Vaknaði snemma að venju. Gerði æfingar með 2 kg. lóðunum, sinnti morgunverkunum, vafraði aðeins á netinu og setti inn færslu. Var komin í sund um hálfátta. Synti 500m, helminginn á bakinu. Fór 3 sinnum 5 mínútur í þann kalda, korter í sjópottinn, annað eins í gufu og sat svo smá stund á stól og sólaði mig. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Kom heim um hálfellefu. Uþb þremur tímum seinna setti ég bók, sólgleraugu með plús 1,5 styrk og vatnsflösku ofan í gamlan, léttan sundpoka merktan Davíð Steini og labbaði af stað upp í Öskjuhlíð. Eftir hálftíma göngu fann ég mjög góðan stað í skóginum til að setjast aðeins niður, fá mér vatn og lesa í smá stund. Kom heim aftur um hálffimm. Lítið meira að frétta af gærdeginum nema ég horfði á landsleikinn í knattspyrnu kvenna milli Íslands og Noregs sem fram fór í Noregi og ég kláraði loksins að lesa næst síðustu bókina af safninu. Einnig greip ég nokkrum sinnum í saumaverkefnið yfir daginn.
31.5.25
30.5.25
Rjómablíða
Gærdagurinn varð aðeins öðruvísi en ég ætlaði mér og því frekar fátt að frétta. Vaknaði snemma eins og oftast. Gerði æfingar með 2,5kg lóðum, fékk mér sítrónuvatn, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, vafraði um stund á netinu og kveikti svo á sjónvarpinu fyrir klukkan átta. Um hálftíu fékk ég mér skyr og þar sem starfsmaður í Nauthólsvík hafði sagt mér á miðvikudaginn að það væri opið alla daga frá 10-19 þá dreif ég mig þangað um tíu. Þar var amk ekki búið að opna aðstöðuna þegar ég mætti og ég kannaði það ekkert frekar hvort það væri alveg lokað í gær eða opnaði síðar. Veit að laugardalslaugin átti ekki að opna fyrr en klukkan ellefu. Ég fór því aftur heim með það á bak við eyrað að fara í göngutúr. Ekkert varð af því þó. Facebook hringdi í frænku mína í Noregi og við áttum mjög langt og gott spjall og svo togaði útsaumsverkefnið í mig lungan úr deginum sem leið alveg jafn hratt þótt ég væri ekki að gera mikið.
29.5.25
Um gærdaginn
Vaknaði snemma eins og oftast og var búin að gera æfingar með lóð áður en klukkan varð sex. Þegar ég var búin að sinna morgunverkunum, vafra svolítið um á netinu og setja inn færslu slökkti ég á fartölvunni færði mig yfir í sjónvarpsstólinn og kveikti á sjónvarpinu. Ég var svo sem ekki bara að glápa því ég stillti sem snöggvast yfir á útvarpsrásina Bylgjuna og hlustaði um stund á morgunþáttinn með Heimi, Lilju og Ómari. Um hálftíu fékk ég mér skyr og var svo komin á planið við Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Þar beið kaldapotts vinkona mín eftir mér. Næstu tæpu tvo tímana fórum við fjórar ferðir í sjóinn (eina af þeim í lónið), tvær ferðir í gufuna og einnig í pottinn inn á milli. Ég kom heim aftur rétt fyrir tólf og borðaði þá afganginn af hafragrautnum frá því í fyrradag, kaldan. Sá svo að ég hafði fengið skilaboð frá esperanto vinkonu minni og misst af símtali frá einni annarri. Var komin yfir til Inger rétt upp úr klukkan eitt. Við fengum okkur, spjölluðum og lásum tvær bls. í Kon-Tiki. Kvaddi stuttu fyrir klukkan þrjú og datt þá í hug að athuga hvort fyrrum samstarfskona mín sem býr skammt frá væri heima. Hringdi á undan mér. Hún var að koma heim úr göngutúr. Ég stoppaði hjá henni næstu tæpu tvo tímana. Við höfðum um margt að spjalla og ég sýndi henni sumar myndirnar sem ég tók á meðan ég var fyrir norðan og austan. Á leiðinni heim um fjögur, í þungri umferð, hringdi ég svo í þá sem hafði hringt í mig á meðan ég var í sjónum. Það kom reyndar í ljós að hún hafði rekið sig í takkann á símanum um morguninn þegar hún var að fara af stað í úti-jóga tíma. Það hefði svo verið alveg upplagt hjá mér að skreppa í stutta göngu eftir að ég kom heim en einhvern veginn fór tíminn í allt annað, m.a. útsaum.
28.5.25
Miðvikudagur
Stundum skil ég ekkert í hvað ég vakna snemma, sérstaklega ef ég hef ekki verið sofnuð fyrir klukkan hálfellefu kvöldið áður. En þegar ég er glaðvöknuð fyrir klukkan sex eða jafnvel fyrr þá þýðir sjaldan að drolla eitthvað upp í rúmi. Stöku sinnum byrja ég þó þá daginn eins og ég enda flesta daga, með því að grípa aðeins í bók. Og skrifandi um bækur þá er ég byrjuð á næstsíðustu bókinni af safninu; Stúlkurnar á Englandsferjunni eftir Lone Theils. Síðasta bókin er eftir sama höfund, Nornadrengurinn og báðar fjalla þær um blaðakonuna Noru Sand sem kalla má rannsóknarblaðamann. Þar sem ég er búin að framlengja skilafrestinum á þremur bókum af sex sem ég tók í kringum 22. apríl og er búin með eina af þremur sem ég tók 12. maí hef ég nægan tíma til að ljúka lestri áður en skilafrestur rennur út. En annars byrjaði ég gærmorguninn ekki á því að grípa í bók þótt ég væri vöknuð nokkuð snemma. Var búin að klæða mig og gera lóðaæfingar um hálfsex. Tók vissulega bók með mér inn í stofu eftir að ég var búin að fá mér sítrónuvatn og sinna morgunverkunum á baðherberginu. En tímann til sjö notaði ég í netvafr og bloggfærslu. Var komin í sund og á braut átta um tuttugu mínútur yfir sjö. Synti 600m á hálftíma, þar af næstum því 50m skriðsund. Kalda potts vinkona mín var mætt og búin að hita sig upp fyrir fyrstu ferð af fjórum í þann kalda. Fórum þrjár ferðir í þann heitasta, rúmt korter í gufu og rúmar tíu mínútur í sjópottinn. Ég var komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Fékk mér vatnsglas og glápti á einn þátt úr sarpi sjónvarps símans áður en ég fékk mér skyr. Um og upp úr hádeginu samdi ég við N1 soninn, sem var í vaktafríi, um að taka að sér að matreiða fiskrétt. Spurði hinn soninn hvort hann vildi borða með okkur síðar um daginn, sem hann þáði. Ég skrapp því í stuttan göngu túr í Fiskbúð Fúsa og keypti kíló af þorskhnökkum. Kom við í Krambúðinni (sem áður hét Sunnubúðin) í bakaleiðinni og keypti egg. Var komin heim upp úr klukkan tvö. Einhverra hluta vegna fór ég ekki aftur út í góða veðrið heldur eyddi deginum í útsaum, gláp og smá netvafr. Davíð Steinn hafði matinn um fimm leytið, steiktan fisk með hrísgrjónum. Virkilega gott hjá honum.
