latínband Tómasar R. Hér mun enginn sitja kyrr! Tómas R. Einarsson: kontrabassi, Óskar Guðjónsson: tenórsaxófónn, Ómar Guðjónsson: gítar, Sigtryggur Baldursson: kóngatrommur, Samúel Jón Samúelsson: básúna og slagverk, voru öll borð úti upptekin. Sú fórða mætti tíu mínútum á eftir mér. Þá voru hinar tvær farnar í röðina að útvega sér eitthvað að drekka og borða. Ég var ekki í stuði til að fara í neina röð en jazzinn hlustaði ég á frá klukkan þrjú til klukkan fjögur. Við sátum fyrir aftan sviðið og sáum þá ekki spila, en fyrir mig gerði það ekkert til. Góður fílingur og þrátt fyrir að gerði eina örstutta hellidembu þá var veðrið himneskt mest allan tímann. Engu að síður fórum við af staðnum þegar hljómsveitin fór í smá pásu. Ég lagði leið mína á torgið til Lilju vinkonu hún var að byrja að ganga frá.Hitti á Ingibjörgu Tómasdóttur og Ragnar manninn hennar. Við Inga spjölluðum stuttlega saman. Held hreinlega að við höfum ekkert hist augliti til auglitis síðan í nóvember 2014, aðeins verið í stopulu síma- og email-sambandi. Ein af hinum þremur samferðakonum mínum, stökk upp í strætó áleiðis upp í Breiðholt. Hinar tvær stoppuðu aðeins við sölubásinn en röltu svo saman vestur í bæ. Þegar Lilja var búin að ganga frá og ferma hjólið knúsaði ég hana bless og rölti heim á leið.

Í gær var ég vöknuð upp úr klukkan sjö en hafði mig ekki alveg strax framúr og í sund. Fór að hlusta á Rás 2. Þegar ég kom fram suttu fyrir hálftíu var N1 sonurinn að koma fram og hann átti að vera mættur á vakt í Kópavoginn klukkan tíu. Ég skutlaði honum í vinnuna og fór svo í sund. Þegar ég var búin með 2 ferðir í þann kalda og 500m hitti ég á fyrrum mágkonum mömmu og við "slæptumst" saman alveg til klukkan að byrja að ganga eitt. Við fórum tvær ferðir saman í þann kalda en hún er að byrja að þjálfa sig upp í hann aftur, vorum smá stund í nuddpottinum, góða stund í sjópottinum og löbbuðum einn hring í kringum útisundlaugina. Var komin heim upp úr klukkan hálfeitt. Tæpum tveimur tímum seinna rölti ég yfir í Norræna húsið þar sem ég hitti esperanto vinkonu mína fyrir. Náði að fá mér 1 hvítvínsglas til að taka með mér út í glerhýsi áður en tónleikarnir hófust: Norræna húsið opnar glerdyrnar að nýju og býður þér á tónleika undir björtum himni, alla sunnudaga í sumar kl. 15:00. frá 16. júní – 11. ágúst 2019. Tónleikaröðin fer fram í fallegu umhverfi gróðurhúss Norræna hússins og laðar að sér bæði íslenska og erlenda tónlistarunnendur. Frítt er inn á alla tónleikana.
Indieelectro hljómsveitin Omotrack hefur spilað og komið fram á tónlistarhátíðum víðsvegar umÍsland og erlendis frá og með árinu 2015. Nafn hljómsveitarinnar er dregið af litla  þorpinu OmoRate. Annar bróðirinn hefur séð um sunnudagaskóla óháða safnaðarins með konu sinni sl. tvo vetur.
Í morgun var ég vöknuð um sex en eiginlega næstum jafn lengi að koma mér á fætur og í gærmorgun. Mætti í Laugardalslaugina um átta. Sinnti hefðbundinni rútínu og var ekkert að flýta mér. Eftir sundið fór ég með bílinn á smurstöðina við Laugaveg 180 og lét smyrja hann. Frá smurstöðinni lá leiðin á N1 dekkjaverkstæðið við Fellsmúla til að láta laga loftleka á tveimur dekkjum. Þrátt fyrir að vera ekki með N1 kort var nóg að gefa upp kennitölu N1 sonar míns til að fá afslátt.

19.7.19

Sumarfrí

Hætti vinnu um hálfþrjú í dag, kvaddi vinnufélagana og labbaði heim. Verð að segja frá því að upp úr hádeginu í gær fannst mér endilega vera kominn föstudagur. Var að ganga frá vinnuskýrslunum og senda frívikurnar til samþykktar hjá framakvæmdastjóra. Þegar ég ætlaði að senda inn þessa viku skildi ég í fyrstu ekkert í því að það voru engir tímar skráðir á föstudag. Fyllti út fyrirskipaða 7 klukkutíma en sendi þó ekki þessa viku til samþykktar fyrr en eftir hádegi í dag.

Annars hefur vikan verið fljót að líða. Fór í sund eftir vinnu á þriðjudaginn en um hálffjögur á miðvikudaginn sótti ein fyrrum samstarfskona mín, vinkona og jafnaldra mig í vinnuna og við fórum saman í heimsókn til þeirrar þriðju sem er einum 12 árum eldri en við. Sú var líka að vinna á kortadeildinni í um áratug eða svo. Við þrjár hittumst reglulega en það var liðinn óvenju langur tími frá síðasta hittingi. Við hittumst  á kaffihúsinu í Perlunni einhvern tímann í febrúar sl. Við höfðum um margt að spjalla og klukkan var orðin hálfsjö þegar við jafnöldrurnar kvöddum og hún skutlaði mér heim.

Þvílíkt blíðviðri sem var í gær. Labbaði heim úr vinnu um hálffjögur. Hellti mér upp á ca tvo bolla af kaffi og fékk mér flatköku með hummus. Hringdi í pabba áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Það var auðvitað margt um manninn, aðallega á sólbekkjunum en ég komst amk 3 sinnum í þann kalda og fékk pláss á einni brautinni. Nennti samt ekki að synda merira en 300 metra.

Verð í sumarfríi næstu 33 dagana og er ákveðin í að njóta alls tímans í botn.

16.7.19

Þrír virkir vinnudagar eftir fram að sumarfríi

Á sunnudagskvöldið, smurðum við systur slatta af flatkökum með hangiketi og rúlluðum upp uþb 40 pönnukökum. Í gærmorgun vorum við pabbi langfyrst á fætur, nokkru fyrir klukkan sex, og höfðum meira að segja tíma til að leggja nokkra kapla áður en við fórum í sund. Fór fjórum sinnum í kalda karið, synti í tuttugu mínútur, þar af 25m skriðsund og aðra 25m baksund. Ég fór í heitan pott og gufu en ég fór ekki í rennibrautirnar með pabba, heldur horfði á hann nánast hlaupa upp tröppurnar 33 í tvígang því hann fer eina ferð í hvora rennibraut. Fengum okkur kaffi á staðnum á eftir. Vorum komin í Hólavanginn upp úr klukkan hálfníu. Fljótlega hrærði ég í eina pönnsuposjón og var nýbúin að ljúka við að steikja úr hrærunni þegar Helga systir kom fram. Við kældum kökurnar aðeins áður en við drifum í að setja sultu og rjóma og raða þeim upp.

Jóna Mæja og Reynir komu um eitt og voru með eplatertu og auka rjómasprautu með sér. Pabbi stillti duftkerinu, sem og mynd af mömmu og kertinu sem voru á gestabóksborðinu í útförinni, upp á stofuskáp. Upp úr tvö fórum við að raða upp bollum og diskum en klukkan var langt genginn í þrjú áður en fleira fólk mætti.Byrjað var að drekka kaffið upp úr þrjú. Allt í allt urðum við 19. Allir voru komnir um fjögur. Við vorum öll komin á Keldur um fimm. Pabbi, Reynir og Hjörtur (maður Önnu Báru frænku minnar) hjálpuðust að við að taka smá torfu af leiðinu hennar "litlu Önnu" og bora meters holu. Moldinni var safnað í hjólbörur. Við pabbi hjálpuðumst að við að láta duftkerið síga rétt niður í holuna og Helga systir tók helling af myndum á vélina hans pabba. Þessi gjörningur tók vel innan við klukkustund og á eftir fóru allir og fengu sér meira kaffi og með því á Hellu. Allt hafði gengið mjög vel og allir sáttir.

14.7.19

Á Hellu

Systir mín og mágur byrjuðu í sumarfríi upp úr hádegi sl. föstudag og lögðu fljótlega af stað með yngri dóttur sína og tvo hunda suður og eiginlega alla leið austur á Hellu í næstum einni lotu. Eldri dóttirin og kærastinn hennar voru nýlega komin úr reisu frá London og ætla ekki að taka sér meira frí í bili.  Ég var búin að hugsa minn gang, ákveða og segja mörgum frá áætlunum mínum um að vera í bænum um helgina en drífa mig og strákana með mér austur upp úr hádegi n.k. mánudag, 15. júlí. Mér fannst þetta plan alveg ágætt en bæði Helga systir og pabbi vildu fá mig fyrr austur því þegar ég hringdi í pabba um miðjan dag í gær fékk ég m.a. að tala við Helgu og hún spurði afhverju ég væri ekki komin austur. Endirinn varð sá að þau skutust í bæinn, hún og pabbi, á nýja bílnum hans og sóttu mig. Þar með geta strákarnir komið austur á mínum bíl á morgun.

Vorum komin austur upp úr klukkan hálfátta í gærkvöldi. Kvöldið fór í kapallagnir, grín og glens. Í morgun útbjó ég tvær kaldar brauðtertur og upp úr hádeginu hrærði ég í 3 pönnsu-posjónir, eina í einu. Bauð upp á einn skammtinn í kaffitímanum en hina tvo ætlum við að rúlla upp og/eða setja smá sultu og rjóma í fyrramálið.

Sonurinn sem fór á Eistnaflugshátíðina á Neskaupsstað var að hringja rétt áðan frá Akureyri. Samferðalangarnir fóru austurleiðina austur sl. miðvikudag en eru greinilega að koma norðurleiðina til baka í dag.

12.7.19

Óstuð í skrifum

Júlí nálgast það að vera hálfnaður. Ég á eftir að vinna í fjóra virka daga í næstu viku og þá er ég komin í fjögurra og hálfs vikna sumarfrí. Framundan er löng helgi. Annar tvíburinn fór á hina árlegu Eistnaflugshátíð á Neskaupsstað með vinum sínum sl. þriðjudag og kemur ekki heim aftur fyrr en á sunnudaginn. Hinn tvíburinn er að vinna í dag (og í gær) og um helgina.

Ég er loksins búin að lesa síðustu jólabókina; Brúðan eftir Yrsu Sigurðardóttur sem ég fékk frá Helgu systur og fjölskyldu. Lauk við hana rétt upp úr síðustu helgi. Ég fór á bókasafnið þann 2. júlí og skilaði öllum bókum sem ég var með. Kom með fjórar ólíkar bækur heim, engin af þeim með skammtíma lán þannig að ég má hafa þessar alveg til og með 1. ágúst. Er þó þegar búin með eina bók; Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra eftir Halldór Laxness Halldórsson, og langt komin með aðra: Óvelkomni maðurinn eftir Jónínu Leósdóttur.

Síðan síðasta strætókort rann úr gildi þann 2. apríl sl. hef ég aðeins tvisvar sinnum farið á bílnum í vinnunna alla hina dagana, nema nokkra sem ég fór ekki í vinnu vegna lasleika og sálfræðivitala, hef ég labbað báðar leiðir. Hef alltaf haft kling á mér til að geta "hoppað" upp í strætó ef ég þyrfti. Var einu sinni nýlega að hugsa um að nota þetta klink en fann það ekki í bakpokanum fyrr en daginn eftir. Það var allan tíman í dós undan hafkalki í bakpokanum en ég hef greinilega ekkert átt að vera að nota strætó. Enda er ég stundum alveg jafn lengi að labba heim eins og að taka strætó upp úr klukkan hálffjögur/fjögur. Síminn er búinn að hanga á mér síðan klukkan sjö í morgun og skv. SAMSUNG Healt forritinu er ég búin að ganga rétt rúmlega 13600 skref í dag.

27.6.19

Bókaormur

Fór síðast á bókasafnið rétt fyrir miðjan júní og skilaði af mér 5 bókum þar af tveimur sem átti að skila í síðasta lagi þann 18. Var með tvær bækur eftir heima sem skila á 4. júlí n.k, Sonurinn eftir Jo Nesbö og Eftirbátur eftir Rúnar Helga Vignisson. Tók aðeins 3 bækur, þar af eina stutta ljóðabók, allar með 30 daga skilafresti. Mæli mjög með bókinni Líkblómið eftir Anne Mette Hancock. Aðeins ein bók af safninu er ólesin en ég er byrjuð á henni og líst vel á þá sögu; Svartalogn eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. Stefni að því að vera búin með þá bók fyrir fjórða júlí og skila þá af mér öllum bókasafnsbókunum.

