31.8.23

Stutt í nýjan mánuð og helgina

Var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu og byrjaði á því að setja inn færslu dagsins. Var mætt í vinnu um hálfátta. Sá um bókhaldið og móttökuendann annan daginn í röð. Vorum búnar með daglega framleiðslu og lagertalningu um tólf. Engin ný endurnýjun lá fyrir svo við gengum frá deildinni áður en við fórum upp í mat. Hætti vinnu um þrjú og fór í sund, beint á brautir 7 og 8 í Laugardalslaug og synti í uþb tuttugu mínútur. Flestar ferðirnar á bakinu. Fór 2x6 mínútur í kalda, 10 mínútur í sjópottin og korter í gufu áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið. Labbaði einn hring um bygginguna áður en ég settist upp í bíl og fór heim. 

30.8.23

Ágúst á endasprettinum

Vaknaði um sex leytið í gærmorgun. N1 sonurinn kom fram tæpum klukkutíma síðar en var farinn út úr húsi á sína vakt tíu mínútum á undan mér. Ég var mætt í mína vinnu rétt fyrir hálfátta. Tók kerfin af kortaherberginu og hvelfingunni niðri en vatt mér svo beint í að taka saman þær framleiðslutölur sem við fáum póst um. Fyrrum fyrirliði mætti stuttu á eftir mér og hún fór beint niður til að kveikja á kortavélinni og senda, í gegnum TEAMS, þær tölur sem ekki koma með pósti. Svo fylltum við á vatnsflöskurnar og fengum okkur kaffi. Fórum niður að framleiða rétt rúmlega átta. Ég var á móttökuendanum og tók til plastið sem nota átti. Kláruðum visa og debet um hálftíu. Eftir kaffi fórum við beinustu leið niður aftur og unnum að endurnýjun sem barst okkur í fyrradag, tæp áttahundruð kort. Kláruðum helminginn sem og hádegisframleiðsluna rétt fyrir tólf og hinn helminginn  milli eitt og tvö. Þegar við vorum búnar að ganga frá niðri fórum við upp og í verkefni sem kallast að hreinsa gullið. Stimplaði mig út rétt fyrir klukkan hálffjögur. Komst ekki stystu leið í sundið en var komin ofan í kalda pottinn rétt fyrir fjögur og var í sjópottinum þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við fjórar ferðir í kalda, þrjár í heitasta og eina í gufuna. Ég fór upp úr um fimm og kom við á bókasafninu og Heilsuhúsinu á leiðinni heim. Skilaði þremur bókum en tók fjórar í staðinn svo nú er ég með átta bækur af safninu hér heima.

29.8.23

Sennilega síðasta mánudagssjósundið á þessu ári

Vaknaði amk hálftíma áður en klukkan átti að ýta við mér. Dreif mig á fætur og hafði góða klukkustund í netvafr eftir morgunverkin á baðherberginu. Mætti í vinnuna um hálfátta. Byrjaði á því að taka kerfin af á neðri hæðinni og fór svo niður til að kveikja á vélinni og hlaða inn fyrstu skrám til að fá þær tölur sem við fáum aldrei póst um. Svo fór ég í kaffistofuna, fyllti á vatnsbrúsann, fékk mér kaffi, spjallaði við vinnufélagana og prjónaði eina til tvær umferðir af nýjasta eldhúshandklæðinu. Einn vinnufélaginn átti afmæli í gær, varð 66. Hann mætir alltaf á hjóli og það var engin undantekning á því í gær. Samt kom hann við í bakaríi til að kaupa með afmæliskaffinu. Var í vinnu til klukkan rúmlega hálffjögur. Þá dreif ég mig í Nauthólsvíkina og var um 40 mínútur að synda/svamla út að kaðli og til baka. Kom heim um hálfsex. 

28.8.23

Ný vinnuvika framundan

Klukkan var langt gengin í níu þegar ég fór á fætur í gærmorgun og byrjuð að ganga tíu þegar ég var komin í sund. Fór beinustu leið á brautir 7 og 8 og synti 400m, þar af ca 80m skriðsund. Fór fjórum sinnum í kalda, tvisvar í gufu, einu sinni í þann heitasta og í ca tuttugu mínútur í sjópottinn. Sat svo um stund í sólbaði. Kom aðeins við í Krónunni í Skeifunni en var komin heim um tólf. Hellti mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Davíð Steinn færði mér líka smakk af búst-drykknum sem hann bjó til handa sér. Upp úr klukkan hálftvö labbaði ég út á Valsvöll. Klukkan tvö hófst leikur í Bestudeild kvenna milli Vals og Keflavíkur. Þetta var síðasta umferðin áður en skipt verður í efri og neðri. Það var ekki alveg að sjá í fyrri hálf leik að Valsstelpurnar eru á toppnum og þær úr Keflavík á botninum. Staðan var 1:1 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn vannst svo 3:0 þannig að úrslitin urðu 4:1. Labbaði örlítið lengri leið heim en síminn skráði á mig göngu upp á 17 mínútur. Horfði á seinni hálfleikinn í leik Newcastle og Liverpool. Staðan þar var 1:0 í hálfleik og púllarar einum manni færri frá 28 mínútu. Darwin Nunies kom inn á sem varamaður á 75. mínútu og skoraði 2 mörk fyrir Liverpool svo "mínir menn" unnu leikinn.

27.8.23

Sunnudagur

Heyrði í N1 syninum fara af stað á aukavakt um sjö í gærmorgun. Sjálf fór ég á fætur klukkutíma síðar og beint í sund. Synti 300m og fór nokkrar ferðir í kalda pottinn. Var komin upp úr rétt fyrir klukkan tíu og korteri síðar var ég komin til norsku esperanto vinkonu minnar. Var með esperanto dótið með mér en einhvern veginn fór allur tíminn í spjall og meira spjall. Stoppaði hjá henni til klukkan að verða tólf. Þá fór ég beinustu leið heim og ekkert meira út þann daginn.

