31.8.21

Síðasti ágúst-dagurinn

Klukkan var langt gengin í níu þegar ég fór loksins á fætur í gærmorgun. Sem fyrr var ég byrjuð að vafra um á netinu fljótlega eftir morgunverkin á baðherberginu. Um hálfellefu fékk ég mér loks að borða og ég var komin í Nauthólsvík rúmlega ellefu. Synti út að kaðli og kom við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Rúmlega tólf var ég komin upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Hefði auðvitað átt að skreppa upp í Orku hf og fá þá til að meta framrúðuskemmdina. Ég er samt nokkuð viss um að það þurfi að skipta aftur um rúðu og þá er bara spruningin hvort ég freistist til að fresta því máli alveg þar til þarf að skoða bílinn næst. Er ekki viss um að það sé skynsamlegt og líklega verður það ofan á að fara og láta meta skemmirnar. Ég get þá spurt í leiðinni hvort það liggi á að skipta um rúðu ef dómurinn verður á þá leið að ekki sé hægt að gera við. N1 sonurinn var á vinnuvakt á Gagnveginum og hinn sonurinn skrapp í sorpuferð eftir hádegið.

Er að lesa tvær af safninu; Sólar saga eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og Gæðakonur eftir Barböru Pym. Þá eru þrjár aðrar af tíu bókum af safninu ólesnar; Papa eftir Jesper Stein, Heimför eftir Yaa Gyasi og Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Fjórar af bókunum eru með skilafrest til 8. september (er búin að lesa þær) og hinar sex til 13. september. 

30.8.21

Kúrt til níu

Ég var komin á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun og búin að setja á mig hárteygju á annan úlnliðinn og skápalásinn á hinn. Um hálftíu var ég ekki farin af stað í sund. Setti í þvottavél og settist svo niður með bók í stofunni. Var að lesa Skuggarnir eftir Stefán Mána í annað sinn og kláraði bókina. Hengdi upp þvottinn um tólf. Hlustaði á hádegisfréttir og greip í prjónana mína á meðan. Í fyrrakvöld "datt" enn eitt eldhúshandklæðið (eða tuska í stærra lagi) af prjónunum. Eftir fréttir hellti ég mér upp á kaffi og svo horfði ég á fyrrihálfleik í enska boltanum. Í hálfleik dreif ég mig loksins í sund. Fór beinustu leið í kalda pottinn og sat þar í uþb sex mínútur. Fór svo á braut 7. Eftir hundrað metra færði ég mig á braut 6. Synti í tuttugu mínútur og flestar ferðirnar á bakinu. Svo fór ég í kalda pottinn í fimm mínútur, settist um stund á bekk eftir þá ferð áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. 

29.8.21

Sunnudagur

Ég rumskaði mjög snemma, fyrir klukkan sex, en tókst að sofna aftur. Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar ég fór á fætur, þá alveg glaðvöknuð. Eftir morgunverkin á baðinu snéri ég mér beint að fartölvunni næsta klukkutímann. Kveikti líka á RÚV2 og fylgdist með sundinu á ólympíumóti fatlaðra. Þegar fór að líða á morguninn fékk ég mér lýsi og staðgóðan morgunmat og var svo mætt í Nauthólsvík upp úr klukkan ellefu. Núna er kominn vetrartími. Aðstaðan opnar klukkan ellefu alla virka daga og laugardaga en lokað á sunnudögum. Opið til fjögur á laugardögum en virku dagana til klukkan sjö. Í fyrra var líka lokað á föstudögum en þeir ætla að prófa að hafa opið þá daga núna og ætla ég mér endilega að nýta mér það í framtíðinni. Sundkortið mitt virkaði sem aðgangskort og þarf ég ekki að fylla á fyrr en eftir 10. september. Það var flóð, rétt að byrja að fjara aftur út, smá öldugangur og hitastig sjávar 12,7°C. Ég er enn að nota strandskóna mína og mun líklega nota þá þar til hitastigið fer niður fyrir níu stig. Synti í rólegheitum út að kaðli og kom svo aðeins við í lóninu. Mér fannst full troðið í heita pottinum svo ég fór aðeins í gufuna áður en ég fór upp úr. Næst lá leiðin á löður-þvottastöðina við Granda. Þar var engin röð svo ég var komin í gegn innan við fimmtán mínútum síðar. Þá fór ég beinustu leið í Krónuna. Þegar ég kom heim fékk ég hornstæðið og komst inn með allt í einni ferð, sjósundsdótið og handtöskuna líka. Var svo heppin að Oddur Smári kom fram úr herberginu sínu í þann mund sem ég kom inn í íbúð. Hann tók við vörunum og gekk frá þeim. Fór ekkert út aftur en það datt nýtt eldhúshandklæði (eða tuska í stærra lagi) af prjónunum og svo horfði ég á enska boltann og fleira í imbanum. Fór í háttinn um hálfellefu en ekki að sofa fyrr en um eitt því ég þrjóskaðist við að klára síðustu 150 bls. í bókinni Rósablaðaströndin eftir Dorothy Koomzon.

28.8.21

Komin heim í bili

Dreif mig á fætur rétt fyrir sjö til þess að geta kvatt systur mína og mág. Systir mín þurfti að skreppa í vinnuna vegna vörutalningar. Annars á hún ekki að vinna á föstudögum því hún vinnur frá klukkan sex til tólf á sunnudögum og frá sex til fjögur mánudaga til og með fimmtudaga. Þetta var annar föstudagurinn í röð sem hún þurfti að skreppa aðeins í vinnuna en þá þarf hún ekki að mæta fyrr en klukkan átta og það hentar mági mínum mun betur en þau eru yfirleitt samferða og sambíla inn á Akureyri hvort sem Helga er að mæta klukkan sex eða átta. Hundunum var leyft að vera lausir eftir hjá mér þegar hjónin kvöddu og fóru um sjö tuttugu. Vargur fór auðvitað strax að kvarta en róaðist þó fljótlega í stutta stund. Ég byrjaði á því að kveika á tölvunni, vafra um á netinu og blogga. Rúmlega átta hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér AB-mjólk og svo sviðasultusneið á eftir. Drakk tvo bolla af kaffi. Hleypti hundunum út í smá stund en rétt fyrir níu lokaði ég þá inni í hundaherbergi í kjallaranum. Komst með allt mitt dót út í bíl í einni ferð en það er örugglega bara vegna þess að ég geymdi hluta af dótinu í bílskottinu. Var lögð af stað áður en klukkan varð níu. Keyrði Vaðlaheiðagöng inn á Akureyri, bætti á tankinn hjá AO við Baldursnes. Keyrði svo í gegnum Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Fékk mér sundssprett á Hofsósi. Stoppaði samt ekki lengi við í sundinu, líklega aðeins um hálftíma. Nægur tími fyrir 300 m og smá stund í heita pottinum. Keyrði í gegnum Sauðárkrók og Blöndós. Næsta stopp var á Hvammstanga á veitinga staðnum þar. Fékk mér fiskrétt dagsins sem var Langa og rabbabarapæ og kaffi á eftir. Kom heim um sex líklega fimm mínútum of fljótt því ég fékk stæði fyrir framan nr 13 en stuttu seinna losnaði stæði aðeins nær. Fékk Davíð Stein til að koma og hjálpa mér með dótið inn svo ég þyrfti ekki að fara tvær ferðir. Hann benti mér á að ég hefði getað lagði í heimkeyrslunni til að losa bílinn og fært hann svo á eftir. Þeir bræður voru nýbúnir að borða og rétt heilsuðu upp á mig áður en þeir lokuðu sig af í herbergju sínum. Ég settist með fartölvuna inn í stofu og kveikti á sjónvarpinu í leiðinni.

