Hafði stillt vekjarann á hálfátta sem getur samt ekki gengið upp þegar ég er á skutlvaktinni því N1 sonurinn á að vera mættur upp á Gagnveg um það leyti til að undirbúa opnun. Ég vaknaði hins vegar rétt rúmum klukkutíma fyrr eða tuttugu mínútum yfir sjö. Var smá stund að átta mig en komst fljótlega í rétta gírinn. Slökkti á vekjaranum og fór á fætur. Hafði tíma til að setja inn færslu á þessum vettvangi og vafra aðeins um á netinu. N1 sonurinn kom fram úr sínu herbergi í þann mund sem ég sendi honum sms þar sem ég bauð honum góða daginn og ætlaði í framhaldi að spyrja hvenær hann ætti að vera mættur. Þá var klukkan korter yfir sjö. Tíu mínútum seinna lögðum við af stað á mínum bíl, hann undir stýri og æfingaaksturs skiltið á skottlokinu. Rúmum tuttugu mínútum síðar þáði ég kaffibolla út í bíl. Var komin á planið við sundlaugina í Laugardalnum átta mínútum fyrir opnun. Sat út í bíl til rúmlega átta. Kláraði kaffið og hlustaði á morgunfréttir. Fór beinustu leið í kalda pottinn sem var að þessu sinni tæpar 6°C. Sat þar í um þrjár mínútur áður en ég fór á brautir sjö og átta og synti 500 metra. Flesta á bakinu líka um 120m skriðsund og 50m bringusund. Fór tvisvar í viðbót í þann kalda, einu sinni í sjópottinn, tíu mínútur í gufuna og sat svo smá stund á stól áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Kom heim um hálfellefu og hellti mér upp á 3 bolla af sterku kaffi. Var búin að drekka þá alla um tólf. Hellti ekki aftur upp á. Var m.a. að prjóna og lesa; Þessu lýkur hér eftir Colleen Hoover. Um þrjú skrapp ég aðeins út í göngu. Labbaði út á Klambratún og fékk mér sæti á bekk innan garðsins skammt frá þar sem beygt er af Miklubrautinni inn á Rauðarárstíg. Gangan þangað tók mig ellefu mínútur og var rétt innan við kílómetri. Tók ekki tímann hversu lengi ég sat en þegar ég hélt áfram fór ég undir brúna við Snorrabraut, yfir brúna yfir Miklubraut, framhjá Valsheimilinu, undir brúna á Bústaðavegi, meðfram Flugvallavegi yfir Skógarhlíð, göngustíg að Eskihlíð og þar settist ég á bekk eftir tuttugu mínútna göngu og 1,6km. Leiðin heim af bekknum var það stutt að sá spölur skráðist ekki en ég kom heim skömmu fyrir klukkan hálffimm.
30.4.23
29.4.23
KK og karlakór
Slökkti á vekjaranum amk hálftíma áður en hann átti að ýta við mér. Var þá búin að sofa í tæpa sex tíma. Mætti í vinnuna um hálfátta. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og fyrirliðinn á móttökuendanum. Vorum langt komnar með daglega framleiðslu þegar við fórum í kaffi um hálftíu. Fyrrum fyrirliði var í bókhaldinu en hún kom með mér niður í framleiðsluna milli tíu og ellefu á meðan fyrirliðinn fór á fund. Framleiddum m.a. tvær skrár af þremur sem eftir er af endurnýjuninni, um tvö hundruð kort. Hádegisskammturinn var innan við áttatíu kort. Framleiddum ekkert eftir hádegi heldur sinntum ýmsu tengdu mánaðamótunum og hættum svo vinnu snemma. Ég var komin í sjóinn um hálffjögur. Kom heim um hálffimm og hálftíma seinna hringdi fyrirliðinn í mig og bauð mér að koma með sér, parti af fjölskyldu hennar og fyrrum fyrirliða á tónleika í Salnum. Hún og sú síðast nefnda sóttu mig um hálfátta og þá hafði losnað einn miði til. Ákveðið var að hringja í þá sem við fyrrum fyrirliði vorum heima hjá á fimmtudagskvöldið. Sú var til en fyrirvarinn var það stuttur að hún missti aðeins af byrjuninni. Yngsti bróðir fyrirliðans syngur með karlakór, Þrestir úr Hafnarfirði (þau systkynin eru samt frá Stóru-Mörk) sem stjórnað er af Árna Heiðari Karlssyni og þeir fengu KK í lið með sér. Foreldrar og hluti af systkynahópnum kom á tónleikana en við þrjár auka fengum miða fjölskyldumeðlima sem forfölluðust. Það var þvílík heppni því þessir tónleikar voru mjög skemmtilegir. Ég var komin heim aftur um hálfellefu.
28.4.23
Fimm Dimmalimm og Inga
Það var amk tíu sentimetra snjór sem huldi bílinn minn í gærmorgun og það þurfti bæði að sópa og skafa. Ökufærið í vinnuna var samt í góðu lagi þrátt fyrir að ég væri komin á sumardekkin. Var mætt rétt rúmlega hálfátta. Vel var tekið á móti mér en ég spurð í gríni hvort það væri ég sem hefði komið með þennan snjó frá Egilsstöðum. Þar snjóaði vissulega aðeins á þriðjudaginn var en alls ekki svona mikið. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Framleiðsla og pökkun gengu vel og allt daglegt var búið korter fyrir tólf. Um hádegisbilið var síðasta endurnýjun mánaðarins send til okkar, innan við ellefuhundruð kort. Framleiddum hátt í þriðjunginn af henni en hættum samt og gengum frá um tvö. Ég fór fljótlega í sund, synti 400 metra (þar af 50 á skriðsundi) fór 2x4 mínútur í kalda, smá stund í sjópottinn og rúmar tíu mínútur í gufu. Heitasti potturinn var lokaður. Á leiðinni heim kom ég við í Hagkaup í Skeifunni, sem ég geri örsjaldan.
Sá sem á risíbúðina hefur verið að reyna að selja hana og hann vantaði nýja yfirlýsingu frá húsfélaginu. Ég var búin að kíkja inn á fyrirtækjabankann og skrifa niður hjá mér hver staðan væri. Prentaði út tómt skjal frá fasteignasölunni í vinnunni í gærmorgun. Lauk við að fylla út og fékk fyrrum fyrirliða til að lesa yfir í hádeginu áður en ég skannaði skjalið inn og sendi á eigandann. Honum fannst hlutur risíbúðarinnar í yfirstandandi framkvæmdum. Þegar ég fór að skoða málin betur fékk ég hálfgert áfall. Ég hef ekki breytt neinum hlutföllum síðan ég neyddist til að taka við gjaldkerakeflinu og taldi að það væri aðeins munurinn á milli minnar íbúðar og nágrannanna fyrir neðan síðan ég seldi þeim skúrinn sem ég hef ekki enn breytt. Veit að sama hvernig hlutföllin eru þá á mín íbúð þann pening í sjóðnum sem ég hef borgað hvort sem ég greiði 30% hlutfall eða minna. Þegar ég lagðist yfir eignaskiptasamninginn frá því 2014 uppgötvaði ég að risíbúar hafa alla tíð verið að greiða of lágt en kjallaraíbúar of hátt, að það hafi víxlast hlutföllin hjá þeim. Hlutfallið af heildinni hef ég samt alltaf reiknað rétt, hvernig sem á því stendur. En þessi víxlun verður örugglega til þess að ég lagfæri málin. Ætla að leyfa mér að gera ráð fyrir að tilvonandi kjallaraíbúar verði bara ánægðir með að eiga meira en minna og að hússjóður lækki. Núverandi risíbúi var meira hissa á þessu og alls ekki pirraður og ég slapp við að skrifa skjalið aftur þar sem upplýsingarnar um eign í hússjóð og hlutfall í heildinni eru réttar.
Klukkan rúmlega sjö sótti fyrrum samstarfskona mín mig og við vorum mættar hjá annarri sem var að vinna með mér þar til í október sl. Fyrrum fyrirliði mætti rétt á eftir okkur og svo bættust við ein sem byrjaði í kortadeildinni seint árið 2005 og sú sem réð okkur allar á sínum tíma. Vorum sex í heildina með húsráðanda og tíminn hreinlega flaug. Þegar mér datt í hug að kíkja á hvað tímanum liði "hálftíma" eftir að við mættum var klukkan byrjuð að ganga tólf. Það var erfitt að kveðja en við fimm sem erum í hópnum vonumst til þess að fá Ingu inn í hann líka eða amk að hún hitti okkur aftur í einhverjum að næstu hittingum sem hingað til hafa verið frekar óreglulegir en verða kannski á einhverra mánuða fresti í framtíðinni. Kom heim upp úr klukkan hálftólf en las þrátt fyrir það í rúman hálftíma í bókinni; Arnaldur Indriðason deyr eftir Braga Pál Sigurðarson.
