31.12.23

Tími til að skella sér í sund

Ég vaknaði mjög snemma í gærmorgun, um hálf fimm leytið. Var útsofin en í stað þess að fara á fætur greip ég í bókina um Star og las næstu þrjá tímana. Fór á fætur um átta og þá átti ég bara eftir um sextíu blaðsíður af bókinni. Ég ætlaði mér svo sannarlega að skreppa út og í sund. Setti í þvottavél, sinnti morgunverkunum og "tíndi" mér svo í netvafri í meira en klukkustund. Náði svo í bókina inn í herbergi og kláraði hana. Að lestri loknum var letin orðin svo mikil að ég ákvað að skrópa í sundið. Fór að horfa á áströlsku þættina tvo sem voru sýndir á rúv í vikunni. Dagurinn leið hratt við alls konar, aðallega rólegheit. Mæli alveg með svona dögum stöku sinnum. Klukkan var farin að ganga tólf þegar ég fór í háttinn og ég las um stund í einni bók af safninu. Ætla að spara aðeins bækurnar sem ég fékk í jólagjöf en ekki of lengi samt. 

30.12.23

Að halda sig við efnið.... eða ekki

Í fyrrinótt rumskaði ég um hálftvö. Var líklega of lengi að ákveða hvort ég ætti að fara og tæma blöðruna eða reyna að sofna aftur því eftir að ég ákvað loks hið fyrra var hugurinn farinn að snúast um söguna og forsöguna um Star. Stóðst ekki mátið og ákvað að grípa aðeins í bókina. Las þó ekki nema í um tuttugu mínútur áður en ég gerði aðra tilraun til að bæla mig niður. Ég hef greinilega sofnað því ég rumskaði ekki fyrr en ca fimm mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Var mætt í vinnu um hálfátta. Rétt rúmum hálftíma seinna vorum við fyrrum fyrirliði kortadeildar komnar á fullt í daglega framleiðslu. Áður en við fórum í kaffi töldum við hluta af kortalagernum. Eftir kaffi dembdum við okkur í endurnýjunina. Kláruðum stærri fælinn sem eftir var, rúmlega fimmtánhundruð kort, rétt fyrir tólf. Eftir mat kláruðum við síðasta fælinn, tæp níuhundruð kort, áður en við framleiddum daglega skammtinn sem barst okkur á tólfta tímanum. Lukum svo við að telja kortalagerinn og ganga frá deildinni áður en við báðum um lyftu fyrir alla póstbakkana sem voru alls tuttuguogtveir. Þeir fóru upp í tvennu lagi og taskan með kortunum sem ekki voru gild heimilsföng á fór í seinni ferðinni. Ég fór sjálf upp með seinasta daglega skammtinn og gekk frá bókhaldinu. Stimplaði mig út korter fyrir fjögur. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti bæði ýsu, lax, síld og tværtegundri af harðfiski áður en ég fór í Nauthólsvík og skellti mér tvisvar sinnum í -0,3°C sjóinn. Fyrri ferðin var um þrjá mínútur, fór svo beint í gufu í rúmar tíu mínútur, rúma mínútu aftur í sjóinn og var svo næstum hálftíma í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. 

29.12.23

Rólegheit eftir vinnutörn

Ég var mætt í vinnu um hálfátta í gærmorgun. Var áfram í bókhaldi og á móttökuendanum. Þegar tveir af þremur daglegum framleiðsluskömmtum var lokið byrjuðum við á endurnýjuninni sem var send til okkar eftir hádegi sl miðvikudag. Eftir kaffi héldum við þeirri framleiðslu áfram til hádegis. Eftir hádegi framleiddum við hádegisskammtinn en héldum svo endurnýjun áfram. Framkvæmdastjórinn gaf leyfi á að vinna aðeins fram á daginn til að gera atlögu að því að klára þessa endurnýjun fyrir áramót svo hún færi inn í reikningagerð desember mánaðar. Framleiðsla gekk alveg þokkalega. Tókum pissu og vatnspásu um tvö og aftur um fjögur. Í seinni pásunni spurði framkvæmdastjórinn hvað við ætluðum að vera lengi. Við vorum alveg á því að vera þar til allt væri búið. Honum leist nú ekkert á það. Sagði að kerfið færi á húsið sjálfvirkt klukkan sjö og lagði til að við yrðum ekki lengur en til hálfsjö. Um sex leytið var vélin aðeins farin að stríða okkur svo við ákváðum að hætta og ganga frá, þá búnar að framleiða rúmlega fjögurþúsund kort af þessum sexþúsundogþrjúhundruð. Ég stimplaði mig út tuttugu mínútur yfir sex og fór beinustu leið heim þrátt fyrir að vera með sund dótið meðferðis.

28.12.23

Hækkandi sól

Vaknaði um klukkan sex í gærmorgun á þriðja síðasta vinnudegi ársins. Hafði nógan tíma í morgunverkin og netvafrið en fór samt út úr húsi á sama tíma og N1 sonurinn þar sem ég vissi að sópa þyrfti af bílnum. Davíð Steinn hafði tekið upp vinnukonunarnar á framrúðunni fyrir mig daginn áður og hitastigið var um núllið svo það tók ekkert svo langan tíma að losa sig við snjóinn og það þurfti heldur ekki að skafa. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Þessa vikuna er ég í bókhaldinu og á móttökuendanum á vélinni. Byrjaði þó á því að fara inn á kaffistofu, fylla á vatnsflöskuna og fá mér smá heitt vatn áður en ég fór að safna saman tölum. Í heildina var dagleg framleiðsla rétt um 200 kort. Vorum í innlögnum milli klukkan tíu og ellefu og svo aftur eftir hádegi. Um eitt leytið kom póstur um síðustu endurnýjun ársins og sú endurnýjun er mun stærri en marga undanfarna mánuði eða yfir sexþúsundogþrjúhundruð kort. Við höfðum þó verið sammála um það fyrrum fyrirliði og ég að halda okkur uppi í innleggjunum, þar var nóg að gera og hjálparhendur mjög vel þegnar. Stimplaði mig út úr vinnu um hálffimm og fór í sund. Synti í tæpar tuttugu mínútur, fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í þann heitasta. Sleppti ferð í sjópottinn þar sem þar voru frekar margir á þeim tíma sem ég var í sundi. Var komin heim um klukkan sex. 

27.12.23

Afslöppun

Í gærmorgun vaknaði ég ekki fyrr en um hálftíu. Mér varð fljótlega ljóst að ég myndi alls ekki nenna að drattast af stað í sund. Skrapp fram á salernið og svo beinustu leið undir sæng aftur, ekki til að sofa heldur las ég til klukkan að ganga tólf. Þá fyrst klæddi ég mig, bjó um og fór á fætur til þess eins að hafa það notalegt áfram í stofunni. Smá netvafr, meiri lestur, þátta og fótboltaáhorf fram á kvöld.  Háttaði mig upp í rúm um tíu, áður en síðasti fótboltaleikur dagsins var búinn og las til klukkan hálfellefu. Er nú búin með einn þriðja af bókinni um Star.

