31.3.23

Síðasti mars dagurinn

Svaf eitthvað gloppótt í fyrrinótt en var samt vöknuð á undan vekjaraklukkunni. Mætti í vinnuna rétt upp úr klukkan hálfátta. Fyrirliðinn var áfram í innleggjum og sú fjórða í bókhaldinu. Við fyrrum fyrirliði höfðum endaskipti á framleiðsluvélinni og var ég á ítroðsluendanum. Einhverra hluta vegna var vélin ekki nettengd svo við þurftum að hafa aftur samband við kerfisfræðing og fá hann til að sparka daglegu skránum, sem áttu að vera komnar til okkar, yfir á vélina þegar ég var búin að opna fyrir sendingar. Daglegri framleiðslu og pökkun var lokið rétt fyrir klukkan tólf og við vorum svo búnar með endurnýjunina og að ganga frá kortadeildinni og hvelfingu um tvö. Allt var búið líka í innleggjunum svo ég var farin úr vinnu áður en klukkan sló hálfþrjú. Keyrði beint yfir í Laugardalinn. Hringdi í pabba áður en ég fór inn í sund. Þrátt fyrir að vera snemma á ferðinni í sundið hitti ég kalda potts vinkonu mína í sinni annarri ferð þegar ég var í minni fyrstu. Saman fórum við fjórar ferðir í viðbót og svo í gufu. Eftir gufuna fór ég í kalda sturtu, eina auka ferð í kalda, smá stund í sólbað og svo kalda sturtu áður en ég klæddi mig og fór heim. Lánaði bræðrunum bílinn í verslunarferð en ég fór ekkert út aftur. Var komin upp í rúm um hálftíu og sofnuð tæpum klukkutíma síðar. Rumskaði rétt fyrir miðnætti en sem betur fer sofnaði ég fljótlega aftur. Hugurinn ekki eins mikið á fleygiferð og í fyrrinótt.

30.3.23

Pétur Árni Óskarsson f. 28.08.1952 d. 29.03.2023

Ég fékk skilaboð frá núverandi viðgerðarmanni og verktaka hjá OBA seinni partinn í gær um fráfall Péturs, sem var verktaki hjá OBA í áratugi og þjónustaði og gerði við m.a. umslagavélar, kortavélar og póstvélar í gegnum árin. Ljúfur, hægur, dulur og mjög flinkur maður þar á ferð. Blessuð sé minning hans. Skilaboðin voru send um þrjú leytið en þá var ég komin í sund og strax eftir sund heimsótti ég frændfólk í Álftamýrinni. Bróðursonur mömmu tók einn á móti mér um hálffimm leytið. Hann er rúmum tuttugu árum yngri en ég en tók mjög hlýlega á móti mér og við spjölluðum alveg helling saman. M.a. sýndi ég honum mynd af bíl Davíðs Steins. Þurfti að kveikja á farsímagögnum því myndin sem ég sýndi honum er geymd inn á snapchat. Þetta var um fimm leytið og þá fékk ég þessa andláts tilkynningu. Bróðir mömmu og konan hans komu heim á svipuðum tíma um hálfsex leytið svo ég stoppaði hálftímanum lengur. Bæði eru hætt að vinna en hann er að hjálpa vini sínum að flísaleggja og hún var að koma úr einhverjum hittingi. Áður en ég fór heim kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti hjá honum harðfisk, óbarna ýsu.

Vinnudagurinn var annars mjög góður. Kláruðum allt daglegt upp úr klukkan eitt og rétt tæplega helming af uþb fimmtánhundruð korta endurnýjun. Ég var á móttökuendanum allan daginn. Hættum framleiðslu um hálfþrjú og gengum frá vélinni. Þá var einnig allt búið í innleggjum og flestir farnir eða að fara heim.

Hringdi í pabba rétt áður en ég fór í sund, tvo aðra eftir kvöldmat og svo var hringt í mig. Talaði við pabba í rúmar tíu mínútur en símtöl kvöldsins stóðu yfir í einn og hálfan tíma samtals.

29.3.23

Miðvikudagur

Áfram æðir tíminn á ógnarhraða. Hugurinn búinn að vera bæði fyrir austan fjall og svo austast á landinu. Manni var brugðið við fréttirnar í fyrradag af snjóflóðunum í Neskaupsstað og á Seyðisfirði. Rýmingar þar og á Eskifirði. Heilmikið tjón en sem betur fer engin mannslíf. Það er aftur spáð leiðinda veðri þarna fyrir austan.

Annars var ég mætt í vinnu um hálfátta í gær. Fyrirliðinn var í fríi en hún er þessa vikuna að læra á innleggin svo hún kemur til með að koma lítið nálgægt framleiðslu og bókhaldi. Það er helst að hún þurfi að svara einhverjum fyrirspurnum. Ég var aftur í bókhaldinu og það var eins og mig grunaði að sú fjórða og fyrrum fyrirliði höfðu endaskipti á vélinni. Rúmlega tvöhundruð kortum fleira í heildar framleiðslu heldur en á mánudaginn og við þurftum að skila af okkur vélinni um eitt. Allt gekk vel framan af. Vorum búnar að framleiða og telja visa rétt fyrir hálftíu. Þegar ég kom niður um ellefu með hádegistölurnar var umslagavélin farin að haga sér illa. Höldum að þetta tengist eitthvað þeim formum sem voru í vélinni. Við ákváðum að taka út umslaga stillinguna og handsetja í umslag. Gengur aðeins betur svoleiðis en við vorum ekki búnar með debet daginn fyrr en um tólf leytið og þá var eftir að klára hádegisframleiðsluna, pakka smá og "hátta" vélina. Fyrrum fyrirliði sendi skilaboð á þann sem er í afgreiðslunni um að taka frá fyrir okkur mat því við sáum ekki fram á að komast upp fyrr en um eitt og þá er venjulega verið að ganga eða jafnvel búið að ganga frá í eldhúsinu. Það tókst að klára niðri um klukkan eitt. Þrír vel útilátnir skammtar af kjúkling og grjónum voru á diskum undir djúpum diskum og meðlæti á amk 5 djúpum diskum í kring. Eftir mat prentaði ég út póstmiða á póstbunkana sem fara í póst í dag, lagaði bókhaldið og fór niður með alla pappíra. Þar voru tveir niðri að setja upp uppfærslur á framleiðsluvélina, kerfisfræðingurinn og annar sem kemur líka þegar eru yfirferðir eða bilanir. Ég notaði svo tímann til hálffjögur að fara yfir innlegg. Var komin í kalda pottinn rétt fyrir fjögur og hitti þar fyrir kaldapotts vinkonu mína í sinni annarri ferð.

28.3.23

Lítið eftir af marsmánuði

Vaknaði um sex. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn fór að prófa og læra á innleggin. Ég mælti með við hinar að hver og ein tæki tvo bókhaldsdaga í röð og að fyrrum fyrirliði tæki dagana tvo í kringum næstu helgi og mánaðamót. Annars máttu þær velja á hvaða stöð þær væru. Þær völdu báðar að fara niður svo ég varð eftir uppi í bókhaldinu. Veit þá að ég á bókhaldið aftur í dag og líklega hafa hinar tvær endaskipti á vélinni frá í gær. Visa var allt framleitt og talið tuttugu mínútum yfir níu. Dagurinn var ekki stór en umslagavélin var með smá vesen þegar aðeins landsbanka dk sem og hádegisframleiðslan voru eftir um ellefu leytið. DK framleiðslu lauk skömmu fyrir klukkan tólf og skammturinn sem kom um ellefu leytið var framleiddur eftir hádegi. Allri framleiðslu, pökkun og talningu var lokið um hálftvö. Fyrrum fyrirliði þurfti að fara en sú fjórða og ég kláruðum að taka saman gamalt plast sem á að farga næst þegar ónýtu kortum verður fargað. Síðasta endurnýjun mánaðarins var keyrð yfir á vél um tvö. Kerfisfræðingurinn stillti þetta þannig að þær skrár færu í sér möppu inni í möppunni þar sem hádegisskrárnar koma til að aðskilja skrárnar svo þær "keyri ekki yfir" hinar sem fyrir eru. Ég hlóð þeim inn en gerðum svo ekkert frekar í málinu því kerfisfræðingurinn þurfti amk tvo tíma til að setja inn einhverjar uppfærslur. Innleggin og yfirferðin á þeim gekk vel og var að klárast milli tvö og þrjú svo ég gekk frá og hætti vinnu um hálfþrjú. Fór beinustu leið í Nauthólsvíkina. Hringdi eitt símtal áður en ég fór í 0,7°C sjóinn og svo annað ca hálftíma seinna þegar ég kom í bílinn aftur. Nafna mín og hálfdanska frænka mín hafði samband seinni partinn. Frá og með næstu helgi tek ég að mér kisuvakt í rúma viku. Ætla mér samt að skreppa eitthvað austur um páskana.

27.3.23

Birtir fyrr og fyrr

Byrjaði gærdaginn á smá netvafri en var aftur komin í sund um níu. Fór beinustu leið á braut átta og synti 300 metra, þar af 50 metra skriðsund. Svo var skiptingin, kaldu, sjópottur, kaldur, gufa, köld sturta, kaldur, "sólbað í fimm mínútur" og köld sturta. Hitti nokkrar Sigrúnar og svo eina jafnöldru mína sem er kennari í Kvennaskólanum. Hana hitti ég þegar ég var að klæða mig í strigaskóna og við urðum samferða út og spjölluðum dágóða stund úti við hjólið hennar. Kom heim um hálftólf. Sótti þvottinn af snúrunni og hellti mér upp á þrjá bolla af sterku kaffi og fékk mér einhverja hressingu. Hlustaði á hádegisfréttir, prjónaði og las. Um hálffjögur skrapp ég út í stuttan, tuttugu mínútna göngutúr, 1,5 km. Og svo hélt ég ýmist áfram að prjóna eða horfa á þætti. Um helgina gerði ég nokkrar prufur til að máta um hálsinn á eldhúsböngsunum í vinnunni. Kalla þá eldhúsbangsa því þeir koma á borðin okkar og eru hjá okkur vikuna sem við eigum eldhúsvakt. 

26.3.23

Á fætur í fyrra fallinu

Það flögraði að mér að fara beint í sund þegar ég fór á fætur stuttu fyrir klukkan átta í gærmorgun. En reyndin var sú að fartölvan og netvafrið togaði mig til sín. En ég var þó búin að slökkva aftur á tölvunni rúmum hálftíma eftir að ég kveikti á henni og mætt í sund um níu. Þar byrjaði ég á að skella mér í kalda pottinn í uþb fimm mínútur áður en ég synti 500 metra, flesta á bringunni. Fór tvær aðrar ferðir í kalda pottinn og sjópottinn á milli þeirra ferða. Endaði svo á góðu gufubaði og smá sólbaði áður en ég fór upp úr og heim. Hvorugur bræðranna var vaknaður en annar þeirra kom aðeins fram um ellefu rétt til þess að skreppa á salernið áður en hann fór aftur inn í helli sinn. Ég greip aðeins í prjónana mína og leyfði klukkunni að verða tólf áður en ég hellti mér upp á kaffi og fékk mér eitthvað að borða. Um eitt leytið fór ég með ryksuguna fram á gang og ryksugaði stigann og stigapallinn við mínar dyr með einskonar teppabankara. Amk með öðrum stút en þann sem er oftast notaður þegar ryksugað er yfir gólfin. Ég varð mjög rauð og sveitt í framan við þetta verkefni. Fljótlega að þessu verki loknu komu bræðurnir loksins fram. Eitthvað fannst mér annar þeirra ekki vera í sínu allra besta dagsformi. Hann var ekki mjög ræðinn og lét skapið aðeins bitna á bróður sínum sem var ekkert að kippa sér upp við fúllyndinu heldur svaraði bróður sínum þó án þess að allt færi í háa loft. Ég var ekkert að skipta mér af þessu. Beið bara róleg langt fram eftir degi eftir því að sá sem er að fara að taka bílprófið bráðum spyrði mig hvort ég vildi koma á æfingarúnt. Klukkan var reyndar farinn að ganga átta um kvöldið þegar það loksins gerðist. Við notuðum tækifærið og skruppum í Krónuna við Fiskislóð. Hann rúntaði svo um Seltjarnarnes og Skerjafjörð á leiðinni til baka, fékk stæði fyrir framan hús, hélt á öllum pokum inn og gekk frá úr öðrum pokanum sem ég hafði versla í. Hann er búinn með ökuskóla þrjú og aðeins eftir að taka tíma með ökukennara til að æfa sig undir verklega prófið. Horfði á þætti fram eftir kvöldi og var klukkan farin að ganga tólf þegar ég fór í rúmið. Las samt amk þrjá kafla í bókinni: Reimleikar eftir Ármann Jakobsson áður en ég fór að sofa. 

25.3.23

Sofið út

Ég mætt í vinnu um hálfátta í gærmorgun, fyrst úr kortadeild. Fór niður og kveikti á kortavélinni áður en ég fór inn á kaffistofu til að fylla á vatnsflöskuna og fá mér smá kaffisopa. Þegar við vorum allar mættar stakk ég upp á að vera á sömu stöðvum og á fimmtudaginn. Sú uppástunga var samþykkt. Aðeins fleiri kort voru í framleiðslu, eða á sjöunda hundrað, en engin endurnýjun og allt gekk það vel að við vorum búnar að ganga frá í kortadeildinni fyrir klukkan tvö. Var smá stund í yfirferð á innleggjum en ég var komin á planið við Nauthólsvík skömmu upp úr klukkan hálfþrjú. Hringdi fyrst í pabba en um þrjú var ég að vaða hálfa leið til Kópavogs út í 0,2°C sjóinn. Tolldi út í í uþb tíu mínútur og var svo rúmlega annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.

Rétt fyrir sjö hafði tvíburahálfsystir mín samband, ekki til að spyrja um regnkápuna sem hún lánaði mér fyrir ferðina um síðustu helgi heldur til að upplýsa mig um atvik innan fjölskyldunnar sem fékk mikið á mig. Held ekki að ég segi meira um þetta á þessum vettvangi. Sendi frá mér eins góða strauma og mögulegt er og elti hugsanir mínar á staðinn fljótlega.

24.3.23

Föstudagur enn á ný

Vaknaði næstum því klukkutíma áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Fór á fætur uþb hálftíma síðar og hafði samt góðan tíma í morgunverkin og netvafrið áður en tími var kominn til að fara í vinnuna. Þangað var ég mætt upp úr klukkan hálfátta. Var mætt fyrst úr kortadeildinni og byrjaði því á því að fara niður og kveikja á kortavélinni þar sem sá sem er í afgreiðslunni var búinn að taka öll kerfin af. Fyrrum fyrirliði var áfram í innleggjum og fyrir liði tók að sér bókhaldið sem kom sér vel því hún var að fara á fund um miðjan morgun. Það var því A-teymið, Auður og Anna sem tóku að sér framleiðsluvaktina, hún nr1 og ég á móttökuendanum. Daglegu kortin í heildina náðu ekki 600. Framleiddum rúmlega 400 fram að hádegi. Vélin var í ágætis gír. Hefðum klárað þetta um tólf en okkur lá ekkert á og sú fjórða þurfti að skreppa aðeins yfir í hraðbankamálin bæði fyrir og eftir hádegi. Vorum búnar að ganga frá deildinni og slökkva á vélinni fyrir klukkan tvö og þá tók ég klukkutíma í að fara yfir innlegg áður en ég fór heim.

Um fimm keyrði einkabílstjórinn mig niður í Katrínartún. Þar var tímamótum RB fagnað milli 17 og 19. Þarna var margt um manninn. Mörgum hafði verið boðið, bæði núverandi og fyrrverandi RB-ingum, stjórn RB, og samstarfsaðilum reiknistofunnar. Boðið var upp á alls konar smárétti og drykki, hljómsveit sem nokkrir starfsmenn RB skipa spilaði bæði á undan og eftir ræðum forstjóra og formanns stjórnarinnar og einnig söng kór RB. Allt mjög gott og flott. Hitti fullt af fólki bæði RB-inga á eftirlaunum og einnig RB-inga sem eru með sínar starfstöðvar í Katrínartúni og eða heima hjá sér. Held að við höfum aðeins mætt þrjú úr seðlaverinu, framkvæmdarstjórinn og sá sem er í myntinni. Hann vann áður bæði hjá sparisjóðum og einnig arion. Hann skutlaði mér heim rétt fyrir sjö en annars var einkabílstjórinn alveg tilbúinn að koma og sækja mig.

