Ég dreif mig á fætur um níu í gærmorgun, aðallega til að vafra aðeins um á netinu og spila uppáhalds leikina. Hringdi í tvíburahálfsystur mína rétt fyrir hálftólf til að athuga hvenær hún myndi leggja af stað. Í kjölfarið skipti ég yfir í skárri leppana, varalitaði mig og beið svo bara eftir essemmessi. Bankaði upp á hjá Oddi til að láta hann vita að ég væri á förum og kæmi ekki aftur fyrr en einhvern tímann um kvöldið. Sonja náði í mig rúmlega tólf og vorum við komnar að Fjölbrautaskóla Suðurlands klukkan eitt. Búið var að opna húsið og þar sem upphitun kórsins var ekki fyrr en hálftíma síðar var okkur bent á að kíkja í stofurnar á annarri hæð. Í hverri stofu var að finna eitthvað efni með Þór heitnum Vigfússyni sem tók við skólameistarastöðu við skólans á þriðja starfsári hans. Þarna kenndi ýmissa grasa (útvarpsviðtöl, útskrift, 25 ára útskriftar afmæli hans sjálfs og fleira og fleira) og var mjög fróðlegt að skoða þetta auk þess sem það var svo notalegt að heyra röddina hans aftur. Um hálftvö fórum við stöllur upp í stofu 312, frönsku stofuna, þar sem kórinn hitaði upp. Um það leyti sem við vorum að byrja birtust Vignir Stefánsson og Kristjana Skúladóttir að kanna hvenær þau kæmust að í upphitun en hún söng þrjú revíulög á þýsku, frá tímabilinu sem Þór var í námi úti, framarlega í dagskránni. Við gripum auðvitað Vigni með í hópinn en hann var í kórnum á sínum tíma og kunni að sjálfsögðu þessi þrjú lög. Rétt fyrir tvö stilltum við okkur upp á ganginum niðri á fyrstu hæð og þegar Móri hringdi bjöllunni gaf Jón Ingi okkur tóninn og við gengum gegnum miðjan salin og upp á svið syngjandi Cum de core. Næst sungum við Smávinir fagrir og svo enduðum við á Kalli olle kukku lalle með undirspili bæði einraddað og í röddum.
Við Sonja og margir aðrir úr kórnum settumst svo niður í sal (þegar við vorum búin að afhenda Jóni Inga blómvönd og klappa á táknmáli) og fylgdumst áfram með dagskránni. Ekki voru allir allan tíman en við vorum þó nokkur fyrir utan allt hitt fólkið sem mætti. Dagskráin var afar fjölbreytt og skemmtilega og mjög svo í anda Þórs. Ég hefði alls ekki viljað missa af þessu en finnst of langt mál að segja frá þessu öllu fyrir utan það að upplifunin var alveg einstök.
Klukkan sex vorum við tvíburahálfsysturnar komnar í Fossheiðina til foreldra hennar. Þar beið okkar veislumatur. Nú vorum við búnar að syngja svo það var engin afsökun að borða ekki vel. Fengum lambalæri með alls kyns tilheyrandi meðlæti og jarðaberjabúðing með súkkulaðiflögum og þeyttum rjóma í eftirrétt. Og svo var okkur færður kaffibolli með fréttunum. Þetta var veisla og ég át algerlega yfir mig. Sem betur fer vorum við ekkert að drífa okkur heim. Horfðum fyrst á fréttir og Landann áður en við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum.