Þar sem ég þurfti nauðsynlega að reka eitt til tvö erindi strax eftir vinnu og vera mætt á ákveðinn stað um sex síðdegis fór ég á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun. Ég sá um bókhaldið og afleysingar í mat og kaffi. Einnig sá ég um að ljúka við að skanna inn myndir og undirskriftir. Dagurinn leið afar fljótt og var gott að hugsa til þess að það væri helgi framundan. Ákvað að bíða með að þvo lánsbílinn og brunaði beint í bókasafnið í Kringlunni þar sem ég skilaði inn fimm bókum. Hljóp svo út með tóman poka. Er með átta bækur af safninu, lauk við eina þeirra seint í gærkvöldi og byrjaði aðeins að glugga í þá bók sem þarf að skila næsta föstudag. Einnig er ég með tvær einkabækur ólesnar. Aðra úr bókaklúbbnum og hin er önnur bókanna sem ég gaf mér í jólagjöf.
Kom heim um hálffimm og stoppaði við í rúmlega klukkustund. Snurfusaði mig aðeins til áður en ég lagði í hann. Lagði lánsbílnum við Baldursgötuna og labbaði svo að Kalda-Bar þar sem ég hitti kórstjórann og megnið af kórfélögunum. Mættum alls tólf þangað en þegar við vorum komin sjö var Bjarni samt aftastur í stafrófinu. Af okkur hinum sex vorum við þrjár nöfnur, Arndís, Arnlaugur og Árni. Svo bættust, Ella, Inga Helga, Majrika og Valgerður í hópinn. Við sátum úti í bakgarði mest af tímanum en Árni kórstjóri skrapp inn og spilaði nokkur lög á píanó staðarins ásamt Ólafi Stolzenwald sem spilaði með á bassa. Um hálfátta röltum við yfir á Gallerý Holt þar sem við hittum þrjú til úr kórnum, Kristnana tvo og Gullu. Á holtinu fengum við góða þjónustu og gott að borða. Ég, gjaldkeri kórsins, borgaði fyrir matinn, en svo borguðum við drykkina hvert og eitt. Ég fékk mér eitt hvítvínsglas með kjötréttinum sem ég hafði valið fyrirfram, en við borðið mitt voru tvö sem fengu sér rauðvínsglas með fiskréttinum sínum. Þetta var afar skemmtileg og notaleg kvöldstund í góðum hópi. Kvöldið leið auðvitað alltof fljótt.