31.10.22

Síðasti október dagurinn

Ég var komin á fætur um átta í gærmorgun. Tæpum klukkutíma síðar heyrði ég í vekjaranum hjá Davíð Steini en svo bólaði ekkert á honum. Oftast hringi ég í hann en í þetta sinn bankaði ég á dyrnar til að ýta við honum. Skutlaði honum upp á N1 við Gagnveg og fór svo beinustu leið í Laugardalslaugina. Var búin með mína fyrstu ferð í kalda pottinn og sat í þeim heitasta þegar vinkona mín mætti á svæðið. Við vorum búnar að fara fjórar ferðir þegar systir hennar mætti á svæðið. Við settumst hjá henni í sjópottinum (sem reyndar er ekki með sjó í þessa dagana) í góða stund áður en við fórum í síðustu ferðina í kalda og svo gufuna. Kom heim rétt fyrir tólf og hellti mér upp á kaffi. Fór ekkert aftur en dagurinn fór í netvafr, prjón, bolta og þáttagláp. 

30.10.22

Sunnudagur

Vaknaði við vekjaraklukkuna tuttugu mínútum fyrir sjö í gærmorgun. Davíð Steinn kom fram um sjö og þá var ég búin að vafra aðeins um á netinu. Skutlaði honum í vinnuna og þáði kaffi út í bíl í staðinn. Lagði á planinu við Laugardalslaug tólf mínútum fyrir átta en fór ekki inn fyrr en eftir morgunfréttir. Synti aðeins 200 metra en fór nokkrum sinnum í kalda, tvisvar sinnum í heitasta og einu sinni í gufu. Fór beint heim eftir sundið og fékk hornstæðið fyrir bílinn. Davíð Steinn kom heim úr vinnu í fyrra fallinu, um hálf átta. Lánaði þeim bræðrum bílinn til að fara í hrekkjavökupartý.

29.10.22

Á skutl vaktinni

Fór á bílnum í vinnuna í gær. Var á ítroðsluendanum. Um hálftíu komu tilvonandi yfirmaður og tveir fyrirliðar úr seðlaverinu í heimsókn. Kynntu sig og kynntu sér starfsemi kortadeildarinnar næstu rúmu tvo tíma. Núverandi yfirmaður var líka á staðnum. Hún kom fyrr um morguninn og fór svo um hádegisbilið. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Eftir hádegi vorum við búnar að endurnýja um 500 kort þegar umslagaparturninn af vélinni fór í stanslausar villumerkingar. Ákváðum að hætta og ganga frá þegar við vorum búnar að taka um 50 kort á formum úr vélinni og handsetja í umslög. Þá var klukkan um þrjú. Ég fór með bílinn á Löður við Fiskislóð og fékk þá til að þvo felgurnar líka. Lagði bílnum á stæði við Kringluna, bókasafnsmegin, korter í fjögur. Hringdi í eldri af þeim sem fengu starfslokasamning um daginn og spjallaði dágóða stund við hana. Ætlaði svo að skila inn fjórum bókum og fá mér nýjar í staðinn rúmlega fjögur en þá var búið að loka vegna starfsmannafundar. Hringdi í pabba en var svo komin með bílinn á N1 dekkjaverkstæðið við Fellsmúla tuttugu mínútur yfir fjögur. Komst að fimm mínútum síðar, fimm mínútum fyrir pantaðan tíma og vetrardekkin voru sett undir.

28.10.22

Vikan að klárast

Setti plástur á blöðrutána og labbaði í vinnuna í gærmorgun. Fór næstum sömu leið og á þriðjudaginn og var með höfuðljósið. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Daglegri framleiðslu lauk rétt rúmlega tólf. Fékk að fara upp í mat með þeirri sem var mér mér á vélarvaktinni. Eftir hádegi unnum við að endurnýjun til klukkan að byrja að ganga fjögur. Fékk far heim úr vinnunni. Bræðurnir voru þá að koma heim úr ferð í Sorpu og verslunarferð. Ég var komin í Laugardalslaugina korter yfir fjögur og hitti þar fyrir kaldapotts vinkonu mína í sinni annarri ferð í kalda pottinn. Saman náðum við fimm ferðum áður en við enduðum í gufunni. Kom heim aftur rétt fyrir sex. Felldi gullt eldhúshandklæði af prjónunum og gekk frá endum. Fitjaði upp á nýrri tusku, laxableikri. Milli átta og níu horfði ég á bikarleik í handbolta á RÚV2. 

