30.4.24

Ekki í sund en góður göngutúr

Færslan um gærdaginn verður líklega frekar stutt. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Það vantaði nokkrar hendur á dekk en það var mikið að gera og ég kunni ekki við að láta mig hverfa eftir átta tímana og skilja hina eftir í súpunni. Klukkan var að nálgast sex þegar ég stimplaði mig út úr vinnu og fór beinustu leið heim. Bræðurnir voru á Bakkanum. Ég fékk mér hressingu, horfði á fréttir og hálfan þátt en um hálfátta leytið skrapp ég út í göngutúr upp á 3,5km. Horfði á heilan þátt eftir að ég kom til baka. Var komin inn í rúm og var rétt að leggja frá mér bókina og fara að sofa þegar bræður komu heim. 

29.4.24

Sund og hárþvottur á sunnudegi

Vaknaði um sjö leytið í gærmorgun. Greip fljótlega aðeins í prjónana mína áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Mætti í Laugardalslaug rétt rúmlega níu. Byrjaði á því að synda 600m á hálftíma, helminginn á bakinu. Kalda potts vinkona mín var þegar búin að fara eina ferð í kalda þegar ég fór í mína fyrstu ferð. Saman fórum við fimm ferðir. Að auki fór ég eina ferð í nuddpottinn og tvær í 42°C pottinn. Vorum 15 mínútur í gufunni, 10 mínútur í sjópottinum og sátum svo góða stund í sólbaði. Ég kvaddi um ellefu en þá var ég búin að vera á svæðinu í um tvo tíma. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var komin heim rétt fyrir tólf. Restin af deginum fór í alls konar rólegheita dundur. Var með steikta bleikju með sætum kartöflum, súrkáli og spínati í kvöldmatinn og bauð Oddi með mér og aldrei þessu vant þáði hann boðið. N1 sonurinn kom heim á níunda tímanum. Hann færði mér tvo bókapakka að gjöf frá einum uppáhalds viðskiptavini hans upp á Gagnvegi.

28.4.24

Sjósund og göngutúr í gær

Var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu prjónaði ég í um fimm mínútur áður en ég tók til við æfingarnar. Upp úr klukkan sjö settist ég niður með fartölvuna í fanginu. Vafraði um á netinu í góða stund en slökkti á tölvunni eftir að ég var búin að setja inn færslu dagsins. Kláraði loksins að lesa  Blóðmána eftir Joe Nesbö. Um tíu setti ég upp hafragraut. Bætti út á hann kanil, bláberjum, krækiberjum, nokkrum rúsínum og ýmsum hnetum og fræjum. Var mætt í Nauthólsvík nokkrum mínútum fyrir opnun klukkan ellefu. Sjórinn var 7,6°C. Setti ekki upp hanska en tolldi samt í sjónum í um fimm mínútur. Fór aðeins í gufuna, kalda sturtu, fimmtán mínútur í heita pottinn og svo 2-3 mínútur aftur í sjóinn áður en ég fór upp úr. Það var margt um manninn enda veðrið mjög gott. Kom heim um tólf. Tveimuroghálfum tímum síðar skrapp ég í hálftíma göngutúr. N1 sonurinn var að vinna en hinn sonurinn vann húsverkin með mér. Svo horfðum við á fótbolta og nokkra þætti. 

27.4.24

Morgunstund

Var komin á stjá um sex leytið í gærmorgun og fljótlega tók ég fyrstu æfinalotu dagsins. Mætti í vinnuna um hálfátta. Stimplaði mig strax inn, fyllti vatnsbrúsann og fór niður í kortadeild. Kveikti á vélinni og hlóð inn nýjustu skránum og undirbjó skiptiblöð og framleiðslu. Fyrirliðinn kom niður þremur korterum seinna með útprentuð framleiðslublöð. Kláruðum allt daglegt fyrir klukkan ellefu og framleiddum fyrstu 300 af 4500stk endurnýjun áður en við fórum upp í mat. Það skal tekið fram að við fórum í kaffipásu upp úr klukkan hálftíu. Vorum komnar niður í deild fyrir klukkan hálftvö eftir hádegi og á tveimur tímum endurnýjuðum við 1200 kort. Hættum og gengum frá um hálfþrjú. Uppi beið smá verkefni sem ég tók þátt í þar til dagvinnuskyldu minni var lokið en hún er aðeins styttri á föstudögum. Var komin í sund fyrir klukkan hálffjögur. Fór fimm sinnum í kalda með vinkonu minni. Synti ekkert og kvaddi um hálffimm því ég þurfti að vera mætt með bílinn í Fellsmúla um fimm. Var komin þangað sjö mínútum fyrr og fékk að skilja bílinn eftir. Kosninga skrifstofa Baldurs var rétt hjá og þangað fór ég með prjónana mína og fékk að bíða þar til ég fékk sms um að bíllinn væri tilbúinn. Ég er semsagt komin á sumardekkin. Í fyrra var sagt að það vantaði bara millimetra upp á að nagladekkin væru orðin of slitin og ólögleg. Þegar ég spurði út í þetta um leið og ég greiddi fyrir þjónustuna fékk ég þau ánægjulegu svör að nagladekkin væru enn í góðu lagi og amk 1,5mm yfir viðmiðum svo mælingin í fyrra var líklega alls ekki rétt. Vetrardekkin verða því á dekkjahótelinu þar til ég þarf að nota þau aftur. Fékk afslátt út á kennitölu N1 sonarins og fyrir þjónustu og hótel greiddi ég rúmlega sautjánþúsund krónur. Var komin heim upp úr klukkan hálfsex. 

