2.9.25

Allt að gerast

Var mætt í sund upp úr klukkan sjö. Synti 400m á brautum 6, 7 og 8. Eftir 10 mínútur í gufu, annað eins í sjópottinum, 4mínútur og dýfu í kalda fór ég upp úr og beint í osteostrong. Var komin heim um níu. Tveimur tímum síðar hringdi fasteignasali DomusNova í mig og sagði að ég væri búin að fá gagntilboð í fasteignina sem ég var að bjóða í sl. föstudag. Þessu hafði ég alveg reiknað með. Ég hef tilhádegis í dag til að samþykkja sem ég mun líklega gera eftir að ég kem úr sundi um níu. Fannst ekki alveg hægt að samþykkja á mánudegi. Um hálftvö kom fasteignasalinn minn til mín hálftíma á undan öðrum einstaklingnum sem er að bjóða í mína íbúð. Hann var með tvo smiði með sér. Mér heyrist á öllu að ungu hjónin séu búin að ákveða ýmsar breytingar og ætli að hreiðra um sig í þessari íbúð næstu tuttugu árin eða svo. Frétti líklega eitthvað meira um það í dag eða á morgun. Klukkan var að verða sex þegar ég skrapp út í smá göngutúr um Öskjuhlíðina og kirkjugarðinn í Fossvoginum, tæplega 4km langan, í tveimur lotum því ég staldraði aðeins við hjá leiði móðurforeldra minna og eins móðurbróður míns. Kom heim rétt fyrir sjö.

1.9.25

Glænýr mánuður

Rumskaði aðeins um sex leytið í gærmorgun. Svaf svo sem ekkert mikið lengur og var ég komin á fætur rétt um átta. Pabbi hafði komið fram á sínum venjulega tíma til að fá sér eitthvað og taka niður tölur. Hann kom svo klæddur fram um hálfellefu og tók þá strax út pakka af saltkjöti úr ísskápnum. Eftir hádegið, rétt rúmlega eitt fór ég í tvískipta göngu. Labbaði niður með ánni, undir brúna við þjóðveginn og yfir tvær smábrýr alveg þar til ég kom að bekk við árbakkann. Þar settist ég niður í ca tíu mínútur og gönguforritið skráði á mig 1,6km. Snéri svo við og labbaði aðeins lengra upp eftir ánni þó ekki mjög mikið lengra en forritið skráði þó á mig 2km. Þegar ég kom til baka sagði pabbi að það væru að koma gestir í heimsókn úr bænum. Þau komu þrjú um hálffjögur, einn bróðir mömmu, konan hans og sonur. Þau settust inn í stofu á meðan ég fann til kaffið og teið. Eftir kaffið bauðst pabbi til að fara með þau í bíltúr um slóðir þar sem þessi frændi minn vann einhver sumur fyrir Landgræðsluna fyrir meira en hálfri öld síðan. Ég fékk að fara með í þann bíltúr. Keyrðum m.a. framhjá Heiði en þegar við komum aðeins framhjá Bolholti beygði pabbi inn á svæði sem einu sinni var hraun og svartir sandar en er nú mjög gróðurmikið með lúpínu, grasi, trjám og fleiru. Það tók góða stund að keyra í gegnum þetta eftir slóðanum. Hægt var að fara fleiri slóða þarna um. Þegar við komum að stað þar sem hægt var að velja um að fara í átt að Selsundi eða Gunnarsholti fékk frændi minn að velja. Hann valdi seinni slóðann. Komum til baka á Hellu eftir eins og hálfstíma bíltúr. Pabbi hellti aftur upp á könnuna en frændi minn var einn um að þiggja kaffið, við hin fengum okkur vatn. Gestirnir kvöddu um sjö leytið en ég stoppaði klukkutíma lengur áður en ég kvaddi pabba og brunaði í bæinn.