15.7.24

Mamma hefði orðið áttatíu ára í dag

Rumskaði stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Var í spreng svo ég sinnti kallinu en fór svo upp í aftur. Heyrði klukkuna slá hálfsjö en svo steinsofnaði ég greinilega því næst heyrði ég klukkuna slá níu. Þá dreif ég mig á fætur. Pabbi var kominn á ról, sat inni í eldhúsi að leggja kapal. Hann var sestur inn í stofustól og búinn að kveikja á sjónvarpinu þegar ég var búin að sinna morgunverkefnunum á baðherberginu. Greip í prjónana í smá stund en kveikti svo á tölvunni hans, setti inn færslu og vafraði smá stund á netinu áður en ég settist aftur inn í stofu. Um hádegisbilið borðuðum við afganginn af bjúganu frá því á laugardagskvöldið. Eftir mat lagði ég einn kapal sem gengur afar sjaldan upp en í þetta sinn gekk hann upp í fyrsta. Veðrið var þannig að hvorugt okkar pabba nennti í bíltúr. Hugmyndin hafði verið að skreppa aðeins upp að Keldum og krossa yfir nokkur leiði en það bíður bara betri tíma. Kvaddi pabba um hálffjögur. Ákvað svo að beygja niður hjá Urriðafossi og keyra Flóann, gegnum Stokksteyri og fara Þrengslin í bæinn. Var komin heim rétt rúmlega fimm. Oddur var einn heim því Davíð Steinn er kominn í sumarfrí og lagði af stað úr bænum milli átta og níu í gærmorgun. Annars er ég sammála sparksérfræðingum að fótboltinn og betra liðið vann í gær, Spánn 2 - England 1. 

14.7.24

Öðruvísi

Fór á fætur um sjö leytið í gærmorgun og gaf mér tíma í netvafr áður en ég fór í sund enda var klukkan langt gengin í níu þegar ég var loksins byrjuð að synda. Synti 500m, flestar ferðir á bakinu. Fór þrjár ferðir í þann kalda, eina í gufu og eina í sjópottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Mætti Davíð Steini, frekar syfjulegum, þegar ég kom heim. Hann var á leiðinni að redda frænku sinni Bríeti, sækja hana í vinnuna til að ná í lykil heima hjá henni og skutla henni svo aftur í vinnuna. Ég fékk mér hressingu og pakkaði niður. Var samt ekki farinn þegar Davíð Steinn kom aftur og hann var farinn aftur út á undan mér. Bankaði aðeins upp á hjá Oddi áður en ég fór um tólf. Keyrði Nesjavalla leiðina austur á Selfoss. Hef ekki farið þessa leið lengi. Lenti auðvitað í smá sultu við Ölfusárbrúna en var svo sem ekki alveg stopp, amk ekki lengi í einu, heldur mjakaðist í gegnum þennan kafla á mjög hægum hraða. Það var allt læst hjá pabba en bílinn hans fyrir utan. Hringdi bjöllunni og kafaði svo í veskið eftir húslykli og var á undan að opna. Pabbi var þó næstum kominn að útidyrunum, hafði setið inni í stofu. Ég var ekki búin að vera nema rúmlega tvo tíma á svæðinu þegar bankað var á "spari-dyrnar". Þær eru mun nær stofunni en ég var á undan pabba að opna. Þar var einn systursonur pabba á ferð. Sagðist hafa marg reynt að hringja dyrabjöllunni en við feðgin heyrðum aldrei í henni. Kannski var við hæfi að frændi kæmi þessa leið inn en hann var að koma beint af elliheimilinu. Mamma hans, föðursystir mín, fékk hvíldina í gær 96 og hálfu ári betur. Svo nú er pabbi einn eftir af systkyninum fimm. Frændi stoppaði í hálftíma og þáði pönnsur hjá pabba. Eftir að Oddur var farinn hringdi pabbi í Helgu systur. Fór svo fljótlega að prófa dyrabjölluna sem virkaði alveg fínt. Annars höfðum við feðgin það frekar rólegt.

