Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sex. Byrjaði á nokkrum lóðalyftum áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. N1 sonurinn kom á fætur um sjö og var farinn af stað í sína vinnu á undan mér. Skömmu eftir að hann fór heyrði ég að ruslabíllinn var í götunni svo ég var ekkert að flýta mér af stað. Stimplaði mig inn í vinnu uþb tíu mínútum síðar en ég geri oftast en samt vel fyrir klukkan átta. Fljótlega byrjaði ég á innleggjum, létt fyrrum fyrirliða og "sumarliðann" um kortaframleiðsluna. Vinnudegi lauk áður en átta tímarnir voru liðnir. Var komin í Nauthólsvík um hálffjögur. Hringdi í pabba en hann var á fullu í pönnukökubakstri svo við ákváðum á ég hringdi aftur þegar ég kæmi upp úr sjónum. Synti smá hring og var að busla í sjónum í uþb 15 mínútur. Fór beint í gufu og sat þar í annað korter. Stakk mér smá stund í lónið og lenti svo á smá spjalli í heita pottinum. Það var liðinn rúmur klukkutími þegar ég hringdi í pabba aftur. Pönnukökustaflinn klár og hann sagði mér að Ingvi og Hulda hefðu komið kvöldið áður, væru í Friðheimum og ætluðu að gista aðra nótt á Hellu. Ég skrapp í Krónuna við Granda. Kom flestu fyrir í einum stórum krónupoka. Fór með kerruna alveg út að bíl og setti það sem ekki komst í pokann efst í sjósundspokann. Var komin upp í rúm fyrir klukkan hálftíu. Á lítið eftir af síðustu bókasafnsbókinni en kláraði ekki í gærkvöldi. Skiladagur er fljótlega í nóvember en þá verð ég búin að vera með fimm bækur í tvo mánuði.
31.10.24
30.10.24
Mið vika og örstutt í mánaðamót
Vaknaði rétt rúmlega sex, nokkuð á undan vekjaranum. Gaf mér góðan tíma í morgunrútínuna en var þó helst til lengi að vafra um á netinu. Mætti í vinnu um hálfátta. Ákvað að leyfa fyrrum fyrirliða að ákveða hvort ég ætti að taka strax við kortabókhaldinu eða fara beint í innleggin. Það síðara varð ofan á. Engu að síður fór ég þrjár ferðir niður í kortadeild í gær. Það var ekki framleiðsludagur en yfirferð á vélinni og tvö af þremur skiptunum var ég að hleypa yfirferðarmanninum inn í kortarýmið. Í þriðja skiptið kom ég niður til að athuga hvort næstsíðasta kreditendurnýjuninn frá síðasta stóra bankanum hefði skilað sér í rétta möppu. Stimplaði mig út úr vinnu eftir akkúrat átta tíma, um hálffjögur. Var komin á braut 7 tæpum hálftíma síðar. Færði mig yfir á braut sex eftir 100m og á braut 5 eftir 300m á 6 og synti síðustu 300 á fimmtu brautinni. Alls 700m ár ca 35 mínútum. Fór í kalda pottinn í fjórar mínútur en beið svo eftir kaldapotts vinkonunni í sjópottinum. Hún kom um fimm og ein systir hennar skömmu síðar svo við sátum aðeins áfram í sjópottinum. Fórum tvær ferðir saman í þann kalda og eina góða gufuferð en þá var ég búin að vera um tvo tíma í sundi, mál að pissa og mál að koma sér heim.
29.10.24
Á leið í vinnuna fljótlega
Vaknaði um sjö leytið í gærmorgun og dreif mig strax á fætur. Oddur kom fram um átta leytið og fór í sturtu. Hann var á leið í skyldunámskeið í Hafnarfirði og var farinn úr húsi um níu leytið. Esperanto hittingur gekk ekki upp í gær en við stefnum á laugardaginn. Skömmu fyrir hádegi dreif ég mig loksins niður í þvottahús, bæði til að setja í vél og taka niður af snúrunum. Bjó mér svo til hafragraut í hádeginu. Davíð Steinn var nýlega kominn á fætur þegar Oddur kom af námskeiðinu um tólf leytið. Þeir bræður ákváðu að skreppa í flösku leiðangur og fengu lánaðan bílinn minn í það verkefni. Ég fékk mér göngutúr að grenndargámunum og var með "dót" í þrjá af þeim; málm-, gler- og textílgáminn. um hálffjögur leytið lagði ég af stað í osteostrong tíma. Fór á bílnum þar sem ég ætlaði beint í sund á eftir. Var svolítið á undan áætlun og að þessu sinni þurfti ég að bíða alveg þar til kom að mínum tíma tuttugu mínútum yfir. Það var alveg í góðu lagi því það voru fleiri að og ég átti þarna skemmtilegt spjall við tvær manneskjur. Kallað var í aðra þeirra á undan mér og hina rétt á eftir mér. Kalda potts vinkona mín var mætt í sundið þegar ég kom þangað um fimm. Fórum á potta og gufurúnt en svo synti ég 100m á bringunni í restina. Þvoði mér um hárið þótt ég hafi ekkert synt á bakinu. Hárið var svo enn smá rakt þegar ég fór í háttinn um hálftíu leytið.
28.10.24
Síðasti orlofsdagurinn í bili
Rumskaði um fjögur í fyrrinótt. Hefði helst þurft að fara og tæma blöðruna en ég fór ekki fram úr og á fætur fyrr en á áttunda tímanum. Pabbi kom klæddur fram stuttu fyrir klukkan tíu. Hafði að sjálfsögðu komið fram fyrst um sex leytið til að taka niður tölur og fá sér eina klementínu og egg. Hann lagði nokkra kapla en skrapp svo út í skúr að huga að bílnum. Bíllinn fór í gang en samt ákvað pabbi að hlaða geyminn betur og var hann með hann tengdan fram eftir degi. Ég fór að huga að heimferð fljótlega eftir hádegið og kvaddi um hálfþrjú leytið. Var komin í bæinn um fjögur. Fékk Odd til að koma út og sækja ferðatöskuna. Horfði á fótbolta og fleira en var líka að prjóna. Er komin með enn eina tuskuna á prjónana en hef ekki prjónað þetta mynstur áður sem heitir; Togari.