23.3.23

RB 50 ára

Þennan dag fyrir 50 árum síðan var RB stofnað. Sagan segir að kaupa hafi þurft tölvu fyrir bankakerfið sem var mjög dýr en niðurstaða funda um efnið var sú að bankarnir tæku sig saman og keyptu tölvuna og til þess þurfti að stofna heilt fyrirtæki.

Annars var ég vöknuð um sex í gærmorgun. Verkefnin skiptust þannig að sú fjórða sá um bókhaldið, fyrirliðinn um móttökuendann á vélinni, ég um ítroðsluendann og fyrrum fyrirliði var í innleggjum. Daglegri framleiðslu lauk um tólf leytið. Gekk alveg þokkalega vel nema mér tókst einhvern veginn að eyða út fjórum endurnýjunarskrám sem biðu þess að verða endurnýjaðar. Það gerði samt ekki svo mikið til því þessar skrár komu til okkar þann 17. sl. og ég gat einfaldlega leitað þær uppi og hlaðið þeim inn aftur. Eftir hádegi framleiddum við kortin í þessum skrám sem voru færri en hundrað.

Hætti vinnu rétt upp úr klukkan tvö og fór beint í sund. Hringdi í pabba áður en ég lagði af stað úr Sundaborg og talaði við hann á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Hann þurfti að taka fram nýja snjómoksturstækið sitt í gær. Eftir smá fikt fann hann út hvernig tækið virkaði og var nýbúinn að moka stéttina undir gluggunum fyrir framan hús þegar ég hringdi. Þannig mun sá sem ber út moggann eiga auðveldara að rétta honum blöðin inn um eldhúsgluggann við eldhúsborðið.

Fór beinustu leið í kalda pottinn í tæpar fimm mínútur áður en ég valdi mér braut 6 til að synda. Eftir þrjár ferðir voru fleiri komnir á þá braut en engir voru á brautum 7-8 svo ég færði mig þangað því ég var að synda á bakinu flestar þessar 10x50m ferðir. Fór tvisvar aftur í kalda, sjópottinn á milli og svo gott gufubað áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið.

Kom heim um fjögur og þegar Oddur Smári kom fram nokkru síðar áttum við gott spjall um ýmislegt. Sendi rafrænt bréf á þann sem mun halda utan um þær framkvæmdir utanhús sem eru að fara í gang mjög fljótlega og vona að ég fá jákvætt svar fljótlega. Horfði á fréttir og þrjá þætti og var komin upp í rúm upp úr klukkan hálftíu.

22.3.23

Vikan um það bil hálfnuð

Ég var greinilega svolítið lúin eftir dásemdar helgina. Skreið upp í rúm um níu leytið í fyrrakvöld og rétt svo gat lesið tvær eða þrjár blaðsíður áður en ég ákvað að þetta gengi ekki alveg og fór að sofa. Rumskaði aðeins um fimm leytið en svo ekki fyrr en vekjaraklukkan hringdi kl 06:27 í gærmorgun. Var mætt í vinnuna rétt rúmlega hálfátta. Það kom í minn hlut að sjá um bókhaldið. Framleiðsla gekk vel og svo fengum við til okkar þrjá innsiglaða poka með tveimur tegunum af plasti, alls um tíu þúsund kort. Tveir kassar í hverjum poka og í flestum tilvikum 4x500 kort í hverjum kassa, ekki samt alveg öllum. Sem betur fer var hægt að telja meiri hlutann í gegnum plastið en það þurfti að "hátta" nokkra kassa. Gengið var frá kortadeildinni um tvö en ég hélt vinnu áfram til klukkan hálffjögur við að fara yfir innleggsbunka.

Var mætt í sund um fjögur. Eftir tvær ferðir í kalda var kalda potts vinkona mín ekki mætt svo ég ákvað synda smá. Það urðu 10x50m ferðir á bringunni og viti menn vinkonan var mætt á svæðið svo ég tók tvær ferðir í viðbót í kalda pottinn og endaði á góðri gufu. Hitti einn frænda minn og fyrrum samstarfsmann og kórbróður í einni ferðinni í heitasta pottinn og þegar ég var á leiðinni upp úr hitti ég eina bekkjarsystur mína úr grunnskóla sem ég hef einnig hitt í sjónum.

Eftir kvöldfréttir í sjónvarpinu fór ég með Davíð Steini á rúntinn. Hann passaði sig á að beygja ekkert í áttina að Hafnarfirði en fór í Krónuna við Gullhamra og rúntaði um Grafarholt, Grafarvog og Breiðholt og keyrði Bústaðaveginn heim. Stoppaði nokkrum sinnum í brekkum þar sem engin umferð var til að æfa sig að taka af stað. Vel gekk hjá kappanum og hann sagði mér að hann væri búinn með nethlutann af ökuskóla tvö.

Horfði á fimmta þáttin af sex af The nevers. Áður en ég fór upp í rúm að lesa. Þá var klukkan um tíu. Ætli ég hafi ekki verið sofnuð ca þremur korterum seinna.

21.3.23

Snemma að sofa í gærkvöldi

Var vöknuð á sjötta tímanum í gærmorgun. Reyndi að kúra aðeins lengur og stillti vekjaraklukkuna þannig að ég myndi þá vakna rétt fyrir sjö ef ég steinsofnaði. Klukkan hálfsjö slökkti ég á klukkunni aftur og dreif mig bara á fætur. Mætti í vinnuna um klukkutíma síðar, fyrst af kortadeildinni og á undan þeim sem venjulega hleypir inn á morgnana. Mér var samt hleypt inn því það var annar samstarfsfélagi mættur sem líka kemst inn til að opna svo fyrir vinnufélögunum. Ég var á móttökuendanum á vélinni með þeirri fjórðu sem kom úr ferðinni frá Marakesh ca örlítið á undan okkur sem vorum að koma frá Kaupmannahöfn. Seinni og síðasti hópurinn kemur svo heim í dag. Um hádegi var aðeins eftir að framleiða um hundrað kort af daglegri framleiðslu. Sú fjórða fór í innlegginn og fyrirliðinn kom niður með mér eftir hádegi. Fyrrum fyrirliði sá um bókhaldið í gær. Vorum búnar að að framleiða, telja, slökkva á vélinni og ganga frá niðri rétt rúmlega tvö. Ég sá að það var enn verið að vinna í innleggjum. Ákvað að leggja til hjálpar hendur en til þess að þurfa ekki að trufla neinn eða gera neina vitleysu var sú hjálp fólgin í að fara yfir innlegg sem búið var að gera. Þ.e. staðfesta upphæðirnar. Nokkrir innleggsbunkar fóru í kassa sem aðeins er sett í ef innlegg hafa verið staðfest en ég þurfti að skila einhverjum til baka í sömu kassa og ég tók þá úr. Þessi aðstoð var samt vel þegin og þökkuð. Ég hætti vinnu rétt fyrir fjögur og fór beint heim.

20.3.23

Afmælis árshátíðar helgin

Afmælisdagurinn: Pakkaði niður í litla flugfreyjusösku og bakpoka um morguninn og tók með mér í bílinn. Var i vinnunni milli klukkan sjö og langt gengin í tólf. Sá um bókhaldið og hjálpaði aðeins til við frágang. Ákvað að taka með mér heyrnartólin úr vinnunni. Skutlaðist heim eftir einkabílstjóranum sem keyrði mig út á Keflavíkurflugvöll og skildi með eftir þar. Hitti flesta úr hópnum sem ég var að ferðast með á Loksins kaffibar og drakk þar tvö glös af hvítvíni þangað til kominn var tími til að fara um borð. Á leiðinni til Kaupmannahafnar keypti ég mér eitt hvítvínsglasið enn en einnig kalda kalkúnaborgara og snakk. Á Kastrup tók íslensk stúlka á móti okkur, leiðsagði okkur að rútunni og fór með okkur alla leið á motel one. Klukkan var byrjuð að ganga níu að dönskum tíma þegar við komum þangað. Ég fékk herbergi á efstu hæð, no 505. Mjög gott var að komast úr skónum og það fór svo að ég fór ekkert niður aftur þótt ég færi alls ekki strax að sofa.

