28.2.23

Öldugangur

Vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Var á móttökuendanum á vélinni og sú fjórða á ítroðsluendanum. Fyrrum fyrirliði vann í reikningagerðinni en tók svo við bókhaldinu af fyrirliðanum sem tók sér frí eftir hádegi. Allt daglegt og endurnýjun sem kom til okkar 17. sl. var búið um tvö fyrir utan eitt kort í einni daglegri skrá. Sá sem skoðar þau mál var á fundi í K2 til þrjú. Við vorum ekki vissar um að hægt væri að "bjarga" þessu korti öðruvísi en að biðja um að það yrði pantað aftur svo við ákváðum að geyma þetta mál til morguns. Ég var mætt í Nauthólsvíkina rétt fyrir fjögur. Fjara, brim og sjórinn 3,8°C, bara geggjað að leika sér smá stund í öldunum. Eftir sjósundsferðina skrapp ég í Krónuna við Fiskislóð og notaði nýja bleika kortið mitt í fyrsta skipti. Veifaði því svo aftur þegar ég renndi bílnum í gegnum þvottatöðina Löður þarna skammt frá. 

27.2.23

Sunnudags-hittingur/saumaklúbbur

Gekk eitthvað illa að sofna almennilega í fyrrinótt. Sem betur fer stillti ég ekki á mig vekjaraklukku en ég var vöknuð rétt fyrir níu og ákvað að drífa mig beint í sund. Byrjaði á kalda pottinum, synti svo 400 metra á bakinu. Fór 3 aðrar ferðir í kalda pottinn. Kalda potts vinkona mín var að syngja við messu en ég hitti helling af fólki, m.a. sjósunds vinkonu mína, tvær úr "óþæga kórnum", yngstu mágkonu mömmu og nokkra fleiri. Þvoði mér um hárið þegar ég fór upp úr og var komin heim áður en klukkan sló tólf. Strákarnir sváfu fram á dag og þegar sá sem er í æfninga akstrinum kom loksins fram ákvað hann sjálfur að sleppa því að fara á rúntinn. Þeir bræður áttu að hitta pabba sinn og hans fjölskyldu í Egilshöllinni um fjögur leytið og ég var búin að lána þeim bílinn í þá ferð. Hafði samband við tvíburahálfsystur mína og það varð úr að hún kom og sótti mig um þrjú. Ákváðum að athuga hvort saumaklúbbsvinkona okkar væri heima. Vorum ekki búnar að hittast neitt síðan í nóvember. Og viti menn það var stæði beint fyrir utan hjá vinkonunni, hún var heima og mjög hissa en glöð að sjá okkur. Úr varð skemmtilegur hittingum og fyrsti saumaklúbbur ársins haldinn. Var komin heim aftur um hálfsjö. Ég var nýkomin heim þegar Davíð Steinn hringdi til að segja mér að þeir bræður væru á leiðinni heim og til að athuga hvort þeir þyrftu að sækja mig eitthvert.

26.2.23

Æfingaakstur út á land

Í dag eru akkúrat tveir mánuðir síðan við mæðgin fórum aftur heim eftir nokkra daga og gott atlæti á Hellu. Í gær var komið að því að skreppa í fyrstu heimsóknina þangað á árinu. Davíð Steini langaði að sýna afa sínum bílinni og prófa í leiðinni að keyra út fyrir höfuðborgina. Oddur Smári var til í að koma með en honum fannst frekar skrýtið að sitja í farþegasætinu fram í við hliðina á bróður sínum. Við lögðum í hann rétt fyrir klukkan hálftvö, ég sat aftur í fyrir aftan bílstjórann sem var að æfa sig. Það var þoka á heiðinni en bílstjórinn lét það ekki slá sig út af laginu og við vorum komin á Hellu rétt fyrir þrjú. Hittum aðeins á Bríeti og Bjarka en þau voru á leiðinni á árshátíð SS á hótel Selfoss og fóru fljótlega. Pabbi var búinn að búa til stafla af pönnsum og hella upp á kaffi. Eftir kaffi settumst við inn í stofu. Um fimm leytið setti pabbi upp saltfisk, kartöflur og rófur. Þegar suðan var að koma upp spurði hann Davíð Stein hvort hann ætlaði ekki að sýna sér bílinn. Þeir skruppu út í dágóða stund á meðan ég passaði upp á soðninguna og lagði á borðið. Afinn sýndi svo dóttursyninum nýjustu græjuna sína en hann er búinn að fjárfesta í smá snjóblásara fyrir næsta snjóáhlaup. Saltfiskurinn, rófurnar og kartöflurnar smakkaðist mjög vel og pabbi bauð svo upp á ís í eftirrétt. Um það leyti sem söngvakeppnin var að byrja í sjónvarpinu kvöddum við og héldum heim á leið í sömu sætum og við vorum í á leiðinni austur. Vorum komin heim rúmlega hálftíu. 

25.2.23

Kæling í sjó

Ég var vöknuð á undan vekjaraklukkunni eins og oftast áður í gærmorgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Enn voru eftir tólfhundruð kort af stóraverkefninu og svo var komið sérverkefni upp á rúmlega fimmhundruð kort sem samið var um að yrði framleitt fyrir hádegi. Ég var á móttökuendanum og fyrirliðinn á ítroðsluendanum. Við byrjuðum á því að klára fyrstu daglegu skrárnar. Vélin er farin að vinna miklu betur heldur en fyrstu vikurnar og til stytta sögu gærdagsins þá kláruðum við allt daglegt og þau verkefni sem lá mest á um það bil sjö tímum. Vorum búnar að ganga frá kortadeildinni og loka niðri um þrjú. Sendum sex póstkassa upp með lyftunni en fyrr um daginn var búið að senda annað eins. Það sem fór á undan fór út úr húsi í gær hitt fer strax eftir helgi. Lagði á planinu við Nauthólsvík um hálffjögur. Það var enn meiri fjara heldur en þegar ég fór á mánudaginn. Fór ekki lengra út í en upp á mið læri en var þá samt komin út fyrir garðinn. Sjórinn 2,9°C og afar hressandi að kæla sig í uþb fimm mínútur. Var komin heim um fimm. Fór ekkert út aftur en lánaði bræðrunum bílinn um tíu til að skreppa í bíó saman. 