26.4.24

Síðasti föstudagurinn í þessum mánuði

Svaf heila níu klukkutíma í fyrrinótt og rúmlega það. Klukkan var að verða átta þegar ég vaknaði í gærmorgun og ég er viss um að ég var sofnuð fyrir klukkan hálfellefu á miðvikudagskvöldið. Kannski sjóferðin hafi haft þessi áhrif, amk var húðin á mér mjög mjúk. Fyrsti hálftíminn, eftir að ég var komin á fætur, fór í smá prjón og fyrstu æfingalotu dagsins. Um hálfellefu var ég komin til esperanto vinkonu minnar. Var hjá henni í tæpan einnoghálfan tíma og amk helminginn af þeim tíma vorum við að lesa esperanto saman. Var komin heim upp úr klukkan tólf. Um hálftvö skrapp ég út í smá göngutúr. Stillti ekki forritið í símanum en þegar ég settist smá stund niður hálftíma síðar hafði ég labbað 2,6km og var stödd hinum megin við Öskjuhlíð. Þegar ég hélt för áfram skömmu síðar ákvað ég að stilla forritið á göngu. 44 mínútum og 3,2km síðar settist ég á bekk í Eskihlíðinni og átti þá aðeins innan við 300m heim. Sat þarna í um tíu mínútur og þetta gerði það að verkum að þegar ég kom heim þurfti ég ekki að draga hægri fótinn upp tröppurnar eins og ég þarf oftast að gera eftir amk tuttugu mínútna göngur.

25.4.24

Aftur í sjóinn

Gleðilegt sumar!

Aftur var ég komin á stjá um hálfsex í gærmorgun og hagaði ég fyrsta eina og hálfa tímanum mjög svipað og á þriðjudagsmorguninn. Var mætt í vinnuna upp úr klukkan hálfátta. Í gær var framleiðsludagur. Framleiddum allt daglegt uppsafnað fyrir hádegi. Tókum kaffitíma og fundarpásu um hálftíu en í gær var einn samstarfsmaður minn að vinna sinn síðasta vinnudag eftir rúmlega 43 ár í fjármálageiranum. Hann byrjaði víst hjá Iðnaðarbankanum þann 22. desember 1980. Í tilefni tímamótanna fékk hann að velja hvað væri haft með kaffinu og hann vildi brauðtertur. Það voru líka marengstertur en þær voru vegna þess að markmiðum marsmánaðar var náð og gott betur en það. Ekki hefur verið tími fyrr í þessum mánuði til að fagna því. Ég freistaðist í smá flís af einni brauðtertunni en sleppti sykurbombunum. Hefði annars mjög líklega endað all snarlega á salernisferð með pípandi...


Eftir hádegi unnum við að endurnýjun til klukkan að verða þrjú. Þá gengum við frá deildinni. Stimplaði mig út tíu mínútum áður en átta tímunum var náð. Ef við náum ekki átta tíma markinu þá eigum við að skrá það sem upp á vantar á kerfi sem kallast bónustímar. Ég skráði semsagt tíu mínútur á það kerfi í gær. Hringdi í pabba á leiðinni heim. Hann var kominn á sinn bíl aftur, hafði sótt hann í bæinn á þriðjudaginn og skilaði þar með lánsbílnum í leiðinni. Ég stoppaði heima í rúma klukkustund og fékk mér smá snarl. Svo lét ég loksins verða af því að skreppa í Nauthólsvík í sjóinn. Hafði ekki farið síðan 5. janúar sl. Sjórinn var 6°C, ég notaði strandskóna og sleppti hönskunum. Það var í lagi fótanna vegna en mér varð smá kalt á fingrunum. Kannski bara ágætt því fyrir vikið var ég ekki of lengi. Fór tvisvar sinnum 2 mínútur með 15 mínútna stoppi í heita pottinum í millitíðinni þar sem ég hitti systur sem voru í sjósundshópnum mínum. Endaði svo á fimm mínútna gufu baði áður en ég fór upp úr og heim. 

24.4.24

Soðin ýsa

Rumskaði um fimm í gærmorgun, alveg í spreng. Fór á salernið og skreið svo aftur upp í rúm. Gat ekki sofnað aftur þannig að ég var komin á stjá um hálfsex. Eftir að hafa fengið mér sítrónuvatn og tannburstað mig settist ég um stund með prjónana til að liðka aðeins upp þá hægri. Eftir tvær umferðir eða um tvöhundruð lykkjur tók ég til við æfingarnar. Notaði léttari lóðið við sumar af þeim og skiptist þá á að halda á þeim, ýmist með vinstri eða hægri. Æfingalotan stóð yfir í tæpt korter. Hugsanlega mun ég kaupa mér annað sett að 1kg og 1,5kg lóðum til að hafa möguleikann á að hafa jafnþungt í báðum höndum. Eftir æfingalotuna setti ég inn færslu dagsins og vafraði aðeins um á netinu þar til kominn var tími til að leggja af stað í vinnuna. Var á vinnustaðnum í akkúrat átta tíma og svo mætt í sundið um fjögur. Þá var kalda potts vinkona mín að fara. Ég synti 400m, fór tvisvar sinnum 4 mínútur í 9°C kalda pottinn, 15, mínútur í gufu, tíu mínútur í sjópottinn og smá "sólbað" í þrjár mínútur. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni. 

