31.7.23

Strembið að komast í skrifgírinn aftur

Tvíburahálfsystir mín skilaði mér heim að dyrum á laugardagskvöldið var eftir viku útilegu þar sem gist var í tjaldi í fimm nætur af sjö. Gærdagurinn fór í slökun, lestur, prjón og smá imbagláp. Lánaði Oddi bílinn um miðjan dag og var hann kominn heim aftur um hálftíu leytið. Sjálf fór ég ekki út úr húsi, ekki einu sinni í stutta göngu. Hellti upp á kaffi og fékk mér hressingu um tólf leytið og fékk mér snarl um kvöldmatar leytið. Sonja skráði ferðasöguna ásamt nokkrum mögnuðum myndum og merkti mig inn á facebook. Ferðalagið var ákveðið með stuttum fyrirvara enda átti það aðeins að vera prufutúr í eina til þrjá nætur. Þegar við hins vegar vorum komnar af stað leiddi eitt af öðru og til að gera langa sögu mjög stutta þá endaðuðum við á því að fara hringinn með viðkomu á mörgum fjörðum og stöðum á austur og norðurlandi.

Eftir sundferð, hárþvott og esperantohitting laugardaginn 22. júlí sl. lauk ég við að pakka niður um hádegisbil og þóttist tilbúin. Sonja sótti mig um eitt leytið. Foreldrar hennar voru ekki heimavið svo við keyrðum í gegnum Selfoss og beinustu leið á Hellu í heimsókn til pabba míns. Þar fengum við kaffi og pönnsur og stoppuðum í rúmlega klukkustund eða svo áður en við héldum för áfram austur á bóginn. Þegar við vorum komnar vel austur fyrir Hvolsvöll sló því niður í kollinn á mér að svefnpokinn minn hafði ekki komið með í þetta ferðalag. Ég vildi hins vegar ekki snúa við og fá lánaðan poka hjá pabba svo við ákváðum að stoppa í Vík. Þar var keyptur svefnpoki sem fer ótrúlega lítið fyrir. Héldum svo för áfram að Kirkjubæjarklaustri. Ákváðum að kaupa eina gistinótt þar og sjá svo til. Sonja sá um kvöldmatinn og bauð upp á fínasta pastarétt með pepperóní og sósu og þar að auki var hún með bæði rautt og hvítt með. Þurftum að ákveða framhaldið fyrir klukkan tólf á sunnudeginum eða taka okkur upp fyrir klukkan eitt.

Þrátt fyrir mikla veðurblíðu á Klaustri ákváðum við að taka upp tjaldið og halda ferð áfram austur á bóginn, eftir að hafa fyrst fengið okkur kaffi og morgunhressingu. Vorum komnar á Höfn um miðjan dag. Fengum okkur að borða í N1 áður en við héldum áfram. Vorum ekki með neinn ákveðin gististað í huga en stuttu fyrir sjö vorum við komnar í Fossárdal við Djúpavog, rétt að skoða okkur um. Okkur leist vel á staðinn og mótökurnar voru meiri hátta svo við ákváðum að setja tjaldið niður þar. Fengum lánað millistykki og þegar kom í ljós að undirrituð hafði gleymt að taka gaurinn sem tengis við rafmagnssnúruna úr rafmagnsboxinu á Klausti fengum við lánað svoleiðis millistykki. Skáluðum og kláruðum úr vínflöskunum sem við höfðum opnað kvöldið áður, tókum upp handavinnu og sátum og spjölluðum í fortjaldinu fram eftir kvöldi.

Þegar við vorum búnar að fá okkur kaffi og morgunhressingu á mánudeginum tókum við upp rakt tjaldið og skiluðum lánshlutunum í kassa sem var merktur "staff only" rétt fyrir eitt. Héldum svo för áfram austur á bóginn með viðkomu og mislöngum stoppum í fjörðunum. Á Fáskrúðsfirði var verslað í matvöruversluninni. Á N1 í Reyðarfirði fundum við millistykki til að tengjast rafmagnsboxi og við komum einnig við í vínbúðinni þar og endurnýjuðum vínbirgðirnar. Keyrðum um Eskifjörð og nýju gönginn inn á Neskaupsstað áður en við snerum við og keyrðum inn á Egilsstaði. Þar fengum við okkur að borða mjög góðar speltpizzur á staðnum Askur Pizzeria áður en við keyrðum áfram og fundum okkur tjaldstæði í Höfðavík í Hallormsstaðaskógi.

Eftir kaffimorgunhressingu á þriðjudagsmorgninum keyrðum við inn á Egilsstaði. Stoppuðum við í Húsasmiðjunni þar sem keypt var fjöltengi áður en við fórum í sundlaugina. Klukkan var farin að ganga tvö þegar við bönkuðum upp á hjá Ellu vinkonu. Þar hittum við líka aðeins á Einar Bjarna son hennar. Fengum kaffi, gott spjall í hátt á aðra klukkustund áður en við héldum för áfram inn á Seyðisfjörð. Þar skoðuðum við Tæknimynjasafnið og löbbuðum einnig aðeins um bæinn. Vorum sammála um að Borgarfjörður Eystri yrði að bíða aðeins lengur eftir heimsókn frá okkur. Vorum komnar aftur á Egilsstaði klukkan að ganga sjö. Fengum okkur að borða á Salt áður en við fórum aftur "heim" í tjald.

Á miðvikudeginum tókum við upp tjaldið um hádegisbil eftir að hafa fengið okkur kaffi og hressingu. Síðan lá leiðin á Skriðuklaustur. Smári og Nina, sem búa á Ísafirði, voru búin að vera með listamannaíbúðina í tæpar þrjár vikur. Nína var með sýningu í einu herbergi á neðri hæð hússins og Smári hafði verið að vinna að efni í næstu hjólabók. Þau voru hins vegar bæði á staðnum þegar við tvíburarhálfsysturnar mættum og buðu okkur inn til sín í kaffi og spjall eftir að við vorum búnar að skoða safnið. Þegar við kvöddum og héldum áfram ókum við meðfram Lagarfljótinu vestan meginn og fórum stystu leið heim til systur minnar og mágs. Stoppuðum ekkert á þeirri leið nema að einum stað skammt frá Mývatni þar sem verið var að laga veginn og bíða þurfti eftir að leiðsögubíll kæmi og keyrði á undan röðinni aðeins aðra áttina í einu. Vorum komnar á Árland um hálfátta og hittum þar fyrir pabba minn. Helga systir bauð upp á dýrindis kjötsúpu.

