15.8.13

"Friður sé með yður!"

Tók daginn nokkuð snemma í gær svona miðað við að vera í sumarfríi.  Sinnti ýmsum skyldum fyrir hádegi en greip líka í bók og saumana mína.  Annar tvíburinn kom fram um hádegisbil og ég tilkynnti honum um áætlanir mínar.  Hinn tvíburinn var ekki enn vaknaður er ég brá mér af bæ.  Tók saumana mína með upp í byggðina við Úlfarsfell og var komin til Lilju vinkonu á slaginu klukkan eitt.  Mundaði nálina nær strax og svo föndruðum við (hún var í perluvinnu), drukkum kaffi og spjölluðum vítt og breitt.  Tíminn æddi áfram og þegar ég kvaddi tæpum fjórum tímum seinna fannst mér sem aðeins klukkutími væri liðinn.

Hafði pastarétt með sætum kartöflum, kúrbít, papriku, lauk, sveppum, kasew-hnetum og graskersfræjum í matinn.  Setti engan ost út í og í raun blandaði ég pastanu ekki saman við fyrr en við mæðgin vorum búin að borða.  Kvöldið fór svo í sjónvarpsgláp og útsaum.  Horfði m.a. á vináttulandsleikinn milli Íslands og Færeyja og var hálf svekkt yfir að fleiri færi væru ekki nýtt.  Þetta eina mark var svo þar að auki á grensunni ef svo má segja/skrifa.

14.8.13

Rólegheit

Í gær var sannkallaður letidagur.  Fór óvenjulega seint á fætur en klukkan var samt ekki orðin hálfellefu þegar ég var komin á stjá.  Ekkert fréttnæmt gerðist.  Saumaði út, las, hringdi í pabba og mömmu, eyddi drjúgum tíma í tölvunni (en var svo búin að slökkva á henni fyrir tíu í gærkvöldi) og horfði á sjónvarpið.  Það var rétt svo að ég hafði mig í að útbúa kvöldmatinn sem ég hafði þó frekar lítið fyrir; ofnsteikt bleikja með kartöflum og maísbaunum í bráðnu smjöri.

13.8.13

Hittingur

Gærdagurinn var góður.  Morguninn notaði ég í ýmsar skyldur og fleira.  Skrapp í búðina upp úr hádegi og svo settist ég út á svalir í tæpa tvo tíma og las alls kyns tröllasögur.  Á meðan ég sat þarna úti og í einni pásunni á milli tröllasaga datt mér í hug að senda sms á "tvíburahálfsystur" mína og spyrja hvort hún yrði heima um kvöldið.  Það varð úr að ég var mætt til hennar um átta og við byrjuðum á því að fá okkur klukkustundar göngutúr um hverfið.  Dóttlan hennar hjólaði með okkur.  Á eftir fengum við okkur kaffi, tókum fram saumana okkar og áttum áfram gott spjall (höfðum að sjálfögðu spjallað margt og mikið á göngunni).  Við fundum báðara fyrir því að hafa ekki hist nokkuð lengi enda liggur skipulagður saumaklúbbur niðri yfir hásumarið.  Klukkan var líka langt gengin í tólf þegar ég dreif mig loksins heim.

12.8.13

Veðurblíða

Við mæðginin tókum okkur upp rúmlega átta á föstudagskvöldið og drifum okkur út úr bænum.  Vorum komin á Hellu rétt fyrir tíu.  Annar tvíburinn setti strax upp tölvuna sína sem var með í för.  Ég horfði á sakamálamynd á RUV áður en ég fór í háttinn.

Upp úr hádegi á laugardeginum skrapp ég á sveitamarkaðinn á Hvolsvelli.  Tilgangurinn var aðallega að heilsa upp á Lilju vinkonu og systur hennar sem voru með bás þarna.  Á meðan ég stoppaði hjá þeim gaf bandarísk fjölskylda sig á tal við okkur, hjón og sonur (sennilega rúmlega tvítugur).  Þau voru ekki búin að vera nema nokkra daga á landinu en ungi maðurinn var þegar byrjaður að tala smá íslensku og vildi fá að vita hvernig við segðum frasa eða orð á íslensku.  Svo skrapp ég til mömmu þeirra systra og fékk mér kaffi og gott spjall.

Þegar ég kom til baka var móðurbróðir minn og fjölskylda kominn í heimsókn og nokkru seinna bættust bróðursonur pabba og hans kona í hópinn.  Mamma var búin að búa til kartöflusallat og marinera slatta af kjötmeti.  Við hjálpuðumst að við að skera niður í sallat og svo var grillað.  Dagurinn var semsagt frábær í alla staði.

Sat sunnan meginn við húsið með saumana mína í gærdag.  Borðuðum svo kvöldmatinn frekar snemma og við mæðgin drifum okkur í bæinn áður en sólin lækkaði of mikið á lofti til að pirra eða valda vandræðum.  Var samt ekki komin nógu snemma til að ná öllum leið Vals og Stjörnunnar en ég sá allan seinni hálfleikinn og sá mína menn ná stigi eftir að hafa lent manni og marki undir mjög snemma leiks.  Eftir leikinn horfðum við Oddur á "Sönnunargögn", þáttinn frá sl. fimmtudegi.

9.8.13

Engin "föstudagsferskeytla" heldur núna

Lífið er svo ljúft og veðrið hefur engin áhrif á það.  Í gær skrapp ég á sýsluskrifstofuna til að nálgast plögg.  Annars fór dagurinn í lestur og útsaum.  Hafði kvöldmatinn óvenjusnemma, lifrarrétturinn var tilbúinn vel fyrir hálfsex.  Hafði nefnilega rekið augun í það að heimaleikur kvenna hafði færst fram um einn og hálfan tíma, til 17:45 í stað 19:15.  Ég var semsagt búin að borða um hálfsex og mætt á völlinn þegar leikurinn var nýhafinn.  Leikar enduðu 2:1 fyrir mínum stelpum og eru þær nú í öðru sæti á eftir Stjörnunni.

Er heim kom gekk ég frá í eldhúsinu, hafði ekki haft vit á að úthluta strákunum því verkefni.  Stuttu seinna hringdi síminn, frænka mín og jafnaldra (afi hennar var föðurbróðir minn).  Hún sagðist hafa verið að hugsa svo mikið til mín að hún lét loksins verða af því að hringja til að athuga hvort ég myndi vera heima og eiga kaffi á könnunni ef hún kæmi.  Magnað hreint, því mér hefur oft orðið hugsað til þessarar frænku minnar og nú er ísinn semsagt brotinn.  Kaffið var að klárast að renna niður trektina þegar hún kom.  Margt var spjallað og ég minntist örugglega tvisvar eða þrisvar á það hversu vænt mér þótti að hún hafði samband.  Nú er boltinn hjá mér og ég mun pottþétt halda honum á lofti.

8.8.13

Hressandi veður úti núna

Það er líkt og það ætli að hausta snemma í ár en ég hef samt enga trú á því.  Það á örugglega eftir að rætast úr veðrinu aftur.  Svona veður gefur manni líka ástæðu til að "liggja" í bókum og/eða sauma út.

Skrapp í Elkó fyrir mömmu í gær að kaupa rafknúið naglasnyrtisett á útsölu.  Kom við í fiskbúð á leiðinni heim og keypti ýsu sem ég hafði í soðið um kvöldið og bleikju sem ég frysti í bili.  Annars fór dagurinn í lestur, útsaum og tölvuna.

Var eitthvað að spá í að skreppa á Fram - Valur í gær og get alveg séð eftir því að hafa ekki drifið mig því mínir menn unnu á útivelli 0:4.

7.8.13

Veðurblíða

Notaði gærmorguninn í að ljúka við að lesa eina af bókasafnsbókunum.  Upp úr hádegi fór ég svo á safnið og skilaði sex bókum.  Svo "rötuðu" átta bækur ofan í pokann í staðinn.  Skrapp í verslunarleiðangur og gekk Oddur frá vörunum þegar ég kom með þær heim.

Bjó til kaffi og fékk Odd til að setja fyrir mig stól út á svalir.  Settist svo út með bók (Rof eftir Ragnar Jónasson) og kaffi og sat alveg örugglega í uþb tvær klst. var nokkuð rauð á hálsi og upphandleggjum er ég kom svo inn.  Hafði lasagnia í kvöldmatinn, bjó til meira kaffi og eftir Castle stóðst ég ekki mátið og horfði á frímynd vikunnar af SkjáFrelsi, "Life of Pi".  Ég er nefnilega nýbúin að lesa bókina, hún var ein af þessum sex bókum sem ég skilaði á safnið  í gær.  Mögnuð bók og myndin var mjög góð.

6.8.13

Var á Hellu um helgina

Ég kom heim um ellefu í gærkvöldi og voru strákarnir sofnaðir.  Þeir fóru með þremur vinum sínum í bústaðaferð í Grímsnesið upp úr hádegi á laugardaginn og komu heim um hádegisbil í gær.  Ég fór með mági mínum og eldri systurdóttur minni austur til pabba og mömmu rétt fyrir hádegi á laugardaginn.  Helgin fór í lestur og útsaum.  Við mamma sátum sunnan meginn við hús í nokkra tíma á sunnudaginn og var ég að sjálfsögðu með saumana mína í höndunum.  Ég fór svo á bílnum hennar mömmu (hún er úlnliðsbrotin á hægri og keyrir sennilega ekki alveg í bráð) og lagði í hann langt gengin í tíu í gærkvöldi, kannski heldur of fljótt því sólin blinaði mig á kaflanum frá Rauðalæk og alveg nokkuð framhjá Vegamótum.  En ég komst heil heim og það er fyrir öllu.

2.8.13

Nýt þess að vera í sumarfríi

Þrátt fyrir að hafa  ekki farið að sofa fyrr en langt gengin  í tvö í nótt (var að lesa nema hvað) var ég vöknuð upp úr átta og komin á fætur um níu.  Þetta heitir að nýta tímann þótt sumt af honum fari auðvitað í einhverja vitleysu.  Er ekki enn farin að grípa í saumana og hef reyndar ekki snert þá síðan í fyrradag en það sem slær mig mest er að ég er búin að vera á fótum í þrjá tíma og ég var loksins að renna á fyrstu könnuna.

Strákarnir komu hingað heim eftir vinnu seinni partinn í gær eftir að hafa verið hjá pabba sínum síðan um helgina.  Þeir ákváðu að taka sér frí í dag og er annar þeirra ennþá sofandi.  Mér skilst að þeir fari í útilegu með nokkrum vinum á morgun og fram á mánudag.  Spurði þá hvort þeir þyrftu ekki að undirbúa sig og útbúa nesti og þh.  Eitthvað voru svörin dræm svo ég fylgist bara spennt með hvað gerist.

Hafið það sem allra best um helgina!

1.8.13

Komin heim í bili

Síðast liðinn mánudag átti ég bókað flug frá Reykjavík til Egilsstaða klukkan hálfellefu fh.  Ella, æskuvinkona mín, tók á móti mér og við byrjuðum á að skreppa heim til hennar  og fá okkur kaffi.  Síðan skruppum við í Bónus og vínbúðina þar sem ég keypti argentíska hvítvínsbelju.  Um kvöldið var vinkona mín með rosagóðan fiskrétt og hvítvínið var afar ljúffengt með.

Á þriðjudeginum vorum við komnar á fætur um níu.  Fengum okkur morgunmat og kaffi á eftir.  Ég var með saumana mína með, hafði reyndar gripið í þá strax daginn áður.  En á ellefta tímanum ókum við að Selskóg og tókum stóra hringinn þar.  Það voru nokkrir dropar en alveg logn og þetta var góður göngutúr.  Skórnir voru "þægir" mest alla leiðina en voru aðeins farnir að bíta mig í hægri hælinn í restina.  Er við komum til baka bjó Ella til handa okkur grænan búst úr appelsínusafa, spínati, engifer og lime.  Síðan horfðum við saman á frímynd Skjás Eins, "The man with the ironfists".  Eftir myndina og nokkurt kaffiþamb renndum við aðeins yfir á Seyðisfjörð og rúntuðum aðeins þar um.  Það var magnað að sjá spegilsléttan Löginn þegar við komum aftur til baka.  Um kvöldið kom uppeldisstjúpsystir Aðalsteins og maðurinn hennar.  Slegið var upp í grillveislu og drukkið hvítt, rautt og bjór frameftir kvöldi sem leið alltof hratt.