26.6.19

Þyrfti helst að setja upp e-s konar blogg-rútínu

Það getur verið gott að taka sér pásur og það er sérstaklega gott að vinna markvisst að því að halda sig meira frá tölvunni. En það er líka frekar erfitt að skrá niður það sem gerist hjá mér og í kringum mig ef það eru margar vikur á milli færslna. Ætti að geta komið með einhver stikkorð/setningar um það helsta en akkúrat núna er ég með takmarkaðan tíma til að festa þetta niður. Ég get þó sagt að ég hafi ekki slegið slöku við lesturinn eða tuskuprjónaskapinn, er "útskrifuð" frá sálfræðingun eftir 4 góða samtalstíma (má þó alltaf hafa samband ef ég tel mig þurfa þess). Pabbi er búinn að sækja duftkerið sem ákveðið hefur verið að setja niður hjá "litlu Önnu" daginn sem mamma hefði orðið 75 ára og þá verður akkúrat vika þar til aðal sumarfríið mitt byrjar. Pabbi er kominn á nýjan bíl og búinn að selja þann gamla. Systir mín, mágur, hundarnir og yngri systurdóttir mín komu suður helgina fyrir 17. júní. Áttum góða helgi saman á Hellu þar sem við skruppum m.a. upp að Heiði. Þetta var svona það allra helsta. Vona að það verði ekki margar vikur þar til næst, en kannski einhverjir dagar. Sjáum til með það, ætla ekkert að lofa neinu.

4.6.19

Og þá er kominn júní

Í gær fékk ég bæði sms og mail frá Blóðbankanum. Ég kom því við þar á leið heim úr vinnunni í mína 52. heimsókn. Vel gekk að gefa en ég varð að sleppa því að skreppa í sund og potta svo ég fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim um hálffimm. Bjó til kjötbollur í kvöldmatinn, prjónaði, las og horfði á danska þáttinn á RÚV.

Ég fékk líka skilaboð frá bókasafninu í gær um að skiladagur væri að nálgast á einni bók, bókinni sem var með 14 daga skilafresti. Þótt sá frestur hafi verið til 5. júní ákvað ég að skreppa á safnið eftir vinnu í dag þegar ég væri hvort sem er á leiðinni í sund. Skilaði fimm bókum af sex. Er byrjuð að lesa þá sjöttu. En það "eltu" mig sex bækur heim og þar af eru tvær með 14 daga skilafresti. Hvar endar þetta eignlega?

Annars er ég komin með 9. tuskuna á prjónana. Er ekki enn búin að prófa að hekla eitt stk tusku, en það er nóg eftir af garni, sér varla högg á vatni í pokanum.

29.5.19

Maí alveg að verða búinn

Hvernig fer tíminn eiginlega að því að æða svona hratt áfram? Ég er búin að vera dugleg við lesturinn undanfarið og hef heimsótt bókasafnið á ca hálfsmánaða fresti aðallega vegna þess að ein að bókunum sem koma með mér heim í hvert skipti er með 14 daga skilafrest. Næ að klára að lesa hluta af hinum bókunum og skila í leiðinni en þótt ég skilji eftir ólesnar bækur heima kem ég alltaf með 4-6 bækur með mér heim. Á miðvikudaginn var skilaði ég nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar Stúlkan hjá brúnni og þar áður Krýsuvík eftir Stefán Mána. Var annars að ljúka við lestur á bókinni Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shaffer & Annie Barrows. Bókin gerist rétt eftir seinni heimstyrjöldina og er framvinda sögunnar sett upp í sendibréfum. Þessi bók greip mig heljartökum. Byrjaði á henni sl. sunnudag og lauk við hana aðfaranótt þriðjudags. Var ekki heima á mánudagskvöldið. Hefði geta farið á heimaleik í Pepsí-deild kvenna en milli sex og rúmlega hálfátta var ég á Bjórgarðinum að kveðja einn vinnufélaga og þaðan fór ég svo beint í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar. Var mætt hjá henni rétt fyrir átta og fimm mínútum síðar var klukkan byrjuð að ganga tólf.

Var ekki í vinnu í gær. Var að hitta sálfræðinginn í 3. sinn og líkt og í hin skiptin tók ég mér heilan veikindadag. Ég finn að þetta samtal er að gera mér gott og ég finn líka að ég geri rétt með því að taka nokkra tíma í þetta. Sálfræðingurinn var að hvetja mig til að halda einhvers konar tilfinningadagbók fyrir sjálfa mig. Það er smá áskorun því það er orðið mjög langt síðan ég skrifaði eitthvað niður á blað ef mér leið ekki mjög vel. Ég er nokkuð viss um að það mun gera mér gott að taka þessari áskorun. Svo stefnan er að finna eða útvega mér stílabók og byrja á þessu verkefni sem fyrst. Punkta niður líðan mína daglega sama hvernig mér líður og grufla þá í því hvort eða hvað sé að flækjast fyrir mér og hvernig ég geti létt á mér og skilið eftir eitthvað sem er alveg óþarfi að burðast með dags daglega út lífið.

14.5.19

Rúmur mánuður

Það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig en samt hef ég leyft tímanum að þjóta hjá án þess að setja niður staf um eitt eða neitt af því. Ég er mikið búin að lesa, prjóna, labba, synda, pottormast og fara á hina og þessa viðburðina, hitta vinkonur og fleira og fleira.. Og svo er ég búin að gera eitt tvisvar sinnum sem ég hef aldrei gert áður. Var við það að brotna saman í vinnunni um daginn, ekki alveg viss nákvæmlega út af hverju en ákvað að prófa að fá að tala við sálfræðing. Ferlið var þannig að ég lét mannauststjóra og framkvæmdastjórann minn vita að ég væri ekki alveg að fúnkera og að þegar samstarfstarfsfólki mínu væri farið að líða illa í kringum mig þá þyrfti ég að athuga minn gang. Þetta var fyrir páska. Tveim dögum eftir að ég sendi þessi skilaboð hitti ég mannauðsstjóra og talaði við hana í rúma klukkustund, beygði aðeins af fyrstu mínúturnar sem er frekar ólíkt mér. Við, mannauðsstjórinn, ákváðum í sameiningu að ég myndi fara og bera mig upp við trúnaðarlækni fyrirtækissins morguninn eftir en hún sendi mér líka rafrænt bréf á einkanetfangið mitt með alls konar tillögum. Hitti lækninn strax morguninn eftir og við ákváðum að ég skildi prófa að tala við sálfræðing. Læknirinn tók niður gsm-númerið mitt og tveim dögum seinna hafði sálfræðingurinn samband og gaf mér tíma síðasta mánudaginn í apríl. Mér skilst að vinnan mín greiði fyrir allt að 10 tíma. Ég fékk líka að ráða því að hafa það þannig að ég tæki mér heilan veikindadag fyrir þennan eina tíma. Fyrsta viðtaliið gekk bara vel, fannst gott að fá tækifæri til að velta upp og tala um ýmsa hluti. 50 mínútur voru afar fljótar að líða og okkur kom saman um að hittast aftur. Sá tími var í gær og fékk ég að hafa þetta eins, taka heilan veikindadag og ráðstafa honum að vild. Fór í sund í gærmorgun og hellti upp á kaffi þegar ég kom heim upp úr klukkan tíu. Sálfræðitíminn var klukkan eitt. Það fór á sama veg, 50 mínútur voru fljótar að líða og mér fannst ég ekki vera búin að tala út eða finna alveg afhverju mér leið svona illa og hafði allt á hornum mér í vinnunni fyrri partinn í apríl. Það getur vel verið að það sé fleira en eitt og meira en tvennt sem er að naga mig að einhverju leyti. En á meðan mér finnst það gera mér gott að tjá mig við fagmenntaðan einstakling ætla ég að þyggja það að taka nokkra tíma enn.

8.4.19

Nagladekkin komin á dekkjahótel

Það fór eins og mig grunaði, ég dvaldi fyrir austan alveg framyfir kvöldfréttir og kvöldmat. Upp úr tvö hrærði ég í pönnsur. Pabbi ákvað að fá sér göngutúr á meðan og fór alla leið í búðina til að kaupa rjómapela. Skrapp aðeins til Möggu og Sævars í Nestúnið eftir pönnsukaffið. Þar voru þau úti á palli ásamt tveimur börnum sínum, tengdasyni, gesti (núverandi bónda á Helluvaði), dóttur hans og þremur barnabörnum. Sátum ekki lengi útivið. Dóttir þeirra hjóna og hennar fjölskylda búa í bænum og þegar sonur þeirra var orðinn úrvinda og farinn að biðja um að fara heim kvöddu þau. Við Magga sátum svo í góða stund inni í stofu hjá henni og spjölluðum um lífið og tilveruna.

Við pabbi ákváðum að ég skyldi taka sumardekkin með mér í bæinn, sóttum þau í skúrinn upp úr klukkan sex og settum tvo hjólbarða í skottið og tvo afturí. Ég fékk að sjá um matinn. Steikti þorsk og hafði kartöflur, gulrætur og lauk með. Um það leyti sem Landanum lauk kvaddi ég pabba og dreif mig heim. Fékk ekki stæði í Drápuhlíðinni en fann ágætis stæði í Blönduhlíðinni.

Fór gangandi í vinnuna í morgun og þegar ég kom heim aftur ákvað ég að keyra við hjá hjólbarðaþjónustu N1 við Fellsmúla og athuga hvort þeir gætu ekki umfelgað, sett sumardekkin undir og geymt fyrir mig nagladekkin. Maðurinn í afgreiðslunni sagði að það væri amk klukkutíma bið en féllst á að taka bíllykilinn og fá hjá mér símanúmer á meðan ég tæki smá göngutúr. Ég kíkti aðeins í A4, Rúmfatalagerinn og Hagkaup. Þegar ég tók upp símann til að athuga með hvað tímanum liði sá ég að ég hafði misst af símtali, nokkrum mínútum áður en það var ekki einu sinni liðinn nema uþb hálftími. Borgaði rúm 15 þúsund fyrir umfelgun og hálfs árs hótelgeymslu og fór svo beint í sund.

6.4.19

Á Hellu

Aðra helgina í röð er ég komin í sveitasæluna á Hellu og það er ljóst að hér verð ég til morguns og líklega alveg frameftir degi þá og jafnvel fram á kvöld. Var komin austur rétt upp úr klukkan tvö. Eftir kaffi, um fjögur, skrapp ég með nokkrar bækur til nöfnu minnar (vinkonu mömmu) og mömmu eins bekkjarbróður míns í grunnskóla. Þar kom vel á vondann. Hún var heimavið að endurlesa og langt komin með eina bók eftir Camillu Läckberg og var farin að spá í hvað hún ætti að lesa í kvöld og næstu daga. Hún ákvað að taka til skoðunnar allar fjórar bækurnar sem ég var með, tvær eftir Lizu Marklund og aðrar tvær eftir Boris Akunin. Stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma.

Pabbi notaði tækifærið og fór í sinn nýlega daglega göngutúr á meðan ég var í þessari heimsókn. Á fimmtudaginn var labbaði ég í fyrsta skipti til og frá vinnu síðan í haust og sama dag sá pabbi að það var orðið vel göngufært fyrir eldri borgara með staf. Strætókortið mitt rann úr gildi eftir 2. apríl sl. og þann 3. fór ég á bíl í vinnuna í fyrsta skipti síðan fyrsta virka daginn á þessu ári. Hætti vinnu fyrir hálfþrjú þann dag og byrjaði á því að sækja mér nýja lykil fyrir fyrirtækjabankann v/hússjóðs Drápuhlíðar 21. Úr bankanum fór ég beint í sund og svo kom ég við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Var komin heim rétt fyrir fimm. Davíð Steinn tjáði mér að hann ætti að taka vakt frá klukkan sex til klukkan tíu á N1 í Fossvogi milli Reykjavíkur og Kópavogs. Það eru aðeins strætóstoppistöðvar á Kringlumýrarbraut við Kringluna og svo við Hamraborg. Það var boðaður saumaklúbbur hjá mér þetta kvöld um átta. Ég ákvað að hringja í þá sem býr í húsbílnum sínum í Moso og bjóðast til að sækja hana í fyrra fallinu og bjóða henni í mat. Hún þáði það með þökkum. Davíð Steinn var mættur á vaktina ca tíu mínútum fyrir sex og uþb tuttugu mínútum seinna var ég kominn upp í Mosó. Við Lilja vorum komnar í Drápuhlíð um hálfsjö, sáum Odd Smára tilsýndar en hann hafði verið kallaður á aukavakt. Bauð Lilju upp á steikta þorskhnakka með kartöflum. Hnakkana fékk ég hjá einni sem vann með mér á kortadeildinni í meira en tíu ár. Hennar maður er vélstjóri á sjó og kemur stundum með þorsk, ýsu og eða þorskhnakka í tíu kílóa öskjum. Ég keypti af þeim tíu kíló á mánudagskvöldið var og skipti þeim niður í þónokkra frystipoka með tveimur flökum í.

Í gær skráði síminn á mig alls fjóra göngutúra. Til og frá vinnu og svo skrapp ég gangandi í Lífspekifélagið og var mætt rétt fyrir átta og komin heim aftur upp úr klukkan hálftíu eftir fróðlegan fyrirlestur sem var m.a. um ffh, fljúgandi furðuhluti.