27.8.21

Hugað að heimferð

Aftur var ég komin á fætur fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Helga systir farin í vinnuna og mágur minn gat lúrt aðeins lengur og hundarnir fengu að vera frjálsir á meðan. Korter yfir sjö voru þeir settir inn í bæli og kvaddir. Mágur minn var kominn í vinnuna rétt fyrir átta og ég fór beint í Sundlaug Akureyrar. Byrjaði á tveimur ferðum í kalda pottinn og gufuferð. Fór í kalda sturtu og synti svo í tuttugu mínútur, örugglega 500 metra því ég held að laugin sé 25 metrar og ég synti 20 ferðir. Fór svo aftur í kalda. Hitastigið var 19°C ekki alveg eins mikil molla og daginn áður. Stuttu áður en ég fór upp úr eftir tvo tíma á laugarsvæðinu taldi ég mig sjá fyrrum kórfélaga minn. Var ekki 100% viss og þar sem ég sá ekki konuna hans sem líka var í KÓSÍ lagði ég ekki í að vinda mér að manninum, sem var reyndar sá sem ég taldi hann vera. Eftir sundið fór ég í Bakaríið við Brúna og fékk mér gúllassúpu, kaffibolla og ástarpung. Ábót var á kaffinu sem var gott því þetta voru fyrstu bollar dagsins, drukknir á tólfta tímanum. Síðan fór ég í Fiskás og Bónus og keypti þorskhnakka og meðlæti. Sendi systur minni smáskilaboð um að ég tæki að mér eldamennsku kvöldsins og væri búin að kaupa hráefnið. Var komin að Árlandi um eitt og hleypti hundunum út, gekk frá vörunum og gerði svo tilraun til að setjast í sólstól út undir vegg. Ferðin á lognin var svo mikil að ég gafst upp eftir hálftíma og við hundarnir fórum öll inn. Hellti mér upp á kaffi og kveikti í staðinn á fartölvunni við eldhúsborðið. Um þrjú fór ég aftur út með prjónana og þá var mun lygnara. Skrapp aðeins inn um fjögur til að hella uppá en sat úti þegar hjónin komu heim rétt fyrir fimm. Þau fengu sér af kaffinu. Ég var tilbúin með kvöldmatinn rétt fyrir hálfsjö og tókst mér jafnvel upp og oftast áður. 

26.8.21

Sundlaug Akureyrar

Ég var komin á fætur rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Helga systir var þá þegar búin að vinna tæplega klukkustund en ég bauðst til að skutla mági mínu í sína vinnu og hann á ekki að  mæta fyrr en klukkan átta. Fékk mér lýsi, vatnsglas og brauðsneið með spægipylsu. Tuttugu mínútum yfir sjö var Ingvi búinn að loka hundana inni í hundaherbergi og við lögðum af stað yfir á Akureyri. Hleypti honum út við Advania ca sjö mínútum fyrir átta. Tók smá rúnt um bæinn en var komin í sund um hálfníu. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn og svo var ég ýmist að pottormast eða að sitja eða liggja í sólbaði næstu þrjá tímana. Synti ekki neitt en fór eina ferð í gufuna. Úti var kominn yfir 23°C hiti. Mér datt í hug að keyra lengri leiðina, Víkurskarðið yfir í Árland aftur og kannski koma við á Svalbarðseyri eða Grenivík. Var rétt komin í gegnum hringtorgið og að keyra framhjá 90 km merkinu að auka hraðann þegar ég fékk smá stein í framrúðuna. Ofarlega í rúðuna fyrir framan farþegasætið myndaðist stjarna. Ég varð svo svekkt og fúl að ég keyrði sem leið lá áfram alla leið í sveitina án þess að stoppa. Hengdi sundbolinn á útisnúru, fór inn með bakpoka og handtösku og hleypti hundunum alla leið út í smá stund. Komum svo inn í tæpa klukkustund á meðan ég hitaði mér kaffi, bloggaði og fleira. Svo fórum við öll út aftur. Skrapp ínn aftur rétt fyrir fjögur og Cara notaði tækifærið og lagðist í bælið við hjónarúmið. Þaðan hreyfði hún sig ekki fyrr en Ingvi og Helga komu heim rétt fyrir fimm. En við Vargur fórum út aftur og vorum úti þar til systir mín og mágur komu og mun lengur en það, allavega til svona hálfsjö. Þá var ég búin að fá nóg af útiveru. 

25.8.21

Full mikill hiti úti

Hundarnir voru greinilega í "geymslu-herberginu" sínu þegar ég kom fram rúmlega átta í gærmorgun. Þar sem ég ætlaði mér að skreppa í burtu fljótlega var ég ekkert að hleypa þeim út. Vafraði um á netinu í uþb klukkutíma. Hellti mér svo upp á smá kaffi og fékk mér hressingu. Rétt upp úr tíu tók ég með mér bakpokann, handtösku og sundbol út í bíl. Bolinn setti ég í sundtöskuna sem ég geymi í skottinu,  Beygði til hægri frá afleggjaranum og ók inn á Húsavík. Það lá einhvers konar þokumystur yfir bænum. Ég var samt ákveðin að fara aftur í sund þarna og prófa kalda pottinn betur. Fór allra fyrst í þann kalda um hálfellefu leytið. Synti í ca fimmtán mínútur og skiptist svo á að fara í kalda pottinn og sólbað næstu rúmu klukkustundina. Ákvað að taka annan bíltúr til baka og hefði alveg getað heimsótt Mývatn aftur sem og skoðað fuglasafn en ég var ekki stemmd í það. Kom til baka að Árlandi um þrjú. Rétt á eftir mér kom fólk í hlaðið. Bílstjórinn sagðist hafa verið með Ingva í Vogaskóla og að konan sín hefði verið í sveit rétt hjá. Þau vildu ekkert stoppa en ég sagði að til að hitta á Ingva yrðu þau að koma um fimm. Því miður láðist mér að spyrja um nöfnin á viðkomandi og þau kynntu sig ekkert frekar. Hleypti hundunum úr herberginu og alla leið út. Setti nýtt vatn í hundaskálina á tröppunum og settist svo út undir vegg með prjónana og bók. Þar sat ég til hálffimm. Þá gat ég séð á Snap-kortinu að systir mín og mágur væru lögð af stað frá Akureyri. Ég kallaði á hundana inn og hellti upp á kaffi. Mágur minn var frekar forvitinn að vita hver það hefði verið sem ætlaði að heilsa upp á hann en því miður vissi ég bara að þeir hefðu verið samtíða og sama árgangi í Vogaskóla og væru vinir á Facebook. Eftir að hafa fengið sér einn kaffibolla fór Ingvi með hundana í rúmlega tveggja tíma göngu upp á fjall, ætlaði að athuga með gæsir. Við Helga tókum því rólega á meðan.