26.8.23

Laugardagur

Ég var mætt til vinnu um hálfátta í gærmorgun. Undirbjó fyrstu tölur og mig undir að vera í bókhaldi. Þegar fyrirliði og fyrrum fyrirliði sendu mér fleiri tölur útbjó ég næstu tölur og einnig talningablöð. Fór með þessar tölur niður um hálfníu. Þá var hægt að byrja á föstudagstalningu á fyrri skápnum. Debetið var framleitt, pakkað og talið um það leyti sem var kominn tími á morgunkaffi. Næstu tölur komu ekki fyrr en um ellefu. Engin gjafakort og búið var að framleiða, pakka, telja og ganga frá deildinni fyrir klukkan tólf. Ég sá um að útbúa póstmiða eftir hádegi en var annars bara eitthvað að dúlla mér þar til klukkan var byrjuð að ganga þrjú. Um það leyti var allt að verða búið upp líka og flestir að fara eða farnir í helgarfrí. Fyrirliðinn ætlar að taka næstu viku sem sumarfrí. Ég var mætt í Nauthólsvík rétt fyrir þrjú. Sjórinn meira en fjórtán gráður. Synti út að kaðli og til baka og sat svo dágóða stund í heita pottinum. Nokkuð margt var um manninn enda gott veður en það var þó enginn troðningur samt.

25.8.23

Enginn titill

Ég svaf frekar lítið og skringilega í fyrri nótt og var komin á fætur áður en klukkan varð sex í gærmorgun. Mætti í vinnuna um hálfátta en stimplaði mig ekki inn fyrr en um ellefu. Setti athugasemd við innstimplunina um hvenær ég mætti til vinnu. Annars var ég á móttökuendanum. Við fyrirliðinn vorum búnar að afgreiða það sem lá fyrir í framleiðslunni um það leyti sem kominn var tími til að fara í kaffi um hálftíu. Næsti skammtur kom ekki fyrr en á tólfta tímanum svo við vorum uppi í öðrum verkefnum fram að því. Reyndar var næsta verkefni tvíþætt og annar hlutinn skilaði sér ekki fyrr en um tólf leytið svo við geymdum þann part fram yfir mat. Engu að síður vorum við búnar að ganga frá kortadeildinni fyrir klukkan hálftvö. Ég stimplaði mig út stuttu fyrir klukkan þrjú og fór beint í sund. Það var búið að loka brautum 7 og 8 þar sem verið var að stilla upp risa skjá á bakkanum við þær brautir. Ég sleppti því sundinu en fór nokkrar ferðir í kalda með kalda potts vinkonu minni. Var komin heim um fimm leytið.

24.8.23

Sumarleyfi lokið - á þó enn inni um sex daga

Heyrði í N1 syninum taka sig til og fara í vinnu um sjö leytið. Ég fór á fætur fljótlega eftir það. Gleymdi mér aðeins í netvafrinu en var komin í Laugardalslaugina um níu leytið. Það tók mig um hálftíma að hafa mig í að synda. Þá var ég samt bara búin með eina ferð í kalda pottinn en ég sat í sjópottinum í rúmar tuttugu mínútur. Þá skildi ég skóna eftir við þann kalda og fór á braut 2. Synti 500 metra, flesta á bakinu, á tæpum tuttuguogfimm mínútum. Eftir sundsprettinn fór ég tvær ferðir í þann kalda og gufubað. Þvoði mér um hárið og var komin heim um hálftólf. Hellti mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Stakk líka handklæðum í þvott. Dundaði mér við eitt og annað fram á miðjan dag en korter fyrir fjögur lagði ég af stað gangandi vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Meiningin var að skipta göngunni í tvo hluta en ég labbaði þessa fjóra kílómetra á fimmtíu mínútum. Ég var mætt í fyrra fallinu en Inger var búin að bjóða okkur Viðeyjargenginu í smá hitting og veislu. Hinar tvær mættu fljótlega. Það hafði staðið til að njóta þessara veitinga úti á svölum en þar sem sólin var ekki alveg eins glaðbeitt og undanfarið og þar að auki verið að vinna við bygginguna hinum megin við götuna hurfum við frá þeirri hugmynd. Hittingurinn tókst samt mjög vel. Það er stór spurning hvenær við fjórar hittumst saman næst því sú næst elsta í hópnum er nýlega hætt að vinna og er búin að festa sér leigu á íbúð á Spáni og mun leigja út sína íbúð hér heima í staðinn. Hún er að fara út um miðjan næsta mánuð. Esperanto vinkonu mína hitti ég þó strax aftur n.k. laugardagsmorgun. N1 sonurinn kom um átta, beint af vakt, og sótti mig svo ég slapp við að labba heim eða punga út fyrir leigubíl.

23.8.23

Veðurblíða

Man ekki alveg hvenær ég vaknaði í gærmorgun en ég var kannski ekkert svo mikið að spá í klukkunni í gær. Var amk búin að vafra um á netinu í einhvern tíma og setja inn færslu á þessum vettvangi áður en kominn var tími til að fá sér eitthvað að borða. Fékk mér sviðasultu stuttu fyrir klukkan ellefu og dreif mig svo í Nauthólsvík. Það var flóð en fínasta veður. Synti aðeins lengra heldur en út að kaðli og til baka. Sjórinn var rúmar þrettán gráður og ég var ofan í honum í næstum þrjú korter. Stoppaði ekkert svo lengi í heita pottinum á eftir, líklega bara tæpt korter. Þegar ég kom heim aftur var Davíð Steinn kominn á stjá. Ég fékk að taka af súpunni hans og hita mér. Virkilega góð súpa hjá syninum. Veðrið varð bara betra og betra og ég ákvað að skella mér í sund einhvern tímann upp úr klukkan tvö. Synti ekki neitt þar en fór all mörgum sinnum í kalda pottinn, þar af amk fimm ferðir með kalda potts vinkonu minni sem mætti þegar ég var í minni annarri ferð. Hún gaf sér góðan tíma en var samt farin upp úr á undan mér. Ég var í rúma þrjá tíma í sundi. Áður en ég fór heim lagði ég bílnum fyrst við Perluna og fór í hálftíma göngutúr. Var svo að glápa á nokkra þætti í gærkvöldi áður en ég fór upp í rúm um tíu. Las í um klukkutíma.