13.7.24

Aftur komin helgi

Það fór svo að daglegri framleiðslu sem og endurnýjun var lokið um hádegisbil í gær og það þótt við tækjum kaffipásu og vélin væri aðeins að stríða okkur í lokin. Það verða því væntanlega léttari og styttri næstu fjórir framleiðsludagar en þá verður komin ný endurnýjun. Það gekk líka vel í öðrum deildum og ég því alveg búin með mín verkefni um tvö leytið. Fór beinustu leið í Nauthólsvík. Fjara, sjórinn 12°C, smá ferð á logninu og mjög hressandi að hoppa í öldunum. Fór tvisvar út í, fyrst í tæpt korter og eftir fimm mínútur í gufu rúmar fimm mínútur áður en ég fór upp úr. Skolaði á mér tærnar, strandskóna og sundbolinn en þurrkaði mér svo að öðru leyti. Verð svo dásamlega mjúk í húðinni ef ég sleppi því að fara alveg í sturtu og sápa mig eftir hoppið í sjónum.

12.7.24

Framleiðsludagur framundan

Þegar ég kíkti á vinnupóstinn minn eftir að ég var búin að stimpla mig inn í vinnu í gærmorgun biðu þau fyrirmæli um að senda í póst það sem tilbúið var af endurnýjuninni. Fór því niður með fyrrum fyrirliða til að sækja 12 fulla og hálfan póstkassa í viðbót af samtals yfir þrjúþúsundogþrjúhundruð kortum. Fyrrum fyrirliði sá um að koma þessu í lyftu 1 í tveimur hollum og snéri sér svo að því að hlaða inn daglegum skrám. Ég fór upp aftur og útbjó fylgiskjal með póstinum og sendi svar við fyrirmælunum. Annars vorum við í innleggjum í gær sem voru nokkuð innan við þúsund í gær. Margar hendur á dekki og allt gekk vel fyrir sig, svo vel að flestir voru búnir með sín verkefni um hálfþrjú. Ég sendi skilaboð á kaldapotts vinkonu mína, stimplaði mig út og hringdi og talaði við pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Hann var byrjaður að sulta og hafði sett allt í gang um fimm leytið í gærmorgun. Ég var búin að synda 300m þegar vinkona mín sótti mig. Fórum þrjár ferðir í kalda, eina í heitasta, eina í 42°C, eina í gufu, eina í magnesíumpottinn (um það leyti sem sturtað var úr heilum magnesíumpoka út í pottinn) og smá stund í sjópottinn. Fór upp úr korter yfir fjögur. Sótti Odd og skipti við hann um sæti. Fórum í Krónuna við Fiskislóð. Hann var á undan að versla sitt og fara með í bílinn. Kom svo inn aftur að hjálpa mér að raða í poka og halda á þyngri pokanum út í bíl og svo aftur inn þegar við komum heim. Annars skrapp ég smá stund yfir í Eskihlíðina þar sem litli bróðir mömmu og konan hans búa. Var að skila henni fatla sem hún lánaði mér í vor. Stoppaði hjá þeim í uþb hálftíma og átti gott spjall við þau. Kristínu hitti ég reglulega í sundi en við vorum samt ekki búnar að hittast síðan skömmu áður en ég var búin með sumarfríið. En það var enn lengra síðan ég hitti Billa frænda, man ekki einu sinni hvenær það var.