24.2.23

Lítið eftir af febrúar

Var mætt í vinnu um hálfátta. Var á ítroðsluendanum á vélinni til hálftvö. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Ég hætti vinnu rétt fyrir þrjú og fór beinustu leið í sund. Hafði látið kalda potts vinkonu mína vita að ég myndi mæta um hálffjögur. Hún mætti á sama tíma og ég. Fórum sex ferðir í kalda pottinn 3-4 mínútur í senn. Gufan var lokuð vegna viðhalds svo við enduðum á því að flatmaga góða stund í sjópottinum. Synti semsagt ekkert. Kom við í AO við Öskjuhlíð. Þrátt fyrir að vera með lykilafslátt þar er bensínlíterinn fjórtán krónum hærri heldur en þegar ég tanka á AO við Sprengisand eða Kaplakrika. Klukkan var rétt byrjuð að ganga sex þegar ég kom heim. Fékk uppáhalds stæðið mitt, á horninu næst Lönguhlíð.

23.2.23

Yfirvinna

Þar sem N1 sonurinn tók aukavakt á stöðinni í Mosó milli klukkan fjögur og tíu í fyrradag ákvað ég að skutla honum upp á Gagnveg í gærmorgun. Ég var samt komin í mína vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn var mætt. Hinar tvær komu ekkert löngu síðar. Sú fjórða fékk að byrja í bókhaldinu. Ég sat með henni fram að kaffi. Hún var ekki komin með aðgang að sameiginlega póstinum svo ég áfram sendi henni póstana með öllum tölunum í. Eftir kaffi fór ég niður á móttökuendann á vélinni en fyrrum fyrirliði var upp til taks með þeirri fjórðu. Eftir hádegi fór ég á ítroðsluendann á vélinni og það má eiginlega segja að þar hafi ég svo verið með stuttum hléum alveg til klukkan átta. Daglegri framleiðslu og pökkun lauk um tvö leytið. Þá tók við endurnýjun debetplasts sem við hefðum viljað vera búnar að framleiða og senda frá okkur fyrir viku síðan. Um fjögurleytið hófst svo framleiðsla á endurnýjun sem kom til okkar í fyrradag og í gær. Sú endurnýjun hefði átt að koma til okkar fyrir amk þremur vikum síðan. Korthafar eru með kort sem gilda út mars en það er stefna hjá eigendum plastins að ný kort berist kúnna helst í byrjun þess mánaðar sem gömllu kortin renna úr gildi. Það varð því að samkomulagi að þessi framleiðsla yrði útseld tímavinna fyrir þrjá í kortadeild. Ein fékk því að fara heim eftir að allt daglegt var búið við hinar vorum til klukkan langt gengin í níu. Ég fékk reyndar að fara um hálfníu þegar búið var að loka og ganga frá niðri. 

22.2.23

Fimmtudagur

Var mætt í vinnuna um hálfátta, rétt á undan fyrrum fyrirliða. Vissum að báðar hinar væru í smá stússi og að önnur af þeim kæmi kannski ekkert. Ég útbjó aðeins allra fyrstu tölur og fór niður á móttökuendann. Sú fjórða kom og leysti mig af um níu leytið. Þá tók ég saman debet tölurnar, skráði lotur og setti inn í excel. Þarna var orðið ljóst að fyrirliðinn kæmist ekki. Við ákváðum því að skipta okkur í kaffi. Ég fór niður um tíu með tölur. Sú fjórða sagðist ætla að sleppa kaffi og ég bað hana um að leysa hina af og tók við móttökuendanum þar til sú var búin að fara í kaffi. Þegar hún kom niður aftur hjálpaði ég til við að pakka þar til klukkan var að verða ellefu. Það þurfti að vera búið að framleiða allt daglegt og pakka um tólf og okkur tókst það. Það var yfirferð á vélinni. Ég sat yfir "strákunum" á meðan hinar voru í mat. Og svo aftur frá klukkan rúmlega tvö til fjögur. Sú fjórða fékk að æfa sig í því sem eftir var af bókhaldsvinnunni, það var búið rúmlega tvö. Fór beint í sund en synti ekkert. Hitti á kalda potts vinkonu mína og fór fimm ferðir í kalda. Var komin heim um sex.

21.2.23

Tilsögn og æfingaakstur

Ég var mætt í vinnuna um hálfátta í gærmorgun. Ég byrjaði á því að opna hvelfinguna uppi með annarri samstarfskonu og skreppa einnig niður og kveikja á kortavélinni.  Þegar ég kom upp aftur var fyrrum fyrirliði mætt. Við ákváðum að græja allra fyrstu tölur, einungis framleiðsluna fyrir valitor og skreppa svo í kaffi. Sú fjórða var mætt nokkru fyrir átta og fyrirliðinn um átta en hún var á skutlvakt áður en hún kom. Ég tók að mér að setja þá fjórðu inn í bókhaldsstörfin en hinar tvær sáu um framleiðsluna. Sú fjórða gat opnað sinn aðgang að tölvunni við hliðina á minni en það kom strax í ljós að hún var ekki komin með aðgang að sameiginlega kortapostinum og síðar ekki heldur tveimur linkum sem við notum stundum. Við fundum samt leið til þess að hún gæti lært bæði með því að fá að gera sjálf, skrá niður punkta niður, spyrja mig og horfa á mig framkvæma sumt. Við vorum allavega komin niður í framleiðslu herbergið rúmlega níu með næstu framleiðslutölur og skjal til að telja fyrstu framleiðsluna eftir. Kennslan gekk þokkalega og sú sem er að læra að tileinka sér hlutina verður búin að ná tökum á þessu fljótlega og farin að kenna okkur hinum. Vinnu var lokið um hálfþrjú. Ég fór úr húsi um þrjú og beinustu leið í Nauthólsvík. Sjórinn 2°C og ég svamlaði um í rúmar þrjár mínútur. Var komin heim um fjögur. Rúmlega sex skruppum við Davíð Steinn á rúntinn í tæpa tvo tíma.

