Vaknaði alltof snemma í gærmorgun. Mætti í sundið rétt rúmlega sjö. Fór beint á braut átta og synti 400 metra. Um hálfníu var ég komin í Hátún 12 í osteostrong. Nýr leiðbeinandi tók mig að sér að þessu sinni. Fékk auka mínútur á upphitunar hristipallinum. Æfingarnar gengu þokkalega og tíminn leið hratt. Var komin heim um níu. Fékk mér chiagraut og fjallagrasabrauðsneið í hressingu. Í hádeginu bjó ég til blokkfisk úr afgangnum frá því á föstudaginn. Um hálftvö skrapp ég með gler og mál í gámana við upphafsenda Eskihlíðar. Gerði smá hring úr þessu og heilsuforritið í símanum skráði á mig stutta göngu. Heyrði ekkert frá fasteignasalanum í gær en það er líklega vegna þess að það vantar upp á einhver skjöl varðandi Stigahlíðina. Gæti verið varðandi lánið sem kaupendur mínir eru að taka, en hvað veit ég. Veit að allt er tilbúið hjá mínum fasteignasala sem er að selja fyrir mig og mér finnst líklegt að sá fasteignasali sem er að selja mér íbúðina í Núpalindinni sé með allt tilbúið. Þetta kemur allt í ljós mjög fljótlega, ef ekki í dag þá örugglega á morgun. Á meðan dunda ég mér við að undirbúa flutningar í rólegheitunum, glápi á þætti, les og sýsla við eitt og annað. Annars er ég búin með skammtinn sem ég tók síðast á safninu. Er aðeins að halda í mér varðandi það að stökkva af stað, skila og ná í meira lesefni.
30.9.25
29.9.25
Ný vika og bráðum mánaðamót
Fór á fætur um átta í gærmorgun. Veðrið var jafn gott og á laugardaginn en hitastigið hafði greinilega farið aðeins niður fyrir frostmark. Pabbi kom á fætur um hálftíu, hafði þá þegar verið búinn að koma einu sinni fram eldsnemma að venju. Fljótlega setti hann upp saltkjöt og við borðuðum það ásamt kartöflum og rófum upp úr klukkan hálftólf. Um hálftvö leytið skrapp ég í smá göngutúr. Fór upp og yfir hæð. Labbaði Langasand að Dynskálum. Fór framhjá búðinni og Olís út að brú og svo meðfram ánni þar til ég var komin skammt frá elliheimilinu. Labbaði framhjá því að Bogatúni og fann fínan stíg sem leiddi mig að smá trébrú sem er við endann á Hólavanginum. Á þessari leið settist ég einu sinni niður á bekk þar sem Þorsteins Björnssonar er minnst. Pabbi fór í sinn göngutúr stuttu eftir að ég kom til baka. Um fimm tók ég mig saman, fermdi bílinn, kvaddi pabba og brunaði í bæinn.
28.9.25
Sunnudagur
Vaknaði í fyrra fallinu í gærmorgun og hafði því extra tíma fyrir morgunrútínuna. Enn er ég þó ekki búin að taka lóðin fram aftur, geri það kannski ekki fyrr en eftir að ég er flutt. Mætti í sund rétt eftir að opnaði, fór beint á braut 7 og synti 400 metra, þar af helminginn skriðsund. Var komin til norsku esperanto vinkonu minnar um tíu. Við lásum 4 bls. í Kon-Tiki og undruðums enn og aftur hversu fljótar við vorum. Um hálftólf kom ég við hjá AO við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn sem reyndar var hálfur. Var búin að pakka mér saman og ferðadótið komið út í bíl en ég kom við heima til að hengja upp og ganga frá sunddótinu. Kom svo við í Heilsuhúsinu í Kringlunni og N1 við Gagnveg. Á seinni staðnum athugaði ég þrýstinginn á dekkjunum og spjallaði svo um stund við N1 soninn áður en ég brunaði austur á Hellu. Veðrið var dásamlegt og um fjögur ákvað pabbi að fara út í stuttan gönguhring. Ég tók snapp af honum að leggja úr hlaði og labbaði svo hinn hringinn á móti honum þar til ég mætti honum. Sneri þá við og labbaði smá spöl með pabba en ákvað að kíkja í heimsókn á einn stað í Nestúninu. Kom því ekki til baka aftur fyrr en um hálfsex.
27.9.25
Kaupsamningar að fara í gang
Ég var mætt á braut 8 í Laugardalslauginni um hálfátta í gærmorgun. Synti 500 metra, þar af 250 metra skriðsund. Fór beint úr fyrri ferðinni kalda pottinn í sjópottinn og í gufu eftir seinni ferðina. Var komin heim rétt fyrir hálftíu. Hafði soðna ýsu með sætri kartöflu og gulrótum í hádegismat. Stuttu síðar lét fasteignasalinn minn mig vita að búið væri að selja Bólstaðarhlíðina og kaupferlið í Stigahlíðina væri hafið. Ég mætti því gera ráð fyrir að kaupferlið í Drápuhlíðina færi af stað fljótlega eftir helgi sem þýðir að ég get hafið kaupferlið í Núpalind í næstu viku og farið að huga að flutningum. Allt er semsagt að ganga upp og ég reikna fastlega með því að vera flutt í Kópavog innan mánaðar.