Í gær vorum við vinkonur aftur á fótum um níu.  Aðalsteinn var ekki farinn í vinnuna og drakk með okkur kaffi áður en hann fór.  Rétt fyrir hádegi löbbuðum við tvær upp á klett að hringskífu.  Þetta var ekki langur göngutúr en góður.  Það var búið að vera rok um morguninn en það lyngdi akkúrat á meðan við vorum á labbinu.  Fengum okkur aftur grænan drykk í hádeginu og svo greip ég í saumana mína.  Seinni partinn skruppum við yfir í Hússmiðjuna á Reyðarfirði og heimsóttum Aðalstein í vinnuna.  Valdís, dóttir Ellu, hitti okkur líka þar.  Í gærkvöldið kláraði ég úr beljunni og við vinkonurnar spiluðum nokkrar umferðar af 10.000  (farkle).  Fórum ekki eins seint að sofa og kvöldin á undan en náðum samt ekki að skríða upp í fyrir miðnætti.

Ég skrapp í sturtu upp úr átta í morgun og skreið svo upp í aftur í smá stund.  Fékk mér morgunmat um níu og hellti upp á.  Var búin að drekka einn kaffibolla áður en Ella kom fram.  Við spjölluðum svo yfir kaffibollum þar til kominn var tími til að skila mér á flugvöllinn.  Vélin fór í loftið rétt fyrir tólf og það er uþb klst. síðan ég lenti í Reykjavík.  Hitti Guðbjörgu frænku mína á flugvellinum en Oddur Vilberg sonur hennar var að koma frá Egilsstöðum með sömu flugvél og ég.

Fríið mitt er ekki hálfnað og ég veit ekki hvort það verða reglulegar færslur á blogginu næstu þrjár vikurnar, það verður bara að koma í ljós.

29.7.13

Helgin liðin en ný ævintýri framundan

ÉG tek flesta daga frekar snemma til að nýta þá sem allra best í alls konar, hitt og þetta/eitt og annað.  Á laugardagsmorguninn var ég mætt til Nonna í Kristu Quest alveg hissa á því að það voru liðna sex vikur síðan ég var klippt síðast.  Reyndar var ég alveg farin að finna fyrir því að hárið hafði þykknað og vaxið alveg helling.  Þetta var síðasti tímasetti tíminn í dagskránni svo Nonni festi fyrir mig allmarga næstu tíma á sex vikna fresti hátt í tvö ár fram í tímann.

Um hádegið skutlaði ég öðrum tvíbbanum í "passvinnu".  Hann er að passa tvær systur tveggja og fjögra alla virka daga og tók svo að sér að passa þær hluta úr helginni líka.  Ég fór beint heim aftur því ég átti eftir að græja smá þvottahúsmál.

Tveim tímum seinna hringdi ég í frænku mína og nöfnu í Garðabænum og fékk það staðfest að hún væri heima að sóla sig og að ég var velkomin í heimsókn að sóla mig með henni.  Dreif mig því þangað í einum grænum.  Byrjaði á því að skilja það sem ég hafði tekið með mér eftir út í bíl en frænka mín var ekki fyrr búin að heilsa mér er hún spurði hvort ég væri ekki með saumana með mér.  Ó, jú, ég var að sjálfsögðu með handavinnuna og sótti hana strax út í bíl.  Við sátum svo í sólinni til klukkan að ganga sex.  Frá frænku minni fór ég í Nettó fyrir hana til að kaupa smávegis fyrir mömmu hennar og færa henni.  Gamla konan, nýlega orðin 91 árs, var að jafna sig eftir veikindi og vantaði m.a. fisk í soðið og dóttirin var á leið í matarboð.  Ég tók þetta verkefni að mér með glöðu geði og var boðið í mat fyrir vikið.

Gærdagurinn fór allur í lestur, útsaum og sjónvarpsgláp, fylgdist með formúlunni, úrslitaleik EM kvenna og horfði svo á spennuþætti um kvöldið.  Skrif um ævintýrin framundan bíða aðeins, jafnvel í nokkra daga...

26.7.13

Föstudagur

Dagarnir þjóta áfram og ég keppist við að njóta þeirra.  Gærdagurinn leið t.d. ógnar hratt þrátt fyrir að ég færi snemma á fætur og fyndist ég þar með hafa ótal klukkustundir til stefnu þá hurfu þær fljótt.  Ég er samt ekkert að segja að ég sé að fara neitt illa með tímann.  Er að sinna einu og öðru og áhugamálin eru í fyrirrúmi svo það er kannski einmitt þess vegna sem tíminn æðir svona áfram?

Þegar  tvíburarnir voru komnir heim og búnir að fara í sturtu eftir vinnu dagsins fórum við yfir til annars bróður hennar mömmu og fjölskyldu hans.  Okkur var boðið í grill og nutum þess og félagsskaparins fram eftir kvöldi.  Það var einnig fylgst með gangi mála á EM kvenna, aðallega frá loka mínútum venjulegs leiks og þar til úrslitin eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni var ljós.

Ég vona að hugsanlegir blogglesendur mínir sakni ekki ferskeytlunnar.  Andinn kom ekki nægilega vel yfir mig og í fríinu mínu mun ég sjálfsagt blogga eitthvað öðruvísi en vanalega.  Nú ef andinn kemur einhvern anna dag en föstudag mun ég líklega pósta innblæstrinum á bloggið, sama hvað dagurinn heitir.

Hafið það sem allra best um helgina og ekki gleyma að hlúa að ykkur sjálfum!

25.7.13

Morgunstund gefur gull í mund

Mér fannst samt einum of snemmt að fara á fætur klukkan sex í morgun.  Skrapp á snyrtinguna og fór svo beint í rúmið aftur.  Fór fram úr rúmlega hálfátta og þurfti að ýta við öðrum tvíbbanum.  Í stað þess að klæða mig alveg strax las ég í bók sem ég byrjaði á í gærkvöldi, Sagan af Pí.  Lauk við fyrsta hlutann áður en ég fór á fætur.  Ákvað að setja í þvottavél og var búin að því fyrir hálfníu þannig að líklega er að verða kominn tími til að hengja upp.

Um miðjan dag  í gær skrapp ég til hennar Hlíbbu minnar.  Hún er komin heim frá Landakoti en er ekki alveg nógu hress.  Hún hresstist samt eitthvað við komu mína.  Ég var með saumana mína með mér og stoppaði hátt á annan tíma.  Kom svo við í fiskbúðinni á leiðinni heim og keypti ýsu í soðið.

Fylgdist með leik Svía og Þjóðverja í fyrri undanúrslitaleik EM kvenna.  Það fór fyrir Svíum eins og Frökkum, þ.e. tölfræðin var öll Svía megin nema að einu leiti, þeim tókst ekki að skora löglegt mark og fengu þvílíkt klaufalegt mark á sig sem var markið sem skildi liðin að í lok leiks.  Þær þýsku verða svo að teljast sigurstranglegri hvort sem þær fá Dani eða Norðmenn í úrslitaleikinn.  Gleymum samt ekki að Norðmenn unnu Þjóðverja í riðlakeppninni og Danir slóu Frakka út, þannig að allt getur gerst.

24.7.13

Bongóblíða

Ég var komin á bókasafnið í Kringlunni rétt upp úr klukkan tíu í gærmorgun.  Skilaði sex bókum af þeim níu sem ég var búin að vera með sl hálfa mánuð eða svo og tók fimm "nýjar".  Ein af þessum bókum er með hálfsmánaðar skilafrest. Næst lá leiðin í Hagkaup á efri hæðinni þar sem ég keypti nokkur sokkapör til að gefa afmælisbörnum dagsins.  Var áður búin að gefa þeim smá pening.  Svo fór ég í Steinar og Waage og fann mér nýja skó.  Bað afgreiðslukonuna um að henda gömlu, lúnu/ónýtu skónum og labbaði á þeim nýju í Hagkaup á neðri hæðinni þar sem ég verlsaði m.a. rjóma.  Á leiðinni heim fyllti ég lánsbílinn af bensíni.

Strákarnir voru báðir vaknaðir er ég kom heim um hálftólf.  Dagurinn fór í ýmiss konar dundur.  Var kannski ekki alveg nógu dugleg að nýta mér veðurblíðuna en það verður bara bætt úr því í dag.  Upp úr tvö hófst ég handa við að búa til stafla af vöfflum og um svipað leyti kom einn vinur tvíburanna í heimsókn.

Rétt fyrir sex komu systir mín, mágur og eldri dóttir þeirra.  Sú yngri er í nokkurs konar skautaæfingabúðum á Akureyri.  Við hjálpuðumst að við eldamennskuna, steiktum hrefnukjöt, útbjuggum kartöflugratín, sósu, suðum rósakál, tókum af borðstofuborðinu og lögðum á það. Mágur minn losaði fyrir mig stíflu úr eldhúsvaskinum.  Þ.e. minni vaskurinn var stíflaður en ég var eiginlega búin að gleyma því þar sem ég læt svo sjaldan renna í hann. Maturinn heppnaðist annars vel og ég held að strákarnir hafi verið mjög ánægðir með bæði mat og gesti.  En strax eftir mat skutlaði ég Oddi í Smárabíó en tveir vinir hans voru búnir að bjóða honum í bíó.  Gestirnir biðu bara eftir mér og drukku kaffi í rólegheitunum.

23.7.13

Sumarfrísdagurinn fyrsti

Ég vissi það að blíðan myndi brjótast fram um leið og ég væri byrjuð í sumarfríi. Þrátt fyrir að í gær væri síðasti vinnudagur fyrir frí var dagurinn alls ekki lengi að líða.  Hjólaði heim upp úr fjögur og settist beint fyrir framan imbann til að fylgjast með leik í 8 liða úrslitum EM-kvenna.  Tók einnig fram saumana mína.  Rétt seinna hringdi ein vinkona mín og "föðursystir" (feður okkar eru nafnar sko) í mig og sagðist ætla að lána mér bíl næsta hálfa mánuðinn eða svo.  Ég varð alveg orðlaus en náði þó að þakka fyrir og þyggja gott boð.  

Um það bil sem leikurinn kláraðist kom þessi vinkona mín.  Hún stoppaði nokkra stund en fékk mig svo til að skutla sér heim til sín.  Þannig gat hún einnig kannað aksturslagið mitt og meðferð á bílum.  Þótt það sé nokkuð síðan ég keyrði beinskiptan bíl gekk þetta bara vel og ég held að Svala hafi fengið vissu sína um að bíllinn væri í góðum höndum.  

Fór svo beint heim og horfði á seinni leik dagsins og þann síðasta í 8-liða úrslitunum.  Þar var heldur betur spenna.  Danir komust yfir og það var sama hvað Frakkar reyndu þeim tókst ekki að jafna fyrr en út vítaspyrnu í seinni hálfleik.  Sköpuðu sér miklu fleiri færi heldur en þær dönsku en nýttu þau bara ekki.  Sú danska í markinu var líka að standa sig og dönsku varnar"mennirinir" voru duglegir að flækjast fyrir frönsku sóknar"mönnunum".  Leikurinn fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni og það endaði með dönsku sigri, eitthvað sem fæstir höfðu búist við fyrir leikinn. Þar með eru þrjú af fjórum bestu liðunum lið frá norðurlöndunum, Norðmenn, Svíar og Danir.  Fjórða liðið eru svo Þjóðverjar.

Tvíburarnir eru annars 17 ára í dag og þeir tóku sér frí í tilefni dagsins og munu líklega leyfa sér að sofa út til að byrja með.  Ég er búin að lofa þeim vöfflum og ostaköku með kaffinu og hef svo hrefnukjöt í kvöldmatinn.  Svo spilum við annars daginn alveg eftir eyranu/eyrunum  ;-).