20.2.23

Og strax kominn mánudagur

Vaknaði mun fyrr en ég ætlaði mér. Vekjaraklukkan átti að hringja um hálfátta en um það leyti voru liðnir hátt í tveir tímar frá því ég slökkti á henni. Var klædd og komin fram um hálfjö. Rúmlega níu settum við Davíð Steinn skiltið á bílinn minn og hann fékk að skutla sér í vinnuna. Ég var komin í kalda pottinn í Laugardalslauginni fyrir tíu. Sat svo góða stund í sjópottinum áður en ég fór næstu ferð í þann kalda. Um hálfellefu fór ég loksins á braut átta og synti 500 metra bringusund á ca tuttuguogfimm mínútum. Fór tvær ferðir í viðbót í kalda og tíu mínútur í gufu í lokin. Hitti sjósunds vinkonu mína í klefanum þegar ég var að klæða mig aftur. Ég kom heim rétt fyrir tólf og fór ekkert út aftur. Dagurinn leið samt alveg ótrúlega hratt og var notaður mis skynsamlega. 

19.2.23

Sunnudagur

Var vöknuð mjög snemma og komin á fætur um sex leytið. Klukkutíma seinna fékk N1 sonurinn að keyra sig í vinnuna á mínum bíl. Vorum komin upp að N1 við Gagnveg klukkan hálfátta. Ég tók skiltið af bílnum og settist undir á meðan ég beið eftir fyrsta kaffibolla dagsins. Var komin á planið við Laugardalslaug rúmum tíu mínútum áður en opnaði og sat út í bíl fram yfir morgunfréttir. Fór í kalda pottinn í þrjár mínútur áður en ég synti sexhundruð metra á hálftíma, ýmist á baki eða bringu en fór eina ferð, 50m, á skriðsundi. Fór nokkrar ferðir í kalda pottinn og dreifði hinum ferðunum á 42°C, pottinn, sjópottinn og heitasta pottinn. Um hálftíu fór ég í gufu. Kalda potts vinkona mín var mætt á svæðið þegar ég kom úr gufunni. Fór með henni í mína síðustu kalda potts ferð áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Eftir sundið fór ég beinustu leið vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Hún var lasin og sagði pass við esperanto æfingum en hún bauð upp á graut og tvo bolla af kaffi. Stoppaði við hjá henni í uþb klukkustund áður en ég fór heim. Heima setti ég handklæði og þurrkustykki á forþvott og 60°, hlustaði á hádegisfréttir og fitjaði upp á og byrjaði á nýrri tusku á meðan, mynstur sem ég er búin að prjóna einu sinni áður, tígladans. Hringdi í tvíburahálfsystur mína, horfði á fótboltaleiki og hina og þessa þættina úr sarpinum.

18.2.23

Laugardagur

Svefninn var eitthvað slitróttur í fyrri nótt. Rumskaði um tvö leytið, alveg í spreng. Læddist á salernið í myrkrinu og til baka, eftir að hafa tæmt blöðruna, án þess að reka mig neins staðar í. Það tók mig einhverja stund að sofna aftur. Næst vaknaði ég um fimm leytið, alls ekki útsofin en mál að pissa. Gafst fljótlega upp á að reyna að kúra mig niður og var komin á fætur um sex. Davíð Steinn kom fram um hálfsjö og var farinn út tíu mínútum seinna. Ég var mætt í mína vinnu um hálfátta. Fram að kaffi vann ég við að gata og merkja ónýt kort frá því fyrr í mánuðinum. Yfirleitt gerum við þetta strax en þarna var um yfir hundraðogfjörutíu korta bunka að ræða. Þetta verk tók drjúga stund og ég sá eftir því að hafa ekki tekið með mér vatnsflöskuna niður því ég var niðri alveg þar til fyrstu framleiðslu var lokið og endaði á því að merkja við í föstudagstalningu á visa kortunum. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni því sú fjórða þurfti að fara í hraðbanka málin. Framleiðslu, pökkun, talningu og frágangi var lokið rétt fyrir klukkan hálfþrjú. Ég var mætt að planið við Laugardalslaugina um þrjú en byrjaði á því að hringja í pabba. Sat í kalda pottinum í minni fyrstu ferð þegar vinkona mín kom í sína aðra. Eftir næstu ferð hittum við á eina systur hennar og settumst smá stund með henni í 42°C pottinn. Eftir þriðju ferðina og gufubað hittum við systur hennar aftur í sjópottinum. Ég var komin upp úr og út í bíl um hálffimm. Hringdi þá í fyrrum samstarfskonu og jafnöldru. Hún var heima og meira en tilbúin að taka á móti mér. Stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma. Var komin heim fyrir sjö. Felldi draumaduluna af prjónunum síðar um kvöldið en á eftir að ganga frá endanum.

17.2.23

Óvissuferð

Einkabílstjórinn var kominn fram fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Tæpum hálftíma seinna skutlaði hann mér í vinnuna. Ég var aðeins með húslykla, lykilkortið úr vinnunni og draumaduluna í vösunum á vetrarúlpunni minni. Ég var á ítrosluendanum fram að hádegi. Vegna tilfærslna á kerfum deginum áður gátum við ekki prentað út og sett saman lista yfir framleiðslutölur fyrsta klukkutímann. Ég hlóð inn fyrstu verkefnunum og handskráði tegundir og fjölda.  Sú fjórða var með mér fram að kaffi hún tók til í tegundirnar eftir listanum mínum og fékk einnig að nota hann til að merkja við þegar hún tók á móti kortunum. Sú sem var í bókhaldinu kom með útprentaða lista um hálftíu akkúrat þegar við vorum búnar með skammtinn sem fer úr húsi klukkan tíu. Eftir kaffi þurfti sú fjórða að fara á hina vinnustöðina sína. Sú sem var í bókhaldinu kom með mér niður og taldi í debet tegundirnar og tók á móti framleiðslunni. Við náðum líka að framleiða megnið af hádegisskammtinum. Fyrirliðinn brá sér tímabundið í bókhaldið og kom niður með tölurnar áður en hún þurfti að skreppa aðeins úr húsi. Eftir hádegi var ég "föst" með nettæknimann við tölvuna mína að finna út úr því hvernig hægt væri að nota verkfæri í smá verk í allra síðasta sinn. Tengingin hafði dottið út við tilfærslurnar og breytingarnar. Það fannst út úr þessu á endanum.