29.3.19

Vinnuvikulok og bráðum mánaðamót

Ég er tiltölulega nýkomin heim úr Lífspekifélaginu. Þar hélt Þórarinn Friðriksson fyrirlestur sem bar yfirskriftina: Í minningu vinar og gelísk áhrif. Efnið var mjög áhugavert og vel flutt. Þórarinn sagði svo frá því að það væri að koma út bók sem hann tók saman um gelísk orð í íslenskunni. Eftir erindið skrapp ég aðeins upp á efri hæðina, fékk mér kaffibolla og kleinu og spjallaði við nöfnu mína sem var með erindi um spring forest qi gong í félaginu fyrir nokkrum vikum.

28.3.19

Snjór

Það var snjókoma úti þegar ég trítlaði út á strætóstoppistöð á leið í vinnuna um hálfátta í morgun. Þétt snjókoma á köflum. Kom heim aftur úr vinnu rétt fyrir fjögur með strætó í ágætisveðri. Staldraði stutt við heima. Hringdi í pabba og tók svo til sunddótið, dall undir fisk og kúst til að sópa af bílnum. Eftir að hafa sópað af bílnum lá leiðin í Fiskbúð Fúsa og keypti mér nætursaltaða ýsu í soðið. Síðan lá leiðin í Laugardalinn og tók uþb klukkutíma rútínu í þann kalda, laugina og gufuna.

27.3.19

Kiljan

Kom við heima eftir vinnu til að sækja sunddótið mitt og ákvað að skila tveimur bókum á safnið í leiðinni. Flýtti mér út af safninu eftir að hafa skilað bókunum. Er enn með fjórar bækur af safninu og það er nóg næstu tvær til sex vikurnar.

Var komin fyrstu ferðina í kalda pottinn klukkan hálffimm, var búin að synda 500 metra áður en klukkan var orðin fimm og komin aftur í pottinn. Eftir þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu. Lét þetta svo gott heita en gaf mér góðan tíma í hárþvott og hárblástur á eftir.

Kom heim um sex og var búin að finna til kvöldmatinn áður en klukkan varð hálfsjö. Gekk frá öllum endum í appelsínugula sjalinu sem datt endanlega af prjónunum í hádegishléinu. Fitjaði jafnfram upp á nýju sjali í nýjum lit. 

26.3.19

Appelsínugult sjal alveg að verða tilbúið

Þegar ég kom heim úr vinnunni núna seinni partinn var einkabílstjórinn rétt ókominn úr Sorpuferð og einkaerundum á bílnum. Ég hringdi í pabba til að heyra í honum hljóðið og deila með honum sögum. Spallaði svo stuttlega við Odd þegar hann kom heim áður en ég dreif mig í sund og kalda pottinn í Laugardalnum. Þar sinnti ég nokkurn veginn hefðbundinni sundpottarútínu. Var komin heim um sex og dreif mig í að útbúa kvöldmatinn, ofnbakaða laxabita kryddaða með "best á flest" og sítrónupipar. Með í ofnin fóru smávegis af hvítkáli, rauðkáili, uþb 1 epli og ein lítil rauðrófa. Sauð einnig örfáar kartöflur. Þetta var mjög gott.

Um daginn fékk ég lánaða bókina Leyndarmál systranna eftir Diane Chamberlain íslenskuð af Magdalenu Kristjánsdóttur. Fékk þessa bók lánaða þrátt fyrir að vera nýbúin að sækja mér nokkrar bækur á safnið, þar af eina sem er með 14 daga skilafresti og þar að auki á ég enn eftir að lesa eina jólabókina. En allt um það ég fékk þessa bók lánaða daginn fyrir afmælið mitt, byrjaði að lesa hana það kvöld og kláraði á mánudeginum eftir að ég kom heim úr vinnu. Mjög spennandi bók, það komst fátt annað að á meðan ég var að lesa hana. Áðan var ég svo að ljúka við að lesa eina af bókasafnsbókunum. Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Þetta er fyrsta skáldsaga höfundar sem kom út 2016 en fyrir síðustu jól kom út Hið heilaga orð eftir sama höfund. Þá bók fékk ég lánaða frá vinnufélaga seinni partinn í janúar og eftir lesturinn ákvað ég að verða mér úti um fyrstu bókina sem fyrst.

25.3.19

Kundalini

Fór ekkert út úr bænum nýliðna helgi en ég fór í sund báða morgnana, esperanto-hitting strax eftir sundið á laugardagsmorguninn og kom við í Krónunni á Granda áður en ég fór heim. 

Strax eftir vinnu í dag tók ég leið 13 vestur í bæ. Var komin til Inger um fjögur. Við höfðum rúman tíma svo við ákváðum að lesa smá í Kon-Tiki. Lásum fjórar blaðsíður og við erum staddar á mjög spennandi stað í leiðangrinum. En korter fyrir fimm röltum við með teppi og kodda yfir á Aflagranda þar sem Inger mátti bjóða með sér gesti á kynningaræfingu í kundalini jóga. Hef aldrei prófað svoleiðis áður og það kom mér á óvart hversu misvel mér gekk að gera æfingarnar. Það er aldrei að vita nema ég ákveði að fara að stunda þetta. Sjáum samt aðeins til með það,

23.3.19

Dagarnir æða áfram en það er svo sem ekki nýtt

Rúmar þrjár vikur síðan ég skrifaði eitthvað á þessum vettvangi síðast. Er svo sem heldur ekkert svo dugleg að uppfæra stöðuna á FB-veggnum mínum. Tíminn virðist fara í eitthvað allt annað sem er kannski bara ágætt. En samt, eins og ég hef sagt/skrifað áður þá er smá eftirsjá í því að skrifa ekki reglulega um það helsta sem er í gangi. Þótt ég segi sjálf frá þá hef ég mjög gaman að því að rifja upp eldri skrif og þykir mér að stundum hafi mér tekist ágætlega upp. Búin að blogga reglulega óreglulega í rúm 16 ár og það er í raun fjársjóður að geta leitað í þessar minninar, amk fjársjóður fyrir mig.

Um síðustu helgi komst ég loksins austur eftir akkúrat mánaðahlé. Var ekki búin að fara síðan Hellublótið var, helgina 16.-17. febrúar sl. Helgina eftir það var tvíburahálfsystir mín að útskrifast úr HÍ og halda upp á það. Ég þáði boð í þann fagnað, var mætt með þeim fyrstu og fór með þeim síðustur. Einkabílstjórinn bæði skutlaði mér og sótti aftur.

Fyrsta helgin í mars byrjaði á því að það var samverustund í kirkju óháða safnaðarins vegna alþjóðlegs bænadags kvenna. Ég var mætt klukkutíma fyrir stundina til að aðstoða við undirbúning vegna mauls á eftir og fór ekki fyrr en búið var að ganga frá öllu á eftir. Kvöldið eftir var árshátíð safnaðarstjórnar haldin og á sunnudeginum dreif ég mig loksins til æsku vinkonu og jafnöldru mömmu, til Keflavíkur og færði henni m.a. sálmaskrá.

Þann 10. mars var galdramessa og Bjargar-kaffi á eftir og þá þarf stjórnin að undirbúa báða sali og hlaðborð af ýmsu góðgæti á báðum hæðum og ganga svo frá á eftir. Þann 13. mars kom Lilja vinkona heim frá Spáni. Hún fékk að gista hjá mér í nokkrar nætur en varð svo samferða mér austur sl. laugardag til að sækja húsbílinn sinn til mömmu sinnar, hvar hann var búinn að vera í heimkeyrslunni síðan seinni partinn í september.

5.3.19

Saltkkjöt og "jóla"-baunir

Eftir vinnu í gær kom ég heim, náði í sunddótið og dreif mig í Laugardalslaugina. Þegar ég kom heim bjó ég til kjötbollur og skolaði gular baunir og lagði í bleyti. Í dag kom ég heim um fjögur. Hafði tæpan klukkutíma áður en ég varð að trítla af stað á safnaðarstjórnarfund upp í kirkju. Notaði þann tíma til að hella af baununum, setja þær í stærri botn, tæplega 3 lítra af vatni og sjóða upp á þeim. Kom heim af fundinum upp úr klukkan sjö. Setti saltkjötsbita út í baunapottinn og restina af rúmlega kílói af kjöti í annan pott með vatni. Kveikti á hellunum undir báðum pottum og skar niður kartöflur, rófu, gulrætur, lauk, hnúðkál og rauðkál. Grænmetið setti ég út í baunapottinn þegar þær voru búnar að malla með kjötbitanum í í rúman hálftíma. Klukkan var alveg að verða níu þegar maturinn var tilbúinn en það var alveg þess virði að bíða eftir honum. Og það var meðvituð ákvörðun að nota rauðkálið. En enginn tími var til að skreppa í sund í dag.

3.3.19

Engin austurferð um helgina en ýmislegt brallað

Á föstudaginn var mætti ég í kirkjuna mína rétt fyrir klukkan fimm. Ég var fyrst á staðinn en ég er með lykil sem gengur bæði að útidyrum Háteigsmeginn sem og eldhúsinu. Veit ekki hvort lykillinn gengur líka að aðal-kirkjudyrunum þar sem ég hef ekki prófað, en mér þykir það þó líklegt. Það var alþjólegi bænadagur kvenna og sameiginlega helgistundin byrjaði klukkan sex. Upphaflega átti stundin að byrja klukkan átta en til að organistinn í óháða gæti komið að verkefninu varð að færa til því hann var upptekinn klukkan átta. Ég var mætt svona snemma til að hjálpa til við undirbúning undir samfélagið/maulið eftir stundina. Við vorum nokkrar sem hjálpuðumst að og allt var til reiðu fyrir klukkan sex svo ég gat tekið þátt í mjög skemmtilegri stund. Það kom okkur á óvart hversu margir mættu og voru allir ánægðir með tímann.

Mætti í Laugardalslaugina um hálfníu í gærmorgun. Bílastæðin laugarmeginn voru öll upptekin en það var nóg af stæðum við völlinn. Strax eftir sundrútínuna fór ég í esperantohitting og áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni úti á Granda og keypti þvott á bíllinn hjá Löðri. Ákvað að sleppa því að mæta í Lífsspekifélagið, dútla heldur heima við þar til kominn var tími til að mæta á árshátíð óháða safnaðarins, þeirra sem vinna fyrir kirkjuna velflestir í sjálfboðavinnu. Smá forföll voru á þeim sem þekkst höfðu boðið en við vorum um 35. Grillvagninn kom og sá um aðalréttinn fyrir okkur en við vorum búin að hella upp á kaffi, setja skreytingar og glös á borðin og keypt hafði verið konfekt og súkkulaðikaka sem var boðið upp á á eftir. Organistinn og nokkrir kórfélagar sungu tvö lög og það var einnig fjöldasöngur. Mjög skemmtilega kvöldstund.

Var komin í laugina klukkan að ganga tíu. Lagði bílnum á sama stað og í gær. Þegar ég kom heim þeytti ég rjóma, hellti upp á kaffi og festi tölu á buxur fyrir Odd m.a. Um hálftvö lét ég loksins verða að því að skreppa til elstu vinkonu mömmu sem býr suður með sjó og færa henni sálmaskrána frá útförinni. Þær vinkonur voru jafngamlar aðeins um þrjár vikur á milli þeirra og þær voru búnar að þekkjast í yfir 70 ár. Stoppaði hjá vinkonunni í tvo tíma og margt spjallað. Hún spurði út í ýmislegt og rifjaði líka upp ýmislegt frá því þær mamma voru litlast skottur og næstu nágrannar. Var komin heim aftur upp úr fimm.

27.2.19

Febrúarlok nálgast

Febrúar bráðum búinn er
brátt þá kemur vorið.
Birtustundum fjölga fer
fáum úr því skorið.

Langt síðan andinn heltist svona yfir mig. Og auðvitað rataði þessi ferskeytla á vegginn minn. Verð að muna eftir því að setja hana líka hjá ljóðasafninu mínu.

Fór í lífspekifélagið á föstudagskvöldið var. Þar var kynning á Spring forest Qi Gong og við sem vorum á kynningunni fengum að prófa að fara í gegnum æfingarnar og elimentin fimm. Það var virkilega skemmtilegt. Sú sem sá um kynninguna sagði að hún yrði með hugleiðingu og frekari kynningu í félaginu strax daginn eftir. Ég fór líka á þann viðburð og sá ekki eftir því þótt ekki væru gerðar neinar verklegar prufur í það skiptið.

Ég var boðin í útskriftar -og "fögnum lífinu"- veislu sl. laugardagskvöld. Einkabílstjórinn keyrði mig á staðinn um átta. Skemmti mér mjög vel í þessu partýi hitti nokkrar manneskjur sem ég þekki en mismunandi langt síðan ég hef hitt þær. Hitti líka eina sem ég hef heyrt mikið um en aldrei hitt áður. Tíminn leið alltof hratt enda var mjög gaman eins og áður hefur komið fram. Sendi skilaboð til einkabílstjórans upp úr miðnætti um að sækja mig um eitt. Hann sá þau klukkan eitt og kom ekki fyrr en um hálftvö. Ég var samt ekkert farinn að bíða eftir honum.

