Vaknaði afar snemma í gærmorgun en eftir ákveðin morgunverk tókst mér að kúra til klukkan að ganga níu. Þá greip í bók og kláraði að lesa. Var hjá norsku esperanto-vinkonu minni á slaginu ellefu og stoppaði hjá henni í um tvo tíma áður en ég fór að versla. Oddur gekk frá vörunum að venju er ég kom heim en nennti ekki með mér í sund. Davíð Steinn kom með mér en við stoppuðum ekki lengi. Ég synti aðeins 200 m og fór svo í 38°C heitan pott ásamt syninum sem ekkert synti en hafði byrjað á því að fara í 42°C heita pottinn. Fljótlega eftir að við komum heim sá hann um að útbúa lasanja í kvöldmatinn.
Rétt upp úr átta var ég mætt á Hagamelinn til séra Péturs. Fór í samskonar teiti hjá honum í fyrra en verið var að halda upp á kirkjuáramótin. Ég minnist þess að hafa skemmt mér ágætlega í fyrra og þessi veisla var ekkert síðri nema síður sé. Hitti fullt af áhugaverðu fólki og þekkti eða kannaðist við sumt af því. Það var mikið spjallað og hlegið. Pétur bauð upp á svartbaunaseyði og seytján sortir (en það var svarið hans er ég spurði hversu margar sortir hann hefði bakað fyrir jólin) og svo komu amk tvær konur færandi henni með skyrtertu og annað bakkelsi. Var í teitinu alveg þar til kirkjuárinu hafði verið skotið upp um miðnætti.