31.3.15

Á morgun er mars-búinn :-)

Skrýtið hversu hratt tíminn þýtur áfram, jafnvel þótt ekki sé verið að gera neitt sérstakt.  Í gær tók ég því afar rólega að mestu leyti.  Stutta einfalda útgáfan er sú að ég las, drakk kaffi, vafraði um á netinu, saumaði út og horfði á sjónvarpið. Var lengi vel ein í rólegheitum þótt ég færi nú ekki tiltakanlega snemma á fætur en mun fyrr en strákarnir enda fóru þeir örugglega seinna að sofa heldur en ég.

Lauk við bókina eftir Sólveigu Pálsdóttur sem ég minntist á í pistli gærdagsins og var hún spennandi allt til enda.  Er með margar bækur á náttborðinu og að lesa í þeim fjórum amk. Tvær með smásögusöfnum, ein með gamansögum af hrossum og hrossafólki og svo byrjaði ég í gærkvöldi á tvímála útgáfu bókarinnar Skólaus á öðrum fæti eftir Ana María Matute þýdd af Kristni R Ólafssyni.  Les aðeins íslenska hlutann en glugga stundum mér til gamans í spænska hlutann hægra meginn á opnunum eingöngu til að skoða ritmálið.

Hringdi í pabba og spjallaði aðeins og seinna hringdi svo mamma í mig og spjallaði lengur.  Ágætis hljóð í þeim báðum.

30.3.15

Fyrsti virki frídagurinn úr launavinnunni

Fyrst ætla ég að segja aðeins frá nokkru sem ég skrifaði ekki um í færslu gærdagsins um laugardaginn. Það var nefnilega svo að þegar ég kom heim úr heimsókninni frá Vífilsstöðum var Davíð Steinn að enda við að hella upp á kaffi og var þar að auki með heitt brauð í ofni, ætlað sér og mér.  Oddur Smári var í æfingarakstri og kom ekki fyrr en um það bil sem ég dreif mig í kjötsúpugírinn.

Gærdagurinn var afar rólegur hvað mig varðar.  Gerði heiðarlega tilraun til að sofa út en mig minnir að ég hafi verið byrjuð að lesa fyrir klukkan níu og farin að ramba aðeins um á netinu um tíuleytið. Gerði meðvitað sem allra minnst en hugsaði reyndar um það að skynsamlegast væri að bregða sér í örstutta göngu.  Ekkert varð samt úr því, fór ekki út fyrir dyr. Náði að klára Afturgönguna eftir Jo Nesbø. Spennan í þeirri bók er á köflum svo óbærileg að ég varð stundum að leggja hana frá mér og fara að gera eitthvað allt annað.  Um þrjú hellti ég loksins upp á kaffi og bjó til vöfflur úr hálfri uppskrift.  Davíð Steinn var akkúrat að skreppa út um það leiti sem ég var að byrja á vöfflugerðinni en ég lofaði honum því að það yrði afgangur þegar hann kæmi aftur.

Hafði afgang af kjötsúpu í kvöldmatinn og horfði svo á eitt og annað í sjónvarpinu fram eftir kvöldi með lokaða saumatöskuna við hliðina á mér.  Er annars strax byrjuð á nýrri bók, eina af þeim sem ég fékk lánaða af safninu fyrir nokkrum dögum, Hinir réttlátu eftir Sólveigu Pálsdóttur.  Fyrir nokkrum misserum las ég fyrstu skáldsögu sama höfundar, Leikarinn og nú er komin út ný skáldsaga, Flekklaus sem ég mun væntanlega einnig sækja í að lesa.  Höfundurinn nær mér alveg með góðum stíl, spennu og kímni í bland og þannig gerð að það er vel hægt að lesa og lesa á meðan blaðsíðurnar endast.  Gerði það reyndar með vilja að gera hlé á lestrinum í bili margra hluta vegna en mun sennilega ekki geta haldið mig lengi frá bókinni.  Fyrsta og önnur bókin eru um sama lögregluhópinn og um sakamál sem leysa þarf og það er líka farið út í einkalíf lögreglufólksins sem er misjafnt og gerir persónurnar í sögunum trúverðugri.

29.3.15

Pálmasunnudagur

Ég var komin á fætur upp úr átta í gærmorgun og vöknuð nokkuð löngu áður miðað við að það var laugardagur.  Reyndar var ég örugglega búin að sofa í rúma sjö tíma því ég var sofnuð vel fyrir miðnætti.  Ég var eitthvað að spá í hvort ég næði því að komast aðeins í sund áður en þetta "þriggja mánaða, handstýrða" færi af stað en það tókst ekki.  Kveikti á tölvunni í staðinn og dundaði mér einnig við ýmislegt hér heima áður en kominn var tími til að skreppa yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Þar sem vikan kom ekki í lúguna fyrr en eftir að ég var farin í vinnuna á föstudagsmorguninn ákvað ég að grípa blaðið með mér í heimsóknina.  Það varð til þess að mestur tíminn fór í að leysa aðalkrossgátu blaðsins og tókst okkur að klára að fylla í alla reiti og finna lausnarorðið.  Á eftir skelltum við okkur í rúmlega hálftíma göngu meðfram sjónum, í áttina að Gróttu og til baka.

Skrapp í Krónuna og keypti inn eftir lista.  Oddur Smári gekk frá vörunum fyrir mig og ég hringdi í Böddu til að láta hana vita að ég ætlaði að heimsækja hana á "nýja" staðinn og spurði í leiðinni hvort ég ætti ekki að taka með mér eitthvað lesefni.  Dreif mig strax af stað en varð reyndar að koma við hjá Atlantsolíu þar sem bensínljósið á lánsbílnum logaði.  Badda sat á kaffistofunni og beið eftir mér.  Ég þáði einn kaffibolla áður en við fórum inn í herbergið hennar, þar sem eru þrjú önnur rúm.  Hjálpaði henni úr inniskónum og breiddi yfir hana.  Las fyrir hana tvær smásögur eftir Guðmund L Friðfinnsson og eitt viðtal í helgarfréttablaðinu.  Við spjölluðum að sjálfsögðu líka um allt og ekkert.

Kom heim upp úr klukkan fjögur og horfði á seinni hálfleikinn í landsleiknum áður en ég bjó til kjötsúpu í stærsta pottinum handa okkur mæðginum.  Súpan ætti að duga í nokkra daga.  :-)

28.3.15

Smá páskaleyfi og styttra sundfrí

Ég var mætt á lánsbílnum í vinnuna nokkrum mínútum fyrir sjö.  Morgunverkin voru aðeins úr takti við það sem venjulegt er en okkur hinni morgunvaktinni tókst að leysa úr því ásamt þeirri sem var á næturvakt á konsúl.  Framleiðsluvélin var miklu seinni í flestum aðgerðum svo það varð ekki umflúið að láta kíkja á vélina. Biðum þó með alla ákörðun þar til fyrirliðinn og fleiri voru mættir enda kom það á daginn að það er að verða til nýr þjónustusamningur.  Sem betur fer var hægt að halda áfram og í næsta verkefni í röðinni gekk reyndar mun betur.  Vélin var svo stillt síðar um morguninn og hagaði sér eitthvað betur eftir það.  Ég var búin að fá það staðfest að ég gæti farið í frí næstu þrjá virka daga og náði, að ég held, að skilja eftir svotil hreint skrifborð.  Klukkan var líka alveg að slá í hálfþrjú þegar ég stimplaði mig út.