22.8.23

Næst síðasti sumarfrísdagurinn

Dreif mig á fætur um sjö leytið í gærmorgun þrátt fyrir gloppóttan svefn um nóttina. Pabbi var farinn í sund. Ég kveikti á tölvunni hans og var búin með netrúntinn og bloggið þegar hann kom úr sundi stuttu fyrir klukkan hálfníu. Hann var reyndar óvenju snemma á ferðinni því hann átti von á þeirri sem kemur og þrífur hjá honum hálfsmánaðarlega og hann vildi vera tilbúinn með kaffið. Þegar til kom mætti skúran ekki svo við pabbi áttum nóg kaffi fyrir okkur. Ég drakk amk þrjá bolla. Um hálftólf bauð hann mér með sér í Kanslarann. Hittum hluta af sundfélögum hans þar. Þegar við komum heim aftur settist ég inn í stofu með bók eftir Jill Mansell sem ég byrjaði að lesa kvöldið áður. Kláraði hana á tveimur tímum. Um þrjú leytið fékk ég mér kaffi með pabba en tók svo dótið mitt saman, kvaddi og lagði af stað heim á leið. Kom við í Löngumýrinni á Selfossi og hitti konu frænda míns þar fyrir. Áttum gott spjall yfir góðu kaffi. Fór heim um Þrengsli og fékk stæði fyrir utan hérna heima rétt fyrir klukkan sjö. Náði að koma mér og dótinu inn áður en kvöldfréttir hófust í sjónvarpinu. Strákarnir voru báðir heima en að spila á fullu lokaðir inni í herbergjunum sínum svo ég veit ekkert hvort þeir urðu varir við mig.

21.8.23

Heitt á Hellu

Þegar ég kom fram um níu í gærmorgun var pabbi þegar kominn á fætur fyrir einhverju síðan. Hann sat inn í stofu í stólnum sínum. Hann kveikti á sjónvarpinu stuttu síðar og við vorum eitthvað að fylgjast með útsendingu frá HM í frjálsum alveg þar til klukkan varð tíu en þá skiptum við yfir á úrslitaleikinn á HM kvenna í fótbolta. Sá leikur var mjög góður, endaði 1:0 fyrir Spáni á móti Englendingum. Um hádegið kláruðum við pabbi það sem eftir var af þorskhnökkunum sem ég steikti á laugardaginn. Um tvö leytið lét ég loksins verða af því að skreppa út á elliheimili til að heimsækja föðursystur mína. Hún er búin að vera þarna í um tvö ár en þetta var fyrsta heimsóknin. Stoppaði eitthvað í korter til tuttugu mínútur. Hefði stoppað lengur ef frænka mín hefði verið vakandi en ég kunni ekki við að vekja hana. Tók þess í stað stuttan göngutúr og settist svo út á pall hjá pabba. Systurdóttir mín og kærasti hennar kvöddu um fimm leytið. Þau fóru í bæinn, skólarnir byrjaðir, eru búin að fá lánað húsnæði í nokkrar vikur eða þar til þau fá inni á stúdentagörðum. Bjarki er að fara í iðnskóla að halda áfram með rafvirkjann og Bríet í MK. Til 3. september n.k. verður hún að æfa sig undir iðnaðarkeppnina í Póllandi en þegar þeirri ferð verður lokið hellir hún sér út í bóklegu greinarnar. Hún mun einnig vera að vinna í kjötiðninni með náminu svo hún verður eitthvað með annan fótinn hérna hjá afa sínum. Davíð Steinn á að fara í ristilspeglun en það á að skoða ristilinn betur innan frá. Hann var greindur með ristilpokabólgu og verður að passa upp á mataræðið. Hann var búinn að elda sér fullan pott af dýrindis grænmetissúpu þegar ég heyrði í honum.

20.8.23

Bíltúr með pabba

Ég var vöknuð fyrir klukkan sjö í gærmorgun og dreif mig fljótlega á fætur. Var því alveg tilbúin þegar bronsleikurinn milli Svía og Ástrala á HM kvenna í knattspyrnu hófst. Pabbi var líka kominn fram og horfði með mér. Sjónvarpið eða sambandi fraus stuttu áður en fyrra markið kom og við misstum af því en sáum síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks og allan seinni. Tvö núll fyrir Svíana. Svo skipti ég yfir á HM í frjálsum. Milli eitt og tvö setti ég upp nokkrar kartöflur og steikti þorskhnakka. Bauð unga parinu að borða með okkur pabba en þau þáðu frekar að mega fá sér af þessum rétti um kvöldið. Fljótlega eftir matinn settist ég út á pall með prjóna, krossgátublað og bók. Heyrði harmonikkutóna berast frá aðal töðugjalda skemmtisvæðinu. Um fjögur kom pabbi út og spurði hvort ég vildi koma í bíltúr á nýja bílnum hans. Ég þáði það. Létum Bríet og Bjarka vita að við værum að skreppa, ég sótti veskið og peysur og setti í aftursætið. Leiðin lá eitthvað austur á bóginn. Fórum alla leið að Gamla Fjósinu. Ég bauð pabba upp á kaffi og köku dagsins. Þar sem kaka dagsins var súkkulaðikaka valdi ég frekar döðluköku. Skammtarnir voru stórir og ég gat ekki klárað minn skammt. Austar var mikið mistur svo við ákváðum að snúa við en keyra samt á sveitavegunum. Komum til baka um hálfsjö. Pabbi bauð upp á ís eftir kvöldfréttir og svo fékk ég mér úr hvítvínskassanum. Seint um kvöldið ákvað ég að fara aðeins á netið í símanum og sá þá snapp skilaboð frá Davíð Steini um að hann væri í skoðun á bráðamóttökunni vegna slæmra kviðverkja. Hringdi í hann og bað hann um að láta mig vita hvað kæmi út úr skoðun. Hann sendi sms um hálffimm í morgun. Þá var hann kominn heim. Botnlanginn leit vel út en það sáustu bólgur á ristilsvæðinu. Hann á að vera á fljótandi fæði og bíður eftir að það hafi samband við hann læknir. 

