20.1.22

Vaknað við vekjaraklukku

Í gærmorgun var ég komin á fætur rúmlega sex. Var mætt fyrst til vinnu um hálfátta. Sýslaði ýmislegt í skrifstofurýminu fram að kaffi, taldi m.a. með bókaranum eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Eftir kaffi fór ég á framleiðsluvélina og leysti af þá sem var á ítroðsluendanum. Aeins ein skrá úr daglegaverkefni tvö var eftir en þá tók við sérverkefni. Framleiddum 750 kort af því verkefni áður en hádegisframleiðslan kom yfir. Eftir hádegi var ég á móttökuendanum á vélinni. Fórum langt með að ljúka við sérverkefnið en aðeins erum rúmlega 200 kort eftir í framleiðslu. Kerfisfræðingarnir voru á staðnum. Þegar ég var að ganga frá á skrifborðinu mínu sá ég nýtt verkefni, skráð á mig, sem unnið er með verkfæri sem aðeins ég og önnur höfum aðgang að. Ákvað að demba mér í það verkefni. Allt gekk vel þar til breytingaskrárnar áttu að fara yfir þá var allt fast. Kerfisfræðingarnir voru á endanum báðir komnir til mín að hjálpa og það endaði með því að þetta hafðist en þá var klukkan líka orðina fimm. Var komin heim um hálfsex og ákvað að skrópa í sund enn einn daginn.

19.1.22

Háspennu handboltaleikir

Var mætt fyrst á vinnustað og fór strax að sinna bókhaldinu. Ein af hinum sem átti að vera á vélinni fram að kaffi skipti við aðra svo ekki þyrfti að leysa hana af þegar hún þurfti að skreppa aðeins eftir hádegið. Vinnudagurinn leið hratt en var ekki búinn hjá mér fyrr en um fjögur því ég var aðeins að aðstoða kerfisfræðingana tvo sem voru að vinna að ýmsum verkefnum. Klukkan var því orðin hálffimm þegar ég kom heim og þar sem ég vildi ekki missa af einni einustu mínútur af landsleiknum milli Íslands og Ungverjalands og þar að auki fylgjast með hinum leiknum í sama riðli, fór ég ekkert út aftur. Þvílíkir leikir. Og allir íslensku þjálfararnir á mótinu komu sínum liðum upp úr riðlinum. Veislan heldur áfram.

18.1.22

Líður á fyrsta mánuðinn

Ég vaknaði um sex í gærmorgun, rúmum tuttugu mínútum áður en vekjaraklukkan átti að stugga við mér. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist í niður í stofu með fartölvuna í fanginu. N1 sonurinn kom fram um hálfsjö og kvaddi tæpu korteri síðar. Ég var mætt í mína vinnu um hálfátta. Var á ítroðsluendanum á framleiðsluvélinni fram að kaffi. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld og eftir hádegi var ég á móttökuendanum á vélinni. Kom heim rétt rúmlega fjögur. Dagurinn leið jafn hratt og flestir aðrir dagar. Er langt komin með tuskuna sem ég fitjaði upp á sl. föstudag og einnig að lesa þriðju bókina af sjö af safninu. Er enn að spara jólabækurnar. 

17.1.22

Ný vinnuvika framundan

Var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun og í sund rétt rúmum tveimur tímum síðar. Synti 400m á bakinu á braut 2, fór 2x uþb 6 mínútur í 6,9°C kalda pottinn, einu sinni í heitasta og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr og þvoði  mér um hárið. Kom heim um hálftólf. Skellti handklæðum í þvottavélina. Hellti upp á kaffi og settist svo fyrir framan sjónvarpið með prjónana mína. Horfði á einn þátt, hlustaði á hádegisfréttir og horfði svo á annan þátt þar til leikur Liverpool og Brentford hófst. Seinni part dags hringdi ég í pabba sem var að ljúka við pönnukökubakstur. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn því ég sat spennt yfir handboltanum, fyrst hinn leikinn í riðlinum; Ungverjaland-Porúgal og svo leik okkar manna á móti Hollandi. Strax eftir leik og EM-stofu var 4. þáttur af verbúðinni sem ég horfði á með textavarpinu. Fór inn í rúm upp úr klukkan tíu og las um stund áður en ég fór að sofa.

16.1.22

Morgunstund

Ég leyfði mér að kúra til klukkan að verða tíu í gærmorgun. Það varð til þess að ég ákvað að skrópa í sund enn einn daginn. Vafraði um á netinu, prjónaði og horfði á fótbolta. En um hálfþrjú skrapp ég í ágætis göngutúr; Lönguhlíð (frá Drápuhlíð), Hamrahlíð, Kringlumýrarbraut, Miklabraut, Reykjahlíð og Drápuhlíð. Þetta voru 2,7 km á 33 mínútum og hátt í fjögurþúsund skref. Lánaði bræðrunum bílinn seinni partinn en ég tók því rólega, vafraði um á netinu, kláraði að lesa bók af safninu, horfði á þætti og fótbolta. Var semsagt bara mjög slök í gær. 

15.1.22

Fimmtándi

Var mætt fyrst af okkur fjórum til vinnu um hálfátta í gærmorgun, ekki löngu á undan hinum þó. Sá um móttökuendann á framleiðsluvélinni fram að kaffi. Var í pökkun og talningum fram að hádegi og eftir hádegi var ég á ítroðsluendanum að vinna í með annarri í sérverkefni. Hættum vinnu um þrjú og var ég komin heim hálffjögur. Heyrði aðeins í pabba mínum og vafraði um stund á netinu. Skrapp í sjóinn rétt fyrir fimm. Hann var 0,9°C, það var flóð og smá öldugangur. Svamlaði um í tíu mínútur og sat svo örugglega tæpra tuttugu mínútur í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim aftur. Lauk við að prjóna eina tusku og fitjaði strax upp á annarri og prjónaði amk þrjátíu umferðir á meðan ég var einnig að fylgjast með landsleiknum. Strákarnir áttu mjög góðan leik og eftir fyrstu mínúturnar og þrumugóðan fyrri hálfleik var ég alveg handviss um að þessi leikur myndi vinnast.

14.1.22

Föstudagur

Vaknaði um sex í gærmorgun. N1 sonurinn kom fram á eftir mér en fór út á undan mér. Ég var mætt fyrst á minn vinnustað. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld og taldi með bókaranum eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Skitpum okkur ekki upp í kaffi því á fimmtudagsmorgun er sameiginlegur kaffitími þar sem sú sem er í bókhaldinu þann daginn sér um að koma með brauð og bakkelsi. Sú sem var í því hlutverki í gær kom við í bakaríisbílalúgu á leið í vinnuna um morguninn. Eftir kaffi var ég á móttökuendanum á vélinni. Við lukum við framleiðslu dk-dagsins og kláruðum svo einnig það sem eftir var af dk endurnýjun. Reyndar þarf að framleiða hluta af þeirri endurnnýjun aftur en ekki þann part sem við vorum að klára. Korter fyrir tólf var stuttur zoom-fundur með næstráðandi yfirmanni þar sem hún sagði okkur að það væri ákveðið að kortadeildin myndi flytja á árinu og þegar við værum komnar þangað fengjum við nýjan næstráðandi yfirmann. Vinnudegi lauk ekki fyrr en um fimm vegna smá máls sem kom uppá. Ég nennti því ómögulega út aftur eftir að ég kom heim og skrópaði í sund annan daginn í röð. 