27.4.23
Það snjóar
Var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Um átta leytið lét ég sjósunds vinkonu mína vita að ég ætlaði í sjóinn klukkan ellefu og kalda potts vinkonu mína að ég kæmi ekki í sund þennan daginn. Ég fer sjaldan í sjóinn á miðvikudögum en þar sem ég komst ekki á mánudaginn og ég var þar að auki búin að fletta því upp að það væri flóð um hádegisbilið þá togaði sjórinn meira í mig heldur en sundið. Hringdi í Lilju vinkonu um níu leytið. Hún er aðeins byrjuð að "stelast" niður á torg, amk þrjá daga, fór reyndar ekki í gær, en hún er búin að greiða fyrir aðstöðuna frá 1. maí n.k. og í fimm mánuði. Einhver ein var búin að greiða fyrir apríl mánuð líka og byrjaði þrátt fyrir að aðstaðan kæmi ekki upp fyrr en eftir miðjan mánuðinn. Á þessum fáu dögum seldi Lilja fyrir um hundrað þúsund krónur. Davíð Steinn kom á fætur um níu leytið og var tilbúinn þegar hann var sóttur í ökumat af manni sem er að leysa ökukennarann hans af, um tíu. Ég hellti mér upp á kaffi og fékk mér eitthvað að borða því enginn skal fara í sjóinn á fastandi maga. Bílastæðin við Nauthólsvík voru næstum því full en það voru ekki margir í þeim bílum að fara í sjóinn heldur voru bílstjórarnir í HR og það þótt það séu nóg af stæðum sem eru merkt stofnuninni á meðan þessi eru merkt Nauthólsvík. Ég fann eitt sem betur fer eitt stæði og sjósundsvinkona mín annað þegar hún kom. Var mætt aðeins fyrir ellefu og þá var þar þegar kominn þrír árgangar úr skóla í Breiðholti, 5.-7. bekkur ásamt nokkrum kennurum og stuðningskennurum. Þegar aðstaðan var opnuð og við vinkonurnar búnar að klæða okkur í sjósundsfatnaðinn og skilja hin fötin okkar eftir í körfu upp í hillu og skóna undir öðrum bekknum fórum við beinustu leið út í 6°C sjóinn. Vorum þar í um korter og svo næstum þrjú korter í heita pottinum á eftir. Höfum alltaf svo mikið að spjalla um að við gleymum okkur alveg. Kom heim um hálfþrjú og bankaði upp á hjá Davíð Steini því hann var líka kominn heim. Hann sagðist hafa verið metinn tilbúinn í verklega prófið en það er ekki tími í það fyrr en 10. maí. Sá sem sótti hann í gær mun fylgja honum eftir og þeir ætla að hittast einu sinni eða tvisvar fyrir þann tíma. Ökutímarnir sem sonurinn er búinn að taka eru alls ekki margir en þó eitthvað rúmlega tíu. Ná þó ekki einhverjum viðmiðum en það verður fiffað til að mér skilst. Afgangurinn af deginum fór í alls konar en leið þó án þess að ég skryppi aftur út.
26.4.23
Komin heim, síðasti frídagurinn framundan
Vaknaði um hálfsjö. Gerði tilraun til að kúra mig niður aftur en ákvað svo fljótlega að fara á fætur. Þannig náði ég ágætri morgunstund með Ellu og Aðalsteini áður en þau þurftu að fara í vinnu. Þegar þau voru bæði farin sótti ég fartölvuna og setti hana upp við endann á eldhúsborðinu. Klukkan var rétt rúmlega níu. Líkt og daginn áður fór drjúgur tími í blogg og netvafr. Held þó að ég hafi verið aðeins styttra en það getur varla hafa verið margara mínútur. Mesta lagi korter styttri tími. Hjónin komu heim í hádegismat um hálftólf. Aðalsteinn stoppaði í klukkustund en Ella þurfti ekki að fara neitt aftur því það féll niður tími í sjúkraþjálfun hjá henni. Í staðinn gerði hún æfingar heima þegar hún var búin að slaka vel á fram yfir hádegi. Dagurinn leið alltof hratt þrátt fyrir að við værum mjög slakar. Um miðjan dag spurði Ella hvernig mér litist á að skreppa út að borða ca klukkutíma áður en ég þurfti að vera mætt út á flugvöll. Mér leist vel á það. Um fimm leytið var ég búin að pakka niður farangrinum mínum í ferða tösku og bakpoka. Pabbi hennar Ellu hringdi í hana um það leyti. Hann er búinn að vera á Blönduósi undanfarið en um næstu helgi er hann að fara í sextíu ára útskriftarafmæli frá Hvanneyri um næstu helgi. Ella lét svo Aðalstein vita að við værum að fara út að borða um hálfsex. Hann var að vinna til sex og svo á leið á blakæfingu inn á Reyðarfjörð fljótlega eftir kvöldmat. Við vinkonurnar vorum komnar á Salt rúmlega hálfsex. Hún pantaði sér kjúklingasallat en ég brauðlausan hamborgarar með sætkartöflum, sallati og bernessósu og eitt vínglas með. Rétturinn minn heitir "Sá beri". Við vorum alveg slakar en þegar ég var búin með skammtinn minn og hún var orðin södd af sínum skammti var klukkan að verða hálfsjö. Hún keyrði mig út á flugvöll og kvaddi mig fyrir utan um tíu mínútum síðar. Fór með ferðatöskuna í innritun, settist svo niður og las í smá stund. Kalla átti út í vél korter yfir sjö en það tafðist um nokkrar mínútur. Var komin til Reykjavíkur rúmlega hálfníu. Oddur hafði lagt bílnum í stæðin svolítið frá flugvellinum en kom svo akandi að í þann mund sem ég kom út úr flugstöðinni með töskuna í eftirdragi og bakpokann á annarri öxlinni. Davíð Steinn var kominn heim úr sinni vinnu en var kominn í einhvern tölvuleik lokaður inn í sínu herbergi. Oddur hafði verið í pásu í sínum leik en hvarf strax inn í herbergið sitt þegar við komum heim. Ég gekk frá farangrinum mínum og settist svo inn í stofu. Fyrst horfði ég smástund á brot úr þætti svo tók ég fram fartölvuna. Var komin upp í rúm að lesa um hálfellefu leytið.
25.4.23
Gott að vera í smá fríi
Þegar ég kom á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun sat vinkona mín í stólnum sínum inn í stofu en maðurinn hennar var í ræktinni. Hann var þó kominn heim áður en Ella þurfti að fara í sína vinnu rétt fyrir átta. Hún fór á bílnum með göngugrindina með sér. Sýndi mér það í fyrradag að eitt fatlaða stæðið sem er alveg við innganginn inn í skólann er líka við leiksvæði krakkanna og alveg við hjólagrindurnar sem þau leggja hjólunum sínum þannig að hún vill helst ekki leggja bílnum þar svo það er aðeins lengri spölur sem hún þarf að labba áður en hún kemst inn í anddyri í hjólastólinn sinn. Þegar veðrið og færið verður betra getur hún farið á rafskútunni sinni. Þá fer hún inn á öðrum stað þar sem t.d. eru hjólagrindur fyrir kennarana sem eru á hjólum. Aðalsteinn fer í sína vinnu um níu. Ég fékk mér kaffibolla um hálfátta og settist svo með prjóna og bækur í stólinn við stofugluggann. Um níu leytið náði ég í fartölvuna og kom mér fyrir við endann á eldhúsborðinu til að setja inn færslu og vafra aðeins um á netinu. Ætlaði aðeins að vera að í um klukkustund en það teygðist aðeins meira úr tímanum. Einn tími varð næstum að tveimur. Ég var þó búin að ganga frá fartölvunni aftur áður en hjónin komu heim í mat um hálftólf. Ella var búin að segja mér að það væri svo kennarafundur milli hálfþrjú og fjögur. Ég var ákveðin í að skreppa í sund á þessum tíma og hún spurði mig hvort ég vildi fá far aðra hvora leiðina. Ég ákvað að labba amk í sundið og sjá svo til. Ég var 15 mínútur að ganga þennan spöl, 1,2 km. Fór meira að segja aðeins styttri leið heldur en í göngutúrnum með vinkonu minni í fyrradag. Synti í tuttugu mínútur, líklega um 500 metrar og 100 af þeim á skrisundi. Fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í heitari pottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í kaldari pottinn. Ekkert í vaðlaugina eða rennibrautina en sat smá stund á bekk og í stól. Klukkuna vantaði tuttugu mínútur í fjögur þegar ég var komin upp úr. Kennarafundurinn var búinn og Ella farin heim en hún hafði sent mér skilaboð um að hún gæti sótt mig ef ég vildi. Ég ákvað að fara aðeins aðra leið til baka sem reyndist 1,5 km og var ég 22 mínútur að ganga hana. Ella benti mér á að ég gæti hengt handklæðið og sundbolinn út á snúru í smá stund sem ég gerði. Um fimm leytið færði ég það svo inn á handklæðaofn í sturtunni. Fljótlega eftir það hjálpuðumst við vinkonurnar við að útbúa kvöldmatinn. Ég skar niður afganginn af lærinu, hún setti upp hrísgrjón og afganginn af sósunni í annan pott ásamt rjóma. Þar í setti ég svo kjötið þegar ég var búin að bita það niður. Kvöldmaturinn var tilbúinn þegar maðurinn hennar kom heim úr vinnunni rétt upp úr klukkan sex. Hann skrapp svo á blakæfingu um sjö en hann er að fara að taka þátt í öldungamóti á Akureyri um næstu helgi. Við Ella horfðum á fréttir þar til körfuboltaleikurinn Þór Þorlákshöfn-Valur byrjaði. Hörku leikur og þrátt fyrir að væri jafnt eftir fyrsta leikhluta var Valur alltaf að elta fyrir utan að þeir skoruðu fyrstu körfuna. Niðurstaðan tíu stiga tap fyrir mína menn og þeir eru 0:2 undir í baráttunni um að komast í úrslita leikinn. Það þarf að vinna þrjá leiki til að komast þangað svo þetta er orðið strembið verkefni. Ég fylgdist einnig með gangi mála í 3. umferð bestu deildar karla, seinni þrír leikirnir af sex spilaðir í gærkvöldi. Ég fór í háttinn um hálfellefu og las í smá stund áður en ég fór að sofa.
24.4.23
Dagur 2 af fjórum virkum sumarfrís dögum
Ég var vöknuð um sjö í gærmorgun og komin á fætur hálftíma síðar. Aðalsteinn kom fram skömmu síðar og setti upp hafragraut fyrir rúmlega þrjá og Ella kom fram um átta. Hafragrauturinn kláraðist og það var að hluta til mér að þakka því ég fékk mér tvisvar í skálina og í seinna skiptið kláraði ég úr pottinum. Svo var kominn tími til að fá sér fyrsta kaffibolla dagsins. Aðalsteinn ætlaði að skreppa í smá sexhjólaleiðangur inn á einhverja heiðina með einum til um tíu leytið. Hér má keyra sexhjólin út úr bænum. Hann fór um níu leytið að fylla á tankinn á sexhjólinu og kaupa sér nesti í ferðina. Hann kom svo aftur heim þar til kunninginn hafði samband. Við Ella sátum í stofunni að spjalla, drekka kaffi og fylgjast með einhverju í sjónvarpinu inn á milli. Ég er búin að fitja upp á nýrri tusku og ég var líka með bækur á kantinum, skammtímalánsbókina Hungur og Saknaðarilmur eftir Elísabetu Jökulsdóttur, bók sem ég gaf norsku vinkonu minni í jólagjöf og er með í láni frá henni. Um tíu kvaddi Aðalsteinn. Hann kom reyndar aftur um ellefu. Sexhjól kunningjans hafði bilað áður en þeir gátu lagt af stað. Einn nágranni þeirra hjóna sem ekki er vanur svona ferðum en á sexhjól hafði hitt á Aðalstein og þeir ákváðu að skreppa í styttri ferð á hjólunum upp úr hádeginu. Í hádeginu fengum við okkur afgang af hakkrétt frá kvöldinu áður ásamt spældum gæsa eða andaeggjum (man ekki hvort) sem Aðalsteinn pantar og kaupir reglulega af einum vinnufélaga sínum. Mjög gott. Fljótlega eftir hádegi dró ég fram fartölvuna hans Davíðs Steins sem ég er með í láni og tók með í ferðalagið. Stillti mig inn á heimanetið bæði á fartölvunni og einnig á gemsanum mínum. Ella fór að gera styrktaræfingar á stofugólfinu ég setti inn færslu dagsins um laugardaginn. Um tvö var ég búin að ganga frá tölvunni aftur eftir að hafa einnig vafrað aðeins um á netinu. Horfðum á fyrri hálfleikinn í leik Tottenham og Newcastle. Staðan var fimm núll síðarnefnda liðinu vil í hálfleik. Þá ákváðum við vinkonur að taka stuttan göngutúr, ég á mínum tveimur jafnfljótum og hún á rafskútunni sinni. Hún sýndi mér eina gönguleiðina að sundlaug Egilsstaða og við gengum í eins konar hring því við fórum alls ekki sömu leið til baka. Þessi hringur var um 2,2 km. Þegar við komum til baka var staðan í leiknum 6:1 Newcastle í vil og leikurinn endaði þannig að það var jafntefli í seinni hálfleik. Ég hjálpaði Ellu að krydda lamabalæri, setja í ofnpott, lokið á og inn í ofn. Aðalsteinn kom heim stuttu síðar, eftir rúmlega tveggja tíma ferð aðeins inn á heiði. Hann var svo upptekinn við að leiðbeina nágrannanum og keyra mjög ábyrgt að hann missti af að sjá hreindýrahjörð ofar í heiðinni sem nágranninn tók eftir. Um hálfsex skar Aðalsteinn kartöflur niður í báta, setti í eldfast form með olíu í botninn, kryddaði og setti inn í ofn. Svo útbjó hann sósu. Nokkru áður hafði hann skroppið í búðina til að kaupa rauðkál og grænar baunir. Borðuðum upp úr klukkan sex, mjög gómsætt læri og meðlæti. Kvöldið fór í spjall, þátta og íþróttakeppnis áhorf. Ég fór inn í rúm rétt á eftir Ellu skömmu fyrir ellefu og las um stund áður en ég fór að sofa. Er búin með bókina hennar Elísabetar og langt komin með hina, klára þá bók líklega í dag.
23.4.23
Á Egilstöðum, dagur einn af þremur
Samkvæmt venju mun færsla dagsins vera um gærdaginn. Þrátt fyrir að það væri laugardagur var ég vöknuð um eða fyrir klukkan sjö. Hafði stillt vekjaraklukkuna á rúmlega hálfátta því ég var ákveðin í að fara í sund fljótlega eftir að laugin væri opnuð. Um hálfátta leytið var ég sest með fartölvuna í fanginu í stofusófanum og það fór nú svo að ég var að vafra um á netinu í rúma klukkustund. Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég fór fyrstu ferðina í kalda pottinn. Synti svo 400 metra, þar af heila 50 skriðsund í lokin. Eftir aðra ferðina í þann kalda var ég á leið í gufu þegar ég rakst á sjósundsvinkonu mína og manninn hennar í nuddpottinum. Kastaði aðeins kveðju á þau og hitti þau svo í sjópottinum eftir 15 mínútur í gufunni og kalda sturtu. Við Helga Rún fórum svo saman í þriðju og síðustu ferðina mína í kalda pottinn. Það urðu fimm mínútur og svo settist ég aðeins í "sólbað" áður en ég fór upp úr og heim. Kom heim um ellefu leytið og hellti mér upp á kaffi. Fékk mér svo eitthvað snarl um tólf leytið. Fljótlega eftir það kom Davíð Steinn fram og við fórum á rúntinn. Á klukkutíma æfði hann sig m.a. í hraðabreytinum og að taka af stað í brekku. Þegar við komum til baka rétt fyrir tvö fór ég að pakka niður af alvöru. Notaði töskuna sem Lilja vinkona gaf mér þegar ég var á leiðinni frá henni á Kanaríeyjum fyrir rúmum fjórum árum og svo bakpokann sem Davíð Steinn lánaði mér í ferðina til Kaupmannahafnar í síðasta mánuði. Var búin að tékka mig inn kvöldið áður og þurfti bara að afhenda töskuna til innritunar. Horfði á fyrri hálfleikinn í leik Liverpool og Nottingham Forrest og aðeins byrjunina á þeim seinni. Oddur Smári skutlaði mér út á flugvöll um hálffjögur. Það hefði alveg verið nóg fyrir mig að vera mætt þangað tíu mínútum eða korter fyrir fjögur en ég var orðin ferðaspennt og var alveg sama þótt ég þyrfti að bíða smá áður en var tékkað inn í flugvélina. Fórum í loftið korter yfir fjögur og lentum á Egilsstöðum rétt rúmum klukkutíma síðar. Ella og Aðalsteinn tóku á móti mér og hann sótti töskuna mína á færibandið og svo eru þau hjónin komin með smá stuðningsdæmi fyrir Ellu. Hún var aðeins með stafinn sinn, bíllinn á stæði fyrir fatlaða svo það voru ekki mörg skref þangað en samt nógu mörg fyrir hana. Studdi því sig við manninn sinn með vinstri og stafinn með hægri. Þetta er mín fyrsta heimsókn til þeirra síðan fyrir Covid og í millitíðinni eru þau búin að selja húsið við Hamrahlíð og flutt í parhús við Litluskóga. Það eru tæp þrjú ár síðan þau fluttu. Fljótlega eftir að við komum á nýja staðinn var mér boðið kaffi eða hvítvínsglas. Auðvitað þáði ég hvítvínsglasið. Áttum notalega og mjög skemmtilega kvöldstund sem var alltof fljót að líða. Ég fór inn að sofa um miðnætti. Gerði þó heiðarlega tilraun til að lesa nýjustu bókina hans Stefáns Mána um Hörð sem er skammtímaláns bókin af safninu.
22.4.23
Flugferðalag austur framundan
Miðað við að vera í fríi vaknaði ég í fyrra fallinu svona á föstudags virkum morgni. Gaf mér tíma til að vafra um á netinu en var komin í sund um átta leytið. Eftir tvær ferðir í kalda og nokkra stund í sjópottinum synti ég 400 metra, flesta á bakinu, á braut átta áður en ég fór í þriðju og síðustu ferðina í þann kalda. Gufan var lokuð svo ég settist um stund í sólbað og spjallaði við eina af Sigrúnunum sem ég hitti reglulega í Laugardalnum. Þvoði mér um hárið þegar ég var á leiðinni upp úr og var næstum búin að tína sundhettunni því ég hafði gleymt henni hjá handlaugunum við salernisaðstöðuna. Það voru tvær athugular konur sem sáu einmana sundhettu og fóru að kanna málið. Þá var ég að þurrka mér og ekki búin að uppgötva að sundhettan var ekki með sundbolnum og sjampóbrúsanum. Á föstudagsmorgnum er kaffibrúsinn settur fram og ekki þarf að greiða fyrir bollann. Ég sá tvær konur sem ég þekkti að drekka kaffi við eitt borð. Oftast eru þær fjórar vinkonurnar á sama tíma í sundi en núna voru það bara ein sem söng með mér í KÓSÍ kórnum og ein af Sigrúnunum sem ég þekki. Fékk mér kaffi, settist hjá þeim og spjallaði um stund. Var komin heim um ellefu. Davíð Steinn kom á fætur klukkustund síðar en hann var á leiðinni út að borða um tólf. Þegar hann kom til baka úr þeirri ferð fórum við í tveggja tíma æfingaakstur. Fórum beinustu leið í Kringluna. Hann beið út í bílnum sínum á meðan ég fór í bókasafnið, skilaði sex bókum af níu og fékk mér sex aðrar. Fjárfesti í tvenns konar bókasafnspokum í leiðinni. Þetta tók innan við korter. Næst lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Verslaði smá inn. Svo keyrðum við út að Gróttu, um Seltjarnarnesið, vestubæinn meðfram ströndinni að flugvellinum. Fórum að Nauthól og á stæðunum við HR æfði hann sig í að bakka í stæði. Komum heim um fjögur leitið. Hann sá svo um að útbúa kvöldmatinn síðar um kvöldið. Ein af þeim þremur bókum sem ekki var skilað á safnið í gær er: í trúnaði eftir Héléne Grémillon. Kom út á íslensku árið 2013. Lætur lítið yfir sér en er þó yfir tvöhundruðogfjörutíu blaðsíður. Skáldsaga sem fjallar mest um tímann rétt fyrir og í seinni heimsstyrjöld í Frakkalandi. Hörku spennandi bók.
