Rumskaði á svipuðum tíma og á aðfangadag. Fór á fætur um hálfátta. Pabbi var kominn fram en hafði verið á leiðinni aftur inn í rúm að leggja sig. Hann sat þó í góða stund áfram inn í eldhúsi og við fórum í smá kaplakeppni. Hann lagði sig svo aðeins milli níu og tíu. Um hálfeitt leytið setti ég upp kartöflur og útbjó jafning. Pabbi skar niður hangikjöt og afganginn af léttreykta lambinu og við ræstum tvíburana um eitt. Þegar fór að líða á daginn kom í ljós að það væri betra fyrir strákana að vera rólegir áfram á svæðinu. Pabbi átti bleikjuflök í frysti og lauk, rófu og sæta kartöflu. afhýddi og skar niður grænmetið um fimm leytið. Gufusauð rófuna, mýkti laukinn smá stund í potti en skellti honum svo á pönnuna með bleikjunni. Ég var mjög sátt með þennan kvöldmat og strákarnir kvörtuðu amk ekki og þetta nánast kláraðist. Annars er það helst að frétta að ég kláraði að lesa síðustu bókasafnsbókina. Þvílíkt ævintýri sem sögurnar um og kringum sjö systurnar eru og ég hlakka til að ná mér í bókina um Pa Salt og lesa.
26.12.24
25.12.24
Hátíð í þorpi
Ég rumskaði um það leyti sem pabbi fór af stað í sundið skömmu fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Sofnaði ekki aftur en kúrði upp í rúmi til klukkan að ganga átta. Pabbi kom heim um níu leytið, gekk frá sunddótinu og fór úr íþróttagallanum í önnur föt. Hann sleppti því alveg að leggja sig. Um hálftíu leytið tókum við fram lambahrygginn, krydduðum og settum á eldfastfat í stóran ofnpott inn í ofn á 100 gráðu hita. Þetta var látið malla fram eftir degi og vökvað stöku sinnum. Bræðurnir komu fram í kringum hádegið. Um hálffimm tók Davíð Steinn að sér að skera niður nokkrar kartöflur, og eina sæta, krydda og steikja. Ég bjó til sósu úr soðinu og pabbi lagði á borð. Ekki var sest að borðum fyrr en um hálfsjö þar sem sumir áttu eftir að fara í sturtu rétt fyrir sex. Okkur fannst hryggurinn heldur dökkur og undarlega bleikur inn í. Hann var samt alveg tilbúinn og mjög góður en þegar við grömsuðum eftir umbúðunum í plastruslinu og lásum á kom í ljós að þetta var léttreyktur lambahryggur og hefði líklega átt að meðhöndla allt öðru vísi en við gerðum. En hann var ætur og flestir sáttir. Pabbi og strákarnir hjálpuðust að við að ganga frá. Settumst inn í stofu en geymdum okkur að opna gjafirnar þar til við vorum búin að fá okkur graut um hálfníu leytið. Ég fékk fjórar bækur, þar af tvær frá Davíð Steini. Önnur af þeim er Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason. Veit að þetta er góð bók en hef bara lesið fyrstu bókina sem ég tók af safninu fyrir nokkrum misserum. Er að íhuga að skipta þessari bók út fyrir nýjustu Yrsu bókina. Hinum bókunum ætla ég að halda, segi frá þeim seinna. Er enn að lesa um týndu systurina, rúmlega hálfnuð og hef þá von um að klára hana fyrir áramótin og þá geta skilað henni á safnið án þess að framlengja frestinn. Nú er bara spurnin hvort strákarnir leggja í bæinn seinni partinn eða verða eina auka nótt. Það fer eftir veðri vindum og hvort það verði opnað yfir heiðina.
24.12.24
Aðfangadagur
Vaknaði um hálfsex leytið. Mætti í vinnu tveimur tímum síðar og var byrjuð að vinna innlegg korter fyrir átta. Vinnudagurinn varð akkúrat átta tíma langur. Þá fór ég heim, pakkaði niður, fór tvær ferðir með dótið út í bíl og kvaddi svo nágrannana á neðri hæðinni áður en ég lagði af stað austur. Bræðurnir höfðu farið af stað um tvö leytið og tóku með sér grautinn svo hann myndi nú örugglega ekki gleymast. Fór Hellisheiðina í stað Þrengsla, aldrei þessu vant. Var komin í Löngumýrina milli fimm og hálfsex og stoppaði í rúman hálftíma. Næst lá leiðin í Fossheiðina til tvíburahálfforeldranna. Nokkrum mínútum á eftir mér mætti tvíburahálfsystir mín á svæðið. Þá var búið að leggja á borð fyrir fjóra og ég boðin með í skötuveislu. Ég þáði boðið og lét pabba vita því hann hafði sagt mér, þegar ég lét hann vita að ég væri lögð af stað úr bænum, að ef ég kæmi á Hellu fyrir átta myndi hann bjóða mér á Kanslarann í skötu þrátt fyrir að hann hafi farið þangað í hádeginu. Ég var reyndar komin á Hellu fyrir átta en alveg pakksödd og sæl eftir veisluna í Fossheiðinni. Strákarnir voru komnir um klukkustund á undan mér.