23.4.24

Keypti lóð i gær

Var komin á fætur um sex í gærmorgun. Mætti í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Eftir að hafa fyllt á vatnsbrúsann minn og spjallað smástund við nokkra vinnufélaga á kaffistofunni fór ég niður í kortadeild. Fyrirliðinn var komin aðeins á undan rétt til að taka stöðuna á ákveðnum formum og umslögum. Opnaði hvelfinguna með henni. Þegar hún var búin að safna sínum gögnum snéri ég mér að því að hlaða inn nýjustu skránum og útbúa skiptiblöð. Var byrjuð í innleggjunum nokkru fyrir klukkan níu. Gat ekki enn sent tímaskýrslu síðust viku til samþykktar í tempo og sú sem á að samþykkja kom til mín og sagðist ekki finna mig. Sendi aftur póst á mannauð og mannauðsstjóri framsendi á tæknimann. Það var búið að kippa þessu í liðinn fyrir klukkan ellefu. Annars kláruðust mín verkefni stuttu fyrir klukkan þrjú í gær og ég var komin í sund um hálffjögur. Kalda potts vinkona mín var komin á svæðið en hún var engu að síður að fara í sína fyrstu ferð í kalda pottinn um leið og ég. Veðrið var svo gott að það var margt um manninn og ég sleppti algerlega sundinu. Fór fjórar ferðir í þann kalda, eina í gufu, eina í sjópottinn og sat svo góða stund í sólbaði. Var að fara upp úr um hálffimm leytið. Kom við í Hreysti í Skefunni og keypti mér eitt eins kílóa lóð og annað hálfu kílói þyngra. Kostaði aðeins fjórtánhundruð krónur. Svo lá leiðin í Krónuna þar sem ég verslaði inn fyrir fjórtánþúsund krónur. Lagði í Blönduhlíðinni þegar heim var komið og fékk Odd til þess að koma og hjálpa mér inn með vörur og dót. 

22.4.24

Ný vinnuvika

Fór á fætur um hálfníu í gærmorgun. Þrátt fyrir hið fínasta veður fór ég ekki í neina göngu. Vafraði um á netinu, lagði kapla, prjónaði, las og horfði á sjónvarp. Eftir Fullham-Liverpool leikinn tók ég dótið mitt saman, kvaddi pabba og ók í bæinn á bílnum hans. Við vegamótin í Árnessýslu ákvað ég að stoppa aðeins á planinu og sinka símann minn við bílinn. Ég var svo rétt komin í gegnum Selfoss þegar systir mín hringdi í mig. Við töluðum saman alla leið í bæinn, hættum rétt áður en ég kom að Brimborg. Fékk stæði við hliðina á bílnum mínum. Færði dótið mitt yfir í hann. Læsti pabba bíl og setti svo bíllykilinn hans í umslag og lyklabox sem er við aðalinngang fyrirtækisins. Sendi manni frænku minnar sms um staðsetningu bílsins sem er að fara að fá krók á sig í vikunni svo pabbi geti notað kerruna sína. Kom heim rétt fyrir hálfátta. Báðir bræðurnir voru heima. Oddur kom fram skömmu síðar og við horfðum saman á þrjá þætti úr sarpinum. Afhenti bræðrunum veiðikort ársins. Sumargjöf til þeirra að þessu sinni. Sumardagurinn fyrsti er reyndar ekki fyrr en á fimmtudaginn en ég held að það hafi byrjaði í gær. 

21.4.24

Ford Kuga

Maður einnar frænku minnar hefur unnið hjá Brimborg til margra ára. Pabbi var að panta krók á bílinn sinn og frænka hringdi í mig í fyrrakvöld þegar hún vissi að ég væri á leiðinni austur um helgina og spurði hvort ég gæti gert manni hennar greiða. Þannig að eftir sundið og esperanto hittinginn í gærmorgun hringdi ég í hann og sagðist vera tilbúin að leggja af stað austur vestan úr bæ. Þau hittu mig bæði fyrir utan hjá Brimborg um hálfeitt. Ég lagði mínum bíl í stæði milli póstsbíls og bílsins sem ég var búin að samþykkja að keyra austur til pabba. Færði dótið mitt á milli og fékk tvöfalt knús og örstutt námskeið á bílinn áður en ég kvaddi og ók varlega af stað. Allt gekk vel nema ég var ekki að finna út úr því hvernig setja átti "krús kontrolið" á. Var komin austur rétt upp úr klukkan tvö.