19.8.23

Sveitin í Holtunum

Ég heyrði þegar pabbi var að spjalla við blaðberann um sex í gærmorgun. Hann fór í sund rétt fyrir hálfsjö og stuttu síðar í Bríeti fara af stað í vinnuna. Fór sjálf á fætur um sjö leytið og skammaði mig smá fyrir að hafa ekki rifið mig á fætur um sex og farið í sund með pabba. Ég var að leggja kapal um átta leytið þegar Bjarki kom á fætur. Hann var fúll út í sjálfan sig því hann hafði sofnað aftur og sofið yfir sig. Hann var samt ekkert fúll við mig enda engin ástæða til þess. Þegar hann var farinn fór ég í tölvuna. Pabbi kom heim rétt fyrir níu. Morguninn leið hratt. Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann um hálftólf. Fengum okkur plokkfisk og aspassúpu og ég fékk mér einnig smá smakk af hinum aðalréttinum, svínagúllasréttur, kannski tvo þrjá kjötbita og sósu. Vorum komin aftur í Hólavanginn um tólf. Um tvö leytið var ég komin í heimsókn í Guttormshaga, sveitina sem ég var í fermingarsumarið mitt. Óli og Helga tóku vel á móti mér. Hún fór fljótlega að vekja yngsta barnabarnið, Söru Björk sem verður tveggja ára í október. Stóri bróðir, Þorsteinn var með pabba sínum úti við. Þeir feðgar komu inn um þrjú. Ég stoppaði í um tvo tíma en þetta er fyrsta heimsóknin í þessa sveit á þessu ári.

18.8.23

Sjósund og Suðurstrandavegur

Ég var komin á fætur fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Rétt fyrir hálftíu hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Var komin í Nauthólsvík um tíu leytið, rétt eftir að opnaði. Þetta er síðasta sumaropnunar vikan. N.k. sunnudagur er sá síðasti sem verður opið á þessu ári og opnunar tíminn verður frá 11-19 virka daga, eitthvað styttra á laugardögum út mánuðinn en eftir mánaðamót verður líka lokað á mánudögum. Í hitti fyrra var alltaf lokað á föstudögum og sunnudögum. Í fyrravetur var aðeins lokað á sunnudögum. Mánudagar og föstudagar hafa löngum verið uppáhalds sjósundsdagarnir mínir en nú þarf ég líklegast að velja mér annan dag í stað mánudaga. Annars var sjórinn 14°C, smá öldugangur og undiralda. Ég synti samt út að kaðli og til baka. Var lengur á bakaleiðinni því þá voru öldurnar á móti mér. En þetta hafðist á uþb fjörutíu mínútum og var virkilega hressandi þótt ég hefði gleypt smá sjó tvisvar til þrisvar sinnum þegar öldurnar skvettust framan í mig og upp í mig. Þegar ég var að koma upp úr fjörunni gekk ég beint í flasið á hóp af ferðamönnum og var einn þeirra, eldri kona, að taka upp á símann sinn. Þau þurftu að spjalla smá, á ensku, og sum að fá að koma við mig sérstaklega þar sem ég sagði þeim að mér finndist sjórinn of heitur. Þegar ég hélt förinni áfram í heita pottinn heyrði ég einhvern segja takk á íslensku, líklega fararstjóra hópsins.

Kom heim aftur stuttu fyrir tólf og stoppaði heima í rúman klukkutíma. Sendi fyrirspurnarskilaboð í sveitina sem ég var í sumarið sem ég fermdist, pakkaði niður dóti og lét nágrannana fyrir neðan vita að ég væri að fara út úr bænum í nokkra daga. Ekki var komið svar við fyrirspurninni svo ég ákvað að prófa að hringja í vinafólk mitt í Grindavík. Þau voru þá stödd á skólasetningu yngri dótturinnar í MR. Sú eldri var í Háskólanum. En þau sögðust myndu vera komin heim milli klukkan hálfþrjú og þrjú og ég sagðist ætla að taka smá rúnt um eitthvað af Suðurnesjunum og kanna svo hvort þau væru komin heim áður en ég brunaði austum um Suðurstrandaveg. Ég rúntaði um Voga og Vatnsleysuströnd og var svo komin til Grindavíkur stuttu fyrir þrjú. Það var einn bíll á planinu en þegar ég bankaði gerðist ekkert. Beið líklega ekki nógu lengi því ég var rétt að bakka út þegar besti vinur minn kom út til að láta vita að þau hjónin væru alveg nýkomin heim. Ég lagði því bílnum aftur, færði þeim eina borðtusku, þáði hjá þeim kaffibolla og stoppaði í um klukkustund áður en ég hélt för áfram.

Bætti á tankinn hjá AO við Selfoss og var komin austur til pabba upp úr klukkan hálfsex.

17.8.23

Sund, bókasafn og gluggamál

Var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Um klukkustund síðar var ég að byrjuð að setja inn færslu á þessum vettvangi þegar gemsinn hringdi. Þekkti ekki númerið en svaraði samt. Ekkert heyrðist á hinum enda línunnar svo ég skellti á. Stuttu seinna var hringt aftur og í þetta sinn heyrðist í þeim sem var á hinum endanum. Það reyndist vera einn af smiðunum sem hafa verið að vinna bráðabirgðaviðgerð á þakinu á no 19. Hann var að boða komu sína yfir til að mæla gluggana hjá mér þurfti bara að gera smávegis áður. Ég hafði því tíma til að láta strákana vita. Tuttugu mínútum fyrir níu hringdi smiðurinn aftur. Hann byrjaði á að skoða sameignargluggann svo eldhús, stofu, bað og gluggann í herberginu mínu. Hann fékk hjá mér blað og penna til að teikna upp málin. Davíð Steinn kom fram hálftíma síðar, svolítið myglaður, en settist inn í stofu. Oddur Smári bærði hins vegar ekki á sér en smiðurinn þurfti að komast út á svalir svo ég opnaði herbergið og hleypti honum inn. Hann mældi stofugluggann en sagðist geta mælt herbergis/fyrrverandi borðstofugluggan utan frá. Mælingarnar kláruðust stuttu um hálftíu tíu og ég hafði tíma til að klára færsluna áður en seinni undanúrslitaleikurinn á HM kvenna hófst. Davíð Steinn var sofnaður í sófanum en ég fylgdist spennt með leiknum. Gat þó prjónað í leiðinni.

Um eitt leytið tók ég sunddótið og bókasafnspokann með mér út í bíl. Byrjaði á því að skreppa út í Kringlu og skila fimm bókum af sex. Skilafresturinn á þeim var til 17. ágúst og ég hefði getað framlengt honum um 30 daga á meðan ég væri að lesa síðustu bókina sem er með skilafrest til 1. september. En í staðinn tók ég sex bækur í viðbót og ein af þeim er ný svo skilafresturinn á henni er tvær vikur. Fékk það samt staðfest að það er hægt að framlengja um aðrar tvær ef bókin verður ekki pöntuð í millitíðinni.