26.9.25
Fáir dagar eftir af september
Vaknaði upp úr klukkan sex í gærmorgun. Var mætt í sund stuttu fyrir átta, á svipuðum tíma og kalda potts vinkona mín. Hún var þó langt á undan mér út í laug og var búin að synda amk 100m þegar ég fór loksins á braut 7. Syntum í tæpan hálftíma áður en við fórum á pottaröltið. Eftir þrjár ferðir í þann kalda fórum við í gufu og þaðan svo í sjó pottinn. Þar dagaði ég hálfpartinn uppi því yngsta mágkona hennar mömmu kom þar að fljótlega og við þurftum að spjalla um eitt og annað. Ég varð svo samferða henni stóran hring um laugina áður en hún fór að synda en ég fór fjórðu ferðina í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Hann sagði að harðfiskurinn, óbarna ýsan, væri á leiðinni svo ég ákvað að fara til hans aftur eftir hádegið. Klukkan var farin að ganga þrjú þegar ég lagði upp í þann leiðangur. Í stað þess að fá mér göngutúr ákvað ég að nota tækifærið og byrja á því skutla pakka í flug til Egilsstaða í leiðinni og fór því á bílnum. Lagði svo reyndar við óháðu kirkjuna og rölti þaðan í Skipholt 70 þar sem ég fékk bæði harðfisk og ýsu og bleikju í soðið. Bleikjuna setti ég í frysti þegar ég kom heim en ýsuna í ísskápinn. Ekkert varð þó úr eldamennsku en ég reikna fastlega með að ég setji ýsuna í pott í hádeginu á eftir.
25.9.25
Fimmtudagur
Gærdagurinn byrjaði stuttu fyrir klukkan hálfsjö hjá mér. Hafði tímann fyrir mér þar sem ég stefndi á sjósund. Um tíu leytið bjó ég til hafragraut og svo var ég klár í slaginn stuttu fyrir ellefu. Nú brá svo við að ég sá strax að það "beið" eftir mér stæði. Tíu mínútum yfir ellefu skellti ég mér út í sjó og svamlaði út að kaðli á uþb korteri í 9°C sjónum. Var hanskalaus og í strandskóm, sundbol og með sundhettu. Sat í gufunni í korter, skellti mér aftur í sjóinn í 7 mínútur og að lokum í pottinn í rúmt korter. Var komin heim um hálfeitt. Ekkert varð úr meiri útiveru því einhvern veginn leið dagurinn í alls konar mis gáfulegt dútl.
24.9.25
Stefán Ólafur Helgason 1951-2025
Í gær fylgdi ég fyrrum vinnufélaga til margra ára. Útförin var frá Neskirkju og áttu aðstandendur stóran þátt í athöfninni. M.a. flutti eldri sonur hans minningarorðin og gerði það vel. 74 ár er ekki svo hár aldur í dag en þessi höfðingi sem var kvaddur í gær hefur alveg örugglega skilið eftir sig margar og góðar minningar hjá þeim sem hann þekktu og umgengust í gegnum tíðina. Hann var eldklár og íhugull og maður sem stóð á sínu og var ekkert endilega að láta berast með straumnum. Blessuð sé minning hans.
23.9.25
Eldarnir
Í gær ákvað ég að sleppa sundferð og fara frekar gangandi í osteostrong tíma upp úr klukkan átta. Ég var komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Um tvö fékk ég þá hugdettu að skunda í Kringluna og fara að sjá nýjustu íslensku myndina í bíó. Það voru ekki margir í bíó á þessum tíma en ég var þó ekki ein í salnum. Ég hef að sjálfsögðu lesið bókina sem myndin er byggð á. Eina sem ég hef út á að setja varðandi myndina í gær var að það skildi vera haft hlé en það er örugglega staðallinn og auglýst sérstaklega ef það er ekki hlé. Kom aðeins við í Eymundsson áður en ég rölti heim eftir bíóið.
22.9.25
Bíllausi dagurinn í dag
Ég var komin á braut 7 í Laugardalslauginni fyrir klukkan hálfníu. Gaf mér góðan tíma í rútínuna en heildar tíminn frá því ég setti skóna á hilluna áður en ég fór inn í klefa og þar til ég var búin að klæða mig í þá aftur var ein klukkustund og fjörutíu og þrjár mínútur. Var komin heim um tíu leytið. Setti fljótlega upp hýðishrísgrjón og á tólfta tímanum rétt sauð ég upp á einu bleikjuflaki sem ég hafði átt í frysti og tekið út fyrr um morguninn. Borðaði svo helminginn af þessu ásamt nokkrum kirsuberjatómötum. Annars fór ég ekkert aftur út í gær, bara eina ferð að sækja þvott á snúrurnar í þvottahúsið. Pakkaði niður í einn kassa og sýslaði við eitt og annað. Dagurinn leið frekar hratt. Er langt komin með að lesa; Hvarfið eftir Johan Theorin. Og er búin að setja bókamerki inn í þriðju og síðustu bókina af safninu; Hundrað dagar í júli eftir Emelie Schepp. Fjórða bókin, Kon Tik er hjá esperanto vinkonu minni mun skila henni um leið og ég skila þessum þremur sem eru hjá mér eftir ca 3 vikur.