20.4.24

Á leið í sund

Gærdagurinn byrjaði snemma en þó ekki alltof snemma. Var komin á stjá um klukkan hálfsjö. Rúmum klukkutíma síðar var ég mætt í vinnu. Stimplaði mig inn, fyllti á vatnsbrúsann og fór fljótlega niður í kortadeild. Kveikti á vélinni, hlóð inn nýjustu skránum, skráði niður skiptiblöð og vistaði í fartölvunni og beið svo eftir að fyrirliðinn kæmi niður með öll framleiðslublöðin. Fórum í kaffipásu um hálftíu. Þá áttum við aðeins eftir smávegis af "daglegu" framleiðslunni. Fórum niður aftur um tíu og hálftíma seinna vorum við komnar á fullt í endurnýjun. Hættum ekki fyrr en sá skammtur sem við vorum að vinna í kláraðist og þá var klukkan langt gengin í eitt. Gengum frá deildinni og sendum póstinn upp með lyftunni. Fljótlega eftir mat hjálpaði ég til við að hreinsa gullið. Allt var búið um hálfþrjú en þá lenti ég í smá veseni með tímaskráningarkerfið. Var þó komin í sund um þrjú. Hitti kalda potts vinkonu mína í hennar fjórðu ferð í kalda. Hitti einnig finnska vinkonu mína. Var annars eingöngu í potta ferðum og gufu, sleppti sundinu í gær. Kom heim upp úr klukkan fjögur. 

19.4.24

Útskrifuð úr sjúkraþjálfun

Gærdagurinn byrjaði alltof snemma eða um fimm. Greip í bók og las í rúman hálftíma. Var komin á stjá fyrir klukkan sex. Vafraði um á netinu en um sjö leytið ákvað ég að trekkja hendina betur í gang með því að prjóna. Var mætt í Fossvoginn um átta og fékk að fara beint í bjúgdæluna fyrstu tuttugu mínúturnar. Svo lærði ég nokkrar nýjar æfingar. Sjúkraþjálfarinn sagði í lok tímans að nú væri þetta alfarið í mínum höndum. Úthaldið í vinnunni er farið að aukast. Er búin að ákveða að ég geti amk verið 100% en verð að passa að fara ekki mikið fram yfir það. Var annars mætt í vinnu um níu. Byrjaði á því að fara niður í koradeild að hlaða inn nýjustum skrám. Það tók fartölvuna óratíma að opnast þannig að þegar ég var loksins búin að útbúa og vista skiptiblöðin var komin tími til að skreppa í kaffi. Er þó ekki ennþá farin að drekka kaffi aftur. Fyllti bara á vatnsflöskuna og fékk mér heitt vatn í bolla. Verkefnum dagsins lauk frekar snemma og ég var komin í sund upp úr klukkan hálfþrjú. Synti 500 metra. Var komin heim um fjögur leytið. Byrjaði á því að setja í þvottavél og sækja þvott af snúrunum. Fékk mér svo hressingu og horfði á nokkra gamla og nýja þætti af NCIS og FBI með Oddi. N1 sonurinn kom heim úr vinnu um átta leytið. 

18.4.24

Fart á tímanum

Svaf átta tíma í einum dúr í fyrrinótt. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Fór fljótlega niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skrám. Framleiðsla hófst á níunda tímanum. Um hálftíu fórum við upp í kaffi og á fund sem var næstum klukkutíma langur. Kláruðum alla daglega framleiðslu fyrir klukkan tólf og milli klukkan eitt og þrjú endurnýjuðum við uþb fimmtánhundruð kort. Ég hafði semsagt úthald í fullan vinnudag. Var ekki með sunddótið meðferðis svo ég fór beinustu leið heim eitthvað að spá í að gera mér svo ferði í Nauthólsvík síðar um daginn. Þegar til kom fór ég ekkert út aftur. 

17.4.24

Snjókoma í gærkvöldi

Morguninn byrjaði alltof snemma í gærmorgun, eða um fimm leytið. Var því komin á stjá áður en klukkan varð sex. Vafraði aðeins um á netinu en trekkti svo þá hægri betur í gang með smá prjónaskap. Lagði af stað í vinnuna í fyrra fallinu og byrjaði á því að koma við á AO-stöðinni í Öskjuhlíð og fylla tankinn. Vinnan var svipuð og á mánudaginn og flestum verkefnum lokið um tvö leytið. Þá stakk ég af í sund. Þurfti að byrja á því að endurnýja árskortið en það gekk fljótt og vel fyrir sig. Fæ það svo endurgreitt í gegnum íþróttastyrkinn. Synti 400m og fór svo aðeins eina ferð í kalda pottinn en hún stóð yfir í um sjö mínútur. Var tuttugu mínútur í gufunni á eftir, tók þá kalda sturtu áður en ég skrapp í sjópottinn í um tíu mínútur. Þar hitti ég fyrir einn frænda minn sem vinnur sem einkaþjálfari í Laugum. Spurði hann hvar væri best að kaupa sér handlóð. Hann mælti með Hreysti í Skeifunni. Ætlaði mér að athuga málið á leiðinni heim en umferðin var þung og það varð á endanum léleg afsökun til að bíða aðeins með þessi kaup. 