22.7.13

Vá hvað helgin leið eitthvað hratt

Helgin liðin og var ekki lengi að láta sig hverfa og nú er ný vika gengin í garð.  Oddur Smári labbaði með mér í Bónus í Kringlunni upp úr hádegi á laugardag og þar sem vörurnar komust í þrjá poka fórum við létt með að trítla með þær heim.  Annars hefði verið hægt að taka 13 sem stoppar fyrir utan Sunnubúðina.
 
Gærdagurinn fór allur í knattspyrnuáhorf og útsaum.  Horfði á tvo leiki í imbanum, fyrri tveir leikirnir á 8 liða úrslitum kvenna á EM.  Svíar völtuðu yfir stelpurnar okkar en Ítalir létu Þjóðverja hafa fyrir sigrinum.  Samdi við strákana um að þeir fengju sér bara afganga í kvöldmatinn.  Sjálf fékk ég mér haframjöl áður en ég trítlaði á völlinn.  Leikurinn endaði ekki vel fyrir mína rauðu menn, töpuðu 1:3 fyrir Fylki og þeir þurfa nú sárlega að fara að finna leiðir til að pota boltanum oftar í mark andstæðinganna, oftar heldur en þeir hirða hann úr eigin neti.

19.7.13

Upp er runninn föstudagur

Tugi telur hún í sex
tíguleg er frúin.
Með aldri nokkur virðing vex,
vinsæl barnatrúin.

Ég ákvað að deila ferskeytlunni sem ég skeytaði að mágkonu mömmu sl. þriðjudag.  :-)
 
En þvílík rigning seinni partinn í gær.  Ég var að sjálfsögðu á hjólinu og hefði annað hvort getað geymt það niðri í bílageymslu þar til í dag eða fengið að taka það með í strætó.  En ég gerði hvorugt, var með e-s konar "regnslá" sem ég fékk áður en ég fór í vatnsrennibrautirnar í skemmtigarðinum á Sevilla sl. haust.  Sláin er með hettu og það víð að ég gat verið með bakpokann minn undir henni en hún hlífði ekki buxunum eða fremst á úlpuermunum.  Var nokkuð fljót á milli vinnu og heimilis en það bætti sífellt í rigninguna svo það var ekki um annað að ræða en skipta um buxur og setja hinar á ofn þegar ég kom heim.
 
Hafði bleikju með nýjum kartöflum og gulum baunum í bræddu smjöri í matinn í gær.  Mmm, þvílíkt lostæti, ætti að hafa svona oftar í matinn og ég var svo heppin að það var smá afgangur sem ég gat tekið með mér í vinnuna fyrir hádegishressinguna í dag.
 
Auðvitað horfði ég á leikinn sem var sýndur úr riðli c á EM kvenna, Frakkland - England 3:0.  Grey ensku stelpurnar komust ekki í nein færi í fyrri hálfleik og voru lélegri á flestum sviðum heldur en andstæðingarnir.  Ég er eiginlega fegin því að okkar stelpur eiga að keppa við þær sænsku á sunnudaginn en ekki þær frönsku, en það var ekki ljóst fyrr en á tíunda tímanum í gærkvöldi.
 
Hafði það sem allra best um helgina, farið vel með ykkur og njótið þess að vera til!

18.7.13

Lítið eftir af vinnuvikunni

- Glæsilegt mark -

Vá, hvað þetta var vel útfærð sókn sem endaði með þessu líka flotta skallamarki frá stelpunni sem er alin upp á Hellu.  Ég hjólaði beint heim seinni partinn í gær og var búin að kveikja á sjónvarpinu og koma mér ágætlega fyrir stuttu áður en markið kom.  Ég verð samt að viðurkenna það að það var farið að fara svolítið um mig þegar leið á seinni hálfleikinn og hvað mér fannst síðustu mínúturnar og uppbótartíminn vera skelfilega lengi að líða.  Það sást samt á þeim hollensku að þær voru orðnar þreyttar því þrátt fyrir mörg skot að íslenska markinu voru fá af skotunum neitt hættuleg og ef þau hittu á rammann þá sá Guðbjörg um að "vera fyrir" og stóð sig alveg frábærlega, líkt og allt liðið reyndar.
 
Strákarnir voru í afmælisveislu frá því um miðjan dag í gær og langt fram á kvöld þannig að ég komst upp með að sleppa allri eldamennsku.  Notaði bara kvöldið í útsaum, sjónvarpsgláp, tölvumál og lestur og auðvitað var kvöldið ekki fyrr byrjað en það var búið.

17.7.13

Vikan hálfnuð

- Vikan hálfnuð -
 
Já, vikan er hálfnuð og mánuðurinn rétt rúmlega hálfnaður og nú á ég bara eftir að vinna í þrjá daga, fimm klst. og fimmtán mínútur áður en ég fer í sumarfrí.  Það verður komið að þessu áður en ég veit af.  :-)
 
Hjólaði milli heimilis og vinnu í gær.  Tók myndirnar af þreyttu skónum mínum og "Lost no more" og gleymdi mér svo nokkra stund í tölvunni.  Hélt að ég væri búin að missa af útsendingu af leik í A-riðli á EM kvenna.  En leikirnir voru ekki spilaðir fyrr en klukkan hálfsjö svo ég kveikti mátulega á sjónvarpinu þegar útsendingin í leik Svía og Ítala var að byrja.  Horfði á nær allan fyrri hálfleikinn, 0:0, en tók mér svo tæpan hálftíma í matarundirbúning (var með lambalifur og mesti tíminn fór eiginlega í að sjóða kartöflurnar) og kaffiuppáhelling.  Þegar ég mætti til leiks aftur var staðan 3:0 fyrir Svía og þær ítölsku voru bara búnar að skjóta einu sinni á mark mótherjans.  Þá gerði þjálfari þeirra bláklæddu tvöfalda breytingu og leikur liðsins breyttist svo mikið að maður fór að spá í hvort þetta væri örugglega sama liðið...

16.7.13

Týndi sauðurinn óðum að finnast


Þreyttir skór



Sigga sextug

- Mágkona mömmu sextug -

Önnur mágkona hennar mömmu er sextug í dag og í gærkvöldi byrjaði e-ð að gerjast í kollinum á mér.  Hrökk svo upp um fimm í morgun með tilbúna ferskeytlu sem ég sendi mér á sms-i svo ég gæti sent nöfnu minni (Sigríði Björgu Jónsd. Ström)  vískukornið í skeyti með morgninum.  Ferskeytlan verður ekki "sett á blað" hér en hugsanlega með föstudagsblogginu.
Labbaði annars heim úr vinnunni seinni partinn í gær og fann enn og aftur fyrir því að ég þarf að fara að kaupa mér nýja skó.  Ég veit ekki hvað ég er að pæla að drífa mig ekki í slíkan verslunarleiðangur því ég verð að fara fyrr eða síðar, helst í gær (eða jafnvel í síðasta mánuði).  Var búin að sjá til þess að strákarnir gætu sjálfir séð um að fá sér kvöldmat svo ég dundaði mér aðeins í tölvunni og las í einni bók þangað til kominn tími til að trítla á völlinn.
Valur - Víkingur Ólafsvík 0:0.  Bæði lið áttu sín færi og ef eitthvað er voru gestirnir heldur beittari.  En það var semsagt ekkert skorað í gær og þetta var 5. jafnteflisleikur Valsaranna á leiktíðinni og eru þeir í 6. sæti sem stendur.  Þeir eiga reyndar einn leik inni en það er í Frostaskjólinu á móti KR, frestaður leikur frá því KR-ingar voru að spila í evrópukeppninni.  Það verður ekki á vísann að róa hvað þann leik varðar en þó veit ég að mínir menn verða pottþétt ákveðnir í að ná sem hagstæðustu úrslitum þegar leikurinn verður flautaður á þann 25. n.k.

15.7.13

Mamma á afmæli í dag

- Afmælisdagur mömmu -
 
Já, mamma mín er sextíuogníu ára í dag og ein frænka okkar sextíuogþriggja.  Annars leið helgin hratt og örugglega við lestur, útsaum og sjónvarpsgláp.  Skrapp aðeins í Sunnubúðina í gær en þá var ég hvorki búin að versla neitt né elda í heila viku.  Morgunmaturinn var grísk jógúrt með krækiberjum og stundum lifrarpylsusneið með, borðaði í mötuneytinu í vinnunni í hádeginu og fékk mér svo haframjöl og rúsínur í nýsoðnu vatni á kvöldin.
 
Strákarnir komu heim í gærkvöldi eftir heila viku hjá pabba sínum.  Tveir vinir komu með þeim og þeir og annar strákurinn fór fljótlega út á rúntinn.  Stráksi kom ekki heim fyrr en á tólfta tímanum en ég var ekkert að stressa mig yfir því, var háttuð ofan í rúm og að lesa afar spennandi bók eftir Noru Roberts, Undir yfirborðinu.

12.7.13

Föstudagur

Lýsi eftir logni´ og sól
leitt að vantar sumar.
Ef það kemur kátt um jól
kannski fæ mér humar.

Jæja, nú er afleysingu minni í vinnunni brátt lokið.  Hópstjórinn minn kemur úr fríi á mánudaginn.  Við sem stöndum vaktina á deildinni náðum að vinna upp allt það sem lá fyrir og ég að ganga frá hinum ýmsu málum.  Ég er þó ekki frá því að ég mæti nokkuð fyrir átta á mánudagsmorguninn til að "taka stöðuna" á deginum og framleiðsluvélinni.
Eftir vinnu rölti ég upp á Sólvallagötu til norsku esperanto vinkonu minnar.  Hún bauð mér fyrst upp á kaffi og speltlummur áður en við fórum að spá í hið tilbúna tungumál.  Sagði henni frá að ég væri búin að sjá að það er alveg að koma að esperanto-þinginu sem að þessu sinni verður haldið hér á Íslandi, að mestu í Hörpu, dagana 20.-27. júlí n.k.  Gúggluðum þingið og spáðum aðeins í dagskrána áður en við lásum einn kafla í Jen via mondo og skrifuðum niður nokkur orð.  Tók svo strætó heim en það vill svo til að leið 13 stoppar við JL-húsið og svo hér á horninu, Langahlíð-Drápuhlíð.

Farið vel með ykkur um helgina og eigið hana sem allra besta!

11.7.13

Fimmtudagur

- Fimmtudagur -

Ég viðurkenni hér með að ég nennti hvorki að hjóla né labba í vinnuna í morgun.  Heldur tók ég strætó og vagninn stoppar við Hörpuna og vinnan mín er hinum meginn við götuna.
 
Hugurinn er annars  hjá EM-stelpunum okkar en hvort sem ég labba heim eða tek strætó á eftir þá verður búinn uþb hálftími af leiknum þegar ég kveiki á sjónvarpinu.  Annað hvort stilli ég þá á plúsinn og bíð til fimm eða horfi á afganginn á fyrri hálfleik og allan síðari hálfleik í beinni.
 
Aldrei þessu vant greið ég ekki í saumana mína í gærkvöldi.  Ég var búin að "stilla" mér upp í stofunni og kveikja á lampanum góða en svo gerðist ekkert meir.

10.7.13

Miðvikudagur

- Miðvikudagur -

Nýkomin heim úr vinnu, eldrauð, heit og sveitt eftir smá mótvind á hjólinu.  Ég var eiginlega stöðugt að í allan dag frá því fyrir átta og þar til klukkan var orðin fjögur, gleymdi meira að segja að taka mér síðdegiskaffipásu.  Stelpurnar þrjár (þar af ein sumarstúlka) slógu heldur ekki af og kvörtuðu ekki þótt þær kæmust ekki heim fyrr en fimm mínútur yfir fjögur. Ein af þeim var reyndar að vinna til tvö.