Strax og ég var sest inn í bíl hringdi ég eitt símtal.  Reyndar var ekki svarað hinum meginn svo ég brá á það ráð að keyra lánsbílinn í gegnum snerilausu þvottastöðina við Skúlagötu og hringdi í pabba á meðan ég beið eftir að hreinsun lyki.  Ég var rétt að leggja af stað út í umferðina aftur þegar sá sem ég reyndi fyrst að hringja í, hringdi til baka til að segja mér að hann gæti skotist heim til að afhenda mér ákveðnar vörur sem ég er áskrifandi að.  Það kom sér vel því þessar vörur koma mánaðarlega en ég hef sótt tvær sendingar í einu, annan hvern mánuð, amk síðustu 3-4 skiptin.

Eftir að hafa sótt kassana tvo fór ég heim, hellti upp á kaffi og bjó til vöfflur úr hálfri uppskrift.  Oddur skaust fyrir mig út í Sunnubúð eftir rjóma.  Ég bað hann um að kaupa 1/4 en þar sem hann vissi að ég ætlaði að hafa rabbarbaragraut í kvöldmatinn ákvað hann að kaupa frekar 1/2 líter.  Sniðugur, og þetta reyndist vera hin besta ákvörðun hjá honum.

loknum kvöldmat og fréttum skruppum við Oddur Smári í sund í Laugardalinn.  Ég fyllti á 20 skipta sundkortið hans en svo hittumst við ekki aftur fyrr en við vorum á leið upp úr lauginni.  Ég sá aðeins til hans en hann fór aldrei i laugina og í aðra potta heldur en ég.  Davíð Steinn hafði farið í sund með vini sínum kvöldið áður og var með aðrar áætlanir á prjónunum í gærkvöldi heldur en að skreppa aftur í sund.

27.3.15

Færsla no. 1944 fyrir mömmu og sjálfstæða Íslendinga :-)

Strætó tók mig upp í við Sunnubúðina ca korteri fyrir sjö í gærmorgun og hleypti mér út á sjöundu stoppitöðinni, við Hörpu um það bil tíu mínútum síðar.  Tíminn til tvö var nokkuð fljótur að líða. Þegar vinnu lauk labbaði ég við í Sundhöllinni og gerði klukkutíma stopp þar. Synti fleiri ferðir en oft áður en það er styttra á milli bakkanna heldur en í Laugardalnum svo líklega synti ég ekki mikið meira en 300m. Fór tvisvar í gufu og "sólaði" mig á milli og eftir áður en ég fór upp úr.  Aldrei þessu vant steig ég á vigtina og ég er ekki frá því að síðast liðna tæpu fimm mánuði hafi ég synt af mér hátt í tuttugu kíló. Það er nú bara all nokkuð miðað við að ég hef ekki verið að gera neitt annað og meðvitað varðandi þyngdarmálin.  Er bara glöð með að þyngdin sé aftur komin niður í tveggja stafa tölu og ætla að vara mig á að segja eina ferðina enn "Aldrei aftur yfir 100" og sjá aðeins til hvort það virki betur til að ég haldi mig fyrir innan 100 og komist jafnvel niður fyrir næsta tug eða tvo. Þarf reyndar ekki að losa mig við nema 4 kíló í viðbót til að komast að fyrra takmarkinu og það mun takast ef ég einbeiti mér en einblíni samt ekki of mikið á verkefnið.

Þegar ég kom heim í gær um fjögur færði ég lánsbílinn úr innkeyrslustæðinu um tvö stæði til vinstri. Það var það eina sem ég hreyfði bílinn í gær.  Oddur fór með pabba sínum í æfingaakstur og heimsókn til hans.  Davíð Steinn sá um kvöldmatinn en fór svo í sund með einum vini sínum. Ég horfði aðeins á sjónvarp, las og saumaði út og passaði mig á að vera komin upp í rúm fyrir hálfellefu. Las aðeins meira en ekki svo lengi. Er annars að lesa nýjustu bókina um Harrý Hole sem ég keypti á tilboðsverði fyrir bókaklúbbsfélaga í Forlaginu fyrir nokkru.

26.3.15

Vor í lofti, dag og dag

Hafði nokkrar áætlanir á prjónunum eftir vinnu í gær sem kröfðust þess að ég væri á lánsbílnum. Var mætt rétt fyrir sjö og stimplaði mig út aftur ca tuttugu mínútum yfir tvö.  Ein af áætlum mínum gekk ekki upp að þessu sinni svo ég lagði leið mína beint í Laugardalinn.  Var búin að synda þrjár x 50 ferðir þegar einn vinnufélagi minn ávarpaði mig.  Við skiptumst á nokkrum orðum en svo fór hann í sjópottinn sem ku vera kominn í samt lag og ég hélt áfram að synda um stund.  Eftir nokkrar ferðir í viðbót elti ég vinnufélagann upp og sannreyndi um leið að sjópotturinn var kominn í lag.  Spjallaði í nokkrar mínútur en skrapp því næst aðeins í gufu áður en ég fór upp úr og heim í bili.

Mætti á kóræfingu um hálfsex og þar var m.a. farið í páskadagskrána.  Þetta er aðeins öðruvísi en venjulega þar sem ég æfi alfarið orðið með sópraninum.  Tveggja tíma æfing var ekki lengi að líða. Fór heim með nóturnar.  Spilakvöld var hjá strákunum og opið hús í risinu vegna sölu þeirrar íbúðar.  Ég hringdi í einn frænda minn til að athuga hvernig stæði á og skrapp í heimsókn í kjölfarið. Vel var tekið á móti mér og voru hjónin bæði heimavið.  Heilmikið var spjallað en ég stoppaði í tæpa tvo tíma því ég vildi ekki fara of seint að sofa vegna morgunvaktarinnar.

25.3.15

Sjópotturinn kominn í lag

Ég bauð strákunum far í skólann á lánsbílnum í gærmorgun þar sem það var eina átta til fjögur vaktin mín í vikunni.  Vinnudagurinn leið mjög hratt og ég var búin á réttum tíma.  Þá dreif ég mig í fiskbúðina við Sundlaugarveg og keypti hrogn, ýsu og bleikju.  Næst lá leiðin í sundlaugina í Laugardalnum.  Fyrir utan hitti ég konu sem ég hef ekki hitt lengi og ég gaf mér tíma til að knúsa hana.  Hún var að bíða eftir e-m og í miðju spjalli fékk hún þau skilaboð að sú sem hún átti að hitta þarna væri komin inn.  Synti um 400 og fór því næst í gufu.  Gaf mér ekki svo langan tíma en þetta var samt virkilega gott og notalegt.

Svo skrapp ég heim, gekk frá sunddótinu og tók með mér bókasafnspokann aftur út í bíl.  Skilaði fjórum bókum af fimm og þegar ég kom aftur heim með fimm bækur í viðbót framlengdi ég skilafrestinum á þeirri sem ég hafði skilið eftir heima.  Hafði hrogn og ýsu í matinn.  Um það leyti sem Castle var að byrja tók ég aðeins á móti eiganda risíbúðarinnar rétt til þess að fylla út nauðsynlegt um stöðu hússjóðsins þar sem íbúðin er í söluferli.  Náði svo að horfa á megnið af Castle-þættinum.

24.3.15

Átta til fjögur í dag.