11.7.24

Framleiðsludagur í gær

Í gærmorgun var ég komin á fætur um sex. Morgunrútínan var svipuð og flesta virka morgna. Mætti í vinnu um hálfátta. Nú vorum við þrjár á svæðinu sem gátum farið í kortaframleiðslumálin. Það var reyndar nóg að gera í reiðufénu þannig að það varð úr að fyrrum fyrirliði fór niður að hlaða inn skrám og búa til skiptiblað á meðan ég var í bókhaldinu uppi og prentaði út framleiðslu-, skipti- og talningablöð. Daglegri framleiðslu lauk um hálftíu og frágangnum vegna framleiðslunnar tæpum hálftíma síðar. Þá fór ég í "kaffi" en fyrrum fyrirliði til tæknimanns, sem er á svæðinu einu sinni í viku, til að fá hann til að setja upp fyrir sig nýja síma. Hún var að breyta úr samsung í iphone og þetta tók þó nokkurn tíma. Um ellefu sagðist tæknimaðurinn að það væru eftir uþb tíu mínútur svo ég fór niður til að ganga frá daglegum pappírum og undirbúa endurnýjun. Ekkert bólaði á fyrrum fyrirliða en sem betur fer var búið að sækja hluta af hráefninu í endurnýjunina og þegar ég opnaði fyrsta kassann af fjórum (þurftum 7 kassa) til að telja hann kom í ljós að það voru gulir miðar á milli hvers einasta plasts (300 kort í kassanum). Þegar ég var búin að plokka alla gulu miðana úr kössunum fjórum var klukkan að verða hálftólf. Ég ákvað því að skreppa í mat. Rúmlega hálftíma síðar, eftir að við báðar vorum búnar í mat, fórum við niður, sóttum 3 kassa til viðbótar, umslög, form og vagn undir þetta. Framleiddum tólfhundruð kort á tveimur tímum. Vissum að um það leyti væri mest allt búið uppi og flestir að fara eða farnir svo við ákváðum að ganga frá deildinni og geyma síðustu áttahundruð kortin úr endurnýjuninni til föstudags. Ég stimplaði mig út um hálfþrjú, lét "föðurnöfnu" mína vita og hitti hana í Nauthólsvík um þrjú. Ég skrapp í sjóinn í rúmar fimm mínútur en svo sátum við í heita pottinum í rúma klukkustund og spjölluðum. Ég sat reyndar ekki allan tímann í pottinum sjálfum því þá hefði ég líklega breyst í rúsínu. Var komin heim stuttu fyrir fimm.

10.7.24

Mið vika

Varð mjög hissa þegar vekjarinn fór í gang í gærmorgun, tuttugu mínútum yfir sex. En var líka ánægð með að hafa sofnað svona vel aftur eftir að hafa rumskað alltof snemma um hálffimm leytið. Gaf mér tíma í netvafr og færslu og það var einnig smá tími fyrir nokkrar úlnliðs og fingraæfingar. Mætti í vinnu um hálfátta. Tók saman framleiðslutölur sem voru frekar fáar. Fengum skilaboð frá einum stað af fjórum að engar skrár hefðu verið sendar en yrðu þá bara aðeins stærri í dag. Annars var ég byrjuð á að vinna innlegg um hálfníu og þar var nóg að gera og tveir sumarliðar lasnir. Það kom reyndar ein mjög vön úr sumarfríi og þau tvö sem eru í hraðbönkunum tóku einhver innlegg inn á milli hraðbanka verkefna. Boðað var til sérstaks fundar tuttugu mínútum fyrir tíu og mætti "nýr" framkvæmdastjóri úr fríi með tertur og tilkynningu. SKM er ekki lengur undirdeild undir öðru sviði heldur orðið sér svið. Hæstráðandi í seðlaverinu var semsagt að hækka í tign og vildi þakka okkur fólkinu á gólfinu fyrir okkar þátt í því. Við samglöddumst honum en ég lét þó terturnar og rúnstykkin alveg eiga sig. Annars urðu innlegginn rétt tæp sextánhundruð í heildina en engu að síður vorum við búin að vinna þau fyrir þrjú og allt búið milli þrjú og hálffjögur nema hjá þeim sem eru í sjóðunum. Enginn af okkur átti von á þessum rífandi gangi. Ég stimplaði mig út 40 mínútum áður en átta tímarnir voru liðnir og fór beinustu leið í sund. Hringdi í pabba á leiðinni í sundið. Hann var nokkuð lengi að svara því hann var að dunda við garðverkinn og í aukabuxum. Rútinan í sundinu var aðeins öðru vísi. Synti fyrst 200m, fór svo í kalda pottinn í 4 mínútur, sjópottinn í 15 mínútur, aftur í kalda í 4 mínútur, synti aðra 200m, fór í gufu í tíu mínútur og kalda sturtu í lokin.  

