31.1.24

Inniveður

Er ennþá að passa upp á hægri höndina og pikka bara með vinstri. Fimmtidagsmorguninn 25. sl. fékk ég tvær hringingar. Báðar tengdust aðgerðinni sem ég var að bíða eftir að verða kölluð í. Rétt fyrir átta morguninn eftir skutlaði Oddur mér í Fossvoginn. Tekið var á móti mér á A5. Skipti um fatnað, fékk verja lyf, var spurð út úr og svo sagt að pissa milli hálfníu og níu. Fór á salernið korter fyrir níu og þegar ég kom fram aftur var rúmið "mitt" farið en það beið eftir mér manneskja sem klæddi mig í slopp og fylgdi mér svo á skurðstofuna. Hún tók svo sloppinn og skildi mig eftir í umsjón alls konar aðgerðatendra aðila. Ég var látin leggjast með hendurnar út frá líkamanum, spurð meira, æðaleggur settur í vinsra handarbak, þrepin útskýrð, fékk súrefni, deyfi og svefnlyf. Næst man ég eftir mér uppi á vöknun á 6. hæð rúmum klukkutíma síðar. Þá var ég komin í mónitor. Var spurð hvort ég væri verkjuð. Ég fann fyrir þreytu fyrst og fremst en skömmu síðar fann ég fyrir verk og fékk lyf í gegnum brunninn. Þarna var ég í um þrjár klukkustundir. Um eitt leytið var búið að taka mig úr mónitornum og það kom maður sem "keyrði" mig aftur niður á A5. Þar tók hjúkrunarfræðingurinn Edda aftur á móti mér, vökvi settur upp og ég spurð hvort ég vildi samloku eða jógurt. Meðan ég var að hugsa mig um þáði ég orkudrykk. Um hálfþrjú hafði ég loksins valið en sem betur fer var úrvalið búið og ég fékk ristað brauð með osti í staðinn og einnig vatn. Man ekki alveg hvort annar læknirinn sem gerði aðgerðina talaði við mig áður eða eftir að ég var loksins búin að pissa. En ég man amk að klukkan var að verða hálffjögur þegar ég fór loksins á klósettið. Losnaði við brunninn um fjögur og klæddi mig hjálparlaust. Var samt amk 10-15 mínútur að því ég fór mjög rólega að. Davíð Steinn sótti mig upp úr klukkan hálffimm og við komum við í apóteki á leiðinni heim. Hægri hendin var öll dofin og ég var með fyrirmæli um að ég ætti að taka inn verkjalyf um átta leytið. Hringdi í pabba og sat svo fyrir framan imbann langt fram eftir kvöldi.

23.1.24

Smá bakslag

Það kom aðeins á mig við fréttirnar eftir fimmtu röntgenmyndatökuna í gær. Gliðnun það mikil að nú er ég að bíða eftir að verða kölluð inn í aðgerð þar sem plata verður sett inn í úlnliðinn til að styðja við og hjálpa þessu að gróa rétt og betur saman. Sá sonurinn sem sótti mig eftir þessar fréttir fékk svo að skutla mér á Hárhornið til Lilju sem þvoði mér um hárið og fléttaði fasta fléttu. Strákarnir okkar náðu svo sínum bestu úrslitum á EM í handbolta er þeir unnu Króata í fyrsta sinn á stórmóti, 35:30.

21.1.24

Bara örstutt

Það er kominn sunnudagur, tvær vikur síðan ég datt (16. dagurinn). Þótt strákunum okkar hafi ekki gengið vel á EM er búin að vera mikil handboltaveisla og uþb vika eftir af þeirri veislu. Hef einnig horft á alls konar þætti sem og lesið. Það kom í ljós að ein bókin af safninu, þriðja bókin um Fimmtudagsmorðklúbbinn, er með 14 daga skilafresti. Ég er hálfnuð með hana en einnig að lesa tvær aðrar bækur. Aðra af þeim bókum á ég sjálf, nýjasta bókin eftir Lilju Sigurðardóttur. Tíminn líður nokkuð hratt. Á tíma á G3 upp úr hádegi á morgun og á þá vonandi bara eftir að þurfa hafa gipsið í 3 vikur í viðbót. 