24.8.21

Vika

Fór á fætur rétt fyrir átta í gærmorgun. Báðir hundarnir voru uppi við og flatmöguðu í bæli og á gólfinu í hjónaherberginu. Ég byrjaði morguninn á því að vafra um á netinu eftir morgunverkin á baðinu. Rétt fyrir níu fór eldra A-ið af stað í vinnuna sína en hann vinnur á sveitabæ rétt við vegamótin. Yngra A-ið hafði farið inn á Akureyri kvöldið áður en hann er í VMA og skólinn byrjaður. Um tíu tók ég með mér prjóna og bók og settist út undir húsvegg fyrir neðan stofugluggann. Leyfði hundunum að koma með mér. Hulda var enn sofandi, svaf næstu til hádegis. Þegar hún var komin á stjá og búin að fá sér eitthvað settum við hundana inn í hundaherbergið í kjallaranum og ég skutlaði henni heim til sín inn á Akureyri. Hún leigir íbúð með kærasta sínum og þremur öðrum unglingum stutt frá sundlaug Akureyrar og ég fór beinustu leið í sund eftir að hafa kvatt frænku mína. Þá var klukkan að verða hálfeitt. Var í sundi í tæpa tvo tíma, synti m.a. í tuttugu mínútur og fór amk fjórar ferðir í kalda pottinn. Hitti eina frá Hellu þegar ég var á leiðinni upp úr. Eftir sundið fór ég beint yfir í Árland aftur og hleypti hundunum út úr herberginu. Við fórum þó ekki út. Ég kveikti aftur á fartölvunni eftir að hafa búið til kaffi og sett á brúsa. Systir mín og mágur komu heim rétt um fimm og rúmri klukkustund komu systir mágs míns, systurdóttir og mágkona hans í heimsókn. Tvær eldri konurnar eiga íbúð á Siglufirði og sú yngri var í heimsókn hjá þeim. Allar eru þær þó búsettar í Reykjavík. 

23.8.21

Enn á Árlandi

Klukkan var langt gengin í níu þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Þá var systir mín löngu farin í vinnuna, systurdóttir mín sofandi og mágur minn og hundarnir í húsbóndaherberginu í kjallaranum. Þeir komu fljótlega upp eftir að ég var komin á stjá. Ég byrjaði á því að vafra um á netinu í tæpan klukkutíma. Um tíu leytið fékk ég mér eitthvað að borða og hellti uppá könnuna. Mágur minn drakk með mér einn bolla en svo fóru hann og hundarnir í langan göngutúr upp á fjallið fyrir ofan bæinn. Ég settist með bók og prjónana mína út undir húsvegg. Var aðallega að prjóna. Systir mín kom heim úr vinnunni einhvern tímann upp úr hádeginu og var komin heim amk hálftíma áður en Ingvi og hundarnir skiluðu sér heim úr göngutúrnum. Seinni partinn spurði Hulda hvort hægt væri að búa til vöfflur. Það var hægt en við Helga urðum að skjótast inn í Dalabúð eftir rjóma og smjöri. Hulda bjó til vöfflur handa okkur frænkum en Helga bjó til ketóvöfflur handa þeim Ingva. 

22.8.21

Jarðböðin við Mývatn, tékk!

Veðrið í gær var mjög gott. Við systur sátum úti við húsvegg lon og don aðeins fram yfir hádegi. Hulda kom út við og við en hún var annars inni að mála. Mágur minn skrapp með annan hundinn yfir á næsta fell að gera tilraun til að spotta gæsaflug. Það er verið að slá tún hér og þar í grenndinni og það truflar örugglega. Systir mín hringdi eitt símtal um tólf og pantaði tíma í jarðböðin. Um hálftvö söfnuðumst við saman í rafmagnsbílinni, hjónin fram í og við frænkurnar aftur í. Meðferðis voru sundföt og handklæði. Vorum komin inn að jarðböðunum við Mývatn um hálfþrjú. Þar gat mágur minn stungið bílnum í hleðslu. Notuðum tvær ferðagjafir til að borga inn fyrir okkur fjögur og systir mín keypti armbönd fyrir okkur stelpurnar til að geta tekið út drykki. Á mínu armbandi stóð 2xvínglös. Notalegt var í böðunum og vorum við ofan í í rúman klukkutíma. Ég notaði svo tækifærið og þvoði mér um hárið á eftir. Það er sjampó, hárnæring og sápa í boði á staðnum. Komum til baka á Árland á sjöunda tímanum. Mæðgurnar fleygðu sér aðeins en ég greip í prjónana í smá stund. Svo eldaði ég afganginn af þorskhnakkaflökunum sem við keyptum í fyrradag.

21.8.21

Ennþá í heimsókn hjá systur og mági

Hjónin voru aðeins seinna á fótum í gærmorgun en dagana á undan en þó farin upp úr klukkan sjö. Ég fór á fætur eitthvað uþb klukkutíma síðar. Systir mín á ekki að vera í vinnu á föstudögum því hún vinnur á sunnudögum og hún ætlaði bara aðeins að skutla manninum í hans vinnu og kíkja í klukkutíma eða tvö í sína vinnu. Ég var alveg róleg og ekki búin að plana neitt frekar en fyrri daginn. Byrjaði morguninn á því að vafra um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu. Fékk mér morgunmat og hellti upp á kaffi á tíunda tímanum. Las og prjónaði fram að hádegi. Um það leyti hringdi systir mín og sagðist vera á leiðinni yfir. Hún hellti uppá þegar hún var komin og við fengum okkur hressingu um eitt. Um þrjú leytið lögðum við af stað inn á Akureyri. Keyptum þorskhnakka í Fiskás og komum aðeins við í Bónus. Planið hafði svo verið að sækja Huldu og kærastan hennar og svo mág minn í vinnuna. Hulda hafði hins vegar fengið tíma hjá lækni sem hún hafði verið búin að bíða eftir og átti að mæta þar hálffimm. Við systur sóttum því mág minn fyrst og þau skruppu aðeins í Húsasmiðjuna og svo Bykó á meðan beðið var eftir að Hulda yrði búin hjá lækninum. Hún var ekki búin þar fyrr en um sex og þá vorum við búin að bíða fyrir utan í hálftíma. Keyrðum á eftir kærasta hennar heim til þeirra, hann lagði bílnum þar fyrir utan, skrapp inn og gaf hundinum sínum og varð svo samferða okkur í sveitina. Þegar þangað kom tók ég til við eldamennskuna. Reif niður blómkál og setti upp í sigtipott til að gufusjóða. Braut nokkur egg og kryddaði og setti möndlumjöl á einn disk og byggmjöl með smá hveiti á annan (Hulda er með ofnæmi fyrir möndlumjölinu). Skar niður þorskhnakkana dýfði þeim í eggjablönduna og velti sumum upp úr byggmjölinu og öðrum upp úr möndlumjölinu. Smjörsteikti þetta á pönnu, blandaði rest af eggi og byggmjöli saman og hellti yfir og setti smá rjómaslettu út á. Þetta þótti mjög gott. Ingvi skutlaði kærastanum inn á Akureyri seinna um kvöldið en Hulda ætlar að vera til sunnudags og mála en þær græjur hennar eru í sér herbergi í kjallaranum.