13.1.22

Í vinnu á ný

Var mætt fyrst á svæðið í gærmorgun. Búið var að setja pakka af heimaprófi á skrifborðið mitt. Ég var að framkvæma svoleiðis í fyrsta skipti. Þær tvær sem voru að vinna með mér í síðustu viku gerðu svona próf heima hjá sér. Reglan verður líklega sú að gera heimapróf á sunnudögum eða eftir helgar. Það eru amk nokkrir pakkar af prófi á vinnustaðnum. Allar reyndumst við neikvæðar. Fram að kaffi undirbjó ég pökkun á daglegum debetkortum og flokkaði kennispjöld. Ákváðum að skipta okkur í kaffi þannig að við sem vorum frammi í skrifstofurými fórum tvær í kaffi um hálftíu og leystum svo af á vélinni. Þá fóru hinar þrjár í kaffi. Ég var á ítroðsluendanum. Við kláruðum að framleiða daginn og fórum svo beint í síðustu en jafnframt stærstu dk-endurnýjunarskrána. Rúmlega tvöþúsundfimmhundruðogfjörutíu kort. Stærri parturinn af þessari skrá eru kort sem fara eiga í útibú. Búið var að setja þau á hold. Ég skipti upp skránni í nokkrar 250 korta skrár. Framleiddum tæp 500 fram að hádegisframleiðslu. Hefðu átt að geta framleitt fleiri en prentarinn fór að vera með alls konar hundakústir í seinni skránni. Þær sem við leystum af í kaffi fóru á undan í mat og leystu okkur svo af. Þær komust að því að betra var að handsetja kort og form í umslög þá gekk framleiðslan heldur skár. Þær luku við að framleiða það sem á að fara í póst og byrjuðu á útibúaframleiðslunni. Komust reyndar nokkuð langt með þá framleiðslu en það eru ennþá tæp þúsund óframleidd. Á framleiðsluvélinni bíður einnig nokkur stórt aukaverkefni. Komumst ekki í það fyrr en endurnýjun er lokið. Ég flokkaði alls tvo og hálfan kassa af kennispjöldum í gær sem eru líklega um tvöþúsundogáttahundruð spjöld. Hættum vinnu korter í fjögur og var ég komin heim tæpum hálftíma síðar. Gerðist löt og eitt af því fáa sem ég afrekaði eftir að heim kom var að klára að lesa skammtímalánsbókina. Einkabílstjórinn fékk leyfi til að sækja bróður sinn á vakt um átta í gærkvöldi. Annars hefði Davíð Steinn ekki verið kominn heim fyrr en rúmlega níu. 

12.1.22

Saumaklúbbur

Ég var komin á fætur um átta og í sund um níu. Synti 400 metra, fór alls 3x5 mínútur í kalda pottinn, tvisvar í heitasta pottinn, einu sinni 15 mínútur í sjópottinn og var rúmar tíu mínútur í gufunni í lokin. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið, kartöflupoka og harðfisk. Skilaði 4 bókum á safnið og fékk mér 7 í staðinn. Ein af þeim er með 14 daga skilafresti og er það nýjasta útkalls bókin Í auga fellibylsins. Kom heim um hálftólf og ákvað að setja strax upp kartöflur og sjóða upp á fiskinum. Hellti upp á könnuna í leiðinni. Átti smjör og afgang af hrásallati til að hafa með hádegismatnum. Strákarnir komu ekki á fætur fyrr en einhvern tímann upp úr hádegi en þeir höfðu hvorugur áhuga á því að fá sér af matnum svo afgangurinn endar annað hvort sem plokkfiskur eða nesti í vinnuna. Dagurinn leið svo við prjónaskap, þáttaáhorf og netvafr. Um það leyti sem ég ætlaði að hafa samband við tvíburahálfsystur mína sendi hún mér skilaboð og spurði hvort hún ætti ekki að kippa mér með í klúbbinn í kvöld. Ég þáði það með þökkum. Hún var fyrir utan korter fyrir átta og við vorum komnar á Grettisgötuna áður en klukkan sló átta. Það voru fagnaðarfundir og eins og venjulega leið kvöldið alltof hratt. Það sem virtist rétt vera tíu mínútur eða í mesta lagi hálftími varð allt í einu að þremur tímum. Ég var komin heim aftur upp úr klukkan ellefu og þá sá ég skilaboð frá fyrirliðanum og ósvarað símtal frá næstráðandi yfirmanni. Fréttirnar voru þær að við megum mæta aftur til vinnu í dag. Las fyrstu 80 bls. af skammtímalánsbókinni áður en ég fór að sofa. Reyndar er mikið um myndir svo líklega hafa varla verið meira en 50 bls. Er þá búin með tæplega helminginn. Planið er svo að lesa fleiri af þeim sjö bókum sem ég sótti á safnið í gær og skila þeim með skammtímalánsbókinni á safnið eftir hálfan mánuð. 