26.12.23

Notalegheit

Ég skal alveg játa það að það tekur svolítið á að neita sér um ýmislegt sem er í banni eða pásu þessa dagana. Allra helst er það blessað kaffið sem ég hef ekki drukkið síðan 14. október. Mér er þó alveg sama þótt ég sleppi bæði súkkulaði og öðrum sætindum því oftast er það skammvinn sæla að neyta þeirra en óþægindin yfirleitt þannig að það er langbest að sleppa því að smakka eða fá sér. Ég er sem betur fer það þrjósk að ég hef nokkurn veginn staðist allar helstu freistingar, fyrir utan íssmakkið á aðfangadagskvöld. Það að ég hafi getað staðist það að fá mér kaffi er samt ofar mínum skilningi. Sennilegast er það þó vonin um að ég geti á einhverjum tímapunkti tekið það í einhverri mynd inn í daglega rútínu aftur.

Annars svaf ég alveg til klukkan að verða níu í gærmorgun þótt ég væri sofnuð fyrir miðnætti kvöldið áður. Ég var komin á fætur nokkru síðar. Pabbi kom klæddur fram á tólfta tímanum en hann hafði komið fram um sex fyrst líkt og flesta aðra daga til að fá sér eitthvað og taka niður helstu hitatölur úti og inni. Ég var eitthvað að vafra smá á netinu og leggja kapla en ég setti samt aðal kraftinn í að klára bókina um Ally og það tókst.

Synir mínir komu um hálffimm leytið. Pabbi var búinn að búa til grjónagraut sem var þó geymdur sem eftir réttur. Í sameiningu settum við upp tvær gerðir af heimalöguðum bjúgum sem sundfélagi pabba gaf honum nokkru fyrir jól. Hann gaf pabba reyndar þrjár tegundir, úr hrossi, kind og nauti. Kartöflur voru settar út í pottinn eftir tuttugu mínútna suðu. Handa mér útbjó ég sams konar rétt og kvöldið áður og svo lagaði ég uppstúf sem aðeins pabbi og Davíð Steinn gerðu góð skil með bjúgunum og kláruðu. Borðað var um sex leytið en þá var Davíð Steinn búinn að hjálpa afa sínum að ná sambandi við skannan í gegnum tölvuna. Einhver tenging hafði dottið út. Svo pabbi gat loksins skannað inn og prentað út nýtt skjal til að safna daglegum tölum á nýja árinu sem nálgast óðum. Mikið sem mig annars langaði til að smakka bjúgun sem strákarnir og pabbi sögðu að væru mjög góð. Ég varð samt þokkalega södd af mínum mat og þrátt fyrir að langa líka til að smakka grjónagrautinn þá hefði ég ekki haft pláss fyrir hann hvort sem er. Þegar við horfðum á fréttir og veður sáum við að spáin fyrir morgundaginn væri frekar leiðinleg. Bræðurnir ætluðu svo sem hvort sem er ekki að stoppa yfir nótt en þetta varð til þess að ég tók þá ákvörðun að taka mig upp í gærkvöldi og fara heim. Lögðum þó ekki í hann fyrr en klukkan var farin að ganga ellefu. Vorum í samfloti, ég oftast á undan bræðrunum, og vorum komin heim um hálftólf. Ég gekk frá farangrinum en fór svo beinustu leið í rúmið, ekki til að fara að sofa strax heldur til að lesa aðeins í bókinni um Star. Held að klukkan hafi verið að verða eitt þegar ég fór loksins að sofa.

25.12.23

Ofboðslega notalegur tími

Rumskaði um hálfsex í gærmorgun og þurfti að skreppa aðeins á salernið. Reyndi að kúra mig niður aftur en um klukkutíma síðar tók ég upp fartölvuna sem ég hafði meðferðis og "rúntaði" smá í vefheimum og setti inn færslu. Loggaði mig út um þremurkorterum seinna og tók þá fram eina bók. Las til klukkan að verða níu en þá drattaðist ég loksins á fætur. Pabbi kom ekki fram fyrr en um ellefu leytið en hann hafði fengið sér morgunmat og tekið niður hitatölur um sex leytið. Við lögðum ofur áherslu á að gera sem minnst en þó var kveikt á sjónvarpinu og einnig vafrað aðeins á netinu, kaplar lagðir og ég las líka amk 200 blaðsíður. Um fimm leytið brytjaði ég hálfa sæta kartöflu, 3 venjulegar kartöflur, 5 gulrætur og hálfan lauk og setti allt í sama gufusoðninga-pottinn. Ofan á grænmetið lagði ég smá grænkál. Eftir að suðan kom upp lækkaði ég undir og leyfði þessu að malla í tíu mínutur áður en ég setti laxaflak kryddað með hvítlaukspipar, cayennepipar og smá karrý með roðið niður á grænkálið. Þurfti ekki að hækka undir og tíu mínútum seinna var maturinn tilbúinn. Með þessu hafði ég súrkál, grænar steinlausar ólífur og fersk spínat. Pabbi fékk sér hrásallat. Vorum bæði sammála um að þetta hefði verið mjög gómsætt. Pabbi gekk frá eftir matinn og við horfðum og hlustuðum á aftansöng í sjónvarpinu áður en við tókum upp pakkana. Pabbi fékk eggjasuðutæki og konfektkassa frá Davíð Steini og Bríeti, viskíflösku frá Oddi og Inniskó, jólasokka og nýjustu útkallsbókina frá mér. Ég fékk bækur frá Bríeti og Davíð Steini (þau keyptu gjafirnar saman og hann pakkaði þeim saman inn og kvittaði fyrir þau bæði). Bækurnar eru eftir Arnald Indriðason og Jónínu Leósdóttur. Oddur gaf mér bókina Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur, pabbi hafði lagt smá aur inn á mig skömmu fyrir jól og fjórðu bókina fékk ég frá tvíburahálfforeldrum mínum, allar þrjár bækurnar; Af bestu lyst í einni bók. Fljótlega eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir lásum við jólakortin okkar. Ég las þau kort sem fylgdu gjöfunum aftur. Stalst svo til þess að smakka aðeins á vanilluís. Fékk mér ekki stóran skammt. Neikvæðu áhrifin komu ekki alveg strax fram en þau komu en voru ekki eins sterk eins og ef ég hefði dottið í súkkulaðiát.