Þessa vikuna er ég að vinna flesta daga milli klukkan sjö og tvö fyrir utan daginn í dag. Í gærmorgun fór ég með strætó í vinnuna.  Vagninn var mínútu fyrr á ferðinni en það gerði ekkert til fyrir mig þar sem ég var komin tímanlega út í skýli við Sunnubúð.  Aftur á móti var ég svo utan við mig að ég fór út einni stoppistöð of snemma eða rétt við Sólfarið í stað þess að fara alla leið að Hörpu.  Það gerði heldur ekki til því ég var ekki lengi að arka þennan spöl og stimplaði ég mig inn á slaginu klukka sjö.  Öllu verra var að ég hélt áfram að vera utan við mig fram eftir morgni. Það hafði sem betur fer ekki alvarlegar afleiðingar en setti óneitanlega skrýtna vinkla á annars niðurnjörvað morgunstarfið í kortadeildinni.  Stimplaði mig út korter yfir tvö.

Hafði hugsað mér að labba heim en koma samt við í Sundhöllinni. Þar sem ég arkaði eftir Skúlagötunni fékk ég þá hugmynd að athuga hvort fyrrum kórsystir mín, sem býr við Lindagötu, væri heimavið. Svona ákvarðanir geta fallið um sjálfar sig ef ekki hefur verið hringt á undan sér eins og um var að ræða í mínu tilviki.  Ég var hins vegar svo heppin að altliljan mín var heima.  Hún bauð mér að koma með sér niður og fá mér kaffi með sér, sem ég þáði.  Við höfðum um nóg að spjalla og klukkutíminn leið hratt.  Hún var á leið í heimsókn til dóttur sinnar og ég hélt för minni áfram að Sundhöllinni.

Man ekkert hvenær ég skilaði mér heim eftir vinnu, heimsókn og sund en það var sennilega á sjötta tímanum.  Hafði til kvöldmatinn, horfði á fréttir og skrapp svo aðeins til hennar Böddu minnar.

23.3.15

Sólmyrkvinn sem og gærdagurinn

Á föstudagsmorguninn var skutlaði ég bræðrunum í skólann um átta og síðan lá leiðin beint í Laugardalinn.  Ætlaði svo sem ekki að stoppa neitt lengi en þegar til kom var ég mun lengur en vanalega.  Synti kannski ekki svo mikið eða einungis 300metra en þegar ég kom út úr gufunni á eftir bauð einn sundlaugarstarfsmaður mér að kíkja á sólmyrkvann í gegnum rafsuðuhjálm.  Það varð til þess að ég fór aftur inn í gufu í von um að fá að kíkja betur á sólmyrkvann um það leyti sem hann væri að ná hámarki.  Klukkan var ekki nema korter, tuttugu mínútur yfir níu þegar ég kom aftur úr gufunni og þá var farið að dreifa álþynnum (gylltum öðrum meginn og silfruðum á hinni hliðinni) fyrir þá sundlaugagesti sem vildu.  Ég þáði eina svona þynnu, braut gylltu hliðina inn og skoðaði svo myrkvann allt þar til hámarkinu var náð.  Þá snöggkólnaði mér svo að ég sá mitt óvænna og dreif mig inn í sturtu.  Ákvað svo að kaupa mér kaffi og banana áður en ég færi heim.  Kaffið var reyndar frítt þennan morguninn.  Ég settist með málið og bananann hjá fólki sem sest greinilega niður saman eftir smá sundferðir, potta og gufu.  Ég var boðin velkomin í hópinn og var líka svo heppin að fá að skoða myndir sem ein konan hafði tekið af sólmyrkvanum.

Upp úr tólf fékk ég þá hugmynd að fá mér göngutúr í vinnuna og var ég ekkert að velja allra stystu og beinustu leiðina en svo sem ekki þá lengstu heldur.  Gönguferðin tók mig rétt tæp þrjú korter og var ég sem betur fer með auka bol í bakpokanum því það var "Önnufoss" á bakinu á mér.

Í gærmorgun var ég komin á fætur fyrir tíu þrátt fyrir að hafa ekki farið að sofa fyrr en um hálfþrjú um nóttina.  Las nefnilega um stund eftir að ég kom heim af árshátíðinni.  Fann aðeins fyrir því að hafa dansað svona mikið og ákvað að skella mér í Laugardalinn, aðallega til að athuga hvort gufan myndi ekki mýkja mig aðeins upp.  Synti samt eitthvað smávegis.  Fljótlega eftir að ég kom heim úr sundinu var kominn tími til að dubba sig upp og drífa sig í upphitun fyrir fermingarmessu.  Fermdar voru fimm stúlkur.  Um leið og messunni lauk fór ég heim, skipti um föt og var klár í að drífa mig austur. Strákarnir höfðu báðir ætlað að fara með mér en þegar til kom varð Oddur að segja pass því hann var að vinna að verkefni sem varð að skilast fyrir miðnætti.  Davíð Steinn kom hins vegar með.  Við komum austur um hálffimm og stoppuðum í tæpa fjóra tíma.

22.3.15

Árshátíð - seinni partur

Rúta, til að koma okkur á Grand Hólel þar sem árshátíðin sjálf var haldin, sótti okkar hóp og annan fyrirpartýshóp til.  Mörg úr okkar fyrir partýi voru reyndar á einkabílum, ekki að drekka og komu sér sjálf yfir á Grand.  Þar beið okkar fordrykkur og smá einsöngur.  Ég var nokkuð dugleg að ganga aðeins á milli og heilsa upp á vinnufélaga sem ég hitti ekki oft þar sem flestir í fyrirtækinu eru með vinnustöðvar við í turninum við Katrínartún en ég vinn í deildinni sem varð eftir á Kalkofnsvegi.  Um átta var hleypt inn í aðalsalinn.  Þegar allir voru búinir að finna og setjast við borðin sín kynnti formaður SRB veislustjóra kvöldsins sem tók þegar við keflinu.  Á milli rétta kynnti hann skemmtiatriði kvöldsins, fór sjálfur með gamanmál, stjórnaði happdrætti og söng.  Maturinn var góður, borðfélagarnir frábærir en eftir borðhald kynnti veislustjórinn hljómsveit kvöldsins, Á móti sól, sem byrjaði á því að spila undir söng veislustjórans og var svo að stanslaust til klukkan rúmlega eitt.  Stuðið var mikið.  Ég var reyndar ekki alveg allan tímann á dansgólfinu en megnið af þessum tíma.  Það rann af mér lýsið, ég var örugglega heit og rauð í framan og dansaði mig gersamlega upp að hnjám, þakklát fyrir að vera ekki á háhæluðum skóm.  Ég var svo heppin að mér bauðst far heim með einni sem vinnur á minni deild.  Hún skutlaði fyrst heim tveimur öðrum á tvo staði vestur í bæ og það var mikið fjör í bílnum hjá okkur á meðan.  Gærdagurinn var semsagt í tveimur orðum skrifað, MJÖG SKEMMTILEGUR.