En svei mér þá ef ég þarf ekki að drífa mig í að fjárfesta í nýjum skóm og svo helst setja áminningu í simann um að láta ekki árið klárast áður en ég kaupi mér aðra.  Það er engan veginn sniðugt að eiga bara eitt og hálft par.  Þetta hálfa par eru skórnir sem ég nota í messum, tónleikum og árshátíðum en það er eiginlega ekki hægt að ganga mikið á þeim.

Ég þarf annars endilega að fara að setja inn aðra mynd af  "Lost no more" saumaverkefninu mínu, til samanburðar við þá mynd sem ég setti inn í síðasta mánuði.  Ég sat amk tvo og hálfan tíma við saumana í gærkvöldi enda leið kvöldið afar hratt.  Náði svo að lesa nokkra kafla í einni af bókasafnsbókunum áður en ég fór að sofa.

9.7.13

Þriðjudagur

- Þriðjudagur -

Í gærmorgun tók ég strætó í vinnuna og labbaði svo heim seinni partinn.  Strákarnir eru ekki heima þessa vikuna svo ég get hagað til eins og mér sýnist.  Seinni parturinn og kvöldið til ellefu leið ógnarhratt við tölvuleiki, útsaum, sjónvarpsgláp og lestur.

Notaði hjólið í morgun.  Það er annríki í vinnunni þessa dagana og nóg að gera allan daginn.  Sem betur fer er ég með vanar og góðar stelpur með mér og það gengur undan okkur ef framleiðsluvélin leyfir (sem hún gerir ekki alveg alltaf).  Nú fer senn að líða að því að sú sem hefur yfirleitt umsjón með deildinni komi úr fríi og þá fer bæði mínum byrgðum að létta og styttast í fríið mitt.

Var aðeins að fletta í gegnum bækurnar af safninu, þ.e. þær sem ég er ekki búin að lesa og það er ákveðið munstur í titlunum:  Hægur dauði, Firring, Óminni, Undir yfirborðinu, Leyndarmál, Skindauði. Ég veit ekki alveg hvort þetta er tilviljun eða ekki en þessar bækur "hrópuðu" á mig að taka sig með heim sl. laugardag og ég held að ég verði ekki svikin af þeim.

8.7.13

Mánudagur

- Mánudagur -

Helgin var ljúf og skemmtileg og alltof fljót að líða.  Seinni partinn á föstudaginn skrapp í ég heimsókn á Landakot. og stoppaði í uþb klst.  Eftir kvöldmat settist ég með saumana mína fyrir framan sjónvarpið.  Sat þar til klukkan var langt gengin í tíu en þá hleypti ég unglingunum að og settist við tölvuna.

Um hádegi á laugardag sótti ég Lilju vinkonu.  Hellti upp á og svo föndruðum við góða stund, ég taldi út og hún vann í perlunum að búa til armbönd og hálsmen.  Síðan fékk ég hana til að hjálpa mér að pakka ofan í nokkra kassa, dót frá Davíð, aðallega bækur og dvd-diskar.  Skutlaði henni heim um fjögur og skrapp í Kringlusafnið á heimleiðinni.  Skilaði öllum sex bókunum, endurnýjaði bókasafnskortið og tók með mér 9 bækur heim.

Á sunnudagsmorguninn sótti ég Lilju aftur.  Að þessu sinni lá leiðin austur.  Fyrst á Hvolsvöll til mömmu hennar þar sem við stoppuðum í tvo tíma, fengum kaffi og nýbakað með því og svo hleypti mamma hennar okkur á smá beit í jarðaberjareitnum í garðinum.  Kíktum á sveitamarkaðinn áður en við renndum á Hellu til pabba og mömmu.  Þar komum við beint í kaffi og pönnsur.  Síðan var smá saumaklúbbur.  Ég saumaði, mamma prjónaði og Lilja perlaði með góðri aðstoð frá Bríeti, yngri systurdóttur minni.  Við Lilja sáum svo um eldamennskuna.  Fengum far með Ingva mági í bæinn en ég var að skila mömmu bílnum sínum í bili.

5.7.13

Föstudagur enn á ný!

- 5 -

Andinn góður, lundin létt
ljúft að vera til.
Þetta þykir ekki frétt
þó segja hana vil.

Já, það er enn og aftur kominn föstudagur.  Ég mætti á bíl í vinnuna því ég mun að sjálfsögðu kíkja við hjá Hlíbbu minni á Landakot eftir vinnu í dag.  Annars er fátt í fréttum.  Á eitthvað erfitt með að pakka niður dótinu hans Davíðs.  Finnst miklu skemmtilegra að eyða tímanum í útsaum, lestur og heimsóknir eða eitthvað allt annað.  Held það borgi sig samt að fara að drífa þetta af og koma þessu frá og vonandi hætti ég fljótlega að vera "misskilin".  Nenni þó alls ekki að velta þessum hlutum of mikið fyrir mér, finnst bara skrýtið hversu mikið léttist á andanum við þetta "áfall" og ég er örugg um það að það koma engir skallablettir að þessu sinni eins og gerðist þegar tveir uppáhaldsfrændur mínir féllu frá á sama sólarhringnum rétt fyrir jól 2008.
 
Hafði það sem allra best og verum góð hvert við annað!  :-)

4.7.13

Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna

- 4 -

Það endaði með því að ég fór á bílnum í morgun og það átti eftir að koma sér ágætlega.  Þurfti nefnilega að reka tvö erindi í hádeginu, annað vinnutengt og hitt tengt öðrum syninum.  Það eru sennilega hátt í þrjár vikur síðan hraðbanki gleypti debetkortið hans Davíðs Steins.  Hann var lítið búinn að gera í málunum en bróðir hans var þó búinn að hringja og spyrjast fyrir en ekkert meir.  Í gær var svo hringt í þann kortlausa beint úr útibúinu og honum tilkynnt að kortið hans væri komið þangað og að hann mætti sækja það við tækifæri.  Ég hringdi í morgun til að athuga hvort ég mætti sækja það fyrir hann sem ég mátti.  Strákurinn varð að vonum afar glaður að endurheimta kortið sitt.

Annars er ég aðeins farin að huga að sumarfríinu mínu enda bara rétt rúmur hálfur mánuður í það.  Ég er með ýmsar hugmyndir á bak við eyrað sem ég ætla samt ekki að "viðra" nema eftir að þær verða kannski að veruleika.  Þetta verður örugglega eitthvað og pottþétt líka spennandi.

Bókin á náttborðinu er síðasta ólesna bókin af sex sem ég er með í láni úr Kringlusafninu:  Rigning í nóvember eftir Auði Ólafsdóttur.  Bókin hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2004 og er mjög að mínu skapi, alveg fantagóð.  En það var einhver að benda mér á að það væri tímaskekkja að vera að lesa hana um mitt sumar.

3.7.13

Annríki

- 3 -

Það er óhætt að segja það að dagarnir þjóta áfram og þá aðallega vegna vinnuannríki.  En ég nenni ekkert að vera að skrifa og tjá mig mikið um vinnuna.  Nema kannski þetta, að þessa daga sem ég er að leysa hópstjórann minn af er ég alltaf mætt vel fyrir átta og klukkan er oftast orðinn fjögur þegar ég stimpla mig út.  Er búin að nota reiðhjólið þessa þrjá daga og er ekki frá því að nota það einnig á morgun.  Bíllinn var ekkert hreyfður í gær en um fimmleytið í dag skrapp ég í búðina.  Tvíburarnir eru loksins komnir í smá sumarvinnu og þurfa að nesta sig upp og svo er allt útlit að þeir verði með og hjá pabba sínum frá og með mánudeginum og út alla næstu viku svo ég þarf líklega ekkert að versla mikið næstu daga.

Ég lauk við að lesa Húsið eftir Stefán Mána seint í fyrrakvöld.  Mæli alveg með þessari bók en þykk og mikil er hún og í raun alveg óskiljanlegt hvað mér tókst að draga lesturinn á langinn og passa upp á að lesa ekki langt fram á nætur.

Saumaði smá  í gærkvöldi, bæði útlínur í mynd í jólakort sem í "Týnda sauðnum".  Og í lokin get ég lofað ferskeytlubyrjun á föstudagsbloggið kemur, hún er eiginlega tilbúin og aðeins 3 búnir að fá að heyra.

2.7.13

Júlí

- 2 -

Dagarnir þjóta áfram eins og þeim sé borgað fyrir það og maður gerir sitt best til að njóta þeirra.  Seinni partinn í gær hafði ég samband við tvíburahálfsystur mína og við sammæltumst um að ég kæmi til hennar upp úr átta með saumana mína.  Hún sagði mér allt um Ítalíuferðina og hafði ég gaman að.  Sá þetta hreinlega allt saman fyrir mér.  Drukkum kaffi, spjölluðum, saumuðum og hlógum og allt í einu var klukkan barasta orðin hálftólf, vó.  Ég sem passa yfirleitt upp á að kveðja ekki mikið seinna en ellefu.  Við vorum báðar mjög hissa á hve tíminn flaug hratt frá okkur.

1.7.13

Nýr mánuður

- 1 -  
Júní var ekki lengi að líða og nú fer að styttast í sumarfríið mitt.  Samt enn þrjár vikur í það en ef ég reikna dæmið rétt þá verða þessir 21 dagar alls ekki lengi að líða.  Skrapp á Landakot eftir vinnu á föstudaginn eftir stutt stopp heima fór ég á bikarleik í kvennaboltanum.  Mínar stelpur höfðu bara ekki roð í Stjörnustelpurnar og töpuðu á heimavelli 0:3.  Þurfti að skreppa í vinnuna milli níu og tólf á laugardagsmorguninn, það er nú ekki oft sem það þarf í seinni tíð.  Skrapp í Krónuna á heimleiðinni og var nýkomin úr þeim leiðangri þegar Lilja vinkona hringdi.  Hún kvaðst vera nýbúin að baka brauðbollur, var ein heima og í sameiningu ákváðum við að það værið tilvalið að ég tæki saumana mína með til hennar.  Stoppaði hjá henni í fjóra tíma og varð heilmikið úr sauma-verki.  Í gær var fótboltadagurinn mikli.  Reyndar byrjaði ég á því að fylgjast með Formúlu1 með "öðru auganu".  Um fjögur byrjaði bronsleikurinn í Álfukeppninni og hann fór í framlengingu og vítakeppni þannig að þegar ljóst var Ítalir náðu 3. sætinu var kominn tími til að trítla á völlinn á Valur - FH í Pepsídeild karla 1:1 og svo horfði ég á sjálsögðu á úrslitaleikinn í Álfukeppninni.  Það var meira hvað Braselíumenn fór illa með Spánverjana 3:0, engin framlenging og vítakeppni í þeim leik.  Fyrsta markið kom strax á annarri mínútu.

28.6.13

Sumarblíðan hún er hvar?
Heldur sig til baka.
Leitað hef ég hér og þar
hefur sólin vaka
-ð?

vantar aðeins smávegis upp á að lambið/sauðurinn sé kominn á jafann, þ.e. fyrir utan útlínur. Sat við saumana alveg frá því fyrir sjö og til klukkan að verða tíu.  Var reyndar oft stopp v/spennu í leiknum milli Ítala og Spánverja, sérstaklega í fyrr hálfleik, lokin á seinni hálfleik framlengingar og í vítaspyrnukeppninni.  Catillas sýndi snilldar tilþrif og hafði meira að gera í sínu marki en Buffon.  Hvorugur markvarðanna náði þó að verja neina vítaspyrnu.
 
Svo er bara spurningin hvernig bikarleikurinn í kvennaboltanum fer í kvöld.  Ég er eiginlega alveg ákveðin í að drífa mig á völlinn, strákarnir eru hvort eð er að fara til pabba síns svo ég get gert allt það sem mig langar til án þess að þurfa að taka tillit til þeirra.
 
Það á að fara að e-r framkvæmdir á Hverfisgötunni á næstu misserum og því eru allir stætisvagnar sem fóru þar um farnir að keyra Sæbrautina.  Þetta þýðir að þegar ég tek strætó í vinnuna, leið 13, stoppar hann við Hörpu og alveg við vinnustaðinn minn.  Það er þess vegna ekki mörg skref út á stoppistöð hvort sem ég er að koma til vinnu eða fara heim.
 