24.12.23

Veislur

Sjálfsagt er smá jólaspenningur að gera vart við sig því það gekk pínu illa að sofna í fyrrakvöld. Það getur líka verið að því að ég ætlaði ekki að geta lagt frá mér bókina sem ég var að lesa, Systirin í storminum, og var klukkan næstum orðin ellefu þegar ég lagði bókina loksins frá mér þá komin á blaðsíðu sjötíuogeitthvað. Ég sem passa yfirleitt upp á það að vera búin að slökkva á leslampanum um tíu og stundum fyrr. En það var svo sem ekki vinnudagur framundan í gær. Ég rumskaði svo um hálfeitt til að skreppa á salernið en sem betur fer sofnaði ég fljótlega aftur. Ég var svo vöknuð fyrir klukkan sjö og hitti aðeins á N1 soninn áður en hann fór á sína vinnuvakt. Lagði af stað í sund um átta. Synti 500 metra, flesta á bakinu en næstum því 100m skriðsund og smá bringusund. Fór þrisvar sinnum í kalda pottinn, einu sinni í þann heitasta, einu sinni í gufu og einu sinni í sjópottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Kom heim rétt fyrir tíu. Sendi sms til tvíburahálfmömmu minnar um að ég ætti bara eftir að pakka niður áður en ég legði í hann austur á bóginn og hvort ég gæti komið við hjá þeim á Selfossi. Þau voru heima og hress og ég velkomin. Ég er alltaf velkomin þangað en það var bara orðið svo langt síðan ég kom við að mér fannst betra að spyrja og gera vart við mig. Það tók mig næstum þrjú korter að pakka niður og ferma bílinn. Pakkaði líklega niður fyrir meira en viku í staðinn fyrir þrjár nætur. Klukkan var því að verða tólf þegar ég "lenti" í Fossheiðinni. Fimm mínútum á eftir mér kom tvíburahálfsystir mín. Það var lagt á borð fyrir fjóra og boðið upp á skötu og saltfisk. Þvílíka veislan. Skatan var mjög góð, fékk mér tvisvar á diskinn og hafði svo ekkert pláss eftir til að smakka á saltfiskinum. Hélt ferðinni austur áfram um eitt leytið og var komin til pabba um tvö. Hann var að gera innkaupalista og spurðim mig hvort það væri eitthvað sem ég sæi að vantaði. Bað hann um að kaupa sæta kartöflu og spurði hvort ég ætti að fara með honum í búðina. Hann sagði að ég þyrfti þess ekki en mætti ef ég vildi. Ég ákvað að vera eftir og taka upp úr töskunum. Um hálfsex leytið bauð pabbi mér svo með sér á Kanslarann í skötu og þáði ég það með þökkum. Þar fékk ég mér aðeins einu sinni á diskinn þó, einhvern veginn ekki pláss fyrir meira og samt hafði ég ekkert fengið mér frá því ég borðaði í hádeginu. Helga systir hringdi í pabba stuttu eftir að við komum til baka. Bríet og Bjarki lentu í smá hrakningum á Hellisheiðinni, bíllinn hans ekki ökufær eftir og Bríet þurfti smá skoðun á sjúkrahúsinu á Selfossi vegna magaverkja. Vonandi verða þau fljót að jafna sig.

23.12.23

Sjórinn -0,3°C í gær

Ég var mætt í vinnu um hálfátta. Það komu skilaboð frá fyrirliðanum að hún yrði aðeins seinni. Ég "sótti" tölur og hlóð inn fyrstu verkefnunum. Fór svo aftur upp, fyllti á vatnsflöskuna og settist niður í kaffistofu með heitt vatn í bolla. Kláruðum fyrstu verkefni dagsins áður en klukkan varð hálftíu. Eftir kaffipásu (ég fékk mér aftur heitt vatn í bolla) lukum við sennilega við að framleiða síðustu gjafakortin fyrir einn bankann. Hráefnið er búið og líklega munum við ekki fá nýjar birgðir í ljósi þess að það er líklegt að íslenskri banka og gjafakortaframleiðslu verði hætt innan árs. Vorum búnar að framleiða hádegisskammtinn upp úr klukkan hálftólf. Gengum frá deildinni, sendum framleiðsluna upp með annarri lyftunni og fórum í mat. Hjálpuðum til í innleggjum og hreinsuðum gullið eftir mat. Ég stimplaði mig út tuttugu mínútum fyrir klukkan þrjú. Það kom athugasemd í mælaborð bílsins um að kominn væri tími á að athuga loftþrýstinginn í dekkjunum. Ég fór þó samt beinustu leið í Nauthólsvík og skellti mér smá stund í sjóinn, gufubaðið, lónið og heita pottinn. Var komin í bílinn aftur um fjögur og ákvað að gera mér ferð upp á Gagnveg í vinnuna til N1 sonarins. Fékk hann til að jafna þrýstinginn á dekkjunum og spjallaði smá við hann og vinnufélaga hans áður en ég fór heim. 

22.12.23

Indó

Við fyrirliðinn hættum gjafakortaframleiðslu rétt fyrir hálfþrjú og gengum frá kortadeildinni. Þá vorum við búnar með allt daglegt og 3000 gjafakort. 500 af þeim framleiddum við fyrir kaffi, 1500 kláruðum við upp úr hálftólf og fórum þá í mat. Í gær var jólamatur í boði fyrir alla hvort sem þeir eru í mataráskrift eður ei. Maturinn kom frá Múlakaffi og sú sem sér um kaffistofuna á D30 alla daga (sem og kaffistofuna á S15 á fundardögum) kom og setti upp matinn. Það kom í ljós að það var ýmislegt í boði sem ég mátti alveg fá mér af og þar að auki var afgangur sem ég mátti taka frá til að borða í hádeginu í dag. Smakkaði samt ekkert af kalkúninum, eplasallatinu eða eftirréttinum. Freistaðist til að fá mér smá rauðkál sem var líklega búið til í Múlakaffi. Mjög gott en líklega var samt eitthvað í því sem maginn minn þoldi ekki. Fann samt ekki fyrir neinu fyrstu klukkutímana eftir mat. Stimplaði mig út korter í þrjú og fór beint í sund. Synti 400 metra, fór 4 ferðir í kalda pottinn, eina í gufu, tvisvar í sjópottinn og eina ferð í heitastapottinn. Var komin heim um hálffimm leytið. Bræðurnir voru hvorugir heima, höfðu skroppið í pakkaheimsóknarferð á Bakkann. Ég byrjaði á því að fleygja mér í sófann með tvær af safnbókunum og las í rúman hálftíma. Þeim tíma var ekki skipt jafnt á milli bóka. Bækurnar sem ég er með af safninu eru:

Læknir verður til eftir Henrik Geir Garcia, Systirin í storminum eftir Lucindu Riley, Systirin í skugganum eftir sama höfund, Hús harmleikja eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur og Gísl eftir Clare Mackintosh

21.12.23

Mögnuð stund í sjónum seinni partinn í gær

Vaknaði stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Var mætt í vinnuna um hálfátta og fór eiginlega beinustu leið niður í kortadeild að sækja tölur og athuga hvort vélin kæmist í framleiðslugýrinn eftir að ég hafði kveikt á henni. Svo reyndist ekki vera. Um níu var ákveðið að kalla út viðgerðarmann. Hann kom á svæðið upp úr klukkan hálfellefu. Hann sagði okkur eiginlega strax að honum sýndist þetta ekki vera beint vélarbilun heldur samskiptaleysi í örgjörvamódúlnum við ákveðið kerfi. Fyrirliðinn hafði því samband við kerfisfræðinginn okkar og bað hann um að endurræsa þetta ákveðna kerfi. Það reyndist nóg til að koma vélinni í vinnugýrinn. Milli klukkan ellefu og hálfeitt framleiddum við daglegu kortin og 600 gjafakort. Frá korter yfir eitt til klukkan hálfþrjú lukum við svo við að framleiða endurnýjunina sem við vorum að vinna í þegar vélin hætti að vinna í fyrradag. Stimplaði mig úr vinnu klukkan hálffjögur. Kom við í Fiskbúð Fúsa til að kaupa harðfisk. Næst lá leiðin á bókasafnið að skila þremur bókum af fjórum. Fjórðu bókina var ég ekki byrjuð á en hún er hátt í 600 blaðsíður. Engu að síður tók ég fjórar bækur með mér af safninu og er ein þeirra einnig um 600 blaðsíður. Engin af bókunum er skammtímaláns en mig grunar að ég muni þurfa að framlengja skilafrestinum á þeim öllum. Meira um þessar bækur síðar. Af safninu fór ég beinustu leið í Nauthólsvík og skellti mér aðeins í 1,6°C sjóinn í þessu svartasta skammdegi. Sjórinn var spegilsléttur og sama og engin ferð á logninu. Var út í í rúmar sjö mínútur og svo ca korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. 

20.12.23

Í sjóinn eftir vinnu og nokkur erindi

Bílarnir okkar N1 sonarins voru hlið við hlið í stæði í gærmorgun. Þetta vissi ég því sonurinn var að ljúka við að skafa og sópa af sínum bíl og leggja af stað í vinnuna þegar ég kom út ca tíu mínútur yfir sjö. Ég var nokkuð snögg að skafa og sópa af mínum bíl og var mætt í mína vinnu um hálfátta. Það var komin meiri endurnýjun, ekki jafn stór og sú sem við lukum við á mánudaginn. Framan af morgni stóð það til að fyrirliðinn þyrfti að skreppa úr vinnu og sinna brýnu erindi. Það erindi datt þó upp fyrir og í staðinn fórum við að vinna að endurnýjuninni. Einnig voru send á vélina gjafakort fyrir einn sparisjóðinn sem við lofuðum að yrðu unnin sem fyrst. Tuttugu mínútum fyrir þrjú hætti vélin allt í einu að vinna í miðju kafi. Vorum í um fimm korter að reyna að tjónka við hana en við komum henni ekki af stað sama hvað. Við ákváðum að kannski myndi hún haga sér betur eftir góða næturhvíld. Gengum frá kortadeildinni og ég stimplaði mig út rúmlega fjögur. Hringdi aftur í pabba á leiðinni yfir í Laugardalinn. Þurfti að segja honum að ég hefði sofið af mér byrjunina á nýjastu Reykjaneseldunum. Frétti fyrst af gosinu á samfélagsmiðlunum í gærmorgun.  Eftir eina ferð í kalda pottinn og 500 metra sund hitti ég kaldapotts vinkonu mína. Fórum saman þrjár ferðir í kalda, tvær ferðir í heitasta, eina í gufuna og eina í sjópottinn. Þá var mér orðið mikið mál að komast á klósettið, kvaddi og fór upp úr. Held að vinkona mín hafi tekið eina til tvær ferðir í viðbót í þann kalda. Ég var komin heim um sex leytið.

19.12.23

Töluvert gos í gangi

Vaknaði um sex í gærmorgun. Var ekkert að flýta mér að neinu. Þurfti að skafa aðeins og sópa af bílnum áður en ég lagði af stað í vinnuna á áttunda tímanum. Eftir að hafa stimplað mig inn í vinnunni og opnað seinni lásinn á ytri hurðinni á hvelfingunni uppi fór ég niður að ná í tölur. Það voru alvöru tölur á ferð. Daglegu tölurnar voru reyndar ekkert svo háar en það var komin endurnýjun upp á meira en tvöþúsund og tvöhundruð kort. Fyrirliðinn var í bókhaldinu og á móttökuendanum og okkur tókst að framleiða allan fyrirliggjandi skammt bæði af daglegum kortum, smá gjafakortum og þessa endurnýjun á nokkrum klukkutímum. Vorum búnar að ganga frá kortadeildinni um hálfþrjú. Seinasta klukkutímann fór ég yfir skjöl. Stimplaði mig út úr vinnu um hálffjögur. Hringdi í pabba og talaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Hitti kaldapotts vinkonu mína í hennar þriðju ferð í kalda pottinum. Fórum fjórar ferðir saman, tvær í heitasta, eina í gufu og eina í sjópottinn. Svo fór hún upp úr en ég synti fyrst 400metra. Var komin heim um hálfsex. 

18.12.23

Inniskór

Var komin á fætur upp úr klukka sjö í gærmorgun en fór ekki í sund fyrr en um níu leytið. Fór fyrst tvær ferðir í þann kalda með viðkomu í heitasta pottinum á milli ferða. Synti svo 500 metra áður en ég fór aftur í þann kalda. Var í minni fjórðu ferð í kalda pottinn þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fór tvær ferðir með henni, eina í gufuna og svo sátum við góða stund í sjópottinum. Ég var komin heim um hálftólf. Fór ekkert út aftur en fjórum sinnum niður í þvottahús. Bríet frænka kíkti við og gat ég afhent henni jólakortið til hennar og Bjarka. Þá á ég bara eftir að afhenda síðasta jólakortið. Það verður gert á leiðinni austur á Þorláksmessu. Þegar fór að rökkva aftur kveikti ég á nokkrum sprittkertum og setti út í stofuglugga í mismunandi kertastjökum/ílátum. Fyrir seinni tvær ferðirnar í þvottahúsið klæddi ég mig í kósí föt. Var svo að lesa, horfa á fótbolta, þætti og hafa það huggulegt sem mest ég gat. 