16.4.24

Fallegt veður

Svaf í heila átta tíma í fyrrinótt. Mætti í vinnu tuttugu mínútm fyrir átta. Fyllti á vatnsbrúsann minn og fór svo niður í kortadeild að hlaða inn tölum. Var byrjuð í innleggjum stuttu fyrir klukkan níu. Hægri höndin var alveg að vinna með mér en ég passaði mig á að sitja ekki of lengi við. Um hálftvö var farið að sjá fyrir endann á verkefnum dagsins. Ég stimplaði mig út tæpum hálftíma síðar og fór beint í sund. Hitti kalda potts vinkonu mína og við fórum saman 4 ferðir í kalda áður en ég fór á brautir 7-8 og synti 300 metra. Kom heim um fjögur. Klukkutíma síðar fór ég aftur út. Ætlaði að skreppa í stuttan göngutúr. Kom heim aftur klukkutíma og 4,5km síðar. 

15.4.24

Ný vinnuvika

Var vöknuð um sjö leytið og komin á stjá fljótlega eftir það. Dreif mig í sund um hálftíu leytið. Synti 500m, þar af sennilega um 200m á bakinu. Hitti sjósunds vinkonu mína þegar ég var að klára mínar ferðir og hún að byrja á sínum ferðum. Kalda potts vinkona mín var líka mætt á svæðið og þegar búin með eina ferð í kalda þegar ég fór í mína fyrstu. Eftir þrjár ferðir í kalda fórum við í gufuna og þaðan í sjópottinn þar sem við hittum eina systur hennar. Skellti mér svo eina stutta ferð í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Restin af deginum fór í rólegheit heima við. Horfði á leiki í enska boltanum, nokkra þætti, prjónaði og las; Blóðmáni eftir Joe Nesbö. Var komin í rúmið um hálftíu og sofnuð upp úr klukkan tíu. 

14.4.24

Brjóstaskimun, árshátíð og fleira

"Hentist" út úr húsi um hálfníu í gærmorgun og var fimmtán mínútur að labba upp á Eiríksgötu 5. Allt gekk hratt og vel fyrir sig og var ég komin út aftur um níu. Ákvað að taka lengri leiðina heim sem urðu tæplega 4km. Var því búin að ganga næstum áttaþúsund skref fyrir klukkan tíu í gærmorgun. Tíminn milli ellefu og fimm fór í alls konar; lestur, gláp, prjón og heimils störf. Um fimm klæddi ég mig í lopapeysu, gallavesti og ennisband og keyrði mig sjálf að Dalvegi 30. Þar voru margir vinnufélagar mínir og makar að safnast saman á þriðju hæð í Öskju. Milli hálfsex og sex fóru þrjár rútur með okkur að félagsheimilinu Dreng í Kjós þar sem kúreka/lopapeysu árshátíð var haldin. Ég skemmti mér mjög vel en passaði mig vel á því hvað ég lét ofan í mig. Trúbardor var á staðnum til klukkan átta. Svo voru heimatilbúin skemmtiatriði og á tíunda tímanum kom Erpur rappari með fleiri með sér. Fyrsta rúta til baka fór um ellefu og ég tók mér far með henni sem og margir aðrir. M.a. einn samstarfmaður minn til margra ára. Sá býr einnig í Hlíðunum og þáði hann far með mér. Ég var komin heim rétt upp úr miðnætti. Fór beint í bælið en las samt í rúman hálftíma áður en ég fór að sofa. 

13.4.24

Laugardagur

Mætti í vinnuna tuttugu mínútum fyrir átta. Byrjaði á því að senda kvittunina fyrir símakaupunum til þeirra sem sjá m.a. um að borga styrkina. (Styrkurinn var greiddur samdægurs) Fyllti svo vatnsflösku áður en ég fór niður að hlaða inn nýjustu skránum. Það var nóg af fyrirliggjandi verkefnum í framleiðslunni en sum þeirra voru að bíða eftir formum og umslögum. Það skilaði sér í hús um hálftíu leytið svo við gátum bæði klárað allt daglegt og aðra af endurnýjunum sem hafa verið í bið í smá tíma. Gengum frá deildinni um hálfeitt og fórum í mat. Föstudagar eru styttri dagar, helst reynt að vera farin úr húsi fyrir klukkan hálffjögur. Ég stimplaði mig út um hálftvö og fór beint í sund. Synti 400m og fór tvisvar sinnum 3,5 mínútur í kalda pottinn. Sat 15 mínútur í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum. Á leiðinni upp úr hitti ég systurnar sem eru með mér í sjósundshóp. Það er reyndar búið að búa til nýja grúppu en þær sögðu báðar að ég væri velkomin í þá grúppu. Kom heim rétt fyrir fjögur. 