23.12.24
Þorláksmessa
Var vöknuð og komin á fætur milli sex og hálfsjö í gærmorgun. Klukkan var svo rétt að byrja að ganga tíu þegar ég fór á brautir 7-8 í Laugardalslauginni og synti 400m, þar af 100m skriðsund. Kaldi potturinn var því miður lokaður en ég fór í gufu og sjópottinn áður en ég fór upp úr og vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Var komin þangað um hálfellefu og stoppaði í uþb einn og hálfan tíma. Lásum eina bls. í Kon-Tíki eftir að hafa skiptst á jólakortum, fengið okkur graut, hrökkbrauð með síldarsallati, muffins úr möndlumjöli með lítið af sætuefni og te. Var komin heim upp úr klukkan tólf. Restin af deginu fór í alls konar dundur. M.a. þeytti ég rjóma og blandaði við grautinn sem ég bjó til á laugardaginn. Oddur Smári fékk að smakka hann til og ég setti í skál fyrir Davíð Stein. Megnið af grautnum skipti ég í tvær líters fötur undan grískri jógúrt. Auðvitað horfði ég líka á fótbolta. Nú er það bara vinnudagur framundan og svo þarf ég að koma aðeins við hér heima, klára að pakka og bruna svo austur með viðkomu á tveimur stöðum á Selfossi.
22.12.24
4160
Titillinn er talan á þessari færslu, fjögurþúsundeitthundraðastaogsextugasta færslan frá upphafi. Það eru bráðum liðin 22 ár frá því ég byrjaði á þessum vettvangi. Sum árin eru þó ansi rýr meðan önnur eru með færslur upp á hvern einasta dag. En aðeins að gærdeginum. Var vöknuð um sex leytið og þar sem það gekk ekkert að kúra sig niður aftur fór ég á fætur. Klukkan var samt orðin meira en hálfníu þegar ég fór loksins í sund. Synti 700m, aðallega á braut átta. Fór eina fimm mínútna ferð í þann kalda á eftir, 20 mínútur í gufuna og næstum annað eins í sjópottinn. Dýfði mér svo í þann kalda í ca 45sek. áður en ég fór upp úr til að þvo mér um hárið. Skrapp aðeins í Hagkaup og keypti mér frækex og vikuna með völvuspánni. Kom svo við í Álftamýrinni hjá móðurbróður mínum og fjölskyldu hans og færði þeim jólakortið. Þá var klukkan að verða ellefu. Það var tekið mjög vel tekið á móti mér og stoppaði ég við í tæpa klukkustund, var amk komin heim um tólf leytið. Var með það á bak við eyrað að gera mér ferð á Selfoss en í staðinn var ég að sýsla heima við í rólegheitum, bjó til graut úr grautargrjónum og mjólk og á eftir að þeyta rjóma til að bæta við. Held að synir mínir verði glaðir með þetta ef vel tekst til. Lánaði Oddi bílinn um miðjan dag í smá skreppu. Annars var ég að lesa, prjóna, horfa á fótbolta og þætti. Er búin með aðra að þremur bókum sem ég tók síðast af safninu; Grátvíðir eftir Fífu Larsen.
21.12.24
Vetrarsólstöður
Allur vinnudagurinn í gær fór í innlagnir og skjalayfirferð. Sennilega var þetta fyrsti virki föstudagurinn á árinu sem ekki var kortaframleiðsla. Grínuðumst með það í fyrradag að við ættum að telja stöðu plasta á vagni í vikulokin eins og hefð var fyrir en þar sem það var aðeins hreyfing á einni tegund sem við kláruðum alveg sl. miðvikudag var það alveg óþarfi. Munum sennilega telja næst þegar plastinu sem eftir er verður "mokað" út. Vinnudegi lauk um hálfþrjú. Ég var með sunddótið meðferðist en ákvað að byrja á því að reka nokkur erindi fyrst. Hringdi í pabba rétt áður en ég ók frá vinnustað. Hann var staddur á Selfossi að reka einhver erindi. Spjölluðum á meðan ég lagði leið mína í Skipholtið en kvaddi pabba rétt áður en ég keyrði framhjá Fiskbúð Fúsa. Þar virtist vera smá örtröð svo ég ákvað að byrja á því að fara í rúmfatalagerinn í Skeifunni fyrst. Þar fann ég allra síðustu jólagjafirnar. Gerði svo aðra atlögu að Fiskbúð Fúsa og ákvað að leggja bílnum milli Háteigsskóla og kirkju óháða safnaðarin og labba þaðan. Keypti slatta af harðfiski og uþb 400gr af nætursöltuðum gellum. Þegar ég kom í bílinn aftur ákvað ég að kalla þetta gott og skrópa í sundið og fór heim. Þetta var líklega mjög góð ákvörðun því fljótlega eftir að ég kom heim hófst ég handa við að skrifa á síðustu jólakortin og pakka inn jólagjöfunum. Var búin að þessu um sex leytið og slakaði á eftir það. Gellurnar mun ég hafa í matinn annað hvort í kvöld eða á morgun því ég átti chia-graut í ísskápnum sem var nóg í kvöldmatinn fyrir mig.