21.9.25
Sunnudagur
Ég var mætt í sund rétt upp úr klukkan átta í gærmorgun. Fannst frekar mikið um að vera á brautunum svo ég var búin að fara tvær ferðir í þann kalda og sitja góða stund í sjópottinum og smá stund í nuddpottinum þar sem ég hitti eina mágkonu hennar mömmu heitinnar áður en ég skellti mér á braut 7 og synti aðeins 200m. Gaf mér svo tíma til að fara í gufu eftir þriðju kalda potts ferðina áður en ég fór upp úr og vestur í bæ í esperanto hitting. Kom heim um hálftólf. Helga systir hringdi í mig einhvern tímann á þriðja tímanum. Klukkan var langt gengin í fjögur þegar ég fór loksins út aftur í smá göngutúr. Labbaði að þessu sinni hinum megin við Miklubraut að Snorrabraut og alveg niður á Sæbraut. Labbaði göngustíginn meðfram sjónum og beygði svo upp Kringlumýrarbraut. Kom heim um hálfsex leytið og var þá búin að ganga 6,5km í þremur pörtum. Nafna mín og hálf danska frænka mín hringdi í mig þegar ég var að ganga síðasta spölinn heim. Eftir spjallið við hana og áður en ég fór inn hitti ég á nágranna mína á no 19. Fékk staðfest leyfi frá formanni og gjaldkera þess húsfélags um að fasteignasalinn minn mætti senda henni rafrænan póst með fyrirspurn um hvort nokkuð hefði breyst sl 30 daga. Ég hringdi svo í Villu eftir að ég kom inn. Netfangið hjá Ebbu nágranna er skráð á yfirlýsingaskjalið sem Villa er með hjá sér.
20.9.25
Skriður að komast á fasteignamálin
Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Fimm korterum síðar mætti ég í sund. Var búin að fara tvisvar í þann kalda og í sjópottinn áður en ég fór á braut 7 og synti 500m. Átti svo eftir að fara tvær ferðir í þann kalda og gufuna áður en ég fór upp úr og heim. Rétt fyrir eitt setti ég tvo poka í pakpoka, seðlaveski, bók og sólgleraugu og rölti af stað í átt að Borgartúninu. Kom fyrst við í hraðbanka í Landsbankanum og tók út nokkra seðla. Svo lagði ég af stað áleiðis til baka. Var nýkomin inn í Nettó/Moj Market við Nóatún þegar fasteignasalinn minn hringdi. Hún var aðallega að spjalla um annað verkefni heldur en fasteignasöluna en sagði þó að það hefðu komið alls 6 tilboð í Bólstaðarhlíðina og það væri verið að vinna úr þeim, við myndum frétta eitthvað seinna um daginn eða strax eftir helgi. Næsti viðkomustaður var Fiskbúð Fúsa. Það var ekki til óbarin ýsa en ég keypti tvo pakka af harðfisk, lúðu og þorsk. Notaði ekkert bókina eða sólgleraugun heldur fór beint heim. Um fjögurleytið kom fasteignasalinn til mín gögnum út af öðru máli en sagði að fasteignasalinn sem væri að selja hinar tvær íbúðirnar hefði reynt að ná í hana en svo ekki svarað þegar hún hringdi til baka. Hálftíma eftir að Vilborg fór hringdi hún aftur og sagði að nú væri allt að ganga saman, Bólstaðarhliðin seld og fljótlega yrði hægt að fara að stilla upp. Svo ég get fastlega reiknað með því að ég byrji kaupferlið í Núpalindina í kringum næstu mánaðamót og verði jafnvel flutt og búin að afhenda Drápuhlíðina um miðjan október.
19.9.25
Fössari
Vaknaði rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun og hafði þá sofið í einum dúr frá því um tíu leytið. Morgunrútínan tók smá tíma þrátt fyrir að ég er ekki enn búin að taka lóðin fram aftur. Var mætt í Laugardalslaugina rétt fyrir klukkan átta og byrjaði á 5 mínútum í kalda pottinum og fór þaðan beint í sjópottinn. Um hálfníu fór ég loks á braut 7 og synti 400m, flesta á bakinu. Að sundferð lokinni skrapp ég í eitt fyrirtæki upp á hálsunum og skildi þar eftir útprentaða ferilskrá og fór heim með þau skilaboð um að fylgja henni eftir með tölvupósti til mannauðsstjóra þessa staðs. Rétt rúmlega eitt fór ég svo í lengsta göngutúrinn sem ég labbaði í þremur lotum. Labbaði Bústaðaveginn alveg að sjúkrahúsinu í Fossvogi, þaðan að brúnni yfir Kringlumýrarbraut og svo eftir ströndinni alla leið að og eftir Suðurgötu alveg að Háskólasvæðinu. Þar labbaði ég framhjá Norræna húsinu og yfir brúað svæði að brúnni yfir Hringbraut. Skrefafjöldi gærdagsins fór yfir sextán þúsund í heildina og þá eru ótalin skrefin sem ég tók á sundlaugarsvæðinu. Annars pakkaði ég niður í einn kassa í gær og fór með niður í geymslu. Ætlaði að segja aðeins frá einni af bókasafnsbókunum í gær þar sem ég kláraði hana en geri það hér með; sjálstýring eftir Guðrúnu Brjánsdóttur. Þetta er bók upp á 76 bls, verðlaunasaga um afleiðingar ofbeldis. Mæli með þessari bók.