Árshátíðardagurinn: Var vöknuð um sjö leytið, eða upp úr klukkan sex að íslenskum tíma. Fór í sturtu um hálfníu og niður í borðsal í morgunverðarhlaðborð fljótlega eftir það. Þar hitti ég nokkra vinnufélaga og maka og einnig fyrrum fyrirliða. Eftir morgunmatinn urðum við samferða í lyftunni upp á þriðju hæð svo hún gæti náð í snjallúrið sitt og sýnt mér herbergið. Svo löbbuðum við upp á fimmtu svo hún gæti skoðað herbergið mitt. Rétt fyrir klukkan ellefu hittist stór hluti af hópnum til að fara saman í göngu um nærliggjandi svæði undir leiðsögn Ástu Stefánsdóttur sem hefur verið búsett þarna í yfir tuttugu ár. Gangan og leiðsögnin tók tvo tíma og var bæði fróðlega og skemmtilega. Þegar hún kvaddi vorum við á torginu hinum megin við Strokuna. Við Silla ákváðum að labba til baka í rólegheitum. Komum við á pizza stað sem heitir Mamma Rósa og akkúrat um það leyti byrjaði að hellirigna. Demban var gengin yfir þegar við vorum búnar að fá okkur að borða. Við kíktum einnig inn í H&M. Ég keypti mér nú ekki neitt þar.  Klukkan hálfsex hittist næstum allur hópurinn, amk allir vinnufélagar sem voru í ferðinni, í lobbýinu yfir fordrykk áður en labbað var yfir á veitingastaðinn PUK sem var spölkorn í burtu. Áttum pöntuð borð klukkan sex og boðið var upp á tvíréttað að dönskum sið og osta í eftirrétt. Höfðum bara borðin til klukkan átta svo við færðum okkur aftur yfir á hótelið. Held að allir hafi verið komnir upp á herbergin sín fyrir miðnætti. Ég var með þeim síðustu upp örfáum mínútum fyrir tólf.

Heimferðardagurinn: Vaknaði aftur snemma og var búin að fara í sturtu fyrir átta. Fór niður í morgunmat stuttu síðar. Hitti einhverja en mun færri heldur en morguninn áður. Labbaði upp stigann á eftir og hafði það notalegt til hádegis. Las, prjónaði og pakkaði niður. Skilaði af mér herberginu klukkan tólf og fékk að geyma flugfreyjutöskuna á hótelinu. Við fórum fjórar saman í göngu um borgina, Strikið og nágrenni. Ég nennti ekki að kíkja í neinar búðir en beið samviskusamlega fyrir utan ef hinar fóru inn. Fengum okkur að borða á Cafe vivaldi um eitt leytið og gátum setið úti. Tveim tímum seinna settumst við inn á Villa Vino og fengum okkur kaffi eftir meira labb um borgina. Vorum komnar á hótelið fyrir klukkan fimm og biðum í lobbýinu eftir rútunni sem kom klukkan sex. Notaði tímann og prjónaði á meðan. Vorum komnar á flugvöllinn upp úr klukkan hálfsjö. Ég var búin að tékka mig inn í gegnum appið en beið eftir að þær sem ég var með tékkuðu inn töskur og settu á færibandið. Ég var ekkert að spá í fríhöfninni. Tók að mér að keyra eina um á hjólastól sem við fengum lánaðan og var notaður alveg þar til kominn var tími til að ganga um borð. Lentum í Keflavík rétt rúmlega ellefu að íslenskum tíma. Ég fékk far með fyrrum fyrirliða en hún var með tvo farþega í viðbót sem hún keyrði fyrst. Klukkan var samt bara rétt að verða eitt þegar ég kom heim í nótt eftir skemmtilega og vel heppnaða ferð.

Komin heim eftir frábæra afmælishelgi í Kaupmannahöfn

Þetta verður stutt færsla að þessu sinni. Mun gera helginni betur skil seinna í dag eða á morgun. Við lentum klukkan rétt rúmlega 23 í gærkvöldi. Það tók smá tíma að komast út úr vélinni og í gegnum flugstöðina. Ég þurfti samt ekki að bíða eftir neinni tösku á bandinu og aldrei þessu vant labbaði ég alveg framhjá fríhöfninni. Ég var svo heppin að fá far heim með fyrrum fyrirliða og var komin heim rétt rúmlega eitt í nótt. 

17.3.23

Anna 55 - 55 annA

Var snemma á ferðinni og mætt í vinnu áður en klukkan varð hálfátta. Þá búin að vera á fótum í rúma tvo tíma. Heima hafði ég m.a. sent skilaboð til capacent um að ég myndi geyma fjölmiðlamælinn heima 17. til og með 19. mars. Og nú sé ég einnig fram á smá skrifstopp, sennilega alveg fram á mánudag. Í vinnunni var slökkt á öllum öryggiskerfum fljótlega eftir að ég kom svo ég fór niður og kveikti á kortavélinni. Fyrirliðinn var aftur í bókhaldinu og ég fór á mótökuendann á vélinni. Kláruðum allt daglegt klukkan rúmlega tólf. Fyrirliðinn hjálpaði mér aftur að ganga frá í eldhúsinu og um tvö leytið var búið að pakka öllu og ljúka framleiðslu á endurnýjuninni sem við byrjuðum á í fyrradag. Áður en ég fór úr vinnu var ég búin að senda af stað beiðni til samþykktar um að panta tvo varahluti, prenthausa, í framleiðsluvélina. Var mætt á planið við Laugardalslaugina um þrjú og byrjaði á því að hringja í pabba. Hitti svo næstum strax á kalda potts vinkonu mína sem þegar var búin með tvær ferðir í þann kalda. Saman fórum við þrjár ferðir í viðbót og svo gott gufubað áður en ég fór upp úr og heim. Heima hélt ég áfram að pakka niður fyrir helgarferð, hringdi í eina frænku mína og nöfnu sem verður sextug þann 30. n.k. og vafraði aðeins á netinu. Stuttu fyrir átta fórum við Davíð Steinn á rúntinn. Hann keyrði mig yfir í Garðabæ í um klukkustundar heimsókn til tvíburahálfsystur minna. Hún lánaði mér regnkápu og gaf mér bók þegar við kvöddum um níu leytið.

Fyrr um daginn hafði Davíð Steinn verið nokkra klukkutíma í Laugardalshöll og fylgjast með Bríeti taka þátt í nema keppni í kjötiðn. Hann tók margar myndir og ég sá einnig snapp frá honum og pabba hennar. Sú stutta stóð sig einstaklega vel. Því miður kemst hann ekki á seinni daginn hennar því hann á vinnuvakt þessa helgi og er í þessum skrifuðum orðum að undirbúa sig áður en hann fer upp á Bústaðaveg og tekur strætó. Ég er líka að mæta fyrr í vinnuna, en við ætlum að hætta vinnu klukkan tólf til að komast í flug 15:40 til Kaupmannahafnar.