Hafði það sem allra best um helgina og njótið þess að vera í núinu!

27.6.13

- Álfukeppnin -

Það stefnir allt í fótboltaáhorfsviku hjá mér.  Fór á völlinn tvo daga í röð og í gærkvöldi horfði ég á fyrri undanúrsltialeikinn milli Braselíu og Úrúgvæ í Álfukeppninni.  Seinni leikurinn er í kvöld og hann er milli Spánverja og Ítalíu og ég ætla ekki að missa af honum.  Get samt örugglega "saumað í með hinu auganu" líkt og ég gerði í gærkvöldi.  Annað kvöld er bikarleikur kvenna og þá taka Valsstelpur á móti Störnustelpum.  Svo er auðvitað heimaleikur hjá strákunum á sunnudaginn þegar þeir fá FH í heimsókn.
 
Fór annars á bílnum í vinnuna í gærmorgun í rigningarsudda.  Það lá nú við að það væri komin sól og blíða upp úr fjögur.  Notaði tækifærið og kom við í fiskbúð og hamstraði ýsu, bleikju og nokkrar fiskibollur.  Þar sem ég er ákveðin í að föstudagar séu bíladagar og mér fannst ekki gott hjólaveður í morgun notaði ég strætó.  Hef þá möguleikann á því að labba heim ef veðrið verður skárra.

26.6.13

- Aftur á völlinn -

Fór á heimaleik hjá stelpunum upp úr sjö í gærkvöldi.  Þær tóku á móti Þrótti og höfðu betur 6:1.  Á tímibili voru Valsstelpurnar svolítið kærulausar í spilinu og þá voru e-r stuðnings menn sem hrópuðu inn á völlinn:  "Vanda sig" sem mér fannst svolítið fyndið því þjálfari Þróttara er Vanda Sigurgeirsdóttir.  Fór því einhverra hluta vegna að spá í hvað liðin myndu heita ef þau yrðu sameinuð, Valtur, Þróval, Lurtur Þrólur?  En Elín Metta setti tvö í gær og er markahæst í deildinni eftir átta umferðir ásamt Hörpu Þorsteinsdóttur úr Stjörnunni sem setti þrjú í gær á móti Aftureldingu.  Eftir leikinn fór ég beint heim og horfði á Castle með Oddi.  Stundum horfir Davíð Steinn með okkur en ekki í gær.
 
Hafði aðeins tekið fram saumana áður en ég fór á leikinn og er langt komin með lambið/sauðinn sem aðeins sást í fæturnar á þegar ég tók myndina, og deildi á bloggið og FB-vegginn, af útsaumnum síðast.  Ekkert ústáelsi er á dagskránni í kvöld svo líklega mun bætast nokkuð við myndina (nema ég "festist" of lengi í tölvunni).

25.6.13

- Fyrsta tapið staðreynd -
 
Ég ákvað að drífa mig í Kópavoginn um átta í gærkvöld og sjá "mína menn" spila við Breiðablik.  Því miður tapaðist leikurinn en ég hafði það allan tímann á tilfinningunni að það vantaði bara herslumuninn hjá þeim rauðklæddu að koma boltanum í netið hjá þeim grænklæddu.  Valsmenn áttu fleiri skot að marki en það telur ekki þegar upp er staðið.  Kom svo heim aftur upp úr tíu og þá voru tvíburarnir farnir með vinum í bíó.

24.6.13

- Helgin liðin -

Ýmislegt var gert um helgina.  Annar tvíburinn skrapp til vinar síns eftir kvöldmat á föstudaginn og hinn bað mig um að skutla sér í Kópavoginn á e-n hitting þar.  Ég notaði tækifærið og heimsótti mágkonu móðurömmu minnar heitinnar.  Tók með mér saumana en þegar til kom þá mundaði ég nálina ekkert á þessum tæpum tveimur tímum sem ég stoppaði.
 
Á laugardagsmorguninn var ég komin til norsku esperantovinkonu minnar rétt fyrir ellefu.  Við byrjuðum á því að fá okkur graut saman og svo settumst við niður yfir esperanto-ið með kaffi (hún reyndar aðeins með kaffistaup).  Næst lá leið mín í Krónuna við Granda.  Oddur Smári sá um að ganga frá vörunum er ég kom heim og rétt fyrir tvö skutlaði ég þeim báðum í Kópavoginn á "spilakvöld".  Þá lét ég verða af því að heimsækja frænku mína og nöfnu (yngsta dóttir gömlu konunnar sem ég heimsótti kvöldið áður).  Fyrir margt löngu lét þessi frænka mín mig vita að hún væri með föt af strákunum sínum sem mínir strákar gætu kannski notað.  Við sátum úti í sólinni og ég var með saumana mína með mér og mundaði nálina óspart og roðnaði aðeins undan sólinni.
 
Í gær fór ég á fætur upp úr átta.  Á tíunda tímanum skrapp ég í Hagkaup í Skeifunni og keypti afmælisgjöf handa yngri systurdóttur minni sem varð 9 ára í gær.  Var mætt upp í óháðu kirkjuna um tíu.  Framundan var gúllasmessa, síðasta messa fyrir sumarfrí.  Vorum ekki mörg sem mættum en þó níu og þótt kirkjugestir væru ekki margir voru þeir þó fleiri en við.  Eftir messuna fékk ég mér tvo skammta af gúllassúpu því í fyrri skammtinum hafði ég ekki fengið neitt kjöt.  Kom heim rétt fyrir hálfeitt og vakti þann tvíbura sem enn svaf og svo drifum við okkur í afmælisveislu sem haldin var á Hellu.

21.6.13

Einskis vil ég óska mér,
óþarfi að vona.
Það veit sá er allt hér sér
svalt að hugsa svona.
(Ég er hörku kona!)

Það er nú ekki meiningin að byrja föstudagsbloggið "alltaf" á ferskeytlum en þegar þær koma til mín þá læt ég þær fljóta með þ.e. ef ég er sátt við þær.
 
Hjólaði til og frá vinnu í gær þriðja daginn í röð og í morgun fannst mér það hálf glæpsamlegt að fara á bílnum.  En föstudagssíðdegin eru helguð henni Hlíbbu minni sem er búin að vera á Landakoti í nokkrar vikur og þar áður var hún búin að vera amk tvo mánuði á sjúkrahúsinu í Fossvoginum.  Það eru ekki margir föstudagar frá því í febrúar sem ég hef ekki komist til hennar en þó einhverjir en þá hef ég líka oftast farið til hennar e-n annan dag í vikunni.
 
Gærdagurinn var annars nokkuð rólegur.  Tók fram saumana mína eftir kvöldmat og fylgdist með Spánverjum rústa Tahítimönnum 10:0 (Torres skoraði 4 af þessum mörkum en klúðraði einnig víti).  Tvíburarnir fóru út í körfubolta með vinum sínum eftir að hafa borðað en Oddur kom heim um tíu til að poppa og horfa á Glæpahneygð.
 
Hafið það sem allra best um helgina og njótið þess að vera til!

20.6.13

- Hittingur -

Í fyrrakvöld var ég svo séð að byrja á því að spyrja tvíburana að því hvernig þeim litist á að kanna hvort systir mín og fjölskylda gætu tekið á móti okkur kvöldið eftir (í gærkvöldi semsagt) ef við legðum í matarpúkk.  Strákunum leist ekkert illa á þetta nema annar þeirra var svolítið hneykslaður á að ég skyldi byrja að skipuleggja þetta og spyrja þá áður en ég athugaði hvernig systur minni hugnaðist þetta.  Ég hringdi í Helgu systur um leið og strákarnir voru búnir að gefa grænt ljós.  Henni leist mjög vel á hugmyndina og var sammála mér um að betra var að hafa athugað hvort strákarnir væru til í þetta fyrst.  Þegar ég kom heim úr vinnu seinni partinn í gær var enginn heima.  Skyldu bræðurnir nú hafa gleymt þessu?  Sími annars þeirra var heima en hann sjálfur í ræktinni.  Hann var ekkert búinn að gleyma þessu og skilaði sér heim rétt fyrir fimm.  Náði símasambandi við hinn sem reyndist hafa steingleymt þessu.  Hann var í Kringlunni með vinum sínum.  Þegar ræktardrengurinn var tilbúinn lögðum við í hann og sóttum kringludrenginn á leiðinni í Krónuna.  Keypti nokkra kindafilletbita og var komin til systur minnar upp úr hálfsex.  Hún og maðurinn hennar sáu um að elda og það var sest niður við matarborðið um sjö.  Meðlæti var m.a. kartöflugratín, sallat, brokkolí og gular og grænar baunir.  Mjög ljúfengt.  Töluðum um að við mættum alveg gera þetta oftar eða amk reglulega, t.d. einu sinni í mánuði.  Mágur minn bjó annars svo vel að geta látið mig hafa minniskort í myndavélina mína svo nú get ég tekið fleiri en átta myndir áður en ég þarf að tæma vélina.  Við mæðgin vorum komin heim um tíu en þeir bræður fóru reyndar fljótlega að hitta vini sína.

19.6.13

- Eitt og annað -

Vikan er strax hálfnuð og það er eins og júní ætli ekki að vera lengi að líða burt.  Hjólaði milli heimilis og vinnu í gær.  Það voru smá dropar um morguninn en aðallega hvasst á móti seinni partinn.  Þetta hafðist samt allt saman og var ég ekkert lengur þrátt fyrir mótvind.  Stoppaði frekar stutt við heima því ég var mætt á völlin klukkan sex.  Valur - ÍBV  strákarnir.  Þetta var síðast leikurinn í umferðinni og sá eini og það var margt um manninn.  Leikurinn endaði 1:1 og voru Vestmannaeyingarnir á undan að skora.  Þar með eru strákarnir enn í 4. sæti, hefðu getað farið í 2. sætið með sigri en þeir eru annað liðið af tveimur sem ekki hefur tapað leik enn.
 
Kom aðeins við í Sunnubúð á leiðinni heim og freistaðist að kaupa smá sjónvarpssnakk.  Strákarnir höfðu bjargað sér með kvöldmatinn á meðan ég var á leiknum (áttum til 2 1944 spaghetti búlones (skrifað eftir framburði, eða nokkurn veginn)).  Um níu leytið kom einn vinur þeirra í heimsókn og hann horfði á Castle með okkur mæðginum.
 
Ekki tók ég fram saumana mína í gær en mér gengur ágætlega að lesa Húsið eftir Stefán Mána en það er bókin á náttborðinu mínu.

18.6.13

- Langa helgin leið alltof hratt -

Þrír dagar liðu mjög hratt.  Skrapp á Landakot að venju eftir vinnu á föstudaginn til að kíkja á tengdamömmu eins frænda míns.  Hún er búin að vera á sjúkrahúsi (upp í Fossvogi og svo á Landakoti) síðan í febrúar.  Um daginn var farið að tala um að senda hana heim.  Það er búið að gera þrjár tilraunir en það er alltaf eitthvað sem kemur í veg fyrir heimförina.  Fyrst fékk gamla konan flensu, næst var hún komin með blöðrubólgu og núna síðast lungnabólgu þannig að hún þarf aftur að vera með súrefni.  Mér segir svo hugur um að gamla konan fari líklega ekki heim til sín aftur.  Það þarf sennilega að sækja um pláss á elli- eða hjúkrunarheimili fyrir hana.  Ég stoppaði ekki lengi heima þetta föstudagssíðdegi heldur trítlaði upp á völl og fylgdist með "mínum Val-stelpum" taka á móti og spila við FH.  "Við" lentum 0:2 undir en leikurinn vannst 5:3 og var Elín Metta með tvö af mörkunum.  Fljótlega eftir að ég kom heim byrjaði Barnaby svo annan daginn í röð saumaði ég ekki spor.
 
