31.10.14

Sá síðasti í október

Ég stimplaði mig út úr vinnu eiginlega á slaginu klukkan fjögur í gær en dokaði samt við um stund ásamt tveimur vinnufélögum mínum.  Rétt fyrir fimm röltum við saman á Café Rosenberg þar sem við hittum nokkra "gamla" bæði fyrrverandi og núverandi vinnufélaga.  Þrír voru þegar mættir en það átti eftir að bætast aðeins í hópinn.  Við stöllur vorum eiginlega ekki sestar þegar starfsstúlka kom aðvífandi til þess að taka niður pantanir.  Ég pantaði mér eitt hvítvínsglas, kaffi (sem ég bað um að mér yrði fært þegar ég kallaði eftir því) og hinar tvær pöntuðu bjór (önnur) og vatnsglas (hin) sem ég sagði afgreiðslustúlkunni að setja líka á kortið mitt.

Labbaði heim upp úr hálfsjö og fór beint í matseldina.  Hringdi svo í "föðursystur" mína (vinkonu sem einnig er Hjaltadóttir) til að athuga hvort hún yrði heima um kvöldið.  Svarið var jákvætt og var ég mætt til hennar um hálfníu og stoppaði í rúmlega klukkustund.  Kom við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg þar sem það var 17kr afsláttur af lítranum.  Reyndar komust bara rétt rúmlega 10 lítrar fyrir á tankinum því það er ekkert svo langt síðan ég fyllti síðast og ég er ekki búin að vera svo mikið á ferðinni.

30.10.14

1800

Eftirfarandi færsla er númer eittþúsundogáttahundruð frá upphafi og þá er allt talið, bæði myndir og textar.  Um þessar mundir er ég einnig búin að setja inn eina færslu á dag í heilt ár og reyndar þrjár myndir aukalega á þessu ári.  Og eins og staðan er í dag er ég ekkert að fara að hætta þessu.  :-)

Var á lánsbílnum milli heimilis og vinnu í gær, aðallega til að fá lengri tíma heima áður en ég mætti á kóræfingu.  Strákarnir fengu far í skólann í gærmorgunn og Oddur Smári fór í ökutíma númer tvö um þrjú.  Ökukennarinn sótti hann í skólann og Oddur fékk svo að enda tímann fyrir utan hjá pabba sínum.  Ég hitti Davíð Stein aðeins áður en ég fór á kóræfingu en hann kom heim til að skila af sér skóladótinu og skreppa í sturtu áður en hann fór til pabba síns.

Á kóræfingunni byrjuðum við að æfa jólalög fyrir aðventukvöldið.  Við vorum fimm í altinum og þær voru aðeins tvær í sópran svo ég æfði með þeim síðarnefndu.  Í hléinu fengum við svo afgang af kjúklingasúpunni góðu.

Horfði á hluta af landsleiknum í handboltanum er ég kom heim og svo á alla Kiljuna áður en ég slökkti á sjónvarpinu.

29.10.14

Lestur er bestur

Þann 16. október sl. skráði ég mig sem einstakling í Landsleikinn og síðan þá er ég búin að lesa tíu bækur í samtals einn dag sjö klukkutíma og tuttugu mínútur.  Er með sjö skráðar bækur sem eru enn ólesnar og ef ég þekki mig rétt á eftir að bætast á listann hjá mér.

Annars tók ég strætó í vinnuna í gærmorgun og svo aftur heim seinni partinn.  Reyndar fór ég beint upp í lánsbílinn og skrapp í fiskbúðina við Sundlaugarveg og Hagkaup í Skeifunni.  Á fyrri staðnum kom ég sjálfri mér á óvart og keypti fiskrétt, steinbít í einhvers konar karrýdæmi, til að hafa í kvöldmatinn en ég fékk mér líka Klausturbleikjuflök sem ég setti í frystinn þegar ég kom heim.  Í Hagkaup verslaði ég nokkrar nauðsynjar.

Horfði á kvöldfréttir og Casle en slökkti svo á sjónvarpinu.  Var komin upp í um ellefu og hætt að lesa áður en klukkan varð tólf.

28.10.14

Það held ég nú

Það var hefðbundin mánudagsmorgun í gær. Tók út lifur úr frystihólfinu þegar ég kom á fætur. Fór í vinnuna á lánsbílnum og bauð tvíburunum far í skólann í leiðinni.  Vinnudagurinn leið frekar hratt. Gat notað hluta af honum í lestur.  Fór beint heim eftir vinnu þar sem ég byrjaði á því að kveikja á tölvunni.  Rétt fyrir sex setti ég upp kartöflur og setti svo byggflögur í glæran plastpoka og kryddaði með salti og smá pipar.  Skar niður lifrina, setti í pokann og blandaði þessu vel saman.  Áður en ég hélt áfram bað ég Odd um að ganga frá úr uppþvottavélinni.  Á meðan ég beið eftir að hann lyki við verefnið hringdi Davíð Steinn í mig úr síma vinar síns og bað mig um að sækja sig upp í skóla. Gat ekki neitað honum þar sem ég var ekki alveg komin á kaf í eldamennskuna.  Áður en ég fór út úr húsi bað ég Odd um að afgreiða annað verkefni, sækja þvottinn af snúrunum okkar niður í þvottahús. Um leið og við Davíð Steinn komum heim létt steikti ég lifrina í smjörlíki, færði hana upp á disk, bætti smá smjörlíki út á pönnuna, kryddaði með hvítlaukssalti og steinselju og hellti svo ca hálfum dl. af ediki út á áður en ég setti lifrina aftur út í, lokið á pönnuna og slökkti á hellunni.  Þetta er alltaf jafn gott og reyni ég að hafa svona ca. 2 í mánuði á móti slátri.

27.10.14

Jazzmessa

Ég var komin á fætur eitthvað upp úr níu.  Var vöknuð miklu fyrr en hafði gefið mér tíma til að lesa smávegis áður en ég fór á fætur og bjó um.  Klukkan var að halla í eitt þegar ég mætti upp í kirkju óháða safnaðarins og fyrr en varði vorum við kórfélagar mínir farin að hita upp fyrir messuna. Það fór eins og mig grunaði, ég söng allan tímann með sópran enda hafði ég æft sem slík fyrir messuna á síðustu æfingu.  Við vorum því fjórar í sópran (vantaði tvær), fjórar í alt (allar mættar), einn tenór (vantaði annan tenórinn, en kórstjórinn söng með honum þegar hann var ekki að styðja við altinn) og tveir bassar (allir mættir).  Messan gekk vel fyrir sig og var skemmtileg en það var ekki eins góð mæting og fyrir hálfum mánuði.  Gaf mér tíma til að fá mér kaffi og kleinur og spjalla við kórfélagana áður en ég fór heim.

Restin af deginum fór í smá dútl, aðallega tölvuna.  Hafði ofnbökuð kjúklingalæri með hrísgrjónum og gulum baunum í kvöldmatinn.  Horfði svo á Downton Abby á rauntíma á RÚV og Law and Order SVU á plúsnum á Skjá einum um kvöldið.