17.12.23

Syndari

Rumskaði um fjögur leytið í gærmorgun og fannst það heldur snemmt. Skrapp fram á salernið og gerði svo tilraun til að sofna aftur. Það tókst eftir smá tíma og það vel að ég hafði mig ekki á fætur fyrr en klukkan var um hálfníu í gærmorgun. Ég sleppti þess vegna morgun netvafrinu og fór beint í sund. Byrjaði á þremur mínútum í kalda pottinum. Hitti yngstu mágkonu mömmu í sjópottinum og spjallaði við hana í góða stund áður en við fórum að synda. Ég skellti mér í hálfa mínútu í þann kalda og fór svo á braut 2 og synti 500 metra, flesta á bakinu. Hún fór beint á brautir 7 og 8. Ég var svo að koma úr þriðju ferðinni úr þeim kalda þegar við hittumst aftur á leiðinni upp úr. Þvoði mér um hárið og var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar korter fyrir ellefu. Stoppaði hjá henni í rúm fimm korter. Við lásum m.a. tvær blaðsíður af esperanto smásögu. Kom svo við í Krónunni áður en ég fór heim. Eftir að hafa gengið frá sunddóti og búðarvörum settist ég niður með fartölvuna í fanginu í um klukkustund. Ég var nýbúin að slökkva á henni og leggja tölvuna frá mér þegar Ella vinkona hringdi í mig. Hún var búin að fá sendinguna og opna hana. Leit á innihaldið sem jólagjöf og sagðist hafa lokað pakkanum aftur og ekki sýna manninum fyrr en á jólunum. Innihaldið í brúna umslaginu var jólakort í umslagi merkt jól, borðtuska og bók sem ég pakkaði ekkert sérstaklega inn því þetta var bara smá hugdetta að koma á óvart og ég var þar að auki búin að lesa bókina, sem kom út í fyrra, sjálf. Annars sagði Ella mér af hraðsláttar vandamálum sem fór að bera á fyrir tveimur mánuðum. Fyrir viku síðan kom upp þriðja tilfellið og þá loksins fór hún að láta líta á sig. Það eru til þrjár aðferðir til að reyna að ná niður púlsinum (fyrir utan lyf), engin þeirra aðferða virkaði á Ellu svo hún var sett á lyf. Svo sagði hún að mátturinn í fótunum færi minnkandi og það liði senn að því að hún verði að leggja göngugrindinni og treysta alfarið á hjólastólinn. En eins erfitt og þetta dæmi er þá er vinkona mín ekkert að barma sér og tekur þessu af miklu æðruleysi. Segir að það þýði ekkert að velta sér upp úr því sem lítið er hægt að gera við. En hún sagði mér líka að elsta barnið hennar og það yngsta verði hjá henni um jólin og miðjubarnið komi til hennar milli jóla og nýárs. Bræðurnir skruppu saman í Kringluna og svo til hinnar fjölkyldunnar. Ég hringdi í pabba, horfði á þætti og smá bolta. Annars er aðal boltaleikurinn seinni partinn í dag. 

16.12.23

Sjórinn eftir vinnu í gær

Vinnudagurinn í gær leið hratt og gekk ágætlega fyrir sig. Stimplaði mig út tuttugu mínútum fyrir þrjú og var komin í Nauthólsvík um þrjú. Leist satt að segja ekkert á blikuna á leiðinni á milli staða því það kom dimmt él og rok-kviðurnar tóku í. Ég ákvað þó að halda sjósundsferð til streitu. Sjórinn var 1,1°C og svolítill öldugangur en það er einmitt svo gaman að hoppa í öldunum. Var út í í svona þrjár mínútur og fór beinustu leið í gufuna. Sat í gufunni í uþb tíu mínútur og trítlaði svo aðeins í lónið. Fékk á mig hagl á leiðinni en eftir rúmar þrjár mínútur í lóninu fékk ég mikinn meðbyr og nánas hljóp yfir heita pottinum. Sat óvenju stutt í pottinum en þó amk tíu mínútur. Var komin heim um hálffimm leytið. Það voru ekki margir í Nauthólsvík á meðan ég var þar. Við vorum eitthvað um tíu en það voru að koma fleiri um það leyti sem ég var að fara. 

15.12.23

Enn og aftur komin helgi

Vaknaði um sex leytið í gærmorgun. Mætti í vinnu stuttu fyrir klukkan hálfátta og var byrjuð í innleggs vinnunni rétt fyrir átta. Rafmagnið blikkaði tvisvar sinnum á stuttum tíma um tíu leytið, blikkaði þannig að það slökknaði á tölvunum. Sem betur fer var ég ekki með innlegg í vinnslu akkúrat á þeim blikk augnablikum svo það sem ég var búin að vinna hélst inni. Vorum búin fyrir klukkan hálfþrjú. Ég fór beint yfir í Laugardalinn og hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni þangað. Var byrjuð að synda tíu mínútum fyrir þrjú og synti 500 metra á rúmum tuttugu mínútum. Þá fyrst fór ég í þann kalda. Sat svo góða stund í sjópottinum áður en ég fór aftur í kalda. Var í þriðju kalda potts ferðinni þegar vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við tvær ferðir í kalda og eina í gufu. Eftir gufubaðið fór ég upp úr og heim enda klukkan orðin hálffimm.

14.12.23

Þarabað

Rumskaði um hálfsex í gærmorgun en vaknaði svo tuttugu mínútur yfir sex, innan við tíu mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Dreif mig á fætur, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér vatnglas og vítamín. Vafraði um á netinu í um hálftíma. Þá fékk ég mér kókosvatn og hinn helminginn af vítamínunum. Mætti í vinnu áður en klukkan var orðin hálfátta. Ég var samt alls ekki fyrst á svæðið, sennilega sú fjórða. Innleggin gengu vel fyrir sig og við kláruðum í fyrra fallinu eða fyrir klukkan hálfþrjú. Eftir að hafa stimplað mig út fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Dýfði mér aðeins í ca eina mínútu í sjóinn áður en ég fór yfir að Siglunesi þar sem búið var að safna þara og setja í stórt kar ásamt rúmlega 34°C heitu vatni. Ég hef aldrei prófað svona áður en fannst þetta alveg himneskt og ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Held að ég hafi verið uþb fjörutíu mínútur ofan í þarasúpunni. Skrapp svo í heita pottinn og var þar í korter áður en ég fór upp úr. Fann smá þara fyrir innan sundbolinn þegar ég fór í sturtu. Var komin heim um fimm.