20.8.21

Smá þokuúði í morgunsárið

Ef maður er farinn að sofa um klukkan ellefu þá sefur maður yfirleitt ekki lengur en til rúmlega sjö. Ég var amk útsofin um hálfátta í gærmorgun. Hafði þetta eins og á miðvikudagsmorguninn þ.e. eftir morgunverkin á baðinu kveikti ég á fartölvunni og sat við hana við eldhúsborðið í rúmlega klukkustund. Svo kláraði ég síðustu umferðirnar af eldhúshandklæðatuskunni sem er búin að vera á prjónunum síðustu daga og felldi af. Fékk mér matskeið af þorskalýsi (keypti litla flösku í Nettó í fyrradag) og AB-mjólk með bláberjum. Las svo um stund í; Ég mun sakna þín á morgun eftir Heine Bakkeid. Um ellefu tók ég með mér bakpokann og handtöskuna, sunddótið var í bílnum, og keyrði inn á Akureyri. Byrjaði á því að fara í sund og beint í kalda pottinn þar, sem tekur allavega þrjá með góðu móti. Synti í um tuttugu mínútur, sennilega 500 metra, fór tvisvar enn í kalda og gufubað og sturu á milli þeirra ferða áður en ég fór upp úr. Þá skrapp ég aðeins í jólahúsið aðallega til að taka mynd af niðurtalningaskiltinu. Staldraði þar við í innan við hálftíma. Næsta stopp gerði ég á kaffihúsinu Kaffi Kú. Þar fékk ég mér bananavöfflu og kaffi og fékk sæti þar sem ég gat séð niður í fjósið, m.a. þar sem kýrnar fóru í einn mjólkurróbotinn. Eftir þetta stopp kláraði ég hringinn og keyrði aftur inn á Akureyri til að kaupa mér rafhlöður í þráðlausu tölvumúsina. Ákvað líka að fylla á tankinn í Baldursnesi þótt ég þyrfti þess eiginlega ekki, þurfti aðeins 13 lítra til að fylla á tankinn og get þá keyrt 800 km áður en hann verður tómur. Klukkan var orðin fjögur þegar ég kom til baka, aðeins korteri á undan systur minni og mági. Var búin að hleypa hundunum út og var með þeim úti að tala við pabba í gemsann þegar þau runnu í hlaðið.

19.8.21

Kyrrðin

Klukkan var næstum orðin níu þegar ég vaknaði í gærmorgun. Hafði aðeins rumskað og heyrt í systur minni og mági eldsnemma en þau fara sambíla inn á Akureyri þrátt fyrir að mágur minn eigi ekki að byrja að vinna fyrr en tveimur tímum seinna heldur en Helga systir. Eftir að ég var komin á fætur og búin með morgunverkin á baðherberginu setti ég upp fartölvuna í eldhúsinu. Ég var búin að blogga og var að leika mér smá í Fb-leik þegar stóra A-ið kom niður  um hálftíu leytið. Við heilsuðumst en skömmu síðar var hann rokinn en hann vinnur á næsta bæ. Upp úr klukkan tíu fékk ég mér AB-mjólk og setti bláber út í sem Helga hafði látið mig vita af að væru nýlega tínd og í öðrum ísskáp. Um hálf ellefu bjó ég til tvo bolla af kaffi í pressukönnu. Var svo að lesa til klukkan að verða tólf. Fljótlega eftir það keyrði ég til Húsavíkur. Þar á ég eina frænku en ég vissi að hún væri á ferðalagi. Tilgangur minn var að prófa sundlaug og kalda pottinn á staðnum. Fann hann ekki fyrr en ég var búin að synda í korter og svo sitja í nudd potti um stund. Samt er svæðið ekki svo stórt. En kaldi potturinn er einhverskonar svart rör eða hringur sem tekur bara einn í einu. Eftir að ég fann hann prófaði ég hann 2x5 mínútur. Sat einnig góða stund í sólbaði. Eftir sundið kom ég við í Nettó áður en ég keyrði til baka. Í eldhúsinu á Árlandi 0 sat litla A-ið þegar ég kom um þrjú leytið. Hann er jafn gamall Bríeti. Við heilsuðumst og spjölluðum meira heldur ég og bróðir hans um morguninn. Hleypti hundunum út úr herberginu sem þeir eru geymdi í á nóttunni og þegar eigendur eru í vinnunni. Hjónin skiluðu sér heim um fimm og þá var hellt á könnuna og fengið sér kolvetnasnautt brauð með smjöri og heimareyktum silungi.

18.8.21

Sofið út í sveitinni

Já, ég tók fartölvuna með mér og mágur minn stillti mig inn á netið þeirra hér í Árlandi 0 í gærkvöldi. Var búin að pakka, sækja þvott á snúruna og vafra aðeins um á netinu um tíu í gærmorgun. Þá vakti ég Odd til þess að kveðja hann áður en ég hlóð bílinn. Fyrsta stopp var hjá Atlatsolíustöðinni við Sprengisand. Þar er líterinn ódýrari heldur en með ferðaafslætti á öðrum AO-stöðvum. Næsta stopp var hjá N1 við Gagnveg. Þar kvaddi ég Davíð Stein og fékk kaffi með mér af stað í ferðina. Það dugði mér alveg að Kjalarnesi. Var svo sem ekkert að flýta mér en næsta stopp var samt ekki fyrr en á Blöndósi um hálftvö. Hringdi í pabba sem var kominn heim úr sinni ferð. Fékk mér að borða á Teni og kaffibolla á eftir og kom svo við í vínbúðinni sem er hinum meginn við götuna. Þar keypti ég heila hvítvínsbelju. Upp úr klukkan hálffimm var ég komin til Akureyrar. Byrjaði á því að koma við á AO-stöðinni í Baldursnesi en þar er sama verð og hjá Sprengisandi og í Kaplakrika. Það dældust rétt rúmir 29 lítrar á tankinn. Þegar ég var á leiðinni í gegnum bæinn áttaði ég mig of seint á því, nýlega komin framhjá Hofi að ég var á beygjuakrein. Það varð til þess að ég tók smá rúnt um Akureyri og keyrði m.a. annars framhjá hverfinu þar sem systir mín og mágur bjuggu áður en þau seldu og fluttu í sveitina. Kom niður við Skautahöllina. Svo prófaði ég göngin. Þau eru jafnlöng og göngin undir Hvalfjörð, 7 km. Þegar ég kom í gegn gerði ég þá vitleysu að beygja strax til vinstri og keyrði þar af leiðandi upp í Víkurskarð. Þegar ég snéri loksins við og leitaði á ja.is kortinu var rúmlega hálftíma keyrsla eftir á áfangastað. En ég var komin þangað um sex. Allir voru heima nema "ættleiddu" synirnir og hundarnir tóku mér fagnandi sem og fólkið mitt. Ég fékk að koma mér fyrir í herberginu sem Bríet á. Hún er líklega ekki að fara að nota það mikið amk á næstunni. Pabbi hafði verið í þessu herbergi dagana áður. Eftir að mágur minn var búinn að fara með hundana í langa göngu voru grillaðir hamborgarar. Hjónin fengu sér vatnsglas með en ég hvítvínsglas og svo annað eftir matinn. Þar sem þau eru bæði að vinna og sambíla inn á Akureyri og fara á fætur fyrir hálfsex bauð ég góða nótt um tíu, samt fyrst til að fara inn í rúm. Las í uþb hálftíma áður en ég slökkti ljósið.

