Ég fór fyrst framúr áður en klukkan var orðin hálfátta í gærmorgun. Skreið upp í aftur í smá stund en var klædd og komin á ról um átta. Setti í eina þvottavél, smurði slatta af flatkökum, færði inn gærdaginn, vafraði um á netinu og hengdi upp áður en ég skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar um ellefu. Frá henni fór ég í Bónus í Kringlunni. Lagði lánsbílnum réttu meginn en einni hæð neðar þannig að þegar ég var búin að versla út á KÓSÍ-kortið ýmislegt fyrir kaffihlaðborðið (svo sem gos, kaffi, kelinur, servíettur og efni í heita brauðrétti) rúntaði ég með fulla körfu yfir í hinn endann þar sem lyfturnar voru og svo alla leið til baka og út í bíl. Skrapp heim í um tvo tíma. Tvíburavinkona mín úr Rangárþingi, búsett hér á höfuðborgarsvæðinu í meira en tuttuguogfimm ár líkt og ég, hringdi en við ætluðum að hittast um fjögur. Við ákváðum að halda hittingnum til streitu en færðum tímann til rúmlega sex.
Rétt fyrir fjögur var ég mætt með Bónusvörurnar og flatkökufjallið í óháðu kirkjuna. Þangað mættum við alls fimm konur úr kórnum og voru tvær Önnum kafnar því við vorum þrjár Önnurnar. Á rétt rúmum klukkutíma undirbjuggum kaffisöluna eins og hægt var þannig að það eru komnir bollar og undirskálar á öll borð uppi og niðri og diskar og skeiðar á tilvonandi hlaðborð (uppi og niðri) og svo á bara eftir að stinga brauðréttunum í ofninn. Það kom reyndar í ljós að það vantaði aðeins meiri rifinn ost svo ég fór beint úr kirkjunni í Krónuna við Granda og keypti það sem vantaði.
Var mætt á Café Haítí um sex og vinkona mín kom skömmu síðar. Við pöntuðum okkur máltíð af matseðli, kaffi og eftirrétt og ég lét það eftir mér að splæsa á mig einu hvítvínsglasi. Svo spjölluðum við og göntuðumst fram eftir kvöldi. Vinkona mín var með sérstök spil með sér og bað hún mig tvisvar um að stokka og draga eitt spil og í bæði skiptin sagði hún VÁ því að því virðist er afar góð orka í kringum mig og það eru virkilega spennandi tímar framunda. Gaman að því. Vorum annars svo heppnar að frönsk stúlka kom og söng nokkur frönsk lög frá fjórða áratugnum við undirleiks íslensks ungs manns. Það var afar góð skemmtun. Stúlkan var með frábæra rödd og túlkun. Tíminn leið alltof hratt og allt í einu var klukkan orðin ellefu. Til að vera vel upplögð í dag ákvað ég að segja þetta gott að sinni en við tókum loforð af hvor annari að hittast fljótlega aftur.