21.2.19

Þrumur og eldingar

Eftir þrjá sunddaga í röð rennur upp annar fimmtudaginn í röð sem ég sleppi sundi. Það er þó ekki endilega vegna þrumuveðursins heldur var settur á bland af frænku og vinkonu hittingi. Ein sameiginlega vinkona mín, og einnar frænku minnar og nöfnu, sem hefur unnið með okkur nöfnunum báðum ákváðum að hittast hjá nöfnu minni á nýja heimilinu hennar. Hún fluttist innan Garðabæjar í desember sl og ég var aðeins búin að kíkja einu sinni á hana, rétt fyrir jól, þegar hún var enn að koma sér fyrir og átti m.a. eftir að fá hluta af eldhúsinnréttingunni upp. Ég fékk að hætta vinnu rétt fyrir þrjú og sameiginlega vinkonan renndi við eftir mér. Ég sá þá um að leiðbeina henni heim til frænku minnar. Við þrjár höfum ekki hist allar saman síðan í nóvember 2017. Frænka mín tók vel á móti okkur en bað okkur að afsaka óreiðna hjá sér. Ég gat ekki séð neina óreiðu en hún átti líklega við þá hluti sem enn er verið að vinna að eftir flutningana.

20.2.19

Aðeins rúm vika eftir af febrúar

Þriðja daginn í röð fór ég í sund mjög fljótlega eftir að ég var búin að sinna vinnuskyldunni og sækja sunddótið og bílinn heim. Sundrútínan tekur lágmark uþb klst og í dag bættist einhver aukatími við vegna hárþvottar og þurrkunar. Ég sápuþvæ hárið á ca viku fresti. Þess á milli kemst ég upp með að setja það í hnút og troða því undir sundhettu sem ég tek ekki af fyrr en eftir sundrútínu og sturtu. Hárið er yfirleitt nánast þurrt eftir. Það er aðeins ef ég syndi nokkrar ferðir á bakinu að það virðist vætla meira inn fyrir hettuna, en ekkert þó sem orð er á hafandi.

Það var hringt í mig í dag frá blóðgjafafélaginu og ég boðuð á aðalfundinn hjá þeim sem verður fyrsta fimmtudagskvöldið í næsta mánuði. Ég var spurð að því hvort mætti senda mér sms um viðburðinn. Mér fannst það ekki spurning, þáði þetta með þökkum og má meira að segja bjóða einhverjum að koma með mér. Þetta verður eitthvað.

19.2.19

Meira um bækur

Ég er byrjuð að lesa tvær af þeim sjö bókum sem komu með mér heim af safninu á föstudaginn var; Ævintýri og sögur frá nýja Íslandi tekið saman af Wwilliam D. Valgardson þýdd af Böðvari Guðmundssyni og Þitt annað líf hefst þegar þú uppgötvar að þú átt bara eitt eftir Rahaëlle Gio. Verð líklega ekki lengi að klára þessar tvær. Sú síðarnefnda er eiginlega þannig að maður vill helst ekki hætta að lesa. Er búin með uþb einn fjórða af þeirri bók og ég mun klára hana í síðasta lagi annað kvöld.

Annars fékk ég að hætta vinnu upp úr tvö. Fór beint heim en stoppaði ekki mjög lengi þar. Var komin í Laugardalslaug um hálffjögur. Eftir sund- og pottarútínuna kom ég aðeins við í Krónunni við Nóatún til að versla það sem upp á vantaði til að hafa vefjur með hakki og grænmeti.  Davíð Steinn sá svo um að útbúa kvöldmatinn.

18.2.19

Aðeins um bækur

Í síðustu viku fékk ég lánaða bókina Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Á föstudaginn rann út skilafrestur á þeim fjórum bókum sem ég var með á safninu. Hefði getað framlengt frestinum um 30 daga en ég var búin að lesa þessar bækur að mestu og það sem ég var ekki búin með hafði ég ekki áhuga á eyða lengri tíma í að glugga í. Og þrátt fyrir að vera með eina bók í láni og þar að auki eina ólesna jólabók þá komu sjö bækur með mér heim af safninu. Um síðustu helgi tók ég lánsbókina og tvær af safninu með mér austur. Ég tek venjulega ýmislegt með mér og pakka niður fyrir nokkra daga þótt ég ætli bara að vera yfir nótt. En að þessu sinni eltu lesgleraugun, +1, mig ekki. Sem betur fer þarf ég ekki alltaf að nota þau, sleppur alveg í góðri birtu og með vel hvíld augu. Lánsbókin greip mig strax á fyrstu blaðsíðu, skemmtilega sett upp, spennandi og áhugaverðar pælingar. Tók þá bók með mér í vinnuna í morgun og var svo þrælheppinn að geta nýtt, kaffi, matar og smá af vinnutímanum í lestur þannig að ég náði að klára bókina og skila henni.

17.2.19

Hellublót 2019

Þegar pabbi spurði mig, fyrir uþb 10 dögum síðan, hvort hann mætti bjóða mér á þorrablót á Hellu sagði ég strax; "Já takk!", þrátt fyrir að það væri árshátíð hjá RB sama kvöld. Árshátíðin hjá vinnunni minni hefur oftast verið haldin í mars og einhverra hluta vegna var ég alls ekki stemmd fyrir því að fara núna. Ég hef hins vegar aldrei farið á þorrablót hér fyrir austan öll þessi 20 ár síðan það var haldið fyrst. Þetta var semsagt tuttugu ára afmælisblót, uppselt og húsfyllir eða vel yfir 500 manns. Pabbi hefur heldur ekki farið á blót áður en að þessu sinni ákvað hann að slá til. Það var líka vel tekið á móti honum og honum heilsað hlýlega af mjög mörgum. Hann fékk úthlutað á sæti á besta stað. Dekkuð voru yfir 50 10 manna borð og tveir að hinum borðsgestunum voru pabbi æskuvinkonu minnar og með honum var skólasystir mömmu frá því í húsmæðraskólanum á Blöndósi fyrir uþb 60 árum síðan. Var að hitta þá konu í fyrsta skipti og líkaði vel við. Hún spurði mig hvort ég hefði ekki verið heimagangur hjá Sigrúnu heitinni og Val hér árum áður og kannaðist vel við það og sagði hann ætti alveg stóran part í mér. Blótið var annars verulega vel heppnað, súrmaturinn frá Múlakaffi, heimatilbúin skemmtiatriði, smá harmonikkuball á eftir og svo lék Stuðlabandið fyrir dansi eitthvað fram eftir. Við pabbi vorum mætt á staðinn upp úr klukkan sjö og létum svo gott heita þegar ég hélt að það væri uþb miðnætti en þá var klukkan að byrja að ganga tvö. Pabbi keyrði en við vorum hvorugt í víni og ég fór ekkert á dansgólfið að þessu sinni. Var ekkert í svoleiðis stuði (kannski næst) en hitta marga en þó ekki alla. Í morgun fékk ég mér svo göngutúr upp að Helluvaði og var systir hans pabbi mjög hissa en mikið ánægð með að litli bróðir hennar hafi drifið sig á blót.

13.2.19

Febrúar næstum hálfnaður

Í gærkvöldi bað ég einkabílstjórann um að gera sér ferð  í Sorpu í dag. Svo vildi svo vel til að hann var akkúrat á ferðinni um það leyti sem ég mátti fara heim úr vinnu sem var aðeins í fyrra fallinu. Hann sótti mig rétt fyrir þrjú og ég bað hann um að skutlast með mig í fyrirtækið "Eins og fætur toga" til að sækja nýju innleggin mín. Það gekk fljótt og vel fyrir sig því. Ég notaði tækifærið og keypti tvo aukapúða undir vinstri hælinn í skó sem ég set ekki eða kem ekki innleggjunum í. Ég stoppaði ekki lengi heima, bara rétt til að ná í sunddótið mitt. Var komin ofan í kalda pottinn rétt fyrir klukkan fjögur. Fékk gott pláss á brautum 7 og 8 til að synda mína 500 metra. Sundrútínan, pottaferðir og gufan tók mig rétt rúmlega klukkustund.

11.2.19

Auka heimsókn til tannlæknis

Um miðjan nóvember síðast liðinn fór ég í árlegt tanneftirlit um mánuði seinna en mörg undanfarin ár. Ástæða seinkunarinnar var sú að tannlæknirinn minn var kominn í barnsburðarleyfi og þessi tími var næsti lausi tími hjá öðrum tannlækni. Sá sem sinnti eftirlitinu tók tvær myndir og benti mér á að það borgaði sig að bóka tíma fljótlega til þess að huga að skemmd uppi hægra meginn alveg út í enda. Það eru einhver ár síðan var gert við á þessum stað en ég á greinilega mjög erfitt með að bursta þennan stað. Ég ákvað að taka mark á þessari ábendingu og bókaði tíma eftir að ég hafði gert upp heimsóknina þennan dag. Vildi þó ekki fá tíma í desember eða janúar og fyrsti tími eftir hádegi í febrúar hjá þessum tannlækni var kl. 15:45 í dag. Var svo heppin að eiga kost á því að skreppa fyrr heim úr vinnu til þess að sækja bílinn og sunddótið. Var mætt á 4. hæð í Valhöll tæpum tíu mínútum fyrr. Komst að á réttum tíma og þrátt fyrir að það þyrfti að deyfa, bora, pússa, spasla og fleira tók þetta innan við hálftíma. Næst fer ég í árlegt eftirlit í lok október til tannlæknisins míns en hún kemur til vinnu aftur úr fæðingarorlofi núna í vor. Ég var komin í Laugardalinn rétt fyrir hálffimm.

Annars fór ég ekkert austur um helgina. Eftir sund og esperanto á laugardaginn notaði ég restina af deginum í ýmislegt dútl hér heima. Í gær fékk ég Odd til að koma og hjálpa mér við að undirbúa maulið eftir messuna. Davíð Steinn var að vinna 12 tíma vakt (10-22) á N1 í Borgartúni. Hann fór labbandi um morguninn en gleymdi að taka með sér strætókortið. Oddur skutlaði mér í Krónuna við Nóatún og skutlaðist með kortið til bróður síns á meðan ég verslaði aðeins inn fyrir maulið sem og heimilið. Ég var komin út á plan með pokann áður en Oddur kom aftur. Hann sá svo um að undirbúa efri safnaðarsalinn undir móttöku á kirkjugestum í maulið eftir messuna. Hann fór upp með bolla, glös og fleira. Ég hellti upp á kaffi, skar niður gulrótarköku, jólaköku og setti á diska og setti einni tvær smákökusortir í skálar. Undirbúningurinn tók okkur mæðginin um þrjú korter og svo leyfði ég honum að fara en ég var sest inn í kirkju rétt áður en messan hófst. Við vorum amk 34 í kirkjunni. Sat svo róleg í maulinu á eftir og drakk amk 2 kaffibolla og spjallaði við einn kirkjugestinn. Var tæpan klukkutíma að ganga frá á eftir, m.a. vegna þess að það var aukauppvask, tvær fullar grindur af bollum, glösum og diskum voru í þurrskápnum. Sennilega var eitthvað af því hreint en það var búið að setja óhreint leirtau saman við (sem á aldrei og alls ekki að fara þangað óuppvaskað) svo ég ákvað að renna því öllu í gegnum þvottavélina. Sendi einkabílstjóranum og sérlega aðstoðarmanni mínum skilaboð um að hann mætti sækja mig rétt fyrir klukkan hálffimm.

7.2.19

Fyrsti dagur í vinnu eftir stutt frí

Það var vel tekið á móti mér á K1 þegar ég mætti rétt fyrir klukkan átta í morgun. Þar að auki reyndist þessi vinnudagur mjög svo gestkvæmur. Petra sem hætti í kortadeildinni í fyrra eftir rúmlega 12 ára starf kom til okkar um það bil sem við vorum að fara að morgunkaffi. Klukkan eitt var reglubundinn hálfsmánaðarfundur með framkvæmdastjóra og að þessu sinni var nýr forstjóri með í för að kynna sig og kynnast starfseminni hjá okkur. Og um þrjú leytið kom fyrrverandi starfsmannastjóri í heimsókn.

Annars var mjög notalegt að vera í fríi í gær. Var tiltölulega snemma á fótum en notaði morguninn í að hringja í pabba og einnig klára jólabók númer tvö af þremur sem ég byrjaði á að lesa í ferðalaginu. Þorpið eftir Ragnar Jónasson. Virkilega spennandi og góð bók. Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég dreif mig loksins í sund. Gaf mér góðan tíma í Laugardalnum. Á heimleiðinni kom ég við í Krónunni í Nóatúni og Fiskbúð Fúsa í Skipholti. Restin af deginum fór í alls konar dúllerí heima, m.a. prjónaskap en ég byrjaði á enn einu sjalinu kvöldið fyrir Kanaríferðina. Er komin á þriðju dokku núna.

6.2.19

Komin heim frá Kanarí

Síðustu vikuna í september síðast liðinn gisti góð vinkona, Lilja, í stofunni hjá mér áður en hún fór út til vetrardvalar á Kanaríeyjum. Þessa viku sem hún var hjá mér spurði hún mig nokkrum sinnum hvort ég myndi ekki koma og heimasækja hana. Seinni parinn í nóvember varð það úr að ég athugaði hvort það væri í lagi að ég kláraði sumarfrídagana mína frá því í fyrra um mánaðamótin jan/feb 2019. Það gekk eftir og ég bókaði viku ferð með WOW út þann 29. janúar með eina litla handfarangurstösku og heim þann 5. febrúar með ferðatösku. Með sköttum og forfallatryggingu kostaði þetta vel innan við 50 þúsund.