Næst lá leiðin í Laugardalslaugina. Var komin í kalda pottinn fimm mínútum fyrir tvö. Síðan fór ég beint á braut 7 og synti 500 metra á 23 mínútum, þar af 150 metra skriðsund. Í bakaleiðinni á fyrstu 100 metrunum skipti ég úr bringusundi yfir í skriðsund og komst alla leið yfir. Ögraði því sjálfri mér og prófaði að skipta yfir í skriðsund í bakaleiðinni á 200 og 300 metrum. Komst alltaf yfir og er bæði hissa og glöð á þessu afreki mínu. Fór svo amk fjórum sinnum í viðbót í kalda pottinn, tvær ferðir í gufu, eina í sjópottinn og eina í þann heitasta. Fór upp úr um fjögur leytið. Skrapp aðeins í Krónuna í Skeifunni og þaðan út á Gróttu þar sem ég fór í smá göngutúr.

16.8.23

Sjórinn og slagsmál við ís í ísskáp

Vaknaði alltof snemma í gærmorgun eða einhvern tímann milli fimm og sex. Mér varð fljótlega ljóst að ég væri glaðvöknuð og það þýddi ekkert að hanga í rúminu. Eftir morgunverkin á baðherberginu lauk ég af netvafrinu og bloggfærslunni á rúmum klukkutíma. Þegar ég slökkti á tölvunni og lagði hana frá mér var ennþá hálftími þar til fyrri undanúrslitaleikurinn á HM kvenna byrjaði. Þá greip ég í bók, síðustu bókina sem ég tók af safninu; Varnarlaus eftir Jónínu Leósdóttur. Undanúrslitaleikurinn var spennandi og réðist á síðustu tíu mínútum. Spánverjar voru á undan að skora, Svíar jöfnuðum um hæl en spænsku stelpurnar voru ekki á því að setja þennan leik í framlengingu og sigurmarkið var hreint stórkostlegt. Strax að leik loknum tók ég sjósundsdótið og dreif mig í Nauthólsvík. Sjórinn var 14,5°C, fjara og ég ætlaði ekki að tíma að fara upp úr. Synti út að kaðli og til baka og svamlaði lengur um. Var í sjónum í næstum þrjú korter og svo um tuttugu mínútur í heita pottinum á eftir. Áður en ég fór heim fór ég með bílinn í gegnum þvottastöðina Löður við Fiskislóð. Lét þvo felgurnar í leiðinni. Kom heim um tólf. Eftir hádegisfréttir ákvað ég að kominn væri tími til að taka á ísskápsmálunum. Hélt að það myndi kannski taka eina til tvær klukkustundir en það tók mun lengri tíma heldur en það, aðallega vegna þess að inn í ísskápnum sjálfum hafði myndast ísfjall í einu horninu milli tveggja grinda, þykkt og mikið. Það tók töluverðan tíma að láta það þiðna það mikið að að væri hægt að taka það út. Var löngu, löngu búin að affrysta frystihólfið en klukkan var að verða ellefu í gærkvöldi þegar ég náði loksins að taka restina af klakafjallinu út. Hugsanlega hefði ég getað notað áhrifaríkari aðferðir en ég gerði í gær en ég vildi ekki hætta á að fá flóð á eldhúsgólfið. Þannig að síðustu klukkutímana var ég að tékka á skápnum á hálftíma fresti og þurrka upp bleytu úr botninum en á milli var ég að horfa á fjórðu þáttaröðina; Grafin leyndarmál.

15.8.23

Sund og göngutúr

Klukkan var ekki nema sjö þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með bókina sem ég byrjaði á kvöldið áður. Það tók mig þrjá tíma að klára að lesa en þeir tímar flugu hjá mjög hratt. Um ellefu leytið hellti ég upp á könnuna og fékk mér loksins einhverja hressingu. Var komin í sund upp úr klukkan eitt. Hringdi í pabba áður en ég fór úr bílnum. Synti 500 metra, rúmlega helminginn á bakinu. Náði líka að synda bakka á milli á skriðsundi. Sundið tók mig tæpar 25 mínútur. Næsta einn og hálfa tímann var ég á vappi milli potta og gufu og einnig á spjalli við fólk. Sumt af því fólki hitti ég oft í sundi en í gær hitti ég líka fyrrum samstarfsmann sem einnig er frægur fyrir að ganga strandveginn í kringum Ísland og hjóla þvert yfir Bandaríkin. Hann var og er að skipuleggja hjólaferð hringinn í kringum hnöttinn en er að glíma við kviðslit og fer ekki í stóru aðgerðina fyrr en næsta vor. Í millitíðinni er hann að vinna að einhverskonar gerfigreind. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr um fjögur og skrapp svo aðeins í "heimsókn" á vinnustaðinn til N1 sonarins. Hann bauð mér upp á kaffi og pylsu og kannaði einnig loftþrýstinginn á dekkjunum fyrir mig. Það var ekki byrjað að kvarta í mælaborðinu en það var örugglega mjög stutt í þá kvörtun. Áður en ég fór heim lagði ég bílnum við Perluna og fór í tæplega hálftíma göngu niður í kirkjugarð, að leiðinu hjá ömmu, afa og Hilmari og til baka. 

14.8.23

Sjór og sund sama daginn

Svaf út í gærmorgun og var klukkan um hálfníu þegar ég dreif mig loksins á fætur. Klukkutíma síðar hellti ég upp á sterkt kaffi og fékk mér hressingu. Var komin í Nauthólsvík um tíu. Það var fjara. Svamlaði um út í sjónum í um það bil hálftíma. Kom heim aftur um hálftólf. Tveimur tímum síðar var ég komin í Laugardalslaugina. Sleppti sundinu en var samt rúma tvo tíma á staðnum. Hitti slatta af fólki en ég var mest í því að stunda kalda pottinn. Mér bauðst nokkrum sinnum að leggjast á bekk en ég var ekki til í það en settist stundum á brúnu bekkina. Þegar ég kom heim aftur upp úr klukkan fjögur var ég búin að fá nóg af útiveru og fylgdist með leik Chelsea og Liverpool 1:1 í enska boltanum. Þegar ég fór upp í rúm um hálftíu byrjaði ég á næstsíðustu bókinni af safninu; Þetta gæti breytt öllu eftir Jill Mansell. Las til klukkan að ganga tólf og var þá búin með einn þriðja af bókinni.