27.5.25
Ekkert að veðrinu
Var vöknuð fyrir allar aldir í gærmorgun. Skrapp á salernið um hálffimm og reyndi svo að kúra aðeins lengur. Sofnaði ekki aftur en fór ekki á fætur fyrr en upp úr klukkan sex. Um hálfátta var ég komin í sund. Hitti aðeins á sjósunds vinkonu mína og manninn hennar. Þau komu á sama tíma en fóru aðeins á undan mér. Ég var samt ekkert svo lengi í sundi. Synti 400m, fór tvisvar í þann kalda og nokkrar mínútur í sjópottinn á milli. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var komin í Hátún 12 í osteóstrong rétt rúmlega hálfníu. Fljótlega eftir að ég kom heim ýtti ég aðeins við N1 syninum, sem var á frívakt, til að athuga hvort hann ætlaði að setja í þvottavél. Svo var ekki og ég nýtti mér það. Um hádegið útbjó ég mér hafragraut. Um hálfþrjú leytið skruppum við Oddur í Krónuna við Fiskislóð. Hann notaði tækifærið og fór með nokkra poka í Sorpu. Annars fór gærdagurinn í lestur, útsaum, prjón og gláp nema ég hringdi nokkur símtöl. M.a. í systur mína sem sagði mér að nú væru aðeins þrjár óbornar kindur eftir og að ef gimbrin sem ég "bjargaði" yrði sett á í haust fengi hún líklega nafnið Sigga þar sem til er kind í hópnum sem heitir Anna.
26.5.25
Komin heim í bili
Rumskaði um sex í gærmorgun. Heyrði umgang og vissi að systir mín var að skreppa út í fjárhús að fara yfir stöðuna þar. Hef líklega sofnað aftur því ég heyrði hana ekki koma til baka. Mér fannst ekki liðinn langur tími þegar ég dreif mig á fætur en þá var klukkan að verða átta og systir mín löngu komin inn til sín. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að skreppa út í fjárhús heldur sinni net- og bloggvenjunum mínum. Systir mín skrapp aftur út í fjárhús þegar hún kom fram á tíunda tímanum. Seint kvöldið áður og um nóttina höfðu borið 3 kindur þannig að það voru aðeins 3 kindur og einn gemsi óborið. Allt var rólegt en þegar hún skrapp út fyrr um morguninn hafði hún þurft að losa lamb sem var búið að festa sig þannig að það gat ekki losað sig sjálft. Um hálftólf kláraði ég afganginn af plokkfisknum, pakkaði niður dótinu mínu, fermdi bílinn og kvaddi mæðgurnar og mág minn. Ingvi var útivið og ég fékk hann til að athuga með loftþrýstinginn á dekkjunum áður en ég lagði af stað heim. Fór Víkurskarðið og stoppaði aðeins við hjá AO í Baldursnesi á Akureyri til að fylla á tankinn. Tankurinn hefði alveg dugað en mér finnst best að vera með fullan tank þegar ég er í lengri ferðum. Næsta stopp gerði ég ekki fyrr en við Baulu um hálffimm. Þar splæsti ég á mig fiskrétti og fékk fyrir vikið að nota salernisaðstöðuna áður en ég hélt för áfram. Ég gerði svo stopp hjá N1 við Gagnveg en það var eingöngu til að heilsa upp á N1 soninn sem var á vakt. Kom heim á áttunda tímanum og var svo heppin að fá stæði við hliðina á innkeyrslunni þannig að það var ekki langt að bera dótið inn. Þurfti þó að fara tvær ferðir þar sem ég náði ekki í Odd fyrr en ég kom inn úr fyrri ferðinni. En hann sótti ferðatöskuna, sem ég hafði skilið eftir í ganginum við útidyrnar, á meðan ég sótti afganginn af dótinu út í bíl.
25.5.25
Rigning er góð fyrir, gróður, rykbindingu og andrúmsloft
Helga var búin að fara eina ferð í fjárhúsið þegar ég kom fram á áttunda tímanum í gærmorgun. Enn sex kindur og einn gemsi óborið þannig að nóttin hafði einnig verið tíðinda lítil. Skiptumst á að kíkja á klukkutíma fresti. Ég fór þó reyndar aðeins tvær ferðir út og það var ekkert að frétta nema það þurfti að vatna í einstaka kró. Hreinsa sumar fötur og fylla aðeins á vatnsstokkana. Kindurnar héldu auðvitað ég væri komin til að gefa þeim í seinna skiptið sem ég skrapp út en ég læt unga bóndann eða bróður hans alveg um að gera það. Í stað þess að við frænkurnar færum í sund fórum við með foreldrum hennar í bíltúr. Aðal tilgangur bíltúrsins var að kíkja á markað sem er opin um helgar (fös-sun) milli eitt og fimm. Við byrjuðum hins vegar á að fara inn á Akureyri í smá útréttingar og vorum búin að stoppa stuttlega á um fimm stöðum áður en við fórum á markaðinn í Sigluvík. Þar kenndi ýmissa grasa, gaman að skoða og margar freistingar. Ég lét þó vera að fjárfesta í dóti eða bókum því ég þarf endilega að fara að fara í gegnum mitt eigið dót og grisja í því. Þá er ekki gott að bæta einhverju við. Fljótlega eftir að við komum til baka útbjó ég aftur plokkfiskrétt sem sló aftur í gegn.
24.5.25
Aftur komin í Árland
Rumskaði helst til snemma í gærmorgun, klukkan varla orðin fimm. Tókst þó að kúra mig eitthvað niður aftur en ekkert mjög lengi. Var því aftur búin að setja inn færslu áður en ég fór fram stuttu fyrir sjö. Þá var vinkona mín nýkomin fram og maðurinn hennar nýlega kominn úr ræktinni. Morgunstundin hjá okkur Ellu var notaleg og róleg framan af. Eftir að "strákarnir" voru farnir í vinnu hjálpuðumst við að við smá tiltekt. Svo sendi hún skilaboð á vinkonu hinum meginn í götunni sem hafði ekki komið í yfir síðan ég mætti á svæðið. Sú kom yfir um hæl og viðurkenndi að hafa verið feimin við að koma þegar hún sá að einhver var í heimsókn. Hún kvaddi stuttu fyrir ellefu og var þá á leiðinni í sund. Fékk mér hádegis hressingu rétt áður en Aðalsteinn kom heim í mat. Kvaddi hann um hálfeitt og Ellu ekkert svo löngu síðar, fermdi bílinn og lagði af stað til baka. Eftir rúmlega klukkutíma keyrslu stoppaði ég á útsýnis/nestisstað. Þar var rok og rigning svo ég nennti ekki út úr bílnum en hringdi í pabba. Næsta stopp gerði ég við Víti við Kröflu. Var komin í Árland til systur minnar um fimm þá nýbúin að hringja í atvinnulausa soninn. Mæðgurnar voru að búa til pizzur en mágur minn í vinnuferð í bænum en þó á leiðinni heim en það vissum við ekki akkúrat þá. Aðeins 7 kindur eru óbornar. Fór þó ekkert út í fjárhús, fylgdist bara með því fé sem var í túnunum og fellinu. Seinna um kvöldið kom maður með fjórhjól á kerru, fjórhjól sem mágur minn var að fjárfesta í til að nota við grenja-dæmi. Mágur minn kom svo heim um níu leytið með kerru í eftirdragi sem þau voru líka að fjárfesta í.