Klukkan hálffjögur rölti ég með fyrirliðanum og einum til yfir í hinn endann á húslengjunni í sal sem tilheyrir húsfélaginu. Þangað mættu svo meirihlutinn af vinnuvélögunum sem hafa starfsstöðvar í Sundaborg og tækninmanninum var boðið með. Þrír leigubílar, einn sem tók átta manns, sóttu okkur um fjögurleitið og keyrðu okkur niður í bæ. Aðeins fjórir fóru á einkabílum. Það var tekið á móti okkur í LÍ við Austurstræti, starfsmannainnganginum, um hálffimm og næstu rúmu tvo tímana fengum við leiðsögn og fyrirlestur um húsið og málverkin sem ekki verður hægt að flytja með þegar flutt verður í nýju höfuðstöðvarnar. Enduðum í hringborðs/koníaksstofunni sem búin var til 2007 en lítur út fyrir að vera enn eldri. Klukkan að verða sjö þökkuðum við fyrir okkur og trítluðum yfir á Jómfrúna. Sendi einkabílstjóranum sms og hann sótti mig þangað korter yfir átta. Við skutluðum þremur af samstarfsmönnum mínum í Sundaborg áður en við fórum heim.

16.2.23

Tilraun

Í fyrrinótt svaf ég frekar stutt, slitrótt og illa. Hluti af því var líklega bland af stressi og spenningi. Eftir smá vangaveltur og umhugsund síðast liðnar vikur ákvað ég að demba mér út í djúpu laugina og gera eitthvað sem gæti mjög hugsanlega haft eitthvað nýtt í för með sér. Um hálftíu á þriðjudagskvöldið sótti ég um reikning hjá nýjasta sparisjóðnum, valdi lit á korti og ég veit að í gærmorgun var framleitt á mig bleikt kort. Reikningurinn varð strax virkur og ég hefði líklega getað fundið út úr því að virkja kortið í símanum til að byrja að nota það strax. Og það voru strax sýnilegar kröfurnar um þá reikninga sem greiða á næst. Mér liggur ekkert á því að byrja að nota þennan reikning og greiðslumáta. Millifærði þó tvisvar sinnum hundrað þúsund krónur af Auka- og ferðasparireikningunum mínum í Landsbankanum. Hugsunin hjá mér er að minnka notkunina á kreditkortinu og einnig að sleppa við færslugjöld eins og reiknast í hvert sinn sem debetkorti úr banka er notað. Enda hef ég ekki notað debetkortið mitt í langan tíma nema þá örfáu sinnum sem ég þarf lausafé en ef maður nota hraðbanka sem merktir eru plastinu þarf maður ekki að borga færslugjöld.

Annars var ég mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Var í rannsóknar verkefnum til að byrja með en upp úr hádeginu tók ég við af þeirri sem var í bókhaldinu. Framleiðslan var ekki mjög mikil en það teygðist aðeins á henni. Lokuðum kortadeildinni og gengum frá niðri rétt fyrir þrjú. Ég vann hálftíma lengur að smá bókhaldsverkefnum. Í skottinu á bílnum mínum var ég bæði með sund og sjósundsdót. Ég byrjaði þó á því að renna við í AO við Sprengisand og fylla á tankinn. Það tó smá tíma að komast þangað en það var lítil sem engin röð og ég komst strax að á einni dælunni. Eftir áfyllinguna keyrði ég Bústaðaveginn, mikið að spá í hvort ég ætti að fara í sjóinn eða ekki. Það síðarnefnda varð ofan á og ég fór beint heim. Hringdi í pabba um fjögur leytið. Klukkutíma seinna skruppum við Davíð Steinn í smá æfingaakstur á hans bíl og komum aðeins við í Krónunni við Fiskislóð og Orkunni í Öskjuhlíð.

15.2.23

Rétt eða rangt

Í gær var afmælisdagur æskuvinkonu minnar. Það kom líka í ljós að mamma þeirrar fjórðu átti afmæli í gær og það afmælisbarn gærdagsins er aðeins ári yngri en við vinkonurnar. Var annars mætt í vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn og sú fjórða fóru fyrst á vélarvaktina (hvað eru mörg eff í því?). Ég var í rannsóknarvirnnu og aðstoðaði einnig aðeins við bókhaldið. Eftir kaffi leysti ég fyrirliðann af á ítroðsluendanum á meðan hún skutlaði dóttur sinni í flug norður, námstengt. Fyrirliðinn var komin aftur rétt fyrir ellefu. Eftir hádegi leysti ég þá fjórðu af á móttökuendanum á meðan hún æfði sig í að pakka kortum sem fara í útibú. Fengum fjögurra daga uppsafnaðan framleiðsluskammt, nýju leiðina, frá einum bankanum um hálftvö. Það voru um þrjúhundruð kort. Framleiðslu og frágangi var lokið stuttu fyrir þrjú. Fór út af vinnustað skömmu síðar og beinustu leið í sund. Þegar ég var komin á planið við Laugardalslaugina byrjaði ég á því að hringja i æskuvinkonu mína og spjallaði við hana í rúmar tíu mínútur. Klukkan var því orðin hálffjögur þegar ég fór í fyrstu ferðina af fjórum í þann kalda. Þar hitti ég fyrir hóp af fólki sem hafði akkúrat verið að minnast á mig. Í þessum hópi var kalda potts vinkona mín í sinni fyrstu ferð í þann kalda. Eftir fjórðu ferðina elti hún mig í gufuna hún fór svo úr gufunni 1-2 ferðir í viðbót í heita og kalda. Ég fór hinsvegar upp úr og heim. Ég var að spá í að fylla á tankinn þótt hann sé en rúmlega hálfur en ég ákvað að bíða með það. Skv. N1 syninum var brjálað að gera og bara á hans stöð við Gagnveg, seldist 3x meira af bensín og dísel heldur en þá daga sem kallast "mikið að gera". Þetta er alger klikkun en vonandi leysist úr samningaflækjunni milli Eflingar og SA áður en allt verður fast og fer í bál og brand. 