12.4.24

Nýr sími

Það var sjúkraþjálfun í gærmorgun og ég var mætt á staðinn nokkrum mínútum áður en tíminn minn byrjaði. En þar sem sjúkraþjálfarinn minn var líka komin á staðinn bauðst mér aftur að byrja strax í bjúgdælunni sem ég þáði. Eftir rúmar tíu mínútur í dælunni kenndi hún mér nokkur ný trix, nuddaði lófann, úlnliðinn og framhandlegginn vel og með því náði hún að breyta nokkrum stöðumælingum til hins betra. Hún sagði þó að ég yrði að vinna ennþá betur í að styrkja vöðvana í framhandleggnum og teygja vel á sinunum í leiðinni. Fékk tíma á sama tíma að viku liðinni og þá ætlar hún að meta hvort hún geti útskrifað mig. Næst lá leið mín í Kópavog til að fá aðeins að tala við trúnaðarlækni RB sem er akkúrat með tíma á fimmtudögum milli níu og ellefu. Ég var fyrst inn. Ætlaði að fá hjá honum opið vottorð en hann má ekki gefa út svoleiðis. Sagði að hann gæti sent póst á yfirmann og/eða mannauð varðandi vinnuskyldu. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan tíu. Byrjaði á því að fylla vatnsbrúsann minn. Skömmu síðar fór ég niður í kortadeild að hlaða niður nýjum tölum dagsins og skipta þeim upp. Gærdagurinn var annars fyrsti "rólegi" dagurinn í langan tíma sem gæti að hluta til verið vegna þess að það vantaði heldur ekki svo marga til vinnu. Ég tók engin innlegg en var í vinnu til klukkan hálftvö. Á leiðinni í sundið hringdi ég í æskuvinkonu mína. Hún sagði mér þær fréttir að hún væri búin að taka þá erfiðu ákvörðun að hætta vinnu í vor og fara á fulla örorku. Sorglegt. Annars hitti ég kalda potts vinkonu mína í búningsklefanum og við náðum 4 ferðum í þann kalda áður en ég fór að synda og hún aftur í sína vinnu. Á leiðinni frá Laugardalnum eftir sund hringdi ég í pabba. Við töluðum dágóða stund og ég ók alla leið að Elko við Granda þar sem ég keypti mér nýjan síma sem ég lét setja upp fyrir mig. Kom heim um fimm leytið.

11.4.24

Fimmtudagur

Mallakúturinn hefur svolítið verið að stríða mér undanfarið. Hugsanlega er líkaminn í smá áfalli og svo blandast inn í þetta eitthvað sem ég borða og fer ekki nógu vel í mig. Hvað það er veit ég ekki en gruna að ég þurfi að passa mig betur á hádegismatnum í vinnunni. Glaðvaknaði alltof snemma í gærmorgun og var komin á fætur um hálfsex. Mætti í vinnuna stuttu fyrir klukkan átta og fór næstum beint niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu verkefnunum og skrá inn og vista skiptiblöðin. Ákvað svo að vera á móttökuendanum í framleiðslunni. Það var í fínu lagi til að byrja með en kannski ekki svo skynsamlegt að vera allan tímann þar eftir að við fórum að framleiða alla leið á form og í umslög þrátt fyrir að taka ágætis kaffipásu (vegna fundar/námskeiðs á tímaskráningakerfi), þriggja kortera matarhlé og klára daglega framleiðslu um tvö. Þá var ég satt að segja alveg búin á því. Ég sleppti þess vegna sundinu og fór beinustu leið heim eftir vinnu og slakaði á þar. Um fimm leytið tók ég hálftíma kríu. Fljótlega eftir það greip ég loksins í prjónana áður en ég gerði daglegar skylduæfingar. Sú hægri var frekar bólgin og styrð en það lagaðist aðeins bæði eftir hvíldina, prjónaskapinn og æfingarnar.

10.4.24

Vikan uþb hálfnuð

Rumskaði um eitt leytið í fyrrinótt alveg í spreng. Skrapp auðvitað á salernið. Steinsofnaði svo strax og ég lagðist upp í rúm aftur. Vissi næst af mér fimm mínútum áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Mætti í vinnuna stuttu fyrir átta. Eftir að hafa fyllt á vatnsbrúsann minn fór ég með fartölvu niður í kortadeild, skráði mig inn á vélina, hlóð niður nýjum verkefnum og útbjó skiptiblöð fyrir framleiðslu á form og í umslög. Þetta tók mig ekkert svo langan tíma. Ég hafði amk dágóðan tíma til að fara í innlegg eftir að ég kom upp aftur. Skrapp í kaffipásu upp úr klukkan hálftíu. Vann til klukkan að verða hálftólf. Stimplaði mig úr vinnu um hálfeitt og fór beint að Laugardalslaug. Hringdi aðeins í pabba áður en ég fór í sundið. Synti 400m og fór fjórum sinnum í kalda pottinn sem var 6°C og mjög góður í gær. Eftir sundið kom ég við í Fiskbúð Fúsa og Krónunni í Skeifunni áður en ég fór heim.

9.4.24

Hálfir vinnudagar

Er að vinna í því að mæta ekki of snemma í vinnuna en vera samt þokkalega á undan aðal umferðarþunganum. Í gærmorgun var ég vöknuð alltof snemma og komin á fætur fyrir klukkan sex. Mætti í vinnuna korter fyrir átta. Fram að kaffi vann ég í innleggjum og gekk það bara vel. Eftir kaffi gerði ég misheppnaðar tilraunir til að komast inn í excelskjöl í fartölvunni sem núna er notuð í kortadeildinni. Stalst líka til að nota smá tíma til að taka saman útskuldað, innkomur og stöðu á hússjóð fyrir D21. Fór í mat um hálftólf. Eftir mat gerði ég loka atlögu að fartölvumálunum með tæknimann á spjallinu og viti menn, það virtist vera nóg að hafa hann á "línunni" því loksins komst ég inn. Fór úr vinnu um hálfeitt og beinustu leið í sund. Synti 400m og var í minni þriðju ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Fór eina auka ferð með henni áður en ég fór upp úr. Kom við í versluninni Útilíf í Kringlunni og keypti mér nýja sundhettu. Var komin heim um þrjú. 