23.5.25
Góðar gæðastundir
Þegar ég kom fram um sjö í gærmorgun (reyndar búin að setja inn færslu) voru bæði Ella og Aðalsteinn komin á fætur. Hann var meira að segja búinn að fara út í hlaupatúr. Morguninn hjá okkur vinkonum leið hratt. Vorum ekkert að flýta okkur eitt né neitt. Aðalsteinn fór í vinnu um átta og Einar Bjarni klukkutíma síðar. Ella gerði æfingar og um tíu fórum við út í sólbað. Ég entist ekki lengi í sólbaðinu og færði mig fljótlega í skuggann. Fórum aftur inn um ellefu. Aðalsteinn kom heim í mat stuttu fyrir tólf. Hann ætlaði svo að skutla konunni sinni í litun og plokkun um eitt svo ég ákvað að fá mér göngutúr og skreppa í sund í leiðinni. Var kannski rúmar tíu mínútur á leiðinni í sundið. Ákvað að leigja mér handklæði og villtist svo óvart inn í rangan kvennaklefa, fór í númer 2 í stað 3 og var ekkert að kveikja á því að allir skápar í rýminu voru lausir. Það var ekki fyrr en ég var búin að fara í sturtu og komin í sundbolinn og sundhettuna að ég uppgötvaði að dyrnar út á sundsvæðið voru læstar. Sú sem afgreiddi mig í afgreiðslunni var komin í rýmið að þurrka af og rýma og hún sagði að það væri nóg fyrir mig að þurrka fæturnar áður en ég færði allt dót úr skáp 2 í rými 2 í skáp 52 í rými 3. Var byrjuð að synda rúmlega hálfeitt og synti í 25 mínútur. Fór svo nokkrum sinnum í köldu pottana og smá sólbað áður en ég fór upp úr. Var komin til baka um tvö og þá var vinkona mín komin heim. Upp úr klukkan þrjú settumst við í skotið fyrir framan hús, hún með kaffi og ég með te. Sátum þar í dágóða stund en ekki of lengi samt. Þegar Einar Bjarni er á svæðinu er það föst regla að hann sér um eldamennsku á fimmtudögum. Hann kom heim úr vinnu og búð á fimmta tímanum og byrjaði fljótlega að útbúa kjúklingarétt í ofni með sætum kartöflum til hliðar. Aðalsteinn notaði því tækifærið til að klára garðslátt þegar hann kom heim úr vinnu á svipuðum tíma. Eftir kvöldmat og fréttatíma horfðum við á Fram leggja Val í úrslitaleik í handbolta karla. Þetta var þriðji leikur liðanna og Fram vann þá alla. En þetta voru spennandi leikir.
22.5.25
Egilsstaðir
Systir mín var að koma inn úr fjárhúsunum þegar ég kom fram um hálfsjö í gærmorgun. Ekkert hafði borið um nóttina og það var frekar rólegt í fjárhúsunum enda bara rúmlega tuttugu óbornar. Samt voru einhverjar líklegar. Kíktum samt aftur eftir ca þrjú korter, þá var enn rólegt en um níu leytið voru tvær að byrja. Yngri bróðirinn kom í hús um tíu þá var ein borin og tvær "að vinna í þessu". Hann þurfti þó að aðstoða aðra við fyrra lambið og draga seinni lömbin úr þeim. Annað af þeim lömbum kom öfugt út en var frekar lítið. Það hressist þó furðu fljótt. Ég fór inn um hálftólf, fékk mér hressingu og pakkaði flestu af dótinu mínu niður. Um hálfeitt fermdi ég bílinn, kvaddi í bili og hélt sem leið lá austur á Egilstaði. Stoppaði aðeins á einum útsýnisstað. Þar hringdi ég í pabba, teygði úr mér og tók myndir og snöpp. Var komin til Ellu vinkonu um fjögur. Skömmu síðar rak dóttir hennar inn nefið en hún var að fara að reka smá erindi fyrir mömmu sína. Eldri sonurinn er að vinna þessa dagana í nágrenninu og hann kom "heim" um fimm leytið á svipuðum tíma og Aðalsteinn. Valdís stoppaði aðeins eftir að hún var búin að reka erindið fyrir mömmu sína. Um kvöldið horfðum við á úrslitaleikinn í körfubolta karla sem var afar spennandi. Héldum öll með liðinu sem var yfir í þremur leikhlutum en tapaði með þremur stigum.
21.5.25
Þoka
Var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Þá var Helga systir þegar búin að fara út í hús og sagði að það væri allt rólegt í bili. Hún bað mig svo um að skjótast út í hús að taka stöðuna milli sjö og hálfátta. Taldi að það ætti að vera alveg allt rólegt. Stuttu síðar sendi ég henni mynd af nýbornu lambi og sagði að það væri önnur kind byrjuð að bera og það sást ekki í fætur en var að koma haus. Ég náði ekki þeirri kind en Helga kom út tímanlega til að ná henni og ná í fætur lambsins þannig að auðveldara væri fyrir kindina að bera. Sú sem átti lambið sem var komið átti tvö önnur og þriðja kindin var komin af stað. Um níu voru komin sjö ný lömb. Veðrið hélt áfram að vera einstaklega gott og við systur gátum setið sunnan undir vegg, lon og don. Ég passaði mig þó að sitja ekki of lengi. Hulda frænka tók að sér að baka súkkulaði-skúffuköku. Seinna um daginn þurftu bræðurnir að fara með eina kind til dýralæknis á Akureyri þar sem þurfti að gera keisaraskurð. Á meðan þeir voru þar bar önnur þrílemba, ein tvílemba og ein einlembd með stórt lamb var komin af stað.
20.5.25
Gott veður dag eftir dag
Í gærmorgun voru sennilega rúmlega þrjátíu kindur og ca 10 gemsar enn eftir að bera. Meiri hlutinn búinn og þar sem veðrið er svona gott dag eftir dag er búið að hleypa ansi mikið af borna fénu út. Það er líka gaman að sjá kindur og lömb hoppa og skoppa um á túnunum. Þau verða ekki rekin upp í fjall fyrr en í júní og þegar allt er borið. Fór þrjár ferðir með systur minni í fjárhúsin í gærmorgun. Ein tvílemba bar og einn gemsi sýndi merki þess að vera að byrja. Yngri bróðirinn kom út rétt fyrir tíu og þá ákvað ég að ræsa systurdóttur mína og skreppa aftur inn á Húsavík í sund. Vorum komnar þangað á tólfta tímanum og þá var sundleikfimi í fullum gangi. Byrjuðum því á að sóla okkur og ég fór amk fjórar ferðir í köldu tunnuna. Korter fyrir tólf var hægt að synda með lagni, leikfimin búin en eitthvað af fólkinu var að sóla sig í sundlauginni, pottarnir líklega of heitir. Ég synti í tæpt korter. Um svipað leyti og ég hætti komu heilu grunnskólabekkirnir. Krakkarnir voru ekki að koma í sundkennslutíma heldur var boðið upp á froðu rennibraut norðan við sundlaugarsvæðið og svo máttu þau auðvitað fara í rennibrautirnar, pottana og sundlaugina. Eftir rúman einn og hálfan tíma í sundi ákváðum við frænkur að þetta væri gott og drifum okkur upp úr áður en krakkahópurinn kom inn í sturtu. Þvoði mér um hárið og svo komum við við í Nettó áður en við fórum aftur í sveitina. Ég fór ekki aftur í fjárhúsin en um miðjan dag ákvað ég að gera vöfflur og þrefalda uppskriftina. Mágur minn kom heim úr vinnu stuttu áður en staflinn var tilbúinn. Allir komu inn að drekka og þótt ég væri ekki að borða nema minnstu vöffluna kláraðist staflinn. Ég sá svo líka um kvöldmatinn, plokkfisk. Hafði laukinn og kartöflurnar alveg sér og þar sem annar bróðirinn borðar ekki lauk hafði hann á orði að þetta væri besti plokkfiskur sem hann hefði smakkað. Við mágur minn hjálpuðumst að við að ganga frá eftir matinn því systir mín og bræðurnir fóru út í hús þar sem þrír gemlingar voru að bera. Hulda frænka setti fasta fléttu í hárið á mér í gærkvöldi.