Fimmtudagsferðalagið varð ansi langt en líklega má þakka smá þokusúld á víð og dreif um svæðið. Byrjuðum þó á því að heilsa upp á hænurnar og pabba og Ingva inni í fjárhúsum og hlöðu áður en við lögðum af stað. Keyrðum aðeins innar í Kinnarnar áður en við snerum við og ókum í gegnum Húsavík og alla leið inn að Ásbyrgi. Þar gengum við inn að Botnstjörn. Í baka leiðinni úr Ásbyrgi skoðuðum við handverksverslunina Heimöx. Þar verslaði ég rúgbrauð, pönnsur og hnetublöndu allt merkt og gert af heimafólki af svæðinu. Sonja keypti sér m.a. "görn". Fengum okkur síðan að borða í verslun örskammt frá. Héldum för áfram um hálftvö. Kíktum næst á Kópasker. Stoppuðum stutt en tókum myndir af hluta af þeim flottu fígúrum sem eru rétt fyrir utan þorpið og í kringum eina tjörn. Héldum för ótrauðar áfram og heimsóttum flesta þéttbýliskjarna en stoppuðum stutt við, tókum þó ýmist myndir eða snöpp af svæðunum. Þegar við vorum uþb hálfnaðar með ákveðin hring varð ljóst að hvort sem við héldum áfram eða snerum við yrðum við ekki komnar til systur minnar fyrr en einhvern tímann eftir klukkan átta. Ákváðum að klára hringinn og vorum mun nær Egilsstöðum heldur en Akureyri þegar við beygðum inn á þjóðveg eitt af vegi númer 85. Þess ber að geta að sveitabær systur minnar og mágs er í nokkurra mínútna akstur við hinn endann á vegi 85. Þrátt fyrir að vera nokkuð seint á ferð eða klukkan langt gengin í níu voru húsráðendur og gestir, Davíð Steinn var búinn að bætast í hópinn, nýlega sestir að borðum. Okkur var boðið upp á Hangiket af kind með nafni sem ég man ekki hvað var og meðlæti.

Ég var komin fram um átta á föstudagsmorguninn. Systir mín var löngu farin í vinnuna. Mágur minn hafði vaknað með henni en lagt sig aftur. Fljótlega hellti ég upp á könnuna og mágur minn og pabbi bættust í hópinn stuttu fyrir níu áður en þeir fóru út að hlöðu þar sem verið var að vinna í að setja upp rafmagnsbílsskúrshurð. Sonja kom fram stuttu eftir að þeir voru farnir út. Við fengum okkur kaffi og hressingu. Davíð Steinn bættist í hópinn skömmu síðar og fékk sér að borða með okkur. Áður en við tíndum dótið saman hittum við aðeins á Aron og Huldu. Báðum þau um að skila kveðjum en Hulda og Davíð Steinn ætluðu að skreppa í veiðitúr á Ljósavatn með smá krók inn á Akureyri til að kaupa sér nesti. Við Sonja keyrðum inn að Grenivík og þaðan á Akureyri. Fórum fyrst í jólahúsið en þegar við snerum við komum við fórum við í sund, skruppum svo í rúmfatalagerinn og Bónus áður en við héldum för áfram. Vorum eitthvað að spá í að setja niður tjaldið í Hauganesi en okkur fannst heldur dýr nóttin, 2000 kr. fyrir persónuna og sama fyrir rafmagn. Semsagt 6000 krónur fyrir okkur. Hættum við en fengum okkur að borða á góðum stað við höfnina. Ég fékk mér fiskisúpu, skammt af frönskum og hvítvínsglas. Góð þjónusta og mjög góður matur. Síðan héldum við för um Tröllaskaga áfram. Keyrðum í gegnum Dalvík og Siglufjörð. Það var búið að bjóða okkur að setja niður tjaldið fríkeypis við bæinn Haganes í fljótunum en þrátt fyrir gott veður leist mér ekkert á að tjalda þar m.a. vegna þess að þessa helgina var heilt ættarmót í gangi á svæðinu. Á Hofsósi var ekki hægt að komast í rafmagn. Kíktum á aðstæður á tjaldstæðinu við Hóla í Hjaltadal en þar var ekki rafmagn í boði og þar að auki fullt af fólki. Fundum blett á tjaldstæðinu við Sauðárkrók en ákváðum að kíkja einnig inn í Varmahlíð. Á síðarnefnda staðnum var ekkert laust svo við snérum við. Klukkan var um ellefu þegar við komum aftur á Krókinn. Verið var að tjalda á blettinum sem við höfðum í huga en það var nóg pláss á flötinni og snúran hennar Sonju er það löng að það var létt að tengjast rafmagninu. Ég var orðin ansi lúin, stirð og ferðaþreytt svo það tók mig nokkrar mínútur að staulast úr bílnum og hjálpa til við að tjalda. Eftir að hafa skroppið á salerni skreið ég beint ofan í pokann.

Klukkan var farin að ganga ellefu þegar ég skreyddist út úr tjaldinu á laugardeginum. Meðan ég fór að pissa og tanna hellti Sonja upp á en hún var aldrei þessu vant mun fyrr á fótum heldur en ég, hafði samt farið miklu seinna inn í tjald. Við vorum sammála um að þrátt fyrir mikla leti í mér að taka okkur upp og halda heim á leið. Keyrðum af stað um tólf leytið, inn fallegan dal sem lá m.a. til Blöndóss. Ókum malbikaða kaflann og þegar við komum að gatnamótum beygðum við fyrst til hægri og gerðum stuttan túr inn á Skagaströnd. Kíktum aðeins inn í spákonusetrið og var okkur leyft að skoða okkur smá stund um án þess að borga aðgang. En það er hægt að fá fjörutíu mínútna leiðsögn og einnig kaupa sér alls konar spá; lófalestur, tarrot, lestur í bolla og örugglega eina eða fleiri í viðbót. Það verður kannski gert síðar. Næsta stopp var ekki fyrr en um hálffimm í sumarbústað við Selborgir stutt frá Borgarnesi. Þar var okkur boðið í kaffi og með því og einnig grillað lambalæri með tilheyrandi bökunarkartöflum, fersku sallati og bernessósu. Stoppið stóð því rúma tvo tíma en það var mjög gott að fá svona móttökur og láta ferðaþreytuna aðeins líða úr sér áður en síðasta spölurinn í bæinn var ekinn.

22.7.23

Fyrsta sumarfríshelgin af fimm

Jæja, þá eru fyrstu fimm virku dagarnir af tuttuguogsjö liðnir af sumarfríinu. Í gærmorgun heyrði ég ekkert þegar Oddur fór á fætur og í vinnuna enda svaf ég til klukkan langt gengin í átta. Nóttin áður var svolítið kaflaskipt því ég þurfti að skreppa á salernið um tvö leytið. Gat ekki sofnað alveg strax aftur svo það endaði með því að ég kveikti á lampanum og las um stund. Var svo sofnuð aftur um fjögur leytið og þegar ég vaknaði hafði ég sofið samtals í hátt í átta tíma, tæpa fjóra fyrri hlutann og þrjá og hálfan seinni hlutann. Um níu leytið hellti ég mér upp á kaffi og ristaði brauð. Hitti aðeins á nýja nágrannann skömmu fyrir tíu þegar ég var að leggja af stað í sjóferð. Það var mikið um að vera í Sigluvík og eins gott að passa sig þegar maður var að synda/svamla út að kaðli því bátarnir voru alls konar og margir sem krakkarnir voru að róa á og voru þau nokkur sem sigldu hluta af þeirri leið sem við sjósundsfólkið höldum okkur á. Einn drengurinn var meira að segja næstum því búinn að sigla inn í víkina. Það var ekki viljandi og hann og nokkrir krakkar hjálpuðu honum út fyrir aftur áður en hann fór yfir innri kaðalinn. En þetta var fimmta ferðin mín í sjóinn frá því á föstudaginn fyrir viku. Var komin heim aftur um hálftólf leytið. Hitaði mér helminginn af fiskafgangnum frá því daginn áður. Fór ekkert út aftur, en kláraði eina af þeim bókum sem á að skila næst, prjónaði aðeins og horfði á einhverja þætti m.a. Annars er ég líklega að fara í nokkurra daga útilegu eftir hádegi í dag svo það kemur stopp á daglegar færslur í bili.