16.3.23

Morgun-"fiskur"/morgunhani eða hæna

Aftur var ég snemma á fótum í gærmorgun. Klukkan var svo heldur ekki orðin hálfátta þegar ég var mætt í vinnuna. Sá sem er í afgreiðslunni og hleypir fólki inn tók svo öll kerfi af þannig að ég byrjaði á því að fara niður í kortadeild að kveikja á vélinni og þegar ég kom upp aftur opnaði ég seinni lásinn af öryggishurðinni inn í hvelfinguna uppi. Eftir að hafa fyllt á vatnsflöskuna og fengið mér smá kaffi fór ég niður á ítroðsluendann á kortavélinni. Fyrrum fyrirliði fór á móttökuendann og fyrirliðinn í bókhaldið. Sú fjórða er flogin með fyrsta hópnum af þremur í afmælisárshátíðarhelgarferð. Í morgunkaffinu var forstjóri RB mættur á svæðið og sat með okkur á miðvikudagsfundinum. Þar var boðið upp á heitan brauðterturétt, kalda brauðtertu og einnig venjulegt brauð. Meðan farið var yfir okkar ferð, þá þriðju af þremur, sem er á aðeins annan stað og styttri en hinar tvær svo ekki verði þjónusturof í Seðlaverinu og kortaframleiðslunni. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Tókum góða matarpásu og fyrirliðinn hjálpaði mér að ganga frá í eldhúsinu. Fórum niður aftur rétt fyrir hálftvö. Það var eftir að pakka smá en við settum líka endurnýjun af stað. Náðum aðeins að klára rúmlega helminginn af þessum 700 kortum sem voru eftir því um hálfþrjú leytið fór prentarinn að flækja og láta öllum illum látum. Hættum framleiðslu áður en klukkan varð hálffjögur og gengum frá. Ég var komin í Laugardalinn stuttu fyrir fjögur. Fór tvisvar sinnum 4 mínútur í kalda pottinn, synti 300 metra á milli og endaði svo á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og heim. Hringdi í Ellu vinkonu, horfði á einn þátt og fréttir og skrapp svo með Davíð Steini á rúntinn milli klukkan átta og níu. 

15.3.23

Hittingur fyrrum fimm kortadeildarsamstarfskvenna

Enn og aftur var ég vöknuð eldsnemma. Mætti í vinnu um hálfátta. Höfðum sömu verkaskiptingu nema við fyrirliðinn höfðum endaskipti á framleiðsluvélinni og var ég á móttökuendanum. Svo virðist sem slökknað hafi á vélinni daginn áður hvernig svo sem það gerðist. Engar nýjar skrár höfðu því komist yfir á vélina svo hafa þurfti samband við okkar helsta tæknimann. Í millitíðinni þurftum við að endurræsa vélina frá grunni en gátum svo framleitt smá skrá úr endurnýjun. Dagleg framleiðsla var komin í gang um hálfníu og þrátt fyrir að fyrsti skammtur væri yfir 190 stk og meira en 30 lotur var bæði framleiðslu og talningu lokið á innan við klukkutíma. Byrjuðum því aðeins á daglegri debetframleiðslu áður en við fórum í morgunkaffi. Debetframleiðslunni lauk  skömmu fyrir ellefu og þá var settur í gang einn partur af þremur í stærstu endurnýjunarskránni. Ég var leyst af rétt fyrir hálftólf. Maturinn kom um það leyti og ég fékk mér að borða áður en ég mætti til Nonna í Kristu Quest um tólf. Hafði fengið klippitímanum flýtt um þrjá daga og fjóra klukkutíma. Fyrir vikið bað ég hann einnig um að þvo mér um hárið. Hann tók ca 2 cm af hárinu en mestur tíminn fór í að þurrka þennan þykka hadd. Bókaði næsta tíma um miðjan september og fjárfesti í nýjum bursta sem er merktur stofunni. Var komin í vinnuna aftur um hálfeitt, beint í uppvaskið. Sú fjórða er með mér í þeirri vakt af því að við erum fyrstar í stafrófinu. Hún var byrjuð að tæma og skola. Ég hélt áfram að tæma ílátin og þurrkaði af öllum borðum. Fékk mér svo einn kaffi bolla áður en við fyrirliðinn fórum aftur í framleiðsluna, kláruðum stærri endurnýjunina (sem fer í póst í dag) og byrjuðum aðeins á endurnýjuninni sem kom 3. mars sl. Vorum búnar að ganga frá deildinni um þrjú. Ég var komin heim um hálffjögur. Hringdi í pabba og tók því rólega í um klukkustund. Þá klæddi ég mig upp í litríka lopapeysu undir nýju sumarkápuna og labbaði á nýju skónum yfir í Kringluna á Finnsson bístró þar sem ég hitti þær tvær sem sagt var upp í október sl. og einnig hinar tvær sem eru enn í teyminu og voru partur af fimm manna teymi síðast liðin nokkur ár. Rétt fyrir sjö fékk ég far heim með fyrrum fyrirliða, svo ég myndi ekki ofreyna mig á nýju skónum. Þarf að ganga þá til en má ekki fara of geyst í það ef þeir eiga að nýtast mér um næstu helgi. Þetta eru samt alveg einstaklega vandaðir, flottir og góðir skór.

14.3.23

Nýjir skór, "new feet"

Ég var vöknuð um fimm leytið í gærmorgun og þurfti að grípa í símann til að senda sjálfri mér póst með þremur nýjum limrum. Klukkutíma seinna var ég komin á fætur, þó á eftir N1 syninum, og setti þessar limrur bæði á ljóðvefinn minn og á vegginn. Var mætt í vinnu um hálfátta. Kerfin voru tekin af fljótlega og ég fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni. Þegar ég kom upp aðstoðaði ég við að aflæsa hvelfingunni uppi með talnakóðanum mínum. Svo var kominn tími til að fylla á vatnsflöskuna, fá sér kaffi og prjóna nokkrar lykkjur í nýjustu tuskunni. Ég hafði fengið hugljómun varðandi verkaskiptingu og bar hana undir fyrrum fyrirliða, þá sem sér um að setja okkur inn í innlánin, þá fjórðu og svo fyrirliða kortadeildarinnar. Það var svo vel tekið í þessa hugmynd hjá mér að verkefnin skiptust alveg eins og ég sá fyrir mér. Ég og fyrirliðinn sáum um alla framleiðslu í gær, fyrrum fyrirliði fékk að leiðsögn og að prófa innlánin og sú fjórða sá um bókhaldið. Hún sat við mitt skrifborð og þær tvær uppi gátu svo aðstoðað hvor aðra. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Umslagavél og prentari í mun betra "skapi" heldur en á föstudaginn var. Ég og sú fjórða eigum kaffistofuvaktina þessa vikuna. Hún þurfti að leysa afgreiðslustarfsmanninn af en hann og fyrirliðinn hjálpuðu mér með frágang. Milli eitt og þrjú voru endurnýjuð hátt í átta hundruð kort. Klukkan hálffjögur var ég komin í Nauthólsvík og stakk mér smá stund í -0,8°C sjóinn. Um hálffimm var ég komin í verslunina Steinar Waage þar sem ég keypti mér nýja og mjög vandaða skó. Milli fimm og hálfsjö var ég í heimsókn hjá fyrrum samstarfskonu vestur í bæ. Á meðan ég var hjá henni hringdi danska frænka mín og nafna. Ég tók símann en þar sem ég var í heimsókn urðum við frænkur sammála um að ég skyldi hringja til baka um kvöldið. Þá spjölluðum við frænkur saman í um klukkustund.

13.3.23

Ný vinnuvika

Aftur var ég vöknuð og komin á fætur um hálfátta. Tæpum tveimur tímum seinna var ég komin í Laugardalslaugina. Byrjaði á kalda pottinum áður en ég synti 500 metra, allt á bringunni. Var í minni annarri ferð í þann kalda þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við þrjár ferðir í viðbót og svo í gufuna. Vorum komnar í sjópottinn þegar ein systir hennar og nafna mín mætti á svæðið. Fór upp úr um hálftólf. Kom við í AO við Sprengisand. Ég gerði tilraunir á tveimur dælum en tókst ekki að dæla á bílinn. Kannski var ég bara of óþolinmóð. Brunaði alla leið í Kaplakrika og eftir smá meira vesen tókst loksins að fylla á tankinn. Kannski var of kalt þannig að erfiðlega gekk að lesa lykilinn, en hvað sem var að þá gekk þetta loksins. Kom heim um tólf leytið. Eftir hádegisfréttir hellti ég mér upp á sterkt kaffi og fékk mér eitthvað snarl með. Um tvö leytið skruppum við Davíð Steinn aðeins á rúntinn. Hann sækir í að keyra um í Hafnarfirði en leiðin lá núna upp hjá Vífilstöðum og utarlega í Heiðmörk. Komum heim eftir uþb klukkutíma rúnt. Oddur hafði verið að fylgjast með fyrri hálfleikjunum í þremur leikjum í enska boltanum og gaf mér skýrslu. Horfðum svo aðallega á Man. Utd. leikinn sem fór 0:0. Fljótlega eftir þann leik var seinni landsleikurinn við Tékka í handbolta karla, heimaleikur þar sem strákarnir svöruðu kallinu heldur betur eftir slaka leikinn ytra á miðvikudaginn var. Þá var reyndar vörn og markvarsla alveg ágæt en sóknin mjög léleg. Í gær gekk allt upp þrátt fyrir að dómarar héldu ekki alveg sömu línu báðum megin vallar í dómgæslunni. Fyrri leikurinn tapaðist með fimm mörkum en leikurinn í gær vannst með 9. Flest gekk upp og það var kátt í höllinni.