9.7.24

Rumskað heldur snemma en vaknað svo við klukku í morgun

Var komin á fætur um hálfsex í gærmorgun. Hafði því góðan tíma í netvafr sem og æfingar. Mætti í vinnuna tuttugu mínútum fyrir átta. Byrjaði á að taka saman tölur fyrir kortadeild. Fyrrum fyrirliði mætti en við sendum sumarliðann okkar niður til að hlaða inn og undirbúa skiptiblöð áður en hún fór svo í reiðuféð. Annars var ég í innlögnum og nóg að gera þar. Um hálffjögur fór þó að sjá fyrir endann á verkefnunum og ég fékk að fara fljótlega þótt ekki væri alveg allt búið. Mætti í osteostrong tímann rétt rúmlega fjögur. Sú sem hefur fylgt mér fyrstu tvo tímana var upptekin en ég komst samt strax að því það var önnur á svæðinu. Bætti allar tölur á tækjunum fjórum og finn einnig að jafnvægið á öðrum fæti á hristipallinum hefur lagast alveg heilmikið. Er þó með betra jafnvægi á vinstri en þeim hægri en það er víst eðlilegt ef maður er hægri hentur. Eftir hvíldina fékk ég mér vatnsglas að venju og fór svo beinustu leið í sund. "Föðursystir" mín (eða öllu heldur föðurnafna, Hjaltadóttir) hafði haft samband á fb fyrr um daginn. Hringdi í hana og spjallaði aðeins á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Var komin í sund rétt fyrir fimm. Synti ekki nema 200m og það í restina eftir að hafa farið 2x4 mínútur í þann kalda, 10 mínútur og úlnliðs- og fingraæfingar í gufu og tíu mínútur í sjópottinn. Klukkan var farin að ganga sjö þegar ég kom heim.

8.7.24

Ný vinnuvika og osteostrongtími í dag

Var vöknuð frekar snemma eða um hálfsex í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um hálfátta. Pabbi var þá þegar klæddur og kominn á ról og byrjaði á því að spyrja hvað við ættum að hafa í matinn síðar um daginn. Það var fljótákveðið því ég vissi að hann ætti til bleikju í frysti. Upp úr klukkan tíu bauð hann mér með sér í bíltúr. Við fórum sem leið lá á æskuslóðir og keyrðum framhjá Heiði. Rétt við Kaldbak keyrði hann inn á slóða og að hliði sem þurfti að opna. Skilti við hliðið bannaði skotvopn og mótorhjól. Skammt innan hliðs/girðingar skiptist slóðinn í tvennt. Pabbi hafði farið þann hægri áður og ákvað að beygja til vinstri. Sá slóði er sennilega mun minna notaður og eftir að hafa keyrt nokkra kílómetra eftir honum og m.a. kannað aðstæður gangandi sums staðar ákvað pabbi að snúa við og fara frekar hinn slóðann. Sá slóði var mun betri yfirferðar og reyndar um fleiri leiðir að ræða en bara þann slóða. Þetta voru mjög fallegar leiðir og komum við niður skammt frá Selsundi. Keyrðum svo aftur framhjá Heiði í baka leiðinni. Komum við í búðinni og keyptum sallat og sæta kartöflu. Þá var klukkan farin að ganga eitt. Ég fór næstum beint í að elda þegar við komum aftur í Hólavanginn. Setti upp hýðishrísgrjón, skrældi kartöfluna, bitaði niður og setti í annan pott. Hitaði svo sallatmaster pönnuna upp í 150°C og skellti tveimur frosnum flökum af bleikju á í uþb korter. Maturinn var tilbúinn fyrir klukkan hálftvö og var mjög góður. Lagði kapla, las, prjónaði og/eða horfði á þætti til klukkan að ganga sex en þá tók ég mig saman, kvaddi pabba og brunaði í bæinn. Nokkuð greiðfært var að Selfossi. Við hringtorgið austan við Selfoss sýndist mér vera smá röð svo ég ákvað að fara sömu leið og ég hafði komið deginum áður og fara Þrengslin í bæinn. Skammt frá Eyrarbakka var verið að reka hestastóð smá spöl en það tók ekki svo langan tíma. Fáir voru á ferðinni í Þrengslunum en þegar ég var komin að afleggjaranum að Bláfjöllum hægðist verulega á og stoppaði og svo var hægt að mjaka sér áfram einhverja metra á tíu kílómetra hraða. Það greiddist ekki úr þessari sultu fyrr en á seinna hringtorginu við Rauðavatn. Var komin heim milli hálfátta og átta, rétt á undan N1 syninum sem var að vinna á Gagnvegi til hálfátta. 