21.7.23

Sofið út til klukkan hálf átta

Aftur var ég komin fram á undan Oddi. Svaf einstaklega vel í fyrrinótt og vaknaði um sex leytið eftir átta tíma svefn. Var ekki alveg búin að teikna upp daginn en þegar til kom varð hann nokkuð líkur þriðjudeginum. Hellti mér upp á kaffi um níu leytið og fékk mér samloku með. Var komin í Nauthólsvík rétt eftir að aðstaðan opnaði um tíu. Svamlaði og synti út að kaðli. Sjórinn 13°C og það var frekar freistandi að svamla aftur til baka. Hefði svo sem alveg getað gert það en í staðinn kom ég við í lóninu í nokkrar mínútur. Fór aðeins í gufuna áður en ég fór í langpottinn sem var mun volgari en venjulega eða um 33°C. Það var verið að vinna í að laga það og ég sat í pottinum í tæpan hálftíma. Hitta bekkjarsystur mína úr A bekknum í Kennó. Kom heim stuttu fyrir tólf. Setti í þvottavél og setti upp smá skammt af hýðisgrónum. Hafði tekið út eitt flak af þorskhnökkum fyrr um morguninn og steikti það upp úr eggjum og blöndu af byggflögum og byggmjöli. Þetta var alveg skammtur fyrir þrjá. Seinna þegar Davíð Steinn kom fram bauð ég honum að borða af afgangnum en hann var búinn að ákveða að elda sér eitthvað allt annað. Ég hellti aftur upp á um hálftvö leytið. Hægt var að hengja upp úr þvottavélinni rúmum hálftíma seinna og svo ákvað ég að skella mér í sund. Synti reyndar ekki neitt að þessu sinni en fór all nokkrar ferðir í þann kalda og magnesíum pottinn. Kalda potts vinkona mín mætti á svæðið þegar ég var búin með fyrstu ferðina í kalda. Saman fórum við amk sex ferðir og ég tvær ferðir í viðbót eftir að hún var farin. Áður en ég fór heim kom ég við í Sports og keypti mér þrjá nýja sundboli. Fann sniðið og stærðina en fátt var um liti svo allir voru bolirnir svartir. Annars lauk ég við að lesa; Systumegin eftir Steinunni Sigurðardóttur í gær.

20.7.23

Viðey

Var komin fram á undan Oddi en hann fór svo út úr húsi á undan mér. Lagði af stað fyrir klukkan hálfátta að sækja frænda sinn. Ég skellti mér í sund um átta. Synti m.a. 300 metra, fór nokkrar ferðir í kalda pottinn og í einni þeirra hitti ég á sjósundsvinkonu mína. Hún var búin að synda og var á leiðinni upp úr því hún átti von á heimsókn um níu leytið. Ég fór ekki upp úr fyrr en rúmlega hálftíu. Var komin á planið við vínbúðina rétt áður en opnaði. Keypti eina hvítvínsflösku af minnstu gerð og aðra af næst minnstugerð. Síðan fór ég heim og hellti upp á sterkt kaffi og ristaði mér brauð. Upp úr klukkan ellefu pakkaði ég niður í bakpoka, smá nesti, litlu vínflöskunni, tveimur bókum, prjónadótinu, ennisbandi, flíspeysu og vettlingum. Klæddi mig í lopapeysuna fínu og góðu og brunaði niður á Skarfabakka. Þaðan er ferja yfir í Viðey á klukkutíma fresti frá klukkan 10:15-17:15. Hádegisferjan  er sú fyrri af tveimur sem kemur frá gömlu höfninni í miðbænum. Með þeirri ferju komu tvær af fjórum úr hóp sem fer amk eina ferð á ári út í Viðey. Og við vorum tvær sem bættumst í hópinn á Skarfabakka. Þegar við komum út í eyju ákváðum við að byrja á því að nota aðstöðuna rétt aftan við Viðeyjarstofu, fá okkur smá nesti, skála fyrir okkur og skreppa svo á salerni áður en við gengum af stað vestur eftir einni. Gangan var með þeim hætti að forritið í símanum skráðin enga göngutúra en ég safnaði samt yfir tólfþúsund skrefum í heildina í gær. Komum til baka að Viðeyrjarstofu um hálffjögur. Ætluðum að fá okkur kaffi en það var enginn til að sinna þeirri þjónustu í gær, eitthvað hlýtur að hafa komið upp á því yfirleitt er hægt að fá sér kaffi og með því og jafnvel vínglas ef svo ber undir en í gær hljóta að hafa verið óvænt forföll. Hægt var að nota salernisaðstöðuna inni alveg til fimm en staðarhaldarinn dró niður fánann um það leyti og lokaði og læsti húsinu. Kirkjan var líka harðlæst og lokuð. Hinar þrjár tóku annan smá göngutúr en ég vaktaði dótið þeirra og greip í bók á meðan. Tókum næst síðasta bátinn úr eynni, 17:30, en sá bátur fer einmitt alla leið niður á gömlu höfn. Ég var komin heim um sex mjög ánægð með ævintýralega skemmtilegan dag í góðum hópi.

19.7.23

Sjórinn, bókasafn og sundið

Ég var komin á fætur á undan Oddi í gærmorgun. Hann gefur sér góðan tíma til að vakna, fara í sturtu og fá sér eitthvað. Virtist vera nokkuð tilbúinn um hálfátta, þá búinn að vera á fótum í um klukkustund. Taldi að hann hefði rúman hálftíma þar til að hann yrði sóttur. Frændinn hringdi hins vegar í hann tíu mínútum fyrir átta og var þá kominn að sækja hann. Þá átti Oddur aðeins eftir að koma sér í sokka og skó en hann hafði ætlað sér að vera kominn út áður en frændinn mætti. Það tókst semsagt ekki. Ég hellti mér upp á kaffi um níu leytið og fékk mér hressingu. Var svo mætt í Nauthólsvík um leið og verið var að opna aðstöðuna klukkan tíu. Það var ekki eins mikil fjara og á sunnudaginn en það var samt ekki hæg að vaða út að kaðli. Var að spá í að synda til baka aftur en ákvað svo að það gæti ég alveg gert seinna. Eftir tuttugu mínútur í sjónum, skrapp ég smá stund í gufuna áður en ég fór í heita pottinn. Fór upp úr stuttu fyrir ellefu og þá var fólk farið að streyma að enda veðrið gott og örugglega margir í sumarfríi. Næst lá leiðin í AO við Sprengisand þar sem ég fyllti tankinn og á leiðinni heim kom ég við í bókasafninu til að skila fjórum bókum af níu. Þrjár af þessum fjórum voru skammtímalánsbækur. Stóðst ekki freistinguna að skoða mig um sem varð til þess að það komu fimm bækur með mér heim. Þannig að nú er ég með tíu bækur af safninu. Engin þeirra skammtíma láns en eina er ég þegar búin að framlengja skilafrestinum á en ég hef til 8. ágúst. Hinar fjórar sem eftir voru heima eru með skilafrest til 3. ágúst með möguleikann á að framlengja um 30 daga. Hugsanlega get ég skilað eitthvað af þessum bókum fyrir næstu mánaðamót. Ég er amk langt komin með framlengdu bókina; Leyndir gallar eftir Elsebeth Egholm