Á mánudaginn í síðustu viku fékk ég að hætta í vinnu um hálftvö. Tók strætó heim til að sækja bílinn og byrjaði á því að skreppa í "Eins og fætur toga" til að leggja inn pöntun fyrir nýjum innleggjum og kaupa mér nýja strigaskó. Ætlaði líka að kaupa mér auka 7mm púða undir vinstri hælinn en það gleymdist. Kom reyndar ekki að sök því ég átti til innlegg með upphækkun sem ég gat notað. Áður en þessi dagur var úti var ég líka búin að skreppa í sund og pakka mig saman. Tvíburahálfsystir mín kom við hjá mér upp úr klukkan fimm til að hjálpa mér að setja upp bókunarapp í símann og ég var búin að skrá mig inn í flugið með því appi og pósti frá wow áður en hún fór.

Morguninn eftir keyrði einkabílstjórinn minn á BSÍ rétt upp úr klukkan sex þaðan sem ég tók rútu upp á flugvöll. Vel gekk að koma sér í gegn en þótt ég hefði rúman tíma þá notaði ég hann einungis til að taka út 300 evrur úr hraðabanka en settist svo niður og beið þar til kominn var tími til að ganga um borð. Fékk mér hvorki vott né þurrt þessi tvö harðsoðnu egg og vatnsglas stóðu með mér alveg þar til boðið var upp á að kaupa sér hressingu um borð. Flugið út tók styttri tíma en reiknað var með og vorum við lent amk tuttugu mínútum á undan áætlun, það snemma að Lilja vinkona var ennþá í strætó á leiðinni að sækja mig og þurfti ég að bíða smástund eftir henni. Það urðu fagnaðarfundir þegar hún fann mig. Við byrjuðum á því að skreppa með dótið mitt "heim" til hennar í þorp sem heitir Vecendario sem er ekkert mjög langt frá flugvellinum. Lilja bauð mér upp á súpu og kaffi. Svo skruppum við aðeins út í búð til að kaupa helstu nauðsynjar fyrir næstu daga, m.a. BACH-hvítvínsflösku. Sambýlingur Lilju síðustu mánaða skrapp til Íslands með vélinni sem ég kom með. Hún var búin að vera rúmum mánuði lengur á Kanarí og þurfti að koma heim áður en liðnir væru 6 mánuðir frá því hún fór út til að halda ákveðnum réttindum hér heima. En í stað þeirrar konu var von á annarri með öðru flugfélagi sama kvöld og ég kom. Sú lánaði hinni íbúðina sína í viku og fékk herbergið hennar í staðinn. Við Lilja fórum saman út á flugvöll að sækja viðkomandi. Lögðum tímanlega af stað en nú brá svo við að það var seinkun í gangi og við biðum í hátt í tvo og hálfan tíma á vellinum. Það var svo sem í góðu lagi því það var hægt að setjast niður og fá sér smá hressingu. Það var svo ákveðið að taka leigubíl heim. Fórum ekki að sofa fyrr en fór að halla í miðnætti.

Við vorum vaknaðar og komnar á stjá rétt upp úr klukkan átta á miðvikudagsmorguninn. Gáfum okkur góðan tíma í fá okkur kaffi og staðgóðan morgunverð, gríska jógúrt með múslí og epli. Síðan fórum við allar þrjár út í göngutúr um Vecendario. Fórum m.a. upp á göngugötu sem Lilja sagðist kalla Laugaveginn, tæplega km löng. Við skoðuðum inn í margar búðir og ég keypti mér bakpoka, buxur og stuttbuxur. Við fórum líka á markað þarna í grenndinni sem er alltaf á miðvikudögum og margt að sjá og finna þar. Ég keypti ekkert þar en hinar tvær fjárfestu m.a. í allskonar hollustu nammeríi eins og möndlum, fíkjum, döðlum og fleiru.

Á fimmtudeginum fengum við okkur 45 mínútna göngutúr að öðru þorpi, Paya de Pozo izquario, sem er alveg við sjóinn. Þar stoppuðum við í góða stund og tvær af okkur skelltu sér í smá sjóbað. Héldum göngunni svo áfram, fundum aðra leið heim og vorum þá búnar að ganga í stóran hring. Seinni partinn skruppum við svo í Mollið í Vecendario.

Á föstudaginn tókum við strætó til Faro. Þar keypti ég mér sandala og strandmottu enda eyddum við góðum tíma á ströndinni þar. Lilja var sú eina sem ekki fór í sólbað og sjóinn en hún var með sessu og bók með sér og beið þolinmóð eftir okkur hinum tveimur.

Morguninn eftir vildi hinn gesturinn fara eigin leiðir og skoða aðra strönd í öðru þorpi en við Lilja tókum stærtó upp í fjöllinn og eyddum deginum í einu af efsta fjallaþorpinu sem var endastöð strætó. Það var mjög gaman að ferðast með strætó alla þessa leið og margt að sjá. Á mörgum stöðum þurfti bílstjórinn að flauta fyrir horn. Í þorpinu sjálfu var líka ýmislegt að skoða. Við prófuðum m.a. útiæfingatæki sem ætluð voru öllum eldri en 15 ára. Við vorum þau löngu búnar að skoða það helsta og einnig fá okkur hressingu áður brottfarartími vagnsins til baka (um sex) rann upp. En þatta var mjög skemmtilegur dagur sem endaði með smá Pizza-veislu heima í íbúð.

Á sunnudeginum var ætlunin að fara á markað stutt frá ensku ströndinni. Svæðið sem Lilja fór með okkur á reyndist autt og tómt en áður en við vorum búnar að ákveða framhaldið bar að þýskan mann sem er búsettur í nágrenninu helminginn af árinu. Hann vissi hvert var búið að flytja markaðinn og rölti með okkur þangað spjallandi við Lilju á sínu móðurmáli. Markaðurinn reyndist öðruvísi en við ætluðum, t.d. ekkert grænmeti til sölu bara alls konar varningur í misjöfnu ástandi. Hinn gesturinn fann reyndar afar flotta styttu af konu í flottum bláum kjól og prúttaði niður í 7 evrur. Alveg við markaðinn var kaffihús og þar bauð egypskur maður okkur að setjast hjá sér. Þegar kaffið okkar kom var svarta kaffið kalt og ódrekkandi og Abú skilaði þeim bollum og kom með heitara kaffi í staðinn. Hann krafðist þess líka að fá að borga fyrir kaffið en þegar hann bauð okkur á rúntinn með sér sögðum við hingað en ekki lengra. Þökkuðum pent fyrir og sögðumst vera ákveðnar í að fara fótgangandi á næsta áfangastað sem var Jumbó Center á ensku ströndinni. Þangað var nokkur spölur en mjög skemmtileg ganga þangað, þurftum að svindla okkur yfir götur á tveimur stöðum þar sem við sáum ekki gangbraut nálægt en þurftum yfir. Fengum okkur að borða á stað sem er stutt frá stað sem í mörg ár var kallaður Klörubar. Og þegar við héldum göngunni áfram á þann stað þar sem við tókum strætó til baka til Vecendario sá ég Europalace hótelið tilsýndar, hótelið sem ég og nokkrir af útskriftarfélögum úr FSu dvöldum á í hálfan mánuð fyrir 31 ári síðan.

Á mánudaginn löbbuðum við hinn hina leiðina að ströndinni við Pozo þar sem tvær af okkur fóru í sólbað og sjóinn áður en við löbbuðum aftur til baka. Skiluðum af okkur stranddótinu og fórum svo í stærstu Kína-búðina í Vecendario þar sem ég keypti m.a. stærri tösku sem ég gat bæði sett flugreyjutöskuna mína, mitt dót sem ég var ekki með í bakpokanum og einnig nokkuð af verkfærum sem Lilja keypti sér í London í haust á leiðinni til Kanarí. Kínabúðtaskan er fjólublá og flott og tók leikandi við þessu öllu og fór ekki yfir þyngdarmörkin 23kg vó uþb 21,5kg og ég náði þarna að bjarga Lilju svo hún þarf ekki að borga yfirvigt þegar hún tekur sig upp frá Vecendario.

23.1.19

Miðvikudagskvöld

Kom ekki heim úr vinnu fyrr en rétt upp úr klukkan fimm í dag og ég hef ekki nennt út aftur. Hefði þurft að fara og sinna sund-rútínunni en hugga mig við það að ég fór í sund bæði í gær og í fyrradag. Auðvitað er alveg í lagi að hvíla kropparæktina dag og dag og það er jafnvel æskilegt á stundum.

Er að horfa á  Danmörk-Svíþjóð á HM á Rúv2. Þetta er hörku leikur og ég er ekki viss um með hvoru liðinu ég á að halda. Megi betra liðið vinna og leikurinn halda áfram að vera skemmtilegur á meðan hann er í gangi.

Sjalaprjónið gengur alveg ágætlega, á kannski svona tuttugu umferðir eftir áður en ég felli af.

20.1.19

Ekki út úr bænum þessa helgina

Síðast liðin vika var fljót að líða. Fékk að fara  heim úr vinnu um hálfþrjú á miðvikudaginn og horfði á megnið af landsleiknum hér heima. Strax eftir  leikinn sótti ég jafnöldru, vinkonu og fyrrum vinnufélaga og við byrjuðum á því að skreppa í IKEA til að fá okkur kaffi. Sátum þar og spjölluðum í á aðra klukkustund. Síðan skruppum við á rúntinn um Breiðholt og Árbæ og þegar ég skilaði henni heim skrapp ég með henni inn til að heilsa upp á kisuna hennar og stoppaði í amk klst. Var með sunddótið með mér í bílnum en þegar til kom fór ég beint heim eftir þennan hitting enda klukkan byrjuð að ganga níu.

Á fimmtudaginn var landsleikurinn klukkan fimm og ég horfði á hann heima og fann til og borðaði kvöldmat áður en ég fór í sundið. Þegar ég kom heim úr vinnu á föstudaginn lagði ég áherslu á að koma smá skikk á heimilið. Var eitthvað að spá í að skreppa á fund/fyrirlestur í Lífsspekifélaginu en þegar til kom nennti ég engan veginn að fara út aftur. Slakaði bara á fyrir framan skjáninn með prjónana með mér. Var farin að sofa fyrir miðnætti.

Í gærmorgun var ég mætt í sundið upp úr klukkan hálfníu. Þá var ég eignlega búin að ákveða að fara ekkert út úr bænum þessa helgina. Úr sundinu fór ég beint í espernatohitting og var mætt vestur í bæ áður en klukkan sló hálfellefu. Hringdi í pabba þegar ég kom heim og hann var sammála mér um að vera ekkert að leggja upp í nein ævintýri og nota frekar helgina í hluti sem eru nauðsynlegir en leiðilegt að framkvæma og skrifa um.

Er búin að lesa eina af jólabókunum, Hasím og er sú bók mjög vel skrifuð og vekur mann til umhugsunar. En ég er líka að lesa mega spennandi bók af safninu; Hellisbúinn eftir Jörn Lier Horst. Er rúmlega hálfnuð með þá bók og skil varla hvernig ég gat lagt hana frá mér.

15.1.19

Saumaklúbbur og bókasafnsferð

Þar sem HM handbolta-leikurinn við Barein byrjaði klukkan hálfþrjú horfði ég á hann í vinnunni í gær. Fékk far heim. Hringdi örstutt í pabba en dreif mig svo í sund. Kom reyndar við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni í sundið og keypti nætursaltaða ýsu og fiskibollur. Náði að sinna sundrútínunni mjög vel, þ.e. fór nokkrar ferðir í kalda pottinn, synti í tuttugu mínútur og gufaðist smávegis. Við Oddur Smári vorum sammála um að hafa fiskibollurnar í kvöldmatinn og geyma okkur þann nætursaltaða.

Á slaginu klukkan átta var ég mætt til tvíburahálfsystur minnar bæði með saumatöskuna og prjónana. Prjónaði og spjallaði og spjallaði og prjónaði enda er drjúgur tími liðinn síðan haldinn var saumaklúbbur síðast. Klukkan var líka allt í einu orðin ellefu, örstuttu síðar.

Kom heim  úr vinnu í dag um hálffjögur. Strákarnir voru báðir heima. Ég stoppaði nú ekki lengi við. Hringdi í pabba og spjallaði stund við hann. Tók svo til sunddótið mitt og bókasafnsbækurnar. Byrjaði á því að skila inn bókunum áður en ég dreif mig í sundið. Á leið heim úr sundinu kom ég við í Krónunni. Var svo með þann nætursaltaða í matinn í kvöld.

Er annars að fylgjast með leiknum Þýskaland - Frakkland. Mikil spenna.

13.1.19

Áfram Ísland

Vó, það er erfið bárátta framundan hjá íslensku handboltastrákunum næsta klukkutímann eða svo. Vonandi ná þeir samt að stríða Spánverjunum.

Skrapp austur eftir sund og esperanto í gær. Var með prjónadótið, bækur og tösku með mér. Í kaffitímanum ákváðum við pabbi að hafa rauðsprettu í kvöldmatinn og að ég myndi sjá um að framreiða hana. Annars fór seinni parturinn og kvöldið í handboltagláp, prjónaskap, lestur og kapallögn. Náði að klára að lesa síðustu bókasafnsbókina svo nú mun ég klárlega loksins byrja á jólabókunum. Er líka búin að klára eina dokku af sjö í sjalinu sem ég byrjaði að prjóna á fimmtudagskvöldið var.