21.4.23
Smá sumarfrí
Þar sem kalda potts vinkona mín hafði látið mig vita að hún kæmist ekki í sund í gær samþykkti ég að skreppa í sjóinn með sjósunds vinkonu minni. Var á skutlvaktinni og N1 sonurinn átti að mæta klukkan hálftíu. Það er ennþá vetraropnun í Nauthólsvík og opnar ekki fyrr en klukkan ellefu. ég var komin á fætur um átta og fimm korterum seinna settum við mæðgin æfingaakstursskiltið á bílinn minn og ég settist í farþegasætið en Davíð Steinn í bílstjórasætið. Þegar við komum upp á Gagnveg tók ég skiltið af bílnum og settist undir stýri. Ég fór þó ekki fyrr en sonurinn var búinn að færa mér kaffi út í bíl. Fór beinustu leið heim aftur og fékk mér eitthvað að borða með kaffinu því ekki fer maður í sjóinn á fastandi maga. Hafði tíma til að dútla við alls konar en ég var komin á stæði við Nauthólsvík tólf mínútum fyrir ellefu. Byrjaði á að hringja í pabba og óska honum gleðilegs sumars. Hitti sjósundsvinkonu mína í röðinni við aðstöðuna stuttu áður en það var opnað. Það var að fjara út, sjórinn 6,2°C og við vinkonurnar óðum hálfa leið til Kópavogs. Vorum um korter á svamlinu og rúman hálftíma í heita pottinum. Var komin heim aftur um hálfeitt. Tveimur tímum seinna skrapp ég í stuttan göngutúr en annars gerði ég ekkert merkilegt af mér. Hringdi þó í eldri systurdóttur mína til að óska henni gleðilegs sumars og spjalla smá. Ein tuska "datt" af prjónunum og dagurinn leið ógnar hratt.
20.4.23
Sumardagurinn fyrsti
Vaknaði um sex leytið. Fljótlega eftir að ég mætti í vinnuna var ákveðið að ég myndi sjá um bókhaldið. Það höfðu klippst út tvær línur í fyrstu tölum sem ég sendi niður. Fór þó ekki niður með ný blöð fyrr en hálftíma síðar þegar ég var búin að taka saman fleiri daglegar tölur, tvær smáar endurnýjanir og undirbúa rúmlega fimmtánhundruð endurnýjuð kort í 6 póstbökkum í póst. Rúmlega níu fór ég svo niður með talningablöð fyrir fyrsta skammtinn og debetkorta skammtinn. Líkt og í fyrradag var ekki hægt að framleiða hluta af embossuðu kortunum. Þau voru þó bara aðeins á annan tuginn en ekki tæp þrjátu. Framleiðslu og talningu á fyrsta skammti var lokið fyrir klukkan hálftíu. Í kaffinu var farið yfir ánægjukönnunina, sérstaklega þann hluta sem snéri að okkar deild, SKM en það var líka borið saman við RB í heild og okkar deild skoraði hærra í fleiri tilvikum, sumt var álíka en í örfáum tilvikum vorum við aðeins undir. Framkvæmdastjórinn var mjög ánægður með þá einkunn sem hann skoraði. Hann var nýlega byrjaður þegar kortadeildin flutti á svæðið en hann hefur verið mjög duglegur að setja sig inn í öll mál, vill fá ábendingar, hlustar á þær og bregst fljótt við ef það á við og er hægt. Þegar ég fór niður með hádegisframleiðslutölurnar tók ég að mér að pakka kortum í útibú fyrir þann banka sem var í endurnýjun. Hátt í þrjúhundruð kort úr endurnýjuninni voru með ógild heimilisföng, amk sexfalt fleiri kort en þau daglegu sem voru að fara í útibú. Fórum í mat upp úr klukkan tólf. Þá átti aðeins eftir að pakka smá og telja. Ég fór upp með bakkann með kortunum sem fara í póst á morgun. Ákveðið var að geyma þessar litlu endurnýjanir aðeins en í öllum tilvikum er um kort að ræða sem eiga að taka við kortum sem renna út mánaðamótin maí júní líkt og þau kort sem verið var að senda í póst í gær. Ég kvaddi vinnufélagana tíu mínútum fyrir tvö og hitti þau ekki aftur fyrr en á fimmtudaginn eftir viku. Fór beint í laugardalslaugina. 2x5 mínútur í kalda, 300 metra sund, þar af rúmlega 40m skriðsund. Var mætt til esperanto vinkonu minnar um þrjú. Hún var að passa 3 ára dótturdóttur sína þar sem var starfsdagur í leikskólanum. Sú stutta var feimin í ca fimm til tíu mínútur. Skemmtilegt og mjög skýrt stelpuskott þarna á ferðinni. Mamman kom að sækja upp úr klukkan fjögur og stoppaði við í nokkra stund. Ég var með esperantodótið meðferðis en þegar þær mæðgur kvöddu ákváðum við Inger að fara frekar í smá göngutúr meðfram sjónum og í áttina að Seltjarnanesi og Gróttu. Fórum þó ekki út fyrir borgarmörkin en þetta voru samt 2 km. í heildina. Var komin heim um sex leytið.
19.4.23
Síðasti vetrardagur
Í gærmorgun vaknaði ég aðeins örfáum mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Eftir morgunverkin á baðherberginu og lýsisinntökuna í eldhúsinu settist ég inn í stofusófa með fartölvuna í fanginu. Sat við í rúman hálftíma en svo var kominn tími til að leggja af stað í vinnuna. Þangað var ég mætt um hálfátta. Fyrirliðinn var komin á undan og búin að skreppa niður og kveikja á vélinni. Sú fjórða var ekki komin um átta en staðan á öðrum deildum var þannig að hún þurfti hvort sem er að dekka hraðbankadeildina og aðstoða í við ýmislegt annað uppi. Þegar fyrrum fyrirliði var mætt ákváðum við að fyrirliðinn yrði aftur í bókhaldinu en við hinar tvær færum í framleiðsluna en hefðum endaskipti á vélinni þannig að ég var á ítroðsluendanum. Ég var á undan niður en þegar fyrrum fyrirliði komst í gegn var eins og slússan bilaði. Ég prófaði reyndar ekki sjálf að athuga hvort ég kæmist í gegn en sá sem var niðri í mynthvelfingunni komst ekki út og fyrirliðinn ekki inn nema með fjarstýringu sem er notuð þegar koma gestir sem ekki fá aðgangskort eða hafa ekki aðgang að slússunni. Lentum svo í smá brasi í framleiðslunni, gátum ekki framleitt hluta af embossuðum kortum þar sem ekki voru hástafi skilgreindir fyrir upphleyptu stafina. Af 228 kortum gátum við ekki framleitt 29 stk. Þegar við vorum búnar með það sem hægt var og stemma af afganginn var klukkan orðin hálftíu, má að fara í kaffi. Fyrrum fyrirliði komst ekki í gegnum slússuna en fyrirliðinn var hinum megin með fjarstýringuna og hleypti henni í gegn. Ég prófaði kortið mitt og komst í gegn, fór meira að segja aukaferð til að sannfærast um að kortið virkaði alveg í báðar áttir. Eftir þetta virtist slússan vera komin í lag en það komu samt menn að kíkja á hana síðar um daginn. Daglegri framleiðslu og pökkun lauk um hálftvö en við höfðum líka gefið okkur smá tíma til að taka upp kortasendingu, tvær tegundir um áttaþúsundogþrjúhundruð kort í heildina. Ekki þurfti að "klæða" kassana úr og í því annar teljarinn taldi í gegnum plastið. Þurftum því aðeins að opna tvo kassa til að skrá niður upplýsingar af bakhlið. Um hálftvö helltum við okkur út í endurnýjun og vorum hátt í klukkutíma að klára þessi rúmlega sjöhundruð sem eftir voru. Gaman þegar gengur svona vel. Það var smá vesen á prentaranum en ekkert sem tafði okkur. Hins vegar var hitastigið í herberginu í hærra lagi eða um þrjátíugráður. Vorum með litlu gluggana galopna allan daginn en það dugði alls ekki til. Vorum búnar að ganga frá niðri og komnar upp fyrir klukkan þrjú. Nefndi það við aðra samstarfskonu mína um það leyti að N1 sonurinn væri að taka bóklega prófið í ökuskóla 3. Nokkrum mínútum seinna hringdi Davíð Steinn í mig, þá að labba út af prófstaðnum í Mjódd. Hann hafði náð með glans. Engin villa í A hlutanum en 3 í B hlutanum. Hann sagði samt að hann hefði fengið eitt af erfiðari prófunum, merkt Z en því aftarlegra í stafrófinu því erfiðara. Ég hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni í sund skömmu síðar til að monta mig af stráknum. Synti ekkert en var búin að fara 4 ferðir í kalda pottinn þegar kalda potts vinkona mín fann mig í gufunni. Fór tvær aukaferðir með henni. Kom heim um sex leytið og fljótlega eftir það horfðum við Oddur á nýjasta þáttinn í CSI Las Vegas.