Eftir stopp heima í hádeginu og til klukkan að ganga tvö fór ég í sund. Sá kaldapotts vinkonu mína og eina systir hennar í sólbaði en byrjaði á tveimur ferðum í kalda pottinn og 200 m sundi áður en ég heilsaði upp á þær þegar ég var á leiðinni í gufuna. Kalda potts vinkona mín kom svo með mér nokkrar ferðir í kalda og eina ferð í gufuna áður en hún lagðist aftur í sólbað og ég skrapp í sjópottinn. Ég var komin heim um hálffimm rétt á undan Oddi.

18.7.23

Bíllinn í dekur í gærmorgun

Ég var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Rétt fyrir klukkan átta var ég komin fyrir utan Stórhöfða 16 en ég átti pantaðan tíma í alþrif á bílinn klukkan átta. Maðurinn sem tók á móti bílnum sagði að þetta gætu orðið tvær til tvær og hálf klukkustund. Ég var með vatnsflösku, prjónadótt, lopapeysu og tvær bækur í bakpoka. Labbaði í áttina að Grafarvogi og beygði út af á stíg rétt við brúna. Fljótlega fann ég bekk sem ég settist á. Þá var ég búin að labba rúmlega níuhundruð metra á tæpum ellefu mínútum. skipti út flíspeysunni fyrir lopapeysu, aðallega til að búa til rýmra pláss í bakpokanum. Las í tuttugu mínútur áður en ég hélt göngunni áfram. Labbaði næstu rúmu níuhundruð metra á fjórtán mínútum. Var aðeins lengur og hægari þar sem ég ákvað að taka nokkur snöpp. Fann smá skúr með  bekkjum í, útsýni yfir voginn og myndir og texta af helstu fuglum og fleiru. Las aftur í tuttugu mínútur. Þriðji spölurinn af fjórum var 1,5 km á tuttugu mínútum og sá fjórði 1,2 á rúmu korteri. Þá var klukkan að byrja að ganga ellefu. Hélt að ég gæti fengið að bíða síðustu mínúturnar á staðnum en þar var allt læst og maðurinn hlaut að hafa skroppið frá. Um ellefu reyndi ég að hringja en það var ekki svarað. Tíu mínútum síðar var hringt til baka. Þá átti eftir að bóna bílinn og sagt að hann yrði tilbúinn um hálftólf. Ég var skammt frá og tók eftir að búið var að opna aðra skúrhurðina aftur. Ég komst því inn í "biðstofu" á svæðinu á meðan verið var að ljúka við að dekra við bílinn. Alþrifin kostuðu innan við sautjánþúsund. Ég var komin heim rétt rúmlega tólf. Hellti upp á kaffi og fékk mér snarl með. Um tvö var ég mætt í Laugardalslaugina og þar var ég í rúma tvo tíma, aðallega að kæla mig í kalda pottinum.

17.7.23

Fyrsti virki frídagurinn af tuttuguogsjö

Ég var komin á fætur um hálfátta leytið í gærmorgun. Fljótlega ákvað ég að stefna á Nauthólsvík svo ég sat róleg í stofusófanum með fartölvuna í fanginu í rúmlega einn og hálfan tíma. Þá hellti ég mér upp á sterkt kaffi og ristaði brauð. Mætti í Nauthólsvík á slaginu tíu akkúrat þegar verið var að opna. Það var rólegt en samt kominn smá hópur út í sjó sem hafði komið áður en aðstaðan opnaði. Sjórinn var 11°C og það var fjara. Hægt var að vaða út að kaðli en ég synti mest alla leiðina þangað, sem var mun styttri heldur en á föstudaginn var. Það flögraði að mér að synda til baka en ákvað svo að gera það ekki. Var líklega á svamli í sjónum í tæpar tuttugu mínútur. Kom ekkert við í lóninu en settist í smástund inn í gufu áður en ég skellti mér í sturtu og fór svo í heita pottinn í tæpan hálftíma. Þegar ég kom heim var Oddur kominn á fætur. Hann var að æfa sig fyrir þriggja vikna vinnutörn framundan. Hann byrjar samt ekki fyrr en á morgun, þriðjudag. Dagurinn fór svo aftur í alls konar m.a. það sem ekki má skrifa um. 

16.7.23

Sunnudagur

Auðvitað hafðist að sofna aftur um fjögur leytið í fyrrinótt. Var svo vöknuð aftur um sjö leytið og komin í sund rétt rúmlega átta. Synti 400m á braut 2, meiri helminginn á bakinu. Fjórar ferðir í kalda pottinn, eina í heitasta, eina í gufu, og eina í sjópottinn. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og fór svo beint vestur í bæ í hitting til norsku esperanto vinkonu minnar. Stoppaði þar í einn og hálfan tíma og fór amk helmingur af þeim tíma í esperanto grúsk. En líka spjall og smá krossgátulausn. Kom heim um tólf leytið. Fór ekkert út aftur en dagurinn fór í alls konar engu að síður og margt af því sem ekki má skrifa um. 

15.7.23

Dagurinn tekinn snemma eða smá pása á nóttinni

Klukkan var ekki orðin fimm þegar ég vaknaði í gærmorgun. Var komin á fætur fyrir klukkan hálfsex. Mætti í vinnuna tveimur tímum síðar. Þar sem þetta var síðasti vinnudagurinn með sumarstúlkunni leyfði ég henni að ráða á hvorum endanum á vélinni hún vildi vinna. Hún valdi þann enda sem hún er oftast á, móttökuendann. Sá það fyrir sér að þar væri meira að gera. Allri framleiðslu var lokið fyrir klukkan tólf, líka síðasta partinum af endurnýjuninni sem var hlaðið inn fyrir tæpum tveimur vikum. Hætti vinnu um tvö. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og ýsuflök. Síðan lá leiðin beinustu leið í Nauthólsvík. Synti út að kaðli og kom við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Var komin heim um fjögur. Hellti mér upp á sterkt kaffi og fékk mér smá snarl. Um sex leytið setti ég upp örfáar kartöflur og um hálfsjö skellti ég ýsuflökunum í kryddað sjóðandi vatn í pott. Bauð Oddi að borða með mér, N1 sonurinn var á aukavakt. Oddur þáði reyndar ekki boðið en ég setti smjör út á matinn minn og opnaði 275ml flösku af hvítvíni sem ég er búin að eiga síðan stuttu fyrir jól.