20.12.24
Heimsókn no. 67
Það ætlar að rætast spá mín um að síðasta kort í kortadeild RB hafi verið framleitt fyrir jól. Reyndar gætu enn komið upp einhvers konar neyðar aðstæður þannig að grípa þurfi til framleiðslu en mér finnst það ólíklegt. Engu að síður verður kortavélin tilbúin í verkefni, ef upp koma, næstu sex vikurnar. Engar beiðnir voru um "nýja" framleiðslu í póstinum í gær og vinnudagurinn minn fór í að vinna innlegg og fara yfir skjöl. Vorum búin um þrjú. Átti pantaðan tíma í heimsókn í blóðbankann rétt fyrir fjögur. Lagði bílnum við Austurbæjarskóla og rölti þaðan og var mætt um hálffjögur. Átti jafnvel von á því að ég fengi ekki að gefa þar sem ég var kvefuð í síðustu viku. Sú sem kallaði mig inn var ung kona, íslensk í aðra ættina og frönsk í hina. Hún hefur verið búsett erlendis meiri hlutann af æfinni en er komin til hingað m.a. til að læra að tala íslensku. Hún fór vel yfir allar upplýsingar og tók m.a. eftir því að ég var á undan áætlun, þ.e. í þeirra skrám verða fjórir mánuðir frá síðust gjöf liðnir 26. n.k. Það munar samt aðeins um viku. Niðurstaðan varð samt sú að ég mætti gefa. Otaði að henni vinstri hendinni en hún fékk líka að þreyfa á þeirri hægri. Hélt sig samt við þá vinstri. Lenti í smá erfiðleikum með að hitta æðina en fékk hjálp og allt gekk að óskum svo ég lagði inn jólablóðgjöf í besta bankann í gær. Kom heim um hálffimm. Davíð Steinn var að pakka inn jólagjöfum og var að því fram eftir kvöldi. Annars kom rafvirki í gærmorgun og var til klukkan að ganga þrjú að draga nýtt í úr nýju töflunni í sameigninni upp í töfluna í íbúðinni minni. Hann var líka að endurnýja rofa.
19.12.24
Sjóbusl í gær
Losaði svefn um fimm leytið í gærmorgun, en bara örstutt því svo hrökk ég upp við vekjarann um klukkustund síðar. Hafði samt ágætan tíma í alla morgunrútínu. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Upp úr klukkan átta vorum við fyrrum fyrirliði byrjaðar á framleiðsluverkefni dagsins, sennilega því allra síðasta þótt kortadeildinni verði ekki lokað fyrr en í byrjun febrúar. Fjórir jafnir skammtar af gjafakortum og náðum við að framleiða fyrstu 701 kortin fyrir kaffi. Tókum okkur tíma til að útbúa alls 12 kassa undir kortin, þrjá kassa fyrir hvern skammt. Eftir kaffi og fram að hádegi framleiddum við 2x701 kort. Ákváðum sem betur fer að bíða með að framleiða síðasta skammtinn þar til eftir hádegi því þegar við komum upp rúmlega hálftólf voru fjórir vinnufélagar úr D30 að syngja fyrra lagið af tveimur jólalögum. Vinnudegi lauk annars um þrjú leytið og þá fór ég beint í Nauthólsvík. Þar hitti ég eina úr hópnum sem ég var í og var mjög virkur í nokkur misseri fyrir nokkrum misserum. Kom heim um fimm leytið.
18.12.24
Mið vika og stutt í helgi, jól og áramót
Vaknaði stuttu fyrir sex í gærmorgun. Hafði að vísu rumskað um fjögur leytið og skroppið á salernið. Það tók mig smá tíma að kúra mig niður aftur en hafðist. Morgunrútínan var svipuð, aðeins færri teygjuæfingar í rúminu áður en ég fór á fætur. Nokkrar mínútur í æfingar með 2x2kg lóð og smá netvafr. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta. Nú biðu fjórar jafnstórar gjafakortaskrár eftir að verða hlaðnar inn á framleiðsluvélina þannig að ég byrjaði á því að afgreiða það verkefni. Mjög líklegt er að þetta verði síðustu kortin sem við framleiðum á eftir. Innlagnardagurinn var annars þokkalega stór og var ég til rúmlega hálfþrjú í þeim verkefnum og svo í yfirferðum skjala í þrjú korter þar á eftir. Var komin í sund rétt fyrir fjögur og byrjuð að synda á slaginu fjögur. Þá var kalda potts vinkona mín búin að synda 350m. Hún synti annað eins á meðan ég synti 300m, þar af 100m skriðsund. Fórum þrjár ferðir í þann kalda, vorum amk 20 mínútur í gufunni og voru í sjópottinum þegar ein systir hennar mætti á svæðið. Ég tók eina loka 30sek dýfu í þann kalda áður en ég fór upp úr. Kom við á AO við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn. Það hefur greinilega tekist að uppfæra kortaupplýsingar á lyklinum. Nú á ég bara eftir að virkja nýja kreditkortið sjálft með því að nota örgjörvann og slá inn pinnið. Er ekki að nota þetta kort svo mikið eiginlega ekki neitt nema fyrir AO-lykilinn og örfáar fastar greiðslur en það er þó alveg möguleiki á að ég virkji það fyrr en síðar, pinnið á því er það skemmtilegt og gott að það væri vel þess virði að fá að slá því inn amk einu sinni.