27.10.24
Grill og góður bíltúr
Vaknaði stuttu fyrir klukkan átta og dreif mig strax á fætur. Pabbi var búinn að koma fram en farinn inn í rúm aftur. Hann kom á fætur á ellefta tímanum og sagði að það væri ágætis grillveður. Við ákváðum að ég myndi undirbúa meðlætið upp úr klukkan ellefu og hann grilla. Vorum búin að borða um tólf leytið. Fljótlega eftir hádegisfréttir stefndum við að því að skreppa í bíltúr. Pabbi hafði bakkað bílnum inn í skúr þegar hann kom heim úr bankanum og auka ferðinni úr búðinni á föstudaginn. Þegar hann ætlaði að setja bílinn í gang í gær reyndist hann vera rafmagnslaus. Pabbi á hleðslutæki og það tók um klukkutíma að hlaða bílinn nóg til að koma honum í gang og keyra af stað. Þannig að klukkan var byrjuð að ganga þrjú þegar við lögðum í hann. Fórum upp Næfurholtsveg, Gunnarsholts megin og prófuðum "nýja" veginn frá Heiði að Svínhaga. Héldum áfram upp Rangárvelli, framhjá Næfurholti yfir Rangá og niður Landveg að Landvegamótum þar sem við beygðum inn á þjóðveg 1 og kláruðum hringinn. Bíltúrinn tók okkur uþb einn og hálfan tíma. Restin af deginum fór í allskonar og ekki neitt þannig séð.
26.10.24
Laugardagur
Varð vör við það þegar pabbi fór af stað í sundið í gærmorgun. Augun voru límd aftur en fljótlega fór blaðran að ýta við mér. Klukkan var samt farin að ganga átta þegar ég fór á fætur. Pabbi kom heim um hálfníu leytið. Þá var ég búin að sitja góða stund fyrir framan tölvuskjáinn. Færði mig inn í eldhús, fékk mér eitt egg og vítamín og lagði nokkra kapla áður en ég færði mig inn í stofu og greip í prjónana. Um tíu útbjó ég mér blóðbergste. Pabbi bauð mér aftur á Kanslarann í hádeginu. Hægt var að velja um plokkfisk, kjötpottrétt, pizzur og sveppasúpu. Fékk mér súpu í forrétt en aðallega plokkfisk og smá smakk af pottréttinum. Pabbi lenti aftur í vandræðum með annað kortið sitt en hitt virkaði. Komum við í búðinni á leiðinni til baka og það var sama vandamál með annað kortið. Þannig að um eitt leytið skrapp pabbi í bankann til að fá aðstoð varðandi "óþæga" kortið. Á meðan ætlaði ég að athuga hvort ég gæti fært myndir af pabba úr símanum yfir í tölvuna hans. Var ekki með rétta snúru og tölvan slökkti á sér og ég gat ekki fengið hana í gang aftur, hélt að ég væri nú búin að eyðileggja hana. Pabbi hringdi og spurði hvort eitthvað vantaði meira úr búðinni, hann þyrfti að nota kortið til að virkja það aftur. Ég sagði honum frá tölvumálunum og bað hann um að kaupa gulrætur og epli. Hringdi í mág minn og spurði út í tölvumálin. Hann kom með góðar leiðbeiningar en meðan við vorum að spjalla var sennilega reynt að hringja dyrabjöllunni því það var líka reynt að opna og fljótlega bankað á hinar útidyrnar. Kvaddi Ingva og opnaði fyrir Ara frænda mínum sem var að koma með sendingu og í heimsókn til pabba og sagði að Oddur bróðir sinn væri líka á leiðinni. Pabbi kom úr bankanum og búðinni fljótlega og Oddur kom með honum inn. Ég var búin að setja á könnuna. Ég taldi mig aldeilis heppna að vera í vetrarfríi og hitta á þessa tvo frændur mína, systursyni pabba. Annar þeirra var að spá í að fara í bíltúr með pabba en þar sem veðrið var ekki að spila með ákváðu þeir að sá bíltúr yrði þegar væri um betri fjallasýn að ræða. Ég gerði ekki mikið meira af mér í gær nema prjóna og horfa á eitthvað í imbanum, vafra stöku sinnum á netinu og leggja kapla.
25.10.24
Um ævintýri gærdagsins
Rumskaði aðeins um það leyti sem pabbi fór af stað í sitt morgunsund korter yfir sex í gærmorgun. Steinsofnaði aftur en glaðvaknaði svo tæpum tveimur tímum síðar. Var því komin á fætur og búin að kveikja á tölvunni hans pabba áður en hann kom heim úr sundi. Morguninn leið hratt og um hálftólf bauð pabbi mér með sér á Kanslarann. Eftir að við komum heim aftur hafði pabbi orð á því að hann vildi leggja af stað í bæinn í fyrra fallinu til að reka amk eitt eða tvö erindi áður en aðal dagskráin byrjaði. Þurftum samt ekkert að vera að huga að bæjarferð alveg strax. Líkt og um morguninn var ég ýmist að prjóna, vafra á netinu eða leggja kapla. Um þrjú leytið skiptum við pabbi yfir í spariföt og um hálffjögur lögðum við af stað í bæinn. Vorum komin á bílaþvottastöðina við Krókháls rúmum klukkutíma síðar. Næst lá leiðin í Dressman í Kringlunni þar sem pabbi keypti sér einar buxur og eina skyrtu. Pinnið á kortinu hans var hins vegar að stríða honum eða hvort hann hitti ekki á takkana á posanum svo ég bauðst til að greiða fyrir vörurnar. Hann þáði það eftir þriðju misheppnuðu tilraunina. Svo bað hann mig um að keyra okkur í Garðabæinn til frænku minnar sem var búin að bjóða okkur í innlit og var það fyrsta heimsókn pabba til hennar eftir að hún flutti úr Bæjargilinu yfir í Fögruhæð fyrir um sex árum síðan. Hún var nýkomin heim úr vinnu en var samt búin að leggja á borð fyrir fjóra og var að hita upp kjúklingasúpu og skera niður brauð. Maðurinn hennar kom fljótlega úr sinni vinnu og við pabbi stoppuðum þarna í eitthvað á annan tíma. Þegar við kvöddum bað pabbi mig aftur um að setjast undir stýri. Fengum sérmerkt stæði í kjallaranum Borgarleikhúsmeginn í Kringlunni. Gátum notað lyftuna við bókasafnið (ekki þó eftir sýningu því þá var búið að loka Kringlunni). Vorum mætt mjög tímanlega eða tuttugu mínútum fyrir. Fann sæti fyrir pabbi við hliðina á konu sem reyndist líka vera að fara á Ellý. Hún var ein á ferð, búsett á Akureyri, og hafði loksins getað nýtt sér ferðina suður til að sjá þetta verk. Var ekki búin að fara áður. Sætin okkar pabba voru no 1 og 2 í 18 og öftustu röð. Þótt margir væru á sýningunni voru nokkur laus sæti í okkar röð og röðinni fyrir framan. Held að pabbi hafi skemmt sér ágætlega. Honum fannst samt aðeins of mikill "vitleysisgangur" fyrir hlé. Ég er nú samt nokkuð viss um að þessi ár sem þá var fjallað um hafi verið frekar skrautleg og ekkert gert of mikið úr þeim þætti. Klukkan var langt gengin í ellefu þegar sýningu lauk og ég fékk að keyra okkur alla leið austur aftur. Vorum komin á Hellu rétt upp úr miðnætti.