17.8.21

Ágætis ferðaveður

Heyrði þegar N1 sonurinn lagði af stað í vinnu stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Innan við hálftíma seinna var ég komin á fætur. Tók því nokkuð rólega framan af morgni, vafraði um á netinu og prjónaði nokkrar umferðir. Klukkan tíu var ég komin í Laugardalinn. Á rétt rúmum klukkutíma fór ég fjórar ferðir í kalda pottinn, flestar fimm mínútur. Tvisvar sinnum í þann heitasta, synti aðeins 200 metra, fór einu sinni í sjópottinn og settist nokkrum sinnum á bekk á milli pottaferða. Sleppti alveg gufunni í þetta sinn og endaði þetta allt á kaldri sturtu áður en ég fór upp úr. Skrapp næst upp í Mjódd í verslun sem heitir Frú Sigurlaug. Þar mátaði ég nokkra brjóstahaldara og keypti mér fjóra nýja svoleiðis. Þeir gömlu eru farnir að láta vel á sjá. Þetta er með því leiðinlegra sem ég geri og ég hef verið að fresta þessu alltof lengi. Kom svo við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið áður en ég fór aftur heim. Klukkan var farin að ganga tvö þegar ég hellti mér upp á kaffi. Prjónaði meira og lauk við að lesa bókina Auga fyrir auga. Mágur minn hafði samband og bað mig um að segja sér bílnúmerið mitt. Hann er nú búinn að skrá það þannig að ég get keyrt göngin ódýrara en sennilega samt á hans kostnað. Horfði á megnið af  landsleiknum í körfubolta og svo síðasta hlutann. Úrslitin voru svo svekkjandi.

16.8.21

Ágústmánuður hálfnaður

Sem fyrr var ég komin á fætur upp úr klukkan sjö. Vafraði um á netinu fyrsta klukkutímann en svo tók ég bók í hönd í smá stund. Auga fyrir auga er bók upp á hátt í fimmhundruð blaðsíður og ég er rétt tæplega hálfnuð með að lesa hana. Aldrei þessu vant er ég ekki að lesa fleiri en eina bók í einu. Eftir hálftíma lestur greip ég í prjónana mína. Kláraði fyrri dokkuna í eldhúshandklæðið tilvonandi og prjónaði síðari dokkuna saman við. Um níu fékk ég mér eitthvað staðgott og hressandi að borða. Var mætt með sjósundsdótið á stæðin við Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Hlustaði á fréttir áður en ég yfirgaf bílinn og læsti honum. Það var flóð, smá öldugangur og sjórinn 14,1°C. Synti út að kaðli og svamlaði um í sjónum í tæpan hálftíma. Kom aðeins við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Kom við í afgreiðslunni þegar ég var búin að fara í sturtu og klædd aftur. Sumaropnunin stendur til 22. ágúst n.k. og svo gildir sund/sjósundskortið til 9. september. Gildistíminn var framlengdur vegna lokunar á vortímabilinu. Mun svo fá afslátt af haustgjaldinu eftir 10. sept. Var komin heim aftur um hálftólf og þá fyrst hellti ég mér upp á kaffi. Það urðu þrír bollar og svo ekkert meira kaffi eftir það. Er ekki að gera þetta viljandi en ef klukkan er orðin mikið meira en fjögur þegar ég fer að hugsa aftur um kaffi þá sleppi ég því að hella upp á. Samt á ég ekkert í vandræðum með svefn hvort sem ég drekk mikið eða lítið kaffi, seint eða snemma. 

15.8.21

Sunnudagur

Var komin á fætur um sjö í gærmorgun. Vafraði um á netinu í rúman hálftíma en var svo mætt í sund rétt eftir að laugin opnaði um átta. Byrjaði á kalda pottinum eins og venjulega og var búin að fara þrisvar í hann, tvisvar í þann heitasta og lá í sjópottinum þegar ég sá að enginn var á braut sjö. Í stað þess að dýfa mér aðeins í þann kalda áður skildi ég skóna mína eftir við þann pott og dembdi mér í laugina. Synti 400 á bakinu og 100 síðustu á bringunni. Þá loksins fór ég í fjórðu ferðina í kalda pottinn. Settist svo við hliðina á einni sem ég þekki og spjallaði við hana þar til hún kvaddi og fór. Þá fór ég smá stund í gufuna, kalda sturtu á eftir og þrjár mínútur í kalda pottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Klukkan var langt gengin í ellefu þegar ég kom heim og ég hellti mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Horfði á hádegisleikinn í enska boltanum en skipti þó yfir á hádegisfréttir í hálfleik og fram í seinni hálfleikinn. Leeds var nýbúið að jafna og Man. Utd. að komast yfir aftur þegar ég skipti aftur yfir á leikinn sem endaði 1:5. Oddur Smári var kominn á fætur aldrei þessu vant og horfði á leikinn með mér. Man. Utd. er það lið sem hann heldur með. Fljótlega eftir leikinn skrapp ég aðeins í Kringluna. Skilaði fjórum bókum á safnið, báðum skammtímaláns bókunum og tveimur öðrum með skilafrest til 25. ágúst. Þrátt fyrir að það væru fjóra bækur heima ólesnar tók ég sex í viðbót. Allar með 30 daga skilafresti og möguleika á því að framlengja í aðra 30 daga. Og allar bækur sem ég er með í láni eru með skiladaga í september. Fót með bókapokann út og setti í skottið á bílnum. Síðan skrapp ég aðeins inn í Tiger og Söstrene Grene. Í Tiger keypti ég mér tvenn ný lesgleraugu. Í hinni búðinni keypti ég helling af garni sem má þvo á 60°C, efni í tuskur eða eldhúshandklæði. Keypti nokkra liti og tvær dokkur af hverjum lit. Skrapp síðan í smá bíltúr út á Gróttu áður en ég fór heim aftur. Er heim kom fékk ég synina í lið með mér að gera smá helgarþrif. Annar ryksugaði íbúðina, hinn skúraði og ég ryksugaði sameignina frammi. Horfði á síðdegisleikinn í ensku, mína menn heimsækja og vinna Norwich City með þremur gegn engu. Er byrjuð að lesa bókina Auga fyrir auga eftir Roslund & Hellström.

14.8.21

Ljúft að vera í fríi

Enn og aftur var ég snemma á fótum í gærmorgun. Klukkan var samt orðin sjö. Mottóið er auðvitað að ef ég er glaðvöknuð er best að fara á fætur. Vafraði um á netinu. Um níu hellti ég mér upp á könnuna og fékk mér eitthvað að borða í leiðinni. Var komin í Nauthólsvíkina rétt eftir að opnaði. Sjórinn var 15°C og það var flóð. Ég synti og svamlaði út að kaðli. Fór aðeins lengra heldur en kaðallinn reyndar og ætlaði svo aldrei að tíma að fara upp úr. Kom við í lóninu og þegar ég kom í pottinn sá ég að ég hafði verið rúman hálftíma í sjónum. Áður en ég fór heim skrapp ég í Krónuna við Granda og gerði vikuinnkaup. Davíð Steinn tók við vörupokunum þegar ég kom heim og gekk frá þeim. Meiningin var svo sú að skella sér líka í sund en það varð ekkert úr því. Hefði samt örugglega þurft að kæla mig meira. 

