Ég man að ég rumskaði einhvern tímann í fyrrinótt, sennilega um fjögur leytið. Hugsaði með mér að ef ég gæti ekki sofnað aftur þá væri nóg af bókum að grípa í. Næst vissi ég af mér þegar vekjaraklukkan hringdi korter yfir sex. Teygði vel úr mér áður en ég fór á fætur en sleppti lóðaæfingunum. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fyrstu verkefnalotu lauk stuttu fyrir hálftíu og vegna veðurs og færðar þurftum við að bíða til klukkan að ganga tólf eftir næsta verkefna skammti. Vorum búin fyrir klukkan hálfþrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalinn. Ég var mætt á braut 8 fimm mínútum yfir þrjú. Þá var kalda potts vinkona mín búin að synda í 15 mínútur og hún synti 25 mínútur í viðbót á meðan ég synti 500 metra. Eftir það fórum við í pottadýfingar, góða gufu og korter í sjópottinn. Þá fór ég upp úr en hún hélt eitthvað áfram. Kom við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim. Keypti mér m.a. frækex en fann ekki þarann sem mér finnst svo góður. Þetta tvennt fæst líka í heilsuhúsinu. Var komin heim áður en klukkan varð hálfsjö.
31.1.25
30.1.25
Kortadeildin að ljúka störfum
Gærdagurinn var aðeins öðruvísi vinnulega séð. Var að vísu í innleggjum fram að morgunkaffi. Eftir kaffið og eitthvað fram yfir hádegi vorum við fyrrum fyrirliði að henda munaðarlausu, gömlu plasti í stóra 240 lítra tunnu frá Gagnaeyðingu. Eigum aðeins eftir að fá það 100% staðfest að kort sem hafa orðið ónýt í framleiðslu fari sömu leið líka. Einnig vorum við aðeins að aðstoða flokk manna úr ýmsum áttum. Tveir erlendir, tveir tæknimenn úr RB og annar af þeim sem hefur þjónustað kortavélina sl. tæp fimm ár. Annar af þessum erlendu mönnum er sá sami og kom og sett upp vélina síðla sumars 2020. Það var verið að staðfesta að vélin virkaði en svo voru diskarnir teknir úr og þeim verður fargað. Nýjir diskar verða settir í fyrir nýja eigendur. Annars var ég búin í vinnu upp úr klukkan tvö. Hringdi og spjallaði við pabba á meðan ég var á leið í Nauthólsvík. Rétt fyrir þrjú skellti ég mér í -1,8°C sjóinn, fyrst í ca 3 mínútur og svo þremur mínútum síðar í tæpa mínútur. Sat svo í pottinum í rúmt korter áður en ég fór upp úr og heim.
29.1.25
Kraftur
Ég var nú alveg til í að kúra lengur þegar ég rumskaði stuttu fyrir sex í gærmorgun. En það hefði líklega þýtt að ég myndi leggja niður lóðaæfingar þann morguninn sem ég gerði ekki. Morgunrútínan var keimlík flestum virkum morgnum. Fór þó af stað í vinnu í fyrra fallinu því það þurfti að byrja á því að sópa af bílnum. Var búin að stimpla mig inn rúmlega hálfátta og byrjuð í innleggjum áður en klukkan varð átta. Þrátt fyrir þokkalega stóran dag vorum við búin með öll verkefni um þrjú. Þá fór ég beinustu leið í Laugardalinn. Hringdi reyndar í fyrrum samstarfskonu mína sem er nýlega komin heim úr mánaða ferð til Tælands. Var byrjuð að synda tuttugu mínútum fyrir fjögur. Kalda potts vinkona mín tafðist aðeins, mætti þegar ég var að klára 400m og sagðist ætla að synda eftir pottadýfingarnar og gufuferðina. Það var líka aðeins farið að fjölga á brautunum svo ég dreif mig með henni í þann kalda og alla þá rútínu. Var komin heim um hálfsex.
28.1.25
Osteostrong - mæli með því 100%
Korter fyrir sex í gærmorgun var ég komin á stjá. Nýbúin að klæða mig og búa um rúmið og að byrja æfingar með 1,5kg lóðum. Þessar lóða æfingar eru sjaldnast lengri en 5-7 mínútur en þær eru alveg að gera eitthvað fyrir mig. Eftir æfingarnar fékk ég mér sítrónuvatn áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Hafði svo ágætis tíma í netvafr. N1 sonurinn fór af stað í sína vinnu tuttugu mínútum fyrir sjö, vaktinni hans var flýtt um hálftíma því nú er það hann sem sér um að undirbúa opnun sem er kl. 7:30 sex daga vikunnar. Aðeins á sunnudögum sem opnar ekki fyrr en kl. 10. Ég fór út í fyrra fallinu og þurfti auðvitað að sópa aðeins og skafa af bílnum en það tók styttri tíma heldur en ef ég hefði ekki forunnið þá vinnu á sunnudaginn. Var í innleggjum að mestu í vinnunni í gær. Kom þó aðeins að hreinsun seðlabúnta. Þá er verið að renna búntum í gegnum vél sem sorterar frá alla auka miða. Um eitt leytið voru um hálft tonn af kortum sótt á vegum eins stóra bankans til að láta fara með í gagnaeyðingu. Einn bankinn á enn eftir að gefa fyrirmæli um sitt plast en það eru ekki eins mörg kort, líklega innan við tíu kíló en svo eru slatti af kortum munaðarlaus samt fjórum sinnum léttara magn heldur en fór út frá okkur í gær. Var búin í vinnu fyrir klukkan þrjú og gaf mér tíma til að skreppa á bókasafnið og skila báðum bókunum. Það komu sex bækur með mér af safninu í staðinn. Mætti í osteostrong tímann um fimmtíu mínútum fyrr en fasti tíminn er og var því komin í sund upp úr klukkan hálffimm. Talaði aðeins við pabba og svo Petru í millitíðinni. Synti 500m og var nýbúin með eina ferð í þann kalda þegar kaldapotts vinkona mín mætti úr tíma í Laugum. Saman náðum við 3 perðum í þann kalda. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var komin heim um hálfsjö leytið.