27.10.22

Frænku- og systrahittingur

Var orðin svolítið aum í einni tánni sem hafði fengið "göngublöðru" og sú blaðra sprakk. Ég ákvað því að fara á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Ég var í bókhaldinu og nóg að gera. Daglegri framleiðslu lauk fyrr en langt gengin í tvö eftir hádegi en það var aðallega vegna þess að það þurfti að vinna upp uppsafnaða daga vegna hráefnisskorts. Hráefni kom til okkar seinni partinn á þriðjudaginn. Ég var alveg til klukkan rúmlega hálffjögur að pakka. Vinnudegi lauk rétt fyrir fjögur. Þá fór ég beinustu leið í Garðabæinn að heimsækja frænku mína og nöfnu. Pabbi hennar og móðuramma mín voru systkyni. Stóra systir nöfnu minnar og systir mín og mágur voru mætt á undan mér en það tók mig um tuttugu mínútur að komast frá Seðlabankanum og í Garðabæinn, það sem á ekki að taka nema um tíu mínútur. En það var nú svo sem ekkert stress á einum eða neinum. Hittingurinn stóð yfir í rúmlega tvo tíma. Þá skutlaði ég Ástu frænku yfir í Kópavoginn þar sem hún á íbúð en þessi frænka mín er gift Norðmanni og hefur búið í Noregi í yfir 40 ár. Hún og maðurinn hennar fjárfestu í íbúð í Smárahverfinu fyrir nokkrum árum og hafa verið dugleg að koma í lengri og skemmri ferðir. Systir mín og mágur eltu okkur frænkurnar til að fá að kíkja á íbúðina hennar. Ég fór hins vegar ekki með inn og var komin heim um sjö. 

26.10.22

Mið vika

Labbaði þvert yfir Klambratúnið, Flókagötu, Gunnarsbraut, Snorrabraut, Laugaveg og Ingólfsstræti í vinnuna í gærmorgun og var að sjálfsögðu með höfuðljósið. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni. Enn vantaði hráefni til að ljúka við framleiðslu fyrir einn bankann. Það kom svo í hús um þrjú. Það var talið og látið vita að það væri komið og að uppsöfnuð dagleg framleiðsla yrði framleidd daginn eftir (í dag semsagt). Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í rúman hálftíma áður en ég fór í sund. Kom við í fiskbúðinni á leiðinni í Laugardalinn. Synti svo ekkert, fór bara tvisvar í kalda pottinn, tvisvar í þann heitasta, einu sinni í 42°C pottinn og sat svo góða stund úti á bekk áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Það er búið að hækka hitann á kalda pottinum úr 6-8 í 10-12. Það finnst mér frekar dapurt en sjálfsagt eru aðrir sem fagna því. 

25.10.22

Vika eftir af október

Vaknaði um sex leytið, amk tuttugu mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja.  Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Davíð Steinn kom fram um hálfsjö og var farin tíu mínútum síðar. Ég labbaði af stað í vinnuna um sjö. Var með höfuðljósið og fór upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum daglega framleiðslu um hálfeitt og vorum að sinna endurnýjun eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni stuttu fyrir fjögur og einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fór ekkert út aftur.

24.10.22

Mánudagsmorgun

Svaf út í gærmorgun, alveg til klukkan að verða níu. Í stað þess að drífa mig í sund setti ég í þvottavél og svo að vafra á netinu. Strákarnir komu fram um hádegisbilið og um eitt lögðum við af stað austur. Stoppuðum hjá N1 á Selfossi. Davíð Steinn fjárfesti í og skipti um rúðuþurrkur að framan og færði mér kaffi út í bíl. Komum á Hellu um hálfþrjú. Pabbi og Helga systir tóku vel á móti okkur. Ingvi og Bríet voru úti að viðra hundana en komu hálftíma síðar. Pabbi hellti upp á könnuna. Hann spurði mig svo hvort ég gæti séð um að elda bleikju í kvöldmatinn. Davíð Steinn skrapp með afa sínum út í búð til að kaupa sallat, blómkál og ís. Ég fór að huga að matnum um fimm. Reif niður blómkál í gufupott, skar niður lauk og kartöflur og bætti út í. Beið með að handera bleikjuna þar til stutt var þar til grænmetið var tilbúið. Allir voru mjög hrifnir af kvöldmatnum. Það var boðið upp á ísinn í eftirrétt. Klukkan var langt gengin í sjö þegar við mæðgin kvöddum en strákarnir voru búnir að lofa sér í spilamennsku um kvöldið og ég vildi ekki leggja of seint af stað í bæinn hvort sem er og var alveg tilbúin að kveðja. 

23.10.22

Sunnudagur

Ég var komin á fætur rétt upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Setti hársundsteygjuna á hægri ungliðinn en var mjög óákveðin um hvort ég ætti að fara í Sundhöllina eða Laugardalslaugina. Það endaði með því að ég tók enga ákvörðun, fór semsagt ekkert, nema í þvottahúsið. Um hálftólf byrjaði fyrsti leikur dagsins í enska boltanum. Liverpool að heimsækja liðið sem var í neðsta sæti. Sá leikur fór 1:0 fyrir heimaliðinu. Lýsandinn var búinn að segja að þau fimm skipti sem Liverpool hefði komið á þennan völl hefði það aldrei náð að sigra og það breyttist ekkert í gær. Klukkan tvö voru tveir spennandi leikir og síðasti leikur dagsins hófst hálffimm. Svo tók Valur á móti Breiðablik klukkan átta. Sá leikur fór mjög illa fyrir mína menn. En ég var annars mjög dugleg að prjóna í gær og slaka almennt á. Var kannski örlítið æst yfir boltanum en ekkert mikið. 