19.5.25
Ofur gott verður
Rumskaði um hálfsex í gærmorgun, sennilega um það leyti sem eldri bróðirinn (ungi bóndinn) kom inn af næturvaktinni. Vissi ekki að hann lét systur mína vita að það væri allt rólegt og ekki þyrfti að fara strax út í hús. Um sex heyrði ég annan umgang en þegar ég kom fram skömmu síðar til að sinna morgunverkunum á baðherberginu var lokað inn í hjónaherbergi og ég vissi að það væri ekki neinn farinn út. Ákvað að hinkra aðeins til að setja inn færslu. Upp úr klukkan hálfsjö var enn engin hreyfing svo mér datt í hug að kíkja út og taka stöðuna í fjárhúsunum. Var komin út korter fyrir og innan við fimm mínútum síðar hringdi ég í systur mína. Það var ein byrjuð, hausinn á lambinu kominn en bara einn framfótur. Mér leyst satt að segja alls ekkert á blikuna en fór niður í króna til að athuga hvort ég gæti gert eitthvað. Það var ekki hægt að troða öllu inn til að ná í hinn fótinn enda reyndi ég það ekki heldur togaði í lambið þegar kindin var að rembast. Togaði ekki fast og passaði að toga niður á við. Í þriðju tilraun og rétt áður en systir mín kom var nokkuð stór en mjög þrekuð gimbur komin og kindin staðin upp og byrjuð að kara það. Það kom í ljós að þetta var kind frá systur minni, Ída, og aðeins með eitt lamb. Það tók lambið þó nokkra stund að jafna sig en sem betur fer braggaðist það. Þarna hefði alveg getað farið illa. Tvær aðrar tvílembdar voru byrjaðar og önnur af þeim aðeins veturgömul þannig að hún var að bera í fyrsta sinn. Við systir mín vorum meira og minna í fjárhúsunum fram til hálftólf en þá komu báðir bræðurnir í hús. Önnur tvílembar var borin og komin í sér kró en það þurfti að hjálpa þeirri veturgömlu aðeins. Hún var reyndar bara með eitt lifandi lamb, hitt hafði aldrei þroskast og náð að verða neitt neitt en það þurfti líka að ná því út. Veðrið heldur annars áfram að vera mjög gott. Um tvö leytið var ég búin að skipta um föt og sat úti að lesa í ca hálftíma áður en ég skrapp inn að kæla mig og fara í buxur, peysu og setja á mig derhúfu. Eftir það sat ég mun lengur úti. Fór inn um hálfsex leytið. Eftir kvöldmat fórum við systur aftur á fjárhúsvaktina því bræðurnir skruppu frá til að hjálpa nágranna. Ein bar á þeirri vakt. Fór ekki í háttinn fyrr en langt gengin í miðnætti eftir mjög gott dagsverk við leik og aðstoðarstörf.
18.5.25
Tækifæri
Í fyrstu morgunferð út í fjárhús í gærmorgun var allt þokkalega rólegt. Ein forystukind var að byrja. Þar sem allt var eðlilegt stillti Helga systir á hálftíma og við fórum inn að fá okkur eitthvað. Ég tók að mér að fara út á undan þegar tíminn var liðinn og viti menn það voru komin tvö lömb, tvær næstum eins gimbrar sem eru líka með þetta forystugen. Systir mín kom fljótlega út og við færðum kindina og lömbin í einkakró. Kíktum svo yfir óborna hópinn og í þeim voru tvær byrjaðar í innstu krónni og ein til mjög líkleg í annarri kró. Helga vatnaði kindunum og ég fylgdist með einni af þessum þremur. Þegar yngri bróðirinn kom í fjárhúsin fyrir klukkan hálftíu var fyrra lambið komið og það stutt í það seinna að hann náði í það og færði svo hópinn í sér kró áður en hann byrjaði að gefa. Fljótlega eftir þetta fór ég inn og ræsti systurdóttur mína. Við fengum okkur hressingu og lögðum svo af stað í sundlaugaferð til Grenivíkur. Höfðum aldrei prófað þá sundlaug. Staðurinn, bæði þorpið og sundlaugin, eru mjög falleg. Kaldi potturinn nokkuð góður en þó í efri mörkunum, sagður vera milli 4°C-12°C. Meiri parturinn af lauginni er ætlaðu sem leiksvæði en ein braut fyrir "syndara". Við frænkur urðum að biðja unglingsstúlkur að færa sig þegar við fórum í laugina til að synda. Ég synti í svona tæpt korter. Vorum örugglega í tæpan einn og hálfan tíma í sundi og hitinn þarna upp úr hádeginu sýndi 24°C. Þegar við komum upp úr var Hulda búin að fá skilaboð frá mömmu sinni, fyrirspurn um hvort við gætum keypt frostpinna á leiðinni heim. Við skruppum því næst inn á Akureyri. Fyrst stutta skoðunarferð í jólahúsið þó og ég ákvað svo að bæta á tankinn í Baldursnesi áður en við fórum í Krónuna. Klukkan var langt gengin í fjögur þegar við komum til baka. Ég fór ekkert aftur í fjárhúsin en um fimm tók ég að mér að elda kjöt í karrýi (úr lambaskönkum). Hulda smakkaði til karrýsósuna og systir mín brytjaði kjötið af beinunum áður en þetta var borið fram. Helga systir bauð svo upp á nýbakaða hjónabandssælu í eftirrétt. Sælan leit mjög vel út en þar sem ég vissi að hún væri mjög sæt ákvað ég að segja pass. Held mig sem allra mest frá öllu sætu/sykruðu. En þetta er gott fyrir þá sem eru á kindavaktinni næstum allan sólarhringinn.
17.5.25
Geggjað veður, heldur of heitt fyrir mig á tímabili
Þegar ég var búin að blogga í gærmorgun lagði ég af stað út í fjárhús. Mætti systur minni svo ég snéri við með henni og fór ekki aftur út fyrr en klukkustund síðar, rétt fyrir hálfátta. Þá var ein kind komin með eitt lamb af tveimur og önnur að byrja. Helga þurft aðeins að hjálpa þeirri sem var að byrja, þ.e. ná í annan framfót lambsins en eftir það gekk allt vel. Færðum kindurnar frá þeim óbornu þegar lömbin voru komin. Fylltum að vatnsfötur og létum einnig renna í stokkana. Um níu skrapp ég inn og fékk mér hressingu. Var komin út aftur fyrir klukkan hálftíu. Ein kindin var búin að vera með sótt í nokkurn tíma en það var samt ekkert að gerast hjá henni, ungi bóndinn hafði skoðað hana um nóttina og látið vita að það virtist allt vera "lokað", ætlaði að skoða þetta betur þegar hann kæmi aftur út um hádegið. Bróðir hans kom út um tíu og þá var gefið á garðana og vatnað meira. Um hálftólf var mér orðið frekar heitt. Þar sem allt var rólegt í bili varðandi sauðburðinn var í lagi að ég drægi mig í hlé. Verulega var farið að draga af veiku kindinni og svo tók ég eftir að eini haninn í hænsnabúrinu var orðinn mjög framlágur. Kindin og haninn voru bæði dauð stuttu síðar og ekki tókst að bjarga lömbunum. Svolítið sorglegt en svona gerist. Líklega hefði hvort sem er ekki verið hægt að bjarga kindinni. Ég fór ekki aftur út í fjárhús. Skrapp í örstutt "sólbað" sunnan undir húsvegg með systurdóttur minni. Var með bók og sólgleraugu en sat aðeins úti í uþb korter þar sem ég var ekki að bera á mig sólarvörn. Upp úr klukkan þrjú hrærði ég í vöfflur sem voru tilbúnar um fjögur. Hulda þeytti rjóma. Stuttu eftir drekkutímann fór ég með frænku minni að vaða aðeins í læknum, kæla á okkur tærnar og kálfana. Þetta var líklega um fimm leytið og þegar við komum til baka settist ég aftur sunnan undir vegg. Hringdi í pabba sem hafði einnig setið úti við í bongó á Hellu. Sennilega var einhvers konar bongó um allt land í gær.
