Ég er enn á Hellu. Systir mín, mágur og hundarnir kvöddu um tíu leytið í gærmorgun. Þau ætluðu að gera ferð í Kringluna og svo var hittingur með vinafólki í bænum í gærkvöldi. Ég tók því mjög rólega í gær fyrir utan smá prjónaskap og nokkrar æfingalotur. Lagði kapla nokkrum sinnum yfir daginn, það er ágætis æfing. Eins og með prjónaskapinn er ekki gott að gera of mikið í einu. Pabbi skrapp í búðina eftir rófu og útbjó handa okkur siginn fisk sem við vorum að borða um tvö leytið. Nennti ekki út fyrir dyr svo það var enginn göngutúr í gær og skrefafjöldi gærdagsins náði ekki þúsund.
31.3.24
30.3.24
Matarboð hjá frændfólki
Fór á fætur um hálfátta í gærmorgun. Mágur minn var kominn á fætur og lokaður af í stofunni með hundunum. Seinna um morguninn skrapp hann með þá í heimsókn til frænku sinnar á Stóruvöllum (þau eru bræðrabörn). Helga systir fór ekki með því hún hafði einsett sér að gera herbergi Bríetar fært fyrir ryksugu og skúringar. Ég skrapp í rúmlega hálftíma göngu um hálfellefu. Ingvi kom til baka um hálftvö. Næstum þremur tímum seinna sameinuðumst við öll í bílinn hann pabba sem keyrði okkur í Löngumýrina til Jónu og Reynis. Helga fór strax að aðstoða við matargerðina. Við pabbi settumst í stofusófann og létum fara vel um okkur. Hundarnir voru ekkert sérlega spenntir fyrir þessari heimsókn og var Vargur frekar vælinn. Það var þó góður plús að hægt var að hleypa þeim út á aflokaðan pall inn á milli. Matur var á borð borinn um átta og ég leyfði mér að smakka á lambalærinu og það tvisvar sinnum. Afþakkaði hvítvín og kaffi en smakkaði á girnilegum eftirréttinum þó þannig að ég tæki sem minnst af súkkulaðinu sem var í botninum en vel af þeytta rjómanum, bláberjunum og jarðaberjunum. Kvöddum gestgjafana upp úr klukkan níu og pabbi keyrði okkur til baka. Ég fékk mér tvö hylki af meltingarensímum og slapp alveg við að fá í magann.
29.3.24
Á Hellu
Var vöknuð stuttu fyrir sjö í gærmorgun og komin á fætur skömmu síðar. Mágur minn skrapp með út með hundana en aðeins annar þeirra pissaði. Um tíu skruppum við í gönguferð og fórum hálfan Öskjuhlíðarhring. Ugla pissaði loksins í þeirri ferð. Vargur pissaði nokkrum sinnum, m.a. yfir pissið hennar Uglu. Hann fór svo í veiðiham þegar hann varð var við kanínur. Eftir göngutúrinn sótti ég esperantodótið og bíllykilinn inn, kvaddi mág minn og hundana og dreif mig vestur í bæ. Stoppaði hjá esperanto vinkonu minni í um tvo tíma. Stoppaði heima í rúman klukkutíma áður en ég lagði af stað austur. Oddur hjálpaði mér að ferma bílinn. Ég var búin að gera boð á undan mér og stoppaði í Fossheiðinni í klukkustund. Gott að hvíla hendina. Þetta var fyrsta heimsóknin þangað á árinu og ég var leyst út með poka af bókum. Þ.e. fékk að velja mér úr kiljusafni sem Ásdís var að láta frá sér. Tók ekki allan bunkan en 16 bækur samt. Var komin á Hellu um fimm. Systir mín, mágur og hundarnir voru í Landeyjunum en komu fljótlega. Þau ætla að gista hér í tvær nætur. Ég verð kannski þrjár eða fjórar.