18.4.23
Sumardekkin komin undir
Klukkan var varla orðin sex þegar ég var komin á fætur í gærmorgun. Hafði því extra góðan tíma í netvafrinu og var samt mætt í vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn sá um bókhaldið, fyrrum fyrirliði var á ítroðsluendanum, ég á móttökuendanum og sú fjórða var á hraðbankavinnustöðinni. Daglegri framleiðslu, pökkun og mest af talningunni var lokið um tólf. Samt voru þetta um áttahundruð kort í heildina. Frá korter í eitt til hálfþrjú endurnýjuðum við um ellefuhundruð kort og erum þá búnar með meirihlutann af þeirri endurnýjun. Vorum búnar að ganga frá í kortadeildinni tíu mínútum fyrir þrjú og hálftíma seinna hitti ég sjósundsvinkonu mína í Nauthólsvík. Vorum tíu mínútur út í sjónum og rúman hálftíma í heita pottinum. Var svo mætt á N1 í Fellsmúla stuttu fyrir fimm til að fá sumardekkin undir og setja vetradekkin á dekkjahótelið í staðinn. Það tók ekki langa stund, ca tuttugu mínútur eða svo. Hitti einn framkvæmdastjórann úr K2 sem var þarna í sömu erindagjörðu eða amk að skipta um dekk. Spurði hann ekki hvort hann nýtti sér dekkjahótelið en við spjölluðum um árshátíðarferðirnar og fleira tengt RB. Þegar ég kom heim upp úr klukkan hálfsex var Davíð Steinn nýkominn heim úr ökuskóla 3 þar sem hann prófaði að keyra í aðstæðum sem líktust hálku, fór í veltubílinn og fleira. Hann er að fara í skriflega prófið í dag.
17.4.23
Stutt vinnuvika framundan
Var komin á fætur frekar snemma miðað við að það var sunnudagur í gær. Vafraði um á netinu í um klukkustund, sótti þvottinn á snúrunar og var búin að lesa í um hálftíma þegar N1 sonurinn kom á fætur rúmlega níu. Hann skutlaði sér í vinnuna á mínum bíl, svo tók ég niður skiltið og brunaði beinustu leið í Laugardalslaugina. Þar var ég byrjuð að synda um tíu. Synti 500 metra, mest á bringunni en þó um 40 metra skriðsund í loka umferðinni. Fór þrisvar sinnum fimm mínútur í kalda pottinn, tvisvar í þann heitasta, fimmtán mínútur í gufu og svo smá "sólbað" áður en ég fór upp úr. Næst lá leiðin í Löður við Fiskislóð og svo Krónuna áður en ég fór heim aftur. Fékk stæði fyrir framan númer 15 um hálfeitt. Hringdi í Odd og bað hann um að koma og sækja vörurnar. Hann gekk frá þeim líka. Fór ekkert út aftur. Horfði bara á fótboltaleiki, þætti, las og prjónaði og dagurinn leið frekar hratt. Kláraði m.a. eina bók af safninu; Myrkrið milli stjarnanna eftir Hildi Knústdóttur.
16.4.23
Sunnudagur
Það sést ekki í blátt á himninum en það er þó orðið bjart þrátt fyrir grátt veður. Ég var vöknuð upp úr klukkan sex í gærmorgun. Klukkustund síðar skelltum við skiltinu á bílinn minn og N1 sonurinn fékk að keyra sig í vinnuna. Ég fékk kaffibolla út í bíl í staðinn og var komin á planið við Laugardalslaug ca tólf mínútum fyrir opnun. Samt var byrjað að safnast fólk á hurðarhúninum, bæði fastagestir og eins mun yngri gestir því það var greinilega að fara fram ein hvers konar sundmót í innilauginni. Ég hlustaði á morgunfréttir áður en ég fór inn. Fyrsta ferðin í kalda pottinn var korter yfir átta. Fór strax í heitasta pottinn á eftir en að lokinni annarri ferð í þann kalda fann ég smá pláss á brautum 7 og 8 til að synda. Ekki alveg eins margar ferðir á bakinu og ég vildi en þó tvær af sex eða 100 metra af 300. Eftir þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu, svo í kalda sturtu, fjórðu ferðina í kalda pottinn og smá sólbað áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var komin heim um tíu leytið. Náði í þvott og stakk í aðra þvottavél. Vafraði aðeins um á netinu, las og lauk m.a. við eina bók um Stellu Blómkvist; Morðið við Huldukletta. Um hálftvö skrapp í smá göngutúr og labbaði rúma tvo kílómetra á tæplega hálftíma. Annars leið dagurinn frekar hratt við alls konar hér heimavið. Hringdi m.a. í pabba og Helgu systur og hugsaði til fleira fólks. Fitjaði upp á nýrri tusku, Strik úr bókinni sem ég fékk í jólagjöf, horfði aðeins á part úr leikju í enska, horfði á þætti, las meira og vafraði einnig meira á netinu. Var komin upp í um tíu leytið og farin að sofa um hálfellefu enda rumskaði ég fyrst upp úr klukkan sex í morgun.
15.4.23
Vorið er komið
14.4.23
Föstudagur enn á ný
Setti inn færslu á þessum vettvangi í gærmorgun áður en ég fór í vinnuna, eins og ég geri oftast. Það er samt öruggt að á einhverjum tímapunktum í ár kemst ég ekki í þessi daglegu skrif mín og munu því koma mislangar skrifpásur inn á milli. Líkt og gerðist afmælishelgina mína í síðasta mánuði þegar ég var í Kaupmannahöfn. Var mætt í vinnu um hálfátta. Opnaði seinni lásinn á hvelfingunni uppi, fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni og opna glugga og undirbjó svo fyrstu tölur dagsins áður en ég fór inn í kaffistofu fyllti á vatnsbrúsann og fékk mér fyrsta kaffibolla dagsins. Fyrsti skammtur var mun minni en í fyrradag en samt um hundraðogáttatíu kort. Daglegri framleiðslu, pökkun og talningu var lokið klukkan tólf. Eftir mat fengum við tvær sem vorum á vélinni leyfi til að taka pásu milli klukkan eitt og tvö og fylgjast með útför í streymi við tölvurnar okkar. Mjög falleg útför. Við vitum að sú sem var heima lasin fylgdist líka með. Milli tvö og þrjú endurnýjuðum við um fjögurhundruð kort. Þegar við komum upp aftur voru flestir farnir. Ég var komin heim fyrir klukkan hálffjögur. Lánaði bræðrunum bílinn í Sorpu og verslunarferð og þeir skiluðu lyklunum á Vesturgötuna í leiðinni. Fljótlega eftir að þeir komu til baka fórum við Davíð Steinn á rúntinn á hans bíl, alveg í einn og hálfan tíma. Hann kom m.a. við á vinnustaðnum sínum til að skipta um rúðuþurrkur og varð að fá aðstoð við það frá útimanninum. Komum heim aftur rétt fyrir sjö. Horfði á fréttir, prjónaði og horfði svo á þætti úr sarpinum, m.a. síðasta þáttinn úr færeysku seríunni Trom.
13.4.23
Útfarardagur Péturs heitins
Sem oftast fyrr var ég vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Hafði því ágætis tíma í netvafr og blogg en var engu að síður mætt í vinnu klukkan hálfátta. Við í kortadeildinni voru eiginlega bara rétt rúmlega tvær í gær því sú fjórða varð að sinna hraðbankamálunum að mestu leyti þar sem sú sem vinnur við þá líka er orðin veik og ein af okkur hinum þremur er enn veik. Sú fjórða sá þó um að taka saman, raða upp og prenta út fyrstu tölur, yfir þrjúhundruðogtuttugu kort sem þurfti að framleiða fyrir klukkan tíu. Við náðum því að framleiða þann skammt á uþb klukkutíma. Þá var sú fjórða búin að koma með talningablað vegna þeirrar framleiðslu niður til okkar. Við höfðum byrjað framleiðslu ca korter yfir átta og vorum komnar upp í kaffi um hálftíu þá búnar að stemma af framleiðsluna líka. Ég tók svo saman debettölur eftir kaffi sem í heildina voru rétt um sexhundruð kort. Kreditskammturinn sem er svo sendur í um ellefu leytið var yfir hundraðogtuttugu þannig að dagleg framleiðsla fór yfir eittþúsundogfjörutíu. Lentum í vandræðum með framleiðslu á multoskortum en lukum allri visa (debogkred) framleiðslu og pökkun á þeim kortum fyrir klukkan tólf. Kerfisfræðingurinn kom multosframleiðslunni í lag strax eftir hádegi og rétt fyrir tvö vorum við búnar, áttum þá bara eftir að pakka og telja. Meðan sú sem var í móttökunni kláraði að pakka setti ég smá endurnýjun í gang. Endurnýjuðum ekki nema hundraðogfjörutíuogfjögur kort og vorum búnar að telja og ganga frá deildinni um hálffþrjú. Þá átti eftir að útbúa póstmiða með póstbunkunum og "laga" bókhaldið eftir talningar. Síðasta klukkutímann, milli þrjú og fjögur, vorum við að yfirfara innlegg. Ég var komin á planið við Laugardalslaug rétt rúmlega fjögur. Byrjaði á því að heyra aðeins í pabba mínum. Fór þrisvar sinnum fimm mínútur í kalda pottinn, 15 mínútur í gufu og kalda sturtu á eftir. Var komin heim um hálfsex. Frænka mín og nafna kom um sex leytið og færði mér smá gjöf sem þakklætisvott fyrir kisupassið. Hún stoppaði í rúma klukkustund en ég gleymdi alveg að láta hana hafa húslyklana sína.