16.5.25
Einstök veðurblíða
Klukkan er nýorðin sex og það virðist allt vera rólegt í augnablikinu. Ætla því að byrja daginn á þvi að skrá gærdaginn aðeins niður. Þá var ég vöknuð um svipað leyti. Hitti á mág minn sem sagði að systir mín væri nýfarin út í fjárhús. Ég synti morgunverkunum á baðherberginu og dreif mig svo beinustu leið út. Þar voru nokkrar sem sýndu merki þess að vera að byrja. Ég tók því að mér að vera áfram úti á meðan systir mín skrapp inn að fá sér morgunkaffið með manninum. Hún var ekkert lengi í burtu. Klukkan var að verða hálfníu þegar ég skrapp aðeins inn. Mátti helst ekki vera að þessu því það var nóg um að vera í fjárhúsinu. Annar bróðirinn kom út rétt fyrir tíu og þótt enn væri nóg um að vera um hálfellefu þá voru þau verkefni í öruggum höndum systur minnar og bróðursins. Ég var búin að lofa systurdóttur minni að skreppa aðeins í sund og þurfti sjálf á því að halda. Skipti um föt, fékk mér chiagraut og svo lögðum við af stað. Vorum komnar á Húsavík klukkan að ganga tólf. Ég synti smávegis, kannski svona í tíu mínútur en þá virtist laugin vera að fyllast enda kom það á daginn að það var að byrja sundleikfimi. Fór þrisvar í köldu tunnuna og við sátum smá stund í og við einn pottinn. Fórum upp úr um hálfeitt og ég þvoði mér um hárið í leiðinni. Komum svo aðeins við í Nettó áður en við fórum til baka. Var svo komin aftur út í fjárhús um hálfþrjú leytið. Það var svo sannarlega í nógu að snúast þar. Um fjögur róaðist allt í bili svo ég dró mig í hlé. Um fimm sá ég að annar bróðirinn var kominn út á rófuakurinn sinn sem hann útbjó og sáði í sjálfur í fyrradag og hinn bróðirinn var að bruna eitthvað í burtu. Ég dreif mig því aftur út í fjárhús. Þar var ein einlemba að bera og systir mín sagði að það væri verið að sækja lamb af öðrum bæ til að venja undir þá kind. Um hálfsjö leytið fór ég inn og setti upp kartöflur. Mágur minn, sem kom heim úr vinnu um fjögur, tók að sér að grilla. Maturinn var hafður um hálfátta en þá loksins var komin enn meiri ró í fjárhúsunum. Samt vísbendingar um að stutt væri í að tvær færu að bera. Ég fór samt ekki aftur út.
15.5.25
Lítill tími í bloggskrif
Ég hafði rúmt korter til að blogga í gærmorgun því ég dreif mig út í fjárhús með systur minni í hennar annarri ferð á morgunvaktinni stuttu fyrir klukkan hálfátta. Það var reyndar allt með kyrrum kjörum en þó vísbendingar um að ein einlemba væri að fara að byrja. Komum inn fljótlega aftur, Helga stillti tímann á klukkustund og lagði sig. Ég lagðist upp í rúm, slakaði á í stutta stund en þar sem ég var glaðvakandi greip ég í bók á meðan tíminn leið. Í næstu ferð í fjárhúsið var ljóst að einlemban var örugglega komin af stað. Þegar styttist í að lambið kæmi vakti systir mín annan bróðurinn sem kom fljótlega og karaði einn þrílembing sem kom í fyrradag. Einlemban fékk því tvö lömb og samþykkti þau bæði. Ein önnur var að bera um svipað leyti. Hún var með tvö lömb. Þegar það fyrra var komið var byrjað að gefa á garðana og þannig fékk hún ágætis frið, var ekki færð og stúkuð af fyrr en bæði lömbin voru komin. Var semsagt mikið í fjárhúsunum í gær með stöku pásum, sumum lengri því ég var alveg að lesa inn á milli og kláraði eina af bókasafnsbókunum í gær. Hjálpaði einnig til við að græja kvöldmatinn. Systir mín sá reyndar um að búa til kjötfarsið og skera niður kálið en ég setti upp kartöflur og mótaði bollur úr farsinu sem ég setti í pott með sjóðandi vatni.
Í morgun var hins vegar enginn tími til að byrja daginn á að blogga. Vaknaði stuttu fyrir sex og var komin út í fjárhús skömmu síðar. Meira um það vonandi á morgun eða amk yfirlit yfir ævintýri dagsins.
14.5.25
Lömb og sveitalíf
Kannski var ferðaspenningurinn svo mikill að ég var glaðvöknuð um fimm leytið í gærmorgun. Hafði rúman og góðan tíma fyrir alla morgunrútínu og var samt mætt í sund fyrir klukkan hálfátta. Byrjaði á kalda pottinum áður en ég fór á brautir 7 og 8 og synti 500m. Fór tvær aðrar ferðir í þann kalda, smá stund í gufu og uþb tíu mínútur í sjópottinn. Kom við á AO við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn. Heima fékk ég mér skyr og lifrarpylsu, kláraði að pakka, fermdi bílinn og kvaddi strákana þegar klukkan var byrjuð að ganga ellefu. Svo lagði ég af stað norður. Ég var ekkert dugleg við að stoppa á leiðinni. Keyrði framhjá Staðarskála af því ég var að hlusta á hádegisfréttirnar. Var eitthvað að spá í að koma við á Hvammstanga eins og í fyrra en ákvað að gera það ekki ef ég mætti bíl og þyrfti alveg að stoppa. Og auðvitað mætti ég bíl og brunaði bara áfram. Það var ekki fyrr en ég var að komast í Hörgársveit að ég stoppaði á útsýnisstað, fékk mér harðfiskbita og teygði aðeins úr mér. Það má alveg fylgja sögunni að ég var með vatnsflösku í bílnum sem ég var búin að súpa reglulega á. Stoppaði í Baldursnesi á Akureyri til að fylla á tankinn. Keyrði svo í gegnum bæinn og framhjá göngunum til að fara Víkurskarðið. Næsti bíll á eftir mér fór gönginn og það var mágur minn að fara heim úr vinnu um hálffjögur leytið. Var komin í Árland fyrir klukkan hálffimm eftir um sex tíma ferðalag. Þar var vel tekið á móti mér. Innan við klukkutíma eftir að ég mætti á svæðið kíkti ég aðeins út í fjárhús. Þar var allt með kyrrum kjörum líkt og kindurnar héldu aðeins í sér í þessu blíðviðri.
13.5.25
Að pakka niður fyrir ferðalag
Losaði svefninn alltof snemma í gærmorgun. Tókst að kúra örlítið lengur en klukkan var ekki orðin hálfsex þegar ég var komin á fætur og búin að gera lóðaæfingar. Korter yfir sjö var ég komin í sund. Fór beint á braut 6 og synti 400m, 2x4 mínútur í þann kalda og rúmar tíu mínútur í sjópottinn. Lét það gott heita. Fór beint úr sundi yfir í Hátún 12 í osteostrong tíma. Þá var klukkan rétt rúmlega hálfníu. Komst næstum strax að. Áður en ég kvaddi um níu lét ég vita að ég reiknaði ekki með að vera í bænum n.k. mánudag og myndi sennilega ekki mæta í næsta tíma fyrr en eftir hálfan mánuð. Var komin heim fyrir klukkan hálftíu. Skrapp aftur út um hálftólf, fyrst á bókasafnið að skila þremur af sex bókum og gefa frá mér fjórar kiljur að auki. Tók þrjár bækur og lagði svo leið mína í Fiskbúð Fúsa, aðallega til að kaupa harðfisk; óbarna ýsu og lúðu. En ég keypti líka þorskhnakka, 3 bita eða svo. Báðir bræðurnir voru komnir á stjá þegar ég kom heim aftur. Bauð þeim að borða með mér. Annar þáði boðið en hinn sagðist þurfa að elda sér eitthvað sem hann átti til í ísskápnum og var að komast á tíma. Fiskurinn fékk forgang. Steikti hann upp úr kryddaðri blöndu af tvennskonar fræjum og byggmjöli. Hafði með þessu soðnar kartöflur og súrkál. Að vísu fékk sonurinn sér ekki af súrkálinu. En mér fannst þetta mjög gott og góð blanda. Restin af deginum fór í alls konar. Fór reyndar ekkert út aftur svo skrefafjöldi dagsins komst ekki upp í 4000. Viðmiðið er 5500. En nú ætla ég að skreppa smá stund í sund áður en ég klára að pakka, fermi bílinn og bruna af stað í ferðalagið.