18.9.25
Fljúga áfram dagarnir
Svaf til klukkan að verða hálfátta í gærmorgun. Framan af morgni tók ég því rólega, sinnti rútínu, vafraði á netinu og eitthvað fleira. Um tíu bjó ég mér til hafragraut. Var svo mætt í Nauthólsvík rétt fyrir opnun. Þrátt fyrir marga bíla voru nokkur stæði laus. Skildi símann eftir út í bíl, tek hann stundum með mér til að telja skrefin. Sjórinn er kominn niður fyrir 11°C, það var að fjara út en ég synti út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór út í sjó. Stuttu fyrir klukkan hálfeitt var ég mætt á bókasafnið í Kringlunni. Skilaði fjórum bókum af fimm, var búin að framlengja leigunni á Kon-Tiki um enn einn mánuðinn. Tók þrjár bækur með mér heim. Um tvö skrapp ég út í langa göngu sem ég skipti niður í fjórar mislangar lotur. Fór upp í Öskjuhlíð, framhjá Perlunni, í Fossvogskirkjugarð og labbaði svo með ströndinni í kringum flugvöllinn. Kom heim um hálffimm eftir uþb 8,5km og komin yfir þrettánþúsund skref.
17.9.25
Sjósundsdagur í dag
Var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun og í sund tæpum klukkutíma síðar. Gaf mér góðan tíma í alla rútínu. Um hálftíu var ég komin heim aftur. Í hádeginu hafði ég fiskibollur með rósakáli og smjöri. Um tvö fór ég út. Áður en ég lagði af stað í göngutúr spjallaði ég aðeins við einn nágrannann. Göntutúrinn skiptist svo upp í þrjár lotur, alls um átta km. Stór hringum um Öskjuhlíð sem færðist svo að BSÍ, gömlu Hringbraut, part af Barónsstíg, niður Eiríksgötu og svo settist ég smá stund á bekk á Klambratúni. En spölurinn þaðan og heim, með viðkomu í Krambúðinni við Lönguhlíð, var það stuttur að hann mældist ekki sem ganga. Skrefafjöldi gærdagsins fór vel yfir 12 þúsund skref. Meðan ég var í búðinni hringdi ein fyrrum samstarfskona í mig og stuttu eftir að ég kom heim hringdi frænka mín og nafna (og hálfgerð stóra systir). Um hálfátta hringdi ég í aðra fyrrum samstarfskonu og þegar við vorum hættar spjallinu sá ég skilaboð frá fasteignasalanum mínum um að á opið hús við Bólstaðarhlíð seinni partinn í gær hefðu mætt um tuttugu manns og að það væru þegar komin tvö tilboð og jafnvel fleiri á leiðinni. Svo nú er stutt í að keðjan gangi upp, verði örugg og hægt verði að byrja á kaupferlum og huga að flutningum.
16.9.25
September liðlega hálfnaður
Ég var mætt á braut 7 rétt fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Synti 400m, sat fjórar mínútur í kalda pottinum og þaðan fór ég beint í sjópottinn. Mætti í osteostrong tíma á slaginu klukkan hálfníu og var komin heim rúmum hálftíma síðar. Var eitthvað að sýsla hér heima í rólegheitum, m.a. að lesa. Einhvern tímann eftir hádegi skrapp ég með málm í gám við upphafsenda Eskihlíðar og gerði svo smá göngutúr úr þeirri ferð. Annars er fátt að frétt en mér segist svo hugur um að það styttist í að húsnæðiðs-kapallinn fari að ganga upp. Það er opið hús í Bólstaðahlíð 46 seinni partinn í dag. Sjálf gæti ég alveg verið duglegri í að undirbúa næstu skref en finnst voða þó voða gott að "detta" í rólega gírinn inn á milli. Allt hefur sinn tíma.
15.9.25
Osteostrongtími á eftir
Svaf í einum dúr frá klukkan hálfellefu á laugardagskvöldið til klukkan að byrja að ganga átta í gærmorgun. Eftir að ég var komin á fætur og búin að tannbursta mig kveikti ég á tölvunni hans pabba og vafraði um á netinu í á annan klukkutíma. Um níu leytið fékk ég mér hressingu og lagði nokkra kapla. Pabbi kom á fætur um svipað leyti. Síðan settist ég smá stund inn í stofu og greip í saumana mína og spjallaði við pabba. Um ellefu skrapp ég út í göngutúr, fór um fjóra km á þremur korterum. Við pabbi horfðum saman á bronsleikinn á EM karla í körfu sem reyndist æsispennandi. Eftir leikinn tók ég mig saman, kvaddi og var komin í bæinn áður en leikurinn um gullið hófst. Sá leikur var ekki síður spennandi.
14.9.25
Á Hellu
Aðfaranótt nýliðins laugardags slitnaði svolítið í sundur. Veit að ég var sofnuð upp úr klukkan tíu en svo rumskaði ég um hálftvö leytið, skrapp á salernið og gat ekki sofnað strax aftur. Greip því í bókina um minningar Kristínar Jóhannsdóttur frá því hún var í námi í Þýskalandi. Veit ekki hvað ég las lengi né hvenær ég sofnaði aftur. Klukkan var langt gengin í átta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Þetta og nýja klippingin varð til þess að ég ákvað að skrópa í sund. Um hálftíu pakkaði ég niður í tösku og tók með mér út í bíl. Fyrst lá leiðin vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Við lásum hátt í þrjár blaðsíður í Kon Tiki. Um hálftólf kom ég við í heilsuhúsinu í Kringlunni. Þar keypti ég m.a. beltisþara, frækex og litla fernu af kókosvatni. Þegar ég kom út í bíl aftur hringdi ég þrjú símtöl. Í einu tilvikinu fékk ég tilkynningu um að hringt yrði fljótlega til baka. Svo brunaði ég af stað austur fyrir fjall og fór um Þrengslin eins og ég er yfirleitt farin að gera. Í og með til þess að sleppa við Ölfusárbrúna. Hulda frænka hringdi til baka rétt áður en ég kom á Selfoss. Ég vildi bara segja henni að ég væri farin úr bænum og spyrja í leiðinni hvenær hún færi norður. Hún er búin að vera í Keflavík sl. rúmar tvær vikur. Gerði gott stopp í Fossheiðinni þar sem var tekið vel á móti mér að vanda. Var komin til pabba fyrir klukkan þrjú.