26.10.14

Skautakeppni í Laugardalnum í gærmorgun

Um sjö í gærmorgun fór ég fyrst framúr, náði í fjölmiðlamælinn, fékk mér asea-drykk, tæmdi blöðruna og smurði mig með hormónagelinu.  Síðan skreið ég upp í aftur á meðan ég þornaði.  Var komin á fætur stuttu fyrir átta.  Fékk mér gríska jógúrt með krækiberjum og musli og kveikti á tölvunni. Bankaði reyndar fyrst hjá Oddi og spurði hvort hann ætlaði með mér í Skautahöllina eins og hann hafði sjálfur imprað á tveim dögum fyrr.  Oddur var hins vegar svo syfjaður að hann var fljótur að neita. Ég var mætt í Laugardalinn rétt fyrir níu. Þá var keppni í flokki átta ára stúlkna langt komin.  Hitti systur mína, knúsaði og settist á teppið hjá henni.  Fyrr en varði var svo yngri systurdóttir mín sem er í flokki 10 ára stúlkan farin að hita upp en hún var í fyrsta keppnishópi af þremur.  Allt í allt voru þær 16 að keppa.  Bríet var svo fimmta og síðust á svellið í fyrsta hópnum.  Hún stóð sig afar vel og sá ég miklar framfarir hjá henni.  Hún skoraði 17,54 stig. Allar þær sem ekki lentu í þremur efstu sætunum lentu í fjórða sæti en ég held að Bríet hafi verið með fimmtu bestu einkunnina.  Eftir að allar 16 keppendurnir höfðu komið fram var svellið heflað.  Svo hófst keppni 12 ára stúlkna, þær voru bara sex allt í allt. Ég var hins vegar að bíða eftir keppni í stúlknaflokki sem eldri systurdóttir mín, Hulda er í.  Sú keppni hófst næstum strax á eftir þeim 12 ára. Þær eldri voru líka sex og fengu að hita sig upp í 6 mínútur.  Hulda var fjórða á svellið og stóð sig svo glæsilega að hún bætti stigaskorið sitt á öllum sviðum, endaði með 30,96 stig og vann.  Sú sem var í öðru sæti skoraði í kringum 26 stig minnir mig.  Ég fylgdist með verðlaunaafhendingunni og náði svo að hitta aðeins á frænkur mínar og knúsa þær.  Þær mæðgur höfðu komið í bæinn kvöldið áður en dveljast hjá vinkonu systur minnar að þessu sinni.  Mágur minn varð eftir fyrir norðan að passa Cöru, nýjasta fjölskyldumeðliminn, sem er hvolpur sem þau voru að fá sér.

Úr Laugardalnum fór ég beint til norsku esperantovinkonu minnar.  Hafði hringt í hana um tíu og fékk þá að vita að hún væri á leið til Noregs í dag því háöldruð móðir hennar (fædd 1920) lést á þriðjudaginn var.  Ég dreif mig því til Inger um eitt, aðallega til að knúsa hana og votta henni samúð mína.  Ég þáði hjá henni kaffi og við skruppum svo í stuttan göngutúr meðfram sjónum áður en við kvöddumst.

25.10.14

Súpukvöld KÓSÍ-kórsins í gærkvöldi

Skildi lánsbílinn eftir heima og fór með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Aðeins venjuleg dagleg verkefni lágu fyrir og dagleg framleiðsla undir meðaltali svo það var allt búið áður en klukkan varð tvö. Einhvern veginn tókst tímanum samt að fljúga áfram og vinnudegi lauk á venjulegum tíma. Ákvað að nota strætó til að koma mér heim líka.  Heima hentist ég niður í þvottahús með þvott í eina vél og kom upp aftur með það sem hafði hangið á snúrunni síðan á miðvikudag.  Kveikti á tölvunni en stuttu seinna greip ég bókasafnspokann og dreif mig á Kringlusafnið þar sem ég skilaði sex bókum af átta og tók mér sex aðrar bækur í staðinn.

Það var spilakvöld hjá strákunum og þeir ætluðu að sjá um sín matarmál sjálfir.  Á áttunda tímanum kvaddi ég og dreif mig í Kópavog til einnar kórsystur minnar.  Þar var allt að verða tilbúið fyrir dýrindis súpukvöld.  Ég var ekki síðust á staðinn og við vorum byrjuð að borða þegar yngri hjón kórsins komu um hálfníu.  Súpan var alveg jafn góð og félagsskapurinn og það var svo mikið hlegið að ég hafði áhyggjur af því um tíma að ég fengi magaharðsperrur.  He, he.  "Sann-Kristinn" var með sinn pistil og sló í gegn eins og venjulega og svo reyndist ég óvænt vera með ágætis atriði í pokahorninu, þ.e. ég var með spilin hennar Siggu Kling; "Spurðu spilin" og sú sem er nýjust í kórnum stjórnaði smá leik þar sem spilin voru látin ganga í hring og hver og einn spurði spilin og dró svör sem áttu merkilega vel við og vöktu oft á tíðum mikla kátínu.  Klukkan var langt gengin í miðnætti þegar ég skilaði mér heim og þá var spilakvöldið hér að leysast upp.  Fór aðeins í tölvuna og las svo um stund áður en ég bað bænirnar mínar og kúrði mig niður.

24.10.14

Vinnuvikunni að ljúka

Ég bauð tvíburunum far í skólann í gærmorgun.  Lánsbíllinn hafði verið á stæði fyrir aftan heilsugæsluna yfir nóttina og gott að drífa hann í burtu.  Við sem unnum á vélinni í gær gengum á hitavegg þegar við komum inn í herbergið og þrátt fyrir að hafa hurðina inn í herbergið opna (sem má eiginlega ekki) og fá viftu inn til okkar þá leið manni eins og maður væri komin til heitu landanna. Í morgun kom svo í ljós að þeir sem höfðu verið að vinna á gamla staðnum okkar höfðu fiktaði í báðum kerfunum og hækkað hitann vegna kulda.  Hins vegar hefur innra kerfið þar áhrif á korta- og lagerherbergið hjá okkur.

Korter yfir ellefu skrapp ég til tannlæknis í árlegt eftirlit.  Var mætt aðeins fyrir tilsettan tíma en Jónas var laus og ég komst strax í stólinn.  Það tók hann ekki langa stund að komast að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert að finna að tönnunum mínum.  Svo ég borgaði 4000kr. og bókaði tíma á sama tíma að ári.  Reyndar er sá tími á mánudegi en nokkur undanfarin ár hef ég mætt í eftirlit einn fimmtudagsmorgun í október.

Rétt áður en ég var búin í vinnunni hringdi ég í kórsystur mína sem ætlar að halda súpukvöld fyrir kórinn heima hjá sér í kvöld.  Hún sagði mér að hitta sig við Bónus við Smiðjuveg.  Ég var mætt þangað á undan henni og hitti frænku mína sem og einn núverandi og annan fyrrverandi vinnufélaga. Þegar ég var búin að bíða í smá stund hringdi kórsystir mín í mig og spurði; "Sagði ég örugglega ekki við Nýbýlaveg...".  Hún var semsagt þar en kom stuttu síðar.  Hjálpuðumst að við að setja allt af innkaupalistanum í körfu og svo borgaði ég með kórkortinu við kassann.  Á heimleiðinni renndi ég við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg og dældi á lánsbílinn á 12kr. aflætti af lítranum.

23.10.14

Engar holur

Fór með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Tæpum klukkutíma síðar fórum við þrjár með leigubíl í K2 til að sitja fyrirlestur um starfsmannasamtöl.  Fyrirlesturinn stóð yfir í um eina og hálfa klukkustund. Annars leið vinnudagurinn afar hratt og var nóg að gera alveg til fjögur.  Notaði strætó líka til að koma mér heim úr vinnu.  Heima stoppaði ég samt ekkert svo lengi en náði þó að hitta Odd Smára er hann kom heim úr fyrsta ökutímanum sínum.  Var mætt upp í kirkju korter yfir fimm til að skila Helgu kirkjulykli og innkaupalista.  Kórstjórinn og hún voru þegar mætt á svæðið.  Árni vildi að ég æfði sem sópran fyrir komandi jazzmessu en í þeim lögum sem við æfðum sem ekki tilheyrðu messunni söng ég altinn.  Ætli ég sé þá ekki orðin nokkurs konar sópralt?

Ég fór beint í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar eftir kóræfingu og mætti Lilja vinkona á sama tíma.  Auðvitað stökkbreyttist tíminn og klukkan varð ellefu á mettíma.  Strákarnir voru ekki heima þegar ég kom heim um hálftólf og klukkutíma síðar hringdi ég í Odd sem var sem betur fer með símann sinn svo ég gat sagt honum að þeir bræður ættu að koma heim sem allra fyrst.  Það leið samt rúmur hálftími áður en þeir komu heim.

22.10.14

Klaufaskapur í umferðinni

Það var allt hvítt þegar ég leit út um gluggann í gærmorgun svo ég vissi að ég þurfti að fara út í fyrra fallinu til að sópa af lánsbílnum.  Sópaði samviskusamlega af honum öllum og hreinsaði alla glugga, ljós og spegla vel.  Tuttugu mínútum fyrir átta lögðum við mægin af stað, ókum út götuna beygðum til vinstri og strax aftur til vinstri og svo Eskihlíðina að hringtorginu rétt við Hlíðaskóla.  Þar beygði ég útaf strax til hægri og í áttina að Bústaðaveg þar sem ég ætlaði að beygja af aðreininni til hægri.  Einn bíll var á undan mér þar.  Beygjuljósið inn í Hlíðar var grænt og þá kom tækifæri til að beygja inn til hægri.  Ég sá að það reyndist vera og sýndist bíllinn á undan fara af stað en gerði þá skyssu að kíkja ekki aftur.  Lagði af stað og lendi aftan á bílnum fyrir framan.  Það sást ekkert á lánsbílnum en smá á þeim sem ég keyrði á svo það var bara ákrestur.is og allur pakkinn.  Þurftum að bíða nokkra stund eftir þeim sem kom á vettvang. Ég og bílstjórin hins bílsins vorum beðnar um að setjast afturí þegar búið var að mynda aðstæður.  Ég var svo spurð um hvernig atburðurinn kom mér fyrir sjónir og ég viðurkenndi fúslega að hafa gleymt að kíkja aftur til hægri, hafði bara gert ráð fyrir að bílstjórinn á undan hefði farið.  "Var að fylgjast með umferðinni frá vinstri og keyrði á bílinn fyrir aftan sig..." mismælti maðurinn sig er hann ætlaði að endurtaka með eiginorðum mín hlið á málunum.  Hann var þó fljótur að leiðrétta sig.

Strákarnir urðu tuttugu mínútum og seinir í fyrsta tíma og ég mætti rúmum hálftíma of seint í vinnu en hafði hringt rétt fyrir átta til að láta vita.  Að öðru leyti leið dagurinn bara við vanabundin störf. Strax eftir vinnu skrapp ég í Krónuna við Granda og verslaði smá nauðsynja inn.  Hafði ofnsteikta bleikju í kvöldmatinn með soðnum kartöflum og gulum baunum í bræddu smjöri.  Við Oddur Smári horfðum svo á fyrsta þáttinn af Castle í nýrri seríu á RÚV en ég slökkti svo á sjónvarpinu um tíu.

21.10.14

Líður á mánuðinn

Það var skólafrí í Tækniskólanum í gær svo ég ákvað að nota ekki lánsbílinn í ferðir milli heimilis og vinnu eins og marga undanfarna mánudaga.  Hoppaði upp í strætó, við Sunnubúð, upp úr klukkan hálfátta í gærmorgun og var mætt í vinnuna ca. þrettán mínútum síðar.  fyrir að vera að koma úr fjögurra daga "helgarfríi" gekk ég beint inn í mín hefðbundnum mánudagsstörf og sá um móttöku og skoðun á plasti úr framleiðsluvélinni til tíu. Dagurinn leið afar hratt.  Þegar ég labbaði út um fjögur fannst mér heldur hvasst og ákvað að nota strætó heim líka og var þar með búin að nota jafn marga farmiða og í síðustu viku.

Hafði afgang af sunnudagssteikinni frá/hjá pabba og mömmu í kvöldmatinn og eyddi kvöldinu svo á tímaflakkinu og horfði m.a. á "The voice" frá því á föstudaginn.  Las einnig nokkuð í gær og er dugleg að skrá inn á allirlesa.is.  Skv. vefnum er ég búin að lesa allt í allt yfir 13 klst. síðan ég skráði mig til leiks.  Hvað skyldi ég annars vera búin að lesa marga klukkutíma bara á þessu ári?  Hvað þá um ævina? Það má örugglega svara seinni spurningunni í einhverjum árum.  :-)

20.10.14

Lánsbíllinn á vetrardekkin

Pabbi setti vetrardekkin undir jeppann og fíatinn á laugardaginn.  Þar sem vetrardekk lánsbílsins eru ekki negld þá var þetta ekkert of snemmt.  Gærdagurinn leið annars í miklum rólegheitum.  Svaf aðeins lengur fram á morguninn eða til klukkan tíu og svo skipti ég deginum niður í lestur, útsaum, tölvu og spjall.  Mamma var með læri í kvöldmatinn og ég fékk það hlutverk að búa til sósuna úr soðinu. Við mæðgin vorum svo beðin um að taka afganginn af steikinni með í bæinn.  Komum heim upp úr klukkan níu og ég horfði á síðasta þáttinn um "Hraunið" og fyrsta þáttinn af "Downton Abby" á tímarásinni. Klukkan var rétt byrjuð að ganga eitt þegar ég skreið undir sæng og gaf mér nokkrar mínútur í smá lestur áður en ég fór að sofa.

19.10.14

Sunnudagur í sveitinni

Var komin á fætur upp úr klukkan níu og "fann" afmælisbarnið í eldhúsinu.  Dagurinn var nokkuð rólegur.  Ég las mikið en var einnig að vafra um á netinu í pabbatölvu og þá greip ég að sjálfsögðu í saumana mína.  Bræðurnir vöknuðu snemma miðað við oft áður.  Annar þeirra var með tölvuna sína með sér og vann eitthvað að verkefnum fyrir skólann hinn gaf það út að hann væri í tölvufríi.  Upp úr tvö skellti mamma í pönnsudeig og steikti stafla af pönnukökum á tveimur pönnukökupönnum. Pabbi sjá svo um að taka til kaffið.  Veislan hélt svo áfram eftir fréttir en þá var boðið upp á folaldakjöt með kartöflum og jafningi sem ég fékk að búa til.  Horfðum á íslensku lögin á plúsnum.  Tölvaðist til klukkan að ganga tólf og las svo aðeins fram yfir miðnætti.

18.10.14

Pabbi minn áttræður í dag

Aftur skutlaði ég tvíburunum í skólann og fór svo beint heim.  Í þetta sinn tíndi ég ekki fjölmiðlamælinum mínum.  Fór beint upp í sófa og las í um klukkustund.  Eftir að ég lagði frá mér bókina rann mér í brjóst á meðan ég var að ákveða hvað næst.  Það var farið að nálgast hádegi þegar ég kveikti á tölvunni.  Strákarnir voru báðir komnir heim fyrir tvö því það var valdagur í skólanum. Það var því afar freistandi að taka sig til og drífa sig í sveitina.  Ég átti hins vegar von á styrktarpappír um kvöldmatarleytið svo við mæðgin vorum ekkert að fara strax.  Þeir skruppu í sturtu, hvor á eftir öðrum, ég setti í þvottavél, tölvaðist, las og hringdi í mömmu tvíburahálfsystur minnar.  Hafði steikt slátur og soðnar kartöflur um sex.  Pappírinn kom um hálfátta og þar sem við mæðgin vorum öll tilbúin drifum við okkur í "sveitina".  Komum á Hellu fyrir níu þannig að við náðum nokkru áður en síðasti þátturinn af Barnaby með John Nesbit byrjaði. Foreldrar mínir voru að horfa á Útsvar en mamma fór svo stuttu seinna að sofa.  Ég var komin í rúmið um hálftólf og byrjaði þá á bók sem ég ætlaði ekki að geta lagt frá mér, Hljóðin í nóttinni minningarsaga eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur. Las í um klukkustund alveg dolfallin yfir því hversu vel bókin er skrifuð um þennan mannlega harmleik.  Las inn í hálfa bók áður en ég náði að leggja hana frá mér og fara að sofa.

17.10.14

Annar frídagur

Þrátt fyrir að hafa tekið mér orlofsdag í gær til að fækka þeim dögum sem eftir eru af fríinu þá fór ég á fætur á áttunda tímanum í gærmorgun og skutlaði sonunum í skólann.  Fór beint heim aftur og uppgötvaði fljótlega að fjölmiðlamælirinn minn var horfinn úr vasanum.  Það komu nú ekki margir staðir til greina og ég þóttist rekja mig til baka og skoðaði inn í bíl og svæðið við stæðið þar sem bíllinn hafði staðið en fann ekki neitt.  Ég var hálf orðin hálfsmeik um að mælirinn hefði "hoppað" upp úr vasanum og í óhreinu hrúguna sem ég hafði troðið í þvottavélina en þegar vélin var búin að þvo var enginn aukahlutur í tomlunni, bara flíkurnar.  Ég ákvað því að skrifa Capacent um ófarirnar.

Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi tannlæknirinn í mig og bað um að fá að fresta tímanum um viku þar sem klinkan hans og eiginkona var veik.  Það var í góðu lagi mín vegna.  Um tólf kom Inger, norska esperanto vinkona mín, og við drifum okkur næstum strax af stað í fornbókabúðina hans Braga. Á leiðinni út í bíl fann ég fjölmiðlamælinn á mjóu gangstéttinni fyrir framan bílastæðin stutt frá lánsbílnum.  Mikið var ég fegin.  Við Inger fjárfestum í nokkrum esperantobókum saman, sumum sem við höfum verðið með í höndunum áður en líka einni sem við höfum ekki séð áður.  Síðan skutlaði ég vinkonu minni heim til sín og fór með lánsbílinn í snertilausu þvottastöðina við Granda.  Þaðan fór ég svo í fiskbúðina við Sundlaugarveg áður en ég fór heim.

Ég skráði mig annars til leiks á allirlesa.is í gær og ætla að taka þátt sem einstaklingur.  Skv. bókasafnsvefnum Gegni er ég örugglega búin að lesa á annað hundrað bækur í ár því þar er yfir til yfir 100 síðustu útlán þar sem elstu útlánin eru frá í mars og eitthvað hef ég væntanlega lesið í janúar og febrúar líka ef ég þekki mig rétt.  Byrjaði á bók í fyrrakvöld sem ég hef lesið áður, Vargurinn eftir Jón Hall Stefánsson og las inn í hana hálfa í gær en ég greip að sjálfsögðu líka í saumana mína.

16.10.14

Orlof

Það var mun dimmara úti þegar ég beið eftir strætó um hálfátta í gærmorgun heldur en á þriðjudagsmorguninn enda var skýjað í gær.  Vinnudagurinn leið hratt.  Byrjaði á að undirbúa pökkun og fór svo á framleiðsluvélina stuttu fyrir níu rúmlega klukkutíma fyrr þar sem hluti af hópnum var að fara á námskeið í K2.  Ég var á "ítroðsluendanum".  Lukum við verkefnið sem þarf að klára um tíu stuttu áður en klukkan "sló".  Þar sem við vorum bara fjögur og eitt af okkur kemur sjaldnast að framleiðsluvélinni tókum við okkur sameiginlega kaffi pástu.  Eftir kaffi hélt ég mig við sama enda á vélinni en það kom önnur á endann.  Allri framleiðslu var lokið fyrir hálfeitt þar sem engin endurnýjun er í gangi og tilvonandi aukaverkefni ekki hafið.  Þrátt fyrir að allt væri búið um tvö var ég til rúmlega fjögur í vinnunni því ég var kerfisfræðingi innanhandar við test framleiðslu milli tvö og ca fimmtán mínútur yfir fjögur.  Svo labbaði ég heim.

Heim kastaði ég aðeins mæðinni og lauk við að lesa enn eina bókasafnsbókina áður en ég fór og skilaði henni á safnið ásamt fjórum öðrum í leiðinni.  Var ekkert að drífa mig neitt því kóræfing féll niður í gær.  Sjö bækur komu með mér heim.  Strákarnir ætluðu báðir til pabba síns en þegar til kom fór aðeins annar þeirra beint úr skólanum.  Það var til afgangur, sem ég fékk mér af, í ísskápnum og bauð ég "heimalingnum" að klára.  Hann var hins vegar ekki svangur.  Hringdi í "tvíburahálfsystur" mína til að kanna hvernig landi lá og það varð úr að ég boðaði komu mína til hennar um átta.  Hún hringdi reyndar stuttu seinna til baka til að biðja mig um að koma vel klædd.

Var komin í Svöluhraunið á slaginu átta og við byrjuðum á því að fara í tæplega klukkustundar göngutúr með Pöndu.  Upp úr níu vorum við sestar niður með handavinnuna og kaffi og osta og fyrr en varði var klukkan orðin ellefu.  Enn einu sinni stökkbreyttist tíminn.  Klukkan var að verða hálftólf þegar ég kvaddi og hélt heim á leið.  Heima fór ég smá stund í tölvuna og las svo í smá stund áður en ég bað bænirnar mínar og fór að eitthvað upp úr hálfeitt.