22.10.22

Laugardagur

Rumskaði rétt fyrir sex en svaf svo alveg til klukkan að ganga níu. Var mætt í Nauthólsvík rétt eftir að opnaði um ellefu. Var frekar hissa á hversu margir voru á svæðinu en hluti af því skýrist kannski vegna þess að það er vetrarfrí í skólum. Svo eru aðrir sem hafa tök á að skreppa í hádegishléinu og enn aðrir sem ekki eru að vinna og komast hvenær sem þeim hentar. Ég hitti eina frá Hellu sem var einmitt að nýta sér hádegishléið í vinnunni. Ég var í sjónum í um tuttugu mínútur og eitthvað svipað í heita pottinum á eftir. Var komin heim aftur um tólf. Hringdi í pabba og tvær vinkonur. Um tvö var ég svo komin á 4. hæð í Valhöll í árlegan tanneftirlitstíma. Varaði tannlækninn við að rótarfyllingin væri farin úr jaxlinum. Við urðum ásátt um að undibúa jaxlinn undir að fá krónu yfir. Teknar voru þrjár myndir. Tannlæknirinn reiknaði líka út hvað þetta myndi kosta í heildina og setti bráðabirgðafyllingu. Gat svo tekið einn smá lið út, þ.e. hann taldi ekki þurfa að setja neinn pinna undir undirstöðuna. Samt mun þessi kostnaður líklega fara langleiðina upp í þrjúhundruð þúsund. Eins gott að ég er búin að vera dugleg að safna fyrir framkvæmdum og óvæntum útgjöldum. Borgaði rúmar fimmtíuþúsund í gær og fékk tíma aftur eftir mánuð. 

21.10.22

Frídagur

Vaknaði rétt áður en vekjaraklukkan hringdi í gærmorgun. Svo rétt á undan að hún byrjaði að hamast þegar ég var að opna símann til að slökkva á henni. Ég fór á bílnum í vinnuna og við sem erum þrjár eftir settumst aðeins aukalega niður til að taka stöðuna á okkur og fleiru. Ég var svo í bókhaldinu. Þeirri vinnu lauk um hálftvö. Þá leysti ég aðra af á móttökuendanum á vélinni til klukkan að verða hálfþrjú. Átti að mæta í Hamar í K2 klukkan þrjú og taldi best að gefa mér góðan tíma til að finna stæði. Lokað var að stæðunum við Höfða en þegar til kom fékk ég eitt stæði beint fyrir framan Katrínartún 2. Borgaði í stöðumæli og fékk mér svo grænt búst áður en ég fór upp á fimmtu. Var komin aðeins of snemma þannig að ég beið í móttökunni og drakk af bústinu. Starfsmanna samtalið gekk vel. Spjölluðum vítt og breytt en auðvitað voru breytingarnar efst á baugi. Sú sem ég hafði leyst af á vélinni átti tíma strax á eftir mér. Hún var að spjalla við starfsmannastjórann þegar ég kom fram og við skiptum eiginlega um sæti. Starfsmannastjórinn vildi nefnilega líka heyra í mér hljóðið og tók það skýrt fram að hann væri til staðar ef það væri eitthvað. Það kom reyndar í ljós að pabbi hans var heimilislæknirinn minn í mörg ár. Sá er hættur störfum enda komin yfir sjötugt. Eftir þetta spjall fór ég beinustu leið í Laugardalslaugina. Fór í kalda í tæpar fimm mínútur, synti 300 metra, aftur í kalda í rúmar sex mínútur, gufuna í korter, kalda sturtu og hitti svo yngstu mágkonu mömmu í sjópottinum. Það var reyndar engin sjór í pottinum. Var komin heim um sex. 

20.10.22

Furðulegir tímar

Notaði höfuðljósið á göngunni til vinnu í gærmorgun. Það var enn slökkt á ljósunum í undirgöngunum undir Miklubraut við Lönguhlíð og mun þægilegra að labba í gegnu með ljósið. Eins var slökkt á sumum staurunum við göngustíginn sem þverar Klambratún. Slökkti á og tók niður ljósið einhvers staðar á Laugaveginum. En það hefði nú verið ágætt að hafa það eða setja upp aftur vestan megin við Þjóðleikhúsið. Ég var í skrifstofurýmingu fram að kaffi, undibrjó pökkun og taldi framleiðsluna úr fyrstu tveimur vögnunum með þeirri sem var í bókhaldinu þegar fyrstu framleiðslu var lokið og tölur tilbúnar. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann og var þar þar til við vorum leystar af í mat tuttugu mínútum fyrir eitt. Eftir hádegi var ég í pökkun. Hættum vinnu um hálffjögur og fékk ég far heim úr vinnunni. Oddur Smári sat út í bíl framan við hús, nýlega kominn heim úr Sorpuferð. Ég ákvað að sleppa sundferð eins og ég geri stundum orðið í miðri viku. Bíllinn var líka í svo góðu stæði. Við Oddur horfðum á leiki í enska boltanum. Fyrri hálfleikinn í leik Liverpool og Wolves en í leik hléi skiptum við yfir í Man. Utd og Tottenham. Báðir þessir leikir enduðu vel fyrir liðin sem voru á heimavelli, 1:0 og 2:0. Um hálfátta hringdi heimasíminn. Það var yfirmaður minn. Hún hafði verið að reyna að ná í mig í gemsann og einnig sent skilaboð á facebook-spjallinu um að hringja í sig. Ég var ekki á netinu og ég hafði ekkert heyrt í gemsanum. Þar voru engin ósvöruð símtöl. Ég er reyndar að fara í starfsmannasamtal seinni partinn í dag en yfirmaðurinn vildi láta mig vita að búið væri að gera starfslokasamning við tvær samstarfskonur mínar úr kortadeildinni.