8.4.24

Sjötugasta færsla þessa árs

Svaf næstum því til klukkan að verða sjö í gærmorgun. Var komin í sund um tíu og fór beinustu leið í þann kalda sem var um 7°C. Hitti strax á kaldapotts vinkonu mína og svo var sjósunds vinkona mín á svæðinu. Fór fjórar ferðir í kalda áður en ég, gufu og þrjá potta áður en ég synti 300m. Var komin heim um hálftólf. Fljótlega upp úr hádegi skrapp ég í hálftíma göngutúr. Var komin heim áður en Liverpool leikurinn byrjaði. Strax á eftir þeim leik skipti ég yfir á RÚV og horfði á íslensku stelpurnar tryggja sér sæti á næsta EM í handbolta með því að sigra færeysku stelpurnar.

7.4.24

Færsla no 3901

Aftur var ég vöknuð alltof snemma, núna rétt upp úr klukkan fimm. Var því komin á fætur upp úr klukkan hálfsex. Mætti samt ekki í sundið fyrr en klukkan að verða hálfníu. Kaldi potturinn var tómur og lokaður. Ég synti 400m og fór beint í gufu í uþb 15 mínútur. Þar gerði ég nokkrar æfingar. Fór í kalda sturtu eftir gufuna og svo í sjópotinn í tíu mínútur, nuddpottinn í 5 mínútur og settist svo á stól í 3 mínútur áður en ég fór upp úr og heim. Stoppaði heima í tæpan klukkutíma áður en ég dreif mig vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Þar héldum við áfram að fara yfir ýmis esperantogögn og taka til í þeim. Kláruðum þá yfirferð og það fór slatti í poka til að kíkja á og lesa síðar en eitthvað var þó dæmt til förgunar. Skrapp svo með bílinn á bílaþvottastöð áður en ég fór heim. 

6.4.24

Besta deildin að byrja

Gærdagurinn byrjaði nokkuð snemma eða eitthvað upp úr klukkan hálfsex. Var mætt í vinnuna tveimur tímum síðar og byrjuð að vinna innlegg fyrir klukkan átta. Fann það fljótlega að ég þyrfti aðeins að passa mig. Fór í pásu um hálftíu. Kláraði skammt eitt stuttu eftir pásuna og skammt tvö um ellefu leytið. Fór í mat um hálftólf og var þá búin að ákveða að kalla þetta gott þennan daginn. Stakk af, með samþykki, áður en komið var að eldhúsverkunum. Fór beint í sund. Synti 400m, þar af helminginn á bakinu. Fór þrisvar sinnum þrjár mínútur í kalda sem var kaldari og betri heldur en á miðvikudaginn var. Hitti kalda potts vinkonu mína stuttu áður en ég fór í þriðja og síðasta skiptið þannig að við náðum einni ferð saman. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Var komin heim upp úr klukkan hálfþrjú. Lánaði bræðrunum bílinn svo Oddur gæti skutlast með Davíð Stein að sækja bílinn hans sem átti að fá nýja framrúðu í gær. Ekki var þó skipt um rúðu í gær þar sem ekki var til sú rétta heldur þarf hann að koma aftur með bílinn eftir þrjár vikur. Ég gerði svo lítið annað en að hvíla hægri hendina. Þó greip ég aðeins í prjónana og setti í og hengdi upp úr einni þvottavél. 

5.4.24

Föstudagur

Mætti á 7C í Fossvoginum rétt rúmlega átta. Þrátt fyrir að klukkan væri ekki orðin tíu mínútum yfir bauð Ásta sjúkraþjálfi mér að fara strax í bjúgdæluna sem ég þáði. Á eftir nuddaði hún mig og mældi. Sumar mælingar komu ágætlega út en ég á samt eitthvað í land. Hún setti einhvers konar "plástur" ofan á úlnliðinn og yfir örið sem ég á að hafa í fimm daga. Þessar græjur eiga að losa eða toga í húðlögin. Eftir tímann bókaði hún mig í næsta tíma á sama tíma eftir viku. Fór beinustu leið í vinnuna. Var mætt þangað korter yfir níu. Byrjaði mjög rólega. Fór eiginlega næstum beint í kaffipásu og byrjaði ekki að vinna innlegg fyrr en um tíu. Tók mér extra langan matartíma, næstum þrjú korter, en um hálfeitt tók ég næstu innleggstörn. Sú törn varði í um tvo tíma því ég fékk "kláruveikina" og hugsaði einnig með mér að ég hefði mætt einum og hálfum tíma seinna heldur en dagana á undan. Eftir vinnu fór ég beint heim og var komin þangað um þrjú. Um hálfsjö sótti fyrrum samstarfskona mín mig og saman fórum við upp í Árbæ til fyrrum fyrirliða þar sem við hittum tvær aðrar fyrrum samstarfskonum. Þetta var hópurinn "Fimm dimmalimm". Ekki hafði náðst í Ingu sem var yfir kortadeild í mörg ár en hún er líklega ekki á landinu því hún var búin að gefa það út að hún vildi vera í sambandi við okkur enda mætti hún í hittinginn í fyrra.