7.7.24

Hjá pabba

Var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun og í sund tæpum tveimur tímum síðar. Synti 500 metra á braut 6, næstum alla á bakinu. Fór fjórum sinnum fjórar mínútur í 10°C kalda pottinn, einu sinni í gufuna, sjópottinn og 42°C pottinn. Gerði æfingar í gufunni og heita pottinum. Sat svo góða stund á stól í sólbaði áður en ég fór í sturtu og þvoði mér um hárið. Var komin heim upp úr klukkan hálfellefu. Sótti þvott niður á snúru og pakkaði niður í tösku áður en ég fékk mér skál af ab-mjólk með bláberjum og allskonar fræjum og hnetum í. Oddur kom fram um það leyti sem ég var að leggja af stað austur. N1 sonurinn var á vinnuvakt. Keyrði Þrengslin og þegar ég keyrði Fossheiðina tók ég beygju inn í botnlangann þar sem tvíburaforeldrarnir eru til húsa. Hafði ekki gert boð á undan mér en þau voru heima við og tóku vel á móti mér. Gústi var að dunda í bílskúrnum en við Ásdís sátum úti á palli og spjölluðum þar til mér var orðið of heitt á bakinu. Stoppaði eitthvað á annan tíma áður en ég hélt förinni áfram. Var að koma að Landvegamótum stuttu fyrir þrjú þegar tveir lögreglubílar á ljósum og miklum hraða tóku fram úr. Sá það á netmiðlum síðar um daginn að sérsveitin var kölluð út í aðgerðir í Þykkvabænum. Annars horfðum við pabbi á báða leiki dagsins á EM karla. Fyrri leikurinn fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni þar sem Englendingarnir höfðu betur gegn Sviss. Seinni leikurinn fór ekki í framlengingu. Tyrkir voru á undan að skora en Hollendingar settu svo tvö mörk og spila gegn Englandi í undan úrslitunum sem fara fram á þriðjudag og miðvikudag n.k.

 

6.7.24

Rífandi gangur

Vaknaði upp úr klukkan fimm í gærmorgun, nánast útsofin. Fór á fætur fljótlega. Morgunstundin leið hratt en hún var líka notuð ágætlega, m.a. við æfingar. N1 sonurinn fór í vinnu um sjö og ég var mætt í mína vinnu um hálfátta leytið. Fyrrum fyrirliði er ennþá veik og fyrirliðinn í sumarfríi en þá er nú gott að Petra fékk sumarvinnuna hjá okkur. Hún er aðallega staðsett í reiðufénu en hún kemur sterk inn í kortagerðina þegar á þarf að halda. Og það var kortaframleiðsludagur í gær. Við vorum byrjaðar að framleiða fyrir klukkan hálfníu og kláruðum uppsafnað daglegt fyrir fimmtudag og föstudag um hálftíu. Vorum búnar að ganga frá því öllu áður en við fórum í endurnýjun eftir kaffi. Milli hálfellefu og hálfþrjú (mínus 30 mínútur í matarhlé) endurnýjuðum við svo yfir nítjánhundruð kort. Eigum þá samt eftir að endurnýja rúmlega tvöþúsund. Stimplaði mig út um hálffjögur og ákvað að skella mér í Nauthólsvíkina. Hringdi í pabba þegar ég lagði af stað og spjallaði við hann í gegnum wifi í bílnum alla leiðina. Hann var nýbúinn að kveðja fjóra gesti, tvö systkyni og maka þeirra. Systkynin og mamma voru systkynabörn. Önnur hjónin búa í Noregi en eiga íbúð í Kópavogi og heimsækja þau Ísland amk einu sinni á ári og stoppa í nokkrar vikur. Þessi frænka mín á sama afmælisdag og mamma heitin og mamma hélt því alltaf fram að hún hefði fengið hana í afmælisgjöf enda var alltaf mjög kært á milli þeirra. - Það var flóð í Nauthólsvík en samt ekki eins mikið og á miðvikudaginn. Synti og svamlaði alla leið út að kaðli, líklega uþb 300m. Hefði alveg getað synt til baka aftur en ákvað handlanga mig upp og rölta svo beinustu leið í búningsaðstöðuna aftur. Skolaði af tánum og úr strandskónum og sundbolnum. Var komin heim um hálffimm. Náði restinni af fyrri hálfleik milli Þýskalands og Spánar (sem vann), öllum seinni sem og framlengingunni og horfði á allan seinni leik dagsins milli Frakklands og Portúgals sem einnig fór í framlengingu og alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Frakkar höfðu betur. Það kemur svo í ljós í dag hvaða tvö önnur lið fara í fjögurra liða úrslitin. 