27.1.25
Rólegheit
Klukkan var rétt að byrja að ganga átta þegar ég var vöknuð og komin á fætur í gærmorgun, á sunnudagsmorgni. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um netheima í hátt í tvo tíma áður en ég slökkti á og lagði frá mér tölvuna. Kveikti þess í stað á imbanum. Um hálftólf setti ég upp rósakál og afþýddi tvær fiskibollur í örbylgjunni. Um eitt leytið skrapp ég út í stutta göngu, ca 1,5km. Áður en ég kom inn eftir gönguna sópaði ég mesta snjóinn af bílnum og skóf af rúðunum. Var að þessu til að flýta fyrir mér á eftir. Kom inn í þann mund sem HM stofan á RÚV hófst. Fljótlega eftir að leikurinn milli Íslands og Argentínu hófst opnaði ég handavinnutöskuna og greip í eitt af saumaverkefnunum. Sama verkefni og ég saumaði nokkur spor í um daginn. Að þessu sinni taldi ég út í hátt í tvo tíma. Var með prjóna og bækur til hliðar. Las reyndar ekkert fyrr en ég fór upp í rúm um hálftíu í gærkvöldi.
26.1.25
Innipúki
Rumskaði um hálffimm í gærmorgun. Skrapp fram á salernið og svo beinustu leið í rúmið aftur. Vissi næst af mér rétt fyrir níu og fór ekki á fætur fyrr en hálftíu. Ákvað fljótlega að skrópa í sund og vera ekkert að fara eitt eða neitt. Hugsanlega hefði ég kannski átt að fara aðeins út og viðra mig en dagurinn leið við alls konar innidútl. Eina skiptið sem ég fór úr íbúðinni var þegar ég skrapp niður í þvottahús að ná í þvott af snúrunum. Um hádegið útbjó ég mér hafragraut. Geri alltaf tvöfaldan skammt og borðar fyrri skammtinn strax en hinn verður borðaður kaldur einhvern næstu dagana. Davíð Steinn skrapp í göngutúr, var sóttur af vinkonunni sem hann fylgdi út um daginn og þau fóru alla leið austur á Selfoss til að labba um skógarsvæði sem þau hafa ekki farið áður, amk ekki hann. Hringdi í pabba um miðjan dag. Þá var hann nýkominn inn frá því að moka snjó fyrir framan hús og skúr með snjómoksturstækinu sínu.
25.1.25
Reynsla
Horfi út um stofugluggann á hvítar trjágreinar sem hreyfast nánast ekkert. Falleg póstkortamynd en hefur líka frekar letjandi áhrif á mig, amk í dag. En aðeins að gærdeginum. Vann við innlegg fram að kaffi en milli tíu og hálftólf vorum við á tímabili fjögur að stafla upp kortakössum, með kortum sem tilkeyra einum bankanum, á bretti. Þetta rúma hálfa tonn er vonandi að fara frá okkur eftir helgi. Klukkan eitt átti ég tíma hjá augnlækni hjá Sjónlag í Glæsibæ. Pantaði mér þennan tíma í október sl. Það eru nokkur ár síðan ég fór síðast til augnlæknis. Ég vildi fá ítarlega skoðun og spurði sérstaklega út í rauðan blett á hvítunni í hægra auga sem er búinn að vera þar í einhver ár. Sjónin er góð. Augnlæknirinn staðfesti að plús 1,5 gleraugu henta í lestur og skjánotkun, engin merki um gláku og bletturinn gæti verið fæðingablettur. Til að athuga hvort hann sé nokku að breytast á ég að koma aftur eftir þrjá mánuði en annars á eins til tveggja ára fresti. Fékk tíma í endaðan apríl n.k. Þessi heimsókn tók rúmlega þrjú korter í heildina en ég var búin stuttu fyrir tvö og fór beinustu leið í Laugardalslaug. Þar var kaldapotts vinkona mín búin að synda í korter og synti í korter í viðbót og beið svo í heitum potti á meðan ég kláraði mínar tuttugu mínútur og 400m. Var komin heim upp úr klukkan fjögur. 6 marka tap gegn Króatíu sló heldur betur á væntingar um sæti í átta liða úrslitum. Allt getur enn gerst en ef þrjú efstu liðin í milliriðlinum vinna sína leiki á morgun verður Ísland í þriðja sæti með jafnmörg stig og hin tvö en verri markatölu. Þetta kemur allt í ljós annað kvöld.
24.1.25
Yfirvegun
Ég var búin frekar snemma með skyldurnar í gær og mætt í sundið upp úr klukkan tvö stuttu á eftir kalda potts vinkonu minni. Hún var byrjuð að synda á braut átta. Ég fór á braut sex og var hálftíma að synda 600m. Fórum þrjár ferðir í þann kalda, tvær í þann heitasta, 20 mínútur í gufu og næstum hálftíma í sjópottinn. Þá fór ég upp úr og heim, tveimur tímum eftir að ég mætti. Kom heim um hálffimm leytið. Restin af deginum leið jafn hratt við alls kona dútl en þó aðallega imbagláp og svo lestur.
23.1.25
Frábær frammistaða hjá strákunum okkar hingað til á HM!