17.12.24
Tvær vikur eftir af árinu
Gærdagurinn var alveg ágætur. Hafði góðan tíma í alla morgunrútínu og fór þó út í fyrra fallinu til að sópa af bílnum. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Engar kortagerðarskrár voru til framleiðslu. Mjög líklegt er að við höfum framleitt síðustu debet og kreditkortin en við eigum von á að fá gjafakortaskrár í vikunni. Ég fór því beint í innlagnir. Vinnudegi lauk upp úr klukkan þrjú. Skrapp með sjö stk. jólakort á pósthúsið. Hitti einn úr safnaðarstjór Óháða í þeirri vegferð. Komst að í osteostrong tíma korter fyrir fjögur. Bætti mig á tveimur tækjum og var frekar hissa þar sem ég er búin að vera kvefuð. Hef þó ekki verið neitt lin. Á einn tíma eftir af hálfa árinu og mæti í hann milli jóla og nýárs, daginn fyrir gamlársdag. Var mætt í sund um hálffimm. Synti 400m, flesta á bakinu. Fór tvær ferðir í kalda pottinn, rúmt korter í gufu, tíu mínútur í sjópottinn og dýfði mér um hálfa mínútu í þann kalda á leiðinni upp úr. Þvoði mér um hárið og kom svo við í Krónunni í Skeifunni áður en ég fór heim. Var ekki komin heim fyrr en rétt fyrir sjö.
16.12.24
Fátt að frétta
Það fór svo að ég hélt mig inni í gær líka. Fór á fætur um hálfátta og einhvernveginn brunaði sunnudagurinn í gegn án þess að ég væri að gera nokkuð merkilegt eða sem er í frásögur færandi. Strákarnir voru báðir heima við en fóru mun seinna á fætur. Manjú sonurinn kom fram heilum klukkutíma áður en leikur City og United hófst. Hann gafst upp nokkrum mínútum fyrir leikslok þegar Manjú var nýbúið að jafna og missti því af sigurmarkinu þeirra. Ég horfði bæði á hand- og fótbolta og hefði svo sem einnig getað fylgst með sundkeppni. Ánægð með að Þórir endaði síðasta leik sinn sem þjálfari norska kvennalands liðsins með því að sigra Dani í úrslitaleiknum á EM kvenna.
15.12.24
Innipúki í gær
Vaknaði um sex leytið í gær. Skrapp fram á salernið en svo beinustu leið í rúmið aftur, að lesa. Kláraði eina af bókasafnsbókunum; Miðillinn eftir Sólveigu Pálsdóttur. Klukkan var því að verða níu þegar ég klæddi mig loksins. Næsta einn og hálfa tímann var ég að vafra á netinu. Skrifaði 7 jólakort sem öll fara í póst eftir helgi. Á enn þrjú frímerki en nota kannski ekki nema eitt eða tvö af þeim. Á þó eftir að skrifa 3-4 jólakort í viðbót. Annars var ég að prjóna, horfa á þætti og fótbolta. Bræðurnir komu á fætur upp úr hádeginu. Davíð Steinn pakkaði inn amk tveimur pökkum en svo fóru þeir bræður í heimsókn til pabba síns og fjölkyldu hans. Ég sauð mér ýsu í gær sem ég hafði keypt í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim úr vinnu á föstudaginn. Með ýsunni hafði ég súrkál og svartar ólífur.
14.12.24
Nefrennsli og eymsli í hálsi en enginn hiti
Í gærmorgun fór ég ekki með neitt sund- eða sjótengt með mér í vinnuna. Framleiddum heil sex kort og tókum niður upplýsingar um 14 kort sem ekki var hægt að framleiða vegna hráefnisskorts. Var komin í innleggin fyrir klukkan níu. Vinnudegi lauk upp úr klukkan þrjú. Hringdi í esperanto vinkonu mína þegar ég var á leiðinni heim. Mæltum okkur mót við Dómkirkjuna um sjö leytið. Ég tók því rólega fram að því. Fékk Odd til að skutla mér á staðinn. Um hálfátta hófust tónleikar með Sycameore Tree, mjög ljúfir og skemmtilegir. Inger bauð okkur Helgu, einni úr Viðeyjargenginu, og var þetta jólagjöfin hennar til okkar. Tónleikarnir vörðu í rétt rúma klukkustund sem var mjög fljót að líða. Hitti eina frænku mína og einn "Helling" til en þær voru á þessum sömu tónleikum. Hringdi í Odd og bað hann um að sækja mig. Hefði líklega labbað heim ef hálsinn hefði ekki verið að angra mig. Var komin heim um níu leytið.
13.12.24
Strax kominn föstudagur aftur
Það var ánægjulegt að sjá að allar skrár skiluðu sér á vélina í gærmorgun. Getum reyndar ekki framleitt allar pantanir þar sem hráefnið er alveg á þrotum en það er önnur saga. Annars var ég aðallega í innlögnum í gær. Allt gekk vel og vorum við búin stuttu fyrir þrjú. Ég fór beint í sund og synti 600m. Kalda potts vinkonan kom þegar ég var að klára sundið og hún ákvað að geyma sitt sund þar til við værum búnar með pottadýfingarnar. Ég kom heim rétt upp úr klukkan fimm.
12.12.24
Þriðja jólakortið fer af stað í dag, til Danmerkur
Samkvæmt kortagerðarpóstinum áttu að koma heil sjö kort til framleiðslu til viðbótar við það sem búið var að hlaða inn á mánudag og þriðjudag. Þetta skilaði sér hins vegar ekki yfir á vélina. Ef þetta hefur ekki skilað sér í dag verður málið kannað betur en við getum líklega ekki framleitt nema fjögur af þessum kortum því hráefnið er búið og það tekur því ekki að fá sent meira því það tekur tíma og að fá það hráefni og kortaframleiðsla er alveg að leggjast af. Framleiddum samt 155 kort í gærmorgun, þar af 150 gjafakort. Var komin í innleggin um níu leytið. Vinnudeginum lauk upp úr klukkan þrjú. Fór beint í Nauthólsvík og hoppaði um í öldunum í 1,5°C sjónum í um tíu mínútur. Var komin heim um fimm leytið.
11.12.24
Verða síðustu kortin framleidd í dag?
Þrátt fyrir að fara ekki að sofa fyrr en á tólfta tímanum í fyrrakvöld var ég vöknuð upp úr klukkan fimm. Ekki dugði að fara fram, pissa og fá sér lýsi svo um hálfsex leytið var ég byrjuð á að gera alls konar teygjuæfingar upp í rúmi. Klæddi mig og bjó um korter fyrir sex og gerði þá nokkrar æfingar með 2kg lóðum. Var mætt í vinnu um hálfátta og samkvæmt kortagerðarpóstinum voru komnar nýjar skrár á vélina. Fór niður og hlóð inn 3 debetkortum og einu kreditkorti, það var allt og sumt. Annars fór dagurinn í innlagnir. Allt var búið um hálffjögur. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Var komin á braut 6 stuttu fyrir fjögur og synti 600m, þar af 150m skriðsund. Fór eina ferð í kalda og beið svo í sjópottinum eftir kalda potts vinkonu minni. Saman fórum við þrjár ferðir í kalda, tvær í þann heitasta, eina góða gufuferð og svo smástund í sjópottinn. Hún ætlaði að fara að synda um það leyti sem ég var á leið upp úr en þá mætti hún systur sinni, frestaði sundinu en skrapp eina ferð í þann kalda áður en hún fór aftur í sjópottinn. Hvort hún synti eftir að systir hennar fór frétti ég af í sundi með henni eftir vinnu á morgun. Var komin heim um hálfsex. Fór upp í rúm að lesa fyrir klukkan hálftíu og var líklega steinsofnuð rétt upp úr klukkan tíu.
10.12.24
Þrjár vikur eftir af árinu
Rumskaði um fimm í gærmorgun. Skrapp fram á salerni, tæmdi "blaðrið" og gerði svo vel heppnaða tilraun til að kúra mig niður aftur. Vissi næst af mér þegar vekjarinn vakti mig. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta. Skv. kortapóstinum voru 1 debetkort og 150 gjafakort í pöntun svo ég fór fljótlega niður og hlóð þessum verkefnum inn. Annars var ég í innlögnum sem kláruðust ekki fyrr en klukkan var langt gengin í þrjú. Öllum verkefnum var þó lokið rétt fyrir klukkan hálffjögur. Var mætt í osteostrong tíma tíu mínútum fyrir fjögur og í sund og byrjuð að synda tæpum klukkutíma síðar. Synti ekki nema 300 metra en helminginn af þeirri vegalengd synti ég skriðsund. Var komin heim um sex leytið. Nágranninn á neðri hæðinni kom upp á áttunda tímanum til að gefa mér upp netfang rafvirkjans sem er að setja upp nýja rafmagnstöflu niðri í ganginum fyrir framan þvottahúsið. Ég sendi svo póst á viðkomandi til að biðja um að kíkja á töfluna inni hjá mér sem og laga útiljós og dyrabjöllur fyrir mína íbúð og risið. Aldrei þessu vant fór ég ekki upp í fyrr en rétt fyrir ellefu. Var að klára eitt jólabréf og glápa á imbann, bæði línulega dagskrá á RÚV sem og einn þátt. Las svo til klukkan að verða hálftólf.
9.12.24
Aðventukvöld í óháða í gær
Rumskaði um þrjú leytið í fyrrinótt og sofnaði ekki aftur fyrr en á fimmta tímanum. Klukkan var svo næstum orðin tíu þegar ég vaknaði aftur. Pabbi var búinn að vera á fótum síðan um sex leytið. Um ellefu leytið fór hann að huga að því að setja upp matinn, hrossa-bjúga frá "Villa pylsu" sem er einn af sundfélögum hans. Með þessu hafði hann kartöflur, rófum og hálfa sæta kartöflu, allt soðið saman í einum potti en bjúgað þó helmingi lengur en hitt. Buðum unga fólkinu að borða með okkur en þau þáðu það ekki svo pabbi sendi mig með afganginn í bæinn. Hann var mjög áfram um það að ég væri ekkert að drolla í sveitinni, skyldi drífa mig í bæinn ef veðrið skyldi verða verra. Ég hafði haft hug á því að fara í innsetningarmessu í Breiðabólsstað en hún var klukkan tvö. Um það leyti var ég komin heim. Ég hélt mig heima til klukkan langt gengin í átta en þá fór ég á bílnum í Óháðu kirkjuna, lagði ekki í að labba í rokinu og rigningunni. Það var aðventukvöld og ég hitti nokkra af fyrrum KÓSÍ félögum mínum og einnig fólk sem var með mér í stjórninni á sínum tíma og er enn í stjórn. Þetta var notalegasta stund. Á eftir var boðið upp á svartbaunaseyði, gos, vatn og smákökusmakk. Ég fékk mér aðeins vatnið, maginn hefði mótmælt flestu af hinu. Veit reyndar ekki með kaffið en ég er enn í pásu og bíð aðeins lengur með að aflétta þeirri pásu.