13.8.21

Sandalar í sjálfheldu

Í gærmorgun var ég komin á fætur rúmlega sjö. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég beint inn í stofusófa og kveikti á fartölvunni. Einni og hálfri stundu síðar slökkti ég á tölvunni og tók til við að lesa seinni skammtímalánsbókina. Var eitthvað að velta því fyrir mér að skreppa í sjóinn um tíu og svo í sund seinni partinn. Sleppti sjóferðinni en kláraði bókina í  staðinn og fór svo að prjóna. Það var ekki fyrr en rétt fyrir tvö sem ég dreif mig af stað í stund. Oddur var vaknaður og ég lét hann vita að ég ætlaði að vera lengi í sundi. Hitti kalda potts vinkonu mína í minni fyrstu ferð í kalda pottinn. Hún reis upp af bekk rétt hjá. Var ekki búin að vera lengi á svæðinu. Hún var mun styttra í pottinum heldur en ég. Eftir örfáar ferðir í þann kalda og heitasta losnaði bekkur við hliðina á hennar bekk og ég nýtti mér það og fór að safna D-vítamíni. Skrapp eina ferð í kalda inn á milli.  Um hálffjögur kvaddi vinkona mín. Ég fór þá eina ferð í kalda pottinn og svo beint í sjópottinn. Þar flatmagaði ég í uþb tuttugu mínútur og var að spá í að fara að kæla mig aftur þegar kom maður á hjólastól. Lagði stólnum yfir skóna mína og sat svo næsta hálftímann í pottinum rétt hjá mér. Mér lá svo sem ekkert á, settist stöku sinnum upp á bakkann til að kæla mig niður. Það var ekki fyrr en tveimur mínútum eftir að maðurinn fór burt á stólnum sínum að ég fór síðustu ferðina í kalda pottinn og í gufubað í tíu mínútur á eftir. Klukkan var að verða sex þegar ég kom heim.

Annars er ég byrjuð að lesa síðustu bókina úr safnferðinni sem ég fór í ferðina á undan mánudagsferðinni; Vetrarlokun eftir Jörn Lier Horst. Ö-ið á reyndar að vera skrifað með skástriki í gegn en ekki tveimur punktum.

12.8.21

Sólin komin aftur

Ef maður er glaðvaknaður þá fer maður á fætur sama hvort klukkan er sex, sjö eða átta. Ég var semsagt komin á fætur um sex í gærmorgun. Tók því samt alveg rólega. Vafraði um á netinu fyrsta eina og hálfa klukkutímann. Svo fór ég að lesa. Kláraði aðra skammtímalánsbókina. Prjónaði nokkrar umferðir af eldhúshandklæðatuskunni. Rúmlega tíu tók ég loksins til sunddótið og lagði af stað í sund. Kom við í Landsbankaútibúi 0111 við Borgartún og fékk eina í fyrirtækjaþjónustunni að hjálpa mér að endurstilla inn verkfæri vegna hússjóðs Drápuhlíðar 21. Settum þetta upp í símanum mínum og þá gat ég skilað inn lyklinum sem hangið hefur á lyklakippunni undanfarin misseri. Þetta tók smá stund en ég var komin í sund rétt fyrir ellefu. Tók eftir því að af öllum þeim handklæðum sem ég hafði sótt niður á snúrur tók ég minnsta handklæðið, handlaugarhandklæðið með mér. Fór þrisvar í kalda, synti 200, eina ferð í heitasta og í gufu. Fór í kalda sturtu eftir gufubaðið og sat svo smá stund úti til að þurrka mig aðeins. Fór ekki aftur í sturtu en skolaði vel úr sundbolnum. Kom heim um hálfeitt. Byrjaði fljótlega að lesa hina skammtímalánsbókina; Skollaleikur eftir Ármann Jakobsson. Hef lesið hinar þrjár skáldsögur hans um sama lögreglugengi og líkað vel. Klukkan var orðin tvö þegar ég hellti mér loksins upp á fyrstu kaffibolla dagsins. Drakk tvo. Það var örugglega eftir í könnunni fyrir einn bolla enn en ég drakk hann ekki og hellti ekki aftur upp á könnuna.

11.8.21

Glaðvöknuð klukkan sex

Ég var komin á fætur um klukkan sjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég niður með fartölvuna í rúma klukkustund. Á níunda tímanum hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér einhverja hressingu. Byrjaði á annarri skammtíma lánsbókinni; Farangur  eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Klukkan tíu var ég komin í Nauthólsvík með sjósundsdótið mitt. Synti út að kapli og svamlaði þar um í rúman hálftíma. Sjórinn var 14,1°C og ég ætlaði ekki að tíma að fara upp úr. Kom aðeins við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Klukkan var orðin langt gengin í tólf þegar ég kom heim aftur. Setti nokkur handklæði í þvottavél á forþvott og 60° prógram. Tók upp prjónana um það leyti sem hádegisfréttirnar á samtengdum rásum eitt og tvö hófust. Rétt fyrir eitt hringdi ég í tvíburahálfsystur mína. Hún er líka í sumarfríi og við ákváðum að ég skyldi skreppa yfir til hennar og ég fór næstum strax af stað. Samdi við Odd um að hengja upp úr vélinni seinni partinn. Tók handavinnuna með mér. Byrjuðum á því að fá okkur kaffi og hressingu. Svo settumst við með prjónana út á svalir. Hún sýndi mér hannyrðabækur sem mamma hennar hafði látið hana hafa og ein af þeim bókum var eins prjónatuskubók og ég er búin að vera með í láni frá vinkonu minni. Við ákváðum að þar sem sú bók væri ekki merkt mætti ég eiga hana, hún þyrfti ekki tvær. Kom heim um hálfsjö og þá var Oddur búinn að afgreiða þvottahúsmálin og Davíð Steinn tilbúinn með kvöldmatinn. Fékk snapp frá Helgu systur um svipað leyti. Pabbi er kominn norður til þeirra.

10.8.21

Fyrsti sumarfrísdagurinn framundan

Vaknaði um sex í gærmorgun, tæpum hálftíma áður en klukkan átti að vekja mig. Fór strax á fætur, slökkti á vekjaranum, sinnti morgunverkunum á baðinu og settist svo inn í stofu með fartölvuna á lærunum. Vafraði um á netinu til klukkan að verða sjö. Þá fékk ég mér lýsi og vatnsglas áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Að þessu sinni lá leiðin yfir Skólavörðuholtið. Þessi síðasti vinnudagur fyrir sumarfrí var ekki lengi að líða og samt stóð hann yfir frá því um hálfátta til klukkan að verða þrjú. Ég var að hlaða inn verkefnum á framleiðsluvélina og ýta þeim af stað. Aðeins var um daglega framleiðslu að ræða og framleidd voru um sexhundruð kort í það heila. Vorum búnar með þá framleiðslu um hálftólf. Eftir hádegi taldi ég úr seinni tveimur vögnunum þær tegundir sem framleitt var á og sú sem var í bókhaldinu og tók til tölurnar merkti við. Flokkaði svo heimilislaus kort úr dk-endurnýjun og gekk frá þeim. Um tvö kom kerfisfræðingur í heimsókn og hjálpaði okkur að "klippa" út óframleidd kort úr endurnýjuninni og keyra framleidd kort tilbúin þannig að það mætti senda þau af stað í útibú og póst.

Fékk far heim úr vinnunni rétt fyrir þrjú. Um klukkustund síðar tók ég með mér sunddótið, dall undir fisk og bókasafnspoka með fimm lesnum bókum í. Byrjaði á því að fara á safnið og skila bókunum. Eftir heima voru tvær bækur, er langt komin með að lesa aðra þeirra; Að eilífu ástin eftir Fríðu Bonnie Andersen. Valdi mér því sex bækur í stað þeirra sem ég skilaði. Tvær af þeim bókum eru nýjar og með 14 daga skilafresti. Frá bókasafninu lá leiðin upp í Skipholt í Fiskbúð Fúsa sem var að opna aftur í gær eftir tveggja vikna sumarfrí. Þar keypti ég um 600gr af nætursaltaðri ýsu, kartöflu poka og einn poka af harðfisk, óbarinni ýsu. Hefði keypt tvo poka nema það var bara til þessi eini. Var mætt í Laugardalslaug upp úr klukkan hálffimm og fór að sjálfsögðu beint í kalda pottinn. Á heimliðinni um sex leytið ákvað ég að koma við í Nettó við Nóatún. Veit að þar fæst líka óbarin ýsa. Keypti brauð og ost í leiðinni.

Framundan eru sex vikur af sumarfríi. Það er viðbúið að bloggskrif muni verða stopulli sérstaklega ef ég fer í lengri ferðir út úr bænum. Látum það bara koma í ljós. Nú ætla ég að fara að hella mér upp á kaffi, venjast því að vera í fríi og íhuga eitthvað hvað ég mun gera af mér og hvenær.

9.8.21

Stutt vinnuvika

Fór á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Vafraði um á netinu, hellti upp á kaffi, fékk mér hressingu og tók því rólega til klukkan að verða níu. Skutlaði Davíð Steini upp á Gagnveg stuttu fyrir tíu og var mætt í Nauthólsvík rétt rúmlega tíu, stuttu eftir að búið var að opna aðstöðuna. Synti út að kaðli og svamlaði um í sjónum og smá stund í víkinni, alls um hálftíma. Var svo rúmlega korter í heita pottinum. Kom heim aftur um hálftólf. Var að spá í að skreppa á bókasafnið þar sem ég hafði fengið áminningu í pósti á föstudaginn að skiladagur á einni bók væri að nálgast. Kringlusafnið var hins vegar lokað og fresturinn rennur ekki út fyrr en í dag, 9. ágúst. Fór því ekkert út aftur en dundaði mér við alls konar heimavið. Fitjaði m.a. upp á nýju eldhúshandklæði svo ég er aftur með tvö verkefni á prjónum. 

8.8.21

Sunnudagsmorgun

Var komin á fætur  fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Hafði lofað N1-syninum að skutla honum á vakt upp á Gagnveg. Hafði góða stund til að vafra um á netinu áður en við þurftum að fara. Svo tók ég sunddótið með mér og fór beinustu leið í sund eftir að hafa skilað af mér syninum. Var mætt rétt eftir að opnaði. Byrjaði auðvitað á því að fara beinustu leið í kalda pottinn, svo þann heitasta, aftur kalda og aftur heitasta. Eftir þriðju ferðina í kalda fór ég á braut 2 og synti 500 metra, flesta á bakinu, aðeins 50 metra á bringunni. Og fór svo beint í kalda á eftir. Síðan flatmagaði ég í sjópottinum í dágóða stund áður en ég fór fimmtu og síðustu ferðina í kalda. Eftir þá ferð fór ég í gufuna í rúmar 15 mínútur og sat svo aðrar 15 mínútur úti í sólbaði áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið. Klukkan var um hálfellefu þegar ég kom heim. Fljótlega hellti ég mér upp á kaffi og afgangurinn af deginum var notaður í alls konar dútl. Eldhúshandklæði "datt" af prjónunum. Fitjaði upp á enn einu teppinu og tók einnig til dokkur í nýtt eldhúshandklæði eða borðtuskur. Las, fylgdist með olympíuleikunum, vafraði um á netinu og eitt og annað fleira. Einhverra hluta vegna hellti ég aðeins einu sinni á könnuna og drakk því aðeins tvo bolla af kaffi í gær. Held ég helli mér snöggvast upp á kaffi eftir þessi skrif. Þarf ekki að skutla Davíð Steini fyrr en upp úr klukkan hálftíu. 

7.8.21

Fimm sinnum fimm mínútur í kalda í morgun

Fjórða og síðasta virka daginn í vinnuvikunni labbaði ég lengri leiðina í vinnuna líkt og hina þrjá vinnudagana. Ég var í bókhaldinu og pökkuninni. Allt gekk vel og dagleg verk voru búin rétt eftir hádegishlé. Ákváðum að hafa þetta stuttan föstudag en vorum þó í vinnunni þar til klukkan var orðin tvö. Fékk far heim úr vinnunni og stoppaði þar í ca einn og hálfan tíma áður en ég dreif mig loksins í sund. Byrjaði á kalda pottinum og sat þar í fimm mínútur. Sá svo að braut tvö var alveg auð svo ég ákvað að synda amk tvær ferðir, 200 metra áður en ég fór aftur í þann kalda í aðrar fimm mínútur.  Kom heim úr sundi á sjöunda tímanum. Fékk mér snarl í kvöldmatinn og leyfði Oddi að nýta sér afgang frá því fyrr í vikunni. Held hann hafi ekki klárað þann afgang þó. 

6.8.21

Það er komin helgi

Hef oftast verið að vakna hálftíma til þremur korterum áður en vekjaraklukkan á að vekja mig. Á því var engin breyting í gær. Vaknaði rétt fyrir sex og fór á fætur. Dundaði mér við að vafra um á netinu eftir morgunverkin á baðinu og eina matskeið af þorskalýsi. Lagði af stað í vinnuna tíu mínútum fyrir sjö og labbaði enn og aftur lengri leiðina. Þetta eru uþb 3,4km og það labba ég á 40 mínútum. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Framleiðslu lauk um hálftólf en eftir hádegi vorum við að flokka kennispjöld til klukkan að verða hálfþrjú. Fljótlega eftir það "læddumst" við úr vinnu. Tvær af okkur fengum far með þeirri þriðju, ég heim í Hlíðar og hin á verkstæðið til mannsins síns sem er staðsett stutt frá Ártúnsbrekkunni. Sú sem var á bílnum býr í Árbænum. Eftir að ég kom heim kveikti ég um stund á fartölvunni. Sendi póst á þann sem hefur verið milligöngumaður um útboð vegna tilvonandi framkvæmda. Var með nokkrar spurningar til hans frá nágrönnum frá því á aðalfundinum. Var komin í sund um hálffimm. Synti reyndar ekkert en fór 3x5 mínútur í kalda pottinn, 2x í heitasta pottinn og endaði á að fara í gufubað. Áður en ég fór heim eftir sundið skrapp í Krónuna vestur á Granda og verslaði inn. Var búin að semja við Davíð Stein um að elda kvöldmatinn. Kom heim rétt upp úr sjö og fékk Odd til að koma út til að bera vörurnar inn og ganga frá. Davíð Steinn var tilbúinn með kvöldmatinn og aldrei þessu vant settumst við öll niður við borðið í holinu og borðuðum saman. 