Svaf mun betur en var samt vöknuð á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun. Þó ekki löngu fyrir klukkan sex. Í vinnunni var ég í kortafrágangsmálum fram að hádegi og innleggjum eftir hádegi. Var búin fyrir klukkan þrjú og eftir smá umhugsun lá leiðin beint í Nauthólsvík eins og flesta miðvikudaga. Sjórinn var aðeins yfir gráðuna, örlítið úfinn en ég tolldi út í í uþb tíu mínútur. Sat svo rúmt korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr. Kom við á AO við Öskjuhlíð á leiðinni heim og fyllti tankinn. Oddur var búinn að sinna verkefnum sem ekki má tala/skrifa um, alveg óumbeðin. Ég kveikti ekki á sjónvarpinu fyrr en upp úr klukkan sex. Var eitthvað að vafra um á netinu fram að því. Davíð Steinn kom heim úr vinnu um hálfátta, er að vinna frá sjö til sjö sínar vaktir þar sem stöðvarstjórinn þurfti í axlaraðgerð og er hættur störfum. Vá, hvað það er annars gaman að fylgjast með handbolta landsliðinu springa út og tækla hvert verkefnið á fætur öðru á HM.
22.1.25
Traust
Svefninn var eitthvað gloppóttur í fyrrinótt en ég var samt vöknuð á undan klukkunni og sinnti allri morgunrútínu mjög vel. Mætti í vinnu um hálfátta. Það virðist vera minn fasti tími. Finnst líka gott að leggja af stað áður en umferðin fer að þyngjast að ráði. Byrjaði í innleggjum fyrir klukkan átta. Þrátt fyrir að færri hendur væru á dekki, innleggin fleiri en á öðrum dögum og önnur stóra vélin ekki mjög samvinnuþýð þá voru öll verkefni búin fyrir klukkan hálffjögur. Var byrjuð að synda á slaginu klukkan fjögur, 200m á eftir kalda potts vinkonu minni. Hún varð hissa þegar ég synti aðeins 300 en var samt alveg tilbúin að fara í pottarútínuna okkar. Þrjár þriggja mínútna ferðir í þann kalda, tvær fimm mínútna ferðir í þann heitasta, tuttugu mínútur í gufunni og annað eins í sjópottinum. Rétt dýfði mér svo í þann kalda á leiðinni upp úr en fór líka í kalda sturtu. Var komin heim rétt fyrir sex. Annars hringdi ég í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni úr vinnu yfir í sundið. Hann svaraði ekki gemsanum var líklega ekki að átta sig á að hann væri að hringja og ég var búin að leggja á og hringja í heimasímann þegar hann ætlaði að svara. Hann er þokkalega hress en sagði þó að það væri aftur farin að grassera sýkingin í blöðrunni, væri haltari hennar vegna en héldi sínu striki og sinni rútínu. Sennilega er ekkert við þessu að gera. Sterk sýklalyf geta haldið þessu niðri en virðast ekki hafa unnið alveg á þessu. Held að pabbi hafi verið á sýklalyfjum í allt fyrrasumar og fram á haust.
21.1.25
Kraftur í strákunum okkar á HM
Vaknaði rétt fyrir sex. Morgunrútínan var svipuð og flesta virka morgna. Gerði æfingar með 1,5kg lóðum í ca 7 mínútur. Mætti í vinnu hálfátta. Þegar fyrrum fyrirliði mætti á svæðið fórum við í kortamál. Um ellefu svissaði ég yfir í innlegg. Stimplaði mig út úr vinnu rúmlega hálffjögur. Hringdi í pabba. Hann gat ekki svarað í nýja gemsann en svaraði í heimasímann. Var komin í osteostrong tíma rétt rúmlega fjögur, aðeins fyrr en fasti tíminn er. Komst strax að og var farin aftur innan við hálftíma síðar. Þótt ég væri með sunddótið meðferðis ákvað ég að fara beint í Krónuna í Skeifunni og versla. Kíkti einnig við í Elkó og keypti rafhlöður fyrir heimasíma sem fara í hleðslustöðvar. Kom heim rétt fyrir sex án þess að hafa farið að synda, svo spennt var ég fyrir leiknum sem reyndar var auðvitað ekki fyrr en klukkan hálfátta. Þvílíkur leikur og þvílík frammistaða hjá strákunum og magnaðar vörslur hjá Viktori Gísla!
20.1.25
Aftur kominn mánudagur
Vaknaði rétt fyrir sjö í gærmorgun, útsofin og spræk. Gerði æfingar með 1kg lóðin, fékk mér engiferskot, sinnti morgunverkunum á baðherberginu og var svo sest inn í stofu með fartölvuna í fanginu um hálfátta leytið. Laugardalslaugin átti ekki að opna fyrr en klukkan tíu og ég fór fljótlega að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki frekar að skreppa út í smá göngu þegar væri komin meiri birta. Þegar kalda potts vinkona mín setti sig í samband við mig í gegnum FB-spjallið um níu leytið var ég búin að ákveða að "skrópa" í sundið. Göngutúrinn varð ekkert svo langur. Skrapp með gler og ál í gámana við Eskihlíð og labbaði til baka meðfram Miklubraut að Lönguhlíð. Stuttur hringur og forritið í símanum sá ekki einu sinni ástæðu til að skrá þetta sem göngu, líklega þar sem ég stoppaði um stund við gámana á meðan ég var að losa mig við glerið og álið. Fór ekki aftur út eftir þetta. Sýslaði eitt og annað hérna heima við. M.a. skoðaði ég í handavinnutöskuna mína og tók nokkur spor í verkefni sem ég var að vinna að fyrir nokkrum misserum síðan. Ein tuska "datt" af prjónunum og ég fitjaði fljótlega upp á annarri. Það voru bækur við höndina og svo var horft á alls konar bolta og tvo eða þrjá þætti úr sarpinum og auðvitað loka þáttinn um Vigdísi.