12.5.25
Ferðalag framundan
Ég var mætt í sund um hálfníu í gærmorgun. Fór beint á brautir 7-8 og synti í hálftíma, 600m, áður en ég fór í kalda pottinn. Eftir fimm mínútur þar fór ég í gufuna svo í kalda sturtu og sjópottinn áður en ég fór seinni ferðina í þann kalda og upp úr og heim. Fram yfir hádegi var ég að dútla við ýmislegt, m.a. útsaum og prjón. Stuttu fyrir hálftvö rölti ég af stað og var áfangastaðurinn kirkja óháða safnaðarins sem er ca km heiman frá mér. Það var allt að fyllast þegar ég mætti og var fólk enn að streyma að. Veit til þess að einhverjir urðu frá að hverfa þar sem þeir treystu sér ekki til að troðast eða standa. Klukkan tvö hófst lífslokamessa sr. Péturs, loka messan hans eftir 30 ára þróunar og þjónustu verkefni fyrir óháða söfnuðinn. Loka talning á fjöldanum sem sótti þessa messu var 417 manns. Semsagt troðfull kirkja. Þetta var eiginlega viðbúið því það var búið að auglýsa þennan viðburð all rækilega. Ég var komin heim aftur um það leyti sem leikur Liverpool og Arsenal hófst en ég svissaði reglulega á milli yfir á handboltalandsleik karla Ísland - Georgía sem hófst hálftíma síðar. Stundum er bara alltof mikið að gerast í einu.
11.5.25
Iðin við útsauminn
Glaðvaknaði stuttu fyrir klukkan sex og var ekkert að hanga áfram í rúminu. Gerði æfingar með 2x2,5kg lóðum og sinnti allri annarri morgunrútínu áður en ég settist niður í stofu með fartölvuna í fanginu. Upp úr klukkan sjö slökkti ég á tölvunni, færði mig yfir í "sjónvarps-stólinn" og tók fram handavinnutöskuna. Sat ekki lengi við saumana og skipti fljótlega yfir í prjónana. Klukkan var orðin hálfníu þegar ég dreif mig af stað í sund. Fór beint á braut 6 og synti 600m, flesta á bakinu. Sú sem var með mér á braut söng var með mér í óháða kórnum öll árin sem ég var í honum. Spjallaði smá stund við hana en svo var kallað á mig. Klukkan var um hálftíu og við kalda potts vinkona mín höfðum mælt okkur mót um það leyti. Fórum amk fjórum sinnum í þann kalda, góða gufuferð og notalega stund í sjópottinum. Tíminn leið auðvitað alltof hratt. Reyndar var ég minna tímabundin en oft áður á laugardagsmorgnum þar sem esperanto tími vikunnar var færður fram um einn dag. Klukkan var langt gengin í ellefu þegar ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Eldaði mér matarmikinn hafragraut þegar ég kom heim. Fór ekki aftur út fyrr en um tvö leytið og þá í tæplega klukkustundar göngutúr um Öskjuhlíðina. Annars var ég að sauma, prjóna, lesa, glápa og hugsa í hringi.
10.5.25
Dagarnir lengjast meir og meir
Sinnti allri morgun rútínu af samviskusemi í gærmorgun. Var komin í sund um hálfátta. Synti 600 metra, fór tvisvar sinnum fjórar mínútur í kalda, smá stund í þann heitasta og uþb korter í gufuna áður en ég fór upp úr og heim aftur. Fékk mér smá hressingu og vítamín. Skipti um föt og var komin í Áskirkju nokkru fyrir klukkan ellefu til að fylgja Valgerði Bjarnadóttur frá Ranastöðum á Stokkseyri en henni kynntist ég fljótlega eftir að ég byrjaði að fara reglulega í sund í Laugardalslauginni fyrir um tíu árum síðan. Í útförinni hitti ég tvo fyrrum samstarfsfélaga en þau tengdust Gerðu í gegnum manninn hennar heitinn sem var frá Patreksfirði, voru náskyld honum. Þegar ég kom heim aftur rétt fyrir eitt uppgötvaði ég að ég hafði ekki tekið með mér húslykla. Þá kom sér vel að atvinnulausi sonurinn væri heima við. Var ekki með neitt sérstakt planað en um hálfþrjú hafði norska esperanto vinkona mín samband, sagði að blómin sín væru með þakklætisgjöf handa mér og hvort ég væri til í koma yfir í esperanto. Ég var til í það og samdi við Odd um að hengja fyrir mig upp úr þvottavél svo ég gæti farið sem fyrst. Gjöfin frá blómunum reyndist voða fínn dökk bleikur bolur úr Next. Inger bauð upp á te og við lásum rúmar tvær bls í Kon-Tiki og spjölluðum um eitt og annað. Kom heim einhvern tímann á sjötta tímanum. Næstu klukkutímar fóru í gláp en um níu greip ég loksins aðeins í nál og svo einnig aðeins í prjónana þannig að klukkan var langt gengin í tíu þegar ég fór loksins upp í rúm að lesa; Þriðja röddin eftir Cilla og Rolf Börjlind.
9.5.25
Nærandi skrepp
Það var eitthvað smá rugl á svefninum í fyrrinótt en það varð líka til þess að klukkan var orðin hálfsjö þegar ég vaknaði í gærmorgun. Sinnti allri morgunrútínu nema lóða-æfingum. Það er alveg ágætt að taka pásur frá þeim dag og dag. Var komin í sund upp úr klukkan hálfátta. Byrjaði á því að synda 600m á braut 8. Var komin heim aftur fyrir klukkan tíu. N1 sonurinn var vaknaður og kominn á stjá. Var reyndar á leiðinni aftur til tannsa. Við spjölluðum aðeins en fljótlega eftir að hann fór sendi ég skilaboð á tvíburahálfmömmu mína og undirbjó mig undir dagsferðalag austur fyrir fjall. Skilaboðunum var svarað um hæl. Ég fór um Þrengslin og var komin á Selfoss klukkan að verða hálftólf. Stoppaði í Fossheiðinni í tæpa klukkustund. Var boðið upp á gott spjall, matarmikinn hafragraut og fleira. Kvaddi um það leyti sem hádegisfréttir voru að byrja. Var komin til pabba um eitt leytið. Við áttum líka mjög gott spjall. Ég lagði nokkra kapla í þremur lotum, fitjaði upp á enn einu smá-handklæðinu/fótamottu í sjóinn, tók nokkur útsaumsspor, las í bók sem ég var meðferðis og vafraði einnig smávegis á netinu. Á sjötta tímanum bauð pabbi upp á saltað foladakjöt með kartöflum og rófum. Stoppaði fram yfir fréttir og kastljós og var komin heim um hálftíu. Fer yfirleitt í rúmið um þetta leyti en í gær horfði ég fyrst á nýjasta þáttinn af Chicaco Med.