24.10.24
Komin austur aftur
Vaknaði stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Fór strax á fætur og sinnti morgunverkunum. Upp úr klukkan tíu fékk ég mér chia graut með bláberjum og kasew hnetum. Rétt fyrir ellefu tók ég svo til sjósundsdótið og brunaði í Nauthólsvíkina. Það var háflóð, sjórinn innan við 5°C, lítil ferð á logninu og ekki komið svo mikið af fólki. Þó voru einhverjir þegar komnir út í og þegar ég var búin að skipta yfir í sundbol, sundhettu, skó og hanska og var á leiðinni út í mætti ég Guðna Th. Jóhannessyni. Hann virðist viðhalda þeirri venju að fara í sjóinn í hádeginu á miðvikudögum. Ég svamlaði um í uþb tuttugu mínútur, fór beint í gufu í rúmar tíu og þaðan ca mínútu í lónið. Sat svo í heita pottinum í nokkrar mínútur áður en ég fór upp úr. Kom við á AO við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn, það var pláss fyrir 18 lítra. Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að huga að því að pakka niður. Klukkan var samt að verða tvö þegar Oddur hjálpaði mér með töskuna út í bíl. Strákarnir voru báðir heima við en Davíð Steinn hafði skroppið í búðina. Hann var að skila sér til baka stuttu áður en Oddur kom með töskuna út í bíl svo ég gat kvatt þá báða. Brunaði beint austur á Hellu. Það var gestur hjá pabba, Árni Sigurjónsson smiður á eftirlaunum. Hann hafði skellt sér í hjólatúr og heimsótti pabba í leiðinni. Var að drekka kaffi, gæða sér á pönnsum og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar eins og sagt er. Eftir að hann var farinn fórum við feðgin í smá kapla keppni áður en ég settist smá stund við tölvuna hans pabba. Sat ekki lengi við heldur færði mig fljótlega inn í stofu og fitjaði upp á bleikri tusku og prjóna eftir munstir sem heitir klifurgrind, erfiðasta mynstrið úr fyrstu tuskubókinni minni. Hef aðeins prjónað það einu sinni áður.
23.10.24
Færsla no 4100
Þessa dagana er ég ekkert að stilla á mig vekjaraklukku enda í orlofi. Sum kvöldin er ég einnig að fara heldur seinna upp í heldur en oftast. Í gærmorgun var ég samt vöknuð og tilbúin í daginn um hálfsjö leytið. Hitti því aðeins á N1 soninn áður en hann lagði af stað á vinnuvakt. Klukkan tíu átti ég bókaðan tíma í dekkjaskipti hjá N1 í Fellsmúla. Var mætt um tíu mínútum fyrr. Það var mikið að gera og þeir voru með fjóra skúra í gangi. 918 stóð á skiltinu en ég var svo no 923. Klukkan var að verða hálfellefu þegar mitt númer var loksins sett á skiltið. Umfelgunin tók svo ekki mikið meira en tíu mínútur. Sumardekkin fóru á hótelið og með því að nýta N1 afslátt N1 sonarins kostaði þetta mig rúmlega átjánþúsund krónur. Hefur heldur hækkað. Um ellefu var ég komin vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Næstum mánuður síðan við hittumst síðast og við smá ryðgaðar í lestrinu. Lásum engu að síður þrjár blaðsíður og það var ágætt að hafa íslensku útgáfuna til hliðsjónar þrátt fyrir að hún sé um sjötíu ára gömul og textinn sumstaðar gamaldags eftir því. Kom heim um hálfeitt. Klukkutíma síðar skrapp ég út í 3,5km göngutúr. Var ekkert að ganga mjög hratt en stoppaði aðeins tvisvar sinnum, ekkert lengi. Kom heim rúmum fimmtíu mínútum síðar. Um hálffjögur lagði ég af stað í sund. Fór beint á braut 7, tólf mínútum fyrir fjögur og var að klára 200m þegar kaldapotts vinkonan mætti. Ég kláraði 300m í viðbót og þurfti aðeins að bíða í um fjórar mínútur uns vinkonan var búin með sína 500m. Heitasti potturinn var lokaður en við fórum fjórar ferðir í þann kalda, tvær í sjópottinn og eina góða gufuferð. Í einni kaldapotts ferðinni köstuðu strákar úr níunda bekk kveðju á Hrafnhildi en hún var að kenna sumum þeirra þegar þeir voru í 1. bekk og mundu þeir eftir henni, líka sá sem ekki var í hennar bekk. Hún hefur verið og er greinilega góður kennari. Allar sturtur voru ískaldar þegar ég var á leiðinni upp úr. Það kom ekki að sök því ég var eiginlega að koma beint úr kalda pottinum og fannst lítið mál að skella mér aðeins undir ískalda bunu og skola af mér og sundbolnum. Tók skyndiákvörðun að koma við á Preppbarnum við Suðurlandsbraut. Vissi ekki af því að það væri tilboð á þriðjudögum en ég verslaði mér minni gerðina af Argentínu boxi og tók með mér heim. Hitti annars eina af sumarstúlkunum á staðnum. Það var verið að afgreiða hana en við náðum samt að spjalla smávegis.
22.10.24
Nagladekkin undir á eftir
Rumskaði um það leyti sem N1 sonurinn var að fara af stað á vinnuvakt í gærmorgun. Hitti því ekkert á hann. Morgunrútínan var með svipuðu móti og oftast nema núna var ég ekki að drífa mig eitt eða neitt. Rúmlega hálftíu skrapp ég út í 3,5km göngutúr með einu örstuttu stoppi. Gönguferðin tók um þrjú korter en ég þurfti samt ekki að draga á eftir mér hægri fótinn upp tröppurnar þegar ég kom heim. Annars var ég að prjóna, lesa, fylgjast með náttúruhlaupinu og horfa á þætti. Var mætt í osteostrong tíma á hárréttum tíma en þurfti aldrei þessu vant að bíða í smá stund því það voru þrír á undan mér. Biðin var samt alls ekki löng og ég var komin í sund rétt fyrir fimm. Var búin að fara eina ferð í kalda pottinn og var í sjópottinum þegar kalda potts vinkonan mætti úr Laugum. Fórum saman fjórar ferðir í kalda, góða gufu, smá stund í heitasta og pott númer tvö og svo aftur í sjópottinn. Syntum ekki neitt, það verður gert í dag.