19.1.25
Tilraunir
Svaf til klukkan hálfsjö. Var komin í sund rúmum tveimur tímum síðar. Synti 600m á braut 6, langflesta á bakinu en smá skriðsund líka en ekkert bringusund. Fór aðeins eina fimm mínútna ferð í kalda pottinn. Var um tuttugu mínútur í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum. Þvoði mér um hárið og var svo komin heim um ellefu. Enginn esperanto hittingu þessa helgina. Var eitthvað að spá í að skreppa í verslunarleiðangur en ákvað svo að það gæti alveg beðið í einn til tvo daga. Restin af deginum fór í alls konar dútl, s.s. lestur, prjón, þátta- og íþróttaáhorf. Davíð Steinn hringdi í mig alla leið frá Svíþjóð til að spyrja hvort og þá hvað hann ætti að kaupa handa mér. Ég sagðist bara vilja fá hann heilan heim. Hann sagði mér frá því að hann hefði gleymt bakpokanum sínum í lestinni milli Danmerkur og Svíþjóðar. Hefði sett hann í hillu svo hann væri ekki fyrir og var svo mikið að hjálpa vinkonu sinni með hennar dót þegar þau fóru úr lestinni að hann gleymdi að taka bakpokann og uppgötvaði það ekki fyrr en lestin var farin. Í bakpokanum voru föt til skiptana, hleðslutæki og snúra. Þegar hann fékk loksins samband við einhvern á vegum lestarinnar sem var viljugur að hjálpa þá er niðurstaðan sú að þeir sem geta athugað með pokann eru með lokað yfir helgina og þetta verður ekki athugað fyrr en á morgun, mánudag. Þá verður pilturinn kominn heim úr ferðalaginu. Meira um þetta mál síðar.
18.1.25
Í sjóinn í gær
Klukkan var rétt að verða fimm þegar ég vaknaði í gærmorgun. Heldur snemma en ég var samt alveg tilbúin í daginn. Gat gert extra æfingar og það var nógur tími fyrir alla rútínu og netvafr. Mætti í vinnu um hálfátta. Fram að kaffi var ég í innlögnum en upp úr tíu fórum við fyrrum fyrirliði niður í kortahvelfinguna að pakka kortum. Slatti af kortum fór í þó nokkra kassa. Eftir hádegi fórum við aftur niður og til stóð að halda áfram að pakka niður en fyrst fórum við í að sortera öll kort sem hafa orðið ónýt í framleiðslu síðustu rúmu tólf mánuði. Þótt búið væri að sortera meiri helminginn af þeim fyrir nokkrum vikum og það væru ekkert svo stórir bunkar af ónýtu plasti þá tók þetta sinn tíma. Þar að auki var öll önnur starfsemi búin fyrir tvö svo við hættum og gengum frá þegar við vorum búnar að flokka, staðfesta. Gengum frá upp úr klukkan tvö og fórum upp. Þá voru aðeins framkvæmdastjórinn og sú sem er yfir innlögnunum eftir. Fórum aðeins yfir málin með framkvæmdastjóranum en ég var komin í Nauthólsvík og sjóinn rétt fyrir þrjú og heim um fjögur leytið.
17.1.25
Landsleikir
Vaknaði rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Sinnti allri morgunrútínu og æfingum með lóð. Mætti í vinnu um hálfátta. Var aðallega að vinna í innleggjum í gær en við fyrrum fyrirliði fórum eina hálftíma ferð niður og inn á kortalager. Rétt fyrir hádegi skrapp ég niður í kortadeild með tveimur kerfis-sérfræðingum frá Dalveginum. Öllum verkefnum var lokið um hálfþrjú. Fór beint í sund. Synti 400m á 20 mínútum fór þrjár þriggja mínútna ferð í þann kalda og var aðeins 10 mínútur í gufu og aðrar 10 í sjópottinum. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég fór upp úr og ákvað að heimsækja vinnufélagann sem hefur verið á Grensásdeild síðan 8.desember sl Hann var að búa sig undir að fara í afmæli en þau konan hans voru ekkert að flýta sér og gáfu sér tíma til að spjalla aðeins við mig. Nýliðin nótt var hans síðasta en eftir helgi bætir hann bara á dagdeild í æfingar en fær að sofa heima hjá sér. Gott að sjá hversu vel gengur miðað við hversu slæmt slysið var en hann og hundurinn hans uður fyrir bíl seint í nóvember. Var komin heim um hálfsex leytið, tæpum tveimur tímum fyrir fyrsta leik kalraliðsins í handbolta á HM.
16.1.25
Einbeiting
Var mjög ánægð þegar ég vaknaði rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun, alveg útsofin og heldur betur til í daginn. Tók pásu frá æfingum með lóð en að öðru leyti var morgunrútínan mjög svipuð. Vinnudagurinn var í styttra lagi en alls konar. Fyrstu verklotu lauk heldur snemma eða um níu og næstu verk komu ekki inn fyrr en langt gengin í ellefu. Í millitíðinni heimsóttu okkur formaður starfsmanna félagsins og fjórir af sex trúnaðarmönnum fyrirtækisins. Einn af þessum fjórum hefur verið í veikindaleyfi sl mánuði og er þar að auki að fara að hætta vinnu fljótlega vegna aldurs. Ég þekkti allt þetta fólk og líka þessa tvo sem ekki komust. En það var mjög gott að fá þessa heimsókn og frábært að geta gefið sér svo góðan tíma. Við fyrrum fyrirliði fórum eina ferð niður í hvelfingu kortadeildar til að taka niður þrjá innsiglaða kortakassa og senda upp með annarri lyftunni. Þetta verður sótt fljótlega. Ég fór líka niður í kortadeild eftir hádegi með viðgerðar/yfirferðar manni sem hafði verið beðinn um að taka niður einhver "log" af vélinni á usb lykil. Það tók hátt í klukkutíma. Þegar ég kom upp aftur um tvö var allt að verða búið. Stimplaði mig út og fór um hálfþrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Hringdi í heimasímann en hann sagðist hafa skroppið í bæinn á þriðjudaginn og keypt sér nýjan gsm síma í Elkó í skeifunni svo ég hefði getað hring í þann síma. Var komin í sjóinn um þrjú. Hann var komin í 3,7°C gráður og fór ég eina tíu mínútna ferð út í og sat svo korter í pottinum áður en ég fór upp úr og hringdi í nöfnu mína og hálfdanska frænku sem býr á Vestugötunni. Þrátt fyrir að hún væri á kafi í tiltekt og ætti von á gesti í kvöldmat sagði hún að ég væri velkomin að kíkja. Var komin til þeirra um fjögur og stoppaði í svona þrjú korter. Fékk góð knús og einnig athygli frá kisu, Pixý sem virtist alveg muna eftir mér. Annars flaug N1 sonurinn út til Danmerkur sem fylgdarmaður fyrir eina vinkonu sína snemma í gærmorgun. Þau tóku lest til Svíþjóðar og vinkonan er á leið í aðgerð í dag og má alls ekki lyfta neinu næstu dagana. Þess vegna fór Davíð Steinn með. Þau koma heim aftur n.k. sunnudag.