5.7.24

Strax kominn föstudagur

Samkvæmt ráðleggingum frá mannauð RB og einni sem vinnur í bókhaldinu sótti ég um styrk bæði til RB og SSF vegna osteostrong tímanna. Þetta var samþykkt og fékk ég stóran hluta af reikningum endurgreiddan í gær, bæði frá RB og SSF. Þessar styrktaræfingar flokkast undir sjúkraþjálfun. Ráðleggingar fékk ég vegna þess að ég setti inn fyrirspurn hvort ég gæti nýtt það sem ég á eftir að líkamsræktarstyrknum í osteostrong dæmið. Ef sá styrkur hefði verið fullnýttur hefði ég ekki einu sinni spáð í þessu. Það er hægt að fá styrk fyrir 30 tíma á ári og ég fékk semsagt fyrir alla 26 tímana sem ég var búin að fjárfesta í og búin að fara í tvo af þeim og reiknast til að að ég hafi sjálf aðeins þurft að greiða innan við þrettánþúsund. Þetta kemur sér vel fyrir heilsu og veski. - Annars var ég í innleggjum í gær. Það gekk vel. Þurfti líka aðeins að skreppa niður til að færa tóma póstbakka úr öðrum skúrnum yfir í kortagerðarrýmið. Notaði tækifærið og skráði mig inn á framleiðsluvélina til að kanna smávegis sem og að endurnýja aðgangsorðið. Stimplaði mig út úr vinnu um hálffjögur og fór beinustu leið í sund. Skrópaði reyndar í sundinu sjálfu en hitti kalda potts vinkonu mína og við fórum nokkrar ferðir í kalda, eina í magnesíum pottinn, eina í gufu og eina í sjópottinn. Enduðum svo á því að sitja góða stund á stólum í sólbaði. Var komin heim um hálfsex leytið. Bræðurnir komu heim skömmu síðar en þeir fóru saman í Þorlákshöfn að leysa út jólagjöf frá föðurbróður þeirra.

4.7.24

Framleiðsla og sjósund

Vaknaði nokkrum mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Hafði reyndar rumskað aðeins um hálffimm leytið en sofnaði sem betur fer aftur. Það var samt alveg nógur tími í netvafr og æfingar áður en ég dreif mig í vinnu. Ég sá um að undirbúa framleiðslublöð og prenta þau út ásamt skipti- og talningablöðum. Ætluðum að byrja framleiðslu um hálfníu en kortavélin var ekki samvinnuþýð og þegar við vorum búnar að reyna öll trix sem við kunnum hringdum við á vin. Hann kom fljótlega og endurræsti m.a. hugbúnaðinn sem "talar" við örgjörvamódúl vélarinnar og við tókum vélina aftur niður á meðan. Þetta virtist ekki ætla að vera nóg til að koma vélinni af stað. Svo þegar tæknimaðurinn kom að skjánum við vélina til að skoða eitthvað betur þá hrökk hún í gang og gekk bara þokkalega vel restina af deginum. Framleiddum allt daglegt fyrir hádegi og endurnýjuðum rúmlega tólfhundruð kort milli eitt og þrjú. Lentum í smá brasi með umslagavélina en það var líklega vegna gallaðra umslaga. Fékk Petru líka til að lesa yfir síðustu tölur vegna mánaðamótauppgjörs og skilaði þeim svo af mér. Stimplaði mig út um hálffjögur og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Smá umferðatafir voru á leiðinni en ég var komin út í 12°C sjóinn á háflóði tuttugu mínútur yfir fjögur og svamlaði um í næstum hálftíma. Gerði æfingar í gufunni og dýfði mér svo smástund í lónið áður en ég fór upp úr og heim. Hringdi í pabba í bílnum á leiðinni heim og við spjölluðum það lengi að ég var komin í stæði hér heima og búin að drepa á bílnum amk sjö mínútum áður en við feðgin hættum spjallinu. Fitjaði upp á því sem kannski verður ullarennisband. 