Nú ætla ég aðeins að víkja að seinni part nýliðinnar vinnuviku, svona rétt áður en ný vinnuvika hefst. Það féllu niður tímar hjá Oddi Smára á fimmtudaginn svo var heima.  Ég skutlaði Davíð Steini í skólann um átta og dreif mig svo í sund í Laugardalinn.  Þegar ég kom upp úr var klukkan níu. Hringdi í soninn sem var heima til að athuga hvort hann væri vaknaður, klæddur og tilbúinn að taka á móti viðgerðarmanninum.  Það reyndist vera og ákvað ég sjálf að skreppa á skattstofu Reykjavíkur til að sækja um endurgreiðslu á virðistauka af vinnu við endurnýjun baðherbergisins.  Var búin að reyna að gera þetta rafrænt en fann ekki réttu útfyllingarskjölin.  Ég fékk frumrit til útfyllingar og náði að fylla það út ca 90%.  Fékk aðstoð með að ljúka útfyllingu og var svo beðin um stimplaða reikninga sem sönnuðu að ég hefði borgað fyrir vinnuna.  Ég spurði hvort ég mætti senda þetta rafrænt og það var í góðu lagi.

Þegar ég kom heim var búið að skipta um ljósleiðarabox og allt komið í lag sem hafði verið í ólagi í tæpa viku.  Vann skjal úr einkabankanum varðandi greiðslur fyrir baðherbergisframkvæmdirnar og sendi rafrænt til rsk.is  Horfði svo á síðasa Castleþátt með Oddi áður en ég fékk mér eitthvað að borða og dreif mig með strætó í vinnuna.  Var mætt um eitt og leið vinnutíminn afar hratt.  Síðasta klukkutímann lentum við sem vorum á seinni partsvaktinni í óþarfa veseni en náðum að klára og ganga frá öllu fyrir klukka sjö.  Þá átti ég þó eftir að skrifa smá skilaboð til morgunfólksins og það tók mig um tuttugu mínútur.  Ég rétt missti því af leið 13 og tók næsta vagn og skiptimiða upp á Hlemm.  Á meðan ég beið annað hvort eftir 11 eða 13 hringdi Oddur Smári og spurði hvort ég væri ekki að koma heim því maturinn væri alveg að verða tilbúinn.  :-)

"Á móti sól"

Gærdagurinn var langur og skemmtilegur.  Ég hafði stillt vekjarann á að vekja mig klukkan hálfátta til að vera mætt í sund strax um átta leytið.  Ég vaknaði sjálf klukkan hálfsjö.  Hafði litla eirð í mér til að kúra svo ég dreif mig bara á fætur og ákvað að setja inn blogg-pistil eftir rúmlega viku hlé.  Ég var aðeins lengur að skrifa heldur en ég ætlaði mér þannig að klukkan var orðin átta áður en ég lagði af stað í Laugardalinn.  Var tæpan klukkutíma að synda, gufast, þvo mér og bera á mig.  Rétt kom heim upp úr hálftíu til að hengja upp sunddótið og setja í eina þvottavél.

Á slaginu tíu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar en hún hafði verið í sambandi við mig kvöldið áður til að biðja mig um að koma klukkutíma fyrr.  Það hentaði mér alveg ágætlega. Við vorum nokkuð duglegar í því sem við erum að bralla saman.  Rétt fyrir tólf var ég stödd við Sorpu í röð bíla og beið eftir að staðurinn opnaði svo ég gæti "tekið til" í bílnum.  Var að henda smá dóti sem var búið að vera í bílnum í nokkra daga.  Síðan skrapp ég aðeins í Krónuna og keypti inn það nauðsynlegasta. Oddur Smári gekk frá vörunum þegar ég kom heim á meðan ég gekk frá í þvottahúsinu.

Um tvö hafði ég hugsað mér að skila inn bókum á Kringlusafnið en hætti snarlega við þegar ég mundi eftir því að það er Kringlukast þessa dagana og því meiri umferð en vanalega.  Kíkti aðeins á Böddu mína og var ekki búin að stoppa lengi þegar yngsta dóttir hennar, nafna mín og frænka, leit við. Alltaf gaman að hitta þær mæðgur en hundleiðinlegt fyrir gömlu konuna að þurfa að vera á sjúkrahúsi og vita ekki hversu lengi hún þarf að vera þarna.

Klukkan að verða hálfsex var ég búin að klæða mig upp í sparifötin og rjóða smá lit á varirnar. Var sótt nokkru seinna af mæðgum.  Mamman vinnur með mér en dóttir hennar er nýkomin með bílpróf og hún tók við bíllyklunum eftir að við vorum komnar að staðnum þar sem fyrirpartýið fyrir árshátíðina var haldið.  Þar var skemmtilegt fólk og þónokkuð fjör.  Því miður verð ég að láta staðar numið hér að sinni þar sem ég á að vera mætt í upphitun fyrir fermingarmessu klukkan eitt.  En enda bara á því að segja að fjörið var rétt að byrja.  :-)

21.3.15

Afmælisparturinn og kannski meira til

Eftir vinnu og kvöldmat á mánudagskvöldið var skrapp ég aðeins til gömlu konunnar á öldrunardeildinni í Fossvoginum.  Stoppaði ekkert svo lengi en mig minnir að klukkan hafi verið langt gengi í tíu þegar ég kom heim aftur.  Þá dreif ég mig í smá afmælisbakstur.  Bakaði tvo ein hvers konar kakóbotna úr einni uppskrift áður en ég fór að sofa.

Klukkan sjö á afmælisdag okkar tvíburahálsystranna var ég búin að búa mér til kaffi sem ég notaði að hluta til út í kakó-flórsykurskrem sem ég setti á milli kökubotnanna og einnig yfir kökuna.  "Gafflaði" töluna 47 ofan á.  Skutlaði bræðrunum í skólann og skrapp í sund í Laugardalnum.  Veðrið var yndislegt og gaf ég mér góðan tíma til að njóta þess.  Var samt komin heim aftur um tíu. Hringdi í pabba og systur mína og í hádeginu hringdi mamma í mig og óskaði mér til hamingju með 37 árin. Og ég sem var 45 ára bæði í fyrra og hittifyrra.  Þessi tími er hvort sem er alltaf að æða frá manni og maður bara er og það virðist sem gær, í dag og á morgun blandist saman í núinu.  Ég fór á lánsbílnum í vinnuna.  Reyndi að senda hugarskilaboð um laust stæði á neðra planinu en sá ekkert þegar ég keyrði framhjá.  Lagði í gjaldsvæði örskammt frá og þegar ég trítlaði yfir í vinnuna með dótið mitt,afmæliskökuna og fleira sá ég eitt laust stæði innarlega á planinu.  Hefði sennilega séð það ef ég hefði komið að Skúlagötumeginn en ekki ekið Ingólfsstrætið.  Á vinnustaðnum var búið að skreyta básinn minn með blöðrum og fiðrildaútklippum.  Virkilega flott og skemmtilegt.  Vinnudagurinn leið afar hratt en ég kom ekki að framleiðslunni fyrr en eftir afmæliskaffið.  Kom heim um hálfátta og þá var Davíð Steinn að byrja að elda lasanja í afmælismatinn.  Oddur Smári lét mig og vita að það væri til kaffi.  Þessir synir mínir eru einstakir og þeir hjálpuðu mér alveg helling við undirbúning matarboðsins helgina áður.  Matur var borðaður um níu og um tíu fengum við okkur smá bita af ostaköku.  Ég slapp eiginlega við alla fyrirhöfn og var virkilega sátt við afmælisdaginn.  Enn var net, sími og sjónvarp ekki komið í lag en fyrir mig gerði það minnst til.