15.1.25
Vangaveltur
Enn og aftur var ég vöknuð eldsnemma, öðru hvoru megin við fimm. Þegar ljóst varð að ekkert þýddi að reyna að kúra sig niður kveikti ég á náttborðs lampanum og greip í eina bókina á náttborðinu. Um síðustu helgi lánaði esperanto vinkona mín mér nýjustu bókina eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Ég lauk reyndar við að lesa þá bók strax um helgina. Ein af bókunum sem ég keypti þegar ég var að kaupa jólagjafirnar var árituð nýjasta bókina hans Ragnars Jónassonar, Dimma! Er langt komin með hana. Gæti svo sem verið búin ef ég væri eingöngu að lesa eina bók í einu sem ég er alls ekki að gera. Er að lesa seinni bókina af safninu og eina af bókunum sem ég fékk í jólagjöf, eftir Evu Björgu Ægisdóttur. Held að ég hafi lesið allar bækurnar sem hafa komið út eftir hana og þetta er sú nýjasta. Annars gekk vinnudagurinn í gær vel fyrir sig og var búinn frekar snemma miðað við að þriðjudagar eru yfirleitt stórir dagar. Ég var amk byrjuð að synda korter yfir þrjú í gær og vorum við á sama tíma kalda potts vinkona mín og ég. Syntum 500m og gáfum okkur einnig góðan tíma í potta- gufu- og sjópottsrútínu. Held að sundferðin hafi varið í rétt rúma tvo tíma. Hélt að ég hefði sett af stað forrit í samsung health á símanum en komst svo að því þegar ég var búin að klæða mig í útiskóna frammi á gangi að það hafði amk ekki farið í gang. Þar með gat ég heldur ekki skráð niður alla serimoníuna, lengd sunds og ferðir í þann kalda. Svona er þetta nú bara stundum. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti mér harðfisk og fiskibollur. Klukkan var langt gengin í sex þegar ég kom heim. Kvöldið fór í að horfa á fótbolta, smá handbolta og leysa flækju.
14.1.25
Minningar
Í gær hófst fyrsta heila vinnuvikan á árinu hjá mér. Síðastu viku vann ég fjóra daga af fimm þar sem ég tók út gjafafrídaginn minn á mánudeginum. Þar er annars búið að setja niður aðal fríið mitt þetta árið, frá 30. júní til og með 31. júlí. Það eru 24 virkir dagar af 30 og svo á ég enn eftir um sjö daga frá því í fyrra. Fæ vonandi að taka hluta af þeim dögum í maí svo ég komist aðeins í sauðburðinn til systur minnar. Vinnudagurinn í gær var ekkert svo langur, reyndar það stuttur að tæpan hálftíma af átta tímum skráði ég á svokallaða bónustíma. Var því mætt 40 mínútum fyrir fastan tíma í annan osteostrong tímann á árinu og í sund um hálf fimm. Synti 500m, fór eina ferð í þann kalda og beið svo eftir kalda potts vinkonu minni í sjópottinum en hún var í tíma í Laugum til rúmlega fimm. Saman fórum við tvær ferðir í þann kalda og góða gufuferð áður en ég fór upp úr og heim.
13.1.25
Umbætur
Svaf til klukkan að verða sjö í gærmorgun. Var ekkert að drolla neitt í rúminu en gerði þó samt teygjuæfingar áður en ég fór framúr. Þegar ég var búin að klæða mig og búa um tók ég fram 2kg lóðin og gerði nokkrar æfingar með þau. Eftir að að hafa fengið mér lýsi og engifer skot sinnti ég loksins morgunverkunum á baðherberginu. Eftir það settist ég loksins inn í stofusófa með fartölvuna í fanginu. Var við það detta í algert letikast þegar kalda potts vinkona mín hafði samband á messenger og spurði hvort ég væri á leiðinni í sund. Þetta var á tíunda tímanum og ég svaraði játandi, að ég væri að vinna í þessu og yrði líklega mætt um tíu leytið. Það stóð heima við vorum báðar að mæta um tíu. Hún var á undan að vippa sér í sundfötin og skella sér á braut átta og var líklega búin að synda 150m þegar ég mætti á braut 6. Synti aðeins 300m, þar af 100m skriðsund. Fórum fjórar ferðir í þann kalda, vorum tuttugu mínútur í gufunni og annað eins í sjópottinum. Heildartíminn í sundinu var samt aðeins styttri heldur en á laugardaginn. Var komin heim um hálfeitt og bjó mér til hafragraut. Restin af deginum fór í alls konar, misgáfulegt dútl.