18.1.24

Fer líklega ekki út í dag

Undanfarna viku hef ég skroppið út daglega í 10-30 mínútna göngutúra. Síðast liðinn föstudag skráðust reyndar tveir "sprettir" á mig þegar ég skrapp á Hárhornið og fékk hárþvott og fasta flettu hjá Lilju sem er systir Ingva mágs míns. Fór út fyrir hádegi í gær, 2,5 km á 30 mínútum. Var að spá í að fara aftur eftir hádegi en EM náði mér alveg áður. Synir mínir skruppu saman í Sorpu, Krónuna við Fiskislóð og Fiskbúð Fúsa á mínum bíl milli þrjú og hálffimm. Ég eldaði sjálf ofan í mig í gær, ýsu með rósakáli og gulrót. 

16.1.24

Áfram gakk, varlega þó

Vaknaði frekar snemma í gærmorgun. Oddur skutlaði mér að bráðamóttökunni í Fossvogi. Ég fór upp á 3G og skráði mig inn. Fór fyrst í myndatökuröðina. Ferlið gekk ágætlega, smá bið en ekki svo löng. Staðfest var að seinni togunin hafði gert sitt gagn en þarf þó að koma aftur eftir viku. Gipsið var aðeins lagað og ég fékk vottorð um að ég væri óvinnufær. Oddur sótti mig um tíu leytið og hafði bókasafnspokann með sér. Skiluðum fjórum bókum af fimm og ég kom með fimm með mér heim.

14.1.24

Sögulegur dagur

Punktar:

* Eldgos hófst rétt norðan Grindavík um átta í morgun
* Í hádeginu opnaðist sprunga innan varnagarðs
* Hraun hefur náð amk þremur húsum

* Friðrik X tók við krúnunni í Danmörku

* Ísland marði eins marks sigur á Svartfjallalandi á EM í Þýskalandi
* Í gærkvöldi gerðu Færeyingar jafntefti við Norðmenn á sínu fyrsta stórmóti


10.1.24

Starfsafmæli

 í dag eru 24 ár síðan ég hóf störf hjá RB. Smá fúlt að geta ekki verið í vinnu en þýðir lítið að fást um það.

8.1.24

Brotin

Davíð Steinn kom heim úr vinnu um átta í gærkvöldi. Hann gerði smá test á mér varðandi löskuðu höndina og sagði strax að best að láta líta á þetta. Hann skutlaði mér á læknavaktina. Eftir klukkutíma bið komst ég að. Læknirinn var fljótur að ákveða að ég þyrfti að fara á bráðamóttökuna til að láta taka röntgen. Hringdi því í ákveðna soninn sem kom fljótlega og skutlaði mér. Var komin þangað um hálftíu. Þegar ég kom heim aftur um eitt leytið var ég búin að fara í 3 myndatökur, fá verkjalyf, tvær deyfingar, tvær toganir og tvö gips. Seinni togunin og gipsið var gert til þess að ég sleppi mögulega við frekari inngrip. Það mun koma í ljós við endurkomu eftir viku.

7.1.24

Úr leik í bili

Eftir pomms á bossan og hægri hendina, nánast úr kyrrstöðu, á planinu hjá pabba um miðjan dag í gær er ég handlama.  Mjög líklega bara verulega slæm tognun en ég nota amk ekki hægri höndina mjög mikið næstu daga. Pabbi skutlaði mér heim eftir hádegi í dag og Oddur fór með honum austur til að sækja bílinn minn. 

6.1.24

Rífandi stemming í sjónum seinni partinn í gær

Vaknaði um sex, í gærmorgun, eftir samfelldan uþb átta tíma svefn. Morgunrútínan var hefðbundin og eins og oftast áður var ég mætt í vinnu um hálfátta. Korteri síðar var ég byrjuð á innleggjunum. Fyrirliðinn og fyrrum fyrirliði voru í kortaframleiðslu til hádegis en komu svo í innleggin eftir hádegi. Um hálfþrjú fór ég í að bunka upp og hreinsa gullið og sú sem er að sjá um hraðbankamálin kom inn í það verkefni svo við náðum að klára á klukkutíma. Stimplaði mig út um klukkan korter í fjögur og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Var fimm mínútur í 0,2°C sjónum og tæpan hálftíma í heita pottinum áður en ég fór upp út og heim. Hringdi í Odd þegar ég var komin í stæði í götunni. Hann var þá þegar búinn að fara og skipta inniskónum sem ég gaf honum í jólagjöf í tveimur númerum stærra svo hann passaði betur í þá. Pabbi og Davíð Steinn pössuðu báðir í sína skó. Áður en ég fór inn úr bílnum hringdi ég í Lilju vinkonu og spjallaði við hana í dágóða stund.