8.12.24
Komin í bæinn aftur
Pabbi var búinn að vera á fótum í rúma tvo tíma þegar ég kom fram um hálfníu í gærmorgun. Fljótlega komu Bríet og Bjarki fram en þau voru á leiðinni í bæinn í jólagjafaleiðangur og voru farin um níu leytið. Morguninn leið frekar hratt. Við pabbi fengum okkur skyr í hádeginu, hann 500gr en ég 150gr. Um eitt leytið vorum við búin að "skvera" okkur upp og lögðum af stað á Keldur. Það var bjart, kalt og falleg fjallasýn. Pabbi taldi að við værum of snemma á ferðinni en það voru margir komnir á undan okkur. Hann keyrði bílinn inn fyrir hliðið svo það væri stutt að fara. Ætluðum samt að vera í bílnum og hlusta þaðan en skiptum um skoðun þegar útfararstjórinn kom og sagði að það væri alveg nóg pláss í kirkjunni. Fengum meira að segja sæti á öðrum bekk fyrir aftan ekkilinn, systur hans og næstelstu dóttlunnar og hennar maka. Elsta systirin var á fremsta bekk hinum meginn við ganginn og yngri systkynin fyrir innan, til hliðar við altarið því þau voru í hópnum sem báru kistuna eftir athöfnina. Prestur var frændi minn, sr. Kristján Arason, sem sá um athöfn ömmu sinnar föstudag fyrir verslunarmannahelgi. Organistinn var einnig frændi minn, Guðjón Halldór Óskarsson. Öðlingarnir sáu um sönginn en ég held að það hafi verið annar tengdasonurinn sem sá um einsöng í tveimur lögum fyrir og eftir minningar orð. Allar systurnar voru í upphlutum og sum af barnabörnunum eða mökum þeirra. Mörg af þessum nánustu voru líka klædd í fallegar prjónaflíkur prjónaðar af þeirri sem við vorum að fylgja. Athöfnin var virkilega falleg og það voru margir sem fylgdu. Ómögulegt var að telja alla bílana, helst væri að spyrja þær sem sáu um að afhenda sálmaskrárnar hversu margir bílar voru eða hversu margar sálmaskrár voru afhentar. Kosturinn við að vera í kirkjunni svona nálægt nánustu aðstandendum var að við vorum eiginlega fyrst á eftir þeim út og vorum með þeim fyrstu sem blessuðum yfir kistuna áður en við settumst upp í bíl. Þurftum því ekki að standa lengi úti í kuldanum. Vorum líka með þeim fyrstu sem mættum í erfidrykkjuna í íþróttahúsið á Hellu þar sem kvenfélagið Unnur sá um að hella upp á og bera á hlaðborð. Fékk mér vatnsglas, flatköku með hangiketi bakaða af systkynunum og smá bita af brauðtertu. Langaði í kleinu og pönnsu en lét það ekki eftir mér og sleppti líka marengstertunni, það hefði sett magan á hvolf. En ég gaf og fékk ófá knúsin og var glöð yfir hversu pabbi var rólegur því við vorum líklega hátt í tvo tíma eða amk einn og hálfan því klukkan var um hálfsex þegar við komum til baka í Hólavanginn.
7.12.24
Fylgi frænku minni í dag
Það er að verða mjög greinilegt að íslensk bankakorta framleiðsla er við það að líða undir lok. Í gær framleiddum við einungis átta kort, mestur tíminn fór í að telja kortategundirnar í vagninum. Það er aðeins ein óframleidd smá endurnýjun sem liggur fyrir, 10 stk, en þar sem aðeins eru til 7 plöst látum við daglegar pantanir ganga fyrir. Ef ekki koma neinar beiðnir í næstu viku munum við framleiða sjö af þessum tíu og láta viðkomandi bankastofnun vita hverjir verðar útundan. Kannski verður kveikt í síðasta sinn á framleiðsluvélinni í næstu viku en við erum þó með opið fyrir beiðnir út janúar ef eitthvað kemur uppá varðandi þær framleiðsluleiðir sem nú hafa og eru að taka við. Var komin í innleggs vinnu upp úr klukkan níu. Öllum verkefnum var lokið einhvern tímann á þriðja tímanum. Fór beint heim eftir vinnu. Það tók mig um klukkustund að pakka og taka mig til. Lagði svo af stað út í þunga umferðina þegar klukkan var að byrja að ganga fimm. Var komin austur til pabba milli hálfsex og sex. Þar voru fyrir systurdóttir mín og kærastinn hennar. Hún kom ekki fram úr herberginu og vissi greinilega ekki af mér. Bjarki heilsaði upp á mig einhvern tímann í gærkvöldi og spurði mig svo hvort ég vissi hvar brauðristin á heimilinu væri geymd. Hann hélt að Bríet vissi að ég væri komin og ég hélt að hann hefði minnst á mig við hana. Ég var ekkert að trufla unga fólkið en frænka mín var virkilega hissa þegar hún rakst á mig í morgun. Þau skötuhjúin voru frekar snemma á fótum miðað við að það er laugardagur en þau voru farin af stað í leiðangur til Reykjavíkur rúmlega níu.