14.2.23

Alveg nóg að gera

Ég mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Tók að mér bókhaldið. Lítil framleiðsla var gömlu leiðina en þó nokkur nýju leiðina, mest fyrir "ekki bankann" en það kom ekkert nýju leiðina fyrir einn af bönkunum og hefur ekki skilað sér þá leiðina í þrjá virka daga. Það er sennilega eitthvað bogið við það svo ég á alveg eins von á því að það verði stórar skrár sem koma þegar þetta mun skila sér. Framleiðslu á form og í umslög lauk um hálfeitt. Um eitt leysti ég af á vélinni með þeirri fjórðu. Leyfði henni að æfa sig í að pakka þeim kortum sem fara í öryggispokum í útibú. Hinar og tvær til fóru í það verkefni að farga ónýtum kortum sem hafa verið að safnast upp frá því áður en við fluttum úr Seðlabankanum ásamt tveimur sem komu úr K2. Förgunin tók styttri tíma en ég bjóst við en þó einn og hálfan tíma. Henni var lokið á undan framleiðslunni eftir hádegi og afleysingu minni á vélinni lauk milli hálfþrjú og þrjú. Allt var búið rétt fyrir fjögur. Ég stimplaði mig út skömmu síðar og fór beint í sund. Synti reyndar ekkert en fór tvisvar í kalda, eina ferð í gufu og endaði í sjópottinum í smá stund áður en ég fór upp úr og heim.

13.2.23

Ný vinnuvika

Þrátt fyrir að ég stillti ekki ekki á mig vekjaraklukku var ég vöknuð um hálfátta leytið í gærmorgun. En þá var ég líka búin að sofa tæpa átta tíma en ekki rúma fjóra eins og nóttina á undan. Ég fann að ég var útsofin og dreif mig á fætur. Var ekki með neina sérstaka áætlun í huga. Gufan var lokuð í Laugardalnum á laugardaginn og þótt ég hefði getað farið í aðrar laugar ákvað ég að fara hvergi. Skipti um á rúminu, vafraði á netinu, prjónaði og las til klukkan að verða tíu. Þá setti ég loks í þvottavél og kveikti svo á sjónvarpinu. Hellti upp á kaffi um ellefu, á mjög svipuðum tíma og ég hafði gert á laugardaginn. Strákarnir rumskuðu ekki fyrr en um tvö leytið. Þegar Davíð Steinn var búinn að elda sér nesti fyrir komandi vinnuvaktir og fá sér að borða fórum við í klukkutíma rúnt á bílnum hans með skiltið aftan á og mig í farþegasætinu. Komum til baka um hálffjögur. Hengdi upp þvottinn. Skömmu seinna lánaði ég bræðrunum bílinn minn. Þeir fóru ferð í Sorpu og svo í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu hans.

12.2.23

Sunnudagur

Í gærmorgun var ég búin að kveikja á náttborðs lampanum milli fimm og hálfsex og farin að lesa. Fór á fætur um sex leytið og notaði tímann til klukkan að verða átta til vafra um á netinu og setja inn færslu dagsins. Var komin í sund og á braut sex tuttugu mínútum yfir átta. Synti 400 metra, þar af um 250 á bakinu. Það tók mig tæpar tuttugu mínútur. Fór í kalda pottinn í 3 mínútur. Gufan var lokuð svo ég fór beint í sjópottinn í nokkrar mínútur áður en ég fór aftur í kalda pottinn í aðrar þrjár mínútur. Eftir nokkrar mínútur í heitasta pottinum ætlaði ég aðeins að dýfa mér í kalda. Sú dýfa varð að tveimur mínútum. Settist svo á stól úti við í smá stund áður en ég fór inn í sturtu og að þvo mér um hárið. Þegar ég kom heim greip ég í prjónana mína í smá stund. Er langt komin með tuskuna kaðladans. Bætti einum kaðli við munstrið og hafði gatamunstrin á endunum í mismunandi skáa og röð. Fór eftir bókinni í fyrra tilviki og hafði skáa til hægri en í hinum endanum hafði ég skáa til vinstri og byrjaði fyrst á að slá band um prjóninn áður en ég tók eina óprjónaða sem ég steypti yfir næstu prjónuðu lykkju og prjónaði þrjár lykkjur sléttar. Eftir smá prjónastund var komið að lestrarstund. Er byrjuð á annarri bókinni af fimm af safninu; Dóttir Mýrarkóngsins eftir Karen Dionne. Ég er nú búin að lesa tæplega þriðjunginn af rúmlega 300 blaðsíðum. Ég horfði líka á þætti og fótbolta í sjónvarpinu. Um hálfsex leytið skrapp ég með Davíð Steini á rúntinn í rúma klukkustund. Hann fór m.a. á vinnustaðinn sinn og keypti sér sköfu og svo á fyrrum vinnustaðinn N1 í Kópavogi til að skoða breytingarnar á þeirri stöð. Á báðum tilvikum þekkti hann þá eða þau sem voru á vakt.

11.2.23

Lokaðar inni í smá stund

Ekkert verður af aukavinnunni nema ég er nokkuð viss um að n.k. mánuvinnudagur verði svolítið lengri í annan endann. En ég var mætt í vinnu um hálfátta í gærmorgun, fyrst af fjórum. Tvær af hinum komu fljótlega og sú fjórða var mætt fyrir klukkan átta. Verkefni dagsins röðuðust vel niður. Venjulegi framleiðsludagurinn var ekki svo stór en það var nokkuð mikið framleitt fyrir nýjasta sparisjóðinn. Samt ekki stærstu skrárnar sem við höfum séð frá þeim. Ég dembdi mér í að gera tilraun til að raða visa bókhaldinu upp eftir bönkum. Tilraunin tókst vel og var ákveðið að halda inni breytingunum. Búið var að framleiða og telja fyrsta skammtinn upp úr klukkan hálftíu og sá vagn settur inn í hvelfingu. Fljótlega eftir kaffi fór ég inn á kortalager með fyrirliðanum. Hún til að halda áfram merkingum en ég raðaði lagernum fyrir visa kortin eftir nýbreyttu bókhaldinu. Framleiðslunni lauk fyrir klukkan tvö. Fyrirliðinn var þá tekin við að klára að pakka. Fyrrum fyrirliðinn fór í að tæta en sú fjórða kom með mér inn á lagerinn með seinni vagninn. Líklega hefðum við átt að tilkynna hinum tveimur að við ætluðum að raða visakortunum á vagni eftir breyttu bókhaldinu. Við vorum hálfnaðar með verkefnið þegar við heyrðum smá dynk fyrir utan og skömmu síðar varð allt svart og kerfið fór í gang. Fyrirliðinn hélt að við værum farnar, hafði sett læsinguna á hurðina og svo kveikt á kerfinu áður en hún fór út úr húsi. Ég hringdi í hina og hún gat sagt þeim sem var í afgreiðslunni að við værum tvær læstar inni á kortalagernum. Hann tók kerfið af og hringdi í securitas en hún kom niður, tók læsinguna af og bankaði. Við hleyptum henni inn til okkar því við vorum ekki alveg búnar að raða kortunum sem dreifðust í báða vagnana. Engir kortakassar upp á visavagninum eða upp á hlið í hillunum inni í vögnunum. Visa vagninn er fullur en það er enn smá pláss í blandaða vagninum. Við þrjár pössuðum svo upp á að engin yrði eftir inni þegar við fórum út af lagernum og settum lásinn aftur á. Ég var komin út af vinnustaðnum rétt fyrir þrjú og fór beinustu leið heim þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér í skottinu. Hringdi í pabba úr heimasímanum og spjallaði við hann í góðar tíu mínútur. Restin af deginum fór í alls konar dútl; netvafr, þáttaáhorf, prjón, lestur og ég fylgdist líka með gagni í leik KA og Vals í handbolta karla á mbl.is.

10.2.23

Líklega aukavinna framundan

Síðan heimalínan komst í lag hef ég aftur komist inn í facebook leik sem sennilega er einn af mestu tímaþjófunum mínum. Ætla ekki að hætta í leiknum en verð vonandi meðvitaðri um tímann, að ég fari ekki yfir ákveðin mörk. Annars var ég mætt í vinnu um hálfátta í gærmorgun. Ég og sú fjórða vorum á sömu vinnustöðvum á framleiðsluvélinni. Daglegri framleiðslu lauk um eitt og eftir talningu og pökkun settum við endurnýjun í gang sem við vorum byrjaðar á fyrr í vikunni. Kláruðum það sem var eftir og gengum frá deildinni þegar klukkan var byrjuð að ganga fjögur. Stimplaði mig út um hálffjögur og fór beinustu leið í Laugardalslaugina. Hitti strax á kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum, hún í sinni annarri ferð. Við fórum tvær ferðir í þann kalda, eina í heitasta pottinn og svo elti hún mig í gufuna. Ég fór svo smá stund í sjópottinn en ég held að hún hafi farið tvær þrjár ferðir í viðbót í kalda pottinn. Hún sagðist vera búin að sakna mín mikið og var mjög glöð að hitta mig þótt ég væri bara stutt á svæðinu. Sleppti sundinu sjálfu og var komin heim um fimm leytið. Varðandi titil dagsins þá skrifa ég um það í færslu morgundagsins. 

9.2.23

Ein af safnbókunum á náttborðinu

Var mætt í vinnu um hálfátta í gærmorgun. Aftur fyrst af okkur fjórum. Sá um móttökuendann á vélinni og leiðbeindi þeirri fjórðu og hjálpaði ef hún spurði. Hún er búin að fá að æfa sig á að hlaða inn verkefnum og senda þau af stað á ítroðsluendanum síðan á föstudaginn var og fær að æfa sig út vikuna. Hún stendur sig gríðarlega vel og þrátt fyrir að eiga eftir að setja sig betur inn í bókhaldið og fá að taka svona æfingu þar þá fer líklega ein af okkur hinum þremur að fara á aðra vinnustöð innanhús og læra og æfa eitthvað alveg nýtt í heila viku fljótlega. Við ætlum allar þrjár að fá að setja okkur inn í eitthvað af þeim störfum sem fór fram í þessu húsi áður en kortadeildin bættist við. Það er talað um sjö hlutverk. Hvort við lærum inn á einn eða fleiri mun svo bara koma í ljós með tíð og tíma en það er gríðarlega mikilvægt upp á sveigjanleika og geta sett á sig fleiri en einn hatt til að geta leyst af í veikindum og fríum ef svo ber undir. Var í vinnu til klukkan að verða fjögur. Fór þá beinustu leið heim þrátt fyrir að vera með sjósundsdótið með mér. Ákvað að gera loksins eitthvað í því að fá són á heimalínuna og fékk góða aðstöð í gegnum síma úr þjónustuveri símans. Hringdi svo í pabba úr heimasímanum um fimm leytið. Annars lauk ég við tuskuna óróa og fitjaði upp á kaðladansi, horfði á Kiljuna, seinni hálfleikinn í bikarleik kvenna í handbolta milli Fram og Vals og einn þátt úr sarpinu af "mínum lista". Fór ekki inn í rúm fyrr en eftir ellefu fréttir og tók þá loksins bækurnar fimm upp úr bókasafnspokanum. Byrjaði á að lesa; Líkvaka eftir Guðmund S. Brynjarsson. Um tvöhundruð blaðsíðan bók og strax búin með yfir sextíu blaðsíður.

8.2.23

Mið vika

Rumskaði um þrjú leytið í fyrrinótt. Veit ekki afhverju en einhverra hluta vegna gekk frekar illa að sofna aftur. Um fjögur leytið skrapp ég fram á salerni. Þegar ég kom inn í rúm aftur ákvað ég að stilla vekjarann á tíma sem er rúmum tuttugu mínútum síðar en sá sem ég vel alla jafna alltaf kvöldin fyrir virku vinnudagana. Sofnaði loksins aftur en var vöknuð á tíma sem var mitt á milli umtalaðra tímastillinga. Þurfti að sópa af bílnum en veður og færð var alveg í lagi þrátt fyrir að appelsínugula viðvörunin væri enn í gildi. Mætti í vinnu um hálfátta. Var aftur í bókhaldinu. Þeirri vinnu lauk milli klukkan eitt og hálftvö. Leysti þá af á móttökuendanum á vélinni til klukkan langt gengin í þrjú. Gengum frá deildinni og rúlluðum læstum kortavögnunum inn í kortahvelfingu. Þá fréttist af því að kortasending væri á leiðinni frá Keflavík með securitas bíl og vörðum. Hinar þrjár þurftu allar að vera mættar annað fljótlega en sem betur fer var kerfisfræðingurinn okkar á svæðinu og ekkert að fara strax. Hann er eini fyrir utan okkur fjórar með aðgang að kortahvelfingunni og það þarf tvo til að komast þar inn. Ég var ekki með neitt planað eftir vinnu og tók að mér að bíða eftir kortunum. Sá vinnur í afgreiðslunni uppi og stjórnar umferðinni um móttökuskúrana var líka á svæðinu. Hann átti einnig von á sendingu í hvelfinguna uppi og hún má bara vera opin ef amk tveir eru á svæðinu. Svo þetta dæmi gekk alveg upp. Upp úr klukkan hálffjögur komu þrír bílar með sendingar. Aðeins einn bíll má vera inni í einum í hvorum skúr. Sem betur fer var einn bíllinn aðeins minni en hinir tveir og var honum hleypt inn í minni skúrinn. Kerfisfræðingurinn kom með mér niður að taka á móti nokkrum innsigluðum pokum af kortum sem höfðu verið settir á tvo hjólavagna. Við rúlluðum þessu alla leið inn í kortahvelfingu. Ekki mjög löng leið en innri skúrhurðin (inn í húsið) þurfti að lokast áður en hægt er að opna millihurð inn í ganginn milli kortadeildar og kortahvelfingar. Og sú hurð þarf að lokast áður en hægt er að opna hvelfinguna. Þetta gekk samt vel fyrir sig. Kerfisfræðingurinn var ekki að fara alveg strax svo þeir voru tveir á svæðinu, hann og afgreiðslustjórinn. Ég mátti hins vegar fara og fór beinustu leið heim. Eftir sjónvarpsfréttir skruppum við Davíð Steinn í um klukkustundar æfingar akstur.