Um tíu á laugardagsmorguninn var ég mætt til Nonna í Kristu.  Hugsa sér strax liðnar sex vikur síðan ég var í klippingu síðast.  Klukkutíma seinna var ég komin til norsku esperanto vinkonu minnar.  Stoppaði hjá henni í einn og hálfan tíma.  Þá átti ég bara eftir að taka saman það sem ég þurfti til tveggja nátta gistingu.  Var ekki alveg byrjuð að hugsa mér til hreyfings þegar pabbi hringdi rétt fyrir eitt.  Aldrei þessu vant hafði ég ekki hringt austur á föstudeginum og þar sem hann vissi að ég væri á leiðinni en var ekkert búin að láta í mér heyra hringdi hann til að athuga með mig.  Ég var svo komin austur um hálfþrjú.  Fékk mér kaffi með foreldrum mínum en hafði svo samband við frænda minn og konuna hans um hvort ég mætti ekki koma til þeirra og verða samferða á "Heiðarfólks-hittinginn".
 
Við hittumst semsagt önnur og þriðja kynslóð frá föðurforeldrum mínum og borðuðum saman á Hótel Læk sem er staður þar sem hét áður Hróarslækur og ein föðursystir mín bjó á.  Mætingin var nokkuð góð, 29 manns, en ég var sú eina mætt af pabba grein.  Mamma er frekar léleg til heilsunnar svo pabbi vildi ekki skilja hana eftir eina og systir mín og mágur voru í brúðkaupsveislu.  Annars vantaði bara 6 aðra (4 maka og 2 systkinabörn). Annað af systkinabörnunum býr með sýnum maka í Bandaríkjunum og einn makinn var einnig staddur erlendis).  Ósköp sem var gaman að hitta þetta fólk.  Ég stoppaði samt ekkert svo lengi ákvað að drífa mig þegar frændi minn og hans spúsa kvöddu. Föðursystir mín var einnig samferða okkur og skutlaði ég henni alla leið heim.
 
Restin af helginni fór í lestur, útsaum og almennt afslappelsi.  Sótti tvíburana svo til föðurforeldra þeirra á leiðinni í bæinn í gærkvöldi og við mæðginin ákváðum að hafa myndakvöld.  Fór því kannski heldur seint að sofa í gærkvöldi.

14.6.13

Tíminn flýgur furðu hratt,
festir ekki rætur.
Það hef fyrir hreina satt
hann er ekki ætur.

Er ekki hressandi að byrja skrifin í virkra vikulokin á einni skrýtinni stöku sem "kom" til mín í morgun?  Upp er runninn enn einn föstudagurinn og mánuðurinn alveg að verða hálfnaður.  Það er annars búið að sjá til þess að ég missi ekki af heimaleik karla í næstu umferð.  Leikurinn átti að vera á sunnudaginn kemur en hefur verið frestað fram á þriðjudagskvöld þar sem einn ÍBV-arinn (erlendur leikmaður) er í e-m landsliðsverkefnum.  Ég verð nefnilega sennilega frekar lítið heima um helgina, en allt um það eftir að hún (helgin) er liðin.
 
Bíllinn var ekki hreyfður í gær.   Notaði hjólið milli vinnu og heimilis og var ekki á neinu útstáelsi í gærkvöldi.  Tíminn fór í ýmislegt m.a. lestur og útsaum. Aftur á móti er ég á bílnum núna, þarf að reka nokkur erindi seinni partinn.  Það er alveg leyfilegt því ég notaði vistvænan ferðamáta þrisvar í vikunni.
 
Ég er svo á leiðinni á heimleik í Pepsídeild kvenna í kvöld til að hvetja stelpurnar.
 
Hafið það sem allra best um helgina og brosið mikið!

13.6.13

- Hitt og þetta -

Ég var svo sniðug að skreppa frá í hádeginu í gær.  Við hliðina á hjólinu mínu var pumpa sem ég notaði á framdekkið.  Hjólaði svo að Hverfisgötu 50 og bað um að framdekkið yrði skoðað og hjólið yfirfarið.  Sá sem tók við hjólinu sagði að ég gæti sótt það seinni partinn.  Síðan ákvað ég að prófa veitingastaðinn Gló við Laugaveg 20B. Fékk mér kjúklingarétt og gat fengið þrennskonar sallat með.  Greip einnig grænan drykk í flösku með.  Ég á örugglega eftir að prófa þetta aftur því þetta var bara ljúffengt.  Strax eftir vinnu fór ég og sótti hjólið mitt.  Ætlaði varla að nenna því því það rigndi alveg beint niður og ég sá fyrir mér að ég kæmi heim alveg rennblaut.  Skipta hafði þurft um slöngu í framdekkinu og kostaði viðgerðin og yfirferðin rúmlega átta þúsund.  Það hætti svo að rigna fljótlega eftir að ég hjólaði af stað heim.  Fyrir framan bílskúrinn heima gerðist eitthvað undarlegt.  Ég var búin að stoppa og ætlaði að stíga af hjólinu og á næsta augnabliki lá ég alveg á hliðinni.  Hló svo mikið að ég ætlaði ekki að geta staðið upp aftur.
 
Stoppaði ekki lengi heima heldur dreif mig í Lyfjaver til að leysa út gel sem ég þarf að nota daglega fyrir utan ca hálfan mánuð á 2-3 mánaða fresti.  Hef verið með lyfjakort sem gilti 100% en nú þurfti ég að borga hátt í 3000 fyrir hverja flösku (leysi alltaf út 3 í einu á 3 mánaða fresti).  Næst lá leiðin í bókasafnið í Kringlunni.  Já, ég fór til að skila þessum tveimur bókum sem ég minntist á í gær.  Auðvitað fann ég nokkrar aðrar í staðinn, sex stykki eða svo, og nei það var ekki komið að því að endurnýja bókasafnskírteinið.  Það verður líklega ekki fyrr en næst.
 
Eftir kvöldmat skrapp ég svo með handavinnutöskuna yfir til tvíburahálfsystur minnar.  Var komin til hennar rétt upp úr átta og svo var klukkan allt í einu alveg að verða ellefu.  Magnað hreint hversu tíminn getur flogið hratt.

12.6.13

- Enn af hjólinu -

Ekki komst ég með hjólið í viðgerð í gær heldur fékk það að vera á hjólastæði í kjallara vinnustaðarins í nótt.  Borgarhjól sf. er opið milli átta og sex flesta virka daga en ég komst ekki úr vinnu fyrr en upp úr sjö í gær vegna smá mála sem þurfti að afgreiða "strax".  En ég er nokkuð viss um að hjólið fer í viðgerð eftir fjögur í dag.
 
Hef lokið við að lesa tvær síðustu bækurnar sem ég er með af KringlusafninuVetrarsól eftir Auði Jónsdóttur  og Drottning rís upp frá dauðum sem er söguleg skáldsaga eftir Ragnar Arnalds.  Báðar alveg ágætisbækur.  Þarf að skila þeim á safnið fyrir 18. þ.m. og ef ég næli mér í e-r bækur í staðinn þarf ég líklega að endurnýja bókasafnskírteinið.  Annars á ég þrjár ólesnar bækur heima, Húsið eftir Stefán Mána, Ég geng ein eftir Mary Higgins Clark og Áður en ég sofna eftir Steven J. Watson.  Þessa síðustu fékk ég í síðustu viku frá bókaklúbbnum sem ég er í.  Fyrst nefndu bókina keypti ég á afar góðum afslætti í gegnum "Núið" í byrjun árs og "miðbókina" keypti ég á bókamarkaðinum í Perlunni í febrúar eða mars.  Byrjaði á að lesa bókina hans Stefáns Mána í gær og hún lofar góðu.  Þetta er mjög þykk bók og það er helst að ég kvíði því að hún grípi mig svo sterkum tökum að ég verði að lesa langt frameftir öllu og sinni ekki saumunum mínum á meðan.

11.6.13

- Framhaldssaga af hjólinu -

Um leið og ég kom heim úr vinnu í gær fór ég út í skúr, snéri hjólinu mínu á hvolf og prófaði að pumpa í framdekkið.  Það gekk þokkalega en mér fannst ég ekki ná dekkinu alveg hörðu.  Það var reyndar smá vesen á mér við þessa framkvæmd, eitthvað færðist hjólið til og allt í einu var stýrisendinn fastur inn á milli teinanna í hjóli annars stráksins.  Ég hélt að ég ætlaði aldrei að geta losað þetta en tókst það þó að lokum og var öll útötuð.
 
Skrapp í heimsókn til systur minnar í gærkvöld og hafði með mér nýjustu þýddu Lee Child bókina til að lána.  Stoppaði í rúma tvo tíma og byrjaði svo á því að kíkja á hjólið aftur þegar ég kom heim.  Dekkið var amk ekki orðið alveg flatt en hafði linast aðeins upp.  Pumpaði meira í það.  Svo var ég mætt út í skúr korter yfir sjö í morgun.  Mér fannst sem það hefði nú ekki lekið mikið úr dekkinu en líklega hefði ég samt átt að pumpa aðeins meira í það.  Engu að síður hjólaði ég af stað og komst alla leið út á Miklubraut og yfir á gönguljósunum þar en þá þorði ég ekki að hjóla meir ef ég skyldi nú skemma dekkið.  Teymdi hjólið með mér alla leið í vinnuna og mun svo fara með það beint á Hverfisgötu 50, þar sem hægt er að fá gert við hjól, seinni partinn.

10.6.13

- Sprungið á hjólinu -

Þegar ég ætlaði að grípa í hjólið í morgun sá ég að framdekkið var alveg lint og flatt við gólfið í skúrnum.  Þótt ég væri í fyrra fallinu var ég rétt búin að missa af strætó. Þar sem ég er að byrja að leysa teymisstjórann minn af vegna sumarfrís vildi ég mæta tímanlega til vinnu svo það var bara um það að ræða að draga fram bíllykilinn og bruna óvistvænt af stað.  Samgöngusamningurinn kveður á um vistvænar ferðir amk þrisvar í viku milli heimilis og vinnu svo ég er ekkert að svindla þótt ég hafi farið á bílnum í morgun.  Ég fór líka á bílnum á föstudaginn var því strax eftir vinnu skrapp ég í heimsókn til eldri konu sem er á Landakoti.  Ég kíki yfirleitt á hana á föstudögum en ég komst ekki á föstudaginn var svo það var liðinn hálfur mánuður frá síðasta innliti.
 
Helgin leið annars hratt og örugglega.  Skutlaði Oddi Smára í Breiðholtsskóla upp úr hálfellefu á laugardagsmorguninn þar sem hann var að spila á trommur með skólalúðrasveit Árbæjar og Breiðholts á vorhátíð skólans.  Síðan lá leið mín til norsku esperanto vinkonu minnar.  Þótt stoppið hjá henni væri bara tæpur einn og hálfur tími var strákurinn kominn heim á undan mér.  Um tvö gáfumst við upp á að bíða eftir að hinn tvíburinn vaknaði og vöktum hann.  Skruppum svo í Dressmann í Kringlunni þar sem ég keypti tvennar buxur á hvorn strák.  Annar strákurinn labbaði heim strax á eftir en hinn kom með mér í Hagkaup uppi þar sem ég fann einar buxur á mig og Hagkaup niðri þar sem við keyptum m.a. rjóma í vöfflur sem ég bjó til um leið og við komum heim.
 
Um eittleytið í gær kvaddi ég strákana sem voru búnir að taka sig til og á leiðinni í nokkurra daga heimsókn til föðurforeldranna.  Það var samt ég sem var að fara út úr dyrunum fyrst og mig grunaði að þeir yrðu farnir þegar ég skilaði mér heim aftur.  Ég fór í Kolaportið en þangað hef ég ekki komið í mörg ár.  Að þessu sinni fór ég að kíkja á vinkonur mínar og saumaklúbbsmeðlimi sem voru með bás ásamt fósturdóttur annarrar þeirra.  Stoppaði hjá þeim í hátt í tvo tíma.  Nokkuð var af fólki á svæðinu en verslun í bás vinkvenna minna var frekar dræm.  Það var helst að sú yngsta seldi nokkuð af flíkum og skóm.  Úr Kolaportinu dreif ég mig í heimsókn til einnar sem verður 91 árs eftir tæpan mánuð.  Taldi það öruggt að hún væri heimavið þar sem síminn hjá henni var á tali þegar ég reyndi að hringja á undan mér.  Enda kom það á daginn að hún var heima og tók mér fagnandi, var nýbúin að búa til stafla af  pönnsum.