Á miðvikudagsmorguninn fengu tvíburarnir aftur far í skólann og að þessu sinni mætti ég í vinnuna klukkan átta. Þar sem ég er á kóræfingum klukkan hálfsex get ég ekki unnið milli 13 og 19 þá daga. Klukkan var um hálffimm þegar ég stimplaði mig aftur út og lagði þá leið mína beint í Sundhöll Reykjavíkur.  Synti örfáar ferðir og skrapp aðeins í gufuna.  Allt í allt var ég líklega rétt rúmlega hálftíma að þessu.  Hringdi í strákana og fékk þær fréttir að þeir væru á leið á spilakvöld í Tækniskólanum.  Einnig sagði Davíð Steinn að það hefði hringt í hann viðgerðarmaður fyrr um daginn og hann ætlað að koma við þá.  Þar sem enginn var við heima var nýr tími ákveðinn morguninn eftir. Ég fór því beint á kóræfingu úr sundinu, hringdi örstutt í pabba áður en ég fór inn.  Tveir tímar voru ekki lengi að líða en þar sem ég vissi að það væri engin kominn heim dreif ég mig í Fossvoginn og stoppaði til hálftíu.

12.-21.

Loksins, loksins er ég "komin aftur".  Ég fór reyndar aldrei neitt langt en ljósleiðaraboxið hætti alveg að virka hjá mér fyrir rétt rúmri viku síðan.  Heimasíminn, sjónvarpið og netið lá því niðri í nokkra daga.  Þetta var á föstudaginn fyrir rúmri viku.  Þá stóð til hjá mér að skreppa á fyrirlestur í lífsspekifélaginu með norsku esperanto vinkonu minni.  Hún hringdi í gemsann upp úr klukkan hálfsjö og tjáði mér að ein önnur vinkona hennar hefði verið að vinna fjóra miða á síðustu Tom Jones tónleikana í Austurbæ og spurði hvort ég vildi koma með þeim þangað.  Ég var alveg til í að taka U-beyju og sé svo sannarlega ekki eftir því þótt fyrirvarinn væri í styttra lagi.  Ég sótti Inger um hálfátta og við fengum stæði á fínum stað í Norðurmýrinni.  Næstu þrír tímar liðu ógnarhratt og ég skemmti mér konunglega.

Morguninn eftir gekk þetta fræga óveður yfir landann.  Ég skutlaði Oddi Smára yfir í HR rétt fyrir níu og þar var hann langt fram á dag að taka þátt í forritunarkeppni.  Veðrið var orðið miklu skaplegra um fimm þegar hann var loksins búinn og hann labbaði heim.  Ég var í ýmsum útréttingum eftir hádegið.  Lét skreyta afmælisgjöf frá kórnum til einnar nöfnu minnar í KÓSÍ sem var búin að bjóða okkur söngfélögunum ásamt fullt af öðru samferðafólki hennar að halda með henni upp á árin 70 um kvöldið. Afmælisdagurinn var reyndar þann 16. en það var mánudagur.  Sótti vörur til tvíburahálfsystur minnar og fékk í leiðinni að fylla á símana hjá sonum mínum.  Eftir að hafa þegið kaffi og með því og spjallað um stund sótti ég afmælisgjöfina úr skreytingu. Skrapp í heimsókn til hennar Böddu minnar og þegar ég kom þaðan voru strákarnir að fara með pabba sínum. Ég mætti í afmælisveisluna rétt upp úr klukkan átta og skemmti mér alveg jafn vel og kvöldið áður.  Kom heim rétt um miðnætti.

Sunnudagurinn var alveg jafn skemmtilegur og hinir tveir dagarnir á undan.  Fyrri parturinn fór í undirbúning undir kvöldið að mestu því ég var búin að bjóða norsku esperantovinkonu minni og manninum hennar í matarboð, nokkurs konar innflutnings partý vegna nýuppgerðs baðherbergis. Davíð Steinn hringdi fyrir mig í Vodafone og það var ákveðið að prófa að skipa um spennubreyti. Það virkaði ekki neitt og áfram var engin tengin við ljósleiðaraboxið og umheiminn. En matarboðið tókst vel og kvöldið var mjög skemmtilegt.  Hafði bleikt og grænt þema í matargerðinni, ofnbakaða bleikju með spínati, sæta kartöflumús, lauk í heitu smjöri og fulla skál af fersku sallati, fetaost og svartar ólífur til hliðar.  Þetta sló í gegn. Eftir borðhaldið bjó ég til kaffi og allir færðu sig yfir í stofuna, synir mínir líka, og þeir virtust hafa virkilega gaman af þessari heimsókn.

Á mánudagsmorguninn skutlaði ég Oddi Smára í skólann og fór sjálf í Sundhöllina.  Nýliðna vinnuviku vann ég flesta daga frá 13-19 fyrir utan miðvikudaginn.  Hringdi fljótlega í pabba er ég kom heim úr sundi og beið svo eftir því að klukkan yrði örugglega tíu áður en ég vakti Davíð Stein en hann átti ekki að fara í skólann fyrr en seinni partinn og hafði tekið að sér að hringja aftur í þjónustuver Vodafone.  Þá varð það alveg ljóst að bilunin væri það alvarleg og mjög líklegt að boxið væri hreinlega ónýtt svo erindið var sent áfram upp í bilanadeild og sagt að haft yrði samband þegar einhver kæmist á staðinn til okkar að kíkja á málin berum augum.  Ég mætti eins og fyrr segir í vinnu klukkan eitt og fór fljótlega að sinna framleiðslunni ásamt þeim sem var með mér á vaktinni.  Það gekk alveg ótrúlega vel hjá okkur og við náðum að framleiða 2500 kort á tæpum sex tímum, reyndar með tveimur góðum pásum.  En hér set punkt í bili. Er á leið í sund, sjötta daginn í röð.

12.3.15

Rúmlega einn þriðji liðinn af nýbyrjuðum mánuðinum

Fór á fætur rétt upp úr klukkan sex í morgun og gaf mér góðan tíma til að sinna hefðbundnum morgunverkum.  Var mætt út í skýli við Sunnubúðina korter fyrir sjö. Vagninn var örlítið seinn en bilaði þó ekki.  Stimplaði mig inn rétt rúmlega.  Vinnudagurinn leið jafn hratt og flestir aðrir vinnudagar. Náði líka að sinna verkefnum sem sjaldan hefur verið hægt að komast í undanfarið. Stimplaði mig út klukkan 14:14 og labbaði beinustu leið heim. Færði lánsbílinn, sem var á stæði fyrir framan hús nr 9, á stæði rétt við nr. 21.  Ég var komin heim á undan strákunum. Hringdi austur fljótlega en aldrei þessu vant kom enginn á línuna.  Á fimmta tímanum fékk ég skilaboð frá frænku minni og nöfnu að mamma hennar væri komin aftur á sjúkrahús. Ég ákvað þegar í stað að skreppa í heimsókn.  Hitti nöfnu mína í stutta stund og sat svo og spjallaði við gömlu konuna í rúma klukkustund þar sem hún sat fram á rúmstokkinn á ganginum á öldrunardeildinni.  Mér fannst gamla konan reyndar örlítið hressari heldur en þegar ég hitti hana síðast en hún er aftur komin með sýkingu og það þarf að líta betur til með henni heldur en hægt er að gera þegar hún er heima hjá sér.

11.3.15

Heildarfærsla númer 1934, ártalið hans pabba míns.