21.10.24
Heima í augnablikinu
Í dag er þriðji virki orlofsdagurinn af átta og osteostrong dagur. Í gærmorgun var ég komin á fætur stuttu fyrir klukkan átta. Veit að pabbi var búinn að koma fram miklu fyrr en um helgar fer hann oftast aftur inn í rúm og dormar í mislangan tíma. Ég var að klára að taka úr uppþvottavélinni þegar hann kom fram upp úr klukkan tíu. Við fórum í smá kaplakeppni en svo settist hann við tölvuna, sem ég var búin að kveikja á, og ég smá stund inn í stofu með prjónana. Um ellefu leytið setti ég upp folaldakjöt. Tuttugu mínútum eftir að suðan kom upp bætti ég kartöflum og gulrótum út í pottinn. Borðuðum um tólf leytið. Horfði á fyrri hálfleikinn í fyrri leik dagsins í enska. Svo tók ég mig saman og fór að huga að heimferð. Skildi 1,5kg lóðin eftir. Hér heima get ég notað 1kg og 2kg lóðin. Kom við í Fossheiðinni á leiðinni í bæinn. Oftast kem ég við á hinni leiðinni svo ég hafði á orði þegar ég kvaddi eftir gott spjall og einn tebolla að ég vonaðist til að ruglast ekki í ríminu og halda aftur austur á bóginn. Ég beygði í rétta átt og fór Þrengslin. Var komin heim um það leyti sem seinni hálfleikur í seinni leik dagsins hófst; Liverpool - Chelsea 2:1.
20.10.24
Sunnudagur
Fór á fætur á níunda tímanum í gærmorgun. Morguninn var mjög rólegur, festist aðeins of lengi fyrir framan tölvuskjáinn. Um hálfellefu settist ég við eldhúsborðið og lagði nokkra kapla. Pabbi settist á móti mér og við fórum í smá keppni, ekkert harkalega samt. Fengum okkur snarl í hádeginu. Rétt fyrir klukkan eitt skrapp ég í smá göngutúr og fór leið sem er langt síðan ég hef farið. Göngustígnum upp í hæð hefur aðeins verið breytt vegna framkvæmda. Í Heiðvanginum hitti ég konu sem er tveimur árum eldri en ég. Hún var að passa hund og tvö börn á leikskólaaldri. Amk annað barnið var barnabarnið hennar. Þau voru á leiðinni í heimsókn til foreldra hennar og því að hluta til á sömu leið og ég svo við urðum samferða. Forritið í símanum skráði sjálfkrafa á mig tæplega km göngu og um þrettánhundruð skref. En ég var komin yfir þrjúþúsund skref þegar ég kom úr göngutúrnum. Hafði stoppað nokkrum sinnum, snappað og tekið myndir. Um sex leytið komu Jóna Mæja og Reynir. Pabbi var búinn að hella upp á könnuna og setti svo upp saltfisk, rófur og kartöflur allt í einn pott. Borðuðum eftir kvöldfréttir í sjónvarpinu. Um hálftíu leytið færðum við okkur aftur inn í stofu, spjölluðum meira og horfðum líka á tvo þætti af fjórum um Inndjúpið. Voru fyrst sýndir fyrir tíu árum og eru í spilara ruv. Klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar gestirnir kvöddu. Við pabbi lögðum tvo til þrjá kapla áður en við fórum í háttinn. Þrátt fyrir að fara inn í rúm um miðnætti greip ég aðeins í bók.
19.10.24
Öðruvísi rútína í gær
Klukkan var rétt að byrja að ganga átta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Eftir morgunverkin í eldhúsinu og á baðherberginu tók ég þá ákvörðun að drífa mig bara í sund. Var komin í kalda pottinn rétt rúmlega átta. Svo fór ég á brautir 8, 7 og endaði á braut sex. Synti mest á bakinu en smá skriðsund inn á milli. Var um 35 mínútur að synda 700metra. Þá fór ég aftur í þann kalda og svo beint í gufu. Eftir tæpar tuttugu mínútur í gufunni var ég á leiðinni í sjópottinn þegar ég sá yngstu mágkonu mömmu í nuddpottinum. Fór því ekkert í sjópottinn en átti gott spjall í nuddpottinum. Eftir þriðju og síðustu ferðina í þann kalda fór ég upp úr og þvoði mér um hárið. Ákvað að koma við í Fiskbúð Fúsa og kaupa mér ýsu í hádegissoðið. Hann var hissa á því hversu snemma ég var á ferðinni. Oddur hringdi í mig skömmu síðar en hann hafði verið í viðtali í Vinnumálastofnun. Þar sem ég var á ferðinni renndi ég við eftir honum. Soðningin í hádeginu var mjög góð. Kveikti loksins á fartölvunni eftir matinn en upp úr klukkan eitt fór ég að huga að því að pakka niður. Kvaddi strákana stuttu fyrir tvö. Fyrst lá leiðin í kaffihúsið á Sléttuvegi 25. Þar hitti ég sex af fyrrum kórfélögum mínum. Ætlaði bara rétt að stoppa smá stund og kasta á þau kveðju. Var sú eina í hópnum sem ekki fékk mér neitt en klukkan var að verða þrjú þegar ég kvaddi og lagði af stað austur. Kom þangað um hálffimm leytið. Pabbi hafði átt mjög góðan dag. Þegar hann var búinn með sundrútínuna var búið að setja fram tvær rjómatertur og allar sundlauga vaktirnar mættar. Um svipað leyti voru krakkar og kennari þeirrar að koma í sund og allur hópurinn söng afmælissönginn fyrir pabba. Pabbi fór svo aðeins heim og ég veit að hann fékk einhver símtöl. Rétt fyrir hálftólf sóttu tveir af sundfélögum hans hann. Fyrsta stopp var í Kanslaranum þar sem pabba bauð þeim að borða með sér. Svo fóru þeir þrír í góðan bíltúr upp hjá Koti og um Rangárvelli. Og að hluta til á einhvern slóða sem er ekki mjög fjölfarinn. Held að pabbi hafi bara verið mjög sáttur með daginn en hann var hissa á því hversu margir heilsuðu upp á hann í búðinni, Kanslaranum og mig því ég var að fá eitthvað af hamingjuóskum og kveðjum til hans á vegginn minn sem og fb-spjallið.