12.1.25
Kátína
Gærdagurinn byrjaði snemma, klukkan að ganga sex. Skrapp aðeins fram á salernið en greip svo í bók af náttborðinu þegar ég kom upp í aftur. Fór á fætur ein hvern tímann á sjöunda tímanum, gerði æfingar, fékk mér lýsi og engifervatn og settist svo inn í stofu með fartölvu í fanginu. Um hálfníu var ég komin í sund. Byrjaði á einni fjögurra mínútna ferð í kalda pottinum áður en ég fór á braut 6 og synti 600m eða í akkúrat hálftíma. Flestar sundferðirnar á bak- eða bakskrið en þó tvær skriðsundsferðir. Eftir næstu ferð í þann kalda fór ég í heitasta pottinn í nokkrar mínútur áður en ég fór aftur í þann kalda. Svo lá leiðin í gufuna og þar var ég í næstum tuttugu mínútur. Var svo á leiðinni í sjópottinn þegar ég sá yngstu mágkonu mömmu í nuddpottinum. Fór í þann pott í staðinn til að spjalla. Klukkan var að verða hálfellefu þegar ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið og var komin vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar um ellefu. Lásum aðeins eina bls. í Kon-Tiki en spjölluðum þeim mun meira. Var komin heim upp úr klukkan eitt. Restin af deginum fór að mestu í lestur, prjón og þáttaáhorf. Í RÚV sarpinum rakst ég á heimilda þætti um stríð á norðurslóðum í seinni heimstyrjöldinni, alls 6 þætti og það er rétt rúm vika þar til ekki verður lengur hægt að nálgast þá. Er búin að horfa á helminginn. Horfði reyndar einnig á seinni vináttuleikinn við Svía og fylgdist með kvennaliði Vals í handbolta spila erlendis fyrri leikinn við Costa. Sá leikur endaði með jafntefli en seinni leikur þeirra verður hér heima um næstu helgi.
11.1.25
Öryggi
Var vöknuð, klædd og búin að gera æfingar fyrir klukkan sex í gærmorgun. Tíminn milli sex og sjö leið hratt en ég var mætt í vinnu um hálfátta. Verkefnum mínum var lokið upp úr klukkan tvö. Þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis lagði ég leið mín í Faxafen 7 og leysti út jólagjöf frá því 2023 í Cintamani. Mátaði nokkrar flíkur, aðallega peysur og boli og fjárfesti að auki í beltum. Nýtti gjafakortið 100% og þurfti að bæta aðeins við en ég held að ég hafi gert ágætis kaup. Svo fór ég bara heim. Báðir strákarnir voru heima en sá atvinnulaus var eitthvað að vandræðast með að bróðir hans hafði ekki nennt að skreppa í búðina. Ég ákvað að lána Oddi bílinn gegn því að hann færi með allan pappír í sorpu. Hann hafði þegar verið búin að fara með plast og lífrænt út í tunnur en pappírinn var orðinn það umfangsmikill að það var langbest að fara með hann í sopru til að fylla ekki tunnurnar hér heima við. Hringdi í pabba og spjallaði lengi við hann. Hann var bara mjög hress og sagðist hafa verið spurður í apótekinu fyrr í vikunni hvort hann ætti rétt á afslætti vegna aldurs. Pabbi sagðist hafa svarað því til að hann vissi það ekki hann væri bara nítíu ára.
10.1.25
Tímamót
Akkúrat í dag eru 25 ár síðan ég hóf störf í kortadeild RB. Nú er kortadeildin að leggjast niður, síðustu kortin voru framleidd viku fyrir sl. jól. Vaknaði annars alltof snemma í gærmorgun og brá á það ráð að lesa smávegis þar til tími var kominn til að fara á fætur, gera æfingar og sinna hefðbundinni morgunrútínu á virkum degi. Mætti í vinnu um hálfátta. Þrátt fyrir að það vantaði hendur á dekk var ég búin með mín verkefni um hálfþrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalinn. C.a. sex mínútum fyrir þrjú var ég komin á braut 6 og synti 600metra. Kalda potts vinkona mín kom þegar ég var að klára ferð númer tvö af sex. Held að hún hafi náð að synda 500m áður en við hættum sundi og fórum í pottadýfingar og gufuna. Var komin heim um fimm. Horfði á spennandi æfingaleik milli Íslands og Svíþjóðar í handbolta karla en bæði lið eru að undirbúa sig undir stórmótið sem hefst í næstu viku.
9.1.25
Gæðastundir
Dagarnir æða áfram og líklega verður fyrsti mánuður nýs árs liðinn áður en maður veit af. Þrjár vikur eru ekki svo lengi að líða. Morgunrútínan í gærmorgun var svipuð og flesta virka daga. Held mér við efnið hvað æfingar með lóð varðar. Æfingarnar vara reyndar sjaldnar lengur en 7-10 mínútur en allt hjálpar. Var mætt í vinnu um hálfátta og byrjuð að vinna innlegg skömmu síðar. Stimplaði mig út akkúrat átta tímum eftir að ég stimplaði mig inn. Hringdi og spjallaði við hálfdönsku frænku mína og nöfnu á meðan ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Hún hafði reyndar verið fyrri til að hringja, rétt fyrir hádegi, en þá var svolítið mikið að gera. Við vorum sammála um að vera í betra bandi og finna góðan tíma til að hittast fljótlega. Ca. korter yfir fjögur óð ég varlega út í -1,7°C sjóinn og kældi mig í uþb þrjár mínútur. Settist svo inn í gufu í korter áður en ég fór aðrar þrjár mínútur í sjóinn. Var svo næstum því búin að vera hálftíma í pottinum áður en ég fór upp úr. Það var nokkuð margt um manninn og klefinn fullur af konum sem ýmist voru að fara upp úr eða mæta á svæðið. Ég fann samt ágætis pláss framan við salernin til að klæða mig í róleg heitum og settist svo með skó og sokka á stól á ganginum framan við klefana. Var komin heim stuttu fyrir klukkan sex.