Ég ákvað að fara á lánsbílnum til vinnu í morgun.  Gaf mér góðan tíma því ég vissi ekki hversu lengi væri verið að sópa og skafa af bílnum áður en hægt yrði að leggja í hann.  Það tók hins vegar mun styttri tíma en ég áætlaði og var ég að stimpla mig inn ca sjö mínútur í sjö.  Vinnudagurinn náði svo aðeins fram yfir tvö en ekkert mjög margar mínútur þó.  Dreif mig í bankann að sinna tveimur málum þar fyrir aðra gjaldkerastöðuna sem ég hef tekið að mér.  Síðan lá leiðin í Laugardalslaugina. Synti 500m, fór beint í gufu á eftir í uþb tíu mínútur og sat svo úti um stund.  Fór með sunddótið heim og gekk frá því, fékk mér smá snarl og tók mig til fyrir kóræfingu og heimsókn í Hafnarfjörðinn á eftir.

Tveggja tíma kóræfing var ekki lengi að líða. Staldraði aðeins við og "fundaði" með ferðanefndinni áður en ég dreif mig yfir til tvíburahálfsystur minnar. Hún kíkti aðeins á skattframtalið mitt með mér og það tók drjúga stund.  Virðist vera í góðum málum þar en við fundum ekki út hvernig hægt væri að sækja um endurgreiðslu á virðisauka af vinnu við endurnýjun baðerbergis og skila með rafrænt. Endirinn verður líklega sá að ég fer með öll gögnin á skattstofuna og sæki beint um þetta þar.  Þá get ég skilað inn umsókn vegna málningarvinnu í leiðinni ég fékk ekki þann reikning fyrr en í janúar, dagsettan í janúar.  Ég var líka með saumana mína með en við gáfum okkur ekki tíma í svoleiðis.  Kvaddi um tíu og var komin alla leið heim aftur og búin að leggja bílnum innarlega í götunni þegar ég mundi hvað ég hafði ætlað að taka með mér heim, styrktarvörur sem tvíburahálfsystir mín gleymdi að koma með til mín í fyrrakvöld. Hringdi auðvitað í vinkonu mína sem kveikti strax á perunni um leið og hún sá hver var að hringja og saman hlógum við að þessari gleymsku okkar enda lítið hægt að gera annað í stöðunni í bili.  :-)

10.3.15

Tveir vagnar í vinnuna í morgun

Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá mér og var 100% mæting, þ.e. við vorum þrjár.  Ég náði loksins að klára útlínur og merkingu á gamaldags símanum.  Það var mikið spjallað og hlegið og auðvitað hvarf tíminn alltof hratt frá okkur.  Næsti "fullsetni" saumaklúbbur verður ekki alveg á næstunni því ein af okkur er að fara í heilmikla og langa ævintýraferð.  Við hinar munum samt halda merkinu á lofti á meðan og taka svo fagnandi á móti ferðalanginum þegar hann snýr aftur.

Fyrsta ferð leið 13 niður í bæ á morgnana stoppar ca klukkan 06:47 fyrir framan Sunnubúð. Það á að vera alveg nægur tími fyrir mig til að komast alla leið að Hörpu og stimpla mig inn í vinnu (hinum megin við götuna) áður en klukkan verður mikið meira en sjö.  Í morgun stoppaði hins vegar vagninn á Hlemmi og vagnstjórinn tilkynnti um bilun.  Ég bað um skiptimiða og  örfáum mínútum seinna náði ég leið 11 sem var á leið niður í bæ.  Ég varð aðeins um fimm mínútum of sein í vinnuna.

Var búin rúmlega tvö og ákvað að taka strætó heim að þessu sinni þannig að ég var komin heim nokkuð snemma.  Hringdi í pabba og lagði mig svo í um klukkustund.  Er annars aðeins byrjuð að kíkja á skattframtalið sem verður örlítið viðfangsmeira heldur en stundum áður.  :-)

9.3.15

Ný vinnuvika

Horfði á Landann, fréttir og leitina að Billy á RÚV og Law and Order á SjáEinum í gærkvöldi í þessari tilteknu röð.  Var komin upp í rúm fyrir hálfellefu og sofnuð um ellefu.  Vaknaði á undan klukkunni í morgun.  Þ.e. ég hélt ég hefði still gsm-vekjarann á að vekja mig  ca tíu mínútur fyrir sex. Klukkan var nýorðin fimm þegar ég rumskaði.  Kúrði áfram til hálfsex og ákvað þá að slökkva á vekjaranum og fara á fætur. Þá kom í ljós að ég hafði aldrei stillt á mig neina klukku áður en ég fór að sofa.

Tók strætó í vinnuna og var að stimpla mig inn rétt fyrir sjö.  Mótvaktin mín var þegar mættur. Ég ákvað að hann skyldi sjá um sendingar og móttöku til klukkan átta og sinna svo bókhaldinu og talningum eftir það.  Ég hlóð inn fyrstu daglegu verkefnunum og tróð í vélina.  Þegar átta-fjögur vaktin mætti leysti önnur bókarann af en ég ákvað að vera á vélinni áfram til klukkan tíu. Vinnudagurinn minn leið annars frekar hratt.  Stimplaði mig út  ca korter yfir tvö og labbaði þá upp Ingólfsstræti og Skólavörðustíg.

Kom við í Sundhöll Reykjavíkur og var komin ofan í laugina stuttu fyrir þrjú. Tíndi tölunni á ferðunum en ég er nokkuð viss um að þær voru amk 11x25m. Hafði aldrei þessu vant nóg pláss í lauginni og enginn að "flækjast fyrir mér".  Skrapp örstutt út í heitari pottinn og svo í gufu. Lét aðeins gufa af mér útivið áður en ég fór upp úr og labbaði alla leið heim í smá snjókomu. Var eiginlega eins og snjókerling þegar ég kom heim þótt þetta væri ekkert sérlega langur spölur.  Mokaði aðeins af útitröppunum áður en ég fór inn, þannig að klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég kom heim.  :-)

8.3.15

Galdramessa

Það gekk ekki alveg nógu vel að snúa á klukkuna og svefninn.  Horfði á "Augst Rush" á RÚV í gærkvöldi, varfraði svo heldur lengi um á netinu þannig að klukkan var sennilega um eitt eftir miðnætti þegar ég skreið upp í. Las ekki neitt og var enga stund að sofna.  Vaknaði hins vegar nokkru áður en klukkan sló átta. Gerði tilraun til að kúra lengur og hefði sennilega átt að grípa aðeins í bók.  Var komin á fætur um hálfníu.  Ákvað fljótlega að taka niður "gardýnurnar" í stofunni og eldhúsinu og skella þeim á viðkvæmt prógramm í þvottavélina.  Vafraði svo um í netheimum og var meira að segja farin að kíkja á skattframtalið. Gleymdi næstum því að fá mér eitthvað í svanginn. Þegar þvottavélin var búin tók ég innihaldið með mér beint upp í íbúð.  Lagði eldhúsgardýnurnar á handklæði inn á rúm en hengdi hinar aftur upp í stofunni.  Klippti neðsta partinn af þeim, sem var orðinn frekar slitinn, þannig að nú ná þær aðeins niður að opnanlega faginu á stofuglugganum.  Kemur hreint ekkert illa út.