18.10.24
Pabbi níræður í dag
Í gær var fyrsti virki dagur af átta í smá vetrarfríi hjá mér. Átti inni þrettán daga og fannst þetta alveg grá upplagt. Engu að síður var ég vöknuð upp úr klukka sex. Eftir nokkuð venjubundna morgunrútínu lagði ég af stað í sund um svipað leyti og ég legg af stað til vinnu, kannski örlítið seinna. Korter fyrir átta fór ég beint á braut 6 og synti 700metra þar af 150 skriðsund. Klukkan var að verða níu þegar ég lagði af stað frá Laugardalslaug. Fór í Kópavog til að fá viðtal við trúnaðarlækni til að fá hana til að skoða niðurstöður úr beinþéttnimælingunni sem ég fór í fyrir nokkru. Það var bara einn á undan mér en ég þurfti samt að bíða í tæpan klukkutíma áður en ég komst að. Staðan á mér er bara nokkuð þokkaleg. Tölvuskjárinn datt út áður en læknirinn gat opnað athugsemdir um hvort mælt væri með einhverjum lyfjum og ætlaði hún að hringja í mig ef það væri. Hún sagði mér samt að það væri ekki nóg að taka lýsi upp á D vítamínbúskapinn og það væri heldur ekki nóg að vera duglegur að stunda sundið. Ég held samt að osteostrong, gönguferðir og lóðalyftingar séu alveg að gera sitt fyrir mig. Verð bara ánægð ef ég slepp við að þurfa að taka inn önnur lyf en venjulegt vítamín sem allra allra lengst. Eftir viðtalið við lækninn kom ég aðeins við í Heilsuhúsinu í Kringlunni til að kaupa mér vítamín og fá mér bleikan bústdrykk í leiðinni. Um miðjan dag kom einn frændi minn og kona hans í kaffi til mín. Aðal erindið var að afhenda mér sendingu frá þeim og tveimur systrum hans og mökum til pabba. Rúmlega fimm labbaði ég að heiman og að pílustaðnum við Snorrabraut. Þar hitti ég ágætan hóp af vinnufélögum. Vorum alls 31 því okkur var skipt í níu þriggja manna lið og eitt fjögurra manna og var farið í tíu umferðir í alls konar píluleikjum. Á eftir var boðið upp á hlaðborð af pizzum og kjúklingabitum. Ég ákvað að sleppa því að borða, gaf drykkjarmiðana tvo og var bara í vatninu. Fór þó ekki eftir píluleikina heldur settist niður og spjallaði. Var svo ljómandi heppin að fá far heim. Hefði alveg getað labbað en það var farið að skyggja svo mér fannst betra að þyggja farið.
17.10.24
Þokuloft í gær
Það var hálf draugalegt að keyra í vinnuna í gærmorgun. Ég var samt mætt á svipuðum tíma og oftast. Það var framleiðsludagur í gær. Vélin byrjaði með smá mótþróaþrjóskuröskun og þurfti að taka hana alveg niður og endurræsa áður en hún hrökk í gang. Kláruðum og gengum frá um hálfellefu leytið og þegar ég var búin að ganga frá bókhaldsvinnunni dembdi ég mér í innleggin. Öllum verkefnum á mínu færi var lokið áður en klukkan varð hálfþrjú. Tók til á skrifborðinu og stillti vinnupóstinn á "out of office" til og með 28. okt. nk. Einn frændi minn hringdi í mig þegar ég var á leiðinni í Nauthólsvík og við urðum ásátt um að hann kíkti við hjá mér eftir hádegið í dag til að koma á mig sendingu til pabba frá honum systkynum hans og mökum. Sjórinn var 4,9°C, veðrið stillt og gott þótt það væri smá þokuloft og ég var sennilega að busla í sjónum hátt í tuttugu mínútur. Var svo annað eins í gufunni, skrapp svo örstutt í lónið og endaði í heita pottinum í rúmar tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.
16.10.24
Hittingur
Klukkan var ekki nema rétt byrjuð að ganga sex í gærmorgun þegar ég rumskaði. Fljótlega var ég glaðvöknuð en ég fór þó ekki á fætur fyrr en rúmum hálftíma síðar. Hafði mjög góðan tíma í alla morgun rútínu. Vinnudagurinn hófst upp úr klukkan hálfátta hjá mér. Nóg var að gera en við vorum samt búin að klára öll verkefni um þrjú. Stimplaði mig út nákvæmlega átta tímum eftir að ég stimplaði mig inn. Hringdi í eina frænku mína og einnig pabba áður en ég fór í sund. Tólf mínútum fyrir fjögur fór ég á braut 6 og synti 700m á 35 mínútum. 100m af þessum 700 synti ég skriðsund. Kalda potts vinkona mín kom þegar ég var búin með 450m og hún náði að synda 300m áður en við fórum á potta rúntinn og í gufuna. Var komin heim um sex leytið. Um hálfátta var ég komin vestur í bæ til fyrrum kortadeildar vinnufélaga, rétt á eftir einni sem enn vinnur með mér. Stuttu á eftir mér kom fyrrum yfirmaður þessarar deildar og svo síðast tvær í viðbót sem voru hluti af genginu sem vann lengst saman. Þetta var mjög skemmtilegur hittingur og kvöldið leið alltof hratt og teygðist þó úr því þar til klukkan var langt gengin í ellefu.
15.10.24
Smá hlýindi í kortunum
Var mætt í vinnu um hálfátta. Það var amk 4°C frost úti og kalt í vinnusalnum. Sá kuldi lagaðist ekki fyrr en fór að líða á daginn. Mér skilst samt að það hafi verið kaldara niðri. Kláraði að vinna minn fyrsta innlagnarskammt upp úr klukkan níu. Var komin inn á kaffistofu rétt fyrir hálftíu og þar var ég uns komið var að mér í starfsmannasamtali við yfirmanninn. Átti tíma kl 10:20 en sú sem var klukkan tíu var búin aðeins fyrr. Samtalið gekk vel. Ég missti af samtalinu í vor þar sem ég var í veikindaleyfi en það kom ekki að sök. Varð kannski helst til þess að ég nýtti minn tíma mjög vel í gott spjall við yfirmanninn. Vinnudagurinn var búinn um þrjú leytið. Var mætt í osteostrong rúmum hálftíma fyrir skipulagðan tíma og komst að tíu mínútum síðar. Eftir tímann og hvíldina fór ég beint í sund. Var búin að synda 300m, fara tvisvar í þann kalda og í 15mínútur í sjópottinn þegar kalda potts vinkonan mætti á svæðið. Fór með henni tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í heitasta og svo í góða gufu áður en ég fór upp úr. Kom við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim. Það er frekar sjaldan sem ég skrepp í Hagkaup en þar fást vörur sem eru líka fáanlegar í heilsuhúsinu.