15.10.14

Svo grátlega nærri

Fór með strætó í vinnuna og labbaði svo heim seinni partinn.  Labbaði upp Skólavörðustíginn en breytti svo út af og fór niður stíginn aftan við Hallgrímskirkju og svo Klambratúnið heim. Kom við í Sunnubúð fyrst og "náði" í nokkrar nauðsynjar.  Davíð Steinn hafði látið vita að hann kæmi ekki fyrr en um sjö því hann var í gæslu á umspilsleiknum U21 við Dani.  Oddur Smári kom heim korter yfir fimm.  Átti að vera í skólanum til hálfsex en hafði sloppið aðeins fyrr út.

Hafði nokkuð í kvöldmatinn sem ég hef ekki haft lengi, lengi.  Pasta í rjómapiparostasósu.  Út í þetta setti ég einnig lauk, gulrætur, brokkolí, kasewhnetur og pylsur.  Og ég sem borða helst ekki orðið pylsur.  En Oddi þótti þetta gott og Davíð Steinn fékk sér smá þrátt fyrir að vera búinn að borða.

14.10.14

Karlalandsliðið stóð sig frábærlega

Stundum hverfur andinn alltof lengi,
og orðin dreifa sér um tún og engi.
Reyni að smala
og góla og gala.
Ég vildi bara óska' að betur gengi.

Líkt og flesta aðra mánudaga fór ég á lánsbílnum í vinnuna og skutlaði strákunum í skólann í leiðinni.  Vinnudagurinn var í styttra lagi en leið samt hratt og svo fékk ég að fara klukkutíma fyrr til að skreppa með innkomuna af kaffisölunni og klinkið af kóræfingum í bankann og endaði svo á því að skila posanum.  Gott að þetta verkefni er frá.  Um leið og ég var búin að skila posanum datt mér í hug að hringja í hana Böddu mína og kanna hvernig ég sækti að henni.  Hún sagði að það væri lítið gaman að heilsa upp á sig að þessu sinni svo við ákváðum að ég hefði samband fljótlega aftur.  Áður en ég fór heim kom ég við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg og fyllti á tankinn þar sem það var 12 kr. afsláttur.

Heima kveikti ég á tölvunni og vafraði um á netinu í rúma klukkustund.  Setti upp kartöflu rétt fyrir sex og laxaflök krydduð með "Best á fiskinn" í ofn.  Einnig bræddi ég smá smjör í potti og setti gular baunir út í.  Hellti líka upp á fullan brúsa af kaffi.  Var búin að borða þegar landsleikurinn byrjaði og ég kom mér betur fyrir í stofusófanum með handavinnuna mína (nýjasta verkefnið) milli handanna. Ég var stórhrifin af leik "strákanna okkar", leyfðu Arjen Robben ekki að komast upp með neitt og ef eitthvað var áttu þeir mun betri færi og voru líklegri til að bæta við heldur en að fá á sig mark. Hollendingar voru að vísu miklu meira með boltann en þeir náðu ekki að setja hann í markið hjá Íslendingum á meðan þeir þurftu að hirða hann tvisvar úr sínu neti.

13.10.14

Galdramessa og kórkaffi á eftir

Ég var búin að "snúsa" einu sinni á vekjaranum í gemsanum þegar Oddur Smári hringdi um hálfníu og spurði hvort ég gæti sótt sig og tölvuna upp í Tækniskóla.  "Núna!" spurði ég því ég átti eftir að fara í sturtu og bera gelið á mig.  Oddur sagði að það mætti vera um tíu leytið.  Rétt fyrir tíu var ég komin að skólanum og strákurinn virtist hafa fylgst með og beðið eftir mér því þegar ég var að hringja í hann til að láta hann vita að ég væri komin sá ég hann koma með tölvuna í fanginu og tösku yfir öxlina.  Hann þurfti svo að fara aðra ferð eftir tölvuskjánum.  Þegar hann kom heim og var búinn að ganga frá tölvunni fór hann inn í stofu, kveikti á sjónvarpinu og lagðist í sófann.  Hann var sofnaður eftir stutta stund enda búin að vaka að mestu frá því á föstudagsmorguninn.

Sjálf var ég mætt upp í kirkju rétt fyrir klukkan hálfeitt og var fyrst á svæðið.  Ég fékk lykil til umráða á miðvikudaginn var svo ég gat opnað og hleypt mér inn.  Til að byrja með skildi ég posann eftir út í bíl.  Inni byrjaði ég á því að raða flatkökunum á þrjá matardiska.  Einn diskurinn fór inn í ísskáp en hinir á hlaðborðin, annar uppi og hinn niðri.  Stuttu á eftir mér mættu fleiri kórmeðlimir og allt var sett á fullt við lokaundirbúning fyrir kaffihlaðborðið eftir messu.  Hituðum upp fyrir messuna um eitt og héldum svo undirbúningi áfram.  Messan hófst á slaginu tvö og vorum við afar ánægt með mætinguna.  Sáum það strax að það yrði að bæta við borðum inni í kirkju líka þrátt fyrir að salirnir tveir taki alls um 90 manns.  Pétur prestur sýndi töfrabrögð í messunni við mikinn fögnuð kirkjugesta, bæði yngri og eldri.  Strax eftir messuna fór ég og sótti posann út í bíl.  Fann passlegt borð inni á skrifstofu prestsins og ein kórsystir mín kom með tvo klappstóla.  Ég stillti mér svo upp á milli hæða með posann og skartgripaskrín með skiptimynt í 1000 og 500 kr seðlum.  Rétt fyrst vorum við tvær en svo sat ég vaktina allan tímann fyrir utan nokkrar mínútur þegar ég var leyst af svo ég gæti fengið mér eitthvað.  Fólk fékk að ráða hvenær það gerði upp við mig og sumir vildu borga aðeins meira.  Innkoman var amk um 120þús.  En svo fer eitthvað smávegis í posaleigu og ég útvegaði kost úr Bónus fyrir uþb 23 þús. allt í allt.

Kom heim um fimm og ákvað að það yrðu afgangar í matinn.  Horfði svo á fréttir, Hamar og SVU (á Skjá einum) áður en ég slökkti á sjónvarpinu.  Gleymdi mér aðeins í tölvunni svo klukkan var farin að halla í miðnætti er ég skreið upp í.  Las samt smá áður en ég fór að sofa.

12.10.14

Notalegur hittingur

Ég fór fyrst framúr áður en klukkan var orðin hálfátta í gærmorgun.  Skreið upp í aftur í smá stund en var klædd og komin á ról um átta.  Setti í eina þvottavél, smurði slatta af flatkökum, færði inn gærdaginn, vafraði um á netinu og hengdi upp áður en ég skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar um ellefu.  Frá henni fór ég í Bónus í Kringlunni.  Lagði lánsbílnum réttu meginn en einni hæð neðar þannig að þegar ég var búin að versla út á KÓSÍ-kortið ýmislegt fyrir kaffihlaðborðið (svo sem gos, kaffi, kelinur, servíettur og efni í heita brauðrétti) rúntaði ég með fulla körfu yfir í hinn endann þar sem lyfturnar voru og svo alla leið til baka og út í bíl.  Skrapp heim í um tvo tíma.  Tvíburavinkona mín úr Rangárþingi, búsett hér á höfuðborgarsvæðinu í meira en tuttuguogfimm ár líkt og ég, hringdi en við ætluðum að hittast um fjögur.  Við ákváðum að halda hittingnum til streitu en færðum tímann til rúmlega sex.