Lét Davíð Stein vita þegar ég lagði af stað heim upp úr klukkan hálfþrjú í dag og renndi við á Bakkanum eftir honum. Hérna heima eru nú mættir tveir auka piltar og eru þá fjórir ungir menn, ef ég tel þetta rétt, að spila í holinu.


10.1.19

19 ár í kortadeild RB í dag

Eftir nokkuð langa prjónapásu og mikla umhugsun er ég að hugsa um að prjóna enn eitt sjalið. Og jafnvel kannski tvö í viðbót. Kom við í Hagkaup í Skefunni eftir sund áðan og keypti mér m.a. nokkrar dokkur og tvo liti af kambgarni. Það gæti alveg farið svo að ég byrji strax í kvöld.

Annars ætlar þessi fyrsta heila vinnuvika á árinu að verða frekar fljót að líða. Sl. þriðjudag hafði ég tök á því að hætta aðeins fyrr í vinnunni. Skrapp heim, hringdi í pabba, náði í sunddótið og dreif mig í sund. Náði að klára rútínuna á ca klst. Úr sundi fór ég beint á fyrsta safnaðarstjórnarfund ársins sem var haldinn heima hjá formanninum sem býr í Grafarvoginum. Ritarinn hafði boðað forföll svo ég var beðin um að hlaupa í ritaraskarðið. Fundurinn stóð yfir í um það bil klukkutíma en strax á eftir var okkur boðið í mat, dýrindis kjötsúpu og kaffi og með því á eftir. Löngu eftir að við vorum búin að gæða okkur á veitingunum héldum við áfram að spjalla um eitt og annað og klukkan var langt gengin í tíu þegar ég kom heim.

Er ekki farin að demba mér í sjóinn  á nýja árinu. Ákvað að fara frekar í sund í gær. Áður kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti "allsbera" ýsu og hrogn sem ég hafði í matinn í gær handa mér einni. Annar sonurinn er farinn í nokkurra daga heimsókn til föðurforeldra sinna og hinn var að vinna til klukkan átta og var búinn að borða þegar hann kom heim. Þannig að ég bjó til einskonar plokkfisk úr afgangnum í kvöld, hafði hluta af hrognunum í þeirri blöndu og fannst þetta frekar gott.

7.1.19

Lagt inn í blóðbankann

Upp úr klukkan ellefu í morgun fékk ég bæði sms og mail frá Blóðbankanum þar sem var spurt hvort ég gæti komið að gefa blóð í dag. Ég var alveg með það á hreinu að ég myndi hlýða kallinu og þótt ég væri þá þegar búin að vera frekar dugleg í vatnsdrykkjunni bætti ég í. Var komin í Blóðbankann fyrir klukkan fjögur. Á meðan ég beið eftir að verða kölluð til fékk ég mér tvö glös af appelsínudjúsi, eitthvað sem ég geri aðeins þegar ég fer og gef blóð, eina kleinu og nokkrar rúsínur. Allar mældar tölur voru góðar og ákveðið var að taka úr vinstri hendinni sem yfirleitt hvefur verið "þægari". Nú brá svo við að æðin hrökk undan nálinni og ekki kom dropi. Ég gaf fúslega leyfi til að prófa hvort gengi betur með hægri hendina. Hjúkrunarfræðingurinn gaf sér góðan tíma og fékk aðra til að aðstoða sig á tímabili en allt gekk glimrandi vel og áður en ég labbaði heim fékk ég mér kaffibolla, rúgbrauð með kæfu og gúrku, eina kleinu til og fleiri rúsínur.

6.1.19

Þrettándinn

Ég er nýkomin heim frá Hellu. Var komin þangað upp úr klukkan hálfþrjú í gær. Oddur Smári sendi mig með nýkeypt belti og bað mig um að fá afa sinn til að bæta við götum á það. Pabbi vatt sér beint í það mál. Við feðginin skiptum svo með okkur verkum í eldhúsinu. Hann sá um kaffitímann og bauð þar m.a. upp á vöfflur og rjóma. Hann tók svo út rauðsprettu til að hafa í kvöldmatinn. Ég sá um að elda rauðsprettuna um kvöldið og hafði með henni kartöflur, lauk og epli. Fékk mér hvítvínsglas með matnum og annað til eftir matinn.

Var ekki með neina handavinnu með mér en nokkrar bækur, samt ekki bækurnar sem ég fékk í jólagjöf. Er að spara mér lesturinn á þeim en hlakka til að lesa þær allar þrjár engu að síður. Allt bækur sem mig langaði í og ég veit ekki hvernig ég fer að því að velja hverja þeirra ég les fyrst. Er að vinna í að lesa bækur sem ég þarf að skila á safnið seinna í mánuðinum. Er langt komin með að lesa bókina Utan þjónustusvæðis krónika, eftir Ásdísi Thoroddsen. Erfiðara gengur að lesa Sögu þernunnar eftir Margret Atwood og ég er búin að framlengja skilafrestinum á þeirri bók og þarf að skila henni í síðasta lagi 15. janúar. Ég er búin að lesa örfáa kafla en aðrar bækur inn á milli sem hafa togað meira í mig að háma í mig.

2.1.19

Um það bil tveggja daga gamalt nýtt ár

Ég var komin heim fyrir klukkan hálfníu í gærkvöldi. Báðir synir mínir voru heima og annar þeirra gaf mér gott knús og sagði um leið: "Mamma, ég er ekki búinn að sjá þig síðan í fyrra!" Hinn sonurinn kom fram til þess að fara niður í þvottahús að hengja upp úr þvottavélinni. Annað skiptið sem hann þvær af sér alveg sjálfur.

Fjórða vinnudaginn í röð fór ég á bílnum í vinnuna í morgun. Strax eftir vinnu fór ég beint í Kringluna á þjónustuborðið á fyrstu hæð og keypti mér þriggja mánaða strætókort sem gildir frá og með morgundeginum. Ég var svo heppin að boðuð hækkun á fargjöldum tekur ekki gildi fyrr en á morgun og fékk því þetta kort á kr. 26.900 í stað kr. 27.950. Næst lagði ég leið mína í Fiskbúð Fúsa í Skipholti þar sem ég náði mér í bleikjuflök til að hafa í kvöldmatinn. Svo skrapp ég í sund áður en ég fór heim.

31.12.18

Gamlársdagur

Enn lifa rúmlega átta og hálfur tími eftir af þessu herrans ári 2018. Undirrituð er komin austur á Hellu þar sem hún ætlar að eyða áramótunum með pabba sínum. Heill mánuður síðan eitthvað var skráð niður á þessum vettvangi og á þessum mánuði hefur ýmislegt verið brallað.

Skrapp nokkrar ferðir hingað en sleppti helginni sem aðventukvöldið var sem og helginni rétt fyrir jól. Hins vegar kíkti ég við í dagsferð þann 15. desember en var komin heim aftur um kvöldið því bæði vildi ég  komast í sund á sunnudagsmorgninum og um fimm leytið þann dag sótti Brynja mig og við fengum okkur að borða á Nings áður en við fórum að sjá "Kvenfólk" með Hundi í óskilum í Borgarleikhúsinu. Afar skemmtleg uppsetning og þar að auki hitti ég þó nokkra fyrir og eftir sýningu sem annað hvort voru á sömu sýningu eða á Ellý.

Akkúrat viku eftir leikhúsferðina sótti Brynja mig aftur um klukkan hálfsex á Þorláksmessu og þá lá leiðin á Pottinn og Pönnuna í skötuhlaðborð þriðja árið í röð. Gáfum okkur góða tvo tíma í át og spjall áður en Brynja skilaði mér aftur heim.

Á aðfangadagsmorgun byrjaði ég á því að skreppa í sund rétt upp úr klukkan átta. Synir mínir vöknuðu upp úr tólf og ekkert mjög löngu síðar vorum við búin að ferma bílinn. Einkabílstjórinn sá um aksturinn og við gerðum stutt stopp í Fossheiðinni, fengum kaffi, knús og með því þar.

Jólin héldum við á Hellu með pabba og Helgu systur og hluta af hennar fjölskyldu. Aðeins kærustuparið var ekki, þar sem þau voru hér í fyrra voru þau hjá mömmu hans og fjölskyldu í ár.

Á annan í jólum skruppum við pabbi í messu í Keldnakirkju um tvö. Kvöddum norðanfólkið áður en tvíburarnir biðu eftir okkur á Hellu. Við mæðgin fengum okkur kaffi áður en við kvöddum og héldum heim á leið.

26.11.18

Síðustu dagar næst síðasta mánaðar ársins

Sem fyrr æðir tíminn áfram og ég leyfi dögunum að líða án þess að punkta niður eitthvað um það sem er að gerast. Ef ég segi gróflega aðeins frá því helsta og byrja á því sem er nýlega búið að vera í gangi þá skrapp ég austur rétt upp úr hádegi í gær og stoppaði fram yfir kvöldmat. Hafði reyndar ætlað mér að fara á laugardaginn og gista eina nótt en aðfaranótt laugardagsins fékk ég gubbupest sem varð til þess að ég fór ekkert á laugardeginu. Svaf fram á dag og tók því svo rólega, aðallega með bók í hönd.

Upp úr klukkan fimm á fimmtudaginn var kom N1 strákurinn minn með mér á dekkjaverkstæðið í Fellsmúla. Þar keypti ég ný nagladekk og lét setja undir og notaði um og yfir 20% afslátt sonarins af vörum og vinnu. Hjólbarðarnir sem voru undir bílnum voru settir aftur í aftursætin. Þegar ég kom heim færði ég tvo af þeim í skottið. Pabbi tók svo við þeim um leið og ég kom austur í gær og ég hjálpaði honum að koma þeim fyrir í einu horninu í bílskúrnum hans. Áður en við fórum inn athugaði pabbi fyrir mig hvort rærnar á nagladekkjunum væru ekki örugglega vel fastar.

Ég fór austur og gisti eina nótt helgina á undan nýliðinni helgi. Var ekki með neitt sérstakt verkefni í gangi líkt og helgina þar á undan en þá útbjó ég 16 jólakort í viðbót við þau fimm sem ég hafði verið búin að búa til. Reyndar hafði ég skrifblokk með mér austur ef ég fengi andann yfir mig til að skrifa eitthvað af þeim þremur jólabréfum sem ég sendi með þeim þremur jólakortum sem fara út fyrir landsteinana. Andinn kom ekki yfir mig.

Á miðvikudagskvöldið var skellti ég í aðra uppáhaldssmákökusortina og að þessu sinni byrjaði ég að sortinni sem er uppáhaldið hans Davíð Steins (eggjahvítu-kornflekskökur með suðusúkkulaði og kókosmjöli). Hin uppáhaldssortin verður líklega ekki bökuð fyrr en á miðvikudagskvöldið kemur, lakkrístoppar.

Fyrir klukkutíma fjárfesti ég í jólagjöfinni minni á heimkaup.is, ný þvottavél sem strákarnir ætla að taka þátt í að gefa mér. Ég fæ gripinn eftir klukkan fimm á miðvikudaginn kemur og sú gamla verður fjarlægð í staðinn.

Að lokum aðeins um tvær af þeim fimm bókum sem ég er með af safninu. Þetta eru ævisögur sem eiga það sameiginlegt að vera um transkonur og nöfnum, konur sem fæddust í karllíkama og eru búnar fara í kynleiðréttingu: Hún er pabbi minn skráð af Bryndísi Júlíusdóttur og Anna: eins og ég er skráð af Guðríði Haraldsdóttur. Mjög vel skrifaðar og forvitnilegar, sérstaklega lýsingar á uppvexti Önnu Kristjánsdóttur.

11.11.18

Tíminn er ekkert að láta bíða eftir sér

Hef ekki verið í neinu skrifstuði undanfarið en það hafa runnið upp nokkur augnablik sem ég er næstum því búin að setjast niður við tölvu, skrá mig inn og punkta eitthvað niður. Núna er ég stödd á Hellu hjá pabba. Kom við í Fossheiðinni á leiðinni hingað í gær. Fljótlega eftir að ég kom spurði ég pabba hvort ég ætti að "skella í" pönnsur. Honum leist vel á þá hugmynd en bað mig um að nota tilbúið duft í flösku sem hann hafði keypt um daginn. Hann var búinn að kaupa og prófa vöffluduft sjálfur og líkað vel. Pönnsusteikingin gekk ekki alveg eins vel og þegar ég hræri í frá grunni, en það urðu samt til pönnukökur sem við höfðum með í kaffitímanum.

Eftir vinnu á föstudaginn var fór ég með strætó alla leið upp í Kringlu. Fór fyrst á bókasafnið því skírteinið var útrunnið og ég ætlaði aðeins að endurnýja það því ég er enn með fimm bækur heima. Núna eru þær reyndar sex því ég stóðst ekki mátið og greip með mér eina nýja á 14 daga skilafresti. Þriðja og síðasta bókin í þríleiknum Valdamiklir menn: Þriðja morðið eftir Jón Pálsson. Aðal erindið í Kringluna var þó að fara og kaupa mér nýja sundhettu. Ég fann ekki speedo sundhettu fyrir sítt hár en keypti eina sem er merkt Arena og svo aðra til sem ég er reyndar ekki viss um að sé fyrir sítt hár. Prófaði aðra þeirra í sundi í gærmorgun og hún virkaði. Fannst reyndar eins og hún væri að renna af þegar ég setti hana yfir þurrt hárið en hún hélst á þegar ég setti hana yfir rakt hárið.