Pétur Árni Óskarsson verður jarðsungin og borinn til grafar í dag. Þessi flinki, hægláti, ræðni en mjög prívat rafeindavirkjameistari sem glímt hefur við parkison í amk eitthvað á annan áratuginn varð aðeins rétt rúmlega sjötugur. Þegar umslagavélin lét sem verst eftir flutningana var annar af núverandi viðgerðarmönnum eiginlega búinn að gefast upp og fá leyfi til að kalla Pétur inn til aðstoðar. Það varð þó ekkert úr því. Það er samt alls ekki svo langt síðan Pétur kom síðast í yfirferð en þó amk eitt og hálft ár og þá á Kalkofnsveg. Þangað kom hann með reglulegu millibili í vel yfir tuttugu ár til að yfirfara og gera við umslaga og kortavélar. Síðustu árin var greinlegt að veikindin hömluðu honum en aldrei vildi hann tjá sig um þau mál, fór bara að tala um eitthvað annað ef maður spurði hann beint og óbeint út. Ég kemst ekki til að fylgja honum síðasta spölinn en hugga mig við það að útförinni er streymt. Minnist þessa manns með hlýju.
12.4.23
Birtir fyrr og fyrr
Vaknaði amk hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Korteri síðar var ég komin á fætur, búin að sinna morgunverkunum á baðherberginu og sest inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Mætti í vinnu um hálfátta. Ein var veik og önnur meira í öðrum verkefnum. Sú sá þó um bókhaldið einnig. Ég var á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu, pökkun og hluta af talningu var lokið um tólf. Eftir mat kláruðum við að telja og ég fór í að útbúa afgreiðsluseðla með bunkunum sem fara í póst í dag. Sú sem var á ítroðsluendanum þurfti að fara um hálftvö. Um tvö kom annar viðgerðarmaðurinn til að skipta um annan prenthausinn. Sá sem var ég var farinn að skila verri vinnu sem lagaðist ekkert þótt hann væri pússaður upp eða þrifinn. Mjög gott að skipta um áður en farið væri að kvarta. Það ætlaði ekki alveg að ganga að senda testkort í gegnum vélina til að vera viss um að allt hafi virkað svo við kölluðum kerfisfræðinginn til. Vélin fór í gang um leið og kerfisfræðingurinn birtist. Hann notaði tækifærið og fékk viðgerðarmanninn til að aðstoða sig við yfir að skipta yfir á nýtt kerfi, kerfi sem "talar við" örgjörvamódúlana. Það var búið að uppfæra það í no 2 fyrir nokkru síðar en er nú komið í no 3 og það er strax farið að vinna að kerfi no 4. Fullvissuðum okkur um að vélin samþykkti að vinna á þessu kerfi áður en við slökktum á henni aftur stuttu fyrir fjögur. Fór beinustu leið í sund og þegar ég var á leiðinni út úr klefa mætti ég kalda potts vinkonu minni sem var eiginlega að athuga hvort ég væri að koma. Hún var búin með 3 ferðir í kalda og fór í heitasta á meðan ég fór í mína fyrstu ferð. Saman fórum við svo þrjár aðrar ferðir áður en við enduðum í gufunni. Ég var komin heim um hálfsex.
11.4.23
Undirbúningur undir vinnudag
Klukkan var rétt rúmlega átta þegar ég var komin á fætur í gærmorgun og búin að kveikja á tölvunni hans pabba. Vafraði um á netinu í um einn og hálfan tíma. Svo lá leiðin inn í stofu þar sem ég greip í bækur og prjóna. Kláraði eina afgangatusku í gær, á bara eftir að ganga frá síðasta endanum og klippa hann og alla hina. Fitjaði upp á nýrri tusku, enn eitt mynstur úr nýju bókinni sem ég var ekki búin að prófa áður. Í hádeginu hitaði ég mér afganginn af bleikjunni frá því kvöldið áður. Um hálftvö leytið var ég búin að pakka saman. Pabbi var búinn að ákveða að skutla mér alla leið í bæinn og þangað var ég komin um þrjú. Bað pabba svo um að smessa á mig þegar hann væri kominn aftur heim. Tveimur tímum seinna smessaði ég á pabba minn. Hann var kominn heim en fór beint í að finna til sumardekkin og steingleymdi alveg að smessa á mig. Hann sendi "já" til baka og hringdi svo örstutt símtal úr gemsanum sínum í heimasímann minn. N1 sonurinn var að vinna. Einkabílstjórinn hafði skutlað honum um morguninn þannig að hann var mættur hálftíu eins og á sunnudagsvöktum.
10.4.23
Annar í páskum
Mér tókst að sofa langt fram á morguninn í gærmorgun. Hafði rumskað um fimm leytið til að skreppa á salernið og rámar í það hafa pissað óvenju mikið og lengi. Næst vissi ég af mér um níu leytið. Pabbi var þá kominn á stjá. Ég fór á fætur um hálftíu. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu, bæði með bækur og prjóna. Um tíu leytið settist ég við tölvuna í um klukkustund til að blogga og vafra um á netinu. Tvisvar sinnum enn yfir daginn settist ég við tölvuna en þessa daga sem ég hef verið hér á Hellu hef ég ekkert vafrað um á netinu á kvöldin og sagt nei þegar pabbi spurði hvort hann ætti að hafa kveikt á tölvunni. Fékk mér AB-mjólk með musli og rúsínum og lifrapylsusneið í hádeginu og hellti mér upp á smá kaffi. Pabbi fékk sér skyr. Hellti aftur upp á kaffi um þrjú leytið og smurði mér brauð. Pabbi bauð líka upp á pönnsur. Tók út þrjú bleikjuflök úr frysti. Horfði á leik Liverpool og Arsenal þar sem mínir menn lentu 0:2 undir og Salah klúðraði vítaspyrnu. Leikurinn fór 2:2. Um sex setti ég upp hýðisgrjón og sauð kjúklingatening með. Smurði bleiku hliðina af bleikjunni með kryddosti og kryddaði einnig með cayanne pipar og steikar kryddi. Þetta var afbragðsgóður matur og vorum við feðgin mjög ánægð með hann og okkur. Eftir sjónvarpsfréttir og Landann horfði ég á 3 þætti af Paradís. Nú búin með 6 þætti af átta. Fór í háttinn upp úr hálfellefu, nokkru á eftir pabba, og las í um klukkustund.
9.4.23
Páskadagur
Ég var vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan átta í gærmorgun. Kveikti fljótlega á tölvunni hans pabba en komst þó ekki lengra en það því það var búið að uppfæra hana og skipta um aðgangsorð. Pabbi var ekki kominn á fætur og ég vildi alls ekki raska ró hans. Í staðinn settist ég inn í stofu með bókina Ríki hinna blindu sem og prjónadótið mitt. Bókin er alls ekki eins margar blaðsíður og ég gaf upp þegar ég skrifaði fyrst um hana en hún er samt aðeins yfir fimmhundruð blaðsíður og nú á ég eitthvað um hundrað blaðsíður eftir. Er með fleiri bækur með mér og þar að auki bættist ein við til láns áður en ég kvaddi fólkið mitt í Fossheiðinni sl. föstudag. Pabbi kom á fætur um níu leytið og sagði mér aðgangsorðið inn á tölvuna. Ég leyfði honum fyrst að fara sinn vefrúnt og var ekkert að reka á eftir honum. En fljótlega eftir að hann stóð upp frá tölvunni settist ég við hana. Það tók mig tæpa klukkustund að setja upp svæði fyrir mig, blogga og vafra aðeins á netinu. Svo settist ég aftur inn í stofu og greip í prjónana. Er að nota afganga og prjóna eftir mynstrinu Blíðar bárur úr fyrstu tuskubókinni minni.
Eftir hádegisfréttir skruppum við pabbi aðeins í búðina. Hann vildi endilega að ég setti í körfuna hjá honum það sem ég myndi fá mér í hressingu en var ekki til, mátti ekki heyra á það minnst að ég gæti alveg verslaði inn sjálf, sérstaklega ef um vörur sem enda svo líklega heima hjá mér var að ræða. Hvorugu okkar datt í hug að kaupa inn einhvers konar páskalamb en bæði fyrir og eftir búðarferð var ég búin að segja pabba að mér væri nákvæmlega sama hvort við værum með kjöt eða fisk.
Pabbi setti upp saltfisk, kartöflur og rófur í kvöldmatinn. Mjög gott. Ég sá um uppvaskið í staðinn. Bríet kom aðeins við en stoppaði ekki lengi og var ekkert að hugsa neitt um kvöldmat. Hún, kæró og vinur hans voru að fara eitthvað á djammið, frænka mín líklega og örugglega til að vera bílstjóri. Hún er harðákveðin í að sleppa alveg að smakka það er svo handviss um að genin hennar muni ellegar taka af henni ráðin. Við pabbi hins vegar fengum okkur smá vín í gærkvöldi, hann rauðvín og ég hvítvín. Hann var að mestu að vafra um á netinu en ég horfði á einn finnsk/spænskan framhaldsþátt, Paradís og Alla leið.