6.12.24
Aftur kominn föstudagur
Í fyrrakvöld var ég sofnuð upp úr klukkan tíu. Rumskaði einhvern tímann á fjórða tímanum þá um nóttina, sennilega alltof margt að fara í gegnum kollinn á mér og svo var blaðran aðeins að þrýsta á mig. Fór þó ekki á pisseríið fyrr en eftir að hafa reynt að kúra mig niður og dormað í uþb klukkustund. Sofnaði loksins aftur einhvern tímann á fimmta tímanum. Vaknaði svo úthvíld á undan klukkunni upp úr klukkan sex. Fór í pilsi og jólapeysu í vinnuna. Um hálfníu kom tæknimaður í hús til að hjálpa okkur í kortadeildinni að uppfylla beiðni þar sem var beðið um nokkur kortalogo sem prentast á ákveðin kort við framleiðslu. Hann var frekar snöggur að afgreiða málið þrátt fyrir að þurfa að rifja ýmislegt upp en rétt eftir að hann var farinn kom í ljós að það vantaði amk eitt logo til. Ég hafði fylgst með honum og gerði velheppnaða tilraun til þess að "bjarga" málunum. Þ.e. ég náði þessu logoi af framleiðsluvélinni yfir á usb-lykill og svo var önnur sem afritaði logoið af lyklinum yfir í beiðnina. Líklega hefði ég líka getað gert það en það er fyrir mestu að okkur tókst að gera þetta án þess að þurfa að kalla tækninmanninn aftur í hús. Í hádeginu fengum við jólamat frá Múlakaffi og það komu tveir vinnufélagar, annar sem hætti í vor og hinn er í veikindaleyfi en er að hætta fljótlega á nýja árinu, og borðuðu með okkur. Það vantaði fjóra í hópinn okkar en maturinn og félagsskapurinn var samt mjög góður. Verkefnum mínum var lokið á fjórða tímanum. Fór beint í sund en hringdi þó í pabba áður en ég fór inn og hitti kaldapotts vinkonu mína sem var nýlega mætt. Fórum á brautir 7 og 8 og ég synti fimm hringi, langflesta á bakinu. Fórum þrjár ferðir í þann kalda, góða gufuferð og smástund í sjópottinn. Þvoði mér um hárið þar sem ég fer líklega ekki aftur í sund fyrr en eftir helgi.
5.12.24
Hraðskrið á tímanum
Enn og aftur var ég vöknuð alltof snemma, eða um fimm leytið. Gerði teygjuæfingar þegar ljóst varð að ég var ekki að sofna aftur og greip svo smástund í bók áður en ég fór á fætur. Klæddi mig um sex og gerði nokkrar æfingar með 1,5kg lóðum. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta. Það var framleiðsludagur en framleiðslan er eðlilega að minnka mikið. Svo virðist sem kreditkortin fyrir síðasta stóra bankann, sem við erum enn að þjónusta, séu um það bil að detta út. Fengum einn skammt á mánudaginn sem við framleiddum í gær en ekkert komið síðan þá. Þeir vilja samt halda því opnu að geta leitað til okkar næstu 4-8 vikurnar ef upp koma einhver vandræði. Ég var byrjuð að vinna í innleggjum á ellefta tímanum. Verkefnum mínum lauk upp úr klukkan hálffjögur. Fór beint í Nauthólsvík og skellti mér í -0,5°C sjóinn í uþb tíu mínútur. Kom við hjá ÓB í Öskjuhlíð og notaði kreditkortið sem er að renna úr gildi. Það var í rúmlega níuþúsund króna plús og ég dældi á tankinn fyrir áttaþúsund. Fékk stæði beint fyrir utan, við hliðina á innkeyrslunni, þegar ég kom heim um hálfsex.
4.12.24
Vikan um það bil hálfnuð
Ég vaknaði ekki alveg eins snemma í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Var þó vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan sex. Sleppti teygjuæfingunum en greip í 1,5kg lóðin þegar ég var búin að klæða mig. Morgunrútínan var svo ósköp svipuð og flesta virka morgna. Það var svolítið hált úti í gærmorgun og ég þurfta að skafa og sópa af framrúðunni og annarri hliðinni á bílnum. Mætti í vinnu um hálfátta leytið. Byrjaði á að vinna í kortamálum, bæði að hlaða inn og undirbúa framleiðslublöð en annars var ég í innlögnum til klukkan að verða tvö og yfirferð á skjölum síðasta klukkutímann. Stimplaði mig út milli þrjú og hálffjögur. Byrjaði á því að skreppa á pósthús. Póstlagði smá sendingu til ensku vinkonu minnar og fjárfesti í tólf frímerkjum, þar af tveimur til norðurlandanna. Var mætt í Laugardalslaug rétt fyrir fjögur. Kalda potts vinkona mín var mætt, ekki með sundhettuna og í sinni annarri ferð í kalda pottinum. Saman náðum við þremur ferðum en hún kvaddi svo eftir smástund í gufunni. Ég fór í sjópottinn, eina ferð í kalda, synti aðeins 200m og tók eina dýfu í kalda pottinum í lokin. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim. Þar fæ ég frækexið sem einnig fæst í Heilsuhúsinu. Ætlaði líka að kaupa meiri beltisþara en fann hann ekki að þessu sinni og var ekkert að leita eftir aðstoð við að finna hann. Tók hvorki upp penna né prjóna í gærkvöldi en horfði á hluta af handboltaleiknum og tvo þætti úr séríu í sjónvarpi símans sem er að fara að "detta" út úr sarpinum.
3.12.24
Vetur og kuldi
Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun og var komin á fætur um hálfsex. Hafði þeim mun meiri tíma í allar teygjur, æfingar og netvafr áður en ég fór í vinnuna. Það var hörkufrost úti. Ekki er búið að laga ofna- og þrýstikerfið í vinnunni en það á að klárast í dag. Sem betur fer erum við enn með hitablásarana í láni. Ég var reyndar með lopapeysu og ullarsokka meðferðis til öryggis. Það slapp þó til en rétt svo. Verkefnum mínum lauk stuttu fyrir klukkan hálffjögur. Þá dreif ég mig beint í vikulegan osteostrong tíma. Var mætt rúmum hálftíma fyrir "fasta" tímann minn og komst strax að. Bætti mig á einu tæki og var alls ekki langt frá mínu besta á hinum þremur tækjunum. Nú eru þrír tímar eftir af þessum 26, hálfa ári, sem ég fjárfesti í og fékk svo niðurgreidda um helling. Síðasti tíminn verður á Þorláksmessu en það verður svo sannarlega alls ekki síðasti tíminn því ég er ákveðin í að fjárfesta í árskorti næst, 52 tímum sem eru þá innan við sjöþúsund kr. hver en samt minna en það því ég fæ sjúkraþjálfunarstyrki upp í allt að 30 tíma á ári. Ég finn verulegan mun á bæði styrk og jafnvægi hjá mér og veit að það á bara eftir að verða betra ef ég held mig við þessa leið. Annars fór ég beint heim eftir tímann þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis. Heima skrifaði ég á fyrsta jólakortið sem fer með bréfinu sem ég lauk við í fyrradag. Kannski kem ég þessu í póst í dag.
2.12.24
Ný vinnuvika
Þrátt fyrir að hafa farið frekar seint að sofa aðfaranótt gærdagsins var ég vöknuð um sjö leytið í gærmorgun. Gerði nokkrar tilraunir til að kúra mig niður aftur en það tókst ekki svo ég var komin á fætur fyrir klukkan átta. Pabbi kom klæddur fram á tíunda tímanum. Hann hafði líka komið fram um sex leytið að venju, til að taka niður og skrá helstu tölur og fá sér morgunmat. Þegar fór að birta ákvað pabbi að skreppa upp að Keldum til að skipta um rafhlöður í ljósinu á leiðinu hjá litlu Önnu og mömmu. Ég ákvað að drífa mig með honum. Það var tíu gráðu frost en bjart og lítil ferð á logninu. Vorum komin til baka um hálftólf. Gufusauð hálfa sæta kartöflu og steikt þrjú lítil bleikjuflök handa okkur pabba í hádeginu. Fljótlega eftir hádegi fór pabbi að setja upp jólaóróana en ég ákvað að drífa mig af stað í bæinn. Var komin til Reykjavíkur upp úr klukkan þrjú og kom við í bókasafninu. Skilaði þremur bókum af fjórum og freistaðist til að taka þrjár með mér heim og það þótt ég sé bara búin með rúmlega einn þriðja af fjórðu bókinni. Ein af þessum þremur bókum er sagan um tíndu systurina. Hún er þykk og mikil en ekki samt jafn margar blaðsíður og sú sem ég er að lesa. Ég verð mjög líklega að lesa mikið um jólin en þarf örugglega að framlengja skilafrestum. Horfði á leik Liverpool og Man. Cyty 2:0 og svo EM leikinn í handbolta kvenna þar sem okkar stelpur unnu Úkraínustelpurnar.
1.12.24
Fyrsti í aðventu
Svaf til klukkan að verða hálfátta. Gaf mér samt tíma í alla rútínu áður en ég fór í sund. Synti 600m, flesta á bakinu þó smá skriðsund líka en ekkert bringusund. Fór svo eiginlega bara eina ferð í þann kalda en dýfði mér þó rétt sem snöggvast í uþb mínútu þegar ég var á leiðinni inn að þvo mér um hárið eftir góða gufuferð og tíu mínútur í sjópottinum. Var mætt til esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan hálfellefu og stoppaði í tæpan einn og hálfan tíma. Lásum m.a. 2 bls. í Kon-Tiki. Fór beint í að pakka þegar ég kom heim og lagði af stað austur um hálfeitt leytið. Pabbi var að setja ljós og stjörnur í eldhús- og stofugluggana. Lagði aðeins einn kapal, fór ekkert í tölvuna en kláraði bréfið sem ég byrjaði á um síðustu helgi. Horfði á kosningasjónvarp til klukkan langt gengin í tvö. Pabbi fór í háttinn stuttu áður og ég ákvað fljótlega að fylgja hans fordæmi en las þó um stund um Electru. Er búin með um 300bls af rúmlega áttahundruð.