Um hálffimm á fimmtudaginn var hitti ég Helgu og Petru á kaffihúsi Jóa Fel í Holtagörðum. Flottur staður. Við þrjár vorum ekki búnar að hittast síðan um miðjan september. Tíminn leið hratt en kaffihúsið lokar klukkan sex. Áður en við kvöddumst ákváðum við að skreppa saman í bíó í næstu viku og sjá myndina um Freddy Mercury.

Lánaði Davíð Steini strætókortið á föstudaginn og sagði að hann mætti hafa það um helgina. Hann fór í afleysingu í N1 í Mosfellsbæk milli klukkan sex og ellefu. Sjálf fékk ég mér göngutúr niður að Ingólfsstræti á Lífspekifélagsfyrirlestur.

28.10.18

Á Hellu yfir nótt

Það er jazzmessa í kirkjunni minni núna á eftir. Ég er hins vegar stödd á Hellu. Ætla ekki að vera fram á kvöld en er þó ekki að flýta mér í bæinn til að ná í messu. Ég var komin hingað austur upp úr klukkan tvö í gær eftir að hafa farið í tveggja tíma sundferð, esperanto hitting og smá Krónuferð í gærmorgun áður en ég kom við aftur heima að ganga frá "morgundótinu" og taka mig til fyrir austurferð. Var svo sniðug að taka með mér hluta af jólakortagerðardótinu mínu og eftir að við pabbi vorum búin að drekka kaffi upp úr klukkan hálffjögur lagði ég undir mig eldhúsborðið í tæpa tvo tíma. Skar niður nokkrar arkir í nokkrum litum þannig að ég var komin með rúmlega þrjátíu stk. grunnkort. Á til helling af niðurklipptum jólamyndum, skapalón, liti og fleira og áður en ég tók saman var ég búin að útbúa 5 jólakort. Á kannski eftir að klippa þau örlítið meira til og einnig setja hvít blöð inn í kortin sem ekki eru hvít fyrir. Ég er mjög ánægð með að vera loksins komin í gang og veit að ég þarf ekki að setjast niður nema 2-3 í viðbót til að klára kortin áður en ég fer í að skrifa þau. Ætti að vera tilbúin til að byrja jólakortaskrif í desemberbyrjun. Sem fyrr mun ég skrifa 3 bréf sem fara með jólakortunum sem ég sendi til Danmerkur (2) og Manchester (1).

Ég er búin að lesa skammtímalánsbækurnar og næstum því tvær bækur til. Sú sem ég er alveg að ljúka við heitir Hin svarta útsending eftir kött grá pje/Atla Sigþórsson. Nokkuð skemmtileg bók, margir misstuttir textar á 100 blaðsíðum. Allir textar heita eitthvað og amk í einu tilvikinu er titill textans lengri en sjálfur textinn.

21.10.18

Næturgisting á Hellu

Ég var komin á Hellu fyrir hálffjögur í gær eftir að hafa gert smá stopp í Fossheiðinni á leiðinni austur. Hafði mætt samviskusamlega í sundið upp úr klukkan átta, synt í hálftíma, farið 3 í kalda pottinn, eina ferð í saltpottinn, eina ferð í gufuna og að lokum gefið mér góðan tíma til að sápuþvo á mér hárið og blása á leiðinni upp úr. Úr sundlauginni lá leiðin beint vestur í bæ í espernato hitting til Inger. Áður en ég kom svo við heima til að ganga frá sunddótinu mínu og sækja það sem ég ætlaði að hafa með mér, fyllti ég bílinn á Atlantsolíustoðinni við Öskjuhlíð.

Pabbi var að búa til vöfflur þegar ég mætti á svæðið í gær. Við ákváðum að hafa bleikju í kvöldmatinn og ég spurði í leiðinni hvort ég mætti ekki gera atlögu að innihaldi hvítvínskassans í aukaísskápnum um kvöldið. Það leyfi var auðfengið og náði ég að hálffylla og drekka þrjú glös af víni áður en það kláraðist. Það var líka alveg nóg. Pabbi fékk sér rautt í glas og við spjölluðum nokkuð langt fram á kvöld.

Annars hef ég lokið við að lesa aðra af skammtímalánsbókunum; Sagnaseiður eftir Sally Magnusson þýdd af Urði Snædal og mæli ég alveg 100% með þeirri bók.

19.10.18

Á leið í hús Lífspekifélagsins í kvöld

Um átta verð ég mætt á fyrsta fund/fyrirlestur í vetur. Sl. föstudag var reyndar kynning og hluti af starfsseminni hófst í síðasta mánuði. Held að þetta sé að byrja með seinna móti en áður en ég er þó ekki viss. Gerðist félagi í fyrra og hef aðeins verið viðloðandi þetta félga síðan í hitti fyrra.

 er ég búin að skila formlega af mér gjaldkerastarfi KÓSÍ. Við erum hætt sem kór en höldum hópnum og vinskapnum að sjálfsögðu áfram. Við formaðurinn ákváðum um daginn að afhenda nýlega stofnuðum óháða kórnum kennitöluna og reikninginn með smá upphæð inn á sem gjöf frá KÓSÍ.

Skrapp á bókasafnið fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnunni. Skilaði fimm bókum, öllum sem ég var með í láni af safninu. Kom ekki tómhent heim aftur því 9 bækur "hoppuðu" upp í fang mér, þar af tvær sem eru með 14 daga skilafrest. Og ég sem ætlaði að fara huga alvarlega að jólakortagerð og yfirfara eitthvað af dótinu mínu. Hlýt samt að komast yfir þetta allt. Reyndar freistaðist ég til að kaupa kilju um daginn, glæpasögu, eftir höfund sem hefur náð taki á mér, Angela Marsons. Keypti nýjustu, þýddu bókina og stakk henni svo ofan í skúffu í bili. Ég er líka að glugga í bók sem ég keypti í útgáfuteiti í síðasta mánuði og þar að auki lánaði sr. Pétur mér bókina Brautryðjaninn ævisaga Þórhalls Bjarnasonar 1855-1916 sem er skráð af Óskari Guðmundssyni.

15.10.18

Á Hellu í augnablikinu

Það var verið að eitra fyrir silfurskottum í Drápuhlíð 21 milli klukkan eitt og hálfþrjú í dag. Ekki er ráðlagt að vera heima næstu fjóra tíma á eftir. Strákarnir fóru í eina Sorpuferð upp úr klukkan tólf. Ég var komin heim þar sem ég misskildi tímasetninguna. Kannski var það eins gott því íbúarnir á hæðinni fyrir neðan voru ekki heima og allt harðlæst hjá þeim. Þau gátu bjargað því, ein dóttir þeirra kom rétt fyrir klukkan eitt á sama tíma og sá sem tók verkið að sér. Ég labbaði með honum um allt til að byrja með en svo náði hann í grímu, hanska og eitrunardæmið út í bíl og byrjaði í kjallaranum. Strákarnir komu stuttu síðar og einkabílstjórinn fékk þá góðu hugmynd um að nota tækifærið og skreppa í heimsókn á Hellu. Þangað vorum við komin um þrjú og erum þar enn. Verðum líklega ekki komin heim fyrr en um tíu í kvöld.

Mikið er annars búið að ganga á, síðustu viku, eða frá því var ljóst hvenær yrði eitrað. Kosturinn við svona er sá að maður neyðist til að taka aðeins betur til.

Mætti í sund um átta í gærmorgun og kom svo við og fékk mér kaffi hjá Oddi í Öskjuhliðinni um tíu. Um hálftólf var ég komin upp í kirkju. Þangað mættu allir úr stjórninni til að undirbúa heitu réttina á kór-hlaðiborðið eftir messuna og aðstoða kórinn við að undirbúa salina. Klukkan var að verða fimm þegar ég kom heim og þá fór ég með Davíð Steini niður að undirbúa geymsluna fyrir eitrun en Oddur Smári fór í Sorpuferð og fékk þar með að keyra THM88 í fyrsta skipti. Bíllinn er ennþá á nafni pabba en því verður breytt fljótlega og hann færður yfir á mitt nafn.

11.10.18

Nokkrar línur

Föstudagur á morgun og á sunnudaginn verður galdramessa í óháðu kirkjunni. Mánuðurinn kominn í tveggja stafa tölu svo það styttist í annan enda á árinu. Kortadeildin skrapp yfir í Hörpuna, á kaffifund, upp úr tvö. Hélt að ég væri búin að týna rauðu 66° húfunni minni því ég fann hana ekki þegar ég var að klæða mig í regnkápuna. Var mjög hugsi yfir þessu en sem ég beið eftir strætó á torginu þá þreifaði ég einu sinni enn í hettuna á kápunni og viti menn, þar var húfan. Fjúkkett! Ég tók strætó númer sex og var komin heim um hálffjögur.

10.10.18

Aftur í sjóinn

Sjórinn var 0,3° kaldari í dag en á mánudaginn, eða 4,6°C, en veðrið var gott og ég naut þess að svamla um. Var mætt í Nauthólsvík á slaginu fimm og þá þegar var fólk að fara í sjóinn. Að þessu sinni fór ég tvisvar. Fyrst í 15 mínútur og eftir um það bil tíu mínútur í heita lang-pottinum fór ég aftur og þá í víkina. Þar að sjórinn að vera aðeins heitari en þar sem það var flóð í dag var ekki mikill munur.

Annars tók ég á móti korti no. 3.000.000 sem er framleitt á 12 ára gömlu kortavélina. Það var reyndar svolítið skondið að ég fékk heiðurinn af móttökunni því ég var á vélinni milli átta og hálftíu í morgun og þegar farið var í kaffipásu vantaði aðeins rúmlega 250 stk upp á að ná tölunni. Eftir kaffi fóru aðrar tvær á vélina og þær lentu í smá vandræðum og náðu ekki að framleiða þennan kortafjölda á tveimur tímum. Tímamótin urðu ekki fyrr en eftir hádegi þegar ég var komin aftur á vélina og þá á móttökuhlutann.

Skrapp aðeins upp í kirkju í gærkvöldi til að afhenda einum kórmeðlimi úr nýlega stofnuðum Óháða kórnum plagg sem þau eiga að geta nýtt sér til að yfirtaka kennitölu og reikning KÓSÍ sem er ekki starfræktur lengur. Eftir að hafa afhent plaggið, undirritað af mér og fyrrum formanni skrapp ég í heimsókn upp í Katrínarlind í Grafarholtinu. Þangað hef ég ekki komið nokkuð lengi og áður en ég vissi af voru liðnir tveir tímar.

8.10.18

Svamlað í 4,9°C sjónum

Þar sem fyrir lá smá tölvuverkefni í kvöld ákvað ég að hamra inn nokkrar línur. Var mætt í sund milli klukkan átta og hálfníu í gærmorgun. Gaf mér góðan tíma í rútínuna og fór m.a. þrisvar sinnum í þann kalda, synti í tuttugu mínútur og sat heillengi í gufunni áður en ég fór upp úr. kom við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Fór ekkert aftur á bílnum en ég samdi við Davíð Stein um að sjá um eldamennskuna um kvöldið og skundaði sjálf í Valsheimilið rétt fyrir sex og horfði á tvo heimaleiki í röð. Stelpurnar tóku á móti Haukum og unnu leikinn 27:20. Klukkan átta hófst leikur strákanna sem tóku á móti ÍR. Staðan þar var jöfn í hálfleik en leikurinn fór 28:22 fyrir Val.

Ég fékk að fara einum og hálfum tíma fyrr úr vinnunni til að sinna bankamálum. Fór fyrst heim með strætó og fór á B-Max í bankann. Þar sinnti ég þremur erindum. Kom heim aftur um fjögur. Hringdi í pabba og spjallaði góða stund við hann. Var svo komin í Nauthólsvíkina um fimm. Svamlaði í sjónum í um 15 mínútur. Var ekkert að fara neitt langt, þurfti þess ekki, það var háflóð og náði sjórinn upp á hálfa brautina og  maður hætti að botna mjög fljótlega eftir að komið var út í.

7.10.18

Tveir dagar í röð

Það hefur ekki gerst nokkuð lengi að ég hafi sest niður, skráð mig inn á bloggið og skrifað eitthvað tvo daga í röð. Ég er enn með fartölvuna hans pabba, hann segist ekki nota hana neitt og ég má hafa hana hjá mér eins lengi og ég vil. Þráðlausa músin mín og netkubburinn virka alveg jafn vel á þessa tölvu og þá sem ég er með inni í tölvuskáp.