5.1.24

Er strax að koma helgi?

Tvisvar sinnum þurfti ég á salernið í fyrrinótt. Fyrst um hálftvö og svo aftur tveimur tímum seinna. Svefninn lét eitthvað standa á sér á tíma bili milli ferða og fyrsta limran varð til á þessu bili. Það var samt einhver góð ró yfir mér enda hafði ég ekki neinar áhyggjur af þessu tíma bili. Var komin á fætur um sex og mætt í vinnu um hálfátta. Byrjuð á innleggjum fyrir klukkan átta. Öll kortadeildin vann að innleggjum í gær. Fyrirliðin skrapp þó aðeins niður í kortadeild til að hlaða inn nýjustu tölum og fyrrum fyrirliði undirbjó framleiðsluskjöl. En nú er aðeins framleitt tvisvar í viku, á miðvikudögum og föstudögum. Nóg var að gera í innleggjum alveg til klukkan að ganga þrjú. Þá tóku við önnur verkefni næsta klukkutímann eða svo. Var komin í sund rétt rúmlega fjögur og það hittist svo vel á að kalda potts vinkona mín hafði mætti skömmu áður svo við hittumst í kalda pottinum í okkar fyrstu ferð. Ég fór beinustu leið í þann kalda á meðan hún hafði náð að skreppa aðeins í heitasta pottinn fyrst. Í næstu ferð í kalda pottinn mætti ein systir hennar. Hittum hana í 43°C pottinum. Eftir þriðju ferðina í þann kalda fórum við í gufu og svo í sjópottinn og svo loka ferðina í þann kalda. Eftir það skildu leiðir. Þær systur fóru í steina pottinn en ég á braut sjö og synti 400m á tæpum tuttugu mínútum. Var komin heim um sex. 

4.1.24

Ákveðni

Vaknaði aftur rétt upp úr klukkan sex. Hafði tíma í netvafr áður en ég dreif mig í vinnuna. Var byrjuð að vinna innlegg fyrir klukkan átta. Nóg var að gera alveg til klukkan að verða fjögur. Rúmum klukkutíma áður en ég stimplaði mig út, svona um hálfþrjú leytið, gerði ég smá tilraun. Fékk mér hálfan banana. Um það leyti sem ég var að fara úr vinnu byrjaði að ólga í maganum á mér. Ákvað því að það væri skynsamlegast að fara beinustu leið heim. Heima framlengdi ég skilafresti á einni bók sem annars hefði þurft að skila í vikulokin. Er reyndar búin að lesa þá bók en ég taldi rétt að bíða með bókasafnsferð þar til ég væri amk búin að lesa fleiri bækur af safninu svo ég myndi nú ekki falla í freistni. Póstaði líka á húsfélagsgrúppu okkar húsfélags og lét vita af stöðunni á sjóðnum og hvernig hann skiptist. Var komin í rúmið um hálftíu og kláraði að lesa eina af þremur ólesnum bókum af safninu á um klukkutíma.

3.1.24

Þrír dagar að verða liðnir af 2024

Vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun, alveg hissa á að komin væri morgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Þessa vikuna er ég bara í innleggjum og ég var byrjuð fyrir klukkan átta. Það var nóg að gera og entist innlagnar verkefnið alveg til klukkan hálffjögur. Þá fórum við tvær í að byrja að hreinsa gullið á meðan stóra peningavélin var enn að japla á innleggjunum. Við náðum að klára að hreinsa yfir hundraðogfjörutíu bunka og vera á undan. Það tók okkur klukkutíma. Ég fór beinustu leið í sund og hitti kalda potts vinkonu mína í minni fyrstu ferð í kalda pottinum þegar hún var að fara í sína fjórðu ferð. Tókum þrjár ferðir áður en við fórum í gufu. Enduðum svo í sjópottinum. Ég synti semsag ekki neitt í gær. Var komin heim rétt upp úr klukkan sex. 