14.7.23

Hraðferð á loginu

Eftir nokkurra daga veðurblíðu hefur sólin dregið sig í hlé um stund og gular veðurviðvaranir í kortunum vestan megin á landi til morguns. Það fær að hafa sinn gang mín vegna enda ekkert sem ég get gert betur í því heldur en að halda mínu striki. Ég var mætt í vinnu í gærmorgun um hálfátta. Var aftur á ítroðsluendanum og sumarstúlkan á móttökuendanum. Hún var enn þrælkvefuð en þrátt fyrir það hörku dugleg. Við kláruðum daglega framleiðslu fyrir klukkan tólf, eitthvað um fimmhundruð kort og fórum langt með eina endurnýjun, skildum aðeins 275 kort eftir af sautjánhundruð og vorum samt búnar að ganga frá deildinni og komnar upp um þrjú. Flestir í hinum deildunum voru farnir. Ég og fyrrum fyrirliði fórum krókaleiðir í Laugardalslaugin þar sem verið var að malbika Sundlaugarveg. Hittum fyrrum vinnufélaga þegar við skruppum í sjópottinn. Þegar ég var að verða tilbúin í að synda fylltist laugin af alls konar fólki sem bæði var að synda og leika. Ég tók þetta sem svo að ég færi bara fleiri ferðir í kalda pottinn og magnesíum pottinn. Fór einnig eina ferð í gufu og heitasta pottinn. Klukkan að ganga fimm skrapp ég í Krónuna við Granda. Þegar ég kom heim með vörurnar hringdi ég í Odd til að sækja pokana tvo. Hringdi í pabba áður en ég fór sjálf með mitt dót úr bílnum. Danska frændfólkið hafði kíkt á hann í gær, þ.e. Gerður og börnin hennar. Það er að styttast tíminn þeirra hérna og kannski fer það svo að ég nái ekki að hitta aðeins á þau í þetta sinn.

13.7.23

Sópað upp

Í gærmorgun, sem hófst mjög snemma, var ég vöknuð um fimm leytið og komin á fætur skömmu síðar. Tíminn fram að brottfarartíma leið samt ógnar hratt. Þegar ég var lögð af stað í vinnuna kviknaði ljós í mælaborðinu sem sýndi að það væri kominn tími til að athuga með þrýstinginn á dekkjunum. Fór því aðeins aðra leið í vinnu og kom við á N1 í Borgartúni. Þar keyrði ég einn hring án þess að finna það sem samt er þarna, loft til að bæta á dekkin. Ég keyrði því einnig framhjá Olísstöðinni sem er rétt hjá vinnunni og var mætt í vinnuna á svipuðum tíma og venjulega, eða um hálfátta. Um átta var sumarstúlkan ekki mætt en það kom í ljós hálftíma síðar að hún hafði hringt sig inn veika en sá sem tók á móti símtalinu taldi að um annan starfsmann væri að ræða. Fyrrum fyrirliði var í bókhaldinu og á móttökuendanum. Ég var í ítroðslunni og pökkuninni. Tímann milli átta fimmtán og þrjú eftir hádegi, með morgunkaffi, fundarpásu og hádegishléi, framleiddum við og pökkuðum tólfhundruð kortum og lukum þar með að vinna upp eftir stoppið. Sendum fjóra bakka upp með lyftunni um þrjú en höfðum komið upp með einn bakka um hádegið. Þrír af þessum pökkum fara í póst í dag í hinum tveimur voru kortið sem fara í útibú í dag og þau eru færð yfir í aðra bakka. Fór því með tvo tóma bakka og allar skuldfærslubeiðnirnar niður rétt fyrir hálffjögur. Hætti vinnu tuttugu mínútum síðar. Var með sunddótið með mér en ákvað að fara fyrst í bíltúr upp í N1 við Gagnveg. Þar veit ég nákvæmlega hvar loftið er og gat heimsótt N1 soninn í leiðinni. Eftir stoppið þar keyrði ég í Gegnum Grafarvog og endaði svo heima um fimm leytið. Skrópaði semsagt í sundið.

12.7.23

Mið vika

Var vöknuð á undan klukkunni eins og oftast. Eftir morgunverkin á baðherberginu og vítamín inntöku settist ég í stofusófann með fartölvuna í fanginu. Að sjálfsögðu var gluggað í fréttir og myndbrot af gosinu. Mætti í vinnu um hálfátta. Var í bókhaldinu en þegar ég ætlaði að útbúa fyrstu tölur var enginn póstur í sameiginlega pósthólfinu. Fyllti á vatnsflöskuna og settist inn í kaffistofu með kaffibolla og prjónana mína. Um átta leytið fórum við allar þrjár niður. Fyrrum fyrirliði var á ítroðsluendanum og þar var allt með eðlilegum hætti, þ.e. allar framleiðsluskrár höfðu skilað sér. Ég hringdi í kerfisfræðinginn og hann sagði að þá hefði málið eitthvað með póstsendingar að gera. Fyrrum fyrirliði skrapp upp til að athuga hvort sameiginlega innboxið væri líka tómt hjá henni, sem það var. Á meðan hún hafði samband við einhvern sem sér um að þjónusta þetta kerfi RB megin og einnig senda skilaboð til þeirra sem senda okkur listana, tók ég við að hlaða inn skránum og handskrá niður á blað. Sumarstúlkan fékk svo blaðið til að taka til í tegundirnar. Þegar fyrrum fyrirliði kom niður aftur tók hún að sér að fara upp með blaðið og ljósrita það áður en hún kom og leysti mig af. Listarnir skiluðu sér um hálftíu og það náðist að setja eitt útprentað blað með í töskuna áður en hún var sótt, ljósritaða handskrifaða blaðið fór einnig með töskunni. Svo tók við smá bið eftir að viðgerðarmaður kæmi til að setja varahlutinn í prentarann. Höfðum samt alveg nóg að sýsla við á meðan. Ég fékk fyrrum fyrirliða til að hleypa mér inn í kortahvelfingu (það þarf tvo til að opna) og þangað fór ég vopnuð töng og dúkahníf til að opna og skoða í kassana sem komu í hús á mánudaginn. Góðu fréttirnar eru þær að það eru ekki gulir miðar á milli kortanna en þegar við förum að telja kassana inn mun þurfa að "hátta" þá úr plastinu og "klæða" aftur í, því teljararnir ráða ekki við að telja þessi kort í gegnum plastið. Og þetta eru yfir 70 kassar. Það verður eitthvað. Viðgerðarmaðurinn mætti rétt fyrir ellefu og varahluturinn var kominn í rúmu korteri síðar og vélin og framleiðslan á form komin af stað. Framleiddir voru tveir af þremur dögum og var framleiðsla gærdagsins látin bíða til dagsins í dag. Hættum vinnu um hálffjögur og fór ég beint í sund. Synti meira að segja 300 metra eftir fyrstu ferðina af fjórum í kalda pottinn. Eftir síðustu ferðina í þann kalda sat ég á stól í hátt í hálftíma áður en ég fór upp úr og heim. 