13.9.25
Eitt og annað
Um hálfátta í gærmorgun fékk ég sms um að það væri sending merkt mér hjá Icelandair Cargo. Um níu sótti ég sendinguna, sem var námsmappan frá Helgu systur, og selflutti pakkann á skrifstofu MK. Notaði svo tækifærið og prófaði að versla í Krónunni í Lindum áður en ég fór heim aftur. Í hádeginu útbjó ég mér plokkfisk úr afgangnum af þorskhnakkaflakinu og osti með svörtum pipar. Klukkan var langt gengi í tvö þegar ég fór loksins í sund. Hitti strax á kalda potts vinkonu mína og við fórum á braut 8 og byrjuðum á því að synda í uþb 25 mínútur áður en við fórum nokkrum sinnum í þann kalda og heitasta, góða gufu og sjópott. Kvaddi rétt fyrir hálffjögur, þvoði mér um hárið og fór svo í klippingu til Nonna. Hann klippti um tuttugu sentimetra af hárinu og gaf sér svo góðan tíma til að blása það og greiða. Festi næsta klippitíma í mars en með fyrirvara um að ég mætti hafa samband fyrr ef ég tæki þá ákvörðun að flýta því að klippa mig stutt aftur.
12.9.25
Föstudagur
Í gærmorgun vantaði klukkuna aðeins tíu mínútur í átta þegar ég fór á braut 7 og synti 300m, þar af helminginn skriðsund. Eftir 200m sá ég kalda potts vinkonu mína tilsýndar en ég vissi að hún væri að fara smá stund í heitasta pottinn svo ég synti 100m í viðbót áður en ég hitti hana í kalda pottinum. Gaf mér mjög góðan tíma í potta, gufu og spjalltíma en heildar tíminn í sundferðinni tók um tvær klukkustundir. Var komin heim um hálfellefu. Svo fór stór hluti af deginum í alls konar dútl, m.a. lestur. Ætlaði að segja frá því í gær að ég væri búin að lesa aðra bók af safninu; Svikaslóð eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Þetta er önnur bók höfundar en ég hef einnig lesið fyrstu bókina; Blóðmjólk. Núna er ég að lesa bókina Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur. Sú bók er m.a. byggð á dagbókum höfundar frá því þegar hún fór í nám í austur Þýskalandi 1987. Um hálfsjö fór ég og skilaði af mér flestu af því sem nafna mín lánaði mér fyrir opna húsið. Sumt af dótinu var hún búin að nefna að hún vildi ekki en ég sé það núna í þessum skrifuðu orðum að ég gleymdi samt einu litlu gervi blómi. Hitti Ástu frænku, stóru systur Önnu Báru, Lars og Hjört rétt aðeins en ég var á hraðferð í matarboð til tvíburahálfsystur minnar. Stuttu eftir að ég var mætt í það boð komu hjón frá Ísafirði. Hann er reyndar alinn upp í Holtunum í Rangárvallasýslu, var samtíða okkur Sonju í FSu, og konan hans er frá Rússlandi. Síðast hittumst við öll fjögur á Skriðuklaustri fyrir rúmum tveimur árum. Kvöldið leið afar hratt og margt var skrafað og spjallað. Maturinn og félagsskapurinn einstaklega góður. Vorum fimm í heildina með dóttur tvíburahálfsystur minnar. Allt í einu var klukkan að verða tíu og oftast er ég komin upp í rúm um það leyti. Ég var komin heim rétt upp úr klukkan tíu og um það leyti kom póstur frá fasteignasalanum sem er að selja Stiga- og Bólstaðarhlíðina um að síðarnefnda íbúðin væri komin á fasteignavefinn og að það verður opið hús nk þriðjudag.