19.10.22

Saumaklúbbur

Var vöknuð og komin á fætur á svipuðum tíma og á mánudagsmorguninn. Rétt fyrir sjö labbaði ég af stað í vinnuna. Labbaði Lönguhlíðina að gatnamótunum við Miklubraut. Þar eru göng undir. Labba gegnum þau oftast þegar ég fer þessa leið. Fór þau líka í gær en það lá við að ég hætti við það því það var myrkur, annað hvort sprungið eða slökkt á ljósunum. Þetta fékk mig til að íhuga að sennilega væri best að grafa upp höfuðljósið og nota á göngunni eftirleiðis. Var ekki með það í bakpokanum í gær heldur var það heima í handtöskunni. Það var slökkt á þremur af ljósastaurunum sem eru á Klambratúninu en eftir það var þetta í lagi. Við vorum þrjár í vinnu. Ég var skráð á ítorðsluendann og hélt mig við þann enda allan daginn. Lukum daglegri framleiðslu um tólf. Var búin að hlaða inn debetendurnýjun en við létum það ganga fyrir að halda gjafakortaframleiðslu áfram. Hættum vinnu um þrjú og ég fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði ekkert þar heldur tók til sunddótið mitt og fór beinustu leið í Laugardalslaugina. Var búin með ein ferð í kalda pottinn þegar vinkona mín mætti á svæðið. Fór fimm ferðir með henni en var svo á undan að stinga mér í gufuna. Hún tók sína sjöttu ferð áður en hún kom í gufu. Um átta um kvöldið sótti tvíburasystir mín mig og kippti mér með í saumklúbb til Lilju. Tveir og hálfur tími voru fljótir að líða enda extra langt síðan síðasti klúbbur var haldinn. Var komin heim um ellefu og þrátt fyrir að vera venjulega farin að sofa á þeim tíma, sérstaklega þegar er vinnudagur framundan, þá las ég nú í nokkrar mínútur. 

18.10.22

Afmælisdagurinn hans pabba

Var vöknuð og komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Lagði ekki af stað í vinnuna fyrr en klukkutíma síðar og fór þá á bílnum. Var að vinna til hádegis, á ítroðsluendanum fram að kaffi og á móttökuendanum eftir kaffi. Um tólf kvaddi ég vinnufélagana og fór beint í Nauthólsvík. Sjórinn 4,5°C svo ég fór í sjósundsskóna svo ég myndi tolla lengur út í. Var samt ekki nema um korter að svamla, hefði getar verið lengur því mér var ekkert kalt á tánum. Sat í heita pottinum í svipaðan tíma og ég svamlaði í sjónum. Kom við heima í ca hálftíma. Gekk frá sjósundsdótinu og vafraði aðeins um á netinu. Rétt rúmlega tvö var ég komin til norsku esperanto vinkonu minnar vestur í bæ. Við erum ekki komnar í esperanto gírinn ennþá. Hún bauð upp á kaffi, berjapæ og fleira og svo fengum við okkur stutta göngu. Stoppaði hjá henni í um tvo tíma áður en ég fór heim aftur. 

17.10.22

Hálfur vinnudagur í dag

Var komin á fætur skömmu fyrir klukkan átta í gærmorgun. Rúmum klukkutíma seinna hringdi ég í gsm síma Davíðs Steins sem hafði víst slökkt á vekjaraklukkunni sinni og steinsofnað aftur. Hann dreif sig á fætur og ég var skutlaði honum upp á Gagnveg. Í leiðinni athugaði ég þrýstinginn á framhjólinu farþegameginn, þar þurfti aðeins að bæta á. Kerfið í bílnum var ekki byrjað að kvarta og ég tékkaði ekkert á hinum dekkjunum. Fór beinustu leið í Laugardalslaugina. Eftir tvær ferðir í kalda pottinn varð mér ljóst að kalda potts vinkonan væri ekki á sama tíma og ég svo ég ákvað að synda tvær ferðir. Skórnir mínir ákváðu að elta mig. Fór þó ekki langt en voru komnir út í laug og "svömluðu" við sundlaugarbakkann þaðan sem ég syndi frá. Ég sat í gufunni þegar vinkonan mætti á svæðið. Hún hafði hitt aðra og frétt af mér og ákvað að byrja sína rútínu á að setjast stund með mér í gufunni. Eftir sundið skrapp ég í Krónuna við Fiskislóð. Var ekki með lista með mér frekar en venjulega. Mundi þó eftir langflestu en gleymdi þó því sem mest er notað, ostinum. Kom heim um tólf. Fór ekkert út aftur heldur horfði á fótbolta fram eftir degi. 