11.7.23

Þriðja gosið á rúmum tveimur árum

Það hlaut að enda með gosi. Jörðin við Litla Hrút á Reykjanesi gaf loksins eftir upp úr klukkan hálffimm. Þá var ég líklega að tala við pabba minn rétt áður en ég fór í sund því ég heyrði fyrst af þessu um sex leytið. Var í vinnu milli hálfátta og fimm. Varahluturinn kom loks í hús um það leyti en þar sem hann kom svona seint var ákveðið að bóka viðgerðarmanninn ekki fyrr en um tíu í dag. Það var samt nóg að gera í vinnunni því það komu kortasendingar í hús á föstudag og í gær og það er meira en að segja það að taka upp og telja þúsundir korta, sérstaklega þegar þarf að plokka gula miða sem eru á milli allra korta. Hægt er að telja kortin þótt miðarnir séu í en það verður að plokka þá úr áður en kortin eru notuð í framleiðslu svo að er eins gott að gera þetta bara strax. Vorum þrjár að þessu og plokkuðum úr rúmlega 60 300 korta kössum í gær á ca fjórum og hálfum tíma. Það er þriðjungurinn af sendingunni svo þetta verkefni mun taka meiri tíma og ná yfir fleiri daga, því við munum ekki geta setið eins við þegar vélin verður komin í gang. Þetta verður ekki búið áður en ég fer í frí. En við botnum ekkert í þessar vitleysu að setja gula miða á milli plastanna, þetta er langt frá því að vera umhverfisvænt... 

10.7.23

Veðurblíða

Ég var risin úr rekkju stuttu áður en fyrsti skjálftinn yfir fjórum reið yfir stuttu fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Fann ekki hristinginn sjálfan þar sem ég var á vappi en varð samt vör við hann. Hins vegar fann ég vel fyrir þeim næsta rétt rúmri klukkustund síðar en þá sat ég í stofusófanum með fartölvuna í fanginu alveg hissa á mér að vera ekki farin í sund. Var mætt í laugina um níu. Hitti á sjósundsvinkonu mína. Ég byrjaði á því að fara í kalda pottinn, synti svo tvöhundruð metra áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Fór alls sjö ferðir í þann kalda en aðeins einu sinni í flesta af hinum pottunum, laugina og gufuna. Sleppti þó 42°C pottinum en fór aldrei þessu vant smá stund í nuddpottinn því sjósundsvinkona mín var þar. Eftir síðustu ferðina í kalda settist ég á stól og sólaði mig í næstum hálftíma. Kom heim rétt fyrir tólf. Hellti mér upp á sterkt kaffi og fékk mér eitthvað að borða með. Hlustaði á hádegisfréttir, prjónaði smá og horfði á einn Hawaii 5-O þátt áður en ég fór út í göngutúr. Sá túr átti bara að vera stuttur en endaði á því að verða rúmir fjórir kílómetrar í heildina með smá niðursetningi í milli tíðinni. Labbaði upp að Perlu og þaðan yfir í kirkjugarðinn. Staldraði um stund við leiði móðurforeldra minna og móðurbróður. Rölti svo áfram og út úr garðinum hinum megin við Öskjuhlíð. Þar fann ég fljótlega mjög freistandi bekk á góðum stað og settist niður um stund. Gangan heim var svo meðfram Öskjuhlíðinni framhjá HR og einnig Valssvæðinu. Sá spölur var lengri eða hátt í 2,5. Gangan úr kirkjugarðinum að bekknum var það stutt að hún var ekki skráð sem ganga en leiðin að heiman og að leiðinu var tæpir 2 km. Klukkan var byrjuð að ganga fjögur þegar ég kom heim aftur. Þá lauk ég við að lesa eina af skammtímalánsbókunum af safninu; Dauðaleit eftir Emil Hjörvar Petersen. Mjög svo spennandi bók þar sem aðal söguhetjan skreppur á Hellu og stelst/brýst inn í einn hellinn við Ægisíðu m.a. Ég var svo komin upp í rúm og að lesa þegar stærsti skjálfti gærdagsins og sá stærsti síðan þessar hræringar hófust fyrir tæpri viku, 5,2. Mjög snarpur og langur.

9.7.23

Bongó í borginni

Var snemma á fótum í gærmorgun þótt um helgi væri að ræða, um sex leytiö. N1-sonurinn ekki heima, í bústað í Helludal með systurdóttur minni, kærasta hennar og nokkrum vinum. Hinn sonurinn steinsvaf. Ég var mætt í sund rétt eftir að opnaði. Þar er verið að lagfæra ýmislegt og sumum hefðbundum gönguleiðum að pottum og laug lokað svo fara þurfti krókaleiðir. Það var og er í góðu lagi. Fyndið samt hvað er skrýtið að fara aðrar leiðir. Fór fjórar ferðir í kalda, synti 300 metra, 1 ferð í heitasta, 1 ferð í sjópottinn og svo sat ég smástund í sólbaði áður en ég fór og þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Var komin til esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan tíu. Stoppaði hjá henni í rúman klukkutíma. Kom heim rétt fyrir tólf. Um hálftvöleytið fór ég í stuttan göngutúr. Hitti nágrannana á neðrihæðinni í sólbaði í garðinum, bæði þegar ég fór og þegar ég kom aftur. Hitti líka einn af hópnum "Ljótu hálfvitarnir" á göngunni en sá er pabbi eins ungs manns úr árgangi tvíburanna. Hringdi í pabba sem var að brasa við að koma sólstólunum út á pall. Annars er svo sem lítið að frétta. Ætlunin er að njóta tímans alla daga við alls konar og ekki neitt og allt þar á milli.

8.7.23

Sumarblíða

Vaknaði snemma löngu á undan vekjaraklukkunni. Sat inni í stofu með fartölvuna í fanginu þegar atvinnulausi sonurinn kom fram til að fara á salernið áður en hann færi að sofa um hálf sjöleytið. Hálftíma á eftir honum kom N1 sonurinn fram. Hann var á aukavöktum á miðvikudag og fimmtudag í Borgartúni og upp í Mosfellsbæ. Í gær fór hann á sína vakt á Gagnveg en sagðist svo vera búinn að skipta út helginni. Ég var mætt í mína vinnu rétt rúmlega hálfátta. Var aftur í bókhaldinu. Lítið var hægt að gera í framleiðslunni þar prentarinn er bilaður og beðið er eftir varahlut. Einungis var hægt að framleiða þau kort sem ekki fara á form og í umslag. Tel mig mega skrifa um þetta þar sem bankarnir hafa verið upplýstir. Framleiðslu og talningu var lokið fyrir klukkan tíu. En við gátum hjálpað til í öðrum deildum. Flestum verkefnum var svo lokið um tvö leytið og held að allir hafi verið komnir út í góða veðrið áður en klukkan sló þrjú. Ég var með sunddótið með mér en endaði einhvern veginn heima. Slakaði á í tæpa tvo tíma en heimsótti dönsku nöfnu mína og frænku og kisuna Pixý. Sambýlismaður frænku minnar var að vinna að verkefni en hann kom aðeins og heilsaði upp á mig þegar ég kom. Við frænkur settumst fyrst út á svalir í dágóða stund. Kisu var heitt og hún lá inni í innréttaðri tösku og var vifta á gólfinu fyrir utan til að kæla aðeins loftið í kring. Þegar við frænkur komum aftur inn hafði kisa fært sig í stofu sófann. Hún vildi alveg spjalla smá stund við mig. Ég var komin heim aftur um sjö leytið.