8.1.25
Nægjusemi
Mætti í vinnu í gær eftir að hafa tekið út gjafafrídaginn minn á mánudaginn. Mikið var um innlegg og spannaði minn vinnudagur uþb átta og hálfan tíma. Fór svo beint í sund þar sem ég hitti kalda potts vinkonu mína í hennar annarri ferð í kalda pottinum. Saman náðum við þremur ferðum, góðri gufuferð og korteri í sjópottinum. Lét það gott heita, skrópaði í sjálft sundið og var komin heim milli sex og hálfsjö eftir að hafa komið við í Fiskbúð Fúsa þar sem ég keypti mér harðfisk og hrogn. Mallaði mér hrognin ásamt nokkrum kartöflum og á afgang af því lostæti.
7.1.25
Iðjuleysi
Var komin á fætur upp úr klukkan sjö. Davíð Steinn kom á fætur um hálftíma síðar. Hann var í vaktafríi en átti tíma og pláss fyrir bílinn á réttingaverkstæði í Skútuvoginum um átta. Fljótlega eftir að hann fór dreif ég mig á eftir honum til að pikka hann upp. Fórum beint heim aftur. Ég settist um stund aftur með fartölvuna í fangið og það leið klukkutími eða rúmlega það áður en ég slökkti og lagði hana frá mér. Hafði tekið með mér þrjár af bókunum sem eru á náttborðinu inn í stofu. Var að lesa í tveimur af þeim af og til í gær. Um hádegisbilið kom Davíð Steinn fram og sagðist hafa fengið símtal frá verkstæðinu. Rangur varahlutur hafi verið pantaður svo hann mátti sækja bílinn sinn aftur í bili. Við mæðgin urðum þó sammála um að fyrst myndi ég lána honum minn bíl til að fara í tíma hjá tannlækni um eitt og sækja mig eftir tímann. Klukkan var því langt gengin í tvö þegar við mæðgin renndum aftur inn í Skútuvog, ég í farþegasætinu á leiðinni þangað. Þegar ég tók svo við stýrinu á bílnum mínum ákvað ég að fara beint inn í Hátún og fara í fyrsta osteostrongtíma ársins. Komst strax að og að tímanum loknum fjárfesti ég í árskorti, 52 tímum. Meðtalinn sá tími sem ég var í í gær. Var komin í sun upp úr klukkan hálfþrjú. Synti 500m og fór 3x4mínútur í þann kalda. Kom heim milli fimm og sex og rétt hitti á synina áður en þeir fóru upp í Mosó til að fara með systkynum sínum á þrettánda brennu. Kvöldið hjá mér leið frekar hratt við að gera sem allra minnst nema glápa, vafra og lesa.
6.1.25
Þingvellir í köldum vetrarklæðum
Var vöknuð nokkuð snemma miðað við að það var sunnudagur. Skreið aftur upp í eftir að hafa sinnt morgunverkunum á baðherberingu og kláraði að lesa aðra bókina af safninu. Fór á fætur stuttu fyrir átta. Gerði æfingar með lóð, fékk mér lýsi og sítrónu vatn, og sat svo með fartölvuna í fanginu inni í stofusófa í rúman klukkutíma. Kveikti á sjónvarpinu um tíu leytið. Um hálftólf útbjó ég mér matarmikinn hafragraut. Um eitt leytið hringdi esperanto vinkona mín og sagði að þau hjónin og ein vinkona til myndu pikka mig um fljótlega. Hringdi aðeins í pabba en var komin í ullarsokka og bomsur og vel klædd, komin út og tilbúin þegar leigubíllinn hans Hinriks kom. Fórum á Þingvelli og löbbuðum smá í fimmtán stiga frosti, stillu og fallegu veðri. Fullt af útlendingum en við vorum ánægð með túrinn. Okkur vinkonunum var svo boðið á Sólvallagötuna eftir ferðalagið þar sem var gert vel við okkur í mat og drykk. Ég sagði pass við hvítvíninu þó. Stoppuðum í um tvo tíma en svo skutlaði leigubílstjórinn okkur heim áður en hann fór að vinna. Dásamlegt að eiga svona vini.
5.1.25
Árangur
Var komin á fætur fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Klukkan var svo að verða níu þegar ég fór á braut 6 í Laugardalslauginni. Synti 600m á hálftíma, flestar ferðir á bakinu en þó 2x50m skriðsund. Fór tvær fjögurra mínútna ferðir í þann kalda, stutta ferð í þann heitasta, Sjö mínútur í sjópottinn og 17mín í gufuna. Þvoði mér svo um hárið áður en ég fór upp og vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Lásum tæpar tvær bls. í Kon-Tiki. Eftir eins og hálftíma stopp lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Klukkan var að verða hálftvö þegar ég kom heim. Restin af deginum fór í lestur, þvottamál og þátta- og fótboltaáhorf.
4.1.25
Tækifæri
Enn og aftur komin helgi og í mínu tilviki þriggja daga helgi þar sem ég mun taka út gjafafrídaginn minn á mánudaginn kemur. Gærmorguninn var keimlíkur mörgum virkum vinnudagsmorgnum. Notaði 1,5kg lóðin við æfingarnar strax eftir að ég var búin að klæða mig. Áður en ég lagði af stað til vinnu þurfti ég að sópa blautan snjó af bílnum. Var samt mætt til vinnu upp úr klukkan hálfátta og byrjuð að vinna innlegg skömmu síðar. Vinnudegi lauk rétt fyrir hálffjögur. Fór beint í sund. Þurfti reyndar aftur að sópa blautum snjó af bílnum. Kalda potts vinkona mín var búin að synda og við hittumst í kalda pottinum í annarri ferðinni hennar. Fórum 3 ferðir saman, tvær ferðir í heitasta pottinn, vorum tuttugu mínútur í gufunni og enduðum í sjópottinum þar sem við hittum eina systur hennar. Ég endaði reyndar á því að synda 400m áður en ég fór upp úr og heim. Horfði á fyrsta þátt af fimm um Lockerbie, hryðjuverkið 1988 þegar flugvél frá Pan Am var sprengd. Colin Firth leikur aðalhlutverkið. Næsti þáttur kemur ekki inn fyrr en eftir viku.
3.1.25
Tímamót
Byrjaði gærdaginn á nokkurra mínútna æfingum með 2kg lóð eftir að hafa klætt mig og búið um rétt fyrir sex. Síðan fékk ég mér lýsi og sítrónuvatn áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Svo hafði ég tæpan klukkutíma í netvafr og bloggfærslu. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta og var byrjuð í innleggjunum rúmum tíu mínútum síðar. Um miðjan morgun tók fyrrum fyrirliði saman síðustu kortaframleiðslutölur og ég og sú sem enn er lausráðin fórum yfir þær tölur saman. Síðasti framleiðsludagur var líklega 18. desember sl. Annars var ég í innleggjum til klukkan að verða hálffjögur. Mínum verkefnum lauk um fjögur og fór ég beint yfir í Laugardalinn í sund. Hitti kaldapotts vinkonu mína örstutt í sturtu þegar hún var að klára og ég að mæta. Synti 300m, fór þrisvar í kalda, eina ferð í gufu og eina í heitasta pottinn. Var svo komin heim um sex leytið.
2.1.25
Ýkjulaust
Svaf til klukkan að verða sjö. Hvíldi mig á lóðaæfingum en vafraði á netinu fyrsta klukkutímann eftir að ég kom á fætur. Horfði á skaupið úr sarpinum og tengdi við margt, fannst þetta alveg ágætis skaup þótt sum atriðin hefðu mátt vera styttri. Um tíu útbjó ég mér matarmikinn hafragraut því ég blandaði í hann hnetum, rúsínum, fræjum og bláberjum og borðaði þykka sneið af köldum blóðmörskepp með. Tók til sjósundsdótið stuttu fyrir ellefu og var komin í Nauthólsvík rétt eftir að opnaði. Mælirinn í bílnum sagði -9 en það var engin ferð á logninu. Hitastigið á sjónum var skráð á tússtöflu á tveimur stöðum við afgreiðsluna. Það voru nokkrir búnir að fara út í og ryðja braut út að smá svæði sem ekki var ís eða krapi í. Ryðja þurfti báðar leiðir og smáa svæðið stækkaði einnig eftir því sem fleiri komu út í. Eftir fjórar mínútur fór ég smá stund í gufuna áður en ég fór aðra ferð út í sjóinn. Var svo í heita pottinum í tæpt korter áður en ég sá að það var lag að koma sér upp úr, skömmu fyrir tólf. En um það leyti eru flestir að skella sér út í uppáklæddir eða í eins konar grímubúningum. Ég laumaði mér í burtu áður en fjörið varð of mikið og var komin heim fyrir klukkan hálfeitt. Þá sýndi mælirinn í bílnum -11 stiga frost. Báðir synirnir voru vaknaðir. Restin af deginum fór í alls konar dundur. M.a. hringdi ég í pabba til að heyra sem fyrst í honum á glænýja árinu.
1.1.25
Nýtt ár!
Aftur var ég vöknuð alltof snemma og síðasti morgunn gamla ársins var keimlíkur þeim næst síðasta. En ég þurfti þó ekki að sópa snjó af bílnum áður en ég fór í vinnuna. Var mætt rétt rúmlega hálfátta og eftir að hafa fyllt á vatnsflöskuna og útbúið tebolla fór ég bæði með bollann og flöskuna að vinnustöðinni minni og hófst handa. Hættum innleggjum rétt fyrir ellefu og þremur korterum síðar skálaði framkvæmdastjóri seðlaversins við okkur í óáfengu freyðivíni. Vegna gamlárshlaupsins þurfti ég að fara krókaleiðir og mun lengri leið heim vegna lokanna. Leiðin varð reyndar líka heldur lengri vegna einbeitingaskorts því ég var allt í einu komin á Miklubraut á austurleið. Beygði inn afleggjarann sem liggur m.a. að Breiðholti og svo inn á Bústaðaveg. Ákvað að koma við hjá AO við Öskjuhlíð og fylla á tankinn. Klukkan var um eitt þegar ég kom loksins heim. Davíð Steinn var að vinna til fjögur. Þeir bræður fóru til föðurfjölskyldunnar um sex leytið. Ég hafði það bara kósí í allan gærdag, ætlaði mér reyndar að lesa meira en ég gerði. Horfði á þætti, kryddsíld sem var í opinni, annála og fleira. Hringdi í pabba. Kveikti á nokkrum sprittkertum. Eldaði mér fljótlegan rétt sem hefur ekkert nafn þar sem ég bjó hann til upp úr sjálfri mér. Í honum voru linsubaunir, kjúklingabaunir og túnfiskur. Um tíu leytið átti ég orðið erfitt með að halda mér vakandi og þótt það væri stutt í að skaupið byrjaði ákvað ég að fara bara í háttinn og það án þess að lesa. Var reyndar búin að lesa eitthvað um daginn. Er byrjuð m.a. á annarri bókasafnsbókinni; Frýs í æðum blóð eftir Yrsu Sigurðardóttur, bókin sem kom fyrir síðust jól.
Allt árið 2024 leið án þess að ég fengi mér kaffi en sagði ansi oft við sjálfa mig að þrauka lengur. Þetta er bara pása. Veit bara ekki enn hversu löng hún verður. Hugsanlega hefði ég getað barist á móti þreytunni sem helltist yfir mig um tíu leytið í gærkvöldi ef ég hefði hellt mér upp á og drukkið 1-2 bolla en mér datt það ekki einu sinni í hug. Líklegra er að líkaminn sé kominn í ákveðið jafnvægi hvað varðar vöku og svefn. Svo er ekkert sem segir að maður verði endilega að vaka fram yfir miðnætti á áramótunum. Reyndar rumskaði ég um miðnættið og þurfti og fór á prívatið. Þá voru skoteldarnir í hámarki, ennþá logaði á sprittkertunum en ég fór samt beinustu leið í rúmið aftur.