14.10.24
Þrír vinnudagar framundan hjá mér
Fór á fætur upp úr klukkan sjö. Tók m.a. til sunddótið en eitthvað varð til þess að ég gerði ekkert meira í þeim málum. Morguninn leið samt frekar hratt. Bjó mér til hafragraut í hádeginu og um hálftvöleitið rölti ég með tvo poka af textíl í gáminn í vesturenda Eskihlíðar. Hélt svo göngunni áfram. Tók snöpp stöku sinnum og settist niður stöku sinnum. Faðmaði tré, sá fugla og kanínu (bara ein kanínu) og naut alls þessa í botn. Úr varð ca 7km göngutúr um Hlíðar, Öskjuhlíð og Fossvogskirkjugarð. Heildar skrefafjöldi gærdagsins var tæplega tólfþúsund skref. Þegar ég kom úr göngunni útbjó ég mér heitan súkkulaðidrykk úr 100% súkkulaði og soðnu vatni.
13.10.24
Heima
Sjálfsagt hefði ég alveg komist klakklaust út út bænum á sumardekkjunum en ég ákvað engu að síður að fara ekki lengra heldur en í Laugardalslaugina í gærmorgun. Var komin þangað rétt fyrir níu og það voru allir að vara mig við að pottarnir væru í kaldara lagi. Ég fór beinustu leið í þann kalda sem var mjög hressandi. Svo fór ég á braut 6 og synti 500m, flesta á bakinu, áður en ég fór aftur í þann kalda. Það virtist lokað fyrir tvo hringpotta og sjópottinn en ég fór smá stund í nuddpottinn áður en ég fór aftur í kalda. Eftir þá ferð settist ég inn í gufu sem var svona í máttlausara lagi. Sat þar engu að síður í uþb tuttugu míntútur áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Annars var ég bara heimavið í gær. Nýtti tímann kannski ekkert ofboðslega vel en hann leið engu að síður frekar hratt. Hugurinn var hjá Selsundsfjölskyldunni en Sverrir Haraldsson fékk hvíldina fyrr í mánuðinum og var borinn til grafar í gær. Hann varð 97 ára um miðjan maí sl. og mér skilst að hann hafi enn verið stálminnugur og andlega hress.
12.10.24
Jafntefli
Vaknaði stuttu áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Skipti morgunrútínunni ójafnt niður og bitnaði það á úlnliðsæfingunum. Eins og oftast tók ég prjónadótið með í vinnuna og notaði fyrstu tíu mínúturnar á vinnustaðnum í að prjóna nokkrar umferðir til að liðka mig. Það var framleiðsludagur og ég var komin niður fyrir klukkan átta til að hlaða inn nýjustu skrám og uppfæra skiptiblöðin. Gátum ekki lokið daglegri framleiðslu í fyrstu atrennu þar sem okkur vantaði fleiri form. Fengum smá sendingu í hádeginu og vorum þá alls ekki lengi að klára og ganga frá niðri. Uppi hafði líka þurft að hinkra aðeins eftir verkefnum en flest allt var búið fyrir klukkan hálfþrjú. Fór beinustu leið í Nauthólsvík í 5°C sjóinn í ca tuttugu mínútur, var aðrar tuttugu mínútur í gufu en aðeins tíu mínútur í pottinum. Var komin heim upp úr klukkan hálffimm. Vafraði aðeins á netinu. Fékk mér skyr um hálfsex, horfði á einn þátt og svo á opna dagskrá á stöðtvö sport á landsleikinn. Skrapp í stutta göngu í leikhléi og náði skrefamarkmiðum dagsins. Seinni hálfleikurinn var nýbyrjaður þegar ég kveikti aftur á sjónvarpinu. Sá hálfleikur var mun betri en sá fyrri sem var samt alls ekkert svo slakur þrátt fyrir að fá á okkur tvö mörk. Mér fannst bara synd að strákarnir okkar skyldu ekki ná að pota inn þriðja markinu sínu og vinna leikinn. Strax að leik loknum horfði ég á vikuna og svo einn þátt áður en ég fór upp í rúm að lesa um hálfellefu leytið.
11.10.24
Vinningur á miða í SÍBS
Var komin á fætur um sex. Morgunverkin voru svipuð og oftast. Þegar ég lagði af stað í vinnunna var byrjað að snjóa. Það hafði þó engin áhrif á aksturinn. En ég varð mjög vör við það að flestir í umferðinni keyrðu mun varlegar. Ég er búin að bóka dekkjaskipti en fékk ekki tíma fyrr en eftir 21. okt n.k. Vinnudagurinn gekk ágætlega fyrir sig. Um tvö leytið var hringt í mig frá SÍBS til að tilkynna mér um vinning og fá hjá mér reikningsupplýsingar vegna innlagnar. Dregið var 8. okt. Fékk síðast vinning á þennan miða í júní fyrir tíu árum en ég er búin að eiga þennan miða í 38 ár eða svo. Hitti kalda potts vinkonu mína í sundi um þrjú leytið. Hún var búin að synda 200 en synti 300 í viðbót og beið svo eftir mér á meðan ég kláraði 300. Fórum þrisvar í kalda, góða gufu en eftir smá stund í sjópottinum var mér orðið mikið mál að pissa. Þar að auki var ég búin að lofa mér heim um hálffimm til að taka á móti lesgleraugunum sem urðu eftir í saumaklúbbnum á miðvikudagskvöldið.
10.10.24
Saumaklúbbur eftir óvenju langt hlé
Í morgunkaffinu um hálftíu og í rúman klukkutíma í vinnunni í gærmorgun fengum við áhugaverðan fyrirlestur um lífeyrismál. Annars fór mest allur vinnudagurinn í framleiðslumál. Kláruðum nýjustu endurnýjunina, vel yfir fjögurþúsund kort í heildina. Framleiddum rúmlega tólfhundruð af þeim í gær. Eftir vinnu fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Talaði við pabba á meðan ég var á leiðinni þangað. Klukkan var rétt byrjuð að ganga fimm þegar ég óð út í 5,8°C sjóinn. Ætlaði bara að vera stutt en var líklega tæpar tuttugu mínútur og svo svipaðan tíma bæði í gufu og pottinum á eftir. Kom heim um hálfsex. Um hálfátta sótti ég Lilju og við vorum komnar nokkrum mínútum á undan áætlun til Sonju sem hafði boðað okkur í saumaklúbb. Það eru líklega uþb tvö ár síðan síðast var haldinn saumaklúbbur og nú á að endurvekja stemminguna. Kvöldið var að sjálfsögðu mjög skemmtilegt, ljúft, notalegt og alltof fljótt að líða. Kvöddum og þökkuðum fyrir okkur um tíu. Eftir að hafa skilað Lilju heim tók ég einn hring í götunni minni en fann ekkert stæði. Lagði bílnum því í Blönduhlíðinni. Uppgötvaði svo þegar ég kom inn heima að lesgleraugun voru ekki á sínum stað, í pungnum hjá símanum. Hvernig sem það gerðist þá urðu þau eftir hjá Sonju.