Rétt fyrir fjögur var ég mætt með Bónusvörurnar og flatkökufjallið í óháðu kirkjuna.  Þangað mættum við alls fimm konur úr kórnum og voru tvær Önnum kafnar því við vorum þrjár Önnurnar.  Á rétt rúmum klukkutíma undirbjuggum kaffisöluna eins og hægt var þannig að það eru komnir bollar og undirskálar á öll borð uppi og niðri og diskar og skeiðar á tilvonandi hlaðborð (uppi og niðri) og svo á bara eftir að stinga brauðréttunum í ofninn.  Það kom reyndar í ljós að það vantaði aðeins meiri rifinn ost svo ég fór beint úr kirkjunni í Krónuna við Granda og keypti það sem vantaði.

Var mætt á Café Haítí um sex og vinkona mín kom skömmu síðar.  Við pöntuðum okkur máltíð af matseðli, kaffi og eftirrétt og ég lét það eftir mér að splæsa á mig einu hvítvínsglasi.  Svo spjölluðum við og göntuðumst fram eftir kvöldi.  Vinkona mín var með sérstök spil með sér og bað hún mig tvisvar um að stokka og draga eitt spil og í bæði skiptin sagði hún VÁ því að því virðist er afar góð orka í kringum mig og það eru virkilega spennandi tímar framunda.  Gaman að því.  Vorum annars svo heppnar að frönsk stúlka kom og söng nokkur frönsk lög frá fjórða áratugnum við undirleiks íslensks ungs manns.  Það var afar góð skemmtun.  Stúlkan var með frábæra rödd og túlkun.  Tíminn leið alltof hratt og allt í einu var klukkan orðin ellefu.  Til að vera vel upplögð í dag ákvað ég að segja þetta gott að sinni en við tókum loforð af hvor annari að hittast fljótlega aftur.

11.10.14

Morgunstund

Bræðurnir fengu far með mér í skólann í gærmorgun.  Ég fékk svo að fara um klukkutíma fyrr úr vinnu til að ná að útrétta smá fyrir klukkan fjögur.  Byrjaði á því að fara í Valitor sem fyrir nokkrum mánuðum flutti af Laugavegi 77 í Dalshraun 3 í Hafnarfirði.  Þangað var ég mætt rétt fyrir hálffjögur og þar beið mín posi til að hafa til reiðu í kaffimessunni á morgun.  Frá Valitor lá leiðin í Ármúla 17 þar sem ég skilaði inn gamla fjölmiðlamælinum hans Odds.  Á umslaginu stóð reyndar að móttakandi greiddi sendingakostnað en mér fannst hálfkjánalegt að fara í pósthúsið við Síðumúla sem er bara rétt hjá.  Auðvitað hefði ég getað sett þetta í e-n póstkassann en þeim gripum hefur farið fækkandi og ég hef bara ekki hugmynd um hvar næsti slíki kassi er nema það er einn utan á pósthúsinu við Síðumúla. Næst lá leiðin í Hagkaup í Skeifunni þar sem ég verslaði smávegis sem mig vantaði til að nota í mitt framlag til kaffimessunnar.  Í leiðinni tók ég nokkra seðla úr hraðbanka til að nota sem skiptimynt.

Kom heim rétt fyrir fjögur.  Oddur Smári tók við innkaupapokanum og ég fór beinustuleið í stofuna og kveikti á sjónvarpinu til að fylgjast með fyrri leik U21 karla í umspili við Dani fyrir EM 2915.  Tók einnig fram saumana mína.  Leikurinn fór 0:0 sem er gott veganesti fyrir seinni leikinn sem verður hér heima á þriðjudaginn kemur.  Oddur Smári fór með tölvuna sína upp í skóla með aðstoð pabba sína og líklega verður strákurinn alla helgina í skólanum á LAN-móti/keppni svo ég held að hann verði ekki tiltækur á posann á morgun.  Það er þó í góðu lagi.  Hvort Davíð Steinn muni hjálpa mér, veit ég ekki en að sjálfsögðu get ég alveg staðið vaktina sjálf.

Korter fyrir sjö hófst leikur karlalandsliðsins í riðlakeppni fyrir EM 2016 sem spilaður var í Lettlandi. Sá leikur fór 0:3 fyrir okkar menn og er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem tveir fyrstu leikir í keppni um sæti á stórmóti vinnast.  Á meðan ég fylgdist með leiknum lauk ég við mynd þrjú fyrir utan útlínur og er hálfnuð með myndirnar.  En þegar allar sex hafa verið saumaðar ásamt útlínum er frágangurinn eftir. Eftir leikinn stillti ég á SkjáEinn plús og horfði á restina af Biggest Looser og svo Röddina.

10.10.14

Vinnuvikulok

Notaði stóra gula bílinn, strætó, til að ferðast í vinnuna í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið afar hratt en ég stimplaði mig út á slaginu klukkan hálffjögur og labbaði heim í enn betra veðri og minni mengun en síðdegis á miðvikudaginn.  Þegar heim kom byrjaði ég á því að hringja "heim" og náði tali af mömmu minni en það er ekki oft sem hún svarar í símann.  Við spjölluðum í um tuttugu mínútur, mun lengur en þegar við pabbi tölum saman.  Þau samtöl eru á bilinu 4-10 mínútur en við tölumst líka við nánast daglega.

Eftir kvöldmat settist ég með saumana mína fyrir framan skjáinn og horfði á fréttir og skipti svo yfir á RÚV íþróttir og horfði á Haukar-Valur í Olísdeild karla.  Úff, sá leikur var alltof spennandi en fór ekki alveg nógu vel fyrir mína menn sem töpuðu með einu marki eftir að hafa oftast verið yfir og leitt í leiknum.  En ég lauk við mynd tvö, fyrir utan útlínur, í nýjasta verkefninu mínu.  Þetta var reyndar sama myndin og á fyrsta stykkinu og því gat ég lagt saman jafann og fundið út fyrsta og efsta sporið og saumað "niður" eftir mynstrinu í stað þess að sauma út frá miðjunni.

9.10.14

Rauður máni

Ég fór með strætó í vinnuna í gær og labbaði svo heim upp úr fjögur.  Var ekkert að hraða mér í milda veðrinu og menguninni en var samt ekki nema um 35 mínútur á leiðinni.  Ég var svo ekki búin að vera heima nema í um þrjú korter þegar ég tók til kórmöppurnar mínar og fór á lánsbílnum á kóræfingu í óháðu kirkjunni.  Fyrri partinn af æfingunni æfði ég með sópran en þegar Requiem eftir Gabriel Faure, verkið sem við sungum með Samkór Svarfdæla, Grindavíkurkirkjukór og Odda- og Þykkvabæjarkirkjukór vorið 2011, var tekið upp, skipti ég snarlega yfir í altinn.  Kom heim aftur upp úr hálfátta, kveikti á sjónvarpinu og settist fyrir framan það með saumana mína.  Vann aftur að tilvonandi jólagjöf og það má segja að ég hafi náð að ljúka við ca 1/8 hluta af gjöfinni.  Slökkti á sjónvarpinu eftir tíu fréttir og gekk frá saumadótinu.  Gleymdi mér aðeins í netvafri og leikjum á tölvunni en var samt komin upp í fyrir miðnætti.  Ég gleymdi mér líka við lesturinn og var klukkan að verða hálfeitt þegar ég hætti að lesa.  Er að lesa bók sem heitir Korter eftir Sólveigu Jónsdóttur þar sem segir frá fjórum konum "sem eiga fátt sameiginlegt annað en umhverfið í 101 og griðastaðinn Café Korter í Bankastræti." eins og segir á kápubakinu.