11.9.25
Aðeins byrjað að hausta
Ég hef ekki stillt á mig neina vekjaraklukku í rúma fjóra mánuði. Er oftast vöknuð rétt fyrir sex og stundum mun fyrr. Þeir eru ekki margir morgnarnir sem ég hef sofið lengur en til átta en þeir eru þó einhverjir. Að sama skapi er kvöldrútínan einnig mjög sterk og frekar fáir dagar þar sem ég er ekki komin í rúmið og eða farin að sofa áður en klukkan verður mikið meira en tíu til hálfellefu. Gærdagurinn byrjaði rétt um sex. Það var sjósundsdagur og það opnar ekki aðstaðan í Nauthólsvík fyrr en um ellefu svo ég tók því nokkuð rólega framan af morgni. Sinnti flestri morgunrútínu en síðan lóðin fóru inn í skáp fyrir opna hús tiltektina hef ég ekki enn tekið þau fram aftur. Þarf að fara að breyta því. Um tíu leytið útbjó ég mér hafragraut. Líkt og síðustu tvo til þrjá miðvikudagsmorgna var ég heppin að fá stæði við Nauthólsvík. Stæðin eru meira og minna undirlögð að þeim sem stunda nám og eða vinnu við HR. Sjórinn kominn rétt undir 12°C, það var að fjara út en ég synti út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór út í. Eftir seinni ferðina fór ég í pottinn. Það átti bara vera í smá stund en ég fór að spjalla við konu sem ég er nýlega búin að kynnast og setan í pottinum varði í meira en hálftíma. Á eftir kom ég við í Fiskbúð Fúsa áður en ég fór heim. Ekki var til óbarin ýsa en ég keypti lúðu, eitt bleikjuflak, nokkrar fiskibollur og stórt flak af þorskhnökkum. Það síðast nefnda setti ég í pott þegar ég kom heim og borðaði helminginn af því eingöngu með smá smjörklípu. Davíð Steinn kom á fimmta tímanum og skrúfaði í sundur gamla rúmið sitt. Ég tæmdi næstum ísskápinn af dóti, sem ekki hefur verið notað lengi eða var komið á tíma,í glæran stóran og sterkan plastpoka. Pokinn varð varla hálfur en nokkuð þungur þó. Fékk soninn til að skreppa með þetta í gám 66 í Sorpu. Fór með honum því eftir sorpuferðina bauð ég honum út að borða fyrir hjálpina. Fórum á Local í Borgartúni og borðuðum á staðnum. Fengum okkur tilboð af tveimur sallatskömmtum ásamt 2 Egils kristal á rétt innan við 5000kr. Svo skutlaði sonurinn mér heim og kvaddi.
10.9.25
Mið vika
Gærdagurinn teiknaðist aðeins öðruvísi upp en flestir dagar. Fljótlega eftir að ég fór á fætur, eftir köflóttan svefn, á sjöunda tímanum tók ég ákörðun um að sleppa sundferð. Tók því bara nokkuð rólega til klukkan ellefu. Þá skrapp ég í Rúmfatalagerinn í Skeifunni og keypti tvö búnt af pappakössum. Það gera 10 kassa. Síðan lá leiðin upp á N1 við Gagnveg þar sem ég vissi að N1 sonurinn væri á vakt. Byrjaði á því að jafna loftþrýstinginn á dekkjunum áður en ég lagði bílnum við hliðina á hvíta skódanum og fór inn í verslunina. Ætlaði að kaupa mér bláan kristal en Davíð Steinn bauð mér upp á sítrónukristal sem ég þáði. Spjallaði við strákana í dágóða stund en ég var svo komin heim upp úr klukkan tólf. Pakkaði niður bókum í tvo kassa og fór með annan kassann niður í geymslu en hinn setti ég fram í hol. Ég byrjaði líka aðeins að taka niður af veggjum og "frelsaði" dót úr búrinu. Þannig að það er aðeins farið að dreifast úr dóti sem hefur verið lokað af í amk þrjár vikur. Um hálffjögur leytið kom fasteignasalinn minn við og afhenti mér gögn frá hsm, skjal um veðflutning á láninu. Það skjal mun ég hafa með mér þegar ég fer til fasteignasalans sem er að selja mér íbúðina við Núpalind. Það verður ekki fyrr en kaupendur að minni íbúð hafa undirritað kaupsamning við mig og hafið greiðslur. Sem gerist ekki fyrr en þeirra kaupendur hafa selt eina litla íbúð og geta hafið kaupferlið á eigninn í Stigahlíð. En það styttist í að þessi kapall gangi upp og ég fékk það einnig á hreint í gær að ég þarf ekki að losa íbúðina hér í Drápuhlíð fyrr en þessi sölu- og kaupferlakeðja er farin af stað. Ég er samt búin að "blikka" Davíð Stein um að koma fljótlega og skrúfa í sundur gamla rúmið sitt.
9.9.25
Níundi níundi
Vaknaði útsofin um sex í gærmorgun. Var mætt í Laugardalslaugina stuttu fyrir klukkan hálfátta og fór beint á braut 2. Sundferðin tók rétt rúma klukkustund með öllu og svo var ég mætt í Hátún 12 í osteostrong á slaginu hálfníu. Eftir tímann rak ég tvö önnur erindi áður en ég fór heim. Um hálfeitt var ég búin að skipta um föt og mætt í Digraneskirkju í útför. Hitti hluta af föðurfjölskyldunni, margt af fólkinu hennar Böggu heitinnar sem var systir pabba. Ég hitti líka Jón Inga, sem var kórstjóri kórs FSu þegar ég var í honum, og Eddu konuna hans. Stoppaði um stund í erfidrykkjunni og spjallaði við hluta af "fólkinu mínu". Leit á símann um hálfþrjú og sá þá að fasteignasalinn minn hafði verið að reyna að ná í mig. Kaupendur mínir eru búnir að fá tilboð sem er með fyrirvara um sölu á tveggja herbergja íbúð annars staðar í Hlíðunum og þau vildu fá samþykki mitt. Að sjálfsögðu samþykkti ég og er orðin nokkuð viss um að kapallinn sé alveg að fara að ganga upp. Ég þarf því að fara að herða mig upp aftur og halda áfram að pakka mér niður og huga að því að tæma Drápuhlíðina.