11.1.22

Á leið í sund

Ég var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Tók því frekar rólega eftir morgunverkin á baðherberginu. Var að "dunda" mér í tölvunni til klukkan að ganga tíu. Þá hellti ég upp á kaffi og fékk mér eitthvað meira heldur en sopa af þorskalýsi. Um ellefu fór ég í Nauthólsvík. Það var flóð, smá vindur og sjólinn1,5°C. Buslaði í sjónum í tæpt korter. Það voru ekki margir en þó vorum við eitthvað á annan tuginn. Fór beint heim aftur eftir sjóferðina og var komin passlega heim fyrir hádegisfréttir. Settist niður með prjónana og hlustaði á fréttir. Síðan "datt" ég í smá þáttaáhorf. Hringdi aðeins í pabba á fjórða tímanum og hellti mér svo aftur upp á kaffi. Strákarnir voru báðir heima í gær. Ég hafði hakkkássu í kvöldmatinn. Horfði á kvöldfréttir og fleiri þætti. Fór upp í rúm um hálfellefu og kláraði að lesa síðustu bókina af safninu. 

10.1.22

Fyrsti virki ekkivinnudagur ársins

Ég var komin á fætur um átta í gærmorgun. Einum og hálfum tíma síðar hleypti ég N1 syninum út við Gagnveg og fór svo beinustu leið í sund. Kalda potts vinkona mín mætti á sama tíma en hún byrjaði á því að skreppa aðeins í gufu og hitti mig svo í kalda pottinum. Eftir fjórar kalda potts ferðir hittum við systur hennar í þeim heitasta og svo í sjópottinum eftir fimmtu ferðina. Ég sleppti því að synda og var komin heim aftur um hálftólf. Hellti ekki upp á kaffi fyrr en eftir hádegisfréttir. Dagurinn leið frekar hratt þrátt fyrir að ég væri ekki að gera neitt sérstakt. Fitjaði upp á nýrri tusku, horfði á nokkra MacGyver þætti, vafraði um á netinu svo eitthvað sé nefnt. Greip ekki í bók fyrr en ég fór í háttinn um hálfellefu. Á nú aðeins örfáa kafla eftir og innan við 50 bls. af síðustu lánsbókinni. Er örugglega búin að fá skilaboð um að skiladagur nálgist en hann er á morgun svo það er ekkert stress. Það er mjög líklegt að ég fari á safnið á morgun, skili 4 bókum og komi með einhverjar heim í staðinn. Þarf samt líka að fara að huga að því að lesa jólabækurnar.

9.1.22

Sunnudagur

Ég var vöknuð og komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofusófa með fartölvuna í fanginu. Vafraði um á netinu þar til N1 sonurinn var kominn á fætur og tími komin til að skutla honum í vinnu. Hleypti honum út við vinnustaðinn um hálfátta. Skömmu síðar færði hann mér kaffibolla og piparköku út í bíl. Ég var komin á planið við Laugardalslaugina tæpu kortieri áður en opnaði. Hlustaði svo á átta fréttir áður en ég fór í sundið. Byrjaði á tveimur ferðum í kalda pottinn og einni í þann heitasta. Kaldi potturinn góður, 6,6°C. Eftir seinni ferðina í hann fór ég á braut sex og synti í 25 mínútur, flestar ferðir á bakinu en þó 50m á bringunni því þá var einhver annar komin á brautina líka og ég vildi ekki eiga á hættu að þurfa að passa mig á að synda ekki í veg fyrir viðkomandi. Fór beint í kalda, svo í sjópottinn í korter, gufuna í tíu mínútur og sat úti í 3 mínútur áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Úr sundinu lá leiðin að Löðri við Fiskislóð þar sem ég keypti "ferð" í gegnum bílaþvottastöð. Skrapp svo í Krónuna áður en ég fór heim. Klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar heim kom. Gekk frá vörunum og hellti mér fljótlega upp á kaffi. Dagurinn leið svo undra hratt við alls konar dútl. 