7.2.23

Vetrar-veður

Svaf þar til vekjarinn hringdi í gærmorgunn og þá smellti ég einu sinni á blund takkann. Sofnaði ekki aftur en lá líklega í svona þrjár mínútur áður en ég slökkti alveg á vekjaranum og fór á fætur. Var mætt í vinnuna um hálfátta, fyrst af okkur fjórum úr kortadeild. Ég var í bókhaldinu. Smá mánudagur var í framleiðsluvélinni svo fyrsta framleiðsla tafðist um þrjú korter. Skiptum okkur í kaffi og mat og létum vélina ganga alveg til klukkan langt gengin í þrjú. Þá var búið að framleiða yfir ellefuhundruð dagleg kort og sennilega á fimmta hundrað kort endurnýjuð. Ég var komin í sund rétt rúmlega þrjú. Fór beinustu leið í kalda pottinn í rúmar tvær mínútur, tíu mínútur í gufu og korter í sjópottinn áður en ég fór upp úr. Synti semsagt ekki neitt. Næst lá leiðin á bókasafnið. Skilaði þremur bókum sem áttu aðeins einn dag eftir af 60 daga útláni. Lauk aldrei við eina af þessum bókum, var uþb hálfnuð þegar ég fór að lesa tvær aðrar bækur sem ég á sjálf og voru búnar að bíða mis lengi eftir athygli. Tók fimm bækur af safninu og fór svo heim. Var búin að vera heima í um hálftíma þegar Bríet frænka hringdi í Davíð Stein. Hún var alveg að koma í bæinn, þurfti að skreppa í Elko til að kaupa sér nýjan síma. Davíð Steinn er með afslátt í Elko og frænkuna langaði líka til að skreppa með honum á hans bíl svo ég fór með þeim út á Granda. Skrapp þá sjálf aðeins í Krónuna í leiðinni. Þegar við komum til baka elda Davíð Steinn fyrir frænku okkar og hjálpaði henni að setja upp nýja síman og færa allt yfir af þeim gamla sem var skringilega skaddaður. Skjárinn skiptist í miðju með rauðri lóðréttri línu og ekkert hægt að sjá á annan helminginn. Bríet kvaddi um átta leytið og fór beinustu leið austur aftur.

6.2.23

Á blund-takkanum

Svaf til klukkan að byrja að ganga níu í gærmorgun. Korter yfir níu lögðum við sonurinn af stað upp á Gagnveg, skiltið á bílnum ég í farþegasætinu fram í og Davíð Steinn í bílstjórasætinu. Úti var grátt og blautt og svolítil hraðferð á logninu. Ferðin gekk þó mjög vel fyrir sig. Ég ákvað að þyggja kaffi út í bíl áður en ég fór aftur beinustu leið heim. Hugsanlega hefði ég haft gott af því að skreppa aðeins í sund og gufu en ég ákvað að skrópa í gær. Fór ekkert aftur út en horfði á einn leið í enska, nokkra þætti af ýmsu efni, m.a. fyrsta þáttin af "Stormur" og svo númer tvö af átta þegar hann fór í loftið eftir fréttir og Landann. Prjónaði slatta af nýjustu tuskunna á prjónunum og hringdi líka í pabba. 

5.2.23

Sunnudagur

Var vöknuð og komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu hafði ég ágætan tíma til að vafra aðeins um á netinu. Tíu mínútum yfir sjö lögðum við mæðgin af stað. Ég setti skiltið um æfingaakstur á skottlokið fyrir ofan númeraplötuna og settist í farþegasætið fram í á mínum bíl. Í Ártúntbrekkunni kom smá hríð og skyggnið varð aðeins verra en Davíð Steinn komst vel í gegnum þá prófraun. Rétt fyrir hálfátta vorum við komin upp á N1 við Gagnveg. Ég tók skiltið af bílnum, færði mig í bílstjórasætið og hinkraði eftir að sonurinn færði mér kaffibolla. Var komin á planið við Laugardalslaugina tæpu korteri áður en opnaði. Sat út í bíl, kláraði kaffið og hlustaði á morgunfréttir áður en ég fór í sund. Synti 400m, þar af 350 á bakinu. Fór eina ferð, þrjár og hálfa mínútur í kalda pottinn, tíu mínútur í gufu og aðrar tíu í sjópottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Kom heim um hálftíu. Klukkutíma seinna setti ég í eina þvottavél og skrapp svo í smá stund vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Við slepptum esperantóinu en ég þáði hjá henni graut og kaffi. Var komin heim aftur um hálftólf. Fór ekkert aftur út. Aðeins eina ferð í þvottahúsið til að hengja upp. Kláraði að prjóna eina tusku og fitjaði upp á annarri, óróa, úr bókinni sem ég fékk í jólagjöf. Horfði á fótboltaleiki og nokkra þætti. Las og kláraði bók sem ég gaf sjálfri mér; Gauksunginn eftir Camillu Lackberg. Byrjaði á þeirri bók fyrir meira en viku.