8.5.25
Að halda takti
Var komin á fætur um sex í gærmorgun. Sinnti hefðbundinni morgunrútínu en tók því rólega lengur fram eftir morgni. Stuttu fyrir tíu útbjó ég mér hafragraut. Von var á Veitum milli 10 og 12 til að setja upp nýja mæla við heita vatnið. Nágranninn á neðri hæðinni tók að sér að taka á móti þeim. Ég var ekki búin að verða vör við að neinn væri kominn þegar ég lagði af stað í Nauthólsvík stuttu fyrir ellefu. Sjórinn er komin yfir átta gráður. Svamlaði um í honum í korter. Var í korter í gufu, 3 mínútur hanskalaus aftur í sjóinn og 10 mínútur í pottinum áður en ég fór upp úr. Næst lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð og á heimleiðinni kom ég við hjá norsku esperanto vinkonu minni að skila henni húslyklunum. Þau eru komin frá Spáni og blómavaktinni minni lokið. Stoppaði eiginlega ekkert því vinkona mín er með einhverja pest og vildi ekki smita mig. Áður en ég fór heim kom ég þó við í Fiskbúð Fúsa bæði til að næla mér í harðfisk og smá saltfisk og kasta á hann afmæliskveðju auglitis til auglitis en hann varð fimmtugur í gær. Oddur Smári var alveg til í borða með mér saltfisk síðar um daginn en Davíð Steinn var með aðrar áætlanir. Um hálffjögur skrapp ég út í hálftíma göngutúr. Hafði ekki saltfiskinn fyrr en um sex leytið en hann var góður með kartöflum og smá smjörklípu.
7.5.25
Festa
Vaknaði um hálfsex í gærmorgun. Fór fljótlega á fætur og var búin að gera æfingar með 2,5kg lóðum áður en klukkan varð sex. Ég var komin í sund um hálfátta. Fór beint á braut 8 og synti 700m. Ferðirnar í kalda pottinn urðu alls 3, fimm mínútur í senn. Klukkan var að verða tíu þegar ég kom klædd úr klefanum og skráði niður glósur varðandi sundið. Þá var ég komin með skilaboð frá konu sem ég er búin að þekkja allt mitt líf. Ég var semsagt búin að ákveða heimsókn til hennar og hún var að láta mig vita að ég mætti koma hvenær sem væri, hún væri heima. Ég skaust heim og gekk frá sunddótinu áður en ég brunaði upp í Mosfellsbæ. Konan og hennar maður byggðu sér hús við Reykjaveg fyrir næstum 50 árum eftir sömu teikningum og húsið sem pabbi og mamma byggðu á Hellu. Það eru reyndar komin rúm þrjú ár síðan fasteignin við Reykjaveg var seld en hjónin fluttu innan bæjarins í nýlega byggt fjölbýlishús við Gerplustræti. Ég var búin að koma einu sinni í heimsókn þangað og var alltaf á leiðinni aftur. Fékk meira að segja skilaboð í síðasta jólakorti frá þeim að ég væri alltaf velkomin og það væri gaman ef ég myndi kíkja á þau. Hjónin voru bæði heima þegar ég kom og ég fékk svo góð faðmlög og góðar móttökur. Stuttu fyrir eitt kvaddi maðurinn og fór að sinna áhugamáli í og með hóp af eldri borgurum. Ég kvaddi ekki fyrr en klukkan var langt gengin í tvö og lofaði að láta ekki líða alltof langt þar til ég ræki inn nefið næst. Kom við á N1 stöðinni við Gagnveg þar sem Davíð Steinn var á vakt. Byrjaði á því að athuga með loftþrýstinginn á dekkjunum því ég er alltaf að fá skilaboð um að athuga með skynjarana. Skynjararnir eru greinilega að gefa sig, loftþrýstingurinn var alveg eðlilegur á öllum fjórum. Lagði bílnum svo við hliðina á bíl sonarins og skrapp inn í verlsunina í smá stund til að spjalla við hann og samstarfsmanninn. Var komin heim upp úr klukkan hálfþrjú. Til stóð að fara aftur út í göngu en það varð ekkert af því í þetta sinn. Í gærkvöldi hringdi svo í mig ein úr hópnum sex svanir, sú sem var ráðin inn sem sumarstarfsmaður í seðlaverið í fyrrasumar og er á tvíframlengdum samning (fyrst út des. sl. og nú út ágúst). Hún var í fríi í síðustu viku en var þó búin að senda mér sms. Við áttum langt og gott spjall.
6.5.25
Ekki til að tala um
Auðvitað var ég glaðvöknuð alltof snemma í gærmorgun. Var komin á fætur upp úr klukkan hálfsex. Gerði æfingar með 2,5kg lóðunum, vafraði á netinu og var ákveðin í að drífa mig í sund fljótlega upp úr sjö. Ég fór reyndar í sundið en klukkan var að verða átta þegar ég lagði af stað. Tafðist aðeins því N1 sonurinn var eitthvað slappur í maga í gærmorgun. Hann hélt að þetta væri að líða hjá og ætlaði í vinnu. lagði meira að segja af stað en varð að játa sig sigraðan, snúa við og tilkynna sig veikan. Þessi veiki er þó eitthvað grunsamleg og er hann búinn að festa sér tíma hjá lækni í næstu viku til að láta athuga með sig. Ég var mun lengur að keyra í sundið en venjulega því það var þung umferð. Var samt komin ofan í kalda pottinn um hálfníu. Næstum á slaginu níu var ég komin á braut 3. Synti 300m áður en ég færði mig á braut 2 og synti 200m í viðbót. Eftir sundið lagði ég leið mína upp á Fossháls 1 til að sækja smá pakka fyrir mág minn. Á leiðinni heim kom ég við hjá N1 við Fellsmúla til að láta herða rærnar. Var heima til klukkan að ganga fjögur að gera alls konar. Samt ekki að gera það sem ekki má skrifa um. Mætti í osteostrong tíma upp úr klukkan hálffjögur. Fór á bílnum því ég ætlaði að fara á Hagamel hálfhundrað stuttu fyrir fimm. Komst strax að. Var nálægt mínu besta á tveimur tækjum og sló met á hinum tveimur tækjunum. Eftir tímann fór ég heim að skipta um föt. Sr. Pétur Þorsteinsson var með opið hús í tilefni sjötugs afmælisins og nýjustu útgáfu pétrísku orðabókarinnar. Ég var svo óforskömmuð að mæta einungis með mig, knús og seðla til að kaupa áritaða orðabók. Afmælisbarnið tók mjög vel á móti mér. Ég stoppaði sennilega í uþb þrjú korter. Það streymdi að fólk. Ég þekkti og kannaðist við all marga en ég ákvað samt að stoppa ekkert of lengi. Var komin heim um sex leytið.
5.5.25
Gefið mál
Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég vaknaði í gærmorgun. Sinnti morgunrútínunni, vafraði á netinu og setti inn færslu. Tók reyndar pásu frá lóðaæfingum. Korter í níu var ég komin á braut 8 og synti 600m á hálftíma. Fór einungis tvær 4 mínútna ferðir í þann kalda en dýfði mér þó örstutt áður en ég fór upp úr eftir góða gufu ferð og gæðastund í sjópottinum. Kom heim um ellefu leytið. Steikti mér bleikjubita sem ég keypti í Fiskbúð Fúsa um daginn, sauð sæta kartöflu og hafði með þessu hluta af afgangi af rósakáli. Bræðurnir fóru saman að heiman um eitt leytið að heimsækja föðurömmu sína. Ég hringdi í æsku vinkonu mína sem er nýkomin heim frá Tene. Svo skrapp ég út í göngu. Var ekki alveg ákveðin hvert og hversu löng sú ganga ætti að vera þegar ég lagði af stað. Stillti ekki á mig gönguforritið í símanum en þegar ég kom heim rúmum einum og hálfum tíma síðar eftir að hafa labbaði hringinn í kringum Öskjuhlíð og aðeins einu sinni sest niður hafði forritið skráð 3 mismunandi göngu spretti sjálfkrafa. Fyrsti 2,8 km á rúmum hálftíma, næsti 1,5km á korteri og sá síðasti 1,36 km líka á uþb korteri. Annars fór dagurinn í fótbolta og þáttagláp, útsaum og netvafr. Fór í háttinn stuttu fyrir tíu og las í rúman hálftíma. Bræðurnir voru ekki komnir heim áður en ég fór að sofa.