5.8.21

Ennþá formaður sameiginlegs húsfélags

Fór lengri leiðina labbandi í vinnuna í gærmorgun. Er farin að labba undirgöngin á Bústaðaveginum rétt við Valsheimilið og leiðina inn að Nauthólsvík í stað þess að labba Eskihlíðina. Þetta er samt svipað löng leið. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni. Það var nokkuð stór dagur í gær, debetið 544, visa á þriðja hundrað og afgangurinn rétt rúmlega hundrað. Klárðuðum samt alla daglega framleiðslu rétt upp úr klukkan hálftólf. Fljótlega upp úr hádeginu þurfti sú sem var í bókhaldinu að fara. Við hinar tvær stemmdum af hádegisframleiðsluna og svo fór hin að vinna í reikningagerðinni og ég að flokka kennispjöld til klukkan að verða hálfþrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Um fjögur fór ég í sund. Synti reyndar ekkert en gaf mér góðan tíma að pottormast í kalda, heitasta og sjópottinum og endaði á góðu gufubaði. Kom heim upp úr klukkan sex og stoppaði við í tæpa tvo tíma áður en ég fór upp í óháðu kirkjuna en ég var búin að leigja annan salinn undir aðalfund sameiginlegs húsfélags Drápuhlíð 19-21 milli klukkan átta og tíu. Ég var komin fyrir utan korteri fyrr ca 3 mínútum á undan þeirri sem sér um útleigu. Hún hleypti mér inn og samdi svo við mig um að safna leirtaui í kassa, þurrka af borðum og læsa á eftir okkur að fundi loknum. Það mætti einn úr hverri íbúð og nágranni minn í risinu tók son sinn með svo við vorum 9. Ritari stjórnar  tók að sér að skrá fundinn og ég var fundarstjóri. Málin virðast vera að þokast í rétta átt en það bauð sig enginn fram sem formaður á móti mér sennilega af því að ég gaf kost á mér áfram. Öllu erfiðara var að finna nýja gjaldkera en sú sem bauð sig fram á stofnfundinum fyrir tæpu ári síðan er líklega að fara að selja og svo er brjálað að gera. Það þótti samt sanngjarnt að ef formaður og ritari kæmu úr 21 ætti gjaldkeri að koma úr 19 svo við í 21 myndum ekki yfirtaka félagið. Einn íbúi hinum megin er búsettur í Berlín stóran hluta ársins og risíbúinn sagðist vera listamaður ekki læs á tölur. Í húsfélaginu þeirra meginn er sami formaður og gjaldkeri og hann tók að sér með semingi að vera prókúruhafi ef við sem erum með honum í stjórn yrðum dugleg að hjálpa til þegar allt fer á fullt í framkvæmdum, hvenær sem það skyldi nú verða. Ritarinn tók að sér að undirbúa stofnun reiknings á sameiginlegu kennitöluna og mun í leiðinni hafa það að hann fái skoðunarrétt. Við erum aðeins með eitt tilboð í framkvæmdirnar en sumir vildu fá svör við nokkrum spurningum áður en samþykkt verður að taka því eða hafna. Nú þarf ég bara að senda skoðunarmanni þessar spurningar og taka stöðuna hvort tilboðið standi enn. Fundi var slitið rétt rúmlega hálftíu.

4.8.21

Morgunstund

Var vöknuð hálftíma áður en vekjarinn átti að vekja mig. Slökkti á vekjaranum og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðinu hafði ég alveg hálftíma til að vafra um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna lengri leiðina. Var því komin með yfir fimmþúsund skref fyrir klukkan átta. Ég var í bókhaldinu og þar sem þetta var fyrsti virki dagur nýs mánaðar þýddi það aðeins öðru vísi nálgun þar sem loka þurfti júlí mánuði og opna ágúst. En þetta gekk allt saman vel þótt það sé langt síðan ég var í þessu síðast. Framleiðslu lauk um hálftólf. Þegar búið var að telja eftir hádegi fór önnur af hinum að sinna reikningagerð en við hinar tvær opnuðum kortasendingu, töldum, skráðum og létum plasteigendur vita. Fékk far heim úr vinnunni stuttu fyrir þrjú. Var mætt í Laugardalslaugina um hálffimm. Það urðu fjórar sinnum fimm mínútur í kalda pottinn, 300 metra bringusund, 2 ferðir í heitasta pottinn og ein löng gufuferð. Kom heim aftur um hálfsjö. Enn eitt teppið "datt" af prjónunum í gærkvöldi.

3.8.21

Vinnuvika hafin

Ég var vöknuð og komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu byrjaði ég á því að vafra um á netinu í fartölvunni. Rétt fyrir níu hellti ég mér upp á einn kaffibolla og fékk mér hressingu með. N1 sonurinn var búinn í fríinu sínu og ég hafði samþykkt að skutla honum upp á Gagnveg þannig að hann gæti opnað eitthvað fyrir tíu. Hann var í sturtu þegar ég var að næra mig. Lögðum af stað fyrir klukkan hálftíu og tók ég sjósundsdótið með mér. Missti af beygjunni upp í Grafarvog og snéri við við Korputorg eftir að ég komst að því að engin leið var þaðan og inn í Grafarvog. Hleypti syninum út við N1 við Gagnveg korter fyrir tíu og tók svo smá bíltúr á leiðinni í Nauthólsvík. Úti var logn, sjórinn mældist 14,4°C og var spegilsléttur. Ég synti út að kaðli og svamlaði þar um í smá stund áður en ég fór upp úr sjónum. Sem fyrr kom ég við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Var komin heim aftur um hálftólf. Fékk hornstæðið aftur. Fékk mér hádegishressingu og eftir að hafa hlustað á hádegisfréttir í útvarpinu hellti ég mér aftur upp á kaffi. Svo fór dagurinn í lestur, prjón, netvafr og sitthvað fleira. 

2.8.21

Frídagur verslunarmanna

Já, það er bara kominn ágúst og tíminn heldur áfram að þjóta hjá. Ég var komin í sund um átta í gærmorgun, rétt eftir að opnaði. Það var fámennt en góðmennt og nóg pláss alls staðar. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn. Synti svo 600 metra, þar af helminginn á bakinu. Fór svo aftur í kalda pottinn úr honum í þann heitasta í smá stund og svo aftur í kalda. Eftir þriðju kalda potts ferðina fór ég í sjópottin í uþb korter áður en ég fór fjórðu og síðustu ferðina í kalda pottinn. Að þeirri ferð lokinni fór ég í gufubað og var þar í fimmtán til tuttugu mínútur. Settist svo á stól úti í smá stund áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Var komin heim í kringum hálfellefu. Byrjaði á því að setjast inn í stofu en ekki leið á löngu áður en ég fór inn í eldhús til að hella upp á kaffi. Það urðu 3 bollar sem ég lét duga fyrir daginn. Var ekkert endilega að ákveða það þegar ég var að drekka þá en svo leið dagurinn allur án þess að ég hellti aftur upp á. Er langt komin með bleika barnateppið með kaðlamundstrinu. Þetta verður líklega minnsta teppið af þeim sem ég er búin að prjóna en fallegt er það. 

1.8.21

Glænýr mánuður

Fór sennilega alltof snemma að sofa í fyrrakvöld því ég var glaðvökuð upp úr klukkan sex í gærmorgun. Fór fljótlega á fætur og eftir morgunverkin á baðinu, lýsi og morgunsnarl settist ég með fartölvuna inn í stofu og vafraði um á netinu til klukkan að verða tíu. Þá tók ég til sjósundsdótið mitt og brunaði í Nauthólsvíkina. Synti út að kaðli og kom við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Var sennilega tæpan hálftíma í sjónum og lóninu samtals og svo uþb tuttugu mínútur í pottinum áður en ég fór upp út og aftur heim. Var ekkert að fara neitt út aftur en dundaði mér við ýmislegt frameftir degi og fram á kvöld. M.a. var ég að fylgjast með útsendingum frá ólympíuleikunum.