16.10.22

Október hálfnaður

Var komin á fætur um hálfsjö. N1 sonurinn kom fram hálftíma síðar. Stuttu fyrir hálfátta færði hann mér kaffi út í bíl eftir að ég var búin að skutla honum á vinnustaðinn. Frá Gagnvegi fór ég að AO-stöðinni við Sprengisand og fyllti á tankinn. Næsta stopp var á bílaplani við Austurbæjarskóla. Þar þurfti ég að bíða í um tíu mínútur og sat svo aðeins lengur og hlustaði á morgunfréttir í útvarpinu áður en ég fór í Sundhöllina. Eftir tæpar fimm mínútur í kalda pottinum fór ég á braut 1 í innilauginni og synti 40x25 metra á 50 mínútum. 5x25m skriðsund en allar hinar ferðirnar á bakinu. Fimm af þeim reyndar bakskrið en ég fór fjórðu hverju ferð á skriðinu, aðallega til að telja ferðirnar. Eftir sundið fór ég heitasta og annan elsta pottinn í tíu mínútur og svo annað eins í kalda pottinn áður en ég endaði í gufunni. Þvoði mér um hárið. Næst lá leiðin í bakaríið í Suðurveri. Keypti mér kaffi, samloku og gríska jógúrt. Það síðast nefnda tók ég með mér heim en hinu gerði ég skil á staðnum. Fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim. Um fjögur lánaði ég Oddi bílinn. Davíð Steinn fékk að hætta fyrr í vinnunni og saman fóru þeir að fagna 80 afmæli föðurafa síns með keilu og út að borða ferð með föðurfjölskyldunni. 

15.10.22

Á skutlvaktinni

Fór aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Það var nóg að setja miðstöðin á fullt og bíða í smá stund. Setja svo rúðupissið af stað og það fór allt af bæði fram- og afturrúðu. Ekkert var á hliðarrúðum svo ég slapp við skafið í gær. Vorum þrjár í vinnu í gær, ein nýkomin heim frá Búdapest. Hún var í bókhaldinu, ég á ítroðsluendanum og fyrirliðinn á móttökuendanum. Framleiðsla gekk ágætlega fyrir sig. Hún var ekki mikil en smá hluti af henni kom í gegnum nýja leið og það tók tíma. Kerfisfræðingurinn var með okkur í því. Gallinn við þessa leið að við höfum ekkert í höndunum nema skrárnar sem hlaðast inn á vélina. Við erum vanar að fá blöð með tegundum og fjölda og einnig koma listar til að pakka eftir svo við séum vissar um að réttur fjöldi séu að fara í réttu útibúin eða í póst. Fyrirliðinn fór um hálfþrjú en við hin vorum alveg til fjögur. Þá fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Sjórinn 5,8°C. Ég var með sjósundsskóna en ákvað að prófa að nota strandskóna. Tolldi í sjónum í um tíu mínútur. Dásamlegt veður og mjög gott að fara í sjóbað. Kom við í Fiskbúð Fúsa, vínbúðinni og Krambúðinni áður en ég fór heim. Setti handklæði í þvottavél og þegar upp var staðið hafði forritið í símanum mælt tæplega 7000 skref og þá eru ekki talin með skrefin sem ég fór án síma. 

14.10.22

Föstudagur

Þurfti að skafa bílrúðurnar áður en ég lagði af stað til vinnu í gærmorgun. Slapp reyndar við að skafa framrúðuna því ég var með miðstöðina á fullu og á meðan ég skóf allar hinar rúðurnar bráðnaði af framrúðunni. Varð að fara extra varlega í umferðinni því það var nokkuð hálft. Ég lenti ekki í neinum vandræðum samt á leiðinni. Ekki eins og leigubílstjórinn sem missti stjórn á bílnum og framendinn hafnaði í Reykjavíkurtjörn. Við mættum tvær af þremur fyrsta klukkutímann. Ég fór á móttökuendann og hin sá um að hlaða inn verkefnum og senda skrárnar og kortin af stað. Dagleg framleiðsla var með minna móti og þegar við fórum í kaffi um það leyti sem sú sem var í bókhaldi mætti með "föstudagskaffibakkelsið" rétt fyrir hálftíu áttum við aðeins eftir að framleiða 80 kort. Vorum löngu búnar með það áður en við fengum hádegisskammtinn sem var innan við 80 kort. Vorum því búnar að framleiða allt, telja og ganga frá fyrir tólf. Afhentum vélina til yfirferðar rúmlega tólf. Ég sat yfir þeim tveimur sem komu til að yfirfara til klukkan fjögur. Las og prjónaði hluta af tímanum. Fór svo beinustu leið í Laugardalslaugina þar sem kalda potts beið eftir mér. Hún var búin að fara 3 ferðir í kalda. Ég byrjaði á að fara í kalda pottinn í fimm mínútur og svo fórum við þrjár ferðir saman, tvær ferðir í heitasta og enduðum í gufunni. Þar sat ég í tæpan hálftíma áður en ég fór upp úr og heim.

13.10.22

Yfirseta í dag

Labbaði yfir Skólavörðuholtið í vinnuna í gærmorgun. Ég var í bókhaldinu og þurfti að byrja á því að prenta út alla lista. Framleiðsla gekk ágætlega. Ég leysti skólastelpuna af rétt fyrir hálftólf og kláraði hádegisframleiðsluna með hinni. Vorum búnar að framleiða allt, telja og ganga frá um tólf. Fyrirliðinn ákvað að sú sem fór í skólann þyrfti ekki að mæta aftur við hinar tvær gætum farið heim um hálftvö. Aðstoðuðum kerfisfræðinginn í smá framleiðslutilraunum. Ég labbaði svo sömu leið heim og fór ekkert aftur út. Horfði á landsleik í handbolta karla á RÚV2 um kvöldið. Góður leikur það.

12.10.22

Mið vika

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Tók bæði sund- og sjósundsdót með mér. Þar sem við vorum aðeins þrjár í vinnu vorum við á þeim vinnustöðvum sem við byrjuðum á allan tímann. Sú sem var í bókhaldinu þurfti þó að leysa þá sem var á móttökuendanum af stuttu fyrir hálftólf því hún skrapp frá í skólann. Við bókarinn kláruðum framleiðslu dagsins, "háttuðum" og slökktum á vélinni og kláruðum að telja og ganga frá. Tókum svo lykilinn af kennispjaldageymslunni með okkur fram í mat. Kennispjaldageymslan er hinum megin við kaffistofuna. Vorum búnar að hlaða á eitt bretti, plasta og fara með inn í skrifstofurýmið og langt komnar með að hlaða á bretti númer tvö þegar sú þriðja kom úr skólanum. Allt í allt fóru 133 kassar á fimm bretti. En inni í einu horninu í hillu sem við héldum að væri eingöngu með kassa fyrir þann banka sem við vorum að vinna með fundum við tvo kassa frá öðrum banka sem við töldum okkur búnar að vera senda allt frá okkur. Höfðum marglesið yfir þegar við vorum að hlaða á bretti fyrir þann vagna en ekki svo gott að lesa inn í horni og höfum líklega gefið okkur að þar sem við sáum fjóra kassa af sama bankanaum í hilluröð sem tekur sex kassa að það hlytu að vera kassar fyrir viðkomandi banka sem væru innst í horninu. Vorum búnar að hlaða á, plasta og fara með fimm bretti inn í skrifstofurými upp úr klukkan tvö. Hættum vinnu hálftíma síðar. Úti var ausandi rigning og ég ákvað að fara í Laugardalinn. Hringdi aðeins í pabba áður en ég fór inn í sundið. Var komin í fyrstu ferðina í kalda pottinn um þrjú. Fór tvær aðrar ferðir, synti 300 metra en sleppti alveg gufuferð. Var hálftíma á leiðinni heim vegna umferðar og kom heim rétt eftir að landsleikurinn Portúgal - Ísland 4:1 byrjaði. Svekkjandi tap en miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá er lítið við þessum úrslitum að segja. Stelpurnar okkar börðust allan tímann en voru orðnar þreyttar og búnar að vera einum færri í þrjú korter þegar þurfti að framlengja þar sem staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma. 

11.10.22

Tvær í fríi

Vaknaði tveimur mínútum áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Klæddi mig og bjó um en byrjaði svo á því að setjast inn í stofu með fartölvuna. Davíð Steinn var nefnilega að sinna sínum morgunverkum á baðherberginu eða nýbúinn að því. Hann kvaddi um tuttugu mínútum fyrir sjö og tíu mínútum síðar sinnti ég mínum morgunverkum. Labbaði í vinnuna um sjö. Var fyrst á staðinn en ekki leið á löngu áður en fleiri mættu. Vorum fjórar í gær, ein komin í nokkra daga frí. Ég byrjaði frammi í skrifstofurými að undirbúa pökkun en fór svo á ítroðsluendann á vélinni eftir kaffi. Allri framleiðslu var lokið um tólf. Eftir hádegi vorum við í smá tiltekt. Fara yfir dót og henda því sem óþarfi verður að flytja með sér af staðnum þegar þar að kemur. Hættum vinnu rétt fyrir tvö. Ein af hinum þremur var þá komin í frí fram í næstu viku. Ég fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima til klukkan langt gengin í fjögur. Skrapp þá í Laugardalinn í einn og hálfan tíma. Hitti ekki á kalda potts vinkonu mína, hvort sem hún var búin að koma eða komst ekki. Hún átti heldur örugglega ekki von á því að hitta mig þar sem ég fer oftast í sjóinn á mánudögum. 