2.1.24

?

Gærdagurinn, taka tvö: Var komin á fætur um átta. Bjó mér til hafragraut á tíunda tímanum. Mætti í Nauthólsvík sjö mínútum fyrir opnum. Var komin í sjóinn sjö mínútm yfir ellefu. Fór tvisvar í -0,5°C sjóinn og gufuna inn á milli. Dýfði mér svo aðeins í lónið áður en ég fór í heita pottinn. Dvaldi ekki lengi og laumaði mér í burtu og heim þegar fólk fór að streyma að fyrir alvöru. Hringdi í pabba á leiðinni heim. Heima dundaði ég mér við ýmislegt fram eftir degi og fram á kvöld. Var komin í rúmið upp úr klukkan hálftíu.

1.1.24

Tek vel á móti nýju ári

Svaf næstum því átta tíma án þess að rumska neitt við að hlandblaðran vildi láta tæma sig. Hlandblaðran sá þá líka til þess að ég var ekkert að kúra lengi eftir að ég vaknaði. Klukkan var að verða átta og tími til að fara á fætur og huga að því að skreppa í sund. Það tók mig nú rúmlega klukkustund að koma mér af stað í sundið en ég var mætt í Laugardalslaug áður en klukkan sló hálftíu. Fór beinustu leið í kalda pottinn og þegar ég var að fara upp úr honum hitti ég konu sem ég kannast við. Hún var eiginlega á leiðinni upp úr en ákvað að staldra smá stund við til að spjalla. Fórum í næsta pott við hliðina á þeim kalda og 2x2 mínútur í kalda pottinn. Eftir aðra ferðina í 42°C pottinn kvaddi hún. Ég fór mína fjórðu ferð í kalda áður en ég fór á braut 7 og synti 500m, helminginn á bringunni og hinn helminginn á bakinu. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fór ég í gufuna, þaðan í sjópottinn eftir kalda sturtu og svo uþb mínútu í kalda pottinn. Settist smá stund á stól úti áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Sjampóið mitt varð eftir heima en ég notaði sápuna  sem boðið er upp á í laugunum. Eftir sundið skrapp ég í Hagkaup í Skeifunni. Fór aðallega þangað til þess að athuga hvort ég fyndi vikuna með völvuspánni. Ef hún kom út var blaðið amk ekki til í Hagkaup. Ákvað samt að versla mér grænmeti og smotterí fleira áður en ég fór heim. Klukkan var að verða eitt þegar ég kom heim. Hafði m.a. keypt mér einn pakka af brauði sem heitir Lífskorn og er úr korni og prófaði að fá mér eina sneið með síld sem ég keypti í Fiskbúð Fúsa sl. föstudag. Það virtist fara alveg ágætlega í magann og fylla hann það vel að ég varð ekkert svöng eða langaði að narta í neitt næstu klukkutímana. Dagurinn leið annars frekar hratt við alls konar dundur. Er samt ekkert farin að grípa í prjónana aftur og hef ekki snert þá í amk þrjár vikur eða lengur. Það hlýtur að koma að því að ég fari að velja mér næsta prjónaverkefni en ég er annars með nóg af lesefni sem ég þarf að gera skil líka. Ein bókin af safninu er með skilafrest til 4. janúar. Gæti reyndar framlengt þessum fresti til að forða mér frá því að sækja fleiri bækur heim í bili. Strákarnir fóru annars til pabba síns og fjölskyldu hans seinni part dags. Ég gufusauð mér sæta kartöflu, brokkolí, rauðkál og grænkál og setti laxabita kryddaða með sítrónupipar og cayenne pipar ofan á síðustu tíu mínúturnar. Þetta var skammtur fyrir tvo amk en þá á ég líka afgang. Stuttu áður en skaupið hófst var ég farin að finna fyrir þreytu. Ég tolldi þó fyrir framan skjáinn á meðan skaupið var en fór svo beinustu leið í háttinn. Las í ca hálftíma eða rétt á meðan mestu áramótaflugeldasprengjurnar voru. Held að ég hafi verið sofnuð um hálfeitt leytið.