28.3.24
Margt í gangi
Varð vör við það þegar mágur minn fór með hundana út að pissa og sækja bílinn úr hleðslu um sex leytið í gærmorgun. Ég fór þó ekki á fætur fyrr en á áttunda tímanum. Mágur minn hafði lagt sig aftur en kom fram þegar hann varð var við umgang. Ég átti keaskyr með kaffi og vanillu handa honum í ísskápnum og svo hellti ég upp á kaffi hér heima í fyrsta sinn í rúma fimm mánuði ef ekki hálft ár. Kaffið var eingöngu ætlað mági mínum. Oddur kom fram upp úr klukkan átta. Fljótlega eftir það kvaddi Ingvi en skyldi ferfætlingana eftir í pössun hjá okkur. Vargur var ekki sáttur við að vera skilinn eftir en róaðist þó eftir ákveðinn tíma. Um níu leytið vöktum við Davíð Stein til að taka við hundapössuninni á meðan Oddur skutlaðist með mig í sjúkraþjálfun. Ég var mætt upp á 7C tíu mínútum fyrir tímann en sjúkraþjálfinn setti með beinustu leið í bjúgdæluna. Var í henni í hátt í tuttugu mínútur og svo tæpar fimm mínútur í öðru tæki áður en ég settist niður með sjúkraþjálfanum. Mælingarnar komu þokkalega vel út. Hún vill samt sjá mig aftur í næstu viku. Kom heim um hálfellefu. Davíð Steinn hafði lagt sig í stofusófanum en dreif sig í sturtu og skrapp svo aðeins með Oddi í pissuferð með hundana. Svo var bíleigandinn rokinn í burtu til að hjálpa frænku sinni með skólaverkefni. Ég skildi Odd eftir einan með hundana um hálfeitt leytið og dreif mig í sund. Synti 400m þar af 200m á bakinu. Hitti á kalda potts vinkonu mína í fyrstu tveimur ferðunum af fjórum en þá var hún búin með sína rútínu. Kom við í Fiskbúð Fúsa eftir sundið. Klukkutíma eftir að ég kom heim aftur ákvað ég að drífa mig í smá göngutúr. Þá var mágur minn akkúrat að koma til baka. Hann ákvað að drífa sig með mér og hreyfa hundana í leiðinni. Göngutúrinn vatt aðeins upp á sig og taldi amk um 5000 skref. Komum til baka rétt fyrir sex og stuttu síðar bauð ég mági mínum upp á soðna ýsu og spínat.
27.3.24
Eitt og og annað
Var komin á fætur stuttu áður en N1 sonurinn fór af stað í sína vinnu. Um hálftíu var ég komin í Laugardalslaug. Synti 400 metra á tuttugu mínútum. Kalda potts vinkona mín kom rétt áður en ég var búin að synda og við hittumst í kalda pottinum í okkar fyrstu ferð. Alls fórum við fimm sinnum þrjár mínútur í kalda pottinn. Kom heim um tólf leytið. Um hálftvö skrapp ég í 3,5km göngu sem tók mig þrjú korter. Stoppaði heima í um klukkustund eftir gönguna áður en ég skrapp í heimsókn í blokkaríbúð í Eskihlíðinni. Þar býr yngsta mágkona mömmu heitinnar. Þá góðu konu hitti ég reglulega í sundi en þetta var fyrsta heimsóknin til hennar síðan hún flutti í Eskihlíðina stuttu fyrir Covid-tíma. Þegar ég kom heim aftur horfði ég á nokkra þætti og svo landsleikinn. Mágur minn og ferfætlingarnir Vargur og Ugla komu á ellefta tímanum og hreiðruðu um sig í stofunni eftir að Ingvi var búinn að taka dótið inn úr bílnum, fá Odd með sér (og hundunum) til að setja bílinn í hleðslu, labba til baka með hundana og gefa þeim að borða.
26.3.24
Heimsókn í S15
N1 sonurinn var nýlega farinn í vinnuna þegar ég fór á fætur í gærmorgun upp úr klukkan sjö. Um níu leytið tók ég sunddótið með mér út í bíl en leiðin lá fyrst í smá innlit á vinnustaðinn minn. Þar beið mín stærðarinnar páskaegg frá starfsmannafélaginu. Í kaffistofunni var boðið m.a. upp á vínber, osta, ávexti og melónu. Stoppaði aðeins fram yfir kaffitímann og spjallaði við vinnufélagana áður en ég dreif mig yfir í Laugardalslaugina. Þar var ég búin að synda 200m þegar ég hitti einn frænda minn og konu hans. Spjallaði smá stund við þau áður en ég synti 300m í viðbót. Síðustu 50m synti ég skriðsund. Hitti svo kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum, báðar í okkar fyrstu ferð. Fórum fjórar ferðir saman í kalda. Kom heim upp úr klukkan tólf. Tveimur tímum seinna skruppum við Oddur í Krónuna við Fiskislóð.
25.3.24
Dymbilvika
Fór á fætur um sjö leytið. Upp úr klukkan hálftíu var ég mætt í sundið á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Við fórum fjórum sinnum saman í þann kalda, einu sinni í gufu og einu sinni í sjópottinn þar sem við hittum eina systur hennar og yngstu mágkonu mömmu. Þær ferðir sem vinkonan fór í heitasta pottinn fór ég í nuddpottin og þann næst heitasta. Svo tók ég auka ferð í gufuna. Var komin heim um hálftólf leytið og fór ekkert aftur út.
24.3.24
Pálmasunnudagur
Vaknaði um hálftvö leytið í fyrrinótt og varð andavaka eitthvað fram eftir nóttu. Veit ekki hvenær ég sofnaði loksins en klukkan var nýorðin átta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Var komin í sund upp úr klukkan hálfníu. Rútínan tók tæpan einn og hálfan tíma. Kom heim um tíu leytið og var svo mætt til esperanto vinkonu minnar um ellefu. Okkar rútína tók líka um einn og hálfan tíma. Um miðjan dag skrapp ég í tæplega 4km göngum um Öskjuhlíð. Bræðurnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom heim úr þeirri 50 mínútna göngu.
23.3.24
Upptalningar
Ætlaði mér að vera í fyrra fallinu í sundið í gærmorgun en ég var ekki farin af stað um tíu þegar önnur úr kortadeildinni hringdi í mig. Hún var aðallega að láta mig vita að ég ætti páskaegg frá starfmannafélaginu. Spjölluðum í amk korter og svo leið góð stund áður en ég dreif mig loksins af stað í sundið. Tók með mér sjampó og höfuðhandklæði. Synti 500 metra, þar af helminginn á bakinu. Fór 2x3 mínútur í kalda, gerði æfingar í nuddpottinum, gufunni og sjópottinum. Kom heim um hálftvö leytið. Seinni partinn skrapp ég svo í hálftíma göngu.
22.3.24
Föstudagur
Það verður að viðurkennast að ég verð stundum dagavillt þessi misserin. Og þegar ég sá að það var kaffi í boði í afgreiðslurýminu í Laugardalslaug í gærmorgun velti ég því fyrir mér hvort það væri kominn föstudagur. Ég hugsaði líka um hvort ég ætti að falla í freistni því kaffimálin voru svo pen. En ég hvarf þó fljótt frá þeirri hugmynd. Er alls ekki búin að ákveða að ég sé alveg hætt að drekka kaffi (og hvítvín). Ákvörðunin er frekar sú að ég er í pásu og hvenær sú pása verður yfirstaðin hef ég ekki alveg ákveðið. Annars synti ég 500m í gær og gerði æfingar í 42°C pottinum, gufunni og sjópottinum. Var í sundi milli tíu og hálftólf. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni. Um hálftvö skrapp ég í rúmlega 2km göngutúr. Það var hressandi, smá rigning og ekkert svo mikil ferð á logninu.
21.3.24
Sund, bókasafn og göngutúr
Heyrði í N1 syninum fara út úr húsi um sjö. Ég fór á fætur skömmu síðar. Klukkan var farin að ganga ellefu þegar ég dreif mig loksins í sund. Svipuð rútína og daginn áður nema ég byrjaði á að skella mér í kalda og fór ekki á braut fyrr en eftir 2x3mínútur í kalda og nokkrar mínútur í nuddpottinum. Eftir 500m skellti ég mér þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu í tíu mínútur, kalda sturtu og sjópottinn í aðrar tíu mínútur og tók svo eina dýfu í kalda pottinum áður en ég fór upp úr. Kom við í bókasafninu og skilaði skammtímalánsbókunum. Tók þrjár bækur með mér heim þrátt fyrir að vera með þrjár heima. Ein af þeim sem kom með mér heim var ljóðabók sem fékk nýlega Tómasar Guðmundssonar verðlaunin; Örverpi eftir Birnu Stefánsdóttur. Las hana strax í gær. Um fimm leytið skrapp ég í stuttan göngutúr.
20.3.24
Áfram gakk
Ég var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Tveimur tímum síðar skutlaðist Oddur með mig upp í Fossvog þar sem ég átti þriðja tímann hjá sjúkraþjálfa klukkan hálftíu. Lærði fleiri æfingatrix, mælingar voru betri en í síðustu viku en sjúkraþjálfinn mælti ekki með að ég færi að vinna fyrr en eftir páska. Finn það svo sem alveg sjálf að ég er ekki alveg tilbúinn þótt allt stefni í rétta átt. Fékk nýjan tíma á miðvikudaginn í næstu viku. Á leiðinni heim komum við við í Öskjuhlíðinni til að jafna loftþrýstinginn á dekkjunum. Um hálfeitt leytið dreif ég mig svo í sund. Synti 500m, fór 2x3 mínútur í kalda, eina ferð í nuddpott, gufu og sjópott. Í vatninu og gufunni ganga æfingarnar mun betur, bjúgurinn hverfur og stirðleikinn minnkar. Finn og veit að ég er að styrkjast en þarf enn um sinn að finna þessa línu milli þess að komast að þolmörkum og aðeins lengra en fara ekki yfir strikið. Það verður sjálfsagt svoleiðis næstu vikurnar. Best að halda áfram dag í senn, ekki að hugsa um það sem liðið er og vera bara í núinu.
19.3.24
Snjór
Fór í sund um tíu í gærmorgun. Hitti einn frænda minn og konu hans þegar ég var á leiðinni í kalda pottinn eftir 400m sund. Spjallaði aðeins við þau. Hitti svo frænda minn aftur í sjópottinum þegar ég var búin að fara tvær ferðir í kalda, eina í nudd pottinn og eina í gufuna. Var komin heim um tólf. Einhverra hluta vegna varð svo ekkert af göngutúr í gær en ég prjónaði smávegis.
18.3.24
Enn lífsmark í nýjasta gosinu
Vaknaði frekar snemma í gærmorgun. Var komin á fætur um hálfátta. Rétt fyrir tíu var ég komin í sund, alveg á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Þegar við vorum í okkar þriðju ferð í kalda mætti ein systir hennar og miðjunafna mín á svæðið. Hittum hana í sjópottinum þegar við vorum búnar að fara í gufu. Þær tvær og ein til sungu afmælissönginn fyrir mig. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fórum við í steina pottinn í smá stund. Svo kvaddi systirin en við Hrafnhildur fórum fimmtu ferðina í þann kalda og aðra ferð í gufuna. Hún kvaddi svo aðeins á undan mér. Ég var komin heim um tólf. Hringdi í pabba um hálftvö. Helga systir hringdi í mig um þrjú leytið og skömmu síðar skrapp ég í smá göngutúr. Um sex leytið eldaði ég mér einfaldan bleikjurétt. Annars vorum við Oddur að horfa á alls konar þætti. Davíð Steinn kom heim úr vinnu rétt fyrir átta. Hann á frívakt í dag og á morgun og næstu helgi.
17.3.24
Afmælisdagurinn sjálfur
Það eru 20.454 dagar síðan ég fæddist eða 56 ár. En aðeins um gærdaginn. Var komin snemma á fætur eða upp úr klukkan sex. Vafraði um á netinu, prjónaði smá og hitti á N1 soninn áður en hann fór í vinnuna. Var mætt í sund um hálfníu leytið. Synti 400m, fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í nuddpottinn, einu sinni í sjópottinn og endaði í gufunni. Var komin heim aftur um tíu. Klukkutíma síðar skrapp ég til esperanto vinkonu minnar. Stoppaði hjá henni til klukkan að verða tvö því fljótlega eftir að við vorum búnar að lesa tilbúna tungumálið kom dóttir hennar í heimsókn með dætur sínar tvær. Ég var að hitta yngri stelpuna í fyrsta sinn. Hún var frekar hissa að sjá mig en ég fékk samt bros áður en ég fór. Hinar þrjár mæðgurnar sungu fyrir mig afmælissönginn degi fyrirfram, sú yngsta af þeim varð 4 ára í endaðan október. Og svo fór að gjósa enn og aftur á Sundhnjúkagýga svæðinu í gærkvöldi.
16.3.24
Afmælishelgi
Var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu og glas af sítrónuvatni settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. N1 sonurinn kom fram um sjö og dreif sig skömmu síðar í vinnuna. Eftir netvafrið og smá blogg slökkti ég á tölvunni og færði mig yfir í stólinn. Tók fram prjónana og prjónaði sennilega í uþb 500 lykkjur. Þá var loksins komið að fyrstu æfingalotu dagsins. Það er reyndar alveg ágætis æfing að prjóna. Klukkan var að verða ellefu þegar ég dreif mig loksins í sund. Synti 500 metra, þar af um 150m á bakinu. Fór aðeins tvisvar í kalda pottinn, tvisvar í sjópottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í 42°C pottinn. Gerði æfingar í gufunni og heitu pottunum. Þvoði mér um hárið eftir sundið og kom svo við með bílinn á smurstöð á leiðinni heim. Hann var síðast smurður í janúarlok í fyrra. Fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim. Var að horfa á alls konar þætti með Oddi en tók fram prjónana öðru hvoru.
15.3.24
Morgunhæna/fiskur
Rumskaði um fimm leytið í gærmorgun en tókst að sofna aftur eftir að hafa tappað af blöðrunni. Var komin á fætur upp úr klukkan átta. Byrjaði á því að vafra um á netinu. Tók svo fram prjónana í stutta stund áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Um ellefu var ég mætt í sund. Synti 400m fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í nudd pottinn, einu sinni í gufu og endaði í smá stund í sjópottinum. Gerði æfingar bæði í nudd pottinum og í gufunni. Þegar höndin er búin að mýkjast upp get ég komið þumlinum aðeins lengra en að rótum löngutangar svo þetta er allt í rétta átt. Bjúgur og bólgur eru smá vandamál, bæði fyrst á morgnana og eins þegar fer að líða á daginn. Það kemur reyndar alltaf far eftir úlnliðshlífina sem ég nota aðeins þegar ég er á ferðinni utandyra (nema að sjálfsögðu í sundinu). Kom heim um hálfeitt og skömmu síðar kom Oddur fram. Rúmum klukkutíma síðar fórum við mæðgin vestur í bæ, á Fiskislóð. Keyptum þvott á bílinn áður en við fórum í Krónuna að versla. Oddur sá um að setja í pokana og bera þá fyrir mig. Ég gekk svo sjálf frá vörunum þegar heim var komið.