3.7.24

Reikningagerð

Var vöknuð og komin á fætur um hálfsex leytið í gærmorgun. Það var því feykinógur tími í netvafr og úlnliðsæfingar. Mætti í vinnu um hálfátta og fljótlega kom í ljós að fyrrum fyrirliði yrði sennilega frá meiri partinn af vikunni, kannski alla, vegna veikinda. Ég fór því að sinna kortatengda mánaðamótauppgjörinu. Eftir kaffi og alveg til tvö (mínus hádegishlé) var ég í innlögnum en síðasta klukkutímann fór ég aftur í uppgjörið sem er langt komið. Á bara eftir að fá tölurnar yfirlesnar. "Slapp" út úr húsi eftir uþb átta tíma vinnu og fór beinustu leið yfir í Laugardalinn. Þar hitti ég kalda potts vinkonu mína og tvær af þremur systrum hennar. Systurnar eru lítið fyrir kalda pottinn en við Hrafnhildur fórum fjórar ferðir og inn á milli í þann heitasta, sjópottinn, 42°C pottinn og gufuna. Var komin heim um hálfsex leytið. 

2.7.24

Tími tvö í osteostrong

Rumskaði um fimm í gærmorgun og var komin á fætur hálftíma síðar. Eftir morgunverkin á baðherberginu og smá netvafr greip ég í prjónana í smá stund áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Vel gekk í gær og unnum við okkur í haginn fyrir daginn í dag en þriðjudagarnir er oft langstærstu dagarnir. Semsagt allt klárað og meira til á innan við átta tímum. Sumarliðarnir eru mjög öflugir. Ég hefði því ekkert þurft að kvíða því að verða sein í Hátún 12 þar sem ég fer í osteostrong tíma á fimmta tímanum á mánudögum. Var komin fyrir utan fyrir klukkan fjögur en fór þó ekki inn fyrr en eftir útvarpsfréttirnar. Þrátt fyrir að klukkan væri ekki orðin tuttugu mínútur yfir þá þurfti ég ekki að bíða neitt og var búin um hálffimm. Þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér í bílnum ákvað ég að fara beinustu leið heim, slaka á og horfa á EM. 

1.7.24

Í sjóinn á sunnudegi

Klukkan var nýorðin átta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Held að ég hafi verið sofnuð um miðnættið svo þetta var amk uþb átta tíma svefn. Eftir morgunverkin á baðherberginu og lýsis inntöku settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Það hefði auðveldlega getað stefnt í "veraheimainniletidag" en um hálftíu fékk ég mér ab-mjólk með alls konar hnetum og fræjum og um tíu fór ég út úr húsi með sjósundsdótið meðferðis. Fór tvisvar út í 12°C sjóinn, fyrst í uþb tuttugu mínútur og eftir ca tíu mínútur í heita pottinum aftur út í í fimm mínútur og svo beinustu leið inn í klefa. Skolaði sundbol, strandskó og tær en sleppti því að skola alveg af mér líkt og ég gerði fyrir helgi. Úr Nauthólsvíkinni lá leiðin vestur á Fiskislóð. Keypti bílþvott hjá Löðri. Stoppaði næst hjá Krónunni. Byrjaði á því að hringja í pabba og spjalla við hann áður en ég fór inn í búðina og verslaði. Var komin heim um tólf. Davíð Steinn var þá farinn úr húsi að hjálpa einni vinkonu sinni að setja saman skáp. Oddur Smári var kominn fram en vissi ekki að hann væri einn heima. Hann horfði á einn þátt af NCIS með mér en rakaði svo af sér allt skeggið og ryksugaði inn á baði. Davíð Steinn kom heim upp úr klukkan tvö og rúmum tveimur tímum seinna fóru þeir bræður til pabba síns. Ég horfði á báða leikina í 16 liða úrslitum á EM karla.