8.1.22

Á skutlvaktinni

Ég var mætt á undan til vinnu í gærmorgun. Var í bókhaldsvinnu og á móttökuendanum á vélinni. Þegar fyrstu framleiðslu var lokið fékk ég hina til að undirbúa pökkun á meðan ég safnaði saman tölum. Svo töldum við báða skápana áður en við fórum í kaffi. Daglegri framleiðslu lauk um hálfeitt. Eftir hádegi framleiddum við svo tæplega sautjánhundruð kort af rúmlega 4000 úr síðustu endurnýjuninni. Hættum ekki vinnu fyrr en um fimm. Síðasta hálftímann vorum við að ganga frá og skilja eftir upplýsingar til handa þeim sem standa vaktina í næstu viku. Ég kom heim um hálfsex og fór ekkert út aftur. Aðeins eina ferð í þvottahúsið að setja handklæði í þvottavélina og taka upp það sem var á snúrunum frá öðrum syninum. Hinn sonurinn samþykkti svo að fara niður og hengja upp þegar þvottaprógramminu var lokið. Hringdi örstutt í pabba, Bríet og pabbi hennar voru akkúrat að mæta á svæðið svo ég vildi ekki trufla lengi.

7.1.22

Föstudagur

Var að losa svefn um það leyti sem vekjaraklukkan tilkynnti að kominn væri fótaferðatími í gærmorgun. Sem fyrr settist ég smástund niður í stofunni með fartölvuna í fanginu, eftir morgunverkin á baðherberginu. Mætti í vinnu um hálfátta og þá var sú sem kláraði reikningagerðina mætt að rannsaka smá mál sem hafði setið í henni. Sú þriðja mætti í vinnu rétt fyrir átta eftir viðkomu í bakaríinu. Þrátt fyrir að hún hafi verið í bókhaldinu í fyrradag bauð ég henni að taka það að sér aftur sem hún þáði. Var á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Sú sem var á hinum endanum fór heim um hádegi. Áður en við hinar tvær hættum vinnu ryksuguðum við vélina. Var komin heim um hálffjögur. Oddur sat í bílnum fyrir utan nýkominn úr sorpuferð. Ég fékk hann til að setja upp slátur, fylgjast með suðunni koma upp, að hún héldist þrátt fyrir lækkun á hellunni og bað hann einnig tvisvar um að stinga aðeins í keppina. Ég sá svo um að bæta kartöflunum út í rúmum tveimur tímum seinna. Vel var borðað af þessum kræsingum. Samt er nægur afgangur til að steikja.

6.1.22

Þrettándinn

Vekjaraklukkan ýtti við mér í gærmorgun. Samt hafði ég tíma til að setjast aðeins niður í stofu með fartölvuna í fanginu, vafra um á netinu og setja inn eina færslu. Var mætt fyrst til vinnu. Sá að listar voru búnir að skila sér en ákvað að það væri bókarans að prenta út. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og fyrir utan daglega framleiðslu kláruðum við eina endurnýjun. Til stóð að ryksuga vélina en annar kerfisfræðingurinn bað um að fá að gera smá tilraunir þegar við vorum hættar framleiðslu. Var komin heim korter yfir fjögur og sund um fimm. Synti 300 metra og var í minni fyrstu ferð í kalda pottinum þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Fórum fimm ferðir í kalda og enduðum í gufu. Klukkan var langt gengin í sjö þegar ég kom heim aftur. Hafði byggbuff og hrísgrjón í matinn en aðeins annar sonurinn kom fram til að borða þannig að eftir varð afgangur fyrir mig til að taka með í vinnuna. Annars er Árný föðursystir mín 94 ára í dag.