14.3.24
Sund og göngutúr
Í fyrrinótt svaf ég í einum dúr í rúma átta tíma, eiginlega tæpa níu. Var sofnuð fyrir ellefu á þriðjudagskvöldið og vissi næst af mér klukkan hálfátta í gærmorgun. Sú hægri er alltaf stirð og bólgin fyrst á morgnana. Byrjaði á netvafri og tölvustund fyrstu þrjú korterin eftir að ég var komin á fætur. Prjónaði svo tvær umferðir, meira en hundrað lykkjur, áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Var eitthvað að gæla við það að skreppa aðeins í sjóinn og bjó mér því til hafragraut um hálfellefu. Skipti svo um skoðun og var komin í Laugardalinn um eitt. Synti 400m á tuttugu mínútum og var í minni annarri ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti óvænt á svæðið. Saman fórum við þrjár ferðir í kalda, sátum góða stund á stólum og sóluðum okkur og fórum auk þess eina ferð í sjópottinn. Ég fór ekki með henni í heitasta pottinn en fór í staðinn í nuddpottinn, 42°C pottinn og gufuna. Gerði æfingar bæði í heita pottinum og í gufunni. Klukkan var byrjuð að ganga fjögur þegar ég fór upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Heilsuhúsinu í Kringlunni á leiðinni heim. Um sex leytið skrapp ég svo í smá göngutúr og var langt komin með hringinn sem ég fór þegar ég hitti á hjón sem ég þekki skammt frá húsi blindra félagsins. Þau voru að koma af fundi þaðan. Spjölluðum í amk tíu mínútur og sjálfvirka kerfið í símanum tók saman gönguferðina þar en skráði ekki þann stutta spöl sem eftir var heim. En skrefin skráðust engu að síður og þau fóru yfir 5000 eftir gærdaginn.
13.3.24
Sjúkraþjálfun og sund
Aftur var ég vöknuð einum of snemma og komin á fætur fyrir klukkan hálfsjö. Hitti því aðeins á N1 soninn áður en hann fór í sína vinnu. Oddur kom fram um hálfníu. Hann skutlaði mér upp í Fossvog og fór svo að sinna erindum á meðan ég hitti sjúkraþjálfan um hálftíu. Þurfti ekkert að borga þar sem ég er komin á núllið þennan mánuðinn. Sumar mælingar stóðu í stað og það þótt ég væri búin að vera að gera mínar æfingar í viku. Ég var svolítið bólgin og var sett aftur í bjúgdæluna. Lærði nýjar æfingar, mælingarnar voru betri í lok tímans og ég fékk nýjan tíma í næstu viku. Fór beinustu leið heim eftir tímann og hvíldi mig í hátt í tvo tíma. Um hálftvö leytið lagði ég af stað í sund. Þarf enn að nota vinstri til að setja bílinn í gang. Í sundi synti ég 400m, fór 3x 2-3 mínútur í kalda, 2x í sjópottinn, einu sinni í nuddpottinn og einu sinni í gufuna. Rútínan tók yfir klukkustund og ég var komin heim aftur fyrir klukkan fjögur. Er annars byrjuð að lesa hina skammtímaláns bókina; Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson.
12.3.24
Sundferð og tveir göngutúrar
Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um hálfsjö leytið. Var búin að gera eina umferð af æfingum þegar ég fór í sund á ellefta tímanum. Synti 300m fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í nudd pottinn, einu sinni í sjópottinn og gerði aðra lotu af æfingum í gufunni. Kom heim um tólf. Kláraði bókina sem ég skrifaði um í gær og fór í stutta göngu um hálftvö, rétt um kílómetra. Um fimm leytið fór ég í aðeins lengri göngu sem var þó ekki nema 2,2km.
11.3.24
Prófaði bílinn alein og sjálf
Um eitt leytið á föstudaginn var skrapp ég á bílnum í heimsókn til esperanto vinkonu minnar. Þurfti að nota vinstri til að gangsetja bílinn en að öðru leyti gekk allt vel. Við vinkonurnar fengum okkur te og eftir smá spjall ákváðum við að fara í stuttan göngutúr áður en við kíktum í esperanto bækurnar. Heimsóknin varði því í rúma tvo tíma. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni.