9.10.24
Engar holur
Vaknaði um sex. Var mætt í vinnu rétt fyrir hálfátta. Nóg var að gera en ég þurfti svo að fá að stinga af stuttu fyrir þrjú til að mæta í árlegt eftirlit hjá tannsa. Af tönnum er allt gott að frétta, líka þeim tönnum sem tanni vildi fara að "uppfæra" fyrir ári. Önnur af þeim tönnum er barnajaxinn minn sem nú er örugglega orðinn fimmtugur en stendur enn fyrir sínu þótt hann sé minni en fullorðinstennurnar og öðruvísi á litinn. Mér skilst að tryggingastofnun borgi 95% til baka af því sem þarf að gera en ég held að ég myndi sjá eftir jaxlinum. Ætla amk aðeins að hugsa þetta betur. Bókaði næsta eftirlit eftir ár og fór svo beint í sund. Var búin að synda 300m þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Hún náði að synda 400m á meðan ég synti aðra 300m. Fórum tvær ferðir saman í þann kalda, eina í gufu en eftir nokkrar mínútur í sjópotinum kvaddi hún því hún var að mæta annað um hálfsex. Ég fór eina ferð í viðbót í þann kalda áður en ég fór upp úr og heim.
8.10.24
Osteostrong í gær
Vaknaði um sex í gærmorgun. Hafði nægan tíma í alla morgunrútínu. Þurfti aðeins að ýta við N1 syninum sem líklega slökkti á sínum vekjara og sofnaði aftur. Hann var því að fara af stað í sína vinnu örfáum mínútum á undan mér. Ég fór annars alls fjórum sinnum niður í kortadeild í gær, þrisvar til að hlaða inn gögnum (eitt skipti af þeim þremur voru aukagögnin ekki komin) og einu sinni með tvo kassa af umslögum. Annars var ég í innlögnunum. Það voru bæði frí og veikindi þannig að minn vinnudagur varði í rúma átta tíma. Stakk af rétt fyrir fjögur til að mæta í osteostrong tíma. Að þessu sinni voru engin met slegin en ég var samt við mitt besta. Var komin í sund korter fyrir fimm. Synti reyndar ekkert en fór þrjár ferðir í kalda, eina góða gufuferð og í sjópott og tvo heita potta með kalda potts vinkonu minni sem var þegar búin með tvær ferðir þegar ég mætti. Ég fór upp úr á undan henni og mætti einni systur hennar. Fékk mér hluta af bleikjunni sem var afgangs frá því í hádeginu á sunnudaginn. Fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim svo skrefafjöldinn var rétt rúmlega þrjúþúsund, rúmum þúsund undir markmiðinu en ég veit að skrefin voru fleiri því ég geymdi símann í bílnum þegar ég fór í osteostron og inni í skáp þegar ég var í sundi.
7.10.24
Mánudagur
Losaði svefn milli sex og sjö í gærmorgun. Fannst of snemmt að fara alveg strax á fætur og á einhverjum tímapunkti steinsofnaði ég aftur. Vissi næst af mér um hálfníu. Þá fór ég loksins á fætur. Til að byrja með var ég með það í huga að skreppa fljótlega í sund en sú hugmynd hvarf einhvern veginn alveg frá mér. Eldaði mér bleikju í hádeginu og rétt fyrir eitt fór ég loksins út. Ætlaði í smá göngutúr sem varð að uþb 6km hring um Öskjuhlíð með smá tvisti yfir á Klambratún í lokin. Heildar skrefafjöldi gærdagsins fór yfir tíuþúsundogþrjúhundruð skref. Veðrið var dásamlegt og nánast engin ferð á logninu. Stoppaði tvisvar á leiðinni, seinna skiptið á Klambratúninu þannig að stutt var eftir heim. Er orðin mjög meðvituð um að rétta vel úr líkamanum á röltinu og þannig finn ég minnst fyrir hægri mjöðm og hné og með hvíldinni á Klamratúni í gær, þótt stutt væri, sá ég til þess að ég þurfti ekki að draga hægri fótinn upp tröppurnar heima hjá mér. Annars leið gærdagurinn hratt við alls konar og ekki neitt.
6.10.24
Í miklu leti kasti
Vaknaði upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Um tíu leytið útbjó ég mér hafragraut og var svo mætt í Nauthólsvík um það leyti sem opnaði klukkan ellefu. Sjórinn var 6,6°C, það var að fjara út en mikil stilla og ég var uþb tuttugu mínútur að svamla í sjónum. Fór út að kaðli og labbaði þaðan beint í gufuna. Fór ekkert í heita pottinn og var komin heim rétt fyrir tólf. Náði seinustu mínútum úr fyrri hálfleik Crystal Palace og Liverpool. Sá leikur fór 0:1 fyrir gestina en markið kom snemma í fyrri hálfleik svo ég sá það ekki. Fljótlega eftir leikinn skrapp ég út í göngu, 4,4km með þremur stuttum stoppum á leiðinni. Heildarskrefafjöldi gærdagsins fór yfir áttaþúsunogþrjúhundruð, þau skref sem forritið í símanum mældi. Forritið gat og getur ekki mælt skrefin sem ég stika þegar ég er ekki með símann á mér í sundi og sjónum. Til þess þyrfti ég að fá mér snallúr en ég er ekki komin þangað ennþá og alls óvíst að ég geri það. Hringdi í pabba í gær. Hann gat ekki svarað mér úr heimasímanum, það virtist bara skellast á. En hann gat svarað gemsanum og við spjölluðum í dágóða stund. Annars var ég að prjóna eða horfa á þætti eða fótbolta, vafra á netinu og dunda við eitt og annað. Tíminn flaug frekar hratt, gerir það alltaf sama hvort ég er að gera eitthvað eða ekki neitt.