8.4.23
Komin austur á Hellu
Var glaðvöknuð einhvern tímann á sjöunda tímanum og var fljótlega ljóst að ekkert myndi þýða að reyna að kúra sig niður aftur. Dreif mig því á fætur og hafði dágóðan tíma til að vafra um á netinu og undirbúa pökkun fyrir langa helgarferð. Laugardalslaugin var opnuð klukkan tíu og ég var komin þangað um það leyti. Sá fljótlega að ekkert þýddi að hugsa um að synda eitthvað á bakinu. Hefði léttilega getað synt eitthvað á bringunni og kannski smá skriðsund en endirinn varð sá að ég fór fjórum sinnum í kalda pottinn, einu sinni í heitasta pottinn, amk korter í sjópottinn og svipaðan tíma í gufunni. Þvoði mér nú samt um hárið þrátt fyrir allt. Heim sótti kisu milli 11:45 og 12:40. Var komin heim rétt fyrir eitt. Davíð Steinn var kominn á fætur og ég sagðist verða tilbúin að smá rúnt eftir hálftíma. Hellti mér upp á sterkt kaffi, fékk mér smá hressingu með og hringdi einnig eitt símtal. Við mæðgin fórum svo í klukkutíma rúnt, m.a. um Hafnarfjörð og Grafarvog. Hann fékk sama stæði þegar við komum til baka um hálfþrjú. Þá var Oddur kominn á fætur og tilbúinn til að skutlast með mig austur. Davíð Steini bauðst að koma með en hann sagðist vera upptekinn við að plana einhverja ferð með vinum fljótlega. Það var rok og rigning og fór allt upp í 23metra á sekúndu á Hellisheiðinni en ferðalagið gekk þó vel fyrir sig. Komum við í Fossheiðinni. Þar var vel tekið á móti okkur eins og alltaf. Stoppuðum í uþb klukkustund. Vorum amk komin á Hellu klukkan fimm. Um sex leytið tók ég til við eldamennskuna. Skar niður kartöflu og lauk og gufusauð. Kryddaði þrjú bleikjuflök og steikti. Oddur stoppaði fram á kvöldið en var kominn í bæinn aftur um ellefu leytið.
7.4.23
Föstudagurinn langi
Svaf lengur fram á morgunin en ég hélt ég myndi gera en var þó vöknuð og búin að slökkva á vekjaraklukkunni nokkru áður en hún átti að hringja. Ég var á skutlvaktinni, í gær var rauður dagur og N1 sonurinn átti ekki að mæta fyrr en um hálftíu. Tíu mínútum yfir níu var ég búin að vafra á netinu og setja inn færslu en ekkert bólaði á Davíð Steini. Ég hringdi því í soninn og það kom í ljós að hann var ekki farinn að rumska neitt en vaknaði auðvitað við hringinguna. Ég tók til skiltið á bílinn, bókina sem fylgir ökunáminu og sunddótið og var búin að undirbúa bílinn minn og sest í farþegasætið fram í þegar Davíð Steinn kom. Hann hafði klætt sig á methraða og þurfti bara að muna eftir að taka með sér nestið sitt sem hann útbjó kvöldið áður. Þrátt fyrir smá umferð vorum við komin upp að N1 við Gagnveg rétt rúmlega hálftíu. Ég þáði ekki kaffi í þetta sinn heldur fór beinustu leið í Laugardalslaugina. Þar var sundleikfimi heldri borgara á brautum 7 og 8 og þónokkur umferð á öllum hinum brautunum. Endirinn varð sá að ég fór 4 sinnum í kalda pottinn, einu sinni í heitasta, einu sinni í sjópottinn, korter í gufuna og smá sólbað áður en ég fór upp úr og í heimsókn til kisu. Stoppaði í um klukkustund þar áður en ég fór heim um hálfeitt. Heima greip ég nokkrar bækur og prjónana mína og fór með inn í stofu. Sólin skein svo glatt inn um stofugluggann að mér datt ekki einu sinni í hug að reyna að kveikja á sjónvarpinu, ekki heldur til þess að stilla á einhverja útvarpsstöð.
Þær tvær bækur sem ég framlengdi eru; Brotin eftir Jón Atla Jónsson og Ríki hinna blindu eftir Louise Penny. Fyrri bókin eitthvað á fjórða hundrað blaðsíður, mjög spennandi en ég lauk ekki við að lesa hana fyrr en í fyrradag. Hin bókin mun lengri eða um sjöhundruð blaðsíður en líka mjög spennandi. Byrjaði á henni nýlega og er búin að lesa hátt í tvöhundruð blaðsíður. Ég er svo búin að lesa eina af þeim sjö bókum sem ég kom með heim af safninu síðast; Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Þetta er ljóðræn bók byggð á sögum af hundrað ljósmæðrum sem voru upp þegar samgöngurnar voru mun frumstæðari.
Upp úr klukkan fimm skutlaði einkabílstjórinn mér yfir í Vesturbæinn til norsku esperanto vinkonu minnar og mannsins hennar. Þau voru líka búin að bjóða þremur tveimur öðrum konum og við fjórar vinkonurnar köllum okkur Viðeyjargengið. Ég er yngst í þessum hópi sú elsta er fædd 1946 og hinar tvær 1956 og 1961. Esperanto vinkona mín er semsagt næst yngst en þess má geta að maðurinn hennar er fæddur 1966. Við fjórar höfum gert meira saman heldur en að skreppa reglulega út í Viðey. Við höfum td farið í qi gong, labbað um Elliðaárdalinn og farið á jazztónleiki í bakgarðinum við Jómfrúna. Inger bauð upp á matarmikið sallat og hvítvín eða rósavín með. Í eftirrétt var hún með franska súkkulaðiköku með rjóma og bláberjum en hún vissi að ég myndi ekki geta borðað súkkulaðikökuna og bauð mer upp á frosna brómberja marengs köku, sem var alls ekki of sæt, í staðinn. Um átta leytið kvaddi sú elsta og labbaði yfir til sín en hún býr í 60 plús blokk við Grandaveg. Um níu hringdi ég í einkabílstjórann og bað hann um að sækja mig fljótlega. Nefndi það í leiðinni að hann fengi aukabíltúr upp í efra Breiðholt því ég var búin að bjóða hinum gestinum sem eftir var það. Hún hafði komið á bíl og lagt honum við Ásvallagötu og þótt það sæist ekki á henni vínið eða bjórinn sem hún var búin að smakka var réttast að skilja bílinn eftir. Strætósamgöngur eftir klukkan níu og á rauðum dögum þar að auki eru mun strjálli. Oddi fannst þetta skutl alveg sjálfsagt. Spurði mig bara hvort ég vildi fara heim fyrst. Ég sagðist vilja taka rúntinn með þeim og í baka leiðinni komum við við á AO við Sprengisand og fylltum á tankinn.
6.4.23
Skírdagur
Gærdagurinn var langur en mjög fljótur að líða. Var komin á fætur um sex, mætt í vinnu um hálfátta. Var á ítroðsluendanum. Dagleg framleiðsla var í heildina um 200 kortum færri heldur en daginn áður og var búin fyrir klukkan tólf, bæði framleiðsla og pökkun. Þá voru mættir til okkar rafvirkjar til að færa súlu utan um leiðslur. Þessi súla hefur eiginlega verið fyrir okkur þegar við erum að telja kort, þannig að það má líta á það að fram að þessu höfum við verið í hálfgerðum súludans við talningarnar því hún var fyrir framan borðið með teljurunum á, mitt á milli þeirra. Núna er hún staðsett hinum megin við borðið og því verður miklu minna um súludans hér eftir enda grínaðist kerfisfræðingurinn okkar með að hann væri hættur að heimsækja okkur eða myndi koma sjaldnar. Eftir hádegi framleiddum við smá endurnýjun og kláruðum talningar. Gengum frá deildinni um tvö og fórum allar í að hjálpa til við að fara yfir innlegg. Hætti vinnu um hálffjögur og fór beint í sund. Synti 300m, fór 3x í kalda pottinn, 1x í heitasta pottinn og endaði á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og í heimsókn til kisu. Pixý var kát að sjá mig og þegar hún hafði grun um að ég væri að fara gerði hún tilraun til að stoppa mig með því að leggjast á mottuna fyrir framan dyrnar út úr íbúðinni. Ég kom við í Krónunni við Fiskislóð og var svo komin heim rétt fyrir klukkan sjö. Oddur tók á móti vörunum og gekk samviskusamlega frá þeim.
5.4.23
Síðasti vinnudagurinn í þessari viku
Var komin á fætur fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun og mætt í vinnuna um hálfátta. Ég var á móttökuendanum. Í heildina voru á níunda hundrað kort í daglegri framleiðslu og svo komu tvær endurnýjanir, debet og kredit, fyrir einn bankann. Sinntum daglegur framleiðslunni, endurnýjun var hlaðið inn og lesið yfir. Um hálftvö var slökkt á vélinni og hún ryksuguð. Milli tvö og hálffimm var ég að fara yfir innlegg. Var komin í sund um fimm. Synti aðeins 100 metra því það var svo mikið af krökkum, bæði íslenskum og erlendum. Kaldi potturinn var 10°C og ég fór í hann þrisvar sinnum áður en ég fór upp úr og í heimsókn til kisu. Pixý tók vel á móti mér og ég stoppaði hjá henni í þrjú korter. Var komin heim á slaginu sjö. Vantaði aðeins rúmt korter upp á að ég væri búin að vera að heiman í tólf tíma.