7.7.23

Helgi framundan

Rumskaði aðeins einu sinni í fyrrinótt þegar einn sterkur reið yfir. Sofnaði strax aftur, svaf vel og var eitthvað að dreyma. Mætti í vinnu um hálfátta. Ég var í bókhaldinu svo ég undirbjó fyrstu tölur. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Sumarstúlkan er skráð á eldhúsvakt þessa vikuna ásamt föstum starfsmanni. Ég leysti sumarstarfsmanninn af í eldhúsinu þegar hún var búin að þurrka af borðum. Fasti starfsmaðurinn er forkur til vinnu. Hún var alveg til í að sjá um fráganginn ein en ég fékk þó að tæma úr nokkrum döllum og þurrka af borðinu sem matnum er stillt upp á, á meðan hún skolaði föt, skálar og fleira og raðaði inn í kassana sem maturinn kemur í. Um fjögur fórum við fyrrum fyrirliði í samfloti yfir í Laugardalinn og lögðum bílunum á planinu við sundlaugina. Hittum kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum. Fyrrum fyrirliði var þar aðeins í smá stund áður en hún skrapp í magnesíum pottinn, aftur í kalda og svo á braut tvö. Hittum hana aftur í kalda þegar við vorum í fjórðu sameiginlegu ferðinni af sex. Kaldi potturinn um 10°C sem sleppur en hann mætti vera tveimur til þremur gráðum kaldar að mínu mati. 

6.7.23

Hræringar

Rumskaði um tvö leytið í fyrrinótt til að skreppa á klóið. Var ekki búin að festa svefninn aftur þegar rúmið hristist. "Jæja, er þetta að byrja aftur", hugsaði ég með mér alveg róleg. Vissi ekki þá að þetta hafði byrjað um fjögur leytið daginn áður. Þá var ég í sundi. Gat ekki sofnað djúpsvefni aftur. Hugurinn fór á flug og á einhverjum tíma punkti ákvað ég að lesa í smá stund. Kláraði eina af þremur skammtímaláns bókunum. Ljóða bók sem varð til þegar höfundur var á listamannalaunum í þrjá mánuði fyrir örfáum misserum síðan. Um þrjú leytið gerði ég heiðarlega tilraun til að reyna að sofna aftur. Það tókst ekki 100%, fannst ég alltaf vita af mér og öðru hvoru fann ég fyrir jarðhreyfingunum eða heyrði í "húsinu" hreyfast. Fór á fætur um hálfsex. Mætti í vinnuna rétt áður en hún varð hálfátta. Ég var á ítroðsluendanum og sumarstúlkan á móttökuendanum. Fyrrum fyrirliði var í bókhaldinu en hún kom niður með okkur með fyrstu tölurnar og til að ganga frá kortategundum til að senda eigenda sem hættir eru að nota þjónustu hjá okkur. Visa skrár voru hvorki í möppu né skrám svo ég þurfti að hafa samband við kerfisfræðinginn. Hann ýtti á eftir þessum skrám og þær komu um hálfníu. Milli klukkan hálfníu og hálfþrjú framleiddum við rúmlega fimmtánhundruð kort, þarf af tæplega níuhundruð í endurnýjun. Ég ákvað svo að fara bara beint heim eftir vinnu og hella mér upp á sterkt og gott kaffi. Hékk uppi alveg til klukkan að verða níu. Las í tæpan hálftíma áður en ég fór að sofa. Rumskaði eitthvað við jarðhreyfingar en steinsvaf að mestu leyti í alla nótt alveg í góða átta tíma. 

5.7.23

Jarðskjálftar

Ég var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Um hálfsjö heyrði ég í vekjaraklukku N1-sonarins en þegar klukkan var að verða sjö og ekkert bólaði á syninum hringdi ég í hann til að ýta við honum. Við mæðgin vorum því samferða út úr húsi korter yfir sjö. Ég var mætt í mína vinnu rétt fyrir hálfátta. Var á móttökuendanum á vélinni. Framleiddum yfir sjöhundruðogfjörutíu dagleg kort milli klukkan hálfníu og tólf. Fyrrum fyrirliði var í bókhaldinu en hún kom og leysti okkur af um það leyti sem við vorum að klára frágang. Hún tók að sér að hlaða inn endurnýjun og taka á móti mönnunum sem voru að koma í yfirferð á vél. Þeim seinkaði smá en annar var mættur á svæðið þegar ég kom úr mat og hinn kom nokkru síðar. Yfirferð var lokið stuttu fyrir fjögur og var testkort sent í gegn til að athuga hvort vélin væri örugglega ekki tilbúin að vinna vinnuna sína. Ég var komin í sund um fjögur. Kalda potts vinkona mín var búin að fara eina ferð í kalda en beið eftir mér í 42°C pottinum. Fórum fimm ferðir í viðbót í kalda, 3 ferðir í 44°C pottinn, eina í gufuna og eina í sjópottinn. Á heimleiðinni kom ég við í bókasafninu í Kringlunni og skilaði 7 bókum af níu. Auðvitað "fann" ég sjö bækur í staðinn og þrjár af þeim á skammtímaláni. Þær tvær bækur sem voru eftir heima af síðasta útláni eru með skilafrest til 10. júlí með möguleikann á að framlengja um 30 daga. Alltaf gaman að lesa.

4.7.23

Sumarveður

Hitastigið í borginni fór á tímabili í amk tuttugu gráður og veðrið hélst gott allan daginn. Ég var í vinnu milli hálfátta og hálffjögur. Var með sjósundsdótið með mér í bílnum og renndi beint í Nauthólsvík. Öll stæði nálægt full og ólöglega lagt á sumum stöðum þótt það væri nóg af stæðum við HR. Ég vissi að það væri nóg pláss í sjónum og mér fannst ekkert mál þótt ég hefði þurft að labba lengri spöl en venjulega. Það sem ég setti fyrir mig og varð til þess að ég ákvað að hætta við að skreppa í 12,3°C sjórinn var að ég var viss um að það væri fullt og troðningur í klefaaðstöðunni og heita pottinum. Kannaði það reyndar ekki en það voru margir bílar á svæðinu og fleiri að koma um sama leyti og ég. Lenti reyndar í umferðarsultu á leiðinni til baka sem náði frá hringtorginu við HR og að gatnamótunum við Flugvallaveg, þar sem maður beygir annað hvort í áttina að Bústaðaveg eða til vinstri vestur í bæ. 