5.10.24
Morgunstund
Vinnudagurinn í gær fór að mestu leyti í framleiðslu. Gengum frá kortadeildinni um tvö leytið. Erum byrjaðar á síðustu og stærstu færslunni í nýjustu endurnýjuninni. Rífandi gangur í þessu. Stimplaði mig út eftir nákvæmlega 7klst og 15mín sem er svona föstudagstími. Fór beint í sund og á braut 6. Synti 300m þar og færði mig svo yfir á braut 7 fyrir síðustu 100m áður en ég fór í eina fimm mínútna ferð í kalda pottinn. Settist á bekk í uþb tvær mínútur en dreif mig svo inn að þvo mér um hárið. Átti tíma í klippingu klukkan fjögur og mætti á staðinn nánast á slaginu. Er enn að klippa mig sítt svo endarnir voru snyrtir, fékk svo blástur og greiðslu, keypti mér sjampó og festi næsta tíma í mars eftir hálft ár. Svo fór ég beint heim.
4.10.24
Strax að koma helgi aftur
Í fyrrakvöld var ég sofnuð rétt upp úr klukkan tíu og var svo vakin af vekjaraklukkunni eftir samfelldan átta tíma svefn. Það er ég viss um að sjórinn hafði þessi áhrif. Sinnti morgun rútínunni alveg ágætlega í gærmorgun. Er núna að vinna svolítið með tveggja kílóa lóðin, nokkrar mínútur á hverjum morgni. Er jafnvel farin að spá í að fjárfesta í tveimur næstu þyngdum ef þetta skyldi nú hjálpa mér að vinna í gripinu ásamt fleiru. Var búin í fyrra fallinu í vinnunni, lét kalda potts vinkonuna vita, og var komin í sund rétt fyrir þrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni á milli. Fór fyrst í kalda pottinn í fimm mínútur og svo beint á brautir 7-8. Mætti vinkonunni þegar ég var á baka leiðinni í fyrstu ferðinni af fimm. Hún syndir aðeins hraðar en ég og náði að synda sex ferðir á meðan ég kláraði 500 metrana. Svo fórum við nokkrar ferðir í þann kalda og gerðum gott stopp bæði í gufu og sjópotti. Ég kvaddi um fimm leytið og fór beinustu leið heim. Um átta leytið skrapp ég í stuttan göngutúr, fór 1,3km á sléttum 16 mínútum. Annars fór kvöldið í prjón, handboltaáhorf, frágangi á endum og horfði einnig á nýjasta þáttinn um Dimmu.
3.10.24
Sjórinn í gær; Hressandi og dásamlegur!
Megnið af vinnudeginum í gær fór í framleiðslu. Slökktum og gengum frá deildinni um hálfþrjú leytið en þá vorum við aðeins byrjaðar á næstsíðustu en jafnframt næststærstu skránni í þeirri endurnýjun sem við erum að vinna að núna. Allt var að verða búið uppi og við eigum að hafa amk tvær vikur til að klára fyrirliggjandi framleiðslu verkefni. Og við sjáum alveg fram á að það fari langt á föstudaginn og klárist á miðvikudaginn kemur. Annars var ég að telja alla virku miðviku- og föstudagana sem eftir eru á árinu og þeir eru tuttuguogfjórir. Alls ekki víst að við verðum að framleiða alveg til og með 27. des. en það er skrýtið að hugsa til þess að kortaframleiðslan sé á loka metrunum. Var komin í sjóinn tíu mínútum fyrir fjögur. 7,7°C og það var að flæða að. Synti ekki út að kaðli en var út í í næstum tuttugu mínútur. Svo var ég aðrar tuttugu mínútur í gufunni, 2 mínútur í lóninu og uþb tuttugu mínútur í pottinum. Næst lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Kom heim um sex leytið, fékk stæði fyrir framan hús og komst með alla pinkla inn í einni ferð.
2.10.24
Framleiðsludagur í dag
Það var að venju þriðjudagstörn í vinnunni í gær. Tækluðum samt allt innan átta tímana. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni í sund. Var komin í kalda pottinn tæpum tíu mínútum fyrir fjögur og á braut 2 áður en klukkan varð fjögur. Kalda potts vinkonan kom úr skólanum og með nýju sundhettuna skömmu síðar og synti 300m á meðan ég kláraði 500m. Svo fórum við þrjár ferðir saman í kalda, eina langa í gufuna og eins í sjópottinn. Ég var komin heim um hálfsex. Sótti þvott á snúruna, fékk mér kvöldhressinguna og settist svo fyrir framan skjáinn. Það stóð til að skreppa aðeins út aftur en það varð ekkert úr því að þessu sinni.
1.10.24
Fyrsti okóberdagurinn að leggja í hann
Morgunrútína gærdagsins var svipuð og oftast áður. Mætti í vinnu um hálfátta. Tók saman framleiðslutölur. Tölur frá einum stað skiluðu sér ekki fyrr en um hálfníu leytið sem varð til þess að við urðum að biðja tæknimann um að "sópa" skránum yfir á vélina. Sú sem er á hleðsluvaktinni þessa vikuna var búin að fara tvisvar niður og grípa í tómt. Hún bað mig um að fara niður og hlaða inn þegar tæknimaðurinn var búinn að gefa okkur grænt ljós. Annars var ég í innleggjunum. Allt var búið fyrir þrjú. Fannst aðeins of snemmt að athuga hvort ég kæmist svona snemma að í osteostrong. Hringdi í Ellu vinkonu þegar ég lagði af stað frá vinnunni um þrjú leytið. Lagði bílnum fyrst við Hátún 10, fannst eitthvað svo margir bílar við nr 12. Um hálffjögur freistaði ég þess þó að fá stæði þar og það var eitt laust og annað að losna. Það var einn á undan mér í tíma, einn í hvíld og verið að sinna einum til. Ég þurfti samt ekki að bíða nema í fimm mínútur. Bætti mig á tveimur tækjum af fjórum og var við mitt besta á hinum tveimur. Var komin í sund um Hálffimm leytið. Fór eina ferð í þann kalda áður en ég synti 200m. Nú sveið ekki eins í augun nema fyrstu metrana en eftir tvær ferðir virtist vera að færast fjör í leikinn og þrengjast um á brautinni svo ég ákvað að fara aftur í þann kalda. Eftir þá ferð fór ég í sjópottinn í tuttugu mínútur. Var að vonast eftir að kalda potts vinkona mín væri að mæta á svæðið en ég var búin að fara þriðju ferðina í þann kalda og tuttugu mínútur í gufu áður en ég hitti hana. Við náðum þó einni ferð í þann kalda saman áður en ég kvaddi og fór upp úr. Hún átti von á einni systur sinni og svo mæltum við okkur mót aftur seinni partinn í dag.