Á laugardaginn hafði ég hugsað mér að skreppa aftur í sund en ekkert varð af því. Í staðinn fór ég í fjörutíu mínútna göngutúr fyrir hádegi en var svo að lesa, horfa á bikarúrslitaleiki og þætti eftir hádegi og fram á kvöld. Í gærmorgun var ég búin að mæla mér mót við kaldapotts vinkonu mína um tíu. Var eitthvað að spá í að mæta aðeins fyrr og synda smá en hvarf svo frá þeirri hugmynd. Aftur þurfti ég að gangsetja bílinn með vinstri. Var mætt í í Laugardalinn rétt fyrir tíu. Hitti sjósunds vinkonu mína í sturtunum á leiðinni út. Hún fór beint að synda en ég í þann kalda. Kalda potts vinkona mín var búin með tvær ferðir. Saman náðum við tveimur ferðum en ég fór ekki með henni í heitasta pottinn. Eftir aðra ferðina mína í kalda pottinn fór ég í sjópottinn þar sem ég hitti yngstu mágkonu mömmu. Synti ekkert í gær en eftir þriðju ferðina í kalda fór ég í gufu áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið.
Tvær af fimm bókum af safninu eru með fjórtán daga skilafresti. Önnur af þeim er Þögli fuglinn eftir Mohlin & Nyström. Nokkuð yfir 500 blaðsíður. Er langt komin með lesturinn á henni enda mjög spennandi og aldrei þessu vant er ég aðeins að lesa eina bók í einu.
8.3.24
Aftur í sund í gær
Var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Á níunda tímanum var hringt í mig frá 7C og mér tilkynnt að sjúkraþjálfunartíminn félli niður vegna veikinda. Ég er skráð í tíma nk þriðjudag og þá reikna ég með að fara í amk einn tíma í viðbót. Upp úr klukkan hálfníu bankaði ég á herbergisdyrnar hjá Oddi og sagði honum að skutlið á LHS félli niður. Hann kom svo fram upp úr hádeginu. Um hálffjögur leytið skutlaðist hann með mér á bókasafnið. Skilaði öllum sjö bókunum og þurfti svo að endurnýja skírteinið áður en ég tók mér fimm bækur í staðinn. Næst lá leiðin í Laugardalinn þar sem sonurinn skildi mig eftir um hálffimm. Var búin að synda 300m (mjög rólega), fara tvisvar sinnum í kalda, einu sinni í 42°C og var í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Saman náðum við einni ferð í kalda og smá stund í gufunni áður en ég kvaddi. Oddur var kominn aftur að sækja mig þegar ég kom út upp úr klukkan hálfsex.
6.3.24
Kaldi potturinn í Laugardalslaug heimsóttur í dag
Var vöknuð um fimm leytið í morgun enda var ég sofnuð fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Fór á fætur upp úr klukkan sex. N1 sonurinn fór í vinnu um sjö leytið. Hinn sonurinn kom á fætur um átta og hann skutlaði mér upp á LHS í Fossvogi þar sem ég átti tíma í röntgen á G3 fyrir klukkan níu og viðtalstíma hjá lækni korter yfir níu. Myndirnar komu þokkalega vel út. Fékk samt mánaða framlengingu á veikindavottorði en ég má byrja að vinna innan þess tíma ef ég treysti mér til. Oddur beið í bílnum út á plani þessi þrjú korter sem ég var í fyrrgreindum erindum. Hann skutlaði mér á vinnustaðinn minn og skildi mig eftir þar því ég ætlaði að stoppa eitthvað og var þar að auki með sunddótið meðferðis. Um ellefu leytið labbaði ég yfir í Laugardalslaug. Synti 200 metra bringusund, mjög rólega, fór tvisvar sinnum mínútu í 7°C kalda pottinn, einu sinni nokkrar mínútur í gufuna og nokkrar mínútur í sjópottinn. Var komin upp úr og út úr skiptiklefanum rúmlega tólf. Þá hringdi ég í Odd sem sótti mig skömmu síðar.