8.10.14

Milt og gott veður

Þrátt fyrir að það væri ekki rigning í gærmorgun fannst mér rökkrið of mikið til að hjóla af stað og notaði því strætó til að komast í vinnuna.  Hlutverk mitt í vinnunni í gær var að senda framleiðslu yfir á vélina, bóka og telja.  Svo tók ég að mér að skanna inn nýja kortategund og bæta við bæði í excel- og netbókhaldið.  Þurfti ekki að koma nálægt því að vera á vélinni en síðasta klukkutímann tók ég við hálfkláruðum kennispjaldabunka og lauk við að skanna inn.  Mér bauðst svo far heim.  Kvöldið var nokkuð rólegt.  Ég tók mig til og byrjaði á einu af verkefninum sem ég var að fá og sagði frá í gær. Ef vel gengur verður þetta nefnilega ein af jólagjöfunum í ár svo ég skrifa ekki meir um þetta í bili.

7.10.14

Vond tilfinning

Á mánudögum fá bræður far í skólann á lánsbílnum með mér.  Gærdagurinn var engin undantekning á því.  Það kom sér reyndar afar vel að vera á bíl því ég fékk tvenn skilaboð í talhólfið með ekkert svo löngu millibili um að vörurnar sem ég pantaði í gegnum heimasíður Margaretha væru komnar.  Ég fór því beint í verslunina eftir vinnu og sótti þetta.  Framundan er heilmikið gaman og skemmtilegt.  Á eftir tók ég smá pening út úr hraðbanka og hafði samband við asea-manninn.  Hann átti einmitt kassa handa mér.  Var eiginlega að vona að hann væri með tvo svo ég gæti slegið september og októbersendingunum saman en það var ekki alveg svo gott.

Eftir kvöldmat kom einn vinur strákanna í heimsókn.  Þeir byrjuðu á því að spila smá fífa-fótboltaleik á playstation tölvuna en um níu fóru þeir allir á rúntinn.  Bræðurnir voru ekki komnir  heim er ég fór í háttinn um hálftólf.  Las um stund eins og oftast áður en var búin að slökkva á lampanum fyrir miðnætti.  Um eitt hrökk ég upp, fór framúr og kíkti fram.  Neibb, bræðurnir voru ekki komnir heim. Náði í gemsann og reyndi að hringja í Odd en komst að því að gemsinn hans var á skrifborðinu hans. Þá reyndi ég að hringja í Davíð Stein.  Það hringdi og hringdi og hringdi út.  Lét hringja út einum þrisvar sinnum áður en ég prófaði að senda sms.  Nokkru seinna fékk ég svar við skeytinu um að þeir væru á leiðinni heim.  Þá prófaði ég að hringja aftur en það var sama sagan.  Sendi fleiri skeyti og fékk svör við þeim.  Ég held að klukkan hafi verið nokkuð langt gengin í þrjú þegar bræðurnir læddust inn. Eftir smá umhugsun ákvað ég að vera fegin og glöð og fara bara að sofa í stað þess að fara fram og eiga það á hættu að missa mig smá.  En mikið svakalega var þetta vond tilfinning, að hrökkva svona upp eftir miðnætti og geta ekki náð í bræðurnar í síma.  Svörin við sms-skeytunum voru ekki að hjálpa nóg því mér fannst það svolítið óhugnanlegt að fá textaboð en engann á línuna...

6.10.14

Ferð á bókasafnið

Klukkan var ekki nema rétt um sex þegar ég rumskaði fyrst í gærmorgun.  Líklega er líkamsklukkan orðin svo vel innstill á að ef ég er að fara sofa rétt upp úr miðnætti þá er ég örugglega að fara á fætur á sjöunda tímanum.  Mér tókst nú að kúra aðeins lengur og sofna eitthvað aftur.  Svo var ég komin á fætur um níu.  Bræðurnir sváfu báðir til hádegis svo ég notaði það sem afsökun fyrir því að hafa bara nokkuð hægt um mig, vafra á netinu og eitthvað þess háttar.

Ein bókin sem ég var með á safninu var að komast á tíma og þar sem ég var búin að lesa hana, og reyndar þrjár aðrar, gerði ég mér ferð á safnið eftir hádegi.  Skilaði þessum fjórum bókum og kom aðeins með tvær til baka en fyrir voru sex aðrar bækur af safninu.

Rétt fyrir fjögur tókum við mæðgin okkur til og lögðum leið okkar vestur í bæ í boð til móðursystur minnar sem hafði boðið okkur og nokkrum fleirum í snemmbúinn kvöldmat.  Tvíburabróðir hennar, kona hans og sonur komu að um svipað leyti og við mæðgin.  Fyrrum mágkona tvíburasystkynanna (og mömmu) og yngsti bróðursonur voru mætt og nokkru síðar mætti næstelsti bróðursonur sinn með konu og tvo syni.  Elsti sonur hans af fyrra sambandi mætti nokkru síðar.  Glatt var á hjalla og boðið upp á glæsilegar veitingar.  Fyrr en varði varð klukkan sjö og þá vildu bræður fara heim þar sem þeir ætluðu í bíó með pabba sínum um átta.  Hinir gestir frænku minnar voru ýmist farnir stuttu áður eða að fara.

5.10.14

Hratt líður á helgina

Ekkert man ég hvað klukkan var þegar ég lagði frá mér bók, slökkti ljósið, bað mínar bænir og fór að sofa.  Hins vegar var ég vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan í gemsanum mínum gerði sig líklega til að hringja.  Slökkti á símanum, náði í fjölmiðlamælinn, skrapp í sturtu, fleygði mér aftur í rúmið á meðan gelið þornaði en var svo klædd og komin á ról áður en klukkan varð tíu.  Klukkustund síðar var ég mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni.  Við kláruðum tvær íslenskar krossgátur en Inger er orðin nokkuð flink í þeim svo það voru ekki margir reitir sem átti eftir að fylla út í.  Við ræddum líka um næstu esperantoskref og komumst að sniðugri niðurstöður sem ég segi líklega nánar frá síðar, eftir að hugmyndin hefur verið framkvæmd.  Það var annars Inger sem átti þessa frábæru hugmynd og nú er bara að fylgja henni eftir sem fyrst.