5.1.22

Mið vika

Var aftur mætt fyrst til vinnu af okkur þremur. Ég sá um móttökuendann á vélinni í gær. Ekki var hægt að prenta út venjulega framleiðslulista til að byrja með vegna einhvers konar stíflu í póstinum. Við gátum samt bjargað okkur en allir framleiðslulistar daglegu framleiðslunnar voru mjög óvenjulegir. Skannaði inn kvittinina úr Nauthólsvík og sendi hana með e-mail á deildina sem sér um alla borga m.a. íþróttastyrki. Var komin heim um fjögur og í sund um fimm. Þar hitti ég kaldapotts vinkonu mína. Hún var búin með þrjár ferðir á þann kalda og hún fór þrjár aðrar með mér. Eftir mína þriðju ferð og hennar sjöttu fórum við í gufuna. Ég sat lengur þar en hún, fór svo í kalda sturtu til að geta farið út í sundlaugina. Valdi braut 8 og synti í tuttugu mínútur. Oddur Smári sótti bróður sinn í vinnu um átta og þeir komu við á KFC þar sem N1 sonurinn var búinn að bjóðast til að kaupa handa okkur fjölskyldutilboð fyrir 4. Hann á svo frívakt í dag og á morgun, á vakt næst um helgina.

4.1.22

Morgunstund

Ég var mætt fyrst til vinnu af þremur. Þegar hinar vorum komnar skiptum við með okkur verkum. Ég var beðin um að sjá um bókhaldið, frystingar og byrja á áramótauppgjörinu. Hinar tvær tóku að sér framleiðslu. Kerfisfræðingarnir mættu báðir. Ég hafði reyndar boðað annan til okkar vegna breytingabeiðni. Þeir voru á staðnum fram yfir hádegi. Framleiðslu var hætt á fjórða tímanum. Ég var komin heim rétt fyrir fjögur. Klukkutíma seinna dreif ég mig í mína fyrstu sjóferð á árinu. Hafði mislesið hitastigið á sjónum á netinu sem 0,3°C en það var víst mínusmerki fyrir framan töluna. Það var flóða, stafalogn og ég entist tíu mínútur í sjónum. Var svipað í heita pottinum áður en ég fór upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Keypti ýsu í soðið, fiskibollur í frystinn og meiri harðfisk. Ekki voru til kartöflur þannig að ég skrapp einnig í Krambúðina eftir að vera búin að leggja bílnum fyrir framan hús. 

3.1.22

Virkur vinnudagur

Var komin á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun. Hélt mig heimavið allan daginn. Ein tuska "datt" af prjónunum og fitjaði ég strax upp á annarri. Á bómullargarn í nokkrar tuskur og eldhúshandklæði svo ég er hvergi nærri hætt þessu tuskuprjóni. En verið getur að ég taki mér hlé og fari að huga að öðru prjóni en þá þarf ég að útvega mér rétta garnið. Ég á líka alveg eins von á því að útvega mér garn í eitt eða tvö teppi enn því ég átti eftir að prófa fleiri mynstur úr teppaprjónabókinni. Gærdagur leið hratt. Horfði á fótbolta, þætti og annan þátt af Verbúðinni. Hægt er að hámhorfa á síðast nefndu þættina, eru allir inn á RÚV en þá er ekki hægt að hafa textavarpið á, sem mér finnst miklu betra. Skilafrestur á bókasafnsbókum er til 12. janúar. Ég á eftir að lesa hátt í 300 bls. af síðustu bókinni. Næ því örugglega fyrir skiladag en ef ekki framlengi ég skilafrestinum amk á þeirri bók. 