4.4.23
Bíóferð
Ég var mjög hissa þegar vekjaraklukkan "ýtti" við mér rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Hefði sennilega alveg getað sofið lengur og var ég þó búin að sofa í tæpa átta tíma. Dreif mig samt á fætur svo ég hefði smá tíma til að vafra um á netinu og setja inn færslu á bloggið mitt. Var mætt í vinnu um hálfátta. Aðstoðaði við að opna ytri hurðina á hvelfingunni uppi og fór svo niður að kveikja á kortavélinni áður en ég fór inn á kaffistofu að fylla á vatnsbrúsann minn og fá mér smá kaffi. Svo raðaðist þetta þannig að fyrirliðinn og sú fjórða fóru niður, fyrrum fyrirliði var í bókhaldi og reikningagerð og ég var að æfa mig í innleggjum. Sleppti kaffitímanum klukkan hálftíu en fór í mat klukkan tólf þá var ég hálfnuð með seinni innleggspokasúpuna. Þegar ég var svo rétt að klára var ákveðið að ég myndi fara niður og leysa þá fjórðu af svo hún gæti hjálpað þeirri sem var að sinna hraðbankamálunum. Það var nefnilega mjög mikið að gera í þeim málum. Það var aðeins eftir að framleiða fjórar tegundir, telja annan kortavagninn og ganga frá deildinni niðri. Það tók innan við klukkutíma. Þegar ég kom upp aftur fór ég í að fara yfir innlegg hjá öðrum. Þrisvar sinnum stökk ég til að aðstoða tvo kerfisfræðinga. Í tveimur tilvikum þurfti ég að skrá mig inn á svæði sem ég hef ekki gert lengi, ekki síðan kortadeildin var í Seðlabankanum. Mér fannst ég alveg galtóm varðandi lykilorðið en viti menn, mér tókst að skrá mig inn í fyrstu tilraun og svo kom reyndar í ljós að ég var með þetta skrifað niður til öryggis.
Hætti vinnu um fjögur og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Flóð, öldugangur og sjórinn 3°C. Bara dásamlegt. Úr Nauthólsvíkinni lá leiðin á Vesturgötuna í heimsókn til Pixý. Stoppaði hjá henni í þrjú korter. Var komin heim rúmlega sex en stoppaði svo sem ekki lengi við þar því ég var búin að ákveða að sjá Napóleonsskjölin í bíó og var mætt í Kringlubíó rétt fyrir klukkan sjö. Myndin var hröð, spennandi og fyndin á köflum og endirinn gaf til kynna að líklega verður framhald síðar.
3.4.23
Smá ferðalag
Í gærmorgun var ég komin á fætur fyrir klukkan átta. Rúmlega níu hringdi ég í N1 soninn og spurði hvenær hann ætti að mæta í vinnu. Í ljós kom var að hann var vaknaður bara ekki alvega að nenna fram úr. Hann keyrði sig á mínum bíl í vinnuna og var mættur upp á Gagnveg á slaginu hálftíu. Ég tók niður æfingaakstursskiltið og beið eftir kaffi áður en ég fór á Vesturgötuna að kíkja á kisu. Varð að leggja í Ránargötu. Pixí tók vel á móti mér en annars var allt í standi hjá henni. Skipti um vatn í skálunum og hreinsaði sandinn. Sat svo í sófanum smá stund. Kisa kom til mín í stutta stund, snéri sér svo aðeins að matarskálunum áður en hún hvarf upp í gluggakistu á öðru herbergi. Um hálfellefu leytið hringdi ég í Lilju vinkonu og hún var tilbúin þegar ég renndi við á Grettisgötunni. Við keyrðum beinustu leið á Breiðabólstað í Fljótshlíðinni aðeins að kíkja á leiðið hjá pabba hennar. Næst stoppuðum við í nýja kirkjugarðinum við Hvolsvöll og kíktum á leiðið hjá mömmu hennar. Vorum komnar til pabba um hálftvö og þar stoppuðum við í tvo og hálfan tíma. Þáðum pönnsur og kaffi og settumst svo inn í stofu á eftir og spjölluðum. Ég var með prjónana mína með og greip aðeins í þá. Bríet og Bjarki voru einhvers staðar á ferðinni, aðeins bíllinn hennar frænku minnar var fyrir utan. Áður en við kvöddum pabba sýndi hann okkur snjómoksturgræjuna sína. Í baka leiðinni ákváváðum við að keyra Suðurstrandaveginn og í gegnum Grindavík. Þannig sluppum við við heilmikla umferð og ég gat verið með stillt á krús kontról mest allan tímann sem við ókum með suðurströndinni. Skilaði Lilju heim til sín um sex og fékk svo stæði á besta stað við heimili mitt. Kannski ekki uppáhaldsstaðinn sem er hornstæðið en fjórða stæðið frá beygjunni inn í götuna og öðrum megin við innkeyrsluna. Í stæðinu hinum megin við innkeyrsluna er bíllinn hans Davíðs Steins.
2.4.23
Horft á mússíktilraunir á RÚV2 milli fimm og hálfellefu
Var vöknuð rúmlega sex. Var búin að blogga og vafra á netinu þegar N1 sonurinn kom fram um sjö. Hann fékk að keyra sig í vinnuna á mínum bíl og ég fékk kaffibolla með mér sem ég kláraði að drekka úr þegar ég var komin á planið við Laugardalslaug tíu mínútum áður en opnaði. Hlustaði á morgunfréttir í útvarpinu áður en ég fór inn. Greinilega sundmót í gangi þessa helgina en krakkarnir voru að mestu í innilauginni. Ég fór beint í kalda pottinn sem reyndist í heitara lagi, 17°C. Sat í honum í rúmar tíu mínútur. Fór svo á braut 7 og 8 og synti 500 metra, meirihlutann á bakinu. Heiti kaldi potturinn var kominn upp í 18°C þegar ég settist aftur í hann eftir sundið. Sat svo góða stund í sjópottinum áður en ég fór inn í kalda sturtu og þvoði mér um hárið í leiðinni. Kom heim rétt fyrir tíu. Um ellefu hafði esperanto vinkona mín samband á facebook spjallinu. Ég var reyndar að tala við Lilju vinkonu en hringdi til baka strax eftir það samtal. Þá var hún að tala við ömmustelpuna sína en við ákváðum að ég kíkti yfir eftir hádegi. Fór til hennar rétt fyrir eitt. Var með esperanto dótið með mér. Hún bauð mér upp á kaffi og spjall og svo fórum við í stuttan göngutúr áleiðis út að Seltjarnarnesi. Hún sá þá fyrst pokann sem ég var með. Hann setti ég aftur út í bíl áður en við löbbuðum af stað. Kom aftur heim um hálfþrjú og fór ekkert eftir það. Útsending frá úrslitum mússíktilrauna hófst á RÚV2 um fimm. Ég hef aldrei farið eða hlustað áður nema þau brot sem Óli Palli hefur stundum spilað í útvarpsþætti sínum. Þótt þetta væri langt, því þetta voru tólf atriði, einstaklingar eða hljómsveitir, og hvert atriði var með 3 lög. Sá sem kom númer 2 á svið og varð í öðru sæti var í drengjakórnum á sínum tíma, örfáum árum yngri en Davíð Steinn. Hann var með flott söng- og dansatriði og magnað hvað hann er liðugur og góður dansari.
1.4.23
Á skutlvakt
Glænýr mánuður runninn upp. Ekki var nú mars mjög lengi að líða. Var mætt í vinnu rúmlega hálfátta í gærmorgun. Var á móttökuendanum á framleiðsluvélinni, sú fjórða á ítroðsluendanum, fyrrum fyrirliði í bókhaldinu og fyrirliðinn í innleggjum. Daglegri framleiðslu lauk skömmu fyrir tólf fyrir utan eitt kort sem kerfisfræðingur þurfti að gera smá breytingar á og setja upp öðru vísi. Það átti bara eftir að pakka debet og kreditkortum fyrir einn pakka þegar ég fór í mat. Lauk því af strax eftir mat. Vorum að spá í að ryksuga vélina en ákváðum að geyma það fram yfir helgi, aðallega vegna þess að við vissum ekki hversu lengi kerfisfræðingur yrði að græja þetta kortamál. Hætti því vinnu rétt um tvö. Skrapp og skilaði fjórum bókum af sex á safnið og fann mér sjö aðrar til að taka með mér af safninu. Næst lá leiðin í Nauthólsvík í 2,6°C sjóinn. Loksins þurfti ég ekki að vaða hálfa leið til Kópavogs. Svamlaði um í uþb tíu mínútur og settist í tæpar tíu mínútur í heita pottinn áður en ég fór heim. Hafði samband við tvíburahálfsystur mína sem lofaði að hóa í mig þegar hún væri komin heim úr vinnu. Ég skutlaðist heim með dótið mitt og bækurnar. Hringdi í dönsku nöfnu mína. Hún var nýkomin heim úr sinni vinnu og við urðum sammála um að hún kæmi til mín eftir kvöldmat til að afhenda mér húslykla fyrir kisuvaktina komandi viku. Um hálffimm hóaði tvíburahálfsystir mín í mig og ég dreif mig yfir til hennar til að skila henni regnkápunni sem hún lánaði mér fyrir Kaupmannahafnarferðina. Var með prjónana mína með mér. Stoppaði við í rétt rúma klukkustund. Á heimleiðinni kom ég við í AO við Sprengisand og fyllti að tankinn. Nafna mín kom rétt fyrir hálfátta og hún stoppaði dágóða stund og við áttum gott spjall saman. Hún og sambýlismaðurinn eru í þessum skrifuðum orðum stödd á Keflavíkurflugvelli á leiðinni til Danmerkur þar sem þau ætla að dvelja næstu vikuna hjá pabba hennar.