5.3.24
Bjúgsuguvél
Einhvern veginn leið gærdagurinn án þess að ég færi út í labbigöngutúr. Var komin í rúmið um tíu leytið og sofnaði fljótlega. Vaknaði þar af leiðandi alltof snemma en tókst að kúra til klukkan að ganga sjö. Fór í sturtu og var búin að vera á fótum í hátt í tvo tíma þegar Oddur Smári kom fram. Um hálfníu leytið skutlaði hann mér á LHS í Fossvogi þar sem ég fór í minn allra fyrsta sjúkraþjálfunartíma á 7C milli 8:50 og 9:25. M.a. setti ég löskuðu, stirðu og bólgnu hendina í svo kallaða bjúgsuguvél. Sjúkraþjálfarinn bókaði mig svo í tvo tíma í biðbót en eftir þriðja tímann, sem verður í næstu viku, verður metið hvort ég þurfi fleiri tíma. Oddur beið eftir mér í gjaldfrjálsustæði. Skruppum á AO við Sprengisand og í Krónuna í Skeifunni áður en við fórum heim. Fyrirmælin frá sjúkraþjálfaranum voru þau að hvíla hendina í tvo tíma. Bjó mér til hafragraut í hádeginu og skrapp svo í hálftíma göngutúr um tvö leytið.
4.3.24
Mánudagur
Er alveg hætt að nota spelkuna enda var hún farin að meiða mig. Sef alveg róleg þótt úlnliðurinn sé "nakinn" en ég er alltaf stirð og bólgin þegar ég vakna á morgnana. Það var svo sem líka þegar ég var með spelkuna. Annars tókst mér að fitja upp á það sem kannski verður að sjali og prjóna örfáar umferðir í gær. Fór í góða göngutúra bæði í gær og á laugardaginn. Er meðvitað farin að nota þá hægri mun meira. Get td tannburstað mig með henni en skipti fljótlega yfir í að nota þá vinstri. Þumall á ólaskaðri hendi á að komast að rótum litlafingurs. Ég kemst að rótum löngutangar þeas ef ég er ekki of bólgin og stirð. Það verður fróðlegt að fara í sjúkraþjálfun í fyrramálið og þá er ég einnig spennt að vita hvað kemur út úr röntgenmyndatökunni á miðvikudagsmorguninn.
2.3.24
Klipping
Fór ekki í göngutúr gærdagsins fyrr en um þrjú. Þá kom ég við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni í klippingu hjá Nonna. Í fiskbúðinni keypti ég harðfisk, bæði óbarna ýsu og lúðu og 600gr af ýsuflökum. Var svo komin til Nonna í Quest - Hair, Beer & Whisky Saloon tuttugu mínútum á undan áætlun. Komst að tíu mínútum síðar og bað fyrst um hárþvott. Svo urðum við Nonni sammála um að taka amk 8-10cm af hárinu. Það er samt hægt að taka það upp í snúð. Viðurkenni vel að það var freistandi að láta snoða mig til að létta mér aðeins lífið svona hálf handónýt. En á endanum varð sú hugsun ofan á að það að setja teygju í hárið er ágætis þjálfun. Ég á líka frekar að vera dugleg að nota hendina heldur en að hlífa henni of mikið. Festi næsta klippitíma fyrsta föstudaginn í október og hringdi svo í Odd og bað hann um að sækja mig.
1.3.24
Nýr mánuður
Í göngutúr gærdagsins kom ég við í apótekinu í Suðurveri og fjárfesti í úlnliðshlíf og kæli/hita geli/sokk. Var með spelkuna á göngunni en tók hana af mér um leið og ég kom heim aftur. Tók tvær æfingalotur fyrir hádegi með rúmlega tveggja tíma millibili. Stuttu fyrir klukkan tvö skutlaði Oddur mér vestur í bæ í minn fyrsta esperantohitting á þessu ári. Lásum tvær og hálfa blaðsíðu, spjölluðum, drukkum te og hún sýndi mér nokkrar myndir af barnabörnunum. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég hringdi aftur í Odd til að sækja mig. Það kom svo í ljós í gærkvöldi að ég er ekki alveg orðin fær um að prjóna strax. Rétt tókst að fitja upp á nokkrum lykkjum en það var enn snúnara að reyna að prjóna. Í staðinn setti ég á mig kælisokkinn utan um úlnliðinn eftir að hafa haft gelpokana í frysti. Og svo var ég dugleg að nudda örið inn á milli.