12.3.23

Sunnudagur

Ég var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Eftir rúmlega klukkutíma vafr á netinu tók ég aðeins í prjónana. Er að prjóna tusku úr bókinni eftir mynstri úr bókinni sem ég fékk í jólagjöf sem nefnist tvöfaldur skái. Eftir nokkrar umferðir náði ég í bók af safninu sem ég kom heim með úr síðustu heimsókn. Þetta er ekki þykk bók, gefin út 1976 eftir íslenskan höfund og heitir; Skipstjórinn okkar er kona. Um hálfellefu var ég komin vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Ég var með esperanto dótið meðferðis en ekkert varð úr slíkum æfingum heldur vorum við að spjalla saman í rúman klukkutíma um allt og ekkert og lífsins gang. Ég kom heim aftur rétt fyrir tólf. Sótti þvott niður á snúrur en þar sem ég var ekki viss um hvort annar hvor sonurinn ætlaði að nýta þvottavélina og mér lá ekkert á setti ég í hana fyrr en seinna um daginn, eftir að bræður voru búnir í Sorpuferð og farnir í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu hans. Ég horfði á leik í enska, Borumouth-Liverpool 1:0, og brot úr öðrum leikjum dagsins. Prjónaði meira, kláraði bókina, horfði á þætti úr sarpinum og sinnti einnig hluta af því sem ekki má skrifa um. Skreið upp í rúm um hálfellefu, stuttu áður en bræður komu heim. Byrjaði á annarri bók af safninu; Sannleiks verkið eftir Clare Pooley.

11.3.23

Sjórinn 0,9°C í gær

Annan morguninn í röð var ég komin á fætur um hálfsex. Tveimur tímum seinna var ég komin í vinnu. Fyrirliðinn var mætt og sagðist vera búin að taka kerfið af niðri. Hún var að taka saman fyrstu framleiðslutölur svo ég stökk niður til að kveikja á vélinni. Ljósið fyrir ofan hurðina inn í hvelfingu var slökkt svo ég tók líka segularminn af. Þegar ég opnaði inn í kortadeild heyrðist mér eins og vekjaraklukka færi í gang og var að spá í hvort það væri sími á svæðinu en þetta var þá niðurteljarinn á öryggiskerfinu. Kerfið hafði ekki farið af framleiðsluherberginu. Ef ég hefði vitað þetta hefði ég náð að koma mér út áður en allt fór í gang. En það var svo sem ekkert hættulegt. Sá sem er í afgreiðslunni uppi slökkti á þessu og hafði samband við securitas. Til klukkan tíu var ég að að opna innleggspoka frá fyrirtæki sem er staðsett út um allan bæ en ég var með pokana úr Árbænum. Vel gekk að skanna, slá inn tölur, opna pokana, telja og skrá seðla og klink. Reyndar tókst mér að klippa í einn seðil þrátt fyrir að reyna alltaf að fara mjög varlega. Sá seðill og annan sem var smá sjúskaður tók ég til hliðar. Ég lærði svo hvernig klinkið er meðhöndlað sem og svona seðlar sem teknir eru til hliðar. Eftir kaffi fór ég yfir nokkra bunka sem önnur hafði sett inn. Um hádegi frétti ég að kortavélin, aðallega prentari og umslagavél voru að haga sér mjög illa í þessum kulda. Ég fór því niður þegar ég var búin að borða, leysti þá fjórðu af í mat og svo fyrirliðann og var svo með þeim að klára daginn. Dagurinn var alls ekki stór en það sem venjulega er hægt að komast yfir á ca tveimur tímum tók þrisvar sinnum lengri tíma. Við komumst því ekkert í að endunýja og vorum alveg til klukkan hálffjögur að klára. Hitastigið í herberginu var orðið nokkuð þokkalegt um það leyti og vonandi verður það til þess að allt gangi betur fyrir sig í næstu viku. Eftir vinnu fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Svamlaði í sjónum í ca þrjár mínútur og var svo tæpar tíu mínútu í heita pottinum áður en ég fór upp úr. Kom við í búðinni Belladonna áður en ég fór heim og keypti mér eins konar sumarkápu, fyrir íslenskt sumar. Notaði jólagjafakortið frá pabba og bætti svo við af bleika kortinu það sem vantaði upp á. 

10.3.23

Snemma á fætur

Klukkan var rétt byrjuð að ganga sex í gærmorgun þegar ég glaðvaknaði. Gerði tilraun til að kúra mig niður en hugurinn var kominn á fullt og spenningurinn fyrir nýjum verkefnum í vinnunni varð til þess að það þýddi ekki neitt. Klæddi mig því fljótlega í rólegheitum, fann til sunddótið, burstaði tennur, fékk mér sopa af þorskalýsi og notaði svo afganginn af tímanum til að vafra um á netinu. N1 sonurinn kom fra um hálfsjö og kvaddi tíu mínútum seinna. Ég lagði ekki af stað fyrr en rúmu hálftíma á eftir honum. 

Ég og fyrirliðinn byrjuðum á vélinni. Hinar tvær þurftu að reka smá erindi í byrjun dags en fyrrum fyrirliði fór í bókhaldið þegar hún mætti og sú fjórða leysti mig af rúmlega níu. Þá var visaframleiðslu lokið sem og talningu á þeim tegundum sem voru framleiddar. Ég fór upp og hitti á fyrirliðann yfir seðlaverinu því meiningin var sú að ég fengi að kynnast innlánunum. Ég fékk samt að byrja á því að fara í kaffi. Eftir kaffi Var ég skilgreind inn í kerfið. Tölvan mín var næstum tilbúin en það vantaði smá upp á að ég gæti skráð mig inn í fyrstu tilraun. Það tók ekki langan tíma að kippa því í liðinni og ég komst inn í næstu tilraun. Svo fékk ég alls konar dót í kringum mig og skildi þá fyrst hvers vegna skrifborðið mitt er svona stórt. Ætla ekkert að fara nákvæmlega út í málin skref fyrir skref. Allt gekk þokkalega fyrir sig en ég gerði þó ein mistök sem ekki komu fram fyrr en eftir á en hægt var að laga áður en var sent út. Fyrirliði seðlavers sagði að það væri bara til að læra af þeim og ég fékk í leiðinni að sjá mig í mynd í aðgerð sem sýndi hvað gerðist. Mikið sem ég geifla mig svipað og pabbi fyrir framan skjáinn. Það er bara fyndið að sjá það. Eftir hádegi fékk ég að læra hvernig maður fer yfir bunka hjá öðrum. Um hálfþrjú skrapp ég niður í kortadeild svo fyrirliðinn væri ekki ein þar. Fyrrum fyrirliði þurfti að fara og sú fjórða var í starfsmannasamtali. Kortavélin hafði víst mótmælt harðlega að ég lét mig hverfa fyrr um morguninn. Þær náðu aðeins að framleiða þetta daglega. Fyrirliðinn var búin að slökkva á vélinni og var að pakka og það átti eftir að útbúa póstmiða með því sem fer í póst í dag. Einnig átti eftir að telja og tæta. Ég fór upp með pakkið og póstinn og náði að útbúa póstmiðana áður en komið var að mér í starfsannasamtalinu. Sú fjórða fór beinustu leið niður í kort að hjálpa til við að telja og ganga frá vögnum inn á lager og loka deildinni. Viðtalið átti að taka um hálftíma en tíminn leið svo hratt yfir góðu spjalli við framkvæmdastjórann að klukkuna vantaði tuttugu mínútur í fjögur þegar við settum punktinn yfir i-ið í spjallinu. 