8.9.25
Morgunstund
Vaknaði útsofin um sjö í gærmorgun. Var mætt í sund rétt eftir opnun, rúmlega átta. Fór tvær ferðir í þann kalda áður en ég fór á braut 2 og synti 400m, þar af 150m skriðsund. Svo beint í kalda pottinn aftur, þá gufuna í tæpt korter, kalda sturtu og sjópottinn í hálftíma og að lokum eina dýfu í kalda pottinn áður en ég fór upp úr og heim. Restin af deginum fór í ýmis konar dútl. M.a. tók ég út hakk úr frysti sem N1 sonurinn skildi eftir og bjó til einhverskonar pottrétt úr því ásamt bygggrjónum sem ég sauð áður. Er búin að lesa skammtímalánsbókina og byrjuð að glugga í tvær af þeim þremur sem eftir eru ólesnar. Hugsanlega hefði ég getað gert meira í flutningsundirbúning en er svo sem nokkuð viss um að þegar að því kemur að ég fæ afhenta íbúðina sem ég er búin að festa að þá muni allt ganga upp og vel fyrir sig. Hef það á tilfinningunni að það sé að styttast í þann kafla og ég er í raun alveg tilbúin í þessar breytingar og næstu skref.
7.9.25
Sunnudagur
Ég var mætt í Laugardalslaugina upp úr klukkan átta. Byrjaði á því að skella mér í kalda pottinn í nokkrar mínútur og svo í sjópottinn. Þar var ég næsta hálftímann áður en ég fór loksins á braut 8 og synti 300m. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar stuttu fyrir klukkan tíu. Við lásum tvær blaðsíður í Kon-Tiki. Var komin heim um hálftólf og það fór svo að ég fór ekkert út aftur. Var aðallega að lesa skammtímalánsbókina en líka að sýsla eitt og annað í rólegheitunum. Nafna mín og hálfdanska frænka mín hringdi í mig um hálfsex og við spjölluðum í uþb klukkutíma. Annars fátt að frétta í augnablikinu.
6.9.25
Sól og birta
Ég var komin á braut 8 um hálfátta í gærmorgun. Synti 400m þar af 150m skriðsund. Eftir fjórar mínútur í kalda pottinum og rúmlega 12 í gufunni fór ég í kalda sturtu og var svo í sjópottinum næsta rúma hálftímann eða svo. Var komin heim um hálftíu. Var að sýsla við eitt og annað í rólegheitum til klukkan tvö. Þá skrapp ég út í það sem átti að vera stuttur göngutúr en varð að stórum hring í kringum Öskjuhlíð, tæpum 6km sem ég labbaði án þess að stoppa og var um sjötíu mínútur. Settist svo niður með bók og las í hálftíma eftir gönguna. Er enn að lesa skammtímalánssbókina. Er að verða hálfnuð en bókin er hátt í sexhundruð blaðsíður. Sauð mér laxabita sem ég keypti síðast þegar ég fór í fiskbúðina og tók út úr frysti í fyrradag. Með þessu hafði ég soðið grænmeti; sæta kartöflu í bitum, hnúðkál í bitum og svolítið af hvítkáli. Borðaði tæplega helminginn af þessu góðgæti en setti afganginn í skál inn í ísskáp. Fylgdist aðeins með landsleiknum í knattspyrnu en var líka að glápa á eitthvað annað. Var komin upp í rúm um hálftíu.
5.9.25
Aftur kominn föstudagur
Ég var mætt á braut átta um hálfátta í gærmorgun. Synti 500m og hitti svo kaldapotts vinkonu mína í kalda pottinum. Við fórum fjórar ferðir í þann pott í heildina. Ég kvaddi um níu. Fór heim og fékk mér hressingu. Á ellefta tímanum hringdi ég í Ómar frænda og rölti svo yfir til hans. Var um 23 mínútur á leiðinni. Fórum á hans bíl yfir í Kópavoginn til að skoða tveggja herbergja íbúðina á fjórðhæð í Núpalind 6. Fulltrúi dánarbúsins og maðurinn hennar tók á móti okkur um ellefu. Frænda mínum leist alveg jafn vel á íbúðina og mér og sagði að það væri lítið sem þyrfti að gera nema flytja inn. Hjónin spurðu mig hvort ég vildi nýta eitthvað af innbúinu og það var eitt og annað í boði sem ég var og er alveg til í að þiggja, t.d. eins og flest ljós, eldhúsborð og stólar og veggfastar hirslur/hillur. Við frændi minn gáfum okkur rúman tíma til að skoða og spjalla við fólkið. Fengum hins vegar ekki að sjá geymsluna í kjallaranum því þau voru ekki með lykil að henni. Það var allt í lagi, veit að hún er um 5fm og með hillum og mun nýtast mér ágætlega. Ómar skilaði mér heim um tólf leytið. Afgangurinn af deginum fór í smá sýsl, nokkur símtöl en þó mest í rólegheit og smá gláp og lestur.
4.9.25
Fimmtudagur
Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Það var svo sem í góðu lagi því ég stefndi á að fara í sjóinn svo ég tók því rólega framan af morgni. Útbjó mér hafragraut á ellefta tímanum og var svo heppin að fá stæði í Nauthólsvík um ellefu. Sjórinn næstum 14°C. Eftir tvær ferðir í hann þar sem ég fór aðra ferðina út að kaðli og 10 mínútur í gufunni fór ég upp úr. Skrapp á N1 við Gagnveg með póst til Davíðs Steins sem var á vakt. Var komin heim um eitt leytið. Um hálfþrjú leytið setti ég fjórar af fimm bókum af safninu í bókaboka og bakpoka og rölti af stað í átt að Kringlunni. Mætti nágrannakonunni í húsinu á móti og við spjölluðum líklega í hátt í hálftíma. Á safninu stóðst ég ekki mátið og fékk lánaðar 4 bækur í staðinn, þar af eina sem er með skammtímaláni. Fiðrildaherbergið eftir Lucindu Riley, höfund bókanna um sjö systur. Er byrjuð að lesa hana. Þegar ég kom af safninu ákvað ég að labba lengri leiðina heim. Skipti þeim göngu túr í tvær lotur með góðu stoppi á milli svo klukkan var að verða fimm þegar ég kom heim aftur.