13.8.23

Sunnudagur

Var komin á fætur stuttu áður en fyrri leikur dagsins hófst. Sá leikur var á milli Frakklands og Ástralíu og staðan var 0:0 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Við tók hin ótrúlegasta vítaspyrnukeppni og það þurfti 11 umferðir til að fá úrslit og var það á endanum Ástralía sem vann 7:6. Stuttu eftir að leiknum lauk hófst upphitun fyrir seinni leikinn og þann síðasta í átta liða úrslitum. Horfði ekki á upphitunina en fór heldur ekki í suttan göngutúr eins og ég hafði ætlað mér. Seinni leikurinn fór 2:1 fyrir Englandi á móti Kólumbíu. Hörkuleikur líka og mjög spennandi. Nákvæmlega klukkan 13:25 var ég byrjuð að synda á braut átta í Laugardalslauginni. Synti 500 metra á uþb 24 mínútum. Svo fór ég nokkrar langar ferðir í kalda pottinn, tvær ferðir í sjópottinn, tvær í gufuna, eina í heitasta pottinn og sat inn á milli á bekk eða stól og sólaði mig. Fór upp úr stuttu fyrir fjögur, var ekki alveg að hætta á það að fá sólsting. 

12.8.23

Spennuleikir og löng sundferð

Ég var ekkert að reyna að vakna fyrir fyrsta leikinn í átta liða úrslitum HM kvenna og svaf hann af mér. Var hins vegar vöknuð og tilbúin þegar leikur tvö af fjórum hófst. Það var hörku leikur sem endaði með 2:1 sigri Svía gegn einu af skemmtilegasta liði mótsins Japan. Svíar unnu vel fyrir þessum sigri, þær japönsku voru of lengi að byrja. Var komin í sund um hálftvö og þrátt fyrir að skrópa í sundlaugina sjálfa var ég tvo tíma á svæðinu að kæla mig vel og slaka á í sjópottinum eða gufunni inn á milli. Hringdi í pabba rétt fyrir sundið og Ellu vinkonu eftir sundið. Bjó mér til ommilettu úr afgang af saltfiski síðan um daginn og horfði á bikarúrslita leik kvenna milli topp liða í tveimur efstu deildunum þar sem Víkingur vann 3:1. Hefði viljað sjá eitthvað dæmt á miður falleg brot fyrirliða Breiðabliks en kannski var það nóg refsing að tapa leiknum. Mér finnst það samt skammarlegt að leikmaðurinn komst upp með að sparka í liggjandi andstæðing og einnig í markvörð andstæðingsins. Þetta er landsliðskona með töluverða reynslu og á ekki að láta skapið hlaupa með sig í göngur. Það að hún komist upp með þetta eru ekki góð skilaboð.

11.8.23

Átta liða úrslit hafin

Var aðeins seinna á fótum í gærmorgun heldur en á miðvikudagsmorguninn en þó var klukkan varla farin að ganga átta. Eftir morgunverkin og netvafr kláraði ég að lesa Verubókina. Hellti upp á kaffi um tíu leytið og fékk mér hressingu. Greip aðeins í prjónana áður en ég byrjaði á næstu bók; Upplausn eftir Söru Blædel og Mads Peder Nordbo. Það er einnig virkilega spennandi bók sem kom út á íslensku í fyrra en var gefin út í Danmörku 2021. Er hálfnuð með lesturinn og klára hana líklega um helgina. Klukkan var orðin hálftvö þegar ég var loksins komin í sund. Fór beinustu leið á braut átta og synti 400m á tæpum tuttugu mínútum. Allt í allt var ég um tvo tíma í sundi því það voru nokkrar ferðirnar í kalda pottinn og magnesíum pottinn, Tvær ferðir í sjópottinn og gufuna að auki. Hellti aftur upp á kaffi þegar ég kom heim. Um fimm leytið ákvað ég að fara í smá göngu sem endaði sem heimsókn á Grettisgötuna til Lilju vinkonu. Stoppaði hjá henni í tvo tíma og drollaði svo í göngunni á leiðinni heim þannig að klukkan var að verða níu þegar ég mætti þangað aftur.

10.8.23

Himingrámi

Í gærmorgun var ég komin á fætur um klukkan hálfsjö. Eftir morgunverkin á baðherberginu og rúmlega klukkutíma netvafr, blogg og fleira ákvað ég að skella mér út í stutta göngu. Labbaði 3,5 km um nágrennið á ca þremur korterum. Fljótlega eftir að ég kom heim aftur hellti ég upp á kaffi og ristaði brauð. Klukkan tíu var ég svo komin í Nauthólsvík. Sjórinn var 14°C, spegilsléttur og nánast engin ferð á logninu. Synti að þessu sinni út að kaðli og aftur til baka. Hluta af leiðinni svamlaði ég bara eins og ég geri oftast og þegar ég kom upp úr aftur hafði ég verið í sjónum í amk fjörutíu mínútur. Sat um korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Það stóð alltaf til að fara aftur út en einhvern veginn festist ég í inniáhugamálum mínum. Taldi mér einnig trú um að ég yrði að passa upp á að fá ekki sólsting í of mikilli útiveru. Þegar fór að líða á daginn dró þó fyrir sóluna en þá var ég orðin alltof löt í að hreyfa mig meira. Er langt komin með "Veru-bókina" og nú togar hún í mig. Verð að komast að því hvernig liggur í málunum, klára þessa spennubók.

9.8.23

Himinblámi

Horfði á síðustu tvo leikina í sextán liða úrslitum í gærmorgun. Það var meiri spenna í fyrri leiknum milli Kólumbíu og Jamaíku sem fór eitt núll fyrir þær fyrrnefndu. Það var eina markið sem Jamaíkustelpur fengu á sig í keppninni en í útsláttarkeppni fer það lið sem tapar heim. Frakkar áttu ekki í neinum vandræðum með Marokkó, gerðu út um leikinn með þremur mörkum á átta mínútna kafla snemma í fyrri hálfleik. Leikurinn endaði 4:0 fyrir þær frönsku. Fljótlega eftir að seinni leiknum lauk tók ég til sunddótið mitt og dreif mig af stað. Ákvað þó að koma fyrst við hjá Frumherja í Skeifunni og fá skoðun á bílinn. Borgaði fyrirfram og ef ég væri ekki með FÍB afslátt hefði sá kostnaður farið yfir sextánþúsund og eitthundrað krónur. Bíllinn fékk fulla skoðun. Skoðunarmaðurinn nefndi það þó við mig að bremsuklossarnir að framan væru farnir að láta aðeins á sjá. Hringdi í pabba þegar ég kom á planið við Laugardalslaug og spjallaði við hann um stund. Varð að segja honum strax að bíllinn væri kominn í gegnum skoðun og einnig minntumst við á að það voru fimm ár í gær síðan mamma dó. Ég var búin að fara eina ferð í þann kalda, eina í heitasta, tíu mínútur í sjópottinn og var að synda á braut 2 þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Ég synti í tuttugu mínútur, flestar ferðir á bakinu. Fór fimm ferðir í kalda með vinkonunni. Eftir seinustu ferðina endaði ég á góðu gufubaði, var lengur þar inni heldur en Hrafnhildur. Hitta hana svo aðeins í sjópottinum áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið.