7.6.13

- Föstudagur -

Ein vika er ekki lengi að líða.  Mér finnst dagarnir ótrúlega fljótir að raða sér saman í viku og vikurnar í mánuði.  Vika síðan ég fór til Egilstaða.  Ég stefni klárlega að því að fara þangað aftur seinni partinn í sumar í 2-4 virka daga.
 
Tók eftir því í gær að buxurnar sem ég nota mest eru orðnar afar slitnar í klofi og innri skálmum.  Það borgar sig líklega ekkert að gera við þetta slit, búið að bæta þennan stað áður og efnið orðið mjög þunnt og götótt.  Ég þarf hvort eð er að kaupa buxur á tvíburana og mun líklega nota tækifærið og finna einar á mig, samt ekki í Dressmann.  Það gerðist líka þegar ég var alveg að koma heim og hjólaði á mjóu  gangstéttinni fyrir framan bílastæðin að einn bíllinn var svo nálægt að það var frekar lítið bil milli bíls og steinveggs utan um garðinn við næsta hús.  Hægri skórinn nuddaðist við vegginn á smá kafla og það kom næstum því gat á skóinn fyrir vikið.  Sólarnir á þessum skóm eru reyndar orðnir mjög slitnir, sennilega vegna þess að þetta eru eina parið sem ég nota t.d. í innanbæjartrítl.  Það væri skynsamlegt af mér að kaupa mér eitt skópar fljótlega og svo annað innan fárra mánaða.  Ég er greinilega ekki haldin sterkri skókaupaáráttu og vakna oftast upp við það að skóparið sem ég nota mest er orðið lúið.
 
Ég er enn að reyna að átta mig á að Hemmi Gunn sé fallinn frá.  Auðvitað er þetta það eina sem er öruggt í lífinu að maður mun deyja og þessi þekkti maður sem nú er dáinn var búinn að fá áfall áður og hafði verið "hnoðaður til baka" amk einu sinni.  Hann fór ekki heldur alltaf vel með sig.  En það má alveg taka mottóin hans sér til fyrirmyndar.  Hver dagur er gjöf og um að gera að nota hann vel, vera hress, ekkert stress, kossar og bless.

Hafið það sem allra best um helgina og gerið eitthvað skemmtilegt!

6.6.13

- Misreiknaði mig -
 
Fór aðeins að spá aftur í heimsóknirnar í blóðbankann.  Það að ég er búin að heimsækja þann stað 35 þýðir að það vantar bara 15 heimsóknir upp í 50 og 4(mánuðir)x15 eru 60 en ekki 200.  Svo það eru fimm ár í fimmtugustu heimsóknina, þe ef allt gengur vel næstu misserin og ég mæti reglulega á fjögurra mánaða fresti.  Það eru líklega bara ágætar líkur á því að ég fari í 50. heimsóknina árið sem ég verð fimmtug.
 
Davíð Steinn bað mig um að skutla sér í Veiðihornið í Síðumúla eftir að ég var komin heim úr vinnu í gær.  Hann hafði augastað á nýju veiðihjóli.  Hann borgaði sjálfur fyrir hjólið en ég splæsti línunni á hjólið á hann.  Hjólið kostaði um 15þús en línan fimmtánhundruð.  Oddur Smári notaði allan sinn vasapening í að kaupa sér nýja tölvumús í byrjun vikunnar þannig að báðir bræðurnir eru búnir að eyða vasapeningunum sínum og mánuðurinn er bara rétt nýbyrjaður.
 
Klukkan var orðin níu í gærkvöldi áður en ég tók fram saumana mína og þá hafði ég ekki tekið þá fram síðan á mánudaginn.  Óskiljanlegt að ég sleppti úr einum saumadegi.  Var reyndar alltaf á leiðinni að taka upp saumana á þriðjudaginn en síðdegið og allt kvöldið fór í eitthvað allt annað.

5.6.13

- Samgöngusamningur gildur -

Í nýliðnum mánuði skrifaði ég undir samgöngusamning við vinnustaðinn minn.  Þessi samningur tók gildi um mánaðamótin og felur í sér að ég komi mér til og frá vinnu á vistvænan hátt amk þrisvar sinnum í viku.  Á mánudaginn var ýmislegt á "þarf að gera-listanum" svo ég valdi að fara á bíl í vinnuna.  Hins vegar var allt annað upp á teningnum í gær.  Það rigndi nokkuð í gærmorgun og því langaði mig alls ekki til að nota hjólið.  Ég ákvað því að taka strætó og var það í allra fyrsta sinn sem ég nota þá leið til vinnu.  Vagninn tók ég rétt upp úr hálfátta eiginlega á næsta götuhorni, við Sunnubúð (Langahlíð/Mávahlíð) og fór úr honum aftur við  Þjóðleikhúsið.  Seinni partinn var hætt að rigna en nokkuð hvasst.  Engu að síður labbaði ég af stað heimleiðis þvert yfir Skólavörðuholtið og var komin heim uþb hálftíma síðar.  En ég hjólaði til vinnu í morgun.  Hef ákveðið að nota bílinn milli heimilis og vinnu á föstudögum og kannski stundum á mánudögum.

4.6.13

- Eignaðist myndavél í gær -

Á föstudaginn var kom tilkynning frá pósthúsinu um að ég ætti sendingu þar.  Ég var nokkuð viss um hvað væri í pakkanum og fór með miðann í pósthúsið eftir vinnu í gær.  Greiddi smá sendingakostnað og tók svo spennt á móti litlum kassa.  Þegar heim kom opnaði ég pakkann og tók upp úr honum rauða krúttlega myndavél.  Myndin hér að neðan er einmitt tekin á þá vél.  Fyrir þessa myndavél borgaði ég (fyrir utan sendingakostnað) með uppsöfnuðum capacent-punktum, 30.062.  Slíkum punktum safna ég með því að ganga daglega með svokallaðan fjölmiðlamæli sem nemur allar útvarpsbylgjur.  Um daginn leysti ég út nýjan heimasíma (þurfti ekki að borga sendingakostnað þá) en sá gamli var hættur að sýna neitt á skjánum.  Ekki var hægt að sjá úr hvaða númeri var verið að hringja og ekki heldur hvaða númer var verið að slá inn, þannig að það var alveg kominn tími á nýjan síma.  Þessi sem tekinn er við af þeim gamla sýnir líka dagsetningu og tíma.

3.6.13


- Frábær helgi að baki -

Var mætt hálftíma of snemma út á Reykjavíkurflugvöll á föstudagsmorguninn var. Byrjaði því á að fá mér smá kaffi og las í nýjustu Lee Child bókinni.  Vélin hóf sig til flugs um hálfellefu og klukkutíma seinna lenti ég á Egilstöðum.  Einar Bjarni sonur vinkonu minnar var í móttökunefninni en Ella var að vinna til þrjú.  Ég setti dótið mitt inn í það herbergi sem ég átti að fá afnot af um helgina og greip með mér saumana, bókina og sudoku-gátur inn í stofu.  Tíminn leið hratt við þetta dundur.  Var bæði með "Lost no more" myndina og jólakortaútsaum.  Það varð úr að þann tíma sem ég greip í sauma um helgina var ég að sauma út eina jólakortamynd, þ.e. ég lauk við allan krosssaum og á nú bara eftir útlínur.
 
Þegar vinkona mín kom heim hellti hún upp á en fljótlega skruppum við í verslunarleiðangur. Fórum bæði í vínbúð og Bónus.  Um kvöldið fengum við okkur hvítt í glas og horfðum m.a. á "The Voice" og spjölluðum að sjálfsögðu. Upp úr hádegi á laugardaginn fórum við fimm á tveimur bílum yfir til Eskifjarðar og hittum tvennt til við höfnina.  Fórum um borð í Geysi og sigldum út fjörðinn.  Sáum einn einmana lunda.  Hvort það var Lundi eða Skundi sem við sáum er ekki vitað. Við Einar Bjarni fórum til baka á undan hinum þremur því hjónin voru á leið í vígsluathöfn og Árdís var að uppvarta í veislunni.
 
Í gærmorgun fórum við þrjú, hjónin og ég, í bíltúr inn í Hallormsstað.  Sáum 12 dýra hreindýrahjörð á leiðinni, allt karldýr og tveir af törfunum með heljarmikil og flott horn.  Fórum í smá göngutúr í skóginum.  Sáum fleiri hreindýr í bakaleiðinni og þau komu við hjá tilbúnu vatni og sýndu mér Flórgoða.  Um hálffjögur skutlaði vinkona mín mér á völlinn og beið með mér þar til kallað var út í vélina.  Helgin leið eiginlega alltof hratt en við vinkonurnar erum ákveðnar í að endurtaka leikinn seinna í sumar.  Þá ætla ég að fara e-a virka daga í sumarfríinu og vonast til að geta notað e-ð af uppsöfnuðum punktum í leiðinni.

31.5.13

- Frídagur -

Í dag tek ég út einn af síðustu sumarfrísdögunum frá því í fyrra.  Fínt að lengja helgina svona.  En annars mun ég líklega skrifa um ævintýrin framundan strax eftir helgi.

er ég búin að heimsækja blóðbankann þrjátíuogfimm sinnum síðan ég var tvítug.  Fór þangað í gær beint eftir vinnu.  Reyndar kom í ljós að ég átti ekki að koma fyrr en í kringum áttunda júní n.k. en þar sem ég er með afar gott blóðgildi þá var ákveðið að þyggja frá mér dropa.  Sennilega hef ég mistalið vikurnar 16 og þær ekki verið nema 15 þegar ég setti áminningu á heimsókn í "gsm-dagbókina" mína síðast.  Hvað um það, mér skilst að það verði svo haft samband við mig frá blóðgjafafélaginu og ég boðin formlega á næsta aðalfund þar sem ég mun taka á móti bronsmerki.  Ég er strax búin að setja markið á 50 heimsóknir og ef heilsan verður áfram hin besta eru svona 200 mánuðir í þá heimsókn.

Eftir blóðgjöfina skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði af mér einum fimm bókum.  Tvær bækur eru enn ólesnar hér heima af safninu en nú brá svo við að það kom engin "ný" bók með mér heim af safninu.  Það er í góðu lagi því fyrir utan þessar tvær bækur á ég þrjár nýlegar ólesnar og svo er sennilega stutt í næstu kilju úr krimmabókaklúbbnum.

Hafið það sem allra best um helgina!

30.5.13

- "Öðruvísi" kórhittingur -

Miðvikudagskvöldið fyrir hvítasunnu var síðasta kóræfing í bili.  Enn eru eftir tvær messur áður en skellur á sumarfrí, göngumessa kl. 09:00 þann 8. júní n.k. og gúllasmessa kl. 11:00 þann 23. júní.  Þá fannst okkur alveg tilvalið að reyna að hóa hópnum saman heim til eins meðlims og leggja saman í smá grillpúkk.  Þessi hittingur fór fram í gærkvöldi í Hafnarfirði.  Ég kom við í Hagkaup í Skeifunni og hafði með mér e-s konar bita af lambi til að setja á grillið.  Freistaðist reyndar til að kaupa nýjustu þýddu bókina eftir Lee Child "Rutt úr vegi", en það er allt önnur saga.  Við mættum 8 kórfélagar af 17 heim til þess 9. og kórstjórinn leit við með eldri stelpuna með sér.  Annar bassinn tók að sér að grilla.  Húsráðandi var búinn að leggja á borð og búa til sósu, ferskt sallat og kartöflusallat.  Hann bauð öllum sem vildu smá hvítt í glas.  Þegar kallað var að borðum kom smá babb í bátinn því hver og einn átti að þekkja sinn bita og ég sem hafði ekkert reynt að "kynnast" mínum... ...en þetta bjargaðist allt saman því hinir þekktu sína bita.  ;-) Kvöldið varð annars hið skemmtilegasta og leið auðvitað alltof fljótt.