Á K1 (í vinnunni) var stofnaður leshringur um daginn. Allir 7 sem vinna í kjallaranum á Seðlabankanum voru skráðir meðlimir en við erum fjögur sem erum virk og 1 dró sína aðild til baka, sagðist ekki vilja vera með og skráð í neinn hóp. Fyrsta bókin sem við tókum fyrir var, Fuglarnir eftir Tarje Vesas norskan höfund. Og bókin sem við erum að lesa núna er, Glerkastalinn eftir Jeannette Walls. Ég fékk hana ekki á íslensku á Kringlusafninu en ákvað að prófa að lesa hana á ensku. Það gekk ágætlega en ein úr hópnum bauð mér svo að lána mér sitt eintak á íslensku og fá í staðinn lánað mitt enska eintak. Ég þáði það með þökkum því ég er miklu fljótari að lesa á móðurmálinu. Sennilega væri samt skynsamlegt að lesa eina og eina bók á ensku eða dönsku. Ég hefði bara gott af því. Við tölum um bækurnar í kaffi eða matarhléum. Erum ekki búin að setjast niður öll fjögur með seinni bókina og heldur ekki að velja næstu bók. Það gæti þó orðið Veröld sem var eftir Stefan Zweig því hin þrjú eru að lesa þá bók og ég hef er ekki frá því að ég sé forvitin um hana eftir að hafa fengið að glugga aðeins í hana hjá einu hinna.

6.10.18

Þvílíkt skrið á tímanum

Sex dagar að verða liðnir af tíunda mánuði ársins. Uþb tveir mánuðir síðan mamma dó. Ég er búin að selja bláa bílinn sem ég kallaði lengi vel lánsbílinn enda var ég með afnot af honum í næstum fimm ár áður en ég "keypti" hann af mömmu á kr. 50.000 í fyrrasumar. Um sama leyti festi hún kaup á 3 ára Ford B-Max, sem aðeins var búið að keyra 3000 km. Sá bíll er kominn tímabundið á pabba nafn en má segja að hann sé móðurarfur minn og fer yfir á mitt nafn fljótlega. Pabbi kom með nagladekkinn undir bláa bílinn þann 21. september og ég fór með honum austur. Á sunnudeginum sótti ég eina vinkonu mína í Hvolsvöll. Hún var að setja húsbílinn sinn í geymslu yfir veturinn fyrir utan hjá mömmu hennar. Vinkona mín borðaði með okkur pabba en kom svo með mér í bæinn og gisti hjá mér í viku. Aðfaranótt sl. sunnudags skutlaði ég henni til Keflavíkur. Hún átti flug til London eldsnemma um morguninn og tveim dögum seinna flaug hún þaðan til Kanaríeyja þar sem hún verður fram á vor.

Þann 23. september fór ég gráa B-Max í vinnuna. Eftir vinnu þann dag fjárfesti ég í 3 mánaða strætókorti sem gildir til og með 24. desember. Í september fjárfesti ég einnig í armbandi sem gildir í sjósund í Nauthólsvík fram að áramótum. Það fékk ég endurgreitt frá vinnunni sem íþróttastyrk. Opið er 6 sinnum í viku en ég reyni yfirleitt að fara eftir klukkan fimm á mánudögum og miðvikudögum. Vikan sem ég var alveg bíllaus, datt út, en þá viku labbaði ég við í Sundhöll Reykjavíkur tvisvar sinnum. Þangað var ég ekki búin að koma síðan eitthvað fyrir breytingar.

Annars fór ég í klippingu í hádeginu í dag og þar sem ég er enn að láta klippa mig sítt verður næsti tími ekki fyrr en eftir áramót. Af því tilefni óskaði hárskerinn minn mér Gleðilegar jóla, he, he. En það fékk mig bæði til að skella upp úr og hugsa út í að það er í raun tímabært að fara að huga að jólakortagerð.

18.9.18

Langt um liðið og varla komin í skrifstuð

Dagarnir og vikurnar þjóta áfram en ég hef ekki verið í neinu skrifstuði í margar vikur, er varla í neinu stuði núna. Hef svo sem um nóg að skrifa en er ekki alveg búin að ákveða hvort eða þá hvernig ég kem því frá mér. Nóg í bili í þetta sinn.

12.7.18

Enn einn "sunnudagurinn" ;-)

Ég skilaði öllu sjö bókunum sem ég fékk á Kringlusafninu fyrir hálfum mánuði á safnið aftur í gær. Hafði lesið þær allar. Það endaði svo með því að það komu sjö aðrar bækur með mér heim í staðinn og er ég reyndar búin að klára eina þeirra. Það er svona að vakna snemma. Á meðan ég er í bænum byrja ég á því að mæta í sund og bæði í gær og í morgun var ég mætt rétt eftir opnun, um hálfsjö, og kom ekki heim aftur fyrr en níu. Og nota bene ég fór ekki labbandi á milli. Synti í hálftíma og fór 4x4-5 mínútur í kalda ásamt því að skreppa í saltpottinn og gufuna. Það er ljúft að vera í fríi og ég skammast mín ekkert fyrir að gera næstum því það sem mér sýnist. Það eina sem skyggir á er hversu alvarlega mamma er orðin veik og það er eiginlega helst þess vegna sem ég fer ekki langt, það er alltaf hægt að skreppa eitthvað lengra síðar. Var fyrir austan frá föstudegi til mánudagskvölds um síðustu helgi og er byrjuð að lesa bók eftir Jón Kalman Stefánsson fyrir mömmu. Bók sem hún fékk í jólagjöf sl. jól og var langt komin með að lesa sjálf en varð svo að hætta þar sem bókin er of þung til að halda á fyrir hana. Þetta er mjög vel skrifuð bók byggð á sannri sögu og það eina sem ég veigra mér við að lesa upphátt eru kynlífslýsingarnar.  :D

29.6.18

Allt í himna lagi

Einhver sagði einhvern tímann að ..."engar fréttir eru góðar fréttir!" Ég er að verða hálfnuð með fríið mitt og batteríin eru heldur betur að hlaðast þrátt fyrir að ég sé ekki að skipuleggja neitt stórt þannig séð. Leyfi mér að haga seglum alveg eftir vindi en læt samt veðrið alls ekki hafa áhrif á mig. Það kom einn mjög góður sumardagur í kringum 20. júní og þá ákvað ég að fara gangandi í Laugardalinn. Hafði með mér klink fyrir fari með strætó til baka því þótt ég treysti mér alveg til að labba heim aftur þá fannst mér tilhugsunin um göngublautt bak ekki góð. Ég fór líka gangandi á bókasafnið fyrir nokkrum dögum. Skilaði öllum 6 bókunum (lesnum) og það komu sjö með mér heim aftur. Fyrir tæpri klukkustund kom ég gangandi heim úr heimsókn frá fyrrum kórsystur. Labbaði af stað til hennar um tvö og var svona ca tuttugu mínútur á leiðinni. Semsagt það er allt í góðu.

18.6.18

Smá lífsmark

Það er spurning hvort uppfærsla á persónuverndarlögum og því öllu muni fæla mig frá því að vera eitthvað að skrásetja hluta af því sem fer fram í kringum mig og um mig? Svo er þetta með andann og löngunina til að skrifa. Auðvitað er hún oftar til staðar heldur en sést amk ef skrif/blogg-árin eru borin saman. Ég ætla ekkert að velta mér frekar upp úr þessu og heldur ekki hafa þetta lengra í dag. Er að lesa svo spennandi bækur, fylgjast með HM, stunda kalda pottinn og laugarnar og rembast við að halda mér í gönguformi líka. Jú, kannski eitt, sl. föstudag fór Davíð Steinn með mér á N1 í Fellsmúla svo ég gat nýtt mér 22% afláttinn hans þegar ég keypti ný sumardekk undir Fordinn og lét setja undir bílinn.

23.5.18

Stiklað á stóru

Ég er mjög dugleg að láta það vera að kveikja á tölvunni. Hef svo sem, hvort eð er, ekki verið í neinu skrifstuði en það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig og stundum mætti ég alveg vera duglegri að skrifa um sumt af þessu svo það gleymist ekki.

Æskuvinkona mín, Ella, var hjá mér í tvær nætur fyrir rétt rúmri viku. Ég hafði vitað af komu hennar í nokkra daga og undirbjó heimsóknina vel. Bauð henni að sofa í herberginu mínu og bjó um mig á beddanum í stofunni sem tvíburahálfsystir mín var nýbúin að skila en ég lánaði henni hann í heila viku undir sænska eða danska stelpur (veit ekki hvor þeirra notaði hann). Degi eftir að Ella vinkona flaug aftur heim til sín gistu mágur minn og yngri systurdóttir mín. Hún var í stofusófanum í eina nótt en hann á beddanum í 3 nætur. Frænka mín flaug nefnilega með föðursystur sinni til London seinni partinn á fimmtudaginn var. Helga systir kom suður á föstudagskvöldið með kærustuparið og hvolpinn. Hinn hundurinn var skilinn eftir í pössun fyrir norðan. Kærustuparið fór heim til mömmu hans en Helga gisti í sófanum í eina nótt. Ég rétt náði að heilsa upp á hana um hálftólf þegar ég kom heim úr kortadeildargrillpartý. En við systur hittumst svo aftur á Hellu seinni partinn á laugardaginn. Ég gisti í eina nótt en þau í tvær.

Klukkan ellefu á mánudagsmorguninn var ég mætt í Dómkirkjuna til að fylgjast með því þegar verið var að vígja einn frænda minn til prests til að taka við Patreksfjarðarprestakalli. Eftir athöfnina heilsaði ég aðeins upp á frændfólkið mitt sem var þarna en dreif mig svo beint í sund. Bræðurnir voru báðir að vinna, annar til klukkan átta og hinn til klukkan tíu (eh). Ég mætti í mína kirkju upp úr klukkan sjö til að undirbúa maulið eftir messuna. Alls mættu 17 ef allir voru taldir með. Ég gaf mér góðan tíma til að sitja og spjalla á eftir messunni og var til klukkan tíu að ganga frá á eftir.

Ég skilaði annars inn 5 bókum á safnið sl. föstudag, þrjár hafði ég klárað en hinar tvær rétt byrjaði ég á og sá að ég mundi ekki nenna að lesa þær. Hefði getað haft þær í 10 daga lengur en ég ákvað að skipta þeim út. Kom með 5 bækur heim í staðinn og er búin að klára tvær af þeim nú þegar. Önnur þeirra var svaðalega spennandi; Týndu stúlkurnar eftir Angelu Marsons þýdd af Ingunni Snædal. Mér skilst að það sé búið að þýða tvær aðrar eftir þennan höfund og ég á örugglega eftir að "þefa" þær uppi og lesa (skrifar sú sem ekkert lyktarskyn hefur).

Þriggja mánaða strætókortið mitt rann úr gildi eftir 18. maí og þar sem það styttist í sumarfrí hef ég ákveðið að labba sem oftast milli heimilis og vinnu. Það var fínt að labba í gærmorgun en leiðinda rok og rigning á móti mér seinni partinn. Komst þó heim, skipti um föt, hringdi aðeins í pabba en fór svo beinustu leið í sund og kalda pottinn. Labbið í morgun og seinni partinn voru fínustu göngutúrar og eftir að hafa hringt austur setti ég bræðrunum fyrir og skrapp svo smá stund í sjóinn. Þegar ég kom til baka var maturinn tilbúinn. Stoppaði ekkert svo lengi heima því það var heimaleikur hjá Val í Pepsídeild kvenna. 2-0 fyrir VAL á móti HK/Víkingi.

5.5.18

Lítið að gerast í skrifunum

Það er það langt síðan að ég skráði mig inn síðast að google sá ástæðu til að spyrja hvort ég ætti örugglega að vera með aðgang að þessari síðu. Fékk sent númer með sms í farsímann til að staðfesta að ég mætti fara hérna inn og nota þessa síðu eftir mínu höfði. Annars er ég stödd á Hellu þessa stundina og verð eitthvað fram á morgundaginn. Esperanto-hittingingi var frestað til næsta fimmtudags svo ég var löt að drífa mig af stað í sund í morgun. Var þó komin ofan í þann kalda upp úr klukkan hálftíu. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég komin í Krónuna við Granda og fyrir utan að ég var að gera innkaup fyrir sjálfa mig var ég að leita eftir vöru fyrir pabba og mömmu sem ekki fæst á Hellu í augnablikinu. Fann þetta ekki í Krónunni. Kom við hjá Atlantsolíu við Öskjuhlíð áður en ég fór heim með vörunar, gekk frá þeim og sunddótinu, ýtti aðeins við öðrum stráknum til að láta vita að ég væri að fara austur, tók dót sem ég hafði tekið saman í morgun til að fara með. Fyrsta stopp var í Hagkaup í Skeifunni og eftir smá hringsól og nokkuð mikla leit fann ég nokkrar krukkur af súrsætri sósu frá "Benna frænda". Næsta stopp var í Fossheiðinni og svo var ég komin á áfangastað um hálffjögur.

Fyrsti stjórnarfundur nýkjörinnar safnaðarstjórnar í Óháða söfnuðinum var haldinn í Kirkjubæ milli 17 og 18:30 sl. fimmtudag. Ritari og gjaldkeri höfðu boðað forföll en það var fagnaðarefni að frétta og sjá að það hafði náðst að fullskipa stjórnina, að búið væri að fylla í öll þrjú sætin sem í höfðu setið formaður, varaformaður og einn meðstjórnandi síðustu 2-12 ár. Ég tók að mér að sjá um fundarritun. Náði að hreinskrifa þau skrif í gær og senda á nýkjörinn formann sem fór yfir, bætti við einu atriði og ætlar að senda á alla stjórnina.

Var á leiknum VALUR - Selfoss í Pepsídeild kvenna í gærkvöldi. Svolítið kalt en það voru skoruð átta mörk sem öll voru skoruð í mark gestanna. Valsstelpurnar héldu hreinu. Annars er ég bara góð. :-)