Um tólf skrapp ég út og sópaði og skóf af lánsbílnum. Þá loksins fékk ég mér eitthvað í svanginn áður en ég skipti um föt og lagði tímanlega af stað til að koma við í hraðbanka áður en ég mætti í krikjuna rétt um eitt. Rétti formanni kvenfélagsins mitt framlag á hlaðborðið áður en ég tók af mér og skipti um skó.  Judith Þorbergsson leysti Árna Heiðar organista af  og spilaði allan tímann á orgelið. Við sungum yfir alla fjóra sálmana, öll erindin, til að hita kórinn upp og æfa afleysingaorganistann. Messan tókst annars prýðisvel.  Jón Víðis töframaður lék listir sínar með aðstoð séra Péturs og tveimur af fjölmörgum börnum sem voru mætt. Það var annars nokkuð þétt setinn bekkurinn en við kórfélagarnir, 10 sem vorum mætt fengum þó alveg sæti. Lagt var á borð í efra og neðra og eitt inni í kirkjuskipi eftir messu. Ég kom ekki heim aftur fyrr en um fjögur og þrátt fyrir að veitingum hefðu verið gerð góð skil fékk ég smá afgang með mér heim.  Bræðurnir voru bara hressir með það.

7.3.15

Laugardagur

Vaknaði einhvern tímann á áttunda tímanum í morgun. Kúrði áfram um stund en ekkert svo lengi þó því það var smá dagskrá hjá mér framan af morgni.  Fékk mér morgunmat og vítamín og tók bæði til sunddótið og esperantodótið.  Þurfti aðeins að sópa og skafa af lánsbílnum.  Var komin ofan í Laugardalslaugina rétt um níu. "Fann" mér góðan stað og var að hugsa um að synda eins og tíu ferðir eða 500 m.  Þegar ég var að klára áttundu ferðina mætti ég öðrum sundgarpi og ég varð að víkja aðeins af leið til að forða árekstri.  Ég ákvað að þetta væri gott í bili og fór í gufuna í staðinn áður en ég fór aftur inn í klefa.

Mætti örlítið of seint í klippingu en það voru held ég ekki nema tvær mínútur sem skeikaði.  Líkt og fyrir sex vikum var ég eini kúnninn í klippingu á þessum tíma.  Við Nonni vorum þó síður en svo að spjalla á eins alvarlegum nótum og hluta af síðasta tíma. Það er reyndar alltaf gott að spjalla við  klipparann minn og tíminn líður alveg extra hratt.  Áður en ég kvaddi og þakkaði fyrir mig eftir að hafa greitt fyrir klippinguna þá komumst við að því að þetta var síðasti skipulagði tíminn. Það voru skipulagði þrettán næstu tíma í snarhasti á hefðbundnum sex vikna fresti.

Skrapp heim með sunddótið mitt en fór svo beint vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minna.  Og þrátt fyrir að þurfa mikið að spjalla þá glugguðum við líka í bækurnar allavega fjórða partinn af tímanum sem ég stoppaði hjá henni.

Næst lá leiðin í Krónuna og svo skrapp ég með lánsbílinn á snertilausa þvottastöð áður en ég fór heim. Oddur Smári kom út og sótti hluta af pokunum og gekk frá vörunum.  Ég hingdi og spjallaði aðeins við pabba áður en ég hellti mér upp á kaffi. Davíð Steinn vaknaði ekki fyrr en seinni partinn en hann hjálpaði mér að útbúa kjötsúpu í matinn og núna er seinni galdramessukakan fyrir morgundaginn að bakast í ofninum.

6.3.15

"Röddin"

Ekki mín, ekki bókin heldur þátturinn "The Voice".  Ný þáttaröð hófst um síðustu helgi.  Þá spáði ég reyndar lítið sem ekkert í að horfa, var að hugsa um allt annað.  En í kvöld ætlaði ég rétt að kíkja á annan þáttinn og gat svo ekki hætt að horfa fyrr en komið var að næsta dagskrálið. Hugsanlega hefði verið skynsamlegra að horfa á þetta á tímarásinni til að geta spólað hratt yfir auglýsingarnar. Og líklega hefði ég geta nýtt tímann betur, t.d. með því að grípa í saumana mína.  En svona fór um sjóferð þá og ég er ekkert að afsaka mig eða sjá eftir einu né neinu.

Aðeins um gærdaginn. Annar strákurinn fékk far með mér í skólann í gærmorgun en það féll niður fyrsti tími hjá hinum syninum svo hann gat leyft sér að kúra aðeins lengur. Vinnudagurinn leið mjög hratt og hann var brotinn aðeins upp þar sem ég þurfti að skreppa frá á fund annars staðar í borginni milli klukkan tíu og ellfefu.  Fjarveran allt í allt var sennilega einn og hálfur tími eða svo.

Fór beinustu leið heim eftir vinnu og þá var orðið ljóst að ekkert yrði úr að strákarnir færu til pabba síns í mat. Sem betur fer fékk ég hugmynd að kvöldmat sem ég átti allt hráefni í og tók ekki mjög langan tíma í eldamennsku.  Davíð Steinn samdi við mig um útgáfuna af pastaréttinum, bað um að fá að taka sér af pönnunni áður en ég bætti lauk, gulrót og sætri kartöflu út í skrúfupasta með túnfiski með bræddum osti með svörtum pipar.  Hvað eru mörg með í því.  ;-) Rétturinn heppnaðist fullkomlega.

5.3.15

Umhleypingar

Strákarnir þáðu far með mér í skólann í gærmorgun.  Það teygðist aðeins úr vinnudeginum og var klukkan að verða hálffimm þegar ég var laus.  Oddur Smári hafði sent mér sms um þrjú og spurt hvort ég gæti sótt hann í skólann eftir vinnu.  Ég varð ekkert hissa á þeirri spurningu þegar ég kom út úr vinnustaðnum.  Það tók mig dágóða stund að komast upp í Tækniskóla en kannski var það vegna þess að ég valdi ekki rétta leið, og þó. Við mæðgin komum heim um fimm og hittum Davíð Stein þar fyrir en hann hafði fengið far heim úr skólanum.  Ég hringdi í pabba og spjallaði örstutt við hann. Var mætt á kóræfingu á slaginu hálfsex.  Kórstjórinn er enn lasinn en hann hafði fengið raddþjálfarann til liðs við sig og þrátt fyrir að það vantaði mismikið í næstum allar raddir fengum við hin sem vorum mætt heilmikið út úr þessari þjálfum.  Held meira að segja að ég hafi komist upp á háa c-ið og bassinn komst alla leið niður á "lága c-ið".  Með smá kaffipásu vorum við að í rúma tvo tíma. Strax á eftir skrapp ég í Laugardalslaugina, synti 500 metra og sat svo góða stund í gufunni á eftir. Hérna heima var spilasession og voru þeir alls fjórir að sonum mínum meðtöldum.

4.3.15

Raddþjálfun

Í gærmorgun tók ég strætó upp úr klukkan hálfátta frá Sunnubúðinni þannig að ég var mætt í vinnuna ca 12 mínútum fyrir átta.  Vinnudagurinn leið jafn hratt og oftast áður.  Vann á vélinni fyrir hádegi og sinnti reikningagerðinni, sýndi og kenndi, eftir hádegi.  Stimplaði mig út tíu mínútur yfir fjögur, tók vinstri beygju og labbaði Lækjargötuna og hægra meginn við Skólavörðuhæðina alla leið heim.  Uþb 3 km.  Heima hringdi ég í foreldra mína eftir að hafa lokið af smá heimilisverkefni.  Hafði til kvöldmatinn rétt fyrir sjö, horfði aðeins á Castle í sjónvarpinu og var komin upp í rúm með bók um hálfellefu.  Las ekkert svo lengi og var líklega sofnuð upp úr ellefu.