3.7.23

Veðurblíða í morgunsárið

Bríet og Bjarki fóru á fætur stuttu fyrir átta í gærmorgun og drifu sig fljótlega af stað á skotkeppnina í bæinn. Ég var komin fram skömmu áður en þau fóru og náði að kveðja þau. Kveikti á tölvunni hans pabba og sat við hana í um einn og hálfan tíma áður en ég fór fram í eldhús og hellti upp á kaffi. Pabbi kom á fætur um tíu en hafði að sjálfsögðu verið búinn að koma fram fyrr um morguninn, nokkru á undan unga parinu. Um eitt leytið setti ég upp kartöflur og steikti bleikjuflök. Vorum að klára að borða þegar bronsleikur U-21 í handbolta hófst. Ég tók að mér uppvaskið en náði rúmlega helmingnum af fyrri hálfleiknum og öllum seinni hálfleiknum. Þvílíkur leikur. Pabbi skrapp svo í smá göngutúr, labbaði í smá hring sem er sennilega um 700 metrar. Ég fór bara út á pall í smá stund. Hellti aftur upp á könnuna um fjögur og fékk mér pönnsu með kaffinu. Unga fólkið skilaði sér heim um fimm, um það leyti sem ég var að taka mig saman og kveðja. Keyrði Suðurstrandaveginn og gegnum Grindavík, bæði að gamni mínu en líka til þess að losna við mestu umferðina og geta keyrt á sem jöfnustum hraða megnið af leiðinni. Strákarnir voru hjá pabba sínum og fjölskyldu, komu heim á ellefta tímanum. Helga systir hringdi í mig um átta leytið og við spjölluðum í dágóða stund. Það kom í ljós að bíllinn þeirra sem þau voru á fyrir vestan hafði bilað í sama firði og ég fann I-Padinn fyrir þremur árum.

2.7.23

Á Hellu

Ég var mætt í Laugardalslaug stuttu eftir að opnaði. Var búin að fara tvær ferðir í kalda og eina í þann heitasta áður en ég fór á braut 2 og synti 600 metra, næstum alla á bakinu en ca hálfa (25m) leið skriðsund. Fór tvær aðrar ferðir í kalda, sem þessa dagana er ekkert svo kaldur, og eina ferð í sjópottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Eftir sundferðina fór ég beinustu leið vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Hún bauð upp á graut og kaffi og svo lögðumst við aðeins yfir tilbúna tungumálið. Upp úr klukkan ellefu vorum við hættar að lesa en vorum að spjalla og spá í sumrinu framundan. Þá hringdi Bríet í mig. Hún var stödd á skotsvæðinu við Hafnarfjörð þar sem var grenjandi rigning og hana vantaði handklæði. Hún hafði fyrst reynt að hringja í frænda sinn sem er nýkominn með bílprófið en hann var þá kominn vestur á firði. Held að hann hafi kíkt á bifhjólamót við Trékyllisvík en svo hélt hann ferðinni áfram með smá stoppum hér og þar til að taka myndir og hvíla sig aðeins á akstrinum. Hann tók bensín á Ísafirði seinni partinn og var kominn til Patreksfjarðar á tíunda tímanum. Þar í kring ætlaði hann að finna sér gistingu. En þessi ungi maður kemur heim í kvöld því hann á vinnuvakt næstu tvo daga. Fylgdist með honum á snap-kortinu og sá þá einnig að Lilja vinkona var stödd á Hellu. Hún og eldri systir hennar fóru með blóm á leiði foreldranna og voru svo boðnar í grill hjá Kalla og Kristínu. Sendi þeim kveðju í gegnum snappið.

Kvaddi Inger og brunaði heim. Pakkaði niður fyrir mig og tók með mér handklæði. Bríet hafði sent mér staðsetninguna í sms og ég notaði leiðbeinandi forrit í símanum til að koma handklæðinu til hennar. Þau Bjarki voru að keppa á skotfimi móti þessa helgina. Komu austur um sex leytið í gær og brunuðu svo í bæinn um átta leytið í morgun. Ég fyllti á tankinn á AO við Kaplakrika og keyrði svo Þrengslin austur. Kom við í Fossheiðinni og fékk óvænt að heyra í tvíburahálfsystur minni sem var að spjalla við mömmu sína þegar ég mætti. Pabbi er búinn að vera á óvenju miklu flandri undan farið en hann var rólegur heima við í gær að horfa á undanúrslitaleik í mjólkurbikardeild kvenna. Helga systir hringdi í hann eftir að ég var komin. Hún var á leiðinni heim úr vinnu frá Akureyri og sagði honum ýmislegt um vikuna sem þau hjónin voru með vinafólki í "vinnuferð" á Hesteyri í síðustu viku (frá þriðjudegi til þriðjudags).

Borðaði eitt harðsoðið egg í kvöldmatinn en seinna um kvöldið drakk ég tvö hvítvínsglös, borðaði stjörnupopp í boði Bríetar, ís í boði pabba og horfði á síðustu tvo þættina um Max Anger.

1.7.23

Nýr mánuður

Vaknaði um sex leytið í gærmorgun. Næstum sami gráminn og undanfarna daga en ég var og er ákveðin í því að láta ekki veðrið fara neitt í taugarnar á mér. Bíllinn var fyrir framan númer 3 síðan ég kom heim úr sundi í fyrradag, fínt að safna nokkrum skrefum. Var mætt í vinnu um hálfátta. Tók kerfin af niðri en settist svo inn í kaffistofu með kaffibolla og prjóna eftir að hafa fyllt á vatnsflöskuna. Við sumarstúlkan skiptum svo um hlutverk þegar við fórum niður í framleiðsluna um átta. Byrjuðum samt á því að senda sex póstpakka upp með með lyftu eitt. Í þeim var endurnýjunin sem við lukum við að framleiða á fimmtudaginn. Fyrrum fyrirliði var í bókhaldi og mánaðamótauppgjöri. Hún sá líka um að útbúa fylgiskjöl með póstsendingunni. Heildarfjöldi í daglegu framleiðslunni var um sex hundruð kort. Vorum búnar að framleiða þau um tólf þannig að þegar við fórum aftur niður eftir mat áttum við bara eftir að pakka, telja og ganga frá. Það var búið fyrir klukkan hálftvö. Sumarstúlkan fór þá beinustu leið í verkefni uppi. Ég fylgdist aðeins með fyrrum fyrirliða í hennar störfum og við spjölluðum um ýmislegt í kringum þau. Var komin í Nauthólsvík rétt fyrir þrjú. Það var að nálgast háflóð, sjórinn 10,6°C og ég synti út að kaðli. Bjargaði fötu ég fann rétt utan við bryggjugarðinn. Það var pínu strempið að synda með hana en starfsmenn svæðisins tóku við henni og þökkuðu mér fyrir að hafa "veitt" fötuna upp úr sjónum.

Það er komið svar við fyrirspurn minni um hvenær hægt verður að byrja á framkvæmdum við gluggana. Þeir verið mældir upp innan þriggja vikna og það tekur einhvern tíma að smíða þá. Aðilarnir eru að fara í stórt gluggaverkefni en það lítur allt út fyrir að það verði komið fram í október/nóvember áður hægt verður að fara í mína glugga. En ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn og ákveða að veðrið muni ekki hamla framkvæmdunum og að þetta verði búið áður en jólamánuðurinn rennur upp.