10.10.22

Upphaf vinnuviku

Ég var komin á fætur rétt rúmlega átta í gærmorgun. Dagurinn fór að langmestu í það sama og laugardagurinn. Enn meira boltaáhorf þó. Lánaði Oddi bílinn. Davíð Steinn var á Akranesi síðan um miðjan dag á föstudag. Hann kom sér þaðan yfir í Mosfellsbæ og gat því verið samferða bróður sínum heim. Þeir komu þó ekki fyrr en ég var farin að sofa. Kláraði að lesa eina af fjórum bókum af safninu en byrjaði ekki á annarri bók fyrr en ég var skriðin upp í rúm rétt fyrir hálftíu í gærkvöldi. 

9.10.22

Haustveður

Þrátt fyrir að hafa farið að sofa um tíu í fyrrakvöld svaf ég til klukkan að ganga tíu í gærmorgun. Ég rumskaði reyndar um sex en fannst alltof snemmt að rífa mig á fætur. Veðrið var ágætt en ég mjög löt. Notaði gærdaginn í prjónaskap, netvafr og fótboltaáhorf. Hringdi líka í pabba. Dagurinn leið samt frekar hratt. Fór ekki inn í rúm fyrr en um hálfellefu og las í hálftíma áður en ég fór að sofa. Og það gekk bara mjög vel að sofna. 

8.10.22

Laugardagur

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Ég var í bókhaldinu. Það gekk vel fyrir sig. Ekki var alveg eins mikil framleiðsla og suma aðra daga í vikunni þó var fyrsti skammturinn yfir meðallagi. Allri framleiðslu var lokið fyrir tólf og búið að telja allt og ganga frá upp úr klukkan eitt. Fimm bretti af kennispjöldum voru sótt til okkar rétt fyrir hádegi. Þá á bara eftir að hlaða á fimm bretti í viðbót og láta sækja það. Svo eru örfáir kennispjaldakassar sem ekki þarf bretti undir. Nóg að líma lokin föst og afhenda á vagni. Ég var komin heim upp úr klukkan hálftvö. Tveimur tímum seinna fór ég í Nauthólsvík. Þá var að nálgast háflóð, stutt út í og sjórinn 8,1°C. Ég svamlaði um í hálftíma og var svo næstum því annað eins í heita pottinum. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið, kartöflur, einn lauk og tvo pakka af harðfisk. Ég var svo heppina að eiga smá hvítvín með kvöldmatnum. 

7.10.22

Föstudagur

Í gærmorgun var ég tilbúin að leggja af stað til vinnu tíu mínútum fyrir sjö. Ég ákvað því að labba aðeins lengri leið í vinnuna. Fór framhjá Valsheimilinu, meðfram flugvellinum, þveraði Hljómskálagarðinn og labbaði svo Lækjargötuna að Kalkofnsvegi. Ég var í skrifstofurýminu fram að kaffi. Undirbjó pökkun og ýmislegt annað. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann. Eftir fyrstu framleiðslu morgunsins hafði prentarinn gert uppreisn. Slökkt var á vélinni og við fórum í kaffi. Ég kveikti á vélinni, sem tók nokkra stund en þegar hún var komin upp fór allt í gang. Við lukum við debetframleiðsluna rétt áður en hádegisskammturinn kom inn á vél og allri framleiðslu var lokið stuttu fyrir klukkan tólf. Um hálftvö fékk ég far heim úr vinnunni. Oddur Smári var að búa sig undir Sorpuferð en hann var kominn til baka fyrir þrjú. Ég var komin í Laugardalinn um hálffjögur. Synti ekki nema 200 metra og fór aðeins þrisvar sinnum í kalda pottinn því kalda potts vinkona mín var ekki á svæðinu. Rútínan tók engu að síður einn og hálfan tíma því ég gaf mér góðan tíma í sjópottinum og gufunni. 

6.10.22

Fimmtudagur

Vikulok nálgast enn á ný, samt svo stutt síðan vikan byrjaði. Ég labbaði í vinnuna í gærmorgun. Það rigndi á mig hluta af leiðinni en ég varð samt ekkert holdvot. Vorum fjórar í vinnu, ein var að fara í próf og tók frí um morguninn. Hún þurfti svo ekki að koma eftir hádegi þar sem við hættum í fyrra fallinu eða upp úr klukkan tvö. Fékk far heim úr vinnunni. Var eitthvað að spá í að fara aukaferð í sjóinn því það var háflæði um þetta leyti en það endaði með því að ég fór ekkert út aftur. 