Ég fór beinustu leið yfir í Laugardalslaug. Hringdi í pabba áður en ég fór inn í klefa. Kalda potts vinkona mín var mætt og búin að fara eina ferð í kalda. Saman fórum við 4x4-5 mínútur og enduðum á góðu gufubaði. 

9.3.23

Sund og sá kaldi á köldum dögum

Í gærmorgun vaknaði ég við vekjaraklukkuna sem gerist alveg stöku sinnum. Var í miðjum draumi sem var gott að vakna af því það sem mig rámar í var að það stefndi í eins konar þrátefli í draumalandinu. Og þá er nú best að vakna bara og fara að takast á við daglega lífið. Var mætt í vinnu um hálfátta. Ég og fyrrum fyrirliði tókum að okkur framleiðsluna og var ég á móttökuendanum. Fyrirliðinn og sú fjórða sáu um bókhaldið, talningar og rannsóknarvinnu. Sú fjórða sá líka um að pakka. Daglegri framleiðslu lauk rétt rúmlega tólf. Áður en við fórum aftur niður eftir hádegið fengum við einn af snillingunum í net- og uppsetningarmálum úr K2, sem var á svæðinu, til að undirbúa tölvurnar okkar undir nýtt kerfi. Þá fer loksins að koma að því að við fáum að fara að kynnast betur á eigin skinni í hverju sum að störfum seðlaversins felast. Vorum komnar niður um hálftvö. Kláruðum talningu á seinni kortavagninum áður en við dembdum okkur í endurnýjun. Framleiddum ca einn fimmta af stærri endurnýjuninni sem bíður á vélinni. Hættum rétt fyrir þrjú og gengum frá deildinni. Ég var komin á planið við Laugardalslaugina um hálffjögur. Þar hitti ég kalda potts vinkonu mína sem var reyndar ekki að fara í sund heldur var á göngu um hverfið. Hún er ekki að kenna á miðvikudögum og fer þá í pottana um hádegið. Ég var komin heim um fimm eftir að hafa synt 300m, farið 3x3-4 mín í kalda, eina ferð í heitasta og endaði á góðu gufubaði.

8.3.23

Í framleiðslugír

Ég var mætt í vinnu á svipuðum tíma og venjulega. Fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni. Var að skoða fyrstu tölur þegar ég var spurð hvort ég gæti opnað ytri lásinn á hvelfingunni uppi. Fyrrum fyrirliði var mætt og tók við töluskoðuninni. Ég opnaði seinni talnalásinn (get líka byrjað), það þarf alltaf tvo til.  Svo fór ég inn í kaffi stofu með vatnsbrúsann og prjónana. Er byrjuð á tusku eftir munstri sem nefnist fjöllin. Fyllti á flöskuna og fékk mér smá kaffi. Vorum mættar allar fjórar stuttu fyrir átta. Ég lagði til að fyrirliði og fyrrum fyrirliði væru uppi og ég og sú fjórða í framleiðslunni. Það var samþykkt. Leyfði þeirri fjórðu að velja á hvorum endanum hún væri. Hún valdi móttökuendann. Allt gekk ágætlega en það komu þó ekki umslög sem okkur vantaði fyrr en um hádegi og það er enn hráefnisskortur í einni tegund en höfum fengið beiðni og leyfi til að framleiða á annað plast. Það komu 2x10 kassar (fyrir tvo banka) af umslögum á meðan við vorum í mat. Kláruðum daglega framleiðslu og allt pakk rétt rúmlega tvö. Kláruðum svo eina endurnýjun í debetinu, það voru reyndar bara tæp 200 kort eftir. Lögðum ekki í að byrja aðeins á kreditendurnýjun því þá hefðum við líklega klárað formin. Þau eru í pöntun og koma fljótlega en það þarf að eiga einhver fyrir daglega framleiðslu. Klukkan var að verða þrjú þegar við vorum búnar að ganga frá niðri og senda 6 póstkassa upp með annarri lyftunni. Í einum af þessum sex kössum var reyndar póstur í öryggisumslögum sem fara út í útibú í dag. Var komin í kalda pottinn um hálffjögur eftir að hafa hringt í pabba skömmu áður. Synti 300 metra og fór 2 aðrar ferðir í pottinn, eina í heitasta, eina í sjópottinn og endaði í gufunni. Ekkert stæði var í götunni þegar ég kom heim um fimm, kannski vegna þess að það var opið hús í kjallaranum. Lagði því bílnum í Blönduhlíð.

7.3.23

Kæling í sjónum er góð

Ég var mætt í vinnuna rétt upp úr klukkan hálf átta. Fyrst úr kortadeildinni. Byrjaði á því að fara niður og kveikja á kortavélinni. Fyrrum fyrirliði var mætt þegar ég kom upp aftur. Ég opnaði seinni læsinguna á ytri hurðinni á hvelfingunni uppi áður en ég fór svo inn á kaffistofu að fylla á vatnabrúsann, fá mér fyrsta kaffibollann og grípa aðeins í prjónana mína. Til stóð að ég myndi fara að læra inn á eitt af því sem fer fram í seðlaverinu, eitthvað sem er kallað innlán. En þar sem verið er að færa jcc kerfin alfarið yfir í rb og það ferli er á síðustu metrunum var ákveðið að fresta því námi fram í miðja viku. Fyrirliðinn bað mig því um að vera í bókhaldinu í staðinn. Hún sjálf fór í að taka saman tölur yfir ónýt kort og sinna ýmsu öðru. Sú fjórða og fyrrum fyrirliði tóku að sér framleiðsluna. Allt gekk ágætlega fyrir utan smá skort á hráefni í einu tilviki og umslögum í öðru. Hættum vinnu um þrjú. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvíkina og dembdi mér í 3,6°C sjóinn í tæpar tíu mínútur og annað eins í heita pottinn.

6.3.23

Kuldakast í kortunum

Vaknaði við vekjaraklukkuna stuttu fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Fyrsta sem ég hugsaði um leið og ég stillti á blund voru vangaveltur um hvers vegna ég hefði stillt á mig klukku á sunnudagsmorgni. Áður en vekjarinn hringdi aftur var ég búin að slökkva á honum og dreif mig á fætur. Fyrstu þrjú korterin vafraði ég aðeins um á netinu en ég var komin í sund um níu leytið. Var búin að fara tvær ferðir í þann kalda, synda 400 metra á bakinu og flatmagaði í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við fjórar ferðir í kalda, eina í gufu og svo hittum við á systur hennar í sjópottinum. Ég stoppaði stutt við þar. Fór upp úr um ellefu og þvoði mér um hárið. Einkabílstjórinn var kominn á fætur þegar ég kom heim um hálftólf. Ég hellti upp á könnuna og tók því rólega fram yfir eitt. Þá tók ég saman föt sem ég nýti ekki lengur eða eru orðin slitin. Það sem ég tók til komst í tvo gráa höldupoka. Gæti líklega vel fyllt einn til tvo svara ruslapoka í viðbót. Við Oddur skruppum svo vestur á Granda í Krónu og Sorpuferð með smá innkaupalista frá Davíð Steini sem er lasinn þessa dagana.  Vorum innan við klukkutíma í þessum erindagjörðum. Afgangurinn af deginum fór í fótboltaáhorf (Liverpool-Man. Utd. 7:0), prjónaskap og þáttaáhorf. 