13.12.23

Rok og rigning

Vaknaði um sex í gærmorgun. Í vinnunni var ég alfarið uppi í innleggjum. Davíð Steinn hringdi í mig um tíu leytið. Hann hafði skilið bílinn sinn eftir á verkstæði við Tangarhöfða og átti von um að geta sótt hann seinni part dags og vildi athuga hvort ég væri til í að skutla honum. Ég lofaði að hringja í hann þegar ég væri búin að vinna til að kanna stöðuna. Hann hringdi aftur um tvö leytið. Heyrði reyndar ekki í símanum þá því ég var komin á kaf í að hreinsa gullið. Þegar ég hringdi til baka sagðist hann líka hafa sent mér sms um að bíllinn væri klár en það væri samt ekkert stress því það væri opið til klukkan sex. Ég var búin að vinna um hálffjögur og sendi honum þá sms um að ég væri að stimpla mig út og á leiðinni að sækja hann. Vorum komin upp á Tangarhöfða rúmlega fjögur. Skildi hann eftir þar og fór svo bara heim þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér. Þannig að ég skrópaði í sundið í gær.

12.12.23

Upplagt að nýta tímann

Vaknaði stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Fimm korterum síðar lagði ég af stað í vinnuna og tók smá krók til að setja tvö síðustu jólakortin sem fara í póst í póstkassann á pósthúsinu í Síðumúla. Var mætt í vinnuna rúmlega hálfátta og fór beint niður í kortadeild til að kveikja á vélinni, "ná í" tölur og hlaða inn fyrstu verkefnum dagsins. Bæði verkefnin voru í kringum níutíu kort en við vorum búnar að framleiða þau og komnar í kaffi um hálftíu. Milli tíu og ellefu var ég í innleggjum. Hádegis skammturinn var framleiddur á tólfta tímanum, tæp áttatíu kort og vorum við búnar að ganga frá deildinni tuttugu mínútum fyrir tólf. Eftir hádegi var yfirferð á vélinni. Fyrrum fyrirliði sá um að sitja yfir viðgerðarmönnunum en ég var uppi í innleggjunum. Klukkan var orðin fjögur þegar ég stimplaði mig út. Fór beinustu leið í sund og hitti kaldapotts vinkonu mína þegar ég var í fyrstu ferðinni í kalda og hún kom í sína aðra ferð. Fórum tvær ferðir í viðbót áður en við fórum í gufu. Úr gufunni fórum við í sjópottinn. Þegar hún fór í sína fimmtu ferð í kalda pottinn var klukkan orðin hálfsex og ég ákvað að drífa mig upp úr til að koma við á einum stað áður en lokaði klukkan sex. Var komin í Faxafen 5 tólf mínútum fyrir sex og svo í Fiskbúð Fúsa rétt rúmlega sex. Á seinni staðnum keypti ég harðfisk og ýsu í soðið sem ég eldaði handa mér um leið og ég kom heim. Með ýsunni hafði ég súrkál og afganga af gufusoðnu grænmeti sem ég tók með að austan. 

11.12.23

Ð

Svaf alveg ótrúlega vel í fyrrinótt. Rumskaði aðeins um sex og hefði þurft að fara fram á salernið en ég steinsofnaði strax aftur og svaf í tvo tíma í viðbót. Var komin á ról um hálfníu leytið og pabbi kom fram skömmu síðar. Verkefni dagsins var að skrifa á sem flest af jólakortunum og helst klára enska jólabréfið. Gleymdi að taka með mér bréfið sem ég fékk frá Janis sl sumar svo ég ákvað að ég gæti byrjað aðeins á bréfinu en ekki klárað það fyrir austan. Dagurinn leið alveg ótrúlega hratt. Lagði kapla inn á milli. Var með mat um eitt leytið. Vafraði aðeins á netinu og las í skammtímalánsbókinni. Þegar ég tók mig saman um hálffimm leytið átti ég aðeins eftir að klára enska bréfið og skrifa á fjögur jólakort. Þrjú af þeim fjórum jólakortum mun ég bera sjálf út. Kom við í Síðumúlanum rétt um sex í gær og setti 17 umslög í póstkassann. Fljótlega eftir að ég kom heim kláraði ég enska bréfið og að skrifa á síðustu jólakortin. Svo var ég næstum búin að festast í að horfa á upptöku á leik Noregs og Frakklands en ég ákvað að vera skynsöm og drífa mig í rúmið. Las nú samt til klukkan langt gengin í ellefu.

10.12.23

Í föðurhúsum

Í gærmorgun var ég komin á fætur fyrir klukkan sjö. Rúmum klukkutíma seinna fór ég í sund. Byrjaði rútínuna á því að fara í kalda, heitasta, kalda, gufu og sjópottinn áður en ég fór á braut sex og synti 400 metra á bakinu. Fór svo í kalda, heitasta og stutta dýfu í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar stuttu fyrir klukkan hálfellefu. Stoppaði hjá henni í fimm korter. Þegar ég kom heim, skömmu fyrir tólf, fór ég beint í að taka mig saman fyrir helgarskrepp út úr bænum. Kom við í Heilsuhúsinu í Kringlunni og stoppaði einnig stutta stund hjá frændfólki á Selfossi. Var að færa þeim tuskur. Þáði ekkert nema vatnsglas og gott spjall. Klukkan var að byrja að ganga þrjú þegar ég kom austur til pabba. Hann var að þrífa ísskápinn og búinn að setja upp jólagardýnur í eldhúsið og jólaljós í eldhúsglugga og stóra stofugluggann. Einnig voru óróarnir frá Georg Jensen komnir upp í stofugluggana. Ég hafði tekið með mér nokkur tebréf sem ég veit að ég má drekka og hitaði vatn út á eitt slíkt, kamillute. Settist stund við eldhúsborðið og lagði nokkra kapla. Svo færðum við feðgin okkur inn í stofu að horfa á boltaútsendingar og ég raðaði jólakortadótinu og skriffærum í kringum mig. Fann þrjú óskrifuð en tilbúin kort frá því í fyrra svo bunkinn var kominn upp í 28 stk. en ég er búin að skera niður á listanum svo það verða líklega 6-8 tilbúin en óskrifuð kort eftir fyrir vertíðina næsta ár. 6 stk. því ég er að spá í að skrifa á sér kort til yngri systurdóttur minnar og einnig senda eitt kort til Ísafjarðar. Held ég hafi samt ofáætlað frímerkin á kortin sem fara munu í póst en það gerir ekkert til. Afraksturinn á kortaskrifunum í gær var samt bara þrjú kort en ég skrifaði líka annað jólabréfið svo ég er bara þokkalega sátt. Eftir kvöldfréttir borðuðum við pabbi bleikju með gufu soðnu grænmeti (rauðkáli, hvítkáli, lauk og sætri kartöflu). Hann fékk sér stjörnuhrásallat að auki en ég súrkál. Horfðum svo á úrslitin í jólastjörnunni og upptöku frá jólagestum Björgvins frá því fyrir nokkrum árum. Ég fór ekki upp í rúm fyrr en klukkan var orðin hálfellefu og þá las ég í smá stund í skammtímalánsbókinni. Held ég hafi verið sofnuð áður en klukkan var orðin hálftólf.