5.10.22

Á bílnum í gær

Það var fínt að fara á bílnum í vinnuna í gærmorgun því það var rigning. Var á móttökuendanum og það var alvöru framleiðsla í gangi. Allt í allt voru framleidd hátt í ellefu hundruð kort í gær og að þótt engin væri endurnýjunin. Eftir hádegi stöfluðum við 190 kennispjaldakössum á fimm bretti, plöstuðum og færðum yfir í skrifstofurýmið. Fyrirliðinn sá um að senda viðkomandi banka tilkynningu og vonandi verður þetta sótt til okkar í vikunni. Þá eru bara rúmlega 200 kennispjaldakassar eftir í geymslunni. Þessir kassar eiga að afhendast þremur aðilum. Vorum búnar um hálfþrjú og máttum þá fara. Ég var með sunddótið með mér í skottinu og fór beinustu leið í Laugardalslaugina. Byrjaði þó á að hringja aðeins í pabba áður en ég fór inn. Settist í kalda pottinn í um fjórar mínútur um þrjú. Synti svo hálftíma á brautum 7 og 8, aðallega á bakinu. Brautir 1-5 voru uppteknar í sundkennslu til klukkan að verða hálffjögur. Eftir sundið fór ég í sjópottinn og beið þar eftir að kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Hún kom um fjögur og saman fórum við fimm ferðir í kalda, fjórar í heitasta og enduðum svo í gufunni. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim. 

4.10.22

Sjórinn að kólna

Labbaði í vinnuna í gærmorgun. Sú sem átti að vera á ítroðsluendanum var í ömmureddingum og komst ekki til vinnu fyrr en um níu. Ég tók að mér að leysa hana af. Eftir kaffi pakkaði ég síðasta partinum af debetendurnýjuninni. Hin sem hafði verið með mér á vélinni sá um að pakka megninu af daglegu framleiðslunni. Þær sem fóru á vélina eftir kaffi náðu bæði að klára allt daglegt sem og síðustu endurnýjunina fyrir klukkan hálfeitt þannig að við gátum skilað henni allri af okkur. Fórum frekar snemma úr vinnu eða upp úr hálftvö og fékk ég far heim úr vinnunni. Meiningin var þá að drífa sig fljótlega í sjóinn áður en fjaraði of mikið út. Klukkan var hins vegar að verða hálffjögur þegar ég hafði mig loksins af stað og þá byrjaði ég á því að koma við í bókasafninu í Kringlunni, skila af mér öllum fjórum bókunum og taka fjórar aðrar í staðinn. sjórinn mældis 7,6°C. Ég fór samt út í á strandskónum mínum og svamlaði um í tuttugu mínútur. Sat svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr. Kom við á ÓB í Öskjuhlíð eingöngu til að jafna loftþrýstinginn í dekkjunum. Fór ekkert inn á stöðina sem var opnuð aftur nýlega eftir einhverjar breytingar.

3.10.22

Upphafið á vinnuviku

Var byrjuð að rumska upp úr klukkan sex og um sjö leytið dreif ég mig bara á fætur. Hafði því nægan tíma til að vafra um á netinu því ég þurfti ekki að skutla Davíð Steini fyrr en stuttu fyrir klukkan hálftíu. Ég var komin í Laugardalslaugina rétt fyrir tíu. Kalda potts vinkona mín var ekki á svæðinu en ég fór 4 sinnum í kalda, einu sinni í heitasta, einu sinni í sjópottinn, synti 300 metra, þar af 50m skriðskund og var svo rúmt korter í gufunni. Var komin heim rétt fyrir tólf. Eftir hádegisfréttir hellti ég mér upp á 2 bolla af kaffi. Restin af deginum fór í fótboltaáhorf, prjón, netvafr og einnig þáttaáhorf. 

2.10.22

Bleikur mánuður

Vaknaði stuttu fyrir hálfsjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu hafði ég tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en kominn var tími til að skutla Davíð Steini upp á Gagnveg. Hann færði mér kaffi út í bíl fyrir skutlið. Ég var kom á planið við Laugardalslaug tíu mínútum fyrir opnun. Hlustaði svo á morgunfréttir áður en ég fór í sundið. Fór tvær ferðir í kalda, eina í heitasta og eina í sjópottinn áður en ég synti 300 metra. Fór svo í þriðju ferðina í kalda og endaði í gufu áður en ég fór upp úr og heim. Stoppaði heima í um klukkustund en skrapp svo yfir á Sólvallagötuna í um klukkustund milli ellefu og tólf. Kom við í Krónunni áður en ég fór heim aftur. Var mest að versla brauð og álegg en ég steingleymdi að kaupa mér nýja lýsisflösku. Kaupi alltaf stóra flösku af þorskalýsi. Það eru bara nokkrir dagar þar til klárast úr þeirri sem ég á hér heima.

1.10.22

Nýr mánuður

Þriðja skiptið í vinnuvikunni notaði ég einkabílinn til að koma mér á milli staða. Við vorum þrjár mættar rétt fyrir átta en sú fjórða kom rétt rúmlega níu. Ég var á móttökuendanum fram að kaffi en í pökkun og talningum til hádegis. Eftir hádegi fór ég á ítroðsluendann. Við klárðuðum endurnýjun númer tvö og byrjuðum á þriðju og síðustu endurnýjuninni. Vélin var í þokkalegum gangi en stríddi okkur öðru hvoru. Hættum framleiðslu upp úr klukkan hálfþrjú. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík eftir vinnu. Það var að fjara út og smá langt að labba út á eitthvert dýpi. En sjórinn var rúmlega níu gráður og ég svamlaði um í honum í tæpan hálftíma. Sat svo annað eins í heita pottinum.