4.4.24

Sjúkraþjálfun eftir klukkustund

Vaknaði heldur snemma í gærmorgun. Fór á fætur upp úr klukkan sex og notaði hluta af tímanum hér heima til að "snúa" hægri hendinni í gang. Mætti í vinnu korter fyrir átta og var byrjuð að vinna innlegg áður en klukkan sló átta. Fattaði í miðju kafi að ég væri að flækja málin of mikið. Í sumum pokunum var nokkura daga innlegg en þótt það væri aðgreint á fylgiskjölum voru seðla og klink ekki aðgreint. Þegar innlegg eru ekki aðskilin á að leggja þau saman og vinna út frá heildarsummunni. Fór í pásu stuttu fyrir tíu og svo hádegismat um tólf. Tók saman og hætti vinnu um hálftvö og fór beint í sund. Kaldi potturinn var eiginlega helmingi of heitur eða 12°C. Sat í honum í næstum tíu mínútur áður en ég synti 200m. Þá var kalda potts vinkonan mætt á svæðið. Við náðum þremur ferðum í volga pottinn, einni í gufuna og einni í sjópottinn áður en ég kvaddi. Skrapp í Krónuna í Skeifunni á leiðinni heim. Oddur fékk lánaðan bílinn í sorpuferð og ég skrapp í tuttugu mínútna göngu túr um sex leytið. 

3.4.24

Aftur í vinnu

Var vöknuð um sex í gærmorgun. Einum og hálfum tíma síðar lagði ég af stað í vinnuna í fyrsta skipti í tólf vikur. Þetta var þá fjórði vinnudagurinn á árin. Það tók mig klukkutíma að komast í gang. Aðal málið var að fá aðgang aftur og opna viðkomandi vinnuglugga. Var byrjuð að vinna innlegg um níu. Fór í tuttugu mínútna pásu um tíu, hálftíma mat um hálftólf. Hætti vinnu um hálftvö og fór beint í sund. Synti 200metra. Kaldi potturinn var í heitara lagi, um 11°C en ég fór tvivar sinnum í hann, sat korter í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum áður en ég fór upp úr og heim.

2.4.24

Morgunstund

Ætlaði að sofa þar til stofugestirnir létu á sér kræla í gærmorgun. Það var hins vegar blaðran sem ýtti við mér um sjö svo ég var fyrst á fætur. Fljótlega komu þó mágur minn og ferfætlingarnir fram og hann skrapp með þá út. Ég hellti upp á kaffi, einn bolla af te og sauð hafragraut. Systir mín fékk sér af grautnum og kaffinu. Mágur minn þáði ekkert nema kaffið. Það var til sviðasulta en hann er búinn að borða svo mikið af henni sl ár að hann er kominn með upp í kok í bili amk. Klukkan var farin að ganga níu þegar gestirnir kvöddu og héldu af stað norður. Þau voru rúma tólf tíma á leiðinni heim til sín. Þurftu að fara Tröllaskagann, keyra í gegnum sjö göng og hlaða bílinn amk sjö sinnum. En heim komust þau.

Ég skrapp í sund milli hálftólf og eitt og hitti á kalda potts vinkonu mína. Var því bara að pottormast og gera æfingar í heitum pottum og gufu. Skrópaði í sundinu sjálfu. Seinni part dags skrapp ég svo í rúmlega hálftíma göngutúr.

1.4.24

Komin heim

Fór á fætur um átta í gærmorgun. Settist við tölvuna hans pabba í rúman hálftíma en færði mig svo inn í eldhús til að leggja nokkra kapla og þjálfa flettifærnina. Um tíu leytið færði ég mig svo inn í stofu og prjónaði tvær umferðir eða uþb sexhundruð lykkjur og fylgdist svo með fyrri partinum að "Njálu á hundavaði" með Hundi í óskilum á RÚV. Skipti yfir á Liverpool leikinn um eitt. Eftir leikinn tók ég mig saman og kvaddi pabba. Var komin heim um hálffimm. Systir mín dormaði á bedda í stofunni. Strákarnir voru hjá pabba sínum og fjölskyldu hans. Mágur minn kom fljótlega en hann hafði skroppið með hundana á svæði við Hádegismóa til að hreyfa þá. Helga hjálpaði mér við að skræla og skera niður sæta kartöflu sem ég setti í sigtipott ásamt brokkolí og gufusauð. Útbjó sallat úr spínati, lárperu, granatepli og svörtum steinlausum ólífum. Svo átti ég tvö bleikjuflök sem ég kryddaði með sítrónupipar, best á flest og laukdufti og snöggsteikti á pönnu og lét liggja smá stund í smá rjóma. Þetta var mjög góður matur. Horfðum á RÚV þar til íslenska myndin var búin en ég var farin inn í rúm um hálfellefu.