29.5.13

- Tap á heimavelli -

Já, ég fór á heimaleikinn Valur - Stjarnan 0:2 í kvennaboltanum í gærkvöldi.  Mest allan tímann fannst mér Valsstelpurnar eiga meira í leiknum en maður vinnur ekki nema með því að skora mörk og stelpurnar nýttu ekki færin sín, því miður.  Þá er nokkuð ljóst að stelpurnar verða ekki í toppbaráttunni í sumar.  En hvað um það, ég mun halda áfram að fara á heimaleiki í sumar, nota mér árskortið, þ.e. ef ég er í bænum þegar þeir fara fram.

Ég er mjög dugleg að fara á bókasafnið.  Yfirleitt fæ ég nokkrar bækur að láni í hvert sinn og ein og ein sem er til láns í tvær vikur.  Þannig að þegar þarf að skila skammtímalánsbókum er ég ekki endilega búin að lesa allar bækurnar.  Þá skila ég þeim sem ég hef lesið og svo rata fleiri bækur í pokann til mín og heim.  Er nýbúin að lesa tvær bækur eftir Böðvar Guðmundsson Enn er morgun og Kynjasögur.  Sú fyrrnefnda hélt athygli minni allan tímann í hinni bókinni voru alls kyns skrýtnar smásögur sem voru flestar nokkuð skondnar.

28.5.13

- Síðasta vikan í maí -

Helgin leið hratt og örugglega.  Skrapp til Inger í esperanto um ellefu á laugardagsmorguninn.  Strákarnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom heim.  Restin af deginum fór í tölvuleiki, lestur, útsaum og svo byrjaði ég að pakka niður dóti frá Davíð.
 
Á sunnudaginn var ég komin á fætur upp úr níu.  Kíkti í tölvuna.  Sótti svo Lilju vinkonu um hálftólf.  Setti bensín á bílinn og svo brunuðum við austur á Hellu.  Vorum komnar það snemma að við byrjuðum á því að kíkja til pabba og mömmu, aðallega til að fá að nota salernið.  Klukkan hálftvö vorum við komnar upp á Helluvaði til að taka þátt í "Halló Helluvað".  Verið var að hleypa út kúnum í fyrsta sinn þetta sumarið og það er alltaf jafn gaman að verða vitni að því.  Það var sko skvett úr klaufunum en stundum vissu kýrnar ekki alveg hvort þær voru að koma eða fara eða hvort allt fólkið væri á staðnum fyrir þær til að horfa á.  Kíktum aðeins í fjárhúsið og fengum okkur svo kaffi, kleinu og ábresti.
 
Næst lá leiðin á Hvolsvöll í heimsókn til mömmu hennar Lilju.  Þar fengum við kaffi og berjatertu með þeyttum rjóma.  Þegar við kvöddum fékk Lilja með sér fullt af efni í föndrið sitt og slatta af kryddjurtum og sallati.  Því næst gerðum við gott stopp hjá pabba og mömmu.  Stoppuðum alveg fram yfir kvöldmat, fréttir og Landann.  Lilja vann eitthvað að þýðingum og ég var með saumana mína með mér. Það var vel þess virði að missa af einum heimaleik í boltanum fyrir svona skemmtilegan dag.  Hefði samt alveg viljað verða á leiknum Valur - Keflavík 4:0 í 5. umferð Pepsídeildar karla.  En það er víst ekki hægt að vera alls staðar.
 
Er búin að gera samgöngusamning við vinnuna mína.  Sá samningur felst í því að nota vistvænar leiðir milli heimilis og vinnu amk þrisvar í viku og tekur í gildi um mánaðamótin.  Ég er samt farin að hjóla í vinnuna.  En í rokinu í gær ákvað ég að fara á bílnum til að geta farið beint að versla eftir vinnu.  Þegar strákarnir eru ekki heima geri ég ekki innkaupin fyrr en eftir helgarnar.  Hringdi í Odd um þrjú og hann féllst á að koma gangandi í vinnuna til mín og fara með mér í búðina. Kom við í Byko og keypti meira lím til að loka kössum.
 
Um átta byrjaði "formlegur" saumaklúbbur hjá mér og var þetta sá síðasti skipulagði í bili.  Ætlum að taka okkur sumarfrí en áskiljum okkur rétt til að hóa í hver aðra ef við erum í saumastuði og allar í bænum. Kvöldið leið alltof hratt.  Er alltaf að vinna í "Lost no more" útsaumsmynd sem Sonja gaf mér í fertugsafmælisgjöf fyrir rúmum fimm árum.  Byrjaði loks að vinna í henni í janúar sl. og gengur verkefnið bara vel.  Ég notaði líka tækifærið og festi tölu á buxur af Davíð Steini.

24.5.13

- Helgin framundan -

Enn á ný er kominn föstudagur.  Það vantar ekki að dagarnir, vikurnar og jafnvel mánuðurnir þjóta áfram og stundum framhjá þrátt fyrir allt og allt.  Um daginn leysti ég út fjölmiðlapunkta og sótti nýjan heimasíma á pósthúsið á þriðjudaginn var.  Þvílíkur munur að geta aftur séð í hvern maður hringir og hver hringir í mann.  Einnig sýnir skjárinn hvað klukkan er og hvaða dagur er.  En hringitónninn er svolítið annarlegur og spurning hvort ég reyni ekki að breyta honum eitthvað.
 
Í gær hafði samband við mig maður hjá skjánum sem sagði að nú færi frí-áskriftinni að ljúka og spurði hvort ég vildi gerast e-s konar pakka-áskrifandi.  Ég bað manninn um að senda mér tilboð í tölvupósti.  Það skoðaði ég í morgun og ákvað í kjölfarið að gerast áskrifandi að blönduðum pakka þar sem ég hef áfram aðgang að DR1 m.a.  Svo sló ég þessu upp í kæruleysi og ákvað að þyggja sumaráskrift af SkjáEinum, þrjá mánuði á verði tveggja.
 
Ákvað líka að skreppa til Ellu vinkonu á Eglisstaði um næstu mánaðamót þrátt fyrir að geta ekki nýtt flugpunktana mína.  Bað um frí þann 31. n.k. og bókaði flug austur um hálfellefu og til baka seinni partinn á sunnudeginum 2. júní.  Lét svo Ellu vita en ég var búin að vara hana við áður að ég væri að pæla í þessu svo það var í góðu lagi að ég upplýsti hana um fyrirhugaða heimsókn eftir að ég var búin að bóka flugið.
 
Og þar sem ég á slatta af eftir af fjölmiðlapunktum lét ég verða af því að biðja um að leysa hluta af þeim út í nýrri myndavél.  Já, ég er góð við sjálfa mig og finnst ég alveg verðskulda það.
 
Góða helgi!  :-)

23.5.13

- Tveir dagar í röð -

Kannski kemst ég eitthvað á skrið ef ég bara set mér að pikka "eitthvað" inn á hverjum degi, hver veit?  Freyr frændi minn er nýbyrjaður að setja inn pistla daglega um allt mögulegt og það er alltaf spennandi að lesa þá pistla.  Þar kennir ýmissa grasa og það liggur við að maður sé ekki tilbúinn í daginn fyrr en að hafa lesið pistil dagsins.  Pistlarnir eru hvorki og stuttir né langir, yfirleitt hnitmiðaðir og oftast hægt að brosa amk út í annað.  En hann skrifar líka á alvarlegri nótunum, fær mann amk til að hugsa um eitt og annað út í þessa tilveru.  Frábært að eiga svona frænda. Þeir eru annars fjórir bræðurnir og allir vel af mönnum gerðir. Sá næstyngsti er í hljómsveitinni "Móses Hightower" og er þar annar af aðal laga- og textahöfunum, og þvílíkir snilldartextar og lög...
 
Annars heimsótti ég Böddu í gærkvöldi og tók saumana mína með.  Stoppaði í rúma tvo tíma og var svo heppin að yngsta dóttir hennar og nafna mín kom líka við, svo ég hitti hana.  :-)

22.5.13

- Smá tilraun -

Ó, já, það er orðið nokkuð langt síðan síðast og á þessari stundu er ég svo sem ekkert viss um að ég komist í neitt skrifstuð á næstunni.  Hugsanlega mun ég skrifa eitthvað inn í einka"dagbókina"bloggið sem enginn veit slóðina á nema ég.  Ekki það að það séu neitt margir að rekast hingað inn núna þar sem ekkert hefur gerst lengi, lengi á þessari síðu...  Sjáum bara til hvað gerist og tökum einn dag í einu.  Yfir og út í bili.  :-)

17.4.12

- Úr ýmsum áttum -

Sumardagurinn fyrsti er eftir tvo daga. Apríl er rúmlega hálfnaður og dagurinn heldur áfram að lengjast. Ýmislegt er á döfinni og ég hef verið að sýsla við eitt og annað undanfarnar vikur. Las 3 krimma upp til agna, "Englasmiðurinn", "Hugsaðu þér tölu" og "Snjókarlinn", allt mjög spennandi bækur sem ég gat varla lagt frá mér fyrr en þær voru búnar. - Páskafríið leið alltof hratt. Við vorum boðin í mat á skírdagskvöld (öll fjögur) þar sem okkur var boðið upp á verðlaunafiskisúpu. Á föstudaginn langa mætti ég í kirkjuna um sjö eh bæði til að hita upp fyrir árlega kvöldvöku þar sem sálmar eru sungnir milli lestra sem og að æfa fyrir páskadagsmorgun. Seinni partinn á laugardeginum var okkur Davíð boðið í heimagert súsý og einhenti Davíð sér í að hjálpa húsmóðurinni á heimili gestgjafanna til að útbúa alla bitana. Stoppuðum aðeins framyfir miðnætti en ég þorði ekki að vera lengur þar sem ég þurfti að fara á fætur upp úr sex vegna páskadagsmorgunmessusöngs. Á annan í páskum kleif ég megnið af Helgafelli með Davíð. Hann fór auðvitað alla leið og svo beint á Úlfarsfellið á eftir. Seinni partinn þann dag skruppum við svo á Bakkann. - Þessir fjóru virku vinnudagar í síðustu viku liðu afar hratt. Það var að sjálfsögðu kóræfing á miðvikudeginum og á fimmtudagskvöldið skrapp ég yfir til tvíburahálfsystur minnar þar sem ég hitti einnig aðra stúlku frá Selfossi. Á laugardaginn mætti ég á langa kóræfingu í kirkjunni ásamt kórfélögum mínum og kórfólki og tveimur öðrum kórum. Flestir voru mættir fyrir tíu og enginn fór fyrr en klukkan var byrjuð að ganga fjögur. - Sl sunnudagur var notaður í smá þrif, þvotta, innkaup og svo gengum við Davíð á Úlfarsfellið ásamt 4 vinnufélögum hans. Tvíburarnir voru velkomnir með en þeir nenntu ekki þegar til kom. - Í gærkvöldi mætti ég í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar rétt áður en klukkan sló átta. Var svona í fyrra fallinu því ég skutlaði Davíð í pílu um hálfátta. Við vorum þrjár sem mættum og vorum að í tæpa þrjá tíma en skyldum reyndar ekkert í því hvernig tíminn fór að því að æða svona áfram. Okkur fannst við ekki hafa stoppað nema í uþb klst. Já, tíminn flýtir sér enn meir þegar það er gaman og glatt á hjalla. Ég vann að nýjasta verkefninu sem ég byrjaði á um nýliðna helgi. "FRIENDS TOGETHER HERE" eða VINIR HITTAST HÉR eins og ég ætla að sauma út fyrir ofan mynd af tveimur böngsum sem sitja í bókahillu. Erfitt að lýsa þessu betur, en ég mun líklega taka mynd af þessu þegar ég er búin með þetta.