3.9.25
Snemma að sofa, seint á fætur í morgun
Ég var komin í sund upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Synti aðeins 400m því allt í einu varð mikil traffík á brautinni. Gaf mér rúman tíma í aðra sundrútínu. Var þó komin út í bíl um níu og sammþykkti gagntilboð í fasteignina sem ég er að bjóða í kl. 09:02 þann 02.09. Fór svo beinustu leið heim. Sýslaði ýmislegt fram yfir hádegi en um hálftvö lagði ég af stað í göngutúr með stefnuna í Austurstrætið til að kíkja á vinkonu mína sem er með sölubás þar og hefur verið með mörg undanfarin ár. Hún ætlar að nota alla góðu dagana í september en svo tekur hún sér pásu frá sölumennskunni fram á næsta vor. Notar veturinn til að fylla á lagerinn hjá sér. Stoppaði við í ca þrjú korter. Labbaði svo áleiðis heim eftir Lækjargötunni, þveraði Hljómskálagarðinn og þegar ég kom yfir brúna yfir Hringbraut ákvað ég að taka lengri leiðina heim þaðan. Skrefafjöldi gærdagsins fór líka yfir 15 þúsund og ég var ekki komin heim fyrr en upp úr klukkan fimm.
2.9.25
Allt að gerast
Var mætt í sund upp úr klukkan sjö. Synti 400m á brautum 6, 7 og 8. Eftir 10 mínútur í gufu, annað eins í sjópottinum, 4mínútur og dýfu í kalda fór ég upp úr og beint í osteostrong. Var komin heim um níu. Tveimur tímum síðar hringdi fasteignasali DomusNova í mig og sagði að ég væri búin að fá gagntilboð í fasteignina sem ég var að bjóða í sl. föstudag. Þessu hafði ég alveg reiknað með. Ég hef tilhádegis í dag til að samþykkja sem ég mun líklega gera eftir að ég kem úr sundi um níu. Fannst ekki alveg hægt að samþykkja á mánudegi. Um hálftvö kom fasteignasalinn minn til mín hálftíma á undan öðrum einstaklingnum sem er að bjóða í mína íbúð. Hann var með tvo smiði með sér. Mér heyrist á öllu að ungu hjónin séu búin að ákveða ýmsar breytingar og ætli að hreiðra um sig í þessari íbúð næstu tuttugu árin eða svo. Frétti líklega eitthvað meira um það í dag eða á morgun. Klukkan var að verða sex þegar ég skrapp út í smá göngutúr um Öskjuhlíðina og kirkjugarðinn í Fossvoginum, tæplega 4km langan, í tveimur lotum því ég staldraði aðeins við hjá leiði móðurforeldra minna og eins móðurbróður míns. Kom heim rétt fyrir sjö.
1.9.25
Glænýr mánuður
Rumskaði aðeins um sex leytið í gærmorgun. Svaf svo sem ekkert mikið lengur og var ég komin á fætur rétt um átta. Pabbi hafði komið fram á sínum venjulega tíma til að fá sér eitthvað og taka niður tölur. Hann kom svo klæddur fram um hálfellefu og tók þá strax út pakka af saltkjöti úr ísskápnum. Eftir hádegið, rétt rúmlega eitt fór ég í tvískipta göngu. Labbaði niður með ánni, undir brúna við þjóðveginn og yfir tvær smábrýr alveg þar til ég kom að bekk við árbakkann. Þar settist ég niður í ca tíu mínútur og gönguforritið skráði á mig 1,6km. Snéri svo við og labbaði aðeins lengra upp eftir ánni þó ekki mjög mikið lengra en forritið skráði þó á mig 2km. Þegar ég kom til baka sagði pabbi að það væru að koma gestir í heimsókn úr bænum. Þau komu þrjú um hálffjögur, einn bróðir mömmu, konan hans og sonur. Þau settust inn í stofu á meðan ég fann til kaffið og teið. Eftir kaffið bauðst pabbi til að fara með þau í bíltúr um slóðir þar sem þessi frændi minn vann einhver sumur fyrir Landgræðsluna fyrir meira en hálfri öld síðan. Ég fékk að fara með í þann bíltúr. Keyrðum m.a. framhjá Heiði en þegar við komum aðeins framhjá Bolholti beygði pabbi inn á svæði sem einu sinni var hraun og svartir sandar en er nú mjög gróðurmikið með lúpínu, grasi, trjám og fleiru. Það tók góða stund að keyra í gegnum þetta eftir slóðanum. Hægt var að fara fleiri slóða þarna um. Þegar við komum að stað þar sem hægt var að velja um að fara í átt að Selsundi eða Gunnarsholti fékk frændi minn að velja. Hann valdi seinni slóðann. Komum til baka á Hellu eftir eins og hálfstíma bíltúr. Pabbi hellti aftur upp á könnuna en frændi minn var einn um að þiggja kaffið, við hin fengum okkur vatn. Gestirnir kvöddu um sjö leytið en ég stoppaði klukkutíma lengur áður en ég kvaddi pabba og brunaði í bæinn.