2.1.22

Rólegheit

Annar dagur ársins runninn upp. Það munar um birtustig og hækkandi sól. Ég stóð við það að gera sem minnst í gær. Prjónaði reyndar slatta og horfði á Mcgyver þætti og smá fótbolta. Las ekki fyrr en ég fór upp í rúm um hálfellefu leytið. Strákarnir héldu sig heima við í gær. Höfðu komið úr partýinu um sex í gærmorgun. Samt var annar þeirra vaknaður og kom aðeins fram um hálfeitt. Hinn svaf lengra fram á daginn. Var með hakkkássu í kvöldmatinn og strákarnir sáu um að ganga frá á eftir. Ætla hvorki að setja markmið né lofa að ég muni skrifa á þessum vettvangi daglega allt þetta ár en það er samt eitthvað við að að setjast niður og skrá það helsta niður. Þetta eru samt ósköp venjulegir hlutir sem eru að gerast í kringum mig og spurning um hvort það sé ekki of mikið um endurtekningar á gjörðum mínum og venjum. Er að lesa síðustu bókina af bókasafninu; Óminni eftir Sverrir Berg Steinarsson. Þær þrjá sem ég er búin að lesa eru; Vonarbarn eftir Marianne Fredriksson, Hafnargata eftir Ann Cleeves og Eitraða barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson. Svo á ég eftir að lesa bækurnar sem ég fékk í jólagjöf.

1.1.22

Glænýtt ár MMXXII

Þetta er fyrsta færsla á fyrsta degi nýs árs en í heildina er þetta færsla númer 3111. Nýliðið ár voru færslurnar þær næst flestu af þessum rétt tæplega 19 árum sem ég hef bloggað. Mun líklega seint slá metárið nema ég fari að taka upp á því að setja inn tvær færslur suma dagana öðru hvoru sem mér finnst frekar ósennilegt. En hvað veit maður svo sem hvað ókomin framtíð ber í skauti sér? Í gærmorgun var ég komin á fætur fyrir klukkan átta og komin í sund upp úr hálfníu. Byrjaði á því að synda 500 metra, allt á bringunni. Sat svo rúmar fimm mínútur í kalda pottinum, nokkrar mínútur í heitasta pottinum, aftur fimm mínútur í kalda og svo næstum því hálftíma í sjópottinum áður en ég fór upp úr. Áður en ég fór heim kom ég við á AO-stöðinni við þar sem einu sinni var veitingastaðurinn Sprengisandur, við hinn endann á Bústaðavegi. Fyllti tankinn. Fljótlega eftir að ég kom heim hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér einhverja hressingu. Dagurinn leið jafn hratt og flestir aðrir dagar. Var að vafra um á netinu og leika mér, prjóna og horfa á imbann, ekki alveg allt í einu. Um miðja dag bauð ég strákunum upp á að fá sér af jólagrautnum. Ég fékk mér líka og hellti mér aftur upp á kaffi. Malaði mér úr baunum af hátíðarkaffi, í eina uppáhellingu, sem ég fékk í jólagjöf frá Davíð Steini. Ég var svo heppin að Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn. Ég hafði keypt þrjár vænar nautakjötsneiðar og með þeim hafði hann steiktar kartöflur, rósakál, grænar baunir og piparsósu sem hann hafði bætt chiliosti út í. Virkilega vel heppnað hjá honum. Vorum að borða um sex. Strákarnir tóku heimapróf en voru heima fram yfir miðnætti, horfðu m.a. með mér á skaupið, áður en þeir fóru í smá teiti í næstu götu. Voru að hitta krakka sem þeir hittu í afmælisveislu fyrir nokkrum dögum. Ég horfði á einn og hálfan þátt en fór inn í rúm um tvö. Átti og á enn hvítvínsflösku sem ég keypti um daginn. En mig langaði ekki í neitt svoleiðis og ákvað að spara hana aðeins lengur. Planið í dag er að vera heima og gera sem allra minnst.