4.2.23

Grand, pass eða nóló

Vaknaði upp úr klukkan sex í gærmorgun. Mætti til vinnu um hálfátta. Ég og sú fjórða vorum á vélarvaktinni og að þessu sinni var hún allan daginn á ítroðsluendanum. Var henni innan handar á meðan hún var að hlaða inn fyrstu verkefnum dagsins. Svo ákvað hún sjálf að framleiða aðeins eina tegund í einu sem mér fannst mjög skynsamlegt. Hægt er að framleiða þær tegundir saman sem er hlaðið inn eins en þeim fer nú reyndar fækkandi í flestum verkefnum hjá okkur því breytingar og frávik frá plasti gera það að verkum að búa þarf til ný "load" fyrir margar af tegundunum. Klukkan var orðin tíu þegar við skruppum upp í kaffi. Þá vorum við búnar með fyrsta verkefnið og langt komnar með að telja. Urðum að loka og læsa öllu því það komu gestir úr einum bankanum í hús og alla leið niður á gang. Þótt þeir mættu ekki koma inn í framleiðslurýmið mátti heldur ekki vera neitt í gangi þar inni. Vorum langt komnar með debet daginn þegar við skruppum í mat um tólf. Framleiðslu lauk um tvö og búið var að telja, pakka og ganga frá deildinni rétt fyrir hálfþrjú. Þá átti sú sem var í bókhaldinu bara eftir að útbúa póstmiða með þeim kortum sem voru að fara í póst en ekki útibú. Ég stimplaði mig út korter fyrir þrjú. Var með sunddótið með mér en í stað þess að drífa mig í sund burraði ég alla leið inn í Hafnarfjörð á AO við Kaplakrika og fyllti á tankinn. Það var rigning og mikil bleyta og vatnselgur sums staðar á leiðinni og umferðin farin að þyngjast. Kom heim fyrir klukkan fjögur. 

3.2.23

Rúmlega sex

Það þurfti að sópa af bílnum í gærmorgun en það tók svo sem enga stund því snjórinn var ekki fastur á. Hins vegar var ég ekki skynsöm í skóvali þótt það hafi sloppið til í gærmorgun. Slabbið, krapið og rennandi vökvinn var þannig að það var betra að stíga varlega til jarðar og ekki hvar sem er. Var mætt í vinnu um hálfátta. Um átta fór ég niður með fjórðu manneskjunni. Höfðum sama háttinn á. Ég byrjaði á ítroðsluendanum og var þar fram að kaffi. Vorum í miðju kafi þegar öryggiskerfið fór allt í einu á. Þá var viðgerðarmaður búinn að "brjóstast" inn til okkar um neyðarhurðina. Þessi maður var að leita að myntherberginu og hafði ekki komið síðan kortadeildin bættist við. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Þegar daglegri framleiðslu var lokið, sem var yfir ellefu hundruð kort, skiptum við aftur um enda. Áttum aðeins eftir um tvöhundruð kort af níuhundruð í endurnýjun þegar við urðum að pakka saman. Klukkan var orðin þrjú. Við höfðum ætlað að klára þessa endurnýjun en urðum að víkja fyrir manneskju sem kom til að setja upp rakamæla í herbergið. Ekki má vera með framleiðslu í gangi á meðan utanað komandi aðilar eru á kortagerðarsvæðinu. Ég var því að labba út af vinnustaðnum um hálffjögur. Fór beint heim. Um átta leytið um kvöldið skrapp ég svo með Davíð Steini sem farþegi í hans bíl í klukkutíma æfinga akstur.

2.2.23

Aðeins lengri vinnudagur

Var vöknuð um sex í gærmorgun og er því greinilega að komast í ákveðna rútínu aftur. Mætti í vinnuna um hálfátta. Ég byrjaði á ítroðsluendanum fram að kaffi. Fjórða manneskjan var með mér. Eftir kaffi fékk hún sinn eigin aðgang að framleiðsluvélinni og við skiptum um stað. Fyrirliðinn leysti mig af í mat rétt fyrir tólf en um það leyti fór vélin að vera með smá vesen. Um hálftvö leytið skiptum við yfir í nýjustu kortin fyrir  nýjustu sparisjóðina sem auglýsa mikið þessa dagana. Höfum verið að framleiða fyrir þá tvo daga í viku en nú vilja þeir fara að fá kortin sín daglega. Framleiddum síðast fyrir þá á mánudaginn og þá voru þetta innan við þrjátíu kort. Í gær var heildarfjöldinn hátt í tvöþúsundogsjöhundruð kort. Þessi kort fara ekki á nein form, þeim er pakkað annars staðar, en við vorum nú samt tæpa þrjá tíma að framleiða þennan helling. Klukkan var því um hálffim þegar ég fór heim úr vinnu. Umferðin var orðin þyngri og ég tæpu korteri lengur á leiðinni heim. Bræðurnir fengu lánaðan bílinn til að fara í eina sorpuferð og Davíð Steinn notaði tækifærið og verslaði inn fyrir sjálfan sig í leiðinni. Við mæðgin fórum ekki á rúntinn í æfingaakstur í gærkvöldi. Held að hvorugt okkar hafi nennt.

1.2.23

Febrúar mættur

Vaknaði um sex leytið í gærmorgun. Mætti í vinnu rétt rúmlega hálfátta. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og sú sem var í fríi á mánudaginn var á móttökuendanum. Sú þriðja í bókhaldinu og sú fjórða í mánaðamótaverkefnum á hinni vinnustöðinni sinni. Dagleg framleiðsla var eitthvað um níuhundruð kort, helmingi fleiri heldur en daginn áður. Samt var þeirri framleiðslu lokið rétt rúmlega tólf. Það var hins vegar verið að pakka alveg til klukkan eitt. Á meðan ég var í mat komu viðgerðarmennirnir í yfirferð á vélina. Þeir voru svo heppnir að borðin yfir vagnana undir lagerhlutina í vélina komu í hús eftir að þeir voru mættir á svæðið. Vélin var blásin hátt og lágt og svo send tvö kort í gegn til að kanna hvort hökt væri á framleiðslunni. En um tvö leytið snéru þeir sér að því að koma skikki á varahlutalagerinn. Ég fékk að fara um hálfþrjú. Fór beint með bílinn í smurningu, ár síðan síðast. Þeir á smurstöðinni skiptu einnig um peru í framljósinu bílstjóra meginn. Þetta tók ekki langa stund. Næst lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Var komin í götuna rétt rúmlega fjögur. Fékk stæði milli 7 og 9 og hringdi í Odd og bað hann um að sækja þessa tvo poka úr búðinni og ganga frá vörunum.