5.3.23

Ekkert útstáelsi í gær

Ég var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun, skipti um á rúminu og tók til sunddótið. Það endaði svo með því að ég fór ekkert út í gær, aðeins þrjár ferðir í þvottahúsið. Ein þvottahúsferðanna var reyndar vegna tímsskynsleysi því þá voru enn rúmar tuttugu mínútur eftir af þvottaprógramminu. Þessi innivera kom að hluta til vegna mála sem ekki má skrifa um og kalla má tiltekt og þrif. En ég greip líka í bók og prjóna. Vafraði á netinu (óvenju lítið samt), hringdi í pabba og horfði á fótbolta og þætti. Bókin sem ég á enn eftir um 100 bls. af er sú eina sem ég skilaði ekki inn í ferðinni á safnið í liðinni viku; Elskhuginn eftir Helene Flood

4.3.23

Sjórinn 4,4°C í gær

N1 sonurinn hélt kyrru fyrir í gær. Hann var orðinn eitthvað slappur í fyrradag og ég vissi af því að hann ætlaði að taka amk einn heimadag af helgarvinnuvaktinni og var búinn að láta vita af því. Ég var mætt í mína vinnu upp úr klukkan hálfátta. Fyrirliðinn og ég tókum að okkur vélarvaktina, hún fór á móttökuendann og pakkið en ég á ítroðsluendann. Sú fjórða var í bókhaldinu og fyrrum fyrirliði í reikningagerðinni. Daglegri framleiðslu lauk um hádegi og eftir hádegi var ákveðið að klára frágang og talningar og hætta snemma. Ég var farin út úr húsi um tvö og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Það var stillt veður, fjara en þó ekki eins langt út í dýpi og á mánudaginn. Svamlaði um í fimm mínútur og var korter í heita pottinum á eftir áður en ég fór upp úr og heim. Bankaði upp á hjá Davíð Steini til að athuga með heilsuna hans. Hann sagðist hafa, að ráði spjalls á heilsuveru, skroppið á heilsugæsluna til að láta taka sýni til að athuga hvort hann væri með streptokokka. Hann átti að fá niðurstöðu um kvöldið. Hann var með einhverjar kommur en á fótum og að spila í tölvunni. Niðurstaðan reyndist sem betur fer neikvæð en samt skynsamlegast að halda sig heima við svo það lítur út fyrir að það verði engin skutlvakt um helgina.

3.3.23

Skattframtalinu skilað inn

Ég var mætt í vinnu um hálfátta. Byrjaði á því að fara niður og kveikja á kortavélinni. Þegar ég kom upp aftur snéri ég mér að því að undirbúa fyrstu tölur. Opnaði einnig ytri dyrnar á hvelfingunni uppi. Það þarf tvo til og get ég bæði byrjað og verið númer tvö. Aftur á móti getur sú sem opnaði með mér bara byrjað, eitthvað hefur klikkað þegar hún var stillt inn. Síðan var kominn tími til að fylla á vatnsflöskuna, fá sér fyrsta kaffibollann og grípa aðeins í prjónana. Ég var semsagt í bókhaldinu fram að hádegi og fyrirliðinn og fyrrum fyrirliði á vélinni.  Daglegur verkefnum lauk um hádegið en næsti skammtur af endurnýjun var kominn og búið að hlaða inn á vélina. Ég skipti við fyrrum fyrirliða, hún fór í reikningagerðina og mánaðamóta uppgjör og ég niður að byrja á endurnýjun með fyrirliðanum. Hættum framleiðslu um þrjú og gengum frá deildinni og hvelfingunni niðri. Þá vorum við búnar með um 800 kort af rúmlega 4000 korta endurnýjun. Ég fór beint heim því ég var búin að lofa því að koma bílnum heim ef einkabílstjórinn færi í Sorpuferð. Hann ákvað hins vegar að nota  við húsið en var líka að ryksuga þvotthúsið og sameignina upp að stigapallinum hjá nágrannanum fyrir neðan. Ég settist inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Klukkan var 16:43 þegar ég skilaði inn skattinum. Sem fyrr þurfti ég að lækka töluna í einum reit og færa mismuninn, sem var aðeins rúmlega sexþúsund krónur, í annan reit. Hefði getað fært inn heildarsummu þessa 11 lottovinninga sem ég fékk á árinu. Summan var rúmlega fimmtíuogsex þúsund því ég fékk einu sinni 4 rétta. En ég nennti ekki að hafa fyrir því að leita uppi kennitölu útgreiðenda. Þessir vinningar eru skattfrjálsir svo þeir ættu ekki að þurfa að fyllast inn. Geri ráð fyrir að ef um hærri vinningshæð væri að ræða þá kæmu þeir kannski sjálfkrafa inn, þ.e. ef útgreiðandi þarf að skila inn til skattsins. Það kom allavega í ljós í mínu tilviki að ég hef verið dugleg að styrkja hin og þessi málefnin og það gerir það að verkum að ég fæ smá skattaafslátt og á inni hjá skattinum. Fæ eitthvað til baka 1. júní n.k. en 1. júlí og 1. ágúst verða skuldfærðar á mig tæplega 7 þúsund í hvort skipti.

2.3.23

Aftur í sund

Ég var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta á sama tíma og fyrrum fyrirliði mætti. Fyrirliðinn var kominn og bæði búin að "heilsa" upp á vélina og undirbúa tölur fyrir fyrstu framleiðslu.  Við fórum því inni í kaffistofu. Ég fyllti á vatnsflöskuna og fékk mér tvöfalda espressó áður en ég settist niður með prjónana og kaffibollann. Verkefnum dagsins var svo skipt þannig að ég var í bókhaldinu, fyrrum fyrirliði í reikningagerð og mánaðamótauppgjöri og fyrirliðinn og sú fjórða í framleiðslunni. Allt gekk svo vel að þegar við hættum vinnu milli þrjú og hálffjögur var allt daglegt búið og einnig búið að klára endurnýjunina. Ég fór beint í sund. Byrjaði á því að hringja í pabba en fór svo beinustu leið í kalda. Þær ferðir urðu alls þrjár, synti einnig 300 metra þar af um 40 metra skriðsund. Úr sundi skrapp ég á safnið og skilaði af mér fjórum bókum af fimm. Það kom í ljós að bókasafnsskírteinið var útrunnið og lykilorðið líka, var sex tölustafir en þeir vilja hafa fjóra. Þessu var bjargað fyrir mig, ég endurnýjaði skírteinið og tók sex bækur með mér heim. Þar fyrir utan heilsaði annar íbúinn í kjallaranum mér með gögn sem gjaldkeri húsfélagsins þarf að fylla út. Þau er semsagt að fara að setja á sölu og hafa augastað á aðeins stærri íbúð í nágrenninu. Var búin að fylla út skjalið um hálfsjö. Nágranninn kom og sótti það og fékk tusku í kaupbæti. Ég gaf þeim tusku í innflutningsgjöf og sú tuska hefur verið mikið notuð.

1.3.23

Marsmánuður hafinn

Mætti í vinnuna um hálfátta. Sömu tvær uppi, önnur í bókhaldi og hin í mánaðamótareikningargerð. Við sem vorum niðri höfðum endaskipti á vélinni þannig að ég byrjaði að hlaða inn öllum skrám sem voru komnar og hin tók til í fyrstu framleiðsluna, rúmlega tvöhundruð kort í yfir þrjátíu tegundum. Klukkutíma eftir að við byrjuðum komu hinar niður og töldu allar tegundir í visa, framleiddar og óframleiddar. Þá vorum við að framleiða síðustu fimm tegundirnar og byrjuðum svo aðeins á debetkorta framleiðslunni áður en við fórum allar upp í kaffi og skiluðum af okkur fyrstu tösku. Eftir kaffi hlóð ég inn nýjasta endurnýjunar skammtinum sem var að koma nýju leiðina í allra fyrsta sinn. Hafði verið sendur til okkar á mánudaginn en fer ekki sjálfvirkt alla leið á vél heldur verður kerfisfræðingur að senda skammtinn til okkar. Kannski verður þetta svo still sjálfvirkt í framtíðinni eins og allt hitt sem er að fara nýju leiðina. Daglegri framleiðslu lauk fljótlega eftir hádegi, líklega um eitt leytið. Sú fjórða lauk við að pakka og svo dembdum við okkur í að framleiða hluta af fyrrnefndri endurnýjun. Kláruðum allar minni skrár en skildum þrjár þær stærstu eftir. Gengum frá kortadeildinni um tvö. Þá fór hin upp að aðstoða í öðrum deildum en ég beið eftir þeirri í bókhaldinu til að telja með henni síðasta skammtinn áður en við fórum með seinni kortavagninn og endurnýjunina inn á lager og læstum. Hætti vinnu rétt fyrir þrjú og fór beinustu leið í Laugardalslaug. Byrjaði á að hringja í pabba áður en ég fór inn, synti 300 metra og var í minni fjórðu ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fór tvær ferðir með henni áður en ég fór upp úr og heim.