3.3.15

Gekk og "synti" heim úr vinnu í gær

Rétt áður en strætó kom að skýlinu við Sunnubúð þar sem ég beið um hálfátta í gærmorgun uppgötvaði ég að ég var ekki með nauðsynlegar "vinnugræjur" meðferðis.  Ég hringdi í Odd og bað hann um að taka til lykilkortið mitt á meðan ég labbaði til baka.  Gat þá í leiðinni kastað aftur kveðju á systur mína og yngri systurdóttur.  Mágur minn var farinn í göngutúr með Cöru og eldri systurdóttir mín var sofandi.

Náði svo strætó klukkan 7:47, hitti fyrrum bekkjarbróður bræðranna í skýlinu og var mætt í vinnu á slaginu átta.  Vinnudagurinn leið afar hratt og var klukkan byrjuð að ganga fimm þegar ég stimplaði mig út og labbaði af stað heimleiðis með ca klukkutíma stoppi í Sundhöllinni.  Syndi 9x25m ferðir, fór örstutt í heitari pottinn, góða stund í gufuna og sat svo úti við á stól þar til ég var orðin þurr. Kom heim um sex.  Hringdi í pabba áður en ég steikti þorsk, sauð kartöflur og hitaði lauk í bræddu smjöri í matinn. Hafði svo samband við Böddu mína rétt til að láta hana vita að ég ætlaði aðeins að kíkja á hana um kvöldið.

2.3.15

Tómlegt í "kotinu"

Systir mín og yngri dóttir hennar fóru út úr húsi stuttu fyrir klukkan átta í gærmorgun til að Helga gæti tekið myndir af skautakeppni A-skautara í Egilshöll fram að hádegi og Bríet fylgst með og horft á vinkonu sína keppa.  Vinkonan var á staðnum og horfði á Bríeti á laugardagsmorguninn. Ingvi mágur skrapp út með Cöru í stutta stund en hann átti svo von á að þau yrðu sótt e-n tímann á tíunda tímanum. Ég sá því ástæðu til að hella upp á kaffi og við mágur minn áttum gott morgunspjall yfir kaffibollunum. Samt vorum við með Merrild en ekki Gevalia.  ;-)

Ég skrapp til esperanto vinkonu minnar um hálftólf, aðeins á öðrum tíma og degi, en við vorum búnar að sammælast um þetta á laugardaginn var.  Nú var hún búin að finna esperanto-bækurnar en ég var aftur á móti ekki með neitt slíkt með mér.  Kláruðum nokkrar krossgátur saman og fórum svo í göngutúr meðfram sjónum í áttina að Seltjarnarnesi og snérum við nokkurn veginn á svæða-skilunum. Svo skrapp ég í Krónuna eftir meiri mjólk og brauði og smávegis í viðbót sem vantaði upp á til að geta haft "síðustu kvöldmáltíðina" handa "Akureyringunum".

Fljótlega eftir að ég kom heim bjó ég til vöfflur úr heilli uppskrift og í miðjum vöffluklíðum komu tveir vinir strákanna í heimsókn og þeim var að sjálfsögðu boðið með.  Systir mín og fjölskylda komu úr kaffiboði frá mágkonu hennar. þar sem einnig hittust eitthvað af bræðrum mágs míns og pabbi hans, upp úr sex.  Þau voru það södd að ákveðið var að kvöldmatur yrði ekki fyrr en um átta.  Oddur hjálpaði mér við kvöldmatargerðina og eftir mat skrapp hann í hálftíma göngu með Cöru.

Flestir fóru í háttinn um ellefu og nú svaf eldri systurdóttir mín með mér í stofunni.

1.3.15

Sund, skautar og fleira

"Akureyringarnir" vöknuðu fyrst í gærmorgun, fyrir klukkan átta.  Ég fór fljótlega á fætur líka og var farin út á undan þeim því ég hafði ákveðið að byrja á því að skella mér í sund. Náði 3 ferðum (6 ef báðar leiðir fram og til baka eru taldar) í Laugardalslauginni og er viss um að það voru rúmlega 300m þar sem mér fannst ég sjaldnast vera að synda beint á milli vegna nokkurrar umferðar. Fór örstutt í sjópottinn og aðeins lengur í gufu.

Skrapp heim með sunddótið og sótti Odd í leiðinni.  Davíð Steinn varð þá einn eftir heima að passa Cöru.  Komum í Egilshöllina um tíu góðum tíma áður en Bríet átti að keppa. Þær eru 16 í hennar flokk og í þremur hópum.  Fyrsti hópurinn var byrjaður en Bríet var í þeim síðasta.  Foreldrar mínir voru mætt rétt á undan og sáu allar stelpurnar keppa.  Þrátt fyrir lasleika og hælsæri náði Bríet þriðja sætinu og við sáum miklar framfarir hjá henni.

Eftir þessa keppni skruppum við mæðginin heim enda voru rúmir þrír tímar þar til Hulda átti að keppa.  Davíð Steinn var búinn að fara tvisvar út með Cöru, fyrst í tuttugu mínútur og svo í rúma klukkustund.  Hann fór svo með hana í stutta pissuferð út í gar áður en hún var sótt af vinkonu systur minnar sem líka á svona hund, bara aðeins eldri.  Cara er ekki nema sex mánaða en Aska er nokkurra ára en þær eru ágætis vinkonur og hafa gaman að því að leika sér saman.

Við Oddur vorum komin aftur upp í Egilshöll um hálfþrjú og náðum þá að sjá kennara Bríetar keppa en hún er dóttir þeirrar sem kennir Huldu.  Hittum aðeins á Huldu áður en hún fór að hita upp en hún kvaðst vera slæm í mjöðminni eftir slæma byltu fyrr í vikunni.  Okkur fannst hún samt standa sig vel í upphituninni.  Þegar kom að sjálfri keppninni byrjaði allt ágætlega en svo datt hún og fékk e-n ólýsanlegan verk sem hún gat ekki harkað af sér þótt hún gerði tilraun til svo hún varð að hætta keppni.  Pabbi hennar fór með hana á slysó, foreldrar okkar systra fóru fljótlega í Drápuhlíðina þar sem Davíð Steinn tók á móti þeim með nýuppáhellt kaffi en við Oddur Smári biðum eftir Helgu sem var búin að lofa að taka myndir af verðlaunaafhendingunni og Bríeti sem var búin að vera þarna allan tímann að leika við vinkonu úr skautafélaginu Birninum.  Við sóttum Cöru á leiðinni heim.

Pabbi var búinn að festa fyrir mig þröskuldinn inn á baðherbergi sem hann hafði farið með austur í lagfæringu.  Hann setti líka upp fyrir mig klósettrúlluhaldara og þar að auki handklæða slá fyrir handlaugarhandklæðið.  Slánna bað ég hann um að festa framan á efri skúffuna fyrir neðan vaskinn og kemur þetta allt svo ljómandi vel út.  Fljóglega eftir að mæðginin komu af slysó var Huldu skutlað til vinkonu.  Systir mín og afgangurinn af hennar fjölskyldu var boðið í kvöldmat heim til vinkonunnar sem á Ösku og ég bauð pabba og mömmu í mat áður en þau brunuðu austur aftur.