8.8.23

Áttundi áttundi tuttuguogþrjú

Var komin á fætur milli klukkan sjö og hálfátta í gærmorgun. Klukkan hálfátta hófst leikur Nígeríu og Englands. Eftir venjulegan leiktíma, rautt spjald á eina úr enska liðinu og framlengingu var staðan enn markalaus. Bæði lið klúðruðu fyrsta vítinu en það þurfti aðeins níu spyrnur til að fá úrslit og England vann 4:2. Nokkrum mínútum eftir að þessi maraþon leikur var búinn hófst seinni leikurinn sem var milli Ástralíu og Danmerkur. Sá fór 2:0 fyrir heimakonum. Klukkan eitt var ég mætt í Laugardalslaugina. Hafði hugsað mér að þvo á mér hárið en þar sem ég vildi helst ná að synda aðeins á bakinu fyrst en fann ekki pláss fyrir þannig sund í laugini frestaði ég hárþvotti. Fór þrjár langar ferðir í þann kalda sem var tæpar 10°C, 2 ferðir í gufuna, tvær í heitasta pottinn og eina í sjópottinn. Hitti á systur kalda potts vinkonu minnar og við spjölluðum heilmikið saman. Var komin heim aftur milli klukkan þrjú og fjögur. Um sex leytið bjó ég til kjötbollur og fengu báðir strákarnir sér af kvöldmatnum. 

7.8.23

Innipúki

Gerði  tilraun til að vakna rétt fyrir klukkan tvö í fyrrinótt til að horfa á þriðja leikinn í sextánliða úrslitum HM kvenna í knattspyrnu með því að stilla á mig vekjaraklukku. Þegar klukkan hringdi ákvað ég hins vegar að slökkva á henni og snúa mér á hina hliðina svo ég "missti" af leik Hollands og Suður-Afríku sem fór 2:0 fyrir þeim fyrrnefndu. Vaknaði svo útsofin um sjö leytið. Fjórði leikurinn; Svíþjóð - Bandaríkin var samt ekki fyrr en klukkan níu svo ég hafði góðan tíma til að vafra um á netinu. Kveikti svo á sjónvarpinu rétt fyrir klukkan níu og horfði á hreint magnaðan leik. Þær bandarísku náðu ekki að nýta nein af ótal færum sínum, þökk sé sænska markverðinum og bandaríski markvörðurinn greip einnig vel inn í þau fáu skipti sem Svíþjóð fékk tækifæri. Eftir 90 mínútur og framlengdan leik var staðan enn 0:0 og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Þar þurfti sjö umferðir og leikar fóru þannig að Svíþjóð sló tvöfalda heimsmeistara út með 5 mörkum gegn 4.

Annars eyddi ég öllum deginum í prjónaskap, lestur, þáttaáhorf, hlustun á Rás 2 og sjónvarpsgláp. Hellti tvisvar upp á könnuna og fór ekki að sofa fyrr en klukkan var langt gengin í miðnætti.

6.8.23

Verslunarmannahelgi

Í gærmorgun var ég vöknuð rétt fyrir klukkan fimm án þess að það hringdi nokkur vekjaraklukkan. Fór á fætur og kveikti á sjónvarpinu til að fylgjast með fyrsta leiknum í sextán liða úrslitum á HM kvenna í fótbolta í Ástralíu og á Nýja Sjálandi. Annað liðið, Sviss, var ekki búið að fá á sig mark í riðlakeppninni en hitt liðið, Spánn, hafði tapað síðasta leik á móti Japan og fengið á sig fjögur mörk í þeim leik. Þessi leikur fór 5:1 fyrir Spán sem skoruðu öll sex mörkin. Klukkutíma eftir að þessum leik lauk eða um átta var leikur tvö af átta þar vann Japan Noreg 3:1. Noregur skoraði 2 af mörkunum því fyrsta markið var sjálfsmark. Annars fór dagurinn í lestur, prjóna og þáttaáhorf. Um hálftvö leytið hringdi nýji nágranninn úr risinu. Hann var þá læstur úti og enginn í hinum íbúðunum heima. Við vorum öll heima hérna en strákarnir voru ekki vaknaðir. Um sjö leytið skaust Davíð Steinn út og sótti handa okkur kvöldmat frá kínverska staðnum Fönix. Ég hafði lagt inn á hann og hann sá um að panta og sækja.

Kláraði að lesa bókina Dalurinn eftir Margréti Sigrúnu Höskuldsdóttur og byrjaði á bók um rannsóknalögreglukonuna Veru Stanhope; Lengsta nóttin eftir Ann Cleeves í gær.

5.8.23

Í sjóinn í gær

Vaknaði nokkuð snemma í gærmorgun, mun fyrr en ég hefði vaknað ef ég væri að mæta til vinnu. Fór þó ekki á fætur fyrr en upp úr klukkan hálfsjö. Hitti aðeins á N1 soninn áður en hann fór í vinnuna sína. Annars tók ég því mjög rólega til klukkan að verða hálftíu. Var að vafra á netinu, lesa og prjóna. Um hálftíu leytið fékk ég mér chia-graut með musli og rúsínum og var svo mætt í Nauthólsvík um það leyti sem var opnað um tíu. Sjórinn meira en 13°C, flóð og ég synti út að kaðli og skrapp einnig í lónið áður en ég fór í gufu og svo heita pottinn. Næst lá leiðin í fiskbúðina til Fúsa. Keypti af honum harðfisk, saltfiskbita og kartöflur. Áður en ég fór heim kom ég við á tveimur stöðum í Kringlunni, Tiger og Söstrene Grene. Verslaði mér lesgleraugu og bómullargarn. Þegar ég kom heim hellti ég upp á kaffi og fékk mér smá snarl með. Seinni partinn hringdi ég aðeins í pabba hann var smá upptekinn við að klára að gera pönnsur en hringdi svo í mig nokkrum mínútum seinna. Annars lítið títt, nema ég er að lesa nokkrar mjög spennandi bækur. Kannski meira um þær seinna.

4.8.23

Fössari í dag

Í fyrrinótt svaf ég alveg ágætlega og vaknaði útsofin á sjöunda tímanum í gærmorgun. Hitti aðeins á N1 soninn áður en hann dreif sig í vinnuna rétt fyrir sjö. Einhvern veginn æxlaðist það þannig að gærdagurinn varð innidagur þrátt fyrir gott veður. Kom samt heilmiklu í verk bæði af því sem ekki má skrifa um og svo sinnti ég mörgum af áhugamálunum líka. Þegar N1 sonurinn kom heim um fjögur leytið skruppu þeir bræður í Sorpuferð. 

3.8.23

Gæða frí

Það var ekki mikill svefn hjá mér aðfaranótt gærdagsins. Var vissulega komin í rúmið fyrir tíu. Las til klukkan að verða hálfellefu. Þá lagði ég frá mér bók sem ég átti amk 150 bls eftir af rúmlega fimmhundruð; Bragð af ást eftir Dorothy Koomzon. Slökkti á lampanum, bað bænirnar mínar og var sofnuð fljótlega. Hins vegar vaknaði ég upp aftur um tvö leytið. Þurfti ekki á salernið en þegar ég var búin að bylta mér nokkrum sinnum kveikti ég á lampanum og tók fram bókina á ný. Gerði máttlausa tilraun til að sofna aftur klukkutíma síðar en það endaði með því að ég kláraði bókina. Hún var ein af þeim sem var með skilafrest til dagsins í dag, þriðja ágúst. Fljótlega eftir að ég heyrði að N1 sonurinn var farinn af stað í vinnuna fyrir klukkan sjö, vaktaplanið breyttist hjá honum og verður með breyttu sniði amk næstu eina og hálfa vikuna á meðan margir eru að klára fríin sín, dreif ég mig bara á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu kveikti ég á sjónvarpinu til að fylgjast með leikjum á HM kvenna en ég settist líka í sófann með fartölvuna í fanginu. Morguninn leið hratt og það endaði með því að ég horfði á hluta af leikjunum sem voru klukkan tíu líka. Hellti mér upp á kaffi rétt fyrir tólf og það var ekki fyrr en klukkan var farin að ganga tvö að ég dreif mig út. Skilaði fimm bókum á safnið og tók eina í staðinn áður en ég fór í sund. Kom heim aftur um fjögur, rétt á undan N1 syninum. 

2.8.23

Gluggamál

Dreif mig á fætur upp úr klukkan átta. Gleymdi mér aðeins í tölvunni þannig að ég hafði ekki tíma til að hella mér upp á kaffi. Fékk mér samloku og vatnsglas upp úr klukkan hálftíu og skrapp svo í Nauthólsvík. Þar kom ég að um leið og verið var að opna og hitti fyrir kalda potts vinkonu mína. Það var fjara en ég svamlaði út að kaðli þótt ég hefði getað vaðið þangað. Hitti kalda potts vinkonu mína í heita pottinum þar sem hún þekkti fleira fólk. Eftir korter í pottinum skruppum við aðeins út í lónið og smá stund í gufu á eftir. Vinkonan fór svo aftur í pottinn en ég upp úr og heim. Þá fyrst hellti ég upp á könnuna. Um tvö fékk ég skilaboð frá fyrrum nágranna úr risinu þar sem hann tilkynnti mér nafn og kennitölu mannsins sem keypti af honum. Ég sendi rafrænan póst á þjónustufulltrúa í 0111 og korteri síðar svaraði hún og var búin að breyta upplýsingunum í fyrirtækjabanka hússjóðs Drápuhlíðar no 21. Og rétt skömmu síðar fékk ég póst frá gluggamanninum. Hann sagði að það yrði komið einhvern daginn í næstu viku og skoðað og mælt út hjá mér gluggar og svalahurð.  Stuttu áður en öll þessi skilaboð bárust eða voru send hringdi ég í pabba. Hann hafði skroppið í bæinn annan daginn í röð og er nú kominn á nýlegan, svartan Ford Edge sem er fjórhljóladrifinn og gengur fyrir dísel. Milli þrjú og fjögur skrapp ég í göngutúr um Klambratún og nágrenni. Er annars búin að fitja upp á nýju jóla-eldhúshandklæði fyrir systur mína í grænum lit en er tilbúin með rauðan á kantinum ef hún vill heldur svoleiðis. Sá líka í gærmorgun hvernig ég gæti notað svona eldhúshandklæði sem eitthvað til að standa á og þurrka blautar iljar þegar ég er að klæða mig eftir sjósund. Er líka búin að klára að lesa allar þær bækur sem eru með skilafrestinn til 3. ágúst en á eftir að byrja á þeim fimm sem komu með mér heim af safninu síðast.

1.8.23

Glænýr mánuður

Var komin fætur fyrir klukkan átta í gærmorgun. Það tók mig samt næstum sex klukkustundir á koma mér út úr húsi og í sund. Hellti mér upp á kaffi stuttu fyrir tólf en þá var ég loksins búin að skrá niður ferðasöguna á bloggið. Var komin í Laugardalinn rétt fyrir hálftvö. Fór eina ferð í kalda og smástund í gufu og kalda sturtu áður en ég fór á braut 7 og synti 400 metra, þar af amk helminginn á bakinu. Eftir sundið og aðra ferð í kalda pottinn fór ég örstutt í heitasta pottinn og svo í sjópottinn. Þar var ég þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við fimm ferðir í kalda, 4 í heitasta og eina ferð í gufu áður en hún lagðist á bekk í sólbað. Ég fór fljótlega og þvoði mér um hárið í leiðinni. Áður en ég fór heim aftur kom ég við í Krónunni við Fiskislóð og Elkó. Í elkó keypti ég ný batterí í heimasímann, tæki til að hlaða batterí, nokkur hleðslubatterí, ryksugupoka og litla flösku af kristal með sítrónubragði.