9.12.23

Laugardagur

Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég  vaknaði í gærmorgun, þó var enn korter í að vekjarinn færi í gang. Slökkti á honum og fór á fætur. Var mætt í vinnu um hálfátta. Heildar kortaframleiðsla náði ekki þrjúhundruð kortum en það var nóg að gera uppi og var klukkan að verða þrjú þegar ég stimplaði mig út. Bauðst til að skutla einni sem vinnur með mér heim. Hún býr í efra Breiðholti. Hún ætlaði að reka erindi í Mjóddinni og sagðist alveg vilja fá far þangað. Eftir skutlið fór í pósthúsið við Síðumúla. Þangað var ég komin ca korter fyrir lokun. Nóg var að gera en ég þurfti samt ekki að bíða nema í rúmar tíu mínútur. Var að versla frímerki á nokkur (enn óskrifuð) jólakort innanlands, tvö frímerki á (óskrifuð) jólabréf til Danmerkur og Englands og svo áætlaði ég þyngd á tveimur A4 umslögum sem sendingu til Egilsstaða og sveitina fyrir Norðan. Það er því nokkuð ljóst hvaða verkefni bíður helgarinnar. 

8.12.23

Undarlegt að það sé komin helgi enn á ný

Vinnudagurinn í gær var rólegur í kortunum en annasamtur í innleggjunum. Var að vinna til klukkan rétt tæplega fjögur. Fór svo beint í sund. Hitti kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum. Hún var að fara í sína aðra ferð. Tókum fjórar ferðir í þann kalda, tvær í heitasta pottinn, eina ferð í gufuna og eina ferð í sjópottinn. Ég endaði í kalda pottinum áður en ég fór upp úr og heim um fimm leytið en vinkona mín ætlaði að vera eitthvað lengur að pottormast. 

7.12.23

Jamm

Það er nokkuð um veikindi á vinnustaðnum þessa dagana. Engu að síður gengur ágætlega að vinna upp innleggin og annað sem þarf að gera án þess að vera alveg fram á kvöld. Ég var búin í vinnunni í gær um þrjú leytið. Þó það væri freistandi að skreppa aðeins í 0,9°C sjóinn ákvað ég að vera skynsöm. Ég er enn með smá kvef og vildi ekki hætta á að slá niður. Kom við í Bókasafninu og skilaði þremur bókum, ein af þeim var skammtímalánsbók með skilafrest til 7. des. Tók tvær bækur í staðinn, aðra sem er á sjötta hundrað blaðsíður og hina sem er ný, yfir tvöhundruð blaðsíður og með fjórtán daga skilafresti. Bræðurnir voru ekki heim þegar ég kom heim en það var vitað. Þeir skruppu saman í heimsókn til föðurömmu sinnar. Stuttu fyrir klukkan hálfátta fór ég á bílnum og lagði honum á stæði við Domus Medica. Þaðan labbaði ég upp í Hallgrímskirkju. Esperanto vinkona mín var búin að bjóða mér á Aðventutónleika fjögurra kvenna/stúlknakóra. Inger var með miðana en hún og ein úr Viðeyjargenginu komu svona fimm mínútum á eftir mér. Það var uppselt á viðburðinn. Mér var boðið að koma inn í anddyrið á meðan ég beið en ég rétt kíkti þangað inn bara til að fullvissa mig um að þar var enginn að bíða eftir mér. Kórarnir fjórir voru; Aurora, Cantabile, Stúlknakór Reykjavíkur og Vox feminae. Dagskráin hófst á tónleikaatriði, fiðluleik við orgel undirspil. Á dagskrá voru 18 atriði. Fjórar konur sungu einsöng með eða án kóranna. Diddú var ein af þessum konum. Ekkert hlé var á tónleikunum en tíminn leið mjög hratt enda skemmti ég mér vel. Var komin heim aftur upp úr klukkan hálftíu. Fór þá beint í rúmið en las óvenju lengi, eða til klukkan hálfellefu. 

6.12.23

Rökkrið er mjög dökkt þessa dagana

Vaknaði útsofin um hálfsex leytið í gærmorgun. Tæpum tveimur tímum síðar var ég mætt í vinnu. Ekkert auka er í framleiðslu þessa dagana og við kláruðum fyrstu tvo skammtana áður en klukkan varð hálftíu. Vorum í innleggjum það til hádegisskammturinn skilaði sér. Vorum búnar að ganga frá og loka kortadeildinni stuttu fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi héldum við áfram í innleggjunum. Það var nóg að gera. Ég var búin um þrjú leytið og farin úr vinnu upp úr klukkan hálffjögur. Hringdi aftur í pabba til að segja honum músasöguna. Hann var þá staddur á Selfossi hjá Jónu Mæju. Hafði skroppið í bæinn til að láta þvo bílinn og stoppaði á Selfossi í baka leiðinni. Ég var byrjuð að synda um fjögur. Synti 500 metra á uþb 25 mínútum. Hitti ekki á kalda potts vinkonu mína en hún hafði sent skilaboð um að komast ekki í sund fyrr en um fimm leytið. Kom við á einum stað áður en ég fór heim eftir sundið. Horfði á hluta af landsleik kvenna í fótbolta við Dani. Missti þó af því þegar Ísland skoraði sigurmarkið. Ánægð með stelpurnar okkar og mikið svakalega stóð markvörðurinn sig vel. Þar er heilmikið efni á ferð. 

5.12.23

Eitthvað út í loftið

Klukkan var ekki nema hálfsex þegar ég rumskaði í gær við það að ég þurfti á salernið. Eiginlega of snemmt til að fara á fætur svo ég gerði tilraun til að kúra mig niður aftur eftir að hafa skroppið á snyrtinguna. Sú tilraun gekk ekki upp svo ég ákvað að klæða mig. Hafði ekki sett símann í hleðslu í fyrrakvöld. Það var sennilega alveg nóg á honum uþb 65% en ég ákvað samt að hlaða hann á meðan ég væri heima. Sinnti morgunverkunum og settist síðan inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um hálfsjö fór vekjaraklukka af stað. Hélt að N1 sonurinn ætlaði bara að fara á fætur í fyrra fallinu. Vekjarinn hélt áfram að hringja og ca 3-4 mínútum seinna ákvað ég að fara og banka á dyrnar hjá syninum. Hann var alveg saklaus, vekjarinn hans átti ekki að hringja fyrr en korter fyrir sjö. Ég hafði þá sjálf gleymt að slökkva á mínum eigin vekjara þegar ég fór á fætur og var þarna kannski búin að vekja eitthvað af nágrönnunum.

Mætti í vinnu stuttu fyrir klukkan hálfátta. Þar hafði ýmislegt gengið á á kaffistofunni skömmu áður en ég mætti. Einhvern veginn hafði mús komist inn og inn á kaffistofu. Músin forðaði sér inn í aðra uppþvottavélina og í stað þess að reyna að veiða hana þar var ákveðið að setja vélina bara í gang. Annars var ég á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Aðeins lágu fyrir dagleg verkefni. Lukum fyrri skömmtunum af rétt fyrir hálftíu. Fórum svo niður aftur um ellefu leytið og vorum búnar fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi var fyrrum fyrirliði í reikningagerðinni en ég var að hjálpa til í sumum uppi verkefnunum alveg til klukkan að verða fjögur. Þá fór ég í sund. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalinn en gleymdi að segja honum frá músinni, enda sá ég hana aldrei sjálf. Henni var hent í poka og út í gám. Kalda potts vinkona mín var í sinni annarri ferð í kalda pottinum þegar ég mætti. Saman fórum við þrjár ferðir, eina í gufuna og eina í sjópottinn. Innilaugin var ekki í notkun svo það var mikið um að vera á flestum brautunum í útilauginni. Ég synti því ekkert en þvoði mér samt um hárið á leiðinni upp úr. Var komin heim skömmu fyrir klukkan sex. 

4.12.23

Værukær

Svaf til  klukkan að byrja að ganga átta í gærmorgun. Var eitthvað að spá í að skreppa aðeins í sund en fljótlega ákvað ég að halda mig inni og heima. Líkt og á laugardaginn fór ég tvisvar í þvottahúsið, til að sækja þvott, setja í vél og hengja upp. Rétt fyrir tvö eða um það leyti sem leikur Liverpool og Fulham í ensku deildinni var að byrja datt mér í hug að athuga hvort ég gæti ekki nýtt tímann til að föndra á meðan ég fylgdist líka með leiknum. Þetta gekk svona glimrandi vel. Byrjaði á því að skera þykkar litaðar og hvítar arkir í tvennt og brjóta helmingana upp í kort. Held að ég hafi búið til helmingi fleiri kortagrunna en ég þarf. Svo klippti ég út nokkrar jólamyndir úr blöðum sem ég er búin að eiga í nokkur ár og klippa áður úr. Áður en fótboltaleikurinn var búinn var ég byrjuð að líma, skreyta og föndra. Hélt þessu föndri áfram og fylgdist einnig með lokaleik dagsins sem var milli Manchester City og Tottenham. Um það leyti sem kvöldfréttirnar voru að klárast var ég búin að búa til 25 kort, kvótinn kominn og sennilega rétt rúmlega það. Nú á ég bara eftir að setja hvítar arkir inn í lituðu kortin og svo væri snilld að byrja að skrifa kortin sem fyrst.

3.12.23

Hana nú!

Það er þrálátt kvefið. Ekki með hita, nef og ennisholur ekki stíflaðar, smá eymsli í hálsinum gera það að verkum að ég er latari en dags daglega. Var þó komin á fætur um sjö í gærmorgun og eitthvað að spá í að skreppa í sund. Endirinn varð samt sá að ég hélt mig inni við og heima við allan daginn. Einu skiptin sem ég fór út úr íbúðinni voru þau tvö skipti sem ég skrapp niður í þvottahús til að setja í eina vél og hengja upp. Hringdi í pabba um hálftvö leytið og vakti hann víst upp af hádegisblundinum eftir hádegisfréttirnar. Hann hafði verið svo fast sofandi að í fyrstu hélt hann að vekjaraklukkan væri að hamast þegar það var síminn og önnur dóttlan að trufla draumana. Annars sonurinn skrapp til pabba síns en hinn eldaði sér stórsteik og fór svo á nokkra klukkutíma aukavakt á N1 við Borgartún. Ég sýslaði ýmislegt en gerði lítið af því sem ekki má skrifa um, meira af því sem ég skrifa oft um. Dagurinn leið ótrúlega hratt og klukkan var orðin tíu þegar ég skreið upp í rúm. 

2.12.23

Fyndið eða fúlt?

Sennilega er ég ekki að fara alveg nógu vel með mig því það situr í mér þrálátt kvef með tilheyrandi leiðindum. Að vísu hefur ekki stíflast neitt, hef varla fundið fyrir hálsbólgu og alveg haft næga orku í daglegt stúss og vinnumál. Svaf eitthvað stopult í fyrrinótt en var vöknuð á mínum tíma og mætt í vinnu um hálfátta. Framleiðslu vikunnar var lokið stuttu fyrir tólf. Framkvæmdastjórinn og næstráðandi hans voru á fundi til klukkan langt gengin í eitt og við biðum bara rólegar eftir að þau kæmu í mat. Vorum að ganga frá eftir matinn til klukkan rúmlega hálftvö og skiluðum svo af okkur eldhúsvaktarböngsunum til þeirra sem eiga vaktina í næstu viku. Það teygðist úr vinnudeginum hjá sumum. Ég stimplaði mig út klukkan hálffjögur. Var með sjósundsdótið meðferðis en taldi það skynsamlegra að sleppa ferð í sjóinn. Kom við á tveimur stöðum áður en ég fór bara heim. Ég var komin í rúmið um hálftíu og sofnuð upp úr klukkan tíu. 

1.12.23

Afmælisheimboð

Þegar ég kom heim í gær og fór á netið biðu skilaboð eftir mér frá einni fyrrum samstarfskonu minni. Hún setti á kortagrúppuna sem var að vinna saman í K1 til október í fyrra. Hún bauð okkur heim til sín um fjögur leytið í gær í tilefni af 55 ára afmæli. Ég var búin að vinna fyrir klukkan þrjú. Fyllti tankinn hjá AO við Öskjuhlíð og skrapp svo heim í hálftíma. Við fjórar gestirnir komum allar á svipuðum tíma tvær af okkur voru með afmælisgjöfina; nýjasti jólaóróinn og tíminn minn 2024. Gestgjafinn og afmælisbarnið var steinhissa því hún var ekki að ætlast til þess að fá neina gjöf heldur langaði hana að hitta okkur. Hún bauð upp á alls konar kruðerí en ég þáði ekkert nema kalt vatn. Löngunin í sumt af kruðeríinu var alls ekki svo sterk. Ég var búin að vara við í grúppunni. Skrifaði að ég myndi koma í heimsókn er segði pass á veitingarnar. Stoppuðum í hátt í tvo tíma sem liðu ógnar hratt. Kom heim um upp úr klukkan sex.