4.5.25
Gönguferðir
Kaldapotts vinkona mín hafði samband á FB-spjallinu í fyrradag. Spurði hvort ég væri í bænum og hvort við gætum hist í sundi í gærmorgun. Hún sagðist myndu mæta um hálftíu. Ég svaraði um hæl að ég væri í bænum, yrði líklega búin að synda um það leyti sem hún væri að mæta en þá ætti ég líka eftir að pottormast. Það stóð heima. Ég var komin á braut 7 tuttugum mínútum fyrir níu og synti í rúman hálftíma. Þrátt fyrir smá "umferð" á tímabili gat ég synt einhverjar ferðir á bakinu. Lenti reyndar í smá árekstri einu sinni þegar ég var að snúa við frá öðrum bakkanum. Sem betur ferð var það nú ekki harkalegur árekstur, var samt pínu sjokk. Ég var svo búin með eina ferð í þann kalda og sat í sjópottinum þegar vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við þrjár ferðir í kalda, góða gufuferð og sátum smá stund í sólbaði áður en ég fór upp úr, þvoði mér um hárið og fór heim. Þessi sundferð tók tvo og hálfan tíma en var að sjálfsögðu vel þess virði. Korter í tvö fór ég í góðan göngutúr. Rifjaði upp 3.km leiðina á Lækjartorgið þar sem ég hitti Lilju vinkonu. Staldraði við sölubásinn hennar í uþb þrjú korter og ákvað svo að labba áfram, framhjá Hörpu, meðfram sjónum að Snorrabraut. Fór framhjá Hlemmi, gekk Rauðarárstíginn að Klambratúni sem ég þveraði og var komin heim um fjögur. Lánaði Oddi bílinn til að fara í heimsókn til pabba síns. Davíð Steinn var á leið eitthvað annað.
3.5.25
Og þá eru sumardekkin loksins komin undir bílinn
Ég var komin í sund og byrjuð að synda á braut 7 kl 7:40 í gærmorgun. Synti 700 metra á 35 mínútum. Í heildina tók öll sundrútína, frá því rétt áður en ég fór inn í klefa og þar til ég var aftur komin í skóna, rétt rúmar tvær klukkustundir. Fór líka þrisvar í þann kalda, tuttugu mínútur í gufu og rúmt korter í sjópottinn sem aftur er kominn sjór í. Fékk mér te og einhverja hressingu eftir að ég kom heim. Hringdi í eina frænku mína og nöfnu, fimm árum eldri en ég, og við spjölluðum saman í næstum klukkutíma. Henni var sagt upp í sinni vinnu í byrjun mars. Hafði sjálf verið byrjuð að huga að starfslokum en þó ekki fyrr en hún yrði 65 ára og það eru þrjú ár í það. Hún notaði tækifærið og fór í sex vikna spænsku námskeið til Spánar sem stéttarfélagið hennar niðurgreiddi um heilan helling. Í hádeginu sauð ég ýsu sem ég átti í frysti og rósakál og hafði með þessu smjörklípu og súrkál. Var ekkert að bjóða sonunum með mér því þeir eru ekki hrifnir af svona mat. Um hálftvö fór ég út í rúmlega klukkutíma göngu. Og um fimm var ég mætt með bílinn til N1 í Fellsmúla þar sem ég fékk sumardekkin undir. Mun svo mæta aftur þangað eftir helgina til að athuga hvort herða þurfi rærnar betur.
2.5.25
Tómstundir
Það er eiginlega alltaf best að drífa sig á fætur þegar maður er glaðvaknaður. En þegar ég vakna stundum fyrir klukkan fimm á morgnana þá reyni ég yfirleitt að kúra mig niður, amk til klukkan hálfsex. Skrepp þó kannski á salernið í von um að sofna kannski aftur. Það virkar stundum. Í gær var ég semsagt komin á fætur fyrir klukkan sex og reyndar aftur núna í morgun. Sinnti morgunrútínunni og ákvað fljótlega að "skrópa" í sundið þar sem ekki átti að opna þar fyrr en klukkan ellefu. Er ekki komin með neitt nýtt á prjónana og greip ekkert í saumana en tíminn fór í netvafr, lestur og gláp. Um hálfþrjú sendi ég nöfnu minni og frænku skilaboð og hún kom yfir ca hálftíma síðar. Þar sem ekkert stæði var fyrir framan hús hjá mér ákváðum við að fara upp að Perlu og leggja þar. Löbbuðum svo um Öskjuhlíðina, skoðuðum svæðið þar sem trén voru felld og spjölluðum um eitt og annað. Rúmlega fjögur lagði hún bílnum sínum við Blönduhlíð og kom með mér heim. Fengum okkur te og spjölluðum áfram í einn og hálfan tíma. Þetta er í annað skiptið á árinu sem við hittumst, höfum þó eitthvað verið í símasambandi. Stuttu eftir að við komum inn hringdi tvíburahálfsystir mín í mig. Þar sem ég var með gest spurði ég hvort ég mætti hringja til baka síðar um daginn. Klukkan var langt gengin í sex og nafna mín ný farin þegar ég hringdi. Tvíburahálfsystir mín var út á Spáni. Reyndar á leiðinni heim en átti ekki flug fyrr en í gærkvöldi. Hún hafði samt komið mjög snemma á flugvöllinn og notaði tímann m.a. til að lesa yfir bloggið mitt. Mánudagsfærslan varð til þess að hún ákvað að hringja strax í mig. Við spjölluðum í um hálftíma. Kvöldið fór svo í hámhorf á NCIS-Los Angeles þáttum. Horfði á þrjá þætti í röð en var búin að slökkva á imbanum áður en klukkan varð hálftíu.
1.5.25
Tækifæri
Miðvikudagar eru sjósundsdagar. Það er enn vetraropnun í Nauthólsvík og opnar ekki fyrr en klukkan ellefu. Ég var komin á fætur um sex. Sinnti hefðbundinni morgunrútínu. Um tíu bjó ég mér til hafragraut. Það þarf að passa upp á að fara ekki í sjóinn á fastandi maga. Á leiðinni í Nauthólsvík, bílandi, hringdi ég í þá þriðju í uppsagnarhópnum. Hafði fundið númerin hennar og sett hana inn í tengiliðina í símanum í fyrrakvöld. Hún var líka að upplifa uppsögn í fyrsta sinn, nýlega skriðin yfir sextugt og með tæplega 40 ára starfsaldur. Spjölluðum í dágóða stund og ákveðnar í að halda sambandi. Klukkan var því að verða hálftólf þegar ég fór í tæplega 8°C sjóinn, fyrst í korter og eftir korter í gufu aftur í uþb tvær mínútur. Sat ekki mjög lengi í pottinum á eftir en þó amk tíu mínútur. Það var frekar margt um manninn og ég sá m.a. fyrrverandi forseta tilsýndar. Eftir sjósundsferðina fór ég í blóma heimsókn vestur í bæ. Var komin heimum eitt leytið. Hringdi í hálfdönsku nöfnu mína og frænku og við ákvaðum hitting í dag 1. maí en á morgun er hún að byrja í nýrri vinnu. Um þrjú var ég komin í Sjónlag við Glæsibæ. Það var verið að skoða hvort bletturinn í hægra auganum hefði eitthvað breyst. Hann hafði ekki gert það en augnlæknirinn vill samt fá að skoða hann aftur eftir hálft ár og gaf mér tíma 1. október n.k. Þegar ég kom aftur heim var Oddur búinn að sinna heimilisskyldum sínum. N1 sonurinn kom heim úr vinnu um átta, hálflasinn. Það er lokað á stöðinni í dag og svo á hann þriggja daga vaktafrí svo hann hefur góðan tíma til að jafna sig. Nágranninn í risinu bankaði upp á skömmu síðar til að láta vita að hann hefði skilið eftir ljós á bílnum sínum. Hann gerði gott betur en það hann hafði skilið bílinn eftir opinn og lykilinn í svissinum. Hefði annars fattað þetta með ljósin því þegar lykillinn er tekinn úr svissinum bípir ef ljósin eru enn á.