Frá Inger lá leiðin í Krónuna við Granda þar sem ég verslaði inn fyrir vikuna.  Þegar ég lagði fyrir utan heima hringdi ég í Odd sem kom að vörmu spori, hjálpaði mér inn með vörurnar og gekk samviskusamlega frá þeim.  Afgangurinn af deginum fór í almennt afslappelsi, netvafr, lestur og sjónvarpsgláp.  Hellti mér upp á könnuna seinni partinn og stakk inn krydduðum (með best á kjúklinginn kryddi) kjúklingalærum í ofn og setti upp hrísgrjón á sjöunda tímanum.  Stuttu áður hafði tvíburahálfsystir mín komið til mín vörum sem ég hafði pantað til styrktar dóttur hennar og Lækjarskólakórsins.

Ég var búin að slökkva á sjónvarpinu fyrir tíu og tölvunni um ellefu og svo las ég aðeins fram yfir miðnætti.

4.10.14

Café Haítí

Ég skammaðist mín ekkert fyrir að nota lánsbílinn í þriðja sinn í vikunni í gær.  Reyndar lagði ég honum á gjaldstæði aðeins lengra frá, óákveðin hvort ég myndi hafa hann þar fram á kvöld.  Byrjaði á því að kaupa tíma til klukkan fimm.  Var í prónaðri friendtex peysu og með kínverska trefilinn sem nafna mín gaf mér og vinnufélagarnir féllu alveg í stafi.  Setti þetta hvoru tveggja á skrifstofustólinn minn og fór fljótlega að hlaða inn skrám og troða fyrstu framleiðslu dagsins inn í framleiðsluvélina.  Eftir morgunkaffi sinnti ég mánaðarlegri reikningagerð.  Vinnudagurinn leið jafn hratt og venjulega og klukkan varð fjögur áður en varði.

Strax eftir vinnu færði ég lánsbílinn á gjaldstæði rétt hjá Grófinni.  Setti á mig varalit, fór í flíspeysu og skildi úlpuna og bakpoka eftir í skottinu.  Leiðin lá á Café Haítí þar sem ein vinkona mín var að opna sýningu!  Hafði látið norsku esperanto vinkonu mína vita af þessu og hún kíkti við í stutta stund.  Grétar, pabbi Brynju, spilaði á harmonikku og eftir að hafa skoðað myndirnar settist ég niður hjá mömmu Brynju og spjallaði.  Áður en ég kvaddi hitti ég einnig systur hennar Brynju og við Brynja ákváðum stað og stund í næsta hitting.

3.10.14

Virku dagarnir þessa vikuna næstum liðnir

Þrátt fyrir að það væri möguleiki að bleytu seinni partinn fór ég á hjólinu í vinnuna í gærmorgun, kannski í síðasta sinn þetta árið.  Nú fer að verða það dimmt á morgnana og bráðum seinni partinn líka að það borgar sig ekkert að vera á nær ljóslausu hjóli.  Afturdekkið virðist vera að linast aðeins upp en það er ekkert nema að pumpa í það.  En hvort ég geri fljótlega eða næsta vor verður bara að koma í ljós.  Ætla helst að reyna að semja við nágranna minn á neðri hæðinni um að fá að geyma hjólið í geymslunni undir tröppunum fram í mars/apríl.

Eftir vinnudaginn, klukkan fjögur, var auðvitað smá rigning.  Ég sá nú við því, var með þunna plastslá sem passar yfir mig og bakpokann.  Smeygði slánni yfir mig áður en ég setti á mig hjálminn og teymdi hjólið upp úr bílageymslu seðlabankans.  Þá var hætt að rigna og hann skvetti ekki aftur úr sér fyrr en ég var að koma að heimkeyrslunni heima.  Heima stoppaði ég ekki lengi við.  Hringdi í gömlu konuna sem var gift móðurömmu-bróður mínum og ég mátti koma strax.  Hún var búin að hell upp á kaffi þegar ég mætti hjá henni um fimm.  Stoppaði hjá henni í um klukkustund því hún átti svo von á vinkonu í mat.  Davíð Steinn sá um kvöldmatinn og svo komu þrír vinir þeirra bræðra til þeirra til að taka þátt í spilakvöldi.  Seinna um kvöldið horfðum við Oddur Smári á fyrsta þáttinn af nýrri seríu af "Criminal Minds" á RÚV.

2.10.14

Lánið uppgreitt

Í nóvember í fyrra fékk ég 3 millijónir að láni hjá LÍ 0111 til fimm ára til að geta borgað exið út úr íbúðinni.  Bað um að afborganir hæfust ekki fyrr en í janúar.  Í gær var afborgun af eftirstöðvum lánsins innan við 10þús. skuldfærð á mig og ég taldi mig svo borga  það upp þegar ég millifærði rúmlega 380 þús í gegnum flipann umframgreiðsla á lán í einkabankanum.  Í morgun kom reyndar í ljós að það vantaði innan við 100kr upp á en ég er búin að ganga frá því og lánið er "horfið" úr einkabankanum mínum. Víííí, duglega ég!  :-)

Fór á lánsbílnum til vinnu í gær.  Hafði ætlað mér að hætta aðeins fyrr og skreppa í bankann til að fá þjónustufulltrúa til að sjá um að ég greiddi rétta upphæð til að klára lánið.  Það varð hins vegar snemma ljóst að ég kæmist ekkert fyrr út úr húsi.  Það sem gekk ekki á.  Vinnudagurinn varð á köflum ansi skrautlegur en við náðum þó á endanum að klára allt daglegt fyrir klukkan fjögur.  Meira ætla ég samt ekki að tjá mig um þetta mál.

Á kóræfingu æfði ég aftur með sópran en núna vorum við þó þrjár á móti fjórum í alt.  Æfingin gekk alveg ágætlega og tíminn flaug hrikalega hratt.  Kom heim fyrir átta.  Oddur Smári var í leikhúsi á vegum skólans að horfa á Hamskiptin.  Ég horfði á Kiljuna og náði svo að slökkva á tölvunni rétt fyrir ellefu.  Þá las ég til miðnættis.

1.10.14

Þá er kominn október

Ég fór með strætó báðar leiðir (í og úr vinnu) í gær.  Vinnudagurinn var annasamur þótt allri framleiðslu væri lokið upp úr hálfeitt.  Þessa dagana er nefnilega verið að gera upp nýliðinn mánuð. Taka saman tölur og senda frá sér upplýsingar um þær tölur.  Um tvö kom viðgerðarmaður á svæðið en hans beið nokkuð langur listi yfir atrið sem þurfti að lagfæra.  Við skildum manninn eftir þegar við fórum heim um fjögur.

Þar sem Davíð Steinn var heimavið, veikur, í vikutíma varð hann að útvega sér læknisvottorð.  Ég millifærði á hann í gærmorgun og sagði honum að mæta á læknavaktina strax um fjögur síðdegis. Þegar ég kom heim klukkan að verða hálffimm fann ég strákinn steinsofandi og hann var auðvitað ekki búinn að fara á heilsugæslun.  En hann dreif sig skömmu síðar og það tók ekki langa tíma og var heldur ekki eins dýrt og ég hafði haldið.  Hinn strákurinn skrapp í heimsókn til pabba síns strax eftir skóla og kom heim um tíu svo við Davíð Steinn sátum ein að lifrarréttinum sem ég hafði í kvöldmatinn og þar